Greinar

Skilnaður valda og áhrifa

Greinar

Unga fólkið úr smáflokkunum vill sameiginlegt framboð þeirra til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn þegar í næstu kosningum. Það telur sig hafa svipaðar skoðanir og eiga auðvelt með að starfa saman. Þetta kom fram á fundi þess í Bifröst í Borgarfirði um helgina.

Stofna á formleg regnhlífarsamtök einstaklinga um kosningabandalag eftir tvo mánuði. Sameiningarhugtakið er jafnaðarmennska. Misvísandi fréttir eru af, hvort þegar hafi að öðru leyti fundizt málefnagrundvöllur eða hvort eigi að finna hann á næstu tveimur mánuðum.

Líklega er þetta vænlegasta upphafsskrefið við að koma upp vinsælum stjórnmálaflokki til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn. Grasrótin er að komast að raun um, að hún geti unnið saman. Hún fær síðan valdamenn í flokkunum til að koma með semingi í kjölfarið.

Annað skref samtakanna felst í að finna aðdráttarafl fyrir kosningabandalagið, eins konar forsætisráðherraefni, alveg eins og Reykjavíkurlistinn fann sér trúverðugt borgarstjóraefni fyrir síðustu byggðakosningar. Reynslan sýnir, að persónur sameina, en málefni sundra.

Fyrir Bifrastarfundinn voru lögð til hliðar ýmis mál og kölluð dægurmál. Meðal þeirra eru afar spennandi atriði eins og staða samtakanna á ásnum milli stuðnings og andstöðu við frekara Evrópusamstarf og staða samtakanna á ásnum milli neytenda og landbúnaðar.

Í flokki svokallaðra dægurmála er væntanlega staða samtakanna á ásnum milli framtaks annars vegar og jafnaðar hins vegar, á ásnum milli svonefndra karlamála og kvennamála, á ásnum milli örra breytinga á þjóðfélaginu annars vegar og festu í þjóðfélaginu hins vegar.

Þetta eru nokkur helztu atriðin, sem nú sundra smáflokkunum, er sameina á í kosningabandalagi. Þægilegt er að afgreiða þau út af borðinu sem dægurmál og láta væntanlega flokksleiðtoga um að ákveða afstöðuna til þeirra eftir hendinni og aðstæðum hverju sinni.

Þannig hafa myndazt stór kosningabandalög í útlöndum, svo sem demókratar og repúblikanar í Bandaríkjunum, íhaldsflokkur og verkamannaflokkur í Bretlandi. Það eru bandalög um pólitísk völd, en málefni eru breytileg eftir aðstæðum á kjósendamarkaði hverju sinni.

Slík kosningabandalög á breiðum og jafnvel óljósum málefnagrunni hafa reynzt afar heppileg leið til að ná meirihluta og koma leiðtogum bandalagsins til valda. En þau gagnast lítt eða ekki þeim, sem vilja, að völdin nýtist ákveðnum málefnum til framdráttar.

Stjórnmálakerfið stefnir í þessa átt. Flokkarnir verða stærri, en málefnalega áhrifaminni. Skoðanakannanir taka smám saman við af málefnavinnu. Tveir flokkar geta jafnvel haft skipti á málefnum, svo sem nú er að gerast í Bretlandi, til dæmis í Evrópustefnunni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að þessu leyti lengi verið á undan sinni samtíð. Hann er fyrst og fremst kosningabandalag um völd. Málefni hans eru óljós, enda eru innan flokksins deildar meiningar um flest það, sem máli skiptir. Hann er fyrirmynd Bifrastarsamtakanna.

Smám saman verða stjórnmálaflokkar að eindregnari vettvangi þeirra, sem sækjast eftir völdum. Hinir, sem sækjast eftir framgangi málefna, eiga betur heima í hagsmunasamtökum, sem reyna að sveigja almenningsálit, og þar með skoðanakannanir, að sínum málstað.

Með aukinni verkaskiptingu samtaka munu stjórnmálaflokkar sérhæfa sig í að fara með áhrifalaus völd til að framkvæma niðurstöður skoðanakannana.

Jónas Kristjánsson

DV

Yfirgangur ómagans

Greinar

Boutros Ghali er bezti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá upphafi, enda nýtur hann meira og víðtækara trausts en dæmi eru um. Hann hefur þar að auki skorið kostnað niður meira en allir fyrirrennarar hans til samans. Þess vegna ber að endurkjósa hann.

Stuðningurinn við Boutros Ghali er almennur í öllum heimshornum, enda spannar hann sjálfur ýmsa menningarheima. Hann er frá íslamska Afríkuríkinu Egyptalandi, er sjálfur kristinn og er kvæntur konu af gyðingaættum. Auk þess er hann menntamaður á vestræna vísu.

Samkvæmt venju sækir Boutros Ghali um endurráðningu í annað kjörtímabil, sem hefst um áramótin. Til þess hefur hann stuðning alls meginþorra ríkja heims, nema þess ríkis, sem ber meiri ábyrgð en nokkurt annað ríki á fjárhagsvandræðum Sameinuðu þjóðanna.

Bandaríkin eru skuldakóngurinn. Þau skulda Sameinuðu þjóðunum sem svarar 85 milljörðum íslenzkra króna. Samt eru Bandaríkin hvað eftir annað að reyna að fá Sameinuðu þjóðirnar til að taka að sér ný og ný verkefni, er kosta peninga, sem ekki eru til.

Sameinuðu þjóðirnar og Öryggisráðið hafa hvað eftir annað tekið þátt í verkefnum og haft kostnað af verkefnum, sem Bandaríkjastjórn hvers tíma hefur talið sér afar mikils virði, allt frá Kóreustríðinu yfir í Persaflóastríðið, frá hernámi Bosníu yfir í hernám Haítí.

Þótt Bandaríkin séu í vaxandi mæli að verða fjárhagslegur ómagi á heimspólitísku framfæri Sameinuðu þjóðanna, haga þau sér eins og þau eigi samtökin. Svartasta dæmið um frekju og yfirgang Bandaríkjanna er dólgsleg andstaða þeirra gegn endurráðningu Boutros Ghali.

Raunar hefur stjórn Clintons Bandaríkjaforseta ekkert málefnalegt út á Boutros Ghali að setja. Brottför hans hjálpar ekki neinum málum Bandaríkjanna og sparar Sameinuðu þjóðunum ekki krónu. Andstaðan er misheppnuð tilraun til að sýna mátt sinn og megin.

Velflestir bandamenn Bandaríkjanna í Sameinuðu þjóðunum hafa hvatt Bandaríkjastjórn til að skipta um skoðun. Hið sama hafa ótal samtök gert í Bandaríkjunum, þar á meðal fjölmörg kirkjuleg samtök. Bandaríkin hafa alls engan stuðningsaðila í máli þessu.

Bandaríkjastjórn er þegar farin að finna fyrir því að hafa æst alla upp á móti sér. Um daginn var ekki endurkosinn fulltrúi frá Bandaríkjunum í hina valdamiklu fjárlaganefnd Sameinuðu þjóðanna, enda tæpast við hæfi, að sjálfur ómaginn sitji í svo mikilvægri nefnd.

Eitt fordæmi er fyrir, að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi ráðið framkvæmdastjóra gegn neitunarvaldi heimsveldis í Öryggisráðinu. Það var þegar Norðmaðurinn Tryggve Lie var, að ráði Bandaríkjanna, endurkjörinn árið 1950 gegn neitunarvaldi Sovétríkjanna.

Nú er kominn tími til að stöðva yfirgang Bandaríkjanna á sama hátt og yfirgangur Sovétríkjanna var stöðvaður 1950. Ríki Sameinuðu þjóðanna setja ofan, ef þau leyfa dólgslegri ríkisstjórn að haga sér eins og hún eigi samtökin og koma sér hjá því að greiða félagsgjald.

