Greinar

Eðlileg vaxtahækkun

Greinar

Seðlabankinn hefur hækkað bankavexti sína og verðbréfatilboð sín um 0,4% til að sporna við verðbólgu, sem er farin að skjóta upp kollinum eftir nokkurra ára hlé. Undanfarna mánuði hefur hún verið um 2,5%, sem er nokkru hærra en í nágranna- og viðskiptalöndum okkar.

Vaxtahækkunin var tímabær og þörf, þótt hún sé óþægileg. Hún felur í sér eðlileg viðbrögð Seðlabankans við því, að þjóðin er byrjuð að nýju að eyða um efni fram. Hún virðist telja, að varanlegt góðæri sé í uppsiglingu og er þegar byrjuð að eyða væntanlegri tekjuaukningu.

Í febrúar var spáð 1,3 milljóna króna viðskiptahalla landsins, í júní 6,1 milljónar króna viðskiptahalla og nú er spáð 7-10 milljóna króna halla. Þannig hefur ört sigið á ógæfuhliðina mestallt þetta ár, svo að vaxtahækkun Seðlabankans núna er raunar fremur seint á ferðinni.

Fyrir hækkunina voru íslenzkir skammtímavextir rúmlega tveimur prósentustigum hærri en hliðstæðir vextir voru í útlöndum. Eftir hækkunina eru þeir tæplega þremur prósentustigum hærri en erlendir. Þetta segir mikla sögu um mismunandi eyðslusemi þjóða.

Vextir þurfa greinilega að vera þremur prósentustigum hærri hér á landi til þess að vera sami hemill á eyðslu fólksins í landinu og vextir eru í útlöndum. Þetta er auðvitað umtalsverður herkostnaður fyrir atvinnulífið og skerðir samkeppnisgetu þess gagnvart útlöndum.

Eyðslusemin kemur fram hjá öllum meginaðilum þjóðfélagsins, almenningi, fyrirtækjum og opinberum aðilum. Ríkið er raunar sá sukksamasti af þessum aðilum og eyddi í fyrra 13,3% um tekjur fram. Á næsta ári ætlar það að bæta ráð sitt og ná hallalausum rekstri.

Væntingar um góðæri eru ágætar, svo framarlega sem þær valda nauðsynlegri bjartsýni og knýjandi áræði í atvinnulífinu, en skaðlegar, ef þær valda því, að menn rasa um ráð fram. Flest bendir til, að væntingarnar hafi verið nokkuð hátt spenntar að undanförnu.

Engin ástæða er til að reikna með framhaldi á góðum aflabrögðum. Reynslan sýnir, að afli er miklum sveiflum háður og að margir hafa áður farið flatt á að framreikna góðæri líðandi stundar. Stórframkvæmdir á borð við smíði álvera eru ekki heldur varanlegur þáttur.

Affarasælast er að fara með löndum og eyða ekki of miklu af peningum, sem ekki eru enn komnir í hús. Þetta skilja flestar þjóðir, en Íslendingar hafa hins vegar löngum átt bágt með sig. Þessi munur hefur áratugum saman verið Akkillesarhæll íslenzkra efnahags- og fjármála.

Vandi líðandi stundar er meiri en ella fyrir þá sök, að stéttaskipting hefur farið vaxandi að undanförnu. Fjölmenn undirstétt á bótum eða á strípuðum taxta- og dagvinnulaunum hefur ekki séð neitt af góðærinu, sem talað er um, og tekur ekki þátt í eyðslukapphlaupinu.

Tilraunir til að halda niðri kostnaði við félagslega þjónustu og til að hindra sprengingar í töxtum fjölmennra stéttarfélaga koma að sjálfsögðu illa við undirstéttina, sem enga ábyrgð ber á þeirri auknu eyðslu, sem er ástæða aðhaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Aðhald í ríkisfjármálum og hærri vextir eru spor í rétta átt, en taka ekki tillit til sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu, svo sem vaxandi stéttaskiptingar. Þetta eru út af fyrir sig of einhliða aðgerðir, of hefðbundnar skólabókaraðgerðir, sem hljóta að kalla á andóf.

Ríkisaðhald og vaxtahækkun eru samt sem áður nauðsynleg byrjun, því að án þeirra er ekki hægt að taka af viti á neinum öðrum vandamálum og verkefnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Stöðvum rányrkjuna strax

Greinar

Íslenzk fiskiskip hafa þrefaldað rækjuafla sinn á Flæmingjahattinum frá því í fyrra og tífaldað hann síðan 1993. Er nú svo komið, að þau veiða um það bil helming alls rækjuaflans á þessum miðum og eru einu fiskiskipin, sem stunda þar stjórnlausa ofveiði.

Íslenzku rányrkjarnir geta ekki reiknað með stuðningi ríkisins til framhalds ofveiðinnar. Öll ríki önnur en Ísland hafa samþykkt veiðistjórn og kvótakerfi og munu fara að beita áhrifum sínum til að knýja íslenzk stjórnvöld til að fara að viðurkenndum leikreglum.

Nú þegar er framferði íslenzkra fiskiskipa á Flæmingjahattinum notað gegn úthafsveiðum Íslendinga á öðrum miðum, svo sem í Smugunni. Ennfremur eru að rísa sjónarmið um höft á fiskinnflutning frá ríkjum, sem neita að fallast á sjálfbært hóf á veiðum.

Íslendingar hafa horfið úr fararbroddi þeirra þjóða, sem vilja vernda fiskstofna til að tryggja framtíð fiskveiða, í fararbrodd þeirra þjóða, sem engu eira í stundargræðgi. Álit umheimsins á Íslandi á þessu sviði hefur hrunið með rányrkju okkar á Flæmingjahattinum.

Íslenzku fulltrúarnir í Fiskveiðinefnd Norður-Atlantshafs vildu aflakvóta á þessum miðum, en allir aðrir sóknarkvóta. Þegar sjónarmið Íslands náði ekki fram að ganga, ákvað sjávarútvegsráðuneytið að hunza niðurstöðuna vegna þrýstings úthafsveiðiútgerða.

Talsmenn rányrkjunnar segja, að hún leiði til þess, að í nýju samkomulagi um veiðar á Flæmingjahattinum verði að taka tillit til aukinnar veiðireynslu íslenzkra skipa á svæðinu og auka kvótann, sem kemur í hlut Íslands. Þetta er auðvitað siðlaust með öllu.

Önnur hagsmunaríki munu heldur ekki sætta sig við, að Ísland kræki í aukinn kvóta með ofveiði í trássi við alla aðra. Þau munu taka saman höndum um, að hlutur Íslands verði ekki meiri en hann hefði orðið, ef það hefði frá upphafi tekið þátt í veiðistjórn á svæðinu.

Ekki verður séð, að það samrýmist heildarhagsmunum Íslands sem útflutningsríkis fiskafurða að fresta lengur að stöðva rányrkjuna á Flæmingjahattinum. Framhald hinna stjórnlausu veiða verður fljótlega til að baka okkur meira tjón en sem svarar ávinningi veiðanna.

Í fyrsta lagi verður reynt að útiloka Ísland með valdi frá þessum miðum og öðrum miðum, sem Fiskveiðinefnd Norður-Atlantshafsins hefur afskipti af. Í öðru lagi munu sum ríki hefja ofveiði á karfa á Reykjaneshrygg. Í þriðja lagi verða sett höft á íslenzkan fiskútflutning.

Miklu heppilegra er, að íslenzk stjórnvöld sjái að sér í tæka tíð, svo að ekki þurfi að standa andspænis niðurlægingunni, sem felst í samtökum annarra ríkja gegn Íslandi sem sjóræningjaþjóð. Við munum í náinni framtíð þurfa á að halda ímynd ábyrgrar fiskveiðiþjóðar.

Um allan heim er að rísa hreyfing umhverfisverndar, sem krefst þess, að jafnvægi sé í umgengni manna við náttúruna, þannig að ekki sé tekið meira en sem svarar endurnýjunargetu hennar. Slík samtök eru í vaxandi mæli að beita þrýstingi á ríki og risafyrirtæki.

