Greinar

Vestræn sneypuferð

Greinar

Atlantshafsbandalagið er búið að missa tökin á Bosníudeilunni eins og spáð var hér í blaðinu fyrir tæpum mánuði. Bandalagið hefur endurtekið mistök forverans í friðarhlutverkinu, Sameinuðu þjóðanna, enda missa liðsmenn þess í buxurnar, ef þeir sjá Serba.

Sænski stjórnmálamaðurinn Carl Bildt leikur sama sorgarhlutverkið á vegum Vesturlanda í vitleysunni í Bosníu og Bandaríkjamaðurinn Cyrus Vance, Bretinn David Owen og Norðmaðurinn Thorvald Stoltenberg höfðu áður leikið á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Undarlegast er við þá sneypuferð, sem nú stendur yfir, að hún felur eingöngu í sér endurtekið efni. Reynt er að þvæla Serbum til að skrifa undir hitt og þetta og síðan lýst yfir árangri. Samt er gömul 100% reynsla fyrir því, að ekki er neitt að marka undirskriftirnar.

Þótt Carl Bildt sé aumkunarverður í Bosníu, er þó hlutur Bills Clintons Bandaríkjaforseta hálfu aumari. Hann barði saman svokallað Dayton samkomulag, sem núna er svo gersamlega hrunið, að ekki stendur steinn yfir steini, þrátt fyrir hernámið á Bosníu.

Atlantshafsbandalagið er með fjölmennan her í Bosníu og gæti haft þar tögl og hagldir. Serbar eru búnir að átta sig á, að þetta er sami puntudúkkuherinn og áður var þar á vegum Sameinuðu þjóðanna, og eru löngu hættir að taka nokkurt mark á Dayton-samkomulaginu.

Carl Bildt og erindrekar Bandaríkjastjórnar eru af og til með marklausar hótanir, til dæmis um að endurnýja viðskiptabann á Serbíu. Allir vita, og bezt þessir auðnuleysingjar Vesturlanda, að Serbar taka ekkert mark á þessum hótunum, af því að þær eru kunnuglegar.

Þessa dagana eru Serbar og Bosníu-Serbar að grínast með Bildt út af formsatriðum í kringum völd stríðsglæpamannsins Radovans Karadzic í Bosníu. Bildt greyið reynir að teygja og toga túlkanir sínar í þá átt, að einhvern veginn sé Karadzic við minni völd en áður var.

Um svipað leyti eru eigendur herja Atlantshafsbandalagsins búnir að ákveða, að kosningar verði í Bosníu, eins og ekkert hafi í skorizt, þótt Öryggisstofnun Evrópu hafi formlega komizt að raun um, að ekkert skilyrðanna fyrir frjálsum kosningum hafi verið uppfyllt.

Á sama tíma eru að koma fram upplýsingar hjá Stríðsglæpadómstólnum í Haag, sem sýna, að stríðsglæpir Serba í Bosníu eru miklu meiri og hrikalegri, en áður hefur komið fram í fjölmiðlum. Þessir glæpir eru svo voðalegir, að ekki er lengur prenthæft að fjalla um þá.

Einnig hefur komið fram, að sumir glæpanna voru beinlínis framdir á verndarsvæðum Sameinuðu þjóðanna og með vitund fulltrúa samtakanna. Liggur nú beinast við að ætla, að Sameinuðu þjóðirnar verði kærðar fyrir samábyrgð á sumum stríðsglæpum vitfirrtra Serba.

Flest bendir nú til þess, að sveitir Atlantshafsbandalagsins leggi á flótta frá Bosníu öðrum hvorum megin við áramótin, þegar Serbar hafa náð þeim árangri, sem þeir stefndu að, og ekkert stendur eftir af þeim markmiðum, sem Vesturlönd settu sér með afskiptum sínum.

Síðan munu stjórnmálaleiðtogar og herforingjar Vesturlanda reyna að gleyma, hvernig þeir endurtóku nákvæmlega sömu mistökin á vegum Atlantshafsbandalagsins og starfsbræður þeirra höfðu áður framið á vegum Sameinuðu þjóðanna nokkrum mánuðum áður.

Bosnía er orðin að minnisvarða um siðferðilegt, atgervislegt og hernaðarlegt hrun þeirra stofnana, sem hafa talizt hornsteinar vestrænnar menningar.

Jónas Kristjánsson

DV

Persónusigur

Greinar

Í skoðanakönnuninni, sem næst fór úrslitum forsetakosninganna, könnun DV, var einnig spurt um fylgi við D- og R-lista í Reykjavík. Könnunin sýndi í senn yfirburðafylgi Ólafs Ragnars sem forseta og endurheimt meirihlutafylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Þetta sýnir, að alls ekki er unnt að tala um vinstri sveiflu í forsetakosningunum, þótt tveir frambjóðendur, sem hafa verið í félagshyggjupólitík, hafi samtals fengið rúmlega tvo þriðju atkvæða í forsetakosningum. Það vantar alveg önnur merki um slíka sveiflu.

Ef einhverjir kjósendur telja sig vera að senda aðvörun til yfirstéttarinnar í landinu með ráðstöfun atkvæðis síns í forsetakosningum, þá hlýtur sú aðvörun að lenda á daufum eyrum. Skoðanakannanir sýna yfirstéttinni nefnilega, að fylgi flokkanna er í föstum skorðum.

Miklu fremur sýna úrslitin, að sterkir einstaklingar geta náð langt, þrátt fyrir pólitíkina. Fylgi Ólafs Ragnars náði langt út fyrir núverandi fylgi Alþýðubandalagsins og fylgið, sem bandalagið gæti hugsanlega haft vonir um í framtíðinni. Fylgi Ólafs var persónufylgi.

Raunar er líklegt, að brottför hans veiki Alþýðubandalagið. Árum saman stjórnaði hann því með harðri hendi, en síðan hafa innanflokkserjur verið að magnast þar að nýju. Þegar ekki vofir lengur yfir, að hann snúi aftur til valda, mun enn magnast ófriður milli smákónganna.

Ef frambjóðendur ná frambærilegri niðurstöðu í forsetakosningum án þess að ná kjöri, er hugsanlegt, að þeir geti nýtt sér stundarfrægðina til að safna um sig liði, sem nýtist til stjórnmálaþátttöku. Slíkra hugleiðinga hefur gætt í stuðningsliði Guðrúnar Agnarsdóttur.

Jafnvel er talað um, að Guðrún Pétursdóttir, sem hætti við framboð í miðjum klíðum, muni eiga fremur greiða leið til þingsetu, sennilega á vegum Sjálfstæðisflokksins. Áherzlan er hér á orðinu “sennilega”, af því að það er aukaatriði, hvaða flokkur yrði valinn.

Kaldhæðnislegast í þessu er, að sigurvegari forsetakosninganna er eini frambjóðandinn, sem sjálfkrafa dettur út úr stjórnmálum. Hann neyðist til að stunda fínimannsleik á Bessastöðum, meðan keppinautar hans í stjórnmálum ráðskast með fjöregg þjóðarinnar.

Í ljósi þessa er fyndinn smásálarskapurinn, sem felst í augljósum sárindum örfárra pólitískra andstæðinga nýkjörins forseta. Umhugsunin um virðingu hans veldur einum þeirra merkjanlegri þjáningu og hefur knúið hann til að bola forsetaskrifstofunni í skyndi úr húsi.

En nýkjörni forsetinn kann fagið betur en forsætisráðherrann og segist vera hinn ánægðasti með flutning skrifstofunnar út á Sóleyjargötu. Þar verði gott að hafa skrifstofu, en sjálfur muni hann einkum starfa að Bessastöðum. Þannig hefur hann strax skorað fyrsta markið.

Inn á við verður Ólafur Ragnar hefðbundinn forseti, sem mun halda sig skýrt innan marka vanans. Ef forsætisráðherra finnst óbærilegt að fara vikulega út á Bessastaði til að gefa skýrslu, mun forsetinn yppta öxlum, enda væri stílrofið þá ráðherranum að kenna.

