Greinar

Kvótinn verði boðinn upp

Greinar

Ef rétturinn til veiða á öllum nytjafiskum við Ísland væri seldur á sama verði og menn kaupa og selja þennan rétt á kvótamörkuðum, mundi heildarverð auðlindarinnar nema 160 milljörðum króna samkvæmt sundurliðuðum reikningi á fjórtán tegundum í DV í fyrradag.

Hafa verður í huga, að ekki er víst, að gangverð allra fiskveiðiréttinda yrði í raun hið sama og gangverð jaðarréttindanna, sem nú ganga kaupum og sölum á kvótamarkaði. Stundum kaupa menn dýrar en ella, af því að þeir eru að laga kvótaeignina að búnaði og aðstæðum.

Á hinn bóginn kann líka að vera, að söluverð á kvótamarkaði endurspegli ekki fullt verðgildi kvótanna vegna óvissunnar um, hver eigi kvótana í raun. Sú skoðun er útbreidd, að seljendur kvótanna eigi ekki auðlindina og að kaupendur séu því ekki lausir allra eftirmála.

Samkvæmt skoðanakönnun vilja tveir þriðju hlutar þjóðarinnar, að tekið verði upp veiðileyfagjald, væntanlega á þeim forsendum, að ríkið eigi kvótann fyrir hönd þjóðarinnar allrar, en ekki þeir einir, sem af sagnfræðilegum ástæðum fengu ókeypis úthlutun á sínum tíma.

Það flækir málið, að margir þeir, sem upprunalega fengu kvótann frítt, hafa nú selt hann öðrum, sem væntanlega yrðu að tvíborga hann að einhverju leyti, ef komið yrði upp veiðileyfagjaldi. Réttarstaða þessara aðila hlýtur að vera atriði, sem taka þarf til skoðunar.

Ef réttur til veiða á öllum nytjafiskum við Ísland væri leigður, en ekki seldur, og á sama verði og menn kaupa og selja á kvótamörkuðum þennan árlega notkunarrétt, mundi árlegt leiguverð auðlindarinnar nema 28 milljörðum samkvæmt áðurnefndum reikningi í DV.

Þetta eru 17-18% söluverðsins, sem virðist nærri lagi sem hlutfallstala, þótt krónutalan sjálf virðist nokkuð há. Hún er auðvitað háð sömu fyrirvörum, nema að því leyti, að réttaróvissan um eignarhald kvóta á leigumarkaði er nánast engin vegna hins skamma leigutíma.

Tölur sem þessar skipta máli í ljósi þess, að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar og flestir hagfræðingar telja, að taka beri upp veiðileyfagjald. Þjóðin telur þetta væntanlega vera sanngirnismál og hagfræðingarnir telja reikningslega rétt, að greitt sé afnotagjald.

Ef veiðileyfagjaldið verður eins konar skattur, er hægt að hafa upphæðina einhverja aðra en þá, sem kemur fram í niðurstöðum útreikninga af þessu tagi. Þá hefur bætzt við enn ein millifærslan í þjóðfélaginu, sem felur í sér aukið skömmtunarvald stjórnmálamanna.

Eðlilegast er að framkvæma veiðileyfagjald með uppboði á öllum kvóta til eins árs í senn. Þar með fengi markaðurinn að ákveða, hvert sé rétt verðgildi auðlindarinnar og afnotanna af henni. Markaðslögmálin segja slíkt vera réttlátustu og hagkvæmustu leiðina.

Betra er að leyfa markaðinum að ákveða tölurnar en að láta hagfræðilega útreikninga eða pólitíska málamiðlun gera það, alveg eins og markaðurinn fær að ákveða tölurnar, sem nú gilda við sölu og leigu á kvóta. Tölurnar í DV eru ekkert annað en tilraun til að spá í markaðinn.

Síðan er það auðvitað allt annað og stórpólitískt mál, hvað eigi að gera við tekjurnar, sem komi úr veiðileyfagjaldinu. Á að nota þær til að lækka skatta og þá hvaða skatta? Á að nota þær til að stækka ríkisbáknið. Á að senda landsmönnum öllum árlega ávísun í pósti?

Um langan aldur hefur verið lagt til í þessu blaði, að fiskveiðikvótinn verði leigður á frjálsu uppboði og að tekjurnar verði ekki notaðar til að stækka ríkisbáknið.

Jónas Kristjánsson

DV

Kurteisin nær skammt

Greinar

Hinar mildu aðferðir utanríkisráðherra duga ekki í samskiptum við Norðmenn um ýmsa fiskveiðihagsmuni. Þær hafa ekki skilað neinum árangri umfram hinar hörðu aðferðir fyrrverandi utanríkisráðherra. Þær virðast fremur hafa magnað óbilgirni viðsemjenda okkar.

Við utanríkisráðherraskiptin í vor lagði hinn nýi ráðherra áherzlu á, að hann hefði annan stíl en fyrirrennarinn. Halldór Ásgrímsson sagðist mundu beita góðum kynnum sínum af ráðamönnum í Noregi til að leysa málin í friði eins og góðra granna væri siður.

Við venjulegar aðstæður kann að vera farsælt að beita fremur kurteisi en hávaða. Ágreiningur okkar við Norðmenn um fiskveiðihagsmuni telst hins vegar ekki til venjulegra aðstæðna. Yfirgangur og þvergirðingur Norðmanna á þessu sviði er einstæður í sinni röð.

Taumlaus frekja Norðmanna ætti að vera okkur kunn af deilunum um Jan Mayen, þar sem þeir náðu áttatíu prósent árangri. Þeir eru að leika sama leikinn nú, ekki aðeins gagnvart Íslandi, heldur einnig öðrum hagsmunaaðilum, svo sem Rússlandi og Evrópusambandinu.

Norðmenn sitja yfir hlut okkar á nokkrum sviðum í senn, í Smugunni, á Svalbarðasvæðinu og í Síldarsmugunni. Fiskveiðihagsmunir okkar eru líka í uppnámi á öðrum sviðum, djúpkarfamiðum út af Reykjaneshrygg og rækjumiðum á Dhornbanka og Flæmska hattinum.

Á Svalbarðasvæðinu hafa Norðmenn hreinlega tekið sér einhliða forræði, sem ekki á sér stoð í fjölþjóðasamningi um svæðið. Rússland og Evrópusambandið hafa mótmælt yfirganginum, en svo virðist sem íslenzk stjórnvöld hafi meira eða minna gefið eftir í málinu.

Mikilvægt er, að utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra hætti að fá glýju í augun, þegar þeir sjá erlenda viðsemjendur sína. Eftir níu mánaða brosmildi og notalegheit er kominn tími til að berja í borðið og byrja til dæmis á að draga Norðmenn fyrir dómstólinn í Haag.

Ennfremur þarf nú að leggja mikla áherzlu á að einangra Norðmenn með bandalögum við aðra hagsmunaaðila, sem eru gáttaðir á norskum yfirgangi. Við eigum meðal annars að hafa samráð við Evrópusambandið, því að það hefur að sumu leyti svipaða hagsmuni og við.

Um leið getum við hugleitt, hversu betur við værum á vegi stödd í milliríkjadeilum af þessu tagi, ef við værum nú að hoppa inn í Evrópusambandið á sama tíma og Norðmenn hafa hafnað aðild. Það eru stórfelld sagnfræðileg mistök okkar að missa af Evrópuhraðlestinni.

Hinn nýfengni aumingjaskapur í utanríkisstefnu okkar kemur greinilega fram í tregðu utanríkisráðuneytis okkar við að kæra Norðmenn fyrir dómstóli Evrópska efnahagssvæðisins fyrir að neita íslenzkum skipum um aðstöðu í norskum höfnum í neyðartilvikum.

Ekki fer á milli mála, að mannfjandsamlegar aðgerðir Norðmanna á þessu sviði eru brot á reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Okkur veitir ekki af að auglýsa málið og velta þeim sem allra mest upp úr mistökunum til að veikja þá í öðrum samskiptum við okkur.