Ef skuldakóngurinn kemst upp með að neita Boutros Ghali um endurráðningu, þótt hann sé bezti framkvæmdastjórinn frá upphafi og njóti öflugs stuðnings flestra ríkja heims, hafa Sameinuðu þjóðirnar sett svo ofan, að vafasamt er, að samtökin eigi tilverurétt.

Eina leiðin til að verja reisn Sameinuðu þjóðanna gegn árás hins vanhæfa Clintons Bandaríkjaforseta er að endurráða Boutros Ghali gegn neitunarvaldi Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Í húsi foringjans

Greinar

Brotalínur íslenzkra stjórnmála eru ekki frekar milli Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka heldur en milli ýmissa annarra hugsanlegra samstarfsmynstra. Í leiðara DV í gær var rakið, hvernig raða má flokkum í ýmiss konar hópa eftir nokkrum mikilvægum málaflokkum.

Bent var á, að Alþýðuflokkurinn er að sumu leyti sér á parti vegna stefnunnar í málefnum Evrópu, fiskveiðistjórnar, landbúnaðar og neytenda. Bent var á, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn standa sumpart saman vegna samstarfs kolkrabba og smokkfisks.

Morgunblaðið hefur bent á, að Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðubandalagið eru orðnir pólitískir nágrannar vegna eindreginnar andstöðu beggja flokka við hvers konar breytingar, einkum í Evrópusamstarfi og skipulagi fiskveiða. Þetta eru íhaldsflokkarnir tveir.

Niðurstaða DV var, að samstarf í stíl Reykjavíkurlistans muni ekki ganga upp á landsvísu, af því að það, sem sameinar flokka þess, eru einkum atriði á sviði byggðamála en sárafá á sviði landsmála. Reykjavíkursamstarfið verður ekki yfirfært með árangri á landsvísu.

Kvennalistinn efast um gildi vinstra samstarfs og spyr: Samstarf um hvað? Svarið finnst ekki, meðal annars af þeim ástæðum, sem raktar voru í leiðara DV í gær. Málefnasamstöðuna vantar. Hefðbundin flokkun í hægri og vinstri gefur ekki rétta mynd af flóknu mynstri.

Ein mælistikan í þessu dæmi er ásinn milli jafnaðar og framtaks. Önnur er ásinn milli íhalds og breytinga. Þriðja er ásinn milli verndaðra stórfyrirtækja og almenns atvinnulífs. Fjórða er ásinn milli karla og kvenna. Flokkarnir raðast margvíslega í fjölbreytt mynstur.

Því fleiri mælistikur, sem teknar eru inn í samstarfsdæmi, þeim mun líklegra er, að niðurstaðan fæli þá frá, sem eru ósammála staðsetningu samstarfsins á einhverjum ákveðnum ási. Því færri mælistikur, sem notaðar eru, þeim mun minna er í rauninni sameinazt um.

Ekki má heldur gleyma, að málefni eru aðeins ein af mörgum forsendum þess, að kjósendur skiptast milli flokka. Sumir fæðast beinlínis inn í flokka og aðrir alast upp í stuðningi við þá, á sama hátt og menn styðja íþróttafélag, af því bara að það er þeirra félag.

Loks má ekki gleyma, að margt fólk setur menn ofar málefnum. Það telur ekki vera í verkahring flokksmanna að búa til málefni handa leiðtogum til að fara eftir. Það telur þvert á móti vera í verkahring leiðtoganna að ákveða málefni handa flokksmönnum til að styðja.

Sjálfstæðisflokknum hefur gengið vel, af því að hann hefur ekki verið upptekinn af öðrum málefnum en eindregnum stuðningi við kolkrabbann og hefur í stað málefna lagt áherzlu á foringjann mikla, sem leiðir hjörðina í þá átt, sem hann ákveður sjálfur hverju sinni.

Reykjavíkurlistanum gekk vel, af því að hann bauð foringja til að safnast um. Málefni listans hefðu ekki dugað honum ein, þótt málefnasamstaða sé margfalt auðveldari á byggðavísu en landsvísu. Úrslitum í fylgi listans réð fólk, sem vill, að borgarstjóri ráði ferð.

Í þessu liggur svar við spurningunni: Samstarf um hvað? Svarið er ekki samstarf um málefni, heldur um menn. Kjósendur eru almennt ekki svo sjálfstæðir eða ákveðnir í skoðunum, að þeir kjósi samkvæmt því. Þeir kjósa flestir af vana eða af trú á foringjann sinn.

Af biblíunni má læra, að í húsi foringjans eru margar vistarverur. Þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn lengi vitað. Aðrir flokkar eru núna að reyna að skilja það.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandalag um hvað?

Greinar

Þótt vel hafi tekizt að koma á og framfylgja samstarfi kosningabandalags Reykjavíkurlistans, er ekkert sem bendir til, að unnt sé við núverandi aðstæður að koma á svipuðu samstarfi á landsvísu, með eða án Framsóknarflokksins, sem nú situr í stjórn með sjálfum óvininum.

Flest mál, sem sameina flokka væntanlegs kosningabandalags, eru á verksviði sveitarstjórna. Flest mál, sem sundra þessum sömu flokkum, eru á verksviði Alþingis og ríkisstjórnar. Og ekkert bendir til, að skoðanaágreiningur þessara flokka fari minnkandi á landsvísu.

Þótt tilhugalíf miðist sjaldan við kaldan veruleika hjónabandsins, er engin leið að sjá fyrir sér, að kosningabandalag á landsvísu komizt hjá að taka þegar í upphafi á ýmsum grundvallarmálum. Meðal þeirra má nefna Evrópu, fiskveiðistjórn, landbúnað og neytendamál.

Í öllum þessum málum hefur Alþýðuflokkurinn sérstaka stefnu, sem skilur hann frá Sjálfstæðisflokknum, en aðrir flokkar hugsanlegs kosningabandalags hafa hins vegar stefnu, sem fellur mjög saman við stefnu höfuðóvinarins. Af hverju er hann þá höfuðóvinurinn?

Ef litið er eingöngu á Evrópu, fiskveiðistjórn, landbúnað og neytendamál, er miklu nær, að allir stjórnmálaflokkar landsins, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, myndi kosningabandalag gegn Alþýðuflokknum. Svo undarlegur er veruleikinn í málefnamynztrinu.

Ef Alþýðuflokkurinn gefur eftir sérstöðu sína í framangreindum málum til að koma á málefnalegri samstöðu í kosningabandalaginu, getur Sjálfstæðisflokkurinn væntanlega líka fengið inngöngu í bandalagið, sem verður þá bandalag allra flokka gegn engum flokki.

Hversdagsleiki stjórnmálanna sýnir, að Sjálfstæðisflokkurinn er sem ríkisstjórnarflokkur ekki aðeins mjög líkur Framsóknarflokknum sem ríkisstjórnarflokki, heldur einnig líkur Alþýðubandalaginu eins og það hefur verið sem ríkisstjórnarflokkur á síðari árum.

Ef eitthvað greinir Sjálfstæðisflokkinn frá þeim flokkum, sem nú gæla við hugmyndir um kosningabandalag, er það eindreginn stuðningur hans við stórfyrirtæki og samtök stórfyrirtækja, sem njóta einokunar eða fáokunar í skjóli pólitískra aðgerða frá fyrri tímum.

Framsóknarflokkurinn er sáttur við þessa einokun og fáokun samtaka stórfyrirtækja, af því að fyrirtæki, sem eru honum velviljuð, eiga minnihlutaaðild að þessari aðstöðu. Smokkfiskurinn nýtur molanna af borði kolkrabbans. Þar slær hjarta Framsóknarflokksins.

Ofan á þessa sérstöðu Framsóknarflokksins bætist svo sérstaða hans sem ríkisstjórnarflokks líðandi stundar. Engin leið er að sjá fyrir sér, að hann gangi til næstu alþingiskosninga sem aðili að kosningabandalagi gegn þeim flokki, sem hann er hamingjusamlega giftur.

