Greinar

Einkavinavæðingin

Greinar

Dómsmálaráðherra hefur afhent laxveiðivinum sínum og einkavinum flokksins neyðarlínu landsins að gjöf. Einkavinavæðing þessi fór fram án nokkurs útboðs og kostar skattgreiðendur nokkra tugi milljóna króna á hverju ári. Þetta eru dæmigerð íslenzk vinnubrögð.

Ekki kemur á óvart, að dómsmálaráðherrann er sami maðurinn og sjávarútvegsráðherrann, sem einkavæddi síldar- og fiskimjölsverksmiðjur ríkisins með því að brjóta hverja einustu málsgrein í alþjóðlegum stöðlum um útboð. Þetta er auðvitað Þorsteinn Pálsson.

Tilboðin í verksmiðjurnar voru opnuð í kyrrþey og strax ákveðið að hafna því tilboði, sem hæst var og bauð staðgreiðslu. Á þeim tveimur árum, sem síðan eru liðin, hefur svo skýrt komið í ljós, hversu lágt verðið var, að til greina hefur komið að skattleggja mismuninn.

Með ósvífinni framkvæmd einkavinavæðingarinnar hefur dóms- og sjávarútvegsráðherra haft hundruð milljóna króna af skattgreiðendum, sem láta sér þetta vel líka, þegar þeir sem kjósendur taka til við að endurkjósa alla spilltustu stjórnmálamenn og -flokka landsins.

Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eiga það sameiginlegt með ráðherrum næstu ríkisstjórnar þar á undan, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, að reka landið eins og bananalýðveldi í Mið-Ameríku. Um það vitnar miðstýringaráráttan.

Ísland er það land í heiminum, þar sem mesti peningasukkari stjórnmálanna er verðlaunaður með því að gera hann að seðlabankastjóra. Þetta er líka eina vestræna ríkið, þar sem helztu bankar þjóðarinnar eru eign ríkisins og reknir af útbrunnum kjaftöskum úr pólitíkinni.

Þegar önnur ríki einkavæða ríkisrekstur, eru málin vandlega unnin og þess gætt, að sannvirði fáist fyrir söluna. Hér reyna ráðamenn hins vegar að koma í veg fyrir einkavæðingu og framkvæma hana síðan sem einkavinavæðingu, ef þeir telja sig tilneydda til athafna.

Flokkarnir sérhæfa sig sumir hverjir í einstökum tegundum spillingar. Alþýðuflokkurinn er sérfræðingur í einkavinavæðingu opinberra embætta. Sjálfstæðisflokkurinn er sérfræðingur í einkavinavæðingu í þágu stórfyrirtækjanna, sem kosta þungan rekstur flokksins.

Framsóknarflokkurinn sérhæfir sig ekki, heldur stundar allar tegundir spillingar jöfnum höndum. Hann hefur náð flokka lengst í að fjarlægjast stefnur og sjónarmið og hefur löngum verið rekinn eins og hrein valdamaskína án nokkurs málefnalegs innihalds.

Samkvæmt skoðanakönnunum láta kjósendur sér þetta allt vel líka. Núverandi stjórnarsamstarf er vinsælt, þótt það feli ekki í sér neitt málefnalegt innihald, heldur sé ekkert annað en tært hagsmunabandalag um skiptingu valds til skömmtunar á spillingu.

Dæmigert fyrir vel heppnaða ósvífni valdhafanna er að taka erlenda hugmyndafræði einkavæðingar og snúa út úr henni í formi hinnar séríslenzku einavinavæðingar og segjast vera að framkvæma það, sem sé í tízku í útlöndum um þessar mundir. Ekkert er raunar fjær sanni.

Enginn vafi er á, að dómsmálaráðherra kemst upp með að gefa laxveiðivinum sínum og einkavinum flokksins neyðarþjónustu landsins í þakklætisskyni fyrir stuðning við sig og fjárhagslegan stuðning við flokkinn. Kjósendur hafa ekki rekið upp nein stór augu vegna þessa.

Raunar er tilgangslítið að tuða um þetta. Kjósendur fá einfaldlega nákvæmlega þá valdhafa, sem þeir eiga skilið, þar á meðal dóms- og sjávarútvegsráðherra.

Jónas Kristjánsson

br>
DV

Hverful pólitík

Greinar

Fylgi er fallvalt í nútímanum. Við sjáum það vel af miklu skyndifylgi Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur, sem náði yfir fjórðungs fylgi í skoðanakönnunum nokkrum mánuðum fyrir síðustu kosningar, en var komið á niðurleið í kosningunum og er núna nærri horfið.

Enn skarpari skil sjáum við sums staðar í erlendum stjórnmálum. Kanadíski íhaldsflokkurinn hrapaði í einum kosningum úr því að vera ríkisstjórnarflokkur landsins niður í tvo þingmenn. Það kemur þó ekki í veg fyrir, að flokkurinn geti risið til valda á nýjan leik.

Hvergi eru þessar sveiflur tíðari en í Bandaríkjunum. Þær eru lærdómsríkar, af því að breytingar á þeim bæ hafa stundum forspárgildi um breytingar á öðrum stöðum á öðrum tímum. Það er svo margt, sem gerist fyrst í Bandaríkjunum og endurómar síðar um allan heim.

Á síðustu áratugum hefur forsetum Bandaríkjanna reynzt erfitt að ná endurkjöri til síðara kjörtímabils. Johnson forseti var svo illa stæður í skoðanakönnunum, að hann hætti við að reyna. Carter forseti féll fyrir Reagan og Bush forseti féll nú síðast fyrir Clinton.

Fylgissveiflur forseta eru orðnar svo krappar í Bandaríkjunum, að þær endast þeim ekki til tveggja kjörtímabila, nema við sérstakar aðstæður. Fylgissveiflur frambjóðenda til forseta eru enn krappari. Og athyglisverðastar allra eru fylgissveiflur sjónarmiðanna að baki.

Þegar Clinton náði kjöri, mátti reikna með tímabili fráhvarfs frá markaðssinnaðri efnahags- og fjármálastefnu Reagans, sem hafði einkennt fyrra tímabil. Þetta fráhvarf gerðist ekki, heldur varð frjálshyggja öflugri í næstu þingkosningum en hún hafði verið um langt skeið.

Í rúmt ár hefur Gingrich þingforseti gefið tóninn og ýtt forsetanum í vörn. Þingið hefur samþykkt mörg lagafrumvörp, sem miða að minni umsvifum ríkisins, einkum í velferðarmálum. Forsetinn hefur neitað að staðfesta sum þeirra og leitað málamiðlana af ýmsu tagi.

Forseti, er náði kjöri sem velferðarsinni, einkum í heilbrigðismálum, hefur mátt sæta því, að kjörtímabil hans hefur einkennzt af samdrætti velferðar, einkum í heilbrigðismálum. Sveifa samdráttarstefnu í ríkisafskiptum kom snögglega og breytti stöðunni á skákborðinu.

Ætla mætti, að hin harða markaðshyggja Gingrich þingforseta væri svo öflug um þessar mundir, að forsetaefni repúblikana reyndu að flagga sem mest svonefndum Sáttmála við Bandaríkin, sem hann lét semja. En frambjóðendurnir forðast að nefna þennan sáttmála.

Forsetaefnið Buchanan hefur breytt málefnastöðunni. Sjónarmið hans ganga þvert á markaðshyggju stórfyrirtækjanna, sem styðja sáttmála Gingrich. Buchanan ræðst á fyrirtæki, sem reka starfsfólk í sparnaðarskyni og boðar aukin ríkisafskipti í utanríkisviðskiptum.

Tæpast er hægt að hugsa sér lengra bil í stjórnmálum en milli Gingrich og Buchanan. Annars vegar er frjálshyggja og markaðshyggja Gingrich og hins vegar er ríkisafskipta- og miðstýringarstefna Buchanans, sem hefur heltekið hugi margra óbreyttra flokksmanna.

