Greinar

Enn einn prófkjörsvandinn

Greinar

Til er betri leið en prófkjör til þess að ná sem flestum kostum prófkjörs og forðast sem flesta galla þess. Hún krefst að vísu samkomulags pólitísku aflanna um breytingu á kosningalögum, sem heimili flokkum að setja upp óraðaða framboðslista, ef þeir telja það henta sér.

Þetta skiptir núna máli enn einu sinni, af því að framboðin tvö í borgarstjórnarkosningum Reykjavíkur eru komin í vandræði með skipun framboðslista í næstu kosningum, þótt þær verði ekki fyrr en eftir heilt ár. Þau geta hvorki haft prófkjör né verið án þeirra.

Óraðaðir framboðslistar fela í rauninni í sér, að prófkjör er sameinað kosningu. Í stað þess að kjósendur raði fyrst saman lista í fyrri kosningum og kjósi síðan milli lista í öðrum kosningum, gera þeir þetta í einu lagi, með minni fyrirhöfn og tilkostnaði allra málsaðila.

Stundum hefur borið á, að menn hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöðu prófkjörs hjá öðrum flokkum en þeim, sem þeir hyggjast kjósa. Þetta kom í ljós í síðustu þingkosningum hjá framsóknarmönnum á Norðurlandi vestra og alþýðuflokksmönnum á Reykjanesi.

Óraðaðir framboðslistar tryggja hins vegar, að ekki hafi aðrir afskipti af vali hvers framboðslista en þeir, sem kjósa hann, þegar til kastanna kemur. Lýðræðishugsjón prófkjörs nær fram að ganga, en á þann hátt, að óviðkomandi aðilar hafa ekki áhrif á framboðslistann.

Stundum hefur borið á, að fallistar í prófkjöri hafa ekki sætt sig við úrslitin og reynt að grafa undan gengi listans í kosningum. Ýmis dæmi eru um, að þeir hafi leiðst út í sérframboð og þannig valdið margvíslegum sárindum í röðum fólks, sem áður stóð saman.

Óraðaðir framboðslistar tryggja hins vegar, að fallkandídatar fá ekki tækifæri til að veita gremju sinni útrás á þann hátt, að það skaði gengi framboðslistans í kosningum. Lýðræðishugsjón prófkjörs nær fram að ganga, en á þann hátt, að það klýfur ekki flokka.

Stundum hefur borið á, að eiginleg kosningabarátta sumra frambjóðenda fer einkum fram í prófkjörum og þá með ærnum kostnaði og ærinni fyrirhöfn. Þegar kemur að kosningum, eru þessir frambjóðendur orðnir svo dasaðir, að þeir eru ekki til mikils brúks í slagnum.

Óraðaðir framboðslistar tryggja hins vegar, að vinna og fyrirhöfn einstakra frambjóðenda nýtist listanum í heild, af því að það fellur saman við kosningabaráttuna. Lýðræðishugsjón prófkjörs nær fram að ganga, en án þynningar á kröftum framboðslista í kosningum.

Ef óraðaðir listar koma í stað prófkjörs, falla persónulegar auglýsingar einstakra frambjóðenda innan ramma kosningabaráttu framboðsins í heild og verða þar af leiðandi mildari gagnvart öðrum frambjóðendum listans heldur en þær hafa reynzt vera í venjulegu prófkjöri.

Löngum hefur verið litið á prófkjör sem illa nauðsyn, er stjórnmálaflokkar komist stundum ekki hjá til að halda innra friði. Ef prófkjör falla niður um skeið, kemur venjulega í ljós, að þeirra er aftur þörf til að taka tillit til nýrra stjórnmálamanna og breyttra viðhorfa.

Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík eru dæmigerður vettvangur, þar sem framboð geta hvorki haft prófkjör né verið án þeirra. Óraðaðir listar eru kjörin aðferð til að sameina kraftana að baki borgarstjóraefnunum, þótt einstaklingar berjist um einstök sæti innan listanna.

Tvisvar hefur tillögur um óraðaða lista dagað uppi á Alþingi, ekki af því að þingmenn finni þeim margt til foráttu, heldur skortir aðeins kjark til breytinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Krabbameins-karlinn

Greinar

Þegar borgarstjórnin í New York bannaði reykingar í öllum veitingahúsum, varð uppi fótur og fit. Reykingamenn sögðu, að mörg veitingahús yrðu gjaldþrota og að öðrum yrði breytt í lokaða klúbba, þar sem fólk gæti verið í friði fyrir forsjárhyggju borgarstjórnar.

Illspárnar rættust ekki. Reykingabannið er í gildi, veitingahúsum hefur ekki fækkað og sárafáum hefur verið breytt í klúbba. Menn hafa einfaldlega sætt sig við að fá ekki að reykja á veitingahúsum frekar en á skrifstofum stofnana og fyrirtækja í borginni.

Svo vel gengur fráhaldið í New York, að tveir eða þrír standa reykjandi fyrir utan hvert háhýsi, þar sem þúsundir manna eru í vinnu. Þetta þýðir, að fjöldi reykingamanna hefur annaðhvort hætt eða sættir sig við, að margfalt lengri tími en áður líði milli sígarettna.

Dæmið frá New York sýnir, að takmörkun á aðstæðum leiðir til minni neyzlu, rétt eins og takmörkun á framboði, svo sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin heldur fram. Með því að þrengja innkaups- og neyzlutækifæri er unnt að draga töluvert úr neyzlu löglegra fíkniefna.

Hart er sótt að tóbaksframleiðendum í Bandaríkjunum. Fimmti stærsti framleiðandinn, Liggett, samdi fyrir ári um að greiða tóbaksfíklum skaðabætur. Þessa dagana standa tveir stærstu tóbaksframleiðendurnir, Philip Morris og Nabisco, í svipuðum samningum.

Wall Street Journal upplýsti fyrr í þessum mánuði, að rætt væri um, að fyrirtækin tvö legðu sem svarar 20 þúsund milljörðum króna á 25 árum í sjóð til greiðslu skaðabóta vegna heilsutjóns tóbakssjúklinga og takmörkuðu auglýsingar í samræmi við óskir yfirvalda.

Tóbaksframleiðendur eru í þröngri stöðu, af því að komið hafa fram gögn, sem sýna, að þeir vissu um vanabindandi áhrif tóbaks og nýttu sér þau. Ennfremur, að þeir fjármögnuðu rannsóknir til að sýna fram á, að fullyrðingar um skaðsemi tóbaks væru beinlínis rangar.

Um tóbak gildir svipað og áfengi, að með reglulegu millibili eru birtar niðurstöður rannsókna, sem sýna fram á skaðleysi þessara fíkniefna og jafnvel hollustu. Við nánari athugun kemur svo í ljós, að þessar marklausu rannsóknir eru kostaðar af hinum hvítþvegnu.

Það sem helzt stendur í vegi fyrir, að tóbaksframleiðendur fái makleg málagjöld fyrir langvinna eiturlyfjasölu, er kenningin um, að tóbaksfíklarnir geti sjálfum sér um kennt. Þeir eigi að hafa átt að vita um skaðsemi tóbaks, jafnvel þótt framleiðendur hafi neitað henni.

Sú kenning hefur verið á kreiki í Bandaríkjunum og hefur raunar einnig borizt til Íslands, að fíklar eigi sjálfir að greiða fyrir kostnað heilbrigðiskerfisins af fíkn sinni, þar sem hún sé sjálfskaparvíti. Aðrir halda fram, að misjafnt næmi fyrir fíkn búi í litningum fólks.

Eðlilegasta leiðin úr fjárhagsvanda samfélagsins er sú, sem beitt er hér á landi, að láta fíkla sitja við sama borð og aðra sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, en skattleggja fíkniefni til að afla samfélaginu tekna á móti. Skattar á lögleg fíkniefni eru þó enn of lágir hér á landi.