Nýkjörinn forseti mun annars ekki eyða miklu púðri á þá, sem á sínum tíma fundust berin súr. Hugur hans mun stefna út fyrir landsteinana, þar sem hann mun reyna að prjóna vefi úr þráðum, sem hann var áður byrjaður að spinna. Þar getur hann haslað sér völl.

Embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna er torsótt. En hvað um framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins? Væri það ekki skemmtilegt þrep?

Jónas Kristjánsson

DV

Týnda þjóðin kaus

Greinar

Þegar úrslitaleikir eru á Wembley og Wimbledon, er sagt koma í ljós, að tvær þjóðir búi í Englandi. Önnur sé upptekin af fótbolta og viti varla, að tennis sé til. Hin sé upptekin af tennis og viti varla, að fótbolti sé til. Þannig er alhæft um endurspeglun enskrar stéttaskiptingar.

Komið hefur í ljós, að á Íslandi er stéttaskipting, sem gefur skemmtileg og um leið hættuleg tilefni til alhæfingar. Þessi stéttaskipting þarf ekki að fylgja tekjum í þjóðfélaginu, aldri, búsetu eða kynjum. En alténd eru stjórnmálaskýrendur flestir sömu megin þils í skiptingunni.

Snemma á árinu var viðkvæði stjórnmálaskýrenda, að þjóðin gerði í forsetakosningum uppreisn gegn stjórnmálamönnum og veldi í staðinn vammlaust fólk úr menningargeiranum, svo sem alþýðlega fornleifafræðinga og leikhússtjóra, svo sem dæmin voru sögð sanna.

Ef stjórnmálaskýrendur hefðu verið spurðir, hvort Ólafur Ragnar Grímsson ætti möguleika í forsetakosningum, hefðu allir svarað neitandi. Í fyrsta lagi væri hann virkur stjórnmálamaður og í öðru lagi einn umdeildasti og óvinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Þeir hefðu bent á, að fáir stjórnmálamenn væru eins harðvítugir í pólitískum slagsmálum og hann, svo sem ljóst væri úr fréttum og þingtíðindum. Þeir hefðu bent á, að skoðanakannanir sýndu, að fleiri landsmenn væru andvígir honum en nokkrum öðrum stjórnmálamanni.

Svo fór Ólafur Ragnar í framboð, fór beint á toppinn í skoðanakönnunum og hélt því sæti á leiðarenda. Aðrir stjórnmálamenn hættu að gæla við framboð og vöktu um leið athygli á, að þetta væri valdalaust kurteisisembætti, alls ekki fyrir pólitíska vígamenn.

Á lokaspretti kosningabaráttunnar tóku sig saman nokkrir þekktir menn, sem töldu sig eiga um sárt að binda vegna pólitískrar ofkeyrslu Ólafs Ragnars. Þeir fengu birtar í Morgunblaðinu frægar auglýsingar, sem þjöppuðu fólki enn fastar um frambjóðandann.

Í auglýsingunum var forsetaefnið elt uppi af þeirri fortíð, sem stjórnmálaskýrendur höfðu sagt, að yrði því að falli. Þeir þekktu ekki kjósendur, sem létu sér fátt um finnast og bættu svo sem einu prósenti ofan á fylgi hans, svo sem til að hella salti í sár andstæðinganna.

Ýmsir stjórnmálaskýrendur höfðu í millitíðinni reiknað út, að fylgi Guðrúnar Pétursdóttur mundi af pólitískum ástæðum að mestu renna til Péturs Hafstein og minnka bilið milli tveggja efstu frambjóðendanna. Í staðinn rann fylgi hennar til Guðrúnar Agnarsdóttur.

Þannig sitja stjórnmálaskýrendur eftir með sárt ennið og þurfa að skilgreina kjósendur að nýju. Straumar forsetakosninga liggja engan veginn eins og áður var talið og engum er lengur ljóst, hvað kjósendur hafa í huga, þegar þeir eru að velja úr hópi frambjóðenda.

Hugsanlega er verið að senda skilaboð til kolkrabbans, það er að segja þess nána sambands, sem er milli nokkurra helztu fyrirtækja landsins og sem hefur Sjálfstæðisflokkinn að pólitískum málsvara. Andstaða Ólafs Ragnars við þessi öfl sé færð honum til tekna.

Ef þetta er rétt, er ekki hægt að skilja, af hverju þessi sama þjóð gengur aftur og aftur til alþingiskosninga og kýs kolkrabbann yfir sig, þegar um raunveruleg völd er að tefla. Ef um viðvörun er að ræða í forsetakosningum, er hún því marklaus, þegar til kastanna kemur.

Stjórnmálaskýrendur munu næstu árin puða við að skilgreina og flokka þjóðina að nýju og reyna að alhæfa, hver sé Wembley-þjóðin að baki Wimbledon-þjóðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Merkiskosningar

Greinar

Vottur af spennu komst í forsetakosningarnar í vikulokin, þegar skoðanakannanir sýndu hver á fætur annarri, að fylgi frambjóðenda var að jafnast. Lengst af baráttunnar vantaði þessa spennu vegna yfirburðafylgis eins frambjóðanda, Ólafs Ragnars Grímssonar.

Fylgi Ólafs hefur hægt og sígandi dalað í skoðanakönnunum DV. Í upphafi mánaðarins var hann með nærri 50% fylgi, en var í gær kominn niður í 40% fylgi. Þetta hefur þó ekki komið Pétri Hafstein til góða, því að hann hefur staðið í stað, en Guðrún Agnarsdóttir rokið upp.

Tölurnar úr könnunum DV 8., 20. og 27. júní tala sínu máli. Ólafur byrjaði mánuðinn í 49,4, lak í 46,8 og loks enn frekar í 40,4%. Pétur byrjaði í 25,1, reis í 30,8 og seig svo til baka í 29,6%. Guðrún var hástökkvarinn, byrjaði í 12,3, stökk í 19,4 og stökk svo aftur í 27,5%.

Þetta gerir það að verkum, að lítið verður um hentistefnu kjósenda í kjörklefanum. Þeir, sem eru svo mikið á móti Ólafi Ragnari, að þeir vilja kjósa hvern þann, sem mesta möguleika hefur gegn honum, vita ekki lengur, hvort sá frambjóðandi heitir Pétur eða Guðrún.

Reynsla fyrri kosninga bendir ekki til, að menn færi atkvæði sitt milli frambjóðenda til að stuðla að kosningu hins næstbezta, þegar sá bezti á samkvæmt skoðanakönnunum ekki möguleika. Þetta kom eindregið í ljós í forsetakosningunum 1980 og verður staðfest í dag.

Upp á síðkastið hefur kosningabaráttan einkum snúizt um Ólaf Ragnar, sumpart vegna þess að hann hefur lengst af verið langefstur í skoðanakönnunum, en ekki síður af því að margir eru afar ósáttir við hann. Ýmsir telja sig raunar eiga honum grátt að gjalda.

Þannig er meiri hiti og undiralda í kosningabaráttunni en áður hefur þekkzt í forsetakosningum. Myndazt hafa andstæðar fylkingar Ólafs Ragnars og Péturs, sem geta ekki hugsað sér hinn frambjóðandann sem forseta. Guðrún hefur á síðustu dögum hagnazt á þessari spennu.

Þegar upp er staðið, fæst niðurstaða, sem allir verða að sætta sig við. Hún fæst með lýðræðislegum hætti og verður ekki vefengd. Sennilega mun taka lengri tíma en áður að slíðra sverðin og sameinast um þann, sem nær kjöri. Nauðsynlegt er, að það gerist sem fyrst.

Kosningabaráttan hefur sumpart rambað út á yztu nöf velsæmis og auk þess verið of dýr. Það er umhugsunarefni, að áhugamenn um framboð ákveðinna einstaklinga og gegn framboðum annarra skuli samanlagt verja 155 milljónum króna til að reyna að hafa sitt fram.

