Greinar

Víðerni allra landsmanna

Greinar

Tafirnar, sem orðið hafa á friðlýsingu vatnasviðs þjóðgarðsins á Þingvöllum, stafa af hagsmunagæzlu fjögurra sveitarfélaga, sem liggja að svæðinu. Þær eru forsmekkur vandamálanna, sem munu skapast, ef aðliggjandi sveitarfélög fá lögsögu á miðhálendi Íslands.

Miðhálendið er ein helzta auðlind þjóðarinnar og samkvæmt dómsúrskurðum að mestu leyti ekki í eigu neins aðila, ekki ríkis, ekki sveitarfélaga og ekki einstakra bújarða. Umhverfisráðherra stefnir að því, að fjörutíu sauðfjár-sveitarfélög fái lögsögu yfir þessu svæði.

Hagsmunir sveitarfélaganna fjörutíu hafa lengst af tengst upprekstri sauðfjár og ofbeit á þessu svæði. Þeir eru algerlega andstæðir þjóðarhagsmunum, sem fyrst og fremst tengjast nýtingu hins ósnortna víðernis sem uppsprettu endurnæringar og gjaldeyristekna.

Ferðamannaþjónusta skiptir okkur meira máli en sauðfjárrækt. Ferðamenn skapa verðmæti, en sauðfé eyðir þeim. Erlendir ferðamenn eru svo mikilvægir, að tekjur af núverandi og fyrirhugaðri stóriðju og orkuverum tengdum þeim blikna í samanburði við þá.

Enn er tími til að koma í veg fyrir lögsögu sveitarfélaganna fjörutíu. Alþingismenn stjórnarflokkanna verða að fara að átta sig á skaðræðisáhrifum núverandi umhverfisráðherra og byrja að vinda ofan af þeim, áður en kemur að skuldaskilum í næstu þingkosningum.

Bezt væri, ef kjósendur í Reykjavík og í Reykjanesumdæmi stilltu þingmönnum sínum upp við vegg og segðu við þá: “Þið hafið löngum leyft ótrúlegustu dreifbýlishagsmunum að vaða uppi. Nú er nóg komið. Við sem kjósendur segjum ykkur öllum upp störfum.”

Fyrirhuguð lögsaga fjörutíu sauðfjár-sveitarfélaga á miðhálendinu er kjörið tækifæri fyrir kjósendur í öðrum sveitarfélögum til að byrja að segja: “Nei, takk, nú verður ekki gengið lengra.” Mismununin í máli þessu er svo augljós, að ekki verður unnt að verja hana.

Við væntanlega og nauðsynlega stefnubreytingu er brýnt, að miðhálendið verði gert að sameign þjóðarinnar allrar, en ekki fjörutíu sveitarfélaga. Það verður bezt gert með lögsögu ríkisins, sem er eini aðilinn í landinu, sem hefur umboð fyrir alla landsmenn.

Ennfremur er brýnt, að ráðamenn fari að átta sig á, að tekjur þjóðarinnar af margvíslegu raski á miðhálendinu vegna orkuvera og stóriðju eru ekki nema hluti af tekjum þjóðarinnar af ferðamönnum, sem fremur vilja sjá ósnortið víðerni en stíflugarða og raforkulínur.

Hingað til hefur Landsvirkjun hagað sér eins og hún eigi miðhálendið. Hún hefur lagt þar línur kruss og þvers. Hún hefur búið til steindauð miðlunarlón með breytilegu vatnsyfirborði og viljað kaffæra alþjóðlega viðurkennd náttúruundur á borð við Þjórsárver.

Frá því að Landsvirkjun var fyrst leyft að leika lausum hala hefur tvennt gerzt í senn. Í fyrsta lagi hefur orðið hugarfarsbreyting, sem felur í sér, að fólk tekur ósnorið víðerni fram yfir stóriðju. Í öðru lagi hafa menn áttað sig á, að tekjudæmið er annað en ætlað var.

Við þetta bætist, að íslenzka ríkið hefur tekið á sig fjölþjóðlegar skuldbindingar um minnkaða losun skaðlegra lofttegunda á borð við þær, sem koma frá stóriðju. Erfitt verður að standa við skriflegu loforðin nema kúvending verði í umhverfismálum landsins.

Undanfarin ár hefur orðið veruleg hugarfarsbreyting þjóðarinnar í umhverfismálum. Þeirrar breytingar þarf nú að fara að sjá stað í stjórnsýslu og lagasetningu.

Jónas Kristjánsson

DV

“Lengi tekur sjórinn við”

Greinar

Óhæfur ríkissaksóknari er ein af orsökum þess, að kærur Hollustuverndar vegna mengunar sjávar hafa verið látnar niður falla hjá embætti hans. Fimm sinnum hefur Hollustuvernd reynt að vekja embættið til aðgerða og jafnoft hefur embættið komið sér hjá aðgerðum.

Óhæft umhverfisráðuneyti er önnur orsök þess, að íslenzkir sjómenn komast upp með að menga hafið, jafnvel í vitna viðurvist. Ráðuneytið hefur ekki stutt sem skyldi við kærumálin, sem Hollustuvernd hefur sent til meðferðar embættis ríkissaksóknara.

Ennfremur hefur ráðuneytið látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að skýrari lögum og reglugerðum, þar sem refsingar séu margfalt harðari en nú gilda. Þær eru nú svo vægar, að ríkissaksóknari getur vísað til þess, að ekki taki því að fá brotamenn dæmda.

Þetta tengist auðvitað þeirri dapurlegu staðreynd, að einn helzti andstæðingur umhverfismála er sjálfur ráðherra umhverfismála, sem jafnframt hefur það hlutverk sem landbúnaðarráðherra að vernda þau gífurlegu umhverfisspjöll, sem enn eiga sér stað í landbúnaði.

Með framgöngu sinni hafa ráðuneyti og ríkissaksóknari látið þau boð út ganga, að það sé í lagi að menga hafið. Það sé í lagi að fleygja grúti í sjóinn. Það sé í lagi að fleygja vírum í sjóinn. Það sé í lagi að skilja net eftir í sjó. Og það sé í lagi að nota eitraða skipamálningu.

Um leið er verið að segja útlendingum, að Íslendingum sé ekki treystandi til að taka þátt í fjölþjóðlegu átaki um verndun hafsins fyrir mengun, svo að það megi hér eftir sem hingað til verða gullkista hollra matvæla. Það er verið að segja, að við séum ólæknandi sóðar.

Auðvitað eru Íslendingar sóðar. Það sést af meðferð úrgangs frá mörgum þéttbýlisstöðum landsins. Um hann gildir hin hefðbundna, íslenzka meginregla: “Lengi tekur sjórinn við”. Meðferð skipstjórnarmanna á úrgangi og rusli er þáttur í þessari íslenzku skaphöfn.

Þótt sjórinn taki lengi við, eru eigi að síður mælanleg áhrif af menguninni. Ólögleg skipamálning, sem er vinsæl hér á landi, hefur þegar skaðað lífríki sjávar hér við land. Með því að fyrirlíta lífsbjörgina með þessum hætti, munum við smám saman eyðileggja gullkistuna.

Um leið erum við að koma óorði á útflutt matvæli sjávarútvegsins. Einhvern tíma kann að koma að því, að valdamiklar stofnanir í útlöndum komi auga á kæruleysi og auðnuleysi Íslendinga í umhverfismálum og leggi stein í götu viðskipta okkar við útlönd.

Alþingi ber í haust að taka á þessari alvarlegu vanrækslu. Setja þarf skýr og hörð lög um mengun sjávar, með ákvæðum um háar sektir og varðhald. Við þurfum í eitt skipti fyrir öll að koma lögum yfir sóða og vernda þannig útflutningshagsmuni okkar til langs tíma.

Ennfremur þarf að breyta stjórnsýslunni á þann veg, að ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar geti ekki haft umhverfisráðuneytið í vasanum í þágu skammtímasjónarmiða. Sérstaklega er mikilvægt, að ráðherra mengunarráðuneytis sé ekki jafnframt umhverfisráðherra.