Níu mánaða reynslutími sýnir, að kurteisisstefna utanríkisráðherra er að bíða skipbrot. Hún hefur magnað óbilgirni viðsemjenda okkar. Og svo er nú komið, að við erum farin að sjá eftir fyrrverandi utanríkisráðherra, sem lét Norðmenn þó vita, hvar Davíð keypti ölið.

Ef svo fer sem horfir, munu margir fara að telja, að utanríkisráðherra sé, þrátt fyrir alvörugefinn svip, ekki nógu hæfur til að sinna erfiðustu þáttum starfsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Átta af hverjum tíu

Greinar

Átta af hverjum tíu lögmönnum og lögmannafulltrúum landsins hafa ritað undir áskorun til Alþingis um að lögfesta breytingar á hinum illræmdu skaðabótalögum frá 1993. Í aðeins fimm daga söfnunarátaki náðust undirskriftir 220 lögmanna af um 270-280 í landinu.

Fáir þessara lögmanna hafa umtalsverða hagsmuni af skaðabótamálum, sem þeir reka gegn tryggingafélögunum í umboði fólks, sem tryggingafélögin hafa leikið grátt í viðskiptum. Flestir þeirra hafa bara réttlætistilfinningu fyrir því, að siðlausum lögum verði breytt.

Tryggingafélögin eru öflugar stofnanir í innsta kjarna valdakerfisins. Dómsmálaráðherra lét starfsmann þeirra semja frumvarp, sem formaður allsherjarnefndar Alþingis tók að sér að fá staðfest. Þetta tókst þessum framangreindu umboðsmönnum tryggingafélaganna.

Alþingismenn höfðu ekki sér til afsökunar, að málið væri ekki nógu vel kynnt. Í fjölmiðlum komu þá fram rækilegar upplýsingar, sem hefðu átt að nægja til að stöðva framgang frumvarpsins, sem hafði þann eina tilgang að magna tekjur tryggingafélaganna sem mest.

Eftir uppistandið í þjóðfélaginu af völdum þessarar hagsmunagæzlu fyrir hina fáu og ríku á kostnað hinna mörgu, var dæmið reiknað að nýju á vegum allsherjarnefndar Alþingis. Samt hafa hvorki nefndin né ráðherrann tekið mark á hinum nýju og réttu útreikningum.

Upplýst er, að starfsmaður tryggingafélaganna, sem samdi frumvarpið á sínum tíma, gaf Alþingi rangar upplýsingar um innihald þess. Þetta hefur rækilega verið staðfest, en samt þarf undirskriftir mikils meirihluta lögmanna landsins til að vekja málið á nýjan leik.

Tryggingafélögin mynda fáokunarhring, sem lætur sníða lög og reglur að þörfum sínum, og raka saman fé í skjóli pólitískrar aðstöðu. Þau halda uppi hærra verði á bifreiðatryggingum en þekkist á Vesturlöndum. Og þau neita að greiða fólki réttmætar skaðabætur.

Með aðstoð dómstóla og Hæstaréttar hefur tryggingafélagi til dæmis tekizt í átta ár að fresta því að greiða skaðabætur til konu, sem missti handlegg, þegar hún var þrettán ára. Með því að halda fénu fyrir konunni hefur tryggingafélagið stórskert tækifæri hennar í lífinu.

Síðan tapar tryggingafélagið þessu máli eins og félögin hafa verið að tapa slíkum málum á síðustu árum. Dómskerfið er meira eða minna stíflað af málum, þar sem tryggingafélögin reyna að draga greiðslur sem lengst til að knýja fórnardýr sín til ótímabærra samninga.

Fólk, sem hlýtur örorku í slysum, er illa í stakk búið til að halda uppi málarekstri gegn tryggingafélagi í mörg ár. Það freistast til að semja um smánarbætur til að fá eitthvað af peningum fljótt. Tryggingafélögin eru hins vegar rík og geta látið tímann vinna fyrir sig.

Ef allt væri með felldu í valdakerfi landsins, mundu dómstólar landsins afgreiða gerviáfrýjanir og frestunarkröfur tryggingafélaganna á einni viku og hreinsa málastífluna. Ef allt væri með felldu, mundi Alþingi setja strax ný skaðabótalög í stað hinna illræmdu.

En tryggingafélögin ráða ferðinni í krafti peningaveldis síns og rótgróinnar aðstöðu sinnar hjá stærstu stjórnmálaflokkunum. Þau eru skólabókardæmi um, að íslenzka þjóðfélagið er ekki sniðið að þörfum borgaranna, heldur að þörfum helztu valdastofnana þjóðfélagsins.

Framtak lögmannastéttarinnar er stórmerkileg tilraun til að vekja athygli Alþingis á, að þetta óeðlilega ástand í þjóðfélaginu fær ekki staðizt til lengdar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kæruleysi í fíkniefnastríði

Greinar

Handtökur fíkniefnaneytenda geta verið gagnlegar, ef þær leiða til, að lögreglan getur fetað sig upp keðjuna frá sölumönnum til skipuleggjenda framboðs fíkniefna. Eitt út af fyrir sig er gagnslaust að taka neytendur með nokkur grömm af hinum veikari tegundum fíkniefna.

Undanfarnar vikur hefur lögreglan gert harða hríð að fíkniefnaneytendum. Ekki hefur enn komið í ljós, hvort yfirheyrslur hafa leitt í ljós upplýsingar um, hverjir séu sölumenn og hvaðan þeir fái fíkniefni. En væntanlega safnast slíkar upplýsingar í sarpinn.

Athyglisvert er, að aukin árvekni löggæzlunnar kemur með nýju fjárhagsári. Væntanlega sjá viðkomandi yfirmenn um, að haldið verði allt árið uppi leit að sölumönnum og skipuleggjendum fíkniefna, en aðgerðirnar fjari ekki út á hausti, af því að fé sé upp urið.

Tvískinnungs gætir í baráttu stjórnvalda gegn glæpamönnum á þessu sviði. Fögur orð og efndir fara ekki saman frekar en fyrri daginn í þjóðmálunum. Fjármagn til baráttunnar hefur farið minnkandi á síðustu árum og stór göt eru komin á eftirlit með innflutningi.

Niðurskurður tollgæzlu á Keflavíkurflugvelli hefur leitt til, að þar var til skamms tíma minna tekið af fíkniefnum en hafði verið gert fyrr á árum. Síðustu fréttir geta þó bent til, að þetta ástand kunni að vera að lagast aftur, og verður grannt fylgzt með árangrinum.

Afar óheppilegt er, að lögreglan skuli svo verðlauna fíkniefna-burðardýr, sem tekin eru í tolli, með því að senda þau til útlanda án nokkurra eftirmála annarra en þeirra að senda bréf um málið til heimalands burðardýrsins. Með þessu eru glæpamönnum send röng skilaboð.

Þá kom í ljós í fréttum DV í gær, að tollpóststofan hefur aðeins peninga til að leita að fíkniefnum á daginn, þótt tollpóstur berist þangað allan sólarhringinn. Þarna er greinilegt gat í kerfinu, því að fróðir menn telja víst, að mikið sé um, að fíkniefni séu send í pósti.

Flestir eru sammála um, að framboð fíkniefna sé mikið hér á landi og verð þeirra ekki tiltakanlega hátt, þrátt fyrir þær góðu aðstæður, að Ísland er eyja úti í reginhafi. Barátta gegn innflutningi fíkniefna ætti að vera tiltölulega auðveld hér, en nær samt litlum árangri.

Skylt þessu vandamáli er tvískinnungur stjórnvalda gagnvart ólöglegri framleiðslu áfengis til dreifingar meðal barna og unglinga. Illræmdasta dæmið um það er, að sundrað var hópi lögreglumanna í Breiðholti, sem höfðu náð miklum árangri við að handsama bruggara.

Aukinn áhugi almennings í vetur á framgangi málsins verður vonandi til að ýta við ríkisstjórn og embættismönnum. Stjórnvöldum ber að samræma fíkniefnaleit og útvega fjármagn til að unnt sé að halda henni uppi. Þau hafa sofið á verðinum, þrátt fyrir fögur orð.

