Greinar

Þrælahald nútímans

Greinar

Nútímamaðurinn er ekki fremur sjálfs síns herra en forfeður hans voru fyrr á öldum. Frelsi lýðræðisaldar hefur reynzt hálla en menn sáu fyrir, þegar komið var á fót formum og mynztrum, sem áttu að gera alla að frjálsum mönnum, fullgildum borgurum lýðræðisríkja.

Þrælahald nútímans kemur fram í ýmsum myndum. Algengast er, að fólk láti stjórnast af áreiti úr umhverfinu í stað þess að láta stjórnina koma að innan. Fólk er til dæmis afar háð því, hvað umhverfið telur vera rétta tízku í vöru- og þjónustunotkun á hverjum tíma.

Beztu dæmin um varnarleysi alls almennings er hin gífurlega sala, sem oftast er á jólavertíð í einhverju fáránlegu galdratæki, sem fólki er í auglýsingum talin trú um, að það geti alls ekki verið án. Fótanuddtæki og ennisþrýstibönd voru fræg dæmi af þessu undarlega tagi.

Fólk gengur í vörumerktum klæðnaði til þess að auglýsa stuðning sinn við vörumerkið og njóta mola af borði ímyndarinnar, sem það telur fylgja merkinu. Þannig finnst sumum þeir vera næstum naktir, ef þeir eru ekki í gallabuxum af ákveðinni og áberandi merktri tegund.

Ímyndir eru mikilvægur áhrifavaldur í umhverfinu. Með auglýsingum er reynt að búa til ákveðnar ímyndir eins og til dæmis af kúrekahetjum, sem eru að reykja í sig krabbamein af hetjuskap. Þessar ímyndir síast inn í fólk, af því að það stjórnar sér ekki sjálft.

Fólk hefur að mestu látið af þátttöku í stjórnmálum, en mætir í kjörklefann á nokkurra ára fresti til að játa undirgefni sína við ímyndir, sem komið hefur verið á framfæri af atvinnumönnum og eru í alls engu samhengi við neinn veruleika. Fólk kýs í blindni og leiðslu.

Kvikmyndir og sjónvarpsþættir og leiknar auglýsingar eiga mikinn þátt í að búa til ímyndir, sem mikill fjöldi fólks lætur stjórnast af. Engin innri stjórn kemur til mótvægis til að tempra hughrifin af þessum umhverfisáhrifum, sem menn elta meira eða minna í blindni.

Alls konar fíknir eiga auðveldan leik í þessari einhliða skák. Mikill hluti fólks hefur ánetjast tóbaki og á afar erfitt með að losna úr þeirri ánauð. Sykurfíkn er orðin svo algeng, að ný matvara er tæpast sett á markað öðru vísi en svo, að hún sé rækilega sykurblönduð.

Til dæmis er allt pakkað morgunkorn á íslenzkum markaði sykurblandað, svo og allar nýjar mjólkurvörur, þar á meðal vörur, sem kenndar eru við skóla. Þannig eru börnin vanin á sykurfíkn á unga aldri og gerð að þrælum efnisins. Af þessu leiðir löng röð sjúkdóma.

Fólk er ekki eingöngu fíkið í efni á borð við áfengi og tóbak, sykur og hass, heldur einnig í hegðunarmynztur, svo sem kynlíf og spilakassa. Öll magnast þessi hegðun, af því að innri stjórn fólks ræður ekki við margvíslegt áreiti, sem það verður fyrir frá umhverfinu.

Þrældómur nútímamannsins í þágu ímyndana og ytra áreitis kostar gífurlega fjármuni og vansælu. Ímyndirnar og áreitið hafa tilhneigingu til að kosta miklu meira en fólk hefur ráð á að borga, svo að ekki sé talað um hamslausa fjárþörf fíknanna. Lífið verður að stigmyllu.

Unnt væri að hamla gegn þessu, ef þjóðfélagið áttaði sig á, að verkefnið er mikilvægara en lestur, skrift og reikningur. Ef tekin væri upp í skólum landsins neytendafræðsla og aukin þar borgaraleg fræðsla, væri unnt að fá marga til að komast undan hlutverki þrælsins.

Til lengdar fær núverandi þjóðskipulag ekki staðizt, nema endurvakinn verði hinn frjálsborni borgari, sem átti að vera hornsteinn þess og kjölfesta.

Jónas Kristjánsson

DV

Lán eru fíkniefni

Greinar

Tekjulágt fólk, sem þarf að dreifa kostnaði af sumarleyfisferð á lengri tíma en eitt ár, hefur ekki efni á ferð af því tagi. Ef það leiðist inn í villigötu auðfenginna ferðaskrifstofulána, getur það hæglega skuldað að lokum meira eða minna í sumarleyfum þriggja síðustu ára.

Eins er um tekjulágt fólk, sem þarf að dreifa kostnaði af bílkaupum á svo langan tíma, að skuldin lækkar hægar en verðgildi bílsins. Sú villigata gerir höfuðstólinn neikvæðan og hlýtur að enda með skelfingu, ef önnur fjármál bílkaupandans eru með líkum hætti.

Einnig er hættulegt fyrir fólk að kaupa bíla með lánum, sem fela í sér, að það verður að skipta við ákveðið tryggingafélag, sem hefur mun dýrari tryggingar en fólk getur aflað sér sjálft, ef það hefur augun opin. Þá er fólk að taka á sig dýrar kvaðir umfram skráða vexti.

Við höfum á undanförnum árum búið við stóraukið framboð lánsfjár. Margir eiga erfitt með að breyta hugarfari sínu frá þeim tíma, þegar skortur var á lánsfé og menn gripu hvert tækifæri, sem gafst. Nú verða menn að kunna að velja og hafna í offramboði lánsfjár.

Ekki er hægt að koma í veg fyrir, að fyrirtæki reyni að auka veltuna með því að bjóða lengri lán en skynsamlegt er fyrir viðskiptavinina að taka. Fólk verður einfaldlega að læra að lifa við þá staðreynd, að lánsfé er farið að fljóta um þjóðfélagið eins og önnur fíkniefni.

Ef litið er á arðgjöf þeirra hluta, sem fólk aflar sér með því að taka á sig afborganir og vexti af lánum, þá er ljóst, að neyzluvörur eða skammlífar eignir á borð við ferðalög, bíla og heimilistæki eru ekki líkleg til að standa undir hefðbundnum kröfum hagfræðinnar um arðsemi.

Alvarlegra er, að nýjar mælingar benda til, að almennt sé ekki arðbært að taka lán til að komast í langskólanám. Það stafar af, að almennt mat í þjóðfélaginu á gildi langskólamenntunar er ekki í samræmi við það, sem haft er á orði á tyllidögum þjóðarinnar.

Ýmist endurspegla umsamin laun háskólastétta ekki umframkostnað þeirra af langskólanámi eða þá að atvinnulífið metur ekki langskólanám sem svarar þessum umframkostnaði. Þetta er auðvitað alvarlegt íhugunarefni fyrir þjóðina í heild og einkum unga fólkið.

Ástandið hefur ekki alltaf verið svona. Á efri árum viðreisnartímabils sjöunda áratugarins var langskólagengið fólk orðið tiltölulega vel sett í samanburði við aðra. Þá voru líka bjartsýnir tímar í þjóðfélaginu og langskólagengið fólk horfði fram á traust vinnufæri.

Nú er öldin önnur. Stjórnvöld standa á framfarahemlunum og fyrirsjáanlegt er aukið atvinnuleysi langskólafólks ofan á tiltölulega lágar tekjur þeirra, sem fá vinnu. Þetta kann að breytast á löngum tíma, en í bili er ekki hægt að mæla með langskólanámi fyrir ungt fólk.

Húsbréf eru einu lánin, sem skynsamlegt er að taka um þessar mundir. Þau spara fólki húsaleigukostnað, sem yfirleitt er dýrari kostur og einkum óþægilegri vegna skorts á langtíma húsnæðisöryggi. Eigið húsnæði gefur fólki mun fastara land undir fætur en ella.