Ofurkappsveiðar okkar stoða lítt, ef aðrar þjóðir neita að kaupa sjávarafurðir okkar. Við þurfum vegna útflutningshagsmuna okkar að halda friðsamlegu sambandi við ríki og risafyrirtæki. Það getum við ekki með því framferði, sem við höfum sýnt á Flæmingjahattinum.

Nú þegar ber stjórnvöldum að stöðva hinar skammsýnu veiðar Íslendinga og gerast aðili að fjölþjóðlegu samkomulagi um veiðistjórn á Flæmingjahattinum.

Jónas Kristjánsson

DV

Tímamót í frelsisstríði

Greinar

Íslenzku tryggingafélögin hafa frá manna minnum haldið fram, að tap sé á bílatryggingum. Þegar þau byrja að bregðast við samkeppni hins erlenda tryggingafélags á vegum Félags íslenzkra bifreiðaeigenda, mun koma endanlega í ljós, að þau fóru með rangt mál.

Þegar tryggingafélögin munu halda fram nýjum fullyrðingum í vetur um bílatryggingar og samsetningu iðgjalda, er gott fyrir almenning að vita af reynslunni, að málsvarar þeirra hafa mikla æfingu í að halda fram hvaða ósannindum, sem þeir telja að gagni koma.

Tryggingafélögin hafa lengi haft með sér samráð um verð og vinnureglur til að hafa fé af almenningi. Þau hafa verið eins konar æxli í þjóðfélaginu vegna skorts á samkeppni. Þau hafa raunar verið skólabókardæmi um misnotkun á aðstöðu til fáokunar á þröngum markaði.

Illræmt var fyrir nokkrum árum, er tryggingafélögin tóku saman höndum um að setja sér eigin lög um meðferð skaðabótamála og verja þau stig af stigi í dómkerfinu í hverju málinu á fætur öðru. Þannig þvinguðu þau margan lítilmagnann til að semja um skertar bætur.

Auðvitað töpuðu tryggingafélögin öllum þessum málaferlum á öllum dómstigum. Þau töldu eigi að síður vera herkostnaðarins virði að reyna þannig til þrautar að hafa peninga af þeim, sem ekki höfðu mátt til að sækja mál gegn lögmannasveitum tryggingafélaganna.

Svo mikill er máttur tryggingafélaganna til illra verka, að þau gátu fengið Alþingi til að samþykkja ný lög um skertar slysabætur, samin af prófessor, sem hafði verið í hátekjuvinnu hjá bransanum. Þessi lög voru svo fráleit og einhliða, að síðar varð að endurskoða þau.

Nú er loksins komið tækifæri fyrir þjóðina til að losa um sig í harðvítugri bóndabeygju tryggingafélaganna. Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur með ærinni fyrirhöfn tekizt að fá alvöru tryggingafélag frá London til að setja upp útibú á Íslandi á vegum félagsins.

Nýja tryggingafélagið hefur tekið til starfa og býður bílatryggingar, sem eru um það bil þriðjungi lægri en tryggingar þjóðaróvinanna. Það er sparnaður, sem nemur að meðaltali nálægt tíu þúsund krónum á hvern bíl á ári og jafngildir auðvitað stórauknum kaupmætti.

Miklu máli skiptir, að almenningur átti sig á þessu tækifæri til að losa um fjötrana. Margir munu sýna kvölurum sínum trúmennsku og bíða eftir, að þau lækki iðgjöld sín til að mæta samkeppninni. Þeir leggja lóð sitt á vogarskál fyrirtækja, sem hafa haft af þeim fé.

Okkur vantar núna erlend tryggingafélög til að ráðast á aðra þætti fáokunarinnar í tryggingunum, þegar íslenzku félögin fara að millifæra til bílatrygginga frá öðrum tryggingum og reyna þannig að láta tryggingataka á öðrum sviðum greiða herkostnað sinn af samkeppninni.

Ekkert er því til fyrirstöðu nema það sé skortur á beini í nefinu, að Húseigendafélagið vakni til lífs, safni félagsmönnum og bæti lífskjör þeirra með því að útvega hingað alvöru tryggingafélag frá útlöndum til að keppa við þjóðaróvinina um tryggingar húss og innbús.

Það er nýtt fyrirbæri hér á landi, sem þykir sjálfsagt í mörgum vestrænum ríkjum, að hagsmunafélög almennings taki sig saman í andlitinu og ráðist með breiðfylkingu gegn ýmsum þeim sérhagsmunum, sem lengst ganga fram í að halda niðri lífskjörum þjóðarinnar.

Vonandi leiðir tryggingaframtak Félags íslenzkra bifreiðaeigenda til árangurs og gefur knýjandi fordæmi í efnahagslegri frelsisbaráttu kúgaðrar þrælaþjóðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þverstæður í fiskvinnslu

Greinar

Skýrasta þverstæða íslenzkrar fiskvinnslu er, að annars vegar getur hún aðeins greitt hálft kaup í samanburði við það, sem dönsk fiskvinnsla borgar, og hins vegar er rekstrarkostnaður hennar svo hár, að hún getur ekki keppt við frystingu um borð í togurum.

Hvorugt er umdeilt sem staðreynd. Íslendingar hafa flykkzt í fiskvinnslu til Danmerkur og hafa þar tvöfalt tímakaup. Þetta hafa margir aðilar sannreynt, þar á meðal DV, sem sendi mann á vettvang. Þetta leiðir til, að þar er unninn styttri og þægilegri vinnudagur.

Við sjáum hinn hluta þverstæðunnar greinilega hér heima. Margar vinnslustöðvar hafa lagt upp laupana eða sameinazt öðrum. Hlutur landfrystingarinnar í heildarfrystingunni hefur dregizt saman, meðan sjófrysting hefur aukizt. Þetta sést svart á hvítu í hagtölum.

Eðlilegt er að álykta af þessu, að íslenzk fiskvinnsla sé illa rekin. Það hafa raunar sumir foringjar stéttarfélaga sagt. Málsvarar fiskvinnslunnar hafa andmælt þessu, en ekki getað útskýrt þverstæðuna, sem er forsenda gagnrýninnar, er fiskvinnslan hefur sætt.

Raunar er staða fiskvinnslunnar misjöfn. Einkum eru það sum frystihús, sem ramba á barmi gjaldþrots. Önnur frystihús stórgræða á sama tíma. Þannig gengur til dæmis mjög vel í Neskaupstað og á Eskifirði, meðan miður gengur í sumum öðrum byggðarlögum á Austurlandi.

Sem heild er rekstur fiskvinnslu einna verstur á Vestfjörðum. Þar hafa forstjórar einblínt á kosti sérhæfingar og gengið svo langt, að þeir sjá ekkert nema þorsk og aftur þorsk. Svo er nú komið, að hin grónustu fyrirtæki þar vestra eiga stundum ekki fyrir olíu í Smuguna.

Annars staðar hafa sumir forstjórar verið sveigjanlegri og haft augun opin fyrir margvíslegri og fjölbreyttri vinnslu. Þeir hafa meðal annars látið sækja sjávarfang á fjarlæg mið. Þannig hafa þeir getað náð hlutdeild í góðum aflabrögðum á miðum annarra landshluta.

Hornafjörður er gott dæmi um stað, þar sem fiskvinnsla átti í erfiðleikum fyrir nokkrum árum, en hefur nú halað sig upp með því að auka fjölbreytni og framlengja vinnsluferlið í átt til neytendamarkaðar. Þar er einfaldlega betur stjórnað en á Vestfjörðum.

Þetta er hin þverstæðan í fiskvinnslunni. Sum fiskvinnsla er nánast gjaldþrota, meðan önnur græðir á tá og fingri. Skýrasta dæmið er frá Neskaupstað, þar sem galdramenn kapítalismans eru að reisa hálfs milljarðs króna frystihús fyrir gróðann frá því í fyrra.