Í Hagfræðistofnun Háskólans hefur verið reiknað, að tekjur samfélagsins af áfengissölu vegi skammt upp í kostnað þess af áfengisneyzlu. Sennilegt er, að svipað kæmi í ljós um tóbakið. Og þriðja löglega fíkniefnið, sykurinn, sleppur alveg við skattlagningu samfélagsins.

Vestra er harkan meiri en hér. Leigubílar í New York bera auglýsingar, þar sem “Marlborough-maðurinn” er stældur með hauskúpu af “Krabbameins-karlinum”.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkisborgararéttur

Greinar

Það á ekki að fara eftir geðþótta embættismanna, hvort íþróttamaðurinn Duranona fær ríkisborgararétt og íþróttakonan Eszercal fær hann ekki. Ákveðnar leikreglur eiga að gilda um frávik frá meginreglu tíu ára biðar. Með lögum skal land byggja, en með geðþótta eyða.

Það er eitt helzta einkenni Vesturlanda, að skráð lög og skráðar reglur gilda um samskipti valdhafa og einstaklinga, en ekki geðþótti valdhafa. Þetta byggist á jafnréttishugsjóninni og leiðir þar að auki til hagkvæmni, því að menn geta skipulagt mál sín fram í tímann.

Þetta er gott dæmi um, að réttlæti og hagkvæmni fara oft saman. Leikreglustefna lýðræðisins er eitt þeirra atriða, sem valdið hefur sigurför vestræns þjóðskipulags víða um heim. Hún stuðlar eindregið að traustum viðskiptum, sem eru undirstaða markaðsbúskapar.

Við þurfum að hafa skráðar reglur um, með hvaða hætti íþróttamenn fái hvaða hraða við afgreiðslu ríkisborgararéttar. Þá geta allir gengið að reglunum sem vísum og geta skilið röksemdafærsluna á bak við þær, ef þeir kæra sig um. Minni deilur verða en ella.

Við vitum, að hagsmunir þjóðarinnar ráða mestu um frávikin. Menn fá hraðari afgreiðslu, ef þjóðin þarf á þeim að halda í landsliði gegn öðrum þjóðum. Þetta er góð og gild forsenda, en hún á ekki að vera neitt leyndarmál og hún á að gilda jafnt fyrir alla.

Þjóðin þarf á fleirum að halda en íþróttamönnum einum. Það kæmi sér vel að fá hingað hæft fólk á fleiri sviðum, svo sem í kaupsýslu og tölvufræðum. Við eigum að laða slíkt fólk að með skilgreindum frávikum frá meginreglunni um tíu ára bið eftir ríkisborgararétti.

Meginreglan sjálf er ágæt, því að ríkisborgararéttur er verðmætur hlutur og verður enn verðmætari með auknum þrýstingi af völdum fólksfjölgunar í umheiminum. Fólk reynir í vaxandi mæli að losna undan fargi mannhafs þriðja heimsins og komast til Vesturlanda.

Ýmis ríki, sem hingað til hafa haft tiltölulega frjálslegar reglur um landvist, sem síðar leiðir til ríkisborgararéttar, hafa rekið sig á torleyst vandamál, sem felast að mestu í skorti á aðlögun að aðstæðum. Hvorki nýbúar né heimamenn hafa reynzt undir þessi vandamál búnir.

Í löndum vandamálsins hafa risið stjórnmálaflokkar, sem hafa stöðvun landvistarleyfa og ríkisborgararéttar á stefnuskrá. Þeir hafa víða fengið 10-20% fylgi í kosningum og trufla hefðbundið gangverk stjórnmálanna. Þetta stafar af andúð margra kjósenda á nýbúum.

Andúðin stafar sumpart af fordómum heimamanna og sumpart af skorti á aðlögunarvilja nýbúa. Þeir koma sumir frá öðrum menningarheimum en vestrænum og vilja halda sínum siðum, sem stangast á við siði heimamanna. Andstæðan leiðir til ágreinings og úlfúðar.

Þetta er ekki kynþáttamál. Frönskumælandi og frönskumenntaðir svertingjar hafa fallið vel að Frakklandi. Arabiskumælandi og íslamstrúaðir hvítingjar hafa hins vegar verið vaxandi fleinn í holdi franskra stjórnmála. Það er menningin, en ekki liturinn, sem gildir.

Bandaríkin eru dæmi um takmörkin á deiglu þjóðanna. Þar runnu flóttamenn úr Evrópu saman í þjóð. Það gera hins vegar ekki hvítir Mexíkómenn, sem koma að sunnan. Þeir halda áfram að tala sína spönsku og lagast síður en Evrópumenn að bandarísku þjóðfélagi.

Við skulum því halda ströngum reglum um landvist og ríkisborgararétt, en hafa undanþágurnar skýrar og skilgreindar, svo að geðþótta verði ekki beitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Víðerni í þjóðgarði

Greinar

Hæstiréttur hefur staðfest héraðsdóm um, að hreppar í Húnaþingi og Skagafirði eigi ekki Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði og fái því ekki bætur fyrir landnot Landsvirkjunar. Þar með er staðfest hin almenna regla, að afréttir hálendisins séu almenningur utan eignaréttar.

Dómurinn er mikilvægt skref í valdatöku þjóðarinnar á hálendi landsins og friðun þess. Næstu skref munu meðal annars felast í að reyna að hindra, að norðlenzkir hreppar slái eign sinni á Hveravelli og komi þar upp umfangsmiklum hótel- og veitingarekstri.

Hinar ósnortnu víðáttur landsins eru mikilvæg auðlind, sem okkur ber að varðveita og skila til afkomendanna. Fyrst og fremst ber okkur að koma í veg fyrir, að þar sé landi raskað og reist mannvirki, án þess að það fái ýtarlega skoðun sæmilega náttúruvænna stofnana.

Þingsályktunartillaga frá Kvennalistanum gerir ráð fyrir, að hugtakið ósnortið víðerni verði skilgreint og kortlögð svæðin, sem falli undir það. Ennfremur verði settar reglur um varðveizlu og nýtingu svæðanna og ekki rasað að framkvæmdum, fyrr en að því loknu.

Markmið þjóðarinnar hlýtur að vera, að óbyggðir landsins verði að friðlýstum þjóðgarði náttúruverndar og útivistar. Það felur í sér, að vandað verði til orkuframkvæmda og orkuflutnings á svæðunum, svo og til allra mannvirkja, sem tengjast ferðaþjónustu.

Mikilvægt er, að öll mannvirki ferðaþjónustu séu staðsett og hönnuð á þann hátt, að þau trufli sem minnst þau verðmæti, sem fólk sækist eftir, þegar það leitar á vit kyrrðar og einveru í ósnortnu víðerni hálendisins. Hveravellir mega ekki verða undantekning á þessu.

Uppistöðulón þurfa að vera vistvæn og orkuver að fela sig í landslaginu. Grafa ber háspennulínur í jörð og fella sumarvegi að landi. Upprekstur búfjár á öll móbergssvæði hálendisins ætti að leggja af og gefa landinu langvinnan frið til að jafna sig eftir fyrri ofbeit.

Eðlilegt er, að óbyggðirnar verði settar undir eina skipulagsstjórn. Hins vegar væri óráð, að hreppar í nágrenni hálendisins fái meiri ítök í slíkri stjórn en sveitarfélög í þéttbýli, því að viðhorf í hinum fyrrnefndu reynast stundum markast af eiginhagsmunum á svæðinu.

Hins vegar eru núverandi skipulagsstjórn ríkisins og umhverfisráðuneyti ekki í stakk búin til að taka að sér hlutverkið. Komið hefur í ljós á síðustu árum, að þessum stofnunum er ekki treystandi til að gæta hagsmuna náttúruverndar gegn hagsmunum gæludýra kerfisins.

Umhverfisráðuneytið hefur til dæmis alltaf reynzt tilbúið að styðja ýtrustu sérhagsmuni í landbúnaði, svo sem að Svínavatnshreppur fari með skipulagsvöld á Hveravöllum. Þannig hefur ráðuneytið unnið að því að koma valdinu í hendur þeirra, sem ábyrgð bera á ofbeit.