Þannig hefur markaðshyggja Gingrich tæpast haft tíma til að fagna sigri yfir velferðarhyggju Clintons, þegar ný miðstýringarstefna feykir markaðshyggjunni til hliðar. Kjósendur Buchanans munu margir fara yfir á Clinton, er þeirra maður nær ekki kjöri til framboðs.

Clinton mun líklega ná endurkjöri, af því að hans sveifla er komin til baka í tæka tíð. Tímasetningar á kröppum sveiflum eru orðnar aðalmál í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvalfjarðarsamtök

Greinar

Til marks um þýlyndi Íslendinga má hafa, að engin samtök grípa til varna gegn Hvalfjarðargöngum. Fólk tuðar gegn göngunum í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að göngin verði að einni helztu martröð þjóðarbúsins á næstu árum.

Á fjölmennum fundi verkfræðinga fyrir nokkru komu fram rökstuddar efasemdir um, að ráðagerðir um göng væru verkfræðilega frambærilegar. Talsmenn framkvæmdanna áttu mjög í vök að verjast á þeim fundi. Samt halda stjórnmálamenn áfram að styðja göngin.

Rangar eru fullyrðingar þeirra um, að ríkið muni hafa skattahag af dæminu. Beinar og óbeinar skattatekjur ríkisins af framkvæmdum og rekstri Spalar verða minni en þær tekjur, sem ríkið tapar af minni bensínnotkun vegna minni umferðar fyrir botn Hvalfjarðar.

Verkfræðilegar og hagfræðilegar mótbátur fagmanna gegn Hvalfjarðargöngum hafa engin áhrif á framvindu málsins. Aðstandendur þess í Speli hf. og í stjórnmálunum hafa kosið að hlusta ekki á neina gagnrýni og keyra málið fram í skjóli hinnar pólitísku verndar.

Fyrir tveimur árum laug formaður fyrirtækisins að þjóðinni: “Því hefur alltaf verið ljóst og út frá því gengið, að ef í þessa framkvæmd yrði ráðizt, þyrfti hún að fjármagnast af öðrum aðilum en ríkinu, án ríkisábyrgða, og endurgreiðsla kæmi af vegtolli af umferðinni.”

Nú er ríkisábyrgð á gatinu komin upp í heilan milljarð og á eftir að hækka, því að kostnaðaráætlun er komin í rúmlega hálfan fimmta milljarð og á eftir að hækka samkvæmt reynslu af slíkum göngum í útlöndum. Skattgreiðendur eru engan veginn búnir að bíta úr nálinni.

Fyrir tveimur árum lýsti samgönguráðherra, hverjar kostnaðartölur framkvæmdanna þyrftu að vera: “Þær séu innan þeirra arðsemismarka, að ekki þurfi að koma til ríkisábyrgðir, en umferðin greiði kostnaðinn við göngin.” Þessi sami samgönguráðherra er enn við völd.

Kostnaður skattgreiðenda af Hvalfjarðargöngum er að bólgna stjarnfræðilega. Fyrir tveimur árum styrkti ríkið könnun málsins með 50 milljóna króna láni og með 70 milljóna króna láni í fyrra. Nú er ríkisábyrgð komin upp í milljarð, sem örugglega fellur á ríkið.

Ef Íslendingar væru ekki þýlyndari en aðrar þjóðir, létu þeir ekki rugl af þessu tagi yfir sig ganga hljóðalaust. Stofnuð væru samtök til að gæta hagsmuna skattgreiðenda og vegfarenda til þess að berjast gegn því, að vandræðin yrðu meiri en þau eru þegar orðin.

Annað helzta baráttumál slíkra samtaka fælist í að reyna að hamla gegn því, að veittar verði frekari ríkisábyrgðir til framkvæmdanna. Hitt baráttumálið fælist í að reyna að stuðla að því, að vegurinn fyrir botn Hvalfjarðar fái eðlilegt viðhald og endurbætur.

Alþingismenn og ráðherrar, sem bera ábyrgð á málinu, munu vafalítið reyna að draga úr viðhaldi núverandi vegar fyrir botn fjarðarins og hindra, að vegurinn verði endurbættur að því marki, sem verið hefði, ef ekki þyrfti að vernda göngin gegn samkeppni.

Því meiri sem ábyrgð ríkisins verður á Hvalfjarðargöngum, þeim mun brýnna mun pólitískum umboðsmönnum gatsins þykja að þrýsta umferð landsmanna inn í það til að hafa meira upp í ört vaxandi kostnað, til dæmis með aðgerðum gegn þjóðveginum fyrir botninn.

Stofna þarf virk almannasamtök til að vernda viðhald og framkvæmdir við veginn fyrir botn Hvalfjarðar og hindra frekari ábyrgð skattgreiðenda á göngunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfisdurgar

Greinar

Komið hefur í ljós, að gjaldheimtustjórinn í Reykjavík og lögmaður gjaldheimtunnar kunna lítið fyrir sér í almennum mannasiðum og eru ekki nógu greindir til að leyna því á almannafæri. Ummæli þeirra hér í blaðinu benda til, að ekki sé allt með felldu í stofnuninni.

“Við höfum þetta í okkar hendi og þurfum ekkert að skýra það frekar, hvorki fyrir honum né öðrum, hvernig við stöndum að innheimtu opinberra gjalda.” Þannig svaraði lögmaðurinn mótbátum manns, sem hafði þolað fjárnám vegna peninga, sem hann hafði þegar greitt.

Yfirmaður stofnunarinnar kaus að draga ekki í land daginn eftir, þegar hann sagði: “Heyrðu, ef þú skilur þetta ekki, þá vil ég ekki útskýra þetta fyrir þér.” Hann telur sig greinilega óhultan í einu helzta virki skrifræðisins í landinu og ekki þurfa að skýra vinnubrögð þess.

Tilefni málsins var, að erfingjar dánarbús áttuðu sig ekki á, að dánarbúið breyttist í sameignarfyrirtæki með sérstökum eignarskatti, sem einstakir eignaraðilar voru ekki rukkaðir um, heldur dánarbúið sjálft. Eigendur áttuðu sig ekki á þessu fyrr en löngu eftir gjalddaga.

Þrír af átta erfingjum greiddu sinn hlut í þessum skatti. Boðaði Gjaldheimtan þá fjárnám í eignum eins hinna þriggja, sem greitt höfðu, af því að hún taldi hann betri borgunarmann fyrir skuldum hinna fimm, sem ekki höfðu greitt, heldur en þeir voru sjálfir.

Gjaldheimtustjóri og lögmaður gjaldheimtunnar segja þetta vera lögum samkvæmt. Hitt er ljóst, að vinnubrögðin stinga í stúf við almenna réttlætistilfinningu og kalla á, að stofnunin fari mildum höndum um málið. En hrokafullum embættismönnum er ekkert slíkt í huga.

Kerfisdurgaviðbrögð af þessu tagi hafa magnazt í tíð núverandi fjármálaráðherra, sem hefur misst af öllu sambandi við almenning í landinu og er orðinn að mesta kerfiskarli íslenzkra stjórnmála. Svo virðist, sem sumir embættismenn rækti hroka sinn í skjóli ráðherrans.

Illræmt var, þegar fjármálaráðherra heimtaði, að tollstjórinn í Reykjavík kallaði yfirmenn í tollgæzlunni á sinn fund og ávítaði þá fyrir að segja fjölmiðlum frá hörmulegum afleiðingum þeirrar ákvörðunar ráðherra og forstjóra að draga úr fíkniefnaleit í tollpósti.

Tollverðirnir voru þó ekki að gera annað en að gæta almannahagsmuna, sem eru æðri hagsmunum tollstjórans og fjármálaráðherrans, er urðu berir að vanrækslu í starfi. Tollverðirnir höfðu gegnt skyldu sinni gagnvart þjóðfélaginu, en tollstjóri og ráðherra alls ekki.

Hrokafull kerfiskarlaviðbrögð fjármálaráðherra og tollstjóra fengu sanngjarna útreið í umræðum á Alþingi. Þar kom greinilega fram, að ráðherranum var fyrirmunað að skilja, að hann lék þar hlutverk þess, sem heldur verndarhendi yfir ólöglögum fíkniefnainnflutningi.

