Greinar

Bannað að mótmæla

Greinar

Kínastjórn hefur verið að reyna að sveigja kvennaráðstefnur Sameinuðu þjóðanna í Peking og Huairou að hagsmunum sínum. Hún hefur komizt upp með að einangra frjálsu ráðstefnuna og takmarka aðgang að henni og nú er hún að reyna að hefta málfrelsi þátttakenda.

Fyrst reyndi stjórnin að minnka áhrif frjálsu ráðstefnunnar með því að flytja hana frá Peking upp í sveit til Huairou, sem er 45 km frá höfuðborginni. Síðan fór hún að neita óæskilegum konum um vegabréfsáritanir og þykjast ekki finna hótelpantanir annarra slíkra.

Kínastjórn telur til dæmis þær konur vera óæskilegar, er koma frá ríkjum, sem eru í stjórnmálasambandi við Taívan; konur, sem hafa tekið virkan þátt í að mótmæla meðferð Kínastjórnar á konum í eigin landi; og konur, sem hafa barizt fyrir mannréttindum Tíbetbúa.

Undanfarna daga hefur stjórnin reynt að setja reglur um skoðanir þeirra kvenna, sem komust gegnum nálaraugað. Hún hefur bannað hvers konar mótmæli gegn sér og svokallaðan róg um sig. Öll önnur mótmæli megi aðeins fara fram á einum skólaíþróttavelli í Huairou.

Þá hefur Kínastjórn miklar áhyggjur af farangri þeirra kvenna, sem hafa starfað að mannréttindamálum. Hún hefur látið leita í tvær klukkustundir samfleytt í farangri þeirra að prentuðu máli eða öðrum gögnum, sem hún telur hættuleg, og látið gera slíkt upptækt.

Ekkert ríki í heiminum nema Kína fengi að halda ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna upp á þessi fáránlegu býti. Kína reynir stöðugt að sveigja fjölþjóðlegt samstarf undir krumpuð lögmál alræðisstjórnarinnar og virðist í þessu tilviki hafa komizt upp með það.

Frjálsa ráðstefnan er fyrir löngu orðin hneyksli af ofangreindum ástæðum. Sænskar konur sýndu fyrir mörgum vikum rökrétt viðbrögð gegn þeim dónaskap kínverskra ráðamanna, sem þá var þegar kominn í ljós. Þær sitja heima, meðan aðrar lokuðu eyrunum og fóru.

Íslenzkir þáttakendur afsökuðu ferð sína með því, að þeir mundu nota tækifærið til að mótmæla framferði Kínastjórnar á ýmsum sviðum. Nú er komið í ljós, sem ferðalangarnir gátu sagt sér sjálfir, ef þeir hefðu kært sig um, að slík mótmæli verða hreinlega ekki leyfð.

Undirlægjuháttur íslenzkra þátttakenda á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna í Kína er í stíl við opinber samskipti ríkjanna. Íslenzkir ráðherrar eru sí og æ á ferðalögum til Kína og forseti Íslands er þar núna. Þessi miklu samskipti við forhertan glæpaflokk eru óviðeigandi.

Utanríkisráðherra Íslands gerði sig að viðundri í þessari viku með því að missa út úr sér, að hann hefði rætt við kínverska ráðamenn um hugsanlega byggingu kínversks álvers á Íslandi. Kínastjórn mun örugglega ekki reisa álver á Íslandi, ekki einu sinni lakkrísver.

Löngum hafa íslenzkir gróðafíklar ímyndað sér, að mikið væri að hafa upp úr viðskiptum við Kína, af því að þar væri stór markaður. Mannréttindakjaftæði mætti ekki skyggja á tækifærin. Í stað þess ættum við að nudda okkur upp við ráðamenn Kína, eins og nú er gert.

Skemmst er frá því að segja, að víðast höfum við betri tækifæri til góðra viðskipta en í Kína. Við höfum aðgang að margfalt víðari mörkuðum en við getum sinnt. Og það er í ríkjum, þar sem réttarstaða erlendra fjárfesta og kaupsýslumanna er margfalt betur virt en í Kína.

Sneypuferð íslenzkra kvenna á ráðstefnuna í Kína dregur vonandi úr líkum á, að Íslendingar láti Kínastjórn draga sig frekar á asnaeyrunum en þegar er orðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðskilnaðarstefna

Greinar

Stríðið í Júgóslavíu sálugu er blóðugt dæmi um, að hrein þjóðríki eru smám saman að leysa blönduð ríki af hólmi. Spánn er friðsælt dæmi um breytingar í svipaða átt. Milli þessara tveggja póla má víða um heim sjá dæmi um, að fólk vill hreinar línur í þessu efni.

Bandaríkin voru lengi dæmi um hið gagnstæða. Þar var að verki óskhyggja um suðupott þjóðanna, þar sem allra þjóða fólk utan úr heimi fengi griðastað til að lifa og starfa saman í friði. Samkvæmt kenningunni á suðupotturinn að móta nýja þjóð úr öllum þjóðabrotunum.

Ef frá er talin kúgun svertingja, gekk þetta nokkuð vel til að byrja með. En nú er svo komið, að þjóðirnar eru hættar að renna saman. Til dæmis búa aðfluttir Suður- og Mið-Ameríkumenn saman í hverfum og halda áfram að tala spænsku, en renna ekki inn í heildina.

Mikið af þjóðfélagsvandamálum Bandaríkjanna tengist þeirri staðreynd, að þar búa margar þjóðir samhliða og án samskipta. Þessar þjóðir skilja illa hver aðra og eiga í útistöðum, sem eru fyrirferðarmiklar í verkefnum lögreglunnar. Þess vegna er þjóðfélagið ekki í jafnvægi.

Bandaríkjamenn hafa tregðazt við að sjá þetta og líta enn á fjölþjóðaríki sem hærra stig á þróunarbrautinni en þjóðríki. Þess vegna studdu ráðamenn þeirra lengi innantóma ímynd sameinaðrar Júgóslavíu eftir að ráðamenn í Vestur-Evrópu vissu, að Júgóslavía væri látin.

Hinar miklu og svívirðilegu þjóðahreinsanir í arfaríkjum Júgóslavíu eru langt komnar með að mynda þar tiltölulega hrein þjóðríki, þar sem lítið er um þjóðernislega minnihlutahópa. Þannig hefur Slóvenía kyrrzt og þannig munu Króatía og Bosnía róast um síðir.

Hinir ofbeldisdrukknu Serbar, sem komu hryllingnum af stað og bera ábyrgð á 80-90% óhæfuverkanna, munu hins vegar búa við blóðugt og ótryggt ástand í þeirri Stór-Serbíu, sem þeir hafa verið að búa til. Þeir hafa næga minnihlutahópa til að ofsækja innan landamæra Serbíu.

Þegar Serbar hafa að mestu afgreitt Bosníumenn, munu þeir í vaxandi mæli snúa sér að Albönum í Kosovo og Ungverjum í Vojvodina. Blóðbað þeirra í Kosovo verður tæpast mildara en það hefur verið í Bosníu, af því að mikill meirihluti íbúa Kosovo er albanskur að þjóðerni.

Endanleg lausn vandans næst helzt í grísk-tyrknesku lausninni, sem felst í, að búin eru til landamæri og skipzt á minnihlutahópum. Þegar það hefur gerzt í Júgóslavíu heitinni, táknar það endalok margra alda gamalla tilrauna til að búa til fjölþjóðaríki á Balkanskaga.

Austurríska keisaradæmið og tyrkneska soldánsdæmið voru börn fyrri alda. Þau hrundu niður í lítil og afmörkuð þjóðríki. Þannig fóru líka 20. aldar tilraunirnar í Júgóslavíu og Sovétríkjunum. Á rústunum risu þjóðríki, sem bítast að balkönskum hætti um verðmæt héruð.

Rúanda og Búrúndí eru annað dæmi. Þar næst ekki jafnvægi, fyrr en búin hafa verið til aðskilin ríki Tútsíog Hútuþjóðanna. Því fyrr sem það gerist, þeim mun fyrr verður bundinn endi á blóðugt og ótryggt ástand. Umheiminum ber að stuðla að slíkum aðskilnaði.

Jafnvel í siðmenningu Vestur-Evrópu hefur gengið illa að varðveita fjölþjóðaríki. Belgía er meira og meira að breytast í flæmskt og vallónskt ríki. Og Spánn er hægt og bítandi að breytast á friðsaman hátt í aðskilin ríki með sífellt auknu sjálfstæði Baska og Katalóníumanna.

Almenna reglan er, að fólk verður að tala sama tungumál og eiga rætur í sama menningarheimi, ef því á að takast að lifa í sæmilegri sátt í skipulögðu ríki.

Jónas Kristjánsson

DV

Jöfnun og minnkun

Greinar

Þótt stuðningur ríkisvaldsins við sauðfjárrækt hafi lengi skorið í augu, er hann orðinn minni en stuðningurinn við ýmsar búgreinar, sem ekki búa við eins þrautskipulagt verðlagningar- og sölukerfi af hálfu ríkisins, svo sem svína- og kjúklingarækt og eggjaframleiðsla.

Fólk tekur betur eftir stuðningnum við sauðfjárrækt, af því að augljós er ríkisrekstur hennar á vegum svonefndra sex og sjö manna nefnda; af því að upp hleðst kjötfjall; og af því að þessi stuðningur hefur áratugum saman verið fyrirferðarmikill á fjárlögum ríkisins.

Fyrir fjórum árum nam stuðningur ríkisins við sauðfjárrækt 92% af tekjum hennar. Nú er stuðningurinn kominn niður í 62% og fer minnkandi. Hann er kominn niður fyrir 78% stuðning við svínarækt, 85% stuðning við kjúklingarækt og 78% stuðning við eggjaframleiðslu.

Þetta stafar af, að innflutningsvernd hinna greinanna vegur þyngra á metunum en ríkisrekstur sauðfjárræktar. Það gefur betri tekjur að hafa ekki samkeppni frá útlöndum en að njóta ríkisrekstrar í verðlagninu og sölu. Þessar nýju upplýsingar hafa komið mörgum á óvart.

Það er efnahagsframfarastofnunin OECD, sem hefur reiknað þetta út til að bera saman opinberan stuðning við landbúnað í aðildarríkjum stofnunarinnar. Enginn hefur vefengt prósentutölurnar, en Hagfræðistofnun Háskólans telur þó, að þær séu í lægri kantinum.

Stóra málið er eftir sem áður, að stuðningur ríkisins við landbúnað er meiri hér á landi en í nærri öllum ríkjum heims og að hann er meiri en þjóðfélagið getur staðið undir. Það sjáum við af vangetu íslenzka ríkisins til að halda dampi í heilbrigðis- og menntamálum landsins.

Í framhaldi af skýrslu OECD er þó rétt að staldra við og kanna, hvort ekki liggi meira á að beina sparnaðarspjótum ríkisins að þeim greinum, sem njóta meiri stuðnings en sauðfjárrækt heldur en að þrengja eins hratt að henni og gert hefur verið á undanförnum árum.

Tvennt þarf að hafa í huga, þegar reynt er að létta róður sauðfjárbænda. Í fyrsta lagi þarf þjóðin að losna við sífellda endurnýjun kjötfjallsins. Það gerist aðeins á þann hátt, að framleiðslan minnki, því að innanlandsmarkaðurinn fer minnkandi og sá erlendi er verðlaus.

Í öðru lagi valda svín og kjúklingar ekki sama álagi á gróður landsins og sauðféð gerir í sumum landshlutum. Afar brýnt er að stöðva beit á viðkvæmum afréttum móbergssvæðisins, svo sem afréttum Mývetninga, alveg óháð því, hvort hægt er að selja þaðan dilkakjöt.

Af þessum tveim ástæðum þarf ríkið í senn að beina stærri hluta af 62% stuðningnum vð sauðfjárrækt til að kaupa upp framleiðslurétt og gera sauðfjárbændum á viðkvæmustu stöðunum þar að auki sérstakt tilboð, sem leiði til þess, að sauðfjárrækt verði lögð þar niður.

En þessar aðgerðir þurfa að vera meira en kák, ef þær eiga að hafa þau áhrif, að sauðfjárbændur, sem búa við hagstæð skilyrði og kunna vel til verka, geti aukið framleiðsluna og haft af henni meiri tekjur en þeir hafa nú. Fækkun búa þarf að vera mun meiri en stækkun búa.

Um leið er orðið tímabært, að fólk átti sig á, að vandamál landbúnaðarins eru almenns eðlis og fylgja ekki bara hinum hefðbundnu greinum sauðfjár- og nautgriparæktar. Taka þarf mið af, að innflutningshöft eru afdrifaríkari aðgerð en annar markaðsstuðningur ríkisins.

Með prósentutölum OECD eru komin mælitæki, sem eiga að gera ríkinu kleift að setja sér markmið um jöfnun stuðningsins og minnkun hans í skilgreindum áföngum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vilja láta verkin tala

Greinar

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur ákveðið að bjóða út tryggingar 10.000 bíla á alþjóðlegum vettvangi til þess að ná iðgjöldum þeirra bíla niður um að minnsta kosti 15-20%. Þetta er djörf tilraun félagsins til að hamla gegn illa þokkaðri fáokun innlendu tryggingafélaganna.

Fyrsta skref félagsins fólst í tveggja kvölda símakönnun, sem leiddi í ljós, að rúmlega þriðji hver bíleigandi sagðist vera reiðubúinn að vera með í pakkanum. Af því að hér segja menn oft meira en þeir gera, hefur félagið áætlað, að tíundi hver bíleigandi verði í rauninni með.

Nú ætlar félagið að safna yfirlýsingum 10.000 bíleigenda um, að þeir séu tilbúnir að skipta um tryggingafélag, ef hagkvæmara tilboð bjóðist frá öðrum aðila. Með það í höndunum ætlar félagið síðan að bjóða allan pakkann í heilu lagi á alþjóðlegum tryggingamarkaði.

Félagið hefur þegar tekið upp þráðinn við erlend fyrirtæki til að kanna jarðveginn. Ráðamenn félagsins telja, að svona margir bílar séu freistandi, því að þeir geri nýju tryggingafélagi kleift að hazla sér völl hér á landi og leggja í þann kostnað, sem fylgir allri byrjun.

Það er ekki auðvelt verkefni, sem Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur tekizt á hendur með þessu framtaki. Ýmis ljón eru á veginum, sem taka verður tillit til. Ef dæmið gengur upp, munu ráðamenn félagsins hafa mikinn sóma af, en enginn verður óbarinn biskup.

Erfiðasti hjallinn kemur fyrst í ljós. Hann felst í landlægu þýlyndi Íslendinga, sem láta yfir sig ganga hremmingar, sem mundu kalla á hörð viðbrögð borgara í ýmsum öðrum löndum, svo sem í Bandaríkjunum. Íslendingar eru fúsir til mótmæla, en vilja ekki hafa fyrir þeim.

Fræg dæmi eru raunar til úr sögu Félags íslenzkra bifreiðaeigenda. Þá kom í ljós, að íslenzkir bíleigendur voru fúsir til að þeyta bílhorn í eina mínútu til að mótmæla benzínhækkun, en voru svo ófáanlegir til að taka strætisvagn í einn dag til sams konar mótmæla.

Þótt þriðji hver bíleigandi segist vilja taka þátt, er ekki víst að tíundi hver bíleigandi muni í rauninni skrifa undir. Það er því við ramman reip að draga, þar sem er ístöðuleysi og úthaldsleysi og einkum þó þýlyndi og vanþroski Íslendinga, þegar til kastanna kemur í alvöru.

Ef félagið kemst yfir þennan hjalla, verður eftirleikurinn ekki eins erfiður. Ljóst er, að innlendu ofbeldisfélögin hafa að undanförnu verið að safna digrum sjóðum í skjóli fáokunar. Áætlað er, að vextirnir einir af sjóðunum nemi 10.000 krónum á ári á hvern bíleiganda í landinu.

Þess vegna er líklegt, að einhver erlend tryggingafélög sjái sér hag í að bjóða í stóran pakka og nota magnið til að auðvelda sér að koma upp útibúi á Íslandi. Sjóðir tryggingafélaganna sýna, að iðgjöld bílatrygginga eru of há hér á landi og að unnt er að bjóða lægri iðgjöld.

Ef bíleigendum tekst þetta mikilvæga verkefni, er kominn grundvöllur fyrir því, að almennir borgarar átti sig á mikilvægi samtakamáttar gegn þeim aðilum, sem í skjóli þröngs og lengst af fremur lokaðs markaðar hafa rottað sig saman í fáokun á kostnað almennings.

Hingað til hafa markaðslögmál aðeins gilt til málamynda á mörgum sviðum hér á landi. Á flestum mikilvægum sviðum starfa fá og stór fyrirtæki, sem hafa með sér náið samráð um meðferð viðskiptamanna, og á sumum sviðum er raunar einokun ríkisfyrirtækis.

Fyrir utan afnám ríkisafskipta af landbúnaði er fátt, sem er betur til þess fallið að bæta lífskjör almennings en virk og öflug samtök hans gegn einokun og fáokun.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagsmunastríð um banka

Greinar

Einkavæðing ríkisbankanna er ekki dæmigert forgangsverkefni hinnar afturhaldssömu ríkisstjórnar, sem nú er við völd hér á landi. Þessi einkavæðing er að vísu í stjórnarsáttmálanum, en það er samt andstætt eðli helmingaskiptaflokka að minnka umsvif ríkisvaldsins.

Markmið stjórnarflokkanna hefur áratugum saman verið að tryggja sjálfum sér aðstöðu í ríkisvaldinu til að tryggja hagsmuni sína sem flokka og hagsmuni valinkunnra flokksbrodda og gæludýra flokksins úti um borg og bý, einkum fyrirtækja kolkrabba og smokkfisks.

Aðrir flokkar hafa hliðstæð markmið, en leggja þó fremur áherzlu á hagsmuni flokksbroddanna heldur en gæludýranna. Stjórnarflokkarnir hafa sérstöðu vegna áherzlu sinnar á hagsmuni stóru fyrirtækjanna í landinu annars vegar og landbúnaðarkerfisins hins vegar.

Innan kolkrabbans eru menn á báðum áttum um einkavæðingu ríkisbankans. Út á við styðja flestir valdamenn hans einkavæðinguna, af því að hún gefur fyrirtækjum þeirra tækifæri til að kaupa handa þeim stjórnarsæti með tilheyrandi völdum, virðingu og verðmætum.

Öðrum þræði eru menn kolkrabbans þó sáttir við ríkjandi ástand. Það hefur svo lengi, sem elztu menn muna, gefið fyrirtækjum kolkrabbans og smokkfisksins góðan aðgang að fé og stuðlað að veldi þeirra. Þess vegna er freistandi að varðveita mjólkurkúna eins og hún er.

Krafan um einkavæðingu kemur aðallega frá þeim, sem telja, að hagfræðileg lögmál eigi að gilda í þessu landi eins og í öðrum vestrænum löndum. Þeir telja hagkvæmt, að ríkið dragi úr umsvifum sínum og að harðari rekstrarsjónarmið úr einkageiranum ráði ferðinni.

Ráðamenn ríkisstjórnarinnar efast hins vegar um, að Ísland eigi að vera eins og önnur lönd. Forsætisráðherra er til dæmis mjög andvígur aðild að Evrópusambandinu. Einnig er opinber forsjárhyggja yfirgnæfandi þáttur í vinnubrögðum og viðhorfum flestra ráðherranna.

Ríkisstjórnin mun ekki hraða einkavæðingu bankanna. Hún mun á kjörtímabilinu fara með löndum og dunda við að breyta bönkunum í hlutafélög, af því að hún telur sig þannig vera að vinna í framangreindu ákvæði stjórnarsáttmálans án þess að gera það.

Eðlilegt er, að hlutafélagaskrefið valdi nokkrum titringi meðal valdamanna í helmingaskiptaflokkunum. Sumir flokksbroddar þiggja völd sín frá kjósendum og af setu í bankaráðum og kæra sig ekki um að víkja fyrir flokksbræðrum úr einkageiranum, en óttast, að svo verði.

Og það er alveg rétt. Með breytingu bankanna í hlutafélög verður lögð meiri áherzla á að fá í bankaráðin flokksholl gæludýr úr kolkrabba og smokkfiski, af því að þau verða talin hafa meira vit á viðskiptum og rekstri heldur en þeir, sem aldir eru upp í stjórnmálunum.

Deilan um breytingu ríkisbankanna í hlutafélög er því fyrst og fremst ágreiningur eða áherzlumunur milli hagsmunaaðila innan ríkjandi valdakerfis. Minna máli skiptir, að þjóðarhagur hefur líklega gott af, að harðari rekstrar- og útlánavenjur verði teknar upp í bankakerfinu.

Bankarnir eru þungur baggi á þjóðinni. Þeir hafa lánað svo bjánalega, að þeir þurfa að skattleggja núverandi viðskiptamenn um milljarða króna á hverju ári til að borga tapið af óforsvaranlegum útlánum. Þessi lán hafa einkum runnið til pólitískra gæludýra af ýmsu tagi.

Einkavæðing ríkisbankanna mun laga stöðuna, en miklu gagnlegra væri þó, ef erlendir alvörubankar vildu setja hér upp útibú til að keppa við þá um markaðinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Gölluð brú og dýr

Greinar

Hús voru skipulögð of nálægt mótum Vesturlandsvegar og Höfðabakka löngu eftir að umferðaræðar voru skipulagðar á þann hátt, að ljóst varð, að umferð á gatnamótunum mundi kalla á mikil umferðarmannvirki. Þessi mistök gera nýju brúna dýrari og óhagkvæmari en ella.

Þrengslin við brúna valda því, að ekki er hægt að hafa umferðarslaufu við eitt horn hennar. Þetta takmarkar kostina og leiddi til þess, að gatnamótin voru hönnuð án umferðarslaufa og með dýrum sveigjum á brúnni sjálfri að umferðarljósum, sem eru á henni miðri.

Slaufur gera umferðarljós óþörf. Þau spara ökumönnum tíma og einkum þó eldsneyti. Þess vegna er yfirleitt reynt að fullnýta dýr gatnamót með slaufum, ef búizt er við mikilli umferð. Og þess vegna er reynt að þrengja ekki um of að stöðum, þar sem slík gatnamót verða.

Miklabraut er dæmi um fyrirhyggju af þessu tagi, að undanskildum kaflanum um Hlíðarnar. Víðast hvar er gott svigrúm til að koma fyrir umferðarmannvirkjum framtíðarinnar. Skipulag húsa við mót Vesturlandsvegar og Höfðabakka er frávik frá þessari fyrirhyggju.

Áratuga gamalt aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir, að þessi gatnamót taki við mikilli umferð. Eftir þá ákvörðun gat enginn fullyrt, að ekki mundi einhvern tíma vera þörf á viðstöðulausri slaufuumferð á horninu. Og slíkt er ekki enn hægt að fullyrða árið 1995.

Mislæg gatnamót með umferðarljósum bæta það ástand, sem fyrir var, en fela ekki í sér þann árangur, sem vænta hefði mátt af miklum kostnaði. Niðurstaðan er hallærisleg málamiðlum milli þarfarinnar annars vegar og erfiðra aðstæðna við gatnamótin hins vegar.

Yfirleitt ofmeta skipulagsmenn og verkfræðingar ekki þörfina á svigrúmi við umferðaræðar og umferðarhorn framtíðarinnar. Við höfum áður séð verra klúður en það, sem blasir við á þessum gatnamótum. Mót Hafnarfjarðarvegar og Kársnesbrautar eru dæmi um það.

Þar var byggt á þrjá vegu of nálægt horninu. Ein afleiðingin er sú, að umferðin frá Reykjavík út á Kársnes er ekki leidd í eðlilegan sveig áður en komið er að brúnni, heldur leidd yfir hana og síðan í snöggum sveig upp undir húsvegg og loks þvert yfir umferðaræð.

Reykjavíkursvæðið var snemma skipulagt sem umferðarkerfi, löngu áður en farið var að skipulegga einstök hverfi innan rammans. Þess vegna hefur víðast verið gott tækifæri til að hindra, að óhóflega þröng byggð takmarkaði kostina við gerð umferðarmannvirkja.

Ábyrgðarmenn hönnunar á gatnamótum Vesturlandsvegar og Höfðabakka bera sig mannalega og segja, að alltaf hafi verið vitað, að þar þyrfti ekki umferðarslaufur. Það er röng og sérkennileg fullyrðing. Þetta var þvert á móti aldrei vitað og verður seint vitað með vissu.

Hinar dýru sveigjur á nýju brúnni og umferðarljós hennar, sem sóa tíma og eldsneyti ökumanna, eru minnisvarði um fyrri skipulagsmistök, sem mörkuðu hönnun brúarinnar of þröngan bás. Þarna hefði átt að vera bein brú með góðum slaufum á öllum hornum gatnamótanna.

Vonandi láta menn sér þetta að kenningu verða. Þegar hönnuðir skipuleggja byggðarhverfi framtíðarinnar, er mikilvægt, að þeir gefi gott svigrúm við horn umferðaræða, svo að mannvirki í nágrenninu séu ekki fjötur um fót, þegar kemur að hönnun á rándýrum gatnamótum.

Mislæg gatnamót kosta skattborgarana mikið fé, sem nýtist þá aðeins ökumönnum til fullnustu, að niðurstaðan feli í sér gatnamót með viðstöðulausum akstri.

Jónas Kristjánsson

DV

Nei þýðir já

Greinar

Enn einu sinni hefur íslenzkur dómari sent þolendum nauðgunar þau skilaboð, að þeir skuli ekki kæra. Að þessu sinni eru skilaboð dómarans skýr: Nei þýðir já. Þau ganga þvert á skilaboð, sem sett voru á plaköt fyrir verzlunarmannahelgi og sögðu: Nei þýðir nei.

Efnislega vefengdi dómarinn ekki, að atburðurinn hafði átt sér stað og að þolandinn hafði sagt nei. Hins vegar sagði dómarinn, að ekki hefðu fundizt ofbeldismerki á fatnaði eða líkama þolandans og þess vegna hefði neiið þýtt já og þetta væri hið bezta mál.

Með þessum eina dómi hefur verið eyðilagður hugsanlegur árangur af plakötunum, sem sett voru upp í sumar. Staðfest er, að réttarkerfið lítur svo á, að ekki sé nóg að tala íslenzku í svona tilvikum, heldur verði fólk að lenda í barsmíðum, svo að sjái á líkama og fötum.

Dómurinn kemur í röð margra annarra slíkra, þar sem dómarar gera kærendum nauðgana lífið svo leitt, að þeir sjá eftir kærunni. Þetta er hluti af þeirri útbreiddu lífsskoðun í karlrembuheimi dómstóla, að kynferðislegt ofbeldi sé bara eðlilegur hluti af lífsins gangi.

Einkum er þetta áberandi í úrskurðum vegna ofbeldis gegn börnum. Dómarar neita til dæmis að taka mark á framburði barna. Og séu málsatvik slík, að dómur sé ekki umflýjanlegur, nota dómarar ekki tólf ára refsiheimild, heldur þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dómarar eru í sama báti og lögreglumenn, einkum hjá Rannsóknalögreglu ríkisins, sem er illræmd karlrembustofnun. Konur, sem ekki sætta sig við nauðgun, verða raunar að sæta þrefaldri nauðgun. Fyrst er þeim nauðgað á vettvangi, síðan á varðstofu og síðast í dómsal.

Þessi gangur mála hefur nokkrum sinnum að undanförnu verið staðfestur sem eðlilegur í Hæstarétti. Þar hefur gjarna verið dregið úr refsingum, sem ákveðnar voru í héraði. Hæstiréttur lítur yfirleitt ekki á líkamlegt ofbeldi til jafns við fjárhagslegt ofbeldi.

Hæstarétt skipa afturhaldssamir yfirstéttarmenn, sem líta á innanstéttarofbeldi lágstéttarinnar sem ómerkilegan atburð, en hafa þeim mun meiri áhuga á verndun peningalegra verðmæta yfirstéttarinnar. Fyrir þeim er tóbaksþjófur meiri afbrotamaður en nauðgari.

Dómarar taka ekki mark á gildandi lögum um nauðganir, einkum á refsingarákvæðum þeirra. Þeir taka ekki mark á stefnu löggjafans á síðustu árum, sem hefur falið í sér hert viðurlög. Og þeir taka ekki mark á siðalögmálum nútímans. Þeir eru frosnir í gömlum karlrembuheimi.

Nauðgunarmál eru erfið. Tæknilega er ekki auðvelt að afla sönnunargagna. Rannsóknamenn eru óstjórnlega áhugalitlir um framvindu þeirra. Og síðan eru dómararnir eins og hér hefur verið lýst. Þetta veldur því, að konur telja ekki þýða að kæra nauðgun og gera það ekki.

Punkturinn yfir i-inu felst svo í viðbrögðum velferðarkerfisins. Nauðgarinn fær ókeypis læknis- og sáluhjálp, en þolandinn verður sjálfur að borga hluta af sinni læknis- og sáluhjálp. Og hann fær aldrei þær bætur, sem nauðgarinn á að borga honum. Ríkið ábyrgist þær ekki.

Mikilvægt er, að Alþingi bylti ófremdarástandi nauðgunarmála í ríkiskerfinu, eins og það hefur birzt þjóðinni á undanförnum misserum. Alþingi verður þegar í haust að senda steinrunnum rannsóknamönnum, dómurum og velferðarstjórum þau skilaboð, að nú sé nóg komið.

Alþingi þarf í haust með nýjum lögum að snúa við þeirri þróun, að hinir steinrunnu magni vantrú almennings á kerfinu og fyrirlitningu hans á þjóðskipulaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Misráðnar Kínaferðir

Greinar

Vestrænar ríkisstjórnir geta aðeins mótmælt nýafstöðnum kjarnorkutilraunum Kínverja með hangandi hendi, af því að Frakkar ætla að stunda slíkar tilraunir í næsta mánuði. Það er illfært að siða ríkisstjórnir heimsins, þegar vestræn ríkisstjórn brýtur alþjóðasamninga.

Kjarnorkutilraunir Frakka og Kínverja eru forkastanlegar. Þær stríða gegn alþjóðasamningum og draga úr líkum á, að siðlitlar ríkisstjórnir fari eftir alþjóðasamningum. Auk þess hafa kjarnorkutilraunir táknræna mynd hroka og fyrirlitningar stjórnvalda á umheiminum.

Kínverska stjórnin hefur samkvæmt aldagamalli hefð nánast enga tilfinningu fyrir því, að skoðanir í umheiminum skipti máli fyrir Kína. Kínversku ríkisstjórninni finnst útlendingar vera til þess eins nýtir að þéna undir Kína og til að hafa af þeim fjárfestingarfé.

Aukin hernaðarumsvif Kínverja valda áhyggjum í nágrannaríkjunum um þessar mundir. Landgöngulið frá Kína hefur hertekið umdeilda eyju, sem er miklu nær Filippseyjum og Víetnam. Og kínverskum eldflaugum er skotið í átt til Taívan í svokölluðu æfingaskyni.

Vaxandi rembings hefur gætt í hótunum Kínastjórnar um innrás í Taívan, sem hún telur vera hluta af Kína. Ennfremur bendir afstaða hennar til þróunar mála í Hong Kong til þess, að hún muni ekki virða gerðan samning, þegar hún á að taka þar við völdum eftir tvö ár.

Misráðið var að ákveða að halda kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína. Jafnréttisráðstefnur á alls ekki að halda í ríkjum, sem virða ekki jafnrétti frekar en önnur mannréttindi. Og Kína er orðið forusturíki þeirra afla heims, sem hafna vestrænni siðmenningu.

Kínverska stjórnin sýndi fyrirlitningu sína á útlendum konum með því að ákveða skyndilega að færa hinn frjálsari hluta hennar frá Peking, þar sem ríkisstjórnahluti hennar verður. Þá höfðu vestræn ríki tækifæri til að neita að mæta á ráðstefnuna, en notuðu það ekki.

Kínverska stjórnin flutti órólega hlutann frá Peking til að hann truflaði ekki hinn himneska frið á aðaltorgi borgarinnar, þar sem hún stóð á sínum tíma fyrir eftirminnilegu blóðbaði. Hún flutti þennan hluta í einangrun upp í sveit, þar sem minni hætta væri á uppistandi.

Töluverð umræða var um þennan flutning hér á landi. Þá komu fram óskir um, að íslenzku samtökin hættu við að senda konur á ráðstefnuna, en þær óskir náðu því miður ekki fram að ganga. Mun því verða gerð snautleg ferð til Kína á þessa ráðstefnu í næsta mánuði.

Íslenzka ráðstefnufólkið afsakar sig með því að segjast ætla að nota tækifærið til að koma á framfæri gagnrýni á stöðu jafnréttismála í Kína. Það er betra en ekki neitt. Slík gagnrýni verður þó veikburða og ekki traustvekjandi, af því að málsástæður gefa meira tilefni.

Íslenzk stjórnvöld hafa undanfarið tekið upp þann ósið að nudda sér upp við kínversk stjórnvöld. Núverandi ríkisstjórn Íslands og hin næsta á undan hafa stundað fjölmennar og gagnkvæmar heimsóknir ráðamanna með gamalkunnu froðusnakki um frið og vináttu.

Þar á ofan hafa íslenzkir ráðamenn vakið vonir um stóran markað í Kína fyrir íslenzkar vörur og þjónustu. Með stuðningi stjórnmálamanna var sett upp íslenzk lakkrísverksmiðja í Kína og fór hún umsvifalaust á hausinn. Þannig mun fara um allt íslenzkt fé í Kína.

Kína er fyrirferðarmesta vandræðaríki heimsins um þessar mundir. Skynsamlegt er fyrir ríki, samtök, fyrirtæki og einstaklinga að forðast Kína sem mest.

Jónas Kristjánsson

DV

Þegar vonin brestur

Greinar

Pantanir hjá skipafélögum um flutning búslóða til útlanda hafa verið óvenjulega miklar í sumar. Yfirvofandi landflótti í haust bendir ekki til mikillar bjartsýni meðal þessa fólks um, að svokallaður efnahagsbati skili því bættum lífskjörum á næstu mánuðum og árum.

Efnahagsbatinn hefur bætt rekstur fyrirtækja. Þau hafa hagrætt seglum eftir vindi og fundið sér nýtt jafnvægi með færra starfsfólki, meira álagi á starfsfólki og lakari kjörum þess. Þetta hefur sumpart verið nauðsynleg áminning um aukinn og efldan starfsaga.

Samt var reiknað með, að traustari grundvöllur fyrirtækja mundi efla kjark ráðamanna þeirra og að þeir reyndu að færa út kvíarnar. Það hefði leitt til útþenslu atvinnulífsins og aukinnar atvinnu fólks. Þetta hefur ekki gerzt. Fyrirtækin eru ennþá afar varfærin.

Ferðaþjónustan er eina bjartsýna atvinnugreinin. Flugleiðir hafa ákveðið að ráða 80 nýja starfsmenn vegna aukins Atlantshafsflugs á næsta ári. Þessi mikilvæga ákvörðun fyrirtækisins eflir vonandi bjartsýni annars staðar í ferðaþjónustunni og skyldum atvinnugreinum.

Á öðrum sviðum ríkir stöðnun og vonleysi. Sjávarútvegurinn reynir að halda sjó við árviss skilyrði minnkandi afla og bættrar nýtingar afla. Þetta hefur jafnazt út. Með aukinni hagræðingu hefur batnað rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, en atvinna og tekjur munu ekki batna.

Þeim fer fækkandi, sem líta á landbúnað sem atvinnugrein. Af stjórnvöldum er hann á báti með velferðarkerfinu. Þrjár af hverjum fjórum krónum í tekjum landbúnaðarins koma beint eða óbeint frá ríkisvaldinu. Engum dettur í hug, að atvinnutækifærum fjölgi í landbúnaði.

Timburmennirnir frá fjárfestingarfylliríi allra síðustu áratuga koma nú fram í fækkun verkefna í byggingariðnaði og engum horfum á neinum bata á því sviði í náinni framtíð. Enda er svartsýni iðnaðarmanna meiri en flestra annarra stétta og landflótti þeirra meiri.

Ísland er orðið svo staðnað land, að leitun er að háskólagrein, þar sem útskrifaðir sérfræðingar geta verið nokkuð vissir um atvinnu að loknu námi. Atvinnuskorturinn hvetur marga til framhaldsnáms í útlöndum, sem síðar leiðir til atvinnu og búsetu í útlöndum.

Atgervisflóttinn er ógnvænleg afleiðing þess, að vonir hafa daprazt. Atvinnulífið er einhæft og þarf lítið af háskólafólki. Opinberi geirinn hefur ekki ráð á fleira starfsliði. Helzta undankomuleið menntaðs atgervisfólks er að reyna að selja þekkingu sína og hæfni erlendis.

Hugbúnaðarvinna er gott dæmi um þetta. Hún er þess eðlis, að fólk getur fengið verkefni hvar sem er í heiminum. Hér er hún heft af völdum einangrunar, sem stjórnvöld hafa magnað með því að láta undir höfuð leggjast að tryggja stafrænar samgönguæðar til útlanda.

Þess vegna er nokkurn veginn ljóst nú þegar, að svokölluð hraðbraut upplýsinga og hin gífurlega atvinnuaukning Vesturlanda á því sviði mun fara að mestu leyti framhjá Íslandi, sem er að einangrast sem eitt allsherjar Árbæjarsafn til minningar um landbúnað við Dumbshaf.

Stuðningur kjósenda við mestu íhaldsflokka landsins og rammur íhaldsandinn yfir vötnum nýju ríkisstjórnarinnar hefur sannfært marga um, að svokallaður efnahagsbati muni alls ekki skila sér í auknum umsvifum atvinnulífsins og batnandi lífskjörum í landinu.

Þegar vonin brestur, er nærtækt að leita á vit menntunar, tækifæra og ævintýra í útlöndum. Því hringir síminn oft hjá búslóðadeildum skipafélaga þessa dagana.

Jónas Kristjánsson

DV

Félög gegn fáokun

Greinar

Ef Félag íslenzkra bifreiðaeigenda býður út ökutryggingar þeirra, sem þess óska, er hægt að fá erlend tryggingafélög til að bjóða kjör, sem lækka iðgjöld skyldutrygginga um mörg þúsund krónur á hvern bíl á ári. Um þetta þarf samtök, eins og um önnur hagsmunamál fólks.

Ekki þýðir að kvarta yfir því, að íslenzku tryggingafélögin safni digrum tjónasjóðum og hafi iðgjöld skyldutrygginga í því skyni tuttugu eða þrjátíu þúsund krónum hærri á ári en gengur og gerist í nágrannalöndunum, þar sem tjón eru ekki fleiri, stærri eða dýrari en hér.

Íslenzku tryggingafélögin eru ekki að gera annað en að gæta hagsmuna sinna. Þau eru fá og hafa samráð sín í milli um að bæta hag sinn á kostnað viðskiptamanna, sem eru margir og dreifðir. Koma Skandia inn í þessa fáokun hefur ekki aukið samkeppnina neitt að ráði.

Sundraðir eru ökumenn máttlitlir. Sameinaðir geta margir ökumenn hins vegar lagt fram viðskiptapakka, sem freistar erlendra tryggingafélaga. Það er verðugt verkefni fyrir Félag íslenzkra bifreiðaeigenda að rjúfa fáokun tryggingafélaganna með útboði á bílatryggingum.

Ekki skiptir minna máli, að félagið aðstoði við að auka samkeppni í benzínverði með því að stuðla að tilkomu fleiri seljenda. Við sjáum, að ótti olíufélaganna við ókomið Irving Oil hefur þegar leitt til þess, að fólk getur fengið ódýrara benzín með því dæla sjálft á bílinn.

Olíufélögin eru enn færri en tryggingafélögin og fáokun þeirra magnaðri. Óvíst er, að eitt nýtt olíufélag til viðbótar við þau tvö eða þrjú, sem fyrir eru, hafi miklu betri áhrif en fjölgun tryggingafélaga um eitt erlent félag. En lítil fjölgun er þó betri en alls engin fjölgun.

Fáokun íslenzkra banka hefur svipuð áhrif og fáokun olíu- og tryggingafélaga. Bankarnir hafa stundað fáránlegar lánveitingar, sumpart pólitískar, og komast upp með að láta heiðarlega viðskiptavini sína greiða sér milljarða á hverju ári upp í tapið af óráðsíu bankastjóra.

Því miður eru engin samtök á sviði viðskiptamanna bankanna. Það er hins vegar verðugt verkefni fyrir samtök fyrirtækja á ýmsum sviðum að leita erlendra tilboða í bankaviðskipti sín. Við verðum að fá hingað banka, sem ekki bera fortíðarbyrðar af völdum óhæfra bankastjóra.

Ekkert fæst með því að kvarta og kveina. Slíkt hljómar sem flugusuð í eyrum fáokunarstofnana. Fólk og fyrirtæki þurfa að bindast samtökum um að gæta hagsmuna sinna, svo að mark sé tekið á þeim. Þetta gildir líka um sveitarfélög, sem reyna að gæta hagsmuna íbúanna.

Þetta gildir um alla fáokun og einokun á Íslandi. Hér hefur verið fjallað um benzín, bílatryggingar og bankaþjónustu, en hefði eins verið hægt að fjalla um flug, póst eða síma. Hinir undirokuðu þurfa að taka saman höndum um að freista erlendra fyrirtækja til að starfa hér.

Þegar fólk og fyrirtæki hafa safnað hagsmunum hinna smáu á afmörkuðum sviðum í öflug samtök, er eðlilegt framhald, að slagkrafturinn verði notaður til að beita pólitískum þrýstingi gegn óeðlilegum áhrifum fáokunar- og einokunarstofnana á stefnu pólitískra laxveiðivina.

Vonandi tekst Félagi íslenzkra bifreiðaeigenda að ná viðskiptalegri og pólitískri stöðu til að berja á þeim, sem sitja yfir hlut bíleigenda. Það mundi hvetja til hliðstæðra aðgerða þolenda á öðrum sviðum. Okkur skortir til dæmis vígreif baráttusamtök neytenda landbúnaðarafurða.

Fáokunarstofnanir óttast að missa viðskipti og stjórnmálamenn óttast að missa atkvæði. Hinir smáu verða að standa saman um að rækta þennan mikilvæga ótta.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir hækka líka jólatrén

Greinar

Jólatré verða dýrari um næstu jól en þau hafa hingað til verið. Ríkisstjórnin notar svonefnt GATT-samkomulag um minnkuð innflutningshöft til að leggja sérstakt gjald á innflutt jólatré. Gjaldið leiðir til 40% verðhækkunar á hefðbundnum jólatrjám af venjulegri stærð.

Þetta er nýjasta dæmið af mörgum um, að ríkisstjórnin notar GATT-samkomulagið þveröfugt við yfirlýst markmið þess. Hún notar það til að koma á fót kerfisbundnum mismun á verði innlendra og innfluttra afurða, þegar hún neyðist til að heimila innflutning.

Örlítill hluti innfluttu trjánna verður þó á sérkvóta og sleppur við nýja gjaldið, alveg eins og í annarri búvöru. Enn er ekki ljóst, hvernig þessi gjaldfría búvara verður skömmtuð í hendur neytenda. Ljóst er þó, að ýmsir munu kunna við sig í hlutverki skömmtunarstjóra.

Athuganir hafa leitt í ljós, að grænmeti hefur í sumar verið umtalsvert dýrara en undanfarin sumur. Það stafar af nýju reglunum frá landbúnaðarráðuneytinu. Þær hafa verið notaðar til að hífa upp grænmetisverð, alveg eins og þær verða notaðar til að hækka verð á jólatrjám.

Hér á landi hefur GATT-samkomulagið þegar verið og mun enn frekar verða notað til að auka útgjöld neytenda í því skyni að bæta stöðu sérhagsmunahópa. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar stríðir gegn samkomulaginu og sýnir botnlausa fyrirlitningu á íslenzkum neytendum.

Neytendur eiga þessa fyrirlitningu skilið, af því að reynslan sýnir, að þeir láta flest yfir sig ganga möglunarlaust. Þeir halda áfram að kjósa stjórnmálamenn, sem eru yfirlýstir andstæðingar neytenda. Og þeir sýna yfirvaldinu því meiri hollustu, sem þeir eru meira barðir.

Undirstöður verðhækkana þessa árs voru reistar af fyrrverandi ríkisstjórn, sem seldi þáverandi landbúnaðarráðherra nánast sjálfdæmi um túlkun GATT-samkomulagsins á Íslandi. Hann beitti þessu sjálfdæmi til hins ýtrasta og sá nýi hefur bætt um betur.

Hefðbundið er, að ráðherra og embættismenn landbúnaðarmála á Íslandi starfi ekki með hagsmuni ríkis og þjóðar í huga, heldur séu framlengdur armur hagsmunasamtaka úti í bæ. Þetta hefur aukizt með árunum og náð hámarki í nýjustu reglugerðum ráðuneytisins.

Reynslan sýnir, að allir stjórnmálaflokkar landsins styðja þessa sérstöðu landbúnaðarmála í kerfinu. Þeir eru allir sammála því, að landbúnaðarráðuneytið ráði ferðinni, þegar árekstrar verða milli þess og annarra ráðuneyta, svo sem viðskipta- og umhverfisráðuneyta.

Til skamms tíma notaði pólitíska kerfið þessa bóndabeygju til að tefja fyrir og draga úr ávinningi neytenda af þróun vöruverðs og vörugæða í milliríkjaverzlun landbúnaðarafurða. Það er hins vegar nýtt, að hún sé notuð til að stíga skref aftur á bak til fortíðarinnar.

Þetta væri ekki framkvæmanlegt í öðrum ríkjum Vesturlanda. Þar mundu neytendur rísa upp til varna, ef ráðizt væri gegn hagsmunum þeirra á jafn purkunarlausan hátt og hér hefur verið gert á þessu ári. Erlendir neytendur mundu taka til varna á eftirminnilegan hátt.

Í nágrannalöndunum mundu samtök launafólks hafa forustu um að knýja stjórnvöld til að láta af ofsóknum í garð neytenda. Hér á landi eru forustumenn slíkra samtaka yfirleitt værukærir kontóristar, sem hafa reynzt alveg ófærir um að vernda lífskjör umbjóðenda sinna.

Ríkisstjórnin veit, að henni er óhætt að brjóta alþjóðasamninga til að taka sérhagsmuni fram yfir hagsmuni neytenda, sem ekki vilja bera hönd fyrir höfuð sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimsmarkaðsverð er rétt

Greinar

Nýsjálendingar flytja út mikið af landbúnaðarvörum og verða í útflutningi að sæta heimsmarkaðsverði. Þeir keppa til dæmis við Íslendinga um sölu lambakjöts og ráða miklu um, að verðið er svo lágt, að það dugir varla fyrir slátur- og flutningskostnaði hér heima.

Samt styðja Nýsjálendingar ekki sauðfjárrækt eins og við gerum. Meðan markaðsstuðningur við landbúnað hér á landi er 73% samkvæmt tölum frá efnahags- og framfarastofnuninni OECD, nemur stuðningurinn þar ekki nema 3% og er á allt öðrum sviðum en í sauðfjárrækt.

Talsmenn íslenzks landbúnaðar fara með rangt mál, þegar þeir halda fram, að heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum sé tilbúið verð, sem skili bændum ekki því verði, er þeir verði að fá til að hafa upp í kostnað og vinnu. Dæmið um Nýja-Sjáland sýnir þetta greinilega.

Ástralir eru önnur landbúnaðarþjóð, sem hefur útflutning búvöru að einum hornsteini efnahagslífsins og verður líka að sæta heimsmarkaðsverði á fjölbreyttum afurðum sínum. Samt er markaðsstuðningur við landbúnað þar í landi aðeins 10%, það er nánast enginn.

Nýsjálendingar og Ástralir eru í hópi auðþjóða heimsins og gera því töluverðar kröfur um lífsþægindi. Þjóðir þriðja heimsins gera minni kröfur af því tagi. Þær flytja út mikið af búvöru án þess að styðja landbúnaðinn neitt og selja auðvitað á heimsmarkaðsverði eins og aðrir.

Bandaríkjamenn eru í senn ein mesta auðþjóð heimsins og ein mesta útflutningsþjóð búvöru. Framleiðslan er fjölbreytt og rekstur bandarískra bænda er markviss. Markaðsstuðningurinn þar er aðeins 21% og er nánast allur á afmörkuðum sviðum, svo sem í hveitirækt.

Þegar hagsmunaðilar hér á landi og raunar líka á meginlandi Evrópu fárast út af því, að heimsmarkaðsverð sé marklaust, eru þeir bara að segja, að þeir geti ekki keppt við þetta verð, þótt bændur í öðrum heimsálfum geti notað það og hafi það sumir bara nokkuð gott.

Heimsmarkaðsverð ræðst af hagkvæmni í sérhæfðum rekstri, sem býr við ákjósanleg náttúruskilyrði. Í mörgum tilvikum, svo sem í Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi eru það engir kotkarlar, heldur vel stæðir bændur, sem standa fyrir þessu verði og selja á því.

Af því að heimsmarkaðsverð er raunhæft verð er eðlilegt að miða við það, þegar reiknaður er út markaðsstuðningur við landbúnað. Það hefur OECD gert í skýrslum sínum um landbúnað þátttökuríkjanna. Þar kemur fram, að íslenzki markaðsstuðningurinn er 73%.

Auðvitað er þetta allt of hátt. Það veldur of háu verði á búvöru á Íslandi, of háum sköttum og of litlu fjármagni til annarra félagslegra þarfa, svo sem til heilsugæzlu og skóla. Það er of dýrt fyrir okkur að halda uppi of miklum landbúnaði á jaðri freðmýrabeltisins.

Ríkinu ber í áföngum að hætta markaðsstuðningi við landbúnað, afnema hvers kongar innflutningshöft og verndartolla, niðurgreiðslur og styrki. Þannig ber ríkinu að afnema allan stuðning við landbúnað, sem er umfram eðlilega fyrirgreiðslu við atvinnuvegi yfirleitt.

Til að byrja með má nota töluverðan hluta af hagnaði ríkisins af slíkum aðgerðum til að borga bændum fyrir að bregða búi. Hvatt hefur verið til þess hér í blaðinu í aldarfjórðung við litlar vinsældir, en fyrstu skrefin til aðgerða hafa þó verið stigin á allra síðustu árum.

Heimsmarkaðsverð á búvöru er raunhæft verð. Ef við viljum, getum við fengið búvöru á því verði og stigið stærsta skref til efnahagsframfara í sögu okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólíkindalæti út úr kú

Greinar

Forsætisráðherra hefur upplýst, að markmið svokallaðs GATT-samnings hafi ekki verið að lækka vöruverð og bæta hag neytenda. Slíkt sé einhver misskilningur, sem hafi komizt á flot, af því að fjölmiðlar og nokkrir kaupmenn hafi búið til ástæðulausar væntingar.

Þetta er með sérstæðari söguskýringum síðari áratuga. Við sjáum fyrir okkur, að umboðsmenn ríkisstjórna heimsins hafi í algeru tilgangsleysi verið árum saman að reyna að berja saman samkomulag á vegum GATT og stofna upp úr því ný heimsverzlunarsamtök, WTO.

Samkvæmt skýringu forsætisráðherra virðist markmið þessarar miklu vinnu hafa verið að útvega embættismönnum tækifæri til ferðalaga og langdvala í útlöndum vegna samningaviðræðna um GATT-samninginn, það er að segja að búa til forsendur ferðakostnaðarreikninga.

Íslenzkir skattgreiðendur og neytendur segja fátt og virðast sáttir við söguskýringu forsætisráðherra. Ef til vill finnst okkur eðlilegt, að varið sé milljörðum króna út í loftið til að búa til samning, sem ekki á að hafa neitt þjóðhagslegt gildi fyrir aðildarríki samningsins.

Hitt er líklegra, að fólk viti, að ráðherrann var með ólíkindalæti án þess að honum stykki bros á vör, og sé nokkuð ánægt með það, af því að það sé viðurkennd umgengni leiðtoga lífs okkar við raunveruleikann, allt frá Jónum Prímusum bókmenntanna yfir í landsfeðurna.

Annað nýlegt dæmi um, að ráðherra tali af ástettu ráði út í hött, fólst í ummælum samgönguráðherra um, að illfærir stígar svonefndrar upplýsingahraðbrautar á Íslandi væru raunhæfar og fullnægjandi hraðbrautir á því sviði. Hann var kaldur karl og komst upp með það.

Þrátt fyrir söguskýringu forsætisráðherra fólst markmið í GATT-samningnum. Með honum átti að minnka hömlur á milliríkjaviðskiptum í áföngum til að bæta hag þjóða heims. Ríkisstjórn Íslands hefur hins vegar af alefli reynt að koma í veg fyrir þetta.

Með GATT-samningnum átti fólk að fá aðgang að ódýrari vörum til að lækka rekstrarkostnað sinn. Þetta gildir jafnt um almenning, fyrirtæki og heilar þjóðar. Þetta átti um leið að bæta samkeppnisaðstöðu þjóða á þeim sviðum, þar sem sérhæfing þeirra er vænlegust.

Við kunnum að meta þessa hugsun, þegar við viljum, að erlend ríki hleypi íslenzkum sjávarafurðum tolla- og hindrunarlaust inn fyrir sínar dyr. Við viljum hins vegar ekki nýta okkur hina hliðina með því að hleypa erlendri matvöru tolla- og hindrunarlaust inn fyrir okkar dyr.

Það er alls ekki svo, að innflutningsfrelsi sé eins konar greiðsla okkar fyrir útflutningsfrelsi. Við græðum nefnilega ekki minna á að veita erlendri vöru innflutningsfrelsi en á því að fá útflutningsfrelsi fyrir íslenzka vöru. Þetta er viðurkennd hagfræði GATT-samningsins.

Flestar ríkisstjórnir eru hallar undir þrönga sérhagsmuni, einkum innlendan landbúnað. Til þess að vernda þessa þröngu sérhagsmuni gegn almannahagsmunum var ákveðið að hafa samninginn í áföngum, svo að landbúnaður hvers lands fengi nokkurn aðlögunartíma.

Ríkisstjórn Íslands hefur hins vegar sett hemlana á fullt og sýnt mikla útsjónarsemi við að hindra, að þjóðin fengi neitt út úr GATT-samningnum. Fyrsta skrefið hefur því ekki lækkað vöruverð á Íslandi, heldur þvert á móti hækkað verð á nokkrum innfluttum landbúnaðarvörum.

Íslenzkir kjósendur vilja láta kvelja sig, eru ánægðir með þessa útsjónarsemi og hafa enn meira traust á leiðtoga sínum, þegar hann hefur talað eins og út úr kú.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýr nagli í kistuna

Greinar

Enn einu sinni er staðfest, að stuðningur skattgreiðenda og neytenda við innlendan landbúnað er allt of mikill og með því hæsta, sem þekkist í heiminum. Að þessu sinni kemur þetta fram í skýrslu Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar OECD um íslenzkan landbúnað.