Einn þáttur þessa séríslenzka blygðunarmáls leysist af sjálfu sér. Núverandi ríkissaksóknari mun láta af völdum í haust og við taka annar, sem væntanlega telur ekki utan verkahrings síns að fylgja eftir kærum út af brotum á lagaákvæðum um spjöll á umhverfinu.

Mestu máli skiptir, að þjóðin fari að komast til þroska og fari að átta sig á, að spakmælið: “Lengi tekur sjórinn við”, er í raun áfellisdómur þjóðarinnar um sjálfa sig.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrefað um mannréttindi

Greinar

Mannréttindi og vestrænn hroki eru leiðarorð í þrefi, sem oft má sjá í samskiptum ríkisstjórna á Vesturlöndum og í þriðja heiminum. Í kjölfar stjórnarskipta í Bretlandi og breytinga á stjórn Bandaríkjanna hafa magnazt vestrænar kröfur um mannréttindi í öðrum álfum.

Nú eru það ekki lengur harðstjórar Afríku, sem eru í fylkingarbrjósti andstöðunnar gegn hinum vestrænu kröfum. Það eru ríkisstjórnir nýríkra landa í Suðaustur-Asíu, sem andmæla Vesturlöndum og beita yfirvegaðri málflutningi, en áður tíðkaðist í þessum efnum.

Til skamms tíma var notuð röksemdin um, að íbúar hvers þróunarríkis yrðu að standa saman til að þróa landið. Þeir hefðu ekki efni á sundrungunni, sem fylgdi vestrænu lýðræði, heldur bæri þeim að fylkja sér um hinn sterka leiðtoga, er mundi leiða þær fram á veg.

Ljóst var, að kenningin var ekkert annað en yfirvarp á tilraunir harðstjóra þriðja heimsins til að fá að vera í friði við að kúga þjóðir sínar, ræna verðmætum þeirra og koma illa fengnum peningum á bankareikninga í Sviss. Kenningin hefur enda lengi legið dauð og grafin.

Ríkisstjórnir Suðaustur-Asíu vísa hins vegar í menningararf í þeim heimshluta, sem sé öðru vísi en hinn vestræni. Ekki sé þar hefð fyrir því, að einstaklingurinn sé þungamiðja heimsins, heldur sé það samfélagið. Þar sé fólki eðlilegt að vera þegnar fremur en borgarar.

Um nokkurra ára skeið hafa valdhafar í Singapúr verið helztu hugmyndafræðingar andófsins gegn mannréttindakröfum, valdhafar í Malasíu helztu slagsmálamenn hennar, valdhafar í Indónesíu helztu fýlupokar hennar og valdhafar í Kína helztu dólgar stefnunnar.

Með vaxandi efnahagsgengi slíkra ríkja hefur ráðamönnum þeirra vaxið sjálfstraust til að standa uppi í hárinu á ráðamönnum Vesturlanda, þegar þeir eru að amast við mannréttindabrotum í harðstjórnarríkjum á borð við Indónesíu, Kambódsíu, Kína og Burma.

Þessi og önnur ríki Suðaustur-Asíu skáka óþarflega mikið í skjóli viðskiptahagsmuna vestrænna fjárfesta, sem vilja ekki, að Vesturlönd séu að efna til úlfúðar við góð fjárfestingarríki. Einnig láta þessi ríki bera fé í bandaríska kosningasjóði til að kaupa sér frið.

Ráðherrar í Malasíu segja, að sáttmálar Sameinuðu þjóðanna hafi verið orðaðir á tíma, þegar Vesturlönd réðu þar lögum og lofum. Þeir endurspegli vestræn viðhorf, sem ekki séu algild. Sáttmálar þessir yrðu orðaðir á allt annan veg, ef nú væri verið að semja þá.

Hugmyndafræðingar Vesturlanda segja hins vegar það vera algilt lögmál, að fólk eigi að vera frjálst sem einstaklingar. Menn eigi að fá óttalaust að segja meiningu sína, taka þátt í hvers konar samtökum, eiga aðgang að fjölbreyttum upplýsingum og stunda trú sína.

Ýmsir aðrir menningarheimar en hinn vestræni eru sammála þeim sjónarmiðum, sem ráðherrar í Malasíu og Singapúr segja vestræn. Sjónarmiðin í Indlandi eru svipuð hinum vestrænu og sama má segja um Japan, þótt þar vilji menn sízt af öllu styggja nágranna sína.

Það einkennir einmitt heimssögu síðustu ára, að þjóðir Austur-Evrópu og Suður-Ameríku hafa í stórum stíl varpað af sér oki harðstjóra og skipað mannréttindum til hásætis að nýju. Í þeim heimshlutum eru slík sjónarmið ekki talin bara vestræn, heldur algild.

Vesturlönd eiga ekki að slá af mannréttindakröfum. Hugmyndafræði þeirra er á sigurbraut, enda er hún forsenda langvinnrar hagsóknar og annarra framfara.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitíkusar verja gæludýrin

Greinar

Viðskiptaráðherra hefur ekki skoðun á, hvort það séu óeðlilegir viðskiptahættir olíufélaganna að bjóða annars vegar öll sama benzínverð upp á eyri og hins vegar að rýma hvert fyrir öðru á Austurlandi og Norðausturlandi, þannig að eitt félag verði eftir á hverjum stað.

Viðskiptaráðherra telur raunar líklegast, að um eðlilega hagræðingu sé að ræða. Samt eru aðgerðir olíufélaganna þess eðlis, að þær eru til þess fallnar að draga úr þörfum olíufélaganna á hagræðingu til að geta boðið viðskiptamönnum sínum lægra verð en áður.

Þótt ekki sé ljóst, um hvers konar hagræðingu ráðherrann er að tala, þá er það örugglega ekki sú hagræðing, sem felst í, að þjóðarhagur batni með lægra benzínverði. Til dæmis er ekki um að ræða ódýrari yfirbyggingu, sem ætlað er að skila sér í lægra vöruverði.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis er enn kátari en ráðherrann, því að hann telur aukna samkeppni hafa leitt til minni samkeppni. Olíufélögin séu að loka benzínstöðvum til að spara kostnað á móti öðrum kostnaði, sem þau hafi orðið fyrir í harðri keppni.

Hann telur ekki vera um skipulega markaðsskiptingu að ræða, þótt olíufélögin rými hvert fyrir öðru og kaupi jafnvel eigur hvert annars í því skyni, að einungis eitt olíufélag verði eftir á hverjum stað. Raunar hafnar hann algerlega kenningunni, að um samráð sé að ræða.

Í ofanálag telur formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að mikil samkeppni sé milli olíufélaganna um viðskipti, þótt benzínverðið sé hið sama. Vísar hann til punktakorta þeirra, sem Neytendasamtökin hafa gagnrýnt og bönnuð hafa verið á Norðurlöndum.

Formaðurinn telur semsagt, að aukin samkeppni felist í sjónhverfingum, sem stjórnvöld á Norðurlöndum telja fjandsamlegar samkeppni. Hann telur aukna samkeppni felast í sjónhverfingum, sem Neytendasamtökin hafa fordæmt sem óhagstæðar fyrir valfrelsi neytenda.

Viðhorf viðskiptaráðherra og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis endurspeglar viðhorf tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins, sem áratugum saman hafa gætt hagsmuna olíufélaganna og varðveitt þau fyrir innrás heilbrigðra markaðslögmála.

Röksemdir ráðherrans og formannsins eru botnlaus þvæla, sem vonandi vekur athygli neytenda á þeirri óeðlilegu stöðu, að stjórnmálaflokkarnir eru í leyni fjármagnaðir af stórfyrirtækjum, sem þiggja að launum vernd stjórnmálanna og stuðning til fáokunar.

Mistekizt hafa allar tilraunir til að setja lög um opið bókhald og opnar viðskiptamannaskrár stjórnmálaflokkanna, af því að slík opnun mundi sýna kjósendum fram á samhengið milli gjafmildi nokkurra stórfyrirtækja og pólitískra ákvarðana, sem eru þeim í hag.