Eftir stendur, að fjármálaráðherra hefur gert misheppnaða tilraun til að kæfa eðlilega umræðu um niðurskurð á fjárframlögum til fíkniefnaleitar í tollgæzlu og hefur ekki innsæi til að skynja, hvar hjarta kjósenda slær í einu allra erfiðasta vandamáli þjóðarinnar.

Embætti gjaldheimtustjóra og tollstjóra í Reykjavík eru grófustu dæmin um úrelta blöndu af hroka og getuleysi, sem stingur í stúf við nútíma viðhorf gagnvart innihaldi opinberrar þjónustu, er í vaxandi mæli sætir óhagstæðum samanburði við viðskiptavænan einkarekstur.

Bezta leiðin til úrbóta er að segja fremsta kerfiskarli fjármála ríkisins upp störfum og fá nýjan fjármálaráðherra, sem tekur litlu kerfisdurgana á teppið.

Jónas Kristjánsson

DV

Þolanlegt og skánandi

Greinar

Í nýju þjóðhagsspánni er sérstaklega tekið fram, að 2,4% hagvöxtur auðríkja heims í fyrra hafi valdið þeim vonbrigðum. Ekki er tekið neitt slíkt fram um 2% hagvöxt Íslands á sama ári, enda er alþekkt, að auðveldara er tala um vandamál annarra en sín eigin.

Í Vestur-Evrópu eru menn ekki ánægðir, ef árlegur hagvöxtur fer niður fyrir 3%. Í Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum Austur-Asíu setja menn mörkin við 4% og fjölyrða um stöðnunareinkenni Vestur-Evrópu. Ísland er utan þessa korts með árlegan hagvöxt upp á 2%.

Þjóðhagsstofnun spáir því að vísu núna, að íslenzkur hagvöxtur nýbyrjaðs árs muni aukast upp í evrópskan hægagang og verða 3%. Sú spá virðist raunhæf, af því að stórframkvæmdir eru að hefjast og mörg fyrirtæki hafa eflzt til fjárhagslegra áhlaupaverkefna.

Um nokkurra ára skeið hefur Ísland verið að dragast efnahagslega aftur úr nágrannalöndunum, enda finna menn það á sjálfum sér, að íslenzk lífskjör hafa staðið í stað og raunar versnað hjá sumum. Atvinnuleysi og landflótti hafa magnazt á þessum síðustu árum.

Einkum er það ungt fólk, sem flyzt af landi brott. Svo virðist sem fólk þurfi enga sérstaka þekkingu, aðeins viljann til að vinna, til að fá umsvifalaust atvinnu við fiskvinnslu í Danmörku, þar sem kaupið er tvöfalt það íslenzka og Íslendingar í góðu áliti sem starfsfólk.

Fiskvinnslufólkið í Danmörku dásamar mest að þurfa ekki að vinna nema venjulegan vinnudag til að hafa tekjur, sem áður fengust með botnlausri yfirvinnu á Íslandi. Það dásamar líka að geta fengið þak yfir höfuðið án þess að þurfa að setja allt líf sitt úr skorðum.

Ráðamenn Íslands og tryggustu kjósendur þeirra búa við annan raunveruleika en unga fólkið í landinu, sem dreymir um að flytjast af landi brott. Þeir hafa komið sér fyrir í lífinu, eiga skuldlítið húsnæði og hafa komið sér í störf, sem gefa meira af sér en kauptaxta.

Ráðamenn Íslands og tryggustu kjósendur þeirra eru sáttir við 2% hagvöxt, atvinnuleysi og landflótta. Þeir eiga landið og hirða af því arðinn. Unga fólkið lítur hins vegar misjöfnum augum á stöðu mála og möguleika sína. Og hluti þess hafnar fyrir sitt leyti ástandinu.

Það er dýrt að vera ungur á Íslandi. Matur kostar óeðlilega mikið, einkum sá, sem framleiddur er í landinu. Með innflutningshöftum og einokunarkerfi er árlega sóað milljörðum, sem nýtast hvorki til að bæta lífskjörin né til að auka hagvöxtinn upp í erlenda staðla.

Húsnæði er svo dýrt, að fólk getur ekki staðið undir því af venjulegum töxtum, nema tvær heilar fyrirvinnur séu í hverri fjölskyldu. Margar fjölskyldur eiga um sárt að binda vegna óvæntrar tekjuskerðingar, sem hefur komið í kjölfar húsnæðisöflunar og hvolft fjárhagnum.

Hinir eldri, sem eiga landið og hirða af því arðinn, yppta öxlum út af vandamálum af þessu tagi. Þeir halda áfram að kjósa stjórnmálaflokka til að halda uppi ríkisrekstri í landbúnaði og í bankastarfsemi og stunda ýmis önnur austantjalds-vinnubrögð í efnahagslífinu.

Með miðstýringu er arðurinn af Íslandi í senn lágmarkaður og veitt til gæludýra kerfisins. Þeir eru ánægðir, sem eiga aðild að miðstýringunni og sitja við áveituskurði hennar. Þeir ráða ferðinni og eru að gera landið óbyggilegt í hugum hluta af unga fólkinu í landinu.

Svo traust er kerfið í sessi, að Þjóðhagsstofnun telur ekki ástæðu til að hringja viðvörunarbjöllum í nýju spánni. Hún telur ástandið vera þolanlegt og skánandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Skýr og einbeittur vilji

Greinar

Samkeppnisstofnun telur, að Félag eggjaframleiðenda hafi notið samþykkis landbúnaðarráðuneytisins fyrir hluta af alvarlegum og ámælisverðum brotum á samkeppnislögum. Stofnunin notar samt ekki niðurstöðuna til að draga ráðuneytið til hluta ábyrgðinnar.

Eðlilegt hefði verið að sekta bæði félagið og ráðuneytið, því að brotin eru skýr, að mati Samkeppnisstofnunar. Heimilt er að sekta aðila um 40 milljónir króna eða um 10% af ársveltu þeirra, ef hagnaðurinn af brotunum er meiri. Þetta þorði Samkeppnisstofnun ekki.

Samt telur stofnunin ljóst, að Félag eggjaframleiðenda hafi árin 1994 og 1995 hvatt til samráðs um verð og afslætti á eggjum, haft forgöngu um skiptingu eggjamarkaðar eftir svæðum og viðskiptavinum og reynt að takmarka aðgang nýrra aðila að markaðinum.

Samkeppnisstofnun notar orðin “alvarleg og ámælisverð” um brot félagsins. Hún segir líklegt, að þau hafi leitt til hærra eggjaverðs en ella hér á landi. Hún telur líka, að skipting eggjamarkaðarins hafi farið fram með vitund og vilja landbúnaðarráðuneytisins.

Stofnunin bendir á, að félagið starfi í skjóli búvörulaga og hafi ákveðnu hlutverki að gegna við framkvæmd þeirra, en hafi notað aðstöðuna til að hamla gegn samkeppni og vinna gegn markmiðum samkeppnislaga. Hafi félagið sýnt “skýran og einbeittan” brotavilja.

Eftir lýsingar stofnunarinnar vekur furðu, að hún skuli ekki láta til skarar skríða gegn svo forhertum aðilum, sem hafa “skýran og einbeittan” vilja til “alvarlegra og ámælisverðra” lögbrota. En þar njóta félagið og ráðuneytið þess að vera ofan við lög og rétt.

Þrátt fyrir kjarkleysi Samkeppnisstofnunar er úrskurður hennar gagnlegur, því hann veitir innsýn í spillt einokunarkerfi, þar sem hagsmunaaðilar í landbúnaði og landbúnaðarráðuneytið gera samsæri gegn þjóðinni um að halda uppi óeðlilega háu matarverði í landinu.

Þetta samsæri kemur skýrast í ljós í búvörusamningum, sem ráðuneytið gerir við hagsmunaaðila landbúnaðar um tilflutning á milljörðum króna á hverju ári úr vasa skattborgaranna til hagsmunaaðilanna og um innflutningshöft til að halda uppi okri og einokun.