Í engum málum, sem hér hafa verið rakin, í málum Evrópu, fiskveiðistjórnar, landbúnaðar, neytenda og kolkrabbans, er unnt að sjá, að vatnaskil í stjórnmálum landsins séu fremur milli Sjálfstæðisflokksins og hinna flokkanna heldur en milli og innan hinna flokkanna.

Kvennalistinn hefur miklar efasemdir um, að hinir flokkar væntanlegs bandalags séu samstarfshæfir í málefnum kvenna. Ef svo er ekki, þá stendur ekkert eftir af sameiginlegum málum á landsvísu annað en stuðningur við íhaldssama yfirstétt í félögum launafólks.

Atkvæðarýrt yrði bandalag um hagsmuni yfirstéttar félaga launafólks í þeim gamla stíl Verkamannaflokksins brezka, sem var fyrir langvinna hundahreinsun hans.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðmundur góði

Greinar

Guðmundur Árni Stefánsson fékk mikið fylgi í formannskjöri Alþýðuflokksins um helgina og er af mörgum talinn munu verða formaður flokksins í náinni framtíð. Formaður Alþýðubandalagsins telur slíkt mundu verða vænlegan kost í samstarfi vinstri flokkanna.

Jafnframt er ítrekað, sem Guðmundur hefur alltaf haldið fram, að hann sé saklaus af þungum áburði, er hann varð fyrir sem ráðherra. Hann sagði ekki af sér ráðherradómi, af því að hann hefði gert neitt rangt, heldur af því að hann var að fórna sér fyrir flokkinn.

Margvísleg góðvild Guðmundar í garð bágstaddra einstaklinga olli erfiðleikum í samskiptum í ríkisstjórninni og í almannatengslum flokksins. Guðmundur leyfði þá af góðsemi sinni, að sér yrði kastað fyrir blóðgrimma fjölmiðlunga til að létta á stöðu flokksins.

Söguskýring þessi er víðtækari. Guðmundur hefur einnig upplýst, að herferðin gegn sér hafi átt rætur sínar í valdakerfi Alþýðuflokksins sjálfs. Hún hafi verið runnin undan rifjum Sighvats Björgvinssonar, sem núna passar sjoppuna, unz Guðmundur tekur við henni.

Endurreisn Guðmundar í flokknum byggist ekki á, að hann hafi gengið til Rómar og tekið skriftir. Hún byggist á hans eigin forsendum. Hann var fórnardýrið, sem saklaust tók eldskírnina og bíður þess nú sem forkláraður dýrlingur að verða sameiningartákn jafnaðarmanna.

Góðvild Guðmundar í garð bágstaddra beindist að völdum einstaklingum. Sumir fengu ódýrt húsnæði. Aðrir voru gerðir að verktökum í ráðuneytinu. Það, sem Guðmundur gerði fyrir Steen, gerði hann ekki fyrir Jón. Það er munurinn á sértækri góðvild og almennri.

Það hefur alltaf verið skoðun Guðmundar og er enn, að þessi sértæka góðvild hafi verið réttmæt. Alþýðuflokkurinn hefur nú staðfest með tæplega 50% atkvæða, að þar er sú skoðun útbreidd, að sértæk góðvild Guðmundar í garð útvalinna hafi í raun verið eðlileg.

Ekki er nóg með, að þetta sé viðurkennd skoðun í flokknum, heldur er hún unga skoðunin á uppleið. Hún verður framlag Alþýðuflokksins til samstarfsins á vinstri vængnum, þegar flokkurinn hefur fórnað sérvizku sinni í málum Evrópu, sjávarútvegs og landbúnaðar.

Sighvatur Björgvinsson er talinn maður gamla tímans, stuðningsmaður sjónarmiða Jóns Baldvins Hannibalssonar í málum Evrópu, sjávarútvegs og landbúnaðar. Þessum málum verður flokkurinn að fórna í væntanlegu vinstra samstarfi, því að þau eru sérmál flokksins.

Enn hafa þessi sérmál meirihlutafylgi í flokknum. En einnig er upplýst, þar á meðal af Sighvati sjálfum, að í væntanlegu samstarfi verða allir aðilar að kasta sérvizku sinni fyrir róða. Það þýðir, að lítið hald er í stuðningi flokksins við þessa arfleifð frá Jóni Baldvin.

Tvenns konar eðli blundar í Alþýðuflokknum. Annars vegar er þar hagfræði- og alþjóðahyggjan, sem einkenndi Jón Baldvin í miklum mæli og Sighvat í nokkrum. Hins vegar er þar fyrirgreiðsluhyggjan, sértæk góðvild í garð útvalinna einstaklinga að hætti Guðmundar Árna.

Þannig rúmar flokkurinn allt frá víðförlum rithöfundum til hagvanra sveitarstjórnarmanna. Þar horfa sumir á umheiminn og aðrir á sértækan lítilmagna. Til bráðabirgða er hagfræði- og alþjóðahyggjan enn ofan á, en undir niðri er fyrirgreiðsluhyggjan að rísa.

Geislabaugur Guðmundar mun svo skína enn bjartar, er flokkurinn stendur andspænis þörfinni á þjálli formanni en Sighvati í væntanlegu kosningabandalagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Valfrelsið er marklaust

Greinar

Kosningaþáttaka í Bandaríkjunum hefur á þremur áratugum fallið úr rúmlega 60% niður í tæplega 50%. Þetta sýnir aukið áhugaleysi bandarískra kjósenda og gefur tilefni til að hugleiða, hvort svipaðar breytingar geti ekki líka orðið í öðrum þjóðfélögum Vesturlanda.

Reynslan sýnir, að bandarískt þjóðfélag gefur tóninn á mörgum sviðum og önnur vestræn þjóðfélög fylgja í humátt á eftir. Breytingar byrja þar og síast síðan inn annars staðar í kjölfarið. Aukið áhugaleysi kjósenda fyrir vestan gæti því hæglega smitazt yfir til okkar.

Að þessu sinni völdu Bandaríkjamenn milli tveggja óhæfra forsetaefna. Niðurstaðan varð, að þeir kusu siðferðilega vanþroskaðan mann, sem reynslan sýnir, að snýst eins og vindhani eftir aðstæðum hverju sinni, en hafði að þessu sinni mun betur smurða kosningavél.

Hinn frambjóðandinn er gamalmenni, sem kastaði fyrir róða þeirri rökfræði, er hann hafði notað sem þingmaður, og tók upp þveröfug slagorð af ódýrustu tegund, svo sem loforð um miklu lægri skatta. Hann reyndist sami vindhaninn og hinn, þegar á hólminn var komið.

Í kosningabaráttunni hefur komið betur en áður í ljós, að sérhagsmunir af ýmsu tagi ráða miklu um val stjórnmálamanna og afstöðu þeirra. Þannig hafa ameríska byssufélagið, samtök tóbaksframleiðenda og stuðningshópar Ísraels umtalsverð áhrif á bandarísk stjórnmál.

Svo langt gengur þetta, að erlendir aðilar eru farnir að taka þátt í fjármögnun kosningabaráttunnar og ná eyrum valdamikilla manna. Það kann ekki góðri lukku að stýra, þegar peningar úr þriðja heiminum eru farnir að lita stefnu heimsveldis í þeim heimshluta.

Peningamenn kaupa bandarísk stjórnmál í vaxandi mæli. Þeir kosta framagirni stjórnmálamanna og stjórna gerðum þeirra á sínum hagsmunasviðum. Þannig tekst minnihlutahópum eins og byssufélaginu, tóbaksframleiðendum og Ísraelsvinum að stjórna sínum sviðum.

Að baki þessari þróun eru bandarískir kjósendur, sem eru að afsala sér frumburðarrétti borgarans og láta hafa sig að fífli. Möguleikar kjósenda til að greina kjarnann frá hisminu hafa minnkað í réttu hlutfalli við getu áróðursmeistara til að koma hisminu á framfæri.

Við sjáum þetta gerast á mörgum sviðum í senn. Til dæmis eykst geta neytenda til að sjá við brögðum markaðsmana mun hægar en geta markaðsmanna til að finna nýjar leiðir til að villa um fyrir neytendum. Stjórnmálin eru bara einn þáttur af þessu almenna ferli.

