Greinar

Skrílræði miðborgarinnar

Greinar

Bandarískur rannsóknarlögreglumaður, sem verið hefur hér að undanförnu, furðar sig á, að boðið skuli vera upp á vandamál með því að leyfa ölvuðu fólki að safnast hundruðum saman í miðborg Reykjavíkur að næturlagi. Enda hefur miðborgin reynzt vera hættulegur staður.

Þetta vandamál var í Amsterdam fyrir nokkrum áratugum. Þá var ákveðið að senda sérsveitir til að hreinsa miðborgina og halda henni hættulausri. Síðan hefur verið hægt að ganga óáreittur um ferðamannastaði heimsborgarinnar á öllum tímum sólarhringsins.

Um nánast allar höfuðborgir Vesturlanda gildir, að þeim borgarhluta er haldið hreinum, sem svarar til gamla bæjarins í Reykjavík. Þetta eru hinar eiginlegu miðborgir, svæðin umhverfis helztu opinberar byggingar, ferðamannastaði, menningar-, veitinga- og kaffihús.

Íslenzkir ferðamenn geta farið óttalausir á öllum tímum sólarhringsins um Leicester-torg í London, Concorde-torg í París, Times-torg í New York, Rådhuspladsen í Kaupmannahöfn og Dam-torg í Amsterdam. Þeir geta hins vegar ekki farið óttalausir um Lækjartorg.

Í erlendum borgum má finna hættulega staði. En þeir eru afviknir, fjarri hefðbundnu skemmtana- og menningarlífi, ferðamannastöðum og helztu stofnunum samfélagsins. Þannig er hættulegt að fara um Harlem á Manhattan, en hættulaust að fara um Times-torg.

Fyrir nokkrum árum var löggæzla efld í New York. Tekið var upp á að taka menn fasta og sekta fyrir minni háttar afbrot á borð við að kasta rusli eða kasta af sér vatni á almannafæri. Kenningin að baki var sú, að stórglæpir þrifust í andrúmslofti smáglæpa.

Árangurinn var undraverður. Alvarlegum glæpum fækkaði gífurlega í borginni á örfáum árum. Aðferðafræðin hefur síðan breiðst út. Veggjakrot er hreinsað samdægurs, drykkjurútar hirtir upp. Þeir, sem létta af sér á útihurðir þinghúsa, verða að greiða háar sektir.

Árum saman hefur verið hvatt til, að fetuð yrði sama slóð í Reykjavík. Ákveðið yrði í eitt skipti fyrir öll, að miðbærinn frá Garðastræti að Hlemmi væri griðastaður þjóðarinnar, þar sem venjulegt fólk gæti gengið um án þess að verða fyrir árásum ölóðra ofbeldismanna.

Reykjavík er að verða þekkt víða um heim fyrir ölæði og unglingaælur að næturlagi, rifrildi og slagsmál. Ferðamenn skrifa um berskjaldaðan nöturleika og firringu svokallaðs skemmtanalífs í miðborginni, þar sem fólk veltist og skríður um götur í eymd og volæði.

Gegndarlaust skrílræði næturinnar í Reykjavík er ekki náttúrulögmál, heldur byggist á þeirri ákvörðun yfirvalda að hafast ekki að. Hægt er að stöðva skrílræðið eins og gert var á Dam- og Times-torgum, ef menn nenna og treysta sér til að taka slaginn í upphafi.

Það jafngildir ekki lögregluríki, þótt skrílræði sé lagt af. Það þýðir aðeins, að ákveðið hafi verið, að ekki gildi hér áfram linari mannasiðir en á Vesturlöndum almennt. Það jafngildir því aðeins, að ekki verði lengur talið sjálfsagt eða sniðugt að pissa á hurð Alþingis.

Opnunartími skemmtistaða þarf annaðhvort að vera frjáls eða skaraður. Nóg þarf að vera til af geymslugámum fyrir drykkjurúta. Rífa þarf foreldra frá sjónvarpinu til að sækja börnin. Ofbeldisdómar þurfa að þyngjast. Gera þarf lögregluna sjáanlega. Stundum þarf táragas.

Einkum er það sinnuleysi ráðamanna, sem veldur því, að ölóðum ofbeldismönnum er veitt almennt veiðileyfi, með endurteknum og alkunnum afleiðingum.

Jónas Kristjánsson

DV

Höldum okkur við efnið

Greinar

Ef stjórnmálamenn lentu í vandræðum í fjölmiðlum í gamla daga, þótti sumum þeirra þægilegt að grípa til samsæriskenninga. Þeir fluttu þá kenningu, að fjölmiðlar væru notaðir gegn sér. Þeir héldu fram, að óvinir sínir væru að nota fjölmiðla til að koma höggi á sig.

Eitt síðasta dæmið var íslenzkur ráðherra, sem varð fyrir nokkrum árum að segja af sér í kjölfar fjölmiðlaumræðu um afglöp hans á sviði spillingar. Hann hélt fram, að óvinir innan flokks síns hefðu komið umræðunni af stað til að hefta framgang hans innan flokksins.

Hann fjallaði lítið um efnislegt innihald fréttanna, sem urðu honum að falli, en þeim mun meira um hugarfarið, sem hann taldi liggja að baki þeirra. Málið snérist að hans mati ekki um það, sem stóð eða sagði í fréttunum, heldur um tilurð þeirra að tjaldabaki.

Þannig mátti afgreiða öll óþægileg fjölmiðlamál sem hluta af samsæri, er ekki þurfi að taka málefnalega afstöðu til. Einkum var ætlazt til, að stuðningsmennirnir gleyptu kenninguna, enda var þá til siðs, að flokksbræður héldu með sínum manni fram í rauðan dauðann.

Skylt þessu var sú árátta margra embættismanna að hafa meiri áhuga á tilurð frétta úr valdastöðvum þeirra heldur en efnisinnihaldi þeirra. Þeir fóru hamförum við að reyna að finna lekann og stöðva hann, en sinntu því síður að laga það, sem sagt var frá í fréttunum.

Sem betur fer hafa viðhorf af þessu tagi látið undan síga. Þau seljast einfaldlega ekki, af því að notendur fjölmiðlanna hafa meiri áhuga á innihaldi fréttanna heldur en kenningum um dularfulla fæðingu þeirra. Pólitíkusar nota því sjaldan þessa undankomuleið.

Þá gerist það allt í einu, að einn stóru fjölmiðlanna byrjar sjálfur að taka þátt í samsæriskenningunum. Fréttastofa ríkissjónvarpsins flutti ekki fréttir af meintum ritstuldi Séðs og heyrðs, heldur þeim mun meiri af meintu hugarfari að baki frétta annars fjölmiðils.

Reikna má með, að slíkt gerist á minni háttar útvarpsstöðvum, þar sem eins konar skemmtikraftar segja fréttir án þess að kunna neitt til fagsins. Það er athyglisverðara, að fréttastofa hins hefðbundna sjónvarps á Íslandi skuli ekki vera betur mönnuð en þetta.

Komið hafði í ljós, að Séð og heyrt var ekki dótturblað nákvæmlega eins blaða á Norðurlöndum, heldur óheimilt eftirrit þeirra. Voru nafngreindir eigendur norrænu blaðanna meðal annars búnir að fá íslenzka lögfræðistofu til að kanna, hvernig bregðast mætti við.

Þetta var ekki frétt að mati fréttastofu ríkissjónvarpsins. Það var hins vegar frétt, að frásagnir annars fjölmiðils af málinu væru sprottnar af meintri samkeppni milli fjölmiðla. Samsæriskenningin, sem stjórnmálamenn lögðu af, er nú vöknuð á vettvangi fórnardýra hennar.

Svona fer, þegar fjölmiðlum er ekki stjórnað af yfirmönnum, sem sjálfir vita betur. Svona fer, þegar ófaglegir bjálfar vaða hindrunarlaust uppi og fá að verða sér og stofnun sinni til skammar á almannafæri. Þetta niðurlægir ríkissjónvarpið auðvitað sem fréttamiðil.

