Greinar

Viðskipti í austri og vestri

Greinar

Fjármálakreppa Suðaustur-Asíu mun hafa meiri áhrif á íslenzkan þjóðarhag en stjórnendur útflutningsfyrirtækja hafa hingað til viljað vera láta. Gengi gjaldmiðils þessara viðskipta, japanska jensins, lækkaði um fimmtung á síðasta ári og mun áfram falla á þessu ári.

Sjávarvara okkar er yfirleitt seld fyrir jen til Japans. Minna fæst nú fyrir jenin og enn minna mun fást á næstunni. Þar sem Japansmarkaður er um tólf prósent af utanríkisviðskiptum okkar, veldur gengislækkun jensins rúmlega 2% verri viðskiptakjörum okkar í heild.

Japanar sitja um þessar mundir í tvöfaldri súpu. Þeir hafa í fyrsta lagi lánað nágrönnum sínum meira fé en góðu hófi gegnir. Mikið af því fer í súginn, þegar skuldunautarnir verða gjaldþrota eða verða að fá afslátt af greiðsluskuldbindingum til að komast hjá gjaldþroti.

Í öðru lagi þurfa Japanar að keppa við þjóðir, þar sem gengi gjaldmiðilsins hefur lækkað enn meira. Þær þjóðir geta því undirboðið Japana á mörkuðum og náð frá þeim viðskiptum í skjóli gengislækkana. Þær gera þjóðir samkeppnishæfari í viðskiptum á kostnað lífskjaranna.

Ef Japanar lækka verð í útflutningi til að mæta samkeppninni, munum við sem viðskiptamenn njóta þess. Það kemur að hluta á móti verðlækkun íslenzkra útflutningsafurða, en vegur léttar, þar sem innflutningur þaðan er aðeins hálfdrættingur á við útflutninginn.

Japanar eru rík þjóð, sem stendur traustum fótum. Vandræði þeirra um þessar mundir stafa fyrst og fremst af enn meiri vandræðum nágrannaþjóðanna. Þar hafa valdhafar hagað sér mjög ógætilega, með stuðningi lánardrottna, einkum japanskra og vestrænna.

Framleidd hafði verið ímynd austrænna gilda, sem væru betri en vestræn. Þau væru arfur frá Konfúsíusi. Þau fælust meðal annars í, að undirmenn hlýddu yfirboðurum sínum skilyrðislaust. Einkum fælust þau í, að menn væri ekki borgarar, heldur þegnar yfirvalda.

Erlendir fjárfestar fögnuðu þessum gildum, enda telja þeir harðstjórn yfirleitt til fyrirmyndar. Þar sem almenningi sé ekki hleypt upp á dekk sé gott að ávaxta fé. Þeir eru svo skammsýnir, að þeir átta sig ekki á pólitískri eða peningalegri sprengihættu af harðstjórn.

Árum saman hafa fjölmiðlar þó upplýst, að ekki hefur allt verið með felldu í hinum svonefndu tígrisríkjum Suðaustur-Asíu. Í Suður-Kóreu, Indónesíu, Malasíu og raunar víðar hefur stóru og smáu verið stjórnað af kolkröbbum risafyrirtækja og stjórnmálaafla.

Samkrull stjórnmála, fjármála og efnahagsmála leiddi til niðurstöðu, sem ekki hefði orðið við vestræna valddreifingu, þar sem sérhvert afl á sér mótvægi í öðru afli. Í tígrisríkjum austursins lagðist allt afl á sömu sveifina. Þegar eitt spil brást, hrundi öll spilaborgin.

Indónesía er í rauninni orðið gjaldþrota ríki, sem haldið er uppi með sjónhverfingum fjölþjóðabanka. Suður-Kórea mun væntanlega finna botninn í feninu og geta klórað í bakkann. Borgríkin Singapúr og Hong Kong munu láta verulega á sjá, þegar líður fram á þetta ár.

Einna mestu máli skiptir, að Kína mun bíða hnekki í þessum sviptingum. Það er einkennisland hinna austrænu gilda, þar sem menn hlýða yfirvöldum og allt vald er hjá kolkröbbunum. Þar hefur gífurleg fjárfesting farið forgörðum, en fjárfestar reynt að halda því leyndu.

Meira en tveir þriðju hlutar viðskiptatekna okkar koma frá Vestur-Evrópu. Kreppa Suðaustur-Asíu mun beina sjónum okkar enn betur að nágrönnum okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðji heimurinn í Skorradal

Greinar

Undirbúningur sameiningarkosninga í Skorradal felst í tilraunum til að afskræma lýðræðið með því að beita brögðum til að fá þá niðurstöðu, sem menn vilja. Í stað þess að mæta örlögunum í kosningum er með svindlbraski reynt að framkalla niðurstöðuna fyrirfram.

Þannig er sums staðar farið að í þriðja heiminum, þar sem valdhafar þurfa vegna samskipta við Vesturlönd að hafa lýðræðisleg form á yfirborðinu, en beita ýmsum brögðum til að koma í veg fyrir, að úrslit kosninga geti velt þeim úr sessi eða hamið stjórnarhætti þeirra.

Fremstur í flokki fer oddviti hreppsnefndar, sem vill hindra, að Skorradalur verði sameinaður öðrum sveitarfélögum í nágrenninu, þótt aðstæður hafi myndazt til sjálfvirkrar sameiningar, þar sem íbúafjöldi hreppsins var kominn niður fyrir fimmtíu manns.

Samkvæmt lögum geta fámennari hreppar ekki staðizt, því að hreppar þurfa að hafa fjárhagslega burði til að sinna miklum og vaxandi skyldum, sem lög setja þeim á herðar. Aukin verkefna hreppa hafa að undaförnu leitt til skriðu sameiningar víða um land.

Oddvitinn ráðsnjalli sá, að tvennt þurfti til að koma í veg fyrir sameiningu Skorradals við umheiminn. Annars vegar varð að fjölga íbúum hans upp í fimmtíu, svo að kosning gæti farið fram. Hins vegar varð viðbótin að hafa rétta skoðun, svo að sameining yrði felld.

Í þessu skyni var íbúum hreppsins fjölgað um tólf, einkum með því að skrá utansveitarfólk á heimili oddvitans á Grund og á eyðibýlið Litlu-Drageyri. Allt býr þetta fólk annars staðar og einn raunar í útlöndum. Meðal nýju íbúanna eru tveir tengdasynir oddvitans.

Stuðningsmenn sameiningar reyndu að beita annars konar bolabrögðum til að hindra, að tólf utansveitarmenn gætu ráðið örlögum fimmtíu manna sveitarfélags. Sjö manns fluttu búsetu sína á pappírnum úr hreppnum til að koma íbúatölunni niður fyrir fimmtíu.

Þessi gagnsókn misheppnaðist, því að heildarniðurstaðan varð, að íbúum hreppsins fjölgaði úr 47 upp í 52. Þar með verður að óbreyttu kosið um sameiningu og á þann hátt, að stuðningsmönnum sameiningar hefur fækkað um sjö og andstæðingum fjölgað um tólf.

Miðað við fólksfjölda jafngildir þetta því, að 14.000 stuðningsmenn annars framboðslistans í Reykjavík væru fluttir þaðan og 24.000 utanbæjar-stuðningsmenn hins listans fluttir þangað í staðinn, hvort tveggja til þess að hindra framgang lýðræðislegra leikreglna.

“Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað, þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er, þegar hann er ekki fjarverandi vegna orlofs, vinnuferða eða annarra hliðstæðra atvika.”

Samkvæmt þessum leikreglum er ekki gert ráð fyrir, að sumarbústaður, eyðibýli eða bústaður ættingja geti talizt heimili manna, ef þeir eiga aðalheimili sitt í öðru sveitarfélagi. Fólksflutningar á pappírnum í og úr Skorradal stríða gegn lagaákvæðum um búsetu.

