Greinar

Skólarnir eru lélegir

Greinar

Samkvæmt fjölþjóðlegri rannsókn eiga Íslendingar ekki von á góðri framtíð, því að við stöndum okkur þjóða verst í efnahagslega mikilvægum skólafögum, stærðfræði og raungreinum. Við vermum botninn með nokkrum fátækum ríkjum, sem tæpast hafa ráð á skólum.

Fyrir hálfu ári var kynntur samanburður barna í 7. og 8. bekk í þessum löndum og í þessari viku var kynntur samanburður barna í 3. og 4. bekk. Eftir hálft ár verður kynntur samanburður unglinga í framhaldsskólum. Vitað er, að óbirtu tölurnar verða líka skelfilegar.

Meðan nágrannar okkar í Hollandi, Austurríki og Tékklandi standa sig vel í öllum aldursflokkum, erum við alls staðar við botninn, í hópi ríkja á borð við Grikkland og Portúgal. Þessi óbærilega staðreynd er alvarlegur áfellisdómur yfir íslenzka skólakerfinu í heild.

Helzta einkenni íslenzka kerfisins er, að það nær þriðja heims árangri með fyrsta heims tilkostnaði. Fjölþjóðlega rannsóknin sýnir raunar, að ekkert samband er milli árangurs annars vegar og fjárframlaga, fjölda kennslustunda og fjölda nemenda í bekk hins vegar.

Sérstaklega er brýnt að vekja athygli á, að ekkert samband er samkvæmt rannsókn þessari milli árangurs annars vegar og kennaralauna hins vegar. Eftirlætisafsökun skólamanna hefur þar með verið rutt út af borðinu, enda hafa þeir verið klumsa í hálft ár.

Þeir fara enn undan í flæmingi og segja nemendur í Singapúr kunna lítið í öðrum greinum, sem ekki voru mældar. Þetta fleipur gagnast okkur ekki, því að ekki er vitað um neina skyldunámsgrein, þar sem Íslendingar standi sig svo vel, að það vegi upp þessar tvær.

Björn Bjarnason menntaráðherra er raunsærri en skólamennirnir og segir ástæðu “til að efast um réttmæti þeirrar stefnu og hugmyndafræði, sem fylgt hefur verið í kennslunni til þessa”. Það er einmitt stefna fúsks og leikja, sem hefur rústað íslenzku skólana.

Um langt skeið hefur verið rekin hér á landi sú stefna, að skólarnir eigi að vera skemmtilegar félagsmiðstöðvar fyrir jafnaðarsinnað fólk, sem líður vel í vinnuhópum, þar sem einn vinnur fyrir alla. Samkeppni og sjálfsagi, frumkvæði og iðjusemi eru hornrekur kerfisins.

Mikilvægur þáttur þessa forkastanlega kerfis er, að hæfu og duglegu námsfólki er haldið niðri, svo að það trufli ekki sléttu og felldu meðalmennskuna, sem kennslan er miðuð við. Þetta kerfi framleiðir þægilega embættismenn, sem gætu ekki unnið fyrir sér úti í lífinu.

Stærðfræði og raungreinar eru ekki aðeins efnahagslega mikilvægar greinar, heldur einnig borgaralega mikilvægar, því að þær krefjast agaðrar hugsunar, rökhyggju og raunhyggju, það er að segja alls þess, sem við söknum í opinberri umræðu á Íslandi, t.d. á Alþingi.

Hér er ýmsum greinum hrært út í súpu, sem heitir samfélagsfræði. Súpan hefur eyðilagt allt, sem í hana hefur verið látið, þar á meðal sagnfræði. Ef fram færi fjölþjóðleg samanburðarrannsókn á getu í sagnfræði, fengjum við sömu útreið og í stærðfræði og raungreinum.

Við þurfum að skera upp sjálft kerfið. Við þurfum að losna við embættismennina, sem halda því uppi í trássi við vilja þjóðarinnar. Við þurfum að hreinsa út og flytja inn til bráðabirgða aðferðir og skólastefnu frá Hollandi, Tékklandi og Austurríki til að spara tíma og peninga.

Þessar aðgerðir verða að koma inn í skólakerfið að utan, því að íslenzkir skólamenn sjálfir eru klumsa aldrei þessu vant og hafa ekki sýnt neina iðrun og yfirbót.

Jónas Kristjánsson

DV

Halldór tuðar

Greinar

Norska strandgæzlan tók togarann Sigurð af ásettu ráði. Hún hefur áður ýmist tekið íslenzk skip eða vísað þeim á brott, án þess að standa föstum fótum í alþjóðalögum og milliríkjasamningum. Hún gerir slíkt ekki hvað eftir annað án fyrirskipunar frá stjórnvöldum.

Ef norska strandgæzlan hefði sætt ákúrum vegna fyrri framhleypni sinnar í samskiptum við íslenzk skip, hefði hún farið varlegar að þessu sinni. Það gerði hún ekki. Þess vegna hefur hún ekki sætt ákúrum, heldur starfar nákvæmlega samkvæmt óskum norskra stjórnvalda.

Norska strandgæzlan tók togarann Sigurð á föstudagskvöldi af ásettu ráði. Hún hefur oftast notað helgar til slíkra athafna, svo að ríkiskontórar í Noregi séu lokaðir, þegar íslenzk stjórnvöld taka upp símann til að reyna að komast að raum um, hvað hafi komið fyrir.

Laugardaginn 24. september 1994 voru tveir íslenzkir togarar færðir til hafnar í Noregi. Aðfaranótt sunnudagsins 19. maí 1996 var tveimur íslenzkum fiskiskipum vísað af umdeildum miðum. Og nú var Sigurður tekinn aðfaranótt laugardagsins 7. júní 1997. Þetta er mynztur.

Norska stjórnin tók upp aðferðina, þegar Halldór Ásgrímsson varð utanríkisráðherra. Hún telur með réttu eða röngu, að bezta ráðið til að halda Íslendingum á mottunni sé að lemja Halldór snöggt og óvænt í skallann. Þetta minnir á samskipti Hitlers og Chamberlains.

Aðferð Hitlers felst í að brjóta fyrra samkomulag að einum hluta og bíða síðan átekta. Viðræður hefjast og leiða til eftirgjafar af hálfu fórnardýrsins. Þá er tekið til við nýtt brot og nýjar viðræður, hring eftir hring. Þannig lak Evrópa inn í síðari heimsstyrjöldina.

Þegar norska stjórnin fer yfir mörkin í yfirgangi gagnvart Íslendingum, byrjar Halldór að tuða að hætti Chamberlains. Greinilegt er, að norskir starfsbræður hans taka hóflegt mark á honum. Þeir telja, að hann muni hopa frá fyrri vígstöðu til að ná sáttum. Hann sé sú týpa.

Norðmenn eru vanir frekjulegri framgöngu í samningum af öllu tagi. Þeir tóku til dæmis fullt mark á Jóni Baldvin Hannibalssyni, sem lét þá ekki eiga inni hjá sér í óvæntum ruddaskap. Þeir misskilja hins vegar tuðið í Halldóri og telja það vera eins konar veikleikamerki.

Í stað Halldórs vantar okkur eins konar ígildi Churchills, sem alltaf svarar Hitlersaðferðinni af fullri hörku, svo að norsk stjórnvöld telji ekki borga sig lengur að vera með yfirgang í áföngum og setjist heldur af heilindum að samningaborði, sem þau hafa enn ekki gert.

Marklaust er að svara aðgerðum Norðmanna með tuði að hætti Halldórs. Þeim þarf að svara með gagnaðgerðum. Ríkisstjórnin getur strax sagt upp loðnusamningnum við Norðmenn og meinað þeim veiði í fiskveiðilögsögunni, þegar samningurinn rennur út að ári.

Í kjölfar uppsagnarinnar getur ríkisstjórnin beitt landhelgisgæzlunni til að færa norsk loðnuveiðiskip til hafnar til að skoða pappírana og kanna, hvort tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt og hvort rétt séu skráðir veiðistaðir. Það er tungumál, sem Norðmenn skilja.

