Greinar

Slípa þarf samningamenn

Greinar

Sáttasemjara ríkisins og formönnum samninganefnda ber að líta í eigin barm eftir hrakfarir í samningaferli og atkvæðagreiðslum á ofanverðum vetri og öndverðu sumri. Aðferðafræðin við gerð kjarasamninga hefur brenglazt svo, að verkföll eru orðin daglegt brauð.

Sáttasemjari hefur látið fella fyrir sér hverja sáttatillöguna og miðlunartillöguna á fætur annarri. Er nú svo komið, að tillögur af þessu tagi, sem áður voru vandlega grundaðar og vógu þungt á metunum, eru nú orðnar eins og hver önnur marklaus pappírsgögn deiluaðila.

Eðlilegt er, að breyttar áherzlur í vinnubrögðum fylgi nýjum sáttasemjara. En að þessu sinni hafa breytingarnar verið of miklar og misheppnaðar. Nauðsynlegt er að endurvekja meiri varfærni, draga úr þrýstingi á samninganefndir og fara miklu sparlegar með tillögur.

Í sjómannadeilunni hefur annað og ekki minna vandamál bætzt ofan á brestina í sáttastarfinu. Það er, að formenn samninganefnda virðast vera í hanaslag og taka hann mjög alvarlega. Þeir koma þrútnir af bræði fram í fjölmiðlum og saka hver annan um hvaðeina tiltækt.

Á oddi samninganefnda þurfa að vera lagnir og liprir menn, sem kunna þá list að fá sitt fram með góðu. Menn fá aldrei neitt út úr því að öskra hver á annan. Þess vegna hefur allur ferill sjómannasamninganna verið meira eða minna út í hött, enda ekki leitt til árangurs.

Bent hefur verið á, að miklu auðveldara hafi reynzt að semja utan Karphússins, þar sem hvorki koma við sögu sáttasemjari né formenn samninganefnda deiluaðila. Þannig hefur verið samið með friði og spekt á Vestfjörðum, án þess að nokkrum þyki það tiltökumál.

Vestfirðingar voru búnir að semja skömmu áður en hófst þriggja vikna verkfall á vegum Karphússins. Fyrir vestan hafa menn síðan gengið til verka sinna meðan allt er á hverfanda hveli í öðrum landshlutum. Enda eru skip farin að leka úr höfnum í trássi við Karphúsið.

Annaðhvort verða samningaaðilar að skipta út þeim mönnum, sem lengst ganga í villigötum hanaslags, eða knýja þá til breyttra vinnubragða. Það dugir ekki, að persónuleg óvild og persónulegir skapsmunir í samskiptum einstaklinga valdi þjóðfélaginu tugmilljónatjóni.

Málsaðilar ættu núna að gera sér ferð til Vestfjarða og kynna sér vinnubrögð við hliðstæða samninga. Þar er samningaharkan ekki minni, en hæfilega blönduð slíkri lipurð og trausti, að ekki þarf einu sinni að skrifa samningsatriði á blað til þess að þau haldi árum saman.

Það er líka ófært, að sáttasemjari sé sífellt með fiðring í gikkfingri og framkalli hvað eftir annað lotur á lokuðum þrýstingsfundum með þeirri afleiðingu, að allt springur svo framan í málsaðila og niðurstaðan verður alls engin, heldur verður að byrja samningaferilinn upp á nýtt.

Eitthvað meira en lítið er að, þegar málsaðilar verða að þramma til forsætisráðherra til þess að láta hann berja í borðið og segja sér að hundskast til að taka sig saman í andlitinu og byrja að semja í alvöru og án afskipta ríkisvaldsins. En reiðilesturinn hafði þó áhrif.

Verkfallið er nú á leiðarenda. Tjónið af völdum þess verður ekki bætt að fullu. En við getum öll lært af reynslunni. Sáttasemjari þarf að endurskoða aðferðafræðina. Og málsaðilar í sjómannadeilunni þurfa að skipta sumum út og ganga betur undirbúnir til næstu samninga.

Skipuleggja þarf sérstök námskeið í samskiptum og samningatækni fyrir þá, sem taka þátt í samningaviðræðum í Karphúsinu. Slípa þarf menn, til að þeir nái árangri.

Jónas Kristjánsson

DV

Slípa þarf samningamenn

Greinar

Sáttasemjara ríkisins og formönnum samninganefnda ber að líta í eigin barm eftir hrakfarir í samningaferli og atkvæðagreiðslum á ofanverðum vetri og öndverðu sumri. Aðferðafræðin við gerð kjarasamninga hefur brenglazt svo, að verkföll eru orðin daglegt brauð.

