Greinar

Vandinn er bara verkefni

Greinar

Forusta Dagsbrúnar kveikti elda, sem hún réð ekki við. Hún magnaði væntingar félagsmanna í þeim tilgangi að sýna viðsemjendum sínum sterkt bakland í kjaraviðræðunum. Það endaði svo með því, að forustan gat ekki selt félagsmönnum niðurstöðu kjaraviðræðnanna.

Rauðu strikin fengust ekki í samninginn, sem var undirritaður um miðjan þriðjudag og síðan felldur um kvöldið. Í stað þeirra var gert óljóst samkomulag um að fylgjast með aukningu kaupmáttar hér á landi og bera saman við aukningu hans í viðskiptalöndum okkar.

Ákveðið var, að fulltrúar heildarsamtaka vinnumarkaðarins skyldu meta þróunina og gera tillögur um viðbrögð, ef kaupmáttur vex hægar á samningstímanum en í viðskiptalöndunum. Óljóst er, hvernig heildarsamtökin muni síðan geta komið sér saman um viðbrögð.

Þetta atriði stóð þó ekki mest í þeim, sem felldu samninginn, heldur lágmarkslaunin. Fundarmenn voru ósáttir við, að ekki náðust 70.000 króna lágmarkslaun. Krafan um þau reyndist eiga sér dýpri rætur í hugum fólks en samningamenn Dagsbrúnar höfðu reiknað með.

Atburðarás af þessu tagi veldur auðvitað vandræðum í þjóðfélaginu. Átök harðna oft, þegar slitnar upp úr samningum og verkfallstjónið margfaldast á stuttum tíma. Núna bætist við öryggisleysið, sem felst í, að annar aðilinn lítur út fyrir að vera nánast umboðslaus.

Erfitt hlýtur að vera að reyna að semja við fulltrúa, sem ekki hafa á hreinu, hvað umbjóðendur þeirra telja þolanlega niðurstöðu, hvað þá við fulltrúa, sem hafa enga hugmynd um stöðu baklandsins. Slíkt ástand setur hefðbundinn feril kjarasamninga í uppnám.

Það reynir á menn, þegar svona ástand skapast. Samt þarf ekki að líta á það sem náttúrulögmál, að allt fari í bál og brand. Menn geta, ef þeir bara vilja, setzt aftur niður og fundið, hvar hnífurinn stendur í kúnni. Það á að vera hægt að ná nýju samkomulagi í skyndingu.

Fyrstu ummæli formanns Dagsbrúnar eftir ósigur hans í atkvæðagreiðslunni heima í héraði lofuðu ekki góðu. Hann spáði löngu verkfalli, að minnsta kosti fram yfir páska. Hann talaði þá eins og ábyrgðarlaus áhorfandi, en ekki eins og ábyrgur samningastjóri.

Ef formaðurinn heldur þannig áfram að leika hlutverk hins veika, sem skilur ekki upp né niður í neinu, talar á hverjum stað eins og hver vill heyra og lætur koma sér í opna skjöldu, mun hann leiða til mikils tjóns fyrir alla málsaðila og mest fyrir félagsmenn Dagsbrúnar.

Slíkt hefði aldrei komið fyrir Guðmund J. Guðmundsson. Hann tefldi sínar skákir af öryggi og þekkti alltaf undankomuleiðir. Viðsemjendur hans vissu, að hann hafði raunverulegt umboð. Hann leiddi yfirleitt mál til lykta án þess að láta almenna félagsmenn færa fórnir.

Til þess er reynslan að læra af henni. Málsaðilar í kjaradeilunum eiga að geta áttað sig á stöðunni og fundið á henni þolanlega lausn, án þess að láta málið gerjast fram í apríl. Þeir verða bara að líta á vandann eins og hvert annað verkefni, sem verði að leysa.
br>Enginn efast um, að lítið ber á milli. Allar viðræður munu hér eftir sem hingað til snúast um tilbrigði við þann kjarasamning, sem Landssamband iðnverkafólks hefur gert. Ef viðræðurnar dragast enn á langinn, er það fyrst og fremst yfirlýsing um getuleysi málsaðila.

Kominn er tími til að ná áttum og veita þjóðinni vinnufrið. Ekkert er erfiðara að gera það nú þegar heldur en að gera það eftir nokkra daga eða nokkrar vikur.

Jónas Kristjánsson

DV

Tilfærsla á fáokun

Greinar

Samkvæmt erlendri hagfræði er áreiðanlega gott að koma á samkeppni um varðveizlu og ávöxtun lífeyris landsmanna, svo að menn séu ekki skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð stéttarinnar, ef hann hefur reynzt halda lakar á peningunum en hæfustu samkeppnisaðilarnir.

Samkvæmt erlendri hagfræði leiðir samkeppni af slíku tagi eins og önnur samkeppni til þess, að stærri hluti af lífeyrissparnaði þjóðarinnar renni til arðbærari þarfa. Þannig ætti lífeyrir hvers og eins að aukast meira en ella og þjóðarhagur ætti að eflast meira en ella.

Hins vegar verður að setja fyrirvara um samkeppni og markaðslögmál á Íslandi. Vegna smæðar markaðarins og valdamikilla hagsmuna hefur mótast fáokunarkerfi stórfyrirtækja, sem ekki skilar fólki lækkun verðs á vöru og þjónustu að hætti samkeppnishagfræðinnar.

Dæmi um sérstöðu Íslands er bankakerfið, sem er rúmlega tvöfalt dýrara en danska bankakerfið. Rekstrarkostnaður og afskriftir eru 5,1% af efnahagsreikningi íslenzkra banka, en 2,4% af efnahagsreikningi danskra banka. Munurinn stafar af íslenzkri fáokun.

Nú hefur verst rekni bankinn keypt helming í tryggingafélagi til að tryggja stöðu sína í nýju mynztri fjármálafyrirtækja, þar sem bankar, tryggingafélög, verðbréfasjóðir og aðrir ávöxtunarsjóðir reyna að sameinast á ýmsa vegu til að búa til fáokun handa sér.

Á Íslandi keppa valdastofnanir hagkerfisins nefnilega ekki um markaðinn. Menn reyna fremur að sameinast um hann með því að kaupa hlutabréf hver í öðrum eða skiptast á hlutabréfum. Markmiðið er að fækka rekstrareiningum í hverjum geira án aðstoðar samkeppni.

Þess vegna er öldungis óvíst, að aukið frelsi í ráðstöfun lífeyris muni fylgja erlendum hagfræðikenningum. Líklegra er, að það færi frekar völd frá einni tegund fáokunarfyrirtækja til annarrar tegundar fáokunarfyrirtækja, frá lífeyrissjóðum til fjármálafyrirtækja.

Fyrirhugað frumvarp ríkisstjórnarinnar um lífeyrissjóði gengur ekki langt. Samkvæmt því áttu núverandi 4% launþegans og 6% launagreiðandans upp að ákveðinni krónutölu að renna í núverandi lífeyrissjóði, en meira frelsi að ríkja um ráðstöfun þess, sem umfram er.

Eftir að upp komst um tilvist frumvarpsins hefur forsætisráðherra lofað stéttarfélögunum því, að þau 10%, sem nú renni til lífeyrissjóða, verði ekki skert. Hins vegar er enn haldið opnu, að nýjar fjárhæðir, sem séu umfram þessi 10%, megi ávaxta á frjálsum markaði.

Andstaða stéttarfélaga og raunar einnig samtaka vinnuveitenda byggist ekki á því, að verið sé að skerða hagsmuni launþega með frumvarpinu, þótt því sé haldið fram. Það er verið að þrengja að hagsmunum stjórnarmanna í þessum sjóðum, þar á meðal verkalýðsrekenda.

Fulltrúum stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda líður vel í stjórnum lífeyrissjóða. Þeir óttast breytingar, sem geta aukið samkeppni við þá og flutt hluta af sparnaði fólks til annarra stofnana, þar sem aðrir sitja í stjórnum. Þetta er orsök andstöðunnar við frumvarpið.