Ekki skiptir máli, hvorum aðila vegnaði betur í braskinu. Aðalatriðið er, að svindlað var á leikreglum til að fá niðurstöðu, sem verður önnur en yrði, ef leikreglum hefði verið fylgt. Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort lögleysan í Skorradal nær fram að ganga.

Skorradælsk vinnubrögð eru algeng í eymdarríkjum harðstjóra þriðja heimsins, en hafa hingað til verið nánast óþekkt fyrirbæri á Íslandi, sem betur fer.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitíkus gerist verkfræðingur

Greinar

Hefð hefur myndazt á mörkum pólitískrar spillingar í forstjóraráðningum ríkisvaldsins. Afdankaðir ráðherrar eru einkum taldir eiga rétt á embættum utanríkisþjónustunnar og bankakerfisins, svo og á nokkrum stofnunum á borð við Tryggingastofnun og Húsnæðisstofnun.

Tæknistofnanir hafa jafnan staðið utan við spillingarsviðið. Til skamms tíma hefur verið borin virðing fyrir verkfræði og tækni. Þannig hafa forstjórar Vegagerðarinnar, Orkustofnunar, Rafmagnsveitna ríkisins, símans og Flugmálastofnunar verið verkfræðingar.

Landsvirkjun er ein þeirra stofnana, sem jafnan hefur haft tæknimann á oddinum. Þótt pólitísk spilling hafi áratugum saman verið mikil á Íslandi og meiri en í nálægum löndum, hafa stjórnmálamenn hingað til ekki rennt gírugu auga til forstjórastóls Landsvirkjunar.

Nú hefur orðið á þessu breyting. Núverandi valdhafar í þjóðfélaginu eru að ráðgera að víkka spillingarrétt sinn, þannig að hann nái til tæknilegrar stofnunar á borð við Landsvirkjun. Þegar sá ís hefur verið brotinn, munu aðrar tæknistofnanir senn fylgja í kjölfarið.

Ástæðan er stundarhagur forsætisráðherra af því að losna við afdankaðan fjármálaráðherra, sem kemur ríkisstjórninni oft í vandræði, af því að hann kemur fram eins og eintrjáningur. Landsvirkjun er ætlað að verða fórnardýr þessara pólitísku hagsmuna.

Ekkert hefur komið fram, sem bendir til, að fjármálaráðherra hafi neitt til brunns að bera, sem hæfi forstjóra Landsvirkjunar. Hann er bara gamall jámaður, sem hefur haft pólitík að ævistarfi og gætt sín á að stíga ekki á tær manna í þingflokki sjálfstæðismanna.

Slíkir menn eldast illa sem ráðherrar og verða gjarna sendiherrar eða bankastjórar, sennilega af því að ekki hefur verið ætlazt til neinnar hæfni í þessi störf. Við sjáum það að minnsta kosti á bönkunum, að afdankaðir stjórnmálamenn eru skaðlegir í fjármálum.

Heppilegast væri að losna við fjármálaráðherra með því að gera hann að sendiherra. Það er innan ramma hefðbundinnar spillingar. En hann er því miður lögfræðingur, sem kann lítið í erlendum tungumálum og hefur ekki reynzt sérlega sleipur í mannasiðum.

Af einhverjum ástæðum er ekki talið koma til greina að gera núverandi fjármálaráðherra að bankastjóra. Hafa þó sumir mestu furðufuglar stjórnmálanna fengið að verða bankastjórar og leika lausum hala, með skelfilegum afleiðingum fyrir sparifjáreigendur.

Væntanlega verður haldið fram við ráðningu afdankaðs stjórnmálamanns í embætti forstjóra Landsvirkjunar, að pólitísk reynsla sé starfsreynsla og menn eigi ekki að gjalda þess að hafa verið stjórnmálamenn. Þetta er gamalt viðkvæði til varnar pólitískri spillingu.

Menn gjalda þess nánast aldrei á Íslandi að vera stjórnmálamenn, frændur eða vinir. Menn gjalda þess hins vegar nánast alltaf að vera ekki stjórnmálamenn, frændur eða vinir. Þess vegna munu verkfræðingar gjalda, þegar Landsvirkjun fær nýjan forstjóra.

Í nágrannalöndum okkar er sífellt verið að reyna að draga úr spillingu, meðal annars í embættaveitingum. Á sama tíma er forsætisráðherra Íslands átölulaust að reyna að gera afdankaðan stjórnmálamann að óhæfum forstjóra í einni helztu tæknistofnun landsins.

Hér á landi er verið að ráðgera að víkka spillinguna, leyfa henni að leika lausum hala á spánnýju sviði. Það mun því miður verða talið hafa fordæmisgildi.

Jónas Kristjánsson

DV

Tunga, saga og siðir

Greinar

Íslendingar eru fjölmennari en Aþeningar og Feneyingar voru á stórveldistíma þeirra. Aþeningar voru flestir um 200.000, að þrælum meðtöldum, og Feneyingar voru rúmlega 100.000 manns. Ríki þurfa ekki að vera fjölmenn til að skilja eftir sig djúp spor í sögunni.

Í fyrsta tölublaði ársins vekur tímaritið Economist athygli á velgengni smáríkja á síðari hluta aldarinnar. Greinin hefst á lýsingu á Íslandi sem fyrirmyndardæmi um slíkt ríki. Tímaritið leitar svara við spurningunni, hvort betra sé að búa í litlu ríki en stóru.

Ríkjum heims hefur á hálfri öld fjölgað úr 74 í 193. Af þessum ríkjum hafa 35 færri íbúa en hálfa milljón. Fjölgunin stafar einkum af frelsun nýlendna og hruni Sovétríkjanna. Þá hafa þjóðir innan stórra ríkja fengið meiri sjálfstjórn, svo sem Katalúnar og Baskar á Spáni.

Þessi þróun stríðir gegn hagkvæmni stærðarinnar. Stór heimamarkaður, stórt tollfrelsissvæði og stórt myntsvæði eru allt atriði, sem stuðla að efnahagslegum framförum. Stórþjóðir Evrópu telja heimamarkaði sína ekki nægja og safnast því saman í Evrópusambandi.

Stórþjóðir Evrópu tefla fram Evrópusambandi með stórum heimamarkaði, stóru tollfrelsissvæði og innan skamms einnig stóru myntsvæði til að geta haldið til jafns við Bandaríkjamenn og Japani í samkeppni þeirra um aukna framleiðni og seljanlegri vöru og þjónustu.

Smáþjóðirnar njóta verzlunarsamstarfs raunar enn frekar en stórþjóðirnar. Með aðgangi að samtökum af tagi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins ná smáþjóðir kostum stærðarinnar og varðveita eigi að síður mikið af kostum smæðarinnar.

Frjáls verzlun er raunar hornsteinn að velgengni smáþjóða. Þær geta sérhæft sig eins og Íslendingar hafa gert í fiskveiðum og greinum tengdum þeim. Þannig hefur sjávarútvegur orðið arðbær atvinnuvegur á Íslandi, þótt hann sé það ekki í stóru landi á borð við Kanada.

Sérhæfing smáþjóða felur um leið í sér ýmsar hættur. Þær verða viðkvæmari fyrir sveiflum, sem starfa af breyttum aðstæðum. Sjávarafli getur hrunið og innkaupavenjur útlendinga geta breytzt. Mengun í höfum getur gert viðskiptaþjóðir afhuga fiskneyzlu.

Miklu máli skiptir fyrir smáþjóð að sérhæfa sig í atvinnuvegum, sem eru á uppleið í heiminum, en ekki í samdráttargreinum. Einnig skiptir miklu að sérhæfa sig í atvinnuvegum, þar sem fjarlægðarkostnaður er lítill. Tölvusamskipti eru grein, sem sameinar þetta tvennt.

Smáríki eru dýr í rekstri. Kostnaður yfirstjórnar dreifist á færri skattgreiðendur. Kunningskapur valdamanna getur framleitt kolkrabba, sem teygir arma sína um mörg valdasvið og verður dýr í rekstri. Kostnaður við sérstaka þjóðmenningu verður líka meiri.

