Greinar

Botnlausa milljarðamýrin

Greinar

Nýjasta aðferðin við að brenna fjármuni okkar á samgöngubáli er ráðagerð ríkisstjórnarinnar um að grafa upp Vatnsmýrina og malbika hana að nýju fyrir að minnsta kosti hálfan annan milljarð króna, svo að unnt sé að reisa þar flugvallarmannvirki fyrir annað eins.

Verjandi er að nota Reykjavíkurflugvöll áfram til bráðabirgða til að fresta útgjöldum við innanlandsflugstöð á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar er varhugavert að eyða miklum peningum í hann, því að hann á enga framtíð fyrir sér inni í sjálfum miðbæ borgarinnar.

Á Keflavíkurflugvelli þarf ekki að reisa mikið annað en flugstöð innanlandsflugs í nágrenni Leifsstöðvar og helzt samtengda henni. Á Reykjavíkurflugvelli þarf í rauninni að leggja alveg nýjan flugvöll til viðbótar öllum mannvirkjum og tækjum, sem fylgja slíkum flugvelli.

Munurinn á þessum tveimur kostum er að minnsta kosti hálfur annar milljarður króna. Það er hálfum öðrum milljarði króna of mikið fyrir þjóðfélag, sem ekki hefur efni á upplýsingahraðbraut nútímans og getur ekki haldið uppi sómasamlegu heilbrigðis- og skólakerfi.

Engin sérstök hrifning er í Reykjavík út af þessum ráðagerðum ríkisstjórnarinnar, sem eru runnar undan rifjum samgönguráðherra, helzta sérfræðings þjóðarinnar í brennslu verðmæta í þágu sérhagsmuna á landsbyggðinni. Vafalaust verður andstaðan öflug.

Ekki verður séð, að ríkisstjórninni takist að brenna þessum peningum án þess að gera borgarstjórn Reykjavíkur meðseka í sukkinu. Þess vegna verður þrýst á borgina að neita Halldóri Blöndal og félögum hans um tilskilin leyfi til að grafa upp Vatnsmýrina.

Reykvíkingar hafa töluverð óþægindi af lendingum í Vatnsmýrinni. Að nokkru hefur verið tekið tillit til þessara óþæginda með því að banna lendingar og flugtök að næturlagi. En slysahættan af fluginu hverfur ekki við það. Hún færist bara af nóttinni yfir á daginn.

Þegar allt hefur verið sett á vogarskálarnar, slysahættan, þægindin af stuttri leið frá flugstöð til miðbæjar og sú staðreynd, að flugvöllurinn er þarna, hefur niðurstaðan hallazt að því, að hann fái að vera. Vogardæmið gerbreytist, ef leggja þarf nýjan flugvöll í mýrina.

Ef umboðsmenn þjóðarinnar telja brýnt að skipta út ónýtum Reykjavíkurflugvelli, er Keflavíkurflugvöllur augljós arftaki. Það stafar af sömu ástæðu og þeirri, að Reykjavíkurflugvöllur er núna notaður. Það stafar einfalega af, að hann er til. Ekki þarf að leggja hann.

Frá flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli er tæplega 30 mínútna lengri akstur til Lækjartorgs en frá fyrirhugaðri flugstöð Reykjavíkurflugvallar í Nauthólsvík. Tímamunurinn er styttri á leið frá flugstöðvunum til ýmissa mikilvægra áfangastaða á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi litli tímamunur er það eina, sem er óhagstætt í dæmi Keflavíkurflugvallar. Á móti koma betri og fleiri flugbrautir, meiri og betri tæki til lendingar og flugtaks, margvísleg og verðmæt atriði, sem fylgja innri gerð alþjóðlegs flugvallar, svo og mun minni slyshætta.

Við skulum heldur nota Reykjavíkurflugvöll enn um sinn eða meðan það er talið verjandi að beztu manna yfirsýn. Við skulum jafnframt nota tímann vel til að hanna hagkvæma flugstöð og flugvélastæði við hlið Leifsstöðvar, með samgangi undir þaki milli stöðvanna.

Sízt af öllu eigum við að fara nú að grafa hálfan annan milljarð af skattfé í Vatnsmýrinni til þess að geta síðan lagt annað eins til viðbótar í Reykjavíkurflugvöll.

Jónas Kristjánsson

DV

Spillt umburðarlyndi

Greinar

Í frjálsum ríkjum á borð við Bandaríkin og Norðurlönd þætti fróðlegt að ræða umtalsverðan stuðning stórfyrirtækis við forsetaframboð og hvort það sé siðferðilega í lagi, að frambjóðandinn sitji síðan í Hæstarétti og úrskurði í málum, sem varða þetta sama stórfyrirtæki.

Hér á landi eru viðhorfin umburðarlyndari. Í fyrsta lagi er slík umræða talinn dónaskapur við umræddan hæstaréttardómara. Í öðru lagi er fullyrt, að annarlegar hvatir liggi að baki umræðunni, annaðhvort þess, sem fréttina sagði eða einhverra aðila á bak við hann.

Í nágrannalöndunum er spurt, um hvað verið sé að fjalla. Hér er hins vegar spurt, hver talaði um hvern og af hvaða hvötum. Þar er fjallað málefnalega um málin, en hér er fjallað persónulega um þau. Þar leiðast menn stundum út í ofstæki, en hér út í spillingu.

Þeir, sem starfa við fréttir, verða áþreifanlega varir við, að hugsunarháttur fólks er að meðaltali annar hér á landi en í löndum á borð við Bandaríkin og Norðurlönd. Fréttir, sem taldar væru málefnalegar þar, eru taldar persónulegar og jafnvel ofstækisfullar hér.

Stundum ganga menn, sérstaklega í Bandaríkjunum, svo langt í stefnufestu við ópersónuleg grundvallaratriði, að úr verður sértrúarstefna eða jafnvel hreint ofstæki. Viðhorfin hér á landi eru umburðarlyndari, en um leið hentugri jarðvegur fyrir spillingu.

Ef ekki má fjalla hér á landi um grundvallarforsendur í opinberu siðferði, af því að í því felist móðgun við “valinkunna heiðursmenn”, sennilega af “annarlegum hvötum” fréttamanns, gengur umburðarlyndið svo langt, að góður jarðvegur hefur myndazt fyrir spillingu.

Við sjáum annars vegar samhengið milli ópersónulegrar umræðu, málefnahyggju og ofstækis og hins vegar milli persónulegrar umræðu, umburðarlyndis og spillingar. Rannsóknablaðamennska hentar við fyrri aðstæðurnar, en á erfitt uppdráttar við hinar síðari.

Við þennan mismun bætist hagkvæmnishugsun margra Íslendinga, sem eru frábitnir skoðunum, er styggt gætu einhvern, sem þeir gætu haft gott af. Hér eru margir hneigðari til að bugta sig fyrir valdinu en frjálsborið fólk telur sér sæma í sumum nágrannalöndunum.

Aðstaða til einokunar eða fáokunar er ríkari þáttur í efnahagslífinu hér en í nálægum löndum. Einnig eru fólk og fyrirtæki háðari fyrirgreiðslum, sem sumpart byggjast á geðþótta valdamanna, svo sem ráðherra. Við þær aðstæður teljast viðkvæmar spurningar óviðeigandi.

Erfitt er að rjúfa vítahring fyrirgreiðslna og fáokunar, umburðarlyndis og spillingar. Hver þessara þátta styður hina. Umburðarlyndi og virðing fyrir valdi leiða til, að ekki er spurt spurninga, sem sjálfsagt þykir að spyrja í öðrum löndum. Frelsisboltinn fer því ekki af stað.

Íslenzk fjölmiðlun er brennd þessu vandamáli. Mikið af fréttum er lítið annað en endurómur af frásögnum valdamanna í stjórnmálum eða efnahagslífi. Tilraunum til að spyrja viðkvæmra spurninga er oft svarað með því að segja, að nú sé sorpfréttamennskan farin af stað.

