Greinar

Breytilegt lífsgæðamat

Greinar

Íslendingar eru á helmingi lægra tímakaupi en Danir. Samt lifum við dýrara lífi en þeir og raunar dýrar en nærri allar þjóðir heims. Við eigum fleiri og stærri bíla, fleiri litsjónvarpstæki og myndbandstæki en nokkur önnur þjóð og næststærstu íbúðir í heimi.

Þessi þverstæða er rakin í ágætri skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem samin er vegna mikillar umræðu um lífskjaramun í Danmörku og Íslandi. Samanburðurinn er mikilvægur, þar sem margir Íslendingar hafa einmitt flúið land og hafið störf í fiskvinnslu á Jótlandi.

Fullyrt hefur verið, að tímakaup sé helmingi hærra í Danmörku en hér á landi. Rannsókn Þjóðhagsstofnunar staðfestir þetta, en sýnir líka, að þessi staðreynd segir ekki alla söguna. Með lægri sköttum og meiri aukavinnu náum við að minnka aðstöðumuninn í tímakaupi.

Danir vinna að meðaltali 39 tíma í viku, en við 50 tíma. Síðan borga Danir tvöfalt hærri skatta en við gerum, þannig að ráðstöfunartekjur Dana eru 15% hærri en Íslendinga, þegar allt er saman dregið. Það er því ekki sama, hvað miðað er við í samanburði landanna.

Þeir, sem telja langan vinnudag á Íslandi vera skaðlegan, vilja miða við strípuð dagvinnulaun, en hinir, sem telja langan vinnudag eðlilegan, vilja miða við heildarlaun með yfirvinnu. Þannig fer það eftir gildismati, hvaða augum menn líta á silfrið í samanburðinum.

Þeir, sem telja öryggisnet þjóðfélagsins skipta miklu, vilja miðað við heildartekjur, en hinir, sem minna álit hafa á því, vilja miða við strípaðar tekjur að frátöldum sköttum. Þannig fer það enn eftir gildismati áhorfandans, hvernig hann metur tölur Þjóðhagsstofnunar.

Athyglisvert er þó, að hlutar velferðarkerfisins eru ekki lakari á Íslandi en í Danmörku, þrátt fyrir lægri skatta. Til dæmis er heilsufar heldur betra á Íslandi en í Danmörku, ungbarnadauði minni og ævilíkur meiri. Það bendir til, að sumpart nýtist fé betur hér.

Þegar margar staðreyndir eru dregnar saman í einn pott eins og gert er í skýrslu Þjóðhagsstofnunar og í ljós kemur, að veruleikinn er ekki svartur og hvítur, heldur mismunandi grár eftir sjónarhóli hvers og eins, er auðveldara að átta sig á ýmsum breytingum á þjóðfélaginu.

Þegar landflótti eykst og menn sækja í danska fiskvinnslu, stafar það ekki að öllu leyti af því, að lífskjaramunur landanna hafi aukizt. Það stafar í miklu meira mæli af breyttu gildismati, þar sem fleiri en áður hafa hóflega lengd vinnudags ofar á óskalista sínum.

Landflóttinn stafar líka af því, að þættir velferðarkerfisins eru öflugri í Danmörku en hér á landi. Fleiri en áður taka tillit til slíkra öryggisatriða, þegar þeir eru að stofna heimili og koma sér fyrir í lífinu. Atvinnuleysisbætur eru til dæmis mun öflugri í Danmörku en hér.

Þegar gildismatið breytist með nýjum kynslóðum á þann hátt, að menn eru síður en áður tilbúnir til að þreyja langan vinnudag og telja sig þurfa að taka meira tillit en áður til hættu á atvinnumissi, rýrnar staða Íslands í samanburði við lönd á borð við Danmörku.

Til skamms tíma fól gildismatið í sér, að fólk gat talið sig vera jafnsett Dönum og talið sér til hags að eiga fleiri bíla og litsjónvarpstæki. En almenna gildismatið er að breytast hinum séríslenzku aðstæðum í óhag. Stjórnendur þjóðfélagsins þurfa því að endurmeta stöðuna.

Sífellt þarf að breyta áherzlum landsfeðra í rekstri þjóðfélagsins, svo að Ísland sé samkeppnishæft við önnur lönd í lífsgæðum eins og þau eru metin á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

DV

Tölvunefnd er skaðleg

Greinar

Vilmundur Jónsson landlæknir kunni ráð við þeim úrskurði Hæstaréttar, að hann mætti ekki í Læknatali sínu birta nöfn líffræðilegra foreldra kjörbarna gegn vilja þeirra. Hann tók nöfnin út, en skildi eftir eyðurnar, svo að allir máttu skilja, hvað um var að ræða.

Síðan hefur engum dottið í hug að amast við þeirri þjóðaríþrótt Íslendinga að rekja ættir fólks fram og til baka. Á erfiðum tímum virðisaukaskatts eru ættfræðirit ein fárra greina bókaútgáfu, sem standa með blóma. Nú dugar ekki minna en mörg þykk bindi um hverja ætt.

Undarlegasta nefnd á Íslandi hefur þó ákveðið að kanna, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að nöfn tveggja kvenna, maka þeirra og barna verði birt gegn vilja þeirra í ættfræðiriti, sem nú er í undirbúningi. Er þó ættfræði formlega skilgreind utan verksviðs nefndarinnar.

Ef hinni undarlegu nefnd tekst að koma í veg fyrir þessa meintu árás á friðhelgi nokkurra einstaklinga, er kjörið tækifæri fyrir aðstandendur bókarinnar að fylgja fordæmi hins gamla landlæknis og skilja eftir eyðurnar, svo að allir megi sjá þær og hafa gagn og gaman af.

Á sama tíma og hin undarlega nefnd er að leika hlutverk Stóra bróður er utanríkisráðuneytið að vinna þarfara verk. Það kostar skrásetningu sem flestra Vestur- Íslendinga. Það er mikið verk, því að talið er, að þar búi nú rúmlega 200 þúsund manns af íslenzkum ættum.

Þannig veit vinstri hönd ríkisins ekki, hvað hin hægri er að gera. Annars vegar er ríkið að verja peningum til að afla heimilda, sem falla vel að þjóðaríþrótt Íslendinga og færa henni nýja vídd. Hins vegar starfrækir ríkið nefnd, sem reynir að stöðva nytsamar upplýsingar.

Frægust er tölvunefnd fyrir að biðja fjármálaráðuneytið um að banna fjölmiðlum að vinna upplýsingar úr skattskrám, nota við það hættulegar aðferðir á borð við samlagningu og frádrátt, margföldun og deilingu, og birta síðan óhroðann á prenti, svo að allir megi sjá.

Þetta hafa íslenzkir fjölmiðlar einmitt gert frá ómunatíð, lesendum til gagns og gamans, en nokkrum einstaklingum til mæðu. Þeir telja þetta vera brot á friðhelgi einkalífs síns og hafa fengið stuðning Tölvunefndar, sem hyggst nú koma í veg fyrir framhald þessara skrifa.

Fjármálaráðherra varð við tilmælum nefndarinnar og gaf út reglugerð í vor, sem æ síðan verður við hann kennd. Hann hefur að sjálfsögðu verið hafður að háði og spotti, innan og utan Alþingis, og þá enn frekar, þegar til kastanna kemur að beita reglugerðinni í sumar.

Auðvitað dettur engum í hug, að lög eða reglugerðir um Tölvunefnd og reglugerðir, sem byggjast á þeim pappírum, skáki stjórnarskránni, enda eru nú blessunarlega komnir til sögunnar dómstólar úti í heimi, sem geta tekið íslenzka reglugerðasmiði og pokadómara í nefið.

Tölvunefnd heldur þó áfram að puða í hlutverki Stóra bróður. Henni tókst á sínum tíma að koma í veg fyrir nothæfa sundurliðun símreikninga með því að heimta, að fyrstu tölustafir símanúmera birtust ekki. Næst gæti henni dottið í hug að reyna að banna símaskrána.