Verra er þó, ef þetta vekur gamla áráttu, er blundar með sumum þeirra, sem eru í sviðsljósi fjölmiðlanna, þannig að þeir hætti að svara efnislega því, sem þar stendur eða þar er sagt, og fari í staðinn á nýjan leik að fjölyrða um hugarfarið að baki fréttanna.

Þá verða alvörufréttamenn á öðrum fjölmiðlum enn á ný að hafa fyrir því að segja við kenningasmiðina: Heyrðu nú, við skulum halda okkur við efnisatriðin.

Jónas Kristjánsson

DV

Lífrænn sýndarveruleiki

Greinar

Bændasamtökin hafa komið sér upp nýrri vottunarstofu fyrir lífrænt ræktaðar afurðir til þess að koma fleiri bændum gegnum nálaraugað. Kröfur hinnar nýju vottunarstofu eru minni en annarra og byggjast eingöngu á stuttri reglugerð frá ráðuneytinu.

Áður var vottað hér á landi í samræmi við fjölþjóðlega staðla, sem bændasamtökunum þótti of strangir. Þess vegna gældu þau lengi við þá hugmynd að búa til nýtt hugtak, svonefndan vistvænan landbúnað, sem sparaði mönnum að gera miklar búskaparbreytingar.

Mikið grín er búið að gera að hugmyndum ímyndarfræðinga Bændasamtakanna um að búa til nýtt og séríslenzkt hugtak vistvæns landbúnaðar og reyna að selja venjulega búvöru á hliðstæðu yfirverði og lífrænt ræktaðar landbúnaðarafurðir hafa aflað sér.

Bændasamtökin fengu kvartmilljarðs króna styrk frá skattgreiðendum til að reyna að búa til sjónhverfingu vistvæns landbúnaðar. Þetta virðist ekki hafa tekizt nógu vel, því að samtökin eru nú aftur farin að tala um lífrænt ræktaðar fremur en vistvænar afurðir.

Nú hefur verið ákveðið að leysa málið með því að búa til sérstakar og auðveldar reglur um lífræna ræktun fyrir Ísland og skófla á þann hátt umtalsverðum hluta landbúnaðarins inn undir hugtak lífrænnar ræktunar. Reiknað er með, að neytendur láti blekkjast.

Búast má við, að margir bændur fari auðveldu leiðina í von um að fá verðmætisaukann, sem reynslan sýnir, að fylgir vottun um lífræna ræktun. Þess vegna mun nýja vottunin fara sigurför um landbúnaðinn, en gamla vottunin áfram verða vettvangur sérvitringa.

Þetta skiptir að því leyti litlu, að ekki er ætlazt til, að útlendingar taki mark á nýju vottuninni. Íslenzk búvara er ekki samkeppnishæf í útlöndum og þarf því ekki stimpla, sem útlendingar taka mark á. Það er nóg, að íslenzkir neytendur samþykki ódýru lausnina.

Bóndinn getur valið um að fara eftir nákvæmum reglum, sem taldar eru upp á meira en hundrað síðum eða fara eftir einföldum reglum, sem rúmast fyrir í nokkurra blaðsíðna reglugerð ráðuneytisins. Ekki þarf að spyrja að niðurstöðum í því vali, ef áhugann skortir.

Verkaskiptingin verður því sú, að bændur, sem vilja af hagkvæmnisástæðum skreyta sig með fjöðrum lífrænnar ræktunar, fara þægilegu leiðina, en hinir, sem fara út í lífræna ræktun af hugmyndafræðilegum ástæðum, fara þá leið, sem alþjóðlega er viðurkennd.

Vegna komu landbúnaðarkerfisins að málinu má strika yfir drauma sumra bænda um að koma vöru sinni á erlendan markað á forsendum sérstöðu Íslands sem hreins og ómengaðs lands. Það má nefnilega alltaf búast við, að upp komist um strákinn Tuma.

Þegar kemur í ljós, að Íslendingar eru að reyna að koma vörum inn á útlendinga á fölskum forsendum, verður svarið hart. Miklu líklegra er, að værukærir neytendur á Íslandi sætti sig við útþynnta útgáfu af lífrænni ræktun. Þeir verða fórnardýr nýja kerfisins.

Neytendur munu sjálfsagt bregðast við á misjafnan hátt eftir þeirri áherzlu, sem þeir leggja hver fyrir sig á lífræna ræktun. Sumir munu kjósa ódýrari vöru, sem lítið hefur verið fyrir haft, og aðrir munu kjósa dýrari vöru, sem mikið hefur verið fyrir haft.

Þegar mismunandi reglur um vottun eru samhliða í gangi, er mikilvægt fyrir neytendur að átta sig á, hvort veruleiki eða sýndarveruleiki er að baki stimpilsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðarferli á spori

Greinar

Friðarferlið er aftur komið á sporið í Norður-Írlandi eftir tæplega tveggja ára hlé. Deiluaðilar eru að vísu ekki við sama borð, en í sama húsi. Það er mikil framför frá því, sem áður var. Allir hafa undirritað yfirlýsingu um að beita ekki ofbeldi á viðræðutímanum.

Sá, sem stjórnar nú viðræðunum, hóf þær raunar fyrir hálfu þriðja ári, þegar stjórnir Bretlands og Írlands náðu samkomulagi um hann sem sáttasemjara. Þetta er fyrrverandi öldungadeildarþingmaður frá Bandaríkjunm, George Mitchell, af írskum ættum.

Í fyrra skiptið bjó hann til formúlu til að leysa aðgang stjórnmálaflokksins Sinn Fein, sem grunaður er um að vera pólitískur armur lýðveldishersins IRA, er staðið hefur fyrir mörgum ódæðisverkum í Norður-Írlandi. Formúlan fólst í samsíða vopnahléi og viðræðum.

Ríkisstjórn Johns Majors í Bretlandi var á sínum tíma ekki sátt við þessa formúlu og vildi fá fyrst langt vopnahlé, áður en Sinn Fein væri boðið til samningaborðs. Major var svo hræddur við formúlu Mitchells, að hann kippti fótunum undan hlutverki hans.

Þetta var þáttur í kosningaundirbúningi Majors, sem óttaðist að viðræður með aðild Sinn Fein mundu skaða Íhaldsflokkinn í kosningabaráttunni. Þetta nýttist honum ekki, hann koltapaði í kosningunum og við tók stjórn, sem tekur Írlandsmálið af meiri alvöru.

Eitt fyrsta verk Tony Blair sem forsætisráðherra var að koma Mitchell-nefndinni aftur á flot. Eftir mikið japl og jaml og fuður hefur fyrsta skrefið nú verið stigið. Fulltrúar Sinn Fein og flokks sambandssinna, UUP, sitja á sáttafundum í Stormont-höll í Belfast.

Æðibunumönnum á báða bóga er illa við þessa þróun mála. Hryðjuverk var framið í Belfast í síðustu viku til að grafa undan fundunum í Stormont. Ekki er vitað, hver framdi verkið. Líklegt er þó talið, að jaðarhópur á öðrum hvorum vængnum hafi verið að verki.

Ekki tókst á þennan hátt að sprengja menn frá samningaborði. Þar með er ekki sagt, að allt sé komið á beina braut. Viðræðurnar hafa fyrstu dagana einkum falizt í klögumálum og ásökunum á báða bóga. En enginn hefur lengur efni á að vera úti í kuldanum.

Einkum hafa sambandssinnar átt erfitt með að kyngja aðild Sinn Fein. Þeir hafa verið og eru enn í valdastólum í Norður-Írlandi og neyðast nú til að ræða um að deila völdum með minnihlutahópum, sem þeir telja andvíga núverandi þjóðskipulagi Norður-Írlands.

Komið er meira en nóg af blóðbaði. Óöldin hefur staðið í tæpa þrjá áratugi. 3.225 manns hafa fallið í hryðjuverkum á Norður-Írlandi, ýmist af völdum þeirra, sem vilja tengjast írska lýðveldinu í suðri, eða hinna, sem vilja halda fast í sambandið við Bretland í austri.