Einnig er umhugsunarvert, hversu mikið er fjallað um pólitísk atriði í kosningaumræðu og -áróðri, rétt eins og verið sé að kjósa til pólitískra valda. Sigurvegari kosninganna mun þó hafa litla möguleika á að skilja eftir sig spor á þessum umtöluðu framfarasviðum.

Athyglisvert er, að úr lestinni hefur helzt sá frambjóðandi, sem einn lagði áherzlu á, að forseti ætti bara að vera forseti, en ekki hugmyndafræðingur. Svo virðist því, sem frambjóðendur og kjósendur séu hamingjusamlega sammála um að misskilja forsetaembættið.

Kjósendur virðast vilja auka völd forsetans og þar með auka völd einstaklings, sem kjósendur telja vera yfir stjórnmál og flokka hafinn. Sá böggull fylgir þessu skammrifi, að það eykur áhuga stjórnmálamanna og flokka á yfirtöku þessa embættis sem annarra.

En hver sem niðurstaðan verður í nótt, þegar talið er upp úr kössunum, þá mun hún áreiðanlega verða óspámannlegum stjórnmálaskýrendum ærið umfjöllunarefni.

Jónas Kristjánsson

DV

Átján mánaða lömun

Greinar

Átján mánaða starfslok biskupsins yfir Íslandi leysa ekki eitt þungbærasta vandamálið, sem biskupinn nefndi í afsagnarræðu sinni á prestastefnunni í fyrradag. Þessi langdregnu starfslok framlengja stjórnarandstöðuna í þjóðkirkjunni og lama starfshæfni hennar.

Það er rétt hjá biskupi, að einkum er það eins konar stjórnarandstaða í röðum presta, sem hefur þrengt að honum. Andstaðan er eldri en fréttir af þeim gömlu málum, sem urðu biskupi að lokum að falli, en kunna að hluta að stafa af vitneskju presta um þau.

Andstæðingar biskups meðal presta eru yfirleitt meiri harðlínumenn í trúmálum en hann. Þeir eru heldur ekki sáttir við veraldlegar áherzlur hans og bera hann saman við meiri kennimenn í röðum forvera hans. Þessi atriði og önnur slík skýra þó ekki alla andstöðuna.

Efasemdir ýmissa presta um málstað biskups í áreitnismálunum bætast ofan á annan ágreining og valda því, að hann nýtur ekki lengur víðtæks trausts. Þetta gerir honum ókleift að leysa óskyld ágreiningsmál innan kirkjunnar, svo sem dæmi Langholtssóknar sýnir.

Biskup varð fyrir því óláni að fá til liðs við sig þekktan slagsmálalögmann að amerískum hætti. Það varð til þess, að biskup braut í fyrsta lagi trúnað við Langholtssóknarfólk og höfðaði í öðru lagi andvana meiðyrðamál gegn konunum, sem höfðu kært hann innan kirkjunnar.

Biskupinn varð að biðjast afsökunar á trúnaðarbrotinu og dró til baka kæruna fyrir meiðyrði. Eftir það tvennt mátti ljóst vera, að honum væri ekki lengi sætt í embætti. Hann hefur nú tekið þeim afleiðingum, en gefið sér um leið átján mánaða starfslokatíma.

Ekki þarf að hafa neina efnislega skoðun á neinum þeim málum, sem hafa orðið biskupi að falli, til að sjá, að hagsmunum þjóðkirkjunnar er bezt borgið með því að biskupinn greini milli sinna eigin hagsmuna og hagsmuna kirkjunnar. Á því hefur orðið mikill misbrestur.

Með átján mánaða frestun framlengir biskup tímann, sem þjóðkirkjan er lítt starfhæf. Hann mun sigla gegnum formsatriði embættisins, en ekki setja niður neinar deilur, af því að kirkjunnar menn hlusta því aðeins á hann, að þeim þóknist það hverju sinni.

Í leiðurum þessa blaðs var í fyrra í tvígang kvartað yfir uppivöðslusemi og orðbragði nokkurra presta í garð biskups. Það var áður en áreitnimálið, Langholtsdeilan og slagsmálaglaði lögmaðurinn gerðu hann óstarfhæfan og röskuðu stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu.

Fjölmiðlar hafa yfirleitt farið varlega í fréttaflutningi af málum biskups, einkum vegna virðingar við biskupsembættið sem slíkt. Samt vandar biskup þeim ekki kveðjurnar að lokum og staðfestir um leið hið fornkveðna, að heppilegt er að kenna sögumanni um ótíðindin.

Staða þjóðkirkjunnar verður veik á starfslokatímanum. Ekki bætir úr skák, að margir prestar vilja skerpa yfirráð kennimanna yfir safnaðarmálum á borð við þau, sem hafa einkennt Langholtssókn. Þjóðkirkjan hneigist að breytingu úr safnaðakirkju í kennimannakirkju.

Vandamál þjóðkirkjunnar ýta málum í átt til þeirrar rökréttu niðurstöðu, að skilið verði milli ríkis og kirkju, svo að þjóðfélagið axli ekki lengur ábyrgðina.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðstoð við aðsókn

Greinar

Aðsókn að íslenzkum kvikmyndum hefur hríðfallið á allra síðustu árum. Áður fyrr nutu þær meiri aðsóknar en erlendar, en nú er gengi þeirra fallið niður fyrir þær útlendu. Af tölunum að dæma hafa kvikmyndaneytendur í stórum dráttum hafnað innlendri kvikmyndagerð.

Hrunið var einkum átakanlegt í afrakstri kvikmyndagerðar ársins 1995. Þá voru teknar átta stórar kvikmyndir, sem flestar gengu illa eða mjög illa. Þetta var fjárhagslegt og andlegt áfall fyrir greinina og leiðir til þess, að í ár verður líklega aðeins tekin ein kvikmynd.

Þegar aðsókn að vinsælustu, innlendu kvikmyndunum er komin niður fyrir 20.000 manns og aðrar eru aðeins sýndar í nokkra daga eða vikur, er vandinn orðinn hrikalegur. Eðlilegt er, að áhugamenn um innlenda kvikmyndagerð vilji fá meiri aðstoð frá opinberum aðilum.

En ekki er sama, hvernig aðstoðin er veitt. Hingað til hafa nefndir dreift peningunum, sumpart eftir listrænu mati og sumpart eftir persónulegum kynnum, svo sem tíðkazt hefur á íslenzkum skömmtunarstofum. Stundum eru styrkir beinlínis veittir til að greiða niður tap.

Við úthlutun fjár til íslenzkra kvikmynda er sjaldan hugsað um, að íslenzk kvikmyndagerð er í samkeppni við erlenda og hefur farið halloka í þeim samanburði, það er að segja frá sjónarmiði neytenda. Skömmtunin stuðlar ekki að gerð samkeppnishæfra kvikmynda.

Þegar sambandslaust er milli aðsóknar að einstökum íslenzkum kvikmyndum og þeirra fjármuna, sem einstakar kvikmyndir fá frá hinu opinbera, er stuðlað að gerð kvikmynda, sem eru fremur stílaðar til úthlutunarnefnda og skömmtunarstjóra en almennings.

Ágætis aðferð við að útiloka skuggahliðar skömmtunarinnar, svo sem geðþótta, kunningsskap og sérhæft listamat, er að leggja skömmtunina sem slíka niður og láta markaðslögmálin um úthlutunina. Það gerist með því að styrkja mest þær kvikmyndir, sem bezt eru sóttar.

Bezt væri að nota opinbert kvikmyndafé til að greiða óbeint niður miðaverð íslenzkra kvikmynda. Í hvert sinn sem neytandi greiddi atkvæði með íslenzkri kvikmynd með því að kaupa miða, legði hið opinbera fram á móti aðra upphæð til kvikmyndagerðarmannsins.