Sjónvarpið hefur haft afar slæm áhrif. Þar koma stjórnmálamenn og sýna af sér ímynd, sem kjósendur telja sér trú um, að sé persónuleiki þeirra. Í stað þess að veita kjósendum innsýn í innri mann frambjóðandans lokar sjónvarpið beinlínis fyrir þessa innsýn.

Rannsóknir sýna til dæmis, að frambjóðandi getur sýnzt meira trausts verður en andstæðingurinn með því að depla sjaldnar augunum en hann. Clinton afrekaði að læra að depla augunum nærri helmingi sjaldnar en Dole og var því kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Eðlilegur fylgifiskur valdaafsals kjósenda er, að kosningaþátttaka minnkar. Í Bandaríkjunum er hún komin niður fyrir 50% í forsetakosningum. Fólk sér ekki tilgang í að velja milli strengbrúða, sem hagsmunahópar stjórna, og telur sig ekki eiga kost á öðrum leiðum til áhrifa.

Hliðstæða strauma má sjá á Íslandi. Þeirri skoðun vex fylgi hér, að sami rassinn sé undir pólitíkusunum, að sérhagsmunir ráði ferð og að því verði ekki breytt.

Jónas Kristjánsson

DV

Hóflegt tjón

Greinar

Við eigum sterkan Viðlagasjóð og getum því staðið undir skaðanum af völdum jökulhlaupsins á Skeiðarársandi. Kostnaðurinn nemur að þessu sinni tveim milljörðum króna samkvæmt fyrstu ágizkunum, aðallega í brúm, en einnig í vegi, ljósleiðara og raflínu.

Brýrnar á sandinum hafa staðið í rúmlega tvo áratugi og náð að safna töluverðum afskriftatíma. Þótt við verðum fyrir svona miklu tjóni á mannvirkjum Skeiðarársands á nokkurra áratuga fresti, er kostnaður á hvert ár afskriftatímans ekki nema 100-200 milljónir króna.

Þetta er mikill miski af völdum náttúruhamfara, en ekki nema brot af skaðanum, sem við verðum árlega fyrir af völdum ráðamanna okkar. Afskipti kerfisins af landbúnaði einum kosta þjóðina marga milljarða á hverju ári. Við erum því vön herkostnaði af ýmsu tagi.

Raunverulega er skaðinn af völdum jökulhlaupsins á Skeiðarársandi fremur lítill, af því að manntjón varð ekkert. Engin búseta var á sandinum, sem hlaupið fór yfir. Við höfum orðið fyrir þyngri áföllum af völdum snjóflóða á Vestfjörðum á allra síðustu árum.

Náttúruhamfarir eru tíðar og margvíslegar hér á landi, eldgos og jarðskjálftar, snjóflóð og skriðuföll, stormar og jökulhlaup, auk þess sem hverir reynast skeinuhættir ókunnugum. Hamfarirnar ógna stundum fólki, en stundum hvorki fólki né efnislegum verðmætum.

Við getum reiknað með öflugum Suðurlandsskjálfta á næstu árum. Að mestu leyti erum við vel undir hann búin, þótt brýr séu ekki nógu margar og dreifðar. Mannvirki eru flest nógu traust á hættusvæðunum, en sérstakar aðstæður geta auðvitað leitt til mannskaða.

Við þurfum þó almennt að venja okkur mun harðar við að hafa hliðsjón af náttúruöflum, þegar við fjárfestum. Við eigum til dæmis ekki að reisa mannvirki í undirhlíðum viðsjárverðra fjalla, eins og við höfum svo víða gerzt sek um á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Starfsmenn samgöngukerfis og veitustofnana eru vanir að bregðast fljótt við, þegar náttúruöflin hafa geisað. Á hverjum vetri eru rafmagns- og símalínur tengdar að nýju í snarhasti og fumlaust. Á hverju ári er vegasambandi komið á að nýju fljótt og örugglega.

Viðbrögðin við tjóninu á Skeiðarársandi verða ekkert öðruvísi en þau, sem við kunnum vel. Með aðgerðum til bráðabirgða verður vegasambandi komið á að nýju á nokkrum vikum, raflína tengd að nýju, svo og ljósleiðari. Á meðan verða hannaðar varanlegri framkvæmdir.

Ekki er jökulhlaupið svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Samkvæmt fyrri reynslu leiðir aurburðurinn til þess, að strandlínan færist utar , meðal annars austur með ströndinni, á Breiðamerkursandi, þar sem mikil brú var komin í hættu vegna ágangs sjávar.

Náttúruhamfarir hafa líka þann kost, að þær þjappa þjóðinni saman, gefa okkur tækifæri til að finna til sameiginlegrar ábyrgðar. Utanaðkomandi erfiðleikar, hvort sem er af völdum máttarvalda eða óvina, eru svo mikilvægir, að stundum reyna þjóðir að framleiða óvini.

Við búum hér í návígi við fjölbreyttara úrval náttúruafla en flestar þjóðir, sem við þekkjum til. Við þurfum að sæta eldgosum og jarðskjálftum, skriðuföllum og snjóflóðum, stormum og jökulhlaupum. Allt þetta hjálpar okkur til að hugsa eins og ein samhent fjölskylda.

Hlaupið úr Grímsvötnum er hluti raunveruleikans, sem við búum við. Feiknakraftar hafa leyst sig úr læðingi, en samt aðeins valdið okkur hóflegu tjóni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýrari og öruggari

Greinar

Byggingarsaga fyrirhugaðs flugvallar í Vatnsmýrinni verður örugglega þyrnum stráð. Margir nágrannar flugvallarins og aðrir Reykvíkingar eru ósáttir við ráðagerðina. Þeir telja aðflug og flugtök eiga betur heima á svæðum, þar sem þéttbýli er minna og færri mannslíf í veði.

Ráðagerðir flugráðs og samgönguráðuneytisins um að grafa upp mýrina fyrir hálfan annan milljarð króna og leggja þar alveg nýjar flugbrautir verða áreiðanlega tilefni mikillar sundrungar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir, sem ósáttir eru við staðinn, munu láta í sér heyra.

Núverandi leifar af flugvelli Breta í mýrinni hafa að mestu fengið frið í skoðanaskiptum fólks, af því að allir vita, að sá flugvöllur er á síðasta snúningi. Ekki hefur tekið því að amast við því, að hann sé notaður til bráðabirgða meðan verið sé að finna og byggja nýjan stað.

Flestir hafa bent á Keflavíkurflugvöll sem eðlilegan arftaka Reykjavíkurflugvallar. Millilandaflugvöllurinn er afar vel tækjum búinn, mun betur en innanlandsflugvöllurinn. Auk þess er hann vannýttur og getur hæglega bætt á sig innanlandsflugi eins og hann er núna.

Keflavíkurflugvöllur er nú betur undir það búinn að taka við innanlandsflugi en nýr flugvöllur í Vatnsmýrinni verður, þegar búið er að verja hálfum öðrum milljarði til að grafa upp mýrina og leggja þar nýjar flugbrautir. Forskotið syðra er yfir tveir milljarðar.

Ekki má heldur gleyma, að erfitt verður að stunda innanlandsflug á verktíma fyrirhugaðs flugvallar í Vatnsmýrinni. Framkvæmdir munu margfalda slysahættu á svæðinu. Henni verður helzt mætt með því að flytja innanlandsflug til bráðabirgða á Keflavíkurvöll.

Í stað þess að búa til bráðabirðgaaðstöðu fyrir tímabundið innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli er skynsamlegra að reisa þar varanlega stöð fyrir innanlandsflug við hlið millilandastöðvarinnar og tengja þær saman með yfirbyggðum gangi. Það er hagkvæm framtíðarlausn.

Ef Keflavíkurflugvöllur tekur við innanlandsflugi, mun aukast umferð á Reykjanesbraut. Það mun breyta forsendum í reiknilíkönunum, sem nú eru notuð til að reikna arðsemi í framkvæmdum við veginn. Tvöföldun brautarinnar verður hagkvæmari en nú er talið.