Fleiri aðilar þurfa að koma til skjalanna. Alþingi þarf að breyta lögum á þann hátt, að hert séu viðurlög við skipulagi og sölu ólöglegra fíkniefna, þar á meðal áfengis. Ennfremur ber dómstólum að nýta sér svigrúm í lögum, þegar dómar eru kveðnir upp í slíkum málum.

Auðvitað verður líka að reyna að koma skilaboðum til neytenda um hættur fíkniefna. Það er ekki viðaminna mál að reyna að minnka eftirspurnina en að minnka framboðið. Hingað til hefur fræðsla verið lítil og rangt hugsuð, svo að hún hefur ekki náð tilætluðum árangri.

Fréttir og umræða í þjóðfélaginu hafa verið á þann veg á síðustu vikum, að ástæða er til að vona, að hreyfing sé loksins að komast á baráttuna gegn fíkniefnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Uggvænlegar framfarir

Greinar

Vetrarræktun á tómötum og gúrkum er að verða að veruleika. Þessar afurðir verða að þessu sinni tveimur mánuðum fyrr á ferðinni en áður. Við venjulegar aðstæður ætti fólk að fagna þessu sem framförum í efnahagslífinu, en málið er því miður flóknara en svo.

Ef lengist tímabil framboðs á dýru grænmeti frá Íslandi, þá styttist fljótlega sá tími, þegar almenningur hefur aðgang að ódýru grænmeti frá útlöndum. Haustak landbúnaðarins á þjóðinni er slíkt, að hún verður að greiða þessa tilraunastarfsemi fullu verði.

Við búum við þær sérkennilegu kringumstæður, að grænmeti lækkar í verði á haustin, þegar vetur gengur í garð hér á landi, og hækkar aftur á vorin, þegar gróðrartími hefst að nýju. Þetta stafar af reglum um forgang íslenzkra afurða á þeim tíma, þegar þær eru fáanlegar.

Við erum hins vegar enn svo heppin, að ávextir eru ekki ræktaðir í landinu. Ef þeir fengjust úr gróðurhúsum á sumrin, mundum við ekki njóta ódýrra ávaxta frá útlöndum á þeim tíma. Við verðum bara að vona, að tækniþróun íslenzkra gróðurhúsa nái aldrei svo langt.

Þessar aðstæður valda því, að ávextir eru tiltölulega ódýrir hér á landi, en grænmeti hins vegar afar dýrt, að minnsta kosti nokkurn hluta ársins. Fólk áttar sig ekki á þessu, fyrr en það kemur í matvöruverzlanir í útlöndum og ber verðið saman við það, sem það þekkir heima.

Ástandið þýðir í rauninni, að árangur í tilraunum til lengri ræktunartíma í gróðurhúsum er hrein og bein útgerð á vasa neytenda. Þessar tilraunir hafa ekkert efnahagslegt gildi fyrir þjóðina, af því að það vantar alveg fjárhagslegan mælikvarða á markaðshæfni vörunnar.

Raunverulegur mælikvarði á gildi vetrartómata og vetrargúrkna felst í verðsamkeppni við innflutta vöru. Landbúnaðarkerfið mun hins vegar sjá um, að hindra slíka samkeppni, svo að tilraunavaran seljist, alveg eins og hún sér um, að önnur garðyrkjuvara seljist.

Þetta gerist ekki í vetfangi. Um þessar mundir er hægt að fá ódýrar gúrkur frá útlöndum, þótt dýrar vetrargúrkur séu líka fáanlegar. En reynslan sýnir, að kerfið kemur í humátt á eftir tækniframförunum og sér um, að þær verði á kostnað neytenda í landinu.

Stundum er haldið fram, að íslenzkt grænmeti megi vera dýrara en innflutt, af því að það sé betri vara. Út frá þessari röksemdafærslu ætti að vera unnt að hafa hvort tveggja til sölu á sama tíma, svo að neytendur geti valið milli verðs og gæða samkvæmt markaðslögmálum.

Kenningin um gæði íslenzks grænmetis er hins vegar sett fram af annarri ástæðu, til að halda uppi vörnum fyrir innflutningsbanni. Kerfið vill nefnilega ákveða, hvað sé neytendum fyrir beztu, og telur þeim vera fyrir beztu að kaupa grænmeti frá skjólstæðingum kerfisins.

Það væri ósköp indælt, ef hægt væri að fagna tækniframförum í garðyrkju af heilum hug. Það er hins vegar tæpast hægt, af því að við vitum, að markaðslögmál verða ekki látin gilda sem mælikvarði á tækniframfarirnar, heldur munu ráða einokunarlögmál kerfisins.

Dýra einokunarkerfið leiðir til óeðlilega lítillar notkunar grænmetis hér á landi. Sem dæmi má nefna, að börn og unglingar borða hér aðeins 37 grömm á dag af grænmeti að meðaltali, en æskileg neyzla á grænmeti er talin vera 150 grömm í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Einokunarkerfið hefur leitt til minni grænmetisneyzlu hér á landi en í nokkru öðru landi í Evrópu og skaðar þannig almennt heilsufar þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðinum fylgt eftir

Greinar

Í Bosníu hefur verið að birta allra síðustu mánuði, þótt þar sé harður hávetur. Aðgerðir Vesturlanda hafa komið á friði í landinu og lagt drög að uppbyggingarstarfi. Stríðinu er lokið í bili, enda virðist Bandaríkjamönnum hafa tekizt að halda haustaki á Serbíuforseta.

Slobodan Milosevits hefur raunar hagað sér í nokkra mánuði á þann veg, að það líkist því helzt, að hann sé að reyna að bjarga sálu sinni eftir óvenjulega ógeðfelldan feril. Hann gerir nánast allt, sem honum er sagt að gera til að stöðva stríðsæðið, sem hann hóf sjálfur.

Í því skyni hefur hann fórnað tveimur helztu fjöldamorðingjum sínum, Radovan Karadzic, forseta Bosníu-Serba, og Ratko Mladic, yfirbrjálæðingi hers Bosníu-Serba. Þeir hafa nú hægt um sig, enda vofir yfir þeim handtaka og málaferli vegna hrikalegra stríðsglæpa.

Framganga Atlantshafsbandalagsins í Bosníu er núna allt önnur og betri en hún var, þegar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þóttist halda um stjórnvölinn. Hermenn bandalagsins láta ekki vaða yfir sig og yfirmenn þeirra þekkja reynsluna af kerfisbundnum lygum Serba.

Á allra síðustu vikum hefur Bandaríkjastjórn enn fremur gefið eftir fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag og lofað að láta af hendi upptökur af hlerunum, sem veita upplýsingar um skipulagið á stríðsglæpum Serba og Bosníu-Serba og aðild manna að skipulaginu.

Hingað til hafa vestrænir embættismenn, einkum brezkir, franskir og bandarískir, reynt að leggja stein í götu stríðsglæpadómstólsins með því að koma í veg fyrir, að hann fái fjármagn til starfa, og einnig með því að liggja á upplýsingum, sem hann þarf á að halda.

Þvergirðingsháttur vestrænna embættismanna stafar einkum af ótta þeirra við, að uppljóstranir stríðsglæpadómstólsins muni verða þungar í skauti ýmsum valdamiklum viðsemjendum þeirra af hálfu Serba og Bosníu-Serba og raunar einnig Króata, þótt í minna mæli sé.

En Bandaríkjastjórn komst að þeirri niðurstöðu, að það stríði gegn hagsmunum Bandaríkjanna vegna siðferðisstöðu þeirra í heiminum, ef hún taki þátt í þessu samsæri vestrænna embættismanna. Það yrði þyngra í skauti en skaðlegu áhrifin á sambúðina við Serba.

Þetta hefur meðal annars þau áhrif, að senn tekur herlið Atlantshafsbandalagsins völdin á þeim svæðum, þar sem vitað er, að Serbar og Bosníu-Serbar hafa falið lík tugþúsunda fanga, sem þeir myrtu í stríðinu. Það þarf að gerast, áður en sönnunargögnum verður spillt.