Engum tilgangi þjónar að túlka aðgerðir norskra stjórnvalda sem aulaskap eins og forsætisráðherra hefur reynt að gera. Þær eru ekki aulaskapur, heldur sértækar aðgerðir til að kúga þá, sem aldrei láta sverfa til stáls, heldur tuða og tuða og tuða í það óendanlega.

Ríkisstjórnin hefur nú tækifæri til að átta sig á raunveruleikanum og breyta framgöngu sinni í samræmi við þá norsku stefnu, sem kom fram í hertöku Sigurðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Opinberir opinberaðir

Greinar

Ef ríkisvaldið hefur ákveðnar hugmyndir um söluverðgildi eigna Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, hefði það getað sett ákvæði um lágmarksverð í útboðslýsinguna, þegar selja átti verksmiðjuna. Þar sem það var ekki gert, mátti ætla, að markaðslögmál fengju að ráða ferð.

Ef ríkisvaldið hefur ákveðnar hugmyndir um, hvað gera skuli við verksmiðjuna eftir sölu hennar, hefði það einnig getað sett rekstrarskilmála í útboðslýsinguna. Þar sem það var ekki gert, mátti ætla, að hefðbundin og heilbrigð markaðslögmál fengju að ráða ferðinni.

Ekki er siðlegt að fá aðila til að verja fé og tíma til að semja tilboð og segja þeim síðan, að ósagðar kröfur séu uppi af hálfu seljanda um, hvaða söluverð komi til greina og hvað megi gera við verksmiðjuna. Það auðveldar ekki ríkinu að afla tilboða í aðrar eignir á næstu árum.

Einkavæðing ríkisfyrirtækja á síðustu árum hefur verið samfelld hrakfallasaga. Síldarverksmiðjur ríkisins eru frægasta dæmið um það. Þá var gengið fram hjá hæsta tilboðinu til að þjónusta gæludýr Sjálfstæðisflokksins. Það var einkavinavæðing að rússneskum hætti.

Með hegðun sinni við meðferð tilboða dregur ríkið úr líkum á, að allir lysthafendur taki þátt í útboðum. Markaðurinn þrengist og minni líkur eru á, að ríkið fái bezta verð fyrir söluna. Það er dýrt spaug að haga sér eins og drottningin í sögunni um Lísu í Undralandi.

Þáttur Reykjavíkurborgar er ekki síður ámælisverður. Borgin tekur þátt í útboði í því skyni að auka líkur á, að hundrað störf varðveitist. Það vekur spurningu um, hvort borgin ætlaði sér að halda verksmiðjunni gangandi með tapi eins og Bæjarútgerðinni á sínum tíma.

Það er alþjóðlega viðurkennd sagnfræðistaðreynd, að þeim ríkjum og svæðum vegnar bezt, þar sem stjórnvöld reyna sem minnst að varðveita gömul störf og beina athyglinni fremur að vaxtarbroddum á nýjum sviðum. Þetta má sjá í Japan og sums staðar í Bandaríkjunum.

Lögmálið segir, að atvinnuleysi aukist í ríkjum og á svæðum, þar sem stjórnvöld hugsa um að varðveita störf, en minnki, þar sem þau leyfa leikreglum markaðarins að njóta sín. Lögmálið segir, að eðlilegt sé, að vinna færist frá gömlum atvinnugreinum yfir til nýrra.

Sveitarfélög úti á landi hafa mörg fallið í gryfju atvinnuverndar. Þau verja fjármunum sínum til fjárfestingar og taprekstrar í atvinnulífi og draga þar með úr getu sinni til að þjónusta aðrar þarfir. Úr þessu verður vítahringur, sem veldur flótta fólks og fyrirtækja.

Þetta er hvorki umdeilt né umdeilanlegt. Atvinnuverndunarstefna borgarinnar er út í hött og bendir til, að ráðamenn hennar hafi lítinn sem engan skilning á einföldustu lögmálum hagsögunnar. Þeir geta hvorki lært af reynslu borgarinnar né umheimsins.

Hlutverk borgarinnar í atvinnumálum er að bjóða þjónustu og aðstæður, sem hvetja til stofnunar nýrra fyrirtækja í nýjum greinum, en ekki að henda fjármunum í deyjandi fyrirtæki. Öll verndun fortíðar dregur úr getu verndarans til að mæta ótryggri framtíð.

Aðild Reykjavíkur að tilboði í Áburðarverksmiðju ríksins er dæmigerður sósíalismi af því tagi, sem vinstri flokkar um alla Evrópu hafa sem óðast verið að fleygja til að vera gjaldgengir í stjórnmálum nútímans. Forneskjan leynir sér því ekki í afskiptum borgarinnar.

Illa unnið útboð ríkisins og vanhugsuð björgunaraðgerð borgarinnar hafa þó þann kost, að þau minna á, að opinberir aðilar kunna lítið fyrir sér í rekstri.

Jónas Kristjánsson

DV

Siglt á Everest

Greinar

Þegar íslenzku fjallgöngugarparnir komu til landsins úr ferð sinni á tind Everest, virtist svo sem skipafélag í Reykjavík ímyndaði sér, að það hefði sjálft klifrað upp á tindinn. Það gekk berserksgang í að auglýsa sig og Everest, þótt það væri bara einn margra stuðningsaðila.

Stundum eru vegir ímyndarfræðanna svo barnalegir, að erfitt er að átta sig á, hver er að gabba hvern. Oft eru menn fremur að sefja sjálfan sig en aðra, svo sem þegar kratar hrósa sér af sigri brezka verkamannaflokksins og Alþýðubandalagsmenn af sigri franskra sósíalista.

Flestir átta sig á, að valdabreytingar í evrópskum stjórnmálum eru út og suður eftir staðbundnum aðstæðum. Þær segja ekkert um, hvort íslenzkum stjórnmálaflokkum muni ganga vel eða illa í næstu kosningum, því að það fer líka eftir stað- og tímabundnum aðstæðum.

Sjálfsblekkingar eru hluti daglega lífsins og eru oft ekki til vandræða. Sumar eru beinlínis skemmtilegar eins og þegar “við unnum” í einum handboltaleiknum í Japan, en “þeir gerðu jafntefli”, þegar íslenzka liðinu gekk ekki eins vel í öðrum leik í sömu keppni.

Oft er þó, að ímyndanir og blekkingar eru beinlínis framleiddar með árangri. Þetta hefur löngum verið algengt í stjórnmálum og er ekki verra hér á landi en annars staðar. Að minnsta kosti hafa asnaeyru bandarískra kjósenda reynzt vera heldur lengri en íslenzkra.

Alls konar gylliboð freista margra í viðskiptum. Fjöldi manna er farinn að nota fríkort, sem felur í sér hálft prósent afslátt af heimilisinnkaupum, ef menn halda tryggð við ákveðna verzlunarkeðju, sem hefur tíu prósent hærra vöruverð en önnur verzlunarkeðja.

Ekki er nóg með, að notendur kortsins fórni möguleikanum á 10% afslætti í stað 0,5% afsláttar, heldur verða þeir að bíða í langan tíma meðan þeir eru að safna punktum. Auglýsingaskrum tilboðsins sýnir, að ímyndarfræðingar þess telja almenning fremur illa gefinn.

Neyzlumynztur Íslendinga sýnir, að hingað til hefur tekizt með auglýsingum að venja fólk á ýmsa óhollustu, sem skaðar heilsuna og veldur þjóðfélaginu miklum kostnaði. Neyzla á gosi, sem er nærri eingöngu sykur að þurrefni, hefur þrefaldazt á mann á þremur áratugum.

Sælgæti, sem inniheldur 40­50% sykur, er selt með árangri undir því yfirskini, að það sé morgunkorn. Mjólkurvörur eru blandaðar sykri, svo að hann fer upp í 10­15% innihaldsins og eru þá kallaðar skólaskyr eða skólajógúrt til þess að gefa eitthvað hollustulegt í skyn.

Allar þessar sykruðu sælgætisvörur eru auglýstar af kappi undir því yfirskyni, að þær séu hollar. Margar auglýsinganna hafa beinlínis börn að skotmarki, einkum auglýsingar á svokölluðu morgunkorni. Svo virðist sem ungir og aldnir hafi gleypt við þessari blekkingu.

