Greinar

Búvörusamningur á sandi

Greinar

Ríkisstjórnin og stofnanir landbúnaðarins eru að gera búvörusamning, sem byggist á fölskum forsendum. Hann gerir meðal annars ráð fyrir, að neyzla dilkakjöts verði framvegis töluvert meiri en hún er nú og að hægt verði að selja útlendingum dilkakjöt á hærra verði en nú.

Raunveruleikinn er annar. Neyzla dilkakjöts í landinu mun halda áfram að minnka og verðlag í útflutningi mun halda áfram að lækka. Engin ástæða er til að ætla, að þessar breytingar staðnæmist við nýjustu tölur um þessi efni. Þvert á móti munu tölurnar halda áfram að lækka.

Kjötneyzla fer minnkandi með breyttum lífsháttum. Kornvara er sífellt að verða fyrirferðarmeiri í neyzluvenjum kynslóðanna, sem bætast við í hópi viðskiptavina matvöruverzlana. Á sviði skyndibita til dæmis eru hamborgarar á undanhaldi, en pöstur og pizzur í sókn.

Hin opinbera stefna stöðnunar og íhalds, láglauna og atvinnuleysis verður við völd í þjóðfélaginu næstu árin. Hún stuðlar að fráhvarfi almennings frá dýrum matvælum yfir í ódýr. Fólk flytur neyzlu sína frá íslenzkum matvælum yfir í innfluttan kornmat af ýmsu tagi.

Ekkert er í sjónmáli, sem geti snúið þessu við. Ríkið og samtök landbúnaðarins hafa varið tugum milljóna króna í hverja áróðursherferðina á fætur annarri fyrir neyzlu dilkakjöts, án þess að nokkur merki árangurs sjáist. Sölumennska er ekki þessara meina bót.

Erlendi markaðurinn er að hrynja eins og sá innlendi, en af allt öðrum ástæðum. Aðrar þjóðir en Íslendingar taka af alvöru þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um minnkun hindrana í vegi alþjóðaviðskipta. Þetta hefur til dæmis gefið nýsjálenzku dilkakjöti meira svigrúm.

Þótt Íslendingar verði ekki varir við þetta aukna frelsi, af því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma í veg fyrir það, verða nágrannaþjóðirnar varar við það. Nýsjálenzkt kjöt er til dæmis á boðstólum í Svíþjóð á miklu lægra verði en íslenzka kjötið og hefur rutt því burtu.

Íslendingar eru ekki samkeppnishæfir við Nýsjálendinga í sölu dilkakjöts á alþjóðamarkaði. Þeir geta án opinberra styrkja þarlendra stjórnvalda selt sitt kjöt á svo lágu verði, að það gæfi alls ekki neitt skilaverð til framleiðenda að selja íslenzkt dilkakjöt á sama verði.

Engar horfur eru á, að þetta snúist við á næstu árum. Aðstæður á Nýja-Sjálandi eru slíkar, að framleiðni dilkakjöts er þar óhjákvæmilega mun meiri en á Íslandi. Búin eru þar margfalt stærri en hér og að mestu er þar óþarft að hafa sérstök húsakynni og heyskap vegna sauðfjár.

Á síðari árum hafa menn helzt bundið vonir við að hægt sé að selja dilkakjöt sem lúxusvöru eða sem vistvæna vöru. Tilraunir í þá átt benda ekki til, að ástæða sé til mikilla vona á því sviði. Flest bendir til, að þar séu á ferð enn einar sjónhverfingarnar í landbúnaðinum.

Kjötbirgðir eru að hlaðast upp í landinu. Engir kaupendur eru að þessu kjöti, hvorki innnan lands né utan. Það eldist smám saman og verður að lokum urðað, engum til gagns. Nýr búvörusamningur ætti að taka tillit til þessara staðreynda, en virðist ekki munu gera það.

Miklu nær væri fyrir stofnanir landbúnaðarins og ríkisstjórnina að viðurkenna staðreyndir markaðarins og gera róttækar ráðstafanir til að bjarga sem flestum bændum frá vonleysi sauðfjárbúskapar. Tilraunir í þá átt hafa ekki verið nógu markvissar til að skila nægum árangri.

Kjörið er að nota tækifærið til að afnema sauðfjárbúskap í viðkvæmustu héruðum móbergssvæða landsins og koma þannig í veg fyrir ofbeit og gróðureyðingu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin ræður í raun

Greinar

Þjóðin hafnar ekki bara hugmynd menntaráðherra um íslenzkt þjóðvarðlið, heldur einnig því, að hún sé yfirleitt til umræðu. Níu af hverjum tíu eru andvígir og aðeins einn fylgjandi, samkvæmt skoðanakönnun DV í gær. Svo eindreginn munur er nánast einsdæmi.

Þetta er að vísu miður, því að margt er gott um þessa hugmynd. Það hefur verið rökstutt áður í þessum dálkum og verður ekki endurtekið. Það þýðir ekki að deila við dómarann, ef það er þjóðin, sem er í sæti hans. Umræða um þjóðvarðlið fellur því niður. Málið er afgreitt.

Skoðun þarf fylgi öflugs minnihluta til að hún sé í alvöru til umræðu og til greina komi að vinna að auknu fylgi hennar. Fimmtungs eða fjórðungs fylgi er alls ekki slæmur grunnur til að byggja á í upphafi fremur lítt kunns máls, en tíundi hluti er of lítill grunnur.

Annað mál er hins vegar örugglega til umræðu, því að meira en þriðjungur þjóðarinnar styður það, viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er minnihlutaskoðun, en öflug minnihlutaskoðun samt; skoðun, sem hægt er afla meirihlutafylgis með tímanum.

Forsætisráðherra hefur nokkrum sinnum sagt á undanförnum misserum, að viðræður um þessa aðild séu ekki til umræðu. Það er rangt, því að það er þjóðin, sem ákveður, hvað sé til umræðu og hvað sé ekki til umræðu. Í lýðræðisríki getur landsstjórnin ekki ráðið slíku.

Því hefur málið haldið áfram að vera til umræðu. Það verður til umræðu á minnihlutastigi, þangað til hin pólitíska stífla brestur vegna þróunar efnahagsmála í Evrópu og á Íslandi. Sú breyting, hæg eða hröð eftir atvikum, verður málflutningi stuðningsmanna aðildar í vil.

Oft kemur í ljós, að munur er á sjónarmiðum þjóðar og yfirstéttar stjórnmálanna. Það kom vel í ljós í skattsvikamáli Alþingis, sem varð því til mikillar vansæmdar. Umræðan um það leiddi í ljós, að yfirstéttin gerði sér ekki einu sinni grein fyrir, um hvað umræðan var.

Umræðan var um skattsvikaákvæði fyrir yfirstéttina, sem hún setti sér sjálf. Umræðan var ekki um niðurstöðu Kjaradóms, eins og forsætisráðherra vill halda. Og hún var ekki um mismun á kjörum Íslendinga og nágrannaþjóða, eins og yfirmenn Alþingis vilja halda.

Raunar telur forseti Alþingis og tekur sérstaklega fram, að stjórnendur þess hafi ekki gert nein mistök í málinu. Þeir séu bara að taka tillit til múgsefjunar til að róa landslýðinn, rétt eins og menn róa stundum börnin sín, þótt þau eigi það ekki málefnalega skilið.

Annað mál er til umræðu í þjóðfélaginu og verður það áfram með vaxandi þunga, þótt atferli landsstjórnarmanna í ýmsum búvöruhöftum bendi ekki til þess, að þeir telji svo vera. Það er eindregin andstaða stjórnvalda við hagsmuni neytenda, skattgreiðenda og launafólks.

Einhvern tíma segir þjóðin, að nú sé komið nóg. Ekki verði lengur þolað, að ráðamenn landsins gæli svo grimmt við hagsmuni fámennrar stéttar í bændahöllum Reykjavíkur, að þeir fórni möguleikum þjóðarinnar til að fylgja nágrönnum sínum eftir í lífskjörum.