Nefndin vill koma í veg fyrir, að Íslendingar geti nýtt sér upplýsingatækni nútímans eins vel og þau lönd, sem lengst eru komin á því sviði. Hún reynir til dæmis að koma í veg fyrir samkeyrslu á skrám, sem oft leiða í ljós nákvæmari og betri upplýsingar en menn höfðu áður.

Landhreinsun væri að afnámi hinnar skaðlegu Tölvunefndar, sem reynir að koma í veg fyrir, að þjóðfélagið verði gagnsærra og auðskildara öllum almenningi.

Jónas Kristjánsson

DV

Frá smámálum til stórmála

Greinar

Samkeppnisstofnun er farin að líta upp úr smámálum og veita stórmálum athygli. Hafin er þar rannsókn á tveimur fákeppnismörkuðum, annars vegar flugi og hins vegar greiðslukortum. Rannsókn á benzíni og bönkum, tryggingum og landbúnaði kemur vonandi í kjölfarið.

Í upphafi ársins 1995 gaf stofnunin út skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu. Niðurstaða hennar sýndi skýr einkenni um fákeppni hér á landi. Rannsókn á flugi og greiðslukortum er fyrsta skref stofnunarinnar til að bregðast við þessum veruleika.

Flugið er ljóst dæmi um óeðlilegt markaðsástand. Eitt fyrirtæki ber þar ægishjálm í skjóli opinberra sérleyfa og eindregins stuðnings samgönguráðuneytisins. Þessa sérstöðu hafa Flugleiðir notað til að ryðja sér til rúms á skyldum sviðum, svo sem í hótelum og bílaleigu.

Þegar flugvélar Flugleiða eru að lenda á Keflavíkurvelli, er í hátalarakerfinu mælt með hótelum og bílaleigu fyrirtækisins. Þannig myndast lóðrétt kerfi, þar sem ofurstaða á einu meginsviði er notuð til að halda ferðamanninum einnig undir væng fyrirtækisins á jörðu niðri.

Þannig flétta Flugleiðir net niður á við, alveg eins og þær eru þáttur í stærra neti, sem hefur Eimskipafélagið að miðju og hefur á allra síðustu árum teygt þræði sína um vöruflutninga á landi. Þannig er að myndast ein ofurfyrirtækjasamsteypa í samgöngum og ferðamálum.

Kortafyrirtækin tvö eru að mestu í eigu bankanna og samkeppnin hefur dofnað með árunum. Nú er svo komið, að þau nenna ekki að gæta hagsmuna viðskiptamanna sinna, til dæmis með því að þrýsta niður miklu álagi, sem þeir borga víða ofan á staðgreiðsluverð.

Skiljanlegt er, að Samkeppnisstofnun geti ekki fengizt við meira en tvo málaflokka í einu, ef hún vill gera það af fullum þunga. Hinu er þó ekki að leyna, að olíufélögin tvö og hálft hefðu kunnað einkar vel við sig í þessum upphafshópi Flugleiða, Eurocard og Visa.

Þegar Irvin-feðgar ætluðu að setja hér upp olíufélag, vöknuðu fákeppnisaðilarnir af dvalanum, fóru að sækja um lóðir út og suður og komu á fót sjálfsafgreiðslu með ódýrara benzín. Þannig komu þau í veg fyrir, að Irvin- feðgar sæju sér nægilegan hag í markaðinum.

Meðan Irvin-málið var í gangi, var lítið um benzínhækkanir. Þegar þeir höfðu hætt við, fór benzín skyndilega að hækka. Ekki má svo verða hreyfing upp á við í verði í Rotterdam, að það endurspeglist ekki umsvifalaust hér. En niðursveiflan gleymist oftast.

Neytendasamtökin hafa sérstaklega beðið Samkeppnisstofnun um að rannsaka benzínhækkanirnar að undanförnu og samhengi þeirra við verðsveiflur á markaði í útlöndum. Einnig hafa þau óskað eftir árangri í verði af hagræðingu vegna fækkunar oktantegunda benzíns.

Tryggingafélögin eru enn eitt dæmi um fákeppni, sem bezt lýsir sér í frækilegri og sameiginlegri aðför þeirra að slösuðu fólki, þar sem þau nutu stuðnings þess meirihluta, sem Sjálfstæðisflokkurinn myndar hverju sinni á Alþingi, ljúflegast þó með Framsóknarflokknum.

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda er að gera tilraun til að brjótast undan ofurvaldi tryggingafélaganna. Það stendur í viðræðum við tryggingafélag á vegum Lloyd’s í London. Væntingar eru um, að þetta rjúfi skarð í hinn séríslenzka múr fáokunar gegn markaðslögmálum.

Íslenzkt atvinnulíf er vegna smæðar, einangrunar og ríkisverndaðrar fákeppni ekki samkeppnishæft við erlent. Rannsókn á þessu ástandi er einkar vel þegin.

Jónas Kristjánsson

DV

Mælt með auðmannafæði

Greinar

Holur hljómur er í góðviljaðri herferð nokkurra samtaka og stofnana fyrir aukinni neyzlu grænmetis. Fyrirstaðan er nefnilega ekki lengur óbeit almennings á grænmeti, heldur ofurtollar stjórnmálaflokkanna, sem halda fólki frá neyzlu þessa nauðsynlega fæðuflokks.

Tollaheimildum landbúnaðarráðuneytisins hefur verið beitt til hins ýtrasta af ráðherrunum Halldóri Blöndal og Guðmundi Bjarnasyni, sem telja sig vera í vinnu hjá þröngum sérhagsmunum og víla ekki fyrir sér að ráðast gegn heilsufari allrar þjóðarinnar í því skyni.

Tollarnir koma harðast niður á vandaðri grænmetisframleiðslu, sem er tiltölulega dýr í innkaupi, þótt hún sé á því stigi ódýrari en ýmsir aðrir fæðuflokkar, sem við notum of mikið af. Verðtollurinn leggst á innkaupsverðið og hækkar vöruna út fyrir allan þjófabálk.

Lífrænt ræktað grænmeti er sá hluti þessa mikilvæga fæðuflokks, sem líklegast er, að sé laus við ýmis aukefni, sem allt of mikið eru notuð sums staðar í erlendum landbúnaði. Í verzlunum hér á landi er kílóverð lífræns grænmetis á bilinu frá 500 í 1000 krónur.

Almenningur telur sig ekki hafa ráð á að kaupa hollustuvöru á þessu verði. Því má vinsamlega benda hinum góðviljuðu samtökum og stofnunum á að snúa sér til stjórnmálaflokka þjóðarinnar, hinna raunverulegu ábyrgðaraðila rangs mataræðis þjóðarinnar.

Afleiðing verðstefnunnar, sem áður var rekin af Halldóri Blöndal og nú af Guðmundi Bjarnasyni, er sú, að nærri eingöngu er flutt inn allra ódýrasta grænmetið, það sem ræktað er með mestri notkun vaxtaraukandi aukefna. Þetta óholla grænmeti fyllir búðirnar.

Það er ábyrðgarhluti góðviljaðra samtaka og stofnana að hvetja til neyzlu á vöru, sem verður til með gífurlegri notkun eiturefna af ýmsu tagi. Miklu nær væri fyrir þessa aðila að beita áhrifamætti sínum til lækkunar verðs á hollu grænmeti úr eðlilegri ræktun, helzt lífrænni.

Góðviljaða fólkið, sem skrifað hefur greinar í blöð um nauðsyn þess, að við aukum grænmetisneyzlu okkar upp í svonefnda fimm skammta á dag, virðist búa við veruleika, sem peningalítill almenningur þekkir ekki, eða þá að það lítur framhjá misjafnri hollustu grænmetis.

Þegar verð venjulegrar papriku fer yfir 1000 krónur á kílóið og eðlilega ræktaðrar papriku enn hærra, er miklu nær fyrir þetta góðviljaða fólk að fara í mótmælagöngur, mótmælasetur og mótmælaskrif gegn glæpaiðju landbúnaðarráðuneytisins og stjórnmálaflokkanna allra.