Á því verður að hafa þann fyrirvara, að brugðizt geta tekjurnar, sem greiðslumat byggist á. Fólk missir vinnu án þess að hafa gert neitt af sér. Fyrirtækjum getur gengið illa af öðrum ástæðum, til dæmis vegna aukinnar samkeppni. Þá geta húsbréf orðið að hengingaról.

Fólk þarf að átta sig á, að lán er ekki happdrættisvinningur, heldur umframpeningur, sem reynt er að pranga inn á það eins og hverju öðru fíkniefni.

Jónas Kristjánsson

DV

Það góða sem ég vil

Greinar

Ríkisstjórnin ákveður stundum eins og títt er um slíkar að láta eitthvað gott af sér leiða. Hún kallar saman tugi sérfróðra manna og lætur semja fagrar stefnuskrár á ýmsum sviðum. Þegar búið er að litprenta bæklingana, eru þeir hátíðlega kynntir í Rúgbrauðsgerðinni.

Þannig var í fyrrasumar smíðuð stefna ríkisstjórnarinnar í málum upplýsingasamfélags nútímans. Og í vetur var ákveðið að hætta notkun fíkniefna á Íslandi upp úr aldamótum. Hvort tveggja er afar fagurt og göfugt og ráðherrar verða andaktugir í Rúgbrauðsgerðinni.

Það fylgir hins vegar ekki, að neitt skuli vera gert í málunum. Í hvorugu málinu hefur neitt verið gert, sem bendir til, að framkvæma eigi góðan vilja stefnuyfirlýsinganna. “Það góða, sem ég vil, geri ég ekki” er niðurstaðan af raunverulegri afrekaskrá ríkisstjórnarinnar.

Það er ekki nýtt, að lítið samband sé milli orða og efnda. Það er heldur ekki nýtt, að sérfróðir menn séu leiddir saman og látnir semja gögn, sem síðan rykfalla í skúffum stjórnvalda. Það, sem er nýtt, er algert sambandsleysi ímyndunar og raunveruleika.

Svo virðist sem íslenzkir ráðherrar séu í vaxandi mæli farnir að geta talið sjálfum sér og sjálfum sér einum trú um, að hlutirnir hafi gerzt, þegar framleiddur hefur verið um þá litprentaður bæklingur, sem afhentur hefur verið við hátíðlega athöfn í Rúgbrauðsgerðinni.

Ef ríkisstjórnin væri persóna, mundi hún kalla á sálfræðing til aðstoðar. En af því, að svo er ekki, þá yppta menn bara öxlum og snúa sér að því að skipa nýjar nefndir til að semja nýja bæklinga um hver þau mál, sem komast í tízku hverju sinni. Þetta er kallað pólitík.

Samt er ríkisstjórnin ekki að blekkja neina nema sjálfa sig. Þeir aðilar, sem standa að framleiðslu stefnuyfirlýsinga, vita vel, að efndirnar eru alls engar. Og almenningur er orðinn svo sjóaður í umgengni við stjórnmál, að hann trúir mátulega á ljúfar stefnur og fögur orð.

Ekkert hefur verið gert til að koma á pappírslausum samskiptum ríkisstofnana við viðskiptaaðila sína. Ekkert hefur verið gert til að auka bandvídd fjárgatna þeirra, sem kallaðar eru upplýsingahraðbrautin. Ekkert hefur verið gert til að tryggja sambandið við umheiminn.

Þótt farið sé með stækkunargleri yfir hverja einustu línu í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar í málum upplýsingasamfélags nútímans, er ekki hægt að finna einn einasta stað, þar sem framkvæmd endurbóta sé hafin. Frá sjónarmiði ríkisstjórnarinnar er málið úr sögunni.

Svipað er að segja um stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefnavörnum. Raunveruleikinn stefnir í þveröfuga átt. Tollgæzla á því sviði hefur verið minnkuð, síðan stefnan var gefin út. Framlög ríkissjóðs til endurhæfingar fíkniefnasjúklinga hafa minnkað. Allt flýtur í eiturlyfjum.

Harkan er að aukast í undirheimum landsins og þeir eru að færa út áhrifasvæði sitt. Tilgangslaust og mergjað ofbeldi fer sífellt vaxandi. Ríkisstjórnin kveikir ekki einu sinni á perunni, þegar sýslumaðurinn í Reykjavík er laminn. Hún lifir enn í öðrum heimi ímyndunaraflsins.

Út af fyrir sig er það sjónarmið, að ríkisstjórnir eigi ekki endilega að starfa, heldur bara vera til, enda kosti það minnsta peninga. En því sjónarmiði fylgir líka, að þær eigi ekki heldur að gefa út stefnuskrár, því að þær kosta litprentun og kynningu í Rúgbrauðsgerðinni.

Fólk er farið að hrökkva við, er það heyrir um góðan ríkisstjórnarvilja. Það er farið að reikna með, að það góða, sem hún vilji, geri hún einmitt alls ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Mislæg gatnamót

Greinar

Til bóta eru flestar breytingar í tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi Reykjavíkur. Tekið hefur verið tillit til, að þróunin hefur eins og eðlilegt er að ýmsu leyti orðið önnur, en ráð var fyrir gert, þegar núgildandi aðalskipulag var samþykkt af borgarstjórn á sínum tíma.

Eitt atriði breytist þó til hins verra samkvæmt nýju tillögunni. Samkvæmt henni verður hætt við mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þetta er og verður eitt mesta umferðarhorn borgarinnar og þar þurfa margir ökumenn að skipta um götu.

Eðlilegt er að stefna að því, að helztu umferðarásar höfuðborgarsvæðisins hafi mislæg gatnamót, einkum Miklabraut og Kringlumýrarbraut. Sérhagsmunir í Kringlunni mega ekki hindra borgina í að gera umferðina sem greiðasta, ódýrasta og öruggasta.

Ef brú á þessum stað er talin spilla víðsýni, er unnt að grafa aðra götuna undir hina, svo sem fyrirhugað er að gera við vesturenda Miklubrautar, þar sem hún mætir Snorrabraut og Rauðárárstíg. Auk þess eru ýmis dæmi um, að brýr í Reykjavík falla vel að landinu.

Í tillögunni er fallið frá fyrri hugmyndum um hraðbraut út fyrir Öskjuhlíð og inn Fossvogsdal, enda hefur komið í ljós, að lítil þörf er fyrir þessa götu, sem þar að auki hefði spillt friðar- og útivistarsvæðinu í dalnum. Þessi breyting er til bóta frá fyrra aðalskipulagi.

Þessari breytingu fylgir, að væntanlega verður hætt við gallaðar hugmyndir fyrra aðalskipulags um nýja flugstöð innanlandsflugs í Nauthólsvík og henni í staðinn valinn miðlægari staður, sem er nær stofnunum miðborgarinnar og núverandi aðalgatnakerfi hennar.

Hins vegar er helzti galli fyrirhugaðs aðalskipulags hinn sami og eldra aðalskipulags, að ekki er tekið af skarið um, að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður. Meira mun kosta að endurgera þennan flugvöll en að búa til nýjan eða flytja flugið á Keflavíkurvöll.

Núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur sætt gagnrýni fyrrverandi meirihluta borgarstjórnar fyrir að falla ekki frá fyrra aðalskipulagi fyrrverandi meirihluta um athafnasvæði í Geldinganesi. Þessi gagnrýni er síðbúin og málafátæk sjálfsgagnrýni fyrrverandi meirihluta.

Laukrétt var og er enn, að Geldinganes er afar heppilegt land fyrir íbúðabyggð, ef þar væri eingöngu íbúðabyggð, en ekki blönduð byggð, svo sem gert var ráð fyrir í eldra aðalskipulagi. Hins vegar þarf borgin nauðsynlega að geta útvegað fleiri athafnalóðir á hafnarsvæðinu.

Framsýnar eru hugmyndir aðalskipulagsins um samfellt kerfi brúa yfir Kleppsvík, Eiðsvík, Leiruvog og Kollafjörð. Þetta færir umferð Vesturlandsvegar frá íbúðahverfum Mosfellsbæjar og styttir leiðina upp á Kjalarnes, þar sem rædd er sameining við Reykjavík.

