Greinar

Einn hélt reisn sinni

Greinar

Þegar næturvörðurinn Christoph Meili var á eftirlitsferð um Union Bank í Zürich 9. þessa mánaðar, tók hann eftir tveimur tunnum barmafullum af skjölum í skjalaeyðingarherbergi bankans. Hann sá, að efstu skjölin voru um veðsetningar fasteigna í Berlín 1933-1937.

Meili gerði það, sem samvizkan bauð honum og sem hann mátti alls ekki sem starfsmaður eins stærsta bankans í Sviss. Hann tók bunka af skjölum og fór með hann til menningarstofnunar gyðinga í borginni. Hann vissi, að hann yrði rekinn, en afhenti samt skjölin.

Skýringar bankans á veru skjalanna í eyðingarherberginu voru léttvægar. Bankinn sagðist hafa ráðið sagnfræðing til að eyða gömlum skjölum, en gat ekki sagt, hver hann var. Sagnfræðingurinn dularfulli hafði enga skrá haldið yfir skjölin, sem hann hafði tortímt.

Bankinn tók þó sérstaklega fram, að eyddu skjölin hefðu ekki að neinu leyti varðað umræðuna, sem fer fram í Sviss um þessar mundir um aðild svissneskra banka að stefnu þýzkra nazista um útrýmingu gyðinga. Enginn tekur þessa fullyrðingu bankans alvarlega.

Umræðan snýst um, að svissneskir bankar tóku við verðmætum frá Þýzkalandi, sem þeir vissu, að voru illa fengin, þar á meðal gull og pappírar, sem áður höfðu verið í eigu gyðinga. Þegar þjófarnir hurfu líka í síðari heimsstyrjöldinni, sátu bankarnir uppi með verðmætin.

Svissneski bankinn Eidgenössische var einna umsvifamestur í Þýzkalandsviðskiptum á Hitlerstímanum. Þegar þriðja ríkið hrundi, varð bankinn gjaldþrota og Union Bank tók við þrotabúinu. Þess vegna er sá banki talinn búa yfir merkum sagnfræðiheimildum frá Hitlerstíma.

Stjórnvöld og bankar í Sviss hafa gert með sér samsæri um að nota svissneska bankaleynd til að gera bönkum kleift að nota illa fengin verðmæti sem sín eigin, þótt í því felist tvöfaldur stuldur af hálfu bankanna. Sæta Svisslendingar nú harðri gagnrýni vegna þessa.

Eini Svisslendingurinn, sem heldur reisn vegna þessa máls, er næturvörðurinn Meili, sem bjargaði hluta skjalanna úr eyðingarherbergi Union Bank. Hann er orðinn að tákni um mannlega reisn, en bankaherbergið er orðið táknrænn minnisvarði um eyðingarbúðir nazista.

Sviss hefur sem ríki beðið álitshnekki af augljósri græðgi, sem ræður samkomulagi ríkis og banka um að þvælast fyrir kröfum frá útlöndum um, að opinberuð verði bankaskjöl frá Hitlerstímanum, svo að komast megi að hinu sanna um aðild svissneskra banka.

Þegar svo kemur í ljós, að einn stærsti banki landsins er að láta eyða skjölum, sem varða þennan tíma, einmitt þegar lagðar hafa verið fram kröfur um birtingu þeirra, má öllum vera ljóst, að bankinn hefur óhreint mjöl í pokahorninu og að stefna ríkisins er siðlaus.

Eðlilegast væri, að samfélag vestrænna þjóða höfðaði alþjóðlegt mál gegn svissneska ríkinu og svissneskum bönkum fyrir aðild að glæpum gegn mannkyninu, svo að ljóst verði, að gróði landsins af myrkraverkunum bæti aldrei upp siðferðilegan álitshnekki þess.

Öðru máli gegnir um Svisslendinga sem þjóð. Framtak Meilis næturvarðar sýnir, að krumpað siðferði ríkis og banka hefur ekki mengað siðferði alls almennings í landinu. Raunar hafa ýmsir borgarbúar í bankaborginni Zürich tekið málstað Meilis og varið framtak hans.

Atburðarásin er raunar aðeins ný útgáfa af þekktri sögu um styrk mannlegrar reisnar í miðjum sora umhverfis, sem hefur misst fótanna í taumlausri græðgi.

Jónas Kristjánsson

DV

Fólkið kýs með fótunum

Greinar

Dæmi eru um, að auglýst hafi verið erlendis, að gott sé að fjárfesta á Íslandi, af því að launakostnaður sé hér heldur lægri en í öðrum vestrænum löndum, en starfshæfni manna svipuð eða betri. Þannig hefur til dæmis verið reynt að fá hugbúnaðargerð inn í landið.

Með þessu er verið að nota láglaunakerfið í landinu eins og söluvöru svo sem Japanir og síðar Suður-Kóreumenn höfðu áður gert. Þetta er ágæt aðferð til að ná tímabundnum árangri við að efla atvinnulífið. Með lágum launum verður það hæfara til fjölþjóðlegrar samkeppni.

Samkeppni þjóða um fjármagn til að byggja upp nýjar og arðvænlegar atvinnugreinar er hins vegar ekki eina samkeppnin, sem þarf að hafa í huga. Þjóðir eru ekki aðeins í samkeppni um fjármagn, heldur einnig um fólk. Það þarf bæði fólk og peninga til að búa til arð.

Oftast hefur verið einblínt á fjármagnið, af því að það er ekki eins staðbundið og fólk. Auðveldara er að flytja peninga frá stöðum, sem gefa lítinn arð, til staða, sem gefa mikinn arð, heldur en að flytja fólk milli staða af sama tilefni. En fólk greiðir þó atkvæði með fótunum.

Þannig urðu íslenzkar sveitir undir í samkeppni um fólk við sjávarplássin. Þannig eru lítil sjávarpláss að verða undir í samkeppni við stór sjávarpláss. Og þannig verður landsbyggðin í heild smám saman að láta undan síga í samkeppni við höfuðborgarsvæðið.

Þessir fólksflutningar innanlands raska ekki stöðu þjóðfélagsins gagnvart öðrum löndum, ef fólk léti við þá sitja. En það fer lengra. Fiskvinnsla á Jótlandi hefur dregið marga til sín. Öflugt velferðarkerfi á Norðurlöndum hefur einnig sogað Íslendinga yfir pollinn.

Ísland er sem ríki í samkeppni við önnur lönd um fólk. Sérstaklega er þessi samkeppni nærtæk á Norðurlöndum vegna samninga, sem gera Íslendingum tiltölulega auðvelt að fá vinnu í þessum löndum. Margt dugnaðarfólk hefur notað þetta og enn fleiri munu gera það.

Mesta samkeppnin um fólk mun verða af hálfu Noregs á næstu árum. Þar er mikill uppgangur vegna olíugróða. Þar er skortur á fólki til starfa og boðið upp á miklu hærri laun og miklu öflugra velferðarkerfi, að meira eða minna leyti vegna hagnaðar af olíuvinnslu.

Reynslan sýnir, að Íslendingar eiga auðvelt með að fá góða vinnu í Noregi. Margir munu á næstu árum hafna íslenzkri húsbréfaþrælkun á lágum launum og leita skjóls í þjóðfélagi, sem er fólki vinsamlegra. Þannig verður Ísland undir í samkeppni við Noreg um ungt fólk.

Við erum líka að verða undir í samkeppni við umheiminn um hæfileikafólk, sem er alþjóðlega samkeppnishæft. Við lesum vikulega um Íslendinga, sem hefur vegnað vel í hámenntastofnunum víða um heim og eru hvarvetna eftirsóttir vegna kunnáttu og atgervis.

Hér er hins vegar ekkert fyrir þetta fólk að gera, af því að landið hefur að mestu staðnað á frumframleiðslustigi, hefur ekki innviði atvinnulífs á sviðum þekkingargreina og getur ekki borgað samkeppnishæf laun. Verst er, að fáir láta sig þetta nokkru skipta.