Þannig fengi kvikmynd með 20.000 áhorfendur helmingi meiri styrk en kvikmynd með 10.000 áhorfendur. Þannig væri kerfið notað til að hvetja til gerðar kvikmynda, sem geta í aðsókn keppt við erlendar kvikmyndir á markaðinum. Stuðlað væri að samkeppnishæfni.

Margir munu segja, að betra sé að styrkja þær kvikmyndir, sem taldar eru listrænar að mati úthlutunarnefnda, heldur en að styrkja þær kvikmyndir, sem falla almenningi bezt í geð. En núverandi kerfi ræktar bara sérvizku og einangrun íslenzkrar kvikmyndagerðar.

Sjálfvirkar greiðslur, sem miða við aðsókn, ganga hins vegar út frá þeirri forsendu, að æskilegt sé að framleiða hér á landi kvikmyndir, sem almenningur vill sjá. Stuðningnum væri þá eingöngu ætlað að vega upp á móti fámenni þjóðfélagsins og smæð markaðarins.

Ekki má heldur gleyma, að sjálfvirkar greiðslur í hlutfalli við aðsókn mundu um leið hvetja til töku kvikmynda, sem gætu fallið erlendum almenningi í geð eins og íslenzkum. Aðsóknargreiðslur mundu þannig auka líkur á erlendum tekjum af íslenzkum kvikmyndum.

Að öllu samanlögðu er hér lagt til, að opinber stuðningur við íslenzka kvikmyndagerð verði ekki bara aukinn, heldur einnig greiddur í hlutfalli við aðsókn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ruddalegur skuldakóngur

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur tilkynnt, að hún muni beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir endurkjör Boutros Ghali til annars fimm ára tímabils sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur gert honum tilboð um, að hann fái til málamynda eins árs framlengingu.

Fulltrúar Evrópu eru hvumsa yfir þessum yfirgangi Bandaríkjanna. Þeir eru flestir ánægðir með störf framkvæmdastjórans eins og raunar fulltrúar ríkja úr öðrum heimshlutum. Þeir telja, að Boutros Ghali hafi staðið sig með bezta móti og eigi að fá fimm ár í viðbót.

Flest bendir til, að hann fái eindreginn stuðning flestra ríkja heims, en verði samt að víkja vegna neitunarvalds Bandaríkjanna. Evrópuríkin, sem borga skilvíslega gjöld sín, telja brýnna, að Bandaríkin fari að greiða niður sjötíu milljarða króna skuld sína við samtökin.

Fulltrúar Bandaríkjanna segja hins vegar, að þetta sé einmitt aðferðin við að greiða niður skuldina. Boutros Ghali er af ómálefnalegum ástæðum orðinn blóraböggull meirihluta repúblikana í bandaríska þinginu, sem kennir honum um ýmislegt, sem aflaga fer í heiminum.

Þingið hefur árum saman sett í fjárlög ríkisins mun lægri upphæðir en Bandaríkin hafa skuldbundið sig til að greiða og þannig safnað gífurlegri skuld. Ríkisstjórnin telur, að fyrirstaðan gegn fjárveitingunum muni dofna, ef hinn óvinsæli Boutros Ghali verði rekinn.

Merkilegast í öllu þessu er, að Bandaríkjastjórn er sífellt að hlaða verkefnum á Sameinuðu þjóðirnar, sumpart gegn ráðum annarra ríkja, en neitar síðan að taka þátt í að greiða verkefnin, sem hún stofnar sjálf til. Engin rökfræði eða málefni eru í siðleysi hennar.

Ruddalegar aðgerðir Bandaríkjastjórnar væru skiljanlegri, ef hún hefði á takteinum annan frambjóðanda, sem líklegur væri til að taka til hendinni í ofvöxnu og gagnslitlu skrifræði Sameinuðu þjóðanna og nyti víðtæks trausts. En hún hefur alls engan frambjóðanda.

Boutros Ghali hefur metið stöðuna og komizt að raun um stuðning alls þorra ríkja heimsins. Hann telur sig ekki hafa neinu að tapa og ætlar því að bjóða sig fram til annars kjörtímabils. Þá reynir óþægilega á neitunarvald ósvífna skuldakóngsins í Sameinuðu þjóðunum.

Komið hefur í ljós í ýmsum málum, að Clinton Bandaríkjaforseti er nánast alveg stefnulaus í utanríkismálum og skiptir um skoðun á ýmsa vegu eftir því, hvernig vindurinn blæs í innanríkismálum. Hann rambar fram og til baka eftir gagnrýni repúblikana hverju sinni.

Af því að kalda stríðinu er lokið, telja ríkisstjórnir heimsins sig ekki þurfa eins mikið á bandarískri forustu að halda og áður. Þess vegna er vingulsháttur forsetans ekki eins skaðlegur og hann hefði verið fyrr á árum. Samt veldur hann óþægindum í samstarfi ríkja heims.

Með neðanbeltisárás sinni á Boutros Ghali hefur Bandaríkjastjórn aukið einangrun sína á alþjóðlegum vettvangi og dregið úr líkum á, að tekið verði mark á henni, þegar hún þarf á því að halda. Hún hefur hagað sér eins og óknyttaunglingur með neitunarvaldi.

Boutros Ghali er engan veginn gallalaus. Hann hefur ekki tekið skrifræðið nógu föstum tökum og hefur verið tregur til aðgerða, til dæmis í Bosníu, sumpart vegna peningaleysis af völdum skuldseigju Bandaríkjanna. En auðvelt er að hugsa sér mun lakari framkvæmdastjóra.

Hann er líka áhrifamesti og virtasti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ef til vill að Dag Hammarskjöld frátöldum, og ætti því að sitja áfram.

Jónas Kristjánsson

DV

Líf þitt er opin bók

Greinar

Alls óþekktum tölvuáhugamanni með sjaldgæfu nafni í Bandaríkjunum, nýkomnum á Internetið, datt nýlega í hug að nota eitt öflugasta leitarforritið á netinu til að finna nafnið sitt. Það tók forritið fimm sekúndur að finna nafn hans 32svar sinnum í óravíddum netsins.

Hann fékk skrá yfir margt af því, sem hann hafði verið að gera á netinu, t.d. lesendabréf, sem hafði birzt í nettímariti, og athugasemdir, sem hann hafði sent inn í lokaða umræðuhópa á netinu. Allar þessar upplýsingar um sjálfan hann komu eins og hendi væri veifað.

Þetta segir margar sögur í senn. Annars vegar er greinilegt, að netið er nú þegar í stakk búið til að útvega fólki leifturskjótar upplýsingar um hvaðeina, sem það vill vita. Hins vegar er líka greinilegt, að óhjákvæmilega þrengir netið töluvert einkalífshjúp notenda þess.

Þeir, sem af ungæðishætti ramba um netið og leggja orð í belg í vafasömum umræðuhópum, t.d. um afbrigðileg kynferðismál, geta sem hægast átt það á hættu, að leitarforrit séu notuð til að rifja fortíðina upp, ef þeir fara löngu síðar í framboð sem meintir góðborgarar.

Sömuleiðis geta menn komið á fót njósnastofum, er nota leitarforrit til að búa til mynd af fortíð þeirra, sem hafa slysazt inn í vafasama umræðu á netinu; og hótað að senda upplýsingarnar til makans, nema hæfileg fjárupphæð sé notuð til að liðka fyrir málinu.

Að þessu leyti heggur netið nær einkalífi fólks heldur en síminn, því að altækar hleranir alls símakerfisins mundu ekki nýtast á sama hátt, þótt einhver vildi og gæti stundað þær. Það er til dæmis mun erfiðara að flokka hleruð símtöl eftir ákveðnum lykilorðum.

Tölvutækni nútímans er að breyta einkalífi fólks á fleiri sviðum. Greiðslukort eru orðin að helzta gjaldmiðli fjölda fólks og gefa því mánaðarlega upplýsingar um reksturinn. Allar þessar upplýsingar liggja áfram í tölvukerfum og sýna neyzlumynztur einstakra borgara.