Tillagan að nýju aðalskipulagi staðfestir, að litlir möguleikar eru á að þenja borgina inn í landið, svo sem upp í Hólmsheiði. Það þýðir, að ónotað byggingarland í borginni verður að mestu á þrotum, þegar byggt hefur verið á Korpúlfsstaðalandi og í Geldinganesi.

Þegar kemur fram yfir aldamót, verða jaðarsveitarfélög höfuðborgarsvæðisins að taka við útþensluhlutverki borgarinnar. Það verða Hafnarfjörður, Mosfellssveit og Kjalarnes, sem þá verða að geta útvegað lóðir því fólki og þeim fyrirtækjum, sem vilja byggja á svæðinu.

Í stórum dráttum er vel staðið að þessu aðalskipulagi eins og hinum fyrri, enda byggist það á þeirri skynsamlegu og farsælu reglu að breyta sem allra fæstu.

Jónas Kristjánsson

DV

Lítils nýt og gráðug

Greinar

Fæstir bankastjórar vinna fyrir kaupinu sínu. Þeir hafa rekið bankana illa. Þeir hafa árum saman orðið að afskrifa milljarða króna á ári hverju vegna heimskulegra og spilltra útlána. Þess vegna neyðast þeir til að halda uppi óeðlilega miklum vaxtamun milli inn- og útlána.

Fæstir bankastjórar hafa átt skilið launahækkanir upp á 110.000-165.000 krónur á mánuði. Þeir hafa ekki unnið fyrir hækkuninni, ekki frekar en ráðherrar og æðstu embættismenn og dómarar hafa unnið fyrir þeim hækkunum, sem þeir hafa skammtað sér að undanförnu.

Bankastjórar skipa valdastétt opinbera geirans með ráðherrum, helztu dómurum og æðstu embættismönnum. Á samdráttarskeiði undanfarinna ára hefur þessi yfirstétt tekið sér kjarabætur, sem eru úr takt við landsframleiðsluna og rekstrarstöðu launagreiðandans.

Langt er síðan fréttist af ferðahvetjandi launakerfi yfirstéttarinnar, sem felst í, að tekjur hennar umfram útgjöld hækka því meira, sem hún ferðast meira. Langt er síðan kom í ljós, að bankastjórar fá hundruð þúsunda umfram laun fyrir að stjórna einstökum deildum.

Upplýsingar um sjálftekt yfirstéttarinnar á samdráttartímum hafa ekki raskað ró hennar. Í engu tilviki hafa uppljóstranir leitt til, að farið hafi verið inn á siðlegri brautir við verðlagningu á meintri vinnu yfirstéttarinnar. Hún hefur látið gagnrýni sem vind um eyru þjóta.

Yfirstéttin lítur á sig sem sérstaka þjóð í landinu, svipað og lénsherrar fyrri alda. Hún lítur á tekjur sínar sem próventu eða herfang fyrir að vera til, en ekki fyrir meira eða minna unnin störf. Hún telur, að þessar tekjur megi hækka ört, þótt tekjur annarra standi í stað.

Þetta hugarfar yfirstéttarinnar á þátt í aukinni stéttaskiptingu á undanförnum árum. Hugarfarið hefur étið þjóðfélagið að innan. Meðal annars gerir það ráðamönnum landsins ókleift að spekja láglaunafólk með viðvörunum um verðbólgu og efnahagslegar kollsteypur.

Láglaunafólk með 70.000 króna mánaðarlaun getur ekki tekið neitt mark á föðurlegum áminningum yfirstéttarinnar um, að kröfur þess um bætt lífskjör leiði til verðbólgu og annarra vandræða í þjóðarbúskapnum. Láglaunafólkið veit, hvernig yfirstéttin hefur hagað sér.

Tekjur yfirstéttarinnar skipta í sjálfu sér litlu í heildardæmi þjóðarbúskaparins. Þar á ofan eiga meint störf hennar að vera svo mikilvæg, að þau gætu vel staðið undir hinum háu launum, ef þjóðin hefði tilskilið gagn af störfunum. En svo er því miður í fæstum tilvikum.

Ef hin lélega yfirstétt hefði hamið græðgi sína á undanförnum árum, gæti hún nú talað landsföðurlega yfir umboðsmönnum láglaunahópanna um nauðsyn ábyrgðartilfinningar og þjóðarsáttar. Eftir sjálftekt yfirstéttarinnar er holur hljómur í prédikunum af því tagi.

Enda kemur í ljós í umræðunni um tekjuaukningu bankastjóra á síðustu árum, að þeir, sem ábyrgð bera á málinu, svo sem bankaráð, viðskiptaráðuneyti og löggjafinn sjálfur, ætla sér ekki að gera neitt til að koma þessum launum niður í siðferðilega verjanlegar upphæðir.

Þótt fólk hafi almennt ekki áhuga á verkföllum, er það samt svo langþreytt á ástandinu, að hljómgrunnur er fyrir hernaðarlega mikilvægum, en tiltölulega fámennum verkföllum, þar sem þátttakendur eru á sameiginlegum styrkjum úr verkfallssjóðum margra stéttarfélaga.

Ef allt fer úr böndum og lítils nýt yfirstétt getur ekki náð þjóðarsátt um verðbólgulaust land á næstu árum, getur hún engu öðru um kennt en eigin græðgi.

Jónas Kristjánsson

DV

Neyzludýrin

Greinar

Þegar Rússar fögnuðu hruni kommúnismans og innreið nýrra stjórnarhátta, voru þeir ekki að fagna lýðræðisformunum, svo sem þrískiptingu valdsins, tjáningarfrelsi, lagaöryggi og markaðsbúskap. Þeir voru að fagna gosi og hamborgurum, síbylju og gervihnattarásum.

Það kom í ljós, að þeir höfðu tekið trú á ímyndir úr sjónvarpi af vestrænum lifnaðarháttum, þar sem fólk virtist ekki þurfa annað fyrir lífinu að hafa en að valsa um fín hús í sápuóperum, segja einnar línu brandara, neyta ruslfæðis og kaupa óþarfan varning.

Kók og hamborgarar komu til Rússlands, svo og aðrar ímyndir úr stjónvarpsauglýsingum. Nokkur hundruð þúsund manns hafa notfært sér þessar meintu guðaveigar, en 250 milljónir manna hafa ekki ráð á því og munu ekki hafa ráð á því um ófyrirsjáanlega framtíð.

Eftir hrun kommúnismans kom enn stærra hrun efnahagslífsins. Við tóku lögmál villta vestursins, þar sem menn hirtu það, sem þeir gátu náð í, sumir álver og aðrir vodkaflösku. Öllu var stolið steini léttara og sett á svartan markað. Lög og réttur voru fótum troðin.

Hámenningin hrundi líka. Rithöfundar, sem voru lesnir á tíma kommúnismans, af því að verk þeirra gengu milli manna í handritum, liggja nú óbættir í bókaskemmum. Fáir vilja lesa fyrrverandi neðanjarðarhöfunda meðan nóg er til af vestrænni og innihaldslausri sápu.

Yfirgnæfandi meirihluti Rússa býr nú við mun lakari kjör en á lokaskeiði kommúnismans. Draumurinn um vestræna lifnaðarhætti reyndist vera tálsýn, framleidd fyrir sjónvarp. Lífið í sápuóperunum og bíómyndunum reyndist ekki vera í tengslum við veruleikann.

Tálsýnin hefur leikið fleiri grátt en Rússa eina. Sömu óra hefur gætt í öðrum löndum Austur-Evrópu, í misjöfnum mæli að vísu og minnst í löndum eins og Tékklandi, þar sem menn vissu meira um vestrænan veruleika, þegar þeir steyptu kommúnismanum af stóli.

Þriðji heimurinn hefur líka haft aukinn aðgang að hinni vestrænu ímynd sjónvarps og kvikmynda. Þar halda tugmilljónir, að frelsi og lýðræði felist í Nike og Pepsi, Levi’s og MacDonalds, Calvin Klein og Kentucky Fried Chicken, Rambó, Madonnu og Disneylandi.