Þjónustulund stjórnmálamanna á borð við formann efnahags- og viðskiptanefndar og viðskiptaráðherra endurspeglast síðan hjá ýmsum stofnunum, sem reynzt hafa hallar undir bræðralag fyrirgreiðslukerfisins. Þannig lætur Samkeppnisstofnun olíufélögin í friði.

Samkeppnisstofnun sá ekkert athugavert við, að Olíufélagið keypti Olíuverzlunina og hefur ekkert gert í kæru Neytendasamtakanna vegna verðlagningar olíufélaganna á benzíni, sem er hin sama upp á eyri. Hún er ekkert að flýta sér, þegar um gæludýrin er að ræða.

Viðbrögð stjórnmálamanna og eftirlitsstofnunar segja skýra sögu um þriðja heims þjóðfélag, sem er gegnsýrt af fyrirgreiðslum í þágu gæludýra kerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Ísraelsmenn vilja blóð

Greinar

Ástandið í Palestínu verður að versna, áður en það byrjar að batna. Framferði Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum þarf að byrja að ganga fram af Bandaríkjamönnum, eins og það er farið að ganga fram af Evrópumönnum. Bandarískri fjármögnun Ísraels þarf að linna.

Hingað til hefur Ísrael verið haldið hernaðarlega og efnahagslega á floti með bandarísku fé. Stuðningurinn stafar af, að bandarískir fjölmiðlar eru hallir undir Ísrael og að bandarískir pólitíkusar hafa slæma reynslu af að ögra þrýstihópum stuðningsmanna Ísraels.

Jafnframt þurfa Palestínumenn að losna við Arafat sem leiðtoga. Komið hefur í ljós, að hann getur ekki stjórnað Palestínu vegna spillingar í hirð hans, vegna hirðuleysis hennar um hefðbundinn embættisrekstur og vegna óbeitar hans á nauðsynlegri valddreifingu.

Ófriðarferlið í Palestínu stefnir í rétta átt. Opinskár ofbeldismaður í stjórnmálum hefur tekið við af lævísum samningamanni sem forsætisráðherra Ísraels. Netanyahu hefur tekið við af Peresi og stefnir ótrauður að blóðugu uppgjöri milli Ísraela og Palestínumanna.

Netanyahu hefur brotið flest ákvæði samkomulagsins í Ósló um friðarferli í Palestínu. Hann hefur reynt að ögra Palestínumönnum sem mest hann má, meðal annars með því að endurnýja landnám Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum, gegn mótmælum umheimsins.

Enn fremur heldur hann fyrir stjórn Palestínumanna veltusköttum, sem stjórn hans hefur innheimt á hennar vegum. Þetta kemur ofan á endurtekið viðskiptabann og hefur rústað fjárhag Palestínu, sem var þó bágur fyrir, einkum vegna efnhagshryðjuverka Ísraelsstjórnar.

Mestu máli skiptir þó, að hann er að reyna að beygja Arafat í duftið. Það gerir hann með hertum kröfum um, að Arafat sjái um, að almennt verði hafðar hendur í hári stuðningsmanna Hamas-hreyfingarinnar, sem hefur stutt hryðjuverk af hálfu einstakra Palestínumanna.

Þetta getur Arafat ekki, enda er ástandið þannig, að hryðjuverk eru ofur skiljanleg og eðlileg viðbrögð langkúgaðrar þjóðar gegn hernámsliði helzta fasistaríkis nútímans. Ef Arafat lætur handtaka stjórnarandstæðinga holt og bolt, er hann búinn að vera sem þjóðarleiðtogi.

En Arafat er hvort sem er búinn að vera. Hann hefur gert samninga við hernámsríki, sem það hefur ekki staðið við. Hann stendur uppi sem hálfgerður leppur Netanyahus. Í vaxandi mæli styðst hann við hirð sína og leyniþjónustu, en ekki við almenningsálitið í landinu.

Búast má við, að Hamas-hreyfingin taki smám saman við sem málsvari Palestínu. Hún mun mæta Likud-hreyfingu Netanyahus á nótum, sem hún skilur. Það verður ofbeldi gegn ofbeldi. Þegar það ferli hefur verið leitt til enda, getur friðarferli loksins hafizt að nýju.

Arafat dugði aðeins, þegar við Peres var að semja. Þar stóð samningarefur gegn samningaref. Ef þeir hefðu fengið tækifæri til að halda áfram að þrúkka um málið, hefði Palestínumálið hugsanlega fengið farsælan endi. En það vildu kjósendur í Ísrael ekki. Þeir kusu blóð.

Með því að velja opinskáan ofbeldismann sem forsætisráðherra valdi Ísrael ófriðarferli, sem enn er rétt að byrja. Hryðjuverkum á eftir að fjölga á báða bóga. Arafat mun smám saman missa tökin og Netanyahu mun halda áfram að niðurlægja hann og þjóð hans.

Þetta mun smám saman leiða til styrjaldar eða ígildi styrjaldar. Að því blóðbaði loknu verða menn loksins orðnir svo þreyttir, að nýtt friðarferli getur hafizt.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykur er fitandi fíkniefni

Greinar

Nýjar rannsóknir í Bandaríkjunum benda til, að sykur sé vanabindandi fíkniefni, sem valdi svipuðu boðefna- rugli í heilanum og önnur fíkniefni. Þeir, sem ánetjast sykri finnst sig vanta því meiri sykur sem þeir borða meiri sykur. Þetta er vítahringur fíkniefnanna.

Þetta styður fyrri kenningar um, að sykur sé einn helzti orsakavaldur offitu, sem er að verða eitt dýrasta heilbrigðisvandamál nútímans. Á mörgum meðferðarstofnunum offitu í Bandaríkjunum er farið að líta á stöðvun sykurneyzlu sem lykil að góðum árangri.

Offita er ekki það eina, sem sykurinn hefur á samvizkunni. Rannsóknir Helga Valdimarssonar prófessors benda til, að sykur sé veigamikill þáttur í sveppaóþoli, sjúkdómi, sem hefur valdið langri píslargöngu manna milli ótal sérfræðinga, sem ekki hafa skilið vandann.

Lengi hefur verið vitað, að sykur skemmir tennur. Þeir, sem hafa séð tennur tærast upp í glasi með gosi, geta í framhaldi af því spurt sjálfa sig að því, hvort ekki sé líklegt, að svona öflugt tæringarefni geti haft áhrif víðar í líkamanum en á tennurnar einar.

Þessi heilsuvandamál og ýmis önnur af völdum sykurs blikna við hlið hinna nýju upplýsinga um, að hann sé fíkniefni ofan á annað. Framleiðendur ýmissa matvæla hafa þó lengi ekki velkzt í neinum vafa um, að það auki viðskiptin að bæta sykri í matvælin.

Til þess að gera mjólkurvörur seljanlegri er bætt í þær 5­10% sykri ofan á þann mjólkursykur, sem fyrir er í vörunni. Slíkar fíkniefnablöndur mjólkur eru kallaðar fínum og sakleysislegum nöfnum á borð við skólajógúrt, skólaskyr, ávaxtajógúrt og ávaxtaskyr.

Til þess að gera morgunkorn seljanlegra er bætt í það sykri, allt að 47% af innihaldi pakkanna í algengum tegundum morgunkorns. Þetta er auðvitað ágætis aðferð til að gera fólk að fíkniefnaneytendum strax á barnsaldri, löngu fyrir aldur tóbaks, áfengis og amfetamíns.

Foreldrar, sem gefa börnum sínum þessar mjólkurvörur með þessu morgunkorni, gætu alveg eins gefið þeim brjóstsykur út á súkkulaði í morgunmat. Sykurmagnið er svipað og óhollustan svipuð. Þannig stuðla foreldrar óafvitandi að offitu og öðrum sykursjúkdómum barna.

Í matvörubúðum á Íslandi er leitun að pakkavöru, dósavöru eða glasavöru, sem inniheldur viðbættan sykur í minna magni en 1%. Yfirleitt er innihaldið margfalt meira. Það þýðir, að sykurinn er ekki lengur notaður bara sem krydd, heldur er hann hluti vörunnar.