Með því að stýra neyzlu almennings annars vegar frá vönduðu grænmeti til óvandaðs grænmetis og hins vegar frá grænmeti til ofnotaðra fæðutegunda eru ráðuneytið og flokkarnir að skaða heilsu þjóðarinnar. Verðstýring yfirvalda er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni.

Afleiðing skelfilegrar verðstefnu er, að við borðum lakara grænmeti og minna af grænmeti en nokkur önnur þjóð á Vesturlöndum og erum lengst þessara þjóða frá því að ná þeirri hlutdeild grænmetis, sem mælt er með af hálfu fjölþjóðlegra heilbrigðisstofnana.

Í þessari stöðu væri skynsamlegast, að áhugasamtök um heilsufar tækju saman höndum við áhugasamtök um efnahag fólks, svo sem neytendasamtök, um að beina þrýstingi sínum að þjóðhættulegum stjórnmálaflokkum, þingmönnum þeirra, ráðherrum og embættismönnum.

Herferð áhugasamtakanna er ekki raunhæf, meðan hún lætur í friði hina raunverulegu orsakavalda, sem hafa gert hollustuvöru að auðmannafæði.

Jónas Kristjánsson

DV

Líkt við fótboltabullu

Greinar

Undir fyrirsögninni: “Geðveikt, slæmt og hættulegt” segir brezka tímaritið Economist í síðasta forsíðuleiðara, að framganga Johns Major forsætisráðherra í kúariðumálinu kunni að verða áliti Bretlands í útlöndum jafn skaðleg og framferði brezkra fótboltabullna.

Economist hefur lengst af verið hallt undir Major, en hefur nú snúið við blaðinu. Það segir, að jákvæðasta túlkunin á stríðsyfirlýsingum forsætisráðherrans gegn Evrópusambandinu sé sú, að hún sé örvæntingarfullt áhættuspil ríkisstjórnar, sem sé að dofna og hverfa.

John Major hefur ákveðið að Bretland taki ekki þátt í samstarfi innan Evrópusambandsins fyrr en lönd þess leyfi á nýjan leik innflutning á brezku nautakjöti. Hefur hann skipað sérstakt “stríðsrekstrarráðuneyti” í hefndarskyni til að vinna hermdarverk á samstarfinu.

Raunar getur brezka ríkisstjórnin sjálfri sér kennt um innflutningsbann nágrannaríkjanna. Hún reyndi lengi að halda leyndum upplýsingum um útbreiðslu kúariðunnar og vanrækti að gera sannfærandi ráðstafanir til að tryggja heilsu og hagsmuni neytenda.

Skoðanakannanir í Bretlandi benda til, að meirihluti kjósenda átti sig á, að það er brezka ríkisstjórnin, en ekki Evrópusambandið, sem hefur klúðrað kúariðumálinu. En þær sýna líka, að meirihluti kjósenda styður stríðsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í málinu.

Hugsanlegt er, að gersamlega ábyrgðarlaust framferði Majors og ríkisstjórnar hans geti vakið upp dvínandi fylgi kjósenda með stuðningi gulu pressunnar, sem virðist vera að endurlifa upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar. Þar með kæmist bjálfasvipur á þjóðina í heild.

Það skaðar alla aðila og mest Breta sjálfa, ef Bretland einangrast vegna þröngsýns stuðnings þjóðernissinnaðs almennings við forsætisráðherra, sem er orðinn innikróaður og pólitískt hættulegur umhverfi sínu, af því að hann fer hamförum við að reyna að halda embættinu.

John Major hefur áður sýnt, að hann er ábyrgðarlaus tækifærissinni. Það kom fram í viðbrögðum hans við tillögu Mitchell-nefndarinnar um lausn deilnanna í Norður- Írlandi. Þessi nefnd, sem hann átti þátt í að skipa, lagði til samhliða afvopnun og viðræður í áföngum.

Tillögurnar birtust í janúar og vöktu almenna velþóknun. John Major taldi sig hins vegar þurfa á að halda atkvæðum róttækra sambandssinna í Norður-Írlandi til að verja ríkisstjórnina falli. Hann hafnaði tillögunum og kastaði sjálfur fram umdeildum sprengjuhugmyndum.

Um þetta leyti voru ábyrgir fjölmiðlar í Bretlandi farnir að átta sig á, hversu ómerkilegur forsætisráðherrann var. Þeir hefðu þó átt að vera búnir að sjá það fyrir fjórum árum af japli hans, jamli og fuðri í Bosníudeilunni, að hann var ekki bógur til að ráða fyrir ríkjum.

Máttvana, tækifærissinnuð og örvæntingarfull vinnubrögð hans eru gerólík stjórnarháttum forverans, Margaret Thatcher, sem hafði heilsteypta heimsmynd og bein í nefinu til að framfylgja henni. Nýju vinnubrögðin hafa komið illu af stað og hafa skaðað Bretland.

Fjölmiðlar á meginlandi Evrópu hafa lýst furðu sinni á framferði brezka forsætisráðherrans . Æruverðug blöð tala sum um “klikkun” og önnur um “vitfirringu”. Þessi viðbrögð rýra auðvitað vilja ráðamanna á meginlandinu til að hliðra til fyrir brezkum sjónarmiðum.

Illa er komið fyrir gömlu heimsveldi að vera smám saman að breytast í einangrunarsinnað, illa lynt og fyrirlitið gamalmenni, sem fær hvergi vilja sínum framgengt.

Jónas Kristjánsson

DV

Könnuður á hálum ís

Greinar

Eitt fyrirtækið, sem stundar skoðanakannanir, spurði um daginn fyrir félagsmálaráðuneytið, hvort menn vildu auka völd almennra félagsmanna í stéttarfélögum á kostnað valdamanna í þeim félögum “eins og lagt er til í nýju frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur”.

Vandinn við þessa villandi og leiðandi spurningu er sá, að ekki er samkomulag um, hvort nýja frumvarpið auki völd almennra félagsmanna eins og fullyrt er í síðari hluta spurningarinnar. Það fer eftir hugsanabrautum hvers fyrir sig, hvort hann telur svo vera eða ekki.

Í leiðurum þessa blaðs hefur frumvarpið fengið stuðning. Ráðamenn stéttarfélaga eru því hins vegar afar andvígir og fullyrða, að andstaðan stafi ekki af því, að þeir missi völd til almennra félagsmanna. Röksemdir þeirra eru ekki traustvekjandi, en þær eru samt til.

Stjórnendur Gallup halda því fram, að orðalag spurningarinnar komi því ekkert við, að það var félagsmálaráðuneytið, sem borgaði fyrir spurninguna og taldi niðurstöðu hennar henta sér vel. Þetta getur svo sem verið rétt, en breytir því ekki, að spurningin er leiðandi.

Könnunarfyrirtæki er á hálum ís, þegar það leggur fram spurningu, er felur í sér fullyrðingu, sem er umdeild á þann hátt, að hópur manna telur hana ranga, að vísu á veikum forsendum, og þegar það fær á þann hátt niðurstöðu, sem er í þágu umbjóðandans.

Með spurningunni gaf Gallup-fyrirtækið ekki aðeins höggstað á sér, heldur einnig á öðrum stofnunum og fyrirtækjum, sem fást við að kanna hugi og skoðanir fólks. Það skaðar þessa aðila, þegar unnt er að kasta almennt rýrð á skoðanakannanir vegna augljósra mistaka.

Traust fólks á skoðanakönnunum hefur byggzt upp á löngum tíma. Áratugum saman hafa niðurstöður síðustu kannana fyrir kosningar verið bornar saman við niðurstöður kosninganna sjálfra. Samanburðurinn hefur stuðlað að eflingu og viðhaldi þessa almenna trausts.

Raunar er ekki örgrannt um, að traust stjórnmálamanna á slíkum könnunum keyri um þverbak, þegar þeir eru farnir að velta fyrir sér tilfærslum, sem eru innan skekkjumarka, sem birt eru með niðurstöðutölunum. En þetta traust byggist á langri og góðri reynslu.