Sáttasemjari hefur látið fella fyrir sér hverja sáttatillöguna og miðlunartillöguna á fætur annarri. Er nú svo komið, að tillögur af þessu tagi, sem áður voru vandlega grundaðar og vógu þungt á metunum, eru nú orðnar eins og hver önnur marklaus pappírsgögn deiluaðila.

Eðlilegt er, að breyttar áherzlur í vinnubrögðum fylgi nýjum sáttasemjara. En að þessu sinni hafa breytingarnar verið of miklar og misheppnaðar. Nauðsynlegt er að endurvekja meiri varfærni, draga úr þrýstingi á samninganefndir og fara miklu sparlegar með tillögur.

Í sjómannadeilunni hefur annað og ekki minna vandamál bætzt ofan á brestina í sáttastarfinu. Það er, að formenn samninganefnda virðast vera í hanaslag og taka hann mjög alvarlega. Þeir koma þrútnir af bræði fram í fjölmiðlum og saka hver annan um hvaðeina tiltækt.

Á oddi samninganefnda þurfa að vera lagnir og liprir menn, sem kunna þá list að fá sitt fram með góðu. Menn fá aldrei neitt út úr því að öskra hver á annan. Þess vegna hefur allur ferill sjómannasamninganna verið meira eða minna út í hött, enda ekki leitt til árangurs.

Bent hefur verið á, að miklu auðveldara hafi reynzt að semja utan Karphússins, þar sem hvorki koma við sögu sáttasemjari né formenn samninganefnda deiluaðila. Þannig hefur verið samið með friði og spekt á Vestfjörðum, án þess að nokkrum þyki það tiltökumál.

Vestfirðingar boru búnir að semja skömmu áður en hófst þriggja vikna verkfall á vegum Karphússins. Fyrir vestan hafa menn síðan gengið til verka sinna meðan allt er á hverfanda hveli í öðrum landshlutum. Enda eru skip farin að leka úr höfnum í trássi við Karphúsið.

Annað hvort verða samningaaðilar að skipta út þeim mönnum, sem lengst ganga í villigötum hanaslags, eða knýja þá til breyttra vinnubragða. Það dugir ekki, að persónuleg óvild og persónulegir skapsmunir í samskiptum einstaklinga valdi þjóðfélaginu tugmilljónatjóni.

Málsaðilar ættu núna að gera sér ferð til Vestfjarða og kynna sér vinnubrögð við hliðstæða samninga. Þar er samningaharkan ekki minni, en hæfilega blönduð slíkri lipurð og trausti, að ekki þarf einu sinni að skrifa samningsatriði á blað til þess að þau haldi árum saman.

Það er líka ófært, að sáttasemjari sé sífellt með fiðring í gikkfingri og framkalli hvað eftir annað lotur á lokuðum þrýstingsfundum með þeirri afleiðingu, að allt springur svo framan í málsaðila og niðurstaðan verður alls engin, heldur verður að byrja samningaferilinn upp á nýtt.

Eitthvað meira en lítið er að, þegar málsaðilar verða að þramma til forsætisráðherra til þess að láta hann berja í borðið og segja sér að hundskast til að taka sig saman í andlitinu og byrja að semja í alvöru og án afskipta ríkisvaldsins. En reiðilesturinn hafði þó áhrif.

Verkfallið er nú á leiðarenda. Tjónið af völdum þess verður ekki bætt að fullu. En við getum öll lært af reynslunni. Sáttasemjari þarf að endurskoða aðferðafræðina. Og málsaðilar í sjómannadeilunni þurfa að skipta sumum út og ganga betur undirbúnir til næstu samninga.

Skipuleggja þarf sérstök námskeið í samskiptum og samningatækni fyrir þá, sem taka þátt í samningaviðræðum í Karphúsinu. Slípa þarf menn, til að þeir nái árangri.

Jónas Kristjánsson

DV

Varúð í Víetnam

Greinar

Stundum hættir Íslendingum til að reyna að gleypa sólina, þegar þeir sjá tækifæri opnast. Þannig sjá margir drjúpa smjör af hverju strái á tölvuvöllum Víetnams, af því að íslenzk fyrirtæki hafa verið beðin um að selja þangað reynslu og þekkingu á ýmsum tölvusviðum.

Mikilvægt er, að íslenzkir aðilar, sem sinna kallinu, taki eins litla áhættu og framast er unnt. Meðan verksviðið er reynsla og þekking, er áhættan takmörkuð, en hún eykst hratt, ef fjárfesting og fjármögnun fylgir í kjölfarið. Margir hafa flaskað á slíku í þessum heimshluta.