Við þyrftum þó að skipta út undirmáls- og meðalmálsmönnum í stjórnmálum og fá í staðinn gerendur, sem treysta sér til að rífa niður verndarkerfi frumframleiðslu og fáokunar, kvótakerfi, byggðastefnur, einkaleyfi, tollmúra, reglugerðir og tilskipanir ráðuneyta.

Við þyrftum að hreinsa til, svo að grundvöllur sé fyrir samkeppnishæfni landsins um hvort tveggja, fólk og fjármagn. Annars verður allt landið að einum útnára.

Jónas Kristjánsson

DV

Hnignun velferðar

Greinar

Þótt erfiðleikar velferðarríkisins á Íslandi séu að flestu leyti svipaðir og annarra ríkja af því tagi, er þó unnt að sjá sérstök einkenni hér á landi. Þau sýna, að hluti vandans felst í, að hinir vel stæðu eru að stækka hlut sinn af þjóðarkökunni á kostnað hinna, sem minna mega sín.

Margt er svipað hér á landi og annars staðar. Þjónusta við sjúka hefur verið skert af því að innbyggð þensla var komin í kostnað við hana án þess að gæðin bötnuðu. Reynt hefur verið að taka á sumum hlutum vandans, svo sem að skipta úr dýrum lyfjum í jafngóð ódýrari lyf.

Ekki hefur verið tekið á sumum þáttum sjúkraþjónustunnar vegna annarra hagsmuna, svo sem byggðastefnu. Til dæmis fer of mikill hluti fjármagnsins í að reka dýr og óhagkvæm sjúkrahús í dreifbýli meðan lokað er deildum á alvöruspítölum fyrir alla landsmenn.

Þjónusta sjúkrahúsakerfisins hefur þannig rýrnað í heild, þótt hlutur þess í þjóðarkökunni hafi ekki minnkað. Ef tekið væri á öllum kostnaðarliðum þess og peningar millifærðir til knýjandi verkefna, væri unnt að halda óbreyttri þjónustu á óbreyttum tilkostnaði.

Sjúkrahúsakerfið er vandamál af því að ekki er staðið nógu vel að málum, en ekki vegna þess að verið sé að taka frá því peninga til annarra þarfa í þjóðfélaginu. Sú er hins vegar raunin á ýmsum öðrum sviðum, sem eru þættir velferðarkerfisins eða tengjast því.

Með aðgerðum ríkisins hefur ójöfnuður tekna aukizt um 22% á einum áratug. Það hefur meðal annars verið gert með breyttum skattalögum og með frumkvæði ríkisins að þjóðarsáttum á vinnumarkaði, sem hafa falið í sér, að láglaunafólk hefur fengið litla kauphækkun.

Með því að skoða skattahlutfall annnars vegar og barnabótaauka og vaxtabætur af húsbréfum hins vegar kemur skýrt í ljós, að skattbyrði ungs barnafólks, sem er að reyna að koma sér fyrir, er meiri en annarra Íslendinga og hefur hlutfallslega aukizt á síðustu árum.

Skattleysismörk hafa hækkað, þannig að fólk borgar skatta af lægri tekjum en áður. Minnkað hefur afsláttur, sem veittur var barnafólki og húsbréfafólki. Þannig hefur verið saumað að ungu fólki, sem er með mikla útgjaldaþörf og hefur frá litlum tekjum upp í meðaltekjur.

Breyting á stöðu heimilanna í þjóðfélaginu endurspeglast á uggvænlegan og raunar skelfilegan hátt í skuldum þeirra. Þær aukast með hverju einasta ári og hafa nærri þrefaldazt á einum áratug. Í heild námu þær 132 milljörðum árið 1986 og 343 milljörðum árið 1996.

Sjúkrahúsin eru dæmi um, að velferðarþjóðfélagið rýrnar sumpart vegna þess, að sumir þættir ríkisins eru ekki nógu vel reknir. Dæmin um þjóðarsáttir á vinnumarkaði, aukna skattbyrði ungs fólks og auknar skuldir heimilanna sýna hins vegar tilfærslur milli stétta.

Þegar ójöfnuður tekna eykst um meira en fimmtung á einum áratug, er það afleiðing þess, að stjórnvöld hugsa meira um velferð annarra en ungs láglauna- og millilaunafólks með börn og húsbréf á framfæri. Þau hafa verið að hlusta á hina ríku í þjóðfélaginu.

Velferðarkerfi landbúnaðarins er varið með skattfé og höftum. Velferðarkerfi útgerðarmanna er eflt með auknu svigrúmi í meðferð kvóta. Velferðarkerfi stórfyrirtækja er magnað með einkavinavæðingu ríkisfyrirtækja á borð við síldarverksmiðjur ríkisins.

Við höfum um nokkurt skeið búið við stjórn hinna ríku fyrir hina ríku. Það er veigamesta orsök aukinnar stéttaskiptingar í þjóðfélaginu á síðustu árum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þá það

Greinar

“Þá það,” sagði þáverandi fjármálaráðherra Nýja- Sjálands, Roger Douglas, þegar honum var árið 1984 bent á, að umbætur hans í efnahags- og fjármálum mundu kosta ósigur í næstu þingkosningum. Hann vildi fremur marka spor en sitja til þrautar í hægum sessi.

Enginn man, hverjir hafa verið fjármálaráðherrar Nýja-Sjálands. Aðeins eitt nafn lifir í sögunni. Það er nafn Douglas, sem lagði grundvöll að viðreisn hagkerfis landsins. Um allan heim er vitnað til hans og róttækra aðgerða hans. Nafn hans er orðið að táknmynd.

Þegar róttækra aðgerða er þörf, kalla þjóðir stundum á slíka stjórnmálamenn, sem hafa sterka sjálfsmynd og telja sig ekki þurfa sífellt að spegla sig í skoðanakönnunum. Þeir framkvæma það, sem þeir telja nauðsynlegt, og standa síðan eða falla í næstu kosningum.

Saga nútímans man eftir þessum, en hefur gleymt hinum. Hún man eftir Winston Churchill og Margaret Thatcher, sem fóru í framkvæmd eftir skoðunum sínum og létu ekki skoðanakannanir taka sig á taugum. Hún mun hins vegar gleyma starfsbróðurnum John Mayor.

Þjóðir í austanverðri Mið-Evrópu hafa sumar kallað á öndvegismenn, þegar þær þurftu í einu vetfangi að flytja sig úr hagkerfi Varsjárbandalagsins yfir í markaðsbúskap Vestur-Evrópu. Þannig vegnaði Tékkum, Pólverjum og Eistlendingum betur en mörgum öðrum.

Í löndum þeirra var skorið á hnúta og grundvöllur lagður að bjartri framtíð. Margir hinna ótrauðu stjórnmálamanna urðu ekki langlífir í embætti, en þeim mun varanlegri á spjöldum sögunnar. Þeir mældu þar árangur sinn, en ekki í skoðanakönnunum líðandi stundar.

Himinn og haf er milli þeirra stjórnmálamanna, sem mæla árangur sinn á spjöldum sögunnar, og hinna, sem mæla árangur sinn af langlífi í hægum sessi. Því miður hefur hinum fyrrnefndu farið fækkandi í stjórnmálum Vesturlanda á lygnu stjórnmálaskeiði nútímans.

Í framtíðinni mun tveggja íslenzkra stjórnmálamanna síðustu áratuga verða minnzt betur en flestra annarra slíkra frá sama tíma. Það eru prófessorarnir Gylfi Þ. Gíslason og Ólafur Björnsson, sem voru hugmyndafræðingar Viðreisnar, upphafsatburðar íslenzks nútíma.

Gylfi og Ólafur knúðu Viðreisn í gegn, af því að þeir voru sannfærðir um, að hún yrði þjóðinni til mikils gagns. Þeir vildu fremur skilja eftir sig spor í efnahagssögu þjóðarinnar en að verða augnakarlar skoðanakannana. Mjög fáir slíkir menn hafa komið fram síðan.

Síðustu árin hafa einkum valizt til pólitískra áhrifa hér á landi þeir menn, sem brennandi áhuga hafa á því einu að komast í ráðherrastól og sitja þar sem lengst. Í núverandi ríkisstjórn eru eingöngu slíkir menn, sem væntanlega verða allir gleymdir eftir hálfa öld.