Landgræðslan og Rannsóknastofnun landbúnaðarins hafa nýlega staðfest, að umtalsvert jarðvegsrof geisar á um 40% alls Íslands, mest á móbergssvæðum hálendisins. Þetta staðfestir áratuga gamlar niðurstöður af gróðurkortagerð og þarf því ekki að koma neinum á óvart.

Rannsóknin leiddi í ljós, að hálendið og flestar afréttir þola alls ekki búfé, ekki einu sinni skammtaða beit. Undantekningin er norðurhluti borgfirzkra afrétta og vesturhluti húnvetnskra. Verst farnar eru allar afréttir Sunnlendinga, Skagfirðinga, Eyfirðinga og Suður-Þingeyinga.

Niðurstaða Hæstaréttar um almenning á Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði ætti að geta flýtt fyrir stofnun þjóðgarðs um ósnortið víðerni í óbyggðum landsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaupmaðurinn í snörunni

Greinar

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna er efnislega úr sögunni. Hún getur ekki framar ályktað um mannréttindabrot, þar sem hún féll á Kínaprófinu. Engir harðstjórar þriðja heimsins þurfa að taka mark á stofnun, sem engar viðmiðunarreglur notar í ályktunum sínum.

Hlutverk mannréttindanefndar á að felast í að fylgjast með, hvort ríkisstjórnir fari eftir undirrituðum mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Engum blöðum er um það að fletta, að Kínastjórn hefur brotið sáttmálann kruss og þvers og hyggst áfram brjóta hann.

Kínastjórn hefur löngum beitt viðskiptalegum hótunum og gylliboðum til að hafa sitt fram á alþjóðlegum stjórnmálavettvangi. Íslenzka valdastéttin hefur ekki farið varhluta af þessum óviðurkvæmilegu vinnubrögðum. Hún hefur látið múta sér með glæstum ferðalögum.

Frönsk og þýzk stjórnvöld og mörg önnur evrópsk stjórnvöld fylltu ömurlegan flokk þeirra, sem töldu ekki taka því að álykta um mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda. Sú stefna stafar af þrýstingi fyrirtækja, sem telja sig geta makað krókinn á viðskiptum við Kína.

Hlutskipti þessara stjórnvalda er hið sama og kaupmannsins, er selur snöruna, sem á að hengja hann í. Kínastjórn fyrirlítur Vesturlönd samkvæmt aldagamalli hefð og lætur ófriðlega við nánast öll nágrannaríki sín, þar á meðal Víetnam, Japan og Filippseyjar.

Markmið Kínastjórnar er að taka við af Sovétríkjunum sem annað heimsveldið andspænis Bandaríkjunum. Hún vill sveigja stjórnvöld um allan heim til hlýðni við hagsmuni sína. Hún beitir skipulega viðskiptalegum og efnahagslegum þrýstingi og freistingum í því skyni.

Kínastjórn er núna að reyna að hefna sín á dönskum stjórnvöldum fyrir að hafa frumkvæði að tillögunni, sem ekki náði fram að ganga í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Meðal annars hefur hún ákveðið að fresta öllum samskiptum við Danmörk um óákveðinn tíma.

Mikilvægt er, að þau ríki, sem stóðu með Danmörku að tillögunni, láti núna eitt yfir alla ganga. Þeim ber að svara með að fresta sínum samskiptum við Kína. Í þessum hópi eru íslenzk stjórnvöld, sem hingað til hafa slefað af hamingju yfir ferðamolum af borði Kínastjórnar.

Hér í blaðinu hefur oft verið varað við óhóflegum Kínaferðum stjórnmálamanna og ekki síður við tilraunum íslenzkra aðila til að græða á viðskiptum við Kína. Reynslan sýnir, að í Kína eru útlend fyrirtæki arðrænd að geðþótta stjórnvalda, sem fara ekki að neinum lögum.

Lakkrísverksmiðja vina Halldórs Blöndal fór auðvitað á hausinn og þannig mun fara fyrir fleirum. Aðrir munu halda sjó með því að gerast flutningsmenn sjónarmiða kínverskra stjórnvalda gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, svo sem við sjáum af dæmum frá öðrum löndum.

Ýmis bandarísk fyrirtæki eru í svo erfiðum málum í Kína og eiga svo mikilla hagsmuna að gæta, að Bandaríkjastjórn er undir stöðugum þrýstingi að hætta að amast við brotum Kínastjórnar á fjölþjóðlegum samningum, svo sem umræddum mannréttindasáttmála.

Með því að stunda viðskipti við stjórnina eða aðra aðila í Kína eru menn að leggja sitt lóð á vogarskál aukinna vandræða í heiminum í kjölfar aukinnar uppivöðslusemi kínverskra stjórnvalda; á vogarskál aukins vígbúnaðar til að hafa hemil á þessum stjórnvöldum.

Hrakfarir Vesturlanda í mannréttindanefndinni sýna vestræn stjórnvöld í hlutverki skammsýna kaupmannsins, er verður hengdur í snörunni, sem hann seldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Róttækt og rökrétt

Greinar

Tímaritið Economist hefur löngum skrifað skynsamlega um efnahagsmál, þar á meðal um stjórnkerfi sjávarútvegs. Blaðið hefur auðvitað mælt með sölu veiðileyfa eins og flestir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið hér á landi, en sérstaklega þó bent á uppboð veiðileyfa.

Einn ritstjóra blaðsins og höfundur tveggja bóka um umhverfismál, Frances Cairncross, var hér á landi fyrir helgina í boði umhverfisráðuneytis og Verzlunarráðs. Hún flutti erindi á föstudaginn og bætti sínu lóði á vogarskál stuðnings við sölu veiðileyfa í sjávarútvegi.

Margir hafa lengi mælt með sölu veiðileyfa, en talað fyrir daufum eyrum pólitískra ráðamanna, enda eru miklir hagsmunir í húfi. Til skamms tíma var almenningur fremur áhugalaus um fremur fræðilega umræðu málsins, en hefur þó rumskað á síðustu mánuðum.

Sumir forustumenn í sjávarútvegi hafa áttað sig á hugarfarsbreytingunni og vilja koma til móts við hana í tæka tíð, áður en almenningur snýst beinlínis gegn hagsmunum útgerðarinnar. Aðrir hanga fastir á sínu roði og munu enn um sinn ráða ferð samtaka útgerðarinnar.

Krafan um sölu veiðileyfa er komin í flokk málefna, sem njóta víðtæks stuðnings í þjóðfélaginu, þvert á flokkakerfið í landinu, án þess að stóru stjórnmálaflokkarnir hafi tekið við sér. Hugsanlega er að myndast jarðvegur fyrir nýjan flokk utan um þessi nýju mál.

Það er til dæmis ærið verkefni fyrir nýjan stjórnmálaflokk að berjast fyrir sölu veiðileyfa í sjávarútvegi og afnámi ríkisafskipta af hefðbundnum landbúnaði, svo að tvö veigamestu dæmin séu nefnd. Markhópar fylgismanna ættu alténd að vera nógu fjölmennir.

Mikilvægur þáttur sinnaskipta fólks felst í, að fólk í sjávarplássum hefur áttað sig á, að kvótakerfið verndar ekki hagsmuni byggðarlaga. Kvótar eru á fleygiferð milli sveitarfélaga og landshluta. Fyrirtæki gleypa hvert annað í stórum stíl og útgerðarmenn festa fé í útlöndum.

Tökum Eskifjörð sem dæmi. Þegar Alli ríki hættir að gera út og erfingjar fara að hugsa um fjármál sín, fer eignarhald í sjávarútvegi á Eskifirði á tvist og bast. Einn góðan veðurdag situr Eskifjörður uppi með engan Alla og engan kvóta og algert hrun í atvinnulífinu.

Ríkisvaldið getur með góðri samvizku selt veiðileyfi. Það er höfundur allrar velgengni í sjávarútvegi. Ef það hefði ekki skammtað aðgang að fiskimiðum, væri afli mjög rýr og afkoma sjávarútvegs hörmuleg. Með skömmtun hefur ríkið nánast framleitt auðlindina.

Eina leiðin til að meta sannvirði leigunnar fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind er að bjóða hana út og sjá, hvað markaðurinn vill borga fyrir hana. Þetta er ein helzta grundvallarregla markaðshagkerfisins og gildir fyrir sjávarútveg eins og aðrar athafnir.

Það væri meira að segja hægt að leyfa útlendum aðilum að bjóða í veiðileyfi, svo framarlega sem afla sé landað á íslenzka fiskmarkaði. Með leigugjaldi útlendinganna hefði þjóðfélagið allan arð sinn af auðlindinni á hreinu, áður en nokkurt veiðarfæri er bleytt í sjó.

Alþjóðlegt uppboð veiðileyfa ryður úr vegi einu hindrun þess, að við getum tekið þátt í Evrópusambandinu og notið margvíslegra hagsmuna þess og fríðinda til fulls. Sá ávinningur bætist við arðinn af markaðsvæðingu sjávarútvegs og eflir framtíðarhagsmuni þjóðarinnar.

Margir eiga vafalaust erfitt með að sætta sig við svo róttæka útfærslu á sölu veiðileyfa. En hún er samt einmitt rökréttasta niðurstaðan af forsendum málsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Lausn á lífeyrisstríði

Greinar

Ríkið hefur fyrir hönd skattgreiðenda hagsmuna að gæta í frumvarpi um skyldutryggingu lífeyrissjóða. Það léttir á ríkissjóði og skattgreiðendum, að allir landsmenn séu skyldaðir til að afla sér sjálfir einhvers lágmarks í lífeyri á elliárunum, óháð fjölda þessara ára.

Fræðilega séð geta félagar í séreignasjóðum orðið meiri byrði á ríkinu og skattgreiðendum en félagar í sameignarsjóðum. Hinir fyrrnefndu geta kosið að taka lífeyri sinn út á tíu árum, en lifa svo ef til vill í tuttugu ár og geta þá orðið fjárhagsleg byrði síðari áratuginn.

Hins vegar er algengt, að félagar í séreignasjóðum greiði iðgjöld af svo háum launum, að það sé langt umfram þau mörk, sem ríkið þarf fyrir hönd skattgreiðenda að hafa áhyggjur af. Eðlilegt er, að þetta fólk hafi frelsi til að velja sér lífeyrisform af umframtekjunum.

Óþarft er að skylda fólk til að greiða í sameignarsjóði af launum, sem eru umfram 150 þúsund krónur á mánuði. Með núverandi ávöxtun lífeyrissjóða ættu slík iðgjöld að nægja til að standa undir elliárum fólks, án þess að ríki og skattgreiðendur komi til skjalanna.

Hægt er koma til móts við hin ýmsu málefnalegu sjónarmið og gæta hagsmuna skattgreiðenda með því að miða lífeyrissjóðsgreiðslur við 10% launa eins og nú er gert, en setja í lögin breytilegt hámark, er nægi á hverjum tíma til að tryggja sjóðfélögum ævikvöldið.

Þegar náð er hámarkinu, sem núna gæti numið 150.000 króna mánaðartekjum, má lækka skylduna úr 10% niður í til dæmis 3%, en leyfa fólki að leggja mismuninn í séreignasjóð. Sé samið um meira en 10% iðgjaldagreiðslur, ætti mismunurinn á sama hátt að vera frjáls.

Gera þarf séreignasjóðunum kleift að nota fyrirhuguð samtök sín til að stofna lífeyrissjóð utan um þann hluta veltunnar, sem er á sviði sameignarsjóða samkvæmt ofangreindri skilgreiningu. Einnig þarf að gera lífeyrissjóðum kleift að standa á sama hátt að séreignasjóðum.

Loks er æskilegt að koma á aukinni samkeppni milli lífeyrissjóða með því að auka frelsi fólks til að velja milli lífeyrissjóða. Það mundi soga lífeyri til sjóðanna, sem mesta ávöxtun hafa, frá sjóðunum, sem minnsta ávöxtun hafa. Rekstur sjóðanna mundi almennt batna.

Kerfið, sem hér hefur verið lýst, þjónar mörgum hagsmunum í senn. Það gætir hagsmuna ríkis og skattgreiðenda. Það eykur frelsi fólks til að velja sér form á sparnaði til elliáranna. Og það eykur samkeppni milli sjóðanna, sem taka að sér að ávaxta lífeyri fólks.

Setja þarf í lífeyrisfrumvarpið tvöfalt þak prósentu og krónutölu í stað eins prósentuþaks, ákvæði um sameignardeildir í séreignarsjóðum og um aukið frelsi fólks til að velja milli lífeyrissjóða. Þannig breytt getur frumvarpið orðið þjóðinni til heilla og eflt öryggi hennar.

Deilan um frumvarpið snýst því miður ekki nema að hluta um þessi málefnalegu atriði. Að meginstofni eru tvær voldugar valdamiðstöðvar að takast á um mikið fé. Annars vegar eru aðstandendur lífeyrissjóða og hins vegar eigendur og stjórnendur peningafyrirtækja.

Félagsmálaberserkir samtaka vinnumarkaðarins í stjórnum lífeyrissjóða standa annars vegar og hins vegar stjórnendur og aðrir aðstandendur tryggingafélaga, banka, fjármagnsfyrirtækja og annarra stofnana, sem vilja komast í keppnina um sparnað almennings.

Alþingismenn þurfa að greina milli þessa hagsmunastríðs og hinna málefnalegu atriða, sem ekki eru flóknari en svo, að á þeim má finna skynsamlega lausn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrælslund þjóðarinnar

Greinar

Ef einhverjir nenna að reyna að koma á samkeppni í bílatryggingum hér á landi og lækka verð þeirra um rúman fjórðung, taka flestir Íslendingar þá afstöðu að bíða eftir, að tryggingafélag þeirra mæti samkeppninni með lækkun iðgjalda. Þeir skipta ekki sjálfir um félag.

Erfitt er að koma á samkeppni og lægra verði á vöru og þjónustu, þegar meirihluti þjóðar er svo þrælslundaður, að hann telur ekki henta sér að taka sjálfur þátt í aðgerðunum með því að beina viðskiptum til þeirra, sem reyna að stunda samkeppni og lækka verð.

Þetta er ólíkt ýmsum nágrannaþjóðum okkar austan og vestan hafs. Þar er fólk óhrætt við að flytja viðskipti sín. Þar óttast fyrirtækin almenning og vilja þjóna honum. Hér óttast almenningur fyrirtækin. Sendinefndir sveitarfélaga biðja Flugleiðir um að auka ferðatíðni.

Þetta er íslenzkur vítahringur. Undirgefni fólks dregur vilja og þor úr þeim, sem annars vildu hætta sér út í samkeppni. Þetta eflir fáokunina í efnahagslífinu og leiðir til þess, að fólk er hrætt við að styggja fáokunarfyrirtækin með því að fara að skipta við nýja aðila.

Þannig snýst vítahringurinn. Enginn veit, hvar hann byrjaði og hvort hann tekur enda. Öflug stjórnmálaöfl styðja þessa þróun, af því að þau hafa komizt að raun um, að stuðningur þeirra við fáokunaröflin í þjóðfélaginu dregur ekki úr fylgi þeirra meðal almennings.

Þannig getur Sjálfstæðisflokkurinn leyft sér að draga ævinlega taum fáokunarinnar í þjóðfélaginu gegn hagsmunum almennings. Þess vegna geta forsætis- og samgönguráðherra lýst frati á tilraun Samkeppnisstofnunar til að hamla gegn fáokun í innanlandsflugi.

Samkeppnisstofnun hafði þó ekki gert annað en að reyna að byrja að beita nýlegum lögum. Hún hafði ekki gert annað en að reyna að feta í fótspor hliðstæðra stofnana á Vesturlöndum. Niðurstaða hennar þætti ekki í frásögur færandi í neinu nágrannalanda okkar.