Fólk verður að átta sig á þessu og læra á þetta, ef það vill vernda það, sem það telur vera einkalíf sitt. Það getur forðast greiðslukort og notað heldur peningaseðla eða væntanleg myntkort. Það getur forðast internet og síma og notað heldur samskipti á staðnum í gamla stílnum.

Að öðrum kosti þarf viðkvæmt fólk að venjast því að haga sér á neti, í kortum og í síma eins og það mundi gera á opinberum vettvangi, svo að ekki sé hægt að hafa neitt eftir því, sem vansæmd sé að. Raunar hafa margir vanið sig á að umgangast þessi tól af varfærni.

Tölvutæknin þvingar fólk til að skilgreina einkalíf sitt á nýjan leik og setja sér umgengnisreglur á fleiri sviðum en áður. Fyrri tilraunir til að vernda hefðbundnar skilgreiningar á einkalífi fólks verða hjákátlegar í samanburði við þau verkefni, sem nú steðja að.

Við slíkar aðstæður er úrelt að hafa sérstaka Tölvunefnd til að koma í veg fyrir, að fólk geti séð á símareikningum, hvert það hafi verið að hringja; að fólk geti séð í bifreiðaskrá, hvort bíll í sölu hafi lent í tjóni; að fólk geti lagt saman tvo og tvo við lestur skattskrár.

Við slíkar aðstæður er úrelt að hafa sérstaka Tölvunefnd til að koma í veg fyrir, að fólk geti séð, hver er skyldur hverjum, með því að fletta upp í prentuðum ættfræðiritum. Allt puð Tölvunefndar er hlægilegt í ljósi upplýsingasprengingarinnar á alþjóðavettvangi.

Leyndarstjórar tölvunefnda heims munu aldrei geta hamlað gegn þessari opnun, enda væri þeim nær að viðurkenna aðstæður og kenna fólki að umgangast þær.

Jónas Kristjánsson

DV

Tölvunefnd er enn á ferð

Greinar

Almennur aðgangur að bifreiðaskrá hefur gert viðskipti með notaða bíla traustari en þau voru áður. Á flestum bílasölum fá væntanlegir kaupendur útskrift úr bifreiðaskrá ríkisins, þar sem fram kemur, hverjir hafi átt bílinn frá upphafi og í hvaða tjóni hann hafi lent.

Um nokkurt skeið hefur af þessari ástæðu verið mun erfiðara en var áður fyrr að svindla bílum með vafasama fortíð inn á kaupendur. Þessu þægilega ástandi hefur nú verið raskað, því að Tölvunefnd hefur gert ráðstafanir til að reyna að takmarka aðgang að bifreiðaskrá.

Þessi nefnd er valdamikil stofnun, sem komið hefur verið á fót að norrænni fyrirmynd. Þar sitja vandamálafræðingar að norrænni fyrirmynd og velta fyrir sér margvíslegri skaðsemi nýjunga í tölvumálum, þar á meðal óheftum aðgangi almennings að bifreiðaskrá ríkisins.

Frægust varð þessi nefnd vandamálafræðinga fyrir að reyna að banna útreikninga á tölum í skattskrá, sem tíðkast hafa á hverju sumri í tilefni af útkomu nýrrar skattskrár. Málið komst svo langt, að fjármálaráðuneytið gaf út reglugerð um þetta einstæða bann nefndarinnar.

Fjármálaráðuneytið dró síðan reglugerðina til baka, þegar það og ráðherra þess höfðu orðið fyrir hæfilegum flimtingum fyrir að reyna að banna samlagningu og frádrátt, margföldun og deilingu. Auðvitað stóðst reglugerðin hvorki stjórnarskrá né fjölþjóðasamninga.

Útreið fjármálaráðherra og -ráðneytis af völdum Tölvunefndar verður vonandi til þess, að mál hennar fái ekki eins greiða leið um kerfið og áður var. Menn eru að byrja að átta sig á, að úrskurðir nefndarinnar eru ekki í samræmi við væntingar manna um opið þjóðfélag.

Um þetta leyti er nefndin að fjalla um, hvort ekki sé rétt að banna birtingu nafna nokkurra manna í ættfræðiriti, sem er í undirbúningi. Þannig ræðst hún að nánast heilagri þjóðaríþrótt Íslendinga og um leið að vísindalegum vinnubrögðum í einni helztu grein sagnfræðinnar.

Fyrst varð Tölvunefnd fræg fyrir að koma í veg fyrir, að sundurliðun símreikninga kæmi að fyrirhuguðum notum með því að láta krossa yfir suma tölustafi í númerum. Þá þegar hefði verið eðlilegt, að stjórnvöld færu að gæta sín á nefndinni og setja hana á hliðarspor.

Nefndin er ekki í takt við þjóðfélagið á Íslandi. Hún veltir fyrir sér breytingum, sem fylgja aukinni tölvunotkun og aukinni samtengingu á tölvum, og sér hvarvetna skrattann á ferð. Hún ofkeyrir áherzlu sína á leyndarhelgi á kostnað upplýsingafrelsisins í landinu.

Bezt væri að leggja niður nefndina, sem hefur þegar reynt að leggja steina í götuna í átt til upplýsingaþjóðfélags framtíðarinnar á Íslandi og er líkleg til að halda áfram að reyna að hamla gegn þróuninni. Að öðrum kosti er rétt að skipta um fólk í nefndinni.

Við þurfum sem þjóð að vera framarlega í þróun opinna, greiðra og pappírslausra viðskipta með samtengingu tölva. Það gengur allt of hægt, meðal annars vegna forns hugsunarháttar í mörgum opinberum stofnunum. Þá múra fortíðar þarf að brjóta sem fyrst.

Tölvunefnd verður einn þröskuldurinn á efnahagslegri framfarabraut þjóðarinnar inn í opna upplýsingaheima. Nefndin hefur lengi sýnt það í verkum sínum, að hún leggur hvarvetna lóð sitt á vogarskál leyndar. Við þurfum því að gefa henni strangar gætur.

Friðhelgi einkalífs er ágætt, en hlaðið hugtak, sem kallar á misnotkun. Gullinn meðalvegur leyndar og opnunar er á öðrum slóðum en þeim, sem Tölvunefnd fetar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagkvæmniskenningin

Greinar

Röð skoðanakannana var birt hér í blaðinu á aðfaratíma forsetakosninganna 1980. Þær sýndu mjög jafnt fylgi Vigdísar Finnbogadóttur og Guðlaugs Þorvaldssonar. Þau skiptust raunar á um forustuna í þessum könnunum eins og í könnunum annarra aðila á þessum tíma.

Samkvæmt kenningunni um hagkvæmnishugsun kjósenda hefðu kannanirnar átt að skerpa muninn á fylgi Vigdísar og Guðlaugs annars vegar og Alberts Guðmundssonar og Péturs Thorsteinsson hins vegar. Fylgi hefði átt að færast yfir á þau, sem efst stóðu.

Kjósendur hefðu þá hugsað sem svo, að úr því að kannanir sýndu vonlitla aðstöðu þess frambjóðanda, sem þeir studdu, skyldu þeir í kosningunum flytja atkvæði sitt yfir á þann næstbezta til þess að reyna að koma í veg fyrir, að keppinautur hins næstbezta yrði valinn.

Þetta gerðist ekki. Þvert á móti jókst fylgi Alberts og Péturs jafnt og þétt í þessum könnunum. Í kosningunum sjálfum náðu þeir heldur meira fylgi en þeir höfðu haft í könnunum aðfaratímans. Kjósendur þeirra brugðust þeim ekki, þrátt fyrir hagkvæmniskenninguna.

Í hörðum tölum jókst fylgi Alberts um 2,9 stig og Péturs um 6,5 stig, meðan fylgi Vigdísar minnkaði um 5,2 stig og Guðlaugs um 4,0 stig. Þetta er prósentubreyting síðustu tveggja mánaðanna, allt frá fyrstu könnun blaðsins til sjálfra úrslita forsetakosninganna.

