Greinar

Sigla þöndum seglum

Greinar

Flest teikn eru hagstæð okkur í efnahagsmálum, þótt víða leynist hættur. Kjarasamningarnir í vetur hafa farið vel í atvinnulífið og ekki leitt til teljandi verðbólgu í afurðum þess. Það bendir til, að samkeppni sé töluverð á markaðnum, þrátt fyrir fákeppni á ýmsum sviðum.

Verðbólgan verður samt nokkru meiri á þessu ári en var í fyrra og meiri en Seðlabankinn heldur. Nýjustu verðbólgutölur eru óeðlilega lágar vegna skammtíma verðlækkunar á grænmeti, sem á eftir að ganga til baka, og vegna einnota lækkunar á innlendum flugfargjöldum.

Verðbólguhraðinn um þessar mundir er því nær þremur prósentum en þeim tveimur prósentum, sem Seðlabankinn heldur. Þetta jafngildir því, að verðbólguástandið hér sé ekki með því bezta á Vesturlöndum, heldur séum við þar í miðjum flokki skussanna.

Mikilvægt er, að áfram verði dregið úr verðbólgu hér á landi, svo að hún haldist til langs tíma við 2% markið. Þetta þarf að gera við skilyrði, er sumpart hvetja til verðbólgu, svo sem vaxandi atvinna í kjölfar góðra aflabragða og samninga um virkjanir og stóriðju.

Samningar vetrarins um virkjanir og stóriðju eru úti á yztu nöf jafnvægis. Þótt slík iðja veiti í rekstri tiltölulega litla atvinnu í hlutfalli við fjárfestingu, veldur hún mjög mikilli atvinnuþenslu á byggingartímanum. Hún er þess vegna sveiflumagnandi þáttur í efnahagslífinu.

Óráðlegt er því að fara hratt í frekari stóriðjusamninga. Við hvern slíkan samning þarf að huga vel að áhrifum hans á hagsveiflur og verðbólgu. Þess vegna verður ekki endalaust unnt að byggja hagvöxtinn á eins konar sífelldum happdrættisvinningum af slíku tagi.

Við það bætist, að við erum í vondum málum vegna Ríó-samningsins um takmörkun mengunar. Við höfum þegar farið hátt yfir mengunarmörk samningsins og munum gera það enn frekar, ef við sjáum ekkert annað en stóriðjulausnir í efnahagsmálum okkar.

Á sama tíma hafa stjórnvöld enn ekki lyft litla fingri til að framkvæma eigin stefnuskrá frá því í fyrra á sviði tölvumála, þar sem gert var ráð fyrir að búa til hagstæð uppvaxtarskilyrði mengunarlausra tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja. Á því sviði eru vannýttir möguleikar.

Hagvöxtur verður líklega á bilinu 3­4% á þessu ári og hinu næsta. Þetta er meiri vöxtur en sem nemur meðaltali aðildarríkja Efnahagsþróunar-stofnunarinnar. Hann bætir fyrir það ástand, sem var fram eftir þessum áratug, þegar hagvöxtur var hér minni en annars staðar.

Afkoma ríkissjóðs er svo góð á þessu ári, að hugsanlegt er, að hagnaður verði, þegar upp er staðið. Það eru óvenjulegar fréttir og merkilegar. Neikvæða hliðin er svo, að afkoman byggist á óeðlilega miklum innflutningi og geigvænlegum halla utanríkisviðskipta.

Hagstaða okkar er að öllu samanlögðu nokkuð góð. Víða leynast hættur og sumir þættir eru neikvæðir, svo sem vöruskiptajöfnuðurinn, þótt aðrir séu jákvæðir. Einhæfni atvinnulífsins er lakasti þátturinn, enda sjá stjórnvöld enn lítið annað en sjávarútveg og stóriðju.

Jákvæðu þættirnir felast einkum í nýjum kjarasamningum til langs tíma og lágri verðbólgu, traustum hagvexti á allra næstu árum, fullri atvinnu þjóðarinnar og góðri afkomu ríkissjóðs. Jákvæðu þáttunum getur fjölgað, ef áfram lækka hinir háu vextir atvinnulífsins.

Mestu skiptir, að bjartsýni hefur leyst svartsýni af hólmi. Í stað þess að draga saman seglin og verjast áföllum sigla menn þöndum seglum á vit nýrra tækifæra.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgð tekin á eigin heilsu

Greinar

Í sjúkdómageira ríkisins er innbyggð verðbólga, sem veldur því, að kostnaður við sjúkdóma eykst hraðar en sem nemur gæðaaukningu þjónustunnar. Gizkað hefur verið á, að innbyggða verðbólgan nemi um 2% á ári. Það er árlegur kostnaðarauki af óbreyttu þjónustustigi.

Verðbólgan stafar af ýmsum ástæðum, en mest af framboði nýrra og dýrari tækja og nýrri og dýrari lyfja. Vegna velferðarstefnunnar hefur hingað til verið talið æskilegt að taka slík tæki og lyf í notkun hér ekki síðar en í ríkjunum, sem við berum okkur saman við.

Við þetta bætist, að stjórnmálamenn setja stundum lög af góðvilja sínum og ráðherrar setja síðan reglugerðir af sama góðvilja. Þessar gerðir víkka sjúkdómaþjónustuna til nýrra sviða og valda erfiðleikum við að gegna fyrri skyldum með svipuðum hætti og áður.

Ennfremur er þjóðin að eldast. Árlega verður hlutfallsleg aukning í hæstu aldursflokkunum, einmitt þeim, sem mest nota sjúkdómaþjónustu hins opinbera. Þessi þáttur á eftir að magnast svo á næstu árum, að ríkið mun ekki lengur geta haldið óbreyttu þjónustustigi.

Í gamla daga neyddist fólk sjálft til að taka ábyrgð á heilsu sinni. Annað hvort var það heilsuhraust eða það dó fyrir aldur fram. Þetta var harður heimur, þar sem hinir fátækustu áttu minnsta möguleika. Velferðarkerfinu var komið á fót til að jafna og bæta stöðuna.

Með velferðarkerfinu hefur sá misskilningur grafið um sig, að ríkið taki ábyrgð á heilsu manna. Þeir geti hagað sér eins og þeim þóknast, drukkið eða reykt, streðað við peninga eða hangið í sjónvarpssófa eða lifað á ruslfæði. Ríkið muni taka ábyrgð á afleiðingunum.

Samt er vitað, að sjúkdómar og slys eru sjálfskaparvíti að hálfu eða meira. Fólk hagar sér á þann hátt, að það verður veikt eða slasast. Það veit í mörgum tilvikum, hvernig það á að haga sér, en gerir það samt ekki. “Það góða, sem ég vil, geri ég ekki”, sagði Páll postuli.

Sumir áhættuþættir eru utan valdsviðs fólks. Okkur er af arfgengum ástæðum mishætt við ýmsum sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum, krabbameinssjúkdómum og fíknarsjúkdómum. Óviðráðanleg umhverfisáhrif valda ennfremur sumu fólki meiri áhættu en öðru.

Þessir ásköpuðu og ytri áhættuþættir losa fólk ekki við ábyrgðina á eigin heilsu. Þeim mun veikari, sem staða fólks er gagnvart slíkum áhættuþáttum, þeim mun meiri ástæðu hefur það til að taka stjórn mála í eigin hendur og haga sér í samræmi við áhættuna.

Það er einkum þrennt, sem fólk getur gert til að taka ábyrgð á heilsu sinni. Það getur tekið upp hollt mataræði. Það getur stundað einfaldar og ódýrar íþróttir á borð við göngu, hlaup, sund eða hjólreiðar. Og það getur gefið sér góðan svefn og stundað slökun huga og líkama.

Mikilvægi þessa mun aukast hratt á næstu árum, því að sjúkdómakerfi ríkisins er í þann mund að springa. Ríkið treystir sér ekki lengur til að taka ábyrgð á heilsu manna. Það er farið að spara í sjúkdómageiranum og á eftir að reyna að spara miklu meira á næstu árum.