Auðvitað fer það í taugar þeirra, sem áratugum saman hafa staðið fyrir ábyrgum skoðanakönnunum, þegar til skjalanna koma viðskiptafíknir menn, sem höggva í þetta gróna traust með vinnubrögðum, er samræmast ekki góðum og gildum hefðum á þessu viðkvæma sviði.

Nauðsynlegt er að gera skarpan greinarmun á könnuðum, sem fara hefðbundnar leiðir, og hinum, sem spyrja spurninga, er fela í sér forsendur, sem kunna að vera umdeildar. Síðari hópurinn fær auðvitað í bili viðskipti þeirra aðila, sem vilja panta sér niðurstöður.

Þetta hefnir sín svo auðvitað, þegar allt dæmið er vefengt, svo sem gert hefur verið í þessu tilviki. Félagsmálaráðuneytið hefur ekki fengið þá útkomu, sem það sóttist eftir, því að það hefur verið sakað um aðild að óvísindalegum vinnubrögðum. Spurning þess ónýttist með öllu.

Til langs tíma litið er affarasælast fyrir alla, að gömlu hefðunum sé fylgt og menn hætti sér ekki út á þann hála ís, sem hér hefur verið gerður að umræðuefni. Heildarviðskipti þjóðfélagsins við skoðanakönnuði hljóta að fara eftir trúverðugleika greinarinnar í heild.

Eins og skoðanakannanir hafa hingað til verið, gera þær oftast gagn með því að auka þekkingu almennings á innviðum þjóðfélagsins og gangverki þjóðlífsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Auður og völd

Greinar

Alþýðusambandsþing minna mjög á landsþing bandarísku stjórnmálaflokkanna, áður en prófkjör og forkosningar einstakra ríkja urðu meginaðferðin við að safna liði um forsetaframbjóðendur. Þá var forsetaframboðum vestra ráðið í vindlareykmettuðum bakherbergjum.

Á Íslandi árið 1996 er forsetamálum Alþýðusambandsins ráðið á heimili eins hliðarkóngsins. Þar sömdu nokkrir menn um niðurstöðu þingsins og stilltu öðrum upp við vegg, svo að þeir sáu sitt óvænna og létu hlut sinn fyrir þeim, sem greinilega tefldu skákina bezt.

Ekki voru allir þingfulltrúar sáttir við þessa niðurstöðu. Þeir mótmæltu bakherbergisvinnubrögðunum með því að bjóða fram nýtt og óþekkt forsetaefni, sem fékk 25% atkvæða. Sigurvegararnir fóru þannig nokkuð sárir út úr þinginu, en munu fljótlega jafna sig.

Margir fletir eru á valdabraskinu í Alþýðusambandinu. Einn er hinn flokkspólitíski, þar sem þrír stjórnmálaflokkar hafa með sér eins konar ekki-árásarbandalag um, að hver þeirra eigi einn af þremur forsetum og varaforsetum sambandsins. Þetta kerfi stóðst í sviptingunum.

Annar flötur er baráttan milli svonefnds uppmælingaraðals, það er að segja mannanna með sveinsprófin, og almenns verkafólks. Eins og venjulega urðu hinir fyrrnefndu sigurvegarar. Einn af þessum aðalsmönnum fetaði í fótspor forverans eins og hann hefur áður gert.

Þetta þýðir í raun, að framvegis verða kjarasamningar eins og þeir hafa lengi verið. Í samningaharki verða láglaunamenn dráttarklárar. Mikið verður talað um, að nauðsynlegt sé að jafna laun, en þegar upp verður staðið, hafa þeir fengið meira, sem betur mega sín.

Alþýðusambandið og helztu undirsambönd þess snúast ekki og hafa lengi ekki snúizt um kjör fólks. Þetta eru fyrst og fremst fyrirtæki eins og önnur fyrirtæki í landinu og stjórnendurnir eru verkalýðsrekendur á svipaðan hátt og aðrir atvinnurekendur í landinu.

Forsetar og formenn þessara sambanda eru hluti yfirstéttarinnar í landinu og hafa tekjur í samræmi við það. Þetta er talið nauðsynlegt, því að annars væru stéttarfélögin ekki samkeppnishæf um hæfileika á vinnumarkaði. En þetta skilur á milli þeirra og félagsmanna.

Forsetar og formenn þessara sambanda sitja í stjórnum ýmissa sjóða, þar sem lífeyrissjóðir landsmanna skipa fremsta sess. Mikið af fjárfestingarfé landsins fer um þessa sjóði, sem eru smám saman að verða að öflugustu hluthöfum ýmissa helztu stórfyrirtækja landsins.

Lífeyrissjóðir tengja saman hagsmuni stórfyrirtækjanna og hagsmuni yfirstéttar samtaka launafólks. Þess vegna snýst hugsun aðalsins í samböndum stéttarfélaganna einkum um svipuð mál og í öðrum stórfyrirtækjum. Hún snýst fyrst og fremst um auð og völd.

Þetta veldur því, að mikilvægt er fyrir aðalinn að gera út um sín mál í vindlareykmettuðum bakherbergjum eða á heimilum hver annars, en láta þau ekki rekast í óvissu almennrar atkvæðagreiðslu á gólfi Alþýðusambandsþinga. Þannig gekk forsetaembættið í arf í fyrri viku.

Þetta þýðir líka, að sambönd stéttarfélaganna eru meira eða minna óhæf til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í kjarasamningum, svo sem dæmin sanna endalaust. Þetta þýðir líka, að fulltrúar þeirra standa oftast með einokun landbúnaðarins gegn neytendum.

Verkalýðsrekendur er orðið, sem lýsir bezt yfirstétt sambanda stéttarfélaga. Það lýsir stétt, sem er hluti yfirstéttarinnar og stundar rekstur, með launþega að vöru.

Jónas Kristjánsson

DV

Enn eru berin súr

Greinar

Jón Baldvin Hannibalsson er sammála Davíð Oddssyni um, að berin séu súr. Hann telur forsetaembættið fremur tilgangslítið og valdalaust eftirlaunastarf, sem henti ekki stjórnmálamanni í blóma lífsins. Hann segist ekki hafa áhuga á að setjast í helgan stein sem forseti landsins.

Hann telur samt eins og Davíð, að frambjóðendurnir séu ekki starfsins verðir. Davíð hafði kvartað um, að í þeim hópi væru væntanlegir farandsendiherrar og fyrirverandi ráðhúsandstæðingar. Jón Baldvin kvartar um, að forsetaefnin geri ekki grein fyrir málstað sínum.

Þetta er beinlínis rangt hjá honum. Öll forsetaefnin hafa rækilega gert grein fyrir viðhorfum sínum til forsetaembættisins. Sum hver hafa gert það við ótal tækifæri. Öll hafa þau til dæmis svarað spurningum DV um þau efni og Pétur Hafstein gerir það í blaðinu í dag.

Þegar nær dregur kosningum, munu þessi viðhorf vafalaust verða margsinnis endurtekin og einnig dregin saman í einfaldar línur. Kjósendur hafa þegar fengið tækifæri til að átta sig á stefnumun frambjóðenda og munu fá enn betri tækifæri til þess á næstu vikum.

Athyglisvert er, að tveir af helztu stjórnmálamönnum landsins skuli hafa verið að velta fyrir sér framboði til embættis, sem báðir segja svo lítilfjörlegt, að þeir vitna í Sigurð Líndal lagaprófessor því til staðfestingar. Það taki því tæpast að láta þjóðina kjósa forseta beint.

Jón Baldvin spyr, hvort þjóðin sé að kjósa um, hvaða hjón muni koma bezt fyrir á Bessastöðum. Margir telja það ekki vera ómerkilegt mál. Margir telja sig vera að kjósa sér þjóðarföður eða þjóðarmóður, sem sé eins konar sameiningartákn þjóðarinnar rétt eins og fáninn.