Hér reynir valdahringur fáokunarfyrirtækja og stjórnmálaafla hins vegar að kúga Samkeppnisstofnun til hlýðni með því að kalla hana á teppið í samgöngunefnd Alþingis. Með fýldum athugasemdum reyna ráðherrar að hafa fyrirfram áhrif á úrskurðarnefnd deilumálsins.

Þetta er hægt hér á landi, af því að valdamenn stjórnmála og fáokunar vita, að Íslendinga á að kúga, en ekki þjóna þeim. Þeir vita, að fólk er hér haldið þrælsótta við yfirvaldið, hvert sem það er á hverjum stað. Þeir telja sér ekki munu verða refsað síðar í kjörklefunum.

Samgönguráðherra gerir lítið annað en að verja hagsmuni fáokunar og fer ekki dult með. Hann gengur nánast opinberan berserksgang við að verja hagsmuni Pósts & síma til þess að tryggja, að nýfengið frelsi fyrirtækisins leiði örugglega til einokunar þess á markaði.

Ástandið byggist á, að nógu margir Íslendingar líta á sig sem þegna, svo sem tíðkaðist á tímum einvaldskonunga, en hafa ekki vanið sig á að líta á sig sem frjálsa borgara í vestrænum skilningi. Þess vegna fær sameinað afl stjórnmála og fáokunar að mestu leyti frítt spil.

Á mikilvægustu sviðum efnahagsmála eru það einn eða tveir eða þrír risar, sem ráða markaðnum og hafa samráð sín í milli. Samkeppni í vestrænum skilningi er takmörkuð hér á landi og verð á vöru og þjónustu því óeðlilega hátt. Þjóðin borgar fyrir þrælslund sína.

Enda ræða menn í valdakerfinu sín á milli um, hvernig breyta megi lögum um Samkeppnisstofnun, svo að hún geti með góðri samvizku lagzt til svefns að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV

Samkeppnisráð hefur klær

Greinar

Samkeppnisráð hefur nú í fyrsta skipti á æfinni sýnt klærnar einu stóru fáokunarfyrirtækjanna, sem ráða heilum atvinnugreinum á Íslandi. Það setti skilyrði fyrir sameiningu Flugfélags Norðurlands og innanlandsflugs Flugleiða, sem fyrirtækin hafa síðan hafnað.

Skilyrði Samkeppnisráðs eru ekki harðari en þau, sem sett eru af hliðstæðum stofnunum við svipaðar aðstæður austan og vestan hafs. Hér á landi bera þau samt róttækan svip, af því að menn hafa ekki vanizt, að ráðið standi á verðinum, þegar verið er að magna fáokun.

Ráðið lét til dæmis kyrrt liggja, þegar Olíufélagið keypti Olíuverzlunina og það hefur látið viðgangast, að Póstur og sími fari hamförum í misnotkun á yfirburðastöðu sinni. Nú hefur orðið stefnubreyting í ráðinu, sem bendir til, að fáokarar verði að fara að gæta sín.

Ekki er við Samkeppnisráð að sakast, þótt efast megi um, að slík ráð komi að tilætluðu gagni. Takmarkanir og bönn við samruna geta ekki komið í veg fyrir, að yfirburðafyrirtæki ryðji smærri fyrirtækjum úr vegi með því að setja þau á hausinn og kaupa þau ekki.

Flugleiðir höfðu yfirburðastöðu og hafa áfram, þótt sameiningin hafi farið út um þúfur. Flugleiðir geta áfram fært út kvíarnar í ferðageiranum með pökkum og sérkjörum, sem byggjast á, að félagið á hótel, veitingasali, bílaleigu, rútufyrirtæki og ferðaskrifstofur.

Samkeppnisráð hefur ekki vald til að krefjast skiptingar fáokunarfyrirtækja niður í fleiri og smærri fyrirtæki, svo sem tíðkast í Bandaríkjunum. Ráðið mundi samt gera gagn með því að benda á dæmi um fáokun og skýra, hvernig megi skera hana niður í smærri einingar.

Við eðlilegar aðstæður eru önnur atriði betur til þess fallin en boð og bönn að efla samkeppni og lækka verð. Á fjölþjóðlegum vettvangi, svo sem í Alþjóðlegu viðskiptastofnuninni og Evrópusambandinu er verið að létta hömlum af samkeppni og fella verndarstefnu úr gildi.

Vandi Íslendinga á sviði fáokunar er sérstæður. Hann markast af fámenni þjóðarinnar og tryggð við innlenda kvalara hennar. Því freistast erlend fyrirtæki síður til að reyna að hasla sér völl hér á landi, þótt fjölþjóðasamningar hafi opnað færi til þess á síðustu árum.

Erlendir flugforstjórar sjá smæð íslenzks markaðar. Þeir sjá eindreginn óvin frjálsrar samkeppni í stóli samgönguráðherra og vita, að hann muni leggja stein í götu þeirra. Þeir sjá, að margir farþegar muni áfram sætta sig við núverandi fargjöld og fáokunarfyrirtæki.

Vegna þessara sérstöku aðstæðna er eðlilegt, að hér á landi treysti menn meira á hrein og bein boð og bönn af því tagi, sem nú hafa komið í veg fyrir samruna Flugfélags Norðurlands og innanlandsflugs Flugleiða í sérstöku dótturfélagi hins síðarnefnda, einu af mörgum.

Ef Samkeppnisráð fylgir máli þessu eftir með almennri stefnubreytingu í viðbrögðum sínum við fáokun yfirleitt, er það góðs viti og hefði mátt gerast miklu fyrr. Bein áhrif af þessu máli verða hins vegar ekki mikil, því að fáokun í flugi verður áfram afar eindregin.

Eins og á svo mörgum öðrum sviðum væri happasælast í samkeppnis- og verðlækkunarmálum landsins, að stjórnvöld flæktust sem mest inni í neti fjölþjóðasamninga og -samstarfs á borð við Evrópusambandið, svo að þau geti ekki lengur verndað innlenda einkavini sína.

Í rauninni felst sérstaða Íslands einkum í, að kúgun kemur að innan, en frelsi að utan. Það gildir allt frá fáokun atvinnulífs yfir í stjórnsýslu og úrskurði dómstóla.

Jónas Kristjánsson

DV

Utanríkisstefna til sölu

Greinar

Kínastjórn hótar Dönum um þessar mundir að ná sér niðri á þeim, ef þeir láti ekki af tilraunum til að fá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna til að fordæma víðtæk mannréttindabrot í Kína. Danir láta sér fátt um finnast og fara eftir því, sem samvizkan býður.

Vinnubrögð Kínastjórnar í samskiptum við útlönd byggjast mikið á viðskiptahótunum annars vegar og gylliboðum hins vegar. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af síðari aðferðinni. Íslenzkar sendinefndir hafa notið gestrisni Kínverja og gæta óbeint hagsmuna þeirra.

Ef útlendingar makka ekki rétt að mati Kínastjórnar, ofsækir hún fyrirtæki, sem þeir hafa komið upp í Kína í tengslum við drauma um stóran markað. Hún sýnir þannig, hver valdið hefur, og notar réttaróvissu til að láta fjárfesta þjóna pólitískum hagsmunum hennar.

Clinton Bandaríkjaforseti er maður að skapi Kínastjórnar. Hann er nokkurn veginn alveg siðlaus og notar fjáröflunarleiðir út í yztu æsar. Meðal annars hefur kosningavél hans tekið við framlögum erlendra aðila, sem eru að gæta hagsmuna erlendra ríkja í Bandaríkjunum.

Því er nú haldið fram, að sjóðir Clintons hafi notið stuðnings kínverskra peninga, en það hefur ekki sannazt. Hins vegar er ljóst, að þeir hafa tekið við peningum frá ýmsum öðrum ríkjum, sem telja sér hag í að hafa áhrif á bandarísk stjórnmál og stjórnsýslu.

Þannig hafa menn Clintons neyðst til að skila peningum frá Indónesíu, þar sem ríkir harðskeytt þjófræði, sumpart í skjóli Bandaríkjanna. Suharto einræðisherra, ættingjar hans og einkavinir, reka víðtæka spillingu og blóðmjólka þjóðfélagið sér til persónulegs ábata.

Ríkisstjórn Indónesíu hefur gengið fram af mikilli grimmd í hernámi sínu á Austur-Tímor. Eftir íslenzka tilnefninu fékk Jose Ramos Horta, útlægur leiðtogi sjálfstæðishreyfingar eyjarinnar, friðarverðlaun Nóbels í vetur. Hann verður góður gestur hér á landi um helgina.

Koma Hortas minnir okkur á, hve mannleg verðmæti mega sín lítils í heiminum, þegar í húfi eru fjárhagslegir hagsmnunir stórþjófaforingja á borð við Suharto og siðblindra stjórnmálamanna á borð við Clinton, sem þáði mola af nægtaborði glæpagengis Suhartos.

Bandaríkjamenn hafa verið svo ólánsamir að rækta með sér kosningakerfi, sem kallar á stjarnfræðilega og sífellt vaxandi fjármuni. Þetta hefur haft í för með sér, að völd kjósenda hafa minnkað, en aukizt völd þeirra, sem fjármagna kosningar í eiginhagsmunaskyni.

Þannig hefur fjársterkum stuðningsmönnum Ísraelsríkis í Bandaríkjunum tekizt að gera Bandaríkin að einu helzta haldreipi hins unga gestapó-ríkis fyrir botni Miðjarðarhafs, í takmarkalausum yfirgangi þess og ofbeldi, hryðjuverkum þess og efnahagslegum ofsóknum.

Stuðningsmenn Ísraelsríkis í Bandaríkjum hafa verið sérstaklega gjafmildir í garð Clintons, enda hefur ríkisstjórn hans aldrei vikið millimetra frá stuðningi við Ísraelsríki, jafnvel þegar hún hefur staðið alein gegn því, að mannréttindabrot þess hljóti alþjóðlega fordæmingu.

Þannig ráða peningaöflin ferð í Bandaríkjunum. Tóbaksframleiðendur kaupa sér pólitíska vernd til að eitra fyrir fólk. Byssuframleiðendur kaupa sér stuðning við auðveld byssukaup, þótt þau leiði til margfalt meiri manndrápa en þekkjast í öðrum vestrænum ríkjum.

Verst er, að bandarísk utanríkisstefna skuli mótast af hagsmunum kosningasjóðs Clintons, svo sem lesa má út úr stuðningi hans við Ísrael, Indónesíu og Kína.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriggja ára friður

Greinar

Einkaneyzla almennings mun ekki aukast eins mikið á þremur næstu árum og ætla mætti af niðurstöðum kjarasamninga. Aukinn kaupmáttur verður notaður til að lækka skuldir heimilanna, sem hér eru meiri en í öðrum ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar.

Að vísu er eðlilegur ótti hagfræðinga við aukinn viðskiptahalla gagnvart útlöndum. Hann verður mikill á þessum þremur árum, ekki mest vegna nýgerðra kjarasamninga, heldur einkum vegna mikilla framkvæmda við fyrirhugaða orkuvinnslu og stóriðju.

Heimilin í landinu hafa safnað allt of miklum skuldum á samdráttarskeiði undanfarinna ára. Meðalskuld heimilis er komin í 128% af ráðstöfunartekjum eins árs, meðan hliðstæðar tölur eru yfirleitt á bilinu 80-110% í þeim vestrænu löndum, sem við höfum til samanburðar.

Vanskil og alls kyns vandræði hafa fylgt skuldasöfnuninni. Mál er að linni, þegar kaupmáttur ráðstöfunartekna er farinn að aukast að nýju og eykst væntanlega um 12% á næstu þremur árum. Þetta eru jaðartekjur, sem geta haft mjög jákvæð áhrif á skuldastöðu heimilanna.

Ef almenningur sér hag í að nota aukinn kaupmátt til að minnka skuldirnar í stað þess að gera rekstur sinn dýrari, komumst við nær eðlilegri eignamyndun almennings. Hlutfall hreinnar eignar af ráðstöfunartekjum er hér aðeins tæp 3%, en er rúm 5% í Bandaríkjunum.

Ríkisvaldið getur stuðlað að þessu með því að reyna að haga málum á þann veg, að fólk freistist fremur en ella til að spara og lækka skuldir. Auk þess verður ríkið sjálft að haga sínum fjármálum á svipaðan veg. Það má ekki nota auknar veltutekjur til að auka umsvif sín.

Gert er ráð fyrir, að verðbólgan nemi 2,4-3% á næstu þremur árum. Það er of mikið, en stafar sumpart af áðurnefndum framkvæmdum við orkuöflun og stóriðju. Mikilvægt er að gera alvarlegar tilraunir til að koma þessu hlutfalli niður í hinn vestræna 2-2,5% staðal.

Allt þetta á að vera hægt, af því að fyrirsjáanlegur er vinnufriður í landinu næstu þrjú árin. Meirihluti launamanna í landinu á aðild að kjarasamningunum, sem gerðir hafa verið að undanförnu og raunar allur þorri þeirra, sem starfa við sjálft atvinnulífið.

Meðal annars er búið að semja fyrir 17 þúsund verzlunarmenn og 29 þúsund verkamenn. Alls er búið að semja fyrir 62 þúsund manns. Hingað til hafa allir samningar fallið í sama farveg. Eftir er að semja fyrir 17 þúsund opinbera starfsmenn og alls fyrir 36 þúsund manns.

Atvinnulífið og ríkisvaldið geta því í stórum dráttum gert langtímaáætlanir, sem miða við þekktar forsendur í hagþróun næstu þriggja ára. Þetta stuðlar að því, að teknar séu í fyrirtækjum ákvarðanir um aukna og nýja starfsemi, sem eflir atvinnu og hagvöxt.

Ýmislegt verður áfram í ólagi eins og verið hefur, svo sem miðstýrður kvóta- og millifærslubúskapur. Koma þarf til dæmis á fót uppboðum á veiðileyfum og hætta opinberum stuðningi við hefðbundinn landbúnað. Hvort tveggja er í þágu neytenda og skattgreiðenda.

En innihald og gildistími kjarasamninganna eru þess eðlis, að helztu stærðir þjóðarbúsins munu væntanlega breytast með ásættanlegum hætti fram að aldamótum. Það er út af fyrir sig töluverður áfangasigur í viðleitninni við að halda landinu byggilegu enn um sinn.

Óvissu hefur að mestu verið eytt. Menn eru hver fyrir sig og sameiginlega farnir að spýta í lófana og búa sig undir væntanlegt velgengnis- og friðartímabil.

Jónas Kristjánsson

DV

Harmsaga þjóðkirkjunnar

Greinar

Kvörtun frá biskupi þjóðkirkjunnar hefur leitt til þess, að ríkissaksóknari er farinn að undirbúa málshöfðun gegn þekktum spaugurum ríkissjónvarpsins fyrir meint guðlast á laugardegi fyrir páska, er þeir fóru með orðaleiki og fimmaurabrandara á kostnað þjóðkirkjunnar.

Tilefni kvörtunarinnar er harla léttvægt, enda snerist grínið mest um utantrúaratriði, svo sem tvenns konar merkingu orða á borð við “Sýn” og “glataður”. Kvörtunin sýnir óeðlilega viðkvæmni þjóðkirkjunnar fyrir því, sem hún telur vera áreiti utan úr þjóðfélaginu.

Mál þetta bætist við langa röð atriða, sem eru til þess fallin að auka þreytu manna á þjóðkirkjunni sem stofnun. Það minnir á, að tímabært er að skilja milli ríkis og kirkju, svo að þjóðkirkjan fái að vera út af fyrir sig með endurteknar uppákomur eða endurreisn virðingar.

Þjóðkirkjan getur ekki einu sinni rekið kirkjugarða án þess að brjóta landslög um ólögmæta viðskiptahætti og fá á sig dóm af því tilefni. Hún tregðast við að framfylgja dómsúrskurði og verndar þar á ofan á jólum okurstarfsemi á þjónustu við aðstandendur látinna.

Sumir prestar standa í stöðugu þrasi við aðra presta, annað starfsfólk kirkna, söfnuði sína og umhverfi sitt yfirleitt. Ýmis mál, sem varða samskipti kennimanna við annað fólk, hafa orðið landsfræg á síðustu árum og skaðað stöðu þjóðkirkjunnar sem opinberrar ríkiskirkju.

Erfiðleikar sumra presta í umgengni við annað fólk byggjast að nokkru leyti á tilraunum þeirra til að túlka þjóðkirkjuna sem kennimannakirkju fremur en safnaðakirkju; að kennimenn eigi að stjórna söfnuðum. Þessi stefna dregur úr þjóðkirkjuþætti ríkiskirkjunnar.

Sem stofnun hefur þjóðkirkjan verið meira eða minna lömuð í rúmlega tvö ár vegna sérkennilegrar stöðu biskups, sem hefur smám saman verið á undanhaldi úr embætti og hefur sumpart reynt með litlum árangri að verja undanhaldið með aðstoð töffara úr lögmannastétt.

Ofan á aðra ógæfu leiddist biskupinn út í að brjóta trúnað á fólki í einum söfnuði Reykjavíkur og að höfða andvana fætt meiðyrðamál gegn nokkrum konum, sem áttu í útistöðum við hann. Þetta er að sjálfsögðu óbærilegt ástand í stofnun, sem kallar sig þjóðkirkju.

Virðingarleysið einskorðast ekki við samskipti þjóðkirkju og umhverfis hennar. Það er líka magnað innan kirkjunnar. Margir kennimenn áttu í útistöðum við biskupinn og sýndu honum virðingarskort áður en hann lenti í sviptingunum, sem leiddu til afsagnar hans.

Meðan innri og ytri deilur og almenn skapstyggð marka þjóðkirkjuna magnast auðvitað gengi safnaða utan þjóðkirkjunnar. Misheppnaðar tilraunir þjóðkirkjunnar til málaferla vegna meiðyrða eða fimmaurabrandara úti í bæ auka enn á niðurlægingu hennar.

Þjóðkirkjan hefur verið að reyna á þolrif þjóðarinnar á undanförnum árum. Erfitt er að sjá, að úr því verði bætt á annan hátt en með róttækri aðgerð á borð við þá, sem oft hefur verið nefnd, aðskilnaði ríkis og kirkju og tilheyrandi eignaskiptasamningi ríkis og kirkju.

Með aðskilnaði ríkis og kirkju geta núverandi söfnuðir í þjóðkirkjunni fengið að hafa áhrif á kristnihaldið og tekið upp aukna samkeppni við sértrúarhópa. Samkvæmt erlendri reynslu er slíkt líklegt til að efla trúarlíf, um leið og það eykur fjárhagslega ábyrgð safnaða.

Líklegt er, að raunverulegt trúfrelsi muni auka veg þeirra kennimanna, sem mest erindi eiga til þjóðarinnar og draga úr áhrifum hinna, sem skaða lúterstrú.

Jónas Kristjánsson

DV

Misjafnt smíðuð gæfan

Greinar

Félagsráðherra rangtúlkar niðurstöður rannsóknar í Seðlabankanum á skuldum heimilanna í landinu. Rannsóknin sýnir, að skuldirnar eru meiri og illviðráðanlegri á Íslandi en á Vesturlöndum almennt. Hún sýnir, að miklu meira er um alvarleg vanskil hér á landi.

Ráðherra kýs að einblína á, að þeir séu fleiri, sem séu í skilum, en hinir, sem séu í vanskilum, og að ástandið sé betra en ætla hefði mátt af umræðunni um það. Þannig gefur hann sér viðmiðanir, sem gera honum kleift að afskrifa vandann með einum blaðamannafundi.

Það er alvarlegt, þegar 15.000 íslenzkar fjölskyldur eru í vanskilum, sem eru þriggja mánaða eða eldri. Það er alvarlegt, þegar 2,5% af heildarskuldum íslenzkra fjölskyldna eru í vanskilum. Það er alvarlegt, þegar íslenzkar fjölskyldur skulda samtals 276 milljarða króna.

Raunar eru þessar tölur skýrslunnar úreltar, því að þær eru frá árslokum 1994. Á þeim tveimur árum, sem síðan eru liðin, hafa skuldir íslenzkra fjölskyldna aukizt úr 276 milljörðum í 350 milljarða eða um rúmlega fjórðung. Skuldastaðan hefur því versnað að mun.

Yfirleitt eru þetta nýlegar skuldir, um 267 milljarðar eða 80% frá tímabilinu 1990-1996. Það sýnir, að vandinn er tiltöluleg nýr. Hann hefur fylgt séríslenzku efnahagsástandi, sem stundum hefur verið kölluð kreppa og hefur meðal annars lýst sér í auknu atvinnuleysi.

Fegrun félagsmálaráðherra á skuldastöðu heimilanna stafar af, að honum finnst ríkisstjórnin sem eins konar stóribróðir bera ábyrgð á fjármálastefnu heimilanna. Það er ranghugsun, því að þjóðin fullorðnast ekki, ef hún fær ekki að taka fjárhagslega ábyrgð á gerðum sínum.

Fólk lendir að vísu ekki í vanskilum af ásettu ráði. Það missir atvinnu eða aukavinnu vegna samdráttar í efnahagslífinu. Það á erfiðara með að selja eignir og fá fyrra markaðsverð fyrir þær, af því að samdrátturinn hefur framkallað nýtt og lægra markaðsverð.

Þegar slíkar sveiflur verða í atvinnulífinu, reynist fólk eiga erfitt með að fóta sig. Það hefur áður tekið djarfar fjármálaákvarðanir, sem byggjast á, að óbreytt efnahagsástand verði um ókominn aldur. Þegar forsendurnar bregðast, reynast fjárhagsdæmin stundum of tæp.

Stjórnvöld geta ekki tekið ábyrgð á ákvörðunum heimilanna eða á almennt hóflítilli bjartsýni Íslendinga. Þau geta hins vegar sett á fót ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, komið upp léttara kerfi nauðarsamninga og dregið úr ábyrgð manna á skuldbindingum annarra.

Þetta hafa stjórnvöld raunar sumpart þegar gert og eru sumpart að gera. Þau hafa einnig reynt að stuðla að vinnufriði, sem heldur verðbólgu í skefjum og eykur kaupmátt almennings. Slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að efla atvinnu og auka öryggi í fjármálum heimilanna.

Stjórnvöld hafa hins vegar haldið lífskjörum niðri með því að hlíta ekki ráðum í málum sjávarútvegs og landbúnaðar. Þau halda uppi of miklum landbúnaði, sem er of dýr í rekstri. Og þau hafa látið undir höfuð leggjast að taka upp útboð á leigu veiðiheimilda á fiski.

Þannig geta stjórnvöld með aðgerðum eða aðgerðaleysi haft áhrif á ýmsar grundvallarstærðir í efnahagsmálum, sem síðan hafa óbein áhrif á getu fólks til að standa við skuldbindingar. Stjórnvöld geta hins vegar ekki tekið ábyrgð á endanlegum ákvörðunum fólks.

Skýrslan um skuldir heimilanna sýnir fyrst og fremst, að þjóðin stendur ekki jafnfætis öðrum vestrænum þjóðum í raunsæju mati á breytilegu gengi verðmæta.

Jónas Kristjánsson

DV

Skólarnir geta betur

Greinar

Samkvæmt fjölþjóðlegri rannsókn skiptir ekki máli, hversu miklu fé er varið til skólamála, hversu mikið námsgreinar eru kenndar og hversu margir nemendur eru á hvern kennara. Námsárangur fer ekki eftir þessum þáttum, heldur eftir kennsluaðferðum í skólastofum.

Rannsóknin náði til árangurs 13 ára nemenda í stærðfræði og raunvísindum í skólum 41 lands. Hún hefur erlendis leitt til umræðu um skólamál á almennum vettvangi, en minna meðal kennara og skólamanna, sem halda fram, að ófrjór sé samanburður af þessu tagi.

Haft er fyrir satt, að náið samhengi sé milli menntunar þjóða og efnahagslegs árangurs þeirra. Bent er á, að lönd í Austur-Asíu, svo sem Japan og Suður-Kórea, er hafa lagt mikla áherzlu á menntun, hafi nálgazt Vesturlönd að efnahagsafli og sumpart farið fram úr þeim.

Sumir vilja leita skýringanna í mismunandi lífsviðhorfi þjóða. Í Austur-Asíu sé fólk að reyna að komast áfram í lífinu og noti menntunartækifærin í því skyni. Á Vesturlöndum sé fólk hins vegar fremur í skóla af eins konar tilgangsleysi og dreifi tímanum út og suður.

Þessi skýring er ófullnægjandi, því að ýmis Evrópulönd náðu góðum árangri í samanburðinum. Þar á meðal voru lönd á borð við Holland, Sviss og Tékkland. Hins vegar voru engilsaxnesku löndin og Norðurlönd í hópnum, sem dró Vesturlönd niður í samanburðinum.

Við þurfum því ekki aðeins að átta okkur á, hvers vegna Japönum og Suður-Kóreumönnum gekk vel í samanburðinum. Við þurfum líka að átta okkur, hvers vegna Hollendingum, Svisslendingum og Tékkum gekk mun betur en Bretum, Bandaríkjamönnum. Og Íslendingum.

Þegar þjóðum í sama menningarheimi gengur misjafnlega vel á prófum og þegar skýringarnar finnast ekki í misjöfnu fjármagni, misjöfnum námstíma og misjöfnum nemendafjölda á kennara, er eðlilegast að leita þeirra í mismunandi kennsluaðferðum í skólastofunum.

Brýnt er, að kennarar og skólamenn láti af andúð sinni á samanburði af þessu tagi og reyni heldur að leita svara við spurningunni um, hvort kennsluaðferðir á Íslandi séu lakari en til dæmis í Hollandi, Sviss og Tékklandi. Við höfum ekki ráð á að halda höfðinu í sandinum.

Stærðfræði og raunvísindi hjá 13 ára börnum segja ekki alla söguna um árangur skólakerfa mismunandi landa. Gera þarf meira af slíkum rannsóknum og láta þær ná til fleiri greina og fleiri aldursflokka. Ennfremur þarf að auka hliðstæðan samanburð innanlands.

Nú er byrjað að birta opinberlega samanburð árangurs í samræmdum prófum í einstökum skólum og skólaumdæmum hér á landi. Kennarar og skólamenn hafa tekið þessum samanburði fálega eins og samanburðinum milli landa. Þeir vilja ekki láta raska ró sinni.

Við megum ekki láta fálæti þessara málsaðila trufla okkur í enn frekari samanburði og enn skarpari leit að kennsluaðferðum, sem ná árangri. Við þurfum að virkja betur orsakasamhengið milli menntunar og þjóðarhags og við þurfum að nýta betur skólafjármagnið.

Þeir tímar eru liðnir, að skólakerfið geti vikizt undan samanburði og lokað sig af í fílabeinsturni. Við lifum í lýðræðislegu markaðsþjóðfélagi, þar sem allir verða að sæta því að vera vegnir og metnir eftir árangri. Öllum er í hag, að teknar verði upp betri kennsluaðferðir.

Með því er ekki verið að efna til aukinnar streitu í skólastarfi, heldur verið að læra aðferðir, sem ná betri árangri með sama fé, sama tíma og sömu fyrirhöfn.

Jónas Kristjánsson

DV

Hyggjuvitið skerpt

Greinar

Nýjasta sjónhverfingin í afsláttaleikjum neytenda eru svokölluð fríkort, sem eiga að gera stórfjölskyldu kleift að senda einn fulltrúa sinn til útlanda á nokkurra ára fresti, ef hún er feiknarlega iðin við að skipta við nokkur þekkt fyrirtæki, sem hafa ágætar vörur á boðstólum.

Í smáa letrinu stendur að vísu, að punktarnir falli úr gildi að fjórum árum liðnum, ef ekki hefur tekizt að nýta þá í tæka tíð. Ennfremur segir þar, að útgefendum kortsins sé þar fyrir utan hvenær sem er heimilt að hætta leiknum og fella úr gildi alla uppsafnaða punkta.

Reiknimeistarar deila um, hversu miklu stórfjölskyldan þurfi að troða í sig af mat, hvað hún þurfi að aka marga hringi umhverfis landið og hvað hún þurfi að kaupa margar frystikistur á ári til að lyfta punktafjöldanum upp í farseðil fyrir einn á tilskildum tíma.

Niðurstöðurnar eru auðvitað jafnmargar reiknimeisturunum. Flestar eiga þær þó það sameiginlegt að sýna fram á ævintýralega fyrirhöfn stórfjölskyldna við tiltölulega vonlitla baráttu um að komast yfir einn farseðil til útlanda. Láglaunafólk þarf ekki að reyna þetta.

Í matvörunni felur tilboð kortsins í rauninni ekki annað í sér en daufa von um 0,5% afslátt. Hann er auðvitað ekkert annað en skítur á priki í samanburði við þann afslátt, sem fólk getur aflað sér frá degi til dags með því að nýta sér frelsi í viðskiptum við ýmsa kaupmenn.

Með því að festa sig í viðskiptum við eitt fyrirtæki í hverri grein eru neytendur að fórna meiri hagsmunum sínum og áþreifanlegum hagsmunum sínum fyrir minni hagsmuni sína og óáþreifanlega. Í stað þess að verzla, þar sem bezt býðst, eru þeir bundnir einum aðila.

Allt eru þetta atriði, sem hver neytandi fyrir sig getur séð af hyggjuviti sínu. Hitt er athyglisverðara, hvernig forstöðumönnum valinkunnra fyrirtækja dettur í hug, að almenningur falli fyrir sjónhverfingum af þessu tagi. Getur kannski verið, að þeir hafi rétt fyrir sér?

Tilboðið gerir ráð fyrir, að Íslendingar séu svo sjúkir í tilboð og afslætti, að þeir rjúki upp til handa og fóta af minnsta tilefni. Að baki hlýtur að liggja einhver athugun og eitthvert mat á viðbrögðum neytenda við sjónhverfingum. Eru þeir kannski taldir vera án hyggjuvits?

Mikil umræða var í fjölmiðlum undir lok vikunnar um fríkortin. Fólk hefur átt kost á að kynna sér þessa umræðu og lesa auglýsingar fyrirtækjanna, þar sem þau verja málstað sinn með útreikningum. Reynslan mun svo skera úr um, hvort aðferðin heppnast eða ekki.

Eðlilegt er og ágætt, að fyrirtæki þreifi fyrir sér með afslætti og tilboð af ýmsu tagi. Það er eðli markaðshagkerfisins og leiðir yfirleitt til lækkunar á útjöldum þeirra, sem hafa fyrir því að kynna sér málin og greina milli innihalds og ímyndana í afsláttum og tilboðum.

Við erum tiltölulega nýlega sloppin úr viðjum sovézks verðlagskerfis og þurfum tíma til að átta okkur á markaðshagkerfinu. Albaníumenn fóru mjög snöggt milli kerfa og kunnu sér ekki læti, með þeim afleiðingum, sem við höfum séð í fréttum. Okkar leið er mun mildari.

Ástæða er til að vona, að smám saman læri fólk á hagkerfið og fari að haga viðskiptum sínum í samræmi við það. Ýmislegt er í boði af góðum tilboðum og afsláttum, sem margir eru þegar farnir að nota sér á skipulegan hátt til að bæta sér upp létta pyngju.

Það dregur síður en svo úr gildi kerfisins, þótt misjafnt hlutfall sé milli innihalds og ímyndar í tilboðum markaðarins. Slíkt á bara að skerpa hyggjuvit neytenda.

Jónas Kristjánsson

DV