Reynslan frá Kína er víti til varnaðar. Þar er svipað þjóðskipulag og í Víetnam, alræði eins flokks, sem reynir með handafli að koma á kapítalisma innan ramma kerfisins. Gróðafíknir útlendingar hafa flykkzt að eins og mý á mykjuskán og tapað allri sinni fjárfestingu.

Alræðiskerfi eins og í Kína og Víetnam er afar ólíkt vestrænu valddreifingarkerfi. Allt framtak kemur að ofan og er háð duttlungum valdhafa. Lög og réttur gilda ekki, heldur síbreytilegar reglugerðir að ofan, samfara mikilli spillingu embættismanna, svo sem sjá má í Kína.

Fyrst gengur allt vel, því að kerfið að ofan ryður hindrunum úr vegi. Síðan hefst alvara lífsins, þegar kemur að tekjuskiptingunni. Þá komast útlendu fyrirtækin fljótt að því, að markmið valdhafanna er að mjólka þau og koma í veg fyrir, að þau geti tekið til sín arð.

Að lokum gefast útlendingarnir upp. Þeir afskrifa framlagt hugvit og þekkingu, fasteignir og vélbúnað, og snúa sér að verkefnum í heimshlutum, þar sem hægt er að ganga að ákveðnum leikreglum vísum. Þannig hafa hundruð stórra og smárra fyrirtækja gefist upp í Kína.

Ástæða er til að ætla, að vandamálin í Kína muni endurspeglast í Víetnam, sem er skemmra á veg komið í þróun kapítalisma innan ramma alræðis. Þess vegna er mikilvægt að líta til síðustu ára í Kína, þegar gerðar eru áætlanir um framkvæmdir á næstu árum í Víetnam.

Stórfyrirtækin, sem hafa brennt sig í Kína, fara varlega um þessar mundir í Víetnam. Þess vegna er auðveldara fyrir smákarla eins og Íslendinga að koma sér á flot í efnahagslífinu þar í landi. Sennilega endurspeglast þetta í boði um aðild Íslendinga að víetnamskri tölvuvæðingu.

Allt getur þetta orðið hið bezta mál, ef menn hafa vaðið fyrir meðan sig. Mikilvægt er, að hinir íslenzku aðilar fylgist vel með, hvernig mál hafa þróazt í Kína og gæti þess að lenda ekki í svipuðum vítahring í Víetnam. Einnig er mikilvægt að þekkja sín peningalegu takmörk.

Þeir, sem bara selja reynslu og þekkingu, sleppa oftast með skrekkinn og geta snúið sér að öðrum verkum. Hinir, sem taka þátt í fjármögnun eða taka að einhverju leyti ábyrgð á fjármögnun, tapa oftast öllu. Ef þeir eru smákarlar á borð við okkur, ná þeir sér aldrei aftur.

Annar helzti kosturinn við reynslu og þekkingu á tölvusviðum er, að auðvelt er að færa sig til eftir aðstæðum. Starfsemin er að mestu óháð landamærum og fjarlægðum. Fólk getur jafnvel sumpart unnið heima hjá sér að verkefnum, sem varða fjarlægar heimsálfur.

Hinn helzti kosturinn við reynslu og þekkingu á tölvusviðum er, að unnt er í meira mæli en á öðrum sviðum að komast hjá að festa fjármagn í mannvirkjum og tækjum. Þá festingu er hægt að láta þeim eftir, sem reynslu og þekkingu hafa á sviði áhættufjármögnunar.

Aðalatriðið er að átta sig á, að í alræðisríkjum gilda ekki leikreglur til langs tíma, heldur skipta þarlend stjórnvöld eftir eigin þörfum um reglur í miðjum leik.

Jónas Kristjánsson

DV

Ágætis tímaskekkja

Greinar

Við lestur stjórnmálabókar Svavars Gestssonar alþingismanns kemur fyrst á óvart, að unnt skuli vera að gefa út slíka bók. Óvenjulegt er og nánast einsdæmi, að íslenzkur stjórnmálamaður hafi hugmyndafræðilegan pakka af skoðunum og geti sett hann fram í rökum.

Íslenzkir stjórnmálamenn hafa fæstir gefið mikið fyrir pakka af hugmyndafræðum. Þeir láta sín stjórnmál að mestu snúast um hversdagslegri hluti á borð við staðbundna hagsmuni atvinnuvega. Og í seinni tíð hefur þeim gengið bezt, sem minnsta hafa hugmyndafræðina.