Gizkað hefur verið á, að sérstakur umframkostnaður Íslendinga af eigin tungumáli sé um 3% af þjóðarframleiðslunni. Á móti kemur, að ýmsar stórþjóðir verja mun meiri hluta sinnar þjóðarframleiðslu til hermála. Rekstur tungumáls er okkar herkostnaður sem þjóðar.

Dýrasti vandi okkar sem smáþjóðar er kunningskapur manna, sem veldur því, að mál eru oft ekki afgreidd málefnalega, heldur persónulega. Þetta vandamál hefur mildazt, síðan við fórum að þýða siðareglur Evrópusambandsins á færibandi til notkunar innanlands.

Aðalkostur Íslands sem ríkiseiningar er svo sá, að það er byggt þjóð, sem talar sömu tungu og á sér sömu sögu og siði, sem standa undir gagnkvæmu trausti fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Seintekinn sóðagróði

Greinar

Stjórnmálamenn og fréttamenn hafa rætt, að hversu miklu leyti tekið hafi verið tillit til “sjónarmiða Íslands” á loftmengunarráðstefnunni í Kyoto. Eiga þeir þá við, að hve miklu leyti samþykkt hafi verið, að Íslendingar fái undanþágu til að auka mengun andrúmslofts síns.

Sérstakt hugarfar þarf til að líta svo á, að það séu “sjónarmið Íslands”, að loftmengun fái að aukast meira hér á landi en annars staðar, samkvæmt sérstakri undanþágu frá Kyoto. Þetta er auðvitað hugarfar sóðans, hvort sem hann svíður undan nafngiftinni eða ekki.

Sóðarnir verja mengunina með því að segja hana hagkvæma. Með sömu rökum má segja, að ekki taki því að þvo upp heima hjá sér, af því að leirtauið verði strax skítugt aftur. Það sé óarðbær vinna að vaska upp og að það séu “sjónarmið Íslands”, að ekki sé vaskað upp.

Sóðagróðinn verður hins vegar seintekinn. Ljóst er, að reikningsdæmið er flóknara en sóðarnir vilja vera láta. Á vogarskálarnar þarf að leggja ýmsan kostnað, sem fylgir hinum séríslenzka sóðaskap, sem nú hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu á fjölþjóðaþingi í Kyoto.

Samkvæmt niðurstöðum ráðstefnunnar getur loftmengunarréttur gengið kaupum og sölum. Þess vegna mun skapast alþjóðlegt markaðsverð á rétti til loftmengunar. Á þeim forsendum er unnt að verðleggja kostnað við loftmengun frá fyrirhugaðri stóriðju á Íslandi.

Þar með hefur fengist alþjóðlegur mælikvarði á kostnað við loftmengun, sem setja þarf inn í kostnaðardæmi stóriðjunnar, jafnvel þótt þjóðin fái frían aðgang að vondu útblásturslofti upp að vissu marki, í samræmi við gengi “sjónarmiða Íslands” í sóðaskap.

Við sleppum ekki frá slíkum kostnaðarreikningi, þótt sú leið verði valin að hafna stóriðju og leggja í þess stað rafmagnskapal til útlanda. Sjónmengun og lífsgæðatap af völdum hálendisrasks orkuvera er líka kostnaður, þótt erfiðara sé að meta upp á krónu, hver hann sé.

Komið hefur fram, að mannvirki í annars ósnortnu víðerni, fela í sér lífsgæðatap þjóðarinnar og minni ferðamannatekjur en annars yrðu. Eðlilegt er, að þetta tjón af völdum orkuvera verði metið til fjár og sett inn í kostnaðardæmi fyrirhugaðra orkuvera.

Komið hefur fram erlendis, að kostnaði ríkja af völdum mengunarvarna fylgja líka hreinar tekjur. Bezta dæmið um það er Þýzkaland, sem hefur tekið forustu í umhverfismálum og selur núna búnað og þekkingu í umhverfismálum til útlanda fyrir háar fjárhæðir.

Þetta getum við líka gert. Ef við tökum til dæmis forustu í notkun vetnis í samgöngutækjum, höfum við ekki bara kostnað af framkvæmdinni, heldur einnig tekjur af sölu búnaðar og þekkingar á þessu sviði til annarra ríkja, sem skemmra verða á veg komin.

Þannig koma tekjupóstar á móti kostnaðarpóstum umhverfisverndar, ef rétt er á málum haldið. Það er því engan veginn hreint tap af hreinlæti eins og ætla mætti af tali og skrifum stjórnmálamanna og fréttamanna, sem hampa sóðaskap sem “sjónarmiðum Íslands”.

Fyrsta skrefið í rétta átt er, að menn svíði undan sannleikanum. Þegar ráðstefnan í Kyoto og niðurstöður hennar eru orðnar tilefni langra kafla í áramótagreinum talsmanna séríslenzks réttar til sóðaskapar, er ljóst, að þáttaskil hafa orðið í stöðu umhverfismála í þjóðlífinu.

Hér eftir verður ekki unnt að tefla fram fullyrðingum um arðsemi orkuvera, stóriðju, fiskiskipa og samgöngutækja, án þess að sóðakostnaðurinn sé talinn með.

Jónas Kristjánsson

DV

Það kostar klof að ríða röftum

Greinar

Nokkur atriði benda til, að Bandaríkin valdi ekki forustuhlutverki sínu sem eina heimsveldið eftir fall Sovétríkjanna. Í vaxandi mæli eru Bandaríkjamenn farnir að draga sig inn í skel og láta öðrum og einbeittari aðilum eftir leikvelli og vígvelli veraldarsögunnar.

Þar með eru Bandaríkin að hverfa aftur til fyrri sjónarmiða. Þau voru einangrunarsinnuð, áður en þau voru dregin út í aðild að tveimur heimsstyrjöldum á þessari öld. Áður töldu menn að þetta nýja himnaríki á jörð ætti ekki að sinna erjum gamla heimsins.

Bandarískir fjölmiðlar endurspegla áhugaleysi almennings á erlendum málum og bandarískir þingmenn telja sér vænlegt til framdráttar í kosningum að reka einangrunarstefnu. Með sífelldum hótunum hafa þeir kjarklítinn forseta meira eða minna í gíslingu.

Nú er svo komið, að Bandaríkin neita beint eða óbeint að taka þátt í margvíslegu samstarfi ríkja, með tilvísun til þess, að slíkt fáist ekki samþykkt í þinginu. Eða þá að stjórnarerindrekar reyna að hafa sitt fram á alþjóðavettvangi með því að nota þingið sem Grýlu.

Bandaríkin menga andrúmsloftið tvöfalt meira á hvern íbúa landsins en Evrópumenn gera. Samt vildu sendimenn Bandaríkjanna á mengunarfundinum í Kyoto ekki ganga eins langt og Evrópumenn í aðgerðum gegn mengun og fengu dregið úr markmiðunum.

Það fylgir sögunni, að niðurstaða fundarins í Kyoto verði ekki lögð fyrir bandaríska þingið, því að þar verði hún felld. Þess í stað ætlar forsetinn að setja málið í salt og bíða betri tíma með blóm í haga. Þetta er skólabókardæmi um kjarkleysi framkvæmdavalds.

Bandaríkin greiða ekki skuldir sínar við Sameinuðu þjóðirnar, en vilja samt nota samtökin sér til framdráttar gegn einkaóvinum sínum á borð við Persa. Aftur er vísað til bandaríska þingsins, sem gerir þó ekki annað en að meta, hvað sé hægt að bjóða kjósendum.

Bandaríkjastjórn neitar að taka meira en málamyndaþátt í kostnaði við stækkun Atlantshafsbandalagsins og vísar til þess, að bandaríska þingið muni ekki telja slíkt vera boðlegt kjósendum. Evrópuríkin verði að fara að sjá meira um sig sjálf, sem vel má satt vera.