Aðstæður fiskvinnslunnar eru sífellt að breytast. Samsetning og staðsetning aflans eru mismunandi frá ári til árs. Forstjórum dugir ekki að frjósa í fyrri ákvörðunum, heldur verða þeir sífellt að hugsa dæmi sitt frá grunni. Aðeins þannig getur rekstrardæmið gengið upp.

Í stórum dráttum hafa forustumenn stéttarfélaga rétt fyrir sér, þegar þeir efast um, að forstjórar fiskvinnslunnar séu réttir menn á réttum stað. Margir þeirra ná að vísu góðum árangri, en hinir eru allt of margir, sem láta breytingar í umhverfinu koma sér í opna skjöldu.

Nútímaþekking á vinnsluferli og fjármálum, í stjórnun og markaðsfræðum hefur sigið misjafnlega inn í fiskvinnsluna. Eigendum hennar ber að líta í kringum sig og spyrja, hvort hluti vandræðanna felist ekki einmitt í, að nútímaþekking hefur víða verið vanrækt.

Dagkaupið í fiskvinnslu er lágt og reksturinn samt dýr. Sumum gengur vel og aðrir fara á hausinn. Þverstæður atvinnugreinarinnar hljóta að skera í augu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótrygg framtíð íslenzku

Greinar

Ungu fólki er enska töm, enda er hún allt í kringum okkur. Unglingarnir hafa alizt upp við hana í textuðum kvikmyndum og alþýðutónlist. Margt ungt fólk getur beinlínis hugsað á ensku og þar með náð þeim tökum á málinu að geta talizt reiprennandi enskumælendur.

Þetta er sumpart gott og að minnsta kosti hagkvæmt. Enska er orðin alþjóðatunga heimsins, lykill að viðskiptum og öðrum samskiptum milli landa. Færir enskumenn hafa betri aðgang að þessum mikilvæga samskiptaheimi en hinir, sem stirðmæltir eru á alþjóðatungumálið.

Enska er beinlínis móðurmál fólks í ríkjum í öllum álfum. Það er arfur frá tímum brezka heimsveldisins. Þar við bætast yfirburðir Bandaríkjanna í alþjóðastjórnmálum, alþjóðlegri fjölmiðlun og í alþjóðlegum skemmtiiðnaði. Bandarískir leikarar eru viðmiðunartákn.

Þær þjóðir, sem lengst ganga í vörn gegn linnulausu áhlaupi enskunnar, eru gömul stórveldi á borð við Frakkland og Þýzkaland, sem til dæmis láta talsetja bandarískar kvikmyndir. Þetta veldur því, að leikni í ensku er lakari í þessum löndum en í hinum, sem minna mega sín.

Íslenzk stjórnvöld hafa ekki tekið upp jafn harða afstöðu og frönsk og þýzk, enda þarf stóran markað til að standa undir talsetningu kvikmynda. En á sumum sviðum hafa landsfeðurnir gert minna af því að halda uppi vörnum en starfsbræður þeirra í öðrum smáríkjum.

Sem dæmi um þetta má nefna, að Innkaupastofnun ríkisins og menntaráðuneytið hafa árum saman látið viðgangast að til notkunar í skólum landsins sé mælt með stýrikerfi og algengum hugbúnaði á ensku, þótt nóg framboð sé af slíku á íslenzku og mikið notað.

Eðli málsins samkvæmt er það fremur ritmálið en talmálið, sem á erfitt uppdráttar. Töluverð gjá er milli þessara tveggja útgáfna tungumálsins, af því að ritmálið hefur breyzt hægar en talmálið og raunar verið fryst í eldra formi. Ritmálið vefst fyrir sífellt fleirum.

Önnur gjá er að myndast milli þeirra, sem kunna í stórum dráttum að nota íslenzkt ritmál og eru óhræddir við að nota það, og hinna, sem eiga erfitt með það og forðast því að láta texta frá sér fara. Að þessu leyti er til undirstétt, sem fer sífellt stækkandi.

Vegna fámennis þjóðarinnar, yfirburðastöðu enskunnar í umhverfinu og mikilla utanríkisviðskipta og -samskipta á íslenzk tunga í vök að verjast. Það er neikvæða hliðin á innrás enskunnar í samfélagið hér á landi. Með sama áframhaldi leggst íslenzka niður.

Þetta kann að vera svartsýni. En staðreyndir líðandi stundar eru ljósar. Enska sækir á og íslenzka víkur sess. Engin merki eru á lofti um marktækt viðnám af hálfu íslenzkumanna og menningarvita, menntaráðuneytisins eða annarra yfirvalda. Nema smíði nýyrða.

Þótt íslenzka sé nokkuð fornt mál, hefur áhugamönnum tekizt að búa til íslenzkan orðaforða á flestum nútímasviðum. Þannig tölum við um síma, þotur og tölvur með góðum árangri. Í verkfræði og tölvutækni eru til íslenzk orð yfir flest hugtök, sem mestu máli skipta.

Afrek nýyrðasmiða sýna, að efnislega er íslenzka hæf til að vera nútímamál á tækni-, tölvu- og samgönguöld. Það er ekkert, sem kemur í veg fyrir, að íslenzka geti haldið áfram að blómstra, nema áhugaskortur þjóðarinnar og þeirra, sem eiga að gæta hagsmuna tungunnar.

Tími er kominn til að stinga við fótum og snúa málum í þann farveg, að íslenzka geti áfram lifað góðu lífi á þessari eyju við hlið alþjóðatungumálsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Andvana þrælaþjóð

Greinar

Íslendingar eru eins og klipptir út úr bókum Guðbergs Bergssonar. Þeir eru saddir og sljóir, lamaðir af yfirtíð og sjónvarpsglápi. Sumir rithöfundar hafa fyrir satt, að þetta hafi gerzt með stríðsárakynslóðinni, en aðrir segja Íslendinga öldum saman hafa verið þrælslundaða.

Einstaka ljós sést í þokunni, til dæmis tilraun Félags íslenzkra bifreiðaeigenda til að losa bíleigendur undan áþján fáokunarhrings tryggingafélaganna. Sú tilraun mun þó ekki koma í veg fyrir, að meirihluti bíleigenda heldur áfram að þéna undir hefðbundna tryggingaherra.

Ef almennt væri hryggur í þjóðinni, hefði hún flykkzt í Neytendasamtökin og Skattgreiðendafélagið og kúgað þjóðarleiðtogana til að láta af þjónustu við sérhagsmuni. Hún hefði flykkzt í stjórnmálaflokka og rutt brott ómögum og smákóngum, sem þar hafa safnazt fyrir.

Þjóðin hefur örlög sín á valdi sínu, en kærir sig ekki um að notfæra sér það. Menn taka í staðinn því, sem að höndum ber, eins og hverju öðru hundsbiti og reyna að kría út meiri yfirtíð til að halda uppi lífskjörum á erfiðum tímum. Þeir taka ekki ábyrgð á örlögum sínum.

Fólk stundar lífsstíl, sem er gersamlega út í hött, og ætlazt síðan til að heilbrigðis- og tryggingageirinn komi með færibandið, sturti sér inn á sjúkrahús í uppskurði og eiturlyfjameðferð og haldi sér síðan uppi með örorkubótum og sjúkradagpeningum. Það ber enga ábyrgð sjálft.

Ein afleiðing sofandaháttar og þrælslundar þjóðarinnar er, að stjórnmálin snúast ekki um almannahagsmuni, heldur um auð og völd, auð sérhagsmunanna og völd stjórnmálamannanna til að stunda geðþótta út og suður, þvert á vestræn lýðræðis- og markaðslögmál.

Önnur afleiðing er, að þjóðfélagið er illa rekið og þolir ekki há laun. Það er svo illa statt, að reynt er að hampa lágum daglaunum þjóðarinnar framan í erlenda fjárfesta. Láglaunakerfið er beinlínis orðið að landkynningu. En yfirtíðin bjargar öllu að mati imbakassaimbanna.