Í þrjá áratugi hefur Norður-Írland verið svartur blettur á Bretlandi og Írlandi sameiginlega. Hvort tveggja eru þetta vestræn lýðræðisríki, sem búa við mikla og ört vaxandi velmegun. Þau geta engan veginn átt aðild að miðaldaástandi á landamærum sínum.

Staðan er auðvitað flókin. Í Norður-Írlandi deila afkomendur heimamanna og afkomendur innflytjenda. Þar deila tvær greinar kristinna trúarbragða. Þar deila ríkir og fátækir. Þar deila meirihluti og minnihluti. En þetta átti ekki að þurfa að kosta 3.225 mannslíf.

“Vilji er allt, sem þarf”, sagði Gunnar Thoroddsen einu sinni, þegar syrti í álinn. Nú er tækifærið komið til Norður-Írlands og ekki þarf lengur neitt nema viljann.

Jónas Kristjánsson

DV

96% réttleysi á hálendinu

Greinar

Sveitarfélög, sem liggja að hálendinu, eiga ekki að framlengjast upp á miðja jökla, enda ná sveitarfélög við sjávarsíðuna ekki út að landhelgismörkum. Sveitarfélög ná heldur ekki langt niður í jörðina eða upp í loftið, því að fljótlega tekur við umsjónarsvæði ríkisins.

Frumvarp félagsráðherra felur í sér fráhvarf frá áður gildandi reglu um, að ríkið sjái um lögsögu utan byggða, það er að segja út á haf, upp í loft og niður í jörð. Fyrir hefðarrofi þurfa að vera brýnar forsendur, en slíku er alls ekki til að dreifa í þessu tilviki.

Þar á ofan veldur frumvarpið misrétti. Sveitarfélögum með samtals 4% af íbúafjölda landsins er falið að stýra 40% af flatarmáli landsins. Þéttbýlið við sjávarsíðuna umhverfis landið nýtur ekki sama réttar og fær engan sérrétt út á haf til að bæta sér upp mismununina.

Raunar má segja, að frumvarpið sé óbeint framhald þeirrar stefnu að taka hluti úr almannaeigu og gefa þá litlum hópi. Þannig voru auðlindir sjávar gefnar útgerðarfélögum og þannig á nú að gefa bændasamfélögum miðhálendið. Rányrkjugengin eru verðlaunuð.

Engin sérstök ástæða er til að afhenda útgerðarmönnum auðlindir hafsins frekar en einhverjum öðrum, til dæmis sjómönnum, fiskvinnslufólki, fiskvinnslustöðvum, sveitarfélögum eða stjórnmálaflokkum. Útvegsmenn eiga ekkert sérstakt tilkall umfram aðra.

Rányrkjureynsla á síður en svo að veita rétt til stjórnunar á rányrkju, hvorki úti á hafi né uppi á söndum. Þess vegna eiga hvorki útgerðarfyrirtæki, bændasamfélög né aðrir hagsmunahópar að stjórna þeim svæðum lögsögunnar, sem eru langt utan byggðra bóla.

Því miður hafa stjórnarflokka-þingmenn sjávarsíðunnar flestir hverjir ekki sýnt neinn áhuga á að koma í veg fyrir misréttið í frumvarpi bóndans frá rótum Auðkúluheiðar. Þeir hafa ekki nennt að kynna sér efni þessa máls frekar en annarra flókinna þingmála.

Þetta er angi af því, að stjórnarflokka-þingmenn utan Reykjavíkur og Reykjaness eru í fullri vinnu við að gæta meintra sérhagsmuna í héraði, en þingmenn þessara tveggja kjördæma eru í fullri vinnu við að hvíla sig eða að frílysta sig á fjölþjóðlegum nefndafundum.

Það skiptir máli, hver stýrir miðhálendinu, því að sá aðili stýrir líka skipulagi þess. Hann getur til dæmis hagað skipulagi á þann veg, að tiltekið svæði skuli nýtast til beitar fremur en til orkuvera og orkuveitna eða til náttúruverndar og náttúruskoðunar.

Þannig munu ráða ferðinni skammtímahagsmunir þeirra 4% þjóðarinnar, sem búa í þeim sveitarfélögum sauðfjárræktar, er liggja að hálendinu. Gegn þessum þröngu hagsmunum munu almannahagsmunir mega sér tiltölulega lítils, ef frumvarpið nær fram að ganga.

Fyrir utan yfirgang sérhagsmuna býður frumvarpið upp á, að mismunandi sjónarmið ráði ferðinni, þegar mörg sveitarfélög ráða litlum og samhliða landræmum inn á sanda og jökla. Það, sem eitt sveitarfélagið vill, getur stangast á við það, sem nágrannafélögin vilja.

Þannig kunna allir að vilja byggja ferðamiðstöðvar á sinni ræmu, svo að úr verði kraðak stöðva á borð við þá, sem ætlunin er að reisa á Hveravöllum í skjóli stjórnenda Auðkúluheiðar. Eða að allir nema einn vilji láta virkja eða þá að allir nema einn vilji láta friða.

Bezt er, að um hagsmuni á miðhálendinu sé fjallað á einum stað. Þetta eru ótvíræðir almannahagsmunir og eiga því heima á vegum stjórnsýslu af hálfu ríkisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Lýðræðið leitar út

Greinar

Arftakar kommúnista í Póllandi töpuðu í þingkosningum helgarinnar, þrátt fyrir eindreginn stuðning vestrænna fjármálaafla. Sigurvegarar kosninganna voru tveir arftakaflokkar Samstöðu, annar kristilegur íhaldsflokkur og hinn frjálslyndur auðhyggjuflokkur.

Misheppnaður stuðningur vestrænna fjármálaafla við stjórnarflokk kommúnista gefur góða innsýn í þverstæður stjórnmálanna. Vestrænir auðmenn beittu áhrifum og fjármagni til að reyna að tryggja endurkjör þeirra manna, sem stjórnuðu landinu á Sovétöldinni.

Það stafar ekki af, að Lýðræðislega vinstrabandalagið, flokkur kommúnista, hafi stjórnað landinu vel á síðasta kjörtímabili. Hagvöxtur hefur að vísu verið nokkur, en hann er fyrst og fremst afleiðing gerða fyrri ríkisstjórnar, sem var hægri sinnuð Samstöðustjórn.

Kjörtímabilið hefur einkennzt af stöðnun. Uppstokkun kerfisins hefur að mestu frosið. Undir forustu Kwasniewski forseta reyndu kommúnistar að halda sjó og maka krókinn. Pólland hefur þannig tapað tíma í undirbúningi sínum að þátttöku í Evrópusambandinu.

Höfundur efnahagsumbóta Póllands er Balcerowicz, sem var fjármálaráðherra, áður en kommúnistar komust til valda að nýju. Aðgerðir hans voru óvinsælar og leiddu til afturhvarfs. Nú sáu menn þær í réttu ljósi og veittu flokki hans brautargengi til kosningasigurs.

Nú vona erlendir fjármálamenn, að Balcerowicz og Kwasniewski semji um Evrópu- og fjármagnshneigða ríkisstjórn, fremur en að Balcerowicz og Krzaklewski, leiðtogi Hægri bandalagsins, semji um hægrisinnaða stjórn, sem yrði væntanlega verkalýðsvænni.

Vestrænir fjármálamenn vilja annars vegar festu í stjórnmálunum og hins vegar góðan aðgang að stjórnmálamönnum. Arftakar kommúnista í Póllandi og raunar annars staðar í Austur-Evrópu bjóða þeim einmitt þægilega þriðja-heims-blöndu af festu og spillingu.

Athyglisvert er, hversu snögglega gömlu kommúnistarnir í Austur-Evrópu hafa breytzt í forstjóra stórfyrirtækja. Þeir notuðu niðurrif ríkisvaldsins til að komast með sjónhverfingum í bókhaldi yfir gífurleg framleiðslutæki, sem áður voru í eigu ríkisins.