Þetta eru síður en svo verri menn en hinir, sem telja sig fremur vera í stjórnmálum til að hafa snögg og langlíf áhrif heldur en að sitja um langan tíma að áhrifalausum völdum. Þeir koma bara ekki á þeim breytingum, sem þarf til að koma þjóðinni milli þrepa í sögunni.

Þjóðarhagur kallar á róttækar breytingar á ýmsum sviðum, einkum í hinum hefðbundnu atvinnuvegum, fjölþjóðasamstarfi og í miðstýringu af hálfu ríkisins. Kvótakerfi í landbúnaði og fiskveiðum riða til dæmis til falls og hin dauða hönd miðstjórnarinnar flækist víðar fyrir.

Við þurfum fólk, sem vill bylta þessu, skilja eftir spor og hljóta varanlegan orðstír. Við þurfum fólk, sem segir “þá það”, ef því er spáð falli í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kallað til arðs

Greinar

Kaup Akureyrarfélagsins Samherja á Ísafjarðartogaranum Guðbjörgu hefur magnað andstöðu við kvótakerfið hjá fólki í sveitarfélögum, sem hafa farið halloka í baráttunni um kvótann. Menn sjá beinlínis fram á, að heil sjávarpláss geti orðið kvótalaus með einu pennastriki.

Áður hafði komið í ljós, að ekki nýtast ákvæði í kvótalögum um forkaupsrétt heimamanna. Kaupendur kvóta stofna bara fyrirtæki á kvótastaðnum og flytja síðan fyrirtækið í annað sveitarfélag. Það er nefnilega ekki hægt að banna flutning á fyrirtækjum milli sveitarfélaga.

Þessi samanburður á skipi og kvóta annars vegar og fyrirtæki hins vegar sýnir í rauninni haldleysi þess að reyna að setja hömlur við tilfærslu eigna. Erfitt er að hamla gegn flutningi eignarhalds á skipum úr því að flutningur á öðrum tegundum eignarhalds er frjáls.

Kvótar eru orðnir að eign, sem gengur kaupum og sölum og erfist jafnvel milli kynslóða. Einu hömlurnar, sem máli skipta, felast í veðsetningu kvóta, sem ekki má slíta frá viðkomandi kvótaskipi. Ríkinu mun reynast erfitt að hafa sérreglur um eina tegund eignar.

Það er eðli lausafjár, að það er laust. Skip má flytja milli staða eins og bíla og flugvélar. Á síðari árum eru sum frystihús meira að segja orðin að lausafé, því að þau eru um borð í skipum, sem geta farið hvert sem er. Enn lausari eru verðmætir pappírar, þar á meðal kvótar.

Sjávarplássin í landinu standa andspænis þróun, sem hvorki fæst hamin af þeim né æðri máttarvöldum á borð við ráðuneyti og Alþingi. Allt er orðið hreyfanlegt nema fasteignirnar, sem standa auðar og hrynja í verði, þegar fólkið flytur til staða, sem gefa því betri tækifæri.

Sveitarstjórnir reyna að fá lög og reglur gegn þessari þróun, en fá ekki við neitt ráðið, af því að það er eðli markaðsbúskapar að soga fé og fyrirhöfn til arðbærari verkefna. Sveitarfélög standa bara andspænis því að þurfa að vera samkeppnishæf á sveitarfélagamarkaði.

Þeir eru auðvitað margir, sem fara halloka og vilja gjarna frysta ástandið eins og það er hverju sinni. Menn spyrja auðvitað um leið, hvers vegna aðgangur að fiskimiðum sé skammtaður með þessum hætti en ekki einhverjum öðrum, sem valdi minni röskun í heimahögum.

Sumir vilja festa kvóta við sveitarfélög og aðrir við landshluta. Sumir vilja festa kvóta við sjómenn og aðrir vilja bæta landverkafólki við. Flestir eru þó þeir, sem vilja festa kvótann við þjóðina í heild, af því að það sé sanngjarnt, að hún eigi auðlindir lands og sjávar.

Ef kvóti væri afhentur sjómönnum og landverkafólki, mundi hann ganga kaupum og sölum og jafnvel erfast eins og núverandi kvóti og hefði því svipuð áhrif. Byggða- eða landshlutakvóti mundi breyta einu stóru skömmtunarkerfi í mörg lítil og draga úr arðsemi kvótans.

Frá sjónarmiði málsaðila er þetta ekki annað en barátta um aðild að skömmtunarkerfi, sem ríkið hefur komið á fót til að draga úr veiðisókn og gera sjávarútveg arðbæran. Það undarlega er svo, að ríkið gerir enga kröfu um hlut fyrir sig, þjóðina né aðra af þessum arði.

Þannig hafa margir þættir sameinazt um að gera kvótakerfið að púðurtunnu, sem færist nær eldinum með hverjum atburðinum á fætur öðrum. Sala Ísafjarðartogara til Akureyrarfélags er eitt skrefið að óumflýjanlegu uppgjöri í þjóðfélaginu um eignarhald á fiskimiðum.

Stjórnmálamenn hafa búið til skömmtunarkerfi og afhent einum málsaðila arðinn á silfurdiski. Aðrir málsaðilar hljóta að kalla til arðs með vaxandi þunga.

Jónas Kristjánsson

DV

Nokkrir fátæktarhópar

Greinar

Þótt fátæktarkönnun Félagsvísindastofnunar veiti ekki gagnlegt svar við því, hvort fátækt sé að aukast eða minnka hér á landi, sýnir hún glöggt, hvaða þjóðfélagshópum er hættast við fátækt. Þannig getur hún orðið til leiðbeiningar við tilraunir til úrbóta.

Í þremur hópum er fátækt fjórum sinnum útbreiddari en að meðaltali. Þessa þrjá hópa mynda atvinnuleysingjar, námsmenn og bændur. Í tveimur hópum til viðbótar er fátækt nærri tvöfalt útbreiddari en að meðaltali, hjá ungu fólki innan við þrítugt og einstæðum foreldrum.

Staða atvinnuleysingja á þessum mælikvarða kemur ekki á óvart. Hún endurspeglar þá ríkjandi skoðun í þjóðfélaginu, að bæta beri atvinnulausu fólki tekjuleysið án þess að ganga svo langt í samhjálpinni, að það fæli fólk frá því að halda áfram að reyna að útvega sér vinnu.

Breytingar verða ekki á þessu á næstu árum. Viðhorfin til atvinnuleysis eru blendin. Ólíklegt er, að pólitísk samstaða náist um að bæta stöðu atvinnulausra, því að margir telja of lítinn mun og raunar vinnuletjandi mun vera á tekjum láglaunafólks og atvinnuleysisbótum.

Um námsmenn ríkir líka pólitískur ágreiningur. Sjálfstæðisflokkurinn er valdamesta stjórnmálaaflið og hefur beitt sér fyrir skertum hlut námsmanna. Í umræðunni um þetta hafa fulltrúar flokksins eindregið lagzt gegn tillögum til að rétta stöðu námsmanna á nýjan leik.

Námslán eru nú torsóttari en áður var, einkum þeim, sem lenda í veikindum eða öðrum vandræðum og geta ekki sótt nám af fullum þunga. Vextir og endurgreiðslur eru harðari en áður og framlengja fátækt námsmanna eftir að námi er lokið. Þetta má öllum ljóst vera.

Til að bæta stöðu atvinnuleysingja og námsmanna þarf annað hvort að verða breyting á viðhorfum öflugra stjórnmálaafla eða þá að mynduð verði valdablokk án aðildar þessara stjórnmálaafla. Á hvorugu eru líkur um þessar mundir og alls ekki á kjörtímabilinu.

Ekkert er hins vegar því til fyrirstöðu, að umræða haldi áfram um breytt viðhorf þjóðfélagsins til atvinnulausra og námsmanna og að pólitísk samstaða náist síðar um að bæta stöðu þeirra. En það verður á kostnað einhverra annarra, því að þjóðartekjur vaxa ekki á móti.