Jón Baldvin er hins vegar kominn með þurrt land undir fætur, þegar hann gagnrýnir hugmyndir um, að Bessastaðir verði virkjaðir í þágu afmarkaðra málefna á alþjóðlegum vettvangi eða að þeir verði eins konar upphafin markaðsdeild í utanríkisráðuneytinu.

Sérstaklega er ástæða til að vara við, að embættið verði að símstöð fyrir sambönd meira eða minna skuggalegra valdhafa og viðskiptajöfra í þriðja heiminum. Sérstaklega er óraunhæft að ætla, að Íslendingar geti haft fé út úr braski með tækifærissinnum af því tagi.

Hins vegar benda skoðanakannanir og ýmis önnur teikn til þess, að mikill hluti þjóðarinnar sé fjarskalega sáttur við alþjóðapólitíska virkjun Bessastaða. Fólk hefur sýnt meiri stuðning við frambjóðanda með útsækna stefnu en hina, sem vilja fremur fara með löndum.

Hugsanlegt er, að Jón Baldvin sé fyrst og fremst að hugsa um að draga Ólaf Ragnar Grímsson út úr skápnum og fá hann til að fjalla svo mikið um skoðanir sínar á utanríkismálum og viðskiptamöguleikum við valdhafana í Víetnam, að tvær grímur fari að renna á fólk.

Hins vegar er það vafasöm iðja hans eins og Davíðs að gera því skóna, að forsetakosningar séu orðnar eins konar ógöngur, sem jafnvel beri að afnema, annaðhvort með samruna embættisins við önnur embætti eða með því að fela Alþingi valdið til að kjósa forseta.

Enginn vafi er á, að þjóðin vill áfram kjósa sér forseta samkvæmt óbreyttri stjórnarskrá og vill sjálf ákveða, hvort það nægi sér, að forsetahjónin komi vel fyrir á Bessastöðum, eða hvort forsetinn eigi þar á ofan að vera á þönum úti í heimi til að bjarga friði eða viðskiptum.

Enda eiga flestir auðvelt með að sjá, að raunverulegt innihald langhunda Davíðs og Jóns Baldvins um forsetaembættið er að upplýsa okkur um, að berin séu súr.Jónas Kristjánsson

DV

Lyfjanotkun hefnir sín

Greinar

Eyðni var uppgötvuð snemma á níunda áratugnum og hefur farið sem logi yfir akur. Tæplega fimmtán árum síðar eru 20 milljónir manna þjáðar af sjúkdómnum og ein milljón lézt úr honum árið 1995, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Alþjóðlegu heilbrigðisstofnuninni.

Það er fyrst á þessu ári, að vonir eru að vakna um, að fundizt hafi lyf, sem haldi eyðni niðri eða fresti framgangi hennar. Hinn langi tími, sem leið í þessu tilviki frá tilkomu nýs sjúkdóms til fyrstu skrefanna í lyfjameðferð gegn honum er þó engan veginn neitt einsdæmi.

Smitandi blæðingarhiti, sem nefndur er ebola, uppgötvaðist árið 1977 og hefur farið hægar yfir. 245 manns í Saír dóu úr þeim sjúkdómi í fyrra. Engin ráð hafa enn fundizt gegn honum. Ekki heldur gegn krabbameinsvaldandi C-lifrarveiru, sem kom í ljós árið 1989.

Einnig hafa gamlir sjúkdómar verið að birtast í nýjum og hættulegri myndum en áður. Til dæmis eru tvær lungnabólguveirur, ennfremur malaríuveirur og berklaveirur farnar að birtast í útgáfum, sem þola lyf. Harðgerðar veirur uppgötvast hraðar en ný lyf eru fundin upp.

Kólera og gula eru farin að stinga upp kollinum á svæðum, sem áður voru talin hrein af þessum sjúkdómum. Að öllu samanlögðu eru sjúkdómar farnir að snúa vörn í sókn að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar, sem varar í skýrslunni við ótæpilegri lyfjagjöf.

“Við stöndum á brún hengiflugs í smitsjúkdómum,” segir Hiroshi Nakajima, forstjóri stofnunarinnar í heilbrigðisskýrslu ársins 1996. Hann segir þrjátíu banvæna sjúkdóma hafa litið dagsins ljós á síðustu tveimur áratugum og býst við að enn aðrir eigi eftir að koma í ljós.

Athuglisverðast við skýrsluna er áherzlan, sem þar er lögð á, að ofnotuð lyf eigi mikinn þátt í vandræðunum. Fúkalyf, sem rjúfa ónæmiskerfi líkamans, eru að mati stofnunarinnar notuð “af of mörgum, gegn röngum sjúkdómum, í röngu magni og í rangan tíma”.

Mikil notkun fúkalyfja til framleiðsluaukningar í landbúnaði hefur magnað vandann. Hún framkallar lyfjaþolna gerla, sem enda á borðum neytenda og brjóta niður ónæmiskerfi þeirra. Þannig hefnist okkur fyrir misnotkun náttúrunnar alveg eins og misnotkun lyfjanna.

Við þekkjum mörg dæmi um, að lyf og eiturlyf eru oft sami hluturinn, bara í mismunandi magni. Þannig má flokka alkóhól, nikótín, koffín og sykur. Og hér á landi er alþekkt, að margir fíklar sækjast meira eftir lyfseðlum en öðrum leiðum til að komast í vímu.

Hversdagsleg lyf eru ekki síður hættuleg en alkóhól, nikótín, koffín eða sykur. Þeir, sem hafa vald til að dreifa lyfjum = eiturlyfjum, þurfa að fara miklu varlegar í sakirnar en nú er gert. Lyfjagjöf á að vera algert neyðarúrræði, en ekki það fyrsta, sem mönnum dettur í hug.

Ekki er nóg með, að læknar og aðrir dreifingaraðilar lyfja raski efnafræðilegu jafnvægi sjúklinganna, heldur stuðla þeir að stökkbreytingum sýkla yfir í hættulegri útgáfur, sem valda einnig vandræðum öllum hinum, er forðast bæði lyf og eiturlyf sem framast er kostur.

Þegar Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin hefur kveðið fast að orði í skýrslu ársins 1996, má vænta þess, að landlæknir og yfirmenn heilbrigðismála taki fastar á lyfjanotkuninni en hingað til hefur verið gert og hafi að leiðarljósi, að öll lyfjanotkun er í rauninni misnotkun.

Einnig þarf að stöðva fjárhagslegan vítahring, er felst í, að á hverju ári koma fram ný og ofsadýr lyf, sem sjálfvirkt hækka sjúkdómakostnað þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hinn ósvífnasti allra

Greinar

Paolo Berlusconi, bróðir Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, afplánar nú hálfs þriðja árs dóm fyrir spillingu í þágu fyrirtækja bróður síns. Sjálfur er Silvio Berlusconi oft í yfirheyrslum hjá rannsóknardómurum og á yfir höfði sér ótal ákærur af slíku tagi.

Berlusconi eignaðist fyrst peninga í verktakabransanum, sem á Ítalíu hefur löngum byggzt á mútum. Síðan lenti hann í vinfengi við Bettino Craxi, leiðtoga ítalskra jafnaðarmanna og löngum forsætisráðherra. Af honum þáði Berlusconi fyrsta sjónvarpsleyfið í landinu.

Craxi er nú í útlegð í Norður-Afríku á flótta undan réttvísinni og getur ekki snúið til Ítalíu aftur, því að þar bíður hans að afplána dóma fyrir margvíslega og geigvænlega spillingu, sem hann stóð fyrir sem forsætisráðherra á sínum tíma. Hann er orðinn ærulaus maður.

Pilsfaldakapítalistinn Berlusconi blómstraði hins vegar. Hann notaði sjónvarpsleyfið frá Craxi til að byggja upp fjármálaveldi, sem hefur haft greiðan aðgang að fjármagni hjá sumum bönkum og lánastofnunum og skuldar nú sem svarar 170 milljörðum íslenzkra króna.

Á uppstigningardag handtók lögreglan fimm helztu stjórnendur fjármálaveldis Berlusconis og gaf út handtökuskipanir á tvo aðra, sem ekki fundust. Þeir eru sakaðir um skjalafalsanir og mútur. Þar með eru taldar greiðslur til Craxis og til skattalögreglunnar á Ítalíu.