Í þessum aðgerðum sem öðrum kemur ráðuneytið ekki fram sem gæzluaðili þjóðarhagsmuna, heldur hegðar sér eins og hluti þjófaflokks, sem skiptir með sér ránsfeng búvörulaganna. Ráðuneytið er ekkert annað en hluti af viðamiklu hagsmunagæzlukerfi landbúnaðarins.

Pólitísku öflin hafa ekki frekar en Samkeppnisstofnun manndóm í sér til að hamla gegn skýrum og einbeittum einokunarvilja ráðuneytis og hagsmunaaðila. Þau láta yfir sig ganga hvern búvörusamninginn á fætur öðrum án þess að rísa upp og reka ósómann af höndum sér.

Eindregnast er þetta ástand, þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sitja að völdum í landinu. Með stuðningi þéttbýlisþingmanna sinna gæta þessir flokkar alltaf ýtrustu hagsmuna landbúnaðarins gegn vægustu hagsmunum neytenda og skattgreiðenda.

Pólitísku öflin haga sér svona, af því að kjósendur halda áfram að þola sem neytendur og skattgreiðendur, að fjármunum þjóðarinnar sé sóað í búvörusamninga í stað þess að halda uppi vel stæðu þjóðfélagi með fullri reisn, öflugum skólum og virku heilbrigðiskerfi.

Þetta ástand hefur gert einokunarkerfi landbúnaðarins að ríki í ríkinu, sem hefur “skýran og einbeittan” vilja til “alvarlegra og ámælisverðra” lögbrota.

Jónas Kristjánsson

DV

Skólamenn eiga leik

Greinar

Þegar skólamál færast heim í hérað í haust, aukast tækifæri skólamanna og annars áhugafólks um skólamál til að efla þau. Þessir aðilar eru mun áhrifameiri í sveitarstjórnum en í landsstjórninni og hafa í héraði mun meiri möguleika á að hafa áhrif á gang mála.

Skólamál eru dæmi um hagsmuni, sem eru afgangsstærð í landsstjórninni, sem snýst um hagsmuni atvinnugreina og stórfyrirtækja. Flestir þingmenn landsbyggðarinnar líta á sig sem eins konar fulltrúa efnahagslegra hagsmuna, sem yfirleitt tengjast atvinnulífi.

Þingmenn landsbyggðarinnar hafa helzt þau afskipti af skólamálum að reyna að fá fé til skólabygginga, meðal annars vegna tækifæranna, sem slíkt veitir byggingaverktökum í héraði. Þegar framkvæmdum sleppir, eru þeir ráðalausir um innihald skólastarfsins.

Skólamenn eru áhrifamenn í héraði og eru víða hlutfallslega margir í sveitarstjórnum. Þetta stafar af, að þeir eru hluti hinna svokölluðu talandi stétta, eru vanir að koma fram fyrir aðra til að flytja mál sitt skipulega og eru vanir því úr skólunum, að hlustað sé á þá.

Ýmis sveitarfélög landsbyggðarinnar eiga við atgervisflótta að stríða. Kennarar og skólastjórar eru í vaxandi mæli kallaðir til að leysa vandamál og verkefni í sveitarstjórnum, af því að þeir eru menntaðir. Þessari ábyrgð fylgja auðvitað áhrif á forgangsröðun mála.

Þegar skólamálin flytjast heim í hérað í haust og fara inn í forgangsröðun sveitarstjórnarmála, myndast ný tækifæri fyrir skólamenn staðarins til að koma þeim ofar í forgangsröðina. Þeir eru þar á heimavelli og munu án efa geta látið til sín taka margir hverjir.

Í sveitarstjórnum hafa skólamenn aðstöðu til að sannfæra ráðamenn um gildi þess, að börn og unglingar staðarins fái góða menntun. Sums staðar mun þeim takast að fá sveitarstjórnir til að leggja meira fé til kjara kennara og annars rekstrar skóla heldur en lögboðið er.

Þetta getur birzt í ýmsum myndum, til dæmis í staðaruppbótum og öðrum fríðindum handa kennurum, sem gengur vel að ná og halda athygli nemenda. Ennfremur í styrkjum til kennara til að taka þátt í námskeiðum til að draga nýja þekkingu heim í skólastarfið.

Af ýmsum slíkum ástæðum munu sum sveitarfélög soga til sín betri kennara og þannig leiða til aukins áhuga kennara á að gera sig samkeppnishæfa á kennaramarkaði. Þannig munu forustusveitarfélög ekki bara bæta sín skólamál, heldur bæta ástandið almennt í landinu.

Framfarir verða, þegar brotin er niður lognmolla jafnstöðunnar undir regnhlíf ríkisins og komið á samkeppni milli margra tuga sveitarfélaga. Markaðslögmálin munu halda innreið sína í skólakerfið og leysa þar úr læðingi orku, sem fólk vissi ekki, að væri þar til.

Samtök kennara hafa ekki áttað sig á hinum gerbreyttu valdahlutföllum á vinnumarkaði, þegar viðsemjandinn er ekki lengur einn einokunaraðili, heldur hundrað eða tvö hundruð aðilar. Í stað þess að stinga við fótum, ættu þessi samtök að reyna að knýja málið í gegn.

En þetta er ekki eina dæmið um, að fólk er svo íhaldssamt, að það getur ekki séð og vill ekki sjá tækifærin, sem opnast, þegar röskunin hefst og verður að óviðráðanlegri skriðu. Þetta truflar fólk á svipaðan hátt og markaðslögmálin gerðu í Rússlandi eftir áratuga stöðnun.

Eins og aðrir, sem búa við sovézka skipan, eiga kennarar erfitt með að sjá út fyrir staðnað kerfi, sem rammar líf þeirra í sovézku öryggi og sovézkri fátækt.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofstæki í tóbaksfrumvarpi

Greinar

Heilbrigðisráðuneytið er að reyna að hafa vit fyrir fólki með ofstækisfullu frumvarpi til laga um tóbaksvarnir, sem fékk óblíðar viðtökur á Alþingi í fyrradag. Lagafrumvarpið vill banna áberandi tóbaksneyzlu á tónlistarmyndböndum, sem framleidd eru hér á landi.

Fólk hlýtur að spyrja, hvort næsta skref felist í að banna áberandi tóbaksneyzlu í kvikmyndum, sem framleiddar eru hér á landi og í leiksýningum, sem settar eru upp, svo og frásagnir af áberandi tóbaksneyzlu í bókum, blöðum og tímaritum, sem prentuð eru hér á landi.

Sérstakt bann við sjáanlegri notkun tóbaks á innlendum tónlistarmyndböndum hefur ekki önnur áhrif en þau að spilla gjaldeyrisjöfnuði þjóðarinnar, af því að framleiðsla tóbaksmettaðra myndbanda flytzt bara úr landi. Síðan borga menn gjaldeyri fyrir að flytja þau inn.

Gildandi bann við auglýsingum tóbaks í innlendum fjölmiðlum kemur að litlu gagni, af því að allt flóir hér í brezkum og bandarískum tímaritum, sem meira eða minna ganga fyrir slíkum auglýsingum. Hefur ráðuneytinu ekki dottið í hug að banna innflutninginn?

Aðgerðir ríkisvaldsins gegn birtingu tóbaks í innlendum fjölmiðlum ná ekki til hliðstæðra erlendra fjölmiðla, sem óspart eru notaðir hér á landi, allt frá kvikmyndum yfir í dagblöð. Þar á ofan heftir auglýsingabannið samkeppnisstöðu innlendrar fjölmiðlunar gagnvart erlendri.

Ef heilbrigðisráðuneytið vill stíga skref í þá átt að hafa vit fyrir Íslendingum á þessu sviði, er stórvirkara að snúa sér að þeim aðila, sem hefur einkarétt á allri sölu tóbaks hér á landi. Það er ríkið sjálft. Af hverju bannar frumvarpið ekki alla sölu tóbaks hér á landi?

Tóbak er hættulegt eitur og fíkniefni, sem felur í sér niðurlægingu sérhvers, sem það notar. Upplýsingar um skaðsemi þess hafa dregið töluvert úr notkuninni hjá fullorðnu fólki, en hafa því miður ekki komizt nógu vel til skila hjá unglingum. Það er því úr vöndu að ráða.

Reykingabann er víða komið til sögunnar á heimilum og vinnustöðum. Á enn fleiri stöðum eru leyfðar reykingar á takmörkuðum svæðum. Þessi bönn eru yfirleitt orðin til vegna samkomulags á heimilum og vinnustöðum, án þess að tilskipanir hafi komið að ofan.

Ef heilbrigðisráðuneytið telur ekki, að þessi þróun mála sé nægileg, og vill láta Stóra Bróður koma ákveðnar til skjalanna, er miklu einfaldara að koma á banni við innflutningi og sölu tóbaks en að reyna að koma í veg fyrir, að reykingar sjáist á tónlistarmyndböndum.

Og sé heilbrigðisráðuneytið almennt að komast á þá skoðun, að bezt sé að hafa vit fyrir fólki, liggur beinast við að banna fleira óhollt en tóbak og fíkniefni. Áfengis- og sykurbönn hljóta að vera ofarlega á óskalista þeirra, sem hafa ræktað með sér ofstækisfulla forsjárhyggju.

Heilbrigðisráðuneytið er annars ekki þekkt fyrir mikinn áhuga á almennum heilbrigðismálum þjóðarinnar. Fjárlagatillögur þess ganga að mestu út á viðgerðarþjónustu á sjúkrahúsum, en ná afar lítið til fyrirbyggjandi aðgerða. Ráðuneytið ætti að heita sjúkdómaráðuneyti.

Ef tóbaksfrumvarp sjúkdómaráðuneytisins er merki þess, að það sé að snúa sér að forvörnum í auknum mæli og verða að eiginlegu heilbrigðisráðuneyti, er nærtækari og síður umdeilanleg verk að vinna á öðrum sviðum en í reykingabanni á tónlistarmyndböndum.

Andúðin gegn óhollustu, sem felst í hinu misheppnaða tóbaksfrumvarpi, mætti gjarna fá útrás á fleiri sviðum og þá með áhrifaríkari hætti en með boðum og bönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Illa rökstudd vaxtahækkun

Greinar

Mikil vaxtahækkun bankanna er hvorki í samræmi við mat óháðra manna úti í bæ á verðlagsþróun í landinu né í samræmi við vaxtastigið í nágrannalöndunum. Þess vegna er brýnt, að bankarnir láti frá sér fara rækilegan rökstuðning fyrir hinni óvæntu hækkun.

Bankarnir kunna að hafa rétt fyrir sér. En þeir eru líka grunaðir um græzku. Þeir starfa á tiltölulega lokuðum markaði, þar sem afar fáir aðilar standa öðrum megin við borðið og ákveða vextina. Það eru stóru bankarnir og samtök lífeyrissjóðanna, sem stunda fáokun.

Það dugir ekki, að bankastjórar fullyrði, að vaxtastigið sé inn og út í bönkunum, hafi ekki áhrif á afkomu þeirra og því séu engin slík undirmál að baki vaxtahækkuninni. Við treystum ekki fullyrðingum bankanna og viljum heldur sjá röksemdir þeirra fyrir hækkuninni.

Ef sparifjármyndun fer minnkandi um þessar mundir, þannig að hættulegt megi teljast, eiga bankarnir að segja frá því, þannig að eftir verði tekið. Sama er að segja um aðrar röksemdir, sem bankarnir kunna að hafa fyrir því að hækka vexti, þegar verðbólga er nánast engin.

Raunvextir í landinu eru komnir í og yfir 10%, sem hlýtur að teljast svo óvenjulegt, að það þarfnist nánari útskýringa af hálfu fáokunarinnar. Erfitt er að sjá fyrir sér, að atvinnuvegirnir í landinu búi yfir framleiðni, sem standi undir svona hrikalega háum raunvöxtum.

Hitt er svo líka rétt, að þessir háu vextir hljóta að kalla á, að þeir spari meira, sem það geta, til þess að njóta hagnaðarins af hækkun vaxta. Þar með ætti meira fé að sogast um banka- og sjóðakerfið til afnota í atvinnulífinu, ef þar ríkir mikil þensla og fjárþörf.

Ekki sjá allir þensluna og verðbólguhvatana, sem bankarnir virðast þykjast sjá. Við erum enn í lægðinni, sem hefur einkennt þjóðarbúskapinn í um það bil tvö ár. Tölur um atvinnuleysi í Reykjavík eru hærri í byrjun þessa árs en þær voru í byrjun síðasta árs.

Bætt afkoma margra stórfyrirtækja stafar ekki af auknum umsvifum þeirra, heldur af útgjaldasamdrætti, sem leiðir af sparnaði í rekstri og fækkun starfsfólks. Þessi bætta afkoma tengist hvergi þenslu, heldur er hún bein afleiðing varnaraðgerða á samdráttartíma.

Nú kann svo að vera, að bankastjórar verði á biðstofum sínum varir við holskeflur bjartsýnna athafnamanna, sem þurfi lánsfé til að fjármagna athafnir, er standa undir 10% raunvöxtum. En þá eiga talsmenn bankanna að segja okkur frá þeim merku tíðindum.

Við vantreystum bæði heilindum og dómgreind ráðamanna bankanna. Við vitum af háum afskriftum bankanna, að þeir kunna að minnsta kosti ekki að lána peninga, svo vel fari. Við vitum af mikilli eyðslusemi þeirra, að þeir kunna að minnsta kosti ekki með fé að fara.

Helzt vildum við, að einhverjir aðrir en fáokunarmenn bankanna segðu okkur, hvert sé verðbólgustigið og hverjir séu eðlilegir vextir um þessar mundir. Við teljum, að fáokun bankanna sé slík, að markaðslögmálin stjórni þessu ekki, heldur sé eins konar handafl á ferðinni.

Við komum enn og aftur að þeirri staðreynd, að óþægilegt er að vera háð svona fáum bönkum og hafa ekki greiðan aðgang að alþjóðlegum lánamarkaði. Ef við værum betur tengd umheiminum, mundum við fremur treysta því, að vextir fylgdu markaðslögmálum.

Meðan svo er ekki, viljum við að minnsta kosti sjá, hvort bankarnir geta rökstutt mikla og óvænta hækkun vaxta. Við bíðum enn eftir þeirri röksemdafærslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Erlend aðild að útgerð

Greinar

Vegna aðgangs sjávarútvegsins að auðlind hafsins vilja flestir fara varlega í að heimila erlendum aðilum að eiga í innlendum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Fyrir Alþingi liggja um þetta efni þrjú frumvörp, sem eiga það sameiginlegt að setja skorður við erlendri eignaraðild.

Ef ekki væri þessi sérstaða, væri ekki ástæða til að setja aðrar reglur um sjávarútveg en aðra atvinnuvegi. Hins vegar er hægt að haga málum á þann veg, að ekki þurfi sértækar reglur. Það gerist með að skilgreina eignarhald auðlindarinnar skarpar en nú er gert.

Ef auðlindin er skilgreind sem þjóðareign í umsjá ríkisvaldsins og leigð notendum í samræmi við ótal tillögur, stórminnkar öryggisleysið, sem fylgir erlendri eignaraðild að fyrirtækjum í sjávarútvegi, því að hún felur þá ekki í sér eignaraðild að sjálfri auðlindinni.

Ef til viðbótar væri tryggt í lögum, að allur sjávarafli færi á markað á Íslandi, væri búið að girða fyrir allar hættur, sem kynnu að vera samfara erlendu eignarhaldi í sjávarútveginum. Slíkar aðferðir eru skynsamlegri en að binda beina eða óbeina eignaraðild við prósentur.

Raunar er kyndugt, að þjóð, sem seilist til áhrifa í erlendum sjávarútvegi, skuli hamla gegn erlendri fjárfestingu í innlendum sjávarútvegi. Íslenzk fyrirtæki hafa keypt ráðandi hlut í þýzkum fyrirtækjum í sjávarútvegi, en vilja ekki fá á móti slíka samkeppni að utan.