Staðreyndin er nefnilega sú, að það var alveg sama manngerð, sem komst til valda á vegum kommúnistaflokka Austur-Evrópu og sem kemst til valda á vegum stórfyrirtækja Vesturlanda. Það eru þeir, sem kunna að spila með umhverfið sér til framdráttar.

Meiri háttar kommúnistar eru orðnir að forstjórum og öðrum yfirmönnum stórfyrirtækja, sem eiga fjölmiðla og ráðskast með pólitíkina. Minni háttar kommúnistar eru orðnir að mafíuforingjum, sem heimta sinn hlut herfangsins með aðferðum úr undirheimum Vesturlanda.

Þeir, sem fjárfesta í Austur-Evrópu að lokinni Sovétöldinni, eru að semja við sína líka og gæta sameiginlegra hagsmuna, þegar þeir styðja kommúnista til valda. Þetta er nákvæmlega eins og þeir styðja alla harðstjóra, sem lofa festu í stjórn ríkja þriðja heimsins.

Frá skammtímasjónarmiði veita harðstjórar þriðja heimsins og kommúnistar Austur-Evrópu festuna, sem fjármagnið heimtar. En slíkt stjórnarfar er eins og útfallslaus stífla, sem safnar vatni að baki sér og brestur að lokum. Lýðræðið leitar út, þótt það sé barið með lurk.

Vestræn stjórnvöld þurfa að átta sig á, að vestræn fjármálaöfl hamla gegn lýðræði og langtímafestu, þótt þeim hafi ekki tekizt það í Póllandi að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvartmilljón á mann

Greinar

Íslenzkar lánastofnanir hafa á undanförnum árum og verða á næstu árum að afskrifa töpuð útlán sem nemur tæpri kvartmilljón króna á hvert mannsbarn í landinu og tæpri milljón á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þetta er núgildandi Vesturlandamet í fjármálasukki.

Samanlagt hafa bankar landsins, sparisjóðir og aðrir sjóðir tapað rúmlega sextíu milljörðum króna. Þeir brúa bilið einkum með því að hafa útlánavexti hærri en tíðkast annars staðar og innlánavexti lægri en tíðkast annars staðar. Þeir afskrifa tapið með vaxtamun.

Þetta nægir ekki þeim stofnunum, sem verst eru reknar. Landsbankinn hefur til dæmis orðið að fá milljarða í ríkisstyrk til þess að laga stöðuna. Almennt dugir þó vaxtamunurinn einn til að halda lánastofnunum á floti. Þannig hangir lánakerfi þjóðarinnar á vaxtamun.

Annars staðar á Vesturlöndum, þar sem hrikt hefur í lánakerfinu, hefur verið stokkað upp og skipt um menn og vinnubrögð. Hér hefur enginn bankastjóri, sjóðsstjóri, bankaráðsmaður eða stjórnarmaður orðið að taka pokann sinn út af Vesturlandameti í óráðsíðu.

Tækifæri breytingar ríkisbankanna í hlutafélög var notað um daginn til að gera alls ekki neitt. Áfram sitja sem fastast sömu bankastjórarnir, er flestir voru ráðnir pólitískt á sínum tíma. Áfram er bankaráðsstólum og stjórnarstólum skipt milli pólitískra umboðsmanna.

Taldir eru sérstaklega hæfir til slíkrar setu þeir menn, sem harðast ganga fram í að rukka styrki til stjórnmálaflokka. Í núverandi taprekstrarkerfi þykir sérstaklega heppilegt, að sami maðurinn geti rukkað með annarri hendi og lofað bankafyrirgreiðslu með hinni.

Þetta þýðir, að allt er við það sama. Bankar og sjóðir munu áfram veita óskynsamleg lán og láta viðskiptamenn sína borga tjónið. Þeir, sem skulda, þurfa að borga of háa vexti. Þeir, sem eiga inni, fá of litla vexti fyrir. Þetta rýrir samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Ýmis stórfyrirtæki eru farin að sjá við þessu og taka sín lán beint í útlöndum, þar sem óráðsíugjaldið er mun lægra en hér. Vonandi leiðir þetta til, að erlendir bankar setji hér upp útibú, svo að fleiri geti fetað í fótspor þeirra, sem neita að borga fyrir svínaríið.

Við höfum séð það á öðrum sviðum, að koma erlendra aðila á þröngan Íslandsmarkað hefur lækkað kostnað þjóðarinnar. Þannig hefur tryggingafélag á vegum bifreiðaeigenda lækkað tryggingakostnað sinn og annarra um samtals mörg hundruð milljónir króna.

Þegar bankar og sjóðir eru komnir úr eigu ríkisins, má búast við, að þeir færi sig í átt til skynseminnar í vali á bankaráðsmönnum og stjórnarmönnum, bankastjórum og sjóðastjórum. Við vitum hins vegar ekki hvenær pólitíkusarnir þora að sleppa hendinni.

Dæmi Íslandsbanka sýnir þó, að vanhugsuð útlán eru ekki bundin við fjármálastofnanir ríkisins einar. Andrúmsloft bankakerfisins er hið sama, hvort sem er innan eða utan ramma ríkisvaldsins. Það er þessu andrúmslofti, sem þarf að breyta til að vernda peningana.

Ofan á furðulegum heimi íslenzka fjármálakerfisins trónir geymslustofnun fyrir aldraða stjórnmálamenn. Seðlabankinn hefur áratugum saman verið methafi ríkisins í umsvifamiklum rekstri utan um nánast ekki neitt, enda kemur einn bankastjórinn varla til landsins.

Hægt er að laga stöðuna á þrennan hátt, með innreið erlendra banka, með sölu ríkisbanka og loks á þann hátt, að íslenzkir kjósendur hætti að sætta sig við sukkið.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigur gegn jarðsprengjum

Greinar

Mannkynið bar sigur af hólmi á fimmtudaginn í einum bardaganum við það illa í sjálfu sér. Þá samþykktu tæplega hundrað ríki á fundi í Ósló að banna notkun jarðsprengna, að eyða birgðum þeirra og að hreinsa núverandi jarðsprengjusvæði á næstu tíu árum.

Um 26.000 manns farast á hverju ári af völdum jarðsprengna og gífurlegur fjöldi ber varanleg örkuml af þeirra völdum. Mest eru þetta óbreyttir borgarar, sem yfirleitt eru marklaus peð að mati þeirra, sem nota jarðsprengjur sér til framdráttar í styrjöldum og átökum.

Munurinn á jarðsprengjum og kjarnorkusprengjum er fyrst og fremst sá, að þær fyrrnefndu eru notaðar, en hinar síðarnefndu ekki. Jarðsprengjur eru án efa skelfilegasta og tillitslausasta manndrápstæki nútímans, enda eru þær litlar og handhægar í meðförum.

Samkomulagið gerir ráð fyrir, að undirskriftaraðilar fái fjögur ár til að eyða birgðum sínum og tíu ár til að hreinsa jarðsprengjubelti. Framlenging á hreinsunar-tíma kemur til greina fyrir lönd á borð við Kambódsíu, þar sem nú eru um fimm milljón sprengjur í jörð.

Margt gott fólk hefur lagt mikið af mörkum til að ná ríkjum heims að samningaborði um baráttu gegn jarðsprengjum. Fyrirhöfnin hefur nú leitt til frækilegs áfangasigurs, er tæplega hundrað ríki hafa verið skuldbundin til þátttöku í banni við sprengjunum.

Mesti sigurinn fólst vafalaust í, að fulltrúar þessara ríkja létu sér ekki bregða, þótt stjórn Bandaríkjanna gengi berserksgang á síðustu stundu til að reyna að koma í veg fyrir samþykkt bannsins. Þeir fóru eigi að síður sínu fram og vatnsblönduðu ekki samkomulagið.

Clinton Bandaríkjaforseti lét sig hafa að liggja í símanum til að fá erlenda þjóðhöfðingja til að fallast á útvötnun samkomulagsins. Næstum hvarvetna fékk hann þær köldu kveðjur, sem hann átti skilið, enda er niðurlæging hans og Bandaríkjanna feiknarleg.