Þótt ímyndarfræðingum mistakist stundum, þegar trú þeirra á heimsku fólks fer út í öfgar, hafa þeir þó oftar rétt fyrir sér. Það er nefnilega eitt af mestu þjóðfélagsvandamálum nútímans, að þekking og tækni blekkjenda vex miklu hraðar en þekking og tækni hinna blekktu.

Neytendasamtök mega sín lítils í þessum ójafna leik, enda láta flestir sér í léttu rúmi liggja, þótt þeir séu sífellt blekktir. Í skólum mætti þó efla neytendafræðslu, svo að fólk sé betur í stakk búið, þegar það kemur út á viðskiptamarkaðinn með fullar hendur plastkorta.

Þeir, sem venjast við að láta gabbast í viðskiptum, munu líka láta gabbast í stjórnmálum. Þeir munu jafnvel ímynda sér, að skipafélag hafi siglt á Everest.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherra segir satt

Greinar

Með nýjum utanríkisráðherra í Bandaríkjunum hafa komið ný viðhorf. Madeleine Albright var ekki myrk í máli, þegar hún kom af fundi með hinum illræmda Slobodan Milosevic Serbíuforseta. Hún sagði Serba þjást, af því að leiðtogi þeirra sinnti ekki skyldum sínum.

Albright skóf ekki heldur utan af skoðunum sínum hjá forustumönnum Króatíu. Hún sagði Jure Radic ráðherra að skammast sín og sakaði Franjo Tudjman forseta um þvergirðingshátt. Allt er orðavalið satt og rétt, en hefur ekki tíðkazt í formlegum samskiptum ríkja.

Mikilvægt er, að Vesturlönd komi sér upp sameiginlegum umgengnisreglum, til dæmis hvernig skuli umgangast dólga, sem sífellt skrifa undir samninga, en taka síðan ekkert mark á eigin undirskriftum. Milliríkjasamskipti eru óframkvæmanleg, nema farið sé eftir leikreglum.

Síðan kalda stríðinu lauk er ekki nokkur ástæða fyrir ráðamenn Vesturlanda að viðra sig upp við vandræðamenn, sem víða ráða ríkjum. Ástæðulaust er að vera með kaffistofuhjal við þjófa, lygara og morðingja og allra sízt við þá, sem sameina öll þessi einkenni.

Takmörk eru fyrir því, hvað Vesturlönd vilja gera til að losna við dólgana. Það sýnir bezt reynslan frá arfaríkjum Júgóslavíu. Þess vegna hafa menn á borð við Milosevic og Tudjman komizt upp með ótrúlegustu hluti. En það er óþarfi að láta sleikja þá í ofanálag.

Verst af öllu er að flagga hótunum, sem ekki er ætlunin að standa við. Reynslan frá arfaríkjum Júgóslavíu sýnir, að slíkt herðir dólgana og dregur úr vægi vestrænna sjónarmiða á alþjóðavettvangi. Menn verða ætíð að gera ráð fyrir að þurfa að standa við hótanir.

Þess vegna verður að takmarka markmiðin, þegar Vesturlönd koma sameiginlega fram gagnvart umheiminum. Betra er að hafa þau í hófi og geta staðið við þau. Einnig eykur það líkur á, að samstaða náist meðal helztu ríkja Vesturlanda um, hver markmiðin skuli vera.

Oft eru einstök ríki Vesturlanda að reyna að ota sínum tota og ná viðskiptum við dólgaríkin frá þeim ríkjum, sem eru að reyna að halda uppi vestrænni virðingu á alþjóðavettvangi. Auðveldara er að halda slíku í skefjum, ef markmiðin eru takmörkuð og vel skilgreind.

Ódýrasta leiðin til að fá menn til að hlusta er að beita efnahagsfrystingu, svo sem gert hefur verið gagnvart Serbíu og þyrfti einnig að gera gagnvart Króatíu. Slík ríki eiga ekki að fá efnahagslegan stuðning til uppbyggingar nema þau fari í öllu að vestrænum leikreglum.

Hvorki Serbía né Króatía fara í neinu að vestrænum leikreglum og brjóta hverja einustu málsgrein í síendurteknum samningum, sem ráðamennirnir undirrita. Vesturlöndum ber að girða kringum slík dólgaríki og láta þau veltast einmana í volæði sínu, heift og hefnigirni.

Fé, sem ekki fer til uppbyggingar í ríkjum, sem hugmyndafræði- og siðferðilega eru fjandsamleg Vesturlöndum, er betur komið í uppbyggingu í ríkjum, sem stefna að svipuðum markmiðum og Vesturlönd og eru líkleg til að verða að virkum hluta hins vestræna heims.

Það er spor í rétta átt, þótt það ráði engum úrslitum, er utanríkisráðherra Bandaríkjanna er farinn að niðurlægja ráðamenn Serbíu og Króatíu með því að segja sannleikann á opinberum vettvangi. Ef það tengist frekari samræmingu orða og gerða, getur það orðið að gagni.

Mestu máli skiptir, að Vesturlönd hafa hugmyndafræðilegra hagsmuna að gæta í umheiminum og verða að hafa burði og vilja til að fylgja þeim eftir.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestfirzki vítahringurinn

Greinar

Kvótakerfi og sjófrysting hafa leyst átthagafjötra sjávarútvegsins. Vinnsla er að hluta komin á haf út og eignarhald á kvóta flæðir lítt hindrað milli landshluta. Þannig geta sjávarpláss og jafnvel landshlutar sprungið út og einkum þó hrunið á tiltölulega skömmum tíma.

Mest kreppir núna að Vestfjörðum, þótt þar hafi til skamms tíma verið mestar tekjur og mest atvinna á landinu. Ofuráherzla Vestfirðinga á þorsk kom þeim í koll, þegar þorskkvóti minnkaði. Hún stuðlaði að óvenjulega miklum hallarekstri fyrirtækja og bæjarfélaga.

Fjölmenn undirstöðufyrirtæki í fiskvinnslu fámennra byggða verða gjaldþrota. Sveitarfélög, sem áður voru búin að skuldsetja sig glannalega, reynast ekki í stakk búin til að hlaupa undir bagga. Vítahringur aðstæðna og mistaka dregur út athafnaþreki og bjartsýni fólks.

Brestur heyrðist um Vestfirði alla, þegar útgerðarfélagið Hrönn á Ísafirði var selt Samherja á Akureyri. Þá sá fólk skyndilega, að líf þess var spilaborg. Þá sá fólk skýrar en áður, að kvóti gat horfið með einu pennastriki, án þess að fórnardýrin kæmu við vörnum.

Vestfirðingar eru farnir að horfa á eftir sægreifum sínum suður til Reykjavíkur, þar sem þeir sitja við að telja peninga, er þeir hafa fengið fyrir að selja úr héraði kvóta, sem forustumenn stjórnmálanna hafa afhent þeim á silfurfati gegn ráðum og vilja þjóðarinnar.

Reiði fólks beinist þó ekki að stjórnmálamönnunum, sem gáfu sægreifum kvótann, heldur að rekstri, sem enn er í héraði. Verkfall hefur staðið þar vikum saman og engin lausn er í sjónmáli. Deilan snýst að formi til um kaup, en að innihaldi um breyttar aðstæður í héraði.

Komið hefur fram í fréttum, að fjölskyldur eru farnar að flýja Vestfirði vegna vinnudeilunnar. Þær sækja til staða, þar sem spenna er minni og meiri líkur á atvinnu og vinnufriði. Einnig er ljóst, að brottfararsnið er komið á ýmsa eigendur vestfirzkra fyrirtækja og kvóta.

Verkfallið magnar þannig ástandið, sem var ein helzta orsök verkfallsins. Deilan er áþreifanlegasta dæmið um, að tilvistarkreppa Vestfjarða er önnur og meiri en annarra landshluta. Hraðinn fer vaxandi á vítahring hennar. Tilvistarkreppan er farin að nærast á sjálfri sér.

