Greinar

Kreppan skipti stéttum

Greinar

Klofningurinn í Alþýðusambandinu endurspeglar vaxandi mismun á hagsmunum fólks í stéttarfélögum landsins, sem leiðir af vaxandi stéttaskiptingu í þjóðfélaginu upp á síðkastið. Sumir eru með í þjóðfélagsbreytingunum, en aðrir eru í vaxandi mæli að verða útundan.

Að baki forustu Alþýðusambandsins eru einkum þrjú sjónarmið. Eitt þeirra er tiltölulega einfalt og fámennt, en áhrifamikið, af því að það varðar einkum forustufólkið. Það eru hagsmunir yfirstéttarinnar í samtökunum, sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða og hafa það gott.

Þetta fólk hefur mikla hagsmuni af því, að þjóðarsáttir séu gerðar og haldizt. Þetta er atvinnufólk í félagsmálum, sem sómir sér eins vel í bankastjórastólum og í forsetastóli Alþýðusambandsins. Það er vant að höndla peninga í lífeyrissjóðum og er hluti yfirstéttar landsins.

Traustasta stuðningsfólk þessarar greinar yfirstéttarinnar er það, sem á sínum tíma var uppnefnt sem uppmælingaraðall. Það er að vísu of þröng skilgreining á hópnum, sem felur í sér alla þá, sem hafa nokkuð góð lífskjör, þrátt fyrir tiltölulega lága kauptaxta.

Þetta fólk er hluti af velmegunarþjóðfélaginu. Það ákveður að taka hluta af þeim 1.500 sætum, sem bjóðast skyndilega í spánnýjum Bahamaferðum. Það spókar sig á götum Dyflinnar og kemur heim með troðnar ferðatöskur. Það tekur virkan þátt í lífsgæðakapphlaupinu.

Við vitum, að þetta er fjölmennur hópur, þótt kauptaxtar séu lágir hjá flestum stéttarfélögum. Við sjáum af neyzluvenjum fólks, að meirihluti þjóðarinnar býr við ljúfan kost, þótt kauptaxtar séu hér á landi að meðaltali helmingi lægri en hliðstæðir taxtar í Danmörku.

Fólk nær velmegun á ýmsan hátt, sumt með uppmælingu og annað með aðgangi að mikilli aukavinnu. Enn aðrir gera það með því að fara á námskeið eða læra eitthvað, sem gerir vinnu þeirra verðmætari. Algengast er að fólk geri það með því að hjón vinni bæði úti.

Þriðji hópurinn hefur sætt rýrnandi lífskjörum, en styður samt forustu Alþýðusambandsins, af því að hann vill ekki tapa jólauppbót og missa tekjur í verkföllum eða skæruhernaði. Þetta fólk vill ekki rugga bátnum og vonar, að samdráttartímabil undanfarinna ára sé á enda.

Sumt af þessu fólki hefur sætt minni tekjum vegna samdráttar í greiðslum, sem eru umfram bera kauptaxta. Í kreppunni hafa fyrirtæki getað sparað sér útgjöld með því að draga úr greiðslum af þessu tagi og raunar komizt þannig hjá að segja upp fólki.

Fólk, sem lendir í þessum aðstæðum, bregzt við á tvennan hátt. Sumir beygja sig og hugsa sem svo, að betra sé að sæta minni tekjum en að missa vinnu, enda þurfi fyrirtækin að lifa, svo að þjóðarhagur hrynji ekki. Aðrir vilja aðgerðir til að endurheimta lífskjörin.

Þessi fjórði og síðasti hópur er sá, sem ræður því, að nokkur stærstu verkamannafélög landsins hafa sagt eða eru að segja upp kjarasamningum. Í þessum félögum er einmitt flest fólkið, sem er í þriðja og fjórða hópi og sér stöðu sína versna, meðan aðrir gera það nokkuð gott.

Hér verður ekki gerð tilraun til að meta, hversu fjölmennir séu hinir einstöku hópar. Erfitt er að spá í hug þeirra, sem hafa sig lítið í frammi og taka ekki þátt í atkvæðagreiðslum. Hitt er ljóst, að klofningurinn veldur því, að ófriðlegt er um sinn á vinnumarkaðinum.

Herkostnaður kreppunnar felst einkum í aukinni stéttaskiptingu í þjóðfélaginu og aukinni hættu á skaðlegum átökum um stöðu þeirra, sem lakast eru settir.

Jónas Kristjánsson

DV

Dónaskapur á netinu

Greinar

Hér á landi gætir þeirrar skoðunar eins og víða annars staðar, að dónaskapur á netinu og þá sérstaklega á vefnum sé alvarlegt mál, sem þurfi að bregðast við með einhverjum hætti. Hefur meðal annars verið lögð fram á Alþingi ályktunartillaga um meiðyrði á netinu.

Þegar fjallað er um þessi mál, er gott að gera greinarmun á samgöngutækjunum annars vegar og samgönguleiðinni og tækninni að baki samgöngutækjanna hins vegar. Þetta má skýra af dæmum af öðrum sviðum samgangna, sem geta verið dónaleg og ofbeldishneigð.

Vegakerfi landsins er notað af glæpamönnum á leið þeirra til dóna- og ofbeldisverka og frá þeim. Engum dettur í hug að kæra Vegagerðina fyrir þessa hættulegu notkun vegakerfisins, né heldur dettur nokkrum í hug að kæra framleiðendur bíla fyrir sama athæfi.

Pósturinn er gamalkunnug samgönguleið dónaskapar og ofbeldisáráttu. Menn senda frá sér alls kyns póst, bæði til þeirra, sem vilja fá slíkan póst, og til hinna, sem kæra sig ekkert um hann eða eru honum jafnvel andvígir. Enginn kærir Póst og síma fyrir þessa notkun.

Síminn hefur frá upphafi verið notaður af glæpamönnum til að skipuleggja verk sín. Ennfremur er hann töluvert notaður af ýmiss konar geðbiluðu fólki til að koma á framfæri sjúkleika sínum, til dæmis til starfsmanna Þjóðarsála af ýmsu tagi og annarra, sem hlusta vilja.

Enginn kærir Póst og síma fyrir þessa notkun símans. Menn geta hins vegar kært Þjóðarsálir og starfsmenn þeirra fyrir að ritstýra ófögnuðinum út í ljósvakann. Og menn geta kært beint þá geðbiluðu, ef þeir hringja með ófögnuðinn í þá, sem vilja ekki hlusta á hann.

Pappír hefur öldum saman verið ein merkasta samgönguleiðin. Hann er notaður af alls konar fólki til að skrifa alls konar hluti, suma dónalega eða ofbeldishneigða. Sumt af þessu er fjölritað með ýmsum hætti og jafnvel prentað og fer í tímarit, blöð og bækur.

Pappírnum eða framleiðendum hans er ekki kennt um misnotkun hans, né heldur framleiðendum fjölritunar- og prentunartækja. Það er ekki fyrr en einhver fer að fjölfalda dónaskapinn og dreifa honum, að unnt er að gera einhvern ábyrgan, ritstjóra eða útgefanda.

Filmur og myndbönd eru mest notuðu samgönguleiðirnar til að koma á framfæri dónaskap. Ábyrgðin á því efni liggur hjá framleiðendum kvikmynda og dreifingaraðilum, en ekki í samgönguleiðunum, sem þeir nota, hvorki filmum og myndböndum né ljósvakanum.

Þegar til sögunnar kemur ný samgönguleið, til dæmis netið og sú sérstaka hlið þess, sem kölluð er vefurinn, er skynsamlegt að átta okkur á, að þetta er bara samgönguleið og sem slík ekki ábyrg fyrir innihaldinu. Það er ekki einu sinni, að menn sendi neitt á vefnum.

Eðli vefsins er, að efnið liggur í tölvum manna hér og þar um heiminn. Til þess að fá dónaskapinn til sín verða menn að sækja hann á vefnum inn í tölvur annarra. Dreifingin er af völdum viðtakenda en ekki framleiðanda. Þeir deila því með sér ábyrgðinni á athæfinu.

Það erfiða í þessu eins og í annarri fjölmiðlun er, að foreldrar geta ekki stýrt notkun barna sinna, þegar þeir eru ekki viðlátnir. Börn ná því í dónablöð og dónaspólur, opna dónapóst, hlusta á dónasímalínur, kveikja á dónarásum sjónvarps og sækja dónaskap á neti og vef.

Til úrbóta er bezt að framleiða hugbúnað í tölvur, síma og sjónvarpstæki, sem gerir foreldrum kleift að grisja dónalegt efni, þannig að það komist síður þar í gegn.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitísk búsetuskil

Greinar

Í síðustu skoðanakönnun DV kom fram, að fjórir íslenzkir stjórnmálaflokkar eru eindregnir flokkar höfuðborgarsvæðisins að fylgi til, þótt þess sjáist ekki merki í gerðum þeirra allra. Þetta eru Sjálfstæðisflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, Kvennalistinn og Þjóðvaki.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði 55% fylgi á höfuðborgarsvæðinu á móti 39% fylgi á landsbyggðinni. Alþýðuflokkurinn hafði 15% fylgi á höfuðborgarsvæðinu á móti 10% fylgi á landsbyggðinni. Kvennalistinn hafði á sama hátt 6% og 2% fylgi og Þjóðvaki hafði 3% og 1% fylgi.

Aðeins einn þessara flokka tekur umtalsvert tillit til sjónarmiða höfuðborgarsvæðisins. Það er Alþýðuflokkurinn. Hinir flokkarnir, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, keppast um að þjónusta byggðastefnu af ýmsu tagi, þar á meðal misjafnan kosningarétt kjósenda.

Framsóknarflokkurinn er hinn eini, sanni landsbyggðarflokkur að fylgi til. Hann hefur 31% fylgi á landsbyggðinni og tæplega 10% fylgi á höfuðborgarsvæðinu. Í humátt á eftir kemur Alþýðubandalagið með 16% fylgi á landsbyggðinni og 12% fylgi á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt þessum tölum er eðlilegt, að Framsóknarflokkurinn sé helzti hagsmunaflokkur landsbyggðarinnar og að Sjálfstæðisflokkurinn sé helzti hagsmunaflokkur höfuðborgarsvæðisins. Í reynd eru þessir tveir flokkar hins vegar sömu megin borðsins í hagsmunagæzlunni.

Merkilegasti þáttur þessa máls er, að Sjálfstæðisflokkurinn sækir fylgi sitt til höfuðborgarsvæðisins og notar það til að gæta sérhagsmuna landsbyggðarinnar. Þetta gefst honum afar vel, enda sýna skoðanakannanir mikið og vaxandi fylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu.

Ein afleiðinga þessa misræmis er, að sjaldan og lítið gerist nokkuð í jöfnun atkvæðisréttar, þótt stundum sé masað mikið um hana fyrir kosningar. Þannig tregðaðist Sjálfstæðisflokkurinn í síðustu ríkisstjórn við að ýta málinu áfram, svo að nánast ekkert varð úr verki.

Af því að kjósendum á höfuðborgarsvæðinu er flestum sama um, þótt hvorki gangi né reki í þessu réttlætismáli, nær Sjálfstæðisflokkurinn þeim árangri að hala inn fylgi þeirra, sem hann vinnur gegn. Andstaðan við atkvæðamisréttið ristir því ekki djúpt hjá kjósendum.

Í framkvæmd lítur dæmið þannig út, að meirihluta Alþingis skipa landsbyggðarþingmenn, sem eru önnum kafnir við að gæta sérhagsmuna heimamanna, og minnihlutann skipa þingmenn frá höfuðborgarsvæðinu, sem leiða sérhagsmunastríðið að mestu hjá sér.

Þetta byggist auðvitað á því, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu líta á sig sem íslenzka kjósendur og ætlast ekki til sérhagsmunagæzlu af pólitískum umboðsmönnum, en kjósendur á landsbyggðinni líta á sig sem heimakjósendur og krefjast hagsmunagæzlu sinna manna.

Þannig verður sú verkaskipting á Alþingi að þingmenn höfuðborgarsvæðisins sérhæfa sig í almannahagsmunum og þingmenn landsbyggðarinnar sérhæfa sig í staðbundnum hagsmunum. Ef þessir hagsmunir rekast á, eru almannahagsmunir yfirleitt látnir víkja.

Þannig er til dæmis þrengt að stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu og lokað þar deildum á sama tíma og verið er að stækka sjúkrahús á landsbyggðinni, þótt ekki sé þar aðstaða til að sinna sjúklingum í samræmi við kröfur nútímans. Á öllum sviðum eru dæmin svona.

Þannig mun þetta verða áfram meðan kjósendur eru í raun sáttir við að stjórnmálamenn og -flokkar þjóni þröngum og staðbundnum sérhagsmunum af ýmsu tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Byrjar Evrópa hér?

Greinar

Til skamms tíma hafa margir íslenzkir stjórnmálamenn vonað, að Norðurlönd Evrópusambandsins mundu ekki gerast aðilar að Schengen-samkomulaginu um sameiginleg ytri landamæri, án þess að um leið yrði varðveitt gamla Norðurlandasamstarfið á sama sviði.

Nú er hins vegar að koma í ljós, að Danmörk, Finnland og Svíþjóð munu ekki bíða eftir Íslandi og Noregi. Ríkin þrjú í Evrópusambandinu telja sig hafa svo mikilla hagsmuna að gæta á meginlandi Evrópu, að þau geti ekki lengi neitað sér um aðild að samkomulaginu.

Meira máli skiptir fyrir Danmörku, Finnland og Svíþjóð að hafa sameiginleg landamæri með Evrópusambandinu öllu heldur en að hafa samning um vegabréfafrelsi við Ísland og Noreg. Þetta mál sýnir í hnotskurn meira aðdráttarafl evrópsks en norræns samstarfs.

Á öllum hagkvæmnissviðum er norrænt samstarf dauðans matur öðruvísi en sem norrænt samstarf innan Evrópu. Hnignunareinkennin hafa lengi verið ljós á norrænu samstarfi, því að fátt merkilegt hefur gerzt á því sviði á meðan evrópskt samstarf geysist fram.

Til þess að leysa málið hefur Íslandi og Noregi verið boðin aðild að tilraunum til að finna leið fyrir þessi tvö lönd til að vera innan sameiginlegra landamæra Evrópusambandsins. Það þykir fýsilegur kostur, en kostar umfangsmiklar breytingar á flugstöð Keflavíkurvallar.

Við þurfum að sjá um, að óæskilegt fólk komist ekki á Keflavíkurvelli inn fyrir hlið Evrópu, gerast aðilar að upplýsingakerfi Schengen-samkomulagsins um hættulegt fólk og að aukinni lögreglusamvinnu á þessu sviði. Þetta kostar nýjar framkvæmdir og aukinn rekstur.

Við þurfum að koma upp sérstakri og aðskilinni aðstöðu til að taka við fólki, sem kemur inn fyrir landamæri Evrópu á Keflavíkurvelli, einkum fólki í áætlunarflugi frá Norður-Ameríku. Þetta fólk kemur flest á skömmu tímabili snemma morguns á degi hverjum.

Við stöndum því andspænis tveimur kostum. Annars vegar missum við núverandi hagræði af norrænu vegabréfafrelsi. Hins vegar þurfum við að borga hundruð milljóna í framkvæmdir og tugi milljóna í árlegan rekstur aðildar að nýju og meira samgöngufrelsi í Evrópu.

Danir, Finnar og Norðmenn efast ekki um, að það henti þeim að fórna norræna vegabréfasamstarfinu og leggja í kostnað við að taka að sér gæzlu ytri landamæra Evrópu. Við munum eiga erfiðara með að gera upp hug okkar, því að okkur vex kostnaðurinn í augum.

Þjóðir eins og Danir eiga auðvelt með að sjá haginn af opnum landamærum til suðurs, af því að þeir eru góðir kaupsýslumenn. Við erum hins vegar lélegir kaupsýslumenn og sjáum fyrst og fremst kostnaðinn af því að hrekjast inn fyrir sameinuð landamæri Evrópu.

Við munum smám saman þurfa að taka fleiri ákvarðanir af þessu tagi. Hvenær sem gamalt samstarf Norðurlanda rekst á við nýtt samstarf Evrópu, mun norræna samstarfið verða að víkja. Við munum velja um aukna einangrun eða dýra aðild að auknu Evrópusamstarfi.

Meðan við erum enn svo einangrunarsinnuð, að við treystum okkur ekki til að taka áhættu af tækifærunum við að vera í Evrópusambandinu, getur aðild að samningum á borð við Schengen brúað bilið fram að ákvörðun og gert okkur gjaldgenga aðila í fyllingu tímans.

En þjóðarsátt er hér á landi um einangrunarstefnu, sem ríkisstjórnin fylgir eindregið. Því er hætta á, að við verðum að sinni að kúldrast utan landamæra Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vilji er allt sem þarf

Greinar

Með friðarsamningum erfðaríkja Júgóslavíu hafa Bandaríkin á ný tekið upp forustuhlutverk sitt sem eina heimsveldið. Þau hafa tekið við evrópsku klúðri og knúið málsaðila til að semja um niðurstöðu, sem unnt verður að láta þá standa við með góðu eða illu.

Ekkert er í sjálfu sér að marka undirskriftir málsaðila frekar en fyrri daginn. Þess vegna skiptir máli, að samkomulagið felur í sér, að komið verður í fyrsta skipti upp alvöru friðargæzlu á ófriðarsvæðunum, svo að friðargæzluliðar verða ekki framar gíslar óaldarmanna.

Sextíu þúsund manna herlið Atlantshafsbandalagsins í Bosníu og Króatíu verður grátt fyrir járnum og hefur ströng fyrirmæli um að láta óaldarlýðinn ekki hafa sig að fífli, svo sem hingað til hefur verið raunin hjá misheppnaðri friðargæzlu Sameinuðu þjóðanna á svæðinu.

Aðeins einni mikilvægri spurningu er ósvarað. Hún fjallar um úthald Bandaríkjamanna. Það hefur reynzt afar lítið í fyrri vandræðamálum af þessu tagi, svo sem dæmin sýna frá Líbanon og Sómalíu. En ástæða er til að ætla, að málið sé mun betur undirbúið núna.

Friðurinn í Bosníu er ekki sanngjarn, en hann er friður. Serbar fá of mikið land út úr samningunum. Verra er þó, að samningamenn Bandaríkjamanna hafa undir borðið fallizt á að reyna að bregða fæti fyrir, að verstu stríðsglæpamenn Serba verði dregnir fyrir dóm.

Bandaríkjastjórn lét stríðsglæpadómstólnum í Haag ekki í té loftmyndir af fjöldagröfunum í Srebrenica fyrr en blöðin voru farin að segja frá myndunum og hefur enn ekki látið dómstólinn hafa mikilvægar hleranir af símtölum milli Milosevic, Karadzic og Mladic.

Hafa verður í huga, að þeir þremenningar eru áreiðanlega ekki minni stríðsglæpamenn en þeir, sem voru hengdir eftir réttarhöldin í N”rnberg, ef tillit er tekið til hins skamma tíma, sem þremenningarnir hafa haft til verka sinna. Þeir verða blettur á heiðri Nató.

Ekki verður á allt kosið, þegar áður er búið að klúðra málum. Ef frönsk og einkum þó brezk stjórnvöld hefðu ekki tregðazt við að sýna Serbum í tvo heimana, meðan þessi ríki höfðu forustu fyrir Vesturlöndum í máli þessu, hefði aðeins brot stríðsglæpanna verið framið.

Engin furða er, þótt Bandaríkin hafi ekki viljað taka þátt í brezk-frönskum fíflaskap varnarlauss friðargæzluliðs á landi, og lagt áherzlu á, að Serbar yrðu teknir í gegn úr lofti. Enda kom í ljós, að koma þurfti friðargæzluliðinu í skjól til að geta hafið lofthernað.

Mál þetta hefur sannað, að Vestur-Evrópa er ófær um að taka við hlutverki Bandaríkjanna sem gæzluaðili friðar í eigin heimshluta. Annaðhvort er í Evrópu bandarískur friður eða alls enginn friður. Bandaríkin eru eini aðilinn, sem hefur siðferðisþrótt til slíks hlutverks.

Hernaðarlega var Bretland eitt sér eða Frakkland eitt sér fært um að knýja fram þann frið, sem nú er orðinn í erfðaríkjum Júgóslavíu. En þau höfðu ekki til slíks þrótt, hvorki ein sér, saman eða í samlögum við önnur lönd í samtökum á borð við Evrópusambandið.

Friðurinn hefur endurvakið Atlantshafsbandalagið, sem var komið að fallanda fæti eftir hvarf Sovétríkjanna og var búið að afla sér háðungar í þjónustunni hjá Sameinuðu þjóðunum við friðargæzlu. Nú fær bandalagið aftur hlutverk, sem gefur því framhaldslíf að sinni.

Aftur og aftur sjáum við í veraldarsögunni, að efnahags- og hernaðarmáttur skiptir litlu í samanburði við innri styrk. Vilji er raunar allt sem þarf.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslendingar eru sóðar

Greinar

Þjónustulipur yfirdýralæknir gengur misjafnlega rösklega til verks eftir því, hvort mengun er þjóðleg og íslenzk eða óþjóðleg og útlenzk. Hann ofsækir ímyndaða salmonellu frá Svíþjóð og Hollandi og heldur verndarhendi yfir áþreifanlegri og innlendri salmonellu.

Íslenzk matvælafyrirtæki sunnan og norðan fjalla og austan og vestan eru vaðandi í salmonellu. Þótt niðurstöður mælinga séu aftur og aftur hinar sömu, fá fyrirtækin vinsamleg áminningarbréf, en mengaður reksturinn heldur áfram eins og ekkert hafi í skorizt.

Ástandið í íslenzkri matvælaframleiðslu er lakara en í nágrannalöndunum. Orsökin er einfaldlega óvenjulega mikill sóðaskapur Íslendinga, sem nota ár og skurði fyrir skolpræsi og bera úrgang sinn á opna hauga. Um þetta hafa verið ótal dæmi í fréttum allra síðustu árin.

Fræg er mengunin í Rangá frá Hellu og akstur saurs um Hvolsvöll, svo og langvinn mengun í eyfirzkum kjúklingum. Og nú eru það sviðin frá Selfossi. Allt byggist þetta á því, að við höfum of litla tilfinningu fyrir nauðsyn þess að umgangast náttúruna af gætni og virðingu.

Þess vegna er mengunin orðin að hluta íslenzkrar náttúru. Fuglar komast í opna mengun frá mannabyggðum og koma henni í hringrás, sem lendir í afurðum landbúnaðarins á borði neytenda. Opinberir eftirlitsaðilar senda mönnum síðan vinsamlegar ábendingar.

Sem dæmi um kerfið má nefna, að hagsmunir landbúnaðarins hafa ráðið því, að ekki er skylt að hafa rotþrær við sveitabæi, þótt skylt sé að hafa þær við sumarbústaði. Þetta er gert til að lækka stofnkostnað í landbúnaði, en leiðir til víðtækrar mengunar um land allt.

Hagsmunir landbúnaðarins og einkum þó vinnslustöðva landbúnaðarins ráða því einnig, að mengaður rekstur er ekki stöðvaður og að yfirdýralæknir er látinn eyða tíma sínum í ofsóknir gegn ímyndaðri mengun í innfluttum matvælum í kjölfar GATT-samkomulagsins.

Ofan á linkind við mengun í landbúnaði og vinnslu búvöru bætist linkind í garð sveitarstjórna, sem vilja verja fjármunum sínum til annars en mengunarvarna. Grátbroslegt dæmi er Hveragerði, sem kallar sig heilsubæ, en ber ábyrgð á einna menguðustu á landsins.

Útbreiðsla mengunar í náttúru landsins kemur ekki aðeins fram á borðum íslenzkra neytenda. Hún kemur líka fram í útflutningsafurðum okkar, svo sem í fiskimjöli. Ástandið getur hæglega leitt til verulegs hnekkis í langtímahagsmunum útflutningsatvinnuvega.

Bjartsýnir menn eru að reyna að gera íslenzkt vatn að söluvöru. Ef útlendingar komast að raun um, hveru mikill er sóðaskapurinn í náttúru Íslands, er hinni nýju atvinnugrein stefnt í voða. Sama er að segja um tilraunir til að selja lífræna búvöru frá Íslandi.

Andvaraleysið kemur meðal annars í ljós hjá Hollustuvernd. Hún er dæmigerð skriffinnskustofnun, sem kemur litlu í verk. Hún sér til dæmis ekki um, að innlend neyzluvara sé rétt merkt á sama hátt og innflutt neyzluvara. Þetta má sjá af vörum, sem eru hlið við hlið í búðum.

Hér á landi eru mengunarvarnir og hollustuvernd innantóm hugtök, sem höfð eru að yfirvarpi þjónustulipurðar við innlenda hagsmunaaðila og notuð til að hindra innflutning eða spilla götu hans. Þetta er farið að koma okkur í koll og mun valda okkur meiri vandræðum.

Við skulum fara að byrja að læra stafrófið í umgengni við umhverfi okkar. Það er eina leiðin til að reyna að tryggja framtíð innlendrar matvælaframleiðslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrænir ábyrgðarmenn

Greinar

Kvörn stríðsglæpadómstólsins í Haag malar hægt en örugglega. Dómstóllinn hefur þegar einn Serba í haldi og hefur ákært nokkra tugi Serba og nokkra Króata fyrir stríðsglæpi. Glæpir þeirra eru taldir miklu ógeðfelldari en glæpir nazista í síðari heimsstyrjöldinni.

Komið hefur í ljós, að ekki eiga við rök að styðjast kenningar ýmissa bjálfa á Vesturlöndum um, að stríðsglæpir Serba séu uppfinning auglýsingastofu á vegum Bosníustjórnar. Þvert á móti hefur verið vanmetið, hve víðtækir og alvarlegir glæpirnir hafa verið.

Þá hefur breytilegt gengi stríðsaðila opnað aðgang blaðamanna að svæðum, sem áður voru bannsvæði. Þeim hefur með hjálp sjónarvotta tekizt að opna fjöldagrafir, sem staðfesta, að Serbar hafa framið miklu víðtækari og skipulegri fjöldamorð en áður hafði verið talið.

Þessar uppljóstranir hafa ennfremur leitt í ljós, að ýmsir æðstu embættismenn Sameinuðu þjóðanna í löndum fyrrverandi Júgóslavíu hafa reynt að leyna ógnarverkum Serba til þess að draga úr kröfum frá Vesturlöndum um réttarhöld gegn stríðsglæpamönnum.

Ömurleg frammistaða þessara embættismanna Sameinuðu þjóðanna er í stíl við samábyrgð samtakanna á nýjustu stríðsglæpum Serba í Srebrenica, þar sem 6000 borgurum undir yfirlýstum verndarvæng Sameinuðu þjóðanna var slátrað undir þeim sama verndarvæng.

Þrátt fyrir mikið umtal á Vesturlöndum hafa Serbar haldið áfram óbreyttum stríðsglæpum alveg frá upphafinu í Vukuvar til endalokanna í Srebrenica. Enginn einstakur glæpur nazista í síðari heimsstyrjöldinni var stórtækari en hinn nýlegi glæpur Serba í Srebrenica.

Eftir því sem sönnunargögnin hlaðast upp verður síður hægt að komast hjá því áliti, að Serbar séu geðbilaðir þúsundum saman, trylltir af sagnfræðilegu rugli og eigi alls ekki heima í siðuðu samfélagi Vesturlanda. Öll hin krumpaða þjóð verður að bera glæpinn fram á veginn.

Forustumenn Serba í Bosníu, Radovan Karadzic og Ratko Mladic, hafa verið ákærðir af stríðsglæpadómstólnum í Haag. Síðan hefur bætzt við ábyrgð Mladics á morðunum í Srebrenica, sem hann stjórnaði persónulega. Sjónarvottar eru að því Evrópumeti í glæpum.

Bönd stríðsglæpadómstólsins í Haag berast smám saman nær Slobodan Milosevic Serbíuforseta, sem stóð fyrir ógnaröldinni á Balkanskaga og stefnu þjóðahreinsana, sem fæddi af sér stríðsglæpina. Tveir foringjar Serbíuhers hafa þegar verið ákærðir af dómstólnum.

Því miður eru horfur á, að Milosevic sleppi, því að hann hefur nú snúið við blaðinu og þykist vera friðarsinni. Ef hann nær völdum í hinum serbneska hluta Bosníu af Karadzic og Mladic og sér um, að friðarsamningar haldi, verður hann líklega látinn njóta þess.

Uppljóstranir stríðsglæpanna í Serbíu eru svo vel á veg komnar, að ólíklegt er, að ráðamönnum og embættismönnum á Vesturlöndum takizt að stöðva framgang réttarhalda og dómsniðurstaðna í Haag, þótt þeir hafi margir hverjir reynt að hefta framgang málsins.

Helztu aðferðirnar gegn dómstólnum hafa hingað til falizt í að reyna að koma í veg fyrir, að hann komizt yfir leyndarskjöl um stríðsglæpina. Það hefur aðeins tekizt að hluta. Næst verður reynt að draga úr fjármögnun dómstólsins og svelta hann til að rifa seglin.

Þegar stríðsglæpir Serba verða krufnir til beins, verður ekki gleymt aðild ýmissa vestrænna ráðamanna og embættismanna, sem reyna enn að drepa málinu á dreif.

Jónas Kristjánsson

DV

Drýgindalegar hótanir

Greinar

Verkalýðsrekendur landsins virðast ekki ætla að ríða feitum hesti frá tilraunum sínum til að feta í fótspor formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Drýgindalegar yfirlýsingar þeirra um óhjákvæmileg átök á vinnumarkaði eru smám saman að verða að spjalli um vöruverð.

Dagsbrúnarformaðurinn hefur löngum tamið sér stíl, sem felst í að sofa á verðinum mestan hluta ársins og vakna síðan til meðvitundar um skamman tíma í senn og flytja þjóðinni þá drýgindalegar yfirlýsingar og hótanir um, að hans fólki láti sko ekki að sér hæða.

Þessar uppákomur, sem eru skemmtilegastar í sjónvarpi, hafa verið marklausar með öllu. Þær eru vanmáttug tilraun til að sýnast sterkur. Þær blekkja tæpast félagsmenn, hvað þá aðra. Áreiðanlega eru áratugir síðan Dagsbrún hafði einhvern árangur, sem máli skiptir.

Kosningareglur í Dagsbrún eru svo þunglamalegar, að mótframboð gegn formanni fela í sér, að menn verða að setja fram heilan lista yfir stjórn og trúnaðarmenn, án þess að neitt nafnið sé hið sama og á lista stjórnar. Þetta jafngildir eins konar æviráðningu formannsins.

Þetta er skýringin á því, hvers vegna formaðurinn heldur áfram að vera formaður. Það er ekki vegna drýgindalegra ummæla hans og innihaldslausra hótana í sjónvarpi með löngu millibili, heldur þrátt fyrir þær. Þess vegna geta þær tæpast orðið öðrum til eftirbreytni.

Þegar forustumenn annarra stéttarfélaga og Alþýðusambandsins í heild fara að tala drýgindalega og hóta út í loftið að hætti þessa lata og lélega formanns, er eitthvað meira en lítið orðið að í hreyfingu launafólks. Hún er þá greinilega komin í erfiða tilvistarkreppu.

Staðreyndir kjaramála eru tiltölulega einfaldar að þessu sinni. Einu sinni sem oftar hafa Alþýðusambandið og helztu aðildarsambönd þess staðið að þjóðarsátt, sem ekki tryggir hagsmuni umbjóðenda þeirra. Launajöfnunarstefna sáttarinnar endurspeglast ekki hjá ríkinu.

Forustumenn launafólks gátu ekkert aðhafzt, þegar ríkið samdi betur við sitt fólk en atvinnurekendur höfðu samið við sitt. Forustumenn launafólks höfðu gleymt að setja fyrirvara í þjóðarsáttina um, að ríki og vinnuveitendasamband tækju ábyrgð á launajöfnunarstefnunni.

Síðan ætluðu forustumenn launafólks að bjarga sér út úr mistökunum með því að hengja hagsmuni sína á almenna reiði fólks í sumar út af tilraunum Alþingis til að koma alþingismönnum undan hörðum lögum, sem það hafði sjálft sett um almenning í þjóðfélaginu.

Reiði almennings hafði þau áhrif, að Alþingi hætti við sérstök skattsvik alþingismanna. Þar með var ekki lengur hægt að kvarta yfir öðru en því, að laun þingmanna hækkuðu meira en fólks eins og raunar laun embættismanna og ýmissa hópa opinberra starfsmanna.

Erfitt er að byggja kjarabaráttu á, að sumir hafi fengið of mikið, og enn síður á því, að draga þurfi þá launahækkun til baka. Enda eru málsaðilar nú farnir að tala um þá niðurstöðu úr upphlaupi verkalýðsrekenda, að ríkisstjórnin afturkalli nýlega verndartolla á búvöru.

Auðvitað er hið þarfasta mál, að ríkisstjórnin verði knúin til að víkja frá stefnu aukinnar verndar innlends landbúnaðar og lækki þar með matarverð í landinu. En það er ekki beinlínis sú kjarajöfnun, sem menn héldu, að þeir væru að semja um í síðustu þjóðarsátt.

Drýgindalegar yfirlýsingar og hótanir verkalýðsrekenda að hætti formanns Dagsbrúnar um átök á vinnumarkaði stinga í stúf við spjall þeirra um vöruverð.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættunni var leynt

Greinar

Komið hefur í ljós, að valdir aðilar, einkum sveitarstjórnarmenn, hafa í heilan áratug vitað um raunverulega snjóflóðahættu á Íslandi, en ekkert farið eftir þeirri vitneskju og reynt að sporna gegn því, að hún breiddist út. Hingað til hafa hættumörk því verið sett af handahófi.

Vitneskjan um, að hættan væri meiri en sveitarstjórnarmenn vildu vera láta, kom í ljós á tvennan hátt. Í fyrsta lagi vann Hafliði Jónsson veðurfræðingur að snjóflóðamati árin 1980-1984. Og í öðru lagi var fengin skýrsla um málið frá Norges Geotekniske Institutt árið 1985.

Hafliði var til dæmis búinn á sínum tíma að teikna upp snjóflóð í Súðavík, sem var að umfangi eins og það sem rann fyrr á þessu ári. Og norska jarðtæknistofnunin var á sínum tíma búin að teikna upp snjóflóð á Flateyri, sem var að nokkru eins og það, sem rann nú í vetur.

Í skýrslu Norðmanna kemur skýrt fram, að það vekur undrun þeirra, að byggt hafi verið á augljósum hættusvæðum án þess að reyna að meta áhættuna. Skýrslu þeirra var stungið undir stól og haldið áfram að byggja villt og galið upp í fjallshlíðar víða um land.

Það er rangt, sem reynt hefur verið að halda fram að undanförnu, að þekking manna á snjóflóðahættu sé of lítil. Þvert á móti hafa vísindamenn raunar spáð þeim snjóflóðum, sem orðið hafa. Það hefur bara verið sveitarpólitísk samstaða um að þegja þekkinguna í hel.

Viðbrögð bæjarstjórnar Ísafjarðar við upplýsingum um snjóflóðið á Engjavegi eru dæmigerð fyrir þessi ábyrgðarlausu viðhorf. Bæjarstjórinn sagði upp áskrift að héraðsfréttablaðinu, sem birti fréttir af flóðinu, og heimtaði raunar lögreglurannsókn á heimild blaðsins.

Héraðsblaðið birti mynd af snjóflóði, sem féll ofan við sorpeyðingarstöðina í vor. Reynt var að fá það til að hætta við birtinguna til þess að valda ekki óróa í bæjarfélaginu. Einmitt á þessum stað voru mannslíf í hættu um daginn, þegar snjóflóð rústaði sorpeyðingarstöðina.

Ástandið er því í stórum dráttum þannig, að sveitarstjórnir halda leyndum upplýsingum, sem auka öryggi almennings, og fara alls ekki að tíu ára gömlum ráðleggingum vísindamanna, en eyða orku sinni í að amast við því, að sagt sé frá staðreyndum, sem varða öryggi fólks.

Núna hefur harkalega komið í ljós, að svokallað hættumat í sveitarfélögum byggist ekki á vísindalegum niðurstöðum, sem hafa legið í skúffum valinna aðila í heilan áratug, heldur á sveitarpólitísku mati á því, hvort hættumatið geti rýrt verðgildi fasteigna á svæðinu.

Svo forstokkaðir eru valdamenn, að tvö mannskæð snjóflóð á þessu ári urðu ekki til þess, að málsaðilar vitkuðust og drægju gamlar skýrslu upp úr skúffunum. Það var DV, sem gróf upp hina tíu ára gömlu norsku skýrslu og birti rækilega frásögn af henni í gær.

Um leið hefur komið í ljós, að ófært er að láta sveitarstjórnir um að meta hættuna. Setja þarf lög um, hvernig hættumat sé unnið, án þess að óviðeigandi hagsmunir hafi áhrif á það. Og til bráðabirgða er hægt að setja reglugerð um, að norska skýrslan gildi frá deginum í dag.

Meginatriði málsins er, að tilgangslaust er að vinna á móti náttúrunni með því að láta sveitarpólitík ryðja náttúruvísindum til hliðar, setja upp gersamlega gagnslausar snjóflóðavarnir og halda áfram að byggja undir fjallshlíðum. Menn verða í staðinn að laga sig að náttúruöflunum.

Við þurfum að vera sveigjanleg, byrja að viðurkenna vísindin og byrja að virða náttúruöflin, í stað þess að haga okkur eins og við séum herrar jarðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Útsala á orku

Greinar

Komið hefur í ljós, hvers vegna Landsvirkjun vill ekki segja frá orkuverðinu, sem samdist um við Alusuisse-Lonza vegna fyrirhugaðrar stækkunar Ísals. Það stafar einfaldlega af, að Landsvirkjun skammast sín fyrir orkuverðið, sem er um 10 mills á kílóvattstundina.

Þetta útsöluverð Landsvirkjunar á raforku þýðir, að næstu sjö árin mun þjóðin niðurgreiða um það bil helminginn af verði orkunnar, sem Ísal fær. Það kostar nefnilega upp undir 20 mills að framleiða hana. Eftir þessi sjö ár mun orkuverðið síðan færast í þolanlegra horf.

Útsöluverðið á raforku er engan veginn alvont, því að það er breyting til batnaðar frá núverandi ástandi, er þjóðin greiðir ein fyrir umframorkuna frá Blöndu. Það er skárra að búa við hálfan skaða í sjö ár en allan skaðann, úr því að orkuverið stendur þarna fullbúið.

Sala á niðurgreiddri orku er ekki eina hlið málsins, en það er sú hlið, sem snertir Landsvirkjun. Þjóðin hefur þar fyrir utan margvíslegt gagn af stækkun álversins, svo sem tímabundna þenslu í atvinnulífinu og varanlega aukningu þjóðarframleiðslunnar um 0,7% á ári.

Þriðja hlið málsins má ekki heldur gleymast. Mengunarvarnir hins nýja hluta álversins verða svipaðar og eldri hlutanna, en ekki eins miklar og þær eru yfirleitt í nýlegum álverum á Vesturlöndum. Hálfgerður þriðja heims bragur er því á þessum þætti samkomulagsins.

Orkuverðið segir mikla sögu um samkeppnisstöðu Landsvirkjunar og Íslands. Til skamms tíma var óþarfa orkuverið við Blöndu varið með því, að það mundi gera okkar mönnum kleift að ná hagstæðum stóriðjusamningum, af því að orkan væri tilbúin til afhendingar.

Raunveruleikinn varð annar. Blönduvirkjun varð ekki tromp á hendi seljenda stóriðjuhugmynda, heldur myllusteinn um háls þeirra. Þeir náðu ekki í neina tilfallandi auðjöfra með heimilislaus álver undir hendinni og neyddust að lokum til að setja orkuna á rýmingarsölu.

Þessi niðurstaða ætti að vera einkar athyglisverð fyrir þá mörgu kjósendur, sem trúðu því á sínum tíma, að virkjun Blöndu væri hið bezta mál og að það væri fínt að eiga eitt afgangs orkuver til að grípa stóriðjugæsina. Þeir ættu nú að vita, að þeir voru hafðir að fífli.

Niðugreiðsla raforkunnar segir líka mikla sögu um stöðu Íslands á Vesturlöndum. Við erum og verðum frumframleiðsluþjóð, sem er í raun hluti þriðja heimsins, þótt góð tækni og framleiðni í sjávarútvegi hafi fært okkur ótryggar tekjur af vestrænni stærðargráðu.

Við slíkar aðstæður gera menn orkusamninga á borð við þann, sem gerður hefur verið um stækkunina í Straumsvík. Hann felur í sér játningu um, að Landsvirkjun og ríkið hafa verið rekin af slíku þriðja heims rugli, að viðsemjendur geti sjálfir valið sér orkuverð.

Það er nauðsynlegt, að menn átti sig á bláköldum raunveruleika orkuverðsins og fari loksins að læra af reynslunni, um leið og ástæða er til að fagna því, að loksins er hægt að eygja, að eftir sjö ár muni skattgreiðendur sleppa við að niðurgreiða orkuverið við Blöndu.

Að vísu munu afkomendur okkar ekki losna svona auðveldlega við afleiðingar ruglsins í valdhöfum lands og Landsvirkjunar. Afborganir skulda, sem stofnað var til vegna virkjunar Blöndu, munu halda áfram langt fram á næstu öld, afkomendum okkar til hrellingar.

Ekki er unnt að kenna orkuverðssamningnum um tjónið, sem varð, þegar orkuverið var reist. Hann er til bóta, af því að hann mildar timburmenn virkjunaræðisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi velgengni

Greinar

Notkun fjölmiðla fer vaxandi samkvæmt niðurstöðum nýjustu fjölmiðlakönnunar Félagsvísindastofnunar, einkum dagblaða og sjónvarps. Einna mest er aukningin hjá DV, sem hefur samkvæmt sömu tölum hækkað um þrjú prósentustig frá því í marz og fram í október.

Morgunblaðið hefur staðið í stað á sama tíma, svo að heildarnotkun dagblaða hefur aukizt á tímabilinu. Einna mest hefur breytingin orðið á helgarblaði DV, sem hefur hækkað úr 50% lestri í 56% lestur á þessu hálfa ári. Sex prósentustiga aukning er mikil á svo skömmum tíma.

Vaxandi lestur DV endurspeglar töluverðar endurbætur, sem gerðar hafa verið á einstökum efnisþáttum blaðsins og verið er að gera um þessar mundir. Þegar þessum endurbótum lýkur, verður DV væntanlega mun betur en áður búið undir að mæta þörfum lesenda sinna.

Helgarblað DV var einna fyrst á ferðinni í haust í þessum endurbótum, enda hefur lestur þess aukizt mest. Miklar breytingar hafa einnig verið gerðar á þriðjudagsblaði DV, en þær eru alveg nýjar af nálinni og skila sér væntanlega betur í síðari fjölmiðlakönnunum.

Tölur Félagsvísindastofnunar eru einkar athyglisverðar í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu. Síðustu árin hafa verið erfið öllum almenningi. Fólk hefur þurft að spara meira við sig en oftast áður. Búast hefði mátt við, að þessi samdráttur kæmi fram í minni notkun fjölmiðla.

Ef litið er yfir gamlar og nýjar tölur fjölmiðlakannana, sést vel, hversu traust er staða stóru fjölmiðlanna. Sjö öflugir fjölmiðlar hafa lengi náð hver fyrir sig til augna og eyrna mikils meirihluta þjóðarinnar, tvær sjónvarpsstöðvar, tvö dagblöð og þrjár útvarpsstöðvar.

Ef notaðar eru tölur síðustu fjölmiðlakönnunar um, hversu mikill hluti þátttakenda notaði fjölmiðlana eitthvað á einu ári, sést, að Ríkissjónvarpið er notað af 98% landsmanna, Stöð 2 af 91%, Rás 2 af 90%, Morgunblaðið af 88%, DV af 86%, Gufan af 82% og Bylgjan af 81%.

Sennilega er sjaldgæft annars staðar í heiminum, að svona margir fjölmiðlar hafi svona mikla og langvinna útbreiðslu meðal heillar þjóðar. Þetta þýðir í raun, að fólkið í landinu býr ekki við sams konar fáokun á þessu sviði og hún býr því miður við á mörgum öðrum sviðum.

Mikilvægt er fyrir þjóðfélagið, að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum, sem eru innbyrðis ólíkir og spegla þjóðfélagið með margvíslegum hætti. Þetta eykur þekkingu þjóðarinnar á því, sem er að gerast innan lands og utan og treystir þannig lýðræðið í landinu.

Mikilvægur hluti þessarar fjölbreytni felst í, að landsmenn notfæra sér aðgang að fimm öflugum og fullburðugum fréttastofum, sem spanna fréttir frá öllu landinu og frá útlöndum. Þetta þýðir, að enginn einn valdaaðili getur ákveðið, hvað sé fréttnæmt og hvað ekki.

Þessi góða staða hér á landi væri ótrygg, ef mikið ójafnvægi væri í styrk stóru fjölmiðlanna, þannig að einhver þeirra eða einhverjir þeirra væru á undanhaldi í samkeppninni. En staðan er einmitt trygg, af því að ótrúlega mikið jafnvægi er í útbreiðslu stærstu sjö fjölmiðlanna.

Langt er síðan kom í ljós, að hér á landi er rúm fyrir tvö stór dagblöð, tvær stórar sjónvarpsrásir og þrjár stórar útvarpsrásir. Engin ástæða er til að efa, að svo verði áfram enn um skeið. Raunar bendir stofnun nýrra sjónvarpsrása til, að möguleikarnir séu ekki fullnýttir.

DV ætlar sér góðan hlut að þessu mynztri á næstu árum. Því mun blaðið laga sig á hverjum tíma að breyttum þörfum þjóðar, sem lifir í hraðri tímans rás.

Jónas Kristjánsson

DV

Gárur á kyrrstöðupolli

Greinar

Ákvörðun Alusuisse-Lonza um stækkun Ísals er óneitanlega töluverður léttir. Hún hefur ekki aðeins áhrif á þjóðarhag, heldur einnig á þjóðarsál. Hún dregur úr þeim ugg, að Ísland sé orðið slíkur kyrrstöðupollur, að enginn vilji fjárfesta hér, ekki einu sinni út á lágu launin.

Talið er, að það kosti tólf milljarða króna að stækka álverið í Straumsvík og að nokkur hundruð manns muni starfa við bygginguna. Það mun um skeið efla atvinnu á Suðvesturlandi og einkum verða lyftistöng í byggingaiðnaðinum, sem hefur verið að veslast upp að undanförnu.

Þungu fargi er létt af Landsvirkjun og okkur eigendum hennar, því að stækkun Ísals leiðir til aukinnar orkusölu um 900 gígawattstundir á ári. Sú er einmitt umframorkan, sem hefur verið ónotuð, síðan lokið var við Blönduvirkjun. Og nú verður raunar hægt að virkja meira.

Langtímaáhrif í atvinnumálum verða minni. Þegar stækkun álversins er lokið, munu aðeins 70 manns starfa þar til viðbótar við þá, sem fyrir eru. Álver eru ekki þess eðlis, að rekstur þeirra skapi mikla vinnu. Þess vegna frestar stækkun Ísals bara atvinnukreppunni.

Okkur veitir ekki af þessum létti. Undanfarin misseri hefur fjölgað þeim, sem missa trú á kyrrstöðupolli Íslands og leita sér að atvinnu úti í heimi, þar sem laun eru tvöföld íslenzk laun. Fólk hefur í auknum mæli orðið þreytt á endalausu basli lífsbaráttunnar á Íslandi.

Á laugardaginn birtust hér í blaðinu viðtöl við fiskverkafólk, sem flutzt hefur til Hanstholm í Danmörku, hefur þar meira en 1.000 krónur á tímann, kaupir sér einbýlishús og býr við félagslega velferð, sem er langt umfram þá, sem komið hefur verið á fót hér á landi.

Fólkið í Hanstholm á tæpast orð til að lýsa mismuninum á Danmörku og Íslandi. Fjárhagslegar áhyggjur hafa horfið eins og dögg fyrir sólu og fólkið segist meira að segja hafa efni á að eignast börn. Það velur misheppnuðum þjóðarleiðtogum Íslands fremur ófögur orð.

Íslendingarnir segjast hafa flúðið spillingu og fátækt á Íslandi, skrípaleik og skuldasöfnun, virðingarleysi og öryggisleysi, og leitað á náðir manneskjulegra þjóðfélags, sem veiti vinnufúsu fólki góðar tekjur. Þeir segjast nú hafa oftar en áður ráð á að fara til Reykjavíkur.

Ísland er ekki vont við alla. Það er gott við sæmilega stæða og miðaldra Íslendinga, sem hafa komið sér fyrir í lífinu. Það er hins vegar vont við unga fólkið og alla þá, sem þurfa á brattann að sækja í lífinu. En það eru hinir fyrrnefndu, sem stjórna kyrrstöðunni á Íslandi.

Meirihluti Íslendinga er sáttur við kyrrstöðuna og vill brenna milljörðum króna á hverju ári til að varðveita búsetu um allt land, jafnvel þótt það kosti þjóðina mikla skatta, hátt matarverð og lág laun. Þessi íhaldssami meirihluti telur sig samt vera ofan á í lífinu.

Hér á landi vantar pólitískan vilja til að brjóta hlekki fortíðarinnar og sækja inn í framtíðina, skipta út atvinnuvegum og taka þátt í Evrópusambandinu. Hér vilja menn helzt að ekkert gerist, af því að það raskar sem minnst ró þeirra. Þetta er dæmigerður kyrrstöðupollur.

Stækkun Ísals leysir ekki þennan vanda. Hún getur jafnvel leitt til, að landsfeðurnir telji sér fremur en ella óhætt að halda áfram að gera ekki neitt annað en að stunda ferðalög. Þeir kunna að vilja telja sér trú um, að efnahagsvandinn hafi verið leystur í Straumsvík.

Megináhrif fréttarinnar um stækkun Ísals eru þó önnur og betri. Þau endurvekja þá tilfinningu, að eitthvað sé að gerast, að gárur séu komnar á kyrrstöðupollinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofstækið afhjúpað

Greinar

Morðið á Itzhak Rabin heftir ekki hina hægu friðarþróun í Palestínu og Ísrael. Það mun þvert á móti spilla tækifærum róttækra friðarandstæðinga meðal Ísraelsmanna til að halda áfram að grafa undan friði. Ísraelsmönnum verður mörgum ljós leikur þeirra að eldinum.

Hinir hófsamari meðal Ísraelsmanna sjá, að morðið á Rabin er afleiðing múgsefjunar, sem róttækir friðarandstæðingar meðal Ísraelsmanna hafa kynt undir á undanförnum árum. Þeir sjá, að tímabært er að stinga við fótum og reyna að verjast áhrifum ofstækismannanna.

Slagkraftur róttæklinganna er fyrst og fremst í landnemabyggðum Ísraelsmanna í Palestínu. Þar hefur myndazt krumpað hatursþjóðfélag vopnaðra og ofsatrúaðra yfirgangsmanna, sem staðið hafa í vegi samkomulags Ísraelsmanna og Palestínumanna um frið.

Byggð ísraelskra landmena í Palestínu er ólögleg samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, sem Ísrael hefur staðfest. Óheimilt er að koma á fót slíku landnámi í hernumdum löndum. Stjórnir Ísraels hafa um langt árabil að þessu leyti gerzt sekar um glæp gegn mannkyninu.

Meðferð stjórnar Ísraels á Palestínumönnum á hernumdu svæðunum stríðir einnig gegn alþjóðlegum sáttmálum, sem Ísrael hefur staðfest. Þar á meðal eru pyndingar í fangelsum, sem krumpuð lög Ísraels leyfa og sannanlega hafa óspart verið notaðar á undanförnum árum.

Töluvert vantar á, að fjölmiðlar á Vesturlöndum geri sér og öðrum grein fyrir raunveruleikanum í Palestínu. Sem dæmi um það má nefna, að fréttastofa íslenzka ríkissjónvarpsins kallar það “skotbardaga”, þegar Ísraelsher og landnemar skjóta óvopnaða Palestínumenn.

Fyrir tilverknað ólöglegs landnáms í Palestínu, úlfúðar í kjölfar þess og ólöglegra aðgerða Ísraelsstjórnar gegn andófi Palestínumanna hefur þjóðarsálin í Ísrael verið að afmyndast. Ísraelsmenn hafa verið að breytast í átt til herraþjóðar að hætti Þýzkalands Hitlerstímans.

Algengt er, að Ísraelsmenn líti á Palestínumenn sem hunda og umgangist þá sem slíka. Ofbeldishneigðir Ísraelsmenn vaða vopnaðir um byggðir Palestínumanna og hreykja sér á sama hátt og SS-sveitir Hitlers gerðu á hernumdum svæðum í síðari heimsstyrjöldinni.

Á hernumdu svæðunum hefur myndazt hættuleg ofstækisblanda, sem leitar stuðnings hjá hinum grimma og hefnigjarna guði Gamla Testamentisins og hugmyndinni um hina drottins útvöldu þjóð, sem rýfur múra Jeríkó og útrýmir nágrönnum með aðstoð drottins.

Trúarrugl og aðstæður á hernumdu svæðunum sameinast í að framleiða skrímsli á borð við það, sem myrti Rabin forsætisráðherra. Óhjákvæmilegt er, að ríki, sem lætur ofbeldi og ofstæki viðgangast og ræktar það jafnvel, verði að sæta óvæntum afleiðingum af slíku tagi.

Tvö öfl birtu og myrkurs hafa lengi togazt á í Ísrael og hefur ýmsum veitt betur. Stjórn Ísraels hefur miðað hægt við að framkvæma þegar undirritaða samninga um framgang friðarferilsins í Palestínu. Hvað eftir annað hefur hún farið langt fram úr samþykktum tímamörkum.

Málinu hefur þó miðað fram hægt og bítandi. Ástandið fyrir morðið á Rabin var orðið mun friðvænlegra og traustara en það hafði verið um langt árabil. Og morðið mun enn frekar opna augu manna fyrir hættunum af trúarofstæki og vopnaofstæki ísraelskra landnema.

Til skamms tíma mun morðið þjappa saman fleiri Ísraelum en ella um varnir gegn friðarspillum úr eigin röðum og efla hægfara friðarþróun Ísraels og Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fimm fréttastofur

Greinar

Gott er að hafa fimm öflugar fréttastofur í landinu. Í því felst nægileg og nauðsynleg samkeppni í fréttum. Ekki er unnt að ákveða á einum stað í landinu eða með samráði fákeppnisaðila, hvað sé fréttnæmt og hvað ekki. Í fimm fréttastofum felst valddreifing í þjóðfélaginu.

Fullburðugar fréttastofur, sem spanna allt landið og eru í föstu tölvusambandi við erlendar fréttastofur, eru á tveimur dagblöðum, DV og Morgunblaðinu, ein sameiginlega á Stöð 2 og Bylgjunni og tvær á Ríkisútvarpinu, önnur á hljóðvarpinu og hin á sjónvarpinu.

Fleiri fréttastofur eru til og taka þátt í samkeppninni, en þessar fimm skera sig úr vegna mannafla og búnaðar annars vegar og útbreiðslu hins vegar. Engin ein þeirra er ráðandi á markaðnum. Þvert á móti ríkir nokkuð gott og hagkvæmt jafnvægi milli þeirra allra.

Ríkisendurskoðun hefur nú lagt til, að fréttastofunum verði fækkað um eina með sameiningu hljóðvarps og sjónvarps á þessu sviði. Hún leggur til, að ríkisvaldið grípi með handafli sínu inn í markaðinn og reyni að spara með því að sameina sínar tvær fréttastofur.

Verið getur, að ekki sé rúm fyrir fimm fréttastofur í landinu. Það er hlutverk markaðarins að ákveða slíkt. Ef ríkið seldi fjölmiðla sína, kæmi í ljós, hvort markaðurinn í landinu stendur undir fimm fréttastofum. Með handafli Ríkisendurskoðunar kemur slíkt ekki í ljós.

Ef ríkisvaldið fer að tillögu Ríkisendurskoðunar, hlýtur fjölmiðlun í landinu að færast sem því nemur í átt til hinnar skaðlegu fákeppni, sem ríkir á allt of mörgum sviðum í landinu, svo sem hjá bankastofnunum, tryggingafélögum, olíufélögum og flugfélögum.

Vegna fámennis þjóðarinnar hefur reynzt erfitt að halda uppi heilbrigðri samkeppni margra fyrirtækja, sem er hornsteinn valddreifðs markaðsbúskapar í lýðræðisríkjum Vesturlanda. Vont er, ef ríkið hyggst með handafli hafa forgöngu um að draga úr samkeppni.

Fleiri blikur eru á lofti en skaðleg tillaga Ríkisendurskoðunar. Á vegum Þjóðvaka hefur verið lagt fram þingmál, er felur í sér anga af hinni sívirku forræðishyggju, sem einkennir íslenzka stjórnmálamenn umfram stjórnmálamenn nágrannaríkjanna í austri og vestri.

Samkvæmt hugmynd Þjóðvaka þarf Alþingi að skilgeina og skipuleggja fjölmiðlun og fjölmiðla í landinu, væntanlega á þeim forsendum, að fjölmiðlarnir séu valdastofnanir, sem hið sívakandi ríkisvald þurfi að hafa auga með og fela einhver hlutverk innan kerfisins.

Við sjáum fyrir okkur margvíslegar fleiri útfærslur á forræðishyggju af þessu tagi. Hugsanlega vildu stjórnmálamenn reyna að skilgreina og skipuleggja skipafélög og fela þeim einhver hlutverk, sem stjórnvöldum finnst æskileg, fram hjá venjulegum markaðslögmálum.

Bjálfaleg lög af þessu tagi geta orðið atvinnuskapandi fyrir vandamálasérfræðinga af ýmsu tagi, sem geta fengið vinnu við eftirlits- og úttektarstofnanir, er komið yrði á fót til að tryggja framgang forræðishyggjunnar. En þau mundu skerða samkeppnishæfni atvinnugreinanna.

Yfirgnæfandi markaðshlutdeild í útgerð kaupskipa getur framkallað valdastöðu, sem kann að vera áhyggjuefni á markaðnum. Hins vegar er vandséð, að neitt lagist við, að vandamálasérfræðingar komi til skjalanna, vopnaðir lögum og reglugerðum forræðissinna.

Ríkisvaldið á að forðast aðgerðir, sem fela í sér minni samkeppni á markaði og meiri tilraunir ríkisins til afskipta og áhrifa á gang mála á óviðkomandi sviðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Atgervisflóttinn vex

Greinar

Háskólarektor vakti um helgina athygli á tölum um atgervisflótta frá Íslandi, sem sýna, að erlendis búa 15% þeirra, sem útskrifuðust á tíu ára tímabili frá Háskóla Íslands, 1979-1988. Fjölmennastir í þessum hópi eru læknar og raunvísindamenn, svo og hugvísindamenn.

Öruggt má telja, að hlutfall atgervisflóttans sé mun hærra hjá þeim Íslendingum, sem útskrifuðust á þessu tímabili frá erlendum háskólum og tóku aldrei upp þráðinn hér heima, sumpart vegna þess að tækifæri eru lítil, atvinnuvegir einhæfir og laun háskólafólks léleg.

Framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs hefur lýst áhyggjum af ástandinu, sem háskólarektor rakti. Hann telur, að viðhorf gömlu atvinnuveganna sé neikvætt í garð háskólamenntunar og að það endurspeglist í stofnunum þjóðfélagsins, þar á meðal í fjármálastofnunum.

Háskólinn var seinn að átta sig á, hverjar væru þarfir atvinnulífsins. Lengst af miðaðist framboð hans á námi einkum við embættisþarfir þjóðfélagsins. Hann framleiddi einkum lækna og lögfræðinga, presta og kennara, sem komu atvinnulífi að takmörkuðu gagni.

Þetta hefur verið að lagast í seinni tíð, en þá koma í ljós rótgrónar efasemdir í atvinnulífinu um, að fólk úr nýjum kennslugreinum í gömlum embættismannaskóla geti tekið til hendinni. Erfitt hefur reynzt að þvo skrifborðs- og hvítflibbastimpilinn af Háskólanum.

Verra er, að afturhaldssemi er rík í þjóðfélaginu og ræður gerðum valdamanna þjóðarinnar. Ef tala má um pólitískar forsendur valdakerfisins, þá felast þær í að vernda gamlar atvinnugreinar fyrir nýjum, þótt sú stöðnun geri landið að varanlegu láglaunasvæði.

Einum eða tveimur tugum milljarða er til dæmis sóað til einskis á hverju einasta ári til að reyna að fresta hruni hinna hefðbundnu þátta landbúnaðarins. Það fé er ekki notað til að hlúa að nútímalegum atvinnuvegum, sem þurfa á að halda vel stæðu háskólafólki.

Afturhaldssemi stjórnvalda og þjóðar veldur því til dæmis, að skilyrði fyrir hugbúnaðarframleiðslu og margmiðlun eru lakari hér en í samkeppnislöndum okkar beggja vegna Atlantshafsins. Það kemur m.a. fram í hægari og dýrari tölvusamskiptum hér á landi.

Hinar dýru aðgerðir ráðamanna ríkisins við varðveizlu fortíðar í atvinnuháttum hafa svelt getu þess til að greiða vísindamönnum hins opinbera mannsæmandi laun. Þetta kemur fram í kjörum háskólakennara og sérfræðinga við rannsóknastofnanir ríkisins.

Margir hinna hæfustu hafa því leitað á önnur mið og náð árangri, sumpart vegna þess að nýju og framsæknu háskólagreinarnar eru alþjóðlegar að eðlisfari, nýtanlegar um heim allan, og sumpart vegna þess, að hinir hæfustu geta komið hæfni sinni á framfæri í útlöndum.

Að stofni til er þessi vítahringur fyrst og fremst pólitískur. Vitsmunalegir undirmálsmenn stjórna afturhaldssamri þjóð og geta engan veginn lyft sér upp úr þrengstu hagsmunagæzlu fyrir hin hefðbundnu gæludýr kerfisins. Hér felst pólitík í dreifingu herfangs.

Að meirihluta er þetta í samræmi við vilja þjóðar, sem er með mosann í skegginu og velur sér nærri eingöngu Framsóknarflokka til stjórnar. Ekkert gerist meðan þjóðin vill, að tilvera sín snúist um varðveizlu eins konar Árbæjarsafns fyrir landbúnað í miðju Atlantshafi.

Sumir kunna sitthvað, sem stofnanir og fyrirtæki í útlöndum vilja kaupa dýru verði. Þeir freistast auðvitað til að flýja lygnan poll stöðnunar og afturhalds.

Jónas Kristjánsson

DV