Tillögur stofnunarinnar eru svipaðar og löngum hafa verið settar fram hér í blaðinu. Stjórnvöld verða að hætta afskiptum af verðlagninu búvara og afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, svo og að gera kleifa aukna samkeppni af hálfu innflutnings.

Ekkert af þessu mun ríkisstjórnin gera. Komið hefur fram, að hún fer aldrei bil beggja, þegar hagsmunir landbúnaðarins eru í húfi. Hún hindrar til dæmis alveg, að undirritun samningsins um Alþjóða viðskiptastofnunina komi innlendum neytendum að tilætluðu gagni.

Skýrsla Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar er athyglisverð, af því að þar er beitt sömu reikningsaðferðum og sama stofnun hefur áður beitt í hliðstæðum skýrslum um landbúnað í öðrum aðildarríkjum stofnunarinnar. Hún er því góð til samanburðar við útlönd.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerir þó strax þá athugasemd við aðferðir OECD, að þar vanti mat á þeim séríslenzku aðstæðum, að framleiðendur eiga afurðastöðvarnar og ráða verðinu. Það mat var hins vegar tekið inn í svipaða athugun hjá Hagfræðistofnuninni.

Alþjóða efnahagsframfarastofnunin mat markaðsstuðninginn við íslenzkan landbúnað á tíu milljarða króna á ári. Hagfræðistofnun Háskólans hafði áður metið hann á sautján milljarða króna. Hún mun nú skoða hina nýju útreikninga og bera saman við þá fyrri.

Tíu milljarðar á ári eru mikið fé. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem verður að loka sjúkradeildum barna og geðveikra. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem hefur ekki ráð á að halda dampi í skólakerfinu. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem býr við fjöldagjaldþrot heimila almennings.

Hins vegar er útilokað fyrir Íslendinga að væla út af lokunum sjúkradeilda, forgangsröðun sjúklinga, skólagjöldum og niðurskurði námslána, erfiðleikum í endurgreiðslum húsnæðislána og lélegum lífskjörum yfirleitt. Það eru þeir, sem hafa gefið landbúnaðinum forganginn.

Íslenzkir kjósendur hafa gefið nær öllum stjórnmálaflokkum landsins og þar með báðum stjórnarflokkunum umboð til að taka landbúnaðinn fram yfir aðra velferð þjóðarinnar með tíu eða sautján milljarða markaðsstuðningi á hverju ári. Um þennan forgang er þjóðarsátt.

Hinir árlegu tíu eða sautján milljarðar eru því ekki notaðir í skóla og sjúkrahús, lánasjóði og húsnæðissjóði. Þeir eru ekki notaðir til að lækka byrðar skattgreiðenda. Og þeir eru ekki notaðir til að bæta lífskjör almennings með lægra vöruverði. Þetta eiga kjósendur að vita.

Skýrsla Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar sýnir það, sem oft hefur verið sagt hér í blaðinu. Hún sýnir, að íslenzkur landbúnaður er ekki atvinnuvegur, heldur hluti félagslega kerfisins og er þar í samkeppni við skóla, sjúkrahús, trygginar, húsnæðislán og fleira slíkt.

Samkvæmt skýrslunni eru þrjár af hverjum fjórum krónum af tekjum landbúnaðarins komnar frá þessu opinbera stuðningskerfi. Þetta gekk, þegar sjávarútvegurinn gat framleitt verðmæti upp í hítina. Þegar geta sjávarútvegsins byrjar að bila, brestur ómagakerfið.

Fyrir aldarfjórðungi var byrjað að leggja til hér í blaðinu, að bændum yrði borgað fyrir að hætta búskap. Það er erfiðara í atvinnuskortinum nú, en samt ekki of seint.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvöfaldar tryggingar

Greinar

Samkvæmt nýjum útreikningum Félags íslenzkra bifreiðaeigenda greiða íslenzkir bíleigendur mun meira fyrir bíltryggingu en nágrannarnir gera og raunar tvöföld iðgjöld sænskra bíleigenda. Þessu valda ýmis atriði, en einkum þó fákeppni í tryggingum á Íslandi.

Fleiri atriði eiga þátt í þessum mikla mun. Til dæmis eru tjón tíðari hér á landi en í löndunum, sem samanburðurinn nær til. Þrír aðilar eiga sök á því: ríkið, sem leggur ekki góða vegi; ökumenn, sem aka ekki vel; og tryggingafélög, sem sundurgreina áhættuþætti ekki vel.

Vegagerð þingmanna leggur megináherzlu á lagningu spotta víðs vegar um landið til að þjónusta atkvæði, þótt ódýrara sé að leggja færri og lengri leiðir í einu. Þetta étur upp vegafé landsins og kemur einkum niður á þéttbýlinu, sem situr á hakanum hjá Vegagerð þingmanna.

Enginn vafi er á, að vinnubrögð Vegagerðarinnar leiða til fleiri, meiri og dýrari slysa en ella væru. Einkum á þetta við um helztu þjóðleiðir Reykjavíkursvæðisins, sem mestu fjársvelti sæta. Í umferðarþunga svæðisins verða mörg þau slys, sem mest magna útgjöld tryggingafélaga.

Íslenzkir ökumenn eru annálaðir. Margir þeir, sem aka heima og erlendis, eru sammála um, að þeim finnist þeir vera öruggari í margfalt þyngri umferð erlendra stórborga en í smábæjarumferðinni á Íslandi. Erlendis aka menn skipulega, en hér aka menn óútreiknanlega.

Að mörgu leyti hefur umferðarómenning Íslendinga versnað. Fáir gefa stefnuljós áður en þeir beygja. Fyrr á árum gáfu margir stefnuljós í beygjunni sjálfri, svona til sagnfræðilegra upplýsinga fyrir nærstadda. Nú er orðið algengt, að menn gefi alls ekki stefnuljós.

Tryggingafélögin hafa ekki heldur fundið umbunarleiðir, sem duga til að hvetja ökumenn til að komast slysalaust leiðar sinnar. Þau bjóða að vísu afslætti fyrir tjónalaus viðskipti í líkingu við það, sem gerist erlendis, en það virðist ekki duga til að halda slysum í skefjum.

Tryggingafélög þurfa að flokka ökumenn í fleiri áhættuflokka. Til dæmis þarf að taka meira tillit til tíðra slysa af völdum nýliða í umferðinni. Ennfremur þarf að taka meira tillit til þess, hvort ökumenn eru bindindismenn á áfengi, því að áfengi er mesti slysavaldurinn.

Fyrst og fremst þurfa tryggingafélögin að láta gera stærðfræðilega útreikninga á fylgni umferðartjóna við sem flest atriði, sem reiknanleg eru, og haga iðgjaldatöflum í samræmi við það. Yfirleitt nota tryggingafélögin allt of lítið af tryggingastærðfræðilegum útreikningum.

Annað atriði, sem veldur háum iðgjöldum, er, að erlend tryggingafélög hafa ekki séð sér hag í að bjóða bíltryggingar á Íslandi. Aðeins eitt erlent tryggingafélag hefur haslað sér völl hér á landi og virðist ekki bjóða miklu betri kjör en innlendu fáokunarfélögin gera.

Erlend tryggingafélög gera ekki strandhögg hér á landi, af því að þau óttast slæmar viðtökur íslenzkra bíleigenda. Þau telja, að þeir muni halda tryggð við gömlu okurbúlurnar, þótt þeim sé gefinn kostur á lægri iðgjöldum, af því að þeir þjáist af skorti á verðskyni.

Þetta er sennilega mikilvægasti þröskuldurinn í vegi lægri iðgjalda. Íslenzkir bíleigendur eru íhaldssamir og vilja ekki leita yfir bæjarlækinn að betri tilboðum. Þeir vilja svo sem samkeppni að utan, en vilja ekki sjálfir taka neinn þátt í að brjóta fáokunina á bak aftur.

Tryggingamarkaðurinn er orðinn frjáls. Ekki er lengur við innlendu fáokunina eina að sakast. Bíleigendur sjálfir verða að bindast samtökum um fá lág iðgjöld að utan.

Jónas Kristjánsson

DV