Verst af öllu er gosið, sem er meira en 99% sykur að þurrefni. Neyzla á gosi hefur þrefaldazt hér á landi á þremur áratugum. Algengt er orðið, að sjá börn ganga um götur með heils og hálfs lítra flöskur af gosi á sama hátt og fyrirrennarar þeirra gengu um með sígarettur.

Ef frá er dreginn sykur, sem notaður er í útflutningsiðnaði og sykur, sem af náttúrulegum ástæðum er í mjólkurvörum og ávöxtum, notar hver einstaklingur eitt kíló af viðbættum sykri á viku. Sumir nota miklu meira, því börn og gamalmenni eru meðtalin.

Þessi mikla notkun á viðbættum sykri þýðir, að Íslendingar eru í öðru sæti í heiminum í ofneyzlu sykurs, næstir á eftir Bandaríkjamönnum. Í báðum þessum löndum eru offita og offitusjúkdómar eitt alvarlegasta og dýrasta heilbrigðisvandamál líðandi stundar.

Aukin þekking á afleiðingum notkunar á fíkniefninu sykri mun vafalítið leiða til stórtækra og víðtækra gagnaðgerða á Vesturlöndum á allra næstu árum.

Jónas Kristjánsson

DV

Með fjárreiður undir borði

Greinar

Djarfar tilraunir olíufélaganna til að skipta markaðinum milli sín með því að víkja hvert fyrir öðru á Austfjörðum vekja lítil viðbrögð embættismanna og stjórnmálamanna. Það stafar ekki aðeins af sofandahætti, heldur af gamalgróinni velvild í garð gjafmildra.

Stjórnmálaflokkar hér á landi, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, eru mjög háðir beinum og óbeinum framlögum stórfyrirtækja. Oft hefur verið reynt að fá upplýsingar um þessi mál upp á borðið, en ekki tekizt vegna eindreginnar andstöðu flokkanna.

Við erum eftirbátar annarra vestrænna þjóða á þessu sviði. Í löndum á borð við Bandaríkin og Þýzkaland eru reikningar og viðskiptamannayfirlit flokkanna opin skjöl, sem allir mega sjá. Þetta er þar talið vera eðilegur þáttur í gegnsæju þjóðfélagi markaðsbúskapar.

Í vestrænum ríkjum er talið eðlilegt, að stjórnmálaflokkar séu styrktir, þar á meðal af stórfyrirtækjum. Skilyrði fyrir slíku er hins vegar, að þessi fjárhagslegu hagsmunatengsli séu ekki falin undir borði, heldur séu þau uppi á borði, öllum sýnileg, sem sjá vilja.

Hér er verið að tala um bein framlög og óbein framlög á borð við kaup á happdrættismiðum, útvegun á aðstöðu, afslátt af viðskiptum, ef þetta er í stórum stíl, en ekki verið að eltast við lágar upphæðir, sem stjórnmálaflokkanir fá frá venjulegum einstaklingum.

Þetta er raunar brýnna hér á landi, þar sem markaðskerfið er skemmra á veg komið og þar sem stjórnmálaflokkarnir hafa fleiri tækifæri til að misnota aðstöðuna í þágu sinna beztu vina. Við búum enn við einkaleyfi, sérleyfi, kvóta og aðra pólitíska ofanstýringu.

Andstaða íslenzkra stjórnmálaflokka gegn opnu bókhaldi byggist eingöngu á ótta við, að fólk sjái samhengi milli beins og óbeins fjárstuðnings annars vegar og einkavinavæðingar, sérhannaðrar mismununar, sérleyfa og annarrar séríslenzkrar spillingar.

Af sama toga er andstaða flokkanna við aðild landsins að Evrópusambandinu. Því meira, sem landið dregst inn í almennar heilbrigðisreglur markaðarins, þeim mun minni séríslenzka spillingu er unnt að stunda. Þannig hafa flugfarseðlar orðið miklu ódýrari en þeir voru.

Engar slíkar framfarir í atvinnulífinu og í stöðu neytenda eru frá íslenzkum stjórnmálaflokkum runnar, heldur er umbótunum beinlínis þröngvað upp á þá í krafti fjölþjóðlegra skuldbindinga, sem ríkisvaldið neyðist til að taka á sig í samfélagi evrópskra ríkja.

Því meira sem við bindumst Evrópu, þeim mun meira þrengist svigrúm íslenzkra stjórnmálaflokka til að misnota lög og reglugerðir og opinberar stofnanir til að sinna gæludýrum kerfisins. Þess vegna eru flestir helztu stjórnmálamenn landsins andvígir aukinni Evrópuaðild.

Meðan íslenzkir kjósendur láta ekki hart mæta hörðu og refsa ekki stjórnmálaflokkum með lokað bókhald og lokaðar viðskiptamannaskrár, munu flokkarnir halda gögnum þessum lokuðum. Meðan kjósendur vilja éta það, sem úti frýs, verða þeir látnir éta það, sem úti frýs.

Engin efnisleg svör hafa verið gefin við gagnrýni á lokaða kerfið. Eina vörnin er, að það sé ljótt af mönnum að treysta ekki stjórnmálaflokkunum til góðra verka. Engin skýring fæst á því, hvers vegna ekki má haga fjárreiðum flokkanna í stíl við það, sem gerist erlendis.

Meðan kjósendur leyfa flokkunum að hafa fjármál sín í felum, geta gjafmild stórfyrirtæki komið sér saman um að brjóta siðalögmál markaðsbúskaparins.

Jónas Kristjánsson

DV

Austfjörðum skipt upp

Greinar

Olíufélögin þrjú eru farin að skipta landinu milli sín með því að hliðra hvert fyrir öðru á Austfjörðum. Þannig hefur þeim fækkað úr þremur í eitt á Vopnafirði, í Neskaupstað, á Eskifirði og á Fáskrúðsfirði. Á hverjum stað situr eftir félagið, sem þar hefur mesta veltu.

Augljóst er, að þjónusta við neytendur minnkar, þegar olíufélögum fækkar úr þremur í eitt. Þetta er eitt af helztu lögmálum markaðarins og kemur ekkert við því, hvort ráðamenn félaganna séu góðir í sér eða ekki. Olíufélögin eru að auka leti sína á kostnað neytenda.

Samkvæmt lögmálum markaðarins eru olíufélögin ekki að hagræða með þessu. Þau eru þvert á móti að spara sér hagræðingu með því að koma upp einokun á fleiri stöðum á landinu. Með einokun þurfa þau ekki að gæta sama aðhalds í rekstri og þau þyrftu ella að gera.

Olíufélögin hafa komið á fót einokun á fjórum stöðum á Austfjörðum, þrátt fyrir vaxandi umræðu um fáokun félaganna og einokunarhneigð þeirra. Það segir þá sögu, að forráðamenn þeirra hafa ekki umtalsverðar áhyggjur af umræðunni og telja sig munu geta gengið enn lengra.

Vegna eignarhalds Olíufélagsins í Olíuverzluninni er tæpast unnt að tala um, að félögin séu meira en tvö og hálft hér á landi. Þau reka aðeins tvö dreifikerfi og aðeins eina heildsölu á gasi. Samráð þeirra eru víðtæk og hafa farið ört vaxandi, svo sem sést á Austfjörðum.

Með óbeinni aðstoð Samkeppnisstofnunar komu þau í veg fyrir, að kanadískt olíufélag haslaði sér völl hér á landi. Eini opinberi aðilinn, sem reyndi að verja heilbrigða samkeppni við það tækifæri var Reykjavíkurborg, sem lofaði kanadíska félaginu benzínstöðvalóðum.

Fyrir daga Reykjavíkurlistans höguðu félögin sér eins og þau ættu borgina. Sem dæmi um það má nefna benzínstöð Skeljungs í Öskjuhlíð, sem átti að grafa inn í landið, svo að hún skyggði ekki á það. Voldug, gul ljósarönd á súlum tryggir hins vegar, að stöðin æpir í landslaginu.