Í alvörulandi lýðræðiskerfis þætti það merkilegt umræðuefni, hvort frambjóðandi til embættis forseta geti síðan verið hæstaréttardómari í málum, sem beint eða óbeint varða fyrirtæki eða stofnanir, er veittu honum umtalsverðan stuðning í kosningabaráttunni.

Hér á landi veldur tilraun til slíkrar umræðu hins vegar titringi. Málið er talið óviðeigandi, of persónulegt, of ofstækisfullt, of sorpfréttalegt, of óíslenzkt.

Jónas Kristjánsson

DV

Rústir Rússlands

Greinar

Óhjákvæmilegt var, að Alexander Lebed yrði rekinn úr ráðherraembætti yfirmanns rússneska öryggisráðsins. Hann fer sínar eigin leiðir og lætur ekki að stjórn, svo sem greinilega kom í ljós, þegar hann samdi frið í Tsjetsjeníu gegn vilja valdamikilla ráðamanna í Kreml.

Höfuðástæðan fyrir brottrekstri Lebeds er, að hann skyggði á rónann, sem getur ekki leikið hlutverk forseta ríkisins vegna langvinnrar legu á sjúkrahúsum og heilsuhælum. Jeltsín gat aldrei lengi sætt sig við, að einn ráðherrann krefðist afsagnar forsetans hvað eftir annað.

Lebed er raunar að sumu leyti það, sem Jeltsín var, áður en hann eyðilagði heilsu sína. Lebed er kjarkmaður, sem nýtur almenns trausts og víðtækrar hylli, fyrst sem herstjóri og síðan sem friðarsinni. Enda ber hann sjónarmið sín á torg og nærist á almenningsáliti.

Jeltsín er lifandi lík í embætti og reynir að tefla öðrum ráðamönnum ríkisins þannig, að þeir haldi hver öðrum í skefjum. Lebed var of stór í sniðum fyrir þá taflmennsku forsetans, en verður honum ekki síður óþægur ljár í þúfu í andstöðu utan ríkisstjórnarinnar.

Lebed getur núna vísað til ljómans af ferli sínum, fyrst í Afganistan, síðan í Moldavíu og síðast í Tsjetsjeníu, án þess að þurfa að taka frekari ábyrgð af þáttöku í ríkisstjórn, sem er dæmd til vandræða og óvinsælda. Hann mun eiga léttan leik sem and-Jeltsín ríkisins.

Lebed þarf ekki að hafa fyrir því að sameina pólitískar hreyfingar eða sættast við smákónga í stjórnarandstöðunni. Hann mun bara halda áfram að leika einleik og bíða færis í næstu forsetakosningum. Honum mun duga eigið persónufylgi, ef hann teflir áfram rétt.

Með þessu ekki verið að segja, að Lebed muni í fyllingu tímans verða farsæll forseti. Hann býr yfir ríkri einræðiskennd, sem ólíklegt er, að þoli mikil völd til lengdar. Hann er illa að sér, meðal annars um efnahagsmál, og er fullur fordóma, til dæmis í garð Vesturlanda.

Hins vegar er líklegt, að hann muni sem forseti reyna að takast á við verstu vandamálin heima fyrir, þau sem hafa margfaldazt á stjórnleysistíma Jeltsíns róna. Lebed mun ganga betur að koma á lögum og reglu og koma böndum á glæpaflokkana, sem núna fara sínu fram.

Rússland Jeltsíns er í rústum. Fingralangir skriffinnar, ríkisforstjórar, herforingjar og undirheimaleiðtogar hafa stolið öllu steini léttara í landinu. Lög og réttur hafa vikið fyrir hnefarétti götunnar. Raunverulegt valdsvið ríkisstjórnarinnar þrengist stöðugt.

Það kaldranalega er, að sá ráðherra, sem mesta ábyrgð ber á verstu óförum ríkisvaldsins, ósigri þess fyrir glæpalýð götunnar og blóðbaði þess í Tsjetsjeníu, Anatolí Kúlikov innanríkisráðherra, var einmitt sá, sem hafði frumkvæði að hreinsun Lebeds úr ríkisstjórninni.

Frá sjónarmiði umheimsins er ástandið skelfilegt í Rússlandi og á eftir að versna enn. Forsetinn rorrar á sængurkantinum, sefasjúkir hirðmenn berjast um völdin, undirheimar leika lausum hala og blóðug átök við sjálfstjórnarhreyfingar munu blossa upp að nýju.

Þetta ótrausta innanlandsástand mun óhjákvæmilega leiða til ótraustrar stefnu í utanríkismálum og því miður einnig til aukinnar ofbeldishneigðar í samskiptum við nánasta umhverfi Rússlands. Ríkið mun verða til aukinna vandræða í fjölþjóðlegum samskiptum.

Í þessu fljótandi ástandi verður brottför Lebeds úr ríkisstjórn til þess að auka óvissuna og veikja þær leifar, sem enn eru af ríkisstjórnarvaldi í rústum Rússlands.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvíði nagar þjóðir

Greinar

Undir forustu nýnasistans Jörgs Haiders náði Frelsisflokkur Austurríkis tæplega 28% atkvæða á sunnudaginn í kosningum landsins til þings Evrópusambandsins. Haider hefur ekki farið leynt með, að ýmsar hugmyndir Hitlers hafi verið góðar, svo sem þrælkunarbúðir.

Stuðningur við Frelsisflokkinn kemur einkum frá fátæku fólki, sem óttast útlendinga, einkum nýbúa, og telur þá munu taka frá sér vinnunna. Það óttast líka samstarf við erlendar stofnanir, einkum Evrópusambandið, sem það telur munu hafa peninga af Austurríki.

Víðar en í Austurríki hefur komið fram, að kjósendur, sem óttast um stöðu sína í lífinu, eru hallir undir lýðskrumara, sem vara við nýbúum, fjölþjóðasamtökum, skattheimtu ríkisins og aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Þetta hefur birzt í ýmsum myndum á Vesturlöndum.

Margir muna enn eftir Glistrup í Danmörku og hliðstæðri hreyfingu í Noregi. Í Frakklandi er Le Pen enn í fullum gangi. Skrumið í Berlusconi á Ítalíu minnir um sumt, en ekki annað, á þessar hreyfingar. Oft hafa flokkar af þessu tagi náð töluverðu atkvæðamagni um tíma.

Kvíðinn í hugarfari kjósenda þessara flokka er hliðstæður kvíðanum í hugarfari þeirra kjósenda, sem nú styðja arftaka kommúnistaflokka í Austur-Evrópu, einkum í Sovétríkjunum, þar sem nýkommúnistaflokkurinn keppir við nýfasistaflokk Zhírínovskís um kjósendur.

Í Frakklandi hefur komið í ljós, að margt fátækt fólk, sem áður studdi franska kommúnistaflokkinn, hefur flutt stuðning sinn til Le Pens. Þannig færast kjósendur beint milli jaðranna í stjórnmálunum án þess að koma við á miðjunni, þar sem venjulegu flokkarnir eru.

Mikilvægt er fyrir vestræn lýðræðisríki að takmarka gengi stjórnmálaafla af þessu tagi með því að spilla fyrir þeim jarðveginum. Ábyrg stjórnmálaöfl þurfa að haga málum á þann veg, að ekki leiði til nagandi kvíða hjá fólki, sem ekki stendur traustum fótum í lífinu.

Miklvægt er, að atvinnuleysi fari ekki úr böndum og að tekjubil ríkra og fátækra mjókki fremur en breikki. Mikilvægt er, að skattheimta ríkisins af almenningi haldist í hófi og að ráðamenn sói ekki opinberum peningum. Stjórnmálin þurfa að gæta hagsmuna hinna kvíðafullu.

Festa af öllu tagi dregur úr ótta og kvíða. Við innflutning nýbúa þarf að gæta varúðar, svo að ekki leiði til spennu í þjóðfélaginu. Haga þarf málum á þann veg, að þeir samlagist þjóðfélaginu og séu ekki geymdir í sérstökum hverfum fátæktar, ofbeldis og atvinnuleysis.

Í Austurríki virðist jarðvegur kvíðans hafa magnazt á undanförnum árum. Einkum eru það nýbúar og aðhaldsaðgerðir ríkisins í tengslum við aðildina að Evrópusambandinu, sem koma almenningi í uppnám, auk þess sem margir minnast þar enn Hitlerstímans af angurværð.

Hér er minna um vandræði af þessu tagi en í flestum lýðræðisríkjum. Bilið milli ríkra og fátækra hefur löngum verið fremur mjótt. Bjartsýni hefur verið landlæg og atvinnuleysi lítið sem ekkert fram á síðustu ár. Nýbúar hafa komið fáir í einu og dreifzt um þjóðfélagið.

Engin hætta er á, að hér á landi rísi íslenzkur Haider eða Le Pen. Eigi að síður er mikilvægt, að við tökum eftir gengi slíkra stjórnmálamanna og lærum að þekkja jarðveginn, sem nærir gríðarlegt fylgi þeirra. Við getum komið í veg fyrir, að slíkur jarðvegur myndist hér.

Fyrst og fremst þarf fólk að geta treyst, að hagsmuna þess sé gætt af hálfu þeirra, sem stjórna landinu hverju sinni, svo að þorri fólks fari ekki að kvíða næsta degi.

Jónas Kristjánsson

DV

Ferðaþjónusta allt árið

Greinar

Ef takast á að lengja ferðamannavertíð landsins, þarf að bjóða fleira en sumarsól og sumarfagra póstkortanáttúru. Eitthvað verður líka að geta freistað erlendra ferðamanna á öðrum árstímum og síðan haldið jákvæðri athygli þeirra, þegar þeir eru komnir til landsins.

Ráðstefnur, ársfundir og sýningar eru ein efnilegu leiðanna að þessu marki. Að hluta til njótum við þar ákveðinnar sjálfvirkni, því að ýmsar stofnanir eru að reyna að safna löndum í mannfundaskrá sína. Röðin kemur um síðir að Íslandi, þegar þannig er hugsað.

Hins vegar gerum við lítið til að fá þetta fólk til að minnast dvalarinnar hér á landi, segja öðrum frá henni og jafnvel koma sjálft hingað aftur við önnur tækifæri. Margt af innviðum ferðaþjónustunnar leggst í dvala á hausti og vaknar ekki aftur fyrr en að vori.

Gistihús, veitingastaðir og ráðstefnusalir í Reykjavík eru upp að vissu marki frambærilegar, en engan veginn svo minnisstæðar stofnanir, að þær geti talizt eins konar ferðamannaparadísir. Yfirleitt líkjast þær hliðstæðum og hversdagslegum miðlungsstofnunum í útlöndum.

Bláa lónið við Svartsengi er um það bil að taka við af Gullfossi og Geysi sem einkennistákn landsins. Það hefur þann kost að nýtast til ferðaþjónustu allt árið og vera í seilingarfjarlægð þeirra ferðamanna, sem eru á Reykjavíkursvæðinu og hafa lítinn tíma til umráða.

Reykjavíkurborg og Hitaveitan geta lært af reynslunni af Bláa lóninu, hannað landnýtingu og mannvirki á Nesjavöllum með hliðsjón af útivist og slökun og haft frumkvæði að stofnun þróunarfélags um fjölbreytta ferðamanna- og heilsuræktarþjónustu á staðnum.

Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu geta tekið til hendinni og boðið ýmsar fleiri tegundir af sérstæðri afþreyingu að vetrarlagi, til dæmis með áherzlu á hollustu og hreyfingu. Þar með má telja gönguferðir og hestaferðir, gönguskíðaferðir á jökli og dorgveiði á ís.

Akstursíþróttir í sandgryfjum kunna einnig að freista sumra, enn fremur vélsleðaferðir um jökla, fjallatrukkaferðir um óbyggðir og skotveiði á sjó og landi. Í öllum þessum tilvikum og þeim, sem áður var getið, er náttúra landsins höfð að bakgrunni athafna ferðamannsins.

Jarðhitinn nýtist ekki aðeins til sundlauga og heitra potta, heldur einnig til leirbaða, sem síðan tengjast náttúrulækningum og mataræði, eins og við þekkjum frá Heilsustofnun í Hveragerði. Afeitrunarstöðvar áfengis, tóbaks og ofáts geta einnig verið þáttur ferðaþjónustu.

Sameiginlegt með öllum þessum hugmyndum er, að þær nýtast ferðaþjónustunni að vetrarlagi og gera ráð fyrir eigin þátttöku ferðamannsins í einhverri hreyfingu, sporti eða hollustu, með hrikalega náttúru landsins að bakgrunni. Ýmsa þessa þætti má selja sameiginlega.

Ein helzta dægrastytting ferðamanna er búðarápið. Merkjavöruverzlanir í Reykjavík geta tekið saman höndum um að tryggja, að álagning á merkjavöru í verzlunum félagsmanna hækki ekki frá því sem nú er og verði áfram lægri en hún er yfirleitt í heimalöndum ferðamanna.

Einna lakast er ástandið í söfnum. Ekkert safn á Íslandi er ferðamönnum minnisstætt. En safnahúsið við Hverfisgötu má innrétta sem ferðalagasafn í margmiðlunarstíl með Guðríði Þorbjarnardóttur að grunnþema, ferðir hennar til Grænlands, Vínlands og Rómar.

Þannig er unnt að smíða innviði ferðaþjónustu að vetrarlagi og seiða hingað fleiri ferðamenn, einkum þá, sem hafa dýrari lífsstíl en þeir, sem nú koma að sumri.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólögleg skömmtunarlög

Greinar

Samkvæmt nýjum hæstaréttardómi mátti Alþingi ekki framselja utanríkisráðuneytinu skömmtunarvald til að starfrækja svonefnda Aflamiðlun, sem hefur reynt með hagsmunaaðilum að takmarka framboð á íslenzkum ferskfiski á uppboðsmarkaði í erlendum höfnum.

Í dómsniðurstöðum segir, að Alþingi hafi framselt framkvæmdavaldinu of víðtækt vald í lögum frá 1988, sem Aflamiðlun starfar eftir. Hæstiréttur hefur nokkrum sinnum áður reynt í dómum sínum að hafa hemil á valdaafsali Alþingis og stýra því í þröngar skorður.

Til þess að dómurinn hafi fordæmisgildi verður Alþingi að taka mark á honum og fækka heimildarákvæðum, sem tröllríða lögum. Ekkert bendir til, að Alþingi hafi séð að sér eftir fyrri dóma, svo að ekki er sjálfkrafa hægt að gera ráð fyrir, að það geri slíkt núna.

Valdaafsalssinnar munu benda á og hafa raunar þegar gert, að meirihluti hafi verið naumur í þessum nýja dómi, þrír dómarar á móti tveimur. Ekki er því víst, að Hæstiréttur verði alltaf sjálfum sér samkvæmur. Hann kann síðar að dæma valdaafsali löggjafarvaldsins í vil.

Í leiðurum DV hefur oft verið gagnrýnt, að Alþingi framselur framkvæmdavaldinu vald sitt með því að hlaða í ný lög ákvæðum, sem heimila ráðherra að gera hitt og þetta, ef honum sýnist. Þetta hefur breytt þjóðskipulaginu hér úr þingræði í eins konar ráðherralýðræði.

Algengt er, að lög frá Alþingi smíði ramma, sem ráðherrum er ætlað að fylla með reglugerðum. Samkvæmt hæstaréttardómum er þetta ekki beinlínis bannað, en þarf að vera í þröngum skorðum. Reglugerðirnar mega ekki skerða réttindi, sem tryggð eru í stjórnarskrá.

Daglegu lífi og atvinnulífi er að umtalsverðu og hættulegu leyti stjórnað með reglugerðum, sem ráðherrar setja að eigin geðþótta. Þess vegna snýst þjóðin í kringum ráðherrana, sem geta skammtað fólki og fyrirtækjum lífsskilyrði nokkurn veginn alveg eftir eigin höfði.

Þetta séríslenzka kerfi ráðherralýðræðis er í senn andstætt stjórnarskrá lýðveldisins og andstætt vinnubrögðum í lýðræðisríkjum. Engin teikn hafa enn sézt á lofti um, að alþingismenn átti sig eða vilji átta sig á þessu. Ef til vill breytist það með nýja dóminum.

Þar sem þau frumvörp til laga, sem afgreiðslu hljóta, eru nærri undantekningarlaust samin undir handarjaðri ráðherra í ráðuneytunum, þarf Alþingi að gera sérstakar og altækar ráðstafanir, ef það hyggst endurheimta valdið, sem því er ætlað í stjórnarskrá lýðveldisins.

Alþingi getur komið sér upp frumvarpsskoðunardeild, þar sem lögmenn hafa það hlutverk að leita að heimildarákvæðum í frumvörpum úr ráðuneytum, ýmist til að fella þau niður eða takmarka svigrúm þeirra, svo að þau stríði ekki gegn stjórnarskrá og dómvenju.

Raunar verður ekki séð annað en, að Alþingi þurfi að koma sér upp lagaþekkingu, svo að það þurfi ekki ítrekað að fyrirverða sig fyrir að hafa sett lög, sem Hæstiréttur síðan segir vera ólögleg. Það hlýtur að vera óþægilegt fyrir Alþingi að sæta sífelldum áminningum.

Aflamiðun verður væntanlega lögð niður í framhaldi af dómi Hæstaréttar. Menn munu öðlast frelsi til að selja afla sinn eins og þeim þóknast. Þá mun það merkilega koma í ljós, að enginn mun sakna Aflamiðlunar og að lífið mun halda áfram sinn vanagang án hennar.

Þannig mun einnig koma í ljós, ef á reynir, að daglegt líf mun blómstra, þótt felldar séu úr gildi ótal reglugerðir, sem ráðherrar hafa sér nú til dægrastyttingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Brynja gegn breytingum

Greinar

Af dagskrá landsfundar Sjálfstæðisflokksins mætti að óreyndu ætla, að hann væri eins konar kvenréttindafélag. Þetta minnir á síðustu kosningabaráttu, þegar sami flokkur kynnti sig sem eins konar jafnréttisfélag fyrir konur, og er jafn fjarri raunveruleikanum og þá.

Ekki verður séð, að flokkurinn sinni þessum málaflokkum, þegar hann hefur til þess völd, til dæmis í langri ríkisstjórnarsetu. Enda er eitt helzta einkenni hans að vilja halda fast í ríkjandi ástand, hvert sem það er á hverjum tíma. Hann er ekta íhaldsflokkur.

Sjálfstæðisflokkurinn er að koma út úr skápnum sem einn helzti andstöðuflokkur aðildar að Evrópusambandinu og veiðileyfasölu í sjávarútvegi. Hann hefur löngum verið burðarás óbreyttrar stefnu í landbúnaði. Hann er hræddur við breytingar, þar á meðal á stöðu kvenna.

Fastast stendur flokkurinn fyrir, þegar ógnað er hagsmunum gamalgróins auðs, sem fenginn var með forréttindastöðu í séríslenzku skömmtunar- og fáokunarkerfi efnahagslífsins. Hann óttast samkeppni, styður fáokunarfyrirtæki og vill halda auði í óbreyttum höndum.

Þetta er stefna, sem ekki verður lesin í ályktunum landsfunda. Hún er hins vegar rituð skýrum stöfum í aðgerðum og afstöðu fulltrúa flokksins, þegar á reynir í ríkisstjórn, á Alþingi og í sveitarstjórnum. Flokkurinn er ekki breytingaflokkur, heldur íhaldsflokkur.

Að ráði markaðsfræðinga er hugmyndum um breytingar oft veifað á landsfundum. Áherzlan að þessu sinni er á jafnrétti kvenna, en hún mun ekki fá útrás í gerðum fulltrúa flokksins, þar sem þeir sitja á valdastólum þjóðfélagsins. Milli orða og athafna er ekkert samband.

Áratugum saman hafa landsfundir Sjálfstæðisflokksins annað veifið samþykkt ályktanir um bætta stöðu neytenda í búvörumálum. Þannig er að þessu sinni kvartað í ályktunardrögum um, að ríkisstjórn flokksins hafi rýrt lífskjör fólks með ofurtollunum illræmdu.

Þótt landsfundurinn samþykki ályktunina í einhverri mynd, gerir enginn ráð fyrir, að það hafi nokkur áhrif á gerðir fulltrúa flokksins í ríkisstjórn og á Alþingi. Ekki frekar en umræða fundarins um jafnréttismál. Ályktanir og raunveruleiki eru aðskildir heimar flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn minnir stundum meira á kirkju en flokk. Þar eru gömlu spakmælin enn í fullu gildi, svo sem “stétt með stétt”. Þar hlýða menn yfirboðurum sínum. Þar er hlutverk kvenna að hella upp á kaffi og hinna greindustu meðal þeirra að rita fundargerðir.

Sjálfstæðisfólk kýs sér ekki forustu til að framkvæma einhverjar ályktanir, sem markaðsfræðingar telja heppilegt að framleiða. Það kýs sér forustu til að leiða sig og segja sér fyrir verkum. Það vill í raun, að stefnan komi að ofan, frá hinum kirkjulegu yfirvöldum flokksins.

Flokkurinn er stór, af því að margir kunna vel við þetta íhaldssama kerfi. Fæstir kjósendur eru gefnir fyrir sífelldar breytingar og tilraunir. Þeir leita skjóls í stórum faðmi Sjálfstæðisflokksins, sem stendur vörð um, að breytingar séu hægar og valdi sem minnstri röskun.

Þráin í festu í þjóðfélaginu fer saman við gæzlu gróinna hagsmuna, hvort sem þeir eru í fáokunarfyrirtækjunum stóru, í landbúnaðinum almennt eða á einhverjum afmörkuðum sviðum, svo sem í stofnun óþarfs embættis til að leysa persónuleg vandamál í þjóðkirkjunni.

Þegar landsfundi er lokið, mun Sjálfstæðisflokkurinn áfram vera brynja hins föðurlega skömmtunar- og fyrirgreiðslukerfis, sem einkennir íslenzk stjórnmál.

Jónas Kristjánsson

DV

Líf og saga á vítisbarmi

Greinar

Eldgos eru snar þáttur í lífi Íslendinga. Oftar en einu sinni á áratugs fresti sjáum við myndir af nýju eldgosi í sjónvarpi og lesum um það í blöðunum. Við kippum okkur ekki upp við fréttir af leikvangi frumkrafta jarðskorpunnar, nema þeir séu að valda okkur tjóni.

Við förum að vísu sum hver í útsýnisflug eða bílferðir til jarðeldaslóða eins og hverjir aðrir túristar. Fjölmiðlar vakta staði, þar sem búist er við fréttum, og segja skilmerkilega frá hverju því, sem þar gerist. Þannig hefur í heila viku verið beðið eftir Skeiðarárhlaupi.

Okkur finnst þó á mörkum hins broslega, þegar roskin og virðuleg dagblöð í útlöndum fara í leiðurum á kostum í lýsingu á eldgosinu í Vatnajökli og boðun tilþrifamikils hlaups í Skeiðará. Þau fara alls ekki með rangt mál, en líta óreyndari augum á það en við gerum.

Í rauninni er það hrikalegur atburður, þegar náttúruöfl elds og ísa berjast um völdin inni í Vatnajökli. Og afleiðingar orrustunnar verða stórbrotnar, þegar hlaupið ryðst loks fram sandinn til sjávar. En þetta varðar sennilega ekki mannslíf og næsta fá mannvirki.

Í sögu landsins eru eldgos metin eftir tjóninu, sem þau valda. Sumra mestu gosanna er alls ekki getið í heimildum, af því að þau voru á árstíma eða við veðuraðstæður, sem leiddu hvorki til tjóns á mönnum né búfénaði. Tjónið hefur jafnan verið okkar mælikvarði.

Heimaeyjargosið var stórgos okkar tíma, ekki vegna magns gosefna, heldur tjónsins, sem það olli á mannvirkjum. Það var líka tímamótagos, því að þar var fyrst reynt að temja eldgos í sögunni. Þessi tamning tókst vonum framar og jók sjálfstraust okkar sem þjóðar.

Fyrst var vatni dælt á hraunjaðarinn og hraunstraumnum þannig stýrt að nokkru leyti. Að loknu gosi var lögð hitaveita frá hrauninu til að hita hús í endurreistum kaupstað. Við fórum að líta á eldgos eins og hveri eða eins og galið hross, sem má gera reiðfært.

Viðbrögðin við gosinu í Vatnajökli mótast af reynslu. Rofin eru skörð í þjóðveginn til að létta álagi af brúnum, sem verðmætastar eru mannvirkja á sandinum. Mannslífum verður ekki hætt til að bjarga eignum. Svo bíðum við og sjáum, hvernig náttúruöflunum tekst til.

Ef brúarhöf hverfa og stöplar spillast, tökum við að loknu hlaupi til óspilltra málanna og byggjum veginn að nýju. Síðan höldum við áfram að reka erindi okkar vestur og austur yfir sandinn eins og ekkert hafi í skorizt. Við höfum aðeins sætt yfirstíganlegu tjóni.

Við verðum á hverju ári fyrir margfalt meira tjóni af pólitískum völdum en við verðum fyrir áratugum saman af völdum náttúruaflanna. Við kippum okkur því ekki upp við að missa hundrað milljónir hér og hundrað milljónir þar vegna hamfara, sem við ráðum ekki við.

Því tökum við eldgosinu í Vatnajökli og hlaupinu í Skeiðará með hálfgerðri léttúð eða hóflegri forvitni og höfum dulið gaman af áhuga erlendra blaðamanna, sem horfa á atburðarásina eða skortinn á atburðarás af opnum huga þess, sem ekki hefur nálægðina og reynsluna.

The Times dáist í leiðara að þrautseigju þjóðar, sem heldur uppi siðmenntuðu lífi á einu óbyggilegasta svæði jarðarinnar og leikvelli tröllaukinna náttúruafla. Við sjálf höfum líklega meiri ástæðu til að dást að þrautseigju okkar að gera þetta á leikvelli sukksamra stjórnmála.

Það verða ekki eldgos og jarðskjálftar, sem ráða úrslitum um framtíð þjóðarinnar. Þar ræður skortur okkar á hæfni til að skipa eigin málum að skynsamlegum hætti.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjárreiður framboða

Greinar

Tveir af fimm frambjóðendum til embættis forseta hafa nú birt endurskoðaða reikninga framboða sinna. Reiknað er með, að hinir þrír geri það fljótlega. Fyrstu tölur benda til, að kostnaður á hvern frambjóðanda hafi verið frá 15 milljónum króna upp í 40 milljónir króna.

Þetta var miklu dýrari kosningabarátta en áður hafði þekkzt í forsetakosningum. Kosningasagan sýnir eins konar vítahring, þar sem hver ný barátta slær fyrri kostnaðarmet. Sífellt koma til sögunnar nýjar og dýrari baráttuaðferðir, sem menn þykjast verða að taka upp.

Búast má við, að næstu forsetakosningar verði enn dýrari. Ekki er fráleitt að spá því, að kostnaður á hvern frambjóðanda tvöfaldist í hvert sinn sem raunverulegar forsetakosningar eru háðar, ef það gerist á tíu ára fresti eða sjaldnar. Breytt kosningatækni kallar á þetta.

Til þess að fleiri en milljónamæringar geti í framtíðinni boðið sig fram til forseta og til þess að fjársterkir aðilar ráði ekki mestu um val forsetaefna, er nauðsynlegt, að þjóðfélagið í heild styðji framboðin með einhverjum hætti, helzt með skattfrelsi framlaga til þeirra.

Nú gildir slíkt skattfrelsi um framlög til stjórnmálaflokka og trúarlegra samtaka. Það er innan rammans að láta þessar reglur gilda einnig um framlög til forsetaframbjóðenda. Miklu minni hætta er á, að reglurnar verði misnotaðar á því sviði en hinum tveimur fyrri.

Skattfrelsi framlaga af þessu tagi á að vera háð því, að bókhald viðkomandi aðila sé opið og að jafnframt sé gerð skrá yfir gjafmildustu stuðningsaðilana, svo að sjá megi, hvaða og hvers konar aðilar eru fjárhagslega áhugasamastir um gengi hvers frambjóðanda.

Hér er ekki eingöngu verið að tala um bein framlög í peningum. Framlög geta líka verið í formi kaupa á miklu magni happdrættismiða, í formi fyrirgreiðslu og afsláttarkjara í auglýsingum, í formi lágrar leigu fyrir aðstöðu. Hugtakið framlög þarf að ná yfir óbeinu þættina.

Nánast alls staðar í lýðræðisríkjum er opin bókhaldsskylda í stjórnmálunum. Í Bandaríkjunum eru þar að auki reglur um hámarksgreiðslur. Hér á landi hafa flokkarnir hins vegar vikizt undan slíku, þótt þeir njóti opinberrar fyrirgreiðslu í formi skattfrelsis framlaga.

Frambjóðendur til embættis forseta Íslands standa flokkunum framar á þessu sviði. Opnu bókhaldi þeirra fylgir þó ekki skrá yfir gjafmildustu stuðningsaðilana og samanlagðan stuðning hvers þeirra. Slík skrá mundi þó skipta enn meiru máli í fjárreiðum flokkanna.

Dularfullt er, hversu eindregið flokkarnir og eindregnast stærstu flokkarnir verja hagsmuni hinna stóru og sterku gegn almannahagsmunum. Það sýna meðal annars samskipti pólitíska valdsins við fáokunarhring tryggingafélaga, svo sem fyrirgreiðsla í setningu laga.

Í okkar þjóðfélagi, þar sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar gera meira af því að leika hlutverk skömmtunarstjóra en hliðstæðir aðilar í nágrannalöndunum, er afar brýnt, að fjármál þeirra séu öllum opin og að ljós séu tengsl þeirra við fjársterka hagsmunaaðila.

Þannig er breytinga þörf á fleiri sviðum málsins en að fella forsetaframboð undir sömu reglur og önnur framboð. Ekki er nóg að koma á skattfrelsi í framlögum til allra þessara aðila. Jafnframt þarf að setja reglur um opnar og endurskoðaðar fjármálaupplýsingar þeirra.

Endurvakin umræða um þessi mál er góðs viti. Hvort tveggja er eðlilegt, skattfrelsi framboða og birtingarskylda á bókhaldi, þar með taldar viðskiptamannaskrár.

Jónas Kristjánsson

DV

Farþegar á ótemju

Greinar

Fjárlagafrumvörp eru dæmi, sem ganga ekki upp. Jafnvægi í niðurstöðutölum sveiflast fremur eftir breytingum á veltu í þjóðfélaginu en veltumagninu sjálfu. Greiðsluafgangur næst aðeins fyrsta veltuárið og ef til vill annað árið eftir að samdráttarskeiði lýkur.

Síðan lagast útgjöldin að tekjuaukningunni, af því að þrýstingur á hækkanir er innbyggður í smíðatækni fjárlagafrumvarpa. Þarfirnar eru svo margar og þrýstingur hagsmunaaðila svo fjölbreyttur, innan framkvæmdavalds og löggjafarvalds, jafnt sem utan úr bæ.

Þegar harðnar í ári að nýju, gerir smíðatækni fjárlaga ekki ráð fyrir þeim möguleika, að draga verði saman seglin. Á þeim tíma hlaðast upp ríkisskuldir, sem ætlazt er til, að börnin okkar borgi einhvern tíma seinna. Þetta er ónothæft ástand, en er samt íslenzkur raunveruleiki.

Við erum núna á rísandi báru. Góðæri ársins hefur aukið innflutning og skekkt viðskiptajöfnuðinn, en um leið aukið svo tekjur ríkisins, að niðurstöður ríkisfjármála verða hagstæðari en reiknað var með í fjárlögum. Á næsta ári er búizt við tekjuafgangi ríkisins.

Stærsta þverstæðan í þessu dæmi er, að tekjuafgangur í rekstri ríkissjóðs er háður halla á rekstri þjóðarbúsins. Tekjuaukning ríkisins stafar nefnilega að mestu af auknum innflutningi og þar með hallarekstri þjóðfélagsins í heild. Þetta er í hæsta máta óheilbrigt samhengi.

Samt gefa núverandi aðstæður óvenjulegt svigrúm til að stokka spilin og hugsa dæmið upp á nýtt. Í fjárlagafrumvarpinu hefur það ekki verið gert. Enn er verið að raða saman og skera niður óskhyggju úr ráðuneytunum, sem sumpart er afleiðing þrýstings utan úr bæ.

Þegar horfur eru á tekjuafgangi eins og núna, er betra tækifæri en ella til að skoða smíðatækni frumvarpsins í heild. Sumir þættir þess stjórnast fremur af hefðum en hagsmunum þjóðarinnar. Aðrir fela í sér sjálfvirka þenslu, sem skilgreina þarf og stöðva í fæðingu.

Nokkur dæmi skera í augu. Ástæðulaust er, að einstök ráðuneyti atvinnuvega séu rekin eins og velferðarráðuneyti. Atvinnuvegir eiga að standa undir þjóðarbúinu og ríkisbúinu, en ekki öfugt. Þjóðarbúið og ríkisbúið eiga til dæmis ekki að standa undir innlendum landbúnaði.

Einnig er ástæðulaust, að ríkið neiti sér fyrir hönd þjóðfélagsins um að skattleggja notkun sameiginlegra auðlinda. Atvinnuvegir eiga ekki að hafa frían aðgang að takmörkuðum auðlindum. Þjóðarbúið og ríkisbúið eiga til dæmis að hafa leigutekjur af fiskimiðunum.

Dæmin úr ráðuneytum velferðar eru einnig auðtekin. Í heilbrigðisgeiranum þurfa menn að svara grundvallarspurningum um, hvernig beri að taka á sífellt hraðari komu æ dýrari lyfja á markað, þannig að lyfjakostnaður ríkisbúsins og helzt þjóðarbúsins haldizt í skefjum.

Í sama geira þarf að svara fleiri grundvallarspurningum, til dæmis hvort unnt sé að ætlast til þess af fólki, að það taki sjálft hluta ábyrgðarinnar á eigin heilsu og sói henni að minnsta kosti ekki með óheilbrigðu líferni, svo sem með vondu mataræði og hreyfingarleysi.

Í menntunargeiranum hafa gæði þjónustunnar tilhneigingu til að minnka, nema kostnaður sé sífellt aukinn. Embættismönnum, skipuleggjendum, fundum og ráðstefnum fjölgar á kostnað raunverulegra starfsmanna og vinnuframlags inni í kennslustofunum sjálfum.

Meðan of vægar tilraunir eru gerðar til að takast á við innbyggð verkefni af þessu tagi, verða ríkisstjórnir áfram eins konar farþegar á sjálfvirkri ótemju.

Jónas Kristjánsson

DV

Jerúsalem er alþjóðleg

Greinar

Evrópusambandið gaf í þessari viku út tímamótayfirlýsingu um, að Austur-Jerúsalem tilheyri ekki Ísrael. Þetta er fyrsta skipulega andstaðan af vestrænni hálfu gegn tilraunum Ísraels til að eigna sér heimsins mikilvægustu helgistaði kristinnar og íslamskrar trúar.

Fyrir síðustu styrjöld milli Ísraels og stuðningsríkja Palestínu var Austur-Jerúsalem öll Palestínumegin landamæranna. Þar með er talinn gamli bærinn innan borgarmúranna og hæðirnar tvær sunnan og austan miðbæjarins, sem einnig hafa trúarsögulegt gildi.

Í þrjá áratugi hefur Ísrael haft hernámsvöld á þessum slóðum. Þetta hernám hefur ekki verið viðurkennt af vestrænum ríkjum frekar en hernám þeirra á vesturbakka Jórdan-ár, Gólan-hæðum og Gaza-strönd. Allt þetta hernám er á dagskrá svonefnds friðarferils.

Í þungamiðju friðarferilsins hefur jafnan verið tilraunin til að semja um skipti á landi og friði, þannig að Ísrael gefi eftir hernumin landsvæði gegn varanlegum friði við nágrannaríkin, sem yrði tryggður með aðild stórvelda og alþjóðasamtaka að friðarsamningnum.

Þessi friðarferill var kominn nokkuð áleiðis, þegar gengið var til kosninga í Ísrael og valdir til forustu nýir menn, sem hafa hleypt öllu í bál og brand. Þeir hafa neitað að standa við áður gerða samninga um þróun friðarferilsins og segjast meðal annars eiga Jerúsalem.

Þetta gera þeir í skjóli bandarískra peninga og bandarískra vopna. Það eru þau tæki, sem þeir hafa áratugum saman notað til að kúga nágranna sína. Án bandarískra peninga og bandarískra vopna væri Ísrael ekki orðið að stórfelldu vandamáli í fjölþjóðlegum samskiptum.

Nú hefur Ísrael loksins siglt í frekju og yfirgangi fram af hengifluginu og vakið Evrópusambandið til vitundar um hættuna. Ósennilegt er þó, að það hafi fljótt mikil áhrif vestanhafs, þar sem stuðningsmenn Ísraels hafa tögl og hagldir í fjölmiðlun og almenningsáliti.

Mikilvægt er, að Evrópuríkin efli samstöðuna í máli þessu. Ástæðulaust er að láta frekjuríki standa í vegi eðlilegrar þróunar í samskiptum kristinna og íslamskra ríkja. Spennuna milli þessara menningarheima þarf að minnka. Og auðvelt á að vera að minnka hana.

Það er einkum hinn vestræni stuðningur við Ísrael, sem magnar íslamska andstöðu gegn Vesturlöndum. Ekkert í menningarsögu Vestur- og Austurlanda hindrar þjóðir tveggja hinna yngstu af þekktustu trúarbrögðum heimsins í að ná friðsamlegri sambúð en nú er.

Jerúsalem getur verið tákn friðsamlegrar sambúðar þriggja trúarbragða. Þar eru mikilvægustu helgidómar þeirra á einum og sama stað. Það er út í hött, að Vesturlönd leyfi Bandaríkjunum að komast upp með að láta þessa helgidóma varanlega í hendur Ísraels.

Palestínumenn eru áreiðanlega til viðtals um, að gamli bærinn í Jerúsalem og hæðirnar tvær austan hans og sunnan verði alþjóðlegt land, er stjórnað verði sameiginlega af aðilum, sem komi fram fyrir hönd þeirra þriggja trúarbragða, er aðild eiga að sögu Jerúsalem.

Brýnt er, að Vesturlönd tefli málum í þann farveg, að þetta verði niðurstaðan. Frumkvæði Evrópusambandsins er tímamótaskref í þá átt. Fyrr eða síðar komast í Bandaríkjunum til valda menn, sem eru lausir úr álögum Ísraels og sjá gagnkvæma hagsmuni vesturs og íslams.

Evrópusambandið getur nú fylgt fyrsta skrefi sínu eftir með samtökum um pólitískan, peningalegan, viðskiptalegan og efnahagslegan þrýsting á Ísrael.

Jónas Kristjánsson

DV

Milljón króna dagsverk

Greinar

Ríkisstjórnin hefur með sameinuðu átaki þriggja ráðherra ákveðið að tryggja fimm milljóna króna árlega fjárveitingu skattborgaranna til að leysa eitt af innri vandamálum þjóðkirkjunnar, einkastyrjöld nokkurra félagslega vanþroskaðra einstaklinga í Langholtssókn.

Íslendingar í Lúxemborg og nágrenni hafa ekki beðið um þjónustuna, sem nú á að rétta þeim á silfurfati, né hafa þeir verið með í ráðum. Þeir láta sér fátt um finnast og segja prestsverk þar vera þriggja daga vinnu ári. Þeir vilja áfram snúa sér til íslenzka prestsins í London.

Ríkisstjórnin getur yfirleitt fundið peninga, þegar leysa þarf sérhagsmuni af ýmsu tagi. Stundum eru þetta bara litlir sérhagsmunir í minni háttar stofnunum og samtökum. Oftar eru það því miður stórir og dýrir sérhagsmunir í voldugum stofnunum, samtökum og fyrirtækjum.

Lög eru sett til að gæta hagsmuna tryggingafélaganna gegn hagsmunum almennings. Sérleyfi eru gefin út til að gæta hagsmuna flugfélaga gegn hagsmunum almennings. Einkaréttur er notaður til að gæta hagsmuna síma- og póststofnunar gegn hagsmunum almennings.

Pólitík á Íslandi snýst í ríkum mæli um hagsmuni og fyrirgreiðslur. Þingmenn eru að meirihluta fulltrúar hagsmuna á borð við staðbundna kjördæmahagsmuni, sem kalla á fyrirgreiðslur af hálfu skattgreiðenda. Það er kölluð byggðastefna og þykir vænleg til endurkjörs.

Ef Alþingi og ríkisstjórn víkja af þessari braut, er það ekki lengur vegna umbótavilja að innan, heldur vegna þrýstings að utan. Flestar pólitískar ákvarðanir, sem koma almenningi að gagni, eru teknar samkvæmt skuldbindingum ríkisins í útlendum fjölþjóðastofnunum.

Þannig neyðast stjórnvöld til að láta þýða mýgrút af evrópskum lögum og reglum til notkunar hér á landi. Annars eru stjórnvöld dregin fyrir evrópska dómstóla og látin svara til saka fyrir brot á mannréttindum, brot á heiðarlegum viðskiptaháttum og annað af því tagi.

Nú er svo komið, að íslenzkra almannahagsmuna er fremur gætt úti í Genf og Brussel heldur en í Reykjavík. Að utan koma réttarbætur almennings og þaðan kemur opnun viðskiptahátta, sem nú hefur til dæmis leitt til mikillar lækkunar á kostnaði fólks af bílatryggingum.

Nú er svo komið, að íslenzkur almenningur getur áttað sig á, að fjandmenn hans sitja á Alþingi og í ríkisstjórn, en stuðningsmenn hans sitja á skrifstofum í erlendum stórborgum. Slík er orðin niðurlæging íslenzkra stjórnmála í hagsmunapoti og fyrirgreiðslum.

Umtalsverður hluti af tíma og fyrirhöfn íslenzkra stjórnvalda fer í að snúast kringum framfarirnar frá útlöndum, tefja framgang þeirra og reyna að túlka þær almenningi í óhag. Það sýnir bezt dæmið af ofurtollunum, sem hlaðið er á ýmis innflutt matvæli almennings.

Nýjar sagnfræðitúlkanir benda til, að þetta sé ekki ný bóla. Fyrr á öldum reyndu kóngsins menn í Kaupmannahöfn með misjöfnum árangri að gæta hagsmuna íslenzkrar alþýðu gegn innlenda embættis- og stórbændavaldinu, sem var oft illskeytt í garð almannahagsmuna.

Þannig er hefð fyrir því, að íslenzk stjórnvöld hafi ekki aflögu fimm milljónir króna hér og þar til að setja í ákveðna þætti skólamála eða heilsugæzlu, en eigi jafnan slíka peninga aflögu, þegar leysa þarf sérhagsmuni, sem að alls engu leyti þjóna hagsmunum almennings.

Fimm milljónir króna á ári til prests í Lúxemborg er angi af eymd íslenzkra þjóðmála, linnulausri þjónustu stjórnkerfisins við kostnaðarsama sérhagsmuni.

Jónas Kristjánsson

DV

Skottið sveiflar hundinum

Greinar

Stjórnmála- og hugarfarsbreyting Ísraela hefur leitt til hinnar rökréttu niðurstöðu, að gestapó-ríki hernámsins hefur fengið sinn Hitler. Benjamin Netanyahu er orðinn forsætisráðherra hryðjuverkaríkisins og grípur hvert tækifæri til að spilla friðarferli fyrirrennaranna.

Kosning Netanyahus segir allt, sem segja þarf um viðhorf Ísraela. Hrokafull og yfirgangssöm viðhorf hafa þar verið í mikilli sókn, undir pólitískum og hernaðarlegum verndarvæng Bandaríkjanna, sem hafa áratugum saman séð ríkinu fyrir fjármagni og stríðstólum.

Fyrir um það bil 30 árum var þetta landnemaríki, sem olli jákvæðum straumum í umheiminum. Á þremur áratugum hefur það verið að breytast í krumpað ofbeldisríki, sem fer sínu fram í trássi við siði og lög samfélags þjóðanna. Það er orðið að fleini í holdi Vesturlanda.

Ísrael þverbrýtur alþjóðlega samninga um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Þannig var það einnig í tíð Rabins og Peresar, fyrirrennara Netanyahus, en hefur versnað um allan helming, síðan kjósendur í Ísrael ákváðu í sumar að finna sinn rökrétta Hitler.

Óeirðirnar í síðustu viku og um helgina stafa af eðlilegum viðbrögðum hernuminnar og kúgaðrar þjóðar. Þær gefa Vesturlöndum enn eitt tækifærið til að snúa við blaðinu og þvo hendur sínar af ofbeldisríki, sem á eftir að valda Vesturlöndum enn meiri vandræðum.

Því miður virðist skottið sveifla hundinum. Bandaríkin halda ótrauð áfram að styðja Ísrael, þótt þetta fylgiríki hafi breytzt í óskapnað, sem lætur ekki að stjórn að vestan. Þetta hefur stórversnað í tíð Bills Clintons forseta, sem virðist munu ná endurkjöri í vetur.

Smám saman hefur utanríkisstefna Bandaríkjanna verið að breytast til hins verra, einkum fyrir áhrif einangrunarstefnu heima fyrir. Bandaríkin koma í vaxandi mæli fram sem ábyrgðarlaus þrýstihópur, er sér fyrst og fremst hættulega keppinauta í fyrrum bandamönnum.

Annars vegar skrifa Bandaríkin undir samninga um aukið viðskiptafrelsi á borð við nýju Heimsverzlunastofnunina, en brjóta sjálfir jafnharðan hinar nýju reglur með því að hóta að beita einhliða viðskiptarefsingum í utanríkispólitískum tilgangi gegn bandamönnum sínum.

Ábyrgðarleysi og einangrunarstefna Bandaríkjanna sker í augu í tilraunum þeirra til að losna við Boutros Ghali, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, gegn sameinuðum vilja langflestra annarra ríkja heims, þar á meðal þeirra, sem skuldlaus eru við stofnunina.

Dæmigert fyrir vaxandi ábyrgðarleysi Bandaríkjanna er, að þau gera hvort tveggja á sama tíma að safna skuldum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og að segja samtökunum fyrir verkum í viðkvæmum fjölþjóðadeilum. Menn geta ekki lengur litið upp til Bandaríkjanna.

Ef Clinton verður forseti Bandaríkjanna í fjögur ár í viðbót, hlýtur ástand vestræns samstarfs að versna enn næstu fjögur árin. Hann hefur engan áhuga á utanríkismálum, annan en þann að haga sér þar í samræmi við síðustu vindana, sem blása í innanríkismálum.

Á sama tíma og Clinton skiptir reglulega um skoðun í flestum utanríkismálum hefur hann þó verið ósveigjanlegur í eindregnum stuðningi sínum við lítið ríkisskrímsli, sem stendur í vegi fyrir eðlilegri þróun friðsamlegra samskipta íslamskra og kristinna þjóða.

Milli Washington og Tel Aviv hefur smám saman verið að myndast möndull, sem er fjandsamlegur umhverfi sínu og veldur vaxandi spennu í samfélagi þjóðanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Fyrstu skrefin fram á veg

Greinar

Ný stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málum upplýsingasamfélags nútímans er markverð af tveimur ástæðum. Annars vegar var kallaður fjöldi áhugamanna til verksins og hins vegar urðu niðurstöður vinnunnar töluvert aðrar en hefðbundið er í slíkum tilvikum.

Verkið var unnið á vegum Finns Ingólfssonar viðskiptaráðherra og formaður var Tómas Ingi Olrich alþingismaður. Fengnir voru um 20 manns úr þjóðlífinu til að skipa yfirnefnd. Rúmlega 100 manns skipuðu níu hópa, sem fjölluðu um nokkra helztu þætti málsins.

Niðurstaðan var ekki hin hefðbundna óskhyggja um ótakmörkuð fjárráð ríkisvaldsins með nýjum fjárfestingarsjóði og nýju skömmtunarkerfi að hornsteinum, heldur var reynt að finna, í hvernig andrúmslofti hin nýstárlega atvinnugrein gæti dafnað af eigin rammleik.

Þrjú forgangsverkefni af hálfu stjórnvalda koma skýrt fram í niðurstöðu þessarar ánægjulegu stefnumótunar ríkisstjórnarinnar. Eitt þeirra er á sviði menntamála, annað á sviði framkvæmda- og innkaupasýslu stjórnvalda og hið þriðja á sviði tölvusamgöngumála.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir breytingum í skólakerfinu. Þær eiga að stuðla að almennu tölvulæsi þjóðarinnar, svo og getu hennar til að vinna raunsætt úr upplýsingum og til að meta gagnsemi þeirra. Enn fremur eiga þær að stuðla að aukinni þekkingu á íslenzku og ensku.

Allir eru þættirnir jafnir að mikilvægi. Tölvulæsi er augljós forsenda og enskan veitir ein aðgang að umheimi tölvualdar. Jafnframt er minnt á, að um leið þurfa menn að fá þjálfun í að kunna að vinna úr upplýsingaflóði nútímans og að geta greint kjarnann frá hisminu.

Íslenzk tunga skipar sérstakan sess í stefnumörkuninni, enda er hún ein helzta forsenda þess, að sérstök þjóð býr í landinu. Margt hefur verið gert til að auka getu tungunnar til að taka upp ný hugtök, til dæmis í tölvufræðum, en efla þarf þá vinnu á nýjum sviðum.

Enn fremur má vænta þess, að sá ósiður leggist af, að menntaráðuneytið og Ríkiskaup láti kaupa skólatölvur, sem hvorki hafa íslenzkt stýrikerfi né helztu forrit á íslenzku, á sama tíma og önnur eru á boðstólum á íslenzku, jafngóð, jafnfjölbreytt og jafnódýr.

Í öðru lagi er í stefnumörkuninni gert ráð fyrir útboðsstefnu í hugbúnaðarkaupum ríkisins og öðrum viðskiptum þess á upplýsingasviðum, eins og á öðrum sviðum viðskiptalífsins. Aukin verði þátttaka hugbúnaðarfyrirtækja í þróunarverkefnum á vegum ríkisins.

Í þriðja lagi gerir hin nýja stefnumörkun ríkisstjórnarinnar ráð fyrir, að flutningsgeta og flutningsöryggi samgönguæða fyrir tölvutækar upplýsingar verði í senn fullnægjandi og anni ört vaxandi notkun þeirra, bæði innanlands og milli landsins og annarra landa.

Lögð er áherzla á, að kostnaður almennings og fyrirtækja af gagnaflutningi verði í lágmarki. Með þessu er í rauninni verið að leggja áherzlu á notkun Internetsins og ódýran aðgang allra aðila að því. Það þýðir um leið afnám einokunar, svo og nokkra fjármögnun ríkisins.

Ríkið þarf að líta á þetta samgöngukerfi eins og vegi landsins. Það þarf að tryggja, að á hverjum tíma sé til bandvídd til að mæta viðbótarálagi, sem búizt er við á næstunni, þótt ekki séu enn komnir viðskiptavinir til að nýta hana. Annars verður sífellt umferðaröngþveiti.

Ef ríkisstjórnin stendur við þessa stefnu sína, getur þjóðin senn farið að stíga fyrstu og mikilvægustu skrefin í átt til upplýsingasamfélags framtíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sinnuleysi um þjóðminjar

Greinar

Dularfullir hringir uppgötvuðust fyrir tilviljun vestur og norður af Nesstofu á Seltjarnarnesi fyrir nokkrum árum, þegar þekktur ljósmyndari var í flugvél yfir svæðinu. Hann tók loftmynd af hringjunum, sem vöktu mikla athygli, þegar myndin birtist í fjölmiðlum.

Síðan hefur verið grafið í hringina í tilraunaskyni. Í ljós kom, að þeir eru hlaðnir úr torfi af mannavöldum, misjafnir að ummáli, en allir afar nákvæmir að hringmáli. Einnig kom í ljós, að þeir eru mjög gamlir og hnignir, en ekki er þó enn vitað, hversu gamlir þeir eru.

Enginn hefur getað skýrt, hvers vegna hringirnir voru hlaðnir, hvenær og hvers vegna þeirra er ekki getið í heimildum. Hugsanlega er um að ræða einhverja tilviljun, sem varpar engu ljósi á sögu lands og þjóðar, en einnig getur verið, að þeir lúri á markverðum minningum.

Hringirnir eru að því leyti merkari fornleifar en kumlin, sem sífellt eru að finnast, að þeir eru einstæðir í sinni röð, en ekki enn ein útgáfan af því, sem alltaf er verið að grafa upp. Fornleifafræðingar og sagnfræðingar ættu að vera á kafi í rannsóknum á hringjunum.

Því miður eru ráðamenn fornleifarannsókna svo lokaðir inni í gömlum mynztrum, að áður óþekkt fyrirbæri vekja ekki sama áhuga þeirra og hundraðasti fundur áður þekktra fyrirbæra. Þeir hafa sagt hringina áhugaverða, en síðan þurrkað þá að mestu úr vitund sinni.

Þjóðminjavörður og fornleifafræðingurinn, sem rannsakaði hringina, hafa að vísu reynt að koma á framfæri óskum um, að bæjarstjórn Seltjarnarness raski ekki hluta af hringjasvæðinu með því að byggja hverfi einbýlishúsa ofan á þeim. Enginn þungi hefur fylgt óskunum.

Fínimannsfélagið, sem fyrir nokkrum árum var stofnað til að efla þjóðminjar og Þjóðminjasafnið, hefur ekkert látið í sér heyra um málið, en hélt um daginn ráðstefnu, sem var sérstök að því leyti, að þar var alls ekkert fundarefni, nema röð ávarpa ýmissa fínimanna.

Þegar þeir, sem helzt ættu að ganga fram fyrir skjöldu til verndar menningarsögunni, eru svona deigir í baráttunni, er ekki við að búast, að menningarleg peð í bæjarstjórn sýni sögu lands og þjóðar meiri virðingu en sést af dæmi hringjanna dularfullu á Seltjarnarnesi.

Öll er saga þessa máls sýnishorn af því, hvernig þjóðin er að glata samhengi sínu við eigin sögu. Menn yppta öxlum yfir fornleifafundi, sem getur varpað nýju og óvæntu ljósi á Íslandssöguna og láta yfir sig ganga, að hluti fornminjanna sé eyðilagður með einbýlishúsum.

Fornsögurnar höfða ekki lengur til unga fólksins. Afburðafólk úr fortíðinni er ekki lengur fordæmi unglinga. Menn tala í hálfkæringi um, að svokölluð gullöld þjóðarinnar hafi verið tímabil, þegar skapþungir bændur fóru af baki til að kasta grjóti hver í annan.

Sagan er þó einn af þremur helztu hornsteinum þess, að þjóð er þjóð út af fyrir sig, en ekki hluti af stærri þjóð. Þegar bregzt sambúðin við sameiginlega sögu, er hruninn einn af þremur hornsteinum þess, að sjálfstætt ríki eigi sér framtíð sem þjóðríki. Það er upphaf endalokanna.

Margir munu vafalaust komast vel af um miðja næstu öld, talandi ensku sem daglegt tungumál og slitnir úr samhengi við Íslandssöguna. En þeir verða ekki Íslendingar, heldur örlítil rykmý í risastórum menningarheimi engilsaxa. Í þá átt stefnir þróunin um þessar mundir.

Sinnuleysið um merkasta fornleifafund síðari ára markar vatnaskil á vegferð okkar út í þjóðahafið, sem valtar yfir sérvizkuminningar frá fánýtu eylandi.

Jónas Kristjánsson

DV