Fátækt bænda er af öðrum toga. Ríkisstyrkurinn til þeirra nemur svo háum fjárhæðum, að hann einn er langt yfir fátæktarmörkum. Hann nýtist hins vegar ekki bændum til viðurværis, af því að hann fer í rekstur, sem ekki er bara arðlaus, heldur brennir beinlínis verðmætum.

Með skipulagsbreytingum, sem stefna að samdrætti í framleiðslu landbúnaðarafurða og minni hömlum á innflutningi ódýrrar búvöru verður hægt að nýta betur bændastyrkinn þeim til viðurværis. Ekki þarf annað en að viðurkenna vonlausa samkeppnisstöðu landbúnaðar.

Um ungt fólk og einstæða foreldra ríkir ekki skarpur stjórnmálaágreiningur, svo að svigrúm ætti að vera þar til aðgerða til að bæta stöðuna. Almennt er viðurkennt, að ungu fólki er íþyngt á ýmsan hátt, til dæmis í jaðarsköttum og aukinni greiðslubyrði húsnæðislána.

Einnig virðist svo sem, að ekki sé sterk hugmyndafræðileg andstaða gegn því að aukin sé velferð einstæðra foreldra í þjóðfélagi, sem er þannig rekið, að tvær fyrirvinnur þarf til að skapa hverri fjölskyldu mannsæmandi lífskjör. Til dæmis má auka barnabætur og meðlög.

Mikilvægast er, að vel stæður meirihluti þjóðarinnar missi ekki sjónar af fátæktinni og komi í veg fyrir, að þjóðin klofni varanlega í tvær aðskildar þjóðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkið mengar Hvalfjörð

Greinar

Staðfest er, að mengunarvarnir járnblendiversins á Grundartanga í Hvalfirði hafa verið bilaðar í tvö ár. Nágrannar versins handan fjarðarins í Kjós telja sig raunar heyra, þegar skrúfað sé fyrir á morgnana, er búið sé að hleypa út vinnslugufum í skjóli nætur.

Þetta vekur ýmsar spurningar. Einna áleitnust er, hvers vegna Kjósverjar hafa ekki fyrr gert neina marktæka tilraun til að vekja athygli á því, sem þeir segja nú vera óviðunandi ástand. Það, sem þeir kalla nú eiturgufur, hafa þeir látið yfir sig ganga í tvö ár.

Hin áleitna spurningin er um mengunareftirlit ríkisins með járnblendiverinu. Þetta eftirlit virðist alls ekki hafa verið til og allra sízt á síðustu tveimur árum, þegar verksmiðjan hefur með tilvísun til fátæktar sinnar komizt upp með að lagfæra ekki bilaðan hreinsunarbúnað.

Engan veginn er hægt að kalla það eftirlit, þótt járnblendiverinu sé skylt að senda Hollustuvernd ríkisins árlegar skýrslur um rekstur hreinsibúnaðarins. Slíkt má kalla síðbúna tilkynningarskyldu, en á ekkert skylt við eftirlit af hálfu umhverfisyfirvalda ríkisins.

Í kjölfar þessarar spurningar vaknar sú spurning, hvort ástæðan fyrir þessari léttúð hins opinbera gagnvart mengun frá járnblendiverinu sé hin sama og ástæðan fyrir léttúð þess gagnvart mengun frá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, sem einnig er í eigu ríkisins.

Spurningin verður þá, hvort ríkið sé sem aðaleigandi mengunarvaldandi verksmiðja fært um að gæta hagsmuna borgaranna gagnvart þessum verksmiðjum. Dæmin sýna, að svo sé ekki. Ríkið lætur þessar verksmiðjur einfaldlega komast upp með yfirgang í mengunarmálum.

Athyglisvert er, að þetta eru einmitt þær tvær verksmiðjur, sem fá ódýrasta orku frá enn einu fyrirtækinu, sem er í meirihlutaeigu ríkisins, það er Landsvirkjun. Ríkið lætur borgarana greiða niður raforku til þessara tveggja verksmiðja, af því að það á þær sjálft.

Þessi dæmi sýna, hve varhugavert er, að ríkið sé að vasast í stofnun og rekstri orkufyrirtækja og stóriðjufyrirtækja, sem hafa svo mikilla hagsmuna að gæta, að ríkið verður í reynd að láta almannahagsmuni víkja og misfara þannig með umboð sitt frá almenningi.

Þessi misheppnaða þjónustulund ríkisins gagnvart mörgum herrum í senn er ekki ókeypis. Það kemur núna í ljós, þegar ríkið vill setja upp fleiri stóriðjufyrirtæki við hlið járnblendiversins á Grundartanga. Sú ákvörðun reynist vera kornið, sem nú fyllir óánægjumælinn.

Ef ríkið hefði hagað málum á annan og betri veg í samskiptum við eigið fyrirtæki á Grundartanga, hefði það ekki lent í óvæntri andstöðu við fyrirhugaða byggingu álvers á sama stað. Þá hefði væntanlega ekki allt farið á hvolf í Kjós með tilheyrandi borgarafundum.

Eigendur Columbia álfyrirtækisins eru vafalaust í góðri trú, þegar þeir segja, að nýr og fullkominn hreinsibúnaður verði settur upp í gamalli verksmiðju, sem á að flytja til Grundartanga. En það dugir bara ekki, þegar borgararnir geta ekki treyst eigin stjórnvöldum.

Fólk er orðið vant því, að ráðherrar gefi loforð út og suður og beri nákvæmlega enga virðingu fyrir orðum sínum. Þess vegna reikna margir með, að mengun og orkuverð lendi í sama klúðri í samningum við álverið og þeir þekkja frá reynslunni af járnblendiverinu.

Markaðsþjóðfélög nútímans standa og falla með trausti. Þegar stjórnvöld hafa sífellt brugðizt trausti, geta þau ekki búizt við, að menn trúi þeim í þessu máli.

Jónas Kristjánsson

DV

Lítið og lélegt verk

Greinar

Í fyrradag var skýrt frá litlu og lélegu verki nefndar, sem gerði ekki það, sem henni var sagt að gera, notaði úreltar upplýsingar og sundurliðaði ekki þann þátt niðurstaðanna, sem reyndist áhugaverðastur. Þetta var nefnd, sem átti að leggja til lækkun framfærslukostnaðar.

Þessa nefnd skipaði forsætisráðherra í febrúar í fyrra með aðild Þjóðhagsstofnunar og heildarsamtaka vinnumarkaðarins. Í skipunarbréfi nefndarinnar var farið fram á tillögur um leiðir til að lækka framfærslukostnað heimilanna, en nefndin varð ekki við þeirri ósk.

Nefndin notaði ekki einu sinni nýjustu neyzlukönnun Hagstofunnar, frá 1995, heldur gamla könnun frá 1990. Það dregur auðvitað úr gildi vinnunnar fyrir líðandi stund, að upplýsingar um neyzlumagn eru gamlar. Þær eru til dæmis eldri en ofurtollar innfluttrar búvöru.

Gagnlegur er samanburður nefndarinnar á verðlagi á Íslandi og í löndum Evrópusambandsins árið 1994. Hann sýnir, að verðlag einkaneyzlunnar er um 13% hærra hér á landi en í Evrópu. Sumt er ódýrara hér, svo sem húshitun, en annað er dýrara, svo sem matur og drykkur.

Gagnlegri hefði verið samanburður við Bandaríkin, þar sem verðlagi á matvælum er ekki haldið uppi eins og í löndum Evrópusambandsins. Þá hefðum við einnig fengið samanburð við þá þjóð, sem býr við einna mest frelsi í framleiðslu og sölu á vörum og þjónustu.

Einn helzti gallinn við vinnu nefndarinnar er þó, að hún sundurliðar ekki þann þátt, sem óhagstæðastur er Íslandi og gefur því mest tilefni til aðgerða til lækkunar. Þetta er liðurinn: Matur, drykkur, tóbak, sem reyndist vera 48% dýrari hér á landi en meðaltalið í Evrópu.

