Greinar

Ánægð með ekkert

Greinar

Ekkert lát er á vinsældum ríkisstjórnarinnar, enda er ekkert lát á aðgerðaleysi hennar. Hún lofaði fáu, þegar markmið hennar voru sett á blað, og ekkert af því hefur komizt á rekspöl. Þetta er í samræmi við vilja þjóðar, sem er orðin þreytt á tíðum stjórnvaldsaðgerðum.

Ríkisstjórnin, sem var næst á undan þessari, var mjög virk. Einkennisráðherrar hennar voru Sighvatur Björgvinsson, sem stóð í sífelldum átökum við niðurskurðartilraunir, og Jón Baldvin Hannibalsson, sem beitti liðugum talanda til að hrella mann og annan í tíma og ótíma.

Ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar voru daglegir gestir í sjónvarpsfréttum. Suma daga snerust hálfir fréttatímar sjónvarpsstöðva um viðtöl við ráðherra. Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar sjást mun sjaldnar á skjánum, enda munu menn ekki verða eins fljótt langþreyttir á þeim.

Ríkisstjórnin hefur takmarkaðan hugmyndafræðigrunn. Hún er fyrst og fremst ríkisstjórn hinna vel settu fyrir hina vel settu. Hún reynir að varðveita ríkjandi hagsmuni í þjóðfélaginu, einkum og sér í lagi landbúnaðarins og stórfyrirtækja kolkrabbans og smokkfisksins.

Þetta er þannig hin hefðbundna helmingaskiptastjórn Íhalds og Framsóknar. Hún er fremur andsnúin smælingjum, hvort sem þeir eru neytendur, láglaunafólk, styrkþegar af ýmsu tagi, börn eða konur, og reynir að hafa hemil á margs konar velferð í þágu smælingjanna.

Mikill meirihluti kjósenda er ánægður með þetta. Menn eru til dæmis mjög ánægðir með, að ríkisstjórninni skuli hafa tekizt að hindra, að innihald fjölþjóðlegra viðskiptayfirlýsinga nái fram að ganga hér á landi. Meirihluti kjósenda vill alls ekki efla hag neytenda.

Hvenær sem rekast á hagsmunir innlendra matvælaframleiðenda og innlendra neytenda, sem gerist anzi oft, tekur ríkisstjórnin skýra afstöðu með hinum fyrrnefndu. Hún lítur á sig sem verndara landbúnaðarins gegn vaxandi heimtufrekju neytenda og kemst upp með það.

Hin hefðbundna stjórnarandstaða er meira eða minna máttvana gegn þessum merkilegu staðreyndum. Raunveruleg stjórnarandstaða hefur færzt í hendur kaupmanna Bónusar og Hagkaups og á fréttastofur ýmissa fjölmiðla, sem kann ekki góðri lukku að stýra.

Erlendir sendiherrar bjuggust ranglega við, að ríkisstjórnin mundi hugsa sér til hreyfings í átt til Evrópu á kjörtímabilinu. Það sýnir gagnsleysi slíkra embætta, að sendiherrarnir vissu ekki það, sem augljóst var, að forsætisráðherrann var og er andvígur slíkri þróun.

Þegar kjörtímabilinu lýkur á síðasta ári aldarinnar verður ekki búið að leggja neinn marktækan grunn að þátttöku Íslands í Evrópu 21. aldar. Þá verður þjóðin enn í fangelsi þeirra hagsmuna, sem ráða ríkinu, landbúnaðar og stórfyrirtækja kolkrabbans og smokkfisksins.

Svo íhaldssöm er ríkisstjórnin, að hún getur ekki hugsað sér að leggja í ódýrar aðgerðir til að gera Íslendinga gjaldgenga á upplýsingahraðbraut nútímans. Hún hyggst afhenda íhaldssamri einokunarstofnun aðstöðu til að selja dýran aðgang að níðþröngum upplýsingastígum.

Ríkisstjórnin hæfir íhaldssamri eyþjóð, sem alltaf hefur vitað, að allt er bezt á Íslandi. Hún hæfir þjóð, sem telur, að sjávarútvegur sé hina eina og sanna uppspretta verðmæta, sem síðan eigi að brenna í landbúnaði. Hún hæfir þjóð, sem telur, að hver sé sjálfum sér næstur.

Af þessum ástæðum er þjóðin ánægð með, að ríkisstjórnin skuli litlu lofa og gera enn minna, en standa dyggan vörð um afmarkaða hagsmuni aftan úr fortíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Séra Jón er bara Jón

Greinar

Danskt máltæki segir, að þeim, sem guð gefi embætti, gefi hann líka skilning. Það felur í sér, að persónur vaxi upp í þau embætti, sem eru of stór fyrir þær, þegar þær byrja. Máltækið á rætur sínar í fyrri öldum, þegar minni kröfur voru gerðar til valdsmanna en núna eru gerðar.

Annað máltæki nútímalegra hefur leyst þetta af hólmi. Það segir, að menn hætti að hækka í tign, þegar þeir nái getuleysisstigi sínu. Þess vegna séu flest embætti skipuð mönnum, sem ekki ráði við þau. Ef þeir réðu við embættin, hefðu þeir hækkað upp í enn hærri embætti.

Máltækin lýsa raunar tveimur hliðum á sama hlutnum. Munurinn er sá, að fyrra máltækið gerir litlar kröfur til valdsmanna, en hið síðara miklar. Í rauninni skiptir litlu, hvort Jón eða séra Jón gegnir valdsmannsstöðu. Jón á eyrinni gæti gegnt henni eins og séra Jón gerir.

Valdsmannsstöðu fylgir virðing, sem persóna nýtur, þótt hún hafi litla embættisgetu. Virðingin leiðir af embættinu sem slíku og því valdi, sem það veitir, en ekki af embættisfærslu valdsmannsins, sem yfirleitt er upp og ofan. Fólk ber virðingu fyrir valdinu sem slíku.

Þegar hér er talað um embætti, er ekki aðeins átt við stöður í opinbera geiranum, heldur einnig í einkageiranum, þar sem afleiðingarnar eru raunar mælanlegri. Stórforstjórar hafa leitt margt fyrirtækið út á kaldan klaka, af því að þeir réðu engan veginn við embætti sín.

Fyrir allmörgum árum leiddu ævintýralega launaðir stórforstjórar heimsfyrirtækið IBM út á jaðar gjaldþrots vegna vanmats á einmenningstölvum. Með snarræði tókst helztu hluthöfum á síðustu stundu að skipta út forstjórum og kippa fyrirtækinu af bjargbrúninni.

Hér á landi eru tugir dæma um, að fyrirtæki lifa hreinlega ekki af aðra eða þriðju kynslóð forstjóra. Viðskiptasaga Reykjavíkur einkennist af þeirri staðreynd, að sjaldgæft er, að fyrirtæki lifi af þrjár kynslóðir forstjóra. Austurstræti og Laugavegur eru minnisvarði um þetta.

Helztu valdamenn Bandaríkjanna og Bretlands, Clinton og Major, eru dæmi um stjórnmálamenn, sem valda ekki hlutverki sínu. Þeir gætu ráðið við að vera ráðherrar í friðsælu umhverfisráðuneyti á Íslandi, en þeir hafa jafnan verið úti að aka í aðkallandi heimsmálum.

Bosnía er dæmi um ráðleysi þeirra og nokkurra annarra valdhafa í stórveldum heimsins og í helztu fjölþjóðasamtökum, sem sinnt hafa Bosníudeilunni. Annað hvort áttu þeir að láta málið afskiptalaust eða taka það föstum tökum. Í staðinn hafa þeir farið undan í flæmingi.

Stöðug útgáfa algerlega marklausra hótanabréfa hefur grafið svo undan áliti helztu stórvelda og fjölþjóðasamtaka hins vestræna heims, að þriðja heims tindátar taka ekki lengur nokkurt mark á vestrænum valdhöfum. Þetta hefur valdið Vesturlöndum miklu og vaxandi tjóni.

Íslenzkir valdamenn þurfa blessunarlega ekki að taka afdrifaríkar ákvarðanir um Bosníu. Ef utanríkisráðherra okkar væri í stöðu Clintons eða Majors, mundi hann hafa flaskað á sömu atriðum og þeir. Ummæli hans um alþjóðamál benda ekki til, að hann hafi næga yfirsýn.