Rannsóknin á umsvifum Berlusconis nær til annarra landa. Í apríl gerði svonefnd stórsvikadeild brezku lögreglunnar húsleit í London og gerði upptæka fimmtán skjalapakka á vegum fjármálaveldis Berlusconis. Á Spáni er verið að rannsaka kaup á sjónvarpsstöð.

Berlusconi fór út í stjórnmál á sínum tíma til að vernda umsvif sín. Hann beitti fyrir sig öflugu fjölmiðlaveldi sínu, fékk um fjórðung þingsæta í kosningunum fyrir rúmlega tveimur árum og varð forsætisráðherra. Hann notaði völd sín til að hreiðra betur um fyrirtæki sín.

Meðal annars gaf hann út ólöglega tilskipun um, að 2000 fjárglæframönnum yrði sleppt úr gæzluvarðhaldi. Ennfremur þrýsti hann sínum mönnum inn í helztu áhrifastöður samkeppnisaðilans, ríkissjónvarpsins á Ítalíu. Hann reyndi líka að skrúfa fyrir rannsóknardómara.

Sem betur fer varð Berlusconi skammlífur í embætti. Við tóku hlutlausar embættismannastjórnir, sem létu hann ekki vaða yfir sig. Síðan var kosið aftur í vor og þá náðu aðrir samkomulagi um myndun ríkisstjórnar án þátttöku Berlusconis og flokks hans, Áfram Ítalía.

Eigi að síður tókst Berlusconi að ná næstum því sama fylgi í kosningunum og hann hafði náð tveimur árum áður. Í millitíðinni hafði þó það gerzt, að öllum Ítölum átti að vera orðið ljóst, að hann hefur allan tímann verið að reyna af alefli að skara eld að eigin köku.

Hér í blaðinu var fyrir tveimur árum lýst furðu á, að Ítalir skyldu styðja þennan gerspillta mann í stjórnmálum. Sú furða er enn meiri núna, þegar miklu meira er vitað um feril hans, en hann endurnýjar samt fylgi sitt. Sú staðreynd er áfellisdómur yfir ítölskum kjósendum.

Stundum er kvartað um, að Íslendingar séu tæpast með réttu ráði, þegar þeir velja sér stjórnmálaleiðtoga. Fávísi okkar í stjórnmálum er þó hreinn barnaleikur við dálæti Ítala á pilsfaldakapítalista, sem hefur öðlast allt sitt peningavald með söfnun skulda, mútum og fölsunum.

Þótt forstjórar hans og bróðir sitji inni og höfuðpaurinn sitji sjálfur á tímasprengju, heldur hinn ósvífni tækifærissinni áfram að faðma þjóðarhjartað í sjónvarpi sínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Losaralegt ráðuneyti

Greinar

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu í utanríkisráðuneytinu sýnir, að hvort tveggja var rétt, sem sagt var hér og í öðrum fjölmiðlum á sínum tíma, að starfshættir ráðuneytisins væru of losaralegir og hefðu versnað í ráðherratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Í sex skipti af fjórtán hafði ráðherrann frumkvæði að skipun embættismanna, þar af sumra án menntunar eða reynslu og án hæfnisflokkunar í ráðuneytinu. Þekktasta dæmið er skipun búksláttarfræðings sem sendifulltrúa og síðan eins konar viðlagasendiherra í London.

Sumt af göllum ráðuneytisins er gamalkunnugt. Sendiherrar hafa ekki skýr fyrirmæli um störf og stefnu, heldur móta hver starf sitt að töluverðu leyti að eigin höfði. Þegar þeir eru leystir af, eru ekki til skýr fyrirmæli um verksvið og verkefni þeirra heima í ráðuneytinu.

Einnig kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að sendimenn erlendis tregðast við að koma heim til starfa í ráðuneytinu, af því að þá missa þeir skattfrjálsar staðaruppbætur, sem eru breytilegar og geta verið miklar. Sumir sendimenn ílendast hreinlega erlendis.

Risna sendiráðanna beinist í of miklum mæli inn á við. Sendiráðin leggja sig fram um að gera vel við gestkomandi stjórnmála- og embættismenn að heiman, þótt sú risna gagnist ríkinu ekki út á við. Hana má minnka án þess að það komi niður á hagsmunum ríkisins.

Ekki kemur fram í skýrslunni, að töluvert af þeirri risnu, sem snýr að erlendum aðilum, gagnast ríkinu ekki heldur. Þar er um að ræða hefðbundinn sirkus, sem hefst, þegar nýr sendiherra kemur í borgina og þarf að þiggja hjá og veita öllum sendiherrunum, sem fyrir eru.

Fræg er skýrsla, sem sendiherra Íslands í Bretlandi gaf einu sinni um afhendingu trúnaðarbréfs sem sendiherra í Indlandi. Hún fór víða og var höfð í flimtingum, því að sendiherrann fór einlæglega og að tilefnislitlu gegnum allan risnuferilinn fyrir milljónir króna.

Ekki kemur fram í skýrslunni, að staðsetning sendiráða er sumpart tilviljanakennd og sumpart sagnfræðileg. Við höfum til dæmis ekkert sendiráð í Japan, sem er mikilvægt viðskiptaríki okkar, en aftur á móti sendiráð í Kína, þar sem viðskipti eru lítil og léleg.

Æskilegt væri að nota skýrslu Ríkisendurskoðunar til að stokka upp sendiþjónustu ráðuneytisins. Að svo miklu leyti, sem um er að ræða hversdagslega þjónustu við Íslendinga í útlöndum, er unnt að nýta betur ágætt kerfi kjörræðismanna, sem er ódýrt í rekstri og gefst vel.

Ræðismenn Íslands eru oft auðugir menn, sem geta rekið skrifstofu á eigin kostnað, en fá í staðinn virðingarstöðu, sem veitir þeim aðgang að samkvæmum fína fólksins á viðkomandi stað. Þetta er þægilegt fyrirkomulag, þegar Íslendingar þurfa aðstoð í útlöndum.

Raunveruleg sendiráð þurfum við fyrst og fremst í löndum, þar sem við eigum mikilla hagsmuna að gæta, oftast vegna fjölþjóðlegra stofnana, sem við þurfum að vera í nánu sambandi við. Lykilstaðir af því tagi eru Brussel, Genf og París, þar sem framtíð Evrópu ræðst.

Við neyðumst af sagnfræðilegum ástæðum til að hafa lágmarkssendiráð á Norðurlöndum og við verðum vegna mikilla viðskiptahagsmuna að hafa sendiráð í Þýzkalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Ekki er því unnt að fækka sendiráðum okkar neitt, sem heitið geti.

Kostnaður utanríkisþjónustunnar mundi nýtast betur með nýjum reglum og áherzlum, svo og með því að ófyrirleitnir ráðherrar trufli ekki gangverk hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Lærum af Ísfirðingum

Greinar

Stjórnmálamenn gömlu flokkanna og nýrra samfylkinga gömlu flokkanna á sameinuðum Ísafirði eru ekki verri en aðrir stjórnmálamenn í landsmálum eða sveitarfélagamálum þjóðarinnar. Samt eiga þeir skilið rassskellingu fönklistans í kosningunum um síðustu helgi.

Eins og aðrir hefðbundnir stjórnmálamenn í landinu eiga þeir gömlu ekkert erindi í valdastóla. Þeir eru hugmyndafræðilega innantómir framagosar eins og aðrir hefðbundnir stjórnmálamenn í landinu. Þeir eru gamalkunna tegundin, sem hefur gert þjóðina fátækari.

Við hressumst við að sjá ungt framhaldsskólafólk skáka hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum og nýjum samfylkingum þeirra. Við spyrjum, hvað sé hægt að gera á landsvísu, úr því að hægt er að ná mörg hundruð manna stuðningi og tveimur bæjarfulltrúum á Ísafirði.