Þetta er safnliður ólíkra þátta, sem hljóta afar misjafna meðferð stjórnvalda. Sumt er innfluttur matur, sem ekki er háður tollmúrum. Annað er innfluttur matur, sem þarf að sæta háum tollum. Og enn annað er innlend og ríkisvernduð framleiðsla landbúnaðarafurða.

Með því að slengja öllu þessu saman í einn pakka, dylst fyrir almenningi sú staðreynd, að sumt af mat er á svipuðu verði hér og í Evrópu, en annað er miklu dýrara og jafnvel margfalt dýrara. Talan 48% segir ekki alla söguna um þann mat, sem lýtur afskiptum ríkisins.

Ef þetta hefði verið sundurliðað, hefði niðurstaðan sýnt, að verðlag væri svipað hér á landi og í Evrópu, nema á þeim vörum, sem njóta sérstakrar verndar eða þurfa að sæta sérstökum verndartollum. Þá hefði nefndin komizt að kjarna málsins, sem hún ekki þorði.

Ekki þarf raunar nefnd til að segja fólki, að samkeppni ræður verði. Þar sem einhvers konar vernd er í spilinu, hvort sem það er sjálfvirk vernd á borð við fjarlægðarvernd eða tungumálavernd eða meðvituð vernd á borð við aðgerðir ríkisins, verður vara dýrari.

Nefndin hefði getað fundið þetta út, ef hún hefði kært sig um eða þorað. En þá hefði hún líka neyðzt til að fara eftir tilmælum skipunarbréfsins og ekki átt annars kost en að leggja til minnkun eða afnám verndarstefnu ríkisins, eins og hún kemur fram í höftum og tollum.

Þegar forsætisráðherra skipar nefnd, sem beinlínis er falið að gera tillögur um lækkun framfærslukostnaðar, hljóta það að vera mikil vonbrigði fyrir hann eins og marga aðra, að nefndin skyldi hlaupa frá verkinu af ótta við að trufla valdamikla aðila í þjóðfélaginu.

Hafa má til marks um eymd Alþýðusambandsins, að fulltrúi þess skuli eiga aðild að nefnd, sem hefur frumkvæði í að drepa lækkun vöruverðs á dreif.

Jónas Kristjánsson

DV

Afstæð fátækt

Greinar

Af mörgum gölluðum mælitækjum fátæktar, sem menn nota til að sanna bjargfastar skoðanir sínar á fjölda fátæklinga, er sízt nothæfur sá, sem Félagsvísindastofnun notar. Hann mælir nefnilega ekki fátækt þjóðarinnar, heldur ákveðinn þátt tekjuskiptingar hennar.

Það bætir ekki mælikvarðann að kalla þennan þátt tekjuskiptingarinnar fátæktarmörk. Mælikvarðinn sýnir afstætt, hversu stór hluti þjóðarinnar hefur minna en helming af meðaltekjum fólks í landinu, hverjar sem þær eru á hverjum tíma. Sem slíkur er hann gagnlegur.

Samkvæmt honum voru 10% þjóðarinnar innan fátæktarmarka í fyrra, nákvæmlega sama hlutfall og einum áratug áður. Í millitíðinni hafði þetta hlutfall lækkað árin 1986-1989 úr 10% í 8%, síðan hækkað 1989-1995 úr 8% í 12% og lækkað aftur 1995-1996 úr 12% í 10%.

Þessi lækkun milli ára endurspeglar ekki minnkandi fátækt, eins og hún mælist hjá aðilum á borð við Mæðrastyrksnefnd og þjóðkirkjuna, sem vinna að aðstoð við þá, sem ekki hafa ráð á að halda jól. Slíkar mælingar á raunveruleikanum sýna stóraukna fátækt milli ára.

Fátækt viðskiptavina hjálparstofnana getur verið að aukast á sama tíma og þeim fækkar, sem teljast innan fátæktarmarka samkvæmt mælikvarða Félagsvísindastofnunar. Sumir þeirra kunna til dæmis að vera búnir að nýta til fulls möguleika sína til skuldsetningar.

Breytingar á almennu efnahagsástandi hafa oftast meiri áhrif á fátækt en breytt tekjuskipting á breytingatímanum. Og efnahagsbreytingar fyrri ára hafa áhrif á fátækt líðandi stundar. Þannig getur fátækt farið vaxandi í nokkur ár eftir að kreppa náði hámarki.

Það liggur í eðli fátæktar, að sveiflur hennar fylgja í kjölfar breytinga á efnahagsástandi og koma því á eftir. Þegar kreppa er að byrja, hefur fólk ýmsa útvegi við að bjarga sér, sem það hefur ekki að áliðinni kreppu. Fólk getur til dæmis safnað skuldum í upphafi kreppu.

Mælikvarði hjálparstofnana er líka að nokkru leyti afstæður. Hann mælir tilfinningu fólks fyrir fátækt sinni. Verið getur, að fleiri en áður telji sig geta gengið hin þungu spor til hjálparstofnana, af því að fátækt sé ekki talin eins niðurlægjandi og áður var.

Þannig er verið að deila um tvo mælikvarða, sem hvor um sig er afstæður á sinn hátt. Annar mælir tekjuskiptingu og hinn tilfinningu fólks fyrir eigin fátækt, en hvorugur mælir raunverulega fátækt. Hinn síðari er þó ekki eins afstæður og bókhaldslegur og hinn fyrri.

Það segir mikla sögu um aukna fátækt í þjóðfélaginu milli áranna 1995 og 1996, að viðskiptavinum hjálparstofnana fjölgaði milli ára og að þeim viðskiptavinum fjölgaði, sem ekki eru fátækir af neinum sérstökum ástæðum öðrum en þeirri að vera á lágum launataxta.

Það hentar hins vegar stjórnvöldum í landinu að flagga tölum Félagsvísindastofnunar. Þær gera valdamönnum kleift að neita að taka mark á talsmönnum Mæðrastyrksnefndar, félagsmálastofnana sveitarfélaga og þjóðkirkjunnar og að halda áfram að hlúa að hinum ríku.

Í áramótaræðu sinni kaus forsætisráðherra að láta mælingar hjálparstofnana sem vind eða öllu heldur fjölmiðlafár um eyru þjóta. Hann beindi máli sínu til eiginhagsmuna þess fjölmenna meirihluta þjóðarinnar, sem hvorki er fátækur né undir neinum fátæktarmörkum.

Fátæktin er einmitt erfið viðureignar fyrir þá sök, að fátæklingar eru eindreginn minnihlutahópur, sem er nánast ósýnilegur vel stæðum meirihluta þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hroki án dómgreindar

Greinar

Þegar Finnur Ingólfsson ráðherra framlengdi síðast leyfi Björns Friðfinnssonar frá störfum ráðuneytisstjóra til starfs hjá Fríverzlunarsamtökunum fyrir rúmu ári, var leyfið til eins árs og háð því skilyrði, að Björn kæmi til síns gamla starfs í ráðuneytinu nú um áramótin.

Það kom því öllum á óvart, að ráðherrann vildi fyrir síðustu jól ekki fá ráðuneytisstjórann aftur til starfa og hugðist koma honum fyrir annars staðar í kerfinu. Samkomulag náðist samt daginn fyrir gamlársdag um, að ráðuneytisstjórinn fengi starf sitt síðar á árinu.

Samkomulagið er staðfest af forsætis- og utanríkisráðherra, af því að undirskrift Finns var ekki talin marktæk. Niðurstaðan felst í, að ráðuneytisstjórinn gegni að sinni hlutverki sérstaks ráðgjafa ríkisstjórnarinnar, en fái starf sitt aftur í síðasta lagi fyrir næstu áramót.

Mál þetta olli ríkisstjórninni vandræðum og álitshnekki. Ungur ráðherra hafði blindazt svo af upphefð sinni, að hann taldi sig vera yfir siðareglur hafinn og bjóst við að komast upp með það. Hroki og dómgreindarskortur leiddu ráðherrann til fingurbrots.