Fólk verður að reikna með, að ríkið geti ekki aukið kostnað sjúkdómageirans umfram aukningu þjóðartekna. Vegna áðurnefndrar verðbólgu í geiranum mun sjúkdómaþjónusta ríkisins fara minnkandi á næstu árum, fyrst í stað hægt, en síðan hraðar og hraðar.

Eina vörn fólks er að taka áskoruninni, sem felst í nútímaþekkingu á heilbrigðu lífi. Fólk getur tekið ábyrgð á eigin heilsu og er í auknum mæli farið að gera það.

Jónas Kristjánsson

DV

Íþróttir fyrir drykkjurúta

Greinar

Stjórnendur landsmóts ungmennafélaganna í Borgarnesi héldu rétt á málum, þegar rónalæti á mótssvæðinu komu þeim í opna skjöldu. Þeir sendu verstu drykkjurútana heim til Grindavíkur og höfðu vit fyrir hinum, sem voru móttækilegir fyrir leiðbeiningum.

Drykkjuvandræði íþróttahreyfingarinnar komu skýrt í ljós á landsmótinu í Borgarnesi. Í allt of miklum mæli eru íþróttafélög ekki lengur varðstöðvar gegn neyzlu geðbreytilyfja á borð við áfengi, heldur beinlínis orðin að uppeldisstöðvum í drykkjuskap, orgi og ælu.

Íslenzkir unglingar eiga erfiða daga. Í heimahúsum horfa þeir upp á helgardrykkjuskap fullorðins fólks, sem virðist segja eitt allsherjar pass í uppeldismálum. Margir foreldrar virðast halda, að uppeldi sé einhver óviðkomandi atburður, sem sennilega eigi sér stað í skólum.

Skólarnir eru ekki í stakk búnir til að sinna uppeldisskyldum foreldranna. Þeir hafa raunar ekki reynzt geta sinnt fræðslu til jafns við skóla í útlöndum. Þeir eru andvígir uppeldi, því að þeir láta börnin að mestu leika lausum hala í samræmi við hugmyndafræði agaleysis.

Á sumrin eru börnin send í svonefnda vinnuskóla, sem eru í raunninni kennslustofnanir í hangsi og kæruleysi og vinnusvikum. Engin von er til þess, að íslenzkir unglingar komist klakklaust og óbrenndir á hugarfari frá þessum sérkennilegu geymslustofnunum.

Íslenzkir foreldrar og skólamenn hafa meðtekið nútímann með þeirri skekkju, að frelsi skuli koma í stað uppeldis. Þess vegna elst fólk upp hér á landi án þess að kunna að haga sér. Það elur hvað annað upp og ákveður sjálft, að það sé smart að liggja í svínastíunni.

Ýmis kerfi á Íslandi, svo sem ríki og sveitarfélög, hafa litið á íþróttahreyfinguna sem tæki til að koma í stað mistaka þjóðarinnar í uppeldismálum. Kenningin er sú, að börnin læri heilbrigt samstarf og heilbrigða samkeppni í leik og þjálfun innan íþróttafélaga.

Í þessu skyni verja opinberu kerfin gífurlegum fjármunum til stuðnings íþróttum. Bæjarfélög greiða mestan hluta mannvirkjanna, sem notuð eru til íþrótta. Tugir milljóna liggja á lausu til íþrótta í bæjarfélögum, sem ekki eiga til hnífs og skeiðar á öðrum sviðum.

Ekkert bannar, að opinberu kerfin með digru sjóðina setji sér einhver markmið um að fá eitthvað annað í staðinn en linnulausar boltakeppnir, sem tröllríða heilum bæjarfélögum svo, að þar eru menn tæpast viðmælandi um framfarir og gengi bæjarfélagsins.

Sum íþróttafélög og sumar deildir innan íþróttafélaga reyna að sinna uppeldishlutverki. Önnur félög láta sig slíkt engu skipta og sums staðar er beinlínis unnið að spillingu æskulýðsins, svo sem sýnir dæmið frá Grindavík, þar sem verið er að framleiða drykkjurúta.

Eðlilegt er, að auknar verði kröfur um, að íþróttafélög vinni fyrir hinum opinbera stuðningi með því að taka þátt í uppeldisþörfum þjóðfélagsins og reyni meðal annars að sýna ungmennum fram á andstæður heilbrigðra íþrótta og meðvitundarlítils drykkjuskapar.

Þótt við höfum á þremur kynslóðum stokkið aftan úr miðöldum inn í vestrænan nútíma, hefur okkur tekizt að læra að þrífa okkur, halda á hníf og gaffli og laga okkur á ýmsan hátt að siðum þjóða. Við getum alveg eins lært að hætta að orga og æla af völdum drykkjuskapar.

Mikilvægt skref í þá átt felst í, að íþróttahreyfingin taki sér tak og komi þeim skilaboðum á framfæri til félagsmanna sinna, að mannasiðir séu prýðilegir.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir neita sér um aflaspákerfi

Greinar

Klúðrað hefur verið ágætu tækifæri til að auka þekkingu í fiskveiðum við Ísland og gera skipstjórnarmönnum kleift að ná meiri afla með minni tilkostnaði. Vegna misskilnings og greindarskorts hefur verið stöðvuð vinna við þróun athyglisverðs aflaspákerfis.

Sökin er jöfn annars vegar hjá Hafrannsóknastofnun, Sjávarútvegsstofnun háskólans og Radíómiðun, sem hafa þróað spákerfið, og hins vegar Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, sem komu í veg fyrir framgang málsins.

Misskilningurinn byrjaði að leika lausum hala eftir sjávarútvegssýninguna í fyrra, þar sem aðstandendur aflaspákerfisins settu árangur þróunarstarfsins fram í hinum hefðbundna ýkjustíl, sem allt of oft einkennir framsetningu sölumanna á afurðum sínum.

Skipstjórnarmenn töldu, að Hafrannsóknastofnun hefði afhent utanaðkomandi aðilum aðgang að afladagbókunum, sem þeir hafa afhent stofnuninni sem trúnaðarskjöl. Þannig yrði sérþekking þeirra og þjálfun gerð aðgengileg óviðkomandi samkeppnisaðilum.

Þegar misskilningurinn var kominn á flot, var reynt að bæta úr skák með því að kynna málið fyrir útvegs- og skipstjórnarmönnum. Útskýrt var, að frumgögn afladagbóka voru ekki notuð, heldur síaðar safntölur, sem ekki ljósta upp um veiðistaði einstakra skipstjóra.

Vegna greindarskorts ráðamanna í samtökum útvegsmanna og skipstjórnarmanna tókst ekki að koma útskýringunum til skila. Samtökin fóru fram á, að þróun aflaspákerfisins yrði hætt. Orðið var við óskinni og tölunum skilað aftur til Hafrannsóknastofnunar.

Í málflutningi ráðamanna í samtökum útvegsmanna og skipstjórnarmanna kemur fram mikið af illskiljanlegri þvælu. Eitt stendur þar upp úr sem gild röksemd, að afladagbækurnar eru trúnaðarmál og Hafrannsóknastofnun þarf að fara gætilega með efni þeirra.

Hafrannsóknastofnunin átti að hafa samráð við höfunda afladagbókanna um notkun efnis úr þeim. Sjávarútvegsstofnun háskólans og Radíómiðun áttu að fara með löndum í kynningu málsins. Samtök útvegs- og skipstjórnarmanna áttu að lokum að taka sönsum.

Niðurstaðan verður því sú, að Ísland dregst aftur úr í fiskveiðitækni. Eftir að hafa verið áratugum saman fremstir í tæknivæðingu, verðum við nú að horfast í augu við, að japanskir og bandarískir skipstjórnarmenn, en ekki íslenzkir, geta hagnýtt sér aflaspákerfi.

Slíkt kerfi hefði verið eitt tækið enn í brúnni, gert sókn íslenzka fiskiskipaflotans markvissari, sparað olíukostnað, dregið úr olíumengun og á ýmsan annan hátt gert skipstjórum kleift að nýta betur almenna veiðireynslu sína og sérþekkingu á góðum veiðistöðum.

Verstur er hlutur félagsmálaberserkja, sem af völdum greindarskorts lögðu ekki nógu mikið af mörkum til að sýna félagsmönnum sínum fram á, að ekki væri verið að ráðast gegn hagsmunum þeirra, heldur halda áfram að bæta tækjum í vopnabúr þeirra í lífsbaráttunni.

Mál þetta minnir á, að þjóðin getur ekki leyft fámennum og misvitrum hópi manna að ráðskast með fiskimiðin sem sína persónulegu eign, svo sem Alþingi hefur gert með lögum um veðsetningu aflaheimilda. Þjóðin verður að endurheimta eignarhald sitt á auðlindum hafsins.

Þegar samtök útvegs- og skipstjórnarmanna standa stjörf gegn hagþróun í landinu, rennir það nýjum stoðum undir kröfuna um þjóðareign á auðlindum hafsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Eftirlegukind frá haftatímanum

Greinar

Evrópusambandið hefur gert Íslendingum meira gagn með einfaldri og ófrávíkjanlegri kröfu um flugfrelsi innanlands heldur en Samkeppnisráð hefur gert á löngum ferli, fyrst sem Verðlagsráð. Við sjáum áhrif Evrópusambandsins í fargjaldahruni á innanlandsleiðum.

Samkeppnisráð hefur þó verið að færast í aukana á síðustu árum. Það hefur nú úrskurðað, að samningur Eimskipafélagsins og Samskipa um Ameríkusiglingar brjóti í bága við samkeppnislög. Af hefðbundinni mildi veitir ráðið þó félögunum þriggja ára undanþágu.

Samkeppnislög segja skýrt, að samstilltar aðgerðir fyrirtækja á sama sölustigi séu bannaðar, þegar þeim er ætlað að hafa áhrif á skiptingu markaða. Það gerðu Eimskip og Samskip einmitt nákvæmlega, þegar þau tóku upp samstarf í Ameríkusiglingum um áramótin.

Ráðið veitir undanþáguna á gamalkunnum forsendum haftakerfisins gamla. Það segir, að flutningar hafi farið minnkandi, flutningsgeta hafi ekki verið nýtt og félögin hafi sýnt fram á tap. Í framhaldi bullar forneskjulegt ráðið um jákvæð áhrif af hömlum á samkeppni.

Villan í hugmyndafræði haftakerfisins felst í að taka núverandi ástand tilkostnaðar framleiðanda og reikna verðgildi vörunnar eða þjónustunnar út frá honum. Verðgildi vöru og þjónustu fer hins vegar ekkert eftir fyrirhöfninni, sem liggur að baki á hverjum tíma.

Verðgildi vöru og þjónustu, hvort sem það eru Ameríkusiglingar, innanlandsflug eða eitthvað annað, felst í því verði, sem frjáls og óheftur markaður vill borga fyrir hana. Í þessu felst grundvallarmunur markaðsbúskapar og haftabúskapar að hætti Samkeppnisráðs.

Samkvæmt markaðshagfræðinni eru áhyggjuefni Samkeppnisráðs marklaus með öllu. Við sjáum það líka í raunveruleikanum, að allt í einu er hægt að lækka fargjöld innanlands um helming, eftir áratuga samfelldan grát Flugleiða út af meintu tapi á innanlandsflugi.

Ef ráðið hefði komið nálægt ákvörðuninni um innlent flugfrelsi, hefði það einmitt hindrað frelsið með hliðstæðri tilvísun til þess, að úttekt hefði leitt í ljós, að tap væri á innanlandsflugi og að flutningsgeta væri meiri en næg fyrir þann markað, sem væri “til skiptanna”.

Ráðið fúskaði raunar lítils háttar við sameiningu innanlandsflugs Flugleiða og Flugfélags Norðurlands í eitt Flugfélag Íslands. Það gerði kröfu til ýmissa ytri formsatriða, sem áttu að dylja einokunina, svo sem kröfu um, að fulltrúar eigendafélaganna sætu ekki beint í stjórn.

Málsaðilar vældu dálítið út af þessum kröfum og sögðu þær sumpart kjánalegar, sem þær raunar voru. Engu að síður gátu þeir farið kringum þær og haldið áfram fyrirhugaðri einokun í skjóli Samkeppnisráðs. Ef Evrópusambandið hefði ekki komið til skjalanna.

Helzti galli ráðsins er, að það starfar enn að nokkru eins og það gerði, þegar það hét Verðlagsráð. Breytingar á gömlu vinnubrögðunum frá haftatímanum hafa verið svo feimnislegar og hægfara, að það treystir sér ekki einu sinni til að fara eftir nýju samkeppnislögunum.

Undanþágan í Ameríkusiglingunum sýnir vel, að ráðið hefur ekki enn áttað sig á nýjum lögum og nýjum tíma. Það er enn að nudda haftastírurnar úr augunum og veit raunar ekki, hvaðan á sig stendur veðrið, þegar reynt er að segja því, að ný hagfræði ráði ríkjum.

Vegna þessa hefur Samkeppnisráð brugðist vonum samkeppnissinna. Markaðsframfarir hér á landi koma enn að utan, samkvæmt kröfum Evrópusambandsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Skapgerðarbrestur þjóðarinnar

Greinar

Útlendingar eru seinþreyttir að verða hissa á drykkjulátum Íslendinga. Þau eru til dæmis til umræðu í alþjóðlegum spjallþáttum sálfræðinga á Netinu. Þeir furða sig til dæmis á, að þjóð, sem innbyrðir óvenjulega lítið áfengi, skuli eigi að síður drekka sér til óbóta.

Húsadalshelgi Austurleiða í Þósmörk um helgina er orðin að árvissum þætti hins merkilega og einstæða fyrirbæris, sumardrykkjuferða unglinga. Þær ná venjulega árlegu hámarki um verzlunarmannahelgi, þegar óharðnað fólk veltist organdi um í eigin spýju.

Þáttur unglinga í ölæði Íslendinga er ekki meiri en annarra. Hann er hins vegar meira áberandi, af því að hann fer fram úti á götum í miðbæjum og á fjöldasamkomum til sveita. Eldra fólk veltist frekar organdi um í spýju sinni heima hjá sér bak við luktar dyr.

Unglingarnir hafast það að úti á malbiki eða grasi, sem þeir sjá hina fullorðnu gera á teppum og parketti. Þetta er gamla sagan um, að það, sem höfðingjarnir hafast að, hinir halda sér leyfist það. Drykkjuvolæði Íslendinga er alls ekki sérhæft unglingavandamál.

Flestir Íslendingar haga sér eins og annað fólk. En ölæðisfólkið er hlutfallslega fjölmennara hér á landi en í öðrum löndum, til dæmis á Norðurlöndum og Bretlandseyjum. Það gefur tóninn í meira mæli og vekur því sérstaka athygli gesta, sem ber að garði.

Við þurfum að fara að taka á þessu vandamáli, ekki vegna útlendinganna, sem hingað koma, heldur vegna sjálfsvirðingar þjóðarinnar. Við þurfum að losa okkur sem þjóð við skapgerðarbrestinn, sem brýtur persónuna niður í ósjálfbjarga slytti, er veltist um á jörðinni.

Útlendingar eru aðeins nefndir í þessu samhengi, að þeir eru vitni að atburðunum og segja frá þeim, þegar heim er komið. Vegna þessa vitnisburðar, sem birtist sí og æ í erlendum fjölmiðlum, er ekki hægt að afneita því, að ofurölvun er séríslenzk þjóðarmeinsemd.

Í engilsaxneskum löndum er mikið drukkið. Þar er hins vegar viðurkennd hefð, að fólk reynir í lengstu lög að halda höfði. Þar er talið niðurlægjandi að verða áberandi ölvaður. Menn reyna að hætta drykkju, þegar þeir eru farnir að missa stjórn á boðkerfum líkamans.

Hér á landi hefur ekki mótast slík hefð. Fólki finnst það einfaldlega vera í lagi að missa stjórn á sér af völdum ofdrykkju. Þessi skoðun endurspeglast síðan í öðrum vandamálum, þar á meðal í unglingadrykkju, en einnig í ofbeldisglæpum, sem framdir eru undir áhrifum.

Ísland væri nánast glæpafrítt land, ef ekki væru ölæðisglæpirnir. Það eru ekki bara ofbeldisverkin, sem framin eru undir áhrifum, heldur flest auðgunarbrotin einnig. Allur þorri þeirra, sem dæmdir eru til fangavistar, flokkast sem áfengis- eða eiturefnasjúklingar.

Mikilvægt er að taka í löggæzlunni og í dómskerfinu á birtingarmyndum vandamálsins. Refsingar við glæpum þarf að herða. Stemma þarf stigu við ölæði á almannafæri, hvort sem er á fjölmennum samkomum eða á götum úti í hjarta miðborgar Reykjavíkur.

Mestu máli skiptir þó að grafast fyrir rætur meinsins. Finna þarf, hvað það er í hugarfari Íslendinga, sem gerir okkur ólíka öðrum þjóðum, þótt skyldar okkur séu. Við þurfum að einangra skapgerðarbrestinn og skapa nýja hefð um, að menn skuli ávallt halda höfði.

Við þurfum að byrja á uppeldi hinna fullorðnu, foreldra, skólamanna, íþróttaþjálfara og annarra æskulýðsleiðtoga. Þar finnum við fyrirmyndir unglinganna.

Jónas Kristjánsson

DV

Fámennisstjórn auðkýfinga

Greinar

Ráðamenn Kína geta mikið lært af Hong Kong eftir yfirtökuna, ef þeir kæra sig um. Þar eru háþróaðar nútímastofnanir, sem hingað til hafa tryggt samfellda velgengni Hong Kong, svo sem frjáls kauphöll, frjálst réttarkerfi, frjáls fjölmiðlun og frjálst kosið þing.

Ráðamenn Kína geta spurt sig, hvers vegna íbúum Hong Kong hefur vegnað efnahagslega miklu betur og hraðar en íbúum meginlandsins. Þeir geta raunar einnig spurt sig, hvers vegna kínverskum íbúum Taívans og annarra nágrannalanda yfirleitt hefur vegnað betur.

Óþarfi að gera mikið veður út af flýti Kínastjórnar við að senda her og skriðdreka til Hong Kong. Ráðamenn Kína eru fyrst og fremst að sýna mátt sinn og megin, svo sem gjarnt er um þá, er skortir sjálfsöryggi. Þeir eru ekki að efna til blóðbaðs á friðartorgunum í Hong Kong.

Hitt er ills viti, að lýðræðislega kjörið þing í Hong Kong hefur verið sent heim og í þess stað skipað nýtt þing samkvæmt nafnalista frá Beijing. Það bendir til, að Kínastjórn muni ekki sætta sig við, að fólkið í Hong Kong geti átölulaust fengið að segja hug sinn.

Kínastjórn hefur komið á fót sérstæðri tegund fámennisstjórnar í Hong Kong. Það er ekki fámennisstjórn flokksleiðtoga, heldur auðkýfinga, sem sækja afar íhaldssama og almennings-fjandasmlega hugmyndafræði sína miklu fremur til Singapúr en til Beijing.

Búast má við, að auðkýfingarnir vilji fremur réttaröryggið og siðavendnina í Singapúr en réttaróvissuna og spillinguna í Kína. Þeir munu þó að hætti Singapúrs vilja hafa lögin ströng, sérstaklega þau, sem lúta að gagnrýni á stjórnvöld og viðurlögum við henni.

Erfiðara verður að koma slíku á í Hong Kong en í Singapúr. Íbúar fyrri staðarins hafa vanizt því að fá að segja hug sinn, mynda með sér félög að eigin geðþótta og geta valið úr ótal fjölmiðlum með fjölbreytilegar skoðanir. Hong Kong er miklu vestrænni en Singapúr.

Líklegast er, að í fyrstu verði spennan í Hong Kong fyrst og fremst milli vestrænt hugsandi lýðræðissinna og fámennisstjórnar auðkýfinganna, sem óttast lýðinn, fremur en milli stjórnarinnar í Hong Kong annars vegar og yfirstjórnarinnar í Beijing hins vegar.

Að vísu er engin sérstök sagnfræðileg ástæða til að reikna með, að Kínastjórn láti auðkýfingana í Hong Kong ráða ferðinni. Þeir hafa vanizt því að vera íhlutunarsamir, enda búa þeir við hugmyndafræði, sem segir, að smáu sem stóru skuli stjórnað frá valdamiðjunni.

Ennfremur sýnir reynslan, að stjórnin í Beijing er mjög íhlutunarsöm við landamærin. Hún gerði innrás í Tíbet og innlimaði það. Hún gerði innrás í Indland og náði þar nokkrum héruðum. Hún gerði innrás í Víetnam, en varð undan að láta við lítinn orðstír.

Kínastjórn hefur verið með yfirgang gagnvart Taívan og gagnvart ríkjum, sem eiga lönd að Kínahafi. Hún gerir tilkall til óbyggðra eyja, sem eru miklu nær ströndum annarra landa. Hún gerir tilkall til Mongólíu og héraða í Rússlandi. Hún er ófriðleg á öllum landamærum.

Óhjákvæmilegt var, að Kína tæki völdin í Hong Kong. Bretland hefur ekki innri kraft til að verja fjarlægar leifar heimsveldis síns. Betra er, að valdaskiptin fari fram á friðsamlegan hátt en með blóðsúthellingum. Ef illa fer fyrir Hong Kong, er ekkert við því hægt að gera.

Því miður er líklegt, að óttinn við, að áhrifin frá Hong Kong grafi undan kerfinu á meginlandinu, verði yfirsterkari lönguninni til að læra af ríkidæmi borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaflaskil í hagblindusögu

Greinar

Furðulegum kafla lýkur í hagblindusögu Íslendinga á þriðjudaginn, þegar þeir geta valið sér flugfélag milli staða innanlands. Frá og með þeim degi verða sérleyfi lögð niður í innanlandsflugi. Samkeppni hefst að nýju eftir áratuga hlé og frjálst verð tekið upp á farseðlum.

Hagblinda hélt innreið sína í hagstjórn ríkisins snemma í kreppunni miklu á fjórða áratug aldarinnar. Hún lá eins og mara á þjóðinni í þrjá áratugi og byrjaði ekki að sjatna fyrr en með Viðreisn. Leifar hagblindunnar sjást t.d. í skömmtun í samgöngum og fjölmiðlun.

Enn eimir eftir af hagblindu hugarfarsins. Enn reikna margir verðgildi hluta og þjónustu út frá fyrirhöfninni, sem fer í að búa hlutina til eða sinna þjónustunni. Þeir hafa ekki áttað sig á, að í markaðskerfi er ekki beint orsakasamband milli fyrirhafnar og tekna af henni.

Í markaðskerfi ræðst verðlag af því, sem markaðurinn vill borga, en ekki af útreiknuðum fjölda vinnustunda margfölduðum með tímakaupi og af útreiknuðu verðgildi fjárfestinga deilt með afskriftatíma þeirra. Það er ekki til neitt verð, “sem kostar að gera hlutina”.

Í markaðskerfi er spurt, hvers virði varan eða þjónustan sé fyrir þann, sem vill eða vill ekki nota hana, en ekki hvers virði fyrirhöfnin var fyrir þann, sem býður vöruna eða þjónustuna. Íslendingar hafa átt vestrænna þjóða erfiðast með að skilja þetta grundvallarlögmál.

Samt er lögmálið ekki ný bóla. Markaðshyggjan hefur verið mannkyninu eðlileg frá örófi alda. Skömmtunarhagfræðin var hins vegar tiltölulega ný bóla, sem á skömmum tíma sannaði undraverða hæfni við að leggja heilar þjóðir að velli í efnahagsmálum.

Einna sterkust er hagblinda Íslendinga í landbúnaði. Þar eru framdir flóknir útreikningar á kostnaði og síðan fundið út, hvað neytendur og skattgreiðendur eigi að borga til að reikningsdæmin gangi upp. Þar er þó að renna upp fyrir mönnum, að útreikningarnir dugi ekki.

Árum saman höfum við heyrt og lesið, að tap sé á innanlandsflugi, að tekjur af því svari ekki kostnaði. Þetta hefur verið notað sem rök gegn endurheimtu frelsi á flugleiðum innanlands og sem rök með framhaldi forsjárhyggju á vegum reiknimeistara ríkisins.

Árum saman hefur farþegum í innanlandsflugi verið talin trú um, að verið sé að gefa með 14 þúsund króna farseðli fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur. Frá og með þriðjudeginum gefst fólki kostur á að borga helminginn, 7 þúsund krónur, fyrir þessa leið.

Nú er viðurkennt eins og fyrr á öldum, að það sé ekki hlutverk ríkisins að hafa vit fyrir athafnamönnum, sem vilja bjóða lægra verð fyrir vöru sína og þjónustu. Hlutverk ríkisins sé þvert á móti að setja leikreglur, sem ryðji samkeppnishindrunum úr vegi markaðarins.

Ein af leikreglunum er, að ríkið varðveiti tryggingafé til að nota til aðstoðar farþegum, sem annars yrðu strandaglópar, ef illa fer fyrir kappsömum athafnamönnum. Þannig tryggir velferðarríki nútímans, að óheft samkeppni komi ekki niður á óheppnum notendum hennar.

Fullur sigur er ekki unninn, þótt tvö fyrirtæki stundi innanlandsflug. Skemmst er að minnast þess, að nýlega var með sameiningu lögð niður samkeppni tveggja fyrirtækja á nokkrum flugleiðum. Hugsanlegt er, að Flugfélagið og Íslandsflug verði einhvern tíma sameinuð.

Ef nýja samkeppnin dofnar, er mikilvægt, að leikreglur ríkisins séu jafnan slíkar, að ekki sé lagður steinn í götu annarra, sem vilja hlaupa í samkeppnisskarðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Samanburðarfræði hagkerfa

Greinar

Samanburðarfræði ýmissa afbrigða vestrænna hagkerfa er í tízku um þessar mundir, bæði vegna ánægju Bandaríkjamanna af eigin árangri í efnahagsmálum og vegna umræðna um áhrif sigurs vinstri flokka í tveimur af stærstu ríkjum Evrópu, Bretlandi og Frakklandi.

Breiddin í afbrigðum vestrænna hagkerfa er mikil. Í öðrum kantinum eru Bandaríkin, þar sem markaðsöflin eru frjálsari en annars staðar og í hinum kantinum er Frakkland, þar sem ríkisstýring er meiri innan markaðskerfisins en hjá öðrum vestrænum stórveldum.

Bandaríkjamenn benda á mikinn hagvöxt, stöðugt verðlag og mikla atvinnu sem dæmi um yfirburði bandarísku útgáfunnar. Frakkar benda hins vegar á, að mælingar á lífsgæðum almennt, ekki bara peningum, sýni, að sú sé hamingjan mest að búa í Frakklandi.

Alvarlegir gallar eru á báðum þessum útgáfum. Í Frakklandi er mikið atvinnuleysi og af þess völdum mikið þjóðfélagsrót, sem tengist spennu milli fasista og nýbúa. Vinnuafl er lítt sveigjanlegt og lagast afar hægt að náttúrulegum breytingum á atvinnuháttum.

Í Bandaríkjunum skilar hagvöxturinn sér aðeins að litlu leyti til almennings. Láglaunafólk býr við skertan kost í góðærinu og sætir þar á ofan vaxandi takmörkun á persónulegu svigrúmi á vinnustað vegna hertra aðgerða stjórnenda við að auka framleiðni fyrirtækjanna.

Norrænu ríkin eru ekki þau fyrirmynd, sem þau voru áður. Sameiginlegt einkenni þeirra er að hafa ofkeyrt þanþol velferðarkerfisins. Í nokkur ár hafa þau verið að draga í land og reyna að setja velferðinni skorður til að endurheimta samkeppnishæfni gagnvart útlöndum.

Þýzkaland er að ýmsu leyti í svipaðri stöðu og Norðurlönd. Þar hefur frá tímum Adenauers og Erhardts verið rekin stefna félagslegs markaðsbúskapar, sem hefur leitt til þess, að lífskjör fólks hafa farið töluvert framúr getu atvinnulífsins til að standa undir þeim.

Bretland hefur verið hálfgerð tilraunastofa allt frá valdaskeiði Thatcher, sem færði hagkerfið frá franska kantinum að hinum bandaríska. Það virðist hafa gefið nógu góðan hagvöxt til þess, að vinstri stjórnin nýja hyggst ekki hrófla mikið við kerfi járnfrúarinnar.

Það eru þó tvö önnur og smærri lönd í Evrópu, sem öðrum fremur hafa vakið athygli fyrir að sameina mikinn hagvöxt, mikla atvinnu, litla verðbólgu, gott réttlæti og mikla festu í innviðum þjóðfélagsins. Þetta eru Írland og Holland, sem margir leita nú fyrirmynda hjá.

Einkum þykir Hollendingum hafa tekizt vel, þótt þeir státi raunar ekki af litlu atvinnuleysi. Þeir hafa í senn reynt að leyfa markaðsöflunum að leika sem mest lausum hala, en hafa til mótvægis haldið uppi öflugri velferð með miklum millifærslum á vegum skattakerfisins.

Að mörgu leyti minnir hollenzkt hagkerfi á íslenzkt hagkerfi allra síðustu ára. Bæði löndin einkennast af þjóðarsáttum um kaup og kjör og góðu skipulagi á hægfara eflingu lífskjara innan ramma stöðugs verðlags svo og af félagslegu réttlæti og sveigjanleika vinnuafls.

Frá sjónarmiði markaðsbúskapar eru Hollendingar þó okkur fremri. Þeir hafa í meira mæli hafnað ríkisrekstri og tekizt betur að koma í veg fyrir fáokun í atvinnulífinu. Þeir reka til dæmis sinn landbúnað eins og atvinnuveg en ekki eins og félagsmálastofnun.

Viðfangsefni vestrænna þjóða hefur ekkert breytzt um langan aldur, þrátt fyrir tilraunastarfsemi. Þær eru sí og æ að reyna að sætta markaðshyggju og félagshyggju.

Jónas Kristjánsson

DV

26 milljarða skaðsemi

Greinar

Samningur bandarísku tóbaksfyrirtækjanna við fjörutíu ríki í Bandaríkjunum hefur fordæmisgildi og samsvarar ímynduðu 26 milljarða króna samkomulagi þeirra við íslenzka ríkið, ef miðað er við íbúafjölda. Það eru um 100.000 krónur á hvern núlifandi Íslending.

Samkomulagið í Bandaríkjunum nær aðeins yfir það tjón, sem áætlað er, að tóbaksfyrirtækin hafi valdið þar vestra. Það nær ekki til tjóns af völdum þeirra á Íslandi. Þess vegna er eðlilegt, að íslenzk stjórnvöld taki upp þráðinn í framhaldi af bandaríska samningnum.

Tóbaksfyrirtækin gera ráð fyrir að geta fjármagnað samkomulagið með því að auka tekjur sínar af tóbakssölu erlendis um hærri fjárhæð en þá, sem þau verða að greiða bandarískum aðilum. Þau telja sig samkvæmt þessu áfram hafa veiðileyfi á útlendinga.

Erlend ríki ráða auðvitað, hvort þau veita slíkt veiðileyfi. Þau hafa hagsmuna að gæta fyrir hönd borgaranna og einnig sem einn helzti fjármögnunaraðili sjúkdómakerfisins. Þeim ber að rísa upp til varna í framhaldi af sameinuðu framtaki bandarísku ríkjanna 40.

Fyrir löngu er orðin vísindaleg staðreynd, að tóbak er óvenju sterklega vanabindandi eitur, sem veldur ótímabærum sjúkdómum og dauða, svo og gífurlegum sjúkrakostnaði af völdum sjúkdómanna. Ljóst má vera, að það er ábyrgðarhluti að framleiða og selja slíkt eitur.

Komið hefur í ljós, að ráðamenn tóbaksfyrirtækjanna hafa lengi vitað um nikótínfíknina og hafa meira að segja hagrætt nikótíninnihaldi tóbaks til að efla fíkn fórnardýranna. Þeir eru því engu betri pappírar en þeir, sem selja hefðbundin fíkniefni í skúmaskotum.

Einnig hefur komið í ljós, að þeir hafa lengi vitað um geigvænleg áhrif tóbaks á heilsufar. Þeir hafa því vitandi vits árum saman verið að framleiða og selja eitur, sem hefur skelfilegar afleiðingar í formi óvenjulega illvígra og sársaukafullra sjúkdóma fórnardýranna.

Raunar eru margir hissa á því, hve vel fíkniefnabarónar tóbaksfyrirtækjanna sleppa í samningnum. Meðal annarra hefur Clinton Bandaríkjaforseti lýst efasemdum sínum um ágæti hans. Í fjölmiðlum er dregið í efa, að bandaríska þingið muni staðfesta hann óbreyttan.

Engin ástæða er fyrir Íslendinga að sætta sig við, að erlendir eiturlyfjasalar geti óátalið látið dreifa fíkniefnum sínum á öðru hverju götuhorni landsins. Vandinn er hins vegar sá, að svo margir eru ánetjaðir eitrinu, að erfitt væri að framfylgja annars sanngjörnu sölubanni.

Hægt er þó að taka tóbakið úr almennum búðum og flytja það í sérstakar verzlanir, svo sem áfengisútsölur eða lyfjabúðir, enda á það heima innan um önnur fíkniefni. Ennfremur þarf að efla um allan helming aðgerðir til að hjálpa fólki til að forðast að ánetjast tóbaki.

Árlegar tekjur ríkisins af tóbaki nema tíunda hluta bandarísku skaðabótanna, ef þær væru færðar yfir til íslenzkra aðstæðna. Af þessum tíunda hluta skilar ríkið aðeins til baka einum hundraðasta hluta til tóbaksvarna, 34 milljónum króna af 3 milljörðum króna.

Íslenzka ríkið er þannig samsekt bandarísku eiturlyfjaframleiðendunum. Það hagnýtir sér eins og þeir, að tóbaksnotendur eru háðir fíkninni og geta ekki hætt. Þess vegna breytist tóbaksnotkun lítið við verðbreytingar. Fíkniefni fylgja ekki markaðslögmálum.

Á sama hátt og íslenzka ríkið á skaðabótakröfu á hendur bandarísku tóbaksfyrirtækjunum, þá ber því einnig að nota sinn hluta illa fengins fíkniefnagróða til tóbaksvarna og lækninga á sviði tóbakssjúkdóma.

Jónas Kristjánsson

DV

Það góða sem ég vil geri ég ekki

Greinar

Frá upphafi núverandi útgerðar Helgarpóstsins hefur ritstjórinn einmitt gert það, sem hann sýknt og heilagt varaði aðra við. Hann hefur búið við 40% eignaraðild áhrifamikils aðila úti í bæ, útgáfufélags Alþýðubandalagsins, þess sem rekur Vikublaðið fyrir flokksstyrkinn.

Í ofanálag héldu málsaðilar eignarhaldinu leyndu fyrir lesendum Helgarpóstsins og félögum Alþýðubandalagsins og svo auðvitað þjóðinni allri um leið. Þingmenn Alþýðubandalagsins hafa komið af fjöllum og hafa misjafnar skoðanir á þessari ráðstöfun verðmæta.

Athyglisverðast í þessu samhengi er, að það hefur verið ein helzta fjölmiðlunarkenning Helgarpóstsins, að eignarhald hafi mikil áhrif á innihald fjölmiðla, jafnvel þótt það sé aðeins einn tíundi hluti þess, sem útgáfufélag Alþýðubandalagsins átti í Helgarpóstinum sjálfum.

Það góða, sem ég vil, geri ég ekki, sagði nafngreindur postuli fyrir tveimur árþúsundum. Það er því hefð fyrir, að misræmi sé milli góðs vilja og góðra verka. Hins vegar lagði fyrri postulinn ekki í vana sinn að væna einmitt aðra um það athæfi, sem hann stundaði ákafast sjálfur.

Ritstjóri Helgarpóstsins hefði ekki litið það mildum augum, ef þeir, sem hann setti ofan í við, hefðu reynt að verja sig með því, að þeir væru svo góðir í sér, að þeir létu eigendur ekki hafa áhrif á sig. Honum finnst hins vegar frambærilegt að segja þetta sjálfur um sjálfan sig.

Ritstjóri Helgarpóstsins hefði ekki litið það mildum augum, ef þeir, sem hann setti ofan í við, hefðu reynt að verja sig með því að segjast ætla að reyna að bæta ráð sitt á allra næstu mánuðum. Honum finnst hins vegar frambærilegt að segja þetta sjálfur um sjálfan sig.

Nú eru uppi ráðagerðir um, að ritstjóri og starfsfólk blaðsins kaupi hlut útgáfufélags Alþýðubandalagsins og að stjórnarmenn í því útgáfufélagi taki skellinn persónulega, ef það endurheimtir ekki þriggja milljóna króna hlutafé sitt. Batnandi postulum er bezt að lifa.

Það breytir hins vegar því ekki, að málinu var mánuðum saman haldið leyndu fyrir öllum þeim, sem hefðu viljað vita um eignarhald blaðsins, þegar þeir lásu innihald þess. Það breytir ekki því, að nýju loforðin fögru stafa af, að glöggir menn komu upp um strákinn Tuma.

Sú síðbúna skýring heldur ekki vatni, að peninga, sem átt hafi að fara í samstarf Vikublaðsins og Helgarpóstsins um ýmsa framleiðsluþætti, hafi dagað uppi sem hlutafé hjá Helgarpóstinum og legið þar í átta mánuði, af því að Vikublaðið hafi misst áhuga á samstarfinu.

Það er ekki augljós aðferðafræði við samstarf um framleiðsluþætti að leggja fram 40% af hlutafé samstarfsaðilans, missa síðan áhuga á samstarfinu og láta loks hlutaféð liggja eins og ekkert hafi í skorizt. Sú vörn annarra hefði ekki staðizt gagnrýni Helgarpóstsins.

Ljóst er, að hugmyndafræði blaðsins mun breytast að samsetningu í kjölfar uppljóstrunarinnar. Framvegis verður minna um samsæriskenningar þess, þar sem dularfullar og glæpsamlegar hneigðir og fyrirætlanir eru taldar standa að baki smávægilegum eignarhlutum.

Málið skaðar um leið aðra fjölmiðla. Það spillir fyrir öllum hinum, þegar þeir taka málsmetandi menn á beinið og prédika yfir þeim góða siði. Á næstunni verður slíku svarað með því að segja, að postularnir og prédikararnir séu ekki barnanna beztir, svo sem dæmin sanni.

Taka mun langan tíma að fá menn til að viðurkenna, að leyndarmál Helgarpóstsins sé einstakt leyndarmál, sem segi alls ekkert um aðra fjölmiðlun í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Löng eyðimerkurganga hafin

Greinar

Þingmenn Íhaldsflokksins brezka hafa ákveðið að leita ekki inn á miðju stjórnmálanna, heldur leggja út í eyðimörkina í von um, að handan hennar bíði flokksins grænni hagar og tærari vatnsból. Þess vegna hafa þeir kosið ungan hægri mann sem formann flokksins.

Þingmennirnir höfnuðu Kenneth Clarke, sem er vinsæll miðjumaður og að mörgu leyti hlynntur evrópskri samvinnu. Clarke hefði verið líklegur til að reyta fylgi af keppinautnum, hinum nýja forsætisráðherra Verkamannaflokksins, sem einnig er miðjumaður.

Nýr formaður Íhaldsflokksins er hins vegar William Hague, aðeins 36 ára að aldri og einn af drengjum lafði Thatcher. Hann hefur vakið athygli fyrir róttækar hægri skoðanir, þar á meðal stuðning við dauðarefsingu og andstöðu við fóstureyðingar og ríkisafskipti.

Fara verður varlega í að túlka hægri stefnu Hagues. Hann hefur í seinni tíð siglt meira með löndum og er talinn vera fær um að haga seglum eftir vindi, ef hugmyndafræðin reynist vera frama hans fjötur um fót. Hann er í senn hugsjónamaður og tækifærissinni.

Samt virðist nokkuð ljóst, að hann og flokkur hans eiga eyðimerkurgöngu í vændum. Flokkurinn er fámennur á þingi og hugmyndafræði formannsins nýtur ekki hljómgrunns með þjóðinni. Tony Blair forsætisráðherra veltir sér hins vegar upp úr vinsældum.

Íhaldsflokkurinn tekur þá áhættu með fyrirhugaðri eyðimerkurgöngu að verða afskrifaður sem fámennur sérvizkuflokkur á jaðri stjórnmálanna, en Frjálslyndi flokkurinn taki við sem hinn kosturinn í brezkum stjórnmálum, þegar alvara lífsins fer að brenna á Blair.

Til langs tíma litið kann þó að vera vit í valinu á Hague. Ef til vill tekst honum í eyðimörkinni að finna flokkinn upp að nýju á svipaðan hátt og Margaret Thatcher endurskóp hann á sínum tíma í róttækri hægri mynd og náði þar á ofan stuðningi almennings.

Að sinni eru horfurnar slæmar. Almenningsálit í Bretlandi og víðar í Evrópu hefur verið að sveiflast frá harðri markaðshyggju yfir til endurvakinnar velferðarstefnu. Menn þykjast sjá, að harðri markaðshyggju fylgi vandamál ekki síður en óheftri velferðarstefnu.

Þeirri skoðun vex fylgi, að upp séu að rísa fjölþjóðlegir markaðsrisar, sem noti mannauðinn eins og hverja aðra hilluvöru og etji ríkjum hverju gegn öðru til að breyta römmum viðskiptalífsins á þann hátt, að svigrúm markaðsrisanna aukist og frelsi fólksins minnki.

Ef markaðshyggja á að ná hljómgrunni hjá fólki að nýju, þarf hún að taka á vanda af þessu tagi og sýna almenningi fram á, að frelsi hans muni aukast og staða hans batna. Engin merki eru um, að hugmyndafræðingar hægri manna hafi náð tökum á þessu verkefni.

Næstu mánuði verður boltinn hins vegar hjá brezkum félagshyggjumönnum. Þeim hefur tekizt að losa sig við mestan hluta bagganna af úreltum kennisetningum og hafa nú tækifæri til að sýna, að hugmyndir þeirra leiði ekki aðeins til réttlætis, heldur einnig til hagsældar.

Það fer að nokkru eftir tökum Verkamannaflokksins á nýfengnum völdum og getu Frjálslynda flokksins til að sigla inn í eyðuna, sem er að myndast við brottför Íhaldsflokksins út í eyðimörkina, hvort síðastnefnda flokknum tekst að endurvekja traust almennra kjósenda.

Þingmenn Íhaldsflokksins hafa tekið mikla áhættu með því taka Hague fram yfir Clarke og leggja út í eyðimörkina. Flest bendir til, að gangan verði löng og ströng.

Jónas Kristjánsson

DV

Heiðursmenn brugga launráð

Greinar

Samkvæmt tölvupósti milli banka hafa staðið viðræður milli félagsmálaráðuneytisins, bankanna og Húsnæðisstofnunar um, að stofnunin taki að sér að hækka lántökugjöld, svo að bankarnir þurfi ekki að gera það, þegar þeir taka við hluta af rekstri húsbréfakerfisins.

Í viðtali við DV sagði aðstoðarmaður ráðherra, að hingað til hafi nýir lántakendur borið allan kostnað, en ekki þeir, sem síðar yfirtaka lánin. Sanngjarnt væri að dreifa þessum kostnaði yfir á stærri hóp allra þeirra, sem einhvern tíma koma að greiðslu lánanna.

Þetta eru falsrök. Hugmynd þeirra, sem hafa unnið að svokölluðu heiðursmannasamkomulagi málsaðila um gjaldtökuna, er að bæta nýjum álögum á lántakendur, en ekki að færa álögur milli lántakenda. Enda er kerfið allan lánstímann smám saman að rukka lántökugjaldið.

Málið er einfalt. Bankarnir vilja grípa gæsina, þegar þeir taka að sér hluta húsbréfakerfisins. Þeir vilja búa til sérstakan tekjupóst til viðbótar við þær tekjur, sem þeir mundu að öðru leyti hafa af húsbréfunum. Þeir vilja hins vegar losna við óvinsældir af nýrri gjaldheimtu.

Samkvæmt tölvupóstinum hefur ráðuneytið lagt til, að málið verði leyst með því, að Húsnæðisstofnun taki á sig óvinsældir gjaldheimtunnar áður en bankarnir taka við dæminu, svo að þeir geti yppt öxlum gagnvart viðskiptamönnum sínum og bent á aðra ábyrgðaraðila.

Engin efnisleg rök eru fyrir auknum álögum á húsbréf. Markmið yfirfærslu bréfanna frá Húsnæðisstofnun til bankanna er að koma á einfaldara kerfi, sem kostar minna en núgildandi kerfi. Þess vegna eiga álögur að lækka við flutninginn, en alls ekki að hækka.

Málið sýnir í hnotskurn lítið brot af samsæri valdastofnana þjóðfélagsins gegn þjóðinni. Bankarnir mynda öflugan fáokunarhring og hafa með sér samráð um að hefta samkeppni og gera heldur heiðursmannasamkomulag um að maka krókinn sameiginlega.

Þetta er dæmigerður fáokunarhringur eins og er hér á landi meðal annars í samgöngum, tryggingum, búvörudreifingu og olíuverzlun. Vegna smæðar markaðarins einnar út af fyrir sig er meira um slíka fáokun hér á landi en víðast hvar á Vesturlöndum.

Til viðbótar kemur svo tilhneiging ríkisvaldsins til að reka erindi fáokunarhringa gegn almannahagsmunum. Fáokunarhringarnir eru fremstir í flokki margfrægra gæludýra kerfisins. Þeir hafa beinan aðgang að ráðamönnum landsins í þjóðfélagi kunningsskaparins.

Bankarnir hafa þá óskastöðu í kerfinu að lúta stjórn fyrrverandi stjórnmálaforingja, sem hafa betri aðgang en aðrir að núverandi stjórnmálaforingjum. Þetta pólitíska strákafélag nota bankarnir til að framleiða heiðursmannasamkomulag um að létta sér lífið.

Afleiðingin er, að íslenzka bankakerfið veltist um í offitu. Það er helmingi dýrara í rekstri en bankakerfi Vesturlanda. Ef heilbrigð samkeppni ríkti hér á landi og allt væri með felldu að öðru leyti, gætu bankarnir lifað góðu lífi af miklu minni tekjum en þeir hafa núna.

Séríslenzka fáokunarkerfið er þjóðinni dýr byrði. Eitt brýnasta verkefni stjórnmálanna er að skera upp herör gegn þessu óhagkvæma hagkerfi og brjóta fáokunina á bak aftur, svo að þjóðin fái svipað út úr striti sínu og þær þjóðir fá, sem eru að öðru leyti á svipuðu róli.

Spillingarfnykinn leggur langar leiðir af tölvupósti fáokunarkerfisins og félagsmálaráðuneytisins. Þar er valdastéttin að undirbúa sjónhverfingar og gera fjárhagslegt samsæri gegn fólkinu í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Auknar verðkannanir

Greinar

Samkomulag Neytendasamtakanna við fjölmennustu samtök launafólks í landinu, Alþýðusambandið og bandalag opinberra starfsmanna, getur markað tímamót í neytendamálum, ef vel er á spöðum haldið. Það ætti einkum að geta leitt til fleiri og betri verðkannana.