Þetta mun líklega einnig hafa þau áhrif, að herliðið fari að handtaka þá, sem ákærðir hafa verið fyrir stríðsglæpi og verða á vegi þeirra í Bosníu. Fréttamenn hafa tekið eftir, að franskir og brezkir foringjar láta sem ekkert sé, þótt slíkir sitji við næsta kaffihúsaborð.

Það verður að koma lögum yfir þessa snarbiluðu glæpamenn, svo að Vesturlönd nái að halda reisn sinni og senda þau skilaboð til gráu svæðanna í heiminum, að grundvallarlögmál vestræns samfélags séu enn í fullu gildi, þrátt fyrir fyrra klúður Sameinuðu þjóðanna.

Enn er of fljótt að spá, hvort Vesturlöndum tekst að komast með sæmd frá Bosníumálinu. Þróun síðustu vikna bendir til, að svo geti orðið. Þar ræður úrslitum, að Bandaríkin hafa lagt lóð sitt á vogarskálina. Á næstu vikum mun svo koma í ljós, hvort árangur næst.

Eftir allar hremmingarnar, sem Vesturlönd hafa sætt í Bosníu vegna heimsku og heigulsháttar fyrri umboðsmanna sinna, er nauðsynlegt að fylgja friðinum eftir.

Jónas Kristjánsson

DV

Áfengisraunir Rússlands

Greinar

Tilraun til hallarbyltingar var gerð í Sovétríkjunum á valdaskeiði Gorbatsjovs. Hann var settur í stofufangelsi við Svartahafið og afturhvarfssinnaðir byltingarstjórar settust að sumbli. Herinn brást þeim og stakk þeim dauðadrukknum í fangelsi, en Jeltsín komst til valda.

Drykkjuskapur hefur löngum verið þjóðarböl Rússa. Vesturlandamenn, þar á meðal Íslendingar, sem verið hafa í viðskiptaerindum í Moskvu, segja tröllasögur af óhóflegri áfengisneyzlu, sem gjarna hefst strax að morgni dags og truflar dómgreind manna við samningagerð.

Gorbatsjov reyndi að hamla gegn ölæðinu með því að takmarka sölu brennivíns. Hann bakaði sér óvinsældir róna á hæstu og lægstu stöðum, enda er talið, að hann eigi enga möguleika, ef hann býður sig fram til forseta, þegar kjörtímabili Jeltsíns lýkur í sumar.

Andstaða við fyllirí hefur raunar víðar dregið úr pólitískum frama manna. Þekktur íslenzkur stjórnmálamaður hraktist fyrir nokkrum árum úr stóli forsætisráðherra af því að “hann vildi ekki drekka með strákunum”, eins og kona eins ráðherrans orðaði það.

Ástandið á Íslandi er þó margfalt betra en í Rússlandi. Hér hefur hetjudýrkun rónans aldrei náð þeirri ýktu mynd, sem sést hjá valdamönnum í Rússlandi. Hér hvolfa menn ekki í sig úr heilum brennivínsglösum í einu og eru yfirleitt ekki að drekka á vinnutíma.

Sendiherra Rússlands á Íslandi hefur fengið íslenzka utanríkisráðuneytið til að tuða út af leiðurum í DV, þar sem látið var í ljós álit á augljósri ofdrykkju Rússlandsforseta. Nær væri fyrir sendiherrann að útvega íslenzka aðstoð við að kenna Rússum að hætta að drekka.

Eins og Bandaríkjamenn hafa Íslendingar náð góðum árangri við að þurrka róna og koma þeim aftur til athafna og álits í þjóðfélaginu. Sennilega er árangurinn betri á Íslandi en í Bandaríkjunum, þar sem aðferðirnar urðu til. Rússar geta margt af okkur lært í þessu efni.

Raunar ætti þurrkun róna að geta orðið margfalt meiri útflutningsgrein af hálfu Íslands en hún er núna. Það dylst engum Íslendingi, sem gengur um götur Kaupmannahafnar og London, að ótrúlega margir eru þar rúnum ristir af völdum langvinns bjórþambs.

Eðlismunur er á drykkjuskap rússneskra og vestrænna róna. Á Vesturlöndum er drykkjan aðallega stunduð undir yfirskini félagslífs og lýtur ýmsum hamlandi lögmálum á borð við að drekka ekki fyrr en eftir vinnu, ekki eftir kvöldmat og mest létt með mat.

Mesti munurinn felst í, að á Vesturlöndum er talið við hæfi, að róninn haldi haus og sé viðmælandi. Íslenzkir fyrirmenn hafa tamið sér svipaðar siðareglur, þótt almúginn veltist um á svonefndum skemmtistöðum. En í Rússlandi sést vín greinilega á háum sem lágum.

Þetta er ekki fagurfræðilegt áhyggjuefni, heldur fyrst og fremst stórpólitískt. Það er alvarlegt, að stjórnsýsla Rússlands skuli fljóta í brennivíni. Það er áhyggjuefni, að þar taka valdamenn ákvarðanir í annarlegu ástandi, svo sem skýrt sést í sjónvarpi á Rússlandsforseta.

Efnahagshnignun Rússlands á síðustu árum tengist drykkjuskap og röngum ákvörðunum, sem teknar eru á fylliríi. Þannig hefur forsetinn hrakið burt alla umbótamenn og látið afturhvarfsmenn fylla stöður þeirra. Og ríkið er orðið ótraust í erlendum samskiptum.

Afleiðingar stórkarlalegra drykkjusiða í Rússlandi eru orðnar að fjölmiðlaefni víðar en á Íslandi og munu verða það áfram, unz rússneska yfirstéttin tekur sér tak.

Jónas Kristjánsson

DV

Ósamkeppnishæft Ísland

Greinar

Engin haldbær skýring hefur fengizt á launamun starfsfólks í fiskvinnslu á Íslandi og í Danmörku. Íslendingar halda áfram að streyma til Danmerkur til að lifa eðlilegu lífi af venjulegum daglaunum í fiskvinnslu. Þar eru launin tvöfalt hærri en þau eru hér á landi.

Ekki stafar munurinn af því, að Íslendingar séu svo latir eða þannig gerðir af náttúrunnar hendi, að þeir geti ekki unnið í verksmiðjum. Þeir hafa getið sér gott orð í fiskvinnslu í Danmörku og vakið athygli ráðningarstjóra á, að gott sé að hafa Íslendinga við störf.

Þegar sama fólkið fær svona misjöfn laun eftir því, í hvaða landi það starfar, hlýtur orsakanna að vera leita annars staðar en hjá starfsfólkinu. Ef afköst í íslenzkri fiskvinnslu eru eins lítil og látið er í veðri vaka, hlýtur orsökin að felast í misheppnaðri stjórn á vinnunni.

Lauslegar athuganir benda ekki til, að dönsk fiskvinnsla geti borgað svona há laun af því að hún fái fiskinn inn í hús á lægra verði en íslenzk fiskvinnsla fær hann. Þvert á móti er ástæða til að ætla, að danska vinnslan verði að greiða heldur hærra verð.

Ýmsar ytri aðstæður vinnslunnar eru sennilega betri í Danmörku en hér. Frægt varð til dæmis fyrir nokkrum árum, þegar kom í ljós, að rafmagn var dýrara í vatnsorkulandinu Íslandi heldur en í Danmörku, sem verður að kaupa mikið af sinni raforku frá útlöndum.

Raunar er verðugt verkefni fyrir samtök atvinnulífsins að láta mæla þennan mismun á ýmsum sviðum. Slíkt getur aukið þrýsting á viðkomandi stjórnvöld og þjónustuaðila að bæta rekstur sinn til þess að ná samanburðarhæfni gagnvart hliðstæðum aðilum erlendis.

Meðan þetta hefur ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt verður haft fyrir satt, að samanlögð áhrif slíkra ytri aðstæðna fiskvinnslunnar í landinu, eins og raunar annars atvinnulífs, séu ekki svo mikil, að þau geti skýrt tvöfalt hærri laun í Danmörku en hér á landi.

Ekki hefur heldur verið sýnt fram á, að skattar fyrirtækja séu hærri hér á landi en í Danmörku. Því er raunar haldið fram, að samanlagðir skattar á atvinnurekstur vegi léttar hér á landi, alveg eins og skattar á almenning. Dönsk skattheimta sé nokkru meiri en íslenzk.

Þegar frá eru taldir þeir áhrifavaldar, sem hér hafa verið raktir, hlýtur athyglin að beinast að stjórn og skipulagi fiskvinnslu. Eðlilegt er að telja íslenzk fiskvinnslufyrirtæki vera mun lakar rekin en dönsk og því ekki geta keppt við hin dönsku í launakjörum starfsfólks.

Ef vandinn er greindur og staðsettur, er unnt að ráðast til atlögu gegn hinum gölluðu þáttum. Þá er til dæmis hægt að bæta skipulag fiskvinnslufyrirtækja eða breyta fjárfestingar- og skuldsetningarstefnu þeirra eða skipta út aðferðum við yfirstjórn og verkstjórn.

Ekki þarf að útskýra, hversu mikilvægt það er fyrir þjóðfélagið, að skýringar finnist á lélegum kjörum í fiskvinnslu og raunar öðrum atvinnugreinum. Eina leiðin fyrir Ísland til að vera samkeppnishæft við útlönd er að hafa svipaða framleiðni vinnu og fjármagns og þau.

Vaxandi landflótti sýnir berlega, að töluvert skortir á, að Ísland sé samkeppnishæft við útlönd. Fólk greinir hins vegar á um, hvernig á þessu standi. Við þurfum að komast af þessu frumstigi ágreinings um orsakir og komast í aðstöðu til að leysa skilgreind verkefni.

Atvinnuvegir og þjóðmálaöfl þurfa að taka saman höndum við að finna aðgerðir til að gera Ísland samkeppnishæft og draga þannig úr líkum á landflótta.

Jónas Kristjánsson

DV

Grisjun forsetaefna

Greinar

Hreyfing er að komast á framboð forsetaefna um þessar mundir. Stuðningsmenn að minnsta kosti eins þeirra, sem til greina eru talin koma, eru farnir að hittast á reglubundnum fundum. Nokkur önnur forsetaefni eru komin á fremsta hlunn með að ákveða, hvort þeir leggi í hann.

Þetta gerist með óvenjulega góðum fyrirvara að þessu sinni. Næstum hálft ár er enn til kosninga. Í rauninni liggur ekkert enn á því, að forsetaefnin ákveði sig. En stuðningsmenn eru oft hræddir um að missa flugið, ef bíða þarf eftir formlegri ákvörðun um framboð.

Af skoðanakönnun DV, sem birt var í gær, má ráða, að viðhorf fólks til hugsanlegra forsetaefna hafi lítið breytzt. Tilnefnt var að mestu sama fólkið og tilnefnt hafði verið í skoðanakönnunum blaðsins í október og desember og að mestu í svipuðum hlutföllum.

Af þeim mörgu, sem nefndir hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu, eru aðeins sjö, sem náðu frambærilegum árangri í könnuninni. Þrjú efstu sætin eru raunar eins skipuð og áður, með Pálma Matthíasson efstan, Guðrúnu Agnarsdóttur aðra og Davíð Oddsson hinn þriðja.

Í þessum sjö manna hópi eru einnig Ólafur Ragnar Grímsson, Ellert B. Schram, Guðrún Pétursdóttir og Steingrímur Hermannsson. Telja verður, að annað fólk, sem nefnt hefur verið í fjölmiðlum, en ekki komizt í þennan sjö manna hóp, muni ekki láta verða af framboði.

Hitt er aftur á móti hugsanlegt, að enn hafi ekki verið tilnefndir allir þeir, sem verða í framboði í forsetakosningunum. Það gerðist einu sinni, að nafn Kristjáns Eldjárns kom óvænt upp fremur seint í aðdraganda kosningaundirbúnings og sló eigi að síður í gegn.

Ennfremur er líklegt, að töluvert grisjist úr þeim sjö manna hópi, sem enn stendur eftir af öllum þeim, sem tilnefndir hafa verið. Sumir þessara sjö hafa raunar ekki svarað spurningum á þann veg, að ætla megi, að þeir hafi umtalsverðan áhuga á embættinu að þessu sinni.

Ekki er fráleitt að ætla, að frekari athuganir á stuðningi, bæði óformlegar athuganir og formlegar skoðanakannanir, leiði til þess, að um það bil helmingur þessara sjö forsetaefna telji líkur á árangri ekki nægja til að það svari fyrirhöfn að ganga til hins erfiða leiks.

Ef þrír standa eftir af hópnum og einn bætist við, þegar til kastanna kemur, er það sama tala frambjóðenda og var síðast, þegar kosið var í alvöru. Mörgum fannst nóg um fjöldann þá. Síðan hefur ekkert gerzt, sem breytir þeirri skoðun, að bezt sé, að þeir séu sem fæstir.

Því fleiri sem frambjóðendur eru, þeim mun meira dreifast atkvæðin og þeim mun færri atkvæði eru beinlínis að baki þess, sem verður fyrir valinu sem forseti. Reynslan sýnir þó, að slíkt skerðir hvorki vinsældir hans né skerðir getu hans til að njóta sín í embætti.

Þannig er það betra, en samt ekki meginatriði málsins, að frambjóðendur verði sem fæstir. Engin formúla er fyrir því, að forseti sé ekki jafngildur í vali, þótt hann hafi ekki fengið nema 30% atkvæða, 20% eða þaðan af minna. Það er nóg að vera fremstur meðal jafningja.

Auk alvöruframboða má búast við tilraunum til sérvizkuframboða. Slík framboð eru ágæt með öðrum, því að þau staðfesta þá sjálfsmynd Íslendinga, að þeir séu nánast konungbornir og hæfir til að axla hvaða ábyrgð sem er. Sérvitringar eru nauðsynlegir í bland.

Engin hætta er á öðru en að þjóðin muni finna sér hæfan forseta í sumar. Hún mun fara sínu fram og ekki fara að neinum fyrirmælum. Þetta er hennar val.

Jónas Kristjánsson

DV

Heilsuskömmtun

Greinar

Sumum deildum sjúkrahúsa er lokað um tíma til sparnaðar, en öðrum ekki. Á sumum sviðum skurðlækninga eru biðlistar, en ekki á öðrum sviðum. Sumir fá ókeypis aðgang að sjúkrahúsum, en aðrir taka þátt í kostnaði við þjónustu, sem þeir fá utan sjúkrahúsa.

Orðið er deginum ljósara, að margvísleg skömmtun hefur verið tekin upp í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Augljósust er sú, sem tengd er samdrætti í rekstri sjúkrahúsa, en hún einkennir líka önnur svið heilbrigðismála. Ríkisfjárlög fela til dæmis í sér forgangsröðun.

Skömmtunin og forgangsröðunin stafa af, að þjóðfélagið telur sig ekki lengur geta staðið undir sjálfvirkri stækkun heilbrigðisgeirans á kostnað annarra þátta í rekstri þjóðfélagsins. Á sama tíma fjölgar stöðugt ýmsum kostnaðarsömum, en freistandi lækningamöguleikum.

Deilan um rekstur og kostnað hundrað milljón króna segulómsjár er angi þessum vanda. Enn fremur umræða um notkun á nýju lyfi, þar sem hver skammtur kostar tugi þúsunda króna. Víða er verið að taka erfiðar ákvarðanir, sem verða örlagavaldar í lífi einstaklinga.

Skömmtunin hefur magnað baráttu innan kerfisins um skiptingu hins takmarkaða fjármagns. Einn yfirlæknirinn fullyrti nýlega, að lokanir kæmu óeðlilega hart niður á geðdeildum. Á öðrum stað var sagt, að barnadeildum væri lokað til að auglýsa vandamál sjúkrahúsa.

Hreinsa þarf andrúmsloftið og búa til skilgreindar forsendur fyrir skömmtun og annarri forgangsröðun í heilbrigðisgeiranum. Skilgreina þarf almenn þjónustumarkmið og ýmis sérhæfð þjónustumarkmið og reyna að mæla nýtingu fjármagns út frá slíkum markmiðum.

Okkur vantar skilgreindar forsendur fyrir hlutföllum fjármagns til einstakra höfuðþátta heilbrigðismála, svo sem milli forvarna og sjúkrahúsmeðferðar. Okkur vantar líka skilgreinar forsendur fyrir slíkum hlutföllum milli mismunandi þjónustufrekrar sjúkrahúsmeðferðar.

Smíði slíkra forsendna hlýtur fyrst og fremst að vera heilsupólitískt verkefni, þar sem ráðuneyti og þingnefnd heilbrigðismála hafa frumkvæði og kalla til sérfræðilega kunnáttu eftir þörfum, ekki bara læknisfræðilega, heldur líka hagfræðilega, stærðfræðilega og siðfræðilega

Forsendurnar þurfa að vera svo víðtækar, að þær taki ekki aðeins mið af fjárhagsdæmi ríkissjóðs, heldur heildardæmi þjóðfélagsins. Forvarnir eru til dæmis þjóðfélaginu mikilvægar, þótt erfitt sé að skilgreina hag ríkissjóðs af þeim, nema þá að litið sé til langs tíma.

Framkvæmd þessara forsendna í formi forgangsröðunar og skömmtunar getur verið blanda af pólitísku og faglegu verkefni eftir umfangi og aðstæðum hverju sinni. Það getur til dæmis aðeins verið faglegt verkefni að velja milli sjúklinga, þegar forgangsröðunin er framkvæmd.

Öll er þessi hugsun nýstárleg og óþægileg, en nauðsynleg eigi að síður. Liðin er sú tíð, að þjóðarbúið stækkaði svo ört, að það gat rúmað ört vaxandi kostnað heilbrigðismála. Að undanförnu hefur ríkt efnahagsleg stöðnun og á næstu árum verður hagvöxtur afar hægur.

Skömmtun í heilbrigðismálum er raunveruleiki líðandi stundar, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Vont er, að hún verði áfram tilviljanakennd og umdeilanleg eins og nú er. Betra er, að hún hvíli á skilgreindri forgangsröðum, sem eigi sér skilgreindar forsendur.

Mikil mannaskipti hafa orðið í heilbrigðisráðuneytinu. Þar með er komið tækifæri til að móta þar vettvang fyrir frumkvæði að eðlilegri framvindu þessa máls.

Jónas Kristjánsson

DV

Rússneskt afturhvarf

Greinar

Undir forustuleysi Jeltsíns forseta er Rússland á leið afturhvarfs í átt til Sovétríkjanna. Hann er orðinn fangi flokka kommúnista og þjóðernissinna, sem eru stærstir á rússneska þinginu. Til þess að geðjast þeim hefur hann skipað Nikolaj Jegorov sem starfsmannastjóra sinn.

Sem ráðherra þjóðabrota bar Jegorov ábyrgð á blóðbaðinu í Tsjetsjeníu fyrir rúmu ári og aðgerðunum vegna gíslatöku tsjetsjenskra skæruliða í sunnanverðu Rússlandi fyrir hálfu ári. Hann klúðraði báðum þessum málum og var í sumar vikið úr starfi af þeim sökum.

Fyrir nokkrum dögum skipaði Jeltsín forseti Jevgení Primakov sem utanríkisráðherra sinn. Primakov var áður yfirmaður leyniþjónustunnar. Hann er einn af leifum kalda stríðsins og hefur í aldarfjórðung verið í vinfengi við Saddam Hussein, slátrarann mikla í Bagdað.

Þessir tveir menn bætast nú í hóp valdamestu manna Rússlands, þar sem fyrir voru foringi lífvarðar forsetans, sem sér um að koma sauðdrukknum forsetanum í rúmið á morgnana, og forsætisráðherrann, sem hefur skipulagt almennan stuld á fyrirtækjum ríkisins.

Tsjernomyrdin forsætisráðherra hefur staðið þannig að málum, að stóru ríkisfyrirtækin í Rússlandi eru komin í eigu forstjóra þeirra. Hann hefur séð um, að einkavæðingin væri framkvæmd sem einkavinavæðing í þágu hinnar gömlu valdastéttar í Sovétríkjunum sálugu.

Með því að reka umbótamennina, sem áður studdu hann, og raða fortíðarsinnum í kringum sig er Jeltsín að undirbúa framboð sitt í forsetakosningunum í sumar og reyna um leið að lesa í úrslit þingkosninganna, þar sem kommúnistar og þjóðernissinnar fengu mest fylgi.

Þetta er vonlaus barátta langt gengins drykkjumanns með skerta dómgreind. Jeltsín nýtur hvorki trausts þings né þjóðar. Hann velkist um í atburðarásinni og safnar um sig óhæfu liði, sem hann telur njóta trausts hjá kjósendum flokka kommúnista og þjóðernissinna.

Þetta er sorgarsaga fyrrverandi þjóðhetju, sem nú velkist um ýmist timbraður eða kófdrukkinn á almannafæri heima fyrir og í útlöndum, leikandi fárveikur hlutverk fíflsins úti um víðan völl, rekandi og ráðandi sama manninn í beinni útsendingu frá blaðamannafundum.

Ástand forsetans var berlega komið í ljós fyrir löngu, þegar hann gat ekki látið styðja sig niður tröppurnar úr flugvél sinni á flugvellinum í Shannon, þegar forsætisráðherra og aðrir fyrirmenn Írlands biðu á rauða dreglinum fyrir neðan flugvélina til að taka á móti honum.

Jeltsín ræður ekki lengur ferðinni í Sovétríkjunum. Afturhaldssinnaðir harðlínumenn og kaldastríðsmenn hafa tekið völdin úr höndum hans. Á Rússlandsþingi bíða svo aðrir afturhaldsmenn eftir valdaskiptum. Á götunum fyrir utan ráða mafíuforingjar ferðinni.

Rússland er í rústum eftir stuttan valdaferil forsetans. Engar horfur eru á frekari umbótum í efnahagsmálum. Þvert á móti er líklegt, að eymdin haldizt áfram og verði vatn á myllu afturhaldssinnaðra öfgaflokka, sem kenna umbótastefnutilraunum síðustu ára um ástandið.

Þetta þýðir um leið, að Rússland verður þjóðernissinnaðra og ofbeldishneigðara ríki. Næstu mánuðina og sennilega misserin verður það hættulegt umhverfi sínu. Spenna mun óhjákvæmilega fara vaxandi í samskiptum þess við nágrannaríkin og við Vesturlönd.

Koma þeirra Primakovs og Jegorovs í innsta valdahring Rússlands á síðustu dögum er ömurleg staðfesting á hröðu afturhvarfi landsins til fortíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Eftirlit á flæmskum hatti

Greinar

Íslenzkir skipstjórar og útgerðarmenn verða að fara eftir settum reglum við úthafsveiðar eins og veiðar á heimamiðum. Íslenzk stjórnvöld gæta hagsmuna þessara aðila út á við nánast eftir pöntun og verða að geta treyst því, að íslenzkir eftirlitsmenn komist um borð.

Sjávarútvegsráðuneytið mótmælti skipan Fiskveiðinefndar Norður-Atlantshafs á veiðum á Flæmska hattinum við Nýfundnaland fyrir áramót og gerði þannig íslenzkum rækjutogurum kleift að stunda þar veiðar. Á móti verður að koma, að togararnir fari að reglum.

Íslendingar eru aðilar að samkomulagi Fiskveiðinefndar Norður-Atlantshafs um, að eftirlitsmenn skuli vera um borð í fiskiskipum. Íslenzkir hagsmunaaðilar, sem stunda veiðar á Flæmska hattinum í skjóli íslenzkra stjórnvalda, verða að fara eftir þessu samkomulagi.

Vel getur verið, að stakir skipstjórar og útgerðarmenn telji henta sér að stunda sjórán á úthafsmiðum. En þá verða þeir líka að taka því, að slíkt gerist ekki í skjóli íslenzkra stjórnvalda. Ef þeir eru þar í skjóli íslenzkra stjórnvalda, verða þeir að hlýða fyrirmælum.

Veiðar íslenzkra togara á Flæmska hattinum eru ótryggar. Þær eru háðar fjölþjóðlegu þjarki, þar sem íslenzka sjávarútvegsráðuneytið reynir meðal annars að sýna fram á, að veiðihugmyndir þess séu marktækar. Íslenzkir langtímahagsmunir eru þar í húfi.

Verr er af stað farið en heima setið, ef íslenzkir hagsmunaðilar þakka fyrir með því að hafa í hótunum við ráðuneytið og segjast neita að taka við íslenzkum eftirlitsmönnum um borð, fara með rangt mál um kostnað við eftirlitið og grafa þannig undan ráðuneytinu.

Útilokað er, að íslenzk stjórnvöld geti áfram stutt við bakið á hagsmunaaðilum, sem fara sínu fram í trássi við það, er þau telja vera langtímahagsmuni þjóðarinnar. Sjávarútvegsráðuneytið verður þá að hætta að halda uppi hagsmunagæzlu fyrir þessa óstýrilátu aðila.

Útgerðin greiðir allan kostnað við eftirlit af hálfu íslenzkra stjórnvalda á heimamiðum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Eftirlitið, sem íslenzk stjórnvöld hafa samþykkt á Flæmska hattinum, er fyrirferðarmeira og dýrara, enda er þar um úthafsveiðar að ræða.

Útgerðarmenn rækjuskipa óttast réttilega, að væntanlegt lagafrumvarp um stjórn úthafsveiða muni fela í sér svipuð ákvæði um, að þeir borgi það eftirlit eins og eftirlitið á heimamiðum. Þeir munu tæpast koma í veg fyrir slíkt og alls ekki með hótunum og yfirgangi.

Hagsmunaaðilar hafa haldið fram, að þetta eftirlit kosti 100 milljónir á Flæmska hattinum. Því fer víðs fjarri. Eftirlitið á íslenzkum heimamiðum kostar þessa peninga á hverju ári. Eftirlit á Flæmska hattinum mun ekki kosta nema lítið brot af þessari upphæð.

Til bráðabirgða greiðir Fiskistofa þetta eftirlit, nema fæðiskostnað eftirlitsmanna um borð í skipunum. Þann kostnað greiðir sjávarútvegsráðuneytið til bráðabirgða. Óeðlilegt er, að skattgreiðendur haldi lengi áfram að greiða þennan kostnað fyrir óstýrilátar útgerðir.

Að gefnu tilefni er brýnt, að lagafrumvarp um stjórn úthafsveiða líti dagsins ljós strax á þessu þingi. Enn fremur er brýnt, að það feli ekki í sér neitt undanhald frá þeirri reglu, að útgerðir fiskiskipa, en ekki skattgreiðendur, beri kostnað við eftirlit með þessum veiðum.

Farsælast er fyrir alla íslenzka málsaðila að skipa sér þétt saman og bíta ekki í höndina á þeim eina aðila, sem getur gætt íslenzkra hagsmuna utan íslenzkrar lögsögu.

Jónas Kristjánsson

DV

Úr klóm Landsvirkjunar

Greinar

Hagsmunum Reykvíkinga verður bezt þjónað í raforkumálum á þann hátt, að borgin losni úr viðjum Landsvirkjunar og geti sjálf virkjað jarðhita í landi sínu við Nesjavelli í Grafningi. Líklegt má telja, að slík framkvæmd muni lækka raforkukostnað Reykvíkinga.

Til þess að svo megi verða, þarf Alþingi að breyta lögum um einokun Landsvirkjunar. Nokkur fyrirstaða mun verða á þingi, einkum af hálfu ríkisdýrkenda Sjálfstæðisflokksins utan af landi, sem enn vilja halda uppi sovézku efnahagskerfi hér á landi við upphaf 21. aldar.

Næstbezti kostur Reykvíkinga er, að borgin losni úr viðjum Landsvirkjunar og geti notað peningana til að eyða skuldum sínum. Af 11 milljarða eign í Landsvirkjun fær borgin aðeins 241 milljón króna í arð, en borgar 700 milljón króna vexti af 12 milljarða skuldum sínum.

Ef unnt er að skipta út þessum tölum, situr borgin eftir með aðeins eins milljarðs skuld og 70 milljón króna ársvexti í stað 460 milljón króna núverandi munar á Landsvirkjunararði og öllum ársvöxtum. Það jafngildir tæplega 400 milljón króna sparnaði á hverju ári.

Reikningsdæmin líta svona út, af því að Landsvirkjun hefur verið illa rekin áratugum saman. Hún hefur gert óhagstæða samninga um orkuverð til stóriðju, hagað sér eins og fíkniefnasjúklingur í virkjanabrölti og stundað stórfelldan lúxus í rekstri aðalskrifstofunnar.

Að nokkrum hluta hefur ruglið í rekstri Landsvirkjunar stafað af þjónustu við ríkið, sem hefur haft hagsmuni af lágu orkuverði til Áburðarverksmiðjunnar og Járnblendifélagsins og reynt að ná hingað stóriðju með lágu orkuverði til Ísals og annarra lysthafa á því sviði.

Þessi óhæfilega þjónusta við ríkið kemur auðvitað niður á arðgreiðslum til eignaraðilanna, þar á meðal til Reykjavíkur. Þjónustan leiðir jafnframt til hærra raforkuverðs í landinu en annars þyrfti að vera. Það kemur niður á Reykvíkingum eins og öðrum landsmönnum.

Ekki er hægt að verja Landsvirkjun með því að segja hana hafa óvart lent í að eiga heilt orkuver við Blöndu afgangs og með öllu óarðbært. Margir urðu til að vara við þeirri virkjun á opinberum vettvangi. Meðal annars var í leiðurum þessa blaðs varað við Blöndusukkinu.

Ótímabær virkjun Blöndu hefur kostað Landsvirkjun milljarða króna í óþörfum vaxtagreiðslum, rýrt möguleika hennar til að greiða eignaraðilum sínum eðlilegan arð og til að hafa á boðstólum orku á sambærilegu verði við það, sem gildir í nágrannaríkjum okkar.

Ráðamenn Akureyrar eru í svipuðum hugleiðingum og ráðamenn Reykjavíkur, enda eru aðstæður svipaðar, þótt í smærri stíl sé. Akureyri lagði Laxárvirkjun inn í Landsvirkjun á sínum tíma eins og Reykjavík lagði til Sogsvirkjanir og hefur líka tapað á þeim gerningi.

Gallinn við hugsanlegt brotthvarf Reykjavíkur og Akureyrar úr samstarfi við ríkið um Landsvirkjun er, að hvorki hún né ríkið geta leyst út eignaraðila eftir sukk undanfarinna tveggja áratuga. Það er tómt mál að tala um, að bæjarfélögin geti náð út fé sínu.

Hugsanlegt er, að Landsvirkjun geti leyst hluta vandans með því að afhenda bæjarfélögunum hluta af orkuverum sínum. Það er tæknilega erfitt, en áreiðanlega framkvæmanlegt. Þar með væri lokið langri harmsögu einokunar Landsvirkjunar á orkuöflun í landinu.

Á einhvern slíkan hátt þurfum við að losna úr klóm Landsvirkjunar, til þess að fá orku á verði, sem er sambærilegt við lönd, er verri hafa náttúruskilyrði.

Jónas Kristjánsson

DV

Þoskkvóti aukist ekki

Greinar

Stjórnvöldum ber að stinga við fótum og fara varlega, þegar hafðar eru uppi kröfur um að auka veiðiheimildir á grundvelli frétta af aukinni fiskgengd. Þar sem hagsmunaaðilar eiga í húfi, ber að taka fréttunum með varúð og hafa hefðbundin langtímasjónarmið í heiðri.

Rannsóknaskip er nú í leiðangri á þorskmiðum Vestfjarða til að kanna málið. Leiðangursmenn hafa þegar fundið stóra og þétta torfu, svo að eitthvað kann að vera til í fréttum um aukna þorskgengd. Þar með er ekki sagt, að tímabært sé að leyfa aukna þorskveiði á svæðinu.

Ekki er hlaupið upp til handa og fóta, þegar minna veiðist en búizt er við. Yfirleitt er beðið til næsta veiðitímabils. Nýjar ákvarðanir um kvóta eru helzt ekki teknar nema einu sinni á ári. Ekki er ástæða til að breyta þessu, þá sjaldan sem meira finnst af fiski.

Veiðikvótasagan í heild sýnir, að yfirleitt hafa veiðiheimildir verið of miklar og fiskistofnar hafa minnkað. Þorskgengd hefur farið síminnkandi á tveimur síðustu áratugum þessarar aldar. Það stafar einfaldlega af ofveiði. Takmarkanir hafa ekki náð fyrirhuguðum árangri.

Hagsmunaaðilar játa þetta óvart, þegar þeir segja núna, að naumur þorskkvóti hafi leitt til svo mikillar ofveiði á karfa og grálúðu, að stofnarnir séu í hættu. Það er nefnilega almenn regla, að kvótar eru yfirleitt of miklir vegna þrýstings frá skammsýnum hagsmunaaðilum.

Ekkert öfugt samband á að vera milli þorskkvóta annars vegar og kvóta á karfa og grálúðu hins vegar. Þótt þorskkvóti minnki, er ekki ástæða til að hleypa hagsmunaaðilum í meiri veiði á karfa og grálúðu. Og ofveiði á karfa og gráðlúðu má ekki leiða til aukins þorskkvóta.

Veiðiheimildir á hverri tegund verða að fara eftir ástandi hennar sjálfrar, en ekki eftir breytingum á heildarkvótum hagsmunaðaaðila. Og veiðiheimildirnar verða að fara eftir langtímasjónarmiðum, sem tryggja frambúðarverðmæti og hámarksafrakstur auðlindarinnar.

Hagsmunaaðilar hafa haldið mörgu fram um ástand fiskistofna og æskilega veiði. Oft hefur verið hlaupið á eftir slíkum fullyrðingum og yfirleitt til skaða. Við skulum því fagna fréttum af auknum þorski og fá stöðuna metna fyrir næsta kvótaár, ekki þetta kvótaár.

Við höfum árum saman mátt þola, að Hafrannsóknastofnun hefur mælt með kvótum, sem eru meiri en sem nemur langtímahagsmunum þjóðarinnar, og að sjávarútvegsráðuneytið hefur síðan gefið út kvóta, sem eru nokkru meiri en þeir, sem stofnunin lagði til.

Mál er, að óhóflegri bjartsýni og áhættuspili fari að linna. Þrátt fyrir þrýsting hagsmunaaðila verða fræðimenn og stjórnmálamenn að hafa bein í nefinu til að hafa árlega veiðikvóta ekki meiri en svo, að stofnar nái að vaxa í þá stærð, sem gefur mestan afrakstur.

Hitt er svo annað mál, að langt er síðan öll rök hnigu að því, að leggja beri niður kvótakerfi og taka upp annars konar skömmtun, með auðlindaskatti eða veiðileyfagjaldi. Leidd hafa verið rök að því, að slík aðferð skili sjávarútveginum meiri arði en kvótakerfið gerir.

Meðan kvótakerfið ríkir er samt nauðsynlegt að fara eftir lögmálum þess og hafa vaðið jafnan fremur fyrir neðan sig en ofan. Þess vegna ber yfirvöldum að vera fljótari að skerða veiðiheimildir en auka þær, þegar breytingar verða á mati fræðimanna á stofnstærðum.

Ekki er því ástæða til að láta taka sig á taugum og auka þorskveiðikvóta, þótt torfur mælist á Vestfjarðamiðum. Betra er að bíða til næsta kvótatímabils.

Jónas Kristjánsson

DV

Róttæk vörn í Dagsbrún

Greinar

Andstæðingum skrifstofumannanna í stjórn Dagsbrúnar hefur tekizt að bjóða fram lista gegn lista stjórnarinnar í kosningum, sem verða 19. og 20. janúar. Þetta er töluvert afrek, því að kosningareglur Dagsbrúnar eru sérstaklega sniðnar til að hamla gegn nýjum framboðum.

Til þess að bjóða fram í Dagsbrún nægir ekki að bjóða fram fólk til setu í fámennri stjórn, heldur þarf að bjóða fram í hundrað sæti trúnaðarmanna og tuttugu sæti varamanna þeirra. Það er eins erfitt og að bjóða fram þúsund manna framboðslista í almennum kosningum.

Við slíkar aðstæður er ekki hægt að bjóða fram lista gegn stjórninni nema útbreidd ónáægja sé með störf hennar. Hitt kemur svo ekki í ljós fyrr en í kosningunum, hvort óánægjan er nógu mikil til að velta stjórninni úr sessi. En efni standa til tvísýnna kosninga.

Núverandi stjórn Dagsbrúnar hefur reynt að leggja fleiri steina í götu mótframboðsins. Greinilegt er, að skipulögð hefur verið persónuleg rógsherferð gegn oddamönnum mótframboðsins. Stjórn Dagsbrúnar telur sig ekki koma þar nærri, en herferðin er samt staðreynd.

Þá hefur núverandi stjórn Dagsbrúnar beitt hártogunum til að fresta því, að mótframboðið fengi aðgang að félagaskránni. Það fékkst ekki fyrr en tveimur vikum fyrir kosningar og vantaði þá í skrána símanúmer, sem mótframoðið telur vera í félagaskrá stjórnarinnar.

Einnig stóð stjórnin ekki við samkomulag um, að mótframboðið fengi aðgang að sameiginlegu blaði framboðslistanna. Bar hún því við, að hugmyndir væru uppi um að hafa blöðin tvo, eitt fyrir hvort framboð. Þetta kom ekki í ljós, fyrr en við lok skilafrests á greinum.

Ekki er ljóst, hvernig stjórnin hefur hugsað sér að fjármagna leigu á húsnæði og símum úti í bæ, sem eru í nafni Dagsbrúnar og ætlað til kosningabaráttu lista stjórnarinnar. Efnt var til þessa kostnaðar í nafni Dagsbrúnar, eins og ætlað væri að láta félagið borga.

Allt eru þetta tilraunir til að draga úr líkum á árangri mótframboðsins, sem eru umfram það, er tíðkast í öðrum félögum með strangari siðareglur stjórnar og eru umfram þá aðstöðu, sem felst í að hafa betri aðgang en hinir að starfsliði og starfsaðstöðu á skrifstofum félagsins.

Hinar einstöku aðgerðir stjórnarinnar gegn mótframboðinu kunna sumar hverjar að eiga sér eðlilegar skýringar. En málin eru samanlagt svo mörg, að erfitt er að verjast þeirri hugsun, að stjórnin fari meira eða minna offari í því, sem venjulega eru kölluð bolabrögð.

Ljóst má vera, að stjórn Dagsbrúnar tekur mótframboðið alvarlega og seilist róttækt til aðgerða við að hindra árangur þess. Enda eru miklir hagsmunir í húfi á skrifstofunni. Það er stórbissness að reka verkalýðsfélag og ýmssar stofnanir og sjóði, sem eru á vegum þeirra.

Dagsbrún hefur eins og önnur stéttarfélög og samtök þeirra mátt sæta nokkurri gagnrýni fyrir lélegan árangur á undanförnum árum. Hinn sérstæði stíll formannsins, sem nú er raunar ekki lengur í framboði, hefur ekki borið neinn árangur umfram vinnubrögð annarra.

Í samanburði við aðra hefur staða láglaunafólks haldið áfram að versna að undanförnu. Þeir aðilar, sem tekið hafa að sér að gæta hagsmuna þess fólks, og er Dagsbrún þar engan veginn ein um hituna, hafa ekki fundið eða ekki viljað finna leið til að laga stöðuna.

En það segir nokkra sögu, að Dagsbrún er fyrsta stéttarfélag láglaunafólks, þar sem gerð er markviss tilraun til að velta gamalli valdastétt félagsins úr sessi.

Jónas Kristjánsson

DV