Lýðræði felst samt ekki í rétti til að velja milli tíu tannkremstegunda, sem menn hafa ekki efni á að kaupa. Það felst í ábyrgð og skyldum, sem fólk tekur af herðum fyrrverandi valdhafa, kónga og keisara, einræðisherra og aðalsmanna, og setur á sínar eigin herðar.

Í kjarnalöndum vestursins gætir í vaxandi mæli sama ruglings á veruleika og ímyndum, sem hefur leikið Rússa einna verst allra þjóða. Fólk er að breytast í neyzludýr, sem lætur stjórnast af auglýsingum, vörumerkjum, markaðsbrögðum og skammlífum tízkufyrirbærum.

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af ruglinu, svo sem sýna fótanuddtækin og segularmböndin, vörumerkin á fatnaði fólks og almennur áhugi á síbyju og sápuóperum. Fæstir átta sig á, að unnt er að lifa miklu betra og heilsteyptara lífi með því að hafna þessu öllu.

Því meiri neyzludýr, sem fólk verður, þeim mun minna sinnir það borgaralegum skyldum sínum. Fólk samlagast sjónvarpsskjánum og heyrnartólunum. Þannig grefur neyzluþjóðfélagið ýmist undan lýðræðinu eins og hér á landi eða hindrar innreið þess eins og í Rússlandi.

Þegar lýðræðið hrynur, verður það ekki fyrir meintum ytri óvinum, svo sem kommúnisma eða íslam, heldur fyrir sjálfvirkum og óviljandi innri markaðsöflum.

Jónas Kristjánsson

DV

Góð vísa og oft kveðin

Greinar

Þar sem smjör drýpur af hverju strái, bleikir akrar bylgjast og tré svigna undir ávöxtum, í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, starfa aðeins 2,8% þjóðanna að meðaltali við landbúnað. Eru þá fiskveiðar innifaldar í landbúnaði samkvæmt alþjóðlegri hefð.

Hér við jaðar freðmýrabeltisins norður við heimskautsbaug, þar sem vetur ríkir hálft árið, akrar eru fáir og ávextir vaxa aðeins í gróðurhúsum, starfa hlutfallslega helmingi fleiri við landbúnað, 5,6% þjóðarinnar. Er þá 4,5% atvinna í fiskveiðum ekki talin með.

Af þessum hlutfallstölum er ljóst, að Íslendingar leggja meiri áherzlu en aðrir á að halda uppi störfum í landbúnaði, þótt hann búi við svo erfið skilyrði, að hann getur lítið annað framleitt en kjöt og mjólk og grænmeti, en hvorki korn né ávexti eins og í tempruðu löndunum.

Meðan auðþjóðir heimsins framleiða ekki aðeins meira en nóg af kjöti og mjólk og grænmeti, heldur einnig meira en nóg af korni og ávöxtum og fiski, með aðeins 2,8% vinnuafls síns, erum við að framleiða nærri eingöngu kjöt og mjólk með 5,6% vinnuafls okkar.

Í samanburðarhagfræði er algengt að nota hlutfall vinnuafls í landbúnaði sem mælikvarða á, hversu misvel þjóðum hefur gengið að feta götuna í átt til hagsældar, velmegunar og árvissra kjarabóta. Samkvæmt tölunum hefur okkur miðað hægar en nágrannaþjóðunum.

Afleiðingin af stefnu okkar er, að óeðlilega mikill hluti aflafjár okkar fer í að halda uppi atvinnu í landbúnaði. Þessi sérstaða okkar dregur úr flutningi fólks til arðbærari atvinnugreina, hækkar matarkostnað heimilanna og dregur úr getu ríkisins til að halda uppi velferð.

Þetta eru ekki ný sannindi, heldur margtuggin. Samt þarf stundum að minna á þau, af því að ekki er fyrirsjáanleg nein breyting á þeirri stefnu stjórnvalda og kjósenda, að lífskjörum þjóðarinnar skuli haldið niðri til að halda uppi óeðlilega miklum landbúnaði í harðbýlu landi.

Sérstök ástæða er til að minna á þetta nú, þegar kjarasamningar standa yfir og aðilar vinnumarkaðarins eru að reyna að skipta peningum, sem ekki eru til ráðstöfunar, af því að þeim hefur verið brennt á altari landbúnaðarins og það með vitund aðila vinnumarkaðarins.

Þegar málsvarar stéttarfélaga kvarta um, að ekki sé unnt að lifa á lágu töxtunum, og þegar málsvarar atvinnurekenda svara með því að segja, að ekki sé hægt að borga hærra kaup, er gott að minna á samábyrgð beggja aðila á rangri atvinnuvegastefnu þjóðarinnar.

Áratugum saman hefur þjóðin haft greiðan aðgang að upplýsingum um óeðlilega mikinn landbúnað í landinu og um áhrif þess á lífskjör hennar. Samt hefur fólk þverskallazt við að þvinga umboðsmenn sína í stjórnmálum til að leggja niður ríkisafskipti af landbúnaði.

Núverandi stefna í landbúnaði nýtur stuðnings rúmlega helmings þjóðarinnar. Þessi hluti þjóðarinnar getur engan veginn ætlazt til, að lífskjör séu eins góð hér á landi og í löndum, þar sem betur hefur gengið að draga úr landbúnaði. Fólk verður að velja og hafna.

Sérstaklega á þetta við um forustufólk í stéttarfélögum, sem hefur tekið þátt í opinberum landbúnaðarnefndum, svo sem svolkölluðum sex manna og sjö manna nefndum, og á þannig beina og persónulega aðild að verðmætabrennslunni. Þetta fólk á ekki að væla um fátækt.

Af ýmsum ástæðum fátæktar okkar vegur þyngst, að þjóðin hefur sjálf ákveðið, að landbúnaður skuli vera tvisvar til fjórum sinnum meiri en eðlilegt er.

Jónas Kristjánsson

DV

Fólkið segir pass

Greinar

Fólk kvartar um lág laun, litlar tryggingabætur, hátt verðlag og segir ekki hægt að lifa í þessu landi. Það telur sig hafa verið svikið um eins konar rétt til aðgangs að velferðarríki, sem sjái því borgið frá vöggu til grafar. Það spyr síður um sínar eigin skyldur við þjóðfélagið.

Að baki kröfu fólks um velferð er misskilningur á eðli lýðræðisríkja. Þjóðskipulag okkar hefur ekki og á ekki að hafa réttindi að hornsteini, heldur skyldur. Lýðræði felur í sér, að almenningur tekur sjálfur ábyrgð af rekstri þjóðfélagsins úr höndum aðals eða einveldis.

Í reynd hafnar mikill fjöldi fólks að taka þátt í þessari ábyrgð. Það kvartar yfir stjórnmálamönnum og heldur samt áfram að kjósa þá. Það telur, að einhverjir aðrir en það sjálft eigi að reka þjóðfélagið og sjá um að halda uppi almennri velferð. Það segir pass í lífinu.

Fólk tekur ekki einu sinni ábyrgð á eigin heilsu. Það hegðar sér á heilsuspillandi hátt. Það reykir og drekkur og étur sykur. Það hreyfir sig ekki. Svo ætlast það til, að til skjalanna komi velferðarkerfi og hirði upp hræið til lyfjameðferðar og uppskurðar á sjúkrahúsum.

Að sjálfsögðu tekur þetta fólk ekki heldur neina ábyrgð á uppeldi barna sinna. Það heldur, að þjóðfélagið hafi sett upp skóla til að taka að sér barnauppeldi. Afskiptaleysið leiðir af sér agaleysi og körfuhörku nýrra kynslóða, sem láta teymast af síbylju og sápuóperum.

Ranghugmyndir um eðli lýðræðis og stöðu almennings í því þjóðskipulagi komu skýrt fram í Austur-Evrópu, þegar ríkin þar losnuðu undan oki kommúnismans. Almenningur stóð á gangstéttunum og klappaði fyrir komu vörubíla með sykurblönduðum koffíndrykkjum.