Til dæmis er erfitt að sjá fyrir sér, að einhver núverandi ráðherra hafi áhuga á hugmyndafræðilegum grundvallaratriðum í stjórnmálum og geti raðað einhverjum slíkum saman í rökfræðilegt samhengi heillar bókar. Þeir hugsa fremur um brauð og smjör en hugmyndir.

Að þessu leyti er bók Svavars eins konar tímaskekkja. Hún fjallar um efni, sem er um þessar mundir meira utangarðs í pólitík en nokkru sinni fyrr. Hún verður til dæmis ekki sameiningartákn í samruna flokka á vinstri væng, því að sá samruni mun snúast um persónur.

Hugmyndafræðilega er bók Svavars fremur mild útgáfa af skoðanapakka, sem ýmist er skilgreindur sem vinstri stefna, jafnaðarstefna eða félagshyggja. Þar er tekið dálítið tillit til markaðshyggjunnar, en þó ekki eins mikið og gert er í jafnaðarmannaflokkum nútímans.

Margir þeir, sem telja sig vera eins konar jafnaðarmenn, hafa meiri trú á getu markaðarins til góðra hluta, svo sem á sviði mengunar og vistfræði. Og ekki verður af bók Svavars séð, að hann hafi fylgzt með nútímalegum rökræðum um slík mál, sem margir þekkja úr Economist.

Sjálfur vill Svavar nánast staðsetja skoðanir sínar sem félagslegan markaðsbúskap, þótt höfundur hugtaksins, Ludwig Erhard, mundi tæpast staðfesta það. Það skilur á milli, að enn þann dag í dag hefur Svavar tröllatrú á græðandi og leiðandi mætti handayfirlagningar ríkisins.

Svavar vísar til nokkurra landa í Suðaustur-Asíu, þar sem velmegun hefur náðst með leiðum, sem ekki falla alveg saman við hinar vestrænu. En hin austræna félagshyggja er fremur rekin af risafyrirtækjum en af ríkinu sjálfu og er því önnur en félagshyggja Svavars.

Raunveruleiki Vesturlanda og Suðaustur-Asíu felur ekki í sér þau dæmi, sem Svavar telur vera til stuðnings við vinstri stefnu eða jafnaðarstefnu eða félagshyggju eða mannúðarstefnu sína, til mótvægis við markaðshyggjuna, sem einkennir stjórnmál í þessum heimshlutum.

Þótt skoðanir og kenningar Svavars séu þannig engin raunvísindi, eru þær fullgildar sem þroskuð rökfræði. Þær gefa heilsteypta mynd af sjónarmiðum, sem eru vinstra megin við Alþýðuflokkinn og geta þess vegna verið vegarnesti Alþýðubandalagsins og skyldra flokka.

Með bók Svavars hefur Alþýðubandalagið fengið skynsamlega og hófsamlega hugmyndafræði, sem flokkurinn getur notað sér í samkeppni stjórnmálaflokka um fylgi fólks, er telur sig geta stutt eins konar vinstri stefnu, jafnaðarstefnu, félagshyggju eða manneskjustefnu.

Til samanburðar hefur Sjálfstæðisflokkurinn enga slíka hugmyndafræði, sem fellur að veraldarsýn flokksins eða flokksmanna, að svo miklu leyti sem sú sýn er til. Til dæmis er sú sýn í reynd langt frá markaðshyggjunni í hugmyndafræði Hannesar H. Gissurarsonar.

Svo er önnur saga, að íslenzkir stjórnmálaflokkar hafa komizt vel af án mikilla hugmyndafræða og hafa í seinni tíð lagt aukna áherzlu á aðra þætti stjórnmála.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimska og hroki

Greinar

Símaskráin fyrir 1995 er endanleg staðfesting á, að Póstur & sími er ófær um að gegna hlutverki símaeinokunar. Ekkert mark hefur verið tekið á málefnalegri gagnrýni, sem símaskrá ársins 1994 sætti fyrir ári. Símaskráin í ár er nánast sömu annmörkum háð og hin fyrri.

Stærsti hluti vandans er tvískipting skrárinnar, sem öpuð er eftir símaskrám milljónaborga í útlöndum. Símaskrá kvartmilljón manna þjóðar kemst vel fyrir í einu bindi, sem er þynnra en símaskrárbindi í útlöndum. Leit í einni skrá tekur mun skemmri tíma en leit í tveimur.

Ofan á þessa sóun tugþúsunda vinnustunda notenda skrárinnar bætist svo, að Póstur & sími hefur reynzt ófær um að skilgreina í reynd, hvort símanúmer eigi heima í nafnaskrá eða atvinnuskrá. Í fjölmiðlum hafa að undanförnu verið rakin ótal dæmi um þessa vanhæfni.

Talsmaður Pósts & síma hefur gefið ráð um, hvar notendur eigi að byrja að leita að númeri í þessum skrám. Virðist stofnunin gefa sér, að það sé náttúruleg iðja fólks að þurfa að leita í hverri skránni á fætur annarri. Það er gott dæmi um veruleikafirringu stofnunarinnar.

Þegar vísað er frá nafnaskrá yfir í atvinnuskrá, er ekki gefið upp neitt númer til að spara flettendum tíma, heldur er höfð þar eyða í bókinni. Þetta tryggir, að allir þurfa að fletta upp í hinni skránni, líka þeir, sem bara eru að leita að einhverju aðalnúmeri í skiptiborði.

Nýtt letur skrárinnar hefur ekki leitt til þess pappírssparnaðar og aukins læsileika, sem einokunarstofnuninni var bent á í gagnrýninni í fyrra. Í stað 30% aukningar á pappírsnýtingu kemur 9% aukning, sem gerir símaskrána auðvitað mun þykkri en hún þarf að vera.

Nýja letrið er mjórra en fyrra letrið, svo að pláss er fyrir orðin: “Sjá atv.skrá”, án þess að þau fari í dálkinn, sem er ætlaður fyrir símanúmer. Þetta hefði verið til bóta, ef plássið hefði verið notað fyrir eitt af aðalnúmerum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar, en svo er ekki.

Íslenzka símaskráin í núverandi ástandi er afkvæmi heimsku og hroka. Þetta tvennt verður að fara saman til að gera ár eftir ár sömu mistökin, þrátt fyrir vel grundaðar og aðgengilegar ábendingar um breytingar. Þessir eiginleikar ráða ferð yfirstjórnar Pósts & síma.

Sá, sem aðeins er heimskur, gerir mistökin venjulega bara einu sinni. Það þarf hroka í ofanálag til að gera mistökin aftur og aftur. Slíkur hroki verður aðeins til í einokunarstofnunum á borð við Póst & síma, sem eru handan raunveruleika dagslegs lífs á Íslandi.

Póstur & sími hefur ítrekað sýnt fram á, að hann er óhæfur til að byggja upp skynsamlegan gagnabanka um símanúmer þjóðarinnar og enn frekar óhæfur til bókaútgáfu á því sviði. Þetta verkefni ber að gefa frjálst, svo að markaðurinn geti spreytt sig á að gera betur.

Hin endurteknu símaskrárævintýri hafa sáð efasemdum um, að Póstur & sími sé stofnun, sem geti lagað sig eftir aðstæðum. Mjög hefur verið rætt um, að afnema beri einokun hans, annað hvort á völdum sviðum eða almennt. Sífellt bætast rök í sarp símafrelsis.

Ef einokun Pósts & síma verður afnumin, gerist það ekki með því að skipta stofnuninni upp í smærri einokunarfélög eða smærri fyrirtæki með sömu ráðamönnum. Það þarf að taka einokunina frá stofnuninni og deildum hennar, svo og frá ráðamönnum stofnunarinnar.

Póstur & sími er bezta auglýsingin, sem markaðssinnar geta fengið til að benda á, að ríkisrekstur sé jafnan óhagkvæmari en samkeppnisrekstur á frjálsum markaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Allan fisk á markað

Greinar

Í kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna er tekizt á um grundvallaratriði, hlutdeild í hagnaði af notkunarrétti á takmarkaðri auðlind hafsins. Kvótakerfið hefur fært útvegsmönnum þennan rétt á silfurfati, en sjómenn vilja láta markaðskerfið færa sér hlut af honum á silfurfati.

Samkvæmt kvótakerfinu eiga skipin kvótann. Útgerðarfyrirtæki kaupa hann og selja og láta hann jafnvel ganga í erfðir. Þetta er sjálfvirk peningauppspretta, af því að kvótinn felur í sér gulltryggan aðgang að takmarkaðri auðlind. Þetta hefur búið til stétt sægreifa.

Þeir ná forréttindahagnaði, hvort sem þeir selja fiskinn á markaði eða nota hann í viðskiptum milli skyldra aðila, þegar útgerð og vinnsla eru í eigu sama aðila eða skyldra aðila. Með niðurfærslu á verði í viðskiptum skyldra aðila ná sægreifar til sín öllum gróðanum.

Þegar fiskur er seldur á markaði, ná sjómenn á hlutaskiptum hins vegar í hlut af þessum viðbótarhagnaði af kvótakerfinu. Það eru því hagsmunir sjómanna, að allur fiskur fari á markað, en sé ekki seldur utan markaða milli aðila, sem líta á fiskverð sem bókhaldsatriði.