Á aðfaratímanum vildu sumir æstustu stuðningsmenn Alberts og Péturs kenna könnunum um, að þeir væru frystir í botnsætunum og athyglin beindist öll að Vigdísi og Guðlaugi. Reynslan staðfesti þetta ekki, jafnvel þótt hagkvæmnishugsun hefði getað ráðið úrslitum.

Nú eru aðstæður að því leyti ólíkar, að skoðanakannanir sýna enga raunverulega samkeppni milli tveggja efstu manna. Því er ólíklegra nú en var fyrir sextán árum, að stuðningsmenn þriggja lægri frambjóðendanna muni nota hagkvæmniskenninguna í kjörklefanum.

Skoðanakannanir sýna ekki heldur neinn flutning fylgis frá þremur lægri frambjóðendunum til tveggja hærri frambjóðendanna. Þvert á móti hefur hið sama gerzt og 1980, að fylgi hinna fyrrnefndu hefur að mestu farið hækkandi eftir því sem kosningarnar nálgast.

Þarft er að rifja þetta upp núna, því að enn eru komnar á kreik kenningar um óviðeigandi áhrif skoðanakannana á fyrirætlanir kjósenda. Þessar kenningar fara oft saman við kenningar um, að það sé í þágu lýðræðis að banna kannanir, að minnsta kosti fyrir kosningar.

Flestir eru þó sammála um, að niðurstöður skoðanakannana, sem vel eru framkvæmdar, séu staðreyndir. Flestir stjórnmálamenn eru svo sannfærðir um nákvæmni kannana, að þeir velta vöngum yfir breytingum eða mun, sem er innan skekkjumarka þessara kannana.

Aldrei hefur verið unnt að rökstyðja á sannfærandi hátt, hvers vegna ætti að setja hömlur á staðreyndir, sem eru nytsamlegar kjósendum. Fremur ætti að fjölga en fækka staðreyndum, sem kjósendur hafa sér til halds og trausts í innihaldsrýrum áróðurshríðum baráttunnar.

Jafnvel þótt skoðanakannanir hefðu þau áhrif að færa fylgi til þeirra, sem mesta hafa möguleikana, er ekki auðvelt að sjá, hvers vegna ætti að taka þann áhrifavald sérstaklega fyrir og fordæma hann. Og þar á ofan virðast áhrifin alls ekki vera þau, sem kenningin segir.

Málið snýst raunar um, að skoðanakannanir eru blóraböggull þeirra, sem þurfa að leita óvinar í gremju sinni yfir, að þeirra frambjóðanda gengur ekki sem skyldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Betur má, ef duga skal

Greinar

Íslenzkir stjórnmálamenn hafa loks vaknað til vitundar um þjóðlega og siðferðilega nauðsyn þess, að íslenzka ríkið taki til höndum í forræðismáli Sophiu Hansen og dætra hennar. Mál hennar vinnst ekki með fjársöfnunum almennings og þrautseigri lögmennsku eingöngu.

Málsefni eru ljós. Fyrir fjórum árum var Sophiu dæmt forræði yfir dætrum sínum. Deiluaðilar og málsaðilar voru allir íslenzkir ríkisborgarar og því var farið með málið að íslenzkum lögum. Tyrklandi ber samkvæmt fjölþjóðasamningum að virða þennan lögmæta úrskurð.

Fyrir sex árum rændi faðirinn dætrunum og hefur síðan einhliða mótað viðhorf þeirra eins og þau hafa komið fram og munu koma fram fyrir dómstólum í Tyrklandi. Í 63 skipti hefur hann brotið úrskurð dómstóls í Tyrklandi um rétt Sophiu til að umgangast börnin.

Réttarfarslega er meðferð málsins í Tyrklandi skrípaleikur einn. Er þar ekki eingöngu að sakast við héraðsdóminn í Istanbúl, sem aldrei hefur þorað að dæma eftir tyrkneskum lögum af ótta við hefndaraðgerðir ofsatrúarmanna, sem fara ekki dult með hótanir sínar.

Hæstiréttur Tyrklands er ekki síður sekur í málinu. Í stað þess að úrskurða hreint og beint í málinu hefur hann hvað eftir annað vikið sér undan með því að vísa því til baka á tæknilegum forsendum og þannig framlengt hinn réttarfarslega skrípaleik.

Mesta og þyngsta ábyrgð ber þó ríkisstjórn Tyrklands, sem hefur árum saman látið undir höfuð leggjast að framkvæma fjölþjóðlegar skuldbindingar sínar, sem felast í að hafa hendur í hári mannræningjans og frelsa stúlkurnar með valdi úr greipum ofsatrúarmanna.

Það er fyrst með tilkomu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, að íslenzk stjórnvöld eru farin að taka af festu á þessu augljósa broti Tyrklands á fjölþjóðasamningum, sem það er aðili að. En betur má, ef duga skal, þar sem aðstæður í Tyrklandi fara versnandi.

Djúpstæður klofningur er kominn milli veraldlegu stjórnmálaflokkanna, sem hafa ráðið ríkjum í Tyrklandi og reynt að gera landið evrópskt. Nú biðla þeir til flokks ofsatrúarmanna, sem vill færa landið og þar með réttarfar þess frá Evrópu nútímans í átt til miðalda.

Þegar slíkar hræringar eru í stjórnmálum, dregur það úr áhuga veraldlegu stjórnmálaflokkanna að stuðla að framkvæmd evrópskra hugmynda um lög og rétt, þegar þær stangast á við hugmyndir ofsatrúarmanna, sem verið er að ræða við um aðild að ríkisstjórn.

Við þurfum því að taka upp tyrkneska mannréttindahneykslið á víðara vettvangi en í tvíhliða viðræðum eingöngu. Utanríkisráðuneytið þarf að taka málið upp á öllum þeim vettvangi, sem er sameiginlegur okkur og Tyrklandi, svo sem í Evrópuráði og Atlantshafsbandalagi.

Það er ófært, að Tyrkland komist upp með að virða að vettugi aðild sína að margs konar samningum og sáttmálum á fjölþjóðavettvangi, allt frá fjöldamorðum á Kúrdum og háskalegum hernaðaraðgerðum á Eyjahafi yfir í ofsóknir Tyrklands gegn Sophiu Hansen.

Þess vegna þarf að fara fram á öllum vígstöðvum í senn, með tvíhliða og marghliða þrýstingi. Utanríkisráðuneytið þarf að koma upp fastri skrifstofu í Tyrklandi og skipuleggja um leið harðar aðgerðir í ýmsum fjölþjóðasamtökum, þar sem heitt er undir Tyrkjum.

Síðast en ekki sízt þarf íslenzka ríkið að sanna sig með því að taka snöggtum meiri fjárhagsþátt í þessu mikilvæga prófmáli mannréttinda, laga og réttar.

Jónas Kristjánsson

DV

Nató klúðraði Bosníu

Greinar

Eftir að hafa farið vel af stað í vetur og komið með handafli á friði í Bosníu, er Atlantshafsbandalagið nú að klúðra verkefninu. Því hefur mistekizt að sjá um, að deiluaðilar uppfylli skilmála friðarsamningsins frá því í nóvember, og engin teikn eru á lofti um slíkt.

Samkvæmt samkomulagi vesturveldanna á 60.000 manna lið bandalagsins að hverfa frá Bosníu fyrir áramót, að loknum frjálsum kosningum í landinu, þar sem hver geti kosið í sinni heimabyggð. Bandaríkjastjórn vill, að þetta takist fyrir forsetakosningarnar vestra.

Utanríkisráðherra Sviss er formaður stofnunar, sem á að úrskurða, hvort skilyrði friðarsamningsins hafi verið uppfyllt og kosningar geti farið fram í Bosníu. Bandaríkjastjórn hefur ítrekað heimtað, að hann geri þetta, en hann er sagður neita að taka mark á rugli.