Tugum milljarða króna er brennt á hverju ári með hindrunum hins opinbera í vegi markaðskerfisins, svo sem innflutningsbanni, innflutningshöftum, innflutningstollum, millifærslum, kvótum, búmarki, aflamarki, sóknardögum, reglugerðum og aftur reglugerðum.

Markmiðið með öllu þessu rugli er, að sérhagsmunirnir geti haft það gott og þurfi ekki að taka til hendinni við að bæta reksturinn. Þess vegna koðnar flest framtak niður í fáokun og einokun, meðan þjóðin ypptir öxlum og stundar sína yfirtíð og sitt sjónvarpsgláp.

Meðal þeirra fáu, sem kunna að reka fyrirtæki, eru nokkrir gamlir kommúnistar austur í Neskaupstað, sem græddu í fyrra hundruð milljóna á hlutabréfabraski og rekstri frystihúss af sama tagi og aðrir reka með dúndrandi tapi. Þetta sýnir vel litróf vannýttra möguleika.

Ísland gæti verið gósenland, ef Íslendingar kærðu sig um. Þjóðin er að vísu svo fámenn, að hún hefur ekki greind til að manna alla pósta, sem máli skipta. En það hlýtur að vera hægt að fá miklu meira vit í pólitíkina, í blýantsnögunar-stofnanirnar og í einkaframtakið.

Svo illa er mannað í toppstöðum þjóðfélagsins, að það er orðinn óskadraumur margra, að landið álpist inn í Evrópusambandið, svo að íslenzkir smákóngar geti síður haldið úti séríslenzku böli á borð við áðurnefndar markaðshindranir og verðmætabrennslu af öðru tagi.

Meðan kjósendur eru meira eða minna andvana í yfirtíð og sjónvarpsglápi, breyta sér ekki úr þrælum í borgara, taka enga ábyrgð á þjóðfélaginu og framtíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótraust miðlungsveldi

Greinar

Ósigur Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í nýjustu slagsmálunum við Saddam Hussein Íraksforseta er meiri en talið var í fyrstu. Hussein hefur tekizt að þurrka út njósna- og undirróðursstarfsemi bandarísku leyniþjónustunnar í bænum Arbil á verndarsvæði Kúrda.

Bandaríska leyniþjónustan hafði eytt meira en milljarði króna í þjálfun hundrað manna liðs og fullkominn tækni- og tölvubúnað. Hussein hefur náð búnaðinum á sitt vald og látið taka alla málaliða Bandaríkjanna af lífi. Bandaríkin eru aftur á upphafsreit í Íraksmálinu.

Sézt hefur, að her Íraka er orðinn öflugur á nýjan leik og er aftur orðinn hættulegur umhverfi sínu. Hussein er aftur orðinn ráðandi afl á verndarsvæðum Kúrda. Raunar hafði bandaríska hermálaráðuneytið ýkt tjón Írakshers í Persaflóastríðinu fyrir fimm árum.

Mestur ósigur Bandaríkjanna felst í að hafa skilið menn sína eftir til að deyja drottni sínum. Með því sendir Clinton Bandaríkjaforseti þau skilaboð til stuðningsmanna á hættulegum svæðum, að þeir hafi ekkert bakland hjá sér. Griðasvæði þeirra séu einskis virði.

Bandaríkin gengu að vísu lengra en bandamenn þeirra og skutu nokkrum sprengjum út í loftið til málamynda. Margir bandamenn voru ósáttir við aðgerðina og töldu betra að hafa ekki afskipti af málinu. Fremst var þar í flokki franska stjórnin, sem vill viðskipti við Írak.

Munurinn á Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra, einkum Bretlandi og Frakklandi, er þó sá, að síðarnefndu ríkin eru fyrir löngu hætt að vera heimsveldi. Þau gera ekki kröfu til þess. Þau hafa hins vegar reynt að vera evrópsk veldi, með hrapallegri niðurstöðu í Bosníu.

Umheimurinn er hættur að taka sérstakt mark á Bretlandi og Frakklandi sem evrópskum veldum. Þau eru bara orðin lönd eins og önnur lönd. En Bandaríkin urðu eina vestræna heimsveldið eftir síðari heimsstyrjöldina og eftir fall Sovétríkjanna urðu þau eina heimsveldið.

Að undanförnu hafa Bandaríkin verið að afsala sér þessum völdum. Það gerist af sjálfu sér, þegar ríki láta innanríkismál hafa forgang yfir utanríkismál. Bandaríkjamenn hafa gerzt innhverfir sem þjóð á undanförnum árum og vilja minna en áður af umheiminum vita.

Hver, sem vill, stendur uppi í hárinu á Bandaríkjunum. Ríki neita að lúta frumkvæði þeirra og beita gagnaðgerðum, er Bandaríkin hyggjast refsa útlendum fyrirtækjum fyrir að lúta ekki pólitískum vilja Bandaríkjanna í viðskiptum. Þetta magnar bandarísku innhverfuna.

Bandarískir kjósendur eru raunar áhugalitlir um utanríkismál og vilja ekki, að forsetar sínir séu of uppteknir af þeim. Þeir eru ánæðgir með Clinton, sem hefur alls enga stefnu í utanríkismálum aðra en þá að láta þau ekki trufla gang stjórnmálanna innanlands.

Clinton er hins vegar með gott lið markaðs- og ímyndunarfræðinga. Með hjálp þess hefur honum tekizt að telja kjósendum trú um, að hann sé fastur fyrir í utanríkismálum og hafi tök á þeim málaflokki. Kjósendur eru til dæmis ánægðir með sýndarsprengingarnar á Persaflóa.

Clinton sendi herlið til Bosníu til að blekkja kjósendur og dregur það senn til baka til að blekkja kjósendur. Hann lét sprengja til málamynda á Persaflóa til að blekkja kjósendur. Gerðir hans í utanríkismálum lúta hagsmunum hans í innanríkismálum á hverjum tíma.

Clinton hefur rýrt möguleika Bandaríkjanna til áhrifa á erlendum vettvangi hraðar en nokkur annar forseti. Hann hefur gert Bandaríkin að ótraustu miðlungsveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Myrkviður ímyndarfræða

Greinar

Meiri og betri upplýsingar í fjölmiðlum og víðar hafa ekki reynzt vera sá hornsteinn vestræns þjóðfélags, sem áður fyrr var vonað. Almenningur kærir sig ekki sérstaklega mikið um að nota sér aukið og bætt upplýsingaflæði í umhverfinu til að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Á sama tíma hefur aukizt tækni þeirra, sem reyna að villa um fyrir fólki, til dæmis með því að selja því ímyndir fremur en innihald. Þetta á við um allt sviðið frá fótanuddtækjum á jólamarkaði til frambjóðenda í kosningum. Fólk lætur jafnan ginnast unnvörpum.

Fólk, sem fylgist með, ætti raunar að vita nógu mikið til að geta séð gegnum innihaldsrýrar auglýsingar, innihaldsrýrar fullyrðingar og innihaldsrýr loforð. Samt sem áður tekst seljendum ímynda oftar en ekki að komast inn fyrir varnir fólks, sem ætti að vita betur.

Bandarískir ímyndarfræðingar eru farnir að hlaupast undan merkjum og skrifa bækur um reynslu sína. Í fyndinni bók um störf sín fyrir nokkra stjórnmálamenn fullyrðir ímyndarfræðingurinn Ed Rollins til dæmis, að hægt sé að gabba alla alltaf, ef sjóðir séu nógu digrir.

Í hvert sinn sem lakari vara, þjónusta eða persóna er tekin fram yfir betri vöru, þjónustu eða persónu vegna harðari markaðssetningar, er dregið úr líkum á frekara framboði góðrar vöru, þjónustu eða persóna. Það vandaða heltist úr lestinni í sigurgöngu ímyndarfræðanna.

Ekki þarf annað en að fara í stórmarkað og horfa í innkaupakörfur fólks til að sannfærast um, að það sé tæpast með réttu ráði. Körfurnar eru fullar af mikið unnu, óhollu og rándýru ruslfóðri, en vönduð, holl, eðlileg og ódýr vara er skilin eftir í hillunum.