Utanríkisráðherra okkar er gott dæmi, af því að hann er talinn hæfari valdsmaður en gengur og gerist hér. Sem sjávarútvegsráðherra stóðst hann þrýsting hagsmunaaðila og gat haldið sjó í kvótakerfinu. En getur hann skipt um skoðun núna, þegar kvótakerfið er orðið úrelt?

Raunsæið eykst, ef Jónar þjóðfélagsins átta sig á, að séra Jónar þess eru ekki miklu hæfari en venjulegir Jónar til að sinna valdastöðum stofnana og fyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV

Hann er samt velkominn

Greinar

Heimsókn forseta Taívans til Íslands væri hið bezta mál. Við þurfum að taka upp betri samskipti við það merka ríki, sem er í örum uppgangi sem lýðræðisríki og efnahagsveldi. Miklu nær væri raunar að hafa sendiherra þar en í hryllingsríkinu Kína á meginlandinu.

Taívan hefur undanfarin ár siglt í kjölfar Japans með efldu lýðræði og bættum efnahag. Þessi tvö ríki og Suður- Kórea að auki eru kraftaverkin í Austur-Asíu, útverðir lýðræðislegra og efnahagslegra framfara. Við eigum að vera í sem beztu sambandi við þessi þrjú undraríki.

Frá sjónarmiði viðskipta ættum við að hafa sameiginlegan sendiherra í þessum þremur löndum, en alls engan í Kína. Við höfum mikil og góð viðskipti við Japani. Þau hafa dafnað af sjálfu sér, alveg án fjölmennra heimsókna opinberra sendinefnda og hástemmdra yfirlýsinga.

Við þurfum að víkka japönsku viðskiptasamböndin til Taívans og Suður-Kóreu um leið og þjóðum þeirra ríkja vex fiskur um hrygg í efnahagsmálum. Þar verður senn mikil kaupgeta eins og er nú í Japan, sem um þessar mundir er okkar mesti hátekjumarkaður í heimi.

Samskipti okkar við Kína eru hins vegar einskis virði frá sjónarmiði viðskipta. Og raunar er út í hött að hafa þar sendiherra. Það getur aldrei orðið okkur annað en til vandræða, því að kínversk yfirvöld eru sí og æ að heimta, að önnur yfirvöld beygi sig fyrir þeim.

Svo undirgefnir eru menn kínverskum ráðamönnum, að þeir hlaupa upp út af því, hversu vingjarnlega forseti Íslands hafi talað til forseta Taívans við blaðakonu frá því landi. Hafi forseti Íslands látið góð orð falla í viðtalinu, er það ekki hneyksli, heldur hið bezta mál.

Undirlægjuhátturinn gagvart kínverskum ráðamönnum er hins vegar orðinn að hneyskli. Hinar tíðu ferðir íslenzkra ráðherra til Kína eru hneyksli og sömuleiðis opinberar heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands. Þetta eru gagnslaus samskipti við pólitísk úrhrök.

Kína verður seint annar eins kostamarkaður fyrir íslenzkar afurðir og markaðurinn er í Japan, Taívan og Suður-Kóreu. Kínverjar munu um langan aldur greiða sultarverð fyrir íslenzkar afurðir. Enda hafa ekki dafnað nein viðskipti, þrátt fyrir opinberar heimsóknir.

Enn síður eru nokkrar líkur á, að íslenzk fjárfesting í Kína muni skila sér. Þvert á móti mun fara fyrir allri íslenzkri fjárfestingu þar í landi nákvæmlega eins og lakkrísverksmiðjunni frægu, sem Halldór Blöndal samgönguráðherra var svo ánægður með á sínum tíma.

Öflugri fjárfestar en Íslendingar eru nú sem óðast að komast að raun um, að kínversk stjórnvöld nota ekki lög og rétt, heldur geðþótta og tilskipanir í samskiptum við erlenda fjárfesta. Þau vilja ekki samstarf við erlenda aðila, heldur reyna þau að kúga þá og hafa af þeim fé.

Þolanlegt er að tapa á viðskiptum við gott fólk, en því er alls ekki til að dreifa með kínverska viðsemjendur okkar. Ráðamenn Kína eru blóði drifnir glæpamenn, sem halda hundruðum milljóna manna í stærsta fangelsi heimsins. Kína er heimsins mesta kúgunarmiðstöð.

Ráðamönnum okkar ber að hætta þeirri ógeðfelldu iðju að sleikja ráðamenn Kína til að gefa okkur færi á að tapa peningum á viðskiptum og fjárfestingu í Kína. Miklu nær er að beina sjónum okkar að Taívan, þar sem pólitíska loftið er hreinna og hagnaðarlíkur meiri.

Þess vegna skal forseti lýðræðisríkisins Taívans ævinlega vera velkominn hingað til lands, en blóði drifnir ráðamenn alræðisríkisins Kína hins vegar alls ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrænir aular

Greinar

Símahleranir hafa leitt í ljós, að her Bosníu-Serba er stjórnað af yfirmönnum júgóslavneska hersins. Ennfremur hafa fundizt skjöl, sem sýna, að yfirmönnum og verkstjórum herja Serba eru greidd laun af júgóslavneska hernum. Óargadýrin lúta yfirstjórn.

Einnig er ljóst, að það var júgóslavneski herinn, sem miðaði út bandarísku könnunarþotuna, sem skotin var niður yfir Bosníu. Loks hefur komið í ljós, að Júgóslavíustjórn hefur áfram haldið að búa Bosníu-Serba vopnum og vistum, þrátt fyrir formlega lokun landamæranna.

Áður var vitað, að Milosevits Serbíuforseti hóf stríðið í Bosníu. Hann réð strax stefnu stríðsins, sem fólst í, að geðveikum óargadýrum var sigað á óbreytta borgara, með skipulögðum morðum og nauðgunum, pyndingum og hreinsunum á tugþúsundum sakleysingja.

Lengi hefur verið vitað, að helztu ráðamenn Bosníu- Serba eru snargeðveikir morðingjar, þar á meðal Radovan Karadzik forseti og Radco Mladic herstjóri. Stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur mál þeirra til meðferðar. Raunveruleg ábyrgð á stríðsglæpum Bosníu-Serba hvílir þó hjá Slobodan Milosevits Júgóslavíuforseta.

Þótt allir aðilar í styrjöld Serba, Króata og Bosníumanna hafi framið stríðsglæpi, er þó komið í ljós, að meira en 90% glæpanna hafa verið framdir af Serbum og í þágu krumpaðrar hugsjónar um Stór-Serbíu, sem er undirrótin að hörmungum almennings á Balkanskaga.

Ráðamenn Vesturlanda hafa vitað þetta árum saman, þótt þeir reyni að þegja yfir því. Það hefur lengi verið vitað, að Milosevits Júgóslavíuforseti segir aldrei satt orð, en fer sínu fram með undirferli og svikum. Samt eru vestrænir ráðamenn sífellt að semja við hann.

Umboðsmenn vestrænna ráðamanna og ráðamanna Sameinuðu þjóðanna eru sí og æ að skrifa undir marklaus plögg á borð við vopnahléssamninga og senda ráðamönnum Bosníu-Serba marklaus hótunarbréf. Mótaðilinn hefur aldrei tekið mark á neinum slíkum pappírum.

Þótt þetta sé allt hin mesta sorgarsaga, er hún ekki gagnslaus með öllu. Þeir, sem vita vilja, sjá nú, að Vesturlöndum er undantekningarlítið stjórnað af villuráfandi aumingjum, sem eru ófærir um að takast á við verkefni, er krefjast greindar, framsýni og áræðis.

Þetta gildir raunar ekki aðeins um ráðamenn stærstu ríkjanna á Vesturlöndum, svo sem Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýzkalands, heldur einnig nokkurra annarra ríkja, sem hafa með ýmsum hætti stuðlað að hneykslinu, svo sem ráðamenn Grikklands og Spánar.

Þetta gildir líka um sáttasemjara, herstjóra og aðra umboðsmenn umheimsins á Balkanskaga. Frægur af endemum er pólitískur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna á svæðinu. Einnig hafa sáttasemjararnir staðið sig afar illa, þeir Vance, Owen og Stoltenberg. Þeir hafa leikið fífl.

Engin atburðarás hefur opnað þvílíka innsýn í hnignun og hrun Vesturlanda. Með afskiptum sínum af málinu hefur Nató reynzt vera farlama öldungur, sem er gersamlega ófær um nokkuð annað en að nöldra og væla. Tilgangsleysi Nató eftir lok kalda stríðsins er kristaltært.

Atburðarásin hefur sýnt, að þjóðskipulag Vesturlanda leiðir nú til vals á ráðamönnum og öðrum ábyrgðarmönnum, sem kunna að geta ráðið við hversdagsleg viðfangsefni heima fyrir, en eru alveg ófærir um að gæta víðra langtímahagsmuna Vesturlanda í umheiminum.

Þessir ráðamenn og ábyrgðarmenn munu reynast jafn óhæfir um að mæta öðrum aðsteðjandi vandamálum, svo sem af hálfu ofsatrúarmanna og hryðjuverkamanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Hyggindi sem í hag koma

Greinar

Helzti kostur lýðræðis fram yfir önnur rekstrarform þjóðfélaga er, að það getur slampazt áfram, þótt teknar séu rangar ákvarðanir. Af því að fólk hefur frelsi til að velja, getur það snúið frá röngum ákvörðunum og átt þátt í að taka nýjar, sem að vísu eru oft líka rangar.

Lýðræðið hefur byggða í sér öryggisventla, sem koma yfirleitt í veg fyrir, að þjóðfélagið stirðni á blindgötum. Það þýðir engan veginn, að lýðræði sé gott, aðeins að það sé illskárra en önnur rekstrarform þjóðfélaga. Það er eina formið, sem ræktar nauðsynlegan sveigjanleika.

Lýðræði felur engan veginn í sér í reynd, að allir séu jafnir. Aðstaðan er misjöfn í glímu þrýstihópa og hagsmunaaðila. Peningar og þröngt skilgreindir hagsmunir ná oftast undirtökum í þessari glímu. Fjölmennir hópar vítt skilgreindra hagsmuna bíða oftast lægri hlut.

Ekki þarf lengi að fylgjast með verzlunarháttum almennings til að sjá, að fjöldi manns kann ekki að fara með frelsið til að velja. Innihald innkaupakörfu þeirra er fáránlegt frá sjónarmiðum verðs og gæða í senn. Þetta fólk hefur enga þjálfun fengið í skynsemi í vöruvali.

Fólk tekur litað sykurvatn með 35% blöndu af hreinum ávaxtasafa, þótt við hliðina sé hreinn ávaxtasafi án nokkurra aukefna á nákvæmlega sama verði. Fólk kaupir lítið stykki af súkkulaðihúðuðu togleðri, þótt hægt sé að fá heilt kíló af ferskum eplum á sama verði.

Af innkaupum margra mætti ætla, að sjónvarpssetur séu orðnar svo fyrirferðarmiklar, að þeir hafi ekki tíma til að sinna matreiðslu. Fólk kaupir tilbúna rétti eða blandaða rétti fyrir mun hærra verð en er á óblönduðum og ómatreiddum matvörum. Það lifir á dýru ruslfæði.

Þetta heimskulega atferli hættir að vera einkamál, þegar þetta sama fólk fer að abbast upp á umhverfi sitt með skoðunum sínum á því, hversu dýrt sé að lifa í landinu og hversu lágt kaupið sé. Af innkaupakörfunum að dæma er þetta fólk þvert á móti á allt of háu kaupi.

Af þessu má ráða, að byrja þarf að gera þær kröfur til skólakerfisins, að það veiti neytendafræðslu, svo að nemendur hafi meiri möguleika á að koma fram sem þroskaðir einstaklingar í skæðadrífu villandi auglýsinga og geti tekið mið af verði og gæðum í vöruvali sínu.

Kenna þarf fólki að lesa vörulýsingar á umbúðum. Kenna þarf fólki að gera greinarmun á bragði og gæðum ekta vöru og eftirlíkinga. Kenna þarf fólki að halda bókhald yfir útgjöld sín og gera á þeim samanburðarútreikninga. Skólunum ber að efla hyggindi, sem í hag koma.

Á sömu forsendum er brýnt, að skólarnir fari að kenna fólki að umgangast umheim sinn og að bjarga sér sjálft, án þess að þurfa sífellt að kalla í dýra sérfræðinga. Menn geta sparað mikla peninga á að kunna rétt handtök og tækjanotkun í viðhaldi húsa, bíla og annarra eigna.

Á sömu forsendum er brýnt, að skólarnir fari að kenna samhengið í þjóðhagfræði og heimilishagfræði, svo að fólk geti lært að þekkja yfirgang hagsmunaaðila. Ennfremur þurfa þeir að kenna rökfræði, svo að fólk geti þjálfazt í að sjá gegnum orðaleiki stjórnmálamanna.

Skólakerfið þarfnast endurnýjunar. Í stað fúsks og leikja líðandi stundar þarf að koma hagnýt kennsla, þar sem nemendum er kennt að vera neytendur, eigendur, fjárfestar, skattgreiðendur og kjósendur. Þessum mikilvægum hlutverkum fólks sinnir skólakerfið nánast ekki.

Skólakerfi lýðræðisríkis á að reyna að skila frá sér sem flestum sjálfbjarga einstaklingum, sem láta ekki draga sig á asnaeyrunum í glímu hagsmuna- og þrýstihópa.

Jónas Kristjánsson

DV

Atvinnusaga í hnotskurn

Greinar

Einstaka sinnum telja pólitísk stjórnvöld henta sér að líta út fyrir hefðbundinn ramma atvinnulífsins, sjávarútveg og landbúnað. Þá er annað hvort reynt að fá hingað eins konar happdrættisvinning í mynd stóriðju eða fleygt hundruðum milljóna í fjárfestingarsjóði nýrra greina.

Dauf reynsla er af stóriðju. Álverið er eiginlega eina niðurstaðan, því að járnblendiverksmiðjan var byggð með aðild ríkisins, sem síðan hljóp aftur undir bagga, þegar illa gekk. Um nokkurra ára skeið hefur nýtt orkuver við Blöndu beðið eftir stóriðju, sem ekki kom.

Reynslan er slæm af opinberum sjóðum til nýrra tækifæra. Loðdýraævintýrið kom og fór og sama er að segja um laxeldisævintýrið. Ríkið kaffærði þessar greinar í auðsóttum lánum, sem urðu eins og myllusteinn um háls nýrra fyrirtækja, þegar markaðurinn þrengdist.

Ríkið á ekki að freista manna með þessum hætti. Auðfengin lán eru efnahagsleg deyfilyf, sem gera fyrirtæki að lánafíklum, er geta ekki staðið undir rekstri og endurgreiðslum lánanna. Þannig urðu laxinn og loðdýrin að kennslubókardæmi um óhóflega velvild ríkisins.

Að fenginni þessari reynslu er freistandi fyrir stjórnvöld að gefast upp og halla sér að því, sem þau þekkja bezt. Það eru sjávarútvegur og landbúnaður, atvinnugreinar, sem einkenna fátæku löndin í heiminum. Ríkið þrautskipuleggur þær með sjóðum og kvótakerfum.

Kvótakerfið í sjávarútvegi felur í sér viðurkenningu á, að lengra verður ekki gengið í sjávarútvegi. Og kvótakerfið í landbúnaði felur beinlínis í sér viðurkenningu á, að greinin sé fremur atvinnubótavinna en raunverulegur atvinnuvegur. Hvert á þá unga fólkið að leita?

Reynsla Bandaríkjamanna og fleiri vestrænna þjóða á að segja okkur, að ný atvinnutækifæri myndast nærri öll í nokkurra manna smáfyrirtækjum. Þau myndast ekki í stórfyrirtækjum, þar sem stjórnendur eru önnum kafnir við að hagræða í rekstri og fækka starfsfólki.

Stjórnvöld geta stuðlað að vexti smáfyrirtækja með almennum, en ekki sértækum aðgerðum, sem auðvelda stofnun og rekstur, meðal annars með aðgerðum í samgöngumálum á borð við vegi, hafnir, flugvelli og síma. Ennfremur með nýrri samgöngutækni á borð við netið.

Hlutverk ríkisvaldsins á sviði atvinnulífsins á fyrst og fremst að felast í að byggja upp innri þjóðfélagsgerð, sem stuðlar að framtaki á nýjum sviðum. Samgöngurnar eru eitt atriðið. Annað er menntun fólks. Og hið þriðja er jafnræði milli nýs og gamals í atvinnulífinu.

Netið eða internetið er gott dæmi um, að stjórnvöld átta sig ekki á öllum hliðum þessa samhengis. Menntunin er eini þátturinn, sem er sómasamlegur. Menntunarleysi kemur að minnsta kosti ekki í veg fyrir, að Íslendingar geti haft miklar tekjur af nýju samgönguæðinni.

Til skamms tíma voru miklir möguleikar fyrir Íslendinga að hazla sér hátekjuvöll í atvinnu- og rekstrartækifærum netsins. Með lagi hefði meira að segja verið hægt að búa hér til litla paradís fyrir erlent hugvit á þessu sviði og flytja þannig inn atgervi á hátekjusviði.

Ríkið hefur hins vegar ekki skapað netinu hin ytri skilyrði. Svo lítil og léleg er nettengingin við útlönd, að engum útlendingi dettur í hug að taka þátt í rekstri hér á landi. Miklu líklegra er, að atgervisfólk á þessu sviði flýi úr landi til að tryggja hugmyndir sínar.

Nýja íhaldsstjórnin er þessum vanda ekki vaxin. Hún er upptekin af hefðbundnum greinum og leggur einkum áherzlu á að varðveita hagsmuni gróinna stórfyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV

Leikvöllur stórhvela

Greinar

Fátt er um fína drætti í varnarræðum Hæstaréttar og skjólstæðinga hans í fjölmiðlum að undanförnu. Seinagangurinn í meðferð mála hjá Hæstarétti er svo augljós, að hann er helzt varinn með því að segja hann ekki vera eins slæman núna og hann var fyrir nokkrum árum.

Þótt eitthvað sé nú illskárra en það var fyrir nokkrum árum, þýðir það ekki, að það sé viðunandi. Formúlan um, að batnandi manni sé bezt að lifa, gildir ekki, meðan hann er enn vondur. Batinn verður að fullnægja lágmarkskröfum til að hægt sé að byrja að lofa hann.

Enginn málsvara Hæstaréttar og skjólstæðinga hans treystir sér til að verja siðferðið í framgöngu Hæstaréttar, enda er það með endemum. Siðleysið felst einkum í seinagangi, sem veldur því, að þeir, sem minna mega sín í lífinu, treysta sér ekki til að gæta réttar síns.

Hæstiréttur er hins vegar kjörinn leikvöllur fyrir stórhveli þjóðfélagsins, ríkisvaldið og stofnanir þess, ýmis stórfyrirtæki og fáokunarsamtök þeirra, sem hafa endalaust fjármagn til að reka mál og draga þau á langinn með eindregnum stuðningi og velvilja Hæstaréttar.

Lögmaður tryggingafélags fékk tíu mánaða frest hjá Hæstarétti til að afla gagna í máli, sem búið var að rannsaka í héraði og eftir að tryggingafélagið hafði fullnýtt áfrýjunarfrest. Þessi langi frestur Hæstaréttar er óviðunandi. Frestun réttlætis er skortur réttlætis.

Talsmenn Hæstaréttar og skjólstæðinga hans segja, að mikinn tíma taki að afla gagna úr héraðsdómi. Með því eru þeir að segja, að í dómskerfinu séu stunduð vinnubrögð úr forneskju, sem engan veginn hæfa tölvuöld. Þessi skýring er áfellisdómur yfir dómstólum landsins.

Auðvitað er ekki viðunandi, að það taki meira en nokkrar klukkustundir að fá gögn frá héraðsdómi. Alveg eins og það er ekki viðunandi, að skjólstæðingarnir fái meira en mánuð til að undirbúa sig fyrir viðbótarmálflutning fyrir Hæstarétti ofan á fyrri undirbúning.

Áður hafa verið færð til bókar eindregin dæmi þess, að Hæstiréttur sé hallur undir valdið í öllum myndum þess, en fyrst og fremst ríkisvaldið. Þetta hefur leitt til þess, að Hæstiréttur hefur hvað eftir annað verið rassskelltur í úrskurðum hjá fjölþjóðadómstólum.

Auðvitað getur ekki allur almenningur fetað í fótspor þeirra, sem hafa með seiglu og fórnum sótt mál sín gegnum allt dómskerfi landsins og að lokum endurheimt réttlætið úti í Strasbourg eða Haag. Á þessari leið bugast þeir, sem minna mega sín, og ganga til nauðasamninga.

Tryggingafélögin mynda fáokunarhring, sem leikur á þetta kerfi. Þau stífla dómskerfið með endalausum málaferlum, þar sem allt er dregið sem mest á langinn með stuðningi dómstóla. Markmiðið er að fá fólk til að semja um smánarbætur, af því að það hefur ekki úthald.Afkastalítill Hæstaréttur situr í fílabeinsturni sínum og horfir ekki á skrumskælingu réttlætisins í þessari aðferðafræði. Í þess stað gefur rétturinn skjólstæðingum sínum hjá valdastofnunum hins opinbera og efnahagslífsins nokkurn veginn eins mikið svigrúm og þeir vilja.

Gott dæmi um hroka og siðblindu Hæstaréttar er, að forseti réttarins hefur notað umræðuna til að vekja athygli á, að ekki fáist dómur fyrr en eftir næstu áramót í máli, sem þegar hefur verið að velkjast um í átta ár. Hvergi örlar á skilningi á aðstöðuleysi lítilmagnans.

Viðbrögð Hæstaréttar og skjólstæðinga hans draga úr líkum á, að þeir, sem minna mega sín í þjóðfélaginu, þori að gæta réttar síns í seinagangi dómskerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV

800 dilka heimsókn

Greinar

Senn kemur að ferðaveizlu, sem stofnanir landbúnaðarins halda forustumönnum tveggja verzlana í Bandaríkjunum, sem hafa tekið að sér að selja vistvænt dilkakjöt af íslenzku bergi. Heimsóknin kostar okkur 800 slíka dilka, því að bændur fá 100 krónur fyrir kílóið.

Stofnanir landbúnaðarins hafa fengið aukalega kvartmilljarð af almannafé til að selja íslenzkar landbúnaðarvörur sem vistvænar. Þingmenn ákváðu þetta í þinglok í vetur, þótt þá þegar væri upplýst, að peningarnir ættu að fara í sjónhverfingar, en ekki endurbætur á vöru.

Árangurinn er auðvitað enginn. Verðið, sem landbúnaðurinn fær fyrir vöruna, sem kölluð er vistvæn, er sama lága verðið og hingað til hefur fengizt í útflutningi fyrir sömu vöruna, áður en farið var að kalla hana vistvæna. Enda hefur orðið vistvænt enga skilgreinda merkingu.

Erlendis er orðið lífrænt hins vegar skilgreint. Að baki þess liggja skilgreindar kröfur um lífrænan áburð og skiptiræktun. Ennfremur eru á bak við það óháðar vottunarstofur, sem votta, að farið sé eftir settum reglum. Á þessum forsendum fæst hærra verð fyrir afurðirnar.

Engar slíkar skilgreindar reglur eru til um neitt, sem heitir vistvænt á þessu sviði. Engar óháðar vottunarstofur starfa á því sviði. Enda fæst ekki króna í viðbót fyrir búvöru, þótt stofnanir landbúnaðarins á Íslandi ráði ímyndunarfræðing til að selja hana sem vistvæna.

Munurinn á lífrænu og vistvænu felst í rauninni í, að hafa þarf sérstaklega fyrir lífrænni framleiðslu. Stofnanir landbúnaðarins eru að reyna að komast hjá þeirri fyrirhöfn með því að setja marklausan vistvænustimpil á framleiðslu íslenzkrar búvöru eins og hún er nú.

Raunar er til lífræn framleiðsla í landinu. Hún er stunduð á nokkrum stöðum, einkum í nágrenni Víkur í Mýrdal. Fimm sveitarfélög hafa komið á fót vottunarstofu, sem fer eftir alþjóðlegum reglum um það efni. Fulltrúar verzlunar og neytenda eru í stjórn hennar.

Embættismenn stofnana landbúnaðarins hafa oft reynt að bregða fæti fyrir þessa lífrænu ræktun. Þeir hafa lagt lykkju á leið sína til að hefta framgang framleiðslu, sem er í samræmi við alþjóðlega staðla um lífræna ræktun. Þeim finnst hún trufla sjónhverfingarnar.

Í stað þess að leggja kvartmilljarðinn í að bæta framleiðslu landbúnaðarins, svo að stærri hluti hennar geti fengið hinn óháða stimpil lífrænnar vöru, er hann allur lagður í sjónhverfingar, sem eiga að selja núverandi framleiðslu eins og hún er og án nokkurra endurbóta.

Þetta var þingmönnum sagt, áður en þeir samþykktu ruglið, en þeir létu sér ekki segjast, enda flestir fremur skillitlir og þröngsýnir í senn. Afleiðingarnar eru þegar farnar að koma í ljós. Peningar skattgreiðenda brenna fljótt og verðið á dilkakjötinu er bara óbreytt.

Það er dæmigert fyrir þessar ímyndanir og sjónhverfingar, að tveimur kaupmönnum í Bandaríkjunum er boðið í Íslandsheimsókn, sem kostar 800 dilka á því verði, sem fæst út úr þeim fyrir vistvæna kjötið. Það sýnir, að málið í heild er kostnaður, en ekki tekjur.

Einnig er dæmigert, að farið er með gestina vítt og breitt um landið, farið í Bláa lónið, farið í siglingu um Breiðafjörð og farið í reiðtúr á hrossabúi, en alls ekki sýndur sauðfjárbúskapurinn að baki afurðanna og allra sízt nokkur búskapur, sem getur talizt lífrænn.

Ímyndunarfræðin og sjónhverfingarnar, sem hafa heltekið stofnanir landbúnaðarins, draga úr möguleikum þess, að hér verði stunduð lífræn ræktun með hagnaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafa allt á hornum sér

Greinar

Íslenzkir klerkar hafa ekki alltaf verið sérstaklega kristilegir í framgöngu eða lífsháttum. Öldum saman stóð klerkastéttin framarlega í veraldlegu vafstri og átökum við meðbræður. Sumir frægðarklerkar brutu flest boðorð kristinnar kirkju einhvern tíma á ferli sínum.

Hugsanlegt er, að þjóðin vilji hafa þetta svona, hún vilji ekki, að klerkar hennar líkist heilögum mönnum, heldur að þeir líkist þjóðinni sjálfri. Hitt er þó sennilegra, að fólk vilji fremur en hitt, að prestar skari fram úr öðrum í kristilegu líferni og kristilegri framgöngu.

Þjóðin hefur að undanförnu orðið vitni að óskemmtilegum átökum af ýmsum toga í röðum kirkjunnar þjóna. Hæst heyrðist í gauraganginum á nýafstaðinni prestastefnu. Ekki er kunnugt um neina stétt manna, sem lætur eins ófriðlega á fundum og klerkastéttin gerir.

Af fyrirganginum mætti ætla, að klerkar séu persónulega ófullkomnari en annað fólk í landinu. Í venjulegum hópum er hægt að halda fundi, án þess að hnútur fljúgi um borð. Efast má því um, að sumir klerkar hafi stillingu og geðprýði til að vera sálusorgarar annarra.

Klerkar eiga í útistöðum hver við annan. Þeir eiga í útistöðum við safnaðarnefndir og aðra starfsmenn á vegum safnaðarnefnda. Þeir eiga sumir hverjir einnig í útistöðum við biskup og virðast þannig enn vera að taka þátt í síðasta biskupskjöri, sem lauk fyrir löngu.

Ef sumir klerkar eru slíkir klíkustefnumenn, að þeir geti ekki sætt sig við niðurstöður kosninga til biskups, er eðlilegt, að þeir bíði eftir næsta biskupskjöri til að þjóna þeirri stefnu. Það er hins vegar nýtt, að klerkar láti eins og ljón allan tímann milli biskupskosninga.

Engin stofnun fær staðizt, að smákóngar hennar séu í sífellu að troða illsakir við sjálfan biskupinn. Það er ekkert nýtt, að sumir kirkjunnar menn séu ókátir að loknu biskupskjöri, en þeir reyndu áður að dylja gremju sína. Nú hafa þeir hins vegar allt á hornum sér.

Í rauninni er ekki verið að gera miklar kröfur til klerka, þegar þeim er bent á, að láta biskupsembættið í friði og reyna að gera gott úr ágreiningi, sem varðar embættið. Þá er eingöngu verið að gera þær kröfur til þeirra, að þeir hagi sér eins og prestum sæmir.

Orðbragð sumra klerka í garð biskups er með þeim hætti, að fjölmiðlar hafa neyðst til að ritskoða það í fréttum, svo að umræðan komist þó upp á það lága plan, sem almennt gildir í skoðanaskiptum í þjóðfélaginu. Þjóðkirkjan stenzt ekki slíkt innra virðingarleysi.

Fjölmiðlar hafa síður en svo reynt að gera úlfalda úr mýflugu. Þeir hafa skýrt frá staðreyndum ágreiningsefna og fremur reynt að draga úr orðbragði kirkjunnar manna heldur en hitt. Innri vandamál kirkjunnar eiga ekki frekar rætur í fjölmiðlum en ull finnst í geitarhúsum.

Tímabært er, að ráðsettir menn innan klerkastéttarinnar taki sig saman um að ganga milli hinna skapstyggu klerka og minni þá á nauðsyn þess, að atferli þeirra og framganga skaði ekki kirkjuna sem stofnun og kristni í landinu frekar en þegar er orðið.

Margt er á hverfanda hveli í þjóðfélaginu. Uppivöðslumenn eru áberandi í stjórnmálum og félagsmálum. Sérhagsmunagæzla tröllríður samfélaginu, harla óvægin í seinni tíð. Þjóðfélagið í heild er að verða ruddalegra og harðara en áður. Það gildir um klerkana eins og aðra.

Meðan gerðar eru heldur meiri kröfur til presta en venjulegra dólga er þó líklegt, að með góðra manna hjálp megi varðveita stöðu kristninnar í þjóðlífsmynstrinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Afturhalds-aðallinn

Greinar

Framfarir og réttlæti á Íslandi hafa oft komið að utan, gegn vilja innlendrar valdastéttar. Þannig var það fyrr á öldum og þannig er það nú á tímum. Erlendir dómstólar hnekktu til dæmis þá og hnekkja enn innlendum dómum, svo að réttlæti nái fram að ganga á Íslandi.

Framfarir voru ekki vel séðar af hálfu innlendrar yfirstéttar fyrr á öldum. Íslenzka landeigendavaldið að baki embættismanna ríkisins reyndi að koma í veg fyrir, að duglegir vinnumenn færu á mölina og hefðu góðar tekjur af sjávarútvegi í samkeppni við landbúnaðinn.

Snemma á öldum fann innlenda valdastéttin upp á því að niðurgreiða búvöru með sjávarvöru. Verði á útfluttum sjávarafurðum var haldið niðri til að koma á móti háu skilaverði á útfluttum landbúnaðarafurðum. Þetta hefur verið upplýst í sagnfræðirannsóknum síðustu ára.

Innlenda yfirstéttin framleiddi hörmungar í landinu fyrr á öldum, gegn vilja erlendra kaupmanna og dansks konungsvalds. Nú á tímum framleiðir innlenda yfirstéttin á sama hátt láglaunaþjóðfélag í landinu, einkum með millifærslum frá sjávarútvegi til landbúnaðar.

Millifærslukerfi nútímans er skilgetið afkvæmi millifærslukerfa fyrri tíma. Sem fyrr hefur innlendum ráðamönnum þjóðfélagsins tekizt að halda saman þjóðarsátt um sérstaka verndun úreltra atvinnugreina á kostnað lífskjara. Þannig er árlega brennt tugmilljörðum króna.

Afturhalds-aðallinn á Íslandi komst snemma upp á lag með að vitna í Jónas Hallgrímsson og aðra slíka um, að allt væri bezt á Íslandi, hefði alltaf verið og mundi alltaf verða. Þessi þjóðlegi áróður var áhrifamikill fyrr á öldum og ræður oftast útslitum enn þann dag í dag.

Fyrr á öldum voru það landeigendur í landbúnaði, sem mynduðu íslenzkan aðal og reyndu að hindra atvinnuþróunina, svo að hún truflaði ekki þáverandi landbúnað. Nú á tímum rekur aðallinn stórbrotna hringa fáokunarfyrirtækja, sem standa í vegi innfluttrar samkeppni.

Undanfarna áratugi hefur ríkisvaldið verið rekið í þágu tveggja aðila, hins hefðbundna landbúnaðar annars vegar og fáokunarfyrirtækjanna hins vegar. Fáokunarfyrirtækin eru tvö eða þrjú í hverri grein og hafa á hverju sviði með sér samráð um verð og þjónustu.

Samkeppni að utan er skelfileg í augum yfirstéttarinnar, sem á og rekur fáokunarfyrirtækin. Þess vegna reynir hún að draga úr sókn þjóðarinnar í fjölþjóðlega viðskiptasamninga og fjölþjóðleg verzlunar- og efnahagssamtök af ýmsu tagi, nú síðast Evrópusambandið.

Oft tekst aðlinum að koma í veg fyrir hagnað almennings af fjölþjóðlegri opnun viðskipta. Síðasta dæmið um það er í nýjum lögum, þar sem svonefndu GATT-samkomulagi er með hugvitsamlegum ofurtollum snúið upp í þverstæðu sína og þjóðinni samt haldið ánægðri.

Íslenzkur aðall heyr varnarstríð gagnvart viðskiptum við útlönd. Öðrum þræði er hér á landi öflug hreyfing í átt til viðskiptafrelsis. Sú hreyfing réð miklu í viðreisnarstjórninni sællar minningar og hún réð til dæmis nokkru í síðasta ríkisstjórnarsamstarfi, sem lauk í vor.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ná að mynda stjórn saman, magnast samtryggingarkerfi hins hefðbundna landbúnaðar og hringa fáokunarfyrirtækjanna. Þá er stungið við fótum, farið að vitna í Jónas Hallgrímsson og ræktuð einangrunarstefna.

Þá notar forsætisráðherra 17. júní til að vara þjóðina við Evrópusambandinu og vitnar í Jónas Hallgrímsson til staðfestingar á, að allt sé bezt á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Seinagangur Hæstaréttar

Greinar

Afkastalítill Hæstiréttur situr í fílabeinsturni og skerðir mannréttindi í landinu með því að liggja árum saman á einkamálum, þar sem smælingjarnir í landinu eru að reyna að verja rétt sinn gegn óbilgirni ágjarnra og siðlausra stofnana á borð við tryggingafélögin í landinu.

Nýlega var sagt hér í blaðinu frá máli konu, sem missti handlegg í dráttarvélarslysi fyrir átta árum. Hún vann mál gegn tryggingafélaginu í héraðsdómi. Tryggingafélagið áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, sem hefur af alkunnu tillitsleysi legið á því í tvö ár.

Konan hefur alls engar bætur fengið í þessi átta ár, af því að beðið er niðurstöðu Hæstaréttar. Hún var þrettán ára, þegar slysið varð, og hefur af fjárhagsástæðum ekki átt þá möguleika og námstækifæri á mikilvægu aldursskeiði, sem eðlilegt hefði verið, að hún ætti.

Með framgöngu sinni í þessu máli og fjölda annarra kemur Hæstiréttur beinlínis í veg fyrir, að réttlæti nái fram að ganga. Fólk treystir sér ekki til að reyna að gæta réttar síns. Stóru karlarnir, sem stjórna fáokun tryggingafélaganna, vita þetta og nota sér hömlulaust.

Tryggingafélögin tapa hverju málinu á fætur öðru í héraði. Þau áfrýja undantekningarlaust hverju einasta máli til að kúga smælingjana til uppgjafar og samninga um smánarbætur. Almenningur í landinu hefur ekki ráð á að kosta stöðug slagsmál við tryggingafélög í átta ár.

Hæstiréttur tekur þátt í þessum ljóta leik tryggingafélaganna með því að draga málin á langinn. Liggur þó í augum uppi, að markmið áfrýjana félaganna er að fresta greiðslum og draga úr líkum á, að smælingjar komist á leiðarenda. Framkoma Hæstaréttar er siðlaus með öllu.

Vinnubrögð Hæstaréttar auka réttaróvissu í landinu. Þau gera hann að skálkaskjóli auðfélaga, sem traðka á rétti smælingjanna. Við eðlilegar aðstæður mundi rétturinn fremur flýta málum af því tagi, þar sem aflsmunur og aðstöðumunur málsaðila er greinilegur.

Gerviáfrýjanir tryggingafélaga ber hiklaust að afgreiða á einni viku. Sömuleiðis ber Hæstarétti að víta lögmenn tryggingafélaga fyrir að tefja störf réttarins með því að stífla málaskrár með augljósum tilraunum til að tefja fullnustu mála, sem líkjast fyrri málum af sama toga.

Hæstiréttur hefur á ýmsan annan hátt sýnt, að hann er úti að aka í þjóðfélaginu. Einkum er ljóst, að hann hefur litið á sig sem hluta valdakerfisins í landinu og haft tilhneigingu til að draga hlut ríkisvaldsins gegn öðrum aðilum. Hann er yfirleitt hallur undir valdið.

Þekktur hæstaréttarlögmaður gaf fyrir átta árum út bók, þar sem hann rakti gang nokkurra mála fyrir Hæstarétti og benti á seinagang og ótryggt réttaröryggi hjá Hæstarétti. Af máli konunnar, sem missti handlegginn, er sýnt, að Hæstiréttur hefur ekki lært af gagnrýninni.

Hæstiréttur hefur ennfremur sætt álitshnekki, af því að óeðlilega mikið er um, að fólk, sem tapar málum fyrir honum, vinni þau síðan úti í Strasbourg eða Haag, af því að Hæstiréttur Íslands hefur ekki virt alþjóðleg mannréttindi, sem hafa hlotið lagalega staðfestingu Alþingis.

Framganga einstakra dómara hefur líka skaðað virðingu Hæstaréttar. Einn forseti hans varð frægur af gífurlegri söfnun áfengis. Annar forseti hans varð frægur af undarlegum skrifum áminningarbréfa til aðila úti í bæ. Þetta bendir til skorts á dómgreind í fílabeinsturni.

Af ávirðingum Hæstaréttar er samt sýnu verst sú, er eykur réttaróvissu þeirra, sem minna mega sína í þjóðfélaginu en þeir, sem völdin hafa. Það er seinagangurinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Fíkniefnafæða

Greinar

Benzínstöðvar í þéttbýli hafa smám saman verið að færa út kvíarnar og eru að verða eins konar krambúðir fyrir skyndivarning, sem kemur bílum ekki sérstaklega við. Þetta eru sumpart áhrif af landsbyggðinni, þar sem benzínstöðvar þjóna víða almennu verzlunarhlutverki.

Á benzínstöðvum hefur fólk oft nokkrar mínútur aflögu til að ganga um og skoða varninginn, sem áreiðanlega er valinn í samræmi við reynslu af viðskiptum fyrri viðskiptavina. Vöruframboðið segir því töluvert um, hvaða nauðsynjar fólk telur sig þurfa í skyndi.

Að ókönnuðu máli mætti ætla, að fólk sæktist eftir viðkvæmum vörum, sem fyrrum voru keyptar á nærri hverjum degi, svo sem fiski og brauði, grænmeti og ávöxtum, mjólk og kjöti. Pakkavörur með löngu geymsluþoli voru hins vegar keyptar í nýlendurvörubúðum.

Núna borðar fólk hins vegar frosið kjöt og fisk og nokkurra daga gamalt brauð, sem það kaupir einu sinni eða tvisvar í viku í stórmörkuðum. Hinar hefðbundnu nauðsynjar eru ekki lengur sóttar í búið á hverjum degi eða annan hvern dag. Nýjar nauðsynjar hafa tekið við.

Sælgæti, gosdrykkir og tóbak voru það fyrsta, sem hélt innreið sína á benzínstöðvarnar. Síðan bættust við súkkulaðikex og sjónvarps-hænsnafóður af ýmsu tagi. Samanlagt eru þetta vörurnar, sem helzt hafa tekið við sem daglegar nauðsynjar Íslendinga í nútímanum.

Uppistaðan í þessum vörum eru þrjú fíkniefni, nikótín, kakó og sykur, sem samanlagt eru stærsti kostnaðarliður heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þau valda alls konar heilsuvandræðum, allt frá óskilgreindri síþreytu upp í banvæna hjartasjúkdóma og krabbamein.

Upp á síðkastið hefur vöruframboð benzínstöðva aukizt um kaffi, verksmiðjuframleiddar kjötvörur á borð við pylsur og verksmiðjuframleitt smurbrauð. Ekkert af því getur talizt kjörfæða að mati Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Allt flokkast það greinilega sem ruslfæði.

Ekki eru hins vegar í boði 100% ávaxtasafar, sem fást af mörgum stærðum og gerðum í landinu. Ekki eru boðnir ferskir ávextir eða grænmeti. Ekki er heldur hægt að fá handhægar mjólkurvörur. Ekki er á boðstólum neitt, sem kemst gegnum nálarauga alþjóðlegs heilsumats.

Þetta lýsir rotnu hugarfari Íslendinga og spilltri umgengni okkar við eigin líkama og sál. Meðan aðrar vestrænar þjóðir borða flestar aðallega á matmálstímum, stöndum við í sjoppum og benzínstöðvum og troðum í okkur skyndibita- og millimálafæði af aumasta tagi.

Áhugafélög um varnir og forvarnir gegn sjúkdómum reyna af veikum mætti að hafa vit fyrir þjóðinni, en tala fyrir daufum eyrum. Stjórnvöld heilbrigðismála eru nokkurn veginn alveg afskiptalaus, enda eru uppskurðir og lyfjagjafir það eina, sem menn skilja þar á bæ.

Vandinn, sem blasir við á benzínstöðvunum, er miklu stórfelldari en margumræddur vandi þjóðarinnar í efnahags- og fjármálum, því að lélegt og versnandi heilbrigðisástand þjóðarinnar er stórfellt efnhags- og fjárhagsvandamál, bæði fyrir opinbera aðila og borgara landsins.

Það ætti raunar að vera ljóst, að mannslíkaminn er ekki fær um að vaxa og endurnýjast af verksmiðjuframleiddu og fíkniefnablönduðu rusli, að minnsta kosti ekki þegar það er orðið að eins umfangsmiklum þætti í fæðu landsmanna og sézt í sjoppum og benzínstöðvunum.

Kóróna mætti vitleysuna með því að leyfa benzínstöðvum að bjóða bjór og brennivín, rétt svona til að fullkomna framboðið af því, sem Íslendinga þyrstir mest í.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir undirbúa röng stríð

Greinar

Fyrirhugaðar kjarnorkutilraunir Frakka í Kyrrahafi eru síðbúin tilraun til að gera franska herinn hæfari um að vinna stríð fortíðarinnar, en létta honum ekki að vinna stríð framtíðarinnar. Svipuð tímaskekkja er í vinnubrögðum rússneska hersins í átökunum í Tsjetsjeníu.

Víetnam-stríðið markaði þáttaskil í eðli styrjalda, þegar smáríki rak mesta stórveldi heimsins af höndum sér. Síðan varð Flóabardaginn hinn tæknilega fullkomni svanasöngur hefðbundins stríðsrekstrar, en niðurstaða hans var samt ekki ólík útkomunni í Víetnam.

Framtíðarstríðið verður ekki háð á vígvöllum regnskóga eða eyðimarka. Það verður háð í stórborgum Vesturlanda. Það er bara tímaspursmál, hvenær íslamskir ofsatrúarmenn valda stórfelldu manntjóni í margfalt öflugri sprengingu en varð í World Trade Center.

Tsjetsjenar færðu stríðið við Rússa úr sínu landi og inn í Rússland, þegar þeir réðust á sjúkrahúsið í Búdennovsk. Það er einmitt ein meginreglan í hernaði framtíðarinnar, að hann verður háður á heimaslóðum andstæðingsins, en ekki við landfræðilega víglínu.

Á daginn kom, að rússneski herinn kunni ekkert ráð við þessu. Það eina, sem herforingjarnir kunnu, var að gera gagnárás á sjúkrahúsið. Við það féllu fleiri gíslar en Tsjetsjenar höfðu drepið. Almenningsálitið í Rússlandi tók kollsteypu og snerist gegn rússneska hernum.

Í bili er niðurstaðan sú, að Rússar hafa hætt hernaði sínum í Tsjetsjeníu og leyft skæruliðum Tsjetsjena að fara úr sjúkrahúsinu með fjölda gísla í farteskinu. Þannig reyndist sjúkrahússbardaginn áhrifameiri en allt andóf Tsjetsjena í heimalandinu gegn innrás Rússa.

Gíslataka er mikilvægur þáttur hernaðar í nútímanum. Þetta hafa Serbar leikið af list og fullkomnu samvizkuleysi. Hámarki náði þetta, þegar þeir tóku friðargæzlusveitir Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna í gíslingu og dreifðu myndum af gíslunum.

Atlantshafsbandalagið reyndist ekki vera mikið betur undir þetta búið en rússneski herinn. Silkihúfur hins vestræna hernaðarbandalags höfðu ekkert lært af hrakför friðargæzlusveita í Sómalíu. Gíslarnir reyndust auðtekin bráð Serba og Vesturveldin létu undan síga.

Serbar hafa í fullu tré við Vesturveldin. Árum saman hafa hótanir og úrslitakostir dunið á eyrum Serba, en þeir hafa látið það allt sem vind um eyru þjóta. Margir þjóðarleiðtogar og leiðtogar fjölþjóðastofnana eru með allt á hælunum eftir máttvana afskipti af Serbum.

Einna alvarlegast er ástandið í Bandaríkjunum, þar sem sýndarveruleiki úr bíómyndum leysir veruleikann af hólmi. Þar varð stríðið persónugert í fræknum flugmanni, sem komst undan á flótta. Sigur í bíómyndarefni bætir þjóðinni upp japl og jaml og fuður í Serbíu.

Bandaríkjamenn ímynda sér, að þeir hafi sigrað í Flóabardaga. Verður þó ekki betur séð, en að Saddam Hussein og flokkur hans sé enn við völd í Írak og séu að byggja upp herveldi að nýju, af því að bandaríski herinn glutraði niður sigri með ótímabærum stríðslokum.

Aðvaranirnar eru margar: Víetnam, Flóabardagi, Sómalía, Bosnía, Tsjetsjenía, World Trade Center. Þær sýna, að hefðbundinn stríðsrekstur er að víkja fyrir nýjum leiðum, sem flækja málin. Kjarnorkusprengjur stórvelda eru máttvana gegn ráðagóðum skæruliðum nútímans.

Þrátt fyrir röð aðvarana halda herstjórar stórveldanna og sérstaklega Vesturlanda áfram að eyða milljörðum í að undirbúa allt önnur stríð en þau, sem háð verða.

Jónas Kristjánsson

DV

Þú kýst ekki eftir á

Greinar

Forsætis- og fjármálaráðherra stóra framsóknarflokksins fóru með rangt mál í umræðum á Alþingi, þegar þeir sögðu fólk ekki hafa verið blekkt til að telja nýju innflutningshaftalögin skárri en þau eru í rauninni. Svonefnd GATT-lög eru neytendum óhagstæðari en fyrri lög.

Lögin brjóta gegn anda svonefnds Uruguay-samkomulags í alþjóðlegu viðskiptastofnuninni GATT, þótt Ísland hafi undirritað samkomulagið. Í stað þess að staðfesta samkomulagið með lögum hefur ríkisstjórnin látið Alþingi samþykkja lög, sem hækka innflutta búvöru í verði.

Niðurstaða Uruguay-samkomulagsins var, að þátttökuríkin skuldbundu sig til að lækka í áföngum innflutningshöft á landbúnaðarafurðum. Markmiðið var að efla heimsviðskiptin, auka fjölbreytni í búvöruframboði og minnka rekstrarkostnað heimilanna í þátttökuríkjunum.

Áhrifin á Íslandi eru öfug. Grænmeti mun hækka í verði, þótt alls ekki hafi verið gert ráð fyrir því í GATT- samkomulaginu. Ofurtollakerfi íslenzku laganna mun því draga úr möguleikum Íslendinga til að fá hollasta fæðuflokkinn á verði, sem hæfir láglaunakerfi landsins.

Samt er grænmeti þegar dýrara á Íslandi en í öðrum löndum. Einföldustu hlutir á borð við papriku kosta um og yfir 400 krónur kílóið og teljast lúxusvara. Ennfremur er framboð grænmetis breytilegt eftir sérhagsmunum. Til dæmis eru kartöflur árlega óætar mánuðum saman.

Á móti hækkun grænmetis vegur lækkun á afar litlu magni búvöru. Svo virðist sem eina leiðin til framkvæmda sé að gefa út skömmtunarseðla, er veiti hverju landsbarni aðgang að einu kílói af ódýru smjöri og hliðstæðu magni af öðrum afurðum frá ódýru útlöndunum.

Þessi lækkun mun ekki nægja til að vega upp á móti hækkun grænmetisverðs. Til viðbótar kemur svo, að landbúnaðarráðherra hefur í nýju lögunum fengið meira vald en nokkru sinni fyrr til að framleiða tolla eftir meintum þörfum innlendra sérhagsmuna hverju sinni.

Að öllu samanlögðu eru íslenzkir neytendur eftir samþykkt laganna í strangari gíslingu grunnmúraðra sérhagsmuna en þeir voru fyrir. Landbúnaðarráðherra sérhagsmunahópanna er orðinn voldugri en áður, enda er hann orðinn hinn eiginlegi tollamálaráðherra ríkisins.

Þótt þingmenn Alþýðuflokks hafi mótmælt lögunum, má ekki gleyma, að Alþýðuflokkurinn er rétt skriðinn út úr ríkisstjórn, sem lagði grundvöll að auknu forræði landbúnaðarráðherra í tolla- og neytendamálum og í sérhagsmunatúlkun á fjölþjóðlegum sáttmálum ríkisins.

Allir þingmenn fyrra kjörtímabils og flestir þingmenn þessa kjörtímabils bera ábyrgð á ástandi, sem bezt verður lýst sem algerri fyrirlitningu íslenzkra stjórnmálamanna á neytendum í landinu. Allir flokkar landsins standa í reynd sem einn gegn hagsmunum neytenda.

Þetta getur yfirstéttin því aðeins leyft sér, að hún veit, að neytendur vilja láta misþyrma sér. Þeir vita, að rúmlega helmingur þjóðarinnar telur eðlilegt, að innlendur landbúnaður sé verndaður gegn samkeppni frá innfluttri búvöru. Þetta sýna margvíslegar skoðanakannanir.

Ekki er von á góðu, þegar rúmlega helmingur þjóðarinnar er beinlínis sáttur við, að verndun sérhagsmuna landbúnaðarins kosti hverja fjögurra manna fjölskyldu 320.000 krónur á hverju ári. Ekki heldur, þegar hinn hluti þjóðarinnar lætur þetta yfir sig ganga mótþróalaust.

Stofna þarf stjórnmálaflokk neytenda og skattgreiðenda til að vega upp á móti þessari kúgun. Eitt af kjörorðum flokksins gæti verið: Þú kýst ekki eftir á.

Jónas Kristjánsson

DV

Þú kýst ekki eftir á

Greinar

Forsætis- og fjármálaráðherra stóra framsóknarflokksins fóru með rangt mál í umræðum á Alþingi, þegar þeir sögðu fólk ekki hafa verið blekkt til að telja nýju innflutningshaftalögin skárri en þau eru í rauninni. Svonefnd GATT-lög eru neytendum óhagstæðari en fyrri lög.

Lögin brjóta gegn anda svonefnds Uruguay-samkomulags í alþjóðlegu viðskiptastofnuninni GATT, þótt Ísland hafi undirritað samkomulagið. Í stað þess að staðfesta samkomulagið með lögum hefur ríkisstjórnin látið Alþingi samþykkja lög, sem hækka innflutta búvöru í verði.

Niðurstaða Uruguay-samkomulagsins var, að þátttökuríkin skuldbundu sig til að lækka í áföngum innflutningshöft á landbúnaðarafurðum. Markmiðið var að efla heimsviðskiptin, auka fjölbreytni í búvöruframboði og minnka rekstrarkostnað heimilanna í þátttökuríkjunum.

Áhrifin á Íslandi eru öfug. Grænmeti mun hækka í verði, þótt alls ekki hafi verið gert ráð fyrir því í GATT- samkomulaginu. Ofurtollakerfi íslenzku laganna mun því draga úr möguleikum Íslendinga til að fá hollasta fæðuflokkinn á verði, sem hæfir láglaunakerfi landsins.

Samt er grænmeti þegar dýrara á Íslandi en í öðrum löndum. Einföldustu hlutir á borð við papriku kosta um og yfir 400 krónur kílóið og teljast lúxusvara. Ennfremur er framboð grænmetis breytilegt eftir sérhagsmunum. Til dæmis eru kartöflur árlega óætar mánuðum saman.

Á móti hækkun grænmetis vegur lækkun á afar litlu magni búvöru. Svo virðist sem eina leiðin til framkvæmda sé að gefa út skömmtunarseðla, er veiti hverju landsbarni aðgang að einu kílói af ódýru smjöri og hliðstæðu magni af öðrum afurðum frá ódýru útlöndunum.

Þessi lækkun mun ekki nægja til að vega upp á móti hækkun grænmetisverðs. Til viðbótar kemur svo, að landbúnaðarráðherra hefur í nýju lögunum fengið meira vald en nokkru sinni fyrr til að framleiða tolla eftir meintum þörfum innlendra sérhagsmuna hverju sinni.

Að öllu samanlögðu eru íslenzkir neytendur eftir samþykkt laganna í strangari gíslingu grunnmúraðra sérhagsmuna en þeir voru fyrir. Landbúnaðarráðherra sérhagsmunahópanna er orðinn voldugri en áður, enda er hann orðinn hinn eiginlegi tollamálaráðherra ríkisins.

Þótt þingmenn Alþýðuflokks hafi mótmælt lögunum, má ekki gleyma, að Alþýðuflokkurinn er rétt skriðinn út úr ríkisstjórn, sem lagði grundvöll að auknu forræði landbúnaðarráðherra í tolla- og neytendamálum og í sérhagsmunatúlkun á fjölþjóðlegum sáttmálum ríkisins.

Allir þingmenn fyrra kjörtímabils og flestir þingmenn þessa kjörtímabils bera ábyrgð á ástandi, sem bezt verður lýst sem algerri fyrirlitningu íslenzkra stjórnmálamanna á neytendum í landinu. Allir flokkar landsins standa í reynd sem einn gegn hagsmunum neytenda.

Þetta getur yfirstéttin því aðeins leyft sér, að hún veit, að neytendur vilja láta misþyrma sér. Þeir vita, að rúmlega helmingur þjóðarinnar telur eðlilegt, að innlendur landbúnaður sé verndaður gegn samkeppni frá innfluttri búvöru. Þetta sýna margvíslegar skoðanakannanir.

Ekki er von á góðu, þegar rúmlega helmingur þjóðarinnar er beinlínis sáttur við, að verndun sérhagsmuna landbúnaðarins kosti hverja fjögurra manna fjölskyldu 320.000 krónur á hverju ári. Ekki heldur, þegar hinn hluti þjóðarinnar lætur þetta yfir sig ganga mótþróalaust.

Stofna þarf stjórnmálaflokk neytenda og skattgreiðenda til að vega upp á móti þessari kúgun. Eitt af kjörorðum flokksins gæti verið: Þú kýst ekki eftir á.

Jónas Kristjánsson

DV