Ósennilegt er, að verðmunurinn á því, sem semja mátti um án verkfalls, og því, sem um semst að loknu margra vikna verkfalli, nægi til að brúa tekjumissi fólks af verkfallinu, þótt litið sé mörg ár fram í tímann. Að því leyti er verkfallið þegar orðið að martröð.

Verkalýðsrekendur í verkfallsplássum Vestfjarða hafa metið heildarstöðuna rangt, þótt þeir hafi metið rétt baráttuvilja félagsmanna. Þeir hafa fyrst og fremst vanmetið, hversu mikið þau atriði, sem reiðin beinist gegn, hafa laskað samningastöðu seljenda vestfirzks vinnuafls.

Verkfallið er búið að skerða tekjur þátttakenda og mun halda áfram að gera það. Um leið er það farið að hvetja fólk og fyrirtæki til brottflutnings. Ekki sízt hefur það hvatt vestfirzka sægreifa til að koma kvóta sínum í verð, áður en þjóðin hrifsar hann til sín aftur.

Ekkert atriði er eins til þess fallið að kljúfa þjóðina í andstæðar fylkingar en þjónusta stjórnmálamanna, einkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, við hagsmuni kvótaeigenda. Þessi þjónusta var ítrekuð á þingi í vor með lögum um heimild til veðsetningar kvóta.

Framsal auðlinda hafsins í hendur sægreifa, flutningur fiskvinnslu á haf úti, sveiflur í þorskafla og staðbundin mistök leggjast á eitt í vestfirzka vítahringnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Bylta Kohls og Chiracs

Greinar

Evrópusinnar hafa fengið tvær slæmar byltur á síðustu dögum. Fyrst lenti Helmut Kohl Þýzkalandskanslari í útistöðum við þýzka seðlabankann vegna fyrirhugaðs Evrópugjaldmiðils og síðan tapaði Jacques Chirac Frakklandsforseti herfilega í frönsku kosningunum.

Útreið Kohls hefur vakið minni athygli, en er þó ekki ómerkari. Þýzki seðlabankinn vakti athygli á, að Kohl væri með bókhaldsbrellum að reyna að láta líta svo út, að Þýzkaland uppfyllti skilmála evrópska myntbandalagsins um aðild að fyrirhuguðu Evrópumyntinni.

Ríkisstjórn Kohls hefur staðið í fylkingarbrjósti þeirra, sem vilja engin frávik frá því, að lönd uppfylli skilyrðin, sem fela í sér lága verðbólgu, lágan fjárlagahalla, litlar ríkisskuldir og lága vexti. Markmið stífninnar var meðal annars að reyna að hindra aðild ótraustrar Ítalíu.

Þjóðverjum er annt um þýzka markið. Kohl taldi sig ekki geta selt löndum sínum hugmyndina um nýja mynt, ef Ítalir væru aðilar að henni, af því að gamlir fordómar úr styrjöldum aldarinnar valda því, að Þjóðverjum er gjarnt að fyrirlíta Ítali og telja þá ótrausta.

Ítalir hafa hins vegar ekki látið deigan síga og eru ekki fjær því en Þjóðverjar að uppfylla skilyrði myntbandalagsins. Við blasti, að eitthvað yrði undan að láta. Mæltu flestir fjármálafræðingar með lengri aðlögunartíma. Nýju Evrópumyntinni yrði frestað um nokkur ár.

Þýzka stjórnin tilkynnti þá, að breytt yrði matinu á þýzka gullforðanum til að minnka fjárlagahallann. Seðlabankinn sagði auðvitað, að þetta væri einnota bókhaldsbragð, sem ekki bætti stöðu landsins. Þá tilkynnti þýzka stjórnin, að hún mundi breyta seðlabankalögunum.

Þýzka stjórnin hefur auðvitað orðið að athlægi um alla Evrópu vegna ódýrrar tilraunar til að uppfylla skilyrði myntbandalagsins. Þótt Kohl takist að kúga seðlabankann, hefur hann misst niður um sig buxurnar og verður vafalaust að fresta innreið Evrópumyntarinnar.

Helzti stuðningsmaður Kohls í Evrópustefnunni hefur verið Chirac Frakklandsforseti, sem tók áhættu til að afla sér friðar fyrir kjósendum, meðan hann væri á lokasprettinum við að ná skilyrðum myntbandalagsins. Hann efndi til óþarfra kosninga til að endurnýja umboðið.

Chirac tapaði kosningunum og verður að tilnefna sósíalista sem forsætisráðherra og sætta sig við, að allir ráðherrarnir verði sósíalistar. Áherzlur þeirra eru allt aðrar en hans. Þeir vilja til dæmis ekki setja þjóðfélagið í spennitreyju til að uppfylla fjármálaskilyrðin.

Með nýjum forsætisráðherra, Lionel Jospin, hefur orðið til nýtt Evrópusamfélag, þar sem jafnaðarmenn eða ígildi þeirra ráða flestum stærstu ríkjum álfunnar, Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu. Jospin mun leggja á ráðin með Tony Blair frá Bretlandi og Prodi frá Ítalíu.

Þeir munu segja Kohl að anda rólega, því að hann hafi ekki vit á fjármálum, svo sem sannazt hafi, er hann skipti austurþýzku mörkunum á jöfnu fyrir vesturþýzk. Vegna afleiðinga þeirra mistaka þurfi Kohl núna að reyna að svindla á skilyrðum myntbandalagsins.

Evrópuhugsjónin mun ekki bila, þótt nýir menn taki við forustu. Hún verður sennilega raunsærri. Meiri áherzla verður lögð á breikkun samstarfs fremur en dýpkun þess. Myndað verður brezk-fransk-ítalskt bandalag, sem leysir fransk-þýzka bandalagið af hólmi.

Nýju mennirnir munu forðast að keyra samstarfshugsjónina hraðar og dýpra en almenningur vill, svo að síður komi fleiri brestir í innviði þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Góður samningur gallaður

Greinar

Í nýja öryggissamningnum við Rússland fórnaði Atlantshafsbandalagið hinum fámennari og fjarlægari hagsmunum Eystrasaltsríkjanna fyrir hina fjölmennari og nálægari hagsmuni Póllands, Tékklands og Ungverjalands. Með þessu óhappaverki hafði verið reiknað.

Samningurinn var raunar svo óhagstæður Vesturlöndum, að beita varð gamalkunnri aðferð við að kynna hann. Hún fólst í að fá ginnkeypta fjölmiðlunga til að hrósa honum í hástert, áður en þeir höfðu fengið að sjá hann. Þetta bragð hefur heppnazt eina ferðina enn.

Með því að fresta birtingu samningsins í nokkra daga og nota tímann til að leka til fjölmiðlunga þægilegum og leiðandi upplýsingum um innihald hans, reyndist vera hægt að afla honum jákvæðari viðbragða, en orðið hefðu, ef samningurinn hefði strax fengið að tala sjálfur.

Ójöfn valdastaða Vesturlanda annars staðar og ríkja rétttrúnaðarkirkjunnar hins vegar veldur því, að ástæðulaust er fyrir Atlantshafsbandalagið að gefa eftir þá meginstefnu, að öll vestræn lönd í Evrópu séu í Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal Eistland, Lettland og Litháen.

Hins vegar var í lagi að heita Rússlandi því, að bandalagið hefði ekki í hyggju að seilast inn á yfirráðasvæði réttrúnaðarkirkjunnar í Hvíta-Rússlandi, Úkraínu, Rúmeníu, Búlgaríu, Makedóníu og Serbíu. Eðlilegt er að þau ríki líti á Rússland sem sitt forusturíki.

Skilin í Evrópu eiga að vera hin sömu og þau hafa verið frá ómunatíð. Annars vegar eru lönd Rómarkristninnar og hins vegar lönd kristninnar frá Miklagarði. Þessi skil skerast eins og strik eftir endilangri álfunni, allt frá Kólaskaga í norðri til Adríahafs í suðri.

Það eina, sem hefur breyzt í aldanna rás, er, að Vesturlönd eru ekki lengur skilgreind á grundvelli vestrænnar kristni, heldur póltískra trúarbragða, sem fela einkum í sér félagslegan markaðsbúskap, dreifingu valds, fastbókað réttlæti að lögum og traust mannréttindi.