Fólk fer í sérverzlanir og kaupir þar merkjavöru á tvöföldu eða margföldu því verði, sem sama vara kostar án merkisins. Sumt fólk gengur í merkjavöru með áberandi vörumerkjum, þannig að það auglýsir beinlínis ósjálfstæði sitt í innkaupum. Og þykir vera fínt.

Alvarlegust er innreið ímynda á kostnað innihalds í stjórnmálunum. Í kosningum eftir kosningar eru valdir til áhrifa stjórnmálamenn, sem ekki eru að gæta almannahagsmuna, heldur sérhagsmuna af ýmsu tagi og vinna þannig beinlínis gegn almannahagsmunum.

Þekktasta dæmið um þetta eru höftin á búvöruverzlun, sem kosta skattgreiðendur marga milljarða króna á hverju ári og neytendur einnig marga milljarða króna á hverju ári. Ef þessi höft af mannavöldum væru afnumin, mundu almenn lífskjör í landinu stórbatna.

Öllum má þetta ljóst vera, ef þeir fylgjast með og nenna að leggja saman tvo og tvo. Sumir gera það að vísu, en taka ekki afleiðingunum. Þeir halda áfram að endurkjósa þá stjórnmálamenn, sem vitað er, að muni standa vörð um sérhagsmunina að baki haftakerfi búvöruverzlunar.

Annað dæmi er eignarhald fiskimiðanna og afgjald þeirra. Nánast allir þeir, sem flutt hafa rök í þeim málaflokki, hafa mælt með auðlindaskatti eða veiðileyfagjaldi. Samt komast stjórnmálamenn áfram upp með þrönga sérhagsmunagæzlu gegn almannahagsmunum.

Fólk hefur allar ytri aðstæður til að fylgjast með og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Umhverfi fólks er fullt af gagnlegum og trúverðugum upplýsingum, sem það hirðir ekki um að nota sér. Í staðinn hlaupa flestir eins og sauðir á eftir klisjum og innihaldsrýrum ímyndunum.

Tækni ímyndarfræðinganna vex því miður miklu hraðar en vilji og geta almennings til að brjótast gegnum myrkvið ruglsins út í ljós og birtu upplýsingaaldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þyngdir ofbeldisdómar

Greinar

Í ræðu sinni við opnun nýs Hæstaréttarhúss óskaði dómsmálaráðherra eftir þyngri dómum í ofbeldismálum. Forseti Hæstaréttar tók síðan undir þetta í viðtali við DV og sömuleiðis dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness. Yfirvöld eru farin að taka mark á almenningsálitinu.

Dómstjórinn á Reykjanesi sagðist raunar löngum hafa verið þeirrar skoðunar, að harðar sé tekið á fjármunabrotum en líkamsmeiðingabrotum. Þetta er það sama og nokkrum sinnum hefur verið bent á hér í blaðinu. Úrelt gildismat hefur of lengi ráðið ferðinni.

Gömul lög bera þess merki, að peningar hafa löngum verið taldir æðri lífi og limum fólks. Tímabært er, að Alþingi fari að endurskoða refsiákvæði laga með breytt gildismat í huga og gefi þannig dómstólum ábendingu um, að breyta þurfi réttarvenju í þjóðfélaginu.

Einkum eru það þó dómstólarnir, sem þurfa að taka sig á. Þeir hafa ekki notað svigrúm laga við ákvörðun refsingar í ofbeldismálum. Þeir hafa haldið sig við neðri jaðar svigrúmsins og þar á ofan fellt skilorðsbundna dóma í þremur tilvikum af hverjum fjórum.

Hæstiréttur hefur gefið tóninn að þessu leyti. Þegar forseti Hæstaréttar tekur undir orð þeirra, sem vilja breytingar, er ljóst, að breytingar verða. Hann varði einnig stofnun sína með því að benda á, að Hæstiréttur hefði að undanförnu þyngt refsingar í kynferðisafbrotum.

Forseti Hæstaréttar og ýmsir fleiri dómarar hafa tekið eftir aukinni tíðni ofbeldisglæpa og kröfum úr grasrót almenningsálitsins um harðari refsingar. Enda getur það ekki farið fram hjá neinum, að fólskulegt ofbeldi er skyndilega orðið daglegt brauð hér á landi.

Töluverður hópur manna stundar ofbeldi í síbylju. Þeir ráðast á hvern, sem fyrir verður. Yfirstéttin í landinu hefur lengi látið sér það í léttu rúmi liggja, en hrökk þó við, þegar ráðizt var upp úr þurru á sýslumanninn í Reykjavík. Sú árás færði ofbeldið nær yfirstéttinni.

Þrátt fyrir innantómar fullyrðingar lögreglunnar um, að ofbeldi sé með óbreyttum hætti, fer ekki framhjá neinum öðrum, að hættulegt ofbeldi er í örum vexti. Sérstaklega er áberandi, að ofbeldið er fólskulegra en áður og snýr meira en áður að óviðkomandi og óviðbúnu fólki.

Þyngri refsingar hafa meðal annars það hlutverk að losa þjóðina við ofbeldismenn af götunum, svo að fólk geti gengið um þjóðfélagið í friði. Tilvera ríkisvalds er beinlínis afsökuð með því, að það sé eins konar næturvörður og eigi að sjá um öryggi fólks á almannafæri.

Forseti Hæstaréttar og einn hæstaréttarlögmaður hafa samt varað við, að menn megi ekki vera of refsiglaðir. Vísa þeir vafalaust til þess, að lítið samband sé milli þyngdar refsingar og varnaðar hennar. En refsingar hafa ekki bara það hlutverk að vara fólk við glæpum.

Megintilgangur refsingar er ekki að vera misheppnuð tilraun til að bæta afbrotamann eða að vara menn við afbrotum. Samkvæmt orðsins hljóðan er refsing einfaldlega refsing. Hún hefur auk þess þá afar þægilegu hliðarverkun að taka hættulegt síbrotafólk úr umferð.

Þyngri refsingar kosta auðvitað meira rými til vistunar glæpamanna. Það kostar fleiri og stærri fangelsi að þyngja ofbeldisdóma. Þjóðfélagið er áreiðanlega tilbúið að taka þeirri aukaverkun, því að ofbeldisfólk hefur gengið fram af almenningi og núna einnig yfirvöldum.

DV hefur löngum hvatt til stefnubreytingar. Þegar dómsmálaráðherra og forseti Hæstaréttar taka í sama streng, má búast við, að hjólin fari að snúast.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðærið er happdrætti

Greinar

Góðærið í þjóðfélaginu stafar af auknum árangri í úthafsveiðum sjávarútvegsins. Ef engin væri aukningin á því sviði, væri enginn hagvöxtur í landinu, heldur stöðnun. Þannig hefur það raunar verið áratugum saman, að góðæri fylgir aflabrögðum í sjávarútvegi.

Bjartsýnin í þjóðfélaginu stafar af þessu og af væntingum um nýja stóriðju. Framkvæmdir við orkuver og stóriðju hafa reynzt svipað happdrætti í þjóðarbúskapnum og skyndileg aflaaukning. Þær breyta náttúrulegri stöðnun gamaldags þjóðfélags í tímabundið góðæri.

Með vestrænum þjóðum er hagvöxtur með ýmsum hætti, en alltaf einhver. Stundum er hann mikill og stundum lítill. Stöðnun er þar nánast óþekkt fyrirbæri. Hún er ekki náttúrulegt ástand efnahagslífsins við staðnaðar ytri aðstæður eins og hún er hér á landi.

Þjóðfélag okkar er þeim annmarka háð að þurfa alltaf nýjan og nýjan happdrættisvinning til að fleyta sér af einu þrepi á annað. Fyrr á öldinni voru það blessaðar styrjaldirnar, sem færðu björg í bú. Síðar voru það útfærsla fiskveiðilögsögu og stóriðjuframkvæmdir.