Tvöföld Reykjanesbraut, lýsing hennar allrar og rafhitun stuttra hálkukafla, sem hingað til hafa valdið slysum, hafa samanlagt ekki aðeins gildi fyrir flugið, heldur einnig fyrir allt atvinnulíf á suðvesturhorni landsins, tengja betur höfuðborgarsvæðið og suðurnesin.

Tvöföld Reykjanesbraut með öllu tilheyrandi og viðbótarstöð á Keflavíkurvelli verða alls mörgum hundruðum milljóna króna ódýrari en samanlagður kostnaður af nýjum flugbrautum á Reykjavíkurvelli, nýjum flugvallarmannvirkjum og nýrri flugstöð í Nauthólsvík.

Vel lýst, hálkulaus og tvöföld Reykjanesbraut gefur kost á reglum um 110-130 km hámarkshraða, sem styttir leiðina frá Reykjavík niður í hálftíma. Það þykir mjög gott í alþjóðlegum samanburði, þótt það sé að vísu lengra en tíu mínúturnar að flugstöðinni í Nauthólsvík.

Frá Breiðholti eða Garðabæ mun ekki taka lengri tíma að komast á Keflavíkurvöll en í Nauthólsvík. Að vísu má brúa Kópavog, en það mun hafa í för með sér illindi við íbúa á Kársnesi. Samgöngusamanburðurinn er ekki eins mikið Vatnsmýrinni í vil og oft er fullyrt.

Meira öryggi og minni kostnaður gera gott betur en að vega upp styttri leið. Því er rétt að afskrifa Vatnsmýrina og hefjast handa við flugstöð á Keflavíkurvelli.

Jónas Kristjánsson

DV

Heilsuspillandi ríkisstjórn

Greinar

Hagfræðideild Alþýðusambandsins hefur reiknað upp verðkannanir og komizt að raun um, að stjórnvöld hafi með ofurtollum á grænmeti aukið skuldir heimilanna um 1,3 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Nú þurfi að hækka laun um 1,5% vegna þessa eins út af fyrir sig.

Sjálfsagt er unnt að reikna kostnað fólks af ofurtollum stjórnvalda á ýmsan hátt og fá misjafnar niðurstöður. Meðan ekki eru rökstuddar betri tölur um afleiðingarnar en þær, sem Alþýðusambandið hefur reiknað, verða þær teknar gildar sem stærðargráða vandamálsins.

Ríkisstjórnin hefur snúið út úr alþjóðlegu tollasamkomulagi, sem kennt er við GATT og var undanfari þess, að komið var á fót Alþjóða viðskiptastofnuninni. Ríkisstjórnin fullyrðir blákalt, að markmið samkomulagsins hafi ekki verið að lækka vöruverð til almennings.

Markmiðið með auknu viðskiptafrelsi í milliríkjaverzlun er að gera aðildarríki Alþjóða viðskiptastofnunarinnar samkeppnishæfari á sérsviðum sínum með því að lækka rekstrarkostnað þeirra og auðvelda þeim að afla sér markaða fyrir útflutningsafurðir sínar.

Fullyrðingar um, að ekkert markmið eða hálft markmið hafi verið með auknu viðskiptafrelsi, eru gripnar úr lausu lofti. Þær sýna hins vegar yfirgengilegan hroka ríkisstjórnar, sem telur sig vita af reynslu, að kjósendur haldi áfram að éta þvættinginn úr lófa hennar.

Samkomulagið miðaðist við hægfara bata á því ástandi, sem fyrir var. Enginn reiknaði með, að ein ríkisstjórn í heiminum læsi biblíuna eins og kölski og hækkaði grænmetisverð frá því, sem fyrir var. En þetta hefur einmitt gerzt hjá svartasta afturhaldinu á Íslandi.

Íslenzk stjórnvöld hafa talið sig vera að ganga erinda framleiðenda grænmetis, þegar þau bönnuðu áður fyrr innflutning grænmetis og setja núna ofturtolla á þennan innflutning. En afleiðingin er auðvitað sú, að íslenzkir neytendur borða miklu minna grænmeti en aðrir.

Á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og landlæknisembætta ýmissa vestrænna landa er eindregið hvatt til aukinnar neyzlu grænmetis, þótt neyzlan sé þar margfalt meiri en hún er hér. Stóraukin neyzla grænmetis er talin áhrifamikil leið til bættrar heilsu.

Stefna íslenzkra stjórnvalda leiðir til lakari heilsu þjóðarinnar og meiri kostnaðar ríkis og skattgreiðenda af sjúkrahúsum og öðrum stofnunum veikindageirans en ella væri. Stefna ríkisstjórnarflokkanna er beinlínis tilræði við líf og heilsu almennings á Íslandi.

Harðast kemur hrammur afturhaldsins niður á neyzlu þess grænmetis, sem hollast er, lífrænt ræktaðs grænmetis. Það er dýrara en annað grænmeti og sérstaklega hart leikið af ofurtollum. Kílóverð á lífrænt ræktuðu grænmeti er hér báðum megin við þúsundkallinn.

Í ljósi þessara móðuharðinda af mannavöldum er hlálegt, að nytsamir sakleysingjar koma fram í ríkisreknum auglýsingum til að hvetja fólk til að borða það, sem þeir kalla fimm skammta af grænmeti á dag. Sakleysingjarnir eru greinilega lítt fróðir um fjárhag almennings.

Sérfræðingarnir, sem hafðir hafa verið að fífli í auglýsingum þessum, ættu að biðja þjóðina afsökunar með því að ganga sameiginlega á fund ríkisstjórnarinnar og óska eftir afnámi ofurtollanna. Þar finna þeir vandamálið ekki síður en í lélegum lífsháttum almennings.

Hlutur neytenda er í auknum mæli fyrir borð borinn. Ofurtollar á grænmeti eru ekki aðeins fjárhagslegar ofsóknir, heldur spilla þeir einnig heilsu fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Handlagni og hyggindi

Greinar

Kalífunum í Bagdað var fyrr á öldum kennd ein iðngrein, svo að þeir gætu haft af henni lifibrauð, ef örlögin veltu þeim úr valdasessi. Þetta er aftur orðið áhugavert öryggisnet, þegar svo er komið, að háskólamenntun veitir aðeins stundum aðgang að starfi við hæfi.

Skólakerfi okkar er eins og raunar annarra þjóða læst í gömlum viðjum bóknáms, sem framleiðir mikinn fjölda tiltölulega sérhæfðs fólks. Sumt af þessu fólki á erfitt með að fá vinnu á síðustu og verstu tímum og býr ekki yfir nægri sveigju til að taka upp nýja þræði.

Skólarnir kæmu notendum sínum að betra gagni, ef minni áherzla væri lögð á námsefni, sem kveikir ekki áhuga. Tímanum og orkunni væri betur varið til að auðvelda þeim að komast af úti í lífinu, hvernig sem allt veltist, þegar heilar atvinnugreinar hníga eða rísa.

Flestir geta sparað sér mikinn kostnað á lífsleiðinni með því að kunna að handleika verkfæri, bæði handknúin og vélknúin. Hamrar, skrúfjárn og sagir trésmiðanna liggja í augum uppi, einnig tengur og skrúfjárn rafvirkjanna, svo og rörtangir pípulagningamanna.

Sá, sem kann að handleika verkfæri atvinnumanna í byggingaiðnaði, getur sparað sér hundruð þúsunda króna á lífsleiðinni. Svipað er að segja um þá, sem kunna að handleika verkfæri vél- og bílvirkja. Verkfæraleikni getur látið lágar tekjur endast eins og miðlungstekjur.

Með verkfærum er hér átt við þau tól, sem hversdagslega eru notuð í handverki og ekki þau, sem notuð eru í handavinnutímum skóla til að búa til jólagjafir úr krossviði eða í öðru föndri af slíku tagi. Hér er átt við, að skólafólk kynnist alvöruverkfærum daglegs lífs.