Vaxandi munur á lífskjörum og lífsgæðum Íslendinga og nágranna okkar í austri og vestri mun fyrr en síðar gera öflugar minnihlutaskoðanir í málefnum Evrópu, viðskiptafrelsis og landbúnaðar að öflugum meirihlutaskoðunum. Á meðan verða þau mál áfram til umræðu.

Þjóðin getur haft rangt fyrir sér og jafnvel slátrað góðum framfaramálum. Eigi að síður á hún sjálf að ráða umræðunni og síðan niðurstöðunni. Og hún gerir það.

Jónas Kristjánsson

DV

Við erum lögmenn

Greinar

Lögmenn hafa stjórnað Íslandi frá upphafi. Goðar þjóðveldisaldar gegndu svipuðum hlutverkum og lögmenn nútímans. Þeir sóttu og vörðu mál og dæmdu í þeim. Þeir unnu að sáttum og stjórnuðu helztu samkundum ríkisins. Goðaveldið var eins konar lögmannaveldi.

Sáttmálar þjóðar og konungs voru skráðir og óspart vitnað til þeirra. Lagaflækjur voru líf og yndi manna á fátæktaröldum þjóðarinnar. Menn sýndu oft mikla þrautseigju í rekstri mála, fylgdu þeim á leiðarenda til Kaupmannahafnar og fengu þau stundum opnuð að nýju.

Lögmennska þjóðveldisaldar og þrautseigja fátæktaralda sameinuðust í langvinnri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, sem var ekki háð með blóði og tárum eins og annarra þjóða, heldur með endalausum hártogunum og orðhengilshætti að hætti lögmanna allra tíma.

Þannig var sjálfstæðisbaráttan frá upphafi og allt til þess er deilt var um, hvort orðið vanefndir táknaði nákvæmlega það sama og á dönsku var kallað “ikke-opfyldelse”. Síðan færðu menn sig út á hafið og unnu jafnvel þorskastríð gegn umheiminum með lögfræðilegu þjarki.

Frá upphafi sjálfstæðis hefur Íslandi verið stjórnað af lögmönnum. Þeir sækja ekki aðeins, verja og dæma í dómsvaldinu. Þeir bera í fyrirferð af öðrum stéttum í yfirstjórn og millistjórn ráðuneyta. Og þeir eru langsamlega fjölmennastir í hópi ráðandi stjórnmálamanna.

Þannig fara lögmenn fyrir þjóðinni í framkvæmda- og löggjafarvaldi ekki síður en í dómsvaldi. Þeir skipa ríkisstjórnir og móta gengi þjóðarinnar að nokkru eftir hugsunarhætti lögmanna, sem er annar en hugsun hagfræðinga og einkum þeirra, er menntazt hafa erlendis.

Í seinni tíð hefur einn þáttur orðið áberandi í lögmannaveldinu, sem ekki var þar fyrr á öldum. Hann er, að þessir ráðamenn landsins eru heimaaldir. Þeir hafa stundað allt sitt nám innanlands, en ekki verið árum saman við nám í útlöndum eins og margir aðrir.

Það er áberandi meðal hinnar lögfræðimenntuðu valdastéttar, hve vel hún kann við sig í hópi Íslendinga, en illa í hópi útlendinga. Þessir valdamenn eiga erfitt með að tjá sig á erlendum tungum og líta út eins og illa gerðir hlutir á myndum með erlendum starfsbræðrum.

Þessir áhrifamenn úr hópi lögmanna eru þjóðlegir í sér, en hallast stundum of mikið af einangrunarhyggju. Þeir líta allt öðrum augum á evrópska og alþjóðlega samvinnu en hinir gera, sem fljóta jafn auðveldlega um úti í heimi og þeir gera í fásinninu hér heima.

Raunar einskorðast þetta ekki við lögmenn, heldur er eins konar meðaltalseinkenni, sem meira ber á hjá þeim, sem dvalizt hafa allan sinn mótunaraldur í heimalandinu, heldur en hjá hinum, sem hleypt hafa heimdraganum. Lífssýn þessara tveggja hópa er ekki hin sama.

Heimalningar hneigjast til að telja allt vera bezt á Íslandi, jafnvel þótt séríslenzk vandamál skeri í augu annarra, svo sem misræmið milli hárra þjóðartekna og lélegra lífskjara og misræmið milli dálætis á hefðbundnum atvinnuvegum og hræðslu við greinar framtíðarinnar.

Þessum hugsunarhætti fylgir, að menn telja, að erlend efnahagslögmál gildi ekki á Íslandi og að bezt sé, að þjóðin búi sem mest að sínu. Þannig var haft tvöfalt krónugengi fyrir fjórum áratugum og þannig neita þeir nú að skella sér af stað í atrennu að Evrópusambandinu.

Þetta fer saman við, að íslenzk yfirstéttarhugsun hefur öldum saman ekki verið raunvísinda-, hagfræði-, markaðs- eða peningaleg, heldur einkum lögfræðileg.

Jónas Kristjánsson

DV

Vörn í sókn

Greinar

Kominn er tími til að snúa vörn í sókn í tilveru þjóðarinnar. Við þurfum að öðlast markmið að nýju og kjark til að sækja fram til þeirra. Við þurfum að breyta láglaunasvæði vonleysis í hálaunasvæði tækifæranna. Við þurfum að hætta við að gefast upp í lífsbaráttunni.

Mjög margir muna enn fyrri blómaskeið í sögu aldarinnar, til dæmis það, sem var fram eftir nærri öllum sjöunda áratugnum. Þá hrundu hlekkir íhaldskurfanna af þjóðinni og hún sótti fram á öllum sviðum. Peningavelta jókst ár frá ári og fólk sá tækifærin blasa við.

Á þeim árum datt fólki, sem menntaði sig, ekki annað í hug en að þörf væri fyrir menntun þess og að greitt yrði fyrir hana. Atvinnuleysi og lág laun var eitthvað, sem fólk hafði lesið um í sjálfsævisögum, að hefði einkennt landið á fjarlægum kreppuárum fyrir stríð.

Allt frá dögum Hannesar Hafstein lét þjóðin sig ekki muna um að ráðast í stórvirki. Stórfljót voru fyrst brúuð og síðan virkjuð fyrir morð fjár á þeirra tíma mælikvarða. Reistir voru hátimbraðir skólar um allt land. Nýjasta tækni hélt innreið í gamla atvinnuvegi.

Ekki er heill áratugur síðan enn eimdi af þessu framfaraæði. Þjóðin var orðin vel menntuð og var að því leyti undir það búin að taka við atvinnuvegum framtíðarinnar. En hún þekkti ekki sinn vitjunartíma og lagðist í þess stað í misheppnaða loðdýra- og laxarækt.

Undir forustu stjórnmálamanna og fyrrverandi stjórnmálamanna í peningastofnunum var komið á skefjalausu rugli, sem leiðir til þess, að verðmætum þjóðarinnar er sóað í margvíslega fyrirgreiðslu til gæludýra, sem ekki geta ávaxtað það pund, sem þeim er trúað fyrir.

Á sama tíma hætti þjóðin að telja sig hafa efni á því, sem þótti sjálfsagt áður. Hún hætti að borga vísindamönnum mannsæmandi laun. Hún átti í mesta basli við að koma yfir sig þjóðarbókhlöðu og virðist ófær um að vinna ný stórvirki á slíkum sviðum eða öðrum.

Á sama tíma er þjóðin í vaxandi mæli að verða leiksoppur draumóra um happdrættisvinninga, til dæmis þann, að útlendingar komi hingað og reisi verksmiðjur, helzt álver, nú síðast Kínverjar. Heilu stjórnmálaforingjarnir byggðu feril sinn á sölu slíkra draumóra.

Liðin er sú tíð, að unga fólkið telji Ísland vera land tækifæranna. Menn fara í langt nám, en efast um, að nokkur vilji nota það. Menn eru hættir að byggja hús, af því að þeir telja sig ekki geta selt þau. Menn eru að laga sig að stöðnun varanlegs láglaunaþjóðfélags.

Auðvitað þarf almenningur að verða ríkur í þessu landi, eins og hann varð til dæmis í Bandaríkjunum. Það er nauðsynlegt, svo að hringrás komist í peningakerfið og kaupendur fáist að vörum og þjónustu. Þegar allir hörfa inn í skel, hægir á hjólum tilverunnar.

Svo virðist sem hugarástand íhaldskurfa hafi breiðzt út meðal þjóðarinnar. Kjósendur vilja helzt treysta þeim, sem engu vilja breyta og ekkert gera, heldur láta áfram reka á undanhaldinu í átt til sífellt lakari lífskjara og meira atvinnuleysis og aukins niðurskurðar réttlætis.

Þjóðin áttar sig vonandi á þessu, þegar í svo mikið óefni er komið, að það er orðið augljóst. Kannski viljum við allt í einu fara að taka í alvöru þátt í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi um efnahagslega framþróun og kannski förum við að innleiða atvinnuvegi framtíðar.

Þjóðin er enn vel menntuð og hlýtur einhvers staðar að búa enn yfir gömlum neista hugmynda, átaka og áræðis. Nú er kominn tími til að snúa vörn í sókn.

Jónas Kristjánsson

DV

Hamslaus veiðigræðgi

Greinar

Mælingar á afla sex íslenzkra skipa hafa sýnt, að mestum hluta Smugunnar í Barentshafi væri lokað, ef íslenzkar lokunarreglur giltu á þeim slóðum. Í flestum tilvikum var smáfiskur meira en fjórðungur aflans, sem mundi leiða til umsvifalausrar lokunar hér við land.

Umgengni íslenzkra skipstjóra og sjómanna í Smugunni yrði aldrei þoluð af yfirvöldum hér við land. Dæmi hefur verið nefnt um, að íslenzkur frystitogari hafa hent helmingi af 30 tonna hali í hafið. Að öðru leyti er talið, að íslenzku saltfisktogararnir séu einna verstir.

Það eru lélegar málsbætur, þótt bent sé á, að umgengni Norðmanna og ýmissa annarra sjómanna sé litlu betri á karfamiðum utan lögsögu á Reykjaneshrygg. Þar er verið að ganga að karfastofninum með sams konar smáfiskadrápi og á þorskstofninum í Smugunni.

Á báðum stöðunum væri til bóta, að helzta strandríkið, í öðru tilvikinu Ísland og í hinu Noregur, gæti einhliða sett strangari reglur um veiði á svæðinu og haldið uppi virku eftirliti með reglunum. Slíkt verður að gera einhliða og strax, því að stofnarnir eru í hættu.

Því miður sýnir reynslan, að græðgi sjómanna og skipstjórnarmanna eru lítil takmörk sett. Það gildir ekki, að þeir séu færir um að vernda framtíðarhagsmuni sína eins og veiðimenn eru sagðir hafa gert í fyrndinni. Þeir fórna þeim hiklaust fyrir þrengstu stundarhagsmuni.

Skipulag veiða við Ísland er markað þeirri staðreynd, að sjávarútvegurinn er ófær um að stunda sjálfbærar veiðar. Allt kvótakerfið er byggt á þeirri staðreynd, að flotvarpan hefði valdið algeru hruni nytjafiska við Ísland, ef ekki hefði verið stofnað til þess kerfis.

Kvótakerfið hefur þó ekki megnað að snúa blaðinu við. Mikið er veitt af smáfiski utan kvóta og honum hent í sjóinn aftur, svo að hann lendi ekki í mælingum. Er áætlað, að fleygt sé tæpum þriðjungi þorskaflans til að standast vigt. Þetta er græðgi á geðveikisstigi.

Til viðbótar kunna hugvitsmenn í sjávarútvegi ótal aðferðir við að færa til afla. Ýmist er, að hann flytzt af kvótaskipum yfir á banndagaskip eða þá að tegundir í afla breytast með dularfullum hætti, svo sem dæmin sýna. Kvótakerfið er hriplegt og úr sér gengið.

Vegna græðginnar hafa stofnar minnkað og veiðin einnig. Rányrkja hefur gengið nærri dýrmætustu nytjastofnunum. Samt halda sjómenn uppi sífelldri gagnrýni á veiðitakmarkanir kvótakerfisins og heimta meiri úthlutanir. Græðgin jaðrar við sjálfseyðingarhvöt.

Kvótakerfið er svo gallað, að það dugir ekki til að vernda framtíðarhagsmuni sjávarútvegsins gagnvart skipstjórnarmönnum, sem eru svo viðþolslausir af hamslausri græðgi, að þeir koma með verðlausan mokafla að landi, af því að þeir láta hann skemmast í lest.

Ítrekuð dæmi hafa komið fram um, að menn hamast svo við veiðar, að þeir missa ráð og rænu og átta sig ekki lengur á, að heildarverðmæti aflans minnkar við hvert mokhal, einfaldlega af því að aflinn lendir meira eða minna í bræðslu, þegar hann kemur að landi.

Þjóðin á að taka fram fyrir hendur sjómanna og skipstjórnarmanna. Hún á þann auð, sem þeir eru að eyðileggja í friðleysi sínu. Hún á að ná til baka þeim verðmætum, sem hún hefur trúað sægreifunum fyrir og þeir farið illa með eins og ótrúi þjónninn í biblíunni.

Hvort sem kvótakerfi verður notað áfram eða nýtt kerfi tekið upp á rústum þess, verður að nást stjórn á hamslausri græðgi, sem einkennir fiskveiðar okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þreyja þorrann

Greinar

Alþingismenn hefðu sennilega komizt upp með að bæta kjör sín eins mikið og þeir gerðu, ef þeir hefðu ekki freistazt til að nota aðstöðu sína til að búa til sérstök skattalög fyrir sig eina, er gerðu ráð fyrir skattfrelsi tekna, sem aðrir verða að borga af skatta.

Forustumenn Alþingis og þingflokkanna reiknuðu með, að gagnrýni á gerðir þeirra yrði ekki annað en lítil bóla, sem hjaðnaði fljótt og gleymdist. Þeir höfðu í huga, að íslenzkir kjósendur hafa jafnan reynzt seinþreyttir til vandræða, þegar kemur um síðir að kosningum.

Stjórnmálamenn okkar hafa fyrir löngu séð, að kjósendur halda flestir tryggð við flokka sína, þótt reynslan sýni, að eigin- og sérhagsmunagæzla þeirra stendur fyrir flestum af þeim hremmingum, sem kjósendur verða fyrir sem neytendur, skattgreiðendur og launþegar.

Ekkert er enn komið í ljós, sem bendir til annars en, að skattsvikin verði gleymd, þegar kemur að næstu kosningum. Þess vegna ákváðu forustumenn Alþingis og þingflokkanna á föstudaginn að setja málið í biðstöðu og freista þess að þreyja þorrann meðan öldurnar lægði.

Þótt þeim takist með þolinmæði að halda sínu, hafa þeir beðið mikinn álitshnekki, sem takmarkar svigrúm þeirra til að haga sér eins og þeir hafa hingað til gert. Þeir vanmátu almenningsálitið í einu atriði við umfangsmiklar kjarabætur sínar og súpa seyðið af því.

Almenningsálitið er hvikull fugl, sem erfitt er að henda reiður á. Það rís ekki upp, þegar verið er að ræna milljörðum af kjósendum í fyrirgreiðslum vegna landbúnaðar, sem leiða til lakari lífskjara og valda því, að Íslendingar eru að dragast aftur úr og verða varanleg láglaunaþjóð.

Stjórnmálamenn okkar hafa hingað til komizt upp með að taka á hverju ári mjög marga milljarða króna úr umferð og brenna þeim á altari gæludýra af ýmsu tagi. Þessi verðmætabrennsla kemur í veg fyrir, að þjóðin geti fylgt nágrannaþjóðunum eftir í lífskjörum.

Hver, sem sjá vill, getur séð, að háar þjóðartekjur Íslendinga endurspeglast ekki í launum almennings. Hver, sem hugsa vill, getur reiknað út, að veigamesta ástæðan fyrir þessu er, að hér á landi er of stórum hluta þjóðarteknanna sóað í vitleysu á vegum stjórnmálanna.

Þorri þjóðarinnar vill ekki sjá og enn síður hugsa. Síðustu skoðanakannanir hafa til dæmis bent til, að núverandi ríkisstjórn sé mjög vinsæl, þótt hún hafi reynzt vera óvenju harðskeytt í þeirri sérhagsmunagæzlu, sem er að skuldsetja afkomendur okkar upp í topp.

Þegar stjórnmálamenn sjá, að þeir komast upp með að sóa verðmætum þjóðfélagsins, ekki bara átölulaust, heldur við fögnuð mikils hluta landsmanna, er engin furða, þótt þeir telji sig geta komizt upp með allt. Þess vegna misstigu þeir sig í skattsvikamálinu.

Þótt tjón þjóðfélagsins af skattsvikum alþingismanna sé ekki nema brotabrot af því tjóni, sem stjórnmálamenn valda þjóðinni með milljarðasukki sínu og svínaríi, fara skattsvikin sérstaklega fyrir brjóstið á fólki, sem sér saumað að sér á alla vegu með þröngum skattareglum.

Þjóðin getur nú notað lostið af skattsvikum alþingismanna til að átta sig á, að mikið og vaxandi atvinnuleysi; lág og lækkandi laun; hátt og hækkandi verð nauðsynja og vaxandi vonleysi um framtíð unga fólksins stafar að mestu af spilltum ákvörðunum stjórnmálamanna.

En þeir eru svo sannfærðir um, að þetta muni þjóðin ekki gera, að þeir ætla ekki að falla frá skattsvikunum að sinni, heldur reyna að bíða eftir að þau gleymist.

Jónas Kristjánsson

DV

Kemur ykkur ekki við

Greinar

Þingmaður nokkur lýsti því yfir í viðtali við DV, að kjör þingmanna ættu ekki að vera til umræðu meðal almennings. Þessi ruglaði þingmaður, sem aldrei hefur sýnt, að hann hafi neitt til síns ágætis umfram venjulegt fólk, virðist telja sig yfir þjóðina hafinn.

Þetta er svipuð hugsun og ríkti hjá evrópskum aðli fyrir frönsku byltinguna. Þá taldi yfirstéttin, að ekki ættu sömu reglur að gilda um sig og þegnana í þjóðfélaginu. Þar á meðal lét fína fólkið gilda allt aðrar og mildari skattareglur um sig en aðra landsmenn.

Með stjórnarbyltingunni fyrir rúmlega tveimur öldum og hliðstæðu uppgjöri í öðrum löndum var þessari skoðun hafnað á Vesturlöndum. Komið var á lýðræði, sem fól meðal annars í sér, að allir skyldu vera jafnir fyrir lögunum. Það hefur síðan verið hornsteinn lýðræðisins.

Í tvær aldir hafa Vesturlandabúar ekki verið þegnar í ríki aðalsmanna, heldur frjálsir borgarar. Þetta kerfi er búið að vera lengi í gildi hér á landi. Því er athyglisvert, að margir íslenzkir þingmenn líta á sig sem eins konar aðalsmenn, sem lúti öðrum reglum en annað fólk.

Deilan um kjör þingmanna snýst ekki um, hvaða laun þeir eigi skilið. Fæstir landsmenn telja sig hafa þau laun, sem þeir eigi skilið. Þeir, sem gagnrýna þingmenn núna, eru ekki að segja, að þeir hafi hæfileg laun, heldur, að sömu reglur eigi að gilda um þá og aðra landsmenn.

Margir þingmenn verja skattsvikin með því að segja sig illa launaða, til dæmis í samanburði við aðra tilgreinda hópa í þjóðfélaginu. Það kann vel að vera rétt, en kemur ekki beinlínis því máli við, sem olli sprengingu í þjóðfélaginu í þessari viku. Málið er skattfrelsið.

Það er því miður eitt helzta einkenni siðspilltrar yfirstéttar stjórnmálanna á Íslandi, að hún fer að tala um annað, þegar þrengt er að henni á einu sviði. Þegar hún er ákærð fyrir að vernda skattsvik sín með lögum, talar hún um, hvað hún búi við skarðan hlut í lífinu.

Kenning hinna siðspilltu er, að þeir hafi farið halloka á einu sviði og megi því bæta sér það upp á allt öðru sviði. Ef þeir þurfi að kaupa dýra kjóla til notkunar í samkvæmum, réttlæti það á einhvern óskiljanlegan hátt, að þeir setji um sig sérstök skattsvikalög.

Með sama hætti getur hinn venjulegi þjófur úti í bæ sagt við sig, að hann eigi fjárhagslega bágt, af því að hann hafi til dæmis misst vinnuna, og þess vegna sé réttlætanlegt að hann bæti sér það upp með því að brjótast inn í næsta fyrirtæki og stela þar peningum.

Þessi yfirfærsla röksemda milli óskyldra hluta er því miður lýsandi dæmi um ástandið á Alþingi. Þar fer lítið fyrir heilbrigðri rökræðu, heldur ryðjast æ fleiri þingmenn fastar um í skefjalausri þjónustu við sérhagsmuni gæludýra úti um land og við sína eigin hagsmuni.

Alþingi skaffara og ríkisstjórn helmingaskipta eru síðbúið afturhvarf til stjórnarhátta, sem lögðust af fyrir tveimur öldum. Mismunun fer vaxandi, annars vegar milli yfirstéttar og venjulegs fólks og hins vegar milli gæludýra og venjulegra fyrirtækja eða atvinnugreina.

Flest benti til þess í sumar, að þjóðin mundi láta þessi örlög yfir sig ganga, en skattfríðindi þingmanna urðu kornið, sem fyllti skyndilega mælinn. Því miður er þetta einstök reiðisprengja, sem veitir fólki útrás, en veldur ekki varanlegum þrýstingi á siðbætur í stjórnmálum.

Það lagast ekki fyrr en kjósendur fara kerfisbundið að taka pólitíska afstöðu sem neytendur og skattgreiðendur, sem frjálsir borgarar í jafnréttis- og lýðræðisríki.

Jónas Kristjánsson

DV

Grafið undan þjóðarsátt

Greinar

Hin pólitíska yfirstétt í landinu hefur með græðgi sinni og þjónustu við sérhagsmuni grafið undan þeirri sátt og samheldni, sem þarf að ríkja í þjóðfélaginu til að vinnufriður haldist og til að bjartsýni haldist á lífsskilyrði næstu ára. Hún hefur rofið sundur þjóðfélagsvefinn.

Yfirstéttargræðgin birtist í lögum, sem Alþingi hefur sett um, að önnur lög gildi um alþingismenn en annað fólk í landinu. Á þennan hátt ætlar þorri þingmanna að stela mánaðarlega undan skatti upphæð, sem nemur næstum öllum mánaðartekjum hinna lægst launuðu.

Þjónusta yfirstéttarinnar við sérhagsmuni birtist í hærri matarkostnaði heimilanna í kjölfar reglugerða ríkisstjórnarinnar um framkvæmd fjölþjóðlegs samkomulags um lækkun hindrana í vegi milliríkjaviðskipta. Hún gengur þannig þvert á markmið þessa samkomulags.

Ein afleiðing stjórnlausrar þjónustu ríkisstjórnarinnar við hagsmuni ráðamanna landbúnaðarins og illa rekinna vinnslustöðva þeirra er, að hraði verðbólgunnar hefur aukizt úr tæplega 2% í rúmlega 4%, á sama tíma og verðbólga í nágrannalöndunum er rétt rúmlega 2%.

Þetta getur leitt til, að undirritaðar forsendur síðustu kjarasamninga rofni og að stéttarfélögin í landinu öðlist sjálfvirkan rétt til að segja tafarlaust upp samningum. Að öðrum kosti mun reiði almennings fá um síðir útrás í kjarasamningum, sem renna út í lok næsta árs.

Um margra ára skeið hafa tekjur almennings árvisst verið skertar með samningum, sem byggja á þjóðarsátt um, að fólk verði að mæta efnahagskreppu með lakari lífskjörum. Ríkisstjórnir hafa staðið að þessum þjóðarsáttum með samtökum atvinnurekenda og launafólks.

Sú spillta venja hefur myndazt á tímabili þjóðarsátta, að ríkisstjórnir hafa svikizt um sinn þátt. Þannig hefur hluti af efni hverrar þjóðarsáttar verið, að ríkisstjórnir hafa lofað að efna það, sem þær sviku í síðustu þjóðarsátt. Þetta hefur sauðþæg þjóð látið bjóða sér.

En svo má brýna deigt járn, að bíti. Siðleysi stjórnvalda hefur loksins gengið fram af mörgum í sumar. Hækkun matarreikningsins dugði þó ekki ein, heldur urðu skattsvik yfirstéttarinnar að bætast við. Fólk þoldi þjónustuna við sérhagsmuni, en ekki sjálfa græðgina.

Raunar getur þjóðin sjálfri sér um kennt, því að henni virðist ekki vera sjálfrátt, þegar hún gengur til kosninga og velur sér pólitíska yfirstétt, sem vitað er, að gætir ekki hagsmuna almennings í landinu heldur sinna eigin hagsmuna og hagsmuna ofverndaðra gæludýra sinna.

Þegar almenningur áttar sig á fáránlegri þjónslund sinni og rekur spillta yfirstétt af höndum sér, verður blómaskeið á Íslandi. Efnahagslegar forsendur eru fyrir sömu lífskjörum og eru í nágrannalöndunum, ef hætt verður sukki og brennslu verðmæta í þágu gæludýra.

Því miður hefur almenningur ekki hugsað sem neytendur, sem skattgreiðendur og sem launafólk, heldur sem ómyndugir þegnar yfirstéttarinnar. Sumir hafa reyndar vonazt eftir molum af borði spillingarinnar og reynt að velja sér líklega skaffara til þingmennsku.

Ef gegnsæ skattsvik hinnar pólitísku yfirstéttar leiða til, að ljós rennur upp fyrir þjóðinni, er bjart framundan, en annars ekki. Það eina, sem stendur í vegi fyrir gæðalífi á Íslandi á næstu árum og áratugum, er, að þjóðin hefur hingað til neitað að axla ábyrgð kjósenda.

Vonandi hafa græðgi og sérhagsmunaþjónusta yfirstéttarinnar loksins gengið svo fram af fólki, að það vakni til meðvitundar um fáránleikann í núverandi ástandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimavarnarlið

Greinar

Eðlilegt er að ræða í alvöru, hvort Íslendingar eigi að koma sér upp eins konar her eða heimavarnarliði eins og Björn Bjarnason menntaráðherra lagði til fyrir helgina. Það er jafn eðlilegt og að ræða í alvöru, hvort Íslendingar eigi að taka þátt í Evrópusambandinu.

Slíkar tillögur fara í taugar þeirra, sem vilja ekki, að þjóðin eyði miklum tíma í innri ágreining. Þeir afgreiða hugmyndirnar með því að segja þessi mál ekki vera til umræðu. Þannig hafa hvorki orðið eðlileg skoðanaskipti um Evrópusambandið né um íslenzkar heimavarnir.

Íslendingar telja sig fullgildan aðila í fjölþjóðlegum samskiptum. Samt vantar hér einmitt það, sem frá ómunatíð hefur verið talin helzta forsenda ríkisvalds, eigin varnir gegn ytri áreitni. Ísland getur ekki varið sig og getur að því leyti ekki talizt vera fullgilt ríki.

Hingað til höfum við sparað þau 2-3% þjóðarframleiðslunnar, sem nágrannaþjóðir okkar leggja til varnarmála, og varið þeim í staðinn til að efla offramleiðslu dýrra landbúnaðarafurða. Flestir hafa verið fremur ánægðir með að losna við milljarðakostnað af herbúnaði.

Ísland hefur um leið afsalað mikilvægum hluta fullveldisins til Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna. Komið hefur fram, að Bandaríkjamenn eru orðnir þreyttir á hlutverki sínu og eru byrjaðir að rifa seglin í viðbúnaði sínum hér á landi. Framtíð varnanna er því óvís.

Öðrum þræði efast fólk um, að styrjaldir úti í heimi muni bera að ströndum Íslands. Það er falskt öryggi, því að skæruhernaður og hryðjuverk hafa að nokkru tekið við hlutverki hernaðar. Við sjáum þessa dagana, að hernaðarástand ríkir í Frakklandi vegna sprengjuhættu.

Við þurfum að geta mætt hryðjuverkum og hættu á hryðjuverkum. Til þess þarf sveitir, sem hafa þjálfun á þeim sviðum. Þótt víkka megi hlutverk björgunarsveita og Landhelgisgæzlunnar, er ekki líklegt, að það dugi til aðgerða á borð við þær, sem hafa verið í Frakklandi.

Að sjálfsögðu er nærtækara að efla Landhelgisgæzluna, sem hefur árum saman verið í svo römmu fjársvelti, að hún getur ekki haldið uppi gæzlu í efnahagslögsögunni og utan hennar, sem þó ætti að vera mikilvægasti og brýnasti þáttur íslenzkra heimavarna.

Hugsanlegt er að víkka svið Landhelgisgæzlunnar og efla hana til strandgæzlu, sem væri þá annað mikilvægt svið íslenzkra heimavarna. En varnir gegn hryðjuverkum eða öðru áreiti á landi væru þó tæpast á færi hennar, né heldur björgunarsveita samtaka áhugafólks.

Ef heimavarnir Íslands verða einhvern tíma skipulagðar, er líklegt, að Landhelgisgæzlan, björgunarsveitirnar og víkingasveit lögreglunnar geti gegnt veigamiklu hlutverki. Samt er freistandi að telja slíka skipan ófullnægjandi án sérstaks heimavarnarliðs atvinnumanna.

Þótt innlent herlið eða heimavarnarlið muni aldrei skipta máli í hefðbundnum hernaði, er líklegt að það geti aukið öryggi okkar gegn hernaði af því tagi, sem að undanförnu hefur verið háður á götum Frakklands og hefur verið að leysa hefðbundinn hernað af hólmi.

Heimavarnarliði má einnig fela það hlutverk að gæta ýmiss konar hernaðarbúnaðar, sem Bandaríkjamenn mundu skilja eftir, ef þeir minnkuðu enn frekar hlutverk sitt hér á landi, að svo miklu leyti, sem slík gæzla yrði ekki talin á færi borgaralegra starfsmanna.

Loks er líklegt, að varnarlið atvinnumanna geti tekið að sér þær skyldur Íslands að taka þátt í að koma á friði og að gæta friðar á ýmsum átakasvæðum í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjófar á þingi

Greinar

Forgöngumenn íslenzkrar spillingar sitja á Alþingi. Þeir hafa ákveðið að hækka laun sín langt umfram aðra aðila og stela mestum hluta hækkunarinnar undan skatti. Það gera þeir með því að búa til ímyndaðan 40.000 króna mánaðarlegan kostnað, án nokkurra reikninga að baki.

Þar með hafa alþingismenn ákveðið að láta önnur skattalög gilda um sig en almenna borgara. Aðrir landsmenn þurfa að gera grein fyrir kostnaði, sem dregst frá tekjum þeirra, áður en reiknaður er skattur af þeim. Hér gilda framvegis tvenn lög um tvær þjóðir í landinu.

Skattfrelsi 40.000 krónanna er allt annað og alvarlegra en skattfrelsi dagpeninga ríkisstarfsmanna. Hinir síðarnefndu fá bara dagpeninga, þegar þeir eru á ferðalögum og hafa af því kostnað. Hinir fyrrnefndu fá 40.000 krónurnar, þótt ekki beri þeir krónu í útgjöld á móti.

Það eina, sem líkja má við nýjustu skattsvik alþingismanna, eru dagpeningar, sem ráðherrar og makar þeirra fá á ferðalögum erlendis ofan á allan sannanlegan kostnað af ferðum þeirra. Ráðherrarnir brutu þannig ísinn í skattsvikum og nú fylgja minni þjófarnir í kjölfarið.

Hvort tveggja væri óhugsandi í vestrænum lýðræðisríkjum. Aðeins hér á landi eru stjórnmálamenn svo rotnir, að þeir lögfesta skattamisræmi, sem er í stíl við það, er hleypti frönsku stjórnarbyltingunni af stað fyrir rúmlega tveimur öldum og innleiddi lýðræði í Evrópu.

Alþingismenn verða ekki dregnir fyrir dómstóla fyrir að stela hver um sig 480.000 krónum á ári undan skatti. Þeir setja sjálfir lögin, sem skattsvikin byggjast á. Þeir heyrðu gagnrýnina á skattsvikin þegar í vor og hafa í sumar ákveðið að láta hana sem vind um eyru þjóta.

Nokkrir þingmenn ákváðu samt að taka ekki þátt í þessum lögverndaða stuldi. Þeir hyggjast ekki taka við skattfrjálsum greiðslum án þess að þær séu fyrir sannanlegum útgjöldum vegna starfsins. En þá má telja á fingrum sér, því að þeir eru aðeins um 10% þingmanna.

Siðferði Alþingis hefur minnkað á síðustu árum. Það var aldrei beysið, en er nú orðið að þjóðfélagslegu böli, sem rífur niður innviði þjóðfélagsins, dregur úr trausti og kemur í vegur fyrir nauðsynlega einingu smáþjóðar á erfiðri siglingu um nýjar aðstæður í umhverfinu.

Samsetning Alþingis hefur verið að breytast. Fækkað hefur eiginlegum stjórnmálamönnum í hefðbundnum skilningi og til sögunnar komið fyrrverandi bæjarstjórar og aðrir atvinnumenn í milligöngu um útvegun opinberra peninga heim í hérað. Sköffurum hefur fjölgað.

Því miður er ekki líklegt, að kjósendur muni eftir þeim fáu þingmönnum, sem ekki vilja svíkja undan skatti 40.000 krónur á mánuði og 480.000 krónur á ári. Þeir munu áfram kjósa skaffarana, sem hafa farið inn á nýjar slóðir í hinni séríslenzku pólitísku spillingu.

Þjófunum á Alþingi hefur í sumar gefizt tími til að átta sig á, að þeir munu komast upp með verknaðinn. Hin háværa gagnrýni hefur takmarkaða útbreiðslu meðal fólksins í landinu. Margir líta á skattsvikin sem eðlilega tilraun þingmanna til að bjarga sér í lífinu.

Þótt þingmenn komist þannig til skamms tíma upp með að stela undan skatti með hjálp starfsmanna Alþingis og embættis ríkisskattstjóra, komast þeir ekki undan því að verða dæmdir af sögunni. Í framtíðinni verða þingmenn nútímans stimplaðir sem hverjir aðrir þjófar.

Þjófarnir á þingi verða um síðir að svara til saka sagnfræðinnar fyrir að hafa grafið undan þjóðskipulaginu með því að semja lög um, að sérlög gildi fyrir sig.

Jónas Kristjánsson

DV

Fyrir fólkið

Greinar

Þegar Dagblaðið var stofnað fyrir sléttum tuttugu árum, var fjölmiðlun frumstæðari en hún er núna. Prentuðu fjölmiðlarnir voru hver fyrir sig að mestu leyti í þjónustu eins stjórnmálaflokks og ljósvakamiðlarnir voru í þjónustu stjórnmálaflokkanna sameiginlega.

Dagblaðinu var í upphafi sett það markmið að þjónusta almenning í landinu. Það átti ekki að vera fyrir neina efnahagslega, menningarlega eða pólitíska yfirstétt. Og það átti ekki að verða varðhundur fyrir gróið valdakerfi í heild eða einstaka hluta þess.

Í fyrsta skipti í sögu íslenzkrar fjölmiðlunar var opnað upp á gátt fyrir alls konar sjónarmið utan úr bæ í einum og sama fjölmiðli. Lesendabréf urðu fleiri og fjölbreyttari en áður höfðu þekkzt og kjallaragreinar eftir utanflokkahöfunda urðu að áhrifamiklum þætti í þjóðlífinu.

Neytendasíða hélt innreið sína í fjölmiðlun. Þar var og er enn reynt að veita upplýsingar, sem létti almenningi lífsbaráttuna. Neytendasíðan varð frá upphafi eitt helzta einkennistákn Dagblaðsins. Það er því vel við hæfi, að slíkt efni verður nú senn aukið í þessu blaði.

Skoðanakannanir í fjölmiðlum komu til sögunnar með Dagblaðinu. Þar með hættu talsmenn stjórnmálaflokkanna að geta haldið fram röngum fullyrðingum um stöðu flokka sinna í almenningsálitinu. Fólk gat komizt að hinu sanna án aðstoðar af hálfu sjónhverfingamanna.

Dagblaðið og síðan Dagblaðið-Vísir hefur jafnan lagt mikla áherzlu á hversdagslegar upplýsingar, sem gætu komið fólki að gagni. Þessi hversdagslega þjónusta, sem sumum finnst sumpart vera sparðatíningur, skipar töluvert rými í blaðinu, svo sem verið hefur frá upphafi.

Margt af þessu, sem hér hefur verið rakið, hefur verið tekið upp í öðrum fjölmiðlum og það með ágætum árangri. Það er fyrst og fremst eðlilegt svar við nýrri samkeppni. Þannig hefur sérstaða Dagblaðsins-Vísis orðið heldur minni en sérstaða Dagblaðsins var fyrst.

Meginlínurnar í sérstöðu Dagblaðsins-Vísis eru þó enn skýrar í samanburði fjölmiðla. Blaðið er sem fyrr gefið út fyrir litla manninn, almenning í landinu. Það tekur ekki tillit til valdamanna og valdakerfisins, sem þeir hafa byggt upp, heldur gætir hagsmuna borgaranna.

Blaðið hefur öðrum þræði verið róttækt og frekt, þegar það hefur tekið upp mál, sem ráðamönnum hefur mislíkað. Hinum þræðinum hefur blaðið verið óhlutdrægt, ekki gert upp á milli stjórnmálaafla. Það hefur verið óhlutdrægt án þess að láta stjórnmál eiga sig.

Fréttir blaðsins úr heimi stjórnmálanna hafa verið fréttir, en ekki nýjustu sannanir fyrir stóra sannleikanum, sem einkenndu fjölmiðla í landinu áður en Dagblaðið kom til sögunnar. Blaðið hefur viljað stunda gagnrýna óhlutdrægni fremur en hlutlausa og daufa óhlutdrægni.

Blaðið hefur eflzt mikið á tveimur áratugum og getað búið í haginn fyrir framtíðina. Það á góðan húsakost og vandaðan tæknibúnað, sem er enn að batna á þessum dögum. Blaðið er í stakk búið til að takast á við nýjar aðstæður í breyttri og sumpart nýrri fjölmiðlun.

Mikið er um að vera á DV í tilefni 20 ára afmælis Dagblaðsins. Veizluhöld verða í Perlunni síðdegis á morgun, þangað sem öllum er boðið, er áhuga hafa. Um leið er verið að vinna að ýmsum breytingum á efni og útliti blaðsins, sem smám saman munu koma í ljós í haust.

Breytingarnar verða í þeim anda, sem upphaflega markaði blaðinu svipmót þess fyrir tveimur áratugum. Þær verða í þágu almennra lesenda, litla mannsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir fyrirlíta kjósendur

Greinar

Ráðherrar okkar sýna í viku hverri, að þeir fyrirlíta neytendur landsins, það er að segja allan almenning í landinu. Um leið eru þeir að fyrirlíta eigin kjósendur. Það hlýtur að stafa af, að þeir vita, að þeir muni komast upp með það, þegar kemur að næstu alþingiskosningum.

Ríkisstjórnin hefur afskræmt aðild Íslands að svonefndu GATT-samkomulagi um frelsi í milliríkjaverzlun og aðild landsins að hinni nýju Alþjóðaviðskiptastofnun. Nokkrum sinnum í mánuði hverjum hefur komið í ljós, að hún svíkur neytendur um hagnaðinn af aðildinni.

Nú síðast hefur hún ákveðið að bjóða út tollfrelsiskvótann í GATT-samkomulaginu og afhenda þeim, sem eru tilbúnir að selja neytendum innfluttu vöruna á hæsta verðinu. Þar með ætlar hún að koma í veg fyrir, að þessi örsmái kvóti komi íslenzkum neytendum að gagni.

Í sumar hefur ríkisstjórnin verið að koma frá sér nokkrum reglugerðum, sem túlka GATT-samkomulagið eins og andskotinn túlkar biblíuna. Í öllum tilvikum er til hins ýtrasta sveigt af leið frelsis í milliríkjaviðskiptum og reynt að koma í veg fyrir hagsbætur neytenda.

Í mörgum tilvikum hefur ráðherrunum tekizt að hækka vöruverð til neytenda, svo sem mörg dæmi sanna. Í sumum tilvikum hafa þeir neyðst til að draga hækkanirnar að nokkru til baka, en það breytir ekki krumpuðu hugarfari, sem liggur að baki upphaflegu reglunum.

Sem dæmi um brenglað hugarfar ráðherra, sem fyrirlíta neytendur, er reglugerðin, sem hefði leitt til stórfelldrar hækkunar á jólatrjám landsmanna fyrir næstu jól, ef hún hefði náð fram að ganga. Ráðherrarnir hættu við hækkunina, en bíða áfram færis á öðrum sviðum.

Ráðherrarnir eru svo sokknir í fen stuðnings við innlendan landbúnað, að þeir eru að vinna að nýjum búvörusamningi, sem felur í sér sauðfjárræktarstuðning, er nemur meira en hálfum þriðja milljarði króna. Þeir sveifla milljörðunum um sig eins og verðlausir séu.

Stuðningur ríkisins við íslenzkan landbúnað í heild nemur þremur fjórðu hlutum af öllu verðmæti framleiðslunnar. Þetta er ekki stuðningur í hefðbundnum skilningi, heldur hrein forsenda framleiðslunnar. Allt líf þjóðarinnar snýst um að þræla fyrir þessu rugli.

Ekki er úr lausu lofti gripið, að stuðningurinn nemi þremur fjórðu hlutum verðmætisins. Það eru tölur frá Efnahagsframfarastofnuninni, sem ekki einu sinni íslenzka landbúnaðarráðuneytið hefur andmælt. Svo virðist, sem ráðherrarnir telji þetta hæfilegt ástand.

Ef ríkisvaldið hætti afskiptum af landbúnaði umfram aðra atvinnuvegi mundi Ísland verða að gósenlandi. Lífskjör þjóðarinnar mundu snarbatna, ef ekki væru hér innflutningshöft, framleiðslustyrkir og niðurgreiðslur. Við hefðum efni á að halda uppi skólum og sjúkrahúsum.

En ríkisstjórnin hefur valið og hafnað fyrir okkar hönd. Hún hefur tekið stuðning við landbúnað fram fyrir allar aðrar félagslegar, menntunarlegar og menningarlegar þarfir þjóðarinnar. Um leið hefur hún veðsett börnin okkar fyrir skuldasöfnun sinni í þágu landbúnaðar.

Og kjósendur eru harla kátir yfir þessu. Þeir eru ánægðir með ríkisstjórnina. Það hefur komið í ljós í skoðanakönnunum. Samt eru kjósendur allir neytendur og margir þeirra ekki ofhaldnir í lífskjörum. Það er því engin furða, þótt ráðherrar fyrirlíti kjósendur.

Meðan kjósendur halda áfram að haga sér eins og fávitar, er ekki von á, að við förum að minnka hinn vaxandi mun, sem er á lífskjörum okkar og nágrannaþjóðanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Gamaldags íhaldsstjórn

Greinar

Smíði fjárlagafrumvarpsins er svo langt komin, að meginlínur þess eru komnar í ljós. Þær einkennast af lítils háttar hækkun skatta og lítils háttar minnkun þjónustu án þess að draga verulega úr hallanum á rekstri ríkisins. Þær einkennast af plástrum hér og þar.

Það er einmitt einkenni ríkisstjórnarinnar, að hún tekur ekki í alvöru á hlutum, heldur fer hér og þar undan í flæmingi og reynir annars staðar að halda í horfinu. Hún er ríkisstjórn óbreytts ástands, hvert sem það er á hverjum tíma. Hún er íhaldsstjórn í gömlum stíl.

Ríkisstjórnin minnir á ríkisstjórnir sömu flokka, sem voru oft við völd fyrir viðreisnarárin. Þá var ekki heldur tekið á neinu og Ísland dróst aftur úr öðrum löndum, sem voru að jafna sig eftir heimsstyrjöldina. Uppskurður á þjóðfélaginu varð að bíða viðreisnarstjórnarinnar.

Að undanförnu hafa ríkisstjórnir í öðrum löndum verið að taka tímamótaákvarðanir um aðild að fjölþjóðlegum efnahagssamtökum og um að breyta þjónustu- og skattamynztri til samræmis við breyttar áherzlur og minni getu til að standa undir fyrra velferðarkerfi.

Þannig hafa til dæmis Norðurlönd reynt að taka þátt í Evrópu og breyta kostnaði við innviði þjóðfélagsins til að tryggja framtíðarstöðu sína. Ekkert slíkt hefur verið reynt hér á landi, enda virðist aftur komin til valda sú hugsun, að erlendar formúlur gildi alls ekki hér.

Almennt voru Íslendingar þeirrar skoðunar fyrir viðreisn, að reglur þjóðfélagsins ættu að vera aðrar hér á landi en í nálægum löndum. Hér ættu að vera höft og bönn, meðan frelsi gæti átt við annars staðar. Það kom fólki á óvart, að viðreisnin gat breytt þessu.

Íhaldssemi ríkisstjórnarinnar fellur að sjónarmiðum íhaldssamrar þjóðar, sem er vön að búa ein að sínu úti í hafi og hefur enga trú á útlendum hagfræðikenningum, allra sízt þeim, sem lykta af frjálshyggju af einhverju tagi, pólitískri, efnahagslegri eða atvinnulegri.

Hér vill fólk ekki taka þátt í Evrópusambandinu. Hér vill fólk ekki fara eftir undirrituðum samningum um fjölþjóðlegt viðskiptafrelsi. Hér vill fólk ekki hætta ríkisrekstri landbúnaðar. Hér vill fólk varðveita kvótana. Hér vill fólk hafa hlutina eins og þeir hafa alltaf verið.

Ríkisstjórnin og þjóðin vilja ekki vinna fyrir nýrri viðreisn þjóðfélagsins í stíl nágrannaþjóðanna, heldur bíða að hefðbundnum, íslenzkum hætti eftir nýjum happdrættisvinningum á borð við blessuð stríðin. Nú hefur menn um skeið dreymt um ný álver og stækkun álvera.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er káfað í vandamálin án þess að takast á við þau. Farnar eru sparnaðarleiðir, sem eru þess eðlis, að þær hafa að fyrri reynslu tihneigingu til að mistakast og leiða til aukins halla á fjárlögum. Og skattar hækka enn einu sinni.

Þetta þætti léleg frammistaða í nágrannalöndunum. Hér á landi mun hins vegar ríkja friður, af því að plástrar ríkisstjórnarinnar eru í samræmi við íhaldssaman vilja þjóðar, sem telur embættismennsku í kerfinu vera æðra þróunarstig en athafnaþrá utan þess.

Ríkisstjórnin er nær eingöngu skipuð fólki, sem enga eða nærri enga reynslu hefur af viðskipahlið atvinnulífsins. Hún er skipuð fólki, sem hefur nærri alla starfsævi sína verið á launum hjá hinu opinbera. Ráðherrarnir eru fyrst og fremst embættismenn og alls engir athafnamenn.

Einhvern tíma munu íhaldsstíflur stjórnar og þjóðar bresta og ný viðreisn koma okkur aftur í samband við nútímann. En það gerist ekki á þessu kjörtímabili.

Jónas Kristjánsson

DV

Þotulið stjórnmálanna

Greinar

Forseti Íslands hefur gagnrýnt ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar í Kína fyrir að setja Kínastjórn úrslitakosti um að fara að reglum Sameinuðu þjóðanna um slíkar ráðstefnur, því að henni verði slitið að öðrum kosti. Forsetinn taldi þetta vera stríðsyfirlýsingu.

Samkvæmt þessari skoðun forseta Íslands hefðu vesturveldin hvorki fyrr né nú átt að setja Serbum neina úrslitakosti í Bosníu. Bretar og Frakkar hefðu ekki heldur átt að setja Hitler úrslitakosti við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar. Hún talar eins og Chamberlain gerði.

Samkvæmt skoðun forsetans eiga stjórnarmenn lánastofnunar ekki að setja framkvæmdastjóra úrslitakosti um að hætta að lána út í hött eða hætta störfum að öðrum kosti. Yfirleitt ætti ekki að setja fólki neina úrslitakosti um að fara að lögum og rétti, heldur tala það til.

Það er óskemmtileg tilhugsun að reyna að ímynda sér, hvernig heimurinn væri, ef jafnan hefði verið farin milda leiðin. Og erfitt er að ímynda sér lögreglumenn ganga á eftir þjófi niður Laugaveg og reyna að fá hann til að brjótast inn á færri stöðum og stela minna.

Hitt er svo annað mál, að enginn á að setja fram úrslitakosti, nema hann ætli að standa við þá. Vesturveldin stóðu ekki við úrslitakosti sína í Bosníu og ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar í Kína ekki við sína. Þá er betra að fara sér hægt og sleppa úrslitakostunum.

En það var ekki þetta, sem forseti Íslands var að gagnrýna. Hún var ekki að gagnrýna, að fólk stæði ekki við úrslitakosti sína, heldur að það setti yfirleitt fram úrslitakosti. Þannig tala atvinnumenn kurteisinnar, sem búa í heimi friðarhjals og vináttufroðu í skálaræðum.

Kurteisisheimsóknir þjóðhöfðingja og ráðherra eru marklítill leikur, sem fer fram handan raunveruleikans. Þær koma ekki einu sinni á viðskiptum, því að leiðir efnahagslegra framfara liggja ekki um skálaræður kjólfatafólks. Viðskipti fylgja allt öðrum lögmálum.

Nú á dögum biðja viðskipti ekki um annað en að fá að vera frjáls. Um slíkt er fjallað í stofnunum á borð við Evrópusambandið, Efnahagssvæðið og arftaka GATT. Viðskiptakostir okkar fara eftir niðurstöðum í slíkum stofnunum, en ekki eftir friði og vináttu í skálaræðum.

Staða Kína í heiminum og afstaða ráðamanna okkar, jafnt ráðherra sem forseta, minnir í flestum atriðum á samskiptin við Sovétríkin sálugu. Þangað þeyttust menn í langri röð kurteisisheimsókna til að tala um frið og vináttu og viðskipti í alveg marklausum skálaræðum.

Utanríkisráðherra hefur verið með forseta Íslands í þessum kurteisisleik í Kína að undanförnu. Hann flytur okkur nærri daglega hamingjufréttir um kínverskt álver á Íslandi og annað í þeim dúr. Hann virðist ekki vita, að í Kína er siður, að menn segi já, er þeir meina nei.

Utanríkisþjónusta hefur hagnýtt gildi að því marki sem hún gætir hagsmuna Íslands og fylgir þeim fram í stofnunum á borð Evrópusambandið og Efnahagssvæðið í viðskiptum og Atlantshafsbandalagið, Öryggisráðstefnuna og Norðurlandaráð í pólitískum samskiptum.

Það hefur ekkert hagnýtt gildi fyrir Íslendinga, að forsetinn og utanríkisráðherrann séu að nudda sér utan í blóði drifna ráðamenn Kína. Ekki gagnaðist mönnum að nudda sér utan í ráðamenn Sovétríkjanna á sínum tíma. Og ekki hefði gagnast þeim að nudda sér utan í Hitler.

Friður, vinátta og viðskipti í skálaræðum eru leikur þotuliðs stjórnmálanna og kemur ekkert við þeim kalda veruleika, sem fær fólk til að setja úrslitakosti.

Jónas Kristjánsson

DV

Loksins

Greinar

Árásir herliðs vesturveldanna á víghreiður Serba í Bosníu eru betri en engar, þótt þær séu síðbúnar. Yfirmenn Atlantshafsbandalagsins hafa enn tækifæri til að klúðra þeim með of vægu framhaldi þeirra, þegar Serbar hafa gefið marklausar yfirlýsingar um stöðvun ofbeldis.

Serbar hafa eins og aðrir, sem vilja fara sínu fram án tillits til vesturveldanna, afar litla trú á getu þeirra til að standa í mannfórnum af völdum hernaðar. Þeir hafa séð ráðamenn vesturveldanna endurtaka marklausar hótanir í síbylju, án þess að láta verða af verkum.

Markleysið einkennir viðskipti vesturveldanna og Serba í Bosníudeilunni. Vesturveldin senda marklausar hótanir og Serbar gefa marklausar yfirlýsingar um vopnahlé. Þetta hefur gengið árum saman og grafið undan virðingu fyrir vesturveldunum og ótta við þau.

Bandaríkjamenn lögðu niður rófuna í Sómalíu, þegar átján hermenn þeirra féllu. Þeir höfðu áður flúið af hólmi í Líbanon, þegar nokkrir hermenn féllu þar. Þjóð, sem þolir ekki að sjá blóð, getur ekki haldið uppi heimsveldi. Hún gat ekki heldur lokið stríðinu við Írak.

Getuleysi Bandaríkjanna í hernaði sést vel af Víetnamstríðinu. Þar féllu 58.000 Bandaríkjamenn, sem samsvara 58 Íslendingum, miðað við fólksfjölda. Það samsvarar nokkurra ára fórnum Íslendinga til lífsbaráttunnar á hafinu. Samt höfum við ekki gefizt upp á sjómennsku.

Á Vesturlöndum er stórveldahnignunin átakanlegust í Bandaríkjunum. Hún er einnig mikil í Bretlandi, þar sem stjórnvöld hafa sífellt reynt að hella vatni á tillögur annarra um að fara loksins að gera eitthvað í Bosníu. Helzt eru það Frakkar, sem hafa stórveldisvilja.

Það kostar vilja að vera stórveldi og meiri vilja að vera heimsveldi. Þegar menn vilja ekki lengur borga kostnaðinn, leiðir það til álitshnekkis og minni áhrifa í umheiminum. Vesturveldin eru svo langt leidd á þessu sviði, að Atlantshafsbandalagið er orðið grínfígúra.

Þetta er baksvið Bosníustríðsins. Serbar hafa aldrei tekið mark á hótunum vesturveldanna, Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Til að vinna tíma hafa þeir oft skrifað undir samninga um vopnahlé, en hafa síðan aldrei beðið eftir, að blekið þornaði.

Reynslan segir Serbum, að nú eigi þeir að hafa hægt um sig að sinni til að draga úr áhuga vesturveldanna á frekari árásum. En síðan geti þeir fært sig upp á skaftið á nýjan leik, því að það þurfi mikið að ganga á til að vesturveldin taki við sér með nýjum árásum á Serba.

Brezk stjórnvöld eru þegar komin með bakþanka. Það vita Serbar og þeir munu því ekki láta sér segjast við lofthernað síðustu daga. Þeir telja sig hafa meira úthald en þeir hafa séð í garði vesturveldanna. Þeir munu halda áfram að þvælast fyrir friði og bíða nýrra færa.

Árásir vesturveldanna á víghreiður Serba eru síðbúnar og hafa lítil áhrif. Þær þurfa að vera víðtækari en þær hafa verið að undanförnu. Og vesturveldin þurfa að hafa úthald til að halda þeim áfram, unz knúin hafa verið fram endalok á útþenslustríði Serba í Bosníu.

Allt verður dýrara við að vera dregið á langinn. Af því að árásir vesturveldanna eru síðbúnar, þurfa þær að standa miklu lengur en ella til að sannfæra Serba um, að alvara sé á ferðinni. Enn eru árásirnar ekki komnar á það stig, að Serbar taki mikið mark á þeim.

En síðbúnar árásir eru betri en engar. Þær vekja vonir um, að vesturveldin hafi séð að sér og ætli ekki að sökkva dýpra í eymd og volæði fyrrverandi stórvelda.

Jónas Kristjánsson

DV