Greinar

Engin hæfni afgangs

Greinar

Vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins er hætt í pólitík. Hún fór í staðinn að vinna í sjoppu, þar sem völd eru meiri en í póltík og peningar fjórum eða fimm sinnum meiri en í pólitík. Bæjarstjórinn í Garðabæ verður forstjóri Byko og við verðum áfram að þola Davíð, Geir Haarde og Björn.

Þetta er vond þróun. Við höfum þegar meira en nóg af hæfu fólki í viðskiptum og kaupsýslu. Okkur vantar hins vegar hæft fólk í pólitík, þar sem hver auminginn á fætur öðrum veldur þjóðfélaginu miklu tjóni og þar sem Alþingi er eins konar leikhús fáránleikans, óhæfra þingmanna með hálstau.

Hér að neðan er fjallað um nokkur afrek ofbeldishneigðra ráðherra okkar, þar sem þeir ráðskast með ríkið eins og þeir eigi það prívat og persónulega, hefnast á hugsandi embættismönnum með því að leggja þá niður, leggja stofnanir þeirra niður, flytja þær til Akureyrar, svelta þær um fé.

Ráðherrarnir hafa misst stjórn á þjóðfélaginu í hendur einkafyrirtækja. Sárindi þeirra eru mikil og komu bezt í ljós í fjölmiðlamálinu í fyrra, þegar þeir gátu ekki stýrt þróun fjölmiðlunar í landinu. Í staðinn hamast þeir á Ríkisútvarpinu og gamna sér við að komast í Öryggisráðið.

Auðvitað skiptir okkur máli að hafa góða forstjóra í Byko og Húsasmiðjunni, svo og öðrum stórfyrirtækjum landsins. En við þurfum enn frekar að hafa ráðherra, sem lyfta þjóðinni, en sparka ekki í hana. Við þurfum ráðherra, sem skipt er um á fjögurra ára fresti, svo að inniloftið sé hreinsað út.

Lýðræði hefur svo sem ekki merkilegan tilgang annan en að vera aðferð til að skipta um landsfeður á reglubundinn hátt. Meðan kjósendur láta undir höfuð leggjast að sinna því hlutverki sínu í lýðræðinu að skipta um valdhafa, sitjum við uppi með fúlan Davíð, fúlan Halldór, fúlan Geir, fúlan Björn.

Að frágengnum kjósendum fólst helzta von okkar í útskiptum innan stjórnmálaflokkanna, að lykilmenn flokkanna áttuðu sig á, að nýtt blóð þurfi þar að koma til skjalanna. Ásdís Halla Bragadóttir hefur sýnt það með stjórn sinni á Garðabæ, að hún var líkleg til að lofta út á æðstu stöðum í landsmálum.

Nú er sú von úti næstu árin. Við hin skulum nota tækifærið til að minna okkur á, að ekki gengur lengur, að ekkert sé afgangs af hæfileikum á Íslandi til að sinna pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Karlrembupáfi í Róm

Greinar

Nú hefur kaþólska kirkjan valið sér afturhaldssaman páfa og kominn tími fyrir Morgunblaðið að nudda glýjuna úr augunum og hætta að skrifa leiðara um páfann sem fulltrúa guðs á jörð. Samkvæmt grundvallarforsendu lúterskunnar er páfinn alveg laus við að vera fulltrúi guðs, allra sízt Ratzinger.

Nýi páfinn mun festa kaþólskuna í sessi sem helzta virki afturhalds í heiminum, andstöðu við kvenréttindi og ýmsa minnihlutahópa á borð við homma. Enda telur biskupinn yfir Íslandi ekki, að nein nálgun verði milli kirkjudeilda kristinna manna í heiminum á valdatíma Benedikts sextánda.

Nýi páfinn mun vinna gegn getnaðarvörnum og fóstureyðingum, hjónaskilnuðum og kvenprestum. Einkum mun hann staðfesta karlrembu kaþólskunnar, sem er tímaskekkja í samfélaginu á nýrri öld. Kaþólsk kirkja er ekki íhald, hún er hreint afturhald, að vísu temprað af velvild í garð fátækra.

Við höfum allt aðra kirkju hér á landi, lúterska kirkju, sem hefur fylgzt með tímans rás. Hún er ekki bara góð við fátæka, heldur stuðlar einnig að félagslegum umbótum, sem eiga að draga úr fátækt. Kaþólska kirkjan stuðlar hins vegar að fátækt um leið og hún réttir fram stuðning við fátæka.

Lengi hefur verið til siðs hér á landi að tala vel um kaþólska kirkju. Ef til vill veldur því minningin um Jón biskup Arason, sem var þó ekki kaþólskari en svo, að hann átti nokkra syni og yrði vafalaust bannfærður af Benedikt sextánda. Enda var Jón Arason meiri nútímamaður en Benedikt.

Rétt er þó að muna eftir, að kaþólska kirkjan er sú stofnun heimsins, sem á lengstan og mestan glæpaferil, enda var lúterskan beinlínis stofnuð, af því að prentlistin kom til sögunnar og gerði almenningi kleift að lesa ritninguna og komast að raun um, að kaþólsk kirkja fór ekki eftir henni.

Þótt kaþólsk kirkja sé vissulega ekki eins vond og hún er talin vera í tízkubókmenntum nútímans, er hún forneskja, eins konar risaeðla í nútímanum. Hún ofsækir kaþólska trúfræðinga, sem eru henni ekki að skapi, og hún tekur þátt í þjóðernisofstæki, til dæmis í Króatíu og á Írlandi.

Það er vel við hæfi, að nýr páfi komi úr Hitlersæskunni og hernámsliði nazista í Ungverjalandi. Benedikt mun ekki geta falið eðli kaþólskunnar jafnvel og Jóhannes Páll gerði.

Jónas Kristjánsson

DV

Pressuballsblaðamenn sameinast

Greinar

Mikill hluti fjölmiðlunar á Íslandi snýst um sætt kvak við valdhafa af ýmsu tagi, er eins konar pressuballsfjölmiðlun. Fæstir reyna að fara út á akurinn til að velta við steinum og segja fólki frá því, sem ekki sést í daglegu spjalli. Hér á DV hafa verið gerðar undantekningar á þessari reglu.

Við höfum sagt frá handrukkunum og öðru ofbeldi, sem vex í undirheimum þjóðfélagsins. Við höfum talað við fórnardýr og gerendur, fengið játningar, birt nöfn og myndir. Í sumum tilvikum er lögreglan mörgum dögum á eftir DV í öflun slíkra upplýsinga, svo sem sjá má í viðtölum við hana í Mogga.

Þegar DV gerir mistök á þessu sviði, leiðréttir blaðið þau og biðst afsökunar, þar sem það á við. Pressuballsfjölmiðlun þarf ekki að birta leiðréttingar og afsakanir, af því að hún fjallar ekki um efni, sem menn vilja halda leyndu, hún snýst ekki um sjálfstæðar rannsóknir í undirheimum landsins.

Þegar DV birtir játningar ofbeldismanna eða fer á annan hátt fram úr öðrum fjölmiðlum, hefur það ekki verið umræðuefni hjá pressuballsfjölmiðlungum. Ef hins vegar grunur leikur á, að ekki sé tæknilega rétt farið með öll atriði, eru hinir ágætu pressuballsmenn ekki lengi að fitja upp á trýnið.

Sumir fjölmiðlungar leggja þannig mikið að sér við að afla upplýsinga um, hver gerði hvað, hvar og hvenær, hvernig og hvers vegna og hvað svo. Aðrir vakna bara, ef þeir telja sig geta komið höggi á rannsóknablaðamenn, sem eru að reyna að vinna vinnuna sína við erfiðari kringumstæður en hinir.

Við lifum í þjóðfélagi, sem er illa búið undir handrukkun og annað ofbeldi. Hér eru ekki lög og reglugerðir, sem gera ráð fyrir, að ofbeldi sé meiri háttar vandamál. Hér er ekki veitt fé til að sinna þessu máli betur. Hér neita dómarar um vitnavernd fyrir manni, sem sveiflar öxi á skemmtistað.

Lögreglan segir hreinlega í Mogga, að ekki sé sjálfgefið, að menn séu handteknir umsvifalaust, þegar þeir hafa misþyrmt fórnarlambi á óvenjulegan hátt. Vafalaust er rétt, að reglur, sem lögreglan fer eftir, eru ekki til þess fallnar að ná utan um harðan heim margra ungmenna nú til dags.

Gott væri, ef pressuballsblaðamenn sameinuðust um að hvetja framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið, lögregluvaldið og dómsvaldið til að grípa til harðari aðgerða gegn ofbeldi.

DV

Lýðræðið er orðið leiðinlegt

Greinar

Landsfeðurnir virðast telja sig vera ómissandi og telja kjósendur aldrei munu þreytast. Nú hefur Davíð Oddsson ákveðið að leiða Sjálfstæðisflokkinn áfram, að minnsta kosti til ársins 2007. Flokksmenn taka þessu fagnandi. Þá hefur Davíð verið formaður flokksins í sextán ár, heila eilífð.

Halldór Ásgrímsson var nýlega staðfestur á flokksþingi sem formaður. Enginn eftirmaður er sýnilegur í þeim flokki. Þar er enginn Geir Haarde til að leika hlutverk Gordon Brown fjármálaráðherra í Tony Blair leikriti Davíðs. Allt bendir til, að bæði Halldór og Davíð heyi næstu þingkosningar.

Hugsanlegt er, að Samfylkingin skipti um formann í vor, en allt virðist verða við það sama hjá Vinstri grænum og Frjálslyndum í næstu kosningum. Helzt er von til breytinga í Reykjavík, þar sem R-listinn er byrjaður að liðast í sundur vegna vaxandi ólgu hjá Vinstri grænum og Framsóknarflokknum.

Fólk er farið að verða þreytt á foringjum sínum. Menn hafa auknar efasemdir um heilindi þeirra. Það birtist meðal annars í grunsemdum um, að ekki sé allt með felldu í flóknu ferli við sölu Símans og fullyrðingum um, að einkavæðing bankanna hafi ekki verið framkvæmd með eðlilegum hætti.

Fólk vantreystir ekki bara ríkisstjórninni, heldur líka meirihluta R-listans í borgarstjórn. Þótt loforð um ókeypis leikskóla hafi bætt stöðu meirihlutans í bili, skera í augu stöðugar hrasanir í skipulagsmálum, svo sem Vatnsmýrin, Norðlingaholt og mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Alþingi hefur ekki farið varhluta af efasemdum fólks. Menn hlæja úti í bæ, er Lúðvík Bergvinsson espar Halldór Blöndal þingforseta til að leika hlutverk lélegs kennara, sem hefur misst tökin á tossabekk. Jakki og hálsbindi karlþingmanna eru orðin að síðasta vígi sjálfsvirðingar Alþingis.

Veigamesta forsenda þverrandi virðingar fyrir pólitíkinni er, að það þjónar ekki lýðræði í landinu, ef við lítum á lýðræði sem aðferð til að skipta um valdhafa á tiltölulega friðsaman hátt. Ef lýðræði megnar ekki að gegna þessu hlutverki, missa menn áhuga á því og neita að taka þátt.

Ekki er enn hægt að sjá, hvort þreyta fólks á leiðtogum og stjórnarmynztri muni leiða til byltinga í næstu byggða- og þingkosningum, en vissulega er þegar kominn tími til þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Hákarlar í grasrótinni

Greinar

Hætt er við, að grasrótin í Símamálinu mengist af auðugum fjárfestum, sem vilja leggja fram tugi eða hundruð milljóna í hlutabréfum hennar til að hafa meiri áhrif en almenningur. Einhverjir bjóði jafnvel milljarða til að kaupa sér sæti í stjórn hlutafélags grasrótar Agnesar Bragadóttur.

Styrkur grasrótarinnar felst í að vera grasrótin. Hann felst ekki í að vera tæki lukkuriddara til að leysa af hólmi einkavini, sem áttu að eignast Símann, einn helzta innvið þjóðfélagsins, í flóknu yfirtökukerfi, sem samið var til að tryggja stöðu gæludýra í kolkrabbanum og smokkfiskinum.

Vantraust á ríkisstjórninni og þingflokkum hennar er orðið svo djúpstætt í þjóðfélaginu, að menn trúa alls ekki aðferð hennar við að selja Símann. Þótt menn sjái ekki svindl á yfirborðinu, eru þeir sannfærðir um, að brögð séu í tafli undir niðri. Þess vegna komst hreyfing á grasrótina.

Grasrótin komst á hreyfingu í Símamálinu, af því að fólkið í landinu treystir ekki ríkisstjórninni og telur hana vera að hagræða málum til að tryggja, að einkavinir og gæludýr hennar fái feita bita í sölunni. Gegn því dugar ekki að raða upp öðrum hópi, þar sem á oddinum eru hákarlar í fjármálum.

Ef grasrótin verður smám saman yfirtekin af hákörlum, mun hún hjaðna. Fólk leggur ekki milljón krónur í ævintýri til að hjálpa nokkrum hópum hákarla til að leysa aðra hópa hákarla af hólmi. Þess vegna verður að setja hámark á fjárhæðir, sem einstakir aðilar geta skráð sig fyrir.

Skynsamlegt er fyrir hóp Agnesar Bragadóttur að setja mörk, til dæmis að hlutafjárloforð megi nema frá einni upp í tíu milljónir króna á hvern aðila. Þá er tryggt, að félagið verði myndað af þúsundum jafningja, þar sem sérhver sé fullgildur málsaðili, en ekki bara smáfiskur í hákarlasjó.

Síðan er mikilvægt, að stjórnarmenn og talsmenn hópsins verði valinkunnir einstaklingar, sem njóta trausts, ekki lífeyrissjóðir og verðbréfabraskarar fjármálaheimsins. Grasrótin vill ekki verða verkfæri í höndum slíkra. Hún vill geta starfað á meira eða minna félagslegum grunni.

Ef hópnum tekst að halda vel á málum, felur hann í sér tímamót. Almenningur hefur þá sagt við svindlarana og hrokagikkina, sem ráða landinu: Hingað og ekki lengra. Valdhafarnir geta ekki sagt nei við grasrót, sem hefur fé, en hagar sér samt eins og grasrót, ekki eins og hákarl.

Framganga Agnesar hefur framkallað sprengingu með óljósum afleiðingum. Miklu máli skiptir, að vandað verði til verka í grasrótinni, svo að eðli sprengingarinnar breytist ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Frumvarpsrugl um fjölmiðla

Greinar

Fjölmiðlafrumvarpið og greinargerð þess svara ekki þessum tveimur mikilvægu spurningum: Hvers vegna þarf að setja meira íþyngjandi lög um einkafjölmiðla en um önnur fyrirtæki í landinu? Hvers vegna þarf að setja meira íþyngjandi lög um einkafjölmiðlana í landinu en um ríkisfjölmiðlana?

Höfundar frumvarpsins geta ekki svarað, hvers vegna ekki þarf reglu um fjórðungs hámarkseignarhald eins aðila að fjölmiðlum ríkisins og hvers vegna ekki þarf slíkt ákvæði um tryggingafélög, olíufélög, flugfélög og banka, sem hafa náð þriðjungs hlutdeild af viðskiptum á sínum markaði.

Fjölmiðlafrumvarpið er auðvitað pólitísk sátt um rugl. Það fullnægir ekki landsfeðrum, sem vildu hefna sín á fjölmiðlum fyrir að sýna ekki næga virðingu. Það fullnægir ekki heldur þeim, sem telja að sömu lög eigi að gilda um alla aðila, jafnt um fjölmiðla sem önnur fyrirtæki og ríkisfyrirtæki.

Með fjölmiðlafrumvarpinu er stjórnarandstaðan meðsek í aðför stjórnvalda að einkareknum fjölmiðlum. Spilað hefur verið á dálæti stjórnarandstöðu á skipulagi að ofan, forsjárhyggju Stóra bróður. Hún gerðist aðili að sértækum takmörkunum, sem gilda bara um einkarekna fjölmiðla, en ekki um þjóðfélagið.

Mesti vandi fjölmiðlunar á Íslandi var ekki til afgreiðslu í ruglfrumvarpi hinnar pólitísku sáttar. Afskipti valdhafa eru mikil og óviðeigandi. Forsætisráðherra hefur án árangurs reynt að garga á ráðamenn einkafjölmiða. Og dæmin sýna, að vandi pólitískra afskipta er óheftur á ríkisfjölmiðlum

Ekki verður séð, að einkafjölmiðlar gangi pólitískra erinda eigenda eins og landsfeður vilja, að ríkisfjölmiðlar gangi erinda landsfeðra. Áhrif auglýsenda eru nokkur og eru því miður vaxandi, en þeir eru aðrir aðilar en eigendur og koma að fjölmiðlunum með allt öðrum hætti en eigendur þeirra.

Kostun efnis í fjölmiðlum er háll ís, sem kom til sögunnar með ljósvakamiðlum. Einnig er illt, að heil tímarit á borð við Lifun Morgunblaðsins og heilir sjónvarpsþættir séu reknir að hætti hóruhúsa. Fjölmiðlar eiga að taka á þessu með siðareglum, enda gerir fjölmiðlafrumvarpið það ekki.

New York Times baðst fyrir viku afsökunar á að hafa samið við Columbia-háskóla um forgang að yfirlýsingu skólans gegn því að ekki yrði talað við aðra málsaðila af sama tilefni. Þetta er vandi kranablaðamennsku, sem tröllríður öllum íslenzkum fjölmiðlum og er verkefni fyrir siðareglur.

Það gildir þó um kostun og kranablaðamennsku, að hvort tveggja er lítilvægari vandi fjölmiðla en afskipti valdhafa, sem lýsa sér meðal annars í fjölmiðlafrumvarpsruglinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Einkavinavæðing Íslandssíma

Greinar

Síminn er dýrastur, ef einokun fylgir. Því meiri skorður, sem settar eru kaupendum hans, þeim mun minna bjóða þeir í hann. Þess vegna verður ríkið að ákveða, hvort er meira virði að koma á samkeppni í símaþjónustu eða græða sem mest. Það gefur meira í aðra hönd að selja einokun en samkeppni.

Ef hagsmunir neytenda væru hafðir að leiðarljósi, mundi Íslandssíma vera skipt upp í sölunni, deildirnar seldar hver fyrir sig og hugsanlega settar skorður við, að sami aðilinn keypti allan pakkann. Ekki er þó hægt að girða fyrir slíkt, því að með kaupum og sölum getur allt runnið í eina hendi.

Því miður lykta kröfur ríkisins til kaupenda Íslandssíma ekki af því, að verið sé að verja hagsmuni notenda. Þvert á móti lykta þær af spilltum hefðum ríkisstjórnarflokkanna. Að venju er verið að haga sölunni á þann hátt, að gæludýr og vildarvinir hafi betri aðgang að einkarekinni einokun.

Hlutverkaskipting ríkisstjórnarflokkanna virðist vera sú, að Framsóknarflokkurinn hafi meiri áhuga á aðgangi sinna manna að hluta dæmisins og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi meiri áhuga á, að einokunin verði sem heillegust, þegar hún rennur í hendur þeirra, sem taldir eru vera réttir aðilar.

Verst við einkavinavæðinguna er, að tekjurnar eru ekki notaðar til að greiða skuldir, heldur til að fjármagna ýmis gæluverkefni. Eðlilegt væri, að sala innviða þjóðfélagsins væri notuð til að minnka ríkisskuldir á móti, en ekki til að fjölga gagnslitlum jarðgöngum á afskekktum stöðum.

Misnotkun einokunar Íslandssíma hefur aukizt síðan hann hætti að vera stofnun og varð að hlutafélagi í eigu hins opinbera. Nýjungar hafa verið seldar dýru verði, rekstur gemsa er allt of dýr og þjónusta á borð við tölvutenginu gemsa í útlöndum er seld á stjarnfræðilegum prísum.

Þetta er eins og rafmagnið. Eðlilegt er, að venjulegt fólk í venjulegum húsum borgi innan við 3000 krónur á mánuði fyrir samskipti og innan við 3000 krónur fyrir rafmagn. Í báðum tilvikum borgar fólk yfirleitt mun meira. Það er að borga einkavæðingu símans og niðurgreiða rafmagn til stóriðju.

Sem betur fer mun einokun símans linna, hvort sem ráðamönnum líkar betur eða verr. Tölur og netsamband munu leysa talsíma af hólmi og gera gömlu símafyrirtækin að úreltum risaeðlum, sem ekki geta keppt við nýja tækni. Nú þegar er hægt að hafa ýmsa útvegi við að komast í ódýr fjarskipti við útlönd.

En fyrst um sinn verður reynt að varðveita einokun. Flóknar reglur einkavinavæðingarnefndar um sölu Íslandssíma eru eins konar sátt milli gróðahyggju ríkisins og þarfa gæludýranna.

Jónas Kristjánsson

DV

Órar verkfræðingsins

Greinar

Fyrir mörgum árum var ég fundarstjóri hjá hestamannafélaginu Fáki, þar sem embættismenn voru að segja frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Hestamenn höfðu áhyggjur af reiðleiðum úr Reykjavík upp í Mosfellssveit og áfram austur í Skógarhóla, þaðan sem reiðleiðir liggja suður, vestur og norður í land.

Verkfræðingur Vegagerðar lýsti framkvæmum við Vesturlandsveg hjá Grafarholti og sagði með hroka: “Þið verðið bara að fresta því í þrjú ár að fara upp í Mosfellsbæ.” Setningin greyptist í hug mér og ég sagði við sjálfan mig: “Þessi kerfiskarl á eftir að valda Vegagerðinni miklum vandræðum.”

Nú hefur verið dustað rykið af þessum verkfræðingi. Hann er kominn til skjalanna með hugvitsamlega ráðagerð um að setja GPS-tæki í hvern einasta bíl á landinu. Tækið á að rekja leið bílsins allt árið og verða grundvöllur nýrra og 20% hærri umferðarskatta í stað benzíngjalds og þungaskatts.

Þú ferð um Ölfusið á lágu sveitagjaldi í GPS-tækinu og kemur yfir Hellisheiðina á nokkru hærra gjaldi. Þegar þú ert kominn um Rauðhólahringinn eykst umferðin, því nú fjölgar reykvískum bílum og tækið mælir hærra gjald. Á Miklubraut tifar tækið mjög hratt, enda mikill þungi í umferðinni.

Borgin hefur búið til umferðaröngþveiti á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þar fer GPS-tækið hamförum, einkum ef þú ert á ferðinni á viðurkenndum álagstíma. Tækið heldur miklum hraða hvarvetna í gamla bænum, þar sem bílar eru margir og götur mjóar. Vegagerðin hefur náð haustaki á þér.

Í ráðum með verkfræðingnum er nefnd, skipuð nokkrum minni máttar þingmönnum stjórnarflokkana af landsbyggðinni. Þeir eru af því tagi, sem þú manst hvorki hvað heita, né vilt vita hvað heita. Þessir bjánar hafa skilað nefndaráliti um að framleiða vegaskatta á sjálfvirkan hátt með GPS-tækjum.

Nefndarmenn fullyrða, að Evrópusambandið vilji skattleggja fólk eftir tegund umferðarmannvirkja, tíma dags, stærð og þyngd farartækis, svo og eftir sérhverjum þætti, sem veldur umferðartöfum, slítur mannvirkjum og skaðar umhverfið. Það eru semsagt skattaórar víðar á ferðinni en hjá Vegagerðinni.

Við höfum núna benzíngjald, sem skattleggur bíleigendur eftir notkun. Við höfum kílómetragjald til að skattleggja mismun eftir eldsneyti. Við vitum þyngd bíla. Það eru órar að búa til flókið gervihnatta- og rafeindadæmi til að geta líka skattlagt eftir stöðum á landinu og eftir álagstímum.

Áður varð ég vitni af hugvitsamlegri tilraun verkfræðingsins til að koma hópi fólks í vandræði. Nú hefur honum tekizt að koma á framfæri algerum órum til að ógna þjóðinni allri.

Jónas Kristjánsson

DV

Borgin tekur af skarið

Greinar

Gjaldfrjáls leikskóli í Reykjavík er mesta stjórnmálafrétt vetrarins. Í einu vetfangi hefur kyrrstöðu í velferð verið hrundið og kúrsinn tekinn aftur í átt til fyrirmyndarríkis Stóra bróður. Stefnt er gjaldfrjálsum leikskóla fyrir alla aldurflokka undir skólaaldri í heilar sjö stundir á dag.

Ráðamenn Reykjavíkur hafa vafalaust áttað sig á, að fólk er ekki eins andvígt opinberum álögum og frjálshyggjumenn hafa haldið fram. Kannanir leiða í ljós, að meirihluti fólks er tilbúinn að leggja meira af mörkum, ef tryggt er, að það leiði til aukinnar velferðar, meiri félagslegrar þjónustu.

Þetta stingur í stúf við stefnu ríkisstjórnar landsins, sem lengi hefur verið við völd og fremur reynt að snúa málum frá velferð til frjálshyggju, til dæmis með því að selja opinber fyrirtæki. Enda hafa ráðherrar brugðist ókvæða við ákvörðun Reykjavíkur og fjármálaráðherra sleppti sér á Alþingi.

Eðlilegt er, að menn séu ekki á eitt sáttir um gjaldfrjálsan leikskóla í Reykjavík. Önnur sveitarfélög verða knúin til að taka afstöðu til frumkvæðis borgarinnar og reyna að finna leiðir til að gera slíkt hið sama til að missa ekki unga fólkið til Reykjavíkur, sem verður að gósenlandi foreldra.

Deilurnar um gjaldfrelsið magna klofninginn í leifunum af Framsóknarflokknum, sem í borgarstjórn styður það, en er á móti því í ríkisstjórn. Það endurspeglar, að í borgarstjórn er Framsókn enn miðjuflokkur, en á landsvísu hefur hann rúllað til hægri, í sumum tilvikum alveg út á hægri kant.

Gott er að bera ákvörðun borgarstjórnar saman við hugmynd einnar af spunakerlingum forsætisráðherra, sem hefur það helzt til fjölskylduverndar að leggja, að börn verði klædd í skólabúninga, sem vinsælir voru áður fyrr í ríkjum fasista og í mjög stéttskiptum ríkjum á borð við gamla Bretland.

Hægri jaðarinn í flokknum, svo sem félagsmálaráðherra, þorir að vísu ekki að lýsa beinni andstöðu við gjaldfrjálsan leikskóla, en kvartar hins vegar um, að hann sé einhliða ákvörðun, sem betra hefði verið að hafa samráð um á landsgrundvelli, milli sveitarfélaga og við ríkisstjórn.

Því er til að svara, að með samráði hefði málinu verið drepið á dreif. Með einleik hefur borgin tekið frumkvæði, sem óhjákvæmilega leiðir til aukinnar velferðar, til vinstri beygju í þjóðlífinu í heild. Reykjavík er svo stór og rík, að hún getur nánast gefið forskrift að þróun næstu ára.

Í reiði sinni hótar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að svíkja samkomulag um fasteignagjöld af ríkishúsum. Hótanir eru vissulega í stíl flokksins, en þessi hótun er marklaus.

Jónas Kristjánsson

DV

Fischer drepur engan

Greinar

Þótt Bobby Fischer sé vænisjúkur og orðljótur, má ekki gleyma því, að almennt séð hefur hann að flestu leyti rétt fyrir sér um Ísrael og Bandaríkin, ef litið er framhjá persónulegum ágreiningsefnum hans. Þessi tvö ríki hafa um nokkurt skeið verið alvarlegasta ógnunin við mannkynið.

Ísrael er í senn afar þjóðernissinnað og ofsatrúað ríki, sem hefur áratugum saman ofsótt Palestínumenn, rænt landi þeirra, reist múr á landi þeirra, stolið vatni þeirra og eyðilagt innviði þjóðfélags þeirra. Jafnframt æsir það Bandaríkin til styrjalda við önnur ríki miðausturlanda.

Bandaríkin hafa að minnsta kosti frá upphafi þessarar aldar verið til mikilla vandræða í heiminum. Þau hafa vikið frá lýðræði og tekið upp auðræði, þar sem sérhver frambjóðandi til stjórnmála verður að vera á mála hjá einhverjum, sem eiga peninga, annars er hann vita vonlaus um að ná kjöri.

Þótt þau séu ekki lengur lýðræðisríki í sama mæli og ríki Evrópu, telja Bandaríkin sér kleift að flagga lýðræði út á við og ofsækja önnur ríki, svo sem áður Afganistan og núna Írak, á þeim forsendum, að þar sé verið að koma á fót frjálsum kosningum og öðrum mikilvægum þáttum lýðræðis.

Til stuðnings við þetta hafa Bandaríkin annáluð ríki harðstjórnar og mannréttindabrota, svo sem Pakistan og Úsbekistan, Sádi-Arabíu og Egyptaland. Að svo miklu leyti sem utanríkisstefnu Bandaríkjanna er ekki stjórnað af Ísrael, er henni stjórnað af óvenjulega mikilli hræsni.

Bandaríkin hafa á þessari öld verið andvíg samstarfi þjóða, reynt að rífa Sameinuðu þjóðirnar í tætlur, skipa kunna ofstækismenn í embætti sendiherra hjá alþjóðasamtökunum og forstjóra Alþjóðabankans. Hvað eftir annað hafa Bandaríkin virt vilja Evrópuríkja að vettugi í mikilvægum alþjóðamálum.

Ein helzta birtingarmynd utanríkisstefnu Bandaríkjanna önnur en styrjaldir við umheiminn er óbeit þeirra á fjölþjóðlegum samningum, svo sem um takmörkun á útblæstri koltvísýrings, um Alþjóðlaglæpadómstól í Haag, um bann við jarðsprengjum, um takmörkun á vopnasölu og svo framvegis endalaust.

Bandaríkjunum er í auknum mæli stjórnað af ofsatrúuðu fólki, sem telur heimsendi á næsta leiti, svo að ekki sé þörf á umhverfisvernd, og treystir á bandalag við Ísrael til að undirbúa stórstyrjöldina, sem heimsendir á að fela í sér. Þannig er Bandaríkjunum stjórnað af geðveikum erkiklerkum.

Þótt Fischer sé ekki eins og fólk er flest, er hann ekki hættulegur umhverfi sínu eins og Ísrael og Bandaríkin eru. Það, sem hann hefur, eru bara skoðanir, sem drepa engan.

Jónas Kristjánsson

DV

Nöfn og myndir

Greinar

Nafn- og myndbirtingar í fjölmiðlum eru þekkt deiluefni, sem fjölmiðlar höndla með ýmsum hætti. Fyrir öld fóru íslenzkir fjölmiðlar frjálslega með nöfn og myndir, svo sem tíðkaðist þá og síðar í erlendum fjölmiðlum. Í vestrænu samfélagi er hefðbundið, að nöfn og myndir eru hluti venjulegra frétta.

Þegar ég var ungur fyrir hálfri öld sögðu brezkir fjölmiðlar þannig frá búðarhnupli: Jón Jónsson, 31 árs, Edgeware Road 25, ógiftur og barnlaus, var í gær tekinn fastur fyrir að stela fimm skyrtum í Selfridge búðinni. Með birtist mynd af manninum í sumum blöðum. Jón Jónsson er hér tilbúið nafn.

Á þessum tíma fyrir hálfri öld voru íslenzkir fjölmiðlar komnir í séríslenzka bóndabeygju, sem takmarkaði á ýmsan hátt birtingu nafna og mynda. Fjölmiðlarnir höfðu þá um nokkurt skeið verið undir járnhæl stjórnmálaflokka, sem töldu almennt, að ekki mætti móðga neinn í fjölmiðlunum.

Það voru ekki bara stjórnmálaflokkarnir, sem töldu sér skylt að stjórna meðferð fjölmiðla á nöfnum og myndum. Dómstólar vildu líka stýra henni og gera birtinguna að ákveðnum þætti í meðferð mála í réttarkerfinu. Prestar vildu líka stýra henni og gera birtinguna háða valdi presta á sorginni.

Nú eru fjölmiðlar ekki flokksblöð og starfa hvorki í umboði dómstóla né presta. Birting nafna og mynda er ekki þáttur í réttarferli og táknar alls ekki neitt um sekt eða sakleysi. Hún er bara partur af frétt, sem felur í sér svör við: Hvað gerðist hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?

Siðareglur blaðamanna eru frá þessum tíma niðurlægingar stéttarinnar, þegar hún vildi vera memm með yfirstéttinni, hélt pressuböll með yfirstéttinni og skoðaði sjálfsmynd sína í spegli yfirstéttarinnar. Hún hafði veika sjálfsmynd og setti sér siðareglur til að njóta álits yfirstéttarinnar.

Hálf öld er liðin og komin tíma til að breyta. Ekki eru menn sammála um, hvert skuli fara. Þeir, sem höndla með peninga, vilja gera hugtak einkamála víðtækara, þannig að peningar verði eins konar lögpersónur, sem eigi að njóta friðhelgi einkalífs. Þannig vilja sumir banna birtingu á sköttum.

DV hefur stigið skrefið í aðra átt, í átt til veruleikans, eins og hann sést í erlendum fjölmiðlum og eins og hann var hér á landi, áður en fjölmiðlarnir lentu í bóndabeygju stjórnmálaflokkanna og glötuðu sjálfstæði sínu um skeið. DV birtir almennt nöfn og myndir, með sárafáum undantekningum.

Nafn- og myndbirtingar DV eru eðlilegur hluti frétta. Reynt er að svipta huliðshjálmi af leyndarmálum og veita lesendum innsýn í þjóðfélagið með því að gera það öllum gagnsætt.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir hlusta ekki

Greinar

Þeir, sem fá einbýlishúsalóð í vinning hjá Reykjavík, eru sagðir munu græða fjórfalt lóðarverð við endursölu. Þetta segir okkur, að mikil eftirspurn sé eftir lóðum undir einbýlishús, meiri en undir fjölbýlishús. Segir þetta ráðamönnum Reykjavíkurborgar eitthvað um vilja fólksins?

Nei, alls ekki. Ráðamenn Reykjavíkurborgar vita nefnilega betur en fólkið, hvað gera skal. Fólkið veit ekki, að það sé vitlaust að búa í einbýlishúsum, annað hvort af því að það sé of ameríkaniseruð búseta eða þá að ekki sé nóg pláss í landinu eða þá að erfiðara sé að reka strætó við einbýli.

Ýmis slík hundalógík, sem kemur í stað hlustunar á vilja fólksins, leiðir til stefnu þéttingar á byggð. Ráðamenn Reykjavíkurborgar vilja safna fólki saman, þétta byggð, væntanlega til að gera búsetuna evrópska fremur en ameríska, til að spara takmarkað pláss og til að létta fyrir strætó.

Við höfum auðvitað ýmis dæmi um það í skipulagsmálum, að ekki er hlustað á fólk eða félög þess, til dæmis við færslu Hringbrautar og mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut. Við höfum nefnilega meirihluta í borgarstjórn, sem er búinn að missa jarðsambandið og veit alla hluti bezt sjálfur.

Ef það er svona brýnt að þétta byggð og neita fólki um lóðir undir einbýlishús, af hverju reisir þá borgin ekki sitt Manhattan á nýjum stað, til dæmis í Álfsnesi, þar sem glæsiturnar takmarka ekki svigrúm og útsýni fólks, sem fyrir býr á svæðinu? Af hverju ekki láta gamla bæinn í friði?

Í Álfsnesi getur borgarstjórnarmeirihlutinn látið reisa 100 hæða blokkir með atvinnutækifærum, skólum, verzlunum og þjónustu á neðstu hæðum, svo og kaffihúsum og ýmsum sjarma fyrir 101-fólkið. Í slíku hverfi þarf raunar alls ekki strætó, því að allt lífið er á sama stað að hætti Corbusier.

Þarna getur borgarstjórnarfólk og fylgisfólk meirihlutans keypt íbúðir til að lifa sjálft afleiðingar stefnunnar um þéttingu byggðar, án þess að plaga borgarbúa og þrýsta þeim út í stöðugar erjur út af pólitískri sérvizku, til dæmis hatri á einkabílisma, sem stingur í stúf við vilja fólks.

Af hverju er rekstur strætó merkari en vilji fólks Af hverju má búseta ekki vera amerísk, ef fólk vill það? Hvar er allt þetta plássleysi, sem enginn sér? Ráðamenn í Reykjavík minna á stórborgarstjórann á Seltjarnarnesi, sem ólmur vill færa sparkvöll til að halda úti illdeilum við kjósendur.

Að baki allra þessara vandamála er ein staðreynd. Hinn pólitíski meirihluti í Reykjavík er búinn að vera of lengi við völd og beitir hundalógík í stað þess að hlusta á fólk.

Jónas Kristjánsson

DV

Ásdís Halla Bragadóttir

Greinar

Hún sagði ekki í viðtalinu, að pólitískir andstæðingar hennar færu með mikinn misskilning. Hún tuggði ekki neina af klisjunum, sem einkenna landsfeður okkar og valda almennum leiða í þjóðfélaginu. Hún nefndi varla flokkinn sinn á nafn. Kannski er hún stjórnmálaforingi framtíðarinnar.

Ásdís Halla Bragadóttir var í opnuviðtali hér í blaðinu á laugardaginn. Hún kom vel fyrir í svörum sínum og talaði þá íslenzku, sem stjórnmálaforingjar okkar týndu áður en þeir fóru að semja ályktanir flokksþinga um, að kannski megi hugsanlega ræða aftarlega í aukasetningu um Evrópusambandið.

Bæjarstjórinn í Garðabæ gerði að vísu stuttan ágreining við Reykjavíkurborg um stefnuna í skólamálum og rökstuddi hann vel. Í borginni hafa aðeins hinir ríku frelsi til að velja skóla. Í Garðabæ fylgir fjármagnið hins vegar nemandanum, hvert í skóla sem hann vill fara. Hann fær eins konar tékka.

Róttæk breyting á skólakerfinu í Garðabæ hefur farið af stað nokkurn veginn í sátt við samfélagið, öfugt við Hafnarfjörð og Reykjavík, þar sem allt hefur gengið af göflunum af svipuðu tilefni. Kannski er unga konan úr Ólafsvík hæfari en eldri pólitíkusar landsins til að bera klæði á vopnin.

Auðvitað á að gera tilraun með einkaskóla, einmitt með því að láta börnin hafa tékka, sem þau geta innleyst í þessum skólanum eða hinum. Það skapar samkeppni og örvar hugsun. Þar með er ekki sagt, að einkaskólar séu betri en opinberir skólar, slíkt getur aðeins reynslan sagt á löngum tíma.

Í Garðabæ hefur bæjarstjórinn forustu um að breyta skólum og reyna að fá inn nútímaleg hugverkafyrirtæki á borð við Marel og Háskólann í Reykjavík, svo að svefnbærinn megi breytast úr svefnherbergi í fullbæran vettvang atvinnulífs. Kannski tekst þetta ekki, en það er að minnsta kosti reynt í alvöru.

Hugsið ykkur muninn á þessum bæjarstjóra og bæjarstjóra sama flokks á Seltjarnarnesi. Þar fer öll orkan í að slást við vilja borgarbúa í skipulagsmálum, reyna með öllum tiltækum ráðum að færa fótboltavöll um 500 hundruð metra og reisa þar íbúðahverfi, sem Seltirningar vilja almennt ekki sjá.

Á Seltjarnarnesi ríkir sama forneskja og í landsmálunum, en í Garðabæ er vísir að nýjum tíma. Kannski á Ásdís Halla eftir að breytast í skapvondan skætingskall að hætti Davíðs Oddssonar eða Halldórs Ásgrímssonar, en nú flytur hún að minnsta kosti vonarneista inn í staðnað pólitískt líf.

Kominn er í landsmálunum tími til nýs fólks, sem getur tekið við af gegnrotnu helmingskiptafélagi þeirra, sem hafa haldið völdum langt fram yfir eðlilegan pólitískan líftíma sinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir fyrirlíta þig

Greinar

Þeir fyrirlíta þig. Þeir vita, að þú verður búinn að gleyma þessu eftir ár, löngu fyrir kosningar. Halldór Ásgrímsson og spunakerlingarnar telja Framsókn eiga embætti fréttastjóra útvarps og beri engin skylda til að finna hæfan flokksmann í það. Lakasti frambjóðandinn sé alveg nógu góður í starfið.

Þeir fyrirlíta þig af því að þeir hafa reynslu fyrir því, að þú gleymir öllu þeirra spillta framferði. Þeir vita, að þú ert þegar búinn að gleyma því, að Björn Bjarnason skipaði lakasta frambjóðandann sem hæstaréttardómara. Hvorki Björn né Sjálfstæðisflokkur hans líða neitt fyrir þann gerning.

Ekkert þýðir fyrir þig að væla út af linnulausri misnotkun siðspilltra á því stjórnvaldi, sem þeir fara með, af því að þú greiddir þeim atkvæði á sínum tíma. Fréttir undanfarinna áratuga er endalaus saga spillingar, þar sem fram úr skara aðgerðir flokka ríkisstjórnarinnar í þágu gæludýra sinna.

Hornsteinn þessa kerfis eru helmingaskiptin, sem Framsókn fann upp og snýst um. Raunar er Framsókn ekki lengur neinn stjórnmálaflokkur í hefðbundnum skilningi, heldur eins konar vinnumiðlun fyrir félagsmenn og þá, sem hún vill gera að félagsmönnum sínum, fyrirgreiðslustofnun fyrir kvígildi.

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefur alltaf verið þægt verkfæri í höndum ríkisstjórnarinnar, sem farið hefur með völd í landinu miklu lengur en minni þitt rekur. Hann gerir bara það, sem meirihluti útvarpsráðs segir honum að gera. Hann hefur alls ekkert stolt fyrir hönd Ríkisútvarpsins.

Rekstrarsaga útvarpsstjóra er hin sorglegasta. Á valdaskeiði hans hefur verið hrúgað upp fjölmennu kerfi yfirmanna á vegum Sjálfstæðisflokksins. Taprekstur Ríkisútvarpsins byggist annars vegar á þessum fjölda óþarfra kvígilda og á dýrum mistökum þessara kvígilda dag eftir dag, ár eftir ár.

Þessi ríkisstjórn er svo sannfærð um takmarkalaust vald sitt, að hún nennir ekki lengur að finna sæmilega hæf gæludýr til samanburðar við fagfólk, sem er í boði. Hana munar ekkert um að sparka í þig, af því að hún veit, að þú ert aumingi, sem munt skila þér í réttan dilk í kosningum.

Gamla sagan endurtekur sig enn einu sinni. Reiðibylgja fer um þjóðfélagið. Starfsmenn Ríkisútvarpsins eru siðferðilega niðurbrotnir. Stjórnarandstaðan hamast á Alþingi. Þetta skiptir valdhafana engu máli, af því að þeir þekkja þig, sem valdið veitir, hinn almenna kjósenda, sem öllu gleymir.

Halldór Ásgrímsson fyrirlítur þig, enda áttu það skilið. Davíð Oddsson fyrirlítur þig, enda áttu það skilið. Björn Bjarnason fyrirlítur þig, enda áttu það skilið.

Jónas Kristjánsson

DV

Erfðabreyttar veirur

Greinar

Fuglaflensan er erfðabreyttur vágestur, sem til skamms tíma réðist eingöngu á fugla, en er nú farin að sækja á fólk, til dæmis í Víetnam, þar sem 33 hafa þegar dáið úr veirunni. Þar sem þetta er nýr sjúkdómur mannkyns, hefur fólk ekki mótefni gegn henni og þarf á bóluefni að halda, ef hún breiðist út.

Við höfum árvisst lesið um lífshættulega sjúkdóma, einkum flensur, sem berast með veirum um heiminn frá Austur-Asíu, aðallega frá Kína. Þessar ásóknir hafa tilhneigingu til að verða verri viðureignar með árunum. Einkum væri afleitt, ef riðusjúkdómar, sem hingað til hafa haldið sér við sauðfé og nautgripi, fara í auknum mæli að herja á mannkynið.

Þekkt eru dæmi um kúariðu í fólki í Bretlandi og víðar. Menn vita ekki, hvernig stendur á, að sumt í náttúrunni fer að hegða sér á nýjan hátt, en reikna með, að stökkbreytingar valdi erfðabreytingum af ýmsum ástæðum, allt frá auknu þéttbýli og skorti á hreinlæti yfir í mistök eða ásetning.

Dæmi eru til um stórslys í efnarannsóknastofum af völdum áður óþekktra sjúkdóma. Þótt fræðimenn telji sig sýna næga varúð, segir reynslan, að þeir vanmeta oft hættur, sem fylgja rannsóknum. Þar á ofan er það orðið keppikefli hryðjuverkamanna að komast í slíkar veirur og dreifa þeim.

Þekktasti stjörnufræðingur Bretlands, sir Martin Rees, prófessor í Cambridge, skrifaði fyrir ári bókina: Our Final Hour, þar sem hann metur meðal annars hættuna af nýjum sjúkdómum. Hann er telur þá raunar geta riðið siðmenningu nútímans að fullu einhvern tímann á næstu áratugum.

Hann minnir á eyðniveiruna, sem er illviðráðanleg og smitar nú fleiri en nokkru sinni fyrr. Hann nefnir kúariðuna, sem setti allt á annan endann í Bretlandi. Hann getur um miltisbrandinn, sem í Bandaríkjunum var sendur fólki í pósti. Hann nefnir stórubólu, sem er til á tilraunastofum.

Margar ríkisstjórnir hafa beinlínis reynt að rækta veirur til að nota í hernaði, til dæmis Sovétríkin og Bandaríkin, auk nokkurra harðstjórnarríkja. Þá er vitað, að glæpamenn og hryðjuverkamenn sækjast mjög eftir að koma höndum yfir slíkar veirur, þótt þær eigi að vera í öruggri geymslu.

Framleiðsla á veirum er þáttur erfðavísinda og líftækni. Allt þetta eykur hættuna á, að yfir okkur þyrmi sjúkdómur, sem verður eins og Svarti dauði fyrr á öldum. Við getum hér á Íslandi ekki hindrað efnahagsleg áhrif slíkra hörmunga, en við getum lokað landinu um tíma til að bjarga okkur sjálfum.

Við þurfum að eiga harða áætlun um skyndilokun landsins, þar á meðal fyrir landsmönnum á heimleið, þótt ekki sé nema til að fá nokkra daga eða vikur til undirbúnings gagnaðgerða.

Jónas Kristjánsson

DV