Bandaríkin eru þó ekki eina ríkið, sem hafnaði aðild að gerð og undirritun samkomulagsins. Rússland, Kína, Indland, Pakistan, Íran og Írak voru líka fjarverandi. Ennfremur er búist við, að bið verði á staðfestingu Ástralíu, Póllands, Japans, Spánar, Ekvadors og Kúvæts.

Munurinn á neikvæðri afstöðu Bandaríkjanna annars vegar og hins vegar ríkja á borð við Rússland og Kína er, að Bandaríkin lögðu sig fram um að spilla fyrir niðurstöðu Óslóarfundarins, en hin ríkin létu kyrrt liggja. Þannig hafa Bandaríkin stimplað sig sérstaklega.

Ástæðan fyrir sérstöðu Bandaríkjanna er jarðsprengjubelti þeirra á landamærum Suður- og Norður-Kóreu. Þau vildu fá undanþágu fyrir þetta belti og önnur slík landamærabelti. Raunar vildu þau líka fresta öllu málinu í níu ár og leyfa notkun á stríðstímum.

Auðvitað kemur jarðsprengjubann að takmörkuðu gagni, þegar mestu herveldi og vopnaframleiðsluríki heims taka ekki þátt í því. En afgangurinn af heiminum hefur tekið siðræna forustu, sem mun spara þúsundir mannslífa á hverju ári og vera öðrum ríkjum fordæmi.

Mikilvægt er, að Bandaríkjunum tókst ekki að valta yfir heiminn í þessu máli eins og þeim tókst fyrr á árinu, þegar þau veltu úr sessi Boutros Ghali, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þetta sýnir pólitísku yfirgangsríki, að takmörk eru fyrir valdi þess.

Samkomulagið um bann við framleiðslu, geymslu og notkun jarðsprengna verður staðfest í Ottawa í desember og kemur til framkvæmda strax um áramótin.

Jónas Kristjánsson

DV

Staðfestur þjóðaróvinur

Greinar

“Fækkið sauðfénu” var ráðið, sem erlendir vísindamenn gáfu Íslendingum á fjölþjóðlegri ráðstefnu, sem haldin er núna í Reykjavík um varnir gegn hnignun beitilanda. Þeim kom á óvart, hversu illa landið er farið af völdum samspils ofbeitar og náttúruhamfara.

Gegn umbrotum náttúrunnar getum við lítið gert, enda þyrftum við lítið að gera, ef hún væri ein um hituna. Landið var allt viði vaxið milli fjalls og fjöru meðan náttúran var ein að verki. Fornleifar sýna, að landnámsmenn gerðu til viðarkola uppi á Kili.

Viðbótarþátturinn, sem spillti jafnvægi náttúrunnar á Íslandi, var beitin á afréttum og hálendi. Þetta er nákvæmlega sami þátturinn og hefur leitt til hnignunar beitilanda í sumum löndum þriðja heimsins, einkum við jaðar eyðimarka í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Það sameinar öll þessi svæði, að náttúran er óvenjulega viðkvæm. Sums staða eru þurrkar vandamál, en hér er það kuldi, eldgos og sandfok. Ef beit fer úr hófi á þessum svæðum, hrynur jafnvægið og eyðimerkur þenjast út. Það er einmitt enn að gerast hér á landi.

Erlendu vísindamönnunum kom á óvart, hversu illa Ísland er statt á þessu sviði. Við höfum hins vegar lengi vitað það, því að áratugir eru síðan gróðurkortagerð leiddi í ljós, að ástand afrétta og hálendis var margfalt lakara en menn höfðu áður talið sér trú um.

Við búum enn við þá ömurlegu staðreynd, að meira tapast af gróðri og jarðvegi á hverju ári en vinnst til baka með þrautseigju landgræðslumanna. Við verðum enn að horfa á hverju vori á Mývatnsbændur reka sauðfé sitt á nálina, sem kemur upp úr sandinum.

Hér í blaðinu hefur oft verið lagt til, að beit verði hætt á afréttum og hálendi móbergssvæða landsins, sem eru viðkvæmari fyrir röskun en aðrir hlutar þess. Þetta er einkum Suður-Þingeyjarsýsla norðanlands, Rangárvallasýsla, Árnessýsla og Gullbringusýsla sunnanlands. Sum önnur svæði þola hins vegar mikla beit.

Einn vísindamannanna á ráðstefnunni benti í fréttaviðtali á, að skynsamlegt væri að beita sauðfé eingöngu á afgirt svæði, sem talin eru þola beit. Slík svæði eru yfirleitt gróðursæl heimalönd á láglendi og eru núna notuð fyrir annað búfé, svo sem nautgripi og hesta.

Ísland er stofnaðili nýs sáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um viðnám gegn útþenslu eyðimarka. Rúmlega hundrað ríki eru aðilar að sáttmálanum og hafa fulltrúar frá þrjátíu þeirra verið að frumkvæði Vigdísar Finnbogadóttur á ráðstefnunni í Reykjavík.

Íslenzkir fræðimenn hafa ýmislegt fram að færa í fjölþjóðlegu samstarfi af þessu tagi. Við getum einnig lært af þjáningarbræðrum okkar í þriðja heiminum, því að alls staðar er í örvæntingu verið að leita lausna til að stöðva framrás eyðimarka af völdum ofbeitar.

Hér í blaðinu hefur nokkrum sinnum verið vakin athygli á, að landeyðing er um þessar mundir svipuð hér á landi og hún er á þeim eyðimerkursvæðum, þar sem hún er mest, svo sem við Sahara, Góbí og Patagóníu. Þetta hefur nú verið staðfest á ráðstefnunni.

Því miður hafa skammtímahagsmunir í sauðfjárrækt áratugum saman verið reknir af trúarofstæki, fléttuðu saman við pólitíska hagsmuni. Landbúnaðarráðuneytið og aðrar gæzlustofnanir hagsmuna landbúnaðarins hafa gengið berserksgang gegn sannleikanum.

Enn einu sinni skal ítrekað, að landið kemst ekki í jafnvægi fyrr en lausagangur sauðfjár hefur verið lagður niður á afréttum og hálendi móbergssvæðanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkið étur út eignir sínar

Greinar

Ef ríkið selur eignir á næsta ári, er ábyrgðarlaust að nota tekjurnar til að eiga fyrir útgjöldum ársins. Skuldaminnkun á að koma á móti eignaminnkuninni. Rekstur ríkisins á að standa undir sér af rekstrartekjum þess, án þess að eignir séu étnar upp til viðbótar.

Því miður virðist fjármálaráðuneytið ætla að lifa í sýndarveruleika með því að taka tekjur af sölu eigna á næsta ári inn í rekstur ársins og búa þannig til ímyndaðan afgang í fjárlagafrumvarpi ársins. Ráðuneytið er mikið gefið fyrir sýndarmennsku af slíku tagi.

Meðal eigna, sem reiknað er með, að seldar verði á næsta ári eru Áburðarverksmiðjan, Sementsverksmiðjan, hluti ríkisins í Íslenzka járnblendifélaginu, í Aðalverktökum og hluti af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ríkisbankarnir og Póstur & sími eiga að koma síðar.

Þótt ríkinu takist að selja eignir fyrir tæpa þrjá milljarða á næsta ári, segir það lítið upp í tæplega þrjú hundruð milljarða króna skuldir ríksins. Það tæki hundrað ár að greiða upp skuldir með slíkum hætti. Er þó óvíst, að samanlagðar eignir ríkisins dugi fyrir skuldum.

Eðlilegast væri, að fjárlagafrumvarp ríkisins væri sett upp á sama hátt og ríkisreikningurinn. Það hefur raunar staðið til, en fjármálaráðuneytið hefur frestað aðgerðum, enda mundu þær spilla fyrir möguleikum ráðuneytisins til að lifa áfram í sýndarveruleika sínum.

Ef fjárlagafrumvarpið væri gert upp á sama hátt og ríkisreikningurinn, væri ekki hægt að taka tekjur af eignasölu inn í rekstrarreikninginn. Þá yrði líka að taka inn í efnahagsreikninginn langtímaskuldbindingar á borð við áfallna vexti og lífeyrisskuldbindingar.

Þannig eru fyrirtæki landsins gerð upp og þannig er raunar ríkið gert upp að hverju starfsári loknu. Sýndarveruleiki fjárlagafrumvarps ráðuneytisins hefur þann eina sjáanlega tilgang að tryggja, að tölur fjárlagaumræðunnar á Alþingi séu að mestu merkingarlausar.

Fjárlögin eru sá hluti fjármála ríkisins, sem lendir í pólitískri umræðu. Stjórnvöld telja henta sér að láta Alþingi stunda leikaraskap við að ná jafnvægi í reikningsdæmi, sem á sér ekki stoð í veruleikanum. Það dregur úr afskiptum þingsins af alvörufjármálum.

Í nokkur ár hefur fjármálaráðuneytið boðað, að fjárlagafrumvarpið verði næst sett þannig fram, að sambærilegt sé við ríkisreikning og reikninga fyrirtækja og félaga yfirleitt. Í nokkur ár hefur það heykst á aðgerðum, vegna augljósra þæginda af óbreyttu ástandi.

Sem dæmi um sýndarveruleika fjárlagafrumvarpa má nefna, að um langt skeið hefur vegafé verið skorið niður í fjárlagafrumvarpi hvers hausts, en síðan aukið að nýju í sérstökum ráðstöfunum til atvinnuaukningar að vori. Allir málsaðilar vita, að þetta er blekkingaleikur.

Sami leikurinn er stundaður í nýju fjárlagafrumvarpi, sem þingmenn stjórnarflokkanna hafa skoðað að undanföru. Þar er með sjónhverfingum fundinn út tæplega þriggja milljarða hagnaður, en raunveruleikinn að baki nemur meira en tíu milljarða króna taprekstri.

Með hverju árinu, sem líður, án þess að fjárlagafrumvarpi ríkisins sé komið í raunhæft form, er framlengdur eins konar Kardimommubær í ríkisrekstrinum. Það er í þeim anda, að fjármálaráðuneytið hyggst nú lina stöðu líðandi stundar með því að éta út eignir ríkisins.

Í Lúxemborg er hins vegar aldrei halli á ríkisrekstrinum og ríkið skuldar þar aldrei neitt. Þar er fé hins opinbera ekki brennt í endalausum vaxtagreiðslum.

Jónas Kristjánsson

DV

Tapað spil sveitarfélaga

Greinar

Þenslan í atvinnulífinu hefur gefið mörgum kennurum tækifæri til að láta freistast til annarra starfa í þjóðfélaginu. Það auðveldar þeim að segja upp störfum hópum saman. Þeir vita, að þjóðfélagið vill nýta vinnu flestra þeirra á öðrum sviðum, ef þeir vilja sjálfir.

Á nýliðnum tíma stöðnunar í þjóðfélaginu voru tækifæri kennara mun færri en nú. Þá voru öryggi og frí í meiri metum en nú, þegar sóknin í vinnuafl kallar á samanburð í hreinum og tærum krónum. Þá háðu kennarar fræg verkföll án þess að ná neinum árangri.

Nú er verkfall aftur í aðsigi, en aðstæður ólíkar. Nú standa nýir viðsemjendur kennara, sveitarfélögin, frammi fyrir, að langvinnur brestur verði í skólastarfi af völdum kjaradeilunnar. Margir kennarar eru að hverfa til annarra starfa og enn fleiri hugsa sitt ráð.

Efnislega er staðan erfið. Sveitarfélögin horfa á heildargreiðslur til kennara og sjá fram á að geta ekki staðið undir umtalsverðum hækkunum. Kennarar horfa á launagreiðslur frjálsa vinnumarkaðarins og telja sig vera á skítalaunum, sem ekki standi undir nauðsynjum.

Sveitarfélögin eru nýtekin við fyrra hlutverki ríkisins í rekstri grunnskóla. Þau hafa misjafnar aðstæður. Sums staðar njóta skólar forgangs, en annars staðar eru þeir taldir hálfgerður lúxus. Sums staðar vilja kennarar vera og annars staðar vilja þeir helzt ekki þurfa að búa.

Víða sitja skólastjórar og kennarar í sveitarstjórnum og reyna að setja skólamálin ofar í forgangsröðina. Víða eru kjarasamningar rifnir að lokinni undirskrift og kennurum greitt það, sem þeir þurfa til þess að vilja halda áfram að vinna á tiltölulega afskekktum stöðum.

Þannig eru sveitarfélög ekki aðeins í samkeppni við frjálsa vinnumarkaðinn um vinnu kennaramenntaðs fólks. Þau eru einnig í samkeppni hvert við annað um að fá til sín betri kennara eða bara einhverja kennara. Auglýsingar frá skólum úti á landi bera þessa merki.

Að öllu samanlögðu er samningsaðstaða kennara sterkari en áður og viðsemjenda þeirra lakari en áður. Lögmál markaðarins, sem áður voru óhagstæð kennurum, hafa snúizt þeim í hag. Þess vegna eru kröfur þeirra að þessu sinni dýrari og stífari en nokkru sinni fyrr.

Spurningar dagsins eru tæpast þær, hversu mikið kennarar eigi skilið að fá í laun eða hversu mikið sveitarfélög hafi ráð á að greiða kennurum. Þetta eru sanngirnisspurningar, sem markaðslögmálin telja sig ekki þurfa að svara og þurfa sennilega ekki að svara.

Spurningin er ekki heldur sú, hvort samfélagið eigi að greiða kennurum svo mikið, að færustu menn flykkist til slíkra starfa, skólarnir batni og nemendur nái betri árangri. Rannsóknir benda til, að lítið sem ekkert samband sé milli skólakostnaðar og árangurs skóla í starfi.

Spurningarnar eru fremur þær, hversu langt kennarar geti nýtt sér bætta samningsstöðu gagnvart sveitarfélögum, sem verða annars vegar að horfa í budduna og hins vegar til kosninganna, sem verða að vori. Þau þurfa að mæta kjósendum með niðurstöðuna.

Það er ekki auðvelt að útskýra fyrir kjósendum tveggja prósentustiga hækkun útsvars vegna kjarasamninga. En það getur verið enn erfiðara að útskýra fyrir kjósendum, hvers vegna skólahald fór enn einu sinni úr skorðum og það hastarlegar en nokkru sinni fyrr.

Niðurstaðan verður sennilega, að sveitarfélögin munu teygja sig mun lengra í átt til kennara en þau hafa hingað til talið sér fjárhagslega og pólitískt kleift.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt er óbreytt í bönkunum

Greinar

Fyrir nokkrum árum var úrskurðað, að kona nokkur gæti vegna hagsmunaárekstra ekki í senn verið starfsmaður verðbréfasjóðs og stjórnarmaður Landsbankans. Forsætisnefnd Alþingis fékk skrifstofustjóra sem lögfræðing til að kanna málið. Þetta var niðurstaða hans.

Nú skipar viðskiptaráðherra starfsmann sama verðbréfasjóðs sem stjórnarmann sama banka. Hann hefur ekki einu sinni fyrir að afla sér nýs lögfræðiálits, sem segi okkur, að skrifstofustjóri og forsætisnefnd Alþingis séu ekki marktækir álitsgjafar í bankamálum.

Skipan bankaráða vekur líka athygli fyrir þá sök, að viðskiptaráðherra telur heppilegt, að saman fari seta þar og störf við að afla stjórnmálaflokkum peninga. Væntanlega stafar það af, að þá getur sami maðurinn lofað fyrirgreiðslu um leið og hann tekur við skattinum.

Bankar á Íslandi hafa yfirleitt verið illa reknir, einkum Landsbankinn, sem ríkið bjargaði frá gjaldþroti fyrir nokkrum árum. Þeir hafa sóað milljörðum í geðveikislegar fyrirgreiðslur, ekki sízt til ýmissa gæludýra, sem hafa verið í nánum tengslum við pólitíkina.

Viðskiptaráðherra skipar samt í bankaráðin menn, sem með annarri hendinni taka við framlögum gæludýranna til stjórnmálaflokkanna og mæla með hinni hendinni með afbrigðilegum fyrirgreiðslum til gæludýranna. Breytingar hans felast í að hafa ástandið óbreytt.

Ein mikilvægasta breytingin, sem viðskiptaráðherra hafði boðað, var sparnaður og samþjöppun ábyrgðar með því að fækka bankastjórum úr þremur í einn í hvorum banka. Niðurstaðan var auðvitað sú, að breyting ráðherrans felst í að hafa ástandið óbreytt.

Ekkert nýtt er í breytingum viðskiptaráðherra. Ekkert er gert til sparnaðar eða skilvirkari yfirstjórnar. Ekkert er lært af útlánatjónum áratugarins, heldur skipaðir sömu menn og sams konar menn til að sukka. Breytingar hans felast einkum í orðaleikjum.

Ríkisbankarnir verða áfram fyrst og fremst helmingaskiptafélög ríkisstjórnarflokkanna tveggja. A-flokkarnir eru þó gerðir samábyrgir með því að bjóða hvorum þeirra einn stól í hvoru bankaráði. Þannig sáir viðskiptaráðherra til friðar á Alþingi um hneyksli sitt.

Í alvöruþjóðfélagi væri reynt að bæta rekstur bankanna með því að losa þá við bankastjóra og bankaráðsmenn, sem hafa staðið fyrir slíku sukki með peninga í óráðsútlánum, að helzti banki þjóðarinnar væri orðinn gjaldþrota, ef ríkið hefði ekki hlaupið undir bagga.

Hafa ber þó í huga, að breytingar til bóta eru sagðar væntanlegar. Verða þær lofaðar, þegar þær eru í húsi. Þar á meðal er afnám ríkisábyrgðar á bönkunum og sala bankanna í áföngum. Þegar bankarnir verða orðnir frjálsir af ríkinu, verða þeir frjálsir af flokkaspillingu.

Slík breyting hefur ekki gerzt. Viðskiptaráðherra hefur framlengt fyrra ástand og hrókað mönnum milli reita. Hann hefur raunar magnað fyrri spillingu með því að ganga þvert á niðurstöðu skrifstofustjóra og forsætisnefndar Alþingis um skipan bankaráðsmanna.

Að baki gerða ráðherrans er sú óþægilega staðreynd, að skammvinnu tímabili siðvæðingar í stjórnmálum er lokið að sinni. Um tíma héldu pólitíkusar að þeir yrðu að rifa spillingarseglin, en hafa nú komizt að raun um, að kjósendur láta sér fátt um spillingu þeirra finnast.

Þess vegna mun Ísland enn um sinn verða rekið sem Kardimommubær, þar sem ekki gilda siðareglurnar, sem móta nágrannaþjóðir okkar í austri og vestri.

Jónas Kristjánsson

DV

Límið í þjóðfélaginu

Greinar

Í frystihúsi á Vestfjörðum var nýlega farið að hengja upp á töflu tvisvar á dag niðurstöður tölvumælingar á mætingu starfskvenna, vinnsluhraða þeirra, fjölda galla, og lengd kaffitíma þeirra. Í töflufréttum þessum var ekki fjallað á hliðstæðan hátt um karlana í frystihúsinu.

Ef vinnubrögð af þessu tagi breiðast út í fiskvinnslu, verður ekki hægt að búast við, að margar konur fýsi að starfa að henni. Það verður helzt hægt í afskekktum sjávarplássum, þar sem ekki er völ á annarri vinnu meðan fólk er að leita tækifæra til að flýja suður.

Hugsunarhátturinn að baki vinnubragðanna breiðist víðar út en í Bolungarvík. Í fræðum atvinnurekstrar hefur komið til sögunnar ný hugmyndafræði, sem lítur á skjóttekinn arð sem eina markmiðið. Hún telur starfsfólk vera eins konar hilluvöru, er megi nýta og kasta.

Af þessum toga eru tilraunir til að ráða starfsfólk sem verktaka, svo og uppsagnir starfsfólks til að ráða það að nýju á lakari kjörum. Af sama toga eru hreinsanir, sem taldar eru gulls ígildi, því að þær spari í rekstri og rækti ótta starfsfólks um, að vinnan sé ekki örugg.

Kennisetningar þessar koma frá Bandaríkjunum, þar sem gengið hefur bylgja arðhyggju og mannfyrirlitningar. Litið er á starfsfólk, sem hálfgerða þræla, er píska skuli sem mest og kasta síðan burt að nokkrum tíma liðnum. Sagt er, að þetta auki velmegun í þjóðfélaginu.

Staðreyndin er hins vegar sú, að mikil hagþróun í Bandaríkjunum hefur eingöngu gert hina ríku ríkari, en skilið hina fátæku eftir í skítnum. Þeir hafa staðið í stað í tvo áratugi. Munurinn á ríkum og fátækum þar vestra er aftur orðinn eins mikill og hann var árið 1920.

Í vaxandi mæli býr efsti fimmtungur bandarísku þjóðarinnar í afgirtum og vöktuðum hverfum, þar sem óboðnum er ekki hleypt inn. Innan hverfisins er fagurt umhverfi og fyrirtaks þjónusta á öllum sviðum. Utan veggjar er hins vegar allt í sóðaskap og niðurníðslu.

Almannaskólar drabbast niður og einkaskólar blómstra. Almannasamgöngur drabbast niður og einkasamgöngur blómstra. Almannasorphreinsun drabbast niður og einkasorphreinsun blómstrar. Almannasjúkrahús drabbast niður og einkasjúkrahús blómstra.

Þessi skipting í yfirstétt og undirstétt er ekki eins langt frá ströndum Íslands og við höfum hingað til haldið. Við sjáum hana í ýmsum myndum, svo sem í frystihúsi í Bolungarvík og við sjáum hana í hugmyndum um, að fólk geti keypt sig upp eftir biðlistum sjúkrahúsa.

Stéttaskiptingin í Bandaríkjunum er á hraðri leið í átt til þess, sem hún er í þriðja heiminum. Þótt af þessu skapist mikill skammtímaarður, er hann ekki ókeypis frekar en hádegisverður Hannesar. Hann kostar rotnun samfélagsins að innan. Límið í þjóðfélaginu gefur sig.

Lýðræðislegt nútímaþjóðfélag stenzt ekki til lengdar, ef límið gefur sig. Þá fara hóparnir hver í sína átt. Ríka fólkið flýr inn í afgirt hverfi og fátæklingarnir flýja inn í glæpi og fíkniefni. Ef þetta ferli verður ekki stöðvað, getur það ekki endað öðru vísi en með byltingu.

Skammtímaarður dugir ekki sem markmið. Mannleg sjónarmið eru mikilvægari. Þau gefa betri útkomu, þegar til langs tíma er litið. Vesturlönd voru lengi á réttri leið, en misstu velferðarkostnaðinn úr skorðum og fóru þá að gæla við öfgana á hinum kantinum.

Aldrei má ganga svo langt í arðhyggju, að það leiði til, að þjóðfélag fari að skiptast í afmarkaðar stéttir á nýjan leik. Við skulum víkja af þeirri braut í tæka tíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Vetnisbúskapur á Íslandi

Greinar

Flest rök hníga að því, að vetni muni á næstu öld leysa olíu og benzín af hólmi sem orkugjafi hreyfanlegra tækja, svo sem bíla, skipa og flugvéla. Vetni muni bægja frá mannkyni vofu samfélagshruns, þegar takmarkaðar olíu- og gaslindir ganga smám saman til þurrðar.