Þessi staðreynd mælir með frumvarpinu. Hún bendir ein út af fyrir sig til þess, að ávöxtun af sparnaði muni aukast með auknu frelsi. En á móti kemur svo, að nýju ávöxtunaraðilarnir kunna að renna saman í fáokunarsæng að hætti Landsbankans og Vátryggingafélagsins.

Vegna sérstakra aðstæðna, sem látnar eru viðgangast á Íslandi, er ekki unnt að sjá, hvort fyrirhugað frumvarp um lífeyrissjóði verði til góðs eða ills eða einskis.

Jónas Kristjánsson

DV

Fáokunin magnast hraðar

Greinar

Stærsti fáokunarbankinn hefur keypt helminginn í stærsta fáokunar-tryggingafélaginu. Stórt skref hefur verið stigið í átt til sameiningar helztu fáokunarfyrirtækjanna, er Landsbankinn hefur keypt eignarhelming Brunabótafélags Íslands í Vátryggingafélagi Íslands.

Kostnaður þjóðarinnar af fáokun á þessum sviðum hefur verið mikill. Það sést meðal annars af miklum vaxtamun innlána og útlána, sem stafar af stjarnfræðilegum afskriftum heimskulegra útlána. Landsbankinn einn tapaði þannig nærri tveimur milljörðum á ári.

Kostnaðurinn af fáokun í tryggingum sést meðal annars af því, að iðgjöld bílatrygginga hrundu um meira en fjórðung, þegar erlent tryggingafélag brauzt inn á fáokunarmarkaðinn, þar sem tryggingafélögin höfðu safnað digrum sjóðum á kostnað viðskiptamanna sinna.

Nú verður fáokunin enn harðari og samkeppni milli fyrirtækja enn vægari, svo að hlutur viðskiptamanna verður lakari en áður. Það er einmitt stóri kosturinn, sem ríkið, kolkrabbinn og smokkfiskurinn sjá í auknu samstarfi og eignatengslum helztu fáokunarfyrirtækjanna.

Slíkar breytingar má sjá á mörgum sviðum. Flugleiðir hafa verið að éta keppinauta í innanlandsflugi, ferðaskrifstofurekstri, bílaleigu, rútuútgerð og hótelrekstri. Yfirlýst markmið þeirra er að verða almennt og yfirgripsmikið fyrirtæki í ferðalaga- og fólksflutningageiranum.

Eimskipafélagið hefur byggt upp víðtækt net vöruflutninga á landi og losnað við samkeppni Samskipa í Ameríkusiglingum. Markmið félagsins er að verða allsráðandi í vöruflutningum á landi og sjó, innan lands og milli landa. Samskip verða étin við gott tækifæri.

Breytingar í sandkassa stórfyrirtækja hafa hnigið í þá átt, að eitt risafyrirtæki verði í hverjum geira, eitt í vöruflutningum, annað í fólksflutningum, eitt í tryggingum, annað í fjármálaþjónustu og svo framvegis. Þessa ferils gætir víða í kaupsýslu landsins, en mishratt.

Með kaupum banka á helmingi tryggingafélags er samruninn að aukast milli geira. Verið er að leggja grunn að fjármálatrölli, sem sjái um bankaviðskipti, fjárfestingar og tryggingar fólks. Raunar var slíkt eignarhald Eimskips í Flugleiðum þegar komið í samgöngugeirunum.

Breytingin verður hraðari, ef ríkisstjórninni tekst sú ætlun sín að koma hluta af lífeyrissparnaði undan lífeyrissjóðunum og í hendur fjármálafyrirtækja. Frumvarp um það efni liggur tilbúið og bíður eftir að linni þeim hvelli, sem varð í kjaraviðræðum um helgina.

Raunar hefur ríkisvaldið um margra ára skeið stuðlað að breytingunni, meðal annars með tilraunum til sameiningar ríkisbanka og nú með útþenslu Landsbankans. Einkavinavæðing ríkisfyrirtækja hefur verið önnur aðferð ríkisins við að koma verðmætum í arma kolkrabbans.

Öll er þessi breyting úr samkeppni í átt til fáokunar, með einokun að markmiði, eðlileg tilraun til að bæta stöðu fyrirtækja. Um leið er hún hörmuleg fyrir almenning, sem verður að borga brúsann af hærra verði á vöru og þjónustu fáokunar- og einokunarfyrirtækja.

Eina vörn almennings gegn þessu innlenda skrímsli er að freista erlendra fyrirtækja til að hefja samkeppni við hina innlendu kúgara. Það hefur Félag íslenzkra bifreiðaeigenda reynt að gera með því að semja við eitt af Lloyd’s félögunum um bílatryggingar félagsmanna.

Sterk bein þarf til að standa undir óbeit kolkrabbans. Óvíst er, að þau dugi í bílatryggingum eða finnist á öðrum sviðum, svo sem í fjármálaviðskiptum almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Leyndarhjúpur yfir einokun

Greinar

Póstur & sími er sama einokunarstofnunin og hún var, áður en henni var breytt í hlutafélag. Einkavæðingin á þeim bæ felst eingöngu í að bæta kjör helztu yfirmanna stofnunarinnar svo langt út af kortinu, að þau eru orðin að viðkvæmasta ríkisleyndarmáli landsins.

Póstur & sími mun haga sér hér eftir sem hingað til. Stofnunin mun rukka fyrir afnotagjald af síma, sem enn hefur ekki verið settur upp. Hún mun tregðast við að draga úr rofum og stytta rof á internetsambandi milli landa. Hún getur áfram hagað sér sem henni þóknast.

Stofnunin mun áfram nota einokunaraðstöðu sína til að stunda óheiðarlega samkeppni. Hún mun áfram loka símanum hjá þeim, sem skulda henni internetþjónustu, á sama tíma og aðrir aðilar, sem bjóða internetþjónustu, verða að rukka fyrir þjónustuna á venjulegan hátt.

Breytt eignarhaldsform á Pósti & sími er þáttur í hinu íslenzk-rússneska afbrigði einkavæðingar, sem almennt er kölluð einkavinavæðing hér á landi. Hún felst í að afhenda völdum aðilum einokunaraðstöðu og misnotkunaraðstöðu, sem áður var á vegum ríkisins.

Dæmi um íslenzka einkavinavæðingu eru Bifreiðaeftirlit ríkisins, Síldarverksmiðjur ríkisins og Lyfjaverzlun ríkisins, allt stofnanir, sem afhentar voru völdum einkaaðilum á undirverði. Það sama verður reynt að gera við hlutafélögin um Póst & síma og ríkisbankana.

Einkavinavæðing getur falizt í að gefa forstjórum stofnanir, svo sem algengast hefur verið í Rússlandi. Hún getur falizt í að takmarka aðgang að útboði með margvíslegum hætti eða binda hann við innlenda aðila. Hún getur falizt í að taka ekki lægsta tilboði í hlutafé.

Einkavinavæðingin fellur mjög vel að hagkerfi kolkrabbans. Það felst í, að atvinnurekstur er á hverju sviði í höndum eins, tveggja eða þriggja fyrirtækja, sem hafa samráð sín í milli um að haga málum á þann veg, að samkeppni verði ekki til að raska ró forstjóranna.

Þannig eru tvö og hálft félag í olíuverzlun. Þannig eru tvö félög í tryggingum. Þannig er eitt og hálft félag í kaupskipaútgerð. Þannig er eitt og hálft félag í flugi. Allt eru þetta fyrirtæki, sem byggja afkomu sína á skorti á samkeppni, rétt eins og einkavæddu ríkisfyrirtækin.

Langvinn fáokun gerir fyrirtækjum af þessu tagi kleift að safna digrum sjóðum, sem nota má, þegar einokunarfyrirtæki ríkisins eru seld. Þannig myndast hringur samtengdra fyrirtækja og einstaklinga, sem lifa fremur á aðstöðu sinni en á frjálsri markaðssamkeppni.

Íslenzka kolkrabbakerfið kemur í veg fyrir, að við höfum sama gagn af markaðshagkerfinu og aðrar vestrænar þjóðir, þar sem samkeppni fyrirtækja er mun harðari og ríkir á mun víðtækari sviðum en hér á landi. Alþjóðleg markaðslögmál gilda því ekki hér á landi.

Að grunni byggist sérstaðan á því, hvað menn láta bjóða sér á hverjum stað. Íslendingar láta valta yfir sig möglunarlítið og halda tryggð við ofsækjendur sína. Íslendingar mótmæla því ekki, þegar einkavinavæðing er stunduð undir fögru yfirskini einkavæðingar.

Þess vegna kemst samgönguráðherra upp með að bregða leyndarhjúp yfir kjör helztu forstjóra Pósts & síma, rétt eins og helztu stjórnmálaflokkarnir komast upp með að bregða leyndarhjúp yfir, hvernig hagsmunaaðilar fjármagna stjórnmálaflokka í ágóðaskyni.

Einkavinavæðing byggist eins og önnur séríslenzk spilling á því, að íslenzkir kjósendur hafa þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfir.

Jónas Kristjánsson

DV

Rauðu strikin vantar

Greinar

Ríkisstjórnin mun áreiðanlega reyna að hindra fyrirhugaða kaupmáttaraukningu nýgerðra kjarasamninga. Það stafar ekki af sérstakri vonzku hennar. Ríkisstjórnir hafa yfirleitt tilhneigingu til að reyna að draga úr stærðum, sem trufla þægilegt gangverk þjóðarbúsins.

Auðveldara verður fyrir ríkisstjórnina að halda verðbólgu í um það bil 2% eða lægri tölu, ef kaupmáttur almennings eykst ekki á næstu árum. Meiri líkur eru á, að viðskiptajöfnuður gagnvart útlöndum haldist í böndum, ef kaupmáttur almennings eykst ekki á næstu árum.

Aukning kaupmáttar um 8-10% á þremur árum verður fyrirferðarmikil staðreynd í breytingum á öðrum stærðum þjóðhagsreikninga á sama tíma. Þess vegna mun ríkisstjórnin að óbreyttu reyna að haga málum á þann veg, að kaupmátturinn aukist ekki svona mikið.

Vegna þessarar freistingar var óráðlegt hjá verzlunarmönnum, rafiðnaðarmönnum og iðnverkafólki að setja ekki skilyrði um þetta efni í kjarasamningana, svo sem hin hefðbundnu rauðu strik, er gefa samninga lausa að nýju, ef ytri forsendur þeirra breytast verulega.

Eðlilegt er, að stéttarfélögin, sem eiga eftir að semja, reyni að koma rauðum strikum í sína samninga. Enda er greinilega áhættusamt að semja til þriggja ára án þess að hafa neinn endurskoðunarrétt, ef valdamenn þjóðfélagsins eyða mestum hluta kjarabótarinnar.

Með rauðum strikum í samningum eru stjórnvöldum settar þröngar skorður. Þau geta síður hossað forréttindahópum, aukið stéttaskiptingu, einkavinavætt í þágu pilsfaldafyrirtækja og dregið úr opinberri þjónustu við almenning, ef þau þurfa að standa við rauð strik.

Ríkisstjórn, sem þarf í senn að forðast aðgerðir, sem rýra umsaminn kaupmátt, og forðast verðbólgu og viðskiptahalla, er í eins konar spennitreyju. Og það er einmitt góður fatnaður fyrir aðila, sem hafa reynzt búa yfir mikilli tilhneigingu til að falla fyrir freistingum.

Það er líka gott fyrir aðra aðila, sem ráða miklu í þjóðfélaginu, að haga málum á þann veg, að kjarasamningar verði ekki lausir fyrir tímann. Lausir kjarasamningar valda alltaf óvissu, sem leitar útrásar á óhagstæðan hátt, svo sem í hærri vöxtum en ella þyrftu að vera.

Ef almennt verður samið til þriggja ára og fyrirsjáanlegur er vinnufriður í þrjú ár, munu vextir lækka og auðvelda atvinnulífinu að taka á sig kostnað kjarasamninganna án þess að hækka verð og valda verðbólgu. Það er því mikið í húfi fyrir marga aðila.

Rauðu strikin eru langsamlega mikilvægustu atriðin, sem ekki komust inn í fyrstu kjarasamningana. Öll önnur atriði, sem ekki komust inn, blikna í samanburði við þau. Þau eru forsenda þess, að ríkisstjórnin létti ekki af sér efnahagsþrýsingi með því að spilla kaupmætti.

Rauð strik þurfa ekki að vera í öllum kjarasamningum til þess að ná tilgangi sínum. Þau má vanta í samninga verzlunarmanna, rafiðnaðarmanna og iðnverkafólks, ef þau eru í nógu mörgum samningum til þess, að ríkisstjórnin vilji varðveita vinnufriðinn í landinu.

Einkennilegt er, að lífsreynt fólk, sem hefur árum og áratugum saman unnið að kjarasamningum og þekkir algengustu freistingar stjórnvalda, skuli ekki leggja meiri áherzlu á rauð strik, sem hingað til hafa þó stuðlað að því að halda stjórnvöldum við vinnuna sína.

Þeir, sem enn eiga eftir að semja, ættu að láta öll önnur atriði og óskhyggju víkja fyrir því einu, að rauð strik tryggi kaupmáttaraukann sem verið er að semja um.

Jónas Kristjánsson

DV

Tónninn er sleginn

Greinar

Ef nýgerðir kjarasamningar flæða meira eða minna um allt þjóðfélagið, hefur almenningur loksins fengið að taka þátt í góðærinu. Með samningunum er búið að bylta lægstu launum í þjóðfélaginu og efna til umtalsverðrar aukningar á almennum kaupmætti á næstu árum.

Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti ákveðið að liðka fyrir samningum, einkum með því að lækka álagningarprósentu tekjuskatts á samningstímanum úr tæplega 42% í tæplega 38%, hækka skattleysismörk almennings og hækka álag á raunverulegar hátekjur úr 5% í 7%.

Ríkissjóður mun fá sumt af tekjuskattslækkuninni til baka í formi virðisaukaskatts af aukinni útgjaldagetu almennings. Það, sem á vantar til að halda hallalausum rekstri ríkisbúskaparins, verða stjórnvöld að spara með því að draga saman seglin á ýmsum sviðum.

Mikilvægast af öllu þessu er, að samningarnir og stjórnvaldsaðgerðirnar eiga ekki að þurfa að leiða til verðbólgu. Vinnuveitendur og ríkisstjórn hafa raunar með undirskriftum og yfirlýsingum tekið ábyrgð á því, að festa haldizt áfram í þjóðfélaginu næstu árin.

Erfiðasti þátturinn verður vafalaust viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Með aukinni kaupgetu almennings má búast við, að ásókn aukist í innfluttar vörur og þjónustu. Við þessu verður að bregðast, einkum með auknum útflutningi á vörum og þjónustu.

Ferlið hefur verið markað í kjarasamningunum. Tvö stéttarsambönd og eitt stórt félag hafa samið til þriggja ára um miklar hækkanir lágmarkslauna og 12-14% almenna kauphækkun í þremur áföngum, sem á að fela í sér 8-10% aukningu kaupmáttar á samningstímanum.

Verzlunarmannafélag Reykjavíkur braut ísinn með tímamótasamningi við Félag íslenzkra stórkaupmanna. Nú hefur það samið við Vinnuveitendasambandið á sömu nótum. Og í hópinn hafa bætzt Rafiðnaðarsambandið og Landssamband iðnverkafólks, fjölmenn samtök.

Þótt forustumenn ýmissa annarra stéttarfélaga segist vera ósáttir við þessa samninga, er ljóst, að tónninn hefur verið sleginn og aðrir munu fylgja á eftir. Dagsbrún í Reykjavík og nokkur félög í Verkamannasambandinu munu verða tregust, en eiga fárra kosta völ.

Búast má við, að áhugi Dagsbrúnarmanna á langvinnum verkföllum minnki, þegar þeir átta sig á, hversu lítils virði það er, sem forustumenn þeirra leggja mesta áherzlu á, í samanburði við það, sem þegar hefur náðst. Helzt eru það rauðu kaupmáttarstrikin, sem enn vantar.

Kjarasamningarnir og stjórnaryfirlýsingin fela í sér svo einföld og auðskilin atriði, að erfitt verður að halda löngum dampi á verkföllum út á andstöðu við aukið svigrúm á dagvinnutíma og önnur hliðstæð atriði, sem blikna í samanburði við sjálfan kaupmáttinn.

Þjóðfélagið verður mun réttlátara, þegar lágmarkslaun lyftast upp í 65.000-70.000 krónur hjá hinum allra lægst launuðu og lágmarkslaun sumra stétta lyftast alla leið í 95.000-100.000 krónur. Þessi mikla lyfting lægstu launa er siðferðilegur hornsteinn nýju kjarasamninganna.

Sumir forustumenn í Alþýðusambandinu eru dálítið móðgaðir út af því, að einstök stéttarfélög og eitt landssamband hafa tekið frumkvæðið úr höndum þeirra. Samt er við því að búast, að þeir sjái ljósið og fylgi í humátt á eftir því. Flestum samningum mun því ljúka fljótt.

Niðurstaðan er ekki sjónhverfing, þar sem allir eru fyrst og fremst að gabba sjálfa sig. Málsaðilar hafa leyst hnútinn að þessu sinni. Það er minnisstætt afrek.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðja heims strand

Greinar

Dögum saman fréttist ekkert af sjónarmiðum viðkomandi stjórnvalda á strandi Vikartinds við Þjórsárósa og eftirmálum þess. Ekkert var til dæmis vitað um, hvort þau teldu nógu hratt staðið að hreinsun mengunarefna, né sýndu þau neitt framtak sjálf á slíkum sviðum.

Eftir því sem dagarnir liðu, bárust fréttir af erlendum sérfræðingum, sem hingað voru komnir til að meta stöðuna. Síðan var upplýst, að tryggingafélög ætluðu að bjóða út björgunina. Ennfremur, að seigfljótandi svartolía væri í farminum og sennilega blásýruduft einnig.

Ekkert fréttist af svefni margfrægrar Hollustuverndar ríkisins fyrr en mörgum dögum eftir slys. Þá sagði talsmaður mengunarvarna stofnunarinnar, að hún vildi einmitt, að varlega yrði farið í sakirnar í máli þessu. Þá þegar var brestur kominn í skipsskrokkinn.

Meðhöndlun málsins er hin sama og við svipaðar aðstæður í þriðja heiminum. Stjórnvöld á staðnum klóra sér í höfðinu, en sérfræðingar frá vesturveldunum koma á staðinn, þegar þeir mega vera að, og láta bjóða út björgunaraðgerðir til að finna, hver býður lægst verð.

Ekkert er vitað um, hvort hagsmuna viðkomandi ríkis og borgara þess er gætt á fullnægjandi hátt með þessum vinnubrögðum. Engin af hinum fjölmörgu innlendu ríkisstofnunum hefur nein sjáanleg afskipti af framvindu málsins, heldur horfa menn opinmynntir á útlendinga.

Það er eins og skipsströnd séu óþekkt fyrirbæri við strendur Íslands og að innlendir aðilar séu óvanir að taka til hendinni við slíkar aðstæður. Það er eins og eftirmál skipsstranda séu svo flókin, að bíða þurfi í ró og mag eftir úrskurðum og útboðum erlendra sérfræðinga.

Lögreglan á Hvolsvelli hefur haft framtak til að fylgjast með blásýrugámi, sem hún segir vera orðinn hættulega tæpan í síminnkandi gámastæðu á þilfari skipsins. Ekkert hafði í gær verið sjáanlega gert til að bregðast við þessum fróðlegu upplýsingum úr héraði.

Í gær var enn verið að sjóða stiga á síðu skipsins til að koma um borð tólum og tækjum til að reyna að dæla svartolíunni frá borði. Þá voru liðnir fimm dagar frá strandinu og ekki vitað, að viðkomandi stjórnvöld hafi reynt að fá þessum aðgerðum flýtt sem mest.

Mengunarráðherra landsins hafði loks á sunnudag tíma til að fara í túristaferð á strandstað og blaðra um málið eins og honum og embætti hans væri það meira eða minna óviðkomandi. Slík viðbrögð virðast framhald af stefnu ráðuneytisins í mengunarvörnum stóriðjuvera.

Kjarni þessa eftirleiks er, að við eigum þriðja heims stofnun, sem heitir Hollustuvernd ríkisins, sem heyrir undir þriðja heims ráðuneyti, sem heitir Umhverfisráðuneytið, sem heyrir undir þriðja heims ríki, sem heitir Ísland. Þetta eru allt saman vanhæfar stofnanir.

Af þessum ástæðum eru það erlendir aðilar á vegum erlendra tryggingafélaga, erlendra útgerðarmanna og erlendra björgunarfélaga á útboðsmarkaði, sem ákveða, hvernig og hversu hægt staðið er að málum og þá út frá hagsmunum, sem kunna að vera aðrir en okkar.

Það má hafa til marks um, að ríki hafi fullorðnazt og sé ekki lengur þriðja heims ríki, heldur aðili að Vesturlöndum, þegar það getur tekið ákvarðanir í eigin hagsmunamálum og þarf ekki lengur að horfa upp á, að útlendar stofnanir taki völdin á erfiðum stundum.

Dæmin sýna, að Ísland er sem ríki skammt á veg komið í mengunarvörnum. Við höfum áður séð það í sinnuleysi stjórnvalda vegna mengunar frá stóriðjuverum.

Jónas Kristjánsson

DV

Enn eyðist landið

Greinar

Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslan hafa að nýju tekið út jarðvegsrof á Íslandi og staðfest það, sem flestir vissu áður, að rofið er mikið á nærri helmingi landsins, að fimmtungur landsins er ekki beitarhæfur og að stjórna verður beit á þriðjungi þess.

Rannsóknirnar staðfesta, að friða ber hálendi landsins og flest afréttalönd fyrir búfé. Helzta undantekningin er norðurhluti borgfirzkra afrétta og vesturhluti húnverskra. Einkar illa farnar eru allar afréttir Sunnlendinga, Skagfirðinga, Eyfirðinga og Suður-Þingeyinga.

Rannsóknirnar staðfesta, að móbergssvæði landsins þola ekki beit. Þetta er belti, sem nær þvert yfir landið, að sunnanverðu einkum Rangárvallasýslu og að norðanverðu einkum Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta er eldfjallabeltið, þar sem berg er lint og veðrast hratt.

Þótt sauðfé hafi fækkað töluvert á síðustu árum, þarf því að fækka enn verulega, svo að fjöldinn verði í samræmi við beitarþol landsins. Sums staðar þarf ekki að fækka fé, svo sem í Borgarfirði og Húnavatnssýslum, en á sumum stöðum þarf beinlínis að hætta sauðfjárrækt.

Dæmi um óhæft sauðfjárland eru beitarlönd Mývetninga. Þar hafa bændur árum saman þverskallazt við reglum Landgræðslunnar og sigað sauðfé sínu á nálina í sandinum, sumpart í skjóli nætur til að forðast myndatökur fjölmiðla. Sauðfé við Mývatn er glæpur.

Til viðbótar við ofbeit af völdum sauðfjár er að koma til sögunnar ofbeit af völdum hrossa. Hin síðartalda er yfirleitt á öðrum stöðum, ekki á hefðbundnum afréttum, heldur í fjallshlíðum í nágrenni heimahaga. Þetta má til dæmis sjá sums staðar í Skagafirði og Eyjafirði.

Fjölgun hrossa hefur verið úrræði margra bænda, sem hafa orðið að fækka öðru búfé. Viðbótin kemur að litlu gagni við ræktun góðhrossa, en eykur fjölda sláturhrossa. Útflutningsmarkaður hrossakjöts hefur hrunið á síðustu árum, svo að þessi hross eru verðlaus.

Góðhrossin, sem seljast í vaxandi mæli og dýrum dómum til útlanda, eru afrakstur tiltölulega lítils hluta hrossastofnsins. Þetta eru hross bændanna, sem hafa sérhæft sig í hrossarækt og yfirleitt byggt ræktun sína upp á löngum tíma og safnað dýrmætri sérþekkingu.

Hrossum má fækka mikið hér á landi, án þess að það skaði neitt útflutningstekjurnar, jafnvel þótt hliðstæð sprenging verði í sölunni vestan hafs og áður hefur orðið austan hafs. Ofbeit af völdum hrossa stuðlar því ekki að auknum tekjum í landbúnaði. Hún er óþörf með öllu.

Bændasamtök Íslands berja enn höfðinu við steininn og virðast föst í ógæfulegu hlutverki þjóðaróvinar númer eitt. Enn einu sinni neita þau að fallast á niðurstöður fræðimanna, jafnvel þótt þær komi að þessu sinni frá rannsóknastofnun landbúnaðarins sjálfs.

Því miður eru næstum öll stjórnmálaöfl landsins sem strengbrúður í höndum landbúnaðarins. Þess vegna hefur áratugum saman verið reynt að hamla gegn sjálfsagðri og eðlilegri eyðingu byggða, í stað þess að byrja fyrir löngu að borga mönnum fyrir að bregða búi.

Engin ný sannindi eru á ferð í þessum efnum. Gróðurkortagerð var búin að leiða ástandið í ljós fyrir aldarfjórðungi. Í aldarfjórðung hefur rækilega verið rökstutt, meðal annars í blaðaskrifum, að markvisst þurfi að draga úr hefðbundnum landbúnaði, einkum sauðfjárrækt.

Samt eru ráðamenn bænda og þjóðar enn í dag ákveðnir í að þola framhald landeyðingar inn í næstu öld, rétt eins og hér sé þriðja heims ríki í jaðri Sahara.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfið skóp arðinn

Greinar

Samkvæmt greinum Sigurðar Líndal lagaprófessors í DV hefur Alþingi ekki tekizt sú ætlun að koma í veg fyrir, að úthlutuð veiðileyfi verði eign útgerðarfélaga. Hann telur orðalag um þetta efni í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða stangast á við stjórnarskrána.

Sigurður Líndal telur, að atvinnuréttindi á borð við rétt til nýtingar fiskistofna njóti verndar eignaréttarákvæða í stjórnarskránni, þótt atvinnuréttur feli ekki í sér fullgildan eignarétt. Þessa atvinnuréttar hafi útgerðarmenn aflað sér með nýtingu almannaréttar.

Sigurður telur ennfremur, að sjómenn hafi ekki aflað sér slíks réttar, þar sem þeir hafi tekið laun fyrir störf sín. Útgerðarmenn hafi hins vegar hætt fjármunum sínum í ótryggan rekstur á eigin ábyrgð og áhættu og séu því handhafar atvinnuréttar til fiskveiða í sjó.

Sigurður telur samt, að Alþingi geti sett atvinnurétti takmörk, sett reglur um kvótaviðskipti og skattlagt atvinnuréttinn, auk þess sem það geti afnumið kvótakerfið og gefið veiðar frjálsar. En hann spyr, með hvaða rökum eigi að skattleggja kvótaréttinn sérstaklega.

Því er til að svara, að ríkið hefur búið til atvinnuverðmæti með kvótakerfinu. Ef veiðar væru frjálsar eins og þær voru í gamla daga, hefði ofveiðin gengið miklu lengra, afli væri snöggtum minni og afkoma útgerðar hörmuleg. Þetta ástand hefur kvótakerfið hindrað.

Það er því aðgerðum ríkisvaldsins að þakka, að afkoma er bærileg í sjávarútvegi um þessar mundir. Ef ofurframtak útgerðarmanna hefði verið eitt um hituna, væru flest fyrirtæki þeirra fyrir löngu gjaldþrota. Ríkið hefur hingað til ekki sent útgerðarmönnum reikning fyrir þetta.

Ríkið getur sagzt hafa sjálft framleitt arðinn í sjávarútvegi með sértækum aðgerðum á borð við kvótakerfið og geti því skattlagt arðinn með sértæku veiðileyfagjaldi. Með því að notfæra sér ekki þessa málsaðild er ríkið óbeint að mismuna skattgreiðendum í landinu.

Alþingi getur sett lagaákvæði um, að ríkinu beri sérstakt gjald fyrir að hafa framleitt hagkvæmni í sjávarútvegi með sértækum hætti. Um leið getur Alþingi auðvitað hnykkt á þeirri skoðun þingmanna, að þjóðin eigi auðlindina og að ríkisvaldið fari með það umboð.

Alþingi getur meira að segja sett lög um, að útboð veiðileyfa komi í stað skatts. Það getur sagt, að útboð skerði ekki atvinnurétt útgerðarmanna, því að þeir megi bjóða í leyfin að vild og þannig áfram tekið áhættuna, sem löngum hefur fylgt atvinnurétti í útgerð.

Ekki mætti takmarka útboð veiðileyfa við þá, sem þegar eru í útgerð, því að þar með væru aðrir aðilar hindraðir í að afla sér atvinnuréttar á sama hátt og menn öfluðu sér atvinnuréttar fyrir tíð kvótakerfis, með því að leggja í fjárfestingar og aðra áhættu.

Ef kvótakerfi væri lagt niður og hafin útboð veiðileyfa á skilgreindu aflamagni, væri endurvakinn hinn almenni atvinnuréttur, sem áður gilti, en um leið spillt þeim rétti, sem kann að hafa myndazt í tíð kvótakerfisins. Líklegt er, að greiða þyrfti útgerðinni bætur vegna þessa.

Af öllu þessu má ráða, að eignarhald á auðlindum hafsins er ekki einfalt mál, en samt ekki flóknara en svo, að Alþingi og ríkisstjórn geta komið fram þeim meirihlutavilja þjóðarinnar, að greitt verði fyrir þau forréttindi að fá að stunda arðbæra útgerð hér við land.

Enda er svo komið, að stjórnarmenn í sumum stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins eru farnir að mæla með hóflegu afgjaldi til að mynda þjóðarsátt um málið.

Jónas Kristjánsson

DV

Hægfara stóriðjuþróun

Greinar

Stóriðja er eðlilegur þáttur atvinnulífsins. Hún rennir fleiri stoðum undir efnahag þjóðarinnar. Mönnum er hins vegar ekki sama um, hvar hún er reist og hvernig staðið er að hollustu og umhverfisvernd. Um þau atriði snúast yfirleitt íslenzkar deilur um stóriðju.

Þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar eru samþykkir álveri á Keilisnesi og tveir þriðju á Grundartanga. Munurinn sýnir, að staðsetning stóriðju hefur áhrif á stuðning fólks. Reykjanesskagi er frá sjónarmiði umhverfisverndar og að mati fólks betri kostur en Hvalfjörður.

Valið stendur að vísu ekki milli Keilisness og Grundartanga, því að stefnt er að álveri á báðum stöðum. Það vill hins vegar svo til, að samningar við Columbia um Grundartanga gengu greiðar en samningar við þríeykið, sem er að hugsa um að reisa álver á Keilisnesi.

Stóriðja hefur í rekstri ekki mikil áhrif í atvinnulífinu. Hún veitir tiltölulega fáum atvinnu og tengist lítið öðrum atvinnugreinum. Reynslan sýnir ekki, að úrvinnslugreinar myndist í kjölfar stóriðju. Hún stendur að ýmsu leyti utan íslenzks hversdagsleika.

Stóriðja í byggingu hefur hins vegar mikil skammtímaáhrif. Í senn þarf að reisa orkuver og stóriðjuver. Þessar framkvæmdir kalla tímabundið á mikinn mannskap. Við sjáum nú þegar, að stækkun álversins í Straumsvík hefur átt þátt í að lagfæra atvinnujafnvægið.

Ráðagerðir um mikla stóriðju á næstu árum ýta undir kröfur stéttarfélaga um hærri laun. Félagsmenn þeirra hafa ekki eins miklar áhyggjur af atvinnuleysi við núverandi aðstæður og þeir höfðu fyrir svo sem tveimur árum, þegar kreppan var því sem næst í hámarki.

Fyrirhugaðar framkvæmdir við stóriðju geta hæglega orðið svo miklar, að það leiði til skorts á vinnuafli og launaskriðs, sem síðan setur verðbólguna af stað aftur. Til að forðast sveiflur vinnukúfa og vinnulægða er farsælast, að hver framkvæmdin taki við af annarri.

Því mega stjórnvöld ekki halda, að sérhver hugmynd um stóriðju sé eins konar ávísun á happdrættisvinning, sem afla verði, hvað sem hann kostar. Menn verða að kunna að velja milli þess, sem ætla má, að gefi þjóðfélaginu mestan arð, og hins, sem minna gefur af sér.

Ennfremur mega stjórnvöld ekki halda, að beita megi öllum ráðum til að fá hingað stóriðju, þar á meðal slá af eðlilegum kröfum um hollustu- og umhverfisvernd. Því miður hafa þau verið í slíkum stóriðjuspreng, að þau hafa fórnað nokkru á þessum mikilvægu sviðum.

Ríkið rekur afleita stofnun, sem heitir Hollustuvernd, en ætti að heita Óhollustuvernd. Þessi óheillastofnun hefur unnið gegn hollustu- og umhverfissjónarmiðum. Það gildir bæði um undirbúning nýrrar stóriðju og eftirlit með þeirri stóriðju, sem fyrir er.

Ráðagerðir stjórnvalda um stóriðju vektu meira traust, ef þessari stofnun væri bylt og á rústum hennar reist ný stofnun, sem starfaði á eðlilegan hátt að hollustuvernd í atvinnulífinu og gæfi ekki hvað eftir annað tilefni til flimtinga í skopþáttum fjölmiðlanna.

Jöfn og þétt og ekki of hröð uppbygging stóriðju ætti að vera svo eðlilegur þáttur íslenzks efnahagslífs, að ekki ætti að þurfa stórfelldar illdeilur um sérhverja verksmiðju. Þess vegna þarf að skipta út stjórnendum Hollustuverndar og herða kröfur um mengunarvarnir.

Einnig þarf að vanda svo til staðsetningar stóriðju, að hún verði nágrönnum sínum fagnaðarefni og mannasættir, en setji ekki allt á annan enda í héraði.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvalveiðihetjur

Greinar

Almennur stuðningur þjóðarinnar við endurnýjaðar hvalveiðar stafar fyrst og fremst af þjóðernishugsjón. Menn vilja ekki, að útlendingar segi okkur fyrir verkum, allra sízt ef málstaður okkar hefur verið studdur frambærilegum rökum, sem ekki hefur verið hlustað á.

Svo trúaðir eru margir á hugsjón hvalveiða, að þeir loka augunum fyrir tæknilegum og fjárhagslegum erfiðleikum við framkvæmd málsins, meðal annars þeirri, að erfitt verður að selja afurðirnar. Japanir hafa hreinlega skuldbundið sig til að kaupa ekki slíkar afurðir.

Líklega telja menn, að unnt verði að selja íslenzkar hvalaafurðir undir borði í útlöndum, framhjá ákvörðun, sem hugsanlegar viðskiptaþjóðir hafa tekið í Alþjóða hvalveiðiráðinu. Raunin mun þó verða sú, að Japanir og aðrir verða dauðhræddir við að kaupa hvalinn.

Ástæðunnar er fyrst og fremst að leita í Bandaríkjunum, þar sem eru fjölmenn og áhrifamikil samtök af ýmsu tagi, sem beita sér gegn hvalveiðum. Þau hafa fengið Bandaríkjastjórn til að hóta öllu illu þeim ríkjum, sem taki upp á því að veiða og selja ættingja Moby Dicks.

Japanir eru viðkvæmir fyrir bandarískum þrýstingi, af því að vöruskiptajöfnuður landanna er óhagstæður Bandaríkjamönnum, sem stundum hafa uppi viðskiptahótanir til að þvinga fram betri jöfnuð. Japanir vilja ekki láta íslenzkt hvalkjöt trufla jafnvægið.

Ekki verður breytt viðhorfum Bandaríkjamanna og annarra Vesturlandabúa hvalveiðum í hag. Þvert á móti má búast við, að sjónarmiðin harðni. Þeim fjölgar stöðugt, sem taka tilfinningalega afstöðu til meðferðar mannkynsins á náttúrulegu umhverfi jarðarinnar.

Hvalveiðar eru kjörinn þrýstihnappur fyrir þetta fólk, sem hefur lesið um gegndarlausa ofveiði hvala á fyrri áratugum. Þær eru sameiningartákn andstæðinga gróðurhúsaáhrifa og mengaðs úrgangs, skógarhöggs í regnskógum og útrýmingar tígrisdýra og allra hinna.

Ekkert umhverfismál vekur eins heitar tilfinningar umhverfissinna af ýmsu tagi og einmitt hvalveiðar. Fastlega má búast við, að þúsundir manna gangi berserksgang gegn íslenzkum hagsmunum, ef fréttist af því, að hvalveiðar hafi verið teknar hér upp að nýju.

Frá skrifstofum Ferðamálaráðs í Frankfurt og New York berast afdráttarlausar áhyggjur af framvindunni. Markaðsstjóri Flugleiða segir, að fyrirtækið hafi fundið fyrir óþægindum vegna umræðunnar um hvalveiðar. Kaupendur íslenzkra fiskafurða skjálfa á beinunum.

Nýlega var hér varaforseti landssamtaka bandarískra fyrirtækja í fiskiðnaði. Hann varaði okkur eindregið við því að hefja hvalveiðar að nýju. Hann sagði ekki nokkurn vafa á, að hvalveiðar Íslendinga mundu kalla á hörð viðbrögð og jafnvel viðskiptabann í Bandaríkjunum.

Mál þetta er ekki innan ramma rökhyggju og verður ekki leyst með fleiri skýrslum og fleiri ráðstefnum. Andstæðingum hvalveiða fer einfaldlega fjölgandi í umheiminum og áhrif þeirra fara ört vaxandi. Þeir eru í aðstöðu til að valda Íslendingum miklu fjárhagstjóni.

Samt erum við enn að heimta endurvaktar hvalveiðar. Við erum svo mikil hetjuþjóð, að þorri manna er reiðubúinn að gefa dauðann og djöfulinn í þvæluna úr útlendingum og neitar að horfast í augu við hrikalegt efnahagshrun í landinu af völdum viðskiptaþvingana.

Það hæfir þó betur smáþjóð, sem á allt sitt undir góðum samskiptum við kaupendur víða um heim, að hún sigli milli skers og báru og ýfi ekki öldur tilfinninga.

Jónas Kristjánsson

DV

Stimpill fiskgæða

Greinar

Eftir árangursríka baráttu fyrir afnámi laxveiða í Norður-Atlantshafi hefur Orri Vigfússon kynnt í nokkrum löndum nýja hugmynd um gæðabandalag um fisk úr Norður-Atlantshafi. Komið verði upp vörumerki, sem ábyrgist gæði, hreinlæti og viðnám gegn ofveiði.

Hugmynd Orra er, að nokkrar þjóðir, sem búa við Norður-Atlantshaf, komi sér saman um ákveðna staðla, sem geti eflt ímynd sjávarfangs þessara þjóða og aukið verðgildi þess á markaði. Verði þetta væntanlega gert með vottunarkerfi, sem aflar sér trausts neytenda.

Orri telur til dæmis, að staðlarnir eigi að ná til gæða og hreinlætis við fiskvinnslu, svo og þess, að fiskurinn sé hvorki veiddur úr ofveiddum stofnum né með veiðarfærum, sem valda spjöllum á náttúrunni. Hann vill aðild hófsamra náttúrverndarsamtaka að gæðastöðlunum.

Hugmynd Orra er frábær. Hún tekur tillit til hræringa á neytendamarkaði. Hún er í samræmi við þróun vottunarkerfa á ýmsum sviðum. Markmiðið er að geta boðið afurðir, sem óháðir aðilar hafa staðfest, að eru framleiddar eftir reglum, er neytandinn telur mikilvægar.