Þetta fólk hafði fengið þær ranghugmyndir úr vestrænu sjónvarpi, að vestrænt lýðræði fælist í gosdrykkjum og hamborgurum handa öllum, poppkorni og síbyljupoppi. Svo þegar ímyndin úr sjónvarpinu brást, fór fólk í fýlu og kaus aftur yfir sig gamla kommúnista.

Lýðræði er allt annað en sýndarveruleiki auglýsinga, vörukynninga og sápuþátta í sjónvarpi. Lýðræði er fyrirhöfn. Það krefst þátttöku fólks í að ákveða, hvernig þjóðfélagið sé rekið, svo að unnt sé að gera það að betri íverustað. Sumir taka þátt, en fleiri gera það ekki.

Margir detta alveg úr raunveruleikanum og lifa sig inn í sýndarveruleika sjónvarps, þar sem ofbeldi og kynórar ráða ríkjum í samfloti við auglýsingar og kynningar á meira eða minna óþarfri neyzlu. Vörumerki úr sjónvarpi koma í stað stjórnmálaflokka raunveruleikans.

Disneylöndum fjölgar og fólk skiptist í fylkingar eftir gosdrykkjum eða boltaliðum. Á meðan reyna einstaklingar og dagblöð að halda uppi vitagagnslausri umræðu um fiskveiðistjórnun, ríkisrekstur landbúnaðar og önnur atriði, sem geta ráðið úrslitum um velferð fólks.

Því fleiri sem segja pass, þeim mun meiri líkur eru á, að þjóðskipulag lýðræðis grotni að innan. Valdir eru lakari stjórnmálamenn en ella, pólitísk umræða verður minni, rekstur þjóðfélagsins óskynsamlegri og velferð fólks að sjálfsögðu langtum minni en ella væri.

Napurt er, að þetta skuli gerast um leið og vestrænt lýðræði hefur unnið sigur á kommúnisma og ógnar stöðu annarra menningarheima á borð við íslam. Sigrum út á við fylgja ósigrar inn á við. Menn eru að breytast úr borgurum í neyzludýr, sem búa í sýndarveruleika.

Neyzlu- og sjónvarpsþrælar og fylgismenn vörumerkja verða svo að taka því sem hverju öðru hundsbiti, að lífskjör þeirra geta ekki fylgt sýndarveruleikanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríki Halims Als

Greinar

Kelly Jean Helton fékk sömu fyrirgreiðslu hér á landi og Sophia Hansen hefði átt að fá fyrir löngu í Tyrklandi. Íslenzk stjórnvöld urðu við bandarískri framsalsbeiðni og afhentu móðurinni barnið. Tíminn var ekki látinn naga réttlætið með langvinnu dómsmáli.

Tyrkland stendur á mörkum tveggja heima, Evrópu og íslams, og veit ekki, í hvaða átt það er að fara. Að forminu til eru þar vestrænar stofnanir og að forminu til er Tyrkland aðili að vestrænum fjölþjóðasáttmálum. Síðan fer eftir aðstæðum, hvort formin eru marktæk.

Tyrknesk stjórnvöld hafa vikið sér undan að framselja dætur Sophiu í hennar hendur. Þau hafa vikið sér undan að hafa hendur í hári barnaræningjans Halims Als. Jafnframt hefur verið leikinn ljótur blekkingaleikur fram og aftur og upp og niður í dómskerfinu.

Ljóst er, að hvorki framkvæmdavald né dómsvald í Tyrklandi hafa farið eftir vestrænum leikreglum, þótt rammar þessara stofnana séu vestrænir að ytra formi. Undir yfirborðinu, sem Mústafa Kemal Tyrkjafaðir þröngvaði upp á ríkið, kraumar miðaldakvika íslams.

Trúarskríll er svo sem eins hvar sem er í heiminum, jafnt í Norður-Írlandi sem í Serbíu. Íslamskur trúarskríll er frekar fyrirferðarmikill um þessar mundir, svo sem dæmin frá Alsír sýna, af því að íslamskar þjóðir hafa öldum saman farið halloka fyrir kristnum.

Trúarskríllinn í Tyrklandi nýtur pólitísks stuðnings annars stjórnarflokksins og hinn er undir stjórn tækifærissinnaðs fjármálabraskara. Við slíkar aðstæður komast glæpamenn upp með margt í skjóli skrílsins. Og Halim Al hefur einmitt leitað skjóls í trúarfaðminum.

Hvorki framkvæmdavaldið né dómsvaldið í Tyrklandi treysta sér til að standa gegn trúarskrílnum í máli barna Sophiu. Sumir embættismenn ríkisins vilja gera það, en ráða ekki við málið, af því að Tyrkland vegur salt milli íslamskra miðalda og vestræns nútíma.

Undanfarin misseri hefur Tyrkland færzt nær miðöldum. Meira en áður er traðkað á mannréttindum, einkum af hálfu hers og lögreglu. Baráttumenn mannréttinda og blaðamenn eru myrtir í fangelsum í vaxandi mæli. Blóðugar ofsóknir gegn Kúrdum hafa færzt í aukana.

Áhrifamikil öfl í landinu reyna að hamla gegn öfugþróuninni og eru þar fjölmiðlar fremstir í flokki, einkum dagblöðin. Starfsmenn þeirra reyna að halda uppi vestrænni fréttamennsku, þrátt fyrir hótanir trúarskrílsins, sem til dæmis hefur tekizt að kúga marga dómara.

Stjórnvöld og hinn vestræni þáttur þjóðfélagsins reyna að auka samstarfið við Evrópu og leggja einkum áherzlu á aðild að Evrópusambandinu, í von um, að samstarfið snúi landinu aftur í vestrænan farveg. Því miður hafa tyrknesk stjórnvöld ekki gætt að heimavinnunni.

Til þess að fá aukna aðild að evrópsku samstarfi verða tyrknesk stjórnvöld að taka af meiri festu á yfirgangi trúarskrílsins og á mannréttindabrotum ríkisvaldsins, þar á meðal brotum þess gegn dætrum Sophiu. Aðild að Vesturlöndum er ekki og á ekki að vera ókeypis.

Ekki er nóg að reyna að fá bandaríska embættismenn til að hvetja evrópska leiðtoga til að setja kíkinn fyrir blinda augað, þegar rætt er um aukna aðild Tyrklands að evrópsku samstarfi. Slíkt leysir ekki sjálfar orsakir pólitískrar einangrunar Tyrklands í Evrópu.

Valdhafar geta ekki valið úr pakkanum, sem þeir telja henta, og hafnað öðru, svo sem mannréttindum. Vestræna er fyrirbæri, sem bara fæst í heilum pakka.

Jónas Kristjánsson

DV

Engu verður Gróska fegin

Greinar

Þótt formaður Alþýðubandalagsins segi, að ræða megi Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið, kom skýrt fram hjá honum, að niðurstaða umræðunnar gæti verið til beggja átta, meðal annars brottför úr Atlantshafsbandalaginu og úr Evrópska efnahagssvæðinu.

Ótímabær er fögnuður Gróskumanna og annars áhugafólks um vinstra samstarf út af ræðu Margrétar Frímannsdóttur formanns á miðstjórnarfundi Alþýðubandalagsins. Það er óskhyggja að túlka ræðuna sem vatnaskil í utanríkisstefnu bandalagsins.

Formaðurinn tók sérstaklega fram, að algerlega óviðunandi væri núverandi staða, það er að segja aðild okkar að Efnahagssvæðinu. Að þeirri forsendu gefinni er langsóttara, að lausnin felist í aðild að Evrópusambandinu en að hún felist í aðild að hvorugu samstarfinu.

Formaðurinn tók sérstaklega fram, að endurskoðun á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu gæti leitt til þeirrar niðurstöðu, að við ættum að standa utan bandalagsins eða fækka þeim sviðum bandalagsins, sem við tökum þátt í. Þetta eru gamalkunn afturhaldsviðhorf.

Miðstjórn Alþýðubandalagsins varð við tillögunni um að ræða þessi mál og komst eftir umræðuna að nákvæmlega sömu niðurstöðu og alltaf áður, að Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið væru hinar verstu stofnanir, sem Alþýðubandalagið væri algerlega andvígt.

Miðstjórnarfundurinn lagði því þungan stein í götu sameiningarhugsjónar vinstri manna. Þegar Gróskumenn segjast sjá jákvæðar hliðar á fundinum, tala þeir gegn betri vitund. Þeir eru að reyna að forðast þá ímynd úti í bæ, að hugsjón þeirra sé að daprast flugið.

Fundur Alþýðubandalagsins staðfesti, að himinn og haf er milli samstarfs í sveitarstjórnarmálum, svo sem í Reykjavík, og samstarfs á landsvísu. Í borgarstjórn er hvorki verið að ræða utanríkis- og varnarmál né önnur viðkvæm mál á borð við sjávarútveg og landbúnað.

Alþýðubandalagið hefur hafnað að rétta hönd í átt til Grósku og hefur ítrekað fyrri afturhaldsstefnu sína. Það er andvígt því varnarbandalagi, sem öll Austur-Evrópa heimtar nú að fá að ganga í. Alþýðubandalagið er ófeimið við að verða síðasti móhíkaninn í Evrópu.

Þetta stafar af, að Alþýðubandalagið er hjartanlega andvígt hugmyndafræði Vesturlanda. Bandalagið er algerlega andvígt markaðshyggju Vesturlanda, takmörkun ríkisafskipta, auknu viðskiptafrelsi og öllu öðru, sem flokkast getur undir bannorðið kapítalismi.

Afturhaldið einskorðast ekki við yfirstétt bandalagsins. Sömu skoðanir eru útbreiddar í kjósendahópi þess. Þetta afturhaldssama fólk óttast nútímann og mun í hjarta sínu ekki fallast á aðild að nýjum samtökum, sem styðja mikilvæga þætti markaðshyggju Vesturlanda.

Sameiningarsinnar í Grósku hafa lengi tekið tillit til þessa vandamáls. Til þess að forðast, að Gróska verði stimpluð sem nýtt nafn á Alþýðuflokknum og Þjóðvaka, hafa þeir talið sér nauðsynlegt að kasta öllum mikilvægum málum í einn haug, merktan: “Til síðari skoðunar”.

Á stofnfundi Grósku fyrr í þessum mánuði kom fram, að nýja aflið segir pass í flestum málum, sem tekizt verður á um í þjóðfélaginu á næstu árum, svo sem í Evrópusamstarfi, kvótakerfum, byggðastefnu og veiðileyfagjaldi. Nýja aflið verður því utanveltu í umræðunni.

Eftir fund sinn hefur Alþýðubandalagið það áfram umfram Grósku að hafa skoðanir á ýmsum slíkum grundvallaratriðum, sem Gróska kallar dægurmál.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðærið frestar nútíma

Greinar

Íslendingar hafa efnazt vel á síðustu þremur árum og munu væntanlega gera það áfram á allra næstu árum. Eftir sex mögur stöðnunarár 1987-1993 erum við nú að sigla inn á mitt sóknarskeið, sem mun gera okkur kleift að ná aftur fyrri stöðu í hópi auðþjóða heims.

Góðærið frá 1994 hefur að einu leyti verið ólíkt fyrri skeiðum af því tagi. Verðbólgan hefur verið lítil, um 2%, sem er heldur minna en í flestum nágrannalöndum okkar. Þetta segir þá nýstárlegu sögu, að sæmilegt jafnvægi hefur ríkt í þjóðarbúskapnum, þrátt fyrir góðæri.

Við erum komin í þá stöðu að fullnægja nokkurn veginn og sumpart alveg þeim skilyrðum, sem forusturíki Evrópu vilja setja fyrir þátttöku í næsta risaskrefi evrópskrar efnahagssamvinnu, sameiginlegri Evrópumynt. Við getum náð fari með þeirri hraðlest.

Hingað til höfum við haft mun meira gagn en ógagn af evrópskri efnahagssamvinnu, fyrst í Fríverzlunarsamtökunum og nú í Efnahagssvæðinu. Ekki aðeins hefur hagkerfið styrkzt, heldur hefur velferð einnig aukizt vegna harðari krafna Evrópu um verndun lítilmagnans.

Því miður skortir okkur pólitískan kjark til að stíga skrefið frá íslenzkri krónu, sem er marklaus pappír í útlöndum og framleiðir mun hærri vexti hér á landi en eru og verða í löndum myntbandalagsins. Við verðum vegna þessa fyrir milljarðatjóni á hverju ári.

Þótt einkennilegt megi virðast, er það kvótabraskið, sem á mestan þátt í nýbyrjuðu blómaskeiði. Það hefur flutt veiðiheimildir til þeirra, sem kunna að gera þær arðbærar, og gert sjávarútveginn hagkvæmari en hann var áður. Þjóðfélagið í heild hefur hagnazt á þessu.

Því miður hefur okkur ekki tekizt að gæta réttlætis um leið. Við höfum trassað að skattleggja forréttindi aðgangs að takmarkaðri auðlind. Þannig hefur kvótakerfið orðið svo hatað um allt land, að það getur komizt í hreina fallhættu, ef ekki verður bætt úr skák.

Reiknað er með, að næstu árin verði það stóriðju- og virkjanagerð, sem taki við hlutverki kvótabrasksins sem aflvél góðærisins. Búast má við, að full atvinna verði í landinu fram yfir aldamót. Það þýðir jafnframt, að launaskrið verður á ýsmum sviðum umfram kjarasamninga.

Ljóst er, að kaupmáttur eykst á næstu árum, sumpart með kjarasamningum og sumpart til hliðar við þá. Ef aukningin verður í takt við landsframleiðslu, mun kaupmátturinn batna um 4% á hverju ári. Það er feiknarhá tala, sem segir til sín, þegar góðærisárin hlaðast upp.

Þar sem stéttaskipting hefur aukizt á undanförnum árum, er eðlilegt, að krafizt sé meiri hækkunar hinna lægst launuðu. Um leið er skiljanlegt, að stjórnvöld og viðsemjendur stéttarfélaga óttist, að slík hækkun skríði að venju upp allan stigann og valdi verðbólguskriðu.

Vonandi ná málsaðilar lendingu milli þessara sjónarmiða án undangengins verkfallatjóns og án verðbólguskriðu. Það verður ekki auðvelt, því að allt of stór hluti atvinnulífsins býr við takmarkaða samkeppni og hefur aðstöðu til að velta kauphækkunum út í verðlagið.

Sú hætta er einmitt eitt gleggsta dæmi þess, að við höfum trassað að smíða ýmsa ramma, sem tryggja sjálfvirkan stöðugleika og framfarir, svo sem afnám hafta og einkaréttar, afnám ríkisrekstrar á landbúnaði, aðild að Evrópusambandinu og upptöku veiðileyfagjalds.

Skuggahlið góðærisins felst einmitt í, að það gerir okkur kleift að fresta ýmsum grundvallarbreytingum, sem einar geta koma landinu inn í nútímann.

Jónas Kristjánsson

DV

Óholl hollustuvernd

Greinar

Nokkur dæmi sýna, að Hollustuvernd ríkisins hefur mistekizt. Í stað þess að vernda hollustu þjóðarinnar reynir stofnunin að vernda ákvarðanir ráðherra um stóriðju. Hún neyðist síðan til að fara undan í flæmingi, þegar aðilar úti í bæ benda á slök vinnubrögð hennar.

Hollustuvernd er raunar stjórnað af einu af pólitískum kvígildum Framsóknarflokksins, sem telur hlutverk sitt vera að slá skjaldborg um iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, þegar þeir fara á kostum í umhverfisspjöllum.

Við stækkun álversins í Straumsvík kom í ljós, að starfsleyfið, sem Hollustuvernd gaf út, braut í mörgum liðum í bága við alþjóðasamninga um mengunarvarnir. Heimiluð var úrelt tækni, sem takmarkaði mengunarvarnir. Heimiluð var losun flúors langt umfram mörk.