Íslenzkir kjósendur hafa hagað sér aumlega á undanförnum áratugum. Þeir hafa vísvitandi kosið yfir sig ömurlega gasprara og vilja gera einn slíkan að forseta lýðveldisins. Sigur fönklistans á Ísafirði er ljós í þessu sameinaða svartnætti kjósenda og stjórnmálamanna.

Oftast hefur ástandið verið svo slæmt, að menn andvarpa og segja ekkert geta bjargað þjóðinni, nema skipt verði um kjósendur fyrst. Raunar er ótrúlegt, hvað íslenzkir kjósendur hafa leyft stjórnmálaflokkum og pólitíkusum að komast upp með áratugum saman.

Við erum að dragast aftur úr nágrannaþjóðunum og stéttaskipting er um leið að aukast innanlands. Fólk hefur í vaxandi mæli verið að flýja til útlanda frá lágtekjunum og stéttaskiptingunni, sem hér á landi stafa eingöngu af mannavöldum, en ekki af slökum gæðum landsins.

Eymdarbotn landsins er í sölum Alþingis, þar sem leikarar fara hamförum í ræðustóli, láta eins og þorpsfífl, semja ferskeytlur og haga sér eins og þeir séu gersamlega úr sambandi við umhverfið. Þeir blaðra klukkustundum saman án þess að finna kjarna neins máls.

Á Alþingi og í ríkisstjórn er talað um allt milli himins og jarðar og samdar um það ferskeytlur, en hvergi minnst orði á neitt sem máli skiptir, svo sem viðbrögð Íslendinga við óðfluga efnahagssamruna Evrópu og um stöðu landsins í breyttri heimsmynd 21. aldar.

Þegar tölvur og sími eru að búa til nýja tegund af upplýsingaþjóðfélagi og framleiða óendanlega athafnamöguleika á nýjum sviðum, efna stjórnmálamennirnir til hverrar nefndarinnar á fætur annarri til að skoða málið og framleiða um það doðrant á doðrant ofan.

Ekkert skortir á umfjöllun um upplýsingahraðbrautina, nema að ráðherrar yrki um hana fleiri ferskeytlur. Hins vegar er ekki gert það, sem gera þarf. Ekki er séð um, að bandvídd þessarar brautar sé á hverjum tíma mun rýmri en sem svarar notkun líðandi stundar.

Núverandi stjórnmálamenn eru upp til hópa ófærir um að búa þjóðina undir 21. öldina. Hingað til hefur verið talið, að þetta væri tröllheimskum kjósendum að kenna, umbjóðendum stjórnmálamanna. En glætan frá Ísafirði sýnir, að kjósendum er ekki alls varnað.

Íslenzkir kjósendur þurfa að læra af Ísfirðingum. Þeir þurfa að muna eftir pólitískum afglöpum umboðsmanna sinna og byrja að rjúfa sauðtryggð sína við hina hefðbundnu stjórnmálaflokka og forustumenn þeirra. Þeir þurfa að fara að gera tilraunir í stjórnmálum.

Þegar búið er að skipta út stjórnmálaflokkunum og pólitíkusunum er loksins komin forsenda þess, að unnt verði að lifa vel í landinu á 21. öldinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfskaparvíti?

Greinar

Til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu hefur verið nefndur sá kostur, að reykingafólk greiði fyrir heilbrigðisþjónustu vegna reykingasjúkdóma á borð við lungnakrabbamein. Slíkir sjúkdómar séu sjálfskaparvíti reykingamanna. Fólk eigi að taka ábyrgð á heilsu sinni.

Þótt reykingar séu að nokkru leyti sjálfskaparvíti og þótt fólk eigi að taka aukna ábyrgð á heilsu sinni, hefur mál þetta miklu fleiri hliðar. Í fyrsta lagi er það margvísleg önnur hegðun en reykingar, sem veldur sjúkdómum og getur á sama hátt flokkazt sem sjálfskaparvíti.

Afleiðingar sykurneyzlu og ofáts af völdum hennar eru sennilega dýrari þáttur heilbrigðiskerfisins en afleiðingar tóbaksneyzlu. Ef reykingafólk á að borga fyrir sína sjúkdóma, er ekki síður ástæða til að láta sykurætur borga fyrir þá menningarsjúkdóma, sem þær fá.

Einnig má nefna áfengisneyzlu, sem að hluta til kann að vera sjálfskaparvíti á borð við sykurát og tóbaksneyzlu. Raunar kom Guðmundur Árni Stefánsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, fyrstur fram með þá hugmynd, að áfengissjúklingar borguðu fyrir sig.

Engan sérstakan greinarmun er hægt að gera á sjálfskaparvíti í notkun tóbaks, sykurs eða áfengis. Sjálfskaparvítið er aðeins þáttur málsins. Fólk er mismunandi næmt fyrir sjúkdómum, sem þessi þrjú fíkniefni valda. Sumir standast neyzlu þeirra, en aðrir ekki.

Að töluverðu leyti gera líkamlegar ástæður fólk misjafnlega næmt fyrir þessum sjúkdómum. Líkamlegu ástæðurnar eru að umtalsverðu leyti arfgengar, svo sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum á eineggja tvíburum, sem alast upp í mismunandi umhverfi.

Spurningin í framhaldi af þessu er þá, hvort refsa beri fólki fyrir að bera í sér arfgengar og líkamlegar forsendur þess, að það reykir, borðar eða drekkur sér til skaða. Það er siðferðileg spurning, sem tæpast er hægt að svara öðruvísi en algerlega neitandi.

Ekki má gleyma, að öll þessi efni, sykur, áfengi og tóbak, eru hættuleg fíkniefni eins og raunar ýmis fleiri efni, sem eru í daglegri og löglegri notkun. Fólk, sem ánetjast þeim, losnar ekki við þau, þótt það sé að öðru leyti viljasterkt fólk, eins og ótal dæmi sanna.

Í öðru lagi yrði greiðslukerfið ákaflega flókið og dýrt. Hvernig á að meta, hve mikils sykurs sjúklingurinn hefur neytt um ævina eða hversu mikils áfengis eða hversu mikið hann hefur reykt og hve lengi? Á fiktarinn að sitja við sama borð og stórreykingamaðurinn?

Auðvelt er að sjá fyrir sér skriffinnskuna, sem færi í að meta í hverju tilviki, hvort sjúklingur teldist að nægilega miklu leyti hafa bakað sér sjúkdóm sinn af eigin hvötum eða hvort arfgeng áhrif, önnur líkamleg áhrif eða illviðráðanleg umhverfisáhrif væru þyngri.

Þetta er hvorki siðleg né vitræn aðferð við að efla ábyrgð fólks á eigin heilsu og draga úr kostnaði heilbrigðismála. Nærtækara er að halda áfram á sömu braut og hingað til hefur verið gert, láta fólk borga meira fyrir vöruna, en láta tekjurnar renna til heilbrigðismála.

Sykur og sykurlíki, áfengi, tóbak og tóbakslíki á að skattleggja dýrum dómum og nota tekjurnar annars vegar til áróðurs og forvarna og hins vegar til lækninga. Tóbak og áfengi er raunar þegar skattlagt, en sykur, sykurlíki og sykraðar vörur hafa hingað til sloppið.

Eyrnamerktir skattar á fíkniefni eru eina leiðin til að afla fjár til að draga úr fjölda fíklanna og til að greiða kostnað hins opinbera af sjúkdómum fíklanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæpalýður fer sínu fram

Greinar

Tollvörður, sem er sérfróður í fíkniefnaleit, var barinn til óbóta af fjórum þekktum fíkniefnamönnum á fimmtudagskvöldið, svo sem sagt var frá í DV í gær. Tollgæzlan kærði málið ekki og lætur eins og ekkert hafi gerzt. Yfirmenn hennar hafa ekki viljað tjá sig um málið.

DV hefur að undanförnu einnig greint frá skemmdarverkum á persónulegum eigum tollvarða. Einnig hafa fíkniefnamenn að undanförnu haft í hótunum við tollverði og fíkniefnalögreglumenn, svo og fjölskyldur þeirra. Embættiskerfið hefur ekkert gert í málunum.