Því meira sem gengur á olíulindir, þeim mun meiri líkur eru á, að olía og benzín hækki í verði í skjóli lögmálsins um framboð og eftirspurn. Ekki bætir úr skák, að mikið af olíulindum er í ríkjum, þar sem ríkisstjórnir eru hvimleiðar, illa útreiknanlegar og árásarhneigðar.

Vetni er tiltölulega umhverfisvænn orkugjafi. Brennsla þess leiðir ekki til losunar hættulegra efna út í andrúmsloftið. Olíu- og benzínbrennsla framleiðir hins vegar koltvísýring, sem veldur gróðurhúsaáhrifum og leiðir síðan til hækkunar á yfirborði sjávar.

Hér á landi stafa tveir þriðju hlutar allrar koltvísýringsmengunar af brennslu á olíu og benzíni í skipum og bílum. Breyting frá þessum orkugjöfum yfir í vetni mundi gera Íslendingum kleift að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi um minni mengun.

Með færslu yfir í vetni mundi einnig skapast svigrúm til að reisa hér fleiri stóriðjuver, til dæmis til framleiðslu áls og magnesíums, án þess að brjóta Ríó-sáttmálann um minnkun mengunar. Það væri óneitanlega afar þægileg útkoma í annars vonlausu reikningsdæmi.

Stóriðja veldur yfirleitt mengun. Nýjar verksmiðjur og stækkaðar verksmiðjur hér á landi valda því, að Ísland nálgast ekki loforð sín frá Ríó, heldur fjarlægist þau. Við erum í þessum skrifuðum orðum að brjóta samninginn og að lækka gengi íslenzkra loforða.

Áhugi manna á meiri stóriðju hér á landi hlýtur að leiða til aukins þrýstings á aukna notkun vetnis sem mótvægis á vogarskálum mengunar. Um leið má virkja áhuga erlendra aðila til samstarfs um að nota íslenzka orku fallvatna og jarðhitasvæða til vetnisframleiðslu.

Það mundi enn bæta stöðu okkar og draga úr innri andstöðu gegn stóriðju, ef stjórnvöld tækju upp borubrattari stefnu í mengunarmálum iðjuvera í stað þess að slá af kröfum um mengunarvarnir. Með betri frágangi iðjuvera má stórminnka mengun af völdum þeirra.

Ýmsir aðilar víða um heim vinna nú ötullega að gerð véla, sem henti betur vetni sem eldsneyti en núverandi benzín- og olíuvélar. Sú þróun er stöðug og mun fyrr eða síðar leiða til, að vetni verði álitinn fjárhagslega hagkvæmari kostur en hinir hefðbundnu orkugjafar.

Mikilvægt er, að stjórnvöld og atvinnulíf taki saman höndum um að rækta skilyrði til vetnisnotkunar sem orkugjafa hér á landi. Það má til dæmis gera með samstarfi við þá, sem vinna að hönnun véla til brennslu á vetni. Þeir gætu gert tilraunir sínar hér á landi.

Allt, sem hér hefur verið sagt, er hrein framtíðarsýn. Hún gæti orðið að veruleika, en verður það ekki, af því að íslenzk stjórnmál gera ekki ráð fyrir þeim möguleika, að horft sé fram á veginn. Menn vilja heldur dunda sér við að leysa brýnustu vandamál sín frá degi til dags.

Í fyrra bjó ríkisstjórnin til heildstæða og skynsamlega stefnu í tölvusamgöngum. Litprentaður var fagur bæklingur um stefnuna. Síðan hefur ekki verið unnið eitt einasta handarvik til að framkvæma hana. Hér á landi endar framtíðarsýnin í litmyndum af ráðherrum.

Hið sama verður uppi á teningnum, ef ríkisstjórnin tæki mark á því, sem hér hefur verið sagt, og léti færustu menn framleiða opinbera stefnu í vetnisbúskap.

Jónas Kristjánsson

DV

Myndfundir í stað ferða

Greinar

Of snemmt er að spá, hvort tilraun til myndfundar, sem gerð var í gærmorgun á vegum Evrópuráðsins að tilhlutan Tómasar Inga Olrich, muni leiða til, að farið verði almennt að gefa kost á slíkum fundum. En það er greinilega í þágu okkar hagsmuna, að svo verði.

Íslendingar taka þátt í margvíslegu fjölþjóðlegu samstarfi. Oft kostar um þriggja daga vinnutap og 150­200 þúsund krónur á hvern mann að skreppa á fundi, sem eru mikilvægur þáttur samstarfsins. Þetta er mikill kostnaður og dregur úr líkum á íslenzkri þátttöku.

Afleiðingin er oft, að farið er bil beggja. Lagt er í mikinn kostnað við að sækja sem svarar öðrum hverjum fundi. Fyrir bragðið verður þátttakan að fálmi. Menn eiga erfitt með að vinda ofan af breytingum, sem orðið hafa milli fundanna, sem þeir hafa fé til að sækja.

Nefndastörf og fundir eru auðvitað misjafnlega nytsamleg fyrirbæri. Ef hins vegar menn telja, að þátttaka í fundaferli skipti íslenzka hagsmuni máli, er vont að þurfa að taka þátt í því með annarri hendi. Betra er að vera alveg með eða ekki en að vera með að hálfu.

Stundum hefur komið fyrir, að íslenzkir hagsmunir hafa verið fyrir borð bornir vegna skorts á peningum til mætinga á fundi í útlöndum. Skemmst er að minnast, er séríslenzkir bókstafir voru næstum dottnir út úr fyrstu og beztu töflu hins alþjóðlega staðals fyrir tölvur.

Svo vel vill til, að tölvu- og símatækni nútímans gerir ferðalögin, tímatapið og kostnaðinn úrelt fyrirbæri. Myndfundir eru farnir að ryðja sér til rúms í atvinnulífinu, enda er einkaframtakið venjulega fyrst til að tileinka sér tækni til sparnaðar og hagræðingar.

Evrópuráðið kom hins vegar af fjöllum, þegar Tómas benti á þessa nýju tækni sem leið til að auka virka þátttöku fulltrúa frá fjarlægum ríkjum. Ráðamenn þess fengust þó eftir fortölur til að láta framkvæma í gærmorgun tilraun, sem vonandi festir sig í sessi.

Ef Evrópuráðið tekur upp þessa tækni, aukast líkur á, að fjölþjóðlegar stofnanir fáist til að feta í sporin. Mikilvægt er, að íslenzkir aðilar, sem geta haft áhrif á slíkan gang mála, láti hendur standa fram úr ermum við að gæta íslenzkra fjarlægðarhagsmuna á þessu sviði.

Myndfundir koma ekki nema að hluta í stað hefðbundinna funda. Í sumum tilvikum er nauðsynlegt, að menn hittist persónulega. Það gildir bæði um atvinnulífið og opinberar stofnanir. En mikið af fundum er þess eðlis, að myndfundir eiga að geta leyst þá af hólmi.

Myndfundatæknin nýtist við allar aðstæður, þar sem fólk þyrfti ella að koma úr ýmsum áttum á einn stað. Þeim mun dreifðari, sem menn eru venjulega og þeim mun meiri, sem fjarlægðir eru, þeim mun meiri líkur eru á, að myndfundir geti borgað sig.

Almenn útbreiðsla myndfundatækni sparar ferðalög innan lands og utan, nýtir tíma fólks betur og leiðir til almennari þátttöku í fundum, sem skipta máli. Menn munu þó áfram hafna myndfundum í samstarfi á borð við það norræna, þar sem veizlur eru aðalatriðið.

Samgöngutækni fólks er alltaf að breytast. Bíllinn leysti hestinn af hólmi og flugvélin leysti skipið af hólmi. Síminn leysti bréfið af hólmi og nú er stafrænn póstur að ryðja sér til rúms. Sjónvarpið sýnir okkur atburði um leið og þeir gerast hinum megin á hnettinum.

Okkur ber að vera fljót að nýta tækni myndfunda og hvetja samstarfsaðila til hins sama. Til sögunnar er komið nýtt og öflugt samgöngutæki, sem skilar arði.

Jónas Kristjánsson

DV