Borgin gerði ekkert við þessu augljósa broti á skilmálum, enda lifir Sjálfstæðisflokkurinn á peningum frá fyrirtækjum á borð við olíufélögin. Raunar má líta á fleiri stjórnmálaflokka sem pólitískan arm þeirra fyrirtækja, sem standa undir miklum hallarekstri flokkanna.

Skýrasta dæmið um samráð olíufélaganna gegn hagsmunum neytenda, gegn hagræðinu og gegn heilbrigðri samkeppni er verðið á benzíni, sem er eitt og hið sama hjá félögunum öllum. Tölfræðilega er útilokað, að slíkt geti gerzt, án þess að um náin samráð sé að ræða.

Samkeppnisstofnun hefur hingað til ekki lagt til atlögu við þennan einokunarhring. Hún er langtímum saman að fúska við skoðun á benzínverði og getur ekki svarað fyrirspurnum um, hvar á vegi sú skoðun sé. Hún er einfaldlega hrædd við pólitísk völd olíufélaganna.

Þjóðhagsleg áhrif samráðs olíufélaganna eru, að þau þurfa ekki að megra sig í heilbrigðri samkeppni, heldur fita reksturinn í skjóli fáokunar og einokunar. Þannig verður framleiðni olíuverzlunar minni en hún væri ella. Þetta hefur neikvæð áhrif á landsframleiðnina í heild.

Sorglegast við þetta er, að það er þjóðin sem hefur valið sér það ástand í olíuverzlun, sem hún á skilið. Þjóðin styður til dæmis stjórnmálaflokka, sem neita að birta reikninga sína, af því að þar kemur fram, að þeir lifa að mestu á stórfyrirtækjum á borð við olíufélögin.

Olíusala á Íslandi er þáttur í vítahring umfangsmikils spillingarvefs, sem ekki fengi staðizt, ef íslenzkir kjósendur væru ekki kúgaðir og værukærir aumingjar.

Jónas Kristjánsson

DV

Illskárri vansæmdarhátíð

Greinar

Útihátíðahöld fóru ekki eins illa fram um þessa verzlunarmannahelgi og undanfarin ár. Þau fóru ekki vel fram, en minna var um alvarlegustu þættina, svo sem líkamsmeiðingar og nauðganir. Enn eru þau samt blettur á þjóðinni allri, sem lætur þau yfir sig ganga.

Áður fólust útihátíðahöld þessarar helgar einkum í drykkjuskap. Nú hefur bætzt við neyzla fíkniefna, sem framar öðru einkenndi helgina. Hvort tveggja ber að sama brunni. Það eru tilraunir til að deyfa heilann og komast í meint sæluástand, sem felst í minnisleysi.

Þótt barsmíðum hafi blessunarlega fækkað um verzlunarmannahelgina, heldur fólk áfram að skríða um á fjórum fótum í spýju sinni og halda að lokum heim í ömurlegum timburmönnum, hafandi skilið eftir dýran farangur sinn á tvist og bast um mótssvæðið.

Á mörgum hátíðasvæðum hafa yfirvöld lært af reynslu fyrri ára og lögðu nú hart að sér við að draga úr verstu afleiðingum hátíðahaldsins. Það breytir ekki því, að kjarni vandans er hinn sami og áður, að Íslendingar telja brýnt að afklæðast persónuleikanum.

Í alþjóðlegum samanburði er sérkennilegt, að Íslendingar séu svo innilokaðir persónuleikar, að þeir þurfi að missa ráð og rænu til að telja sig hafa skemmt sér. Slíkt er víðast hvar svo sjaldgæft, að erlendis er skrifað um Íslendinga sem sérkennilega bjánaleg fyrirbæri.

Deyfilyf á borð við áfengi og fíkniefni hafa fyrst áhrif á heilann og síðan á hreyfingar. Vegna skertrar dómgreindar telja neytendur þessara deyfilyfja sig fljótlega vera afar skemmtilega og í miklu stuði, þótt allsgáðir áhorfendur sjái ekki annað en aumkunarverð slytti.

Meðal frumstæðra þjóða hefur tíðkazt, að börn væru vígð inn í heim fullorðinna með því að þola skipulagða þraut og pín. Hér á landi virðast drykkjuhátíðir hafa eins konar hlutverk manndómsprófraunar. Allir verða að hafa lifað af eina hátíð til að geta talizt fullorðnir.

Markmið hátíðahalda verzlunarmannahelganna er að græða peninga á persónulegum vanmætti ungs fólks. Heimamenn á stöðum á borð við Akureyri og Vestmannaeyjar þola þessar hátíðir, af því að þær valda mikilli kaupsýslu á svæðinu. Gróðafíknin ræður ferð.

Þegar upp er staðið, reyna aðstandendur hátíðahaldanna að breiða yfir staðreyndir málsins. Þeir leggja áherzlu á, að í þetta sinn hafi betur tekizt til en áður, þótt eingöngu sé um að ræða misjafnlega vondar hátíðir, öllum þeim til skammar, sem nálægt komu.

Undantekningar eru á þessu eins og öðru, einkum þar sem hátíðahöld eru beinlínis fyrir vímuefnalaust fólk. Þangað sækja raunar margar fjölskyldur til að fá að vera í friði með sig og sína fyrir vesalingunum, sem telja sig vera afar skemmtilega og jafnvel í rosalegu stuði.

Vandi verzlunarmannahelgarinnar er auðvitað í þjóðararfleifðinni. Kynslóð eftir kynslóð er talið vera í lagi, að fólk sé illa drukkið heima hjá sér, þar sem börnin horfa á. Um allar helgar er lögreglan á þönum milli húsa til að stilla til friðar milli drukkinna hjóna.

Íslendingar hafa á þremur kynslóðum skotizt út úr þjóðháttum miðalda inn í tæknivæddan nútíma. Okkur hefur ekki tekizt að laga okkur að breytingunni til jafns við aðrar þjóðir, sem fengu meiri tíma. Ein afleiðinga þessa er, að við höfum ekki lært að umgangast áfengi.

Ráðamönnum landsins ber að taka saman höndum með skynsömu fólki til að breyta okkar eigin viðhorfum, svo að umheimurinn hætti að líta niður á Íslendinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Sveigjanlegt forsetaembætti

Greinar

Vonandi dettur ráðamönnum Walt Disney aldrei í hug, að gera teiknimynd í Pocahontas-stíl um Snorra Þorfinnsson, sem fæddist á Vínlandi og fluttist árinu síðar til Grænlands. Þeir yrðu þó ekki í vandræðum með að þenja fyrsta æviárið hans upp í ofurvæmna sögu.

Pocahontas-teiknimyndin fer í öllum atriðum með sagnfræðilega rangt mál. Ef svipuð mynd væri gerð um Snorra, yrði sagnfræðinni ekki síður kastað fyrir róða. Ef myndin yrði síðan fræg, yrðum við í ofanánlag að lifa okkur inn í gerbreytta söguskoðun úr Hollywood.

Auðvitað dettur engum þetta í hug, enda ráða önnur sjónarmið ráðagerðum teiknimyndaframleiðenda en símtöl frá forsetum Bandaríkjanna eða Íslands. En málið sýnir þó, að forseti okkar hefur svo góðan virðingarkvóta, að menn grínast ekki að honum fyrir það.

Að öðru leyti hefur Ólafur Ragnar Grímsson verið í essinu sínu á heimavelli í útlöndum. Ferðalög til erlendra stórmenna liggja miklu nær eðli hans en ferðalög til kjósendanna utan Reykjavíkursvæðisins. Hann verður til fyrirmyndar sem yfirsendiherra þjóðarinnar.

Þannig bætir frambærilegur forseti stöðu landsins gagnvart útlöndum, þegar aðrir ráðamenn landsins reynast fremur litlir fyrir sér á erlendum vettvangi. Forsetinn talar aldrei upp til neins og hefur lag á að ræða alvörumál kumpánlega og af festu í senn.

Fyrir Íslendinga er þetta fyrst og fremst tækifæri til að nýta hæfileika manns, sem ekki er aðeins fyrirmannlegur í allri framgöngu, heldur ræktar af natni sambönd við aðra fyrirmenn úti um allan heim og hefur alla sína tíð unnið heimavinnuna sína upp á tíu komma núll.

Óneitanlega skyggir framtak forsetans óbeint á utanríkisráðherra, sem að undanförnu hefur einnig mátt sæta því, að forsætisráðherra fjallaði í auknum mæli um utanríkismál. Segja má því, að nú sé sótt að verksviði utanríkisráðherra úr tveimur áttum í senn.

Athyglisvert er, að forsetinn hitti forseta og varaforseta Bandaríkjanna í einkaheimsókn, en ekki í opinberri heimsókn, skipulagðri í utanríkisráðuneytinu við Hverfisgötuna. Þetta hefur valdið sárindum í ráðuneytinu, sem ekki hefur þvílík sambönd í útlöndum.

Forsætisráðherra hefur ákveðið að styðja framgöngu forseta Íslands í Washington, þótt hún sé hvorki hönnuð við Hverfisgötu né Lækjartorg. Ráðherrann veit af greind sinni, að forsetinn þekkir utanríkisstefnuna og kann nógu vel til verka til að fara ekki út af sporinu.

Ef ríkisstjórnin ber gæfu til að nýta hæfileika Ólafs Ragnars Grímssonar sem yfirsendiherra þjóðarinnar, hefur hún tækifæri til að láta gæta betur en ella hagsmuna þjóðarinnar í margvíslegum utanríkismálum, sem hafa verið að steðja að, einkum frá Evrópu.

Við þurfum greinilega að ná betri tökum á endurteknum hagsmunaárekstrum okkar við Norðmenn og við þurfum sífellt að gæta hagsmuna okkar í flóknum samskiptum við Evrópusambandið. Aðferðir ráðuneytis og ráðherra hafa dugað skammt að undanförnu.

Þetta er ekki spurning um, hver skyggir á hvern, heldur hvernig ólíkir hæfileikar nýtast á mismunandi hátt við fjölbreyttar aðstæður. Eftir frægðarför forsetans til Bandaríkjanna kemst ríkisstjórnin raunar ekki hjá því að gera forsetann að yfirsendiherra þjóðarinnar.

Forsetaembættið er svo skemmtilega loðið, að jafnan er unnt er að laga framkvæmd þess að sérstökum hæfileikum þess, sem því gegnir á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóriðja er úrelt

Greinar

Stjórnvöld hafa gert hlé á tilraunum sínum til að draga stóriðju inn í landið. Þetta hefur ekki fallið í kram heimamanna á ýmsum stöðum, sem taldir eru líklegir til stóriðju, einkum á Reykjanesskaga. Þeir reyna að þrýsta stjórnvöldum til að endurskoða hægaganginn.

Þótt stóriðja beri yfirleitt björg í bú, eru á henni ýmsir vankantar, sem hafa þarf í huga, sérstaklega þegar uppgangur er í atvinnulífinu. Engan veginn er öruggt, að stóriðja sé við allar aðstæður sú búbót, sem áhugamenn og baráttumenn stóriðju vilja vera láta.

Skiljanlegur er áhugi heimamanna á skjótum framgangi ráðagerða um stóriðju í héraði. Fyrst veldur undirbúningur stóriðjunnar miklum uppgripum heimamanna og síðan veitir rekstur hennar trausta vinnu og útsvör, sem skipta máli í fámennum sveitarfélögum.

Á landsvísu eru áhrifin ekki svona hagstæð. Byggingu stóriðjuvera fylgir bygging orkuvera. Samanlagt valda framkvæmdirnar sveiflu í atvinnulífinu. Skyndilega verður mikið framboð atvinnutækifæra, sem minnkar síðan jafn skyndilega aftur. Þetta hvetur verðbólguna.

Þar á ofan sýnir reynslan, að stóriðja verður seint náttúrulegur þáttur atvinnulífsins. Hún tengist lítt öðrum þáttum þess. Hún stendur að mestu utan víxlverkana atvinnulífsins og situr ein út af fyrir sig í fílabeinsturni fjarlægra fjölþjóðafyrirtækja.

Einn helzti galli stóriðjunnar er, að hún á sér ekki rætur í þjóðfélaginu eða markaðshagkerfinu. Hún verður ekki til fyrir tilverknað markaðsafla í frjálsu hagkerfi. Hún verður til fyrir staðfestingu Alþingis á samningum ríkisstjórnar við erlend fjölþjóðafyrirtæki.

Stóriðjan kemur að ofan með vinnubrögðum frönsku kaupauðgisstefnunnar frá átjándu öld. Hún er þáttur í úreltu hagkerfi ríkisforsjár, sem hefur lifað lengur hér á landi en annars staðar vegna stjórnmálaflokka, sem allir eru kreppuflokkar í stíl Framsóknarflokksins.

Stjórnvöld á Vesturlöndum sækjast ekki lengur eftir stóriðju. Hún er eftirlátin þriðja heiminum, þar sem menn eru svo örvæntingarfullir, að þeir líta fram hjá hliðarvandamálum. Vesturlönd vilja fremur sinna atvinnuvegum á borð við hátækni og tölvutækni.

Þar að auki samrýmist stóriðjan oft illa ýmsum markmiðum, sem vestræn ríki hafa sett sér í mengunarvörnum. Þess vegna er verið að rífa stóriðjuver á Vesturlöndum og setja þau að nýju saman í fátæku löndunum, þar sem mengun er ekki enn orðin að hugtaki.

Þannig er rifið álver í háþróuðu ríki á borð við Þýzkaland og sett upp að nýju í þróunarríki á borð við Ísland. Það er ekki fyrr en eftir slíka samninga, að íslenzkir ráðherrar byrja að klóra sér í höfðinu vegna vanefnda sinna á mengunarmarkmiðum sínum frá Ríó-fundinum.

Framganga íslenzkra stjórnvalda í stóriðjumálum minnir á ríki, sem ramba á jaðri norðurs og suðurs í þróuninni. Öðrum þræðinum keppast þau við að selja landið sem lóð undir stóriðju. Hinum þræðinum eru þau farin að átta sig á, að stóriðja er ekki ókeypis.

Á uppgangstíma næstu ára mun stóriðja eiga undir högg að sækja. Fólk mun auka umhverfiskröfur og þrýsta stjórnmálamönnum til að gæta betur að umhverfinu en áður. Og fólk mun öðlast meiri trú á lausnir frjálsa markaðarins en lausnir stóriðjusamninga.

Af þessum ástæðum hefur nú verið gert hlé eftir umdeilda ákvörðun um flutning gamals álvers til Grundartanga. Þetta lofsverða hlé má standa lengi.

Jónas Kristjánsson

DV

Skaðleg friðaræfing

Greinar

Almannavarnaæfing Atlantshafsbandalagsins á Íslandi hefur aðeins táknrænt gildi. Hún leiðir saman hermenn frá löndum bandalagsins og löndum Varsjárbandalagsins sáluga, þeim sem hafa komizt eða vilja komast í Nató og hinum sem ekki hafa slíkt í hyggju.

Æfingin er táknræn fyrir það óvenjulega ástand, að í fyrsta skipti í margar aldir eru stórveldi Evrópu hvorki í stríði hvert við annað né að undirbúa slík stríð. Hún er táknræn fyrir, að loks er runnin upp öld friðar í Evrópu. Köldu stríði er lokið og heit stríð ekki á dagskrá.

Hér eftir verður ekki farið í stríð í Evrópu um fyrirsjáanlega framtíð. Ýmsar staðbundnar skærur verða áfram, sérstaklega á Balkanskaga, þar sem villiþjóðir vaða enn á súðum af orðlagðri grimmd. En liðin er sú tíð, að morð í Sarajevó kalli á styrjöld um Evrópu alla.

Vegna Balkanskaga má búast við, að áfram verði þörf fyrir samstarf Atlantshafsbandalagsins og ríkja Varsjárbandalagsins sáluga um lögregluaðgerðir og almannavarnir á leikvelli Serba, Króata og Albana. En hér eftir munu Balkanmálin sameina Evrópu en ekki sundra.

Eðlilegast er, að herir Evrópu æfi sig á Balkanskaga, þar sem eru raunverulegar aðstæður til æfinga. Þar er ákveðin landafræði og þar er ákveðið viðhorf fólks, hvort tveggja einstætt í sinni röð. Þar geta þeir reynt að bjarga fólki meðan annað skýtur á þá úr launsátri.

Það hefur sáralítið gildi fyrir verðandi verkefni Evrópuherja að æfa sig í almannavörnum á Íslandi. Herir Evrópu verða seint kallaðir til alvörustarfa á Íslandi, því að Íslendingar munu í neyð treysta sínum sveitum betur til almannavarna en tindátum Evrópuherjanna.

Raunar hefur því verið haldið fram af ábyrgum aðilum innan íslenzkra almannavarna, að æfing þessi sé ekki aðeins marklaus frá íslenzkum sjónarhóli, heldur skaði hún beinlínis almannavarnir með því að beina orku og tíma að táknrænu og marklausu gutli.

Enn fremur er æfingin á skaðlegum tíma. Hún spillir fyrir því, að fólk geti notið hálendisferða meðan hún stendur. Hún dregur þannig úr lífsgæðum okkar og margra ferðamanna, sem borga fyrir að koma hingað. Hún skaðar ferðaþjónustuna í landinu tvímælalaust.

Æfing Evrópuherjanna er einmitt haldin á þeim tíma, þegar hálendið er að opnast og líklegast er, að fólk vilji njóta þess. Meðal æfingaratriða er lágflug yfir helztu ferðamannastöðunum, þar á meðal Herðubreiðarlindum, Öskju, Sprengisandi og Þjórsárverum.

Það er von, að ferðafrömuðir spyrji, hvort íslenzkir embættismenn séu orðnir brjálaðir. Hitt mun þó sönnu nær, að þeir hafi leyft þetta fyrir sitt leyti, af því að þeir eru snobbaðir fyrir því að vera teknir gildir í samstarfi milli útlendinga. Þeir hafa einfaldlega ekki fullorðnazt.

Enn er tími til að banna fáránlegustu þætti æfingarinnar, svo sem sprengingar á hljóðmúrnum og lágflug á ferðamannastöðum. Það þjónar ekki þjálfun í almannavörnum að fljúga á ofurhraða í lágflugi eða að sprengja hljóðmúrinn. Slíkt eru bara fíflalæti flugmanna.

Tímabært er orðið að víttir verði þeir embættismenn utanríkisráðuneytisins, sem standa fyrir marklausum sandkassaleikjum, er skaða hagsmuni og lífsgæði okkar og viðskiptavina okkar. Ísland er enginn staður fyrir hávaðasama leiki til að hafa ofan af fyrir hermönnum.

Nató þarf sennilega sandkassaleiki til að halda upp á gott hernaðarástand í Evrópu. En almannavarnaæfing á hálendinu er ekki rétta leiðin til að fagna Evrópufriði.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýir og þægir kjaradómsmenn

Greinar

Þegar dómarar í landinu tóku sér ómælda yfirvinnu í orlofi ekki alls fyrir löngu, tók Kjaradómur á því og úrskurðaði, að þetta skyldi ganga til baka. Þetta olli nokkurri gremju dómara Hæstaréttar og hugsuðu þeir þáverandi kjaradómsmönnum þegjandi þörfina.

Þegar kom að nýrri skipan Kjaradóms, rak Hæstiréttur fulltrúa þá, sem hann hafði áður skipað, og setti nýja og þægari í þeirra stað. Niðurstaðan er auðvitað sú, að í hinum nýja og illræmda úrskurði Kjaradóms er hlutur dómara gerður betri en annarra yfirstéttarmanna.

Í stað 6% launahækkana annars fólks í almennu kjarasamningunum í vetur fá dómarar nú 8,5% almenna kauphækkun, ennfremur 5% vegna meintrar aukningar á vinnuálagi þeirra, einnig 1,5% í endurmenntunarsjóð og loks aukinn fjölda vinnutíma í ómældri yfirvinnu.

Þetta endurspeglar tvennt. Annars vegar, að Hæstiréttur hefur skipað dómaravænni fulltrúa í Kjaradóm. Hins vegar, að Kjaradóm skipa fimm hæstaréttarlögmenn, sem eiga undir dómara að sækja, þegar þeir flytja mál sín. Hér er um hagsmunaárekstur að ræða.

Óeðlilegt er, að hæstaréttarlögmenn ákveði laun þeirra, sem eru prófdómarar í daglegum störfum þeirra. Betra er, að leitað sé út fyrir lögmannastéttina. Það gerir kerfið að vísu flóknara, en er nauðsynlegt í samfélagi, sem er svo spillt, að spillingin nær til Hæstaréttar.

Úrskurður Kjaradóms hefur vakið gremju og raunar máttlausa reiði formanna stéttarfélaga, sem nýlega hafa skrifað undir eina þjóðarsáttina enn, þar sem láglaunastéttirnar í landinu taka enn og aftur á sig ábyrgð á því, að verðbólga fari ekki af stað að nýju hér á landi.

Úrskurðurinn í heild sýnir yfirstéttarkerfi, þar sem launum yfirstéttar opinbera geirans er kippt úr almennu launasamhengi og ákvörðun þeirra falin hópi annarra yfirstéttarmanna, sem eru sérstaklega hallir undir dómsvaldið, af því að þar sitja prófdómarar þeirra.

Við ákvörðun launa yfirstéttar opinbera geirans er þess gætt, að hafa kerfið ógegnsætt. Taxtalaunin eru ekki höfð áberandi há, en vel smurt á þau í formi launa fyrir yfirvinnu, sem ekki er unnin, og margvíslegum öðrum fríðindum, sem ekki eru almenn í þjóðfélaginu.

Þegar fjölmiðlar reyna að lýsa inn í þokuna, hefur yfirstéttin hljótt um sig, en gefur aldrei eftir fríðindin. Þannig halda ráðherrar áfram að taka útlagðan kostnað og dagpeninga í senn á ferðalögum sínum, svo að úr verður svonefnt ferðahvetjandi launakerfi ráðherra.

Öllum er ljóst, að það er út af kortinu að taka í senn nógu háa dagpeninga fyrir öllum ferðakostnaði sínum og halda öllum þessum peningum fyrir sjálfan sig, en senda ríkinu síðan reikning fyrir öllum útlögðum kostnaði. Samt er þetta spillta kerfi enn í fullum gangi.

Tekjukerfi yfirstéttar opinbera geirans er gegnsýrt af feluleik af þessu tagi. Ríkisskattstjóri og ríkisskattanefnd hafa gerzt samsek í að meðhöndla ýmis fríðindi þessarar yfirstéttar á annan hátt en fríðindi annarra aðila í þjóðfélaginu og framleiða þannig stéttaskiptingu.

Með framgöngu sinni grafa málsaðilar undan trausti þjóðarinnar á valdastofnunum sínum, ríkisstjórn, ráðuneytum og ekki sízt dómstólum, sem einnig á annan hátt vekja ítrekaða athygli á sér með furðulegum dómum og ævintýralegum drætti á uppkvaðningu dóma.

Nýleg hreinsun Hæstaréttar á Kjaradómi og skjót viðbrögð hins nýja Kjaradóms með ótrúlegum kjarabótum handa dómurum sýnir vel þetta hættulega ástand.

Jónas Kristjánsson

DV

Sömu fréttir ­ sama niðurstaða

Greinar

Fátt nýtt hefur komið fram við aðra atrennu Hæstaréttar að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Vitað var um harðræði fangavarða og aðra annmarka fyrri rannsóknar, þegar Hæstiréttur kvað upp þann dóm, sem nú hefur árangurslaust verið reynt að fá tekinn upp að nýju.

Fróðlegt hefði að vísu verið að taka með í reikninginn niðurstöður lygaprófs, sem síðar heimsþekktur sérfræðingur á því sviði lagði fyrir sakborning. Þær voru aldrei lagðar fram sem réttarskjöl, hvorki við flutning málsins á sínum tíma né við flutning upptökumálsins.

Í þetta sinn hafnaði sækjandi upptökumálsins notkun niðurstaðna lygaprófsins sem málsskjals, þegar settur verjandi kerfisins vildi fá að sjá þær. Þannig getur tvískinnungurinn snúist við á löngum tíma eftir þeim hagsmunum, sem hver málsaðili hefur hverju sinni.

Málinu er nú lokið á innlendum vettvangi. Vandséð er, að umboðsmaður Alþingis sjái flöt á afskiptum af því. En leita má frekari réttar út fyrir landsteinana, svo sem töluvert hefur verið gert á síðustu árum, oft með ágætum árangri og vanvirðu fyrir íslenzka réttarkerfið.

Hæstiréttur nýtur af gefnum tilefnum ekki mikillar virðingar, en hún breytist ekki við endurmeðferð hans á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hæstiréttur hefur löngum stutt kerfið í landinu. Oft hefur hann farið meira offari í ríkisdýrkuninni en einmitt í þessu máli.

Miklu alvarlegri mál eru, hvort dómarar í Hæstarétti geti orðið vanhæfir með pólitískum afskiptum utan vettvangs réttarins og hvort helzti embættismaður réttarkerfisins sé svo fjárhagslega háður öðrum, að hann geti ekki tekið afstöðu til mála, sem varða þessa aðila.

Samkvæmt áliti sérfróðra manna í Danmörku er íslenzka réttarkerfið á hálum ís í alvörumálunum. Ennfremur hefur komið í ljós við meðferð fjölþjóðlegra dómstóla, að úrskurðir Hæstaréttar eru oft óeðlilega hallir undir ríkið og fjandsamlegir réttindum borgaranna.

Einn þekktasti lögmaður landsins hefur raunar ritað bók um Hæstarétt, þar sem hann rekur ýmis dæmi um veikleika réttarins, einkum stuðning hans við hagsmuni ríkisvaldins. Bókin endurspeglar vantrú margra lögmanna á, að rétturinn geti tekið eðlilega á málum.

Ef taka ætti upp öll þau mál, þar sem Hæstiréttur hefur í meira mæli verið á gráu svæðunum og dökkgráu svæðunum heldur en í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, væri ekki annað gert á Íslandi næstu árin. Niðurstaðan yrði þar á ofan alltaf staðfesting fyrri niðurstöðu.

Sem betur fer kemur endanlegt réttlæti okkar að utan eins og margt annað gott. Bruxelles, Strasbourg og Haag hafa tekið við af Niðarósi og Kaupmannahöfn sem verndarborgir litla mannsins á Íslandi, svo er Evrópusambandinu og fjölþjóðasamningum fyrir að þakka.

Hér hafa verið rakin nokkur dæmi um bága siðferðisstöðu íslenzka kerfisins og Hæstaréttar sérstaklega til þess að hafa þau atriði í myndinni, þegar jafnframt er stutt það sjónarmið Hæstaréttar, að ekki sé ástæða til að taka Guðmundar- og Geirfinnsmálið upp að nýju.

Deilan um upptöku málsins byggðist á gömlum lummum, sömu upplýsingunum og voru tiltækar, þegar dómar voru kveðnir upp á sínum tíma. Sumt ungt fólk virðist hins vegar ímynda sér, að í þetta sinn hafi rétturinn verið með nýjar upplýsingar í höndunum.

Hafi þessar upplýsingar leitt Hæstarétt til ákveðinnar niðurstöðu á sínum tíma, er eðlilegt að þessar sömu upplýsingar leiði hann til að hafna upptöku málsins nú.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykursæt þjóð

Greinar

Hnallþórustefna íslenzkra húsmæðra sætir ágjöf um þessar mundir. Rannsóknir Helga Valdimarssonar prófessors benda til, að sveppaóþol stafi einkum af geri og sykri og að losna megi við sjúkdóminn með því að hætta að nota vörur, sem auknar hafa verið þessum efnum.

Rannsóknir í Bandaríkjunum á þessum áratug hafa leitt í ljós, að boðefnaruglið í heilanum, sem einkennir fíkn í efni á borð við alkóhól og heróín, kemur einnig í ljós við fíkna notkun sykurs. Þannig er sykurinn loksins kominn í flokk skæðra fíkniefna, þar sem hann á heima.

Þetta skýrir auðvitað, hve erfitt margt fólk á með að hemja neyzlu sína á vörum með viðbættum sykri. Það stafar af, að sykur er fíkniefni. Notkun hans kallar á meiri notkun hans, af því að dópamínið í heilanum kallar fram öfug viðbrögð við það, sem heilbrigt má teljast.

Ofát og offita er eitt helzta heilbrigðisvandamál Íslendinga eins og flestra annarra vestrænna þjóða. Þótt fólk reyni af góðum og miklum vilja að stöðva ofát sitt og láta offituna hjaðna, ræður það ekki við málið, einfaldlega af því að sykur er fíkniefni, sem ánetjar fólk líkamlega.

Þáttur sykurs í sveppaóþoli og offitu bætist við það, sem fyrir var vitað um sykur, að hann veldur tannskemmdum, sykursýki og skaðlegum sveiflum í blóðsykri. Að öllu samanlögðu er um að ræða einn mesta örlagavaldinn meðal menningarsjúkdóma nútímans.

Íslendingar eru önnur mesta sykurneyzluþjóð heimsins, næst á eftir Bandaríkjamönnum. Meðalmaður innbyrðir 1 kíló af viðbættum sykri á viku hverri, auk þess sykurs, sem af eðlilegum ástæðum er í ýmsum matvælum. Þetta er hátt yfir því, sem venjulegur líkami þolir.

Sykurneyzla okkar er einna alvarlegust í taumlausu þambi gosdrykkja, sem eru meira en 99% sykur að þurrefnum. En sykurinn leynist víðar, meðal annars í vörum, sem haldið er að fólki sem hollum mat, svo sem ýmsum mjólkurvörum og morgunkorni.

Sykri er bætt í ýmsar mjólkurvörur, svo sem skólaskyr og skólajógúrt. Viðbættur sykur er 6-10% af þyngd algengra mjólkurvara, auk þeirra 4%, sem eru í þessum vörum af náttúrulegum ástæðum. Sem morgunmat mætti alveg eins gefa börnum súkkulaði.

Sykri er miskunnarlaust bætt í mikið auglýst og vinsælt morgunkorn, sem logið er inn á foreldra sem sérstakri heilsubótarvöru fyrir börn. Viðbættur sykur fer upp í 47% af sumu morgunkorni. Sem morgunmat mætti alveg eins gefa börnum brjóstsykur.

Algengt magn af sykri í kexi er um 17-29% og í kökum 21-28%. Þetta er sá matur, sem Íslendingar hafa lengi borðað milli mála og reikna með að bjóða gestum og gangandi. Ennfremur er varla til sú dós, glas eða pakki í matvöruverzlunum, að ekki sé þar viðbættur sykur.

Því miður er ekki skylt að tilgreina viðbættan sykur á umbúðum matvæla hér á landi, enda eru hagsmunir neytenda jafnan látnir víkja. Hjá Námsgagnastofnun má þó finna bækling um næringargildi matvæla, þar sem fram koma upplýsingar um viðbættan sykur.

Því miður er engin stofnun til á Íslandi, sem telur sér skylt að hafa eftirlit með því, að upplýsingar á umbúðum um innihald matvæla hafi við rök að styðjast. Þetta er einkum bagalegt gagnvart innlendri framleiðslu, þar sem ekki er við erlendar mælingar að styðjast.

Úrelt er að tala um sykur sem eins konar krydd í tilverunni. Hann er orðinn að uppistöðu í skaðlegum lífsstíl og hlýtur að víkja fyrir nýjum og heilbrigðari lífsstíl.

Jónas Kristjánsson

DV