Sannleikurinn er sá, að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til þess að tryggja, að kosningar geti farið fram með umsömdum hætti og að friður haldist í landinu í framhaldi af brottför setuliðsins. Það verður því annað hvort að vera áfram eða vesturveldin játa uppgjöf sína.

Eins og jafnan áður eru Serbar erfiðastir viðureignar. Þeir hafa ekki leyft íbúum annarra þjóðerna að hverfa til sinna heimahaga og hafa hrakið þá á brott, sem það hafa reynt. Setulið Atlantshafsbandalagsins hefur ekki lyft litla fingri til að sjá um efndir á þessu sviði.

Enn fremur hafa Serbar ekki gert neina tilraun til að afhenda stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna eftirlýsta menn. Setulið Atlantshafsbandalagsins hefur ekki lyft litla fingri til að sjá um efndir á þessu sviði og hefur raunar markvisst forðast að vita um tilvist þeirra.

Fleiri en Serbar hafa lagt stein í götu friðarferilsins, svo sem sýnir framferði Króata í Mostar. Þeir hafa þó framselt stríðsglæpamann eins og íslamar hafa gert. Raunar er íslamska stjórnin í Sarajevo eini málsaðilinn, í Bosníu, sem hefur reynt að efna friðarsamninginn.

Hinn sænski stjórnmálamaður Carl Bildt, sem er yfir borgaralegum þáttum málsins, missti strax í upphafi tök á þeim og hefur ekki náð þeim aftur. Hann fyllir flokk stjórnmálamanna á borð við David Owen og Thorvald Stoltenberg, sem steytt hafa illa á skeri Serba.

Einhver óskhyggja virðist hafa ráðið gerðum þessara stjórnmálamanna eins og raunar hinna vestrænu herforingja, sem hafa komið að málinu. Af fyrri reynslu mátti þó vita, að vestrænar samningareglur gilda alls engar í samskiptum við Serba. Þeir skilja þær alls ekki.

Þegar Bandaríkjastjórn lamdi hnefanum í borðið í vetur, kom í ljós, að Serbar skildu það og skrifuðu undir friðarsamninga. Samt hafa umboðsmenn Vesturlanda síðan haldið áfram að haga sér eins og Serbar skilji eitthvað annað en ofbeldi og hótanir um ofbeldi.

Afleiðing vestræns ræfildóms er nú að koma í ljós. Stríðsglæpamenn Serba ganga lausir og engar alvörukosningar verða á yfirráðasvæðum Serba í náinni framtíð. Bandaríkjastjórn vill fara eins að og hún gerði í Víetnam, lýsa yfir sigri og flýja með allt á hælunum.

Líklega munu bandamenn hafa Bandaríkjastjórn ofan af fyrirætlunum um brottflutning setuliðs fyrir bandarísku forsetakosningarnar, þannig að um 20.000 manna vestrænt setulið verði áfram í Bosníu. En ekki verður séð, að því fylgi neitt annað friðarferli í Bosníu.

Þótt Atlantshafsbandalagið hafi farið vel af stað í Bosníu í vetur, er staðan nú sú, að mestar horfur eru á, að það bíði þar niðurlægjandi ósigur að lokum.

Jónas Kristjánsson

DV

Stytting vinnutíma

Greinar

Hluti launa af landsframleiðslu er hinn sami hér og í Danmörku, 63%, og örlitlu hærri en gengur og gerist á Vesturlöndum, þar sem hann er að meðaltali 61%. Athyglisvert er, að sneið launagreiðslna af þjóðarkökunni skuli vera svipuð í þessum margvíslegu löndum.

Annaðhvort hafa samtök launamanna sýnt sama árangur með mismunandi aðferðum í mismunandi löndum eða þá, að hlutdeildin er líkari náttúrulögmáli, sem helzt óbreytt, þótt hagsmunaaðilar togist á um hana. Sennilega eiga báðar skýringarnar þátt í 61-63% niðurstöðunni.

Hlutfallstölurnar nást sums staðar með háum krónutölum eða jafngildi þeirra í öðrum myntum, samfara meiri verðbólgu, og annars staðar með lágum krónutölum, samfara minni verðbólgu. Sums staðar nást þær með vinnufriði og annars staðar með verkföllum.

Sums staðar nást hlutfallstölurnar með heildarsamningum, sem ná meira eða minna til alls þjóðfélagsins eða umtalsverðra geira þess. Annars staðar nást þær með samningum fámennra hópa, sem geta verið ólíkir innbyrðis, annaðhvort fagfélög eða vinnustaðafélög.

Í allmörg ár hefur hér á landi ríkt skilningur á, að einhvers konar þak sé á þessari hlutdeild og að hákrónusamningar fyrri áratuga hafi ekki gefið neitt í aðra hönd. Þessi skilningur hefur leitt til þess, að leitað hefur verið annarra leiða til að bæta lífskjör launafólks.

Ein aðferðin felst í þjóðarsáttum aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, þar sem síðastnefndi aðilinn leggur fram svonefndan félagsmálapakka, sem ætlað er að auka velferð fólksins og þar með bæta lífskjör þess, án þess að það komi fram í sjálfum launagreiðslunum.

Önnur aðferð felst í að reyna að hækka meira laun þeirra, sem minna mega sín, en hinna, sem betur mega sín. Þetta hefur ekki tekizt sem skyldi, því að hálaunahóparnir hafa lag á að fara í kringum þessar tilraunir. Mismunur hálauna og láglauna hefur ekki minnkað.

Ekkert bendir til, að mismunur hálauna og láglauna sé annar hér en á Vesturlöndum almennt eða í Danmörku sérstaklega. En fróðlegt væri að fá eins greinargóða skýrslu um það efni og við höfum nýlega fengið frá Þjóðhagsstofnun um lífskjör á Íslandi og í Danmörku.

Sú skýrsla bendir til þess, að samtök launafólks eigi að mestu ónotaða eina aðferð við að bæta lífskjörin án þess að ögra náttúrulögmálinu um 61-63% hlutdeild launa í landsframleiðslu. Það er aðferð, sem drepið hefur verið á í sumum kjaraviðræðum á allra síðustu árum.

Aðferðin byggist á kenningunni um, að summa daglegrar vinnu sé hin sama, hvort sem hún sé unnin í dagvinnu eða með yfirvinnu að auki. Reynslan af ýmsum yfirvinnubönnum hefur bent til þess, að svo sé. Spurningin er, hvort unnt sé að afnema yfirvinnu að mestu.

Atvinnurekendur eru að sjálfsögðu hræddir við að semja um, að yfirvinna færist inn í tímakaup, af því að þeir sjá ekki í hendi, hvernig framleiðni vinnustundarinnar muni aukast að sama skapi, þótt nefnd séu einstök dæmi um, að sú hafi einmitt orðið raunin.

Lykillinn að styttingu vinnutíma að óbreyttu heildarkaupi felst einmitt í, að báðir aðilar vinnumarkaðarins fái sama hlut og áður, en vinnutíminn hafi bara stytzt og að í því felist lífskjarabati, sem ekki reynir að raska náttúrulögmálinu um 61-63% hlutdeild launa í kökunni.

Ekki er auðvelt að finna leiðir til að skapa trúnað málsaðila í kjarasamningum á gildi þessarar leiðar. Það gæti verið spennandi viðfangsefni á næstu árum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kortlagning lífskjara

Greinar

Danir hafa að meðaltali 97% hærra tímakaup en Íslendingar, samkvæmt skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Með því að vinna 50 tíma á viku í stað 39 og með því að hafa fleiri fyrirvinnur í hverri fjölskyldu, minnka Íslendingar muninn í 39% hærri fjölskyldutekjur í Danmörku.

Þegar búið er að taka tillit til hærri skatta í Danmörku, eru ráðstöfunartekjur orðnar 15% hærri í Danmörku en hér á landi. Þannig gefur Þjóðhagsstofnun kost á þrenns konar tölum um kjaramun Dana og Íslendinga, 97%, 39% og 15%, allt eftir því, hvernig á málið er litið.