Af eigin völdum hefur íslenzkt efnahagslíf ekki kraft til árviss hagvaxtar. Þegar engir eru happdrættisvinningar, staðnar allt og lífskjör versna. Eftir langvinna stöðnun erum við nú orðnir eftirbátar, sem auglýsum í útlöndum, að hér sé gott að fjárfesta í láglaunaríki.

Sumpart stafar þetta af fámenni og fjarlægð frá umheiminum, en að öðru leyti af frumstæðara þjóðfélagi. Við búum til dæmis við erfið landbúnaðarskilyrði, en höldum samt uppi hlutfallslega fjölmennari landbúnaði en samanburðarþjóðir okkar gera beggja vegna hafsins.

Við erum eftirbátar annarra í að leyfa markaðsöflum að ráða ferðinni. Við búum við einokun og fáokun á miklu fleiri sviðum en eðlileg eru talin í nágrannalöndunum. Samgöngur, tryggingar, olíuverzlun, landbúnaður, póstur og sími eru átakanleg dæmi um þetta.

Í stað markaðar leggjum við allt okkar traust á misvitra ráðherra. Við viljum að þeir séu sífellt að leysa mál með úrskurðum og reglugerðum, sem gjarna mega lyfta þrengstu sérhagsmunum þeirra, sem hæst væla hverju sinni. Við viljum skilningsríkan geðþótta.

Skilningsríkar fyrirgreiðslur voru nauðsynlegar á fyrri öldum, er þjóðin rambaði hvað eftir annað á barmi almennrar hungursneyðar. En viðhorfin, sem þá gerðu landið byggilegt, eru nú fjötur um fót, þegar við höldum í humátt á eftir öðrum inn í þriðja árþúsundið.

Okkar viðhorf og áhugamál snúast um fyrirgreiðslur, reglugerðir, pólitískar ráðningar, almenna velferð, vinsamlegt handafl, það er að segja um almennt jákvæðan geðþótta. Ríkjandi viðhorf í vestrænum ríkjum hafa hins vegar færzt í átt til ópersónulegra markaðsafla.

Meðan við höldum okkur við gömlu gildin, getum við ekki reiknað með hagvexti, nema þegar við fáum happdrættisvinninga í formi aflabragða og stóriðjuframkvæmda. Í annan tíma verðum við að sætta okkur við að dragast aftur úr og verða láglaunaþjóð.

Það er ekkert yfirvald, sem hefur ákveðið, að svona skuli þetta vera. Almenningur er hlynntur opinberu handafli og millifærslum. Hann er ýmist hlutlaus í garð markaðsafla eða beinlínis andvígur þeim. Þetta kemur fram í gengi manna og viðhorfa í stjórnmálunum.

Það væri ekki létt verk að gera Ísland óháð utanaðkomandi happdrættisvinningum. Það mundi kosta hugarfarsbyltingu, sem ekki er sjáanleg um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV

Sýndarveruleiki í Bosníu

Greinar

Að undirlagi vesturveldanna stendur til að hafa þing- og forsetakosningar í Bosníu um miðjan þennan mánuð. Brugðizt hefur hver einasta forsenda fyrir þessum kosningum, sem verða hreinn skrípaleikur. Samt heldur sjónarspilið áfram eins og ekkert hafi í skorizt.

Ætlunin var upphaflega, að kosningarnar yrðu áfangi í að steypa Bosníu saman í eitt ríki. Áhrifin eru hins vegar þveröfug. Enn frekari þjóðahreinsanir hafa farið fram sem liður í kosningaundirbúningi til þess að tryggja, að á hverjum stað sé einlit hjörð eins málsaðila.

Fyrir innrás Atlantshafsbandalagsins í Bosníu var talað um þjóðahreinsun í landinu, mest af hálfu Serba. Eftir innrásina og sýndarveruleikann, sem vesturveldin hafa komið á fót, er talað í háði um kosningahreinsun, sem er eins konar framhald þjóðahreinsunar.

Víðtækt kjörskrársvindl hefur farið fram og er öllum ljóst nema sýndarveruleikagengi Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Serbar láta afskrá sig í þorpum, sem eru í öruggum höndum og láta skrá sig í þorpum, sem áður voru byggð íslömum eða Króötum.

Undanfarið hafa Króatar í Mostar skipulega hrakið íslama úr íbúðum á vesturbakka árinnar til að tryggja, að þeir geti ekki komið á kjörstað. Mostar er raunar gott dæmi um, að sýndarveruleiki vesturveldanna gengur ekki einu sinni upp, þar sem Serbar eru ekki.

Allir vita, sem vita vilja, að væntanlegar kosningar verða ekki lýðræðislegar. Í þeim hlutum landsins, sem íslamar ráða, eru stjórnarandstæðingar barðir, en í hlutum Serba og Króata eru þeir hreinlega drepnir. Hver hluti landsins fyrir sig verður einræðisríki.

Ein helzta forsenda kosninganna var upphaflega, að þær yrðu lýðræðislegar. Önnur helzta forsenda þeirra var, að frjáls og óháð fjölmiðlun fengi að blómstra, svo að kjósendur fengju að sjá fleiri en eina hlið á hverju máli. Sú forsenda hefur líka brugðizt hrapallega.

Harðstjórum íslama hefur nokkurn veginn tekizt að koma í veg fyrir alla fjölmiðlun, sem ekki heyrir beint undir Flokkinn. Harðstjórum Króata og Serba hefur alveg tekizt að koma í veg fyrir slíka fjölmiðlun. Í öllum fjölmiðlum utan Sarajevo ríkir einhliða heift.

Umboðsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa ekki gert neitt til að hafa hendur í hári eftirlýstra stríðsglæpamanna, sem eiga að mæta fyrir dóm í Haag. Herforingjar á staðnum segja, að slíkt væri framkvæmanlegt, ef fyrirskipun kæmi, en hún hefur bara alls ekki komið.

Í Bosníu ganga stríðglæpamenn lausir. Þar er hvorki málfrelsi né prentfrelsi. Þar er ekki frelsi til að mynda félög eða flokka. Þar er ekki frelsi til að ferðast um. Þar er ekki frelsi til að kjósa í upprunalegri heimabyggð. Þar er enginn grundvöllur fyrir lýðræðislegar kosningar.

Kosningarnar eru ekki haldnar af því að hálft eða eitt skilyrðanna hafa verið uppfyllt, heldur af því að Clinton Bandaríkjaforseti vill halda sýndarveruleikanum gangandi vegna forsetakosninganna heima fyrir. Hann vill geta kallað flesta hermennina heim fyrir kosningar.

Þetta er svipaður sýndarveruleiki og þegar bandaríska hermálaráðuneytið segist hafa gert loftárásir á Írak í refsingarskyni fyrir brot Saddams Husseins á vopnahléssamningi. Árásirnar voru ekkert annað en nokkrar eldflaugar, sem skotið var stefnulaust út í loftið.

Það er eitthvað meira en lítið að sjálfsvirðingu Vesturlanda, þegar misheppnaðar tilraunir til sýndarveruleika eru orðnar að sjálfum hornsteini hermálastefnu þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Opinber verndun kláms

Greinar

Fyrir svo sem tveimur áratugum komst sú kenning á kreik, að klám væri fremur hagstætt, af því að það héldi órunum á ímyndunarstigi og minnkaði líkur á, að þeir brytust út á öfgafullan hátt og sköðuðu annað fólk. Þetta var eins og hver önnur kenning, sem reis og hneig.

Dönsk stjórnvöld tóku kenninguna fremur alvarlega fyrir tveimur áratugum og fóru að leyfa klámviðskipti af ýmsu tagi. Miðbær Kaupmannahafnar fylltist af klámbúðum, þar sem seldar voru bækur og tímarit, hljóðsnældur og myndbönd, svo og kynóratól af ýmsu tagi.

Niðurstaðan var ekki sú, sem ætluð var. Kynferðisglæpum fjölgaði, þegar frá leið. Miðbær Kaupmannahafnar varð fremur fráhrindandi á tímabili. Síðan hurfu Danir frá kenningunni og ástandið hefur aftur færzt í það horf, sem var fyrir misheppnuðu byltinguna.