Unnt er að sjá fyrir sér, að framkvæmd hugmyndarinnar muni leiða til, að vörumerki eða stimpill samstarfsaðilanna framkalli í hugum milljóna neytenda víða um heim jákvæða ímynd hreinnar og góðrar framleiðslu, sem beri af í heimi mengunar, óhollustu og sóðaskapar.

Verðgildi slíkrar ímyndar, stimpils, vörumerkis og vottunarkerfis er ómetanlegt, ef vandað er til verksins. Dæmin frá öðrum vottunarkerfum sýna, að þau leiða til hærra verðs fyrir afurðir, af því að nógu margir neytendur eru tilbúnir að borga meira fyrir vottaða vöru.

Það getur líka verið hættulegt að hafa ekki hliðsjón af breyttum kröfum neytenda víðs vegar á Vesturlöndum. Ef við höldum til dæmis áfram ofveiði á ýmsum tegundum nytjafiska, getum við fengið á okkur óorð, sem dregur úr verðgildi afurða okkar á erlendum markaði.

Endurnýjun hvalveiða getur líka haft sterk áhrif á ímynd íslenzks sjávarfangs og leitt til þess, að stórir aðilar í útlöndum þori beinlínis ekki að hafa það á boðstólum af ótta við tilfinningaríkar aðgerðir margra eða allra þeirra fjölmennu hópa, sem andúð hafa á hvalveiðum.

Við þurfum að hafna framtíðarmyndinni, sem felst í, að við kúrum hér norður í höfum og reynum sjálf að torga fiskinum okkar og hvalnum, af því að annað fólk fyrirlítur okkur og vill ekki skipta við okkur. Við erum ekki ein í heiminum. Við þurfum að vera með á nótunum.

Þegar breytingar verða á hugsun viðskiptavina, á andrúmslofti markaðarins, á rekstarumhverfi fyrirtækja, er bezt að draga ekki lappirnar, heldur verða á undan öðrum að laga sig að nýjum aðstæðum. Í viðskiptum er ávallt bezt að vera framan við öldufaldinn.

Hugmynd Orra vísar fram á veginn. Einhverjir verða fyrstir til að framkvæma hana og ná kúfnum af varanlegu trausti og ímynd, sem því fylgir. Aðrir munu koma í kjölfarið, en minna verður tekið eftir þeim. Enn aðrir munu reyna að sleppa ódýrt og munu bera tap úr býtum.

Orri er að tala um innihald og ímynd hugsjónarinnar um hreint og ómengað úthaf, um sífellt endurnýjaðar auðlindir þess, um hreinlæti og natni í matvælaiðnaði án aukefna, um stóran ímyndarpakka, sem eflir stöðu okkar á fleiri sviðum, svo sem í ferðaþjónustu.

Hugmynd Orra er rökrétt. Vegna fyrri árangurs hans við að tengja saman hagsmunaaðila víða um lönd er ástæða til að vona, að hann nái einnig árangri nú.

Jónas Kristjánsson

DV

Guð fannst í Skotlandi

Greinar

Guð nútímans er fundinn í Skotlandi. Hann heitir Ian Wilmut og hefur búið til sauðkind með einræktun erfðaefnis úr annarri kind. Hann starfar við örlitla rannsóknastofu, sem hefur að markmiði að framleiða lyf úr vefjum kinda og rækta afurðameira og hraustara sauðfé.

Frá einræktun sauðfjár er stutt skref í einræktun annarra dýra og litlu lengra skref í einræktun manna. Iam Wilmut hefur sjálfur staðfest, að fræðilega sé ekkert því til fyrirstöðu, að fólk verði ræktað á þennan hátt, en bætti því við, að slíkt væri óviðkunnanlegt.

Með einræktun má taka afrit af fullorðnu fólki og láta það endurfæðast í sífellu, öld eftir öld. Einræktuðu einstaklingarnir verða ekki nákvæmlega eins og fyrirmyndirnar, því að uppvöxturinn hefur líka áhrif. Í gamla daga var sagt, að fjórðungi bregði til fósturs.

Þegar einræktun komst í hámæli siðfræðinga snemma á sjöunda áratugunum, sögðu erfðavísindamenn, að umræðan væri óþörf, því að einræktun væri óframkvæmanleg. Nú reyna þeir líka að draga úr viðbrögðunum og segja vísindamenn hafna einræktun manna.

Hagsmunir landbúnaðar og lyfjaiðnaðar munu ráða því, að einræktun dýra mun fleygja fram á næstu árum. Sum ríki hafa fyrir sitt leyti bannað, að skrefið verði stigið áfram til einræktunar manna. En alltaf verða til ríki, sem ekki munu framfylgja slíku banni.

Rannsóknastofur í einræktun eru tiltölulega einfaldar og ódýrar. Einræktun kostar ekki nema brot af þeim umsvifum og fyrirhöfn, sem þarf til að búa til kjarnorkusprengjur. Einræktun má til dæmis stunda í bananalýðveldum undir verndarvæng geðbilaðra herforingja.

Sömuleiðis má ljóst vera, að þekkingarþráin ein út af fyrir sig mun kalla á tilraunir fræðimanna á þessu sviði sem öðrum. Marklaust er “að treysta því”, að fólk verði ekki einræktað, svo að notað sé ódýrt orðalag Kára Stefánssonar, sem stofnað hefur erfðaefnastöð manna.

Vísindi eru í eðli sínu hvorki góð né vond. Þau hafa oft jákvæðar eða hagkvæmar afleiðingar, stundum ófyrirséðar afleiðingar og einstaka sinnum hræðilegar. Skynsamlegt er að gera ráð fyrir, að vísindin muni fremur fyrr en síðar byrja að reyna að einrækta fólk.

Auðvelt er sjá fyrir sér sölumennskuna, sem því mun fylgja. Sagt verður, að með einræktun megi framleiða mikilvæg lyf. Með einræktun megi rækta fólk, sem sé laust við erfðaeiginleika, er leiði til sjúkdóma. Með einræktun megi rækta hraustara og gáfaðra fólk.

Að vísu verður raunveruleikinn ekki svona einfaldur. Einræktun býr til hóp, þar sem allir sem einn geta verið næmir fyrir nýrri veiru. Með erfðafræðilegri þrengingu eykst hættan á, að allir farist úr sama óvænta sjúkdóminum. Þetta er þekkt fyrirbæri við innræktun dýra.

Siðfræðilegu spurningarnar eru mikilvægastar allra. Mun einræktað fólk hafa sjálfstæðan persónuleika, eigin sál? Ljóst er, að það á ekki föður, því að karlmenn verða óþarfir í heimi einræktunar. Hver verður guð þess, Ian Wilmut í Edinborg eða Kári Stefánsson í Reykjavík?

Clinton Bandaríkjaforseti hefur gefið rannsóknanefnd níutíu daga frest til að kanna lagalegar og siðferðilegar hömlur við einræktun, einkum með tilliti til afleiðinga hennar fyrir mannkynið. Tarschys, forstjóri Evrópuráðsins, heimtar reglur sem banni einræktun fólks.

Sennilega verða boð og bönn til lítils. En fólk ætti samt að staldra við og spyrja sig, hvort maðurinn sé kominn á það stig, að hann geti tekið við hlutverki guðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Hæstiréttur ber ábyrgðina

Greinar

Í hverju málinu á fætur öðru halda hæstaréttarlögmenn því nú fram, að Pétur Kr. Hafstein dómari sé vanhæfur til setu í dómi, af því að annar hvor málsaðili hafi ýmist beint eða óbeint annað hvort verið með honum eða á móti honum í forsetakosningunum í fyrra.

Þar á ofan spyrja aðrir hæstaréttarlögmenn, hverjir hafi lagt peninga inn á opinn og auglýstan bankareikning, sem framboð Péturs notaði til skamms tíma. Vildu þeir vita, hvort mótaðili þeirra hefði gripið tækifærið til að reyna að gera hosur sínar grænar fyrir Pétri.

Hæstiréttur hefði getað dregið verulega úr þessu öngþveiti og borið blak af Pétri dómara, ef gripið hefði verið til aðgerða strax að loknum forsetakosningum. Þá þegar átti dómstóllinn að afla sér fræðilegrar aðstoðar í framboðsmáli Péturs, helzt virtra prófessora erlendra.

Þannig hefði Hæstiréttur strax við lok réttarhlés í fyrrasumar getað haft í höndunum vel grundaðar vinnureglur um setu Péturs í dómi, samdar af erlendum þungavigtarmönnum. Þá hefði dómstóllinn sparað sér og Pétri mikið af endurteknum hremmingum vetrarins.

Hæstiréttur hefur á mörgum fleiri sviðum sýnt dómgreindarskort. Hann hefur til dæmis verið seinn að átta sig á, að hann á ekki lengur síðasta orðið um lög og rétt. Menn kæra einfaldlega dóma Hæstaréttar til Strassborgar og fá þeim þar hnekkt hverjum á fætur öðrum.

Einn þekktasti hæstaréttarlögmaður landsins hefur meira að segja skrifað bók um Hæstarétt, þar sem því er meðal annars haldið fram, að dómstóllinn hafi kerfisbundið reynzt hallur undir ríkisvaldið í úrskurðum sínum og gert sig sekan um seinagang í ýmsum málum.

Aðrir hafa haldið fram, að vinnubrögð Hæstaréttar hafi almennt hossað hinum sterku á kostnað hinna veiku í þjóðfélaginu. Þannig hafi seinagangur dómstólsins fælt öryrkja frá því að kæra of lágar bótagreiðslur tryggingafélaga eða þvingað þá til að semja um of lágar bætur.

Réttarörygginu hefur stafað hætta af seinagangi mála í Hæstarétti og hollustu hans við stjórnsýslu og valdaaðila í landinu. Þetta geta menn núna bætt sér upp með því að leita til Strassborgar, sem tekið hefur við réttlætishlutverki einvaldskonungsins í Kaupmannahöfn.

Ennfremur hefur Hæstiréttur haft forustu um kerfislæga skekkju í mati íslenzkra dómstóla á glæpum, þar sem peningar eru taldir æðri lífi og limum. Þannig hefur mótazt sú hefð, að einungis er notaður lægri kanturinn í refsiheimildum laga í líkamlegum ofbeldismálum.

Dómsmálaráðherra sá ástæðu til að kvarta yfir þessu í hátíðlegri athöfn við opnun hins nýja dómhúss Hæstaréttar. Hann hefur síðan ítrekað þessa skoðun, enda er ljóst, að Alþingi ætlast til þess með refsirömmum sínum, að allt svigrúm þeirra sé notað í báðar áttir.

Svo hafa einstakir dómarar Hæstaréttar, einkum forsetar hans, stundað atferli, sem rýrir virðingu dómstólsins. Einn reifst við hernámsandstæðinga. Annar safnaði niðurgreiddum vodkaflöskum í kjallaranum. Hinn þriðji stóð í undarlegum bréfaskriftum til manna úti í bæ.

Vangeta Hæstaréttar til að búa í tæka tíð til starfsreglur um setu Péturs Kr. Hafstein í dómi er þannig ekki annað en eitt af langri röð dæma um þrönga hugsun og dómgreindarskort á þeim bæ. Þessi langa röð hefur dregið úr virðingu dómstólsins og úrskurða hans.

Hæstiréttur ber sjálfur mesta ábyrgð á stöðu sinni í áliti lögmanna og stjórnmálamanna og á þeirri tilfinningu almennings, að réttlæti komi frá útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fákeppni í sjónvarpi

Greinar

Stöð 2 keypti Stöð 3 beinlínis til þess að leggja hana niður og minnka þannig samkeppnina. Með kaupunum dregur Íslenzka útvarpsfélagið kjark úr nýjum aðilum og úr líkum á verðstríði á markaði sjónvarpsrása. Þannig eykur það langtímalíkur á rekstrarhagnaði sínum.

Kaupin voru annars eðlis en kaup Frjálsrar fjölmiðlunar á Degi-Tímanum og Alþýðublaðinu. Í því tilviki var markmiðið ekki að leggja litlu blöðin niður eða sameina þau DV, heldur að gefa þau áfram út sem sjálfstæð blöð með hefðbundnum fyrri stjórnmálaviðhorfum þeirra.

Eigendur Stöðvar 3 voru einnig að gæta sinna hagsmuna. Þeir höfðu þegar tapað hundruðum milljóna króna á skipulagsleysi og beinum mistökum. Þeir voru ekki líklegir til stórræða í samkeppni við mun farsælli eigendur Stöðvar 2 og sáu það sjálfir undir lokin.

Málsaðilar beggja vegna borðsins voru því að gæta hagsmuna sinna eins og bezt þeir gátu. Þeir gerðu það í samræmi við eðlilegar leikreglur og lögmál markaðshagkerfisins. Þar verða hinir veiku venjulega að víkja, annað hvort með því að gefast upp eða sameinast.

Athyglisvert er, að þetta er í fyrsta skipti í manna minnum, að hefðbundin stórfyrirtæki, sem kennd eru við kolkrabba og voru helztu eignaraðilar Stöðvar 3, hafa tapað í harðskeyttu valdatafli við fyrirtæki og einstaklinga, sem standa utan svonefnds kolkrabba.

Engu er enn hægt að spá um, hvort neytendur hagnast eða tapa á brottfalli Stöðvar 3, þótt venjulega tapi þeir á fækkun samkeppnisaðila. Enn síður er hægt að spá um, hvort hagsmunum íslenzkrar tungu og íslenzks sjónvarpsefnis verður betur borgið eða lakar.

Eitt er þó ljóst, að Stöð 3 hefur með sameiningunni leikið grátt þá starfsmenn, sem hún sótti fyrir skömmu af Stöð 2 við litla hrifningu ráðamanna hennar. Ólíklegt er, að þeir fái störf við hæfi á markaði, sem snögglega hefur dregizt saman við brottfall Stöðvar 3.

Athyglisvert er, að í hagkerfi Íslands er það yfirleitt óskadraumur samkeppnisfyrirtækja að losna úr samkeppninni og komast í einokunarstöðu á sinni hillu í lífinu. Þannig leiðir samkeppnin til fækkunar fyrirtækja og minnkunar á samkeppni, þegar tímar líða fram.

Eftir uppgjöf Stöðvar 3 er ekki líklegt, að neinir innlendir aðilar séu nógu sterkir til að leggja í samkeppni við Stöð 2 og ríkið sjálft. Fordæmi Stöðvar 3 er víti til varnaðar, sem sýnir, að auðvelt er að tapa miklum peningum á tilraunum til sjónvarpsrekstrar.

Nú er svo komið, að ríkið eitt heldur uppi samkeppni við Stöð 2 á ljósvakamarkaði. Búast má við, að andstaða við einkavæðingu Ríkisútvarpsins muni aukast í kjölfar andláts Stöðvar 3. Margir munu telja samkeppni af hálfu ríkisins skárri kost en alls enga samkeppni.

Athyglisvert er, að ríkið kemur raunar að málinu beggja vegna borðsins. Sem einkaeigandi ljósvakans hefur það úthlutað takmarkaðri auðlind hentugra sjónvarpsrása á þann hátt, að hún er öll komin á tvær hendur, ríkisins sjálfs og Íslenzka útvarpsfélagsins.

Búast má við, að útvarpsréttarnefnd ríkisins þurfi að taka afstöðu til hinnar nýju stöðu, sem felst í, að allar rásir, sem úthlutað hefur verið einkaaðilum á þeim tveimur bandvíddum, er hæfa núverandi loftnetum, hafa að lokum runnið í hendur Íslenzka útvarpsfélagsins.

En fákeppni er síður en svo ný bóla hér á landi. Flestir helztu þættir viðskipta og þjónustu á Íslandi lúta einmitt séríslenzkum lögmálum fákeppninnar.

Jónas Kristjánsson

DV