Málið varð ríkisstjórninni óþægilegra fyrir þá sök, að ráðherrann gerði undirskriftir sínar verðlausar á einu bretti. Það varð til þess, að leiðtogar ríkisstjórnarinnar urðu að taka þátt í að hreinsa upp eftir hann og ábyrgjast undirritun hans á samkomulaginu um áramótin.

Lausnin felst eins og venjulega í, að ráðherra ber enga ábyrgð á misgerðum sínum, heldur verður reikningurinn sendur skattgreiðendum. Búin er til staða, sem ekki er á fjárlögum, til að gera ráðherranum kleift að tefja innkomu ráðuneytisstjórans í nokkra mánuði eða heilt ár.

Ráðherrarnir, sem komu að málinu, tóku sér fjárveitingavald, er á að vera í höndum Alþingis, til að bjarga andliti ráðherrans. Ekki verður þó séð, að það bjargi andliti hans eða félaga hans að framlengja dómgreindarskerta og hrokafulla ráðstöfun til bráðabirgða.

Ráðherrann hefði hins vegar getað bjargað andlitinu strax með því að segjast hafa gleymt fyrra bréfi sínu og taka ráðuneytisstjórann inn um þessi áramót. Frestun heimkomunnar í ráðuneytið felur ekki í sér neina andlitsbjörgun, heldur er hún almennt höfð í flimtingum.

Fram að máli Finns hafði ríkisstjórnin sloppið að mestu við þá umræðu um spillingu og hroka, sem tengzt hafði næstu ríkisstjórnum á undan henni. Líklegt er, að hún láti málið sér að kenningu verða og haldi sig að mestu frá vandræðum á þessum afmörkuðu sviðum.

Sterk bein þarf til að þola ráðherradóm í okkar þjóðfélagi, sem byggist óeðlilega mikið á reglugerðum og tilskipunum ráðherra og óeðlilega lítið á settum leikreglum þingræðisins. Of miklu valdi er safnað í hendur ráðherra, sem reynast misvitrir eins og annað fólk.

Fjölþjóðleg reynsla er fyrir því, að hefðbundið lýðræði er heppilegra rekstrarform þjóðfélags en ráðherralýðræðið, sem komið hefur verið upp hér á landi. Tímabili menntaðra einvalda er fyrir löngu lokið í veraldarsögunni, enda reyndist það stjórnkerfi illa til lengdar.

Setja þarf auknar skorður við rassaköstum ráðherra og takmarka útgáfu þeirra á tilkynningum af ýmsu tagi, einkum þeirra, sem valda útgjöldum af hálfu ríkisins. Ennfremur þarf að endurvekja þá gömlu hefð, að ráðherrar verði að standa við undirskriftir sínar.

Mál Finns minnir á, að lýðræði á Íslandi hefur ekki að öllu leyti þróazt eftir farsælum brautum nágrannaþjóðanna og að endurskoða þarf sérstöðu okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekkert að frétta

Greinar

Reykjavíkurborg ákvað á liðnu ári að losa um eignir og minnka þátttöku sína í atvinnulífinu. Minna fór fyrir slíku hjá ríkisstjórninni, sem ætlaði þó að selja fjórðung í Sementsverksmiðjunni og kanna verðgildi eigna Áburðarverksmiðjunnar. Um símann er flest á huldu.

Svokallaðir félagshyggjuflokkar standa að minnkun borgarafskipta af atvinnulífinu og svokölluð hægristjórn stendur að óbreyttum ríkisafskiptum af atvinnulífinu. Þetta sýnir, að hugtök í stjórnmálum geta verið dálítið misvísandi og byrgt mönnum sýn á stöðu mála.

Forsætisráðherra okkar hefur lýst aðdáun sinni á Margréti Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Sú aðdáun nær hvorki til róttækra skoðana frúarinnar á þjóðmálum, né markvissra tilrauna hennar til að nota embætti sitt til að framkvæma þessar skoðanir.

Thatcher minnti á de Gaulle Frakklandsforseta. Hún vildi í senn breyta umhverfi sínu og hafa frumkvæði í því. Fólk getur haft skiptar skoðanir á því, hvort heppilegt sé, að ráðamenn þjóða séu svo athafnasamir. En ljóst er, að íslenzk þjóðmál eru ekki í slíkum farvegi.

Okkar ríkisstjórn vill ekki einu sinni ræða hugsanlega þáttöku okkar í Evrópusambandinu. Hún vill ekki frumkvæði, heldur viðbrögð við gerðum annarra. Þegar samið er í Evrópu um afnám vegabréfaskoðunar, sem yki skoðun íslenzkra vegabréfa, vill hún fá að vera með.

Þannig erum við alltaf að bregðast við frumkvæði annarra. Við verðum fyrir hertu heilbrigðiseftirliti á íslenzkum fiski á landamærum evrópskra ríkja og semjum því um að fá að taka þetta eftirlit að okkur á upprunastaðnum. Við breytum líka sláturhúsum að evrópskri kröfu.

Meðan við höfðum tækifærið vildum við ekki vera eins og Lúxemborgarar, sem taka þátt í stjórn Evrópusambandsins. Við viljum hins vegar hafa her manns við að þýða evrópskar reglugerðir á íslenzku. Við viljum laga okkur að breyttum aðstæðum í umhverfi okkar.

Frumkvæðisleysið í sölu ríkisfyrirtækja og málefnum Evrópu eru greinar af sama meiði kyrrstöðustefnu. Aðrar greinar hennar eru kvótakerfið í sjávarútvegi og ríkisrekstur landbúnaðar. Í öllum þessum tilvikum vill ríkisstjórnin óbreytt ástand, sé þess nokkur kostur.

Forsætisráðherra og ríkisstjórn hafa ekki fundið þessa stefnu upp. Hún er ekkert eyland utan veruleika þjóðarinnar. Kyrrstöðustefnan er í samræmi við þjóðarvilja, sem er ekki gefinn fyrir breytingar og vill til dæmis hverja þjóðarsáttina á fætur annarri í kjaramálum.

Öll nýbreytni í atvinnulífinu er eins konar fiskeldi eða loðdýrarækt og snýst að minnsta kosti um landbúnað og sjávarútveg. Stóriðja kemur öll að utan og lifir eigin lífi utan íslenzks veruleika. Ríkisvaldið og símafyrirtæki þess leggja steina í götu athafna í tölvuupplýsingum.

Um allt þetta er eins konar þjóðarsátt íhaldssams meirihluta þjóðarinnar, sem vill ekki láta trufla kyrrstöðu sína. Hann vill mikil ríkisafskipti, mikið skipulag að ofan, mikið af reglugerðum, mikið af réttlæti, mikla dreifingu auðsins. Hann vill frið um það, sem fyrir er.

Þetta hefur jákvæðar hliðar, til dæmis höfum við náð að láta verðfestu leysa verðbólgu af hólmi. Þetta hefur neikvæðar hliðar, til dæmis er enn verið að hækka opinber gjöld skattborgaranna um þessi áramót. Þetta eru allt einkenni þjóðfélags í lygnum polli kyrrstöðunnar.

Í grundvallaratriðum var ekkert að frétta af þjóðinni á liðnu ári og ekki er við neinum fréttum að búast af henni á þessu ári. Fólk fæðist bara, lifir og deyr.

Jónas Kristjánsson

DV

Orð skulu standa

Greinar

Þegar þú færð þér leigubíl, heimtar bílstjórinn ekki fyrirframgreiðslu á þeim forsendum, að þú gætir hlaupið burtu að ferð lokinni. Þegar þú ferð í veitingahús, er ekki krafizt upphafsgreiðslu á sömu forsendum. Einföld viðskipti byggjast á gagnkvæmu trausti aðila.

Þegar fræðimenn leiða hugann að ástæðum þess, að þjóðum gengur misvel að komast í álnir á forsendum lýðræðis og markaðsbúskapar, hafa þeir á síðustu árum einkum staðnæmzt við nauðsyn þess, að orð skuli standa. Traust milli manna er forsenda sjálfvirkra samskipta.

Reynt hefur verið að stuðla að þessu trausti með því að setja lög og reglur um samskipti á ýmsum sviðum, einkum í viðskiptum. Lög og reglur setja mönnum leikreglur, sem einfalda þessi samskipti og koma þeim í sjálfvirkan farveg. Með lögum skal land byggja.

Ekki er nóg, að lög séu framleidd og skráð. Einnig þarf að gæta þess, að allir séu jafnir fyrir þeim. Og loks er mikilvægt, að þau endist, svo að ekki sé verið að skipta um leikreglur í miðju spili. Og fleira þarf en lög ein.

Dæmi Bandaríkjanna sýnir, að lög og reglur nægja ekki. Til skamms tíma voru Bandaríkjamenn meðal fremstu þjóða í gagnkvæmu trausti málsaðila. Þessi hornsteinn hefur óðum verið að bresta, svo sem sést af ótrúlegri fjölgun málaferla af furðulegasta tilefni.

Læknar þora ekki að skera af ótta við málaferli. Olíuleitarfélög gera ráð fyrir skaðabótakröfum sem stærsta útgjaldaliðnum í bókhaldi sínu. Ekki er lengur hægt að handsala einfalda samninga, heldur verða sveitir lögmanna að semja tugi síðna til að varðveita traustið.

Þetta flækir auðvitað mál og eyðir orku og tíma málsaðila. Vakin hefur verið athygli á, að Japanir gangi þjóða lengst í að handsala samninga með einföldum hætti og að það sé ein helzta ástæðan fyrir því, að í seinni tíð hefur þeim gengið efnalega betur en Vesturlandabúum.

Traust hefur fleiri hliðar en viðskipti með vörur og þjónustu. Það felur í sér, að kjósendur treysta stjórnmálamönnum til að efna loforð. Það felur í sér, að starfsmenn treysta forstjórum til að taka tillit til mannlegra þátta, þegar megra þarf fyrirtæki af samkeppnisástæðum.

Samdráttarstefna bandarískra fyrirtækja hefur á síðustu árum haft þá hliðarverkun, að traust fólks á sjálfu þjóðskipulaginu hefur minnkað. Æ fleiri komast á þá skoðun vestan hafs, að hver sé sjálfum sér næstur og engrar hjálpar sé að vænta af gráðugum náunganum.

Ekki er auðvelt að staðsetja Íslendinga á mælikvarða trausts og vantrausts. Sennilega standa orð síður hér á landi en á Norðurlöndum, en þó mun fremur en í þriðja heiminum eða á fyrra valdasvæði Sovétríkjanna sálugu. Við þurfum að huga að þessari stöðu okkar.

Við höfum reynt að fara eftir hugsjóninni um, að orð skuli standa og að með lögum skuli land byggja. Okkur hefur gengið betur á sviði formlegra laga en óformlegra samskipta. Við höfum búið til lög og reglur um flesta þætti samskipta og látið þau gilda fyrir alla.

Sú skaðlega venja hefur skapazt á löngum tíma, að stjórnmálamenn standa ekki við gefin loforð og kjósendur ætlast ekki til þess af þeim. Önnur hættuleg venja hefur skapazt, að skuldunautar standa ekki við gefin loforð og skipta jafnvel um kennitölur, ef illa árar.

Allt slíkt spillir forsendum þess, að lýðræði og vel smurður markaðsbúskapur komi okkur í þær álnir sem tíðkast með þjóðum, er ákveða, að orð skuli standa.

Jónas Kristjánsson

DV

Hamborgara-heimsmetið

Greinar

Íslenzki hamborgarinn er hinn dýrasti í heimi, rúmlega tvöfalt dýrari en í upprunalandinu. Þessa svokölluðu hamborgarafræði, sem byggist á samanburðarhæfum Stóra-Mac, hefur tímaritið Economist stundað í áratug til að bera saman verðlagsþróun víða um heim.

Hér í blaðinu hefur verð á íslenzkum Stóra-Mac nokkrum sinnum verið tekið til samanburðar til að finna stöðu Íslands í þessum fjölþjóðlega samanburði. Nú hefur Neytendablaðið tekið undir þennan útreikning og staðfest, að íslenzki hamborgarinn er hinn dýrasti í heimi.

Íslenzkur Stóri-Mac kostar 395 krónur. Í Bandaríkjunum kostar hann sem svarar 157 krónum. Verðið fer neðst í 95 krónur í Ungverjalandi, 85 krónur í Hong Kong og 77 krónur í Kína. Þessi mikli munur endurspeglar fyrst og fremst afar misjafnt kjötverð í löndum heims.

Í áðurnefndu Neytendablaði er einnig samanburður á tilboðsverði stórmarkaða eins og það sést á tilboðasíðum í dagblöðum og í litbæklingum, sem dreift er í hús. Samanburður af þessu tagi segir mikla sögu um lífskjör þeirra, sem ganga lengst í að reyna að spara.

Tilboðsverð er vaxandi þáttur íslenzkrar kaupsýslu. Fyrir hverja helgi lækka verzlanakeðjur verð á nokkrum vörum í helgarösinni til að draga til sín viðskiptavini. Þessi viðskiptaháttur hefur lengi verið rótgróinn erlendis og er einnig að ná að festa rætur hér á landi.

Aukin fyrirferð tilboðsverðs í matvöruinnkaupum hefur varið lífskjör margra fjölskyldna á kjaraskerðingartíma undanfarinna ára. Með sanni má segja, að tilboð stórmarkaða hafa gert meira fyrir almenning en samanlögð frammistaða stéttarfélaga í kjarasamningum.

Þegar borið er saman matarverð á Íslandi og í öðrum löndum, nægir því ekki lengur að bera saman venjulegt vöruverð á báðum stöðum, heldur skerpir það myndina að bera saman tilboðsverð milli landa. Sýnishorn af því er einmitt í nýjasta tölublaði Neytendablaðsins.

Skemmst er frá því að segja, að hamborgaravísitalan er staðfest í þessu sýnishorni af samanburði. Tilboðsverð á kjötvörum og mjólkurvörum er næstum helmingi lægra í Danmörku en hér á landi. Til dæmis kostar ostur þar á tilboðsverði 466 krónur, en hér 995 krónur.

Þegar sleppir hinum hefðbundnu landbúnaðarvörum úr kjöti og mjólk, verður samanburðurinn Íslandi hagstæðari. Sumar pakkavörur eru eins ódýrar hér á landi og í Danmörku og sumar jafnvel ódýrari. Þekkt er, að ýmis merkjavara er tiltölulega ódýr hér á landi.

Að baki öllum þessum útreikningum og mörgum fleiri af sama tagi liggur sú ógnvekjandi staðreynd, að stjórnsýslan og flokkakerfið líta á það sem eitt helzta hlutverk sitt að verja innlendan landbúnað fyrir erlendri samkeppni, á kostnað íslenzkra neytenda og skattgreiðenda.

Engin ein grundvallarforsenda í stjórnmálum hefur eins mögnuð áhrif á lífskjörin í landinu og þessi. Hún veldur ekki bara háu verðlagi, sem sést í samanburði milli landa, heldur kostar hún skattgreiðendur þar á ofan fimm milljarða króna á hverju ári á fjárlögum.

Þessi grundvallarforsenda veldur því, að ríkið getur ekki sinnt skyldum sínum í heilbrigðis- og skólamálum, þótt skattbyrði sé há og fari hækkandi. Hún veldur því, að íslenzkir neytendur þurfa að vinna lengur fyrir nauðsynjum en neytendur í öllum öðrum löndum heims.

Við getum haft til marks um, að okkur hafi tekizt að brjótast undan þessu oki yfirvaldanna, þegar Stóri-Mac hefur fallið í verði úr 395 krónum í 157 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki bara Slobodan

Greinar

Ef stjórnarandstöðu og stúdentum tekst með hjálp stéttarfélaga að fá framgengt niðurstöðum sveitarstjórnakosninga í Serbíu, er lýðræðislegu réttlæti fullnægt í málinu. Menn munu gráta þurrum tárum, ef þeim tekst þar á ofan að hrekja Sloboldan Milosevic frá völdum.

Milosevic er óvenjulega ógeðfelldur leiðtogi, smjaðursfullur og kurteis í umgengni við fulltrúa vestrænna ríkja, en eindreginn áhangandi ofbeldis í Serbíu og öðrum arfaríkjum Júgóslavíu. Enn verri er eiginkona hans, sem fer mikinn í skrifum og heimtar, að blóð renni.

Milosevic á mikinn þátt í afmyndun þjóðarinnar. Hann fór um 1990 úr fötum kommúnismans, þegar þau voru ekki lengur við hæfi, og klæddist ofsafenginni þjóðernishyggju í staðinn. Hann hafði sjálfur forustu um að efna til blóðbaðs Serba í arfaríkjum Júgóslavíu.

Ekki má hins vegar reikna með, að Serbía verði minna hættuleg umhverfi sínu, þótt annar hvor leiðtogi stjórnarandstöðunnar taki við af Milosevic. Þeir hafa báðir gælt við þjóðernisofstækið, sem einkennir stjórnmál Serbíu, og gagnrýnt svik hans við Bosníu-Serba.

Serbía er engu landi lík. Landið hafa flúið flestir lýðræðissinnar, sem það hafa getað. Meðal annars hafa menntamenn yfirleitt reynt að komast út úr þeirri martröð ofstækis og ofbeldis, sem Serbía er orðin. Eftir sitja glæpamenn og þeir, sem ekki geta bjargað sér.

Stúdentar í Serbíu eru ekki líkir stúdentum annarra landa. Meðal þeirra geisar þjóðernisofstækið og ofbeldishyggjan, sem ríkisfjölmiðlar landsins hafa matað þjóðina á um nokkurra ára skeið. Þeir eru fráleitt neinir fulltrúar vestræns lýðræðis, umburðarlyndis og mannúðar.

Í mótmælagöngum um götur Belgrað er ekki krafizt reikningskila fyrir glæpi Serba gegn mannkyninu, sem þeir hafa framið í Bosníu, Króatíu og Kosovo. Á torgfundum eru ekki gagnrýnd fólskuverkin, sem hafa gert Serba að viðurstyggð góðra manna um allan heim.

Serbía er fjárhagslega, efnahagslega, menningarlega, félagslega og sálfræðilega í rúst. Allir búa þar við sult og seyru nema þeir, sem lifa á glæpum. Seðlabanki landsins hamast við að prenta verðlausa seðla og verðbólgan er stjórnlaus. Hálf þjóðin er atvinnulaus.

Svartamarkaðsbraskarnir ganga um vopnaðir og ógna fólki. Sonur Milosevic-hjónanna fer með hirð sína í fínum bílum og lætur eins og hann eigi heiminn. Sjálfsvirðing þjóðarinnar er horfin og hefur vikið fyrir ofbeldishneigðu þjóðernisofstæki og hatri á nágrannaþjóðum Serba.

Undir kynda eins konar sagnfræðingar og sagnaskáld, sem útmála hremmingar, er forfeður Serba hafi orðið fyrir af völdum forfeðra nágrannaþjóðanna fyrir nokkur hundruð árum. Menningarlífið sjálft er mengað af ofstækinu. Radovan Karadzic er læknir og ljóðskáld.

Ef Íslendingar hugsuðu eins og Serbar, mundum við leita uppi Dani til að nauðga þeim og drepa þá út af einhverjum aldagömlum og bezt gleymdum atburðum í Íslandssögunni. Þetta dettur engum í hug, enda hefur þjóðarsál Íslendinga ekki krumpazt að hætti Serba.

Bezta leiðin til að hafa hóf á vandræðum umheimsins af völdum Serbíu er að loka að nýju fyrir viðskipti og önnur samskipti við landið, draga til ábyrgðar þá leiðtoga, sem í næst, svo sem helzu villimenn Bosníu-Serba, og hætta að líta á Milosevic sem lykil að lausn mála.

Síðan kann tíminn að lækna Serbíu. En það koma engin blóm í haga, þótt stjórnarandstæðingar víki upphafsmanni ógnaraldarinnar á Balkanskaga frá völdum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðjungur af risnu

Greinar

Risnukostnaður Reykjavíkur hefur hrapað um rúmlega helming á aðeins tveimur árum og um tvo þriðju hluta á fjórum árum. Þegar kostnaðurinn fór mest úr böndum, árið 1992, nam hann 45 milljónum, árið 1994 tæplega 33 milljónum og 15 milljónum á þessu ári.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri telur, að gestgjafahlutverki borgarinnar hafi ekki verið breytt á þessu tímabili, þótt kvöldverðarboðum borgarinnar hafi fækkað. Mestu máli skipti í sparnaði, að hætt hafi verið að bjóða eimað áfengi í móttökum borgarinnar.

Niðurskurður borgarinnar á óþarfri og skaðlegri risnu er öðrum til fyrirmyndar, fyrst og fremst ríkisvaldinu, sem enn leikur lausum hala. Væri nær fyrir varaformann fjárlaganefndar Alþingis að skera hana niður en fara með marklaust fleipur um fjármál Reykjavíkur.

Ef Reykjavík getur sparað 30 milljónir í risnu á ári í fjögurra ára átaki, getur ríkið sparað hundruð milljóna króna á ári á sama hátt. Engin tilraun hefur hins vegar verið gerð til að hafa hemil á risnu ríkisins, þótt enn meiri ástæða sé til sparnaðar á þeim sukksama bæ.

Reykjavík hefur gert margt fleira til að halda útgjöldum í skefjum. Árangurinn má mæla í heildarskuldum borgarinnar, sem munu haldast óbreyttar í rúmum fjórtán milljörðum á tímabilinu 1995-1997. Áður höfðu þær aukizt hratt á hverju ári og tvöfaldazt 1991-1993.

Ríkið getur um margt tekið fjármál Reykjavíkur sér til fyrirmyndar. Þar sem Alþingi á formlega að bera ábyrgð á fjárreiðum ríkisins, en hefur greinilega ekki til þess burði, væri mjög gott, ef varaformaður fjárlaganefndar Alþingis færi á námskeið hjá borginni.

Fjármál ríkisins eru hugsuð út frá byggðastefnu. Varaformaður fjárlaganefndar og mikill hluti þingmanna mæta til þings með þeim ásetningi að hafa sem mest fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna til að dreifa í næsta nágrenni við sig. Því er ríkið alltaf á kúpunni.

Síðan geta menn velzt um af hlátri, þegar varaformaður fjárlaganefndar veifar föðurlegum áminningum til Reykjavíkur um að gera svo vel að stuðla ekki að verðbólgu og annarri þenslu með því að halda uppi eins miklum framkvæmdum og verið hafa á undanförnum árum.

Út af fyrir sig geta nánast allir landsmenn aðrir en stjórnmálamenn haft þá skoðun, að Reykjavík og raunar fleiri sveitarfélög megi hafa meiri hemil á framkvæmdum sínum. Varaformaður fjárlaganefndar er hins vegar ekki í þeim fjölmenna hópi, sem getur leyft sér slíkt.

Hins vegar má hafa sem skólabókardæmi um takmarkalaust sjálfstraust af alls engu tilefni að prédika sparnað yfir öðrum, en hafa sjálfur allt niður um sig í fjármálum ríkisins. En það er víst af skorti á sjálfsgagnrýni, sem menn komast helzt áfram í pólitík.

Varaformaður fjárlaganefndar mætti gjarna minnast þess, að ríkið kastar árlega fimm milljörðum króna út í veður og vind með stuðningi fjárlaga við rekstur landbúnaðar sem félagsmálastofnunar og lætur neytendur fórna öðru eins í tolla og höft á innfluttum mat.

Varaformaðurinn gæti byrjað siðvæðinguna í smáum stíl með því að hafa forustu um, að ríkið nái sama hlutfallssparnaði í risnu og borgin. Meðan hann væri önnum kafinn við það, þyrftum við ekki að hlusta á sjálfsgagnrýnislaust óráðshjal hans um fjármál annarra.

Þegar hann væri svo búinn að skera niður risnu ríkisins um tvo þriðju, mætti hann svo berja sér á brjóst og fara sem sérfræðingur að veita ráð í allar áttir.

Jónas Kristjánsson

DV