Tollstjóraembættið í Reykjavík varð hins vegar við kröfu fjármálaráðherra um að kalla á teppið nokkra tollverði, sem höfðu skýrt fjölmiðlum frá áhugaleysi embættisins í fíkniefnavörnum. Þannig er sótt að vörðum laganna úr báðum áttum, neðan frá og ofan.

Ekki er von að vel gangi í viðureigninni við fíkniefni, þegar við völd eru embættismenn á borð við tollstjórann í Reykjavík og fjármálaráðherrann, sem óbeint vinna með fíkniefnamönnum að því að hræða tollverði til að hætta að trufla nærri óheftan innflutning fíkniefna.

Svo áhugalaust er kerfið um fíkniefnavarnir, að ekki er lögð nein áherzla á að þefa uppi fíkniefni í tollpósti, þótt vitað sé að umtalsverður hluti fíkniefna komi þá leið inn í landið. Ennfremur hefur ekki tekizt að taka fíkniefni á Keflavíkurflugvelli síðan í febrúar.

Svo áhugalaust er kerfið um fíkniefnavarnir, að nýlega var erlendu burðardýri fíkniefna sleppt lausu og það rekið úr landi. Burðardýrið var vinsamlega beðið um að gefa sig fram í heimalandinu. Þar með voru þau skilaboð send, að áhættulítið sé að flytja hingað fíkniefni.

Allir, sem til þekkja, segja, að óbreytt framboð sé á flestum tegundum fíkniefna, svo sem hassi, amfetamíni og harðari efnum. Lítill afrakstur fíkniefnaleitar er því ekki merki þess, að markaðurinn sé að dragast saman, heldur merki slakrar frammistöðu ríkisvaldsins.

Ísland ætti að vera óskaland fíkniefnaleitar. Landið á engin landamæri með öðru ríki. Innflutningsleiðir fíkniefna eru því tiltölulega fáar og varnir tiltölulega auðveldar. Samt fljóta fíkniefni um landið í nokkurn veginn eins miklum mæli og markaðurinn framast þolir.

Þjóðfélagið breytist hratt við þetta og líkist meira undirheimahverfum stórborga í Ameríku og þriðja heiminum. Þetta lýsir sér meðal annars í auknum líkamsárásum. Sölumenn lemja tollverði og fíkniefnaneytendur ráðast tilefnislaust á þá, sem verða á vegi þeirra.

Fyrir skömmu réðist hópur manna inn í óviðkomandi heimahús og misþyrmdi tveimur mönnum þar að tilefnislausu. Um svipað leyti réðist hópur manna tilefnislaust á mann á götu og skildi eftir meðvitundarlausan. Einnig var ráðizt á pizzusendil, sem vildi fá pizzuna borgaða.

Sameiginlegt einkenni allra þessara mála, hvort sem fórnardýrin eru óviðkomandi fólk eða leitarfólk, er, að ríkið sinnir ekki þeirri frumskyldu sinni og helztu afsökun tilveru sinnar að gæta öryggis borgaranna. Samt er ríkið að öðru leyti með nefið í hvers manns koppi.

Árásin á tollvörðinn á fimmtudagskvöldið markar þau tímabót, að spírallinn er kominn niður í gólf. Hér eftir munu fíkniefnamenn hafa sína hentisemi og haga sér eins og þeim þóknast, með óbeinum stuðningi æðstu embættismanna, sem vilja ekki heyra staðreyndir.

Ástandið er fáránlegt og ástæðulaust í senn. Það er út í hött, að þjóðfélag á menningarstigi Íslands þurfi að þola stjórnmála- og embættismönnum þessa eymd.

Jónas Kristjánsson

DV

Norræni útkjálkinn

Greinar

Ein stærsta fréttastofa heims er Reuter, sem meðal annars er allsráðandi í erlendum fréttum á Íslandi, enda gamalkunn af vönduðum fréttum. Hún hafði í gær ekki enn minnzt einu orði á miðvikudagsfréttina, sem sett hefur pólitíska umræðu í Noregi á annan endann.

Reuter telur ekki taka því að dreifa þeirri frétt um heiminn, að á miðvikudaginn var dreift skýrslu rannsóknarnefndar norska stórþingsins, þar sem fram kemur, að leyniþjónustan og Verkamannaflokkurinn unnu saman að persónunjósnum um tæplega 50.000 manns.

Þetta jafngildir því, að ímynduð leyniþjónusta á Íslandi og Sjálfstæðisflokkurinn ynnu saman að njósnum um 2.500 Íslendinga frá 12 ára aldri og upp að níræðu. Símtöl þessa fólks væru hleruð samkvæmt skrá, sem samin hefði verið af flokksstarfsmönnum í Valhöll.

Auðvitað fara menn hamförum í Noregi út af þessum uppljóstrunum, sem hljóta að vekja grunsemdir um, að framkvæmdastjóri Verkamannaflokksins á þessum tíma, Haakon Lie, þekktur stjórnmálamaður langt út fyrir landsteina, hafi tæpast verið með öllum mjalla.

Reuter telur líklega mál þetta vera storm í vatnsglasi, ekki vegna þess að það sé efnislega ómerkilegt, heldur vegna þess að Noregur sé hálfgert vatnsglas, sem komi umheiminum lítið við. Hin æpandi þögn Reuters segir sögu um hvarf Norðurlanda úr alþjóðlegri umræðu.

Fyrir nokkrum áratugum var Norðurlanda oft getið í þeim fjölmiðlum, sem mestu ráða um alþjóðlega umræðu. Þau voru að ýmsu leyti talin vera þjóðfélög til fyrirmyndar, byggð forríkum þjóðum, sem tekizt hefði að sameina markaðshyggju og velferðarstefnu.

Þótt heldur hafi dalað geta Norðurlandaþjóða til að standa undir villtustu útgáfum velferðarstefnunnar, eru þær enn með ríkustu þjóðum heims. Ekkert hefur komið fram, sem bendir til, að þjóðfélagsgerðin sem slík hafi mistekizt, þótt henni hafi slegið í öfgar á köflum.

Umheimurinn hefur hins vegar misst áhugann á þessu. Hann lítur á Norðurlönd sem hálfgert elliheimili auðugs fólks, þar sem tíminn líði án þess að neitt gerist í raun og veru. Eða eins og stöðuvatn, þar sem enginn vindur er til að gára atburðalausan hversdagsleika.

Ef Norðurlanda er getið, er það helzt í gríni. Eitt alvörugefnasta blað í heimi, Economist, spottaðist fyrir nokkrum árum að norrænu samstarfi, sem blaðið sagði einkennast af sífelldum þeytingi stjórnmála- og embættismanna á samnorræna fundi, sem ekkert kæmi út úr.

Blaðið sagði, að í norrænu samstarfi væri unnið að 2000 verkefnum fyrir alls 7,7 milljarða króna, þar sem fjallað væri um allt niður í varðveizlu leðurhúsgagna. Þetta kæmi helzt flugfélaginu SAS að gagni, því að dýra farrýmið væri fullt af norrænum embættismönnum.

Norðurlönd hefðu hins vegar ekki getað lækkað tolla sín í milli fyrr en Austurríkismenn og Svisslendingar komu til skjalanna í Fríverzlunarsamtökunum. Þannig séu Norðurlönd ófær um að vinna að framtíðarhagsmunum sínum, en þeim mun iðnari við samnorrænar veizlur.

Síðan Economist birti þetta hafa Svíar og Finnar gengið í Evrópusambandið og mæna með Dönum í átt til Brussel. Þessi þrjú ríki hafa misst áhuga á norrænu samstarfi, þótt þau fari til málamynda gegnum formsatriði þess. Norænt samstarf er í andaslitrunum.

Botninn fannst, þegar stormur í vatnsglasi Noregs, eitt stærsta persónunjósnamál Vesturlanda, varð ekki tilefni neðanmálsgreina í alþjóðlegum fjölmiðlum.

Jónas Kristjánsson

DV