Fólk lítur misjöfnun augum á lengd vinnutíma. Ef við gefum okkur, að styttri vinnutími og lengri frítími séu almenningi meira virði en langur vinnutími, en jafngildi þó ekki að fullu betri lífskjörum, má til dæmis meta styttri vinnutíma Dana að hálfu til betri lífskjara.

Fólk lítur líka misjöfnun augum á skatta og samneyzlu á vegum opinberra aðila. Ef við gefum okkur, að félagsleg þjónusta sé betri en engin, en nýtist þó ekki að fullu í betri lífskjörum, er heldur ekki fráleitt að meta meiri samneyzlu í Danmörku að hálfu til betri lífskjara.

Með slíkum slumpareikningi má gizka á, að kjaramunur Dana og Íslendinga sé mitt á milli 97% og 15%, það er að segja 56%. Þetta er gífurlegur munur og hefur á undanförnum árum freistað margra til að koma sér fyrir í Danmörku og öðrum löndum, sem hafa svipuð lífskjör.

Auðvitað lítur kjaramismunur Danmerkur og Íslands stærst út í augum þeirra, sem mesta áherzlu leggja á stuttan vinnutíma og mikla opinbera velferð, en minnst í augum hinna, sem sætta sig vel við langan vinnudag og minni velferð af hálfu hins opinbera.

Það verður að vera keppikefli okkar að reyna að brúa þennan mun milli okkar og nánasta umhverfis okkar til þess að tryggja betur framtíð sjálfstæðs þjóðfélags á Íslandi. Slíkt er þó ekki hægt að gera með pennastriki, því að mikill munur er á framleiðni okkar og Dana.

Hlutur launa í landsframleiðslu er 63% hér á landi, nákvæmlega eins og í Danmörku og örlitlu hærri en meðaltalið á Vesturlöndum, sem er 61%. Ekki er því hægt að segja, að óeðlilega mikill hluti verðmætasköpunar á Íslandi renni til annars en launagreiðslna.

Lágu launin á Íslandi endurspegla því lága framleiðni á Íslandi. Þessi lága framleiðni stafar ekki af leti Íslendinga til vinnu, heldur af ýmsum aðstæðum, sem teljast mega séríslenzkar. Við leggjum til dæmis of mikla áherzlu á atvinnuvegi, sem gefa lítið af sér.

Við höfum til dæmis allt of margt starfsfólk í landbúnaði og raunar hlutfallslega miklu fleira en er í löndum, sem búa við betri skilyrði til landbúnaðar. Í þessa stórfelldu landbúnaðarhugsjón okkar fórnum við á bilinu frá tíu til tuttugu milljörðum króna á ári hverju.

Í öðru lagi er fámenni á Íslandi slíkt, að víða í atvinnulífinu hefur myndazt fáokun og einokun. Við slíkar aðstæður dregur skortur á samkeppni úr rekstrarhagkvæmni fyrirtækja og stuðlar að lakari lífskjörum á Íslandi en er í löndum, þar sem samkeppni er meiri.

Þriðja ástæðan fyrir lágri framleiðni á vinnustund er hin sérízlenzka yfirvinnuhefð. Hún er eins konar vítahringur, sem erfitt er að losna úr. Einstök dæmi benda til, að dagsafköst minnki ekki, þótt yfirvinna sé lögð niður. Dagsafköst séu lítt eða ekki háð lengd vinnutíma.

Þetta eru þrjú atriði af ýmsum, sem valda lágri framleiðni og lélegum kjörum okkar. Engin öfl í landinu sinna enn því pólitíska verkefni að lagfæra slík atriði.

Jónas Kristjánsson

DV

Pappírsfrek viðskipti

Greinar

Þegar tvö fagtímarit eru keypt með greiðslukorti í bókabúð, eru gefin út þrjú skjöl. Sérstakur innsláttur fer fram á hverju þessara skjala og tvö þeirra eru heft saman á handvirkan hátt. Þannig kynnist íslenzkur neytandi handvirku pappírsfargani kerfisins á upplýsingaöld.

Eitt skjalanna kemur úr posavél og varðar greiðsluþátt viðskiptanna. Annað kemur úr kassavél og varðar staðfestingu þeirra gagnvart skattakerfinu. Hið þriðja kemur úr samlagningarvél og sundurliðar verð tímaritanna, af því að sundurliðun vantar á hin skjölin.

Til þess að allt fari fram eftir settum reglum, er viðskiptavinurinn spurður, hvaða kennitölu eigi að setja á staðgreiðslunótuna. Samt liggur rétt kennitala þegar að baki kortanótunnar, en þessi handvirka kennitala úr búðinni er sú eina, sem skattakerfið tekur gilda.

Þessi handafls- og pappírsfreki bjálfaháttur er framkvæmdur þúsundum saman á degi hverjum í þjóðfélagi, sem á hinn bóginn hamast við að skipa opinberar nefndir til að gera ályktanir um að koma landinu í pappírslaus viðskipti og aðra undraheima upplýsingaaldar.

Nettenging stofnana og pappírslaus viðskipti voru hornsteinn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í apríl 1995. Allt er það endurtekið og nánar útfært í stefnuyfirlýsingu fjármálaráðuneytisins í desember 1995. Þriðja nefndin og sú fjölmennasta er nú í sama knérunni.

Á sama tíma og nefndasérfræðingar ríkisins endurtaka sama sannleikann tvisvar á ári og fá hann viðurkenndan sem stefnu ríkis og þjóðar, gerist ekki nokkur skapaður hlutur í málinu. Hver opinber stofnun húkir í sínum ranni og vill sín sérstöku gögn í hendurnar.

Tollurinn og skatturinn eru verstu stofnanirnar. Ef þær yrðu kvaldar með handafli til að viðurkenna upplýsingabyltinguna, væri þjóðin þegar komin hálfa leið út í upplýsingaöld. En það gerist ekki nema þar séu settir inn stjórar, sem afnema gamla ruglið með pennastriki.

Vinnan við pappírsfrek viðskipti dregur úr framleiðni okkar og stuðlar að lakari lífskjörum, verri samþjónustu og lengri vinnudegi en í nágrannalöndunum. Við erum þúsundum saman upptekin við að slá sömu upplýsingarnar aftur og aftur inn á vél og prenta þær út.

Samt er þjóðin svo opin fyrir viðskiptum nútímans, að 70% allra viðskipta í smásölu fara fram með greiðslukortum og 95% þessara viðskipta fara fram á stafrænan hátt. Hér eru bæði krítarkort og bankakort. Myntkort, sem minna á símakort, verða prófuð á þessu ári.

Myntkortin koma í staðinn fyrir peningaseðla. Þau henta þeim, sem ekki vilja nota neina tegund greiðslukorta. Og þau henta líka, þegar greiðsluupphæðir eru lágar. Að þeim innleiddum er í rauninni ekki lengur nein þörf á að gefa út peningaseðla í landinu.

Fulltrúar ríkisins þurfa að setjast niður með fulltrúum bankanna, skattsins og tollsins og annarra aðila, sem málið varðar, og finna á tilgreindum fjölda mánaða einfalda leið, sem samræmir hinar ýmsu bókhaldsþarfir stofnana og fyrirtækja án innsláttar og pappírs.

Ef viðskipti kalla á kennitölu, á undantekningarlaust að lesa hana stafrænt af korti, en ekki slá hana inn í samræmi við sjón eða heyrn. Ef upphæð er slegin inn í einum tilgangi, á ekki að slá hana aftur inn í öðrum tilgangi og í þriðja sinn í þriðja tilganginum.

Samræming er einföld og fljótleg. Hana má framkvæma fyrir áramót og hætta skipun nýrra blaðurnefnda um pappírslaus og stafræn framtíðarviðskipti.

Jónas Kristjánsson

DV