Með samningnum fá Neytendasamtökin nokkuð af peningunum, sem ríkið hefur ekki viljað veita þeim. Á Norðurlöndum leggur ríkið neytendasamtökum til mikið fé, meðal annars af því að það veit, að verðkannanir eru ein bezta leiðin til að halda verðlagi í skefjum.

Mikilvægt er, að verðlag haldist stöðugt hér á landi í kjölfar kjarasamninganna, sem gerðir voru síðla vetrar. Þeir fela í sér árvissar kjarabætur, svo framarlega sem þær fara ekki út í verðlagið. Af því stafar áhugi stéttarsamtakanna á þáttöku í óbeinu verðlagseftirliti.

Ekki eru síðri hagsmunir ríkisins, sem stóð fyrir þjóðarsátt um kjarasamningana. Ef verðlag helzt stöðugt í landinu á næstu misserum, hefur ríkið meira svigrúm en ella til að fylgja skynsamlegri hagstefnu. Fjárveitingavaldið vill ekki átta sig á þessu augljósa samhengi.

Enginn vafi er á, að verðkannanir halda verðlagi í skefjum. Viðskipti færast frá aðilum, sem halda verðlagi uppi, til hinna, sem halda því niðri. Þessi tilfærsla eykur hagkvæmni í rekstri og bætir lífskjör allra þeirra, sem vilja notfæra sér upplýsingarnar og nenna því.

Dagblaðið var fyrst til að gera verðkannanir að föstum þætti daglega lífsins fyrir um hálfum öðrum áratug. Síðan hafa fleiri aðilar komið til skjalanna, svo sem Samkeppnisstofnun. Og nú fá Neytendasamtökin fé til að verða umsvifamikill aðili á þessu mikilvæga sviði.

Gott er að nokkrir aðilar stundi verðkannanir, hver með sínum hætti. Meiri fjölbreytni eykur líkur á, að vel sé að könnunum staðið, auk þess sem heildarfjöldi verðkannana verður miklu meiri en ella. Allt eflir þetta hin beinu og óbeinu áhrif á verðlagið í landinu.

Verðkannanir eru ekki aðeins gagnlegar á sviðum, þar sem margir aðilar eru í samkeppni og bjóða misjafnt verð. Þær koma líka að gagni með því að sýna fólki, á hvaða sviðum fákeppni lýsir sér í svipuðu verði allra þeirra, sem er að bjóða sömu vöru eða þjónustu.

Vegna fámennis þjóðarinnar og langvinnrar þjónustu stjórnvalda við gæludýr sín í atvinnulífinu er fáokun of útbreidd hér á landi. Verðkannanir einar megna ekki að rífa niður fáokunina, en þær geta virkjað almenningsálit og leitt til pólitískra aðgerða til að opna markaðinn.

Þess vegna er mikilvægt, að verðkannanir feli einnig í sér fjölþjóðlegan samanburð, svo að fólk geti séð, hvernig íslenzka samkeppnisástandið er í samanburði við önnur lönd. Þannig verður óbein samkeppni meiri en væri á fámennum markaði einum og lokuðum sér.

Þetta er sérstaklega mikilvægt í verðkönnunum á búvöru, sem nýtur sérstakrar náðar stjórnvalda. Nauðsynlegt er að vekja athygli almennings og um leið kjósenda á, hver er kostnaður hans af verðmun á landbúnaðarafurðum hér á landi og til dæmis í Bandaríkjunum.

Þá þurfa verðkannanir einnig stuðning af gæðakönnunum, þar sem sérfróðir menn eru kvaddir til að meta vöru og þjónustu til gæða. Verðið eitt er ekki algildur mælikvarði á hagsmuni neytenda, því að stundum eru í verðkönnunum bornar saman misgóðar vörur.

Á öllum þessum sviðum bíða ótal verkefni eftir ávöxtum hins nýja samstarfs Neytendasamtakanna og helztu samtaka launafólks. Það er einmitt í svona málum, sem í ljós kemur, hvort opna þjóðfélagið virkar eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Sauðfé í Sahara Íslands

Greinar

Enn gerir landgræðslustjóri ekkert, þótt mývetnskir bændur reki sauðfé á gróðurvana Austurafrétt í trássi við umvandanir og siðaprédikanir. Hann tuðar og tuðar og tuðar, en beitir ekki því valdi, sem hann hefur, til að láta loka viðkvæmum svæðum fyrir ágangi búfjár.

Friða þarf þessi svæði af almennum vistfræðilegum ástæðum og einnig vegna þess, að sandfokið af þeim ógnar náttúruperlunni í Dimmuborgum. Þær munu smám saman fyllast af sandi. Hann er raunar þegar er farinn að berast niður í þær með vaxandi hraða.

Landgræðslustjóri hefur þó samvizkubit vegna þessa aðgerðaleysis, því að nýlega sagði hann í blaðaviðtali: “Þeir eru að skaða ímynd bænda og landbúnaðarins í heild, og ég tel, að flestallir bændur eigi erfitt með að sætta sig við þennan upprekstur á þessum tíma.”

Það sannast hins vegar á landgræðslustjóra, að fagurt hugarfar og góð áminningarorð eru til lítils, ef menn hafa ekki bein í nefinu til að framkvæma það, sem þeir eru beinlínis ráðnir til að gera. Þannig skaðar hann málefnið, sem honum hefur verið falið að varðveita.

Annar maður stendur einnig í vegi gróðurverndar á afréttum Mývatnssveitar. Það er landbúnaðarráðherra, sem líka gerir ekkert, en hefur hins vegar ekkert samvizkubit, enda hefur hann alltaf staðið dyggan vörð um ýtrustu sér- og stundarhagsmuni í landbúnaði.

Árum saman hafa verið miklar deilur um upprekstur mývetnskra bænda. Landgræðslustjóri hefur verið að reyna að hafa vit fyrir þeim og ná samkomulagi við þá, fyrst um takmörkun og síðan stöðvun, en þeir hafa látið allt slíkt hljóma sem mýflugusuð í eyrum sínum.

Mývetnskir bændur líta á tuðið í landgræðslustjóra sem linkind eins og norsk stjórnvöld líta á tuðið í utanríkisráðherra okkar. Ef brotaviljinn er eindreginn, þýðir ekkert að nudda vandræðamönnum með góðu til að haga sér eins og samfélagið ætlast til af þeim.

Svo var upprekstur þessi orðinn óvinsæll vorið 1992, að þá var hluti fjárins fluttur á afrétt á bílum í skjóli myrkurs. DV frétti af þessu og fór á staðinn, þar sem aðgerðir bænda voru festar á filmu. Eftir þetta fóru náttúruverndarmenn að kveða fastar að orði.

Áfram héldu mývetnskir bændur að nauðga landinu. Vorið 1994 kom seint. Þá fluttu þeir sauféð á hvíta skafla í svörtum sandi. Þá neyddist landgræðslustjóri til að segja, að breytingar væru í nánd, en sú nánd er því miður ekki kominn enn, þremur árum síðar.

Landgræðslustjóri hefur sagt í viðtali við DV, að í rauninni séu upprekstrarlönd Mývetninga í heild óbeitarhæf. Þetta er nákvæmlega sama skoðun og fræðimenn hafa. En mývetnskir sérhagsmunaaðilar telja sig vita betur og hafna skoðunum úr öðrum sveitum.

Vísindamenn ganga raunar lengra en embættismenn og segja afréttir Mývetninga vera stærsta rofsvæði í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Verði ekkert aðhafzt, mun nærri allt gróðurlandi frá Vatnajökli og norður í Öxarfjörð smám saman verða sandinum að bráð.

Þetta kom fram á ráðstefnu í Mývatnssveit í fyrra, er lögð var fram áætlun um friðun 3000­4000 ferkílómetra svæðis á þessum slóðum. Samkvæmt henni á að hafa Mývetninga með í ráðum, ráða þá til landverndarstarfa og borga þar á ofan fyrir túnrækt þeirra.

Brotamenn Mývatnssveitar hafa samt alls engan samstarfsvilja sýnt og því ber embættismönnum skylda til að stöðva landeyðingu þeirra með lögregluvaldi

Jónas Kristjánsson

DV