Svo virðist sem síðari tíma frumvarpshöfundar á Íslandi hafi verið við nám í Kaupmannahöfn við upphaf klámtímans, flutzt síðan heim til Íslands og frosið hér inni með úrelta kenningu um gagnsemi kláms. Þessa sér stað í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um barnaklám.

Frumvarpið greinir á milli grófs barnakláms, sem eigi að vera ólöglegt, og löglegs barnakláms, sem sé ekki eins gróft. Dómsmálaráðuneytið fylgist lítið með því, sem er að gerast og hyggst leggja frumvarpið fram að nýju í haust, þrátt fyrir daufar viðtökur í vor.

Í ruglingslegri greinargerð frumvarpsins segir: “Því hefur verið haldið fram, að í einstaka tilvikum geti efni með barnaklámi, sem kynferðislega misþroska menn hafa í vörzlu sinni, hugsanlega að einhverju leyti komið í veg fyrir kynferðisafbrot gagnvart börnum.”

Þetta er lítt sannfærandi texti, sem vísar í óskilgreindar fullyrðingar um einstaka tilvik og einhvers konar hugsanlegar hömlur, sem felist í klámi. Sem röksemdafærsla fyrir ríkisstjórnarfrumvarpi um aukið klám er hún ónothæf með öllu og raunar forkastanleg.

Við eigum við allt önnur vandamál að stríða á þessu sviði en skort á klámi. Augljósi vandinn er, að dómstólar í landinu taka ekki mark á forskriftum laga um þyngd dóma við kynferðisglæpum. Niðurstöður þeirra hafa oftast verið nálægt vægari enda lagarammans.

Refsingar við kynferðisglæpum eiga að vera þungar, þótt vitað sé, að þær hafi sjaldan mannbætandi áhrif. Tilgangur refsinga er í rauninni allt annar, eins og sést af orðsins hljóðan. Þær hafa líka þann kost að taka hættulegt fólk úr almennri umferð um tíma.

Mikilvægt er, að ríkisstjórnir sem flestra landa taki saman höndum um gagnkvæmt upplýsingaflæði um framleiðslu og sölu barnakláms og annars afbrigðilegs kláms, svo að unnt sé að elta glæpamennina uppi. Þetta má gera á vegum lögreglustofnunarinnar Interpol.

Fjölþjóðlegt samstarf er orðið mikilvægara núna en áður, af því að dreifing kláms er að færast í stafrænt form. Tæki á borð við símann og netið eru notuð til að komast framhjá landamærum. Íslenzk lög ná ekki til þeirra, sem gera barnaklám aðgengilegt á netinu.

Hins vegar er hægt að rekja, hvaðan klámið á netinu kemur og hvetja viðkomandi yfirvöld til að grípa í taumana. Þannig er unnt að hrekja klámið úr einu víginu í annað og einangra þau ríki, sem halda verndarhendi yfir því. Þessar varnir eru enn ekki hafnar.

Gott væri, að dómsmálaráðuneytið íslenzka hætti að vernda klám og færi í staðinn að hafa frumkvæði að alþjóðlegu samstarfi um verndun fólks gegn klámi.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandarískt valdaafsal

Greinar

Saddam Hussein Íraksforseti leikur Bill Clinton Bandaríkjaforseta jafn grátt og hann lék George Bush forseta á sínum tíma. Bush glutraði á sínum tíma niður sigri í Persaflóastríðinu og nú tvístígur Clinton dögum saman, þegar Saddam Hussein rýfur vopnahléið.

Saddam Hussein varð langlífari í embætti en Bush og getur orðið langlífari en Clinton, ef bandarískir kjósendur sjá gegnum ímyndarþokuna, hversu lélegur forseti hann er, og neita honum um endurkjör í vetur. Ekkert fararsnið er hins vegar á kaldrifjuðum Íraksforseta.

Hann sendi um helgina tugþúsundir hermanna inn á sérstakt griðasvæði Kúrda, sem hann samdi um við Bandaríkin og bandamenn þeirra í lok Persaflóastríðsins. Bandaríkin og bandamenn þeirra bera auðvitað ábyrgð á, að íbúarnir njóti verndar á griðasvæðinu. Eftir miklar loftárásir hefur her Saddams Husseins tekið borgina Arbil og fleiri staði á griðasvæðinu. Mikill fjöldi íbúa fórst í árásunum. Aðrir voru svo skipulega teknir af lífi af morðsveitum forsetans, sem ganga hús úr húsi í Arbil. Þetta er öll vernd Bandaríkjanna.

Sá, sem lofar vernd, en stendur ekki við hana, er auðvitað ómerkingur. Það kemur ekki í staðinn fyrir vernd að segjast hafa sett hermenn í viðbragðsstöðu. Harmleikurinn heldur áfram í Arbil þrátt fyrir viðbragðsstöðuna. Svik Bandaríkjanna eru orðin öllum átakanlega ljós.

Segja má, að það jafngildi dauðadómi að þiggja vernd vesturveldanna. Þannig fer nú fyrir Kúrdum í Arbil og þannig fór fyrir íslömum í Srebrencia í Bosníu í fyrra, þegar Sameinuðu þjóðirnar höfðu að undirlagi vesturveldanna lýst borgina sérstakt griðasvæði.

Í gamla daga var það talið vera meira mál að ráðast á verndarsvæði. Þegar Hitler réðst á Pólland, fóru vesturveldin í stríð við hann. Þau töldu sér skylt að framfylgja yfirlýsingum sínum. Núna stendur ekki steinn yfir steini í vestrænum hótunum um gagnaðgerðir.

Leiðtogar Serba í Serbíu og Bosníu hafa árum saman haft leiðtoga vesturveldanna að háði og spotti. Stundum skrifa Serbar undir samninga, sem þeir brjóta jafnóðum í öllum atriðum. Vesturveldin hóta í sífellu öllu illu, en sjaldnast verður neitt úr framkvæmdum.

Hér í blaðinu hefur margoft verið bent á, að það kann ekki góðri lukku að stýra, er harðstjórar og glæpaforingjar um allan heim fylgjast með eymd og volæði vesturveldanna í samskiptum þeirra við aðra harðstjóra og glæpaforingja. Slíkt hefur slæmt fordæmisgildi.

Saddam Hussein hefur lesið stöðuna rétt. Hann hefur fylgzt með hraðri hnignun vesturveldanna í Bosníudeilunni og hefur fylgst með kosningabaráttu Clintons Bandaríkjaforseta. Hann taldi sig geta komist upp með svipuð griðrof og Karadzic og Mladic í Bosníu.

Clinton Bandaríkjaforseti telur það mundu skaða sig í kosningabaráttunni að þurfa að knýja með hervaldi framgang samningsins um vopnahlé við Persaflóa. Hann veit, að kjósendur hafa lítinn áhuga á utanríkismálum og kæra sig ekki um mannfall á fjarlægum slóðum.

Þegar forseti og kjósendur í heimsveldi eru sammála um slík viðhorf, hættir ríkið að vera heimsveldi. Í fjarlægum löndum hætta menn að taka mark að slíku heimsveldi eins og menn hættu fyrir nokkrum áratugum að taka sérstakt mark á svokölluðu bresku heimsveldi.

Sjálfhverfan mun valda Bandaríkjunum ýmsum óþægindum. Ekki er bæði hægt að halda og sleppa. Sá, sem segir af sér völdum, missir fríðindi valdanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Óvinir þjóðarinnar

Greinar

Hér á landi hefur fólk á hverjum degi greiðan aðgang að tugum dagblaða af margs konar gerðum. Ef það sættir sig ekki við verð eða gæði innlendra dagblaða, getur það keypt útlend dagblöð í bókabúðum eða lesið úr þeim á netinu. Markaður dagblaða er frjáls hér á landi.