Eins er mikilvægt að reyna að kenna nemendum á peninga með því að setja þá í spor neytenda, sem þurfa að láta enda ná saman. Í stað einhvers hluta af þeirri óhlutlægu stærðfræði, sem þeim er boðin, má bjóða þeim dæmi, sem skipta máli í daglegu lífi fólks.

Mörgum nemendum mundi bregða, ef þeir framreiknuðu tíu ára kostnað af einum sígarettupakka á dag eða tíu ára kostnað af einum lítra af gosi á dag. Þannig má líka framreikna bjórinn og súkkulaðið, sem margir innbyrða af algeru tillitsleysi við eigin fjárhag.

Í neytendatímum geta skólar sent nemendur í verzlanir og látið þá setja saman ímyndaðar matarkörfur, sem rúmast innan ramma tilgreindra fjárráða. Með samanburði á nytsemi og kostnaði matarkarfanna má reyna að vekja tilfinningu fyrir fánýti sumrar neyzlu.

Fólk á misjafnlega erfitt með að láta peningana endast. Sumir verða háðir hátekjum og verða bjargarlausir, ef þeir þurfa að handleika verkfæri eða velta fyrir sér krónum vegna óvæntrar tekjuskerðingar. Aðrir hafa lag á að láta tekjurnar endast, hverjar sem þær eru.

Ekki þarf að líta í margar matarkörfur fólks í kjörbúðum til að sjá, að fjöldi manna hefur litla sem enga tilfinningu fyrir gæðum og verði. Körfurnar eru fullar af lélegri dósavöru og pakkavöru, er kostar miklu meira en vönduð og kræsileg vara, sem er minna unnin.

Sumt fólk virðist fálma eins og í leiðslu eftir mikið auglýstri vöru, innihaldsrýrum ímyndunum og verksmiðjuframleiddu ígildi dýrafóðurs, en missir af því, sem er bragðbezt, hollast og ódýrast. Ungt fólk hrekst út á neytendamarkaðinn án nokkurrar verkþjálfunar.

Með því að bjóða verkfæra- og neyzluþjálfun geta skólarnir öðlazt nýjan tilgang og fært Íslendingum framtíðarinnar handlagni og hyggindi, sem í hag koma.

Jónas Kristjánsson

DV

Við vantreystum dómurum

Greinar

Nýlega var maður dæmdur í Héraðsdómi Vesturlands fyrir nokkrar líkamsárásir, þar á meðal nokkur nefbrot. Meðal annars hafði hann barið tvo menn í höfuðið með riffilskefti. Einnig hafði hann misþyrmt manni í bíl, kastað honum út, afklætt hann og úðað á hann málningu.

Þessi mikilvirki, einbeitti og hættulegi ofbeldismaður fékk eins árs fangelsi fyrir þetta allt, þar af níu mánuði skilorðsbundna. Sami Héraðsdómur Vesturlands dæmdi um svipað leyti unga konu í tveggja ára fangelsi án skilorðs fyrir eina alvarlega, en staka, líkamsárás.

Dómarnir endurspegla misræmi í dómvenju. Annar aðilinn skaðar tólf manns og situr inni í þrjá mánuði. Hinn skaðar einn mann og situr inni í tuttugu og fjóra mánuði. Síðari dómurinn er nokkuð harður, en fyrri dómurinn er langt út af korti venjulegs réttarríkis.

Að undirlagi Hæstaréttar, sem skapar dómvenju, hefur myndazt hefð um, að dómstólar nýti sér ekki refsiheimildir laga í ofbeldismálum, heldur haldi sig við neðri mörk þeirra. Hæstiréttur hefur löngum álitið ofbeldismál langtum ómerkilegri en glæpi á sviði fjármála.

Svo ógeðfellur er Hæstiréttur í ofbeldismálum, að nýlega kvað hann upp málamyndadóm yfir margföldum nauðgara og gaf honum stórfelldan afslátt út á, að hann hefði á nauðgunartímabilinu skaffað fórnardýrinu mat og húsnæði. Slíkir dómarar eru tæpast með réttu ráði.

Dómsmálaráðherra veitti Hæstarétti langþráða áminningu í hátíðaræðu við opnun nýs dómhúss réttarins. Slík áminning er nauðsynleg gagnvart almenningi til að sýna vilja í pólitíska geiranum, en hefur lítil áhrif á afturhaldsliðið í Hæstarétti. Meira þarf til.

Af gefnum tilefnum Hæstaréttar ber Alþingi að setja sérstök lög um þrengda möguleika dómstóla til að gæla við síbrotamenn. Í nýju lögunum verði skýrar skilgreint svigrúmið, sem dómstólar hafi, úr því að þeim er ekki treystandi til að nota það svigrúm, sem nú er til.

Í nýju lögunum ber að þrengja svigrúm dóma yfir síbrotamönnum í ofbeldismálum upp að efri mörkum núverandi svigrúms. Hins vegar má þrengja svigrúm dóma yfir peningabrotamönnum niður að neðri mörkum núverandi svigrúms. Fólk á að vera mikilvægara en fé.

Í lögunum ber einnig að gæta hagsmuna fórnardýra ofbeldismanna með því að skylda dómstóla til að úrskurða mun hærri skaðabótagreiðslur en nú og fela ríkisvaldinu að greiða fórnardýrunum peningana og reyna síðan sjálft að innheimta þá hjá ofbeldislýðnum.

Við verðum að taka afleiðingunum af því, að Hæstiréttur og héraðsdómstólar fást ekki til að breyta venjum sínum, þrátt fyrir mikla og sívaxandi fyrirlitningu utan úr bæ. Við verðum að taka afleiðingunum af því, að við vantreystum réttilega þessum stofnunum.

Ef við látum yfir okkur ganga héraðsdóma og Hæstaréttardóma, sem stríða gegn réttlætiskennd fólksins í landinu, hættum við á, að tilfinning fólks fyrir lögum og rétti grotni niður. Á meðan fremja Hæstiréttur og einstakir héraðsdómar ný afglöp, sem gera fólk agndofa.

Þjóðfélagið hefur verið að breytast hratt á undanförnum árum. Ungir afbrotamenn eru skipulagðari og miskunnarlausari en áður tíðkaðist. Notkun fíkniefna hefur aukizt og fjölgað ofbeldisglæpum. Á sama tíma krefst þjóðfélagið aukinnar virðingar við líf og limi fólks.

Til að mæta breytingunum og tregðu dómstóla þarf Alþingi að breyta refsiákvæðum laga og gera ríkisvaldið að millilið í greiðslum skaðabóta vegna ofbeldis.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgð tóbaksverzlunar

Greinar

Tóbaksverzlun er ágreiningsefni í valdakerfinu um þessar mundir. Meðal annars er tekizt á um rétt einstakra vörumerkja til aðgangs að markaði, um einkarétt ríkisfyrirtækis og um skyldu stjórnkerfisins til samráðs við aðila, sem halda uppi vörnum gegn tóbaksneyzlu.

Þegar talað er um nauðsyn viðskiptafrelsis á þessu sviði, verður að hafa í huga, að staðfest er, að tóbak er vanabindandi eitur. Fólk ánetjast tóbaki og á erfitt með að hætta að reykja, þegar það vill eða þarf. Og þjóðfélagið hefur gífurlegan sjúkdómakostnað af tóbaksneyzlu.

Á hinn bóginn er óhagkvæmt og óréttlátt, að ríkið hafi skömmtunarstjóra til að ákveða, hvaða vörumerki megi selja og hvaða vörumerki megi ekki selja af sömu vörutegund. Ennfremur, að ríkið stundi verzlun, sem jafnan er betur komin í höndum einkaframtaksins.

Í þessari þverstæðu er eðlilegt, að spurt sé, af hverju sé verið að deila um verzlunarhætti skaðlegrar vöru, sem ætti að vera bönnuð með öllu. Því er til að svara, að tóbaki hefur á löngum tíma tekizt að skapa sér þegnrétt, sem nú er á hægfara undanhaldi, en er ekki horfinn enn.

Sums staðar í útlöndum er undanhaldið hraðara en hér. Í Bandaríkjunum eru reykingar bannaðar mun víðar, til dæmis á öllum veitingahúsum í New York. Þar sækja áhugasamtök, einstök ríki og hópar lögmanna með hörðum málaferlum gegn tóbaksframleiðendum.

Í málflutningi tóbaksandstæðinga er sagt, að framleiðendur og seljendur tóbaks viti vel, að vara þeirra sé vandabindandi og baneitruð. Þeir telja þá skaðabótaskylda gagnvart kostnaðaraðilum sjúkrahúsa, svo og fjölskyldum fárveikra og látinna tóbakssjúklinga.

Búast má við, að tóbaksstríðið í Bandaríkjunum muni fyrr eða síðar endurspeglast í okkar þjóðfélagi. Því er tímabært fyrir innflytjendur tóbaks að fara að kaupa sér tryggingar gegn hugsanlegum málaferlum af hálfu þeirra, sem bera kostnað af heilsuspjöllum tóbaks.

Sem umboðsmanni þjóðarinnar ber ríkinu að stuðla að heilsu hennar með aðgerðum, sem draga úr tóbaksneyzlu. Sölubann er freistandi takmark, en háð því, að hægt sé að takmarka ólöglegan innflutning og ýmsa neðanjarðarstarfsemi, sem jafnan þrífst kringum hann.

Meðan tóbak er enn leyft, er unnt að takmarka aðgang með aukinni skattheimtu, að svo miklu leyti, sem unnt er að hafa hemil á smygli, svo sem fyrr segir. Í núverandi stöðu virðist það vera vænlegur biðleikur, meðan þjóðfélagið er að átta sig á nauðsyn tóbaksbanns.

Einnig er unnt að takmarka aðgang að tóbaki með því að taka það úr nauðsynjaverzlunum og hafa eingöngu til sölu í fáum sérverzlunum á borð við áfengisútsölur ríkisins. Þegar aukin er fyrirhöfnin við að ná í vöruna, minnkar notkun hennar samkvæmt markaðslögmálum.

Þessi aðferð hefur þann galla, að hún leiðir til skömmtunar á rétti til smásölu tóbaks og stangast að því leyti á við stefnu frjálsrar verzlunar. Í reynd fer skömmtunin nánast óhjákvæmilega fram á þann hátt, að ríkið hefur sérstaka einkaleyfisstofnun til að annast söluna.

Meðan tóbak er hreinlega ekki bannað, lendum við í ágreiningi milli heilsufarssjónarmiða annars vegar og sjónarmiða viðskiptafrelsis hins vegar. Meðan tóbak er leyft, ber ríkinu að reyna að gæta jafnræðis meðal þeirra, sem vilja koma hinu vanabindandi eitri á framfæri.

Sem fyrst þarf þó að setja lög, sem varpa ábyrgð á heilsutjóni af völdum tóbaks á herðar seljenda, svo að í náinni framtíð sé unnt að sækja þá að réttum lögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Suðurlandsskjálfti

Greinar

Varnir gegn tjóni af völdum Suðurlandsskjálfta eru öflugri en almennt hefur verið talið. Hönnuðir mikilvægustu mannvirkja hafa í auknum mæli haft hliðsjón af hættunni. Frekari aðgerða verður þó þörf, þegar búið er að gera heildarúttekt á stöðu mannvirkjanna.

Engin varnarkeðja er öflugri en veikasti hlekkurinn. Ein brú á viðkvæmum stað ræður því, hvort samgöngur rofna eða ekki. Ef Þjórsárbrúin á hringveginum verður ófær, er ekki um neina aðra kosti að ræða en brú undir Heklurótum í nágrenni Búrfellsvirkjunar.

Staðan er svipuð á vatnasvæði Rangár, en betri á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár, þar sem eru margar brýr. Gott er að dreifa brúm, því að jarðskjálfti er yfirleitt aðeins harður á þröngu svæði. Þótt hann geri hvassa atlögu að einni brú, getur sloppið önnur brú á sömu á.

Vegagerðin hefur lengi haft Suðurlandsskjálfta í huga við hönnum mannvirkja, en síður við dreifingu þeirra. Þjórsárbrú og Ölfusárbrú við Selfoss hafa verið mældar og styrktar. Þjórsárbrú hvílir nú á jarðskjálftalegum úr gúmi og blýi, sem hafa sömu áhrif og höggdeyfar bíla.

Þótt Þjórsárbrú sé búin undir Suðurlandsskjálfta, væri samgöngukeðjan traustari, ef reist væri önnur Þjórsárbrú í byggð. Sama er að segja um Rangá. Að hafa aðeins eina samgönguæð þvert um Suðurland er eins óvarlegt og að hafa aðeins eina raflínu um svæðið.

Orkuframleiðslan og orkuflutningurinn á að vera nokkru traustari en vegakerfið. Virkjanasvæðin eru tvö, vestast á svæðinu og austast, við Sog og Þjórsá-Tungnaá. Línurnar frá austara svæðinu eru tvær, þar af önnur ofan byggða. Ólíklegt er, að þetta bresti allt í einu.

Án efa er hagkvæmast að flytja slasað fólk sem mest til höfuðborgarsvæðisins, þar sem slysadeildir eru öflugastar að tækni og mannskap. Þyrlur eru til og eru án efa skjótvirkasta og öruggasta leiðin til að koma fólki þangað, hvernig sem ástand brúa er á skjálftasvæðinu.

Hins vegar þarf að meta, hvernig staðan verður, ef varnarliðið hverfur af Keflavíkurvelli, til dæmis vegna sparnaðarsjónarmiða í Bandaríkjunum, sem eru utan áhrifasviðs okkar. Ákveða þarf með góðum fyrirvara, hvernig við bregðumst við brottflutningi á þyrlum.

Einna traustast er ástandið sennilega í venjulegum húsum á svæðinu, íbúðarhúsum og vinnustöðum fólks. Lengi hafa verið í gildi reglur um sérstaklega mikinn styrkleika húsa á svæðinu. Flest hafa þau verið reist á síðari árum og á grundvelli þessara reglna.

Lögð hefur verið fram skýrsla um aðgerðir til að draga úr hættum af völdum Suðurlandsskjálfta, unnin af Veðurstofu, Orkustofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Raunvísindastofnun og verkfræðideild Háskóla Íslands. Þar er hvatt til samræmingar málsaðila.

Að tillögu skýrsluhöfunda verður væntanlega skipuð nefnd um jarðskjálftavá. Verkefni hennar verður að samræma frekari rannsóknir á jarðskjálftahættu og að samræma mat á veikustu hlekkjum varnarkeðjunnar, svo að styrkja megi þá hlekki sérstaklega.

Spárnar segja, að 90% líkur séu á öflugum Suðurlandsskjálfta á næstu tveimur áratugum. Samkvæmt skýrslunni erum við tiltölulega vel undir skjálftann búin, en þurfum að samræma varnaraðgerðir, svo og að treysta keðjuna með nýjum eða endurbættum hlekkjum.

Stöðumat og tillögur skýrslunnar eru mikilvægt skref í þá átt að reyna að læra að umgangast náttúruöflin í landinu af fullri virðingu og hafa á þeim hemil.

Jónas Kristjánsson

DV

Innrás kynninga

Greinar

Glóruleysa og veruleikafirring, oftast í tengslum við ofbeldi, virðast vera vinsælt efni kvikmynda nú á dögum, ef marka má rustalegar kynningar, sem birtast óviðbúnu fólki í auglýsingatímum sjónvarpsstöðva og fjalla ýmist um væntanlegt efni sjónvarpsrása eða kvikmyndahúsa.

Fullorðið fólk ræður auðvitað, hvort það fer í bíó og hvort það horfir á sjónvarpskvikmyndir, og getur forðað sér frá óhroðanum. En misbrestur er á, að þessu efni sé haldið frá börnum, einkum þeim börnum, sem sízt mega við því vegna erfiðra heimilisaðstæðna.

Leidd hafa verið rök að því, að gerviheimur kvikmynda hafi slæm áhrif á sum börn, sem eru í mestri hættu, af því að þau leika að mestu lausum hala vegna félagslegra aðstæðna. Þessi börn leita fyrirmynda og ofbeldisreynslu í veruleikafirrtum kvikmyndum.

Takmörk eru fyrir því, hvað ríkið getur gert til að koma í stað foreldra, sem ekki eru til taks eða sinna ekki uppeldi af öðrum ástæðum. Reynt er þó að hindra óheftan aðgang að kvikmyndahúsum og sjónvarpssýningar kvikmynda af þessu tagi fyrir klukkan tíu.

Mikilvæg viðbót við varnaraðgerðir þjóðfélagsins væri hugbúnaður, sem gerði fólki kleift að loka fyrir auglýsingar, sem sýndar eru fyrir og eftir fréttatíma sjónvarps og einkum þeirra, sem sýndar eru innan fréttatímans. Þessi innskot eru full af kynningum á kvikmyndum.

Hvimleitt er að geta ekki setzt niður til að fylgjast með nýjustu fréttum án þess að verða fyrir linnulausri skothríð sýnishorna úr kvikmyndum, sem virðast gerðar af geðveiku fólki fyrir geðveikt fólk. Fólk á rétt á að geta fengið í hendur varnarbúnað gegn þessu ofbeldi.

Hryllingur og ofbeldi fréttanna sjálfra er annars eðlis en hliðstæð atriði kvikmyndakynninganna. Ógnarfréttir eru í flestum tilvikum hluti einhvers raunveruleika, sem við þurfum að vita um sem borgarar í vernduðu og nánast lokuðu sérfélagi fjarri vandamálum nútímans.

Að vísu eru sumar hryllingsfréttir leiknar eða framleiddar. Til dæmis var Persaflóastríðið að mestu tilbúningur eins og fólk sá það á skjánum. Landganga bandamanna í Sómalíu var leikin kvikmynd með mörgum tökum. Uppþot eru oft framleidd fyrir sjónvarpsfréttir.

Raunverulegir eru hins vegar harmleikirnir í Bosníu og Rúanda, svo annars konar dæmi séu nefnd. Mestu máli skiptir, að hryllingur í sjónvarpsfréttum er annaðhvort raunveruleiki eða eftirlíking af raunveruleika, en ekki samþjappaðir órar langt utan alls veruleika.

Sjónvarpsfréttir eru líka yfirleitt tempraðar með aðgangi fólks að svipuðum fréttum í útvarpi og á prenti, þar sem minni hætta er á, að sýndarveruleiki sjónvarpstökuvéla trufli veruleika talaðrar eða ritaðrar frásagnar. Saga er sjón ríkari, þegar til kastanna kemur.

Fólk á rétt á að fá að sjá speglun sjónvarpsfrétta á góðum og vondum atburðum án þess að kæra sig um að sjá innskot af órum þeirra, sem framleiða og markaðssetja gersamlega veruleikafirrtar kvikmyndir, sem boðaðar eru í sjónvarpsdagskrám eða kvikmyndahúsum.

Því er haldið fram, að kynningarnar feli ekki í sér atriði, sem valda takmörkun á aðgangi barna og unglinga. Reynslan sýnir samt, að venjulegu fólki, sem ekki telur sig hafa þörf fyrir óra af þessu tagi, finnst sumu hverju þetta vera óþægileg innrás á heimilið.

Við viljum hugbúnað til að loka fyrir sjónvarpsauglýsingar, svo að við getum varið heimilin fyrir innrás geðsjúkra glæpamanna úr kvikmyndaheimi Kaliforníu.

Jónas Kristjánsson

DV

Stórkarlinn frá Vilníus

Greinar

Formaður Alþýðuflokksins er litríkur stjórnmálamaður. Einkum þess vegna verður hans saknað, þegar hann yfirgefur fremstu víglínu stjórnmálanna með því að hætta formennsku í Alþýðuflokknum og lýsa yfir, að þetta sé síðasta kjörtímabil sitt á Alþingi.

Tvo kosti aðra hefur Jón Baldvin Hannibalsson, sem greina hann frá ýmsum öðrum þeim, sem verið hafa og eru fremstir í stjórnmálum landsins. Í fyrsta lagi er hann óvenjulega snarpgreindur. Og í öðru lagi er hann blessunarlega laus við hefnigirni og refsingaráráttu.

Á hinn bóginn var hann oft ábyrgðarlaus í persónulegri framgöngu, fór stundum einkar frjálslega með staðreyndir og gerði lítið í að koma fram þeim stefnumálum Alþýðuflokksins, sem greina hann frá öðrum flokkum. Segja má, að hann hafi daðrað við yfirborðsmennsku.

Gallar hans sem stjórnmálamanns komu vel fram, þegar hann var ráðherra og þar af leiðandi hálfgerður embættismaður. Hann skortir ýmsa eiginleika, sem embættismönnum eru oftast eignaðir. Sem utanríkisráðherra olli hann hvað eftir annað ringulreið í ráðuneytinu.

Ekki má heldur gleyma frjálslegri umgengni hans við reglur um risnu, sem oftar en einu sinni varð fræg í fjölmiðlum, svo og misnotkun hans á ferðahvetjandi tekjupóstum. Siðareglur hans sem ráðherra voru í ólagi. Hann ruglaði saman fjármálum sínum, flokks og þjóðar.

Hins vegar koma kostir hans vel fram, þegar hann stundar burtreiðar á Alþingi. Þar er hann í essinu sínu, nýtur snarprar greindar sinnar og bregður glaðbeittur vopnum sínum. Eins og með ásum í Valhöll eru svo allar væringar gleymdar í veizlu að kvöldi.

Öfugt við ýmsa aðra frammámenn í stjórnmálum heldur Jón Baldvin enga skrá yfir þá, sem kunna vitandi eða óvitandi að hafa gert honum skráveifu á stjórnmálaferlinum. Hann hefur aldrei legið í símanum til að fá þriðju aðila til að taka þátt í refsiaðgerðum gegn slíkum.

Þannig er Jón Baldvin hjartahreinn, þótt hann sé gallaður sem stjórnmálamaður, svo sem hér hefur verið rakið. Drenglyndi hans og kjarkur komu að góðum notum, þegar hann átti persónulega þátt í að koma á lýðræði í Eystrasaltslöndunum við hrun Sovétríkjanna.

Þegar búið er að kortleggja kosti og galla formannsins, gnæfir þetta eina atriði yfir önnur og tryggir honum sess, ekki í Íslandssögunni, heldur í stjórnmálasögu aldarinnar. Hann svaraði fyrstur neyðarkalli Eystrasaltsríkjanna og fór sjálfur á vettvang til Vilníus.

Meðan utanríkisráðherrar annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins rumdu sitt ha og humm, gekk Jón Baldvin Hannibalsson fram fyrir skjöldu og eyðilagði möguleika annarra vestrænna stjórnmálamanna til að stunda hina venjulegu iðju þeirra að japla, jamla og fuðra.

Hin hvassa framganga hans á örlagastundu í sögu Eystrasaltsríkjanna var í samræmi við fyrri áherzlur hans á því sviði. Hann var þá sjálfum sér samkvæmur og óð þannig í málið, að önnur Vesturlönd urðu að fylgja á eftir. Þetta var hápunktur stjórnmálaferils hans.

Framganga Jóns Baldvins í málefnum Eystrasaltsríkjanna kom Íslandi á blað í stjórnmálasögu 20. aldar. Það er meira en hægt er að segja um flesta aðra ráðamenn á Íslandi á undanförnum árum. Þegar á hólminn var komið, reyndist hann stórkarl, en hinir smámenni.

Eftir tilraun til heiðarlegrar kortlagningar á ferli fráfarandi formanns Alþýðuflokksins er niðurstaðan sú, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.

Jónas Kristjánsson

DV