Ef bandarískir kjósendur láta ekki bjóða sér að taka til jafns við aðra þátt í kostnaði við rekstur Sameinuðu þjóðanna, við minnkun á mengun andrúmsloftsins og við stækkun Atlantshafsbandalagsins, er forustuhlutverk Bandaríkjanna á fjölþjóðavettvangi að molna.

Bandaríkin eru um það bil að koma sér út úr húsi hjá samanlögðum ríkjum Íslams. Ráðstefna á vegum Bandaríkjanna um efnahagsmál Miðausturlanda var hunzuð af fyrrverandi bandamönnum þeirra úr Persaflóastríðinu, svo sem Egyptalandi og Marokkó.

Þetta stafar af innanríkismálum vestra. Þeirra vegna draga Bandaríkin taum Ísraels gegn Palestínu. Öflugur þrýstihópur í Bandaríkjunum ræður stefnunni, þótt það geri þeim ókleift að hafa hemil á stjórn Ísraels og skaði þannig heimsveldishagsmuni Bandaríkjanna.

Í hernaði hafa Bandaríkin átt erfitt síðustu áratugina. Þau flúðu af hólmi í Víetnam, Líbanon og Sómalíu. Og yfirburðir þeirra í hernaðartækni munu mega sín minna, þegar kjarna- og efnavopn dreifast svo mjög um heiminn, að þau komast í hendur skæruliða.

Þegar hverfulir kjósendur þola ekki að sjá hermenn sína falla á skjánum, er ríkisvald þeirra að molna sem heimsveldi. Það kostar nefnilega klof að ríða röftum.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópa sundrast

Greinar

Lokið er skammvinnu tímabili uppstokkunar eftir fráfall Sovétríkjanna. Evrópa er að skiptast á nýjan leik og á þann hátt, að kaþólsk ríki fá inngöngu í vestrænt samfélag, en orþódox og íslömsk ríki fá það ekki. Austurmæri Habsborgararíkisins hafa verið endurvakin.

Kaþólsku löndin Pólland, Tékkland og Ungverjaland hafa fengið aðild að Atlantshafsbandalaginu. Sömu lönd og Slóvenía og Eistland að auki hafa komizt í forgangsröð aðildar að Evrópusambandinu. Hins vegar verður Tyrkland áfram að vera úti í kuldanum.

Margir telja, að Evrópa sé núna loksins að skiptast á eðlilegan hátt, milli fornra menningarheima. Vestan hins nýja járntjalds verði arftakaríki Hins heilaga rómverska keisaradæmis, en austan þess verði arftakaríki Miklagarðs, heimkynni Tyrkja og Rússa.

Sagnfræðingar draga núna forna línu langsum eftir Evrópu, þar sem Eystrasaltsríkin lenda vestan við, en austan við Úkraína mestöll, Hvíta-Rússland, Rúmenía, Búlgaría, Serbía, Svartfjallaland, Makedónía og raunar Grikkland líka eins og Tyrkland, Albanía og Bosnía.

Þær raddir eru farnar að heyrast, að ekki sé aðeins þátttaka Tyrkja í Atlantshafsbandalaginu sagnfræðileg tímaskekkja, heldur sé þátttaka Grikkja í Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu það einnig. Þessi frávik séu úreltur arfur frá dögum kalda stríðsins.

Minnt er á, að Grikkir séu yfirleitt til vandræða í Evrópusambandinu, sendi þangað gagnslausa forstjóra og afleita fundarstjóra, en séu harðdrægir við að skafa upp úr gullkistunum. Ennfremur er minnt á endalausar erjur Grikkja og Tyrkja, sem varði vestrið litlu.

Tyrkir benda á þessa skiptingu Evrópu. Þeir segjast vera úti í kuldanum, af því að þeir séu íslömsk þjóð. Það sé eina skýringin á því, hvers vegna þeir séu látnir híma í biðsölum Evrópusambandsins, en fram fyrir séu tekin kaþólsk ríki, sem eru nýkomin í biðröðina.

Evrópusambandið bendir hins vegar á tregðu Tyrkja við að bæta mannréttindi og koma málum Kúrda í mannsæmandi horf. Meðan enginn bati verði á þessum tveimur sviðum sé þess ekki að vænta, að Tyrkland verði tekið í réttlætissamfélag Vestur-Evrópu.

Sannleikurinn er vafalaust miðja vega milli þessara sjónarmiða. Ekki er umdeilt, að Tyrkir hafa látið undir höfuð leggjast að laga til hjá sér. Það er um leið þægileg afsökun fyrir að fresta endalaust að taka afstöðu til óska þeirra um að komast í fínimannsklúbbinn.

Stríðið í arfaríkjum Júgóslavíu vakti minningu um forna skiptingu Evrópu. Hinir orþódoxu Serbar nutu stjórnmálastuðnings Rússa og viðskiptastuðnings Grikkja, en hinir kaþólsku Króatar nutu stuðnings Ítala, Austurríkismanna og Suður-Þjóðverja.

Bosnía hefur reynzt vera skurðpunktur þriggja menningarheima. Þar mættust íslam, austurkristni og vesturkristni. Stuðningsríki málsaðila skiptust eftir hreinum trúarbragðalínum, að öðru leyti en því, að múslímar nutu að nokkru réttlætishneigðar Vesturlanda.

Þegar íslenzkur utanríkisráðherra segir skiptingu Evrópu heyra sögunni til, og íslenzkur leiðarahöfundur segir Evrópu vera að sameinast, tala þeir þvert gegn augljósum staðreyndum. Evrópa er því miður að frjósa að nýju í fornar fylkingar eftir skammvinna hláku.

Ný lína hefur verið dregin suður eftir Evrópu nokkru austar en gamla járntjaldið. Stjórnmálaþróun ársins 1997 bendir til, að nýja járntjaldið sé að sundra Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir láta reka á hafi fortíðar

Greinar

Um þessar mundir fer saman óvenjulega mikill fjöldi stórmála, sem bíður pólitískrar afgreiðslu, og óvenjulega lítill áhugi meðal almennings á stjórnmálum. Þess vegna komast fulltrúar okkar í þjóðmálunum hjá því að skera á hnútinn í þeim málum, sem mestu skipta.

Sex mál ber einna hæst í þessum flokki stórmála. Það eru framtíð stóriðju, eignarréttur útgerðarfélaga á auðlindum sjávar, aðild landsins að Evrópu, rekstur landbúnaðar sem velferðarkerfis, bandvídd og -öryggi í tölvuviðskiptum og staða ríkisbúskaparins í góðæri.

Ríkisstjórnin leggur meiri áherzlu á stóriðju en aðrar atvinnugreinar, þótt hún hafi lítil margfeldisáhrif í fullvinnslu afurða sinna og veiti fremur litla atvinnu, þegar búið er að reisa hana. Ekki er enn byrjað að meta til fjár mengunarþátt hvers stóriðjuvers.

Ríkisstjórnin vill, að útgerðarfélög fái áfram að kaupa og selja auðlindir hafsins eins og þau eigi þær, þótt ríkisvaldið telji sig eiga þær og hafi framleitt verðmæti þeirra með því að skammta aðgang að þeim. Kvótakaup eru núna ekki léttari byrði en uppboð kvóta yrðu.

Ríkisstjórnin heldur fast við, að ekki sé til umræðu, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu um fyrirsjáanlega framtíð. Samt er starfsfólk ráðuneytanna önnum kafið við að þýða og gefa út evrópskar reglugerðir. Þetta er aðild að öllu nema ákvörðunum sambandsins.

Ríkisstjórnin heldur óbreyttri stefnu í landbúnaði, sem felur í sér, að greinin er ekki talin atvinnuvegur heldur hluti velferðarkerfisins. Á skömmum tíma hefur verið sóað meira en milljarði króna í vonlausar tilraunir til að selja óseljanlegar búvörur til útlanda.

Ríkisstjórnin hefur hamlað eðlilegum vexti tölvuiðnaðar og tölvuviðskipta með því að sjá ekki um, að bandvídd og -öryggi í tölvuviðskiptum milli landa þyldi álagið á hverjum tíma. Af þessum völdum hafa tölvufyrirtæki orðið að flytja hluta rekstrarins til útlanda.

Ríkisstjórn hefur ekki fundið nýtt jafnvægi milli greiðslugetu sameiginlegra sjóða annars vegar og meintra sameiginlegra þarfa hins vegar. Til dæmis er með harmkvælum verið að reyna að reka skóla og sjúkrahús á forsendum, sem ekki standast aðstæður.

Ekkert er hægt að fullyrða um, hvort núverandi stjórnarandstaða hefði tekið eða mundi taka betur á þessum stórmálum. Því miður bendir fátt til að neitt ofangreindra mála væri í betri stöðu, ef stjórnarmynstur hefði verið með öðrum hætti á kjörtímabilinu.

Sameiginlegt einkenni á meðferð ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar á brýnustu hagsmunamálum þjóðarinnar er, að látið er reka á hafi fortíðar. Reynt er að varðveita hið liðna og fresta því að láta breyttar aðstæður knýja sig til að taka nýjar ákvarðanir.

Þjóðin gerir sig í stórum dráttum ánægða með þetta. Í skoðanakönnunum mælist traustur stuðningur við burðarflokk ríkisstjórnarinnar. Í einstökum málum hefur fólk nútímalegri skoðanir, en það sættir sig við, að slíks sjái ekki stað í verkum ríkisstjórnarinnar.

Þetta dúnalogn fyrir storminn er þekkt fyrirbæri í alþjóðlegri sagnfræði. Það minnir á hamingjuár Evrópu rétt fyrir og rétt eftir síðustu aldamót, þegar mönnum fannst, að góðærið mundi endast að eilífu og áttuðu sig ekki á óveðursskýjum úti við sjóndeildarhring.

Við höfum séð eitthvað þessu líkt í fjármálum Suðaustur-Asíu að undanförnu. Þannig fer fyrir mönnum og þjóðum, sem of lengi láta reka á hafi fortíðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ein byggð ­ einn kjarni

Greinar

Sveitarfélög á Íslandi hafa yfirleitt sameinazt á þann hátt, að sveitir hafa sameinazt sínum kaupstað. Þjónustukjarninn er þungvigt sameiningarinnar. Það auðveldar sameiningu, ef ljóst er, hver sé kjarni hennar, en flækir hana, ef miðpunktarnir eru fleiri.

Þannig geta hreppar Mýrasýslu sameinazt Borgarnesi, Dalir sameinazt Búðardal, Vestur-Húnavatnssýsla sameinazt Hvammstanga, Austur-Húnvatnssýsla sameinazt Blönduósi, Skagafjörður sameinazt Sauðárkróki og Austur-Skaftafellssýsla sameinazt Höfn í Hornafirði.

Dæmi eru um, að sveitarfélög hafi sameinazt á öðrum forsendum. Þannig voru Neskaupstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður sameinaðir í einn þrískiptan kaupstað. Það mun valda erfiðleikum, að enginn einn staðanna er sjálfkjörin þungamiðja hins nýja sveitarfélags.

Við slíkar aðstæður má búast við togstreitu. Í umræðum fyrir sameininguna kom fram, að sumir óttuðust stærð og veldi Neskaupstaðar, sem er öflugastur staðanna að sinni. Gagnrýnendur vöruðu við, að völd og áhrif hyrfu frá Eskifirði og Reyðarfirði.

Neskaupstaður er hins vegar afskekktastur staðanna. Reyðarfjörður er nær umheimi vegakerfisins og virðist líklegastur vettvangur stóriðju. Hún mun færa þungamiðjuna. Hvers konar tilfærsla af slíku tagi mun valda óánægju þeirra, sem fjarlægjast valdið.

Jarðgöng geta tengt austfirzku kaupstaðina betur. En þau leysa ekki það félagslega og pólitíska og fjárhagslega vandamál, að sérhvert sveitarfélag þarf að hafa sinn kjarna. Við sjáum þetta af erfiðum rekstri nýs sveitarfélags umhverfis jarðgöngin á Vestfjörðum.

Sameining nokkurra kauptúna við Ísafjörð hefur leitt til ágreinings, endurtekins klofnings fyrri samherja og mikils kostnaðar í rekstri. Þar er hver silkihúfan upp af annarri í formi verkefnisstjóra. Óvenjulega margir félagsmálaberserkir eru á biðlaunum hjá bænum.

Austfirðingar verða að gæta þess, að ekki fari fyrir þeim eins og Vestfirðingum, að innri átök valdi kostnaði og sogi til sín orku. Því sundurleitari, sem sveitarfélög eru, þeim mun meiri líkur eru á, að fólk nái litlu samkomulagi um, hvernig málum skuli hagað.

Sameining sveitarfélaga er eðlileg afleiðing bættra samgangna og meiri krafna fólks um þjónustu í héraði. Við skjótumst milli landshluta á skemmri tíma en áður milli hreppa. Flókið líf nútímamannsins kallar á ramma, sem sprengja forsendur gamla hreppakerfisins.

Menn vilja dreifa valdi frá þungamiðju ríkisvaldsins í Reykjavík og þurfa því um leið að hafa burði til að taka við hlutverkum, sem aðeins verða borin uppi af tiltölulega stórum samfélagseiningum. Þetta hefur hleypt miklum krafti í hugmyndafræði sameiningar.

Það léttir verkefnið, ef menn átta sig á, að ein þungamiðja er óhjákvæmileg niðurstaða sérhverrar sameiningar. Það getur tekið tíma og kostað fé að komast að raun um þetta félagslega lögmál. Bezt er að horfast í augu við það strax og þekkja niðurstöðuna.

Því meira, sem völd og þjónusta eru sameinuð í einum þéttbýlisstað í hverju nýju sveitarfélagi, þeim mun meiri líkur eru á, að byggðin haldi velli í samkeppni við stóru seglana, sem soga til sín fólk. Þeim mun líklegra er, að byggðafjármagn komi að ætluðum notum.

Því fjölmennari sem nýju sveitarfélögin verða og því eindregnari kjarna sem þau hafa, þeim mun meiri líkur eru á, að þau standist brotsjói byggðaröskunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Alþjóðlega yfirlýstur aumingi

Greinar

Mengunarráðherra Íslands og aðrir sóðar stjórnvalda komu frá einni ríkustu þjóð heims og létu sér sæma að haga sér eins og beiningamenn á alþjóðlega loftmengunarfundinum í Kyoto. Að þeirra mati nægir ekki einu sinni sérstök 10% aumingja-undanþága fyrir Ísland.

Að baki mestu niðurlægingu þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi liggur sú skoðun íslenzkra ráðamanna og raunar margra Íslendinga, að bezt sé fyrir okkur að mengun fái að aukast óhindrað. Það sé ódýrast og fyrirhafnarminnst. Það var yfirlýst stefna okkar í Kyoto.

Að baki þessari mengunarvænu skoðun er hin þekkta skammsýni Íslendinga, sem láta sig dreyma um skyndigróða og ganga berserksgang í happdrættum, en geta ekki fyrir nokkurn mun gert sér grein fyrir dýrkeyptum afleiðingum, þegar til langs tíma er litið.

Mengunarráðherrann var ekki að skafa utan af markleysunni, þegar hann sagði í viðtali við DV í fyrradag: “Þó svo að þjóðin vilji ekki lenda undir ís, vill hún þá leggja skipastólnum sínum, leggja öllum bílunum sínum eða vill hún loka iðnaðarfyrirtækjunum.”

Staðreyndin er sú, að Íslendingar geta minnkað loftmengun í landinu án þess að leggja neinu skipi, neinum bíl og neinu fyrirtæki. Ekki þarf einu sinni að hafna nýrri stóriðju. Það eina, sem þarf, er að byrja að vinna að víðtækum mengunarvörnum í landinu.

Laga þarf vélar skipaflotans, svo að þær geti brennt minna óhreinu eldsneyti en svartolíu. Þar sem skipin brenna meira en helmingi allrar olíu á Íslandi, leiðir þessi aðgerð til mikils samdráttar í mengun. Það er hreinn ræfildómur, að taka ekki á þessu máli.

Ennfremur þarf að láta af þeirri firru, að stóriðja sé ókeypis búbót. Hún verður að geta staðið undir fullkomnustu mengunarvörnum, sem völ er á. Og hún verður að geta staðið undir kaupum á mengunarkvótum, að svo miklu leyti sem varnirnar nægja ekki.

Í þriðja lagi þurfum við að vera í fararbroddi þeirra þjóða, sem taka upp rafknúna bíla í stað benzín- og olíuknúinna. Í helztu iðnríkjum heims er unnið að undirbúningi að framleiðslu slíkra bíla. Framfarir eru svo örar, að hagkvæmir rafbílar koma senn á markað.

Í fjórða lagi þurfum við að efla mengunarvarnir í iðnaði nákvæmlega eins og iðnríki heimsins hafa verið að gera í sínum ranni og ætla sér að gera áfram, samkvæmt samkomulaginu í Kyoto. Við þurftum alls ekki að vekja athygli á okkur fyrir einstæðan aumingjaskap.

Fleiri ríki hafa beðið siðferðishnekki en Ísland, þótt hlutur okkur sé verstur. Bandaríkjamenn menga meira á hvern íbúa en aðrar iðnaðarþjóðir og komast upp með að draga minna úr mengun en þær. Þetta er yfirlýsing um, að Bandaríkin hafi látið af siðferðisforustu.

Evrópusambandið hefur hins vegar tekið á sínar herðar siðferðislega forustu fyrir hinum vestræna heimi. Það var eini ríkjahópurinn, sem ekki kom nokkurn veginn tómhentur til Kyoto. Sambandið bauð 15% samdrátt í loftmengun hinna auðugu iðnríkja heimsins.

Um síðir fer svo í þessu máli eins og sumum öðrum, að Evrópusambandið mun með reglugerðum þvinga okkur veinandi og kveinandi til að gera hreint fyrir okkar dyrum. En það er þungt að vera borgari í auðugu þjóðfélagi, sem er alþjóðlega yfirlýstur aumingi.

Stafkarls stígur mengunarráðherrans og sóða hans til Kyoto er botninn á niðurlægingu þjóðar, sem fyrst og bezt var lýst í sögu Guðbergs af Tómasi Jónssyni.

Jónas Kristjánsson

DV

Keypt og seld mengun

Greinar

Einhver verður fyrr eða síðar að borga fyrir mengun. Að svo miklu leyti sem þjóðfélag sættir sig við mengun, neyðist það til aðgerða til að bæta hana upp. Á alþjóðlegum vettvangi kann að verða samið um misjafnt verðlag á mengun, en samt verður engin mengun ókeypis.

Virtasta málgagn frjálshyggjunnar í heiminum er tímaritið Economist. Það hefur lengi mælt með, að mengun verði metin til fjár og að réttur til mengunar geti gengið kaupum og sölum. Meðal annars geti ríkið selt slíkan rétt, sem er auðvitað sama og skattur.

Engum heilvita manni dettur í hug að mæla gegn mengunargjaldi. Markmið þess er að hvetja fyrirtæki til að menga minna til að koma sér undan skatti. Þannig getur útgerð grætt á að skipta úr svartolíu í dísilolíu til að spara sér skatt. Gjald kemur í stað fyrirmæla.

Ef samið er um stóriðju, sem veldur mengun, þarf að taka tillit til kostnaðarins við mengun af völdum stóriðjunnar. Þjóðfélagið þarf þessa peninga til að draga til jafns úr mengun á öðrum sviðum, til dæmis til að borga öðrum fyrir tilsvarandi minnkun mengunar.

Reiknað hefur verið, hvað þurfi að rækta mikinn skóg til að mæta tiltekinni aukningu á losun koltvísýrings. Ríkisstjórn Íslands hefur gamnað sér við drauma um að geta látið aukna skógrækt koma á móti aukinni stóriðju. Þannig fæst eins konar verðmiði á mengun.

Þegar baráttumenn stóriðju láta sig dreyma um að troða meiri stóriðju upp á land og þjóð, verða þeir að reikna með mengunarkostnaði. Til lítils er að hrópa um þjóðhagslega arðsemi stóriðju og ætla svo að senda skattgreiðendum mengunar-reikninginn um síðir.

Stóriðja er þriðja heims atvinnuvegur, sem ríku þjóðirnar í heiminum hafa verið að losa sig við. Meðal annars hafa Þjóðverjar losnað við eitt álver til Íslands og eru harla glaðir. Stóriðja á Íslandi er og verður einangrað fyrirbæri, sem ekki samlagast íslenzkum veruleika.

Álverið í Straumsvík er búið að vera svo lengi í gangi, að ljóst er orðið, að ekki myndast í kringum það nein fullvinnsla eða þekkingarvinnsla. Við höfum hins vegar ræktað töluverðan iðnað kringum sjávarútveginn, þar á meðal ört vaxandi tölvuvinnslu og hugbúnaðargerð.

Stóriðja losar efni út í andrúmloftið. Með skattlagningu á slíkri mengun er unnt að hvetja stóriðjuna til ítrustu mengunarvarna. Að svo miklu leyti, sem varnirnar duga ekki, fær ríkið fjármagn til að leggja í almennar aðgerðir, sem draga úr mengun í landinu.

Þá fyrst er hægt að sjá þjóðhagslega arðsemi stóriðju, þegar búið er að taka fjárhagslegt tillit til mengunar af völdum hennar. Það sama gildir raunar um sjávarútveg og samgöngur á landi. Mengunarskattur er forsenda skynsamlegra aðgerða á öllum þessum sviðum.

Fyrsta skrefið í þessa átt er að koma á fót umhverfisráðuneyti, sem leysi núverandi mengunarráðuneyti af hólmi. Í stað fálmkenndra tilrauna til að fá umheiminn til að fallast á vaxandi sóðaskap Íslendinga þarf að koma á fót stjórnvaldi, sem taki forustu gegn mengun.

Það skammhlaup hefur einhvern veginn orðið í hugsun ráðamanna landsins, að fjárhagslega hagkvæmt sé að menga landið og að markmið þátttöku okkar í fjölþjóðlegu umhverfissamstarfi sé að fá undanþágu umheimsins til að menga landið okkar sem allra mest.

Eina leiðin til að fá sóða til að skilja sóðaskap er að láta hvern þeirra fyrir sig borga fyrir sinn sóðaskap. Leiðin til skilnings liggur sem oftar um budduna.

Jónas Kristjánsson

DV

Kolbítur úr öskustó

Greinar

Komið hefur í ljós, að nærri helmingur Breta tekur neikvæða afstöðu til auglýsinga, sem hann sér. Þetta skiptist þannig, að tæpum fjórðungi finnst auglýsingarnar uppáþrengjandi og fjandsamlegar og annar tæpur fjórðungur tekur alls ekkert mark á þeim.

Þetta þykja slæm tíðindi fyrir ímyndarfræðinga, sem starfa að auglýsingum og markaðsmálum. Þeim mun betri eru þau fyrir neytendur, þar sem þetta hlýtur að leiða til breytinga á eðli auglýsinga, þannig að þær falli betur að þörfum neytenda en þær hafa gert.

Núverandi auglýsingar, einkum þær sem birtast í sjónvarpi, benda til, að höfundar þeirra telji neytendur vera meiri háttar bjálfa, sem hlaupi á eftir tilbúnum og meira eða minna ímynduðum ímyndum eins og keppnishundar á eftir vélknúnum hérum á hringvelli.

Hegðun neytenda hefur hingað til bent til, að væntingar ímyndarfræðinganna séu á rökum reistar. Fólk kaupir furðulegustu megrunarvörur og fótanuddtæki. Það er jafnvel farið að klöngrast um á óeðlilega þungum skóm, af því að sagt er, að þetta sé tízkan í ár.

Einkum hefur borið á hlaupum eftir merkjum. Þannig tókst Pierre Cardin að færa tízkufatafrægð sína yfir á 800 aðrar vörutegundur á einu bretti. Þannig tekst Davidoff, sem eitt sinn seldi góða vindla frá Kúbu, að yfirfæra frægð sína á ilmvötn fyrir karla.

Tívolí og Disneylönd heimsins hafa verið að breytast í stórmarkaði og stórmarkaðir hafa verið að breytast í Tívolí og Disneylönd. Nike Towns eru ekki lengur búðir fyrir strigaskó, heldur afþreyingarmiðstöðvar, þar sem reiknað er með, að fjölskyldur eyði hálfum dögum.

Markaðsmenn eru farnir að tala um auglýsingar í símtölum og skólastofum, í lyftum og kennslubókum. Stórhuga forvígismenn eru farnir að tala um risastórar auglýsingar í órafjarlægð uppi í himingeimnum, “af því að þar er mikið af ónotuðu auglýsingaplássi”.

Tilraunir stjórnmálamanna og embættismanna til að stuðla að hagvexti ríkja fara fyrir lítið, af því að hagvöxturinn fer ekki í bætt lífskjör, heldur í uppfyllingu tilbúinna og ímyndaðra þarfa, sem auglýsingar og áróðursherferðir hafa framleitt. Batinn fer í súginn.

Svartsýnir söguskýrendur hafa sagt, að frjálsbornir borgarar, sem taki skynsamlegar ákvarðanir á pólitískum vettvangi, séu smám saman að breytast í eins konar neyzludýr, sem hlýði í blindni kalli ímyndarfræðinganna og kasti fé í tilboð markaðsfræðinganna.

Samkvæmt uggvænlegri framtíðarsýn þessarar söguskoðunar mun almenningur í vaxandi mæli hverfa af opinberum markaði pólitískra ákvarðana og snúa sér alfarið að draumaheimi neyzlunnar, samkvæmt fyrirmælum auglýsenda og áróðursmanna hverju sinni.

Við sáum fyrir okkur kolbíta framtíðarinnar, eyðandi frítímanum í hægindastólum framan við imbakassa, troðandi nasli og lituðu sykurvatni í andlit sér, horfandi á auglýsingabera spila með bolta innan um auglýsingaskilti í þáttum, kostuðum af auglýsendum.

Nú segir brezk rannsókn, að þetta sé ekki rétt. Útlitið sé ekki eins svart og söguskýrendurnir hafa sagt. Nærri helmingur fólks sjái gegnum ruglið og láti það annað hvort ekki á sig fá eða taki neyzluákvarðanir, sem stríði gegn ruglinu. Kolbíturinn sé að rísa úr öskustó.

Ef nógu margir neytendur kasta frá sér óþarfanum og slökkva á auglýsingunum, verða ímyndar- og markaðsöflin að snúa við blaðinu og fara að þjóna fólki.

Jónas Kristjánsson

DV

Sollurinn og íþróttafélögin

Greinar

Sveitarfélög styðja íþróttafélög eftir mætti, greiða mikinn hluta kostnaðar við gerð íþróttamannvirkja og auðvelda störf þeirra á ýmsan annan hátt. Stuðningur sveitarfélaga við íþróttafélög er yfirleitt miklu meiri og jafnvel langtum meiri en við aðrar tegundir félaga.

Sumpart getur verið, að sveitarfélög líti á íþróttafélög sem aðferð til markaðssetningar sveitarfélaga á svipaðan hátt og fyrirtæki gera. Hins vegar er óljóst, hver væri tilgangur slíkrar markaðssetningar af hálfu stofnana, sem ekki eru að selja neitt sérstakt.

Höfuðástæðan fyrir stuðningi sveitarfélaga er fremur sú, að íþróttafélög eru talin aðferð til að halda börnum og unglingum frá sollinum. Talið er, að líkamlega holl keppni og leikur dragi úr líkum á, að börn og unglingar lendi af iðjuleysi í áfengi og öðrum vímuefnum.

Þetta er raunar stutt af rannsóknum, sem benda til, að iðkun íþrótta fari saman við góðan árangur í námi og farsæla siglingu barna og unglinga framhjá freistingum umhverfisins. Heilbrigð sál í hraustum líkama er gamalt orðtak, sem reynist byggjast á staðreyndum.

Íþróttasamband Íslands er byrjað að undirbúa efnivið í vottunarkerfi, svipað því sem þekkist á öðrum sviðum, þar sem fyrirtæki fá óháðar vottunarstofur til að staðfesta, að afurðir þeirra standist tiltekna skilmála. Íþróttafélög gætu þá aflað sér hliðstæðra stimpla.

Frá sjónarhóli sveitarfélaga væri æskilegt, að vottunarkerfi íþróttahreyfingarinar fæli í sér mat á, hvort félögin standi undir væntingum um þátttöku í að halda börnum og unglingum frá sollinum. Vottun um slíkt gæti verið forsenda fjárframlaga sveitarfélaga.

Í rauninni kemur stundum fyrir, að íþróttafélög eru sjálfur sollurinn. Margir unglingar hefja drykkju og reykingar í keppnisliðum. Sumir þjálfarar hafa verið afar slæmt fordæmi. Jafnvel er dæmi um, að félag hafi verið rekið heim af landsmóti ungmennafélaga.

Þótt þetta séu frekar undantekningar en regla, er mikilvægt, að þær verði ekki þolaðar. Vottun íþróttafélaga getur orðið gott tæki í baráttunni gegn iðjuleysi og neyzlu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna. Því er ástæða til að fagna frumkvæði hreyfingarinnar.

Það var hins vegar köld gusa, sem samfélagið fékk frá ársþingi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, þegar tveir áfengissalar stóðu fyrir því, að þingið felldi tillögu stjórnarinnar um áfengisneyzlu og áfengisauglýsingar. Það var hrikalegur álitshnekkir sambandsins.

Þingið felldi bann við áfengisneyzlu iðkenda, þjálfara og leiðtoga í keppnisferðum. Það felldi bann við neyzlu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna á skemmtunum íþróttafélaga. Það felldi bann við auglýsingum á tóbaki og áfengi á íþróttamannvirkjum og búningum.

Þannig sendi ársþing Íþrótta- og ólympíusambands Íslands þau skýru skilaboð til sveitarfélaga, að íþróttafélög teldu ekki hlutverk sitt að taka þátt í baráttu samfélagsins gegn sollinum. Þetta var umdeilt á þinginu, en meirihlutinn samþykkti hina skelfilegu niðurstöðu.

Líkur benda til, að íþróttahreyfingin geti klórað sig út úr þeirri undarlegu stöðu að vera orðin að leppríki áfengissala og komist aftur í þá stöðu, að félögin geti farið að bera höfuðið hátt, þegar þau fara næst að reyna að kría peninga út úr sveitarfélögum landsins.

Það eru hins vegar hreinar línur, að félög, sem styðja afgreiðslu ársþings íþróttasambandsins á ofangreindum tillögum, eiga ekki skilinn stuðning sveitarfélaga.

Jónas Kristjánsson

DV

Asísku gildin voru íslenzk

Greinar

Áður en bankar, hlutabréf og gengi hrundu í Suðaustur-Asíu í nóvember hafði árum saman verið í tízku að tala um austræn gildi, sem væru betri en vestræn. Ritaðar voru lærðar bækur, þar sem því var haldið fram, að Asíulönd hefðu betri skipan þjóðfélagsmála.

Fremstir í flokki fóru ráðamenn sumra þessara ríkja, sem sögðu það aðal síns fólks að kunna að vinna saman í stað þess að keppa. Og að hlýða yfirboðurum sínum í stað þess að sérhver hefði sérskoðanir á öllu. Þeir röktu velgengni þjóða sinna til kenninga Konfúsíusar.