Þetta er svipað og í kínverska menningarheiminum, sem einnig skilgreinir sig á sviði þessa heims trúarbragða, sem fela í sér meiri áherzlu á hópinn og minni áherzlu á einstaklinginn, meiri áherzlu á aga og undirgefni gagnvart yfirvöldum og þolir illa gagnrýni.

Heimurinn er smám saman að skiptast í nokkrar valdablokkir ríkja, sem standa á menningarsögulegum grunni fremur en hagsmunapólitískum. Vesturlönd eru sterkasti hópurinn um þessar mundir, með valdamiðstöðvum í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu.

Þrír kristnir valdahópar ríkja standa nálægt Vesturlöndum og gefa vonir um gott samstarf í framtíðinni. Það eru ríki austrænu rétttrúnaðarkirkjunnar með miðstöð í Rússlandi, ríki hinnar kaþólsku Ameríku með miðstöð í Brasílíu og ríki Afríku með miðstöð í Suður-Afríku.

Vesturlönd eru einnig í góðu sambandi við tvo menningarheima, sem ekki hafna beinlínis vestrænum gildum á sviði þessa heims trúarbragða. Þetta eru Indland og Japan, þar sem fólk hefur meira eða minna tileinkað sér svipaðar væntingar og gildismat og Vesturlandabúar.

Utan við standa tveir öflugir hópar, annars vegar kínverskur menningarheimur með Kína sem valdamiðju og hins vegar íslamskur menningarheimur með óræðri valdamiðju. Þessir heimar hneigjast í auknum mæli að því að skilgreina sig í andstöðu við vestræn gildi.

Frá þessu heimspólitíska sjónarmiði er gott, að Atlantshafsbandalagið skuli semja frið við Rússland, þótt einstök atriði samningsins séu lakari en vera þurfti.

Jónas Kristjánsson

DV

Ópólitísk stjórnmál

Greinar

Gæzlumaður hagsmuna Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi óttast atvinnuskort nokkurra flokksmanna, sem fengu vinnu í fríhöfn flugvallarins í skjóli flokksins, þegar formaður hans var utanríkisráðherra. Gæzlumaðurinn telur þá ekki samkeppnishæfa á vinnumarkaði.

Þetta er eitt helzta ágreiningsefnið á Alþingi í lokahrinu síðustu vikunnar fyrir sumarhlé. Deilt er um, hvort bjóða eigi út ýmsan rekstur í flugstöðinni í stað þess að ráða til hans kvígildi á vegum stjórnmálamanna. Sem betur fer mun framfarastefna sigra í þessu máli.

Stefna útboða hefur um langt skeið verið að hríslast um þjóðfélagið, þar á meðal ríkisgeirann. Flestar framkvæmdir eru boðnar út og farið að bjóða út rekstur af ýmsu tagi. Endanlegan sigur vinnur útboðastefnan, þegar hafin verða uppboð á veiðileyfum í sjávarútvegi.

Sæmileg sátt er um flest lög, sem koma frá Alþingi. Þau hafa sum breytzt lítillega í meðförum þingsins, meðal annars í samlögum stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga. Þannig er stofnunin öðrum þræði ópólitísk snyrtistofa fyrir misvel unnin frumvörp úr ráðuneytum.

Ríkisstjórnin hefur öflugan þingmeirihluta. Hún ætti þess vegna að geta knúið fram hugmyndafræðileg óskamál á borð við frumvarpið um lífeyrissjóði. Það gerir hún hins vegar ekki. Má telja það ótvírætt merki þess, að bardagagleði hafi dvínað í leikhúsinu við Austurvöll.

Niðurstaða lífeyrismálsins er málefnaleg. Meirihluti varð í þingnefndinni um margvíslegar breytingar, sem miða í þá átt að sætta annars vegar ýmis sjónarmið og efla hins vegar efnahagslegan framfaraþátt málsins. Að öðru leyti er málinu frestað til næsta vetrar.

Meirihlutaálitið gefur ákveðinn tón, sem mun hafa áhrif á togstreituna um frumvarpið milli þinga. Það segir hagsmunaaðilum, hvernig línurnar liggja á Alþingi, og setur þannig umræðunni óbeinar skorður. Og málið verður orðið þrautrætt, þegar það verður að lögum.

Þetta er að flestu leyti góð aðferð. Hún er greinilega lýðræðisleg. Hún er ennfremur siðferðileg, af því að hún gætir hófs í beitingu aflsmunar. Hún magnar einnig málamiðlunarstefnu á kostnað ágreiningsstefnu og eflir þannig málefnaleg vinnubrögð í stjórnmálum landsins.

Vinna þingmanna hefur færzt í auknum mæli inn í nefndir. Þingfundir liggja niðri heilu vikurnar, af því að nefndastörf taka allan daginn, dag eftir dag. Þótt þetta sé öðrum þræði málefnalegt, þá byrgir það kjósendum sýn, því að nefndafundir eru enn lokaðir áheyrendum.

Í framhaldi af þessari breytingu er orðið brýnna en áður, að kjósendur geti komið á palla í þingnefndum. Þær eru hinar raunverulegu valdamiðstöðvar, þar sem lagafrumvörpum er breytt í það horf, sem þau verða síðan að lögum. Opnun þingnefnda færir fólkið nær valdinu.

Svipur hefðbundinna þingfunda hefur dofnað. Af þingi eða úr framvarðasveitum eru horfnir sumir skörungarnir, sem gáfu áður hvellan tón. Nýjabrumið er farið af beinu sjónvarpi þingfunda. Viðkynning og vani áhorfenda hafa lækkað gengi málefnasnauðra ræðutilþrifa.

Stjórnarandstaðan er tiltölulega fámenn og lætur ekki mikið að sér kveða. Fjölmennur stjórnarmeirihluti klofnar á ýmsa vegu og nýtist ríkisstjórninni ekki til fullnustu. Þessar aðstæður bætast við aðra þætti, sem valda því að þingstörf eru núna rólegri en oft áður.

Þegar ríkisstjórn nennir ekki lengur að lengja þinghaldið til að ljúka lífeyrismálinu, er ljóst, að hugmyndafræðin hefur vikið fyrir ópólitískum stjórnmálum.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandarískir þokubakkar

Greinar

Valdahrun Mobutus í Saír er enn eitt dæmið um hrun Kissingers-stefnu Bandaríkjanna gagnvart þriðja heiminum. Sú stefna felst í að styðja valdamiklar ríkisstjórnir og sjá í gegnum fingur við ógeðfellda stjórnarhætti þeirra. Þetta ímyndaði Kissinger sér, að væri raunsæ stefnu.

Síðan falla einræðisherrarnir og til valda koma nýir ráðamenn, sem telja, að gömlu valdamennirnir hafi kúgað fólk með aðstoð bandarískra peninga og bandarískra hergagna. Síðan borga Bandaríkin stórfé til að fá nýju mennina til að láta af andstöðu við Bandaríkin.

Erfitt er að hanna flókna atburðarás. Þeir, sem slíkt reyna, átta sig ekki á, að afleiðingar hönnunarinnar framleiða aðstæður, sem framleiða eigin atburðarásir þvert á hina fyrri. Kissinger-stefnan var óvenjulega barnaleg útgáfa af órum áhugamanna um hönnun atburðarása.

Mobuto hefur í manna minnum verið eitt helzta óskabarn Bandaríkjanna í Afríku. Hann studdi Bandaríkin á alþjóðavettvangi gegn bandarískum stuðningi við stjórnarhætti hans í Saír. Þetta vanheilaga bandalag gleymist ekki, þótt Bandaríkin þvoi hendur sínar núna.

Allan þennan tíma ástarsambands Mobutos og Bandaríkjanna vissu allir, sem vita vildu, að Mobuto var einn af mestu þjófum heims. Hann stal öllu lauslegu í landi sínu og rúði það gersamlega inn að skinninu. Er þó Saír eitt auðugasta land heims að dýrustu góðmálmum.