Hjörleifur Guttormsson benti á þessi atriði, svo og þau, að brennisteins- og koltvísýringsmengun væri umfram mörk. Hollustuvernd viðurkenndi sum þessara atriða með semingi, en gerði ekkert í þeim. Sérstök úrskurðarnefnd hefur nú krafizt málefnalegrar meðferðar.

Við síendurteknar bilanir mengunarvarna járnblendiversins á Grundartanga hefur Hollustuvernd ekki látið til sín taka. Er stofnunin þó formlegur eftirlitsaðili, sem má beita dagsektum, allt að 100.000 krónum á dag, þar til úr menngunarvörnum fyrirtækis hefur verið bætt.

Í skýrslum járnblendiverksmiðjunnar kemur fram, að stjórn hennar telur hana of fátæka til að laga bilaðan mengunarbúnað. Hefur Hollustuvernd ríkisins tekið þessa yfirlýsingu góða og gilda, enda er fyrirtækið í meirihlutaeigu húsbúndans, það er að segja ríkisins.

Forstjóri Hollustuverndar segir það vera hreint ryk, sem sleppur út vegna bilunar mengunarvarna. Má þá spyrja, hvort ekki sé óþarfi að hafa mengunarbúnað, ef rykið er svona hreint. Prófessor við Háskólann segir hins vegar mikið af brenndri tjöru og olíu í rykinu.

Nú er Hollustuvernd að búa í haginn fyrir nýtt álver á Grundartanga. Í tillögum hennar að starfsleyfi morar allt í óljósu og ónákvæmu orðalagi á borð við “nægilega skilvirkt eftir því, sem unnt er”, standa eigi við ákvæði “eftir mætti” og að taka eigi sýni “tilfallandi”.

Hollustuvernd svaraði ekki fyrirspurnum Heilbrigðisnefndar Kjósarsýslu vegna álversins. Hún lét líka óátalið, að umhverfisráðherra felldi út ellefu skilyrði Skipulagsstjóra ríkisins fyrir byggingarleyfi álversins. Þannig gætir stofnunin ekki umhverfishagsmuna þjóðarinnar.

Bent hefur verið á, að Ísland er aðili að Ríósamningnum, sem skuldbindur okkur til að sleppa ekki meiri koltvísýringi út í andrúmslofið árið 2000 en við gerðum árið 1990. Samt eiga ófullkomnar varnir á Grundartanga að fela í sér tvöfalt meira mengað ryk en í Straumsvík.

Ef við vildum bæta þetta upp með skógrækt samkvæmt ákvæðum Ríósamningsins, yrðum við að verja 6-7 milljörðum til hennar vegna þessa álvers eingöngu. Ríkið hefur ekkert slíkt á prjónunum umfram áður ráðgerða skógrækt vegna annarrar mengunar í landinu.

Ráðherra fullyrðir meira að segja, að Ísland geti notað hluta af þýzkum mengunarkvóta, af því að verksmiðjunni, sem á að rísa hér, hafði áður verið lokað í Þýzkalandi. Slíkar furðusögur lætur Hollustuvernd óátaldar eins og annað, sem kemur frá ráðherrum flokksins.

Hér hafa verið rakin dæmi, sem sýna, hvers vegna Hollustuvernd nýtur ekki trausts. Það er af því, að hún er holl ráðherrum flokksins og óholl þjóðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Á að fresta fíknum?

Greinar

Tæplega hundrað Íslendingar hafa leitað aðstoðar á rúmu ári vegna spilafíknar sinnar. Þar af hafa 75 farið í meðferð vegna þessarar fíknar, sem hefur snögglega orðið afar fyrirferðarmikil vegna fjölgunar spilakassa á vegum samstarfshóps nokkurra hjálparsamtaka.

Ekki er furða, þótt margir horfi nú til Svíþjóðar, þar sem nýlega voru bannaðir spilakassar af þessu tagi. Einnig fer það fyrir brjóstið á mörgum, að hjálparsamtök skuli hagnast á fíkn, þar á meðal samtök, sem starfa fyrir ríkið að meðferð hinnar sömu fíknar.

Sagan segir okkur, að niðurskurður framboðs er virkasta leiðin til að draga úr vandamálum eftirspyrjendanna. Þannig dró áfengisbann úr áfengisvandamálum á sínum tíma og þannig er fíkniefnavandinn minni en hann væri, ef fíkniefni væru seld á löglegan hátt.

Enginn vafi er heldur á, að heilsufar þjóðarinnar mundi stórbatna, ef tóbaksnotkun væri bönnuð. Ekki mundi heilsan skána minna, ef bannaður væri innflutningur á sykri og sykurblönduðum vörum. Þannig er alltaf til hin einfalda leið gegn fíknum að banna þær.

Áfengisbannið var fljótlega afnumið hér á landi eins og annars staðar. Ástæðurnar voru sumpart af hagsmunalegum toga, einkum hér á landi, þar sem saltfiskútflutningur var háður rauðvínsinnflutningi. En einnig hafði komið í ljós, að ekkert fékk hamið heimabrugg.

Erlendis hefur komið í ljós, að önnur vandræði aukast, þegar fíknarvandinn minnkar. Skipulagðir glæpaflokkar taka við starfseminni, sem bönnuð hefur verið, og verða svo fyrirferðarmiklir, að þjóðfélaginu stafar ógn af, svo sem gerðist í Bandaríkjunum á bannárunum.

Hér á landi er forsjárstefnan misjöfn eftir fíkniefnum. Fíkniefnið sykur og vörur úr sykri eru seldar í öllum matvörubúðum. Sama gildir um tóbak. Aðgangur að áfengi er hins vegar takmarkaður með því að hafa það aðeins í sérverzlunum og á veitingastöðum.

Aðgangur er takmarkaður að spilakössum með því að hafa framboðið takmarkað eins og að áfengi. Munurinn á kössunum annars vegar og áfengi og tóbaki hins vegar er, að í öðru tilvikinu hirða hjálparstofnanir tekjurnar, en í hinu er ríkið sjálft fíkniefnasalinn.

Í deilunum um meiri eða minni forsjá á þessum sviðum gleymist oft, að Íslendingar eru ekki lengur einangruð þjóð. Það er erfiðara en áður að framfylgja takmörkunum, sem ganga mun lengra en gerist í öðrum löndum. Við erum háð umheiminum í þessu sem mörgu öðru.

Með tímanum mildast vandamálin. Ítalir, sem hafa umgengist vín í þúsundir ára, búa við minna en 5% drykkjusýki. Engilsaxneskar þjóðir eru ekki eins þjálfaðar og fást við 10% drykkjusýki. Íslendingar koma úr meiri einangrun og verða að þola 20% drykkjusýki.

Enn verr á vegi staddir eru þeir, sem síðar lentu í samneyti við umheiminn. Þannig nemur drykkjusýki yfir 50% meðal Grænlendinga. Þjóðir, sem eru seint á ferðinni, verða að taka út sneggra og hastarlegra breytingaskeið en hinar. En þær geta ekki læst sig inni.

Af þessari ástæðu er ekki ráðlegt til lengdar að reyna að banna fíknivalda, sem hafa náð almennri útbreiðslu í umheiminum. Ríkið getur hins vegar skattlagt þá til að hafa upp í kostnað við forvarnir, heilsugæzlu og meðferð sjúkdóma, sem beint eða óbeint stafa af fíknum.

Til lengdar er farsælla, að þjóðin læri að lifa við spilakassa eins og ýmsa aðra fíknivalda fremur en að fara sænsku leiðina, því að hún gefur aðeins frest í málinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóriðja er dýrkeypt

Greinar

Aldrei hefur verið svarað spurningunni um, hvort arðbærara sé að reisa orkuver og stóriðjuver heldur en að gera það ekki. Samt er náttúra án mannvirkja og mengunar orðin að fjárhagslega mælanlegri auðlind, sem nýtist í tekjum af þjónustu við ferðamenn.

Af örvæntingarfullri framgöngu íslenzkra stjórnvalda á síðustu áratugum mætti halda, að erlend stóriðja sé eins konar himnasending, sem komi efnahagsmálum þjóðarinnar í lag og ráðherrum á spjöld sögunnar. Þeir dansa beinlínis í kringum erlenda stóriðjuhölda.

Lengst gekk þessi þráhyggja í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, þar sem íslenzka ríkið neyddist til að reiða fram meira en helming hlutafjárins; útvega raforkuverð, sem er lægra en hjá álverinu í Straumsvík; og þola bilaðan mengunarbúnað árum saman.

Þjóðin væri líklega mun betur sett, ef stjórnvöld hefðu varið þessari fyrirhöfn til að búa í haginn fyrir ferðaþjónustu í landinu. Raforkuverð til almennings væri sennilega svipað, atvinnutækifæri væru sennilega margfalt fleiri og hátekjustörf væru sennilega nokkru fleiri.

Samningamenn okkar í stóriðju eru alltaf langt á eftir tímanum í mati á því, hvað telja megi ásættanlega mengun. Þess vegna hafa þeir alltaf samið um minni mengunarvarnir en þær, sem beztar eru í útlöndum. Þeir hafa meira að segja notað það sem agn fyrir stóriðjumenn.

Jafnframt eru ferðamenn að gera meiri kröfur. Þeim fækkar, sem vilja leggja leið sína til fjarlægra landa til að aka framhjá stóriðjuverum. Ef stóriðjuáform íslenzkra stjórnvalda væru kynnt í víðlesnum fjölmiðlum í útlöndum, mundi fljótlega stórsjá á ferðamannastraumi.

Í varnarstríði þráhyggjumanna stóriðjunnar kemur fram, að sætta megi stóriðju og náttúru. Að vissu leyti er það rétt. Þannig getur heilsulind undir gufuorkuveri orðið að heimsfrægum ferðamannastað. Tilviljun Bláa lónsins sýnir, að ótrúleg dæmi geta gengið upp.

Hins vegar dettur engum viti bornum manni í hug, að sætta megi mengun og ferðamannastraum. Efst á bannlistanum er auðvitað efnafræðileg mengun, sem er banabiti ferðamála. Ekkert þýðir að segja ferðamönnum, að útblástur stóriðjuvera sé bara meinlaust ryk.

Sjónmengun er flóknara dæmi, sem jafnvel má snúa ferðamálum í hag, ef rétt er haldið á spilunum, svo sem við Bláa lónið. Hugsanlegt er líka, að með lagni megi ganga frá uppistöðulónum, stíflum og raforkuverum á þann hátt, að það fæli ekki ferðamenn í burtu.

Frá sjónarmiði náttúruverndar og ferðaþjónustu er orðið úrelt að hengja raforkulínur upp í stálturna. Þessar leiðslur þarf allar að leggja í jörð, ekki aðeins þær, sem eftir er að leggja, heldur líka hinar, sem þegar hafa verið lagðar, oft í algeru tillitsleysi við landið.

Kostnaði við mengunarvarnir, frágang mannvirkja og strengi í jörð þarf að bæta við fjárhagsdæmi stóriðjunnar, sem þó var fyrir svo lélegt, að það er orðið að leyndarmáli, hvert orkuverð hennar er. Stjórnvöld hafa trassað að reikna kostnaðardæmi stóriðjunnar til enda.

Ekki getur heldur talizt farsæl leið til að selja þjóðinni hugmyndir um stóriðju að bregða leynd yfir það atriði, sem hingað til hefur verið eitt meginatriði umræðunnar um stóriðju, það er orkuverðið. Enda virðist ráðherrum vera að takast að koma óorði á stóriðju yfirleitt.

Linna þarf þráhyggju í stóriðju. Fá þarf færa menn til að reikna fjárhagsdæmi hennar á nýjan leik með nýjum breytum, einkum náttúruauði og ferðaþjónustu.

Jónas Kristjánsson

DV

Kína út og Japan inn

Greinar

Japanir eru fjórðu stærstu kaupendur íslenzkra afurða á eftir Bretum, Þjóðverjum og Bandaríkjamönnum. Þeir kaupa af okkur vörur fyrir 13-15 milljarða króna á hverju ári, en selja hingað í staðinn vörur fyrir þriðjung þess verðs, um 5 milljarða króna á hverju ári.

Kaup Japana á íslenzkum vörum eru eitt hundrað sinnum meiri en kaup Kínverja á íslenzkum vörum, sem nema rúmlega 0,1 milljarði króna. Samt höfum við sendiráð í Kína, en ekki í Japan. Sendiráðið í Kína kostar 50 milljónir á ári, sem fara allar beint í súginn.

Ríkisstjórn Íslands hefur nokkrum sinnum rætt þörfina á íslenzku sendiráði í Japan, en fjárskortur hefur staðið framkvæmdum fyrir þrifum. Er þó til sú einfalda og ódýra lausn á málinu að leggja niður óþarft sendiráð í Kína og nota peningana í sendiráð í Japan.

Eðlilegt er, að fámenn þjóð leitist einkum við að hafa sendiráð sín, þar sem viðskiptahagsmunir eru mestir. Við höfum sendiráð í fimm af mestu kaupalöndum okkar öðrum en Japan og svo auðvitað á stöðum, þar sem starfa fjölþjóðastofnanir, er varða okkur miklu.

Við höfum einnig sendiráð í löndum, sem kaupa lítið af okkur. Mest sker þar Kína í augu, en síðan kemur Svíþjóð, þar sem menn kaupa þó af okkur tíu sinnum meiri verðmæti og eru nátengdir okkur í menningarlegum samskiptum. Eina óþarfa sendiráð okkar er í Kína.

Þrjú lönd önnur en Japan kaupa mikið af okkur, án þess að við höfum þar sendiráð. Það eru Spánn, Holland og Sviss. Samanlagt nema kaup þeirra á íslenzkum vörum svipaðri upphæð og Japansviðskiptin. Það er því ekki eins brýnt að koma þar upp sendiráðum.

Sendiráð í Japan er þeim mun nauðsynlegra fyrir þá sök, að landið er langt í burtu og þjóðin að ýmsu leyti frábrugðin í siðum og háttum. Við þurfum að leggja okkur fram við að átta okkur á sérstöðu Japana og auðvelda starfsfólki í útflutningi að umgangast þá af prýði.

Japanir hafa einnig þá sérstöðu meðal þjóða Asíu að hafa samið sig bezt að vestrænum stjórnarháttum og lagaformum. Í Japan gilda formleg lög, en ekki geðþótti valdhafa eins og í Kína. Í Japan er farið eftir leikreglum vestræns lýðræðis, viðskipta og markaðsbúskapar.

Út af fyrir sig er Japan margfalt stærri markaður en við getum sinnt og tekur við vörum, sem ekki seljast á öðrum markaði. Við höfum mikla möguleika á að efla þennan markað og gera það í trausti þess, að viðskiptaumhverfi þar í landi haldizt óbreytt um langan aldur.

Öðru máli gegnir um Kína. Reynslan sýnir, að þar taka valdhafar ákvarðanir út og suður eftir geðþótta. Reynslan sýnir líka, að það, sem gildir í einu héraði, gildir ekki í hinu næsta, af því að víða eru mútuþægnir héraðshöfðingjar, sem taka lítið mark á miðstjórninni.

Þótt sendiráð í Kína geti fengið ráðamenn þar í landi til að undirrita pappíra um viðskiptahætti, hafa slíkir pappírar hvorki gildi utan höfuðborgarinnar né fyrir ósjálfstæðum dómstólum, sem fylgja skipunum flokksins. Viðskipti við Kína eru því óeðlilega áhættusöm.

Ekki má heldur gleyma, að Kína á eftir að taka út blóðugt millibilsástand, þegar alræði flokksins víkur fyrr eða síðar fyrir valdaskiptakerfi á borð við þau, sem tryggja á Vesturlöndum og í Japan, að stjórnarskipti fari reglulega fram á friðsaman og formfastan hátt.

Með því að leggja niður sendiráð í Kína fæst fé til að stofna og reka sendiráð í Japan, sem nánast allir eru sammála um, að sé efst á óskalista kaupsýslunnar.

Jónas Kristjánsson

DV