Ekki þarf að hverfa aftur til fyrri alda til að finna fordæmi fyrir efnahagskerfi svokallaðra efnahagstígrisdýra í Suðaustur-Asíu. Þegar upp var staðið í hruninu, kom í ljós, að þarna hafði verið rekið hagkerfi, sem minnti mjög á íslenzkt hagkerfi eftirstríðsáranna.

Við þekkjum leyndarstefnuna. Stjórnvöld í ríkjum Suðaustur-Asíu reyndu að halda gerðum sínum og fyrirætlunum leyndum fyrir almenningi. Stjórnendur fyrirtækja gerðu hið sama gagnvart hluthöfum og lánardrottnum. Og bankarnir gagnvart eigendum sparifjár.

Fjölmiðlunina þekkjum við líka. Austrænir fjölmiðlar gerðu sitt til að rugga ekki bátnum. Þar hafa ráðamenn fjölmiðla jafnan verið inni á gafli hjá stórhvelum stjórnmála, efnahagsmála og fjármála. Þeir voru aðilar að þagnarbandalagi hinna austrænu gilda.

Í nafni hinnar heilögu samvinnu að hætti Konfúsíusar var þagað um alla hluti, samsæri stjórnvalda og fyrirtækja gegn almenningi, samsæri stjórnvalda og banka gegn eigendum sparifjár og samsæri stjórnvalda og fjölmiðla gegn vestrænni upplýsingaskyldu.

Sterkustu samlíkinguna við Ísland sjáum við hjá bönkum Suðaustur-Asíu. Þeir hafa meira eða minna verið undir áhrifavaldi stjórnvalda, sem hafa hvatt þá til að lána gæludýrum stjórnmálanna ótrúlegustu fjárhæðir, sem núna eru að mestu farnar í súginn.

Þetta minnir á uppgang og hrun Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Gæludýrin höfðu óheftan aðgang að fjármagni og gátu síðan ekki staðið undir því, þegar kom að skuldadögunum. Fyrirtækin hrundu í báðum tilvikum og ríkisvaldið kom bönkunum til hjálpar.

Íslenzk stjórnvöld björguðu Landsbankanum með því að dæla í hann gjafafé, svo að hann gæti skriðið upp úr gjaldþroti Sambands íslenzkra samvinnufélaga og annarra pólitískra gæludýra, sem bankinn hafði lánað, af því að stjórnvöld höfðu sagt honum að gera það.

Svipað hafði gerzt í Bandaríkjunum fyrir tæpum áratug, er margir sparisjóðir hrundu og fengu stuðning ríkisins til að halda lífi. Þannig hafa skattgreiðendur verið látnir hlaupa undir bagga stuttbuxna-kapítalista í Bandaríkjunum, í Suðaustur-Asíu og á Íslandi.

Reynslan frá Vesturlöndum hafði þannig sýnt, að hin svonefndu asísku gildi eru þar ekki óþekkt fyrirbæri. Þau hafa skotið upp kollinum í Bandaríkjunum og verið fyrirferðarmikil á Íslandi. Við þekkjum hin asísku gildi og þau eru ekki asísk frekar en íslenzk minkabú.

Asísk gildi er fínt orðbragð um ríkisstýrða spillingu yfirstéttarinnar, leyndarhjúp gagnvart fjölmiðlum, fjármálasukk, einkavinavæðingu og ódýr lán handa gæludýrum kerfisins. Tígrisdýrin í austri reyndust að lokum ekki vera annað en hver önnur pappírstígrisdýr.

Markaðshagkerfi stenzt nefnilega ekki án hinna gamalkunnu gilda Vesturlanda, þar sem mestu máli skipta upplýsingaskylda, þjóðfélagsgagnrýni og valddreifing.

Jónas Kristjánsson

DV

Niðurlæging Íslands í Kyoto

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja ekkert með sér á samningaborð loftmengunarfundarins í Kyoto. Hún er ekki með nein tilboð í farangrinum. Hún hefur ákveðið, að Ísland geri ekkert í því að koma málum sínum á hreint, heldur óski hvarvetna eftir undanþágum.

Nánast öll ríki og ríkjasamtök hins vestræna heims eru með tilboð í farangrinum. Lengst ganga ríki Evrópusambandsins, sem vilja samkomulag um töluverða minnkun loftmengunar á næsta áratug. Ísland verður yfirlýstur skítapjakkur í samanburði við Evrópu.

Af skrifum og tali umhverfisráðherra í sumar mátti ætla, að ríkisstjórnin hygðist gæta sóma landsins á sviði loftmengunar. Hann vakti sérstaka athygli á, að fyrirhuguð stóriðja stæðist ekki skuldbindingar, sem Ísland hefur þegar tekið á sig í eldri samningi frá Ríó.

Núna hefur ráðherrann étið allt umhverfishjal ofan í sig. Hann er hættur að segja, að Ísland verði að standa að niðurstöðu Kyoto-fundarins til þess að sæta ekki samskiptaerfiðleikum við umheiminn. Núna er hann farinn að gera ráð fyrir, að Ísland skrifi ekki undir.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa ekki hið minnsta eftir í stóriðjunni, heldur heimta undanþágur út á notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Hún ætlar ekkert að gera til að minnka mengun frá fiskiskipaflotanum, heldur heimta undanþágu til að auka hana enn frekar.

Þannig hefur Ísland þá sérstöðu meðal auðþjóða heims á loftmengunarfundinum í Kyoto, að taka engan þátt í tilboðum um minnkaða mengun og heimta þess í stað undanþágur til að menga enn meira en nú er gert. Þannig niðurlægir ríkisstjórnin Íslendinga.

Umheimurinn mun ekki fallast á óskhyggju ríkisstjórnarinnar um undanþágur til aukinnar mengunar. Þvert á móti munu menn lýsa í Kyoto og eftir Kyoto yfir undrun sinni á þröngsýni Íslendinga og skammsýnu sérhagsmunapoti þeirra. Ísland fer á svörtu listana.

Þannig fer fyrir fólki, sem skortir reisn. Þannig fer fyrir fólki, sem sér ekki út fyrir nef sér. Þannig fer fyrir fólki, sem áttar sig ekki á, að framtíð fiskveiðiþjóðar felst í að taka umhverfisforustu og skapa sér orðstír sem framleiðandi hreinnar og ómengaðrar vöru.

Í staðinn hrekjumst við út í að þurfa að reyna að þvo íslenzku stimplana af matvælaframleiðslu okkar. Við neyðumst til að reyna að selja afurðirnar undir útlendum merkjum til að vekja síður athygli útlendinga á því, að varan sé frá íslenzka sóðabælinu.

Ríkisstjórn Íslands hefur ekki fremur en Íslendingar yfirleitt áttað sig á, að straumhvörf hafa orðið í umheiminum. Umhverfisvernd er ekki lengur eitthvað, sem síðskeggjaðir sérvitringar mæla með, heldur er hún orðin að opinberri stjórnarstefnu á Vesturlöndum.

Umheimurinn er farinn að átta sig á, að um líf og dauða er að tefla í umhverfismálunum. Skítapjakkar eins og Íslendingar verða teknir í bakaríið. Viðskiptaþjóðir okkar munu setja okkur stólinn fyrir dyrnar og hreinlega refsa okkur fyrir smásálarskapinn.

Íslendingar eru þjóða mest háðir utanríkisviðskiptum. Þess vegna munum við neyðast til að fylgja þeim mannasiðum, sem ákveðnir verða í útlöndum, til dæmis á fundum á borð við Kyoto. Við getum valið um að hafa sjálfir frumkvæði eða láta kúga okkur til aðgerða.

Erindisbréf fulltrúa Íslands á Kyoto-fundinn felur í sér yfirlýsingu um, að Ísland sé þrýstihópur sóðaskaparins. Það felur í sér niðurlægingu okkar allra.

Jónas Kristjánsson

DV