Ríkið leggur ekki stein í götu innfluttra dagblaða. Það skattleggur þau ekki umfram innlend dagblöð. Sami virðisaukaskattur er á erlendum og innlendum dagblöðum. Þetta ástand er kallað frjáls markaður og er almennt talið vera hornsteinn ríkidæmis Vesturlanda.

Þegar markaður er frjáls, þurfum við enga reiknimeistara til að segja okkur, hvort vara eða þjónusta sé of dýr eða ekki. Sjálfvirkni markaðarins finnur jafnvægi, sem er nærtækara og sanngjarnara en ákvarðanir þeirra, sem taka sér vald til að ákveða verðlag.

Um grænmeti eins og tómata og gúrkur gilda hins vegar ekki markaðslögmál eins og um dagblöð og flestar aðrar vörur. Tómatar og gúrkur njóta sérstakrar verndar ríkisvaldsins eins og aðrar garðyrkjuvörur sem og raunar aðrar afurðir innlends landbúnaðar.

Við getum hvorki valið milli innlendra og erlendra tómata né keypt innflutta tómata á tollfrjálsu verði eins og innflutt dagblöð. Það eru voldugir aðilar í landbúnaðarráðuneytinu og hagsmunasastofnunum landbúnaðarins, sem taka um þetta ákvarðanir fyrir okkur.

Ákveðið er að ofan, hvenær erlendir tómatar mega fást á Íslandi og hve miklir ofurtollar eru lagðir á þá. Þetta er angi af þeim fjötrum, sem stjórnmálamenn og aðrir hagsmunagæzlumenn landbúnaðarins hafa bundið íslenzkum neytendum og skattgreiðendum.

Þessi glæpsamlega iðja er þjóðhættulegri í grænmetisverzlun en í öðrum þáttum landbúnaðarins, af því að hún heldur niðri neyzlu á grænmeti, sem Íslendingar borða allt of lítið af samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum. Ríkið heldur þjóðinni frá neyzlu grænmetis.

Til að bæta gráu ofan á svart hindrar ríkið, að íslenzkir neytendur geti utan innlenda uppskerutímans neytt þess grænmetis, sem hollast er, það er lífrænt ræktaðs grænmetis. Slíkt grænmeti er dýrt í innkaupi og margfaldast svo í verði vegna ofurtolla ríkisins.

Með innflutningshöftum og ofurtollum á grænmeti spilla ráðamenn landsins heilsu landsmanna og magna upp ýmsa sjúkdóma. Forustuna hefur Guðmundur Bjarnason landbúnaðar- og umhverfisráðherra, sem hefur reynzt óvenjulega forhertur hagsmunagæzlumaður.

Ríkið er þessa dagana er að kikna undir kostnaði við sjúkrahús og aðra þætti veikindageirans. Það ætti að leggja áherzlu á forvarnir með því að tryggja algert markaðsfrelsi þeirra matvæla, sem bezt áhrif hafa á heilsuna, svo að ódýrt og gott grænmeti fáist allt árið.

Íslenzk garðyrkjusamtök hafa heimtað innflutningshöft og ofurtolla ríkisins og bera á þeim fulla ábyrgð. Þau bera jafnframt fulla ábyrgð á kostnaðaraukanum, sem þetta hefur valdið íslenzkum heimilum, og heilsutjóninu, sem stafað hefur af neyzlustýringu þessari.

Þeim hæfir vel að nota hluta af illa fengnum gróða til að framleiða nafnlausa auglýsingu, sem kastar ríkisreknum tómötum í þá framleiðendur, sem keppa við erlenda framleiðslu án nokkurra innflutningshafta eða tolla af hálfu ríkisins, það er að segja innlend dagblöð.

Ekki verður dregin fjöður yfir svívirðilegt ástand í vöruúrvali og verðlagi grænmetis af völdum samsæris stjórnmálamanna og garðyrkjusamtaka gegn þjóðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Forsetar dæmdir

Greinar

Tveir fyrrum forsetar Suður-Kóreu hlutu í vikunni dóma fyrir alvarleg afbrot í starfi, annar tveggja áratuga fangelsisdóm fyrir milljarðastuldi og hinn líflátsdóm fyrir milljarðastuldi og fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Dómarnir marka tímamót í stjórnmálasögu nútímans.

Báðir komust þeir til valda sem hershöfðingjar og notuðu þau til að gera það, sem slíkir eru vanir, til að drepa fólk og raka að sér peningum. Glæpamenn í einkennisbúningi hafa verið og eru enn ein algengasta tegund forráðamanna lands og lýða víðast hvar um heim.

Er þeir hafa sums staðar hrökklazt frá völdum, hafa þeir ekki verið látnir standa reikningsskil gerða sinna. Það var aðeins gert í Þýzkalandi og Japan eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Síðan hafa menn komizt upp með ótrúlegasta athæfi án þess að bera á því ábyrgð.

Tilraunir til að koma lögum yfir þá hafa hingað til verið vægar. Oft hefur verið gripið til heildarnáðunar þeirra og handbendanna. Þannig var það í Argentínu. Annars staðar ganga glæpamennirnir lausir og halda jafnvel opinberum embættum, svo sem Pinochet í Chile.

Mest hefur verið um þetta í löndum rómönsku Ameríku, sem löngum hafa sveiflazt milli herforingja- og lýðræðisstjórna. Afríka er ekki komin á það stig enn. Þar eru yfirleitt glæpamenn enn við völd. Suðaustur-Asía er nú í sviðsljósinu vegna dómanna í Suður-Kóreu.

Þjóðir megna ekki að koma sér í hóp vestrænna lýðræðisríkja og ná fram varanlegum markaðsbúskap í atvinnulífi, nema farið sé að lögum og rétti og gerðar upp sakirnar við fortíðina. Traustar leikreglur í lagaramma eru forsenda þess, að markaðsbúskapur blómstri.

Suður-Kórea er komin yfir vatnaskilin. Dómarnir yfir forsetunum fyrrverandi eru staðfesting þess. Landið er að gera upp reikningana við fortíðina og feta sömu slóð og Vesturlönd á síðustu öld. Geðþótti einstaklinga verður að víkja fyrir formlegum leikreglum, skráðum á blað.

Vel er við hæfi, að íslenzk viðskiptanefnd er einmitt í Suður-Kóreu um þessar mundir. Reikna má með, að slakað verði á innflutningshöftum þar í landi. Valdamenn þar munu átta sig á að gengi landsins fer eftir gagnkvæmri aðild þess að frjálsum heimsviðskiptum.

Suður-Kórea er eins líklegur viðskiptavinur Íslands í náinni framtíð og einræðis-, spillingar- og ofbeldisríkið Kína er ólíklegur viðskiptavinur. Stjórnvöld Íslands hafa nuddað sér mikið utan í Kína, en þeir, sem hafa reynt að reka þar viðskipti, hafa lent í ótal hremmingum.

Kaupsýslumenn hneigjast til að rangtúlka harðhent stjórnvöld sem áreiðanleg. Sagan sýnir hins vegar að menn tapa fremur fé á viðskiptum við ríki harðstjóra en á viðskiptum við losaraleg lýðræðisríki, þar sem sumt rekur á reiðanum og annað gengur á afturfótunum.

Mikilvægt er, að land sé byggt á lögum en ekki á geðþótta. Ekki er síður mikilvægt, að gerð sé upp fortíðin. Það gerðu Þjóðverjar rækilega eftir síðari heimsstyrjöldina, enda hefur þeim farnazt vel. Þannig mun Suður- Kóreumönnum einnig farnast vel í framtíðinni.

Rafmagnað andrúmsloft var í Seoul, er dómarnir höfðu verið kveðnir upp. Fólk áttaði sig skyndilega á, að lýðræði var komið til að vera þar í landi. Stelsjúkir og morðhneigðir valdhafar um allan heim fundu til réttmæts ótta um að hljóta einnig makleg málagjöld.

Vonandi minna dómarnir vestræna ráðamenn á, að verstu glæpamennirnir í Bosníu og Serbíu ganga enn lausir, þótt unnt sé að hafa hendur í hári þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV