Greinar

Þjóðnýtt einkavæðing

Greinar

Einkavæðing á Íslandi hefur hingað til fremur líkzt einkavinavæðingu og vekur engar vonir um, að rétt verði staðið að einkavæðingu Búnaðarbankans og Landsbankans. Frægustu dæmin um rangsnúna einkavæðingu eru Bifreiðaskoðun Íslands og Lyfjaverzlun Íslands.

Grunsamleg er kenning sumra, sem hafa hagnazt á fyrri einkavinavæðingu ríkisfyrirtækja, að bankarnir séu of litlir og þarfnist sameiningar. Þvert á móti eru bankarnir svo fáir, að milli þeirra er afar lítil samkeppni um þjónustu. Bankarnir eru skólabókardæmi um fáokun.

Augljóst er, að bankarnir eru svo stórar stofnanir, að afar fáir aðilar hafa ráð á að kaupa umtalsverðan hlut í þeim. Líklegast verða stórfyrirtæki og samtök að leggja saman í tilboðspakka. Það þýðir, að tilboðin verða ekki mörg, svo að eðlileg samkeppni tilboða næst ekki.

Útboð á hlutafé mun leiða til of lágra tilboða, þannig að bankinn eða bankarnir munu seljast á lægra verði en eðlilegt má telja. Markaðurinn fyrir banka er einfaldlega of þröngur hér innanlands til þess að hægt sé að nýta viðurkennda kosti einkavæðingarstefnunnar.

Hamla má á móti þessari fáokun með því að selja bankana á alþjóðlegum markaði. Ef útboðið er þannig úr garði gert, að útlendir aðilar megi bjóða og sjái sér fært að uppfylla skilmála, er hugsanlegt, að tilboðin verði svo mörg, að sanngjarnt verð fáist fyrir bankana.

Margir verða hins vegar ekki sáttir við, að bankarnir lendi í eigu erlendra aðila, þannig að alls er óvíst, að pólitísk samstaða náist um þá lausn, sem gefur meira í aðra hönd. Einkavinavæðingin er umdeild, en þó ekki eins umdeild og útlendingavæðing mundi verða.

Til er önnur leið úr þessum vanda. Hana hafa farið ríki, sem að mörgu leyti líkjast Íslandi í miklum ríkisumsvifum, en hafa náð árangri í að steypa sér út í einkavæðingu. Þetta eru nokkur ríki í Austur-Evrópu, sem eru um það bil að verða vestrænni en við á þessu sviði.

Þessi fáu ríki forðuðust rússnesku einkavinavæðinguna, sem felst í, að stórforstjórar ríkisfyrirtækja og sérfræðingar kommúnistaflokksins í fjárhagslegum reddingum og millifærslum hafa eignazt mikinn hluta efnahagslífs Rússlands fyrir lítinn sem engan pening.

Aðferðin felst einfaldlega í, að kjósendum eru send hlutabréfin í pósti. Þeir eru hinir raunverulegu eigendur þess, sem ríkið er skráð fyrir. Með því að færa eignarhaldið frá ríkinu yfir til kjósendanna er verið að einkavæða án þess að þurfa að meta, hvert verðgildi bréfanna sé.

Með þessu vinnst margt. Í fyrsta lagi raskar þessi aðferð ekki fjármálum ríkisins, sem ella mundi nota andvirði bankanna til að búa til þarfir, sem ekki verður hægt að standa undir, þegar andvirðið er upp urið. Skyndileg og tímabundin aukning ríkistekna hefur skaðleg áhrif.

Í öðru lagi næst rekstrarbati einkavæðingar. Sem hlutafélög án ríkisábyrgðar verða bankarnir aðnjótandi flests þess, sem gerir einkarekstur hagkvæmari en ríkisrekstur. Hagnaður þjóðarinnar felst einmitt í varanlegum rekstrarbata, en ekki í tímabundnum tekjuauka ríkis.

Í þriðja lagi fá kjósendur í hendur pappíra, sem þeir eiga og geta ráðskazt með. Margir þeirra munu telja sig neydda til að fara að kynna sér þessa hlutabréfaeign og fara að hugsa um fjármálamarkaðinn. Það mun leiða til aukins kapítalisma í hugarfari þjóðarinnar.

Við erum farin að dragast aftur úr Austur-Evrópu og höfum því gott tækifæri til að læra af reynslunni, sem þar er bezt af einkavæðingu opinberra fyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættuleg skilaboð

Greinar

Lögreglustjóraembættið í Reykjavík hefur sent þau hættulegu skilaboð til erlendra fíkniefnasmyglara, að óhætt sé að flytja slík efni til Íslands, því að ekkert sé gert í málinu, þótt upp komist. Um áramótin lét embættið lausa ítalska konu, sem staðin hafði verið að verki.

Konan flutti nærri hálft kíló af hassi landsins á leið sinni frá Indlandi um Amsterdam til Íslands. Starfsmenn tollgæzlunnar á Keflavíkurvelli gripu konuna, sem var úrskurðuð í rúmlega viku gæzluvarðhald. Við yfirheyrslur sagðist hún hafa ætlað að nota allt hassið sjálf.

Erfitt er að sjá fyrir sér slíka stærðargráðu í einkaneyzlu af hálfu ferðamanns. Samt var konunni sleppt úr haldi hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík án dóms, án frávísunar og án kyrrsetningar. Hún var einfaldlega látin sleppa og tók fyrsta flug til Amsterdam.

Konan var ekki afhent ítölskum yfirvöldum, svo að marklítið er að segja, að mál hennar verði sent til Ítalíu til refsiákvörðunar. Það er einsdæmi, að glæpamönnum, sem staðnir hafa verið að verki í einu landi, sé sjálfum falið að skila sér til yfirvalda í allt öðru landi.

Þótt málið sé upplýst, er ekki vitað, að málsskjöl séu komin frá lögreglustjóranum til ríkissaksóknara. Virðist svo sem það eigi að gerast eftir dúk og disk og að síðan eigi að senda niðurstöðuna í pósti til yfirvalda á Ítalíu, sem þurfa þá að byrja á að reyna að finna konuna.

Erfitt er að sjá fyrir sér, að yfirvöld á Ítalíu muni leggja mikla áherzlu á að reyna að hafa hendur í hári konu, sem smyglaði fíkniefnum milli Amsterdam og Íslands og sem vafalaust verður ekki tagltæk á Ítalíu fyrr en mál þetta er fyrir löngu gleymt og grafið.

Ríkisvaldið á Íslandi hefur ekkert betra við peninga sína að gera en að nota þá til að fylgja stranglega eftir gildandi lögum og reglum um fíkniefnasmygl. Afgreiðsla lögreglustjóraembættisins í Reykjavík byggist því annað hvort á greindarskorti eða á hagsmunaárekstri.

Dómsmálaráðuneytinu ber nú að rannsaka meðferð lögreglustjóraembættisins á málinu. Mikilvægt er að finna, hvers eðlis mistökin eru, svo að unnt sé að koma í veg fyrir endurtekningu. Og mikilvægt er að láta embættið skilja, að svona getur það ekki hagað sér.

Mikilvægast af öllu er þó, að dómsmálaráðuneytið eyði á tvímælalausan hátt þeim misskilningi, sem lögreglustjóraembættið hefur stofnað til, að erlendum fíkniefnasmyglurum sé óhætt að smygla fíkniefnum til Íslands. Brýnt er að eyða þeim misskilningi strax.

Slík aðgerð ráðuneytisins mundi líka eyða þeirri tilfinningu tollvarða á Keflavíkurvelli, að tilgangslaust sé að leita þar að fíkniefnum, af því að ekkert sé gert með niðurstöðuna. Nauðsynlegt er þvert á móti að efla varnir, sem hafa hingað til verið allt of litlar þar.

Athygli hefur vakið, hversu lítið hefur verið tekið af fíkniefnum á Keflavíkurvelli undanfarin misseri. Það stafar ekki af litlum innflutningi, því að nóg er til af eitrinu í þjóðfélaginu, heldur af of litlum áherzlum á varnir í flugstöðinni. Nýja málið bætir sízt úr þeirri skák.

Bæta þarf leitartækjakostinn á Keflavíkurvelli, nota leitarhunda í auknum mæli og auka þjálfun starfsliðs, um leið og fylgt verði í kerfinu vel eftir þeim árangri, sem þar næst. Við megum til með að senda skýr og hörð skilaboð til glæpahringja fíkniefnaheimsins.

Fíkniefnaneyzla er mikið og vaxandi vandamál hér á landi, enda þótt við búum á eylandi, sem gerir landamæravörzlu auðveldari hér en hún er annars staðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrasgefnir þjóðkirkjumenn

Greinar

Deilan í Langholtskirkju bendir eindregið til þess, að málsaðilar séu lítt færir um að stunda mannleg samskipti með venjulegum hætti. Í daglega lífinu lendir venjulegt fólk í margs konar árekstrum, sem yfirleitt eru leystir strax. Úlfaldar eru ekki gerðir úr mýflugum.

Deilurnar í Langholtskirkju eru efnislega ómerkilegar og lítt áhugaverðar þeim, sem horfa á málið að utan. Þær hafa samt hlaðið svo utan á sig, að þjóðkirkjan er komin í hár saman við sjálfa sig út af þeim. Skilin milli deiluaðila á þeim vettvangi eru vel þekkt frá fyrri tíð.

Fyrir öðrum flokknum fara formaður Prestafélags Íslands og vígslubiskupinn í Skálholtsstifti, sem finna biskupnum yfir Íslandi flest til foráttu, þar á meðal afskiptum hans af deilunni í Langholtskirkju. Orðalagið í gagnrýni þeirra er einnig gamalkunnugt af fyrri deilumálum.

Þannig segir formaðurinn til dæmis um biskupinn: “Ég veit ekki, hvað hann er að hugsa, blessaður maðurinn.” Í þessum orðum og ýmsum fleirum kemur greinilega fram, að hluti prestastéttarinnar er algerlega andvígur biskupnum og er ekki að spara lítilsvirðingarorðin.

Þjóðkirkjan er orðin að þjóðarvandamáli. Prestar eiga í útistöðum hver við annan. Þeir eiga í útistöðum við safnaðarnefndir og starfsmenn á vegum safnaðarnefnda og ekki bara organista. Einkum þó og sér í lagi eiga þeir í útistöðum um sjálfa yfirstjórn þjóðkirkjunnar.

Hluti prestastéttarinnar getur ekki sætt sig við niðurstöðu síðasta biskupskjörs og getur ekki dulið gremju sína. Hvað eftir annað hafa fjölmiðlar neyðzt til að ritskoða orðbragð presta, þegar þeir ræða þetta hjartans mál sitt, svo að ummæli þeirra verði prenthæf.

Í framhaldi af fyrri deilum innan þjóðkirkjunnar hafa prestar verið hvattir til að gæta hófs í framgöngu sinni. Ljóst er, að ekkert mark hefur verið tekið á þessum ábendingum. Enn einu sinni er allt komið á hvolf innan þjóðkirkjunnar og í þetta sinn af litlu tilefni.

Tímabært er orðið, að ríkið hætti að bera fjárhagslega ábyrgð á sundurþykkri stofnun skapstyggra manna og gefi kirkjunni sjálfstæði. Kirkjan er ekki lengur kirkja þjóðarinnar, heldur vettvangur alls konar deilna, þar á meðal deilna um rétta trú og rétta kirkjusiði.

Þau atriði, sem starfsmenn þjóðkirkjunnr og einstakra safnaða hennar finna til að gera sér að ágreiningsefni, eru flest svo fjarlæg áhugasviðum skattgreiðenda, að eðlilegt er, að hinir síðastnefndu fari að efast um, að stofnunin eigi yfirleitt að vera á fjárlögum ríkisins.

Eðlilegt er, að söfnuðir velji sér presta og aðra starfsmenn til langs eða skamms tíma og beri á þeim fjárhagslega ábyrgð. Aðskilnaður ríkis og kirkju er að verða óhjákvæmilegur, enda er ekki hægt að segja, að trúfrelsi ríki hér á landi, þegar ríki og kirkja eru samgróin.

Með aðskilnaði fá söfnuðir það kristnihald, sem þeir sækjast eftir, og sértrúarsöfnuðir úti í bæ fá samkeppni frá lúterskri trú. Tímabært er orðið, að þjóðkirkjan fái tækifæri til að endurvekja sig til trúarlífs á slíkan hátt, áður en innviðir hennar hrynja í innra ósamkomulagi.

Með fjárhagslegri ábyrgð safnaða á starfsmönnum sínum fá kennimenn þjóðarinnar kjörið tækifæri til að afla sér umboðs, myndugleika og andlegs styrks úr grasrótinni í stað þess að hanga í innihaldsrýru umboði mánaðarlegs launaumslags úr fjármálaráðuneytinu.

Vænta má, að starfsmenn sjálfstæðrar kirkju hafi nóg að gera við lifandi safnaðarstarf og hafi þar af leiðandi ekki tíma aflögu til þrasgefins iðjuleysis.

Jónas Kristjánsson

DV

Kleinubann kerfisins

Greinar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi farið offari árið 1992, þegar það stöðvaði kleinubakstur í bílskúr einbýlishúss. Var eftirlitið dæmt til að greiða baksturskonunni tæplega tvær milljónir króna, að vöxtum á tímabilinu meðtöldum.

Skaðabætur og miskabætur konunnar nægja þó ekki til að bæta henni upp fjárhagstjón, sem hlauzt af aðgerðum eftirlitsins. Mál hennar lenti í hefðbundnum seinagangi kerfisins og verzlanir þorðu ekki að taka vöru hennar, þegar hún gat loksins byrjað bakstur að nýju.

Konan lenti í fjárhagsvandræðum og missti húsið á þessu tímabili. Ekki er því hægt að segja, að litli maðurinn hafi unnið sigur á kerfinu í máli þessu, þótt niðurstaða dómsins feli í sér nokkrar sárabætur fyrir dólgslega framgöngu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Kerfið á Íslandi starfar samkvæmt þeirri sannfæringu, að matur verði að koma úr flóknum verksmiðjum til þess að vera söluhæfur. Að mati eftirlitsins er heimabakstur svo hættuleg iðja, að ætla mætti, að það hefði upplýsingar um fjöldaandlát í heimahúsum um hver jól.

Dæmi eftirlitsins sýnir, hvernig fer, þegar fullkomnum bjálfum er falið fullkomið vald. Og verra er, að hrokinn er svo fullkominn á þeim sama bæ, að dómsniðurstaðan í kleinumálinu hefur engin áhrif á gang mála. Eftirlitið segir bara, að dómarinn hafi rangt fyrir sér.

Heilbrigðisreglur eru öfgafullar hér á landi og sömuleiðis eftirlit með framgangi þeirra. Til dæmis er ekki hægt að fá í verzlunum alvörumjólk, sem súrnar með aldrinum, heldur verður fólk að kaupa hitaða og gerilsneydda verksmiðjumjólk, sem fúlnar með aldrinum.

Ekki er heldur unnt að kaupa hér osta, nema þeir séu gerilsneyddir. Slíkir ostar eru aðeins léleg eftirlíking alvöruosta, alveg eins og gerilsneydd mjólk er léleg eftirlíking alvörumjólkur. Eðlilegt væri, að fólk mætti hafna gerilsneyddu verksmiðjuvörunni, ef það kærði sig um.

Til skamms tíma var bannað að selja hér á landi ófrysta kjúklinga, sem eru mun betri matur en freðfuglinn. Auðvitað kallar sala ferskrar vöru á meiri tilfinningu fyrir hreinlæti, en erfitt er að sjá, að Íslendingar geti ekki verið eins hreinlátir og til dæmis Frakkar.

Sem dæmi um markleysi heilbrigðisreglna hér á landi er, að reglur um frágang veitingahúsa eru hertar að miklum mun, ef þar á að selja vín. Svo virðist, sem kerfið telji tappatogun og glasahellingar vera mun alvarlegra heilbrigðisvandamál en meðhöndlun matvælanna.

Einu sinni amaðist heilbrigðiskerfið við fögrum antikhúsgögnum, sem voru í setustofu sveitahótels, og krafðizt þess, að í stað þeirra kæmu samstæð verksmiðjuhúsgögn. Bréf eftirlitsins komst í fjölmiðla, en kerfið skildi samt aldrei, hvers vegna það varð að athlægi.

Það er raunar mjög líkt kerfinu að fara hamförum, þegar kona bakar heima hjá sér kleinur, sem verða svo vinsælar, að þær komast út fyrir hóp ættingja og vina og komast í almenna sölu. Verksmiðju- og gervivöruáráttan lýsir sér vel í baráttu þess gegn heimabakstri.

Heilbrigðiseftirlitið lætur hins vegar sér vel líka, að matvöruverzlanir eru fullar af óætu rusli, svo sem niðursneiddu, vatnskenndu og bragðlausu hlaupi, sem framleitt er í verksmiðjum í áleggssneiðum og selt undir villandi nöfnum á borð við skinku og hangikjöt.

Hérlendar reglur um heilbrigðiseftirlit og framkvæmd þeirra eru sumpart óviðkomandi heilbrigðu og náttúrulegu mataræði og sumpart í beinni andstöðu við það.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrífótur utanríkisviðskipta

Greinar

Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið eru eindregið okkar mestu og beztu viðskiptasvæði. Tveir þriðju útflutnings okkar fara þangað og rúmlega tveir þriðju innflutningsins koma þaðan. Þessi sambönd hafa styrkzt við aukna aðild okkar að evrópsku samstarfi.

Þegar Vestur-Evrópu sleppir, eru Bandaríkin og Japan okkar beztu viðskiptasvæði. Japan er raunar komið upp fyrir Bandaríkin. 13% útflutnings okkar fara til Japans og 12% til Bandaríkjanna. Aðeins 10% útflutnings okkar fara til annara svæða, en hér hafa verið nefnd.

Þetta þýðir, að utanríkisviðskipti okkar eru fyrst og fremst við auðþjóðir heimsins. Það er eðlilegt og gott, því að þær einar hafa ráð á að greiða það verð fyrir afurðir okkar, sem við teljum okkur þurfa að fá. Skynsamlegt er fyrir okkur að rækta ríku samböndin sem bezt.

Japan hefur reynzt okkur góður markaður. Þangað fer einkum vara, sem aðrir markaðir vilja ekki eða vilja ekki greiða nógu háu verði. Útflutningurinn til Japan dregur því ekki frá öðrum markaði, heldur er að miklu leyti hrein viðbót við annan útflutning okkar.

Japönum líkar ýmis sérhæfð vara, sem er ný í útflutningi. Einkum er það sjávarfang, svo sem loðnuhrogn og ígulker. En svo sérstakur er japanski markaðurinn, að þangað er hægt að selja án útflutningsstyrkja allt það feita hrossakjöt, sem við getum aflað í landinu.

Vestur-Evrópa er sjálfvirkur segull, sem dregur til sín utanríkisviðskipti okkar. Við þurfum að hafa fleiri stoðir undir útflutningsverzlun okkar. Bandaríkin og Japan eru augljós markaðssvæði okkar utan Evrópu. Við þurfum að halda áfram að rækta viðskipti við bæði löndin.

Í því skyni væri gagnlegt að leggja niður fáránlegt sendiráð í Kína og verja peningunum til sendiráðs í Japan. Kínverjar eru siðlausir í viðskiptum og beita aflsmun ríkisvaldsins í samskiptum við erlend fyrirtæki, en Japanir fara eftir leikreglum viðskiptalífsins.

Um Kína gildir í meira mæli en um önnur svæði þriðja heimsins, að þangað er hægt að selja þekkingu á ýmsum sviðum, þar sem við höfum sérhæfingu, svo framarlega sem því fylgir engin áhætta í fjárfestingum, svo sem sýnir dæmið um íslenzku lakkrísverksmiðjuna í Kína.

Við eigum ekki að vera að eyða opinberu fé og opinberum tíma í að magna viðskipti við ríki, sem hvorki geta né vilja borga það, sem við þurfum að fá. Allra sízt eigum við að eyða orku í þá, sem virða ekki leikreglur. Og Kína gengur lengra í því en önnur ríki þriðja heimsins.

Í löndum á borð við Japan og Bandaríkin höfum við mörgum tugum sinnum meiri markað en við munum nokkru sinni geta notað að fullu. Miklu vitlegra er að verja tíma og fé til að stækka markað okkar í slíkum löndum, sem fara að reglum og borga viðskiptaskuldir.

Þegar ferðaglaðir stjórnmálamenn okkar koma úr hópferðum sínum til Kína, fjölyrða þeir mikið um þúsund milljón manna markað í Kína. Við þurfum bara engan þúsund milljón manna markað, því að við ráðum ekki einu sinni við hundrað milljón manna markað.

Við eigum að afmarka sölumennsku okkar við svæði, þar sem við getum náð umtalsverðri markaðshlutdeild og góðu verði. Vestur-Evrópa, Bandaríkin og Japan eru samanlagt miklu meira en nógu stór og nógu rík fyrir okkur og verða svo áfram um ófyrirsjáanlegan aldur.

Þrífótur utanríkisviðskiptanna er í þremur heimsálfum. Markaðssvæðin þrjú eigum við að rækta og ekki eyða kröftunum í að reyna að gleypa heiminn.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi bjartsýni

Greinar

Íslendingar eru bjartsýnni um þessi áramót en þeir hafa verið tvenn síðustu áramót. Fólk telur, að uppgangur verði í atvinnulífinu á næsta ári og að hann muni endurspeglast í lífskjörum almennings. Bjartsýnin er studd ýmsum jákvæðum staðreyndum í þjóðlífinu.

Samningurinn um stækkun álversins í Straumsvík markaði þáttaskil í hugum fólks. Fram að þeim tíma höfðu menn ekki fundið fyrir batamerkjum, þótt þau væru farin að mælast í hagtölum. Samningurinn hefur þegar haft sálrænt gildi, þótt verk sé ekki hafið.

Atvinnulífinu vegnaði mun betur árið 1995 en árin á undan. Árangurinn endurspeglar bætta rekstrartækni og aðhaldsaðgerðir, sem hafa gert mörg íslenzk fyrirtæki mun framleiðnari og öflugri. Þau skila nú afrakstri í líkingu við það, sem talið er eðlilegt í útlöndum.

Vinsældir hlutabréfa hafa aukizt við þetta. Kaupendur hafa reynzt sólgnir í aðild að hlutabréfasjóðum, því eignarformi, er sennilega hentar bezt venjulegu fólki, sem ekki ræður yfir stórum fjárhæðum og hefur hvorki tíma né þekkingu til að velja beztu fyrirtækin.

Velgengni fyrirtækja hefur endurspeglazt í bættum kjörum fólks, aukinni einkaneyzlu og meiri kaupmætti ráðstöfunartekna. Jólakauptíðin sýndi líka, að mikill meirihluti fólks hefur peninga milli handa og getur veitt sér ýmsa hluti, sem ekki eru bráðnauðsynlegir.

Það bætir stöðu þessa fólks, að erfiðleikar síðustu ára hafa kennt því að fara betur með peninga en áður. Þegar aukavinna dróst saman, lærði mikill fjöldi fólks að komast betur af á minni tekjum en það hafði áður. Kreppan hafði jákvæð áhrif með því að vera lærdómsrík.

Hins vegar hefur atvinna ekki aukizt í landinu. Fyrirtæki hafa lært að nýta starfskrafta betur, svo að fleiri hendur komast ekki að, þótt umsvif þjóðarinnar hafi aukizt. Atvinnuleysingjar eru því jafn margir um þessi áramót og þeir hafa verið um tvenn síðustu áramót.

Raunar hefur versnað staða atvinnuleysingja og annarra, sem á einhvern hátt eru minni máttar og þurfa að þiggja aðstoð eða nota ódýra þjónustu ríkisins. Ríkið er í seinni tíð farið að reyna að spara með því að skera niður velferðina. Það kemur niður á þeim verst settu.

Einstæðar mæður, aldraðir, öryrkjar, sjúklingar, skólafólk og atvinnuleysingjar eru í hópi þeirra, sem enn búa í kreppu undanfarinna ára. Sumt af þessu fólki tekur þátt í bjartsýni hinna um þessi áramót. Það telur, að velgengnin muni sáldrast niður í þjóðfélaginu.

Versta hlið kreppunnar og raunar einnig fyrstu batamerkjanna eftir kreppuna er, að stéttaskipting hefur aukizt. Meira bil en áður er milli hinna vel stæðu og miðlungsstæðu annars vegar og hins vegar hinna illa stæðu. Þetta veldur til dæmis óróa á vinnumarkaði.

Vandamálið er torleystara en ella fyrir þá sök, að undirstéttin í þjóðfélaginu er ekki lengur meirihluti fólks eins og var fyrr á öldum, heldur er hún í minnihluta. Það er því erfitt fyrir hana að sækja rétt sinn í hendur hinna, sem betur mega sín og vilja hafa skatta í hófi.

Eitt brýnasta verkefni þjóðarinnar í væntanlegu góðæri ársins 1996 er að draga úr nýju stéttaskiptingunni. Skammgóður vermir er að góðum kjörum meirihlutans, ef bág staða og rýrð velferð minnihlutahópa veldur ósætti og illdeilum, sundrungu og skæruhernaði.

Við erum svo fámenn þjóð, að við höfum ekki ráð á tekjuskiptingu, sem framleiðir svo mikla óánægju minnihlutahópa, að það raski gangverki þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Ballið er rétt að byrja

Greinar

Við getum ekki treyst því, að heils milljarðs ríkisábyrgð í tengslum við Hvalfjarðargöng sé lokaáhætta skattgreiðenda vegna þeirra. Ekki fremur en við gátum treyst formanni Spalar fyrir tveimur árum, þegar hann fullyrti, að ríkið þyrfti hvergi að koma nærri.

Þá sagði formaður fyrirtækisins skýrt og skorinort: “Því hefur alltaf verið ljóst og út frá því gengið, að ef í þessa framkvæmd yrði ráðizt, þyrfti hún að fjármagnast af öðrum aðilum en ríkinu, án ríkisábyrgða, og endurgreiðsla kæmi af vegtolli af umferðinni.”

Þessi skýru orð komu ekki í veg fyrir, að ríkið lánaði Speli peninga til að hefja undirbúning við gerð Hvalfjarðarganga. Fyrst voru það 50 milljónir króna og síðan 70 milljónir króna fyrr á þessu ári. Og nú ætlar ríkið enn að liðka fyrir málinu með milljarði í ríkisábyrgð.

Núverandi samgönguráðherra hefur verið eins fullyrðingasamur um áhættu- og áhyggjuleysið og formaður fyrirtækisins. Í hittifyrra sagði hann: “þær séu innan þeirra arðsemismarka, að ekki þurfi að koma til ríkisábyrgðir, en umferðin greiði kostnaðinn við göngin”

Nú hefur komið í ljós, að allt var það lygi, sem sagt var um þetta mál. Áhugamenn málsins eru smám saman að gefast upp og ríkið er smám saman að taka Hvalfjarðargöng á sínar herðar. Þetta gerist skref fyrir skref. Í hvert skipti er fullyrt, að það skref sé hið síðasta.

Dæmigert fyrir málið er, að fjórum dögum fyrir þinghlé var tillögunni um milljarðinn kastað inn á Alþingi, rétt fyrir aðra umræðu um lánsfjárlög ríkisins á næsta ári. Engin aðvörun hafði áður verið gefin um, að hugmynd um ríkisábyrgð væri á leiðinni inn á þing.

Alþingi staðfesti síðan þá gamalgrónu skoðun, að það sé afgreiðslustofnun ríkisstjórnarinnar. Það skilgreindi að vísu nánar, hvernig milljarðurinn mætti skiptast eftir verkefnum, en samþykkti að setja hann í lánsfjárlög. Þannig er Alþingi líka sokkið á kaf í Spalarfenið.

Eftir fyrri reynslu af jarðgöngum á Íslandi getur engum heilvita manni dottið í hug, að verkið undir Hvalfirði gangi vandræðalaust. Og hliðstæð reynsla annarra þjóða sýnir, að fjárhagsáætlanir slíkra verka eru út í hött. Við erum því ekki búin að bíta úr nálinni.

Skattgreiðendur munu endanlega þurfa að kveðja allan milljarðinn, áður en yfir lýkur. Á þeim tíma verður búið að tvöfalda allar tölur um kostnað og ríkið verður orðið helzti hluthafinn í ruglinu. Þetta mun gerast skref fyrir skref og hvert skref talið “óhjákvæmilegt”.

Auðvitað er miklu heppilegra og hagkvæmara að leggja fínan veg um Hvalfjörð og niðurgreiða ferju milli Reykjavíkur og Akraness, heldur en að borga 800 milljónir króna í veg að Hvalfjarðargöngum og taka á sig áhættu af að fá í fangið skuldasúpuna af sjálfum göngunum.

Þátttakan í ruglinu kemur í veg fyrir almennilegan veg um Hvalfjörð og kippir grundvellinum undan rekstri niðurgreiddrar Akranesferju. Öll eggin lenda í einni körfu Hvalfjarðarganga. Engin leið er að henda reiður á fórnarkostnaði þjóðfélagsins af breytingunni.

Í stað þess að liðka fyrir framkvæmdum við Hvalfjarðargöng væri nær fyrir ríkið að skattleggja þær til að safna í sjóð til að liðka óbeinar afleiðingar erfiðleika, sem upp kunna að koma, svo sem til að standa undir bótum til starfsmanna gjaldþrota verktakafyrirtækja.

Því miður er málið á fullri ferð og lítið hægt að gera annað en að safna ummælum þeirra, sem á hverjum tíma sjá um að ljúga málið milli þrepa inn í ríkisrekstur.

Jónas Kristjánsson

DV

Batnandi bókarhagur

Greinar

Verðstríðið á jólabókamarkaði hefur aukið bóksölu og komið bókum betur en áður í sviðsljós athyglinnar. Bækur fást nú víðar en þær gerðu fyrr á árum. Þær hafa haldið innreið í stórverzlanir. Þannig hafa þær færzt nær fjöldanum og eru sýnilegri en þær voru áður.

Þetta er til góðs fyrir alla aðila, sem koma að málinu, aðra en þá, sem reka hefðbundnar bókabúðir. Í sumum tilvikum fá útgefendur og höfundar minna í sinn hlut af hverju seldu eintaki, en vegna aukinnar heildarsölu á þetta að hafa jafnazt upp að meðaltali.

Neikvæða hliðin á breytingunum er veikt staða hefðbundinna bókabúða. Þær eru margar hverjar reknar með tapi ellefu mánuði ársins og gátu áður bætt sér það upp með jólabókasölu, sem hefur færzt að hluta í önnur söluform, svo sem í forlagsbúðir og stórverzlanir.

Til aðlögunar nýjum aðstæðum hefur mörgum bókabúðum verið breytt. Í sumum hefur verið aukin áherzla á ritföng og skólavörur eða á almennar gjafavörur á jólamarkaði. Loks er farið að bera á hljómdiskasölu og myndbandaleigu í litlum bókabúðum á landsbyggðinni.

Þannig reynir hver að bjarga sér sem bezt hann getur. Þetta er þekkt í öðrum greinum. Sjoppur blómstruðu, þegar strangar takmarkanir voru á opnunartíma nýlenduvöruverzlana. Sjoppueigendur hafa varizt auknu frelsi með því að taka upp myndbandaleigu.

Benzínstöðvar sækja á matvöruverzlanir og sjoppur með því að bjóða í vaxandi mæli vörur, sem áður sáust ekki á benzínstöðvum. Og bakarí eru byrjuð að breytast í almennar helgarmorgna-verzlanir. Menn víkka þjónustuna við neytendur, sem komnir eru inn fyrir dyr.

Ekki er unnt að sporna gegn margvíslegum breytingum af þessu tagi. Með auknu viðskiptafrelsi breytast viðskiptahættir. Hver fyrir sig reynir að bæta stöðu sína með því að ganga inn á fyrri svið annarra og búa til vöruframboð, sem þjónar viðskiptavinunum sem bezt.

Langt er síðan byrjað var að höggva í sérsvið hefðbundinna bókabúða. Árum saman hafa tíðkazt forlagsverzlanir. Fólk í jólainnkaupum fór milli forlagsbúða og keypti bækur á svokölluðu forlagsverði, sem er mun lægra en það, sem var í bókabúðum fyrir verðstríð.

Á síðari árum hafa útgefendur fært út kvíarnar á þessu sviði og sett upp afsláttarmarkaði fyrir eldri bækur. Þannig koma þeir út gömlum bókaleifum og þjónusta neytendur ágætlega. En sú sala dregur um leið að nokkru úr viðskiptum fólks við hefðbundnar bókabúðir.

Ennfremur hafa sumir útgefendur stofnað bókaklúbba, þar sem þeir selja bækur beint til fastra viðskiptavina, án þess að bókaverzlanir komi við sögu. Þeir hafa líka beina sölumenn á sínum snærum, sem sitja við símann eða fara um landið og bjóða sérstök vildarkjör.

Þannig er sala bóka á tilboðsverði í stórverzlunum ekki upphaf að atlögu gegn hefðbundnum bókabúðum. Fremur mætti kalla hana endapunkt á langri breytingasögu, þar sem bókabúðir hafa verið á undanhaldi í sölu bóka og bætt sér það upp með innreið á önnur svið.

Miklu máli skiptir, að niðurstaða málsins í heild er sú, að neytendur fá bækur á lægra verði en áður. Þeir njóta afsláttar í mörgum verzlunum, nota tilboð og vildarkjör útgefenda og fara á sérstaka afsláttarmarkaði eldri bóka. Hagur bókaáhugafólks hefur því batnað.

Um leið vænkast hagur bókarinnar í þjóðlífinu. Hún er á boðstólum á miklu fjölbreyttari hátt en áður var og nær því betur en áður til alls almennings í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ljós og friður

Greinar

Veðurspámenn segja, að íslenzku jólin verði köld og hvít að þessu sinni, mild og þurr, eins og flestum finnst, að þau eigi að vera. Eftir langan hlýindakafla, sem staðið hefur fram undir jól er snögglega genginn vetur í garð um allt land með staðviðrum og greiðum samgöngum.

Botni skammdegismyrkurs hefur þegar verið náð og nú tekur dag að lengja á nýjan leik. Hátíð ljóssins minnir okkur á þessi kaflaskil í tilverunni og gefur okkur tækifæri til að hugsa með tilhlökkun til komandi mánaða. Ljósadýrð jólanna gefur okkur forskot á sæluna.

Veraldleg umsvif jólanna eru í hámarki um þessar mundir. Jólahaldið endurspeglar óhjákvæmilega lífskjör og lífshraða þjóðarinnar eins og endranær. Sumir eru önnum kafnir við þjónustustörf og aðrir í ýmsu vafstri, sem þeir telja verða að fylgja jólaundirbúningi.

Flestir fá senn tækifæri til að hægja á sér og njóta hátíðar ljóss og friðar. Víða sameinast fjölskyldur í borðhaldi og gagnkvæmum gjöfum. Þannig hefur það lengi verið og verður væntanlega lengi enn. Þetta er fasti punkturinn í árstíðabundnum takti lífsins.

Margt hefur þó breytzt, þegar horft er langt aftur í tímann. Jólaljósin eru fleiri og bjartari en fyrr. Tækni og auður gera okkur kleift að njóta jólanna betur en margir forfeðra okkar gátu, þótt fólki takist auðvitað misjafnlega að nýta sér velmegunina til betra lífs.

Sumir eru fastir í eltingaleik við meint lífsgæði af ýmsu tagi, tilgangslausri eftirsókn einskisverðra hluta, sem kalla á enn hraðari hlaup á eftir nýjum óskum, er áður voru ekki til. Íslenzku jólin hafa því miður löngum dregið dám af þessum taugaveiklaða vítahring.

Hver verður að smíða sína gæfu sem bezt hann getur. Fólki ber ekki skylda að taka þátt í dansinum kringum meira eða minna ímynduð lífsþægindi. Við megum velja og hafna. Margt fólk kann að halda streitunni í hófi og ná raunverulegri gleði friðarins um jóladagana.

Við þurfum einnig að átta okkur á, að brestir eru farnir að koma í velmegun þjóðarinnar. Þetta eru önnur jólin í röð, sem einkennast af því, að fleiri Íslendingar eru hjálpar þurfi en áður var. Með hægt vaxandi stéttaskiptingu fjölgar fólkinu, sem lifir við fátæktarmörk.

Það er óþægileg tilhugsun, að harkan skuli jafnt og þétt vera að aukast í þjóðfélaginu og að þeim skuli fara fjölgandi, sem af ýmsum ástæðum eru ekki þáttakendur í velmeguninni, er flestir búa við. Það er vont fyrir fámenna þjóð að þurfa að sæta vaxandi stéttamun.

Um þessar mundir er verið að rýra kjör aldraðra, öryrkja, atvinnulausra, sjúklinga og barnafólks. Stórbætt afkoma atvinnulífsins hefur ekki endurspeglazt í aukinni atvinnu og auknum tekjum almennings. Á sama tíma hafa þeir bætt hlut sinn, sem betur mega sín.

Þessi aukni ójöfnuður í þjóðfélaginu mun fyrr eða síðar baka okkur og landsfeðrunum vandræði, ef taflinu verður ekki snúið við. Okkur er fyrir beztu að skilja nauðsyn þess, að allir telji sig vera gilda aðila að þjóðfélaginu og séu sæmilega sáttir við innviði þess.

Jólin eru hátíð barnanna, sem síðar munu erfa landið. Okkur ber að reyna að leggja okkar af mörkum til að stuðla að því, að þau komi til verkefna í tiltölulega samstæðu og réttlátu þjóðfélagi, sem er sátt við sjálft sig. Það er bezta jólagjöf okkar til afkomendanna.

DV óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum bjartra og friðsælla jóla og góðs gengis á næsta ári.

Jónas Kristjánsson

DV

Tilsjónarmaður ómerktur

Greinar

Ekki er von á góðu í sjúkrahúskostnaði landsins, þegar heilbrigðisráðherra tekur hvorki mark á tilsjónarmanni, sem hún skipaði yfir Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði, né á sérstakri nefnd, sem skipuð var til að athuga, hvort tillögur tilsjónarmannsins væru ráðlegar.

Venja er, að ráðherrar skipi aðeins þá tilsjónarmenn, sem þeir treysti til að ná þeim markmiðum, sem stefnt er að. Þess vegna hefði mátt búast við, að heilbrigðisráðherra samþykkti fyrir sitt leyti tillögur tilsjónarmannsins til að grafa ekki undan getu hans til að gera gagn.

Ef tilsjónarmenn geta ekki reiknað með, að ráðherrar, sem skipa þá, standi við bakið á þeim, hætta þeir að geta starfað eins og tilsjónarmenn verða að gera. Þeir verða í þess stað fangar heimamanna, sem berjast um á hæl og hnakka gegn hvers konar hugmyndum um sparnað.

Það var strax til marks um staðfestuleysi heilbrigðisráðherra, að hún treysti sér ekki til að styðja tilsjónarmann sinn, heldur skipaði nefnd til að fara yfir tillögur hans. Sú nefnd komst að sömu niðurstöðu og tilsjónarmaðurinn, en samt bilaði kjarkur ráðherrans.

Hagsmunafulltrúar Hafnarfjarðar lentu í minnihluta í nefndinni, en höfðu samt sitt fram. Þetta sjá sjúkrahússtjórnir og sveitastjórnarmenn um allt land. Þeir munu nú eflast og notfæra sér ístöðuleysi og vandræðagang ráðherrans til að drepa sparnaðarhugmyndum á dreif.

Ástandið á Sankti Jósefsspítala er hlutfallslega margfalt lakara en það er á ríkisspítölunum. Hallinn á rekstrinum er fimmtungur kostnaðarins. Ef ráðherrann nær ekki fram sparnaði við slíkar aðstæður, er vonlaust, að hún geti rekið sjúkrahús landsins af neinu viti.

Vandræði sjúkrahúsgeirans við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi byggist einmitt á því, að heilbrigðisráðherra hefur ekki bein í nefinu til að hafa hemil á eyðsluöflunum. Þess vegna verða niðurstöðutölur svo háar, að skera þarf niður það, sem brýnna er en sukkið sjálft.

Tillögur tilsjónarmanns Sankti Jósefsspítala og nefndarinnar fólu í sér, að bráðavaktir yrðu lagðar þar niður og helgarvaktir flyttust til ríkisspítalanna í Reykjavík. Reiknað var út, hver kostnaðaraukinn yrði á móti á ríkisspítölunum og var það dæmi afar hagstætt.

Hlálegast í máli þessu er, að tillögur tilsjónarmanns og nefndar hefðu leitt til meira öryggis Hafnfirðinga um helgar, því að þá mundu þeir hafa beinan aðgang að sjúkrahúsum með margfalt öflugri sérhæfingu í læknisfræði heldur en fæst í Hafnarfirði einum.

Berserksgangur hagsmunagæzlumanna Hafnarfjarðar hefur því leitt til þess, að bráðaöryggi Hafnfirðinga verður minna um helgar en það hefði orðið, ef tillögurnar hefðu náð fram að ganga. Þetta veit ráðherrann mæta vel, en lét samt bugast í þessu máli sem ýmsum öðrum.

Slæm reynsla er af heilbrigðisráðherranum eftir rúmlega hálfs árs starf hennar. Með ráðleysi sínu hleður hún upp vandamálum í ráðuneytinu, sem síðan leiðir til, að allt fer á annan endann og niðurskurður brýnna þátta í heilbrigðiskerfinu verður miklu meiri en ella.

Versti þáttur þessarar reynslu er, að tilsjónarmenn og annað trúnaðarfólk ráðherrans getur ekki treyst á hana, er hún ráfar út og suður í ákvörðunum og skiptir um sjónarmið eftir frekjunni í tilfallandi hagsmunagæzlu hverju sinni. Hvergi er fastan punkt að finna.

Dæmigert fyrir þessi vinnubrögð er að skipa tilsjónarmann og skilja hann síðan eftir hangandi sem ómerking í lausu lofti með tillögur, sem ekki er farið eftir.

Jónas Kristjánsson

DV

Vopnaðir atvinnumenn

Greinar

Bankaránið á mánudaginn vekur athygli á nokkrum atriðum, sem einkenna íslenzk afbrot í vaxandi mæli. Ber þar einna hæst aukna aðild atvinnumanna, sem eru vel skipulagðir og fremja ekki afbrot sín undir þungum áhrifum læknalyfja, áfengis eða fíkniefna.

Reynslan sýnir, að íslenzkir rannsóknamenn eru vanbúnir að fást við glæpi af þessu tagi. Algengast er, að ræningjar finnist ekki og þurfi því ekki að svara til saka. Þannig hafa til dæmis ekki enn fundizt þeir, sem í febrúar rændu tvo benzínafgreiðslumenn á leið í banka.

Mikilvægt er, að rannsóknamenn nái sem fyrst tökum á þessari tegund glæpa til þess að draga úr fordæmisgildi þeirra. Með aukinni þjálfun, erlendri fræðslu og bættum mannskap á að vera unnt að upplýsa fleiri mál af þessu tagi og fækka afbrotum atvinnumanna.

Að ýmsu leyti eru aðstæður til rannsókna á afbrotum betri hér á landi en annars staðar. Landamæri ríkisins eru ljós og þjóðfélagið er í senn fámennt og heildstætt. Hér á landi ætti fremur en annars staðar að vera unnt að einangra undirheimana og skyggnast inn í þá.

Vopnaburður eða hótanir um vopnabeitingu eru annað atriði, sem í vaxandi mæli einkennir afbrot hér á landi. Skiptir þá litlu, hvort um raunveruleg vopn er að ræða eða ekki, því að fólkið, sem fyrir þeim verður, hefur enga aðstöðu til að ganga úr skugga um slíkt.

Aukinn vopnaburður afbrotamanna kemur raunar ekki á óvart frekar en aukin atvinnumennska þeirra. Hvort tveggja hefur í vaxandi mæli einkennt afbrot í nágrannalöndunum. Og rannsóknamenn á Norðurlöndum hafa einnig átt í mesta bazli með slík mál.

Vopnaburðurinn er alvarlegri en atvinnumennskan. Hún setur óbreytta borgara í hættu, sem atvinnumennskan ein gerir ekki. Raunar má gera því skóna, að atvinnumenn séu fólki minna hættulegir en skyndiglæpamenn, sem eru ruglaðir af notkun lyfja eða áfengis.

Bankar og aðrar stofnanir, sem hafa mikla peninga með höndum, geta aukið varúðarráðstafanir sínar langt umfram það, sem nú tíðkast hér á landi, og þannig lagt steina í götu atvinnumanna. Aukin gætni og aukin tækni í gæzlu peninga getur þannig haft mikil áhrif.

Öðru máli gegnir um vopnaburðinn. Ekki er hægt að verjast honum á sama hátt og atvinnumennskunni. Í því efni duga ekki varnir, heldur þarf að sækja inn í skúmaskot þjóðfélagsins og lýsa þau upp. Í því efni er nauðsynlegt að beina athyglinni að rótum vandans.

Íslenzka þjóðfélagið dregur því miður óhjákvæmilega dám af umhverfi sínu. Það er að verða flóknara og margbreytilegra. Gjár eru að myndast milli þjóðfélagshópa. Ekki sízt er taumlaus græðgi í vaxandi mæli höfð að leiðarljósi í öllum þrepum þjóðfélagsstigans.

Á efri þrepum eru ótal tækifæri til að þjóna græðginni innan ramma laganna. Í neðri þrepunum telja menn sig fremur þurfa að stytta sér leið út fyrir þann ramma, en hafa um leið óbeina fyrirmynd af hinum, sem greinilega þjóna græðgi sinni, þótt innan rammans sé.

Með betri innsýn í hugarheim og þjóðfélagsaðstæður vopnaðra atvinnumanna eiga rannsóknamenn að geta náð betri árangri við að upplýsa glæpi þeirra. Brýnt er að koma þeim skilaboðum á framfæri við upprennandi afbrotamenn, að þess háttar glæpir borgi sig ekki.

Hinn ljúfi tími viðskipta við vímaða kunningja lögreglunnar er að byrja að víkja fyrir tíma baráttu við alvöru glæpamenn eins og þeir tíðkast úti í hinum harða heimi.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaleikur Alþingis

Greinar

Við afgreiðslu fjárlaga ber Alþingi að hafna tillögu ríkisstjórnarinnar um að fresta gildistöku nýlegra laga frá því í vor um greiðslur bóta til þolenda afbrota. Þessi tillaga er í senn ósiðleg og sýnir Alþingi um leið óvirðingu, því að bótagreiðslurnar eru nýkomnar í lög.

Með tillögunni lætur ríkisstjórnin eins og Alþingi sé eins konar bjálfastofnun, sem viti ekki, hvað hún geri, heldur samþykki eitthvað út í loftið, sem síðan verði að draga til baka hálfu ári síðar. Með því að samþykkja frestunina væri Alþingi að staðfesta þetta niðrandi álit.

Vel kann að vera, að Alþingi sé skipað bjálfum. En lögin frá því í vor um greiðslur bóta til þolenda afbrota eru alls ekki dæmi um það. Þvert á móti eru þetta afar brýn lög, sem kosta lítið og eru í samræmi við tilfinningu þjóðarinnar fyrir því, hvað sé rétt og rangt.

Fjárlagafrumvarpið er að venju fullt af óþörfum og jafnvel hættulegum útgjöldum, sem Alþingi getur skorið brott, áður en röðin kemur að jafn sjálfsögðum þætti eðlilegs velferðarkerfis og þessar bótagreiðslur eru. Þær munu fela í sér 40-50 milljóna króna kostnað á ári.

Ofbeldismenn, sem skaða fólk líkamlega eða andlega, eru yfirleitt ekki borgunarmenn fyrir skaðabótum, sem þeir eru dæmdir til að greiða fórnardýrum sínum. Reynslan sýnir, að þeir geta ekki eða vilja ekki greiða þessa peninga og komast yfirleitt upp með það.

Ríkisvaldið hefur tekið sér hlutverk öryggisvarðarins í þjóðfélaginu. Fyrsta hlutverk ríkisins og raunar helzta afsökunin fyrir tilveru þess er, að það gæti öryggis borgaranna inn á við og út á við. Það er til dæmis brýnna hlutverk en fræðsla, samgöngur og heilsugæzla.

Þegar ríkið bregzt í hlutverki öryggisvarðarins, ber það að nokkru leyti ábyrgð á tjóni, sem fólk verður fyrir. Þetta öryggisnet er að vísu að umtalsverðu leyti framkvæmt með gagnkvæmum skyldutryggingum, en að öðru leyti er það réttilega á vegum opinberra aðila.

Ekki er eðlilegt, að þolendur afbrota njóti ekki sama aðgangs að öryggiskerfinu og aðrir. Það er tilgangslítið að dæma ofbeldismenn til greiðslu bóta, sem þeir munu aldrei greiða. Þess vegna á ríkið að greiða þessar bætur sjálft og endurkrefja síðan afbrotamennina.

Oft hafa þolendur afbrota skerta getu til að reyna að innheimta slíkar skaðabætur af ofbeldismönnum, hafa til dæmis ekki ráð á að borga innheimtustofu fyrir vonlitlar fjárheimtutilraunir. Ríkið hefur hins vegar burði til að stunda slíkar innheimtur af hörku.

Upphæðirnar eru ekki háar á mælikvarða sameiginlegs sjóðs landsmanna. Samkvæmt lögunum eru hámarksbætur fyrir líkamstjón fimm milljónir króna og hámarks miskabætur ein milljón króna. Fyrir missi framfæranda eru hámarksbætur þrjár milljónir.

Með því að samþykkja lög um siðræna meðferð slíkra mála gaf Alþingi í vor fórnardýrum ofbeldismanna von um, að byrjað yrði að greiða bætur í sumar sem leið. Siðlítið dómsmálaráðuneyti Þorsteins Pálssonar fann sér króka til að fresta framkvæmdinni til áramóta.

Siðlítil ríkisstjórn hyggst nú fá Alþingi til að bíta höfuðið af skömminni með því að fresta framkvæmd laganna um ár í viðbót hið minnsta. Alþingi ber skýlaus siðferðisskylda til að neita að taka við þessum kaleik. Alþingi á að láta lögin gilda eins og önnur lög í landinu.

Alþingi rís að öðrum kosti ekki undir samanburði á þessum 50 milljóna króna útgjöldum og ýmsum hærri fjárlagaliðum, sem byggja á minni þörf og minna réttlæti.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvert fór bjartsýnin?

Greinar

Eftir rúmlega sex ára ferð um himingeiminn er geimfarið Galileo komið á braut umhverfis reikistjörnuna Júpíter, þar sem það mun verða næstu tvö árin og væntanlega senda mikilvægar upplýsingar til jarðar. Tæplega fjögurra milljarða kílómetra leið liggur að baki þess.

Geimskotið í árslok 1989 markaði endalok stórhuga tímabils í geimkönnun, sem náði hámarki frægðar, þegar maður steig fæti á tunglið. Í árslok 1995 eru viðhorfin til sóknar út í geiminn önnur en þau voru á þessum árum. Nú er lítið um djarfar ráðagerðir af þessu tagi.

Þótt Bandaríkin séu núna miklu ríkari en þau voru á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum, hafa þau núna síður ráð á könnun geimsins eða öðrum tímamótaverkum. Almennt má segja, að vestrænar þjóðir virðist ekki lengur hafa efni á að víkka sjóndeildarhring sinn.

Bjartsýni fyrri áratuga hefur hopað fyrir svartsýni nútímans, þótt árleg landsframleiðsla vestrænna þjóða hafi aukizt. Fyrir nokkrum áratugum taldi ungt fólk sér alla vegi færa. Nú telur fólk sig sleppa þolanlega, ef það fær yfirleitt pláss við færibönd atvinnulífsins.

Fyrir þremur áratugum var ungt fólk sannfært um að geta lagt stund á hvaða háskólanám sem væri og síðan fengið góða vinnu við hæfi. Nú geta ekki einu sinni nýútskrifaðir læknar og verkfræðingar verið vissir um, að umheimurinn telji sig þurfa á þeim að halda.

Svo virðist sem auknar tekjur þjóða hafi gufað upp í enn meiri aukningu á hversdagslegum útgjöldum, þannig að kraftur til nýrra verka hefur farið minnkandi. Sérstaklega er þetta áberandi í ríkisfjármálum, þar sem peningar sogast hraðar inn og verða að engu.

Það er ekki séríslenzkt fyrirbæri, að rekstrarkostnaður þenjist út á sjálfvirkan hátt, ryðji framkvæmdakostnaði til hliðar og gleypi smám saman allt það fé, sem er til ráðstöfunar. Við sjáum þetta um allan hinn vestræna heim, sem áður hafði ráð á að láta gamminn geisa.

Hinn óbærilegi hversdagsleiki hefur tekið við af ævintýraljómanum. Núna dettur engum í hug að senda mann til tunglsins eða geimfar til Júpíters. Allir eru önnum kafnir við að gæta hagsmuna sinna í fjárlagakökum af ýmsu tagi. Vesturlönd eru orðin að músarholu.

Þegar Ísland var fátækt nýríki lét þjóðin sig ekki muna um að reisa sér á örskömmum tíma Landsbókasafn, sem stendur fegurst húsa sem minnisvarði um bjartsýna þjóð. Þegar þjóðin var orðin rík, lenti hún í sífelldum töfum við að reisa arftaka í Þjóðarbókhlöðu.

Fyrir nokkrum áratugum lögðu íslenzk fyrirtæki að fótum sér freðfiskmarkaðinn í Bandaríkjunum og áætlunarflugið yfir Atlantshaf. Nú sitja menn bara tugum saman í nefndum á nefndir ofan til að spjalla um upplýsingaþjóðfélagið. Blaðrið hefur leyst verkin af hólmi.

Enn er verið að gera góða hluti. Íslenzk fyrirtæki eru að hasla sér völl á erlendum markaði. Töluverð gróska er í listum og menningu. En það er eins og topparnir séu mun lægri en áður. Flatneskjan verður smám saman meira áberandi í flestum greinum íslenzks þjóðlífs.

Þjóðin þarf að hætta að kaupa ný hús handa ríkinu til að fylla þau kontóristum og ráðstefnuliði. Þjóðin þarf að hætta að nota ríkið eins og úthlutunarskrifstofu handa þurftarfrekum atvinnuvegum fortíðarinnar. Í staðinn á hún að kasta fé sínu í ævintýri framtíðarinnar.

Ef það verða varanleg örlög þjóðarinnar að híma yfir fjárlagahalla og framtaksleysi, verður ekki mikið rúm fyrir bjartsýni til að þeyta okkur inn í 21. öldina.

Jónas Kristjánsson

DV

Hömlur á heilsukostnaði

Greinar

Heilbrigðisgeiri ríkisins hefur vikizt undan því að taka í alvöru á sjálfvirkri aukningu kostnaðar af óbreyttri þjónustu. Slagurinn um innritunargjöld á spítala er afleiðing af, að heilbrigðisgeirinn hefur ekki náð tökum á útgjöldunum, einkum þeim hluta, sem fer til sjúkrahúsa.

Sjúkrahústækni eykst sífellt og verður dýrari. Ný og dýrari lyf eru sífellt að koma til sögunnar. Heilbrigðisgeirinn er í vonlausu kapphlaupi við þessa þróun, sem hefur aðeins jaðaráhrif á heilbrigði þjóðarinnar. Í staðinn er vanrækt það, sem einfaldara er og árangursríkara.

Ríkisspítalarnir fara ekki eftir fjárlögum og segja slíkt ekki hægt. Þar sem ráðamenn þeirra og heilbrigðisráðuneytið skirrast við að fara eftir leikreglum þjóðfélagsins, er fjármálaráðuneytið að reyna að ná mismuninum með því að koma innritunargjöldum í fjárlagafrumvarpið.

Það mun ekki takast í þetta sinn. Í staðinn verður skorið af þjónustu ríkisspítalanna. Því miður verður skorið eitthvað, sem er einfalt og nytsamt, en reynt að halda í nýjustu og dýrustu tízkulækningarnar, sem koma heilbrigðismálum þjóðarinnar aðeins að jaðargagni.

Þannig mun darraðardansinn halda áfram, unz heilbrigðisráðuneytið og ríkisspítalarnir fara að spyrja um skilvirkni kerfisins og byrja að raða verkefnum í forgangsröð með nokkurri hliðsjón af lækkunaráhrifum þeirra á veikinda- og slysakostnað þjóðarinnar.

Þessir aðilar neyðast til að átta sig á, að þak er komið á útgjöld þjóðarinnar til heilbrigðismála. Þjóðin hefur einfaldlega ekki ráð á meiri útþenslu. Það er svo verkefni ráðuneytis og ríkisspítala að byrja að velja og hafna af viti, rétt eins og hver önnur hagsýn húsmóðir.

Allir aðilar í þjóðfélaginu þurfa að velja og hafna. Sumt af þessu vali getur verið mjög erfitt í framkvæmd. Í heilbrigðisgeiranum þurfa mannúð og hagsýni að koma saman að málum, svo að niðurstaðan verði í senn skilvirk og réttlát. En það þýðir ekki að draga lappirnar.

Innritunargjald er aðeins ein leiðanna til að draga úr aðsókn að sjúkrahúsum og ekki endilega sú bezta. Með aukinni heilsugæzlu á frumstigi vandamálanna og hreinum forvörnum má einnig draga úr þörfinni á þjónustu hátæknivæddra stofnana á borð við ríkisspítalana.

Sumar forvarnir geta meira að segja staðið undir sér fjárhagslega. Til dæmis mætti setja gjald á sykur- og sætuefnainnihald matvæla með sama hugarfari og gjald er sett á tóbak og áfengi og nota tekjurnar til að fræða fólk um heilsuspillandi áhrif sykurs og sætuefna.

Ef hægt væri með slíkum hætti að minnka notkun þjóðarinnar á þessum efnum um fjórðung, væri sjálfkrafa búið að snarminnka álagið á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um alveg ókannaða stigu í heilbrigðisgeiranum.

Pillu- og tækjasalar eru fyrirferðarmiklir í heilbrigðisgeiranum. Læknatímaritin eru fjármögnuð af slíkum aðilum utan úr heimi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, enda byggjast vandræði heilbrigðisgeirans á oftrú ráðamanna hans á nýjustu pillur og nýjustu tæki.

Heilbrigðisgeirinn þarf allur að endurskoða tilgang sinn og tilverurétt í þjóðfélaginu. Hann þarf að leita að upphafi sínu, finna rætur sínar og hugsa dæmið á nýjan leik. Hann verður hvort sem látinn hætta að leika lausum hala í kostnaðarliðum ríkisfjárlaga og ríkisreikninga.

Darraðardansinn um kostnað heilbrigðisgeirans er þegar farinn að skaða þjónustu hans við fólkið í landinu. Mál er, að honum linni og við taki vitrænn sparnaður.

Jónas Kristjánsson

DV

Ókristilegir kirkjugarðar

Greinar

Skátar á Akureyri afla sér fjár með því að bjóða fólki að setja upp raflýsta krossa á leiði í kirkjugörðum um jól og taka 1.200 krónur fyrir það. Á vegum Kirkjugarða Reykjavíkur eru líka sett upp ljós um jól og kostaði það rúmlega 5.000 krónur, þangað til DV benti á okrið.

Kirkjugarðar Reykjavíkur fela tveimur aðilum að annast þetta og hefur hvor aðili um sig einokun á sínum garði. Þetta einokunarkerfi er svo sem ekki öðruvísi en annars staðar á landinu, þar sem veitt er þjónusta á þessu sviði, en er langsamlega dýrast í Reykjavík.

Sums staðar á landinu er þjónusta af þessu tagi veitt ókeypis. Til dæmis er á Raufarhöfn fyrir hver jól komið fyrir rafmagnstöflu, sem aðstandendur hafa aðgang að. En sá er munurinn, að vegalengdir eru stuttar í þeim kirkjugarði, svo að hver getur haft sinn kapal.

Í stórum kirkjugörðum eins og á Reykjavíkursvæðinu þarf greinilega skipulag á lagningu rafmagnskapla. En slíkt skipulag getur leitt til einokunar og okurs, ef ekki er rétt staðið að málum. Okrið í Reykjavík er ýkt mynd af því, sem getur gerzt við slíkar aðstæður.

Kirkjugarðar Reykjavíkur hafa verið mikið í fréttum á undanförnum árum. Þeir hafa sætt dómi fyrir ólögmæta viðskiptahætti, sem fólust í, að þeir notuðu hluta af kirkjugarðsgjöldum fólks til að greiða niður gjaldskrá jarðarfara til að undirbjóða einkaaðila í útförum.

Prófastsembættin í Reykjavík og þjóðkirkjan báru blak af Kirkjugörðum Reykjavíkur meðan á þessum málaferlum stóð og óhreinkuðu sig af því. Nú láta prófastsembættin og þjóðkirkjan kyrrt liggja, þótt einokunarstofnunin sé að láta okra á aðstandendum látinna á jólunum.

4.000-5.000 krónur eru mikið fé fyrir sumt fólk, þótt kirkjunnar menn telji það ef til vill vera smámuni. Í hópi þeirra, sem vilja skreyta leiði fyrir jólin, eru til dæmis ekklar og ekkjur, sem búa við of þröngan kost. Engin ástæða er til að níðast svona á þessu fólki.

Sem betur fer getur aðhaldssamt fólk komizt hjá einokun kirkjugarðanna með því að kaupa ljósker eða krossa, sem ganga fyrir rafhlöðum og kosta miklu minna en kirkjugarðsrafmagnið. Einokunin er því ekki alger, en ekki er öllum kunnugt um þessar undankomuleiðir.

Stjórnendur Kirkjugarða Reykjavíkur hafa orðið sér til svo mikillar skammar á undanförnum árum, að þeim ber að láta af störfum. Í staðinn á að fá fólk, sem stundar kristilega viðskiptahætti og lendir ekki í réttvísinni fyrir að undirbjóða eða okra í krafti einokunarstöðu.

Bezta leiðin til að skipuleggja jólaskreytingar á leiðum í borginni er, að Kirkjugarðar Reykjavíkur bjóði út verkið og afhendi það þeim, sem býðst til að gera það fyrir lægst verð. Verðið yrði væntanlega nær 1.000 krónum en 4.000 krónum og sennilega innan við 1.000 krónur.

Prófastsembættunum og þjóðkirkjunni ber að líta alvarlegum augum á vandræðin í Kirkjugörðum Reykjavíkur og gera ráðstafanir til að þau endurtaki sig ekki. Ástæðulaust er fyrir þessa aðila að láta blett á sig falla fyrir að halda verndarhendi yfir ókristilegu athæfi.

Allt of mikið er um það hér á landi, að látið sé kyrrt liggja, þótt menn í ábyrgðarstöðum standi sig illa. Alls staðar er verið að sýna óhæfu fólki umburðarlyndi og gera þjóðfélagið þar með óskilvirkara og dýrara en það væri, ef ábyrgðarstöður þess væru betur mannaðar.

Fyrir næstu jól ber prófastsembættunum og þjóðkirkjunni að sjá um, að Reykvíkingar geti fengið raflýsingu á leiði fyrir 1.000 krónur eða lægra verð.

Jónas Kristjánsson

DV