Kúgaðir íbúar Saírs kenna auðvitað Bandaríkjunum um þetta, enda bera þau óbeina ábyrgð á skjólstæðingi sínum. Auðvitað leiddi þetta til stuðnings fólks við uppreisnarforingja, sem þekktur var að andstöðu við bandarísk sjónarmið í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Laurent Kabila tekur senn við völdum í Saír. Hann er mótaður af vinstri sinnaðri hugmyndafræði Patrice Lumumba, sem var fyrsti og eini forseti Saír, áður en hermenn tóku völdin. Síðan hefur hann verið skæruliði, meðal annars í samlögum við Che Guevara frá Kúbu.

Bandaríkjastjórn sér fyrir, að Kabila verði óþægur ljár í þúfu. Þess vegna reynir hún að stilla upp hverjum milligöngumanninum og sáttaframbjóðandanum á fætur öðrum. Öll mun þessi fyrirhöfn koma fyrir ekki og Kabila mun sjálfur taka öll völd í landinu.

Kabila gerir sér ljósa grein fyrir, að Bandaríkin hafa reynt að hindra sigurgöngu hans og eru nú að reyna að koma í veg fyrir, að völdin renni beint úr höndum Mobutos til hans. Hann mun því láta Bandaríkin finna til tevatnsins, þegar tækifærin verða hans megin.

Samkvæmt Kissingers-stefnunni neyðast Bandaríkin brátt til að snúa við blaðinu. Þau munu hlaða á Kabila peningum og vopnum og sjá í gegnum fingur við hann, þegar hann byrjar að afrískum hætti að ofsækja fólkið í landinu og stafla eigin bankainnistæðum í Sviss.

Þótt stefna Kissingers sé sögð vera raunsæisstefna gegn hugsjónastefnu, er betra að kalla hana skammtímastefnu gegn langtímastefnu. Hún miðast við, að núverandi ástand, hvert sem það er á hverjum tíma, haldi áfram endalaust, en kalli ekki fram andstöðu sína.

Afleiðingar stefnunnar eru annars vegar linnulaus sóun bandarískra peninga og hins vegar þrálátar hörmungar í þriðja heiminum, þar sem hver kúgarinn og rummungsþjófurinn rekur annan, yfirleitt í skjóli bandarískrar afskiptasemi að hætti Kissingers.

Engin ástæða er til að fagna valdatöku Kabilas. Fólkið í Saír mun áfram þjást og áfram verður bruggað rugl á þokubökkum bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Manndrápslónið

Greinar

Aðstandendur Bláa lónsins hafa ekki reynzt færir um að reka það á frambærilegan hátt. Þeir hafa ekki tekið mark á óhugnanlega tíðum dauðsföllum í lóninu og ekki sinnt til frambúðar kröfum heilbrigðisyfirvalda og löggæzlu um aukið öryggiseftirlit við lónið.

Mikilvægt er, að öryggi sé í fullkomnu lagi við Bláa lónið. Það er orðið að mikilvægum þætti í kynningu landsins á erlendum vettvangi. Erlendir ferðamenn eru hvattir til að fara í lónið og kynnast dulúð þess og heilsumögnun. Árlega koma þar 130.000 erlendir ferðamenn.

Aðstaða við lónið fyrir þetta fólk og aðra ber öll merki bráðabirgða, þar með talinn öryggisbúnaður. Greinilegt er, að varfærin og dýr langtímasjónarmið eru ekki höfð í heiðri, heldur ráða skammtíma gróðasjónarmið ferðinni. Slíkt getur leitt til, að gulleggið brotni.

Mannheld girðing umhverfis lónið lá niðri að hluta, þegar þar varð síðasta dauðaslysið um mánaðamótin. Enginn vaktmaður er þar á ferli utan notkunartímans. Gæzlumenn á annatímum eru of fáir. Leiðbeiningar fyrir baðgesti eru ekki nógu gagnorðar og sýnilegar.

Fjórum sinnum fleiri koma í Laugardalslaug en Bláa lónið. Á fyrri staðnum hafa orðið þrjú dauðsföll á þremur áratugum. Ef ástandið væri eins í Bláa lóninu, yrði þar eitt dauðsfall á fjögurra áratuga fresti, en ekki átta dauðsföll á 14 árum. Munur baðstaðanna er þrítugfaldur.

Vegna gufu og litar vatnsins koma neðanvatnsmyndavélar og útsýnisturnar að litlu gagni við Bláa lónið. Það þýðir ekki, að menn geti fórnað höndum og stungið þeim síðan í vasann, heldur verður að fara gamalkunnar leiðir við aðvarnir og gæzlu á hættulegum stöðum.

Formaður heilbrigðisnefndar Suðurnesja segist telja, að ráðamenn Bláa lónsins “taki gildandi reglur ekki nægilega alvarlega”. Talsmaður lögreglunnar í Grindavík segist telja, að “slakað hafi verið á kröfunum”. Viðhorfin, sem þeir lýsa, hafa kostað allt of mörg mannslíf.

Lán er, að ekki skuli hafa orðið málaferli af hálfu aðstandenda hinna látnu. Ef einn hinna látnu útlendinga væri Bandaríkjamaður, hefði her þarlendra lögmanna tekið að sér að reka dómsmál gegn erlendu ferðaskrifstofunni, flugfélaginu og aðstandendum Bláa lónsins.

Fá þarf að Bláa lóninu traustari rekstraraðila með langtímasjónarmið í huga. Þeir þurfa að leggja fram töluvert fjármagn til að reisa vandaða og varanlega aðstöðu í stað bráðabirgða-aðstöðunnar og einkum þó til að koma öryggismálum staðarins í sómasamlegt horf.

Þegar þannig er hugsað til framtíðar, þýðir það um leið, að enginn arður verður af rekstri Bláa lónsins fyrstu árin, meðan verið er að koma málum í öruggt og sómasamlegt horf. En því miður er það landlæg árátta hér á landi að ætlast til, að gróðinn komi hér og nú.

Þannig springur íslenzkt framtak oft á limminu. Þannig höfum við til dæmis ekki getað haldið mörkuðum, sem við höfum aflað okkur í útlöndum fyrir sjávarafurðir. Ekki er tekið nægilegt tillit til vandamála, sem upp geta komið, svo sem í langtíma afhendingaröryggi.

Auðvitað yrði skelfilegt fyrir ferðamannaþjónustuna í landinu, ef sú skoðun yrði ofan á hjá ráðamönnum erlendra ferðaskrifstofa, að þeir ættu á hættu skaðabótamál, ef þeir mæltu með Íslandsferðum, þar sem hið illræmda manndrápslón gæti orðið einn áfangastaðanna.

Af þeirri ástæðu er brýnt, að tekið sé fram fyrir hendur núverandi rekstraraðila Bláa lónsins og strax gerðar ráðstafanir til að reyna að hindra frekari slys.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjónvarpið firrir

Greinar

Hvorki hér á landi né annars staðar hefur fólk gert sér fulla grein fyrir afleiðingum sjónvarps sem helzta uppeldistækis Vesturlanda. Má þó ljóst vera, að notkun sjónvarps sem barnapíu fyrir 5-12 ára börn hlýtur að vera að breyta lífsviðhorfum upprennandi kynslóða.

Hingað til hefur verið einblínt á ofbeldisáhrif sjónvarps, þótt þau séu aðeins hluti vandamálsins. Deilur hafa lengi staðið um þessi sérstöku áhrif, af því að ýmsar rannsóknir á þeim hafa ekki enn leit til ótvíræðrar niðurstöðu, enda eru fleiri áhrifavaldar að verki.

Hér á landi er jafnvel deilt um svo sjálfsagða staðreynd og þá, að ofbeldi hefur aukizt og orðið harðvítugra. Lögreglan hefur birt tölur, sem eiga að sýna, að ofbeldi hafi ekki aukizt á undanförnum árum. Heilbrigð skynsemi segir okkur, að þær tölur séu tómt rugl.

Aðrar tölur segja okkur, að tíðni alvarlegra meiðsla af völdum ofbeldis hafi tvöfaldazt á Reykjavíkursvæðinu á tæpum áratug, frá 1987 til 1995. Ýmislegt fleira en sjónvarp er þar að verki, svo sem aukin notkun áfengis og annarra vímugjafa meðal unglinga og ungs fólks.

Nýjar tölur frá útlöndum segja okkur, að sjónvarpið eigi mikinn þátt í þessu. Nú sýna rannsóknir, að 15% barna og unglinga, er horfa á ofbeldismyndir, sýni merki um mikla árásarhneigð, og rúmlega 35% í viðbót verði fyrir nokkrum áhrifum í þá átt. Samtals eru þetta 50%.

Sjónvarpið er svo gegnsýrt af ofbeldi, að tæpast er hægt að horfa á sjónvarpsfréttir vegna innskots ofbeldisauglýsinga um bíómyndir í kvikmyndahúsum borgarinnar. Þessar kynningar sýna sumar hverjar samfellda röð af ógeðfelldu, stjórnlausu og tilgangslausu ofbeldi.

Því er haldið fram, þótt ósannað sé enn, að veruleikafirring sjónvarps byrji með Tomma og Jenna, þar sem ofbeldi er hrikalegt, nánast sársaukalaust, oftast fyndið og jafnan án nokkurs varanlegs líkamstjóns. Þessi firring hlýtur að síast inn í hugi 5-12 ára gamalla barna.

Ofbeldi er bara eitt af mörgum vandamálum sjónvarps. Sápurnar eru ekki síður veruleikafirrtar, þótt þær séu lausar við ofbeldi. Þær sýna neyzluþjóðfélag, þar sem fólk virðist eiga frí alla daga vikunnar. Þá sjaldan sem sápurnar sýna vinnustaði, eru þar allir á kjaftatörn.

Þannig grafa framhaldsþættir sjónvarps undan siðfræði vinnu, uppfinninga, afreka og yfirleitt öllu því, sem kostar fyrirhöfn, en hossa stjórnlítilli og fyrirhafnarlausri neyzlu. Þeir sýna einfaldlega ekki framleiðsluþjóðfélag, heldur skrípamynd af neyzluþjóðfélagi.

Fólk á miðjum aldri hér á landi hafði ekki tækifæri til að horfa á ofbeldi og sápu á mótunarskeiði sínu á 5-12 ára aldri og gerir sér því takmarkaða grein fyrir áhrifunum á þá, sem hafa einmitt haft ofbeldi, sápu og teiknimyndasögur að barnapíum á þessu viðkvæma æviskeiði.

Í Bandaríkjunum er sjónvarpið heilli kynslóð eldra en hér. Þar hefur því verið hægt að sjá betur þessi áhrif. Þar óttast menn nú, að þjóðfélagið sé að skiptast í tvennt, annars vegar þá, sem hafa staðizt mótunaráhrif sjónvarps, og hins vegar þá, sem hafa látið mótast.

Síðari hópinn skipa atvinnuleysingjar, sem geta ekki haldið neinni vinnu. Þeir búa í afmörkuðum fátækrahverfum, þar sem ofbeldi og vímugjafar eru þungamiðja hversdagsins. Börnin þekkja tæplega hefðbundið fjölskyldumynztur og alast upp af sjónvarpi og götunni.

Hér á landi eru foreldrarnir úti að vinna og sjónvarpið farið að leika hlutverk uppfræðarans. Fyrr eða síðar munum við standa frammi fyrir alvarlegum afleiðingum.

Jónas Kristjánsson

DV

Góð lífeyris-málamiðlun

Greinar

Komin er fram á Alþingi ágæt málamiðlunartillaga, sem eyðir flestum göllum lífeyrisfrumvarps fjámálaráðuneytisins og tekur tillit til málefnalegra þátta hagsmunastreitunnar um frumvarpið. Líklegt er, að þessi málamiðlun í efnahags- og viðskiptanefnd nái fram að ganga.

Eini stóri gallinn, sem eftir situr, er óviðráðanlegur, af því að hann tengist loforðum stjórvalda við gerð kjarasamninganna í vor. Aðilar vinnumarkaðarins vilja vernda núverandi lífeyrissjóði og einkarétt þeirra á að fara með lífeyri fólks í viðkomandi starfsgreinum.

Betra væri að koma á frelsi og samkeppni milli lífeyrissjóða, svo að fólk geti flutt sig úr lífeyrissjóðum, sem eru dýrir í rekstri og standa sig illa, yfir í lífeyrissjóði, sem eru vel reknir og standa sig vel. Slíkt mundi líka leiða til, að lakari lífeyrissjóðir rynnu inn í hina betri.

Hér er verið að tala um hina hefðbundnu sameignarsjóði, sem fela í sér ábyrgð á lífeyrisgreiðslum, hvort sem þær standa yfir í skamman eða langan tíma. Þetta hefur verið hlutverk lífeyrissjóða hingað til og er raunar einn af mikilvægustu þáttum íslenzka velferðarríkisins.

Sameiginlegt hagsmunamál ríkissjóðs og samtaka vinnumarkaðarins er, að þetta kerfi verði áfram notað. Það veitir félagsmálaberserkjum atvinnu við að ráðskast með fé. Og það léttir byrðum af ríkissjóði, sem annars yrði sjálfur að fjármagna aldrað fólk og öryrkja.

Ríkissjóður gæti varið sína hasmuni, þótt fólk fengi frelsi til að velja milli sameignarsjóða. Slíkt mundi hins vegar rýra tækifæri félagsmálaberserkja til að sitja í stjórnum lífeyrissjóða, af því að sjóðir fjármagnsfyrirtækjanna mundu sækja inn á markað lífeyrissjóðanna.

Með málamiðluninni er samningsbundnum sparnaði fólks skipt í tvennt. Annars vegar er hinn hefðbundni lífeyrir í sameignarsjóðum, sem hefur forgang, unz náð hefur verið 12.000 króna framlagi á mánuði. Því, sem umfram er, má ráðstafa frjálst í séreignasjóði.

Núverandi lífeyrissjóðir eiga samkvæmt málamiðluninni að geta stofnað séreignadeildir. Séreignasjóðirnir eiga að geta stofnað sameignardeildir. Þannig myndast almenn og víðtæk samkeppni á markaðnum um allan lífeyrissparnað umfram 12.000 krónur á mánuði.

Talan 12.000 krónur er fundin með því að meta, hvað sameignarsjóðir þurfi mikla peninga til að standa undir hóflegum elli- og örorkulífeyri. Slík tala verður alltaf umdeilanleg og þarf raunar að fylgja verðlagi hvers tíma. Þessi tala er sennilega í lægri kanti þess, sem þarf.

Með núgildandi 10% reglu næst 12.000 króna mánaðarlegur sparnaður af 120.000 króna mánaðarlaunum. Þar sem mikill fjöldi fólks hefur hærri lífeyristengdar tekjur, opnast möguleikar á víðtækum sparnaði á vegum þeirra séreignasjóða, sem bezt ávaxta peninga almennings.

Eðli málsins samkvæmt ávaxta séreignasjóðir betur en sameignarsjóðir. Hinir fyrrnefndu þurfa ekki að taka tillit til íþyngjandi atriða, sem hinir síðarnefndu þurfa að gera. Skynsamlegt er, að lífeyrissparnaði í þjóðfélaginu sé skipt milli þessara tveggja sparnaðartegunda.

Gangur þessa máls er gott dæmi um ágæti lýðræðis sem rekstrarforms þjóðfélags. Eðlilegt er, að frumvörp komi gölluð úr ráðuneytum, af því að þar eru menn ekki frekar alvitrir en annars staðar. Málið hefur síðan fengið víðtæka kynningu og þrýstihópar hafa tjáð sig.

Í framhaldi er komin fram í þingnefnd tillaga til málamiðlunar, sem virðist skynsamleg í stöðunni og virðist geta leitt til mikilvægra umbóta á velferðarkerfinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Skýrt og klárt já og nei

Greinar

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr í hvalveiðimálinu. Hún er einhuga um, að hvalveiðar hefjist, bara ekki á þessu sumri. Þannig hefur vorað hjá stjórninni í mörg ár og þannig mun vora í mörg ár enn. Stefnan er skýr. Hún þýðir bæði já og nei, að hætti stjórnvitringa.