Fyrr eða síðar kemur að því, að fjölþjóðlegt samstarf neyðir okkur til að gæta jafnréttis í þessu efni sem öðrum. Við getum ekki heimtað opinn aðgang að erlendum fyrirtækjum og heft aðgang að innlendum fyrirtækjum á sama tíma. Hömlur eru því ekki langtímalausn.

Við megum ekki heldur gleyma, að kaup íslenzkra fyrirtækja á þýzkum fyrirtækjum veita íslenzku áhættufjármagni til eflingar þýzks atvinnulífs. Hvers vegna skyldum við ekki alveg eins vilja soga erlent áhættufjármagn til eflingar íslenzks atvinnulífs?

Það er réttlátt, hagkvæmt og óumflýjanlegt að takmarka ekki erlenda eignaraðild að íslenzkum sjávarútvegi. Samt getum við varið auðlindina með skarpari skilgreiningu á eignarhaldi hennar og verndað umsvifin í landi með skilmálum um sölu sjávarfangs á markaði.

Frumvörpin þrjú, sem Alþingi hefur til umfjöllunar, eru vel meint, en grípa ekki á réttum stað inn í ferilinn. Í framkvæmd verða þau alltaf ranglát, óhagkvæm og skammvinn. Varanleg lausn fæst hins vegar með veiðileyfagjaldi og söluskyldu á innlendum fiskmarkaði.

Bezta leiðin er að bjóða fiskveiðileyfin út á alþjóðlegum markaði með ákvæðum um löndunarskyldu. Þannig heldur þjóðin hjá sér fullum arði af eignarhaldi auðlindarinnar og af innlendri veltu í kringum fiskmarkaðina, en útgerðin heldur hagnaði af eigin rekstri.

Frumvörpin þrjú bera með sér, að pólitísku öflin í landinu viðurkenna, að núverandi hömlur eru óframkvæmanlegar, enda eru þær brotnar án þess að neitt sé gert í málunum. Frumvörpin fela í sér skipulegt undanhald í átt til þess frelsis, sem óhjákvæmilegt er um síðir.

Í stað þess að lifa í stöðugum ótta við breytingar í umhverfinu og fara alltaf í flæmingi undan óhjákvæmilegri þróun eigum við að taka frumkvæðið og notfæra okkur kostina við að ganga beint til verks og sveigja hina óhjákvæmilegu þróun að langtímahagsmunum okkar.

Uppboð veiðileyfa og löndunarskylda eru sameiginlega heppilegri en reglur um takmarkaðar prósentur í beinni eða óbeinni aðild útlendinga að sjávarútveginum.

Jónas Kristjánsson

DV

Major klúðraði málinu

Greinar

Upphafsins að hruni hins torsótta friðarferils á Norður-Írlandi er að leita hjá John Major, forsætisráðherra Bretlands. Hann hafnaði 30. janúar niðurstöðu alþjóðlegrar nefndar, sem 24. janúar síðastliðinn gaf út skýrslu um, hvernig mætti stíga næsta skref í friðarátt.

Hin svonefnda Mitchell-nefnd hafði verið skipuð af málsaðilum deilunnar til að koma friðarferlinum úr sjálfheldu, sem hann var kominn í eftir nokkuð góðan árangur í upphafi viðræðna ríkisstjórna Bretlands og Írlands. John Major átti sjálfur þátt í að skipa nefndina.

Alþjóðlega Mitchell-nefndin lagði til, að hnúturinn yrði leystur með því að vinna tvö verk samhliða og samtímis. Afvopnun skæruliða færi fram í áföngum, um leið og viðræður héldu áfram um framtíð Norður-Írlands. Þetta álit kom fram í skýrslunni frá 24. janúar.

Með því að fara eftir niðurstöðu nefndarinnar gat John Major orðið eins konar höfundur að endanlegri afgreiðslu Írlandsdeilunnar. Í staðinn kom hann með tillögu um kosningar á Norður-Írlandi, sem mundu festa spennuna í sessi og framlengja pattstöðuna.

Málið hrökk auðvitað í harðan hnút við þetta hliðarskref Majors. Hann var harðlega fordæmdur af viðsemjendum sínum Írlandsmegin við samningaborðið og gagnrýndur af öðrum ríkisstjórnum. Allt fór í bál og brand. Virðist nú sem óöld sé að hefjast á nýjan leik.

Ástæðan fyrir skyndilegu og óvæntu hliðarskrefi Majors er slæm staða hans í brezka þinginu og hörmulegar tölur í skoðanakönnunum. Í hverjum aukakosningunum á fætur öðrum saxast á nauman meirihluta hans í neðri deild þingsins, sem skiptir nú örfáum atkvæðum.

Til þess að koma í veg fyrir missi meirihluta og nýjar kosningar í Bretlandi, sem Major vill fresta sem allra lengst, þarf hann að fá stuðning þingmanna sambandssinna frá Norður-Írlandi. Hann er orðinn gísl þeirra, af því að hann er skammtímamaður að eðlisfari.

Við þetta bætist, að hann telur aukna hörku og óbilgirni í meðferð mála Norður-Írlands munu færa sér aukið fylgi brezkra þjóðernissinna, þegar kosningar verða óumflýjanlegar. Þannig selur hann friðinn fyrir persónuleg og flokkspólitísk skammtímasjónarmið sín.

Allt er þetta í undirmáls- og skammtímastíl Majors, sem stingur mjög í stúf við fyrirrennarann, Margaret Thatcher. Hann hefur alltaf verið lítill karl, sem hefur haft slæm áhrif á gang mála í Evrópu. Til dæmis á hann mikinn þátt í klúðri Vesturlanda í Bosníu.

Major var leiðandi ríkisleiðtogi þeirrar evrópsku stefnu að fara fram með japli, jamli og fuðri í málum arfaríkja Júgóslavíu með þeim hryllilega árangri, sem öllum er nú ljós, þegar Bandaríkjamenn hafa tekið stjórnartaumana úr örvasa höndum leiðtoga Vestur-Evrópu.

Svo forustulaus er þessi heimshluti orðinn, að varla kemur upp sú ófriðarhætta innan landamæra Evrópu, að Bandaríkin verði ekki að koma til skjalanna. Nýjasta dæmið eru væringar Grikkja og Tyrkja á Eyjahafi. Bandaríkin urðu líka að sinna Írlandsdeilunni.

Sú deila er ofjarl Majors forsætisráðherra. Hans verður ekki minnzt í veraldarsögunni sem mannsins, sem leysti hana. Hans verður ekki einu sinni minnzt í veraldarsögunni sem mannsins, sem klúðraði lausn málsins. Hans verður alls ekki minnzt í veraldarsögunni.

Major er skýrasta dæmið um pólitískt volæði Evrópu. Hann stjórnar ekki, heldur rekst um ólgusjó skoðanakannana með það eina markmið að tóra til næsta dags.

Jónas Kristjánsson

DV

Hjörðin og hirðirinn

Greinar

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skelfdust, þegar þeir voru spurðir, hvort þeir vildu, að formaður flokksins byði sig fram til forseta Íslands. “Ekki spyrja mig” báðu þeir. Aðeins einn þingmaður flokksins treysti sér til að hafa skoðun á einu helzta umræðuefni þjóðarinnar.

Eins og þingflokkurinn er skipaður, telja þingmenn ekki hlutverk sitt að hafa skoðun á máli, fyrr en formaðurinn hefur sagt þeim, hvaða skoðun þeir eigi að hafa. Og hann hefur ekki sagt þeim, hvaða skoðun þeir eigi að hafa á þessu máli. Því eru þeir bjargarlausir.

Örfáar undantekningar eru á þessu, en þær snerta jafnan afmörkuð mál. Einar Oddur Kristjánsson treystir sér til að hafa sérstaka skoðun á framboði formannsins til forseta. Og Egill Jónsson á Seljavöllum treystir sér til að hafa sérstaka skoðun á landbúnaðarmálum.

Flestir þingmenn flokksins tengjast ákveðnum hagsmunum, til dæmis byggða eða atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja, en eru ekki fulltrúar neinnar sérstakrar línu í stjórnmálum. Þeir eru aðilar að kosningavél, sem hefur engan sérstakan tilgang annan en völdin.

Þetta er raunar nákvæmlega það sama og einkennir þingflokk Framsóknarflokksins í jafn ríkum mæli og að meira eða minna leyti flesta aðra þingflokka. Þeir eru sagnfræðileg og tæknileg fyrirbæri, en ekki pólitísk. Enda tala verk allra ríkisstjórna sama rómi.

Þegar Matthías Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, skammaði sína menn fyrir skoðanaleysi í framboðsmáli formannsins, benti hann á, að enginn munur væri lengur á einstökum deildum fjórflokksins gamla á Alþingi. Þeir gætu þess vegna boðið framan sameiginlega.

Engin flokkur hefur þróað þetta skipulag betur en Sjálfstæðisflokkurinn. Þar snýst veröldin umhverfis formanninn. Einstakir flokksmenn og verkstjórar telja ekki hlutverk sitt að reyna að hafa áhrif á stefnuna, enda skiptir alls engu máli, hver hún er á pappírnum.

Þetta gekk mjög vel, þegar Bjarni Benediktsson var formaður og gengur aftur vel núna, þegar Davíð Oddsson er formaður. Á milli var óróatímabil ósamkomulags um formenn. Sá ágreiningur hentaði flokknum illa og menn voru fegnir að fá Davíð til að hugsa fyrir sig.

Nú eru menn svo eðlilega og notalega skoðanalausir, að þeir hafa enga skoðun á því, hvort landsþing flokksins skuli vera að vori eða hausti, þetta árið eða hitt. Þeir bíða bara eftir ákvörðun formanns. Þeir mundu sætta sig við, að landsþingi yrði frestað til aldamóta.

Skoðanalaus og foringjahollur flokkur er kjörinn valdaflokkur. Hann nær léttu samkomulagi við aðra flokka um myndun ríkisstjórnar, af því að menn eru innilega sammála um að láta ekki málefnaágreining standa í vegi. Hrein og tær völd eru eina stórmálið.

Það hentar slíkum flokki að vera í samstarfi um skiptingu valdsins við Framsóknarflokksins, sem tímabundið hefur komið upp svipuðu formannsveldi og Sjálfstæðisflokkurinn. Ekkert mælir á móti því, að samstarfið haldist fram eftir næstu öld, ef kjósendur bara leyfa.

Þannig er ekki hægt að merkja, að ríkisstjórnir, sem Sjálfstæðisflokkurinn skipar, séu hægri sinnaðri en aðrar. Allar ríkisstjórnir vernda miðstýringuna, af því að hún hentar sterku hagsmunaaðilunum, sem hafa aðgang að valdinu og hafa þingmenn á sínum snærum.

Einn góðan veðurdag segir formaðurinn flokki sínum, hvort hann ætlar að verða forseti landsins. Allir verða áfram afar hamingjusamir og una glaðir við sitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Lömuð tollgæzla

Greinar

Tollstjórinn í Reykjavík hefur alla tíð verið á pólitísku framfæri Framsóknarflokksins í ýmsum embættum og hvergi gert garðinn frægan. Stofnun hans er full af silkihúfum, en virðist samt skorta mannskap til að halda uppi eðlilegum vörnum gegn innflutningi fíkniefna.

Tollstjórinn hefur ekki séð ástæðu til viðbragða, þótt fíkniefnasalar reyni að hræða tollverði til hlýðni með því að valda þeim miklu fjárhagslegu tjóni með skemmdarverkum á bílum þeirra og rúðubrotum á heimilum þeirra. Þetta gerist þó vegna starfs þeirra.

Fíkniefnasalar vita, að tollverðir eru á lágum launum og hafa ekki ráð á að amast við mönnum, sem valda þeim persónulegu fjárhagstjóni í skjóli nætur. Ef þeir hafa ekki stuðning frá silkihúfunum í Tollstöðinni, eru þeir varnarlitlir og hætta að finna fíkniefni.

Ofan á þetta hefur tollstjóri tekið upp þá ógeðfelldu stefnu að ógna tollvörðum með því að kalla þá á teppið fyrir að segja fjölmiðlum frá ólestrinum í vörnum gegn innflutningi fíkniefna. Næsta skref á eftir teppinu er skrifleg áminning og hið þriðja er brottrekstur.

Ekki er komið í ljós, hversu langt tollstjórinn mun ganga á þessari braut. Tollverðirnar hafa fengið sér lögmann til að gæta hagsmuna sinna gagnvart honum. Það segir raunar mikla sögu, að tollverðir í fíkniefnaleit telji sig þurfa lögfræðilega vernd gegn yfirmanni sínum.

Komið hefur í ljós, að töluvert af þeim fíkniefnum, sem eru í umferð hér á landi, berst til landsins í pósti. Samt er millilandapóstur afar lítið tollskoðaður frá þessu sjónarmiði. Það er til dæmis aðeins gert í dagvinnu, þótt póstur berist til landsins á öllum tímum sólarhringsins.

Nú síðast viðurkenndi maður fyrir fíkniefnalögreglunni að hafa látið senda sér kókaín í hraðpósti frá New York. Verðmæti sendingarinnar nam rúmlega einni milljón króna á götunni. Það er því ljóst, að fíkniefnasalar hafa ráð á að mýkja tollgæzluna í landinu.

Andvaraleysi og tvískinnungsháttur stjórnvalda gagnvart fíkniefnavandanum er alltaf að koma betur og betur í ljós. Lögreglumenn standa í vonlítilli baráttu um grömm og milligrömm á götunni á meðan lítið sem ekkert er gert til að sporna gegn innflutningnum sjálfum.

Starfsmenn tollgæzlunnar í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli telja, að fíkniefnasmyglarar hafi nánast frjálsar hendur í innflutningi. Starfsmönnum við fíkniefnaleit hefur farið fækkandi, en stofnanirnar notaðar til að sjá pólitískum kvígildum fyrir þægilegu lifibrauði.

Ekkert vit fæst í baráttuna gegn innflutningi fíkniefna fyrr en skipt hefur verið um tollstjóra í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Fá þarf til mannaforráða menn, sem ekki eru á pólitísku framfæri, og beina starfsorku embættanna í auknum mæli að fíkniefnaleit.

Þetta er ekki spurning um aukin heildarútgjöld hins opinbera, heldur tilfærslu á mannskap og skipti á mannskap. Með því að skipta um tollstjóra og fækka silkihúfum á skrifstofum þeirra verður hægt að fjölga starfandi fólki við varnir gegn innflutningi fíkniefna.

Stóru fíkniefnasendingarnar til landsins fara um hendur tollgæzlunnar, yfirleitt í Reykjavík eða á Keflavíkurflugvelli. Af því að sambandið við útlönd verður annað hvort að vera á sjó eða í lofti, á að vera hægt að hafa strangt eftirlit á hinum fáu innflutningspunktum.

En fyrst þarf að ryðja þeim frá, sem standa í vegi þess, að eyja í miðju Atlantshafi geti notið þeirra fíkniefnavarna, sem landfræðilegar kringumstæður leyfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Kominn í Maó-jakkann

Greinar

Jiang Zemin, forseti Kína, er hættur að láta mynda sig í vestrænum fötum og klæðist nú búningi að hætti Maós formanns. Tónninn í ræðum hans er orðinn hvassari og stríðari en áður var. Jafnframt fer vaxandi yfirgangur Kínverja á hafinu gagnvart nágrannaríkjunum.

Um nokkurra mánaða skeið hefur herinn í Kína stundað æfingar á sundinu milli meginlandsins og Tævan og reynt að haga þeim þannig, að þær skjóti Tævan-búum skelk í bringu. Jaframt ítreka kínverskir ráðamenn oftar og hvassar en áður, að Tævan verði sameinað Kína.

Fyrr í vetur gengu kínverskir hermenn á land á skerjum, sem Filipseyjar telja sig eiga. Kínastjórn var með þessu að reyna að sýna fram á mátt sinn og megin. Með slíkum aðferðum sáir hún um leið öryggisleysi í nágrannaríkjunum og magnar raunar hervæðingu þeirra.

Jafnframt hafa kínverskir ráðamenn ótvírætt sagt, að lýðræðisöfl verði virt að vettugi í Hong Kong, þegar þeir taka þar völdin á næsta ári. Í undirbúningsnefnd valdaskiptanna var ekki skipaður neinn fulltrúi lýðræðisaflanna, sem unnu kosningasigur í Hong Kong í fyrra.

Harka Kínastjórnar hefur aukizt gagnvart Tíbet-búum, menningu þeirra og trúarbrögðum. Hún virti að vettugi val þeirra á barni til að verða Panchet Lama, setti það í stofufangelsi og valdi sjálf annað barn til að gegna þessu hlutverki. Hún þolir enga sjálfstæða skoðun.

Stjórnarandstæðingar í Kína eru ofsóttir harðar en áður. Er nú svo komið, að fangelsaðir eru allir þeir, sem lýsa öðrum sjónarmiðum en þeim, sem viðurkennd eru af stjórnvöldum. Daglega rignir yfir kínverska fjölmiðla tilskipunum um herta hugmyndafræðilega baráttu.

Helzta einkenni kerfisins í Kína er, að það þolir engin frávik frá línunni, sem hefur orðið einstrengingslegri með hverjum mánuðinum að undanförnu. Þetta beindist áður einkum að fólkinu í landinu, en einkennir upp á síðkastið í vaxandi mæli samskiptin við útlönd.

Stjórnin í Kína brýtur hverja þá alþjóðasamninga, sem hún telur standa í vegi fyrir ráðagerðum sínum. Hún heldur áfram tilraunum með kjarnorkuvopn, þótt öll önnur stjórnvöld hafi hætt þeim. Hún skirrist við að efna viðskiptasamninga, sem hún hefur skrifað undir.

Herinn í Kína rekur sjálfur þrjátíu umfangsmiklar verksmiðjur, sem framleiða geisladiska án þess að greiða tilskilin og umsamin gjöld fyrir réttindi. Svipað er að segja um tölvuhugbúnað. Á mörgum sviðum er stundaður ríkisrekinn þjófnaður á vestrænum höfundarétti.

Vestræn fyrirtæki, sem hafa verið ginnt til athafna í Kína, verða að sæta því, að engar leikreglur gilda þar í landi. Þar stjórna ekki lög og reglur samskiptum fyrirtækja og opinberra aðila, heldur hreinn geðþótti ríkisins, þar á meðal eignaupptaka, ef því sýnist svo.

Reynslan hefur líka sýnt ráðamönnum Kína, að vestrænir ráðamenn og ráðamenn nágrannaríkjanna fara undan í flæmingi. Í einstaka ríkjum bíða bjálfarnir nánast í biðröð eftir að komast í opinbera heimsókn til Kína. Þetta magnar fjölþætta forherðingu Kínastjórnar.

Þegar forseti Kína afklæðist vestrænu jakkafötunum, sem hafa verið einkenni Deng-tímans, og dregur rykfallinn Maó-jakka úr skápnum, er afturhvarfið til fyrri tíma orðið formlega staðfest. Deng Xiaoping er sjálfur orðinn 91 árs og hefur ekki sézt opinberlega í tvö ár.

Að engu eru orðnar vestrænar vonir um, að ódýrt fjármagn, ódýr þekking og pólitískur stuðningur geri einstrengingslega Kínastjórn alþjóðlega samstarfshæfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Silkihúfuspítali

Greinar

Við sameiningu tveggja spítala í Sjúkrahús Reykjavíkur og hagræðingu í rekstri þess er lögð áherzla á að varðveita stöður yfirmanna og búa til nýjar í staðinn fyrir þær, sem greinilega urðu óþarfar. Eftir breytingarnar eru þar 27 yfirmenn og hefur þeim fækkað um sex.

Á sama tíma eru á borðinu tillögur um að fækka starfsmönnum Sjúkrahúss Reykjavíkur um 96. Það nægir þó ekki til að mæta samdrætti í fjárveitingum til spítalans. Enn eru ekki til neinar tillögur um, hvernig gatinu verði lokað, þótt liðinn sé rúmlega mánuður af fjárhagsárinu.

Rekstrarfræðilega er ástæða til að draga í efa, að sameinað sjúkrahús þurfi nærri eins marga yfirmenn og tveir spítalar þurftu áður samanlagt. Enn frekar er ástæða til að draga það í efa, þegar starfsemi hins sameinaða sjúkrahúss er minnkuð og sumar deildir aflagðar.

Ætla má, að sjúkrahúsinu nægi um 15-20 yfirmenn í stað 27, þegar búið er að sameina reksturinn og skera hann niður í þær fjárhæðir, sem það hefur til ráðstöfunar samkvæmt fjárlögum ríkisins. Ráðamenn þess telja hins vegar nauðsynlegt að vernda silkihúfurnar.

Sjúkrahús Reykjavíkur er ekki einstætt tilvik. Þegar opinber fyrirtæki þurfa að draga saman seglin, dettur ráðamönnum yfirleitt fyrst í hug að fækka ræstingarfólki og síðast í hug að fækka yfirmönnum. Þetta er bara ein myndbirting vaxandi stéttaskiptingar í landinu.

Mismunun af þessu tagi er ekki aðeins ósiðleg, heldur einnig óhagkvæm. Hún leiðir til aukins klofnings milli yfirmanna og undirmanna og dregur úr áhuga undirmanna á að leggja hönd á plóginn, þegar taka þarf á til að halda fyrirtækinu á floti í lífsbaráttunni.

Í opinberum rekstri skortir oft skilning starfsmanna á hagkvæmni í rekstri. Þeir líta sumir á vinnustaðinn sem eins konar lífsstíl, en ekki sem fyrirtæki, er þurfi að samræma útgjöld og tekjur. Til að framkalla skilning starfsmanna þurfa yfirmenn einnig að bera byrðar.

Þessa hefur ekki verið gætt við sameiningu tveggja spítala í Sjúkrahús Reykjavíkur og hagræðingu í rekstri hins nýja spítala. Yfirstjórn hans hefur af töluverðri hugkvæmni teiknað ný skipurit, sem gera ráð fyrir, að útvegaðar séu hillur handa nærri öllum stjórnendum.

Þetta vekur auðvitað athygli undirmanna, sem bíða nú eftir uppsagnarbréfum, og hefur áreiðanlega áhrif á vinnuframlag sumra þeirra. Ef yfirmannastéttin hefði gengið á undan með góðu fordæmi, væri auðveldara fyrir undirmennina að sætta sig við samdráttinn.

Aðstæður eru alltaf að breytast. Það er gangur lífsins. Þau tímabil koma stundum í rekstri fyrirtækja eða stofnana, að tekjurnar dragast saman. Þetta er það sama og kemur fram í rekstri heimila, þegar illa árar í þjóðfélaginu. Þá þarf fólk að laga útgjöld sín að tekjum.

Flestum heimilum tekst að ná jafnvægi á nýjan leik og sömuleiðis mörgum fyrirtækjum, enda færu þau ella á hausinn. Í opinberum rekstri gengur hins vegar ekki eins vel að ná þessum árangri, því að samhengið er þar ekki eins greinilegt milli tekna og afkomu.

Sjúkrahús Reykjavíkur á við að stríða mikla erfiðleika, sem eru hliðstæðir vandræðum fyrirtækja, er ramba á barmi gjaldþrots. Tillögurnar um samdrátt í rekstri eru sársaukafullar fyrir starfsfólk, en nægja þó ekki til að koma rekstri spítalans í þolanlegt horf.

Slíkar aðstæður leyfa ekki verndun á silkihúfum. Stjórn spítalans ber að skera hlutfallslega meira niður í stjórnunarstöðum hans en í starfsmannahaldinu.

Jónas Kristjánsson

DV