Vandséð er, að ríkisstjórnin geti haft aðra skoðun á málinu. Hún þarf að friða hugsjónamennina, sem vilja ekki, að misvitrir útlendingar segi þjóðinni fyrir verkum. Og hún þarf að taka tillit til margvíslegra annarra hagsmuna en þeirra einna, sem lúta að hvalveiðum.

Utanríkis- og sjávarútvegsráðherra hafa orð fyrir ríkisstjórninni og segja málið vandasamt. Velta þurfi því lengi fyrir sér í ýmsum nefndum og á ríkisstjórnarfundum. Svo heppilega vill til, að vangavelturnar ná jafnan fram á vor og missa því af þinglegri afgreiðslu.

Sælkerarnir, sem hafa í sjö ár verið að streitast við að éta sama hvalinn hjá Úlfari Eysteinssyni á Þremur frökkum, geta áfram hlakkað til þess fjarlæga sumars, þegar leyft verður að veiða “í smáum stíl til innanlandsneyzlu”, svo að notað sé orðalag utanríkisráðherra.

Örfáir hvalir á ári hverju mundu vafalaust nægja innanlandsmarkaði og verða tæpast nokkur gullkista væntanlegum hvalveiðimönnum. Samtök þeirra telja, að í framhaldi af slíkum veiðum megi fá Japani til að kaupa hvalkjöt, þótt þeir hafi lofað að gera það ekki.

Japanir kaupa ekki hvalkjöt, af því að þeir þurfa að flytja mikið af vörum til útlanda og eru dauðhræddir við að æsa umheiminn upp á móti japönskum vörum. Gaman verður að sjá, þegar íslenzkum hvalveiðisinnum tekst að fá Japani til að fremja efnahagslegt harakiri.

Við erum háðir umheiminum eins og Japanir. Við þurfum að fá fólk á Vesturlöndum til að kaupa vörur frá okkur. Við viljum, að það haldi áfram að kaupa fiskinn okkar tollfrítt, þótt við leggjum ofurtolla á matvælin þeirra. Við viljum ekki raska ró viðskiptavinanna.

Lengi hefur verið vitað, að fá mál eru eins fallin til að koma venjulegum Vesturlandabúum úr andlegu jafnvægi og hvalveiðar. Fólk flykkist í hvalfriðunarsamtök, tekur hvali persónulega í fóstur og gengur berserksgang við að knýja fram viðskiptabann á hvalveiðiþjóðir.

Meiri líkur eru á, að Norðmenn geti leyft sér að synda gegn straumi umhverfisálitsins. Sjávarútvegur þeirra er ríkisstyrkt aumingjagrein, haldið uppi af olíugróða. Ef Norðmenn geta ekki selt útlendingum fisk, er það þeim dýrt spaug, en tæplega efnahagslegt sjálfsmorð.

Hér færi hins vegar allt á hvolf, ef Bandaríkin og Evrópusambandið settu okkur í viðskiptabann vegna veiða á hval fyrir markaði, sem ekki eru til. Þetta er það, sem ríkisstjórn okkar er að fást við, þegar hún segir, að hvalveiðar hefjist fortakslaust, bara alls ekki núna.

Ríkisstjórnin er að hugsa um heildarhagsmuni þjóðarinnar og verðleggja þá. Niðurstaða hennar hefur hingað til verið og verður áfram sú, að minni hagsmunir verði að víkja fyrir meiri. Sú hin sama verður niðurstaða annarra ríkisstjórna, sem fá vandræðamálið á sitt borð.

Ríkisstjórnin og sérfræðingar hennar vita, að málið verður ekki leyst með rökum, allra sízt vísindalegum rökum. Það ræðst af tilfinningalegum ástæðum, hvort hvalveiðar okkar muni leiða til gagnaðgerða af hálfu aðila, sem hafa afl til að valda okkur búsifjum.

Í slíkri stöðu getur ríkisstjórnin lítið gert annað en að ítreka trúarjátningu hvalveiðanna, með óvissum dómsdegi. Stefnan felur í sér skýrt og klárt já og nei.

Jónas Kristjánsson

DV

Núll leysir núll af hólmi

Greinar

Sigurvegari kosninganna í Bretlandi sagði það bitastæðast í kosningabaráttunni, að skipta þyrfti um stjórn í landinu og að menn skyldu treysta sér. Þetta minnti mjög á innantóma kosningabaráttu Clintons Bandaríkjaforseta, þegar hann var kosinn í fyrra skiptið.

Ekkert mun gerast í brezkum stjórnmálum við stjórnarskiptin. Tony Blair er miðjumaður eins og John Major, hefur litla skoðanaballest og reynir að sigla milli skerja eftir skammtímaaðstæðum hverju sinni. Hann er einn af þeim, sem verða valdamiklir, en áhrifalausir.

Margaret Thatcher, sem var forsætisráðherra á undan John Major, var af öðru sauðahúsi. Hún hafði ákveðnar skoðanir og fylgdi þeim fast eftir. Hún breytti velferðarþjóðfélaginu í átt til samræmis við getu þjóðarbúskaparins og háði frækilegt stríð um Falklandseyjar.

Vesturlönd verða aldrei söm eftir stjórn hennar. Alls staðar hefur velferðarþjóðfélagið verið endurskoðað og lagað að fjárhagslegum raunveruleika, meira að segja í höfuðríkinu, Svíþjóð. Þetta hefur styrkt stöðu Vesturlanda heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Eftir Falklandsstríðið var um tíma tekið mark á hótunum Vesturlanda gegn uppivöðslu glæpahneigðra valdamanna í þriðja heiminum. John Major á mikinn þátt í að endurvekja þá skoðun, að Vesturlönd standi ekki við hótanir. Frægasta dæmið um það er Bosníudeilan.

Hann hefur haldið afar illa á stöðu Bretlands í Evrópusambandinu. Í stað þess að reyna að taka forustu fyrir sambandinu, hefur hann látið hrekjast úr einni fýlunni í aðra og einangrað landið á evrópskum vettvangi, allt vegna ýmissa kúariðu-sjónarmiða heima fyrir.

Hann kúðraði líka Norður-Írlandsmálinu, þegar það var komið í farsælan farveg fjölþjóðlegrar nefndar, sem hann átti þátt í að skipa. Hann kippti skyndilega fótunum undan nefndinni og endurvakti fyrri óöld til að reyna að laga stöðu sína í skoðanakönnunum heima fyrir.

Skoðanalausir áhrifaleysingjar eins og Major og Clinton eru hættulegir umhverfinu, því að illt er að spá, til hvaða örþrifaráða þeir muni grípa til að hafa áhrif á úrslit skoðanakannana, sem eru hálmstrá þeirra í valdastóli. Stefna þeirra rambar frá degi til dags.

Gott er, að Major skuli vera búinn að vera. Þar með er ekki sagt, að eftirmaður hans verði skárri. Kosningabaráttan gefur þvert á móti tilefni til að ætla, að Tony Blair muni ekki stjórna til að hafa áhrif, heldur til að halda stöðunni frá degi til dags í skoðanakönnunum.

Vestræn sjónarmið eiga í vök að verjast í heiminum um þessar mundir, meðal annars gegn sjónarmiðum úr heimi Múhameðs og Konfúsíusar, sem eru öflugri en sjónarmið Lenins og Hitlers voru. Vesturlönd þurfa heilsteypta og framsýna leiðtoga til að treysta stöðuna.

Þegar fjölmennar þjóðir velja sér leiðtoga á borð við John Major og Tony Blair, en hafna leiðtogum á borð við Margaret Thatcher, eru þær að segja pass. Þær eru að segjast vilja fá að vera í friði fyrir óþægindum raunveruleikans. Þær vilja hlusta á róandi hjal.

Tony Blair er framleiddur í markaðs- og ímyndunarfyrirtækjum rétt eins og Bill Clinton. Hann er sléttmáll og blaðrar mikið, en segir ekki neitt bitastætt. Þetta kom greinilega fram í kosningabaráttuni. Verra er, að kjósendur virðast láta sér blekkinguna vel líka.

Ef Vesturlandabúar glata hæfni til að velja sér valdamenn, sem vilja ekki bara völd, heldur líka áhrif, er hætt við, að gengi Vesturlanda fari ört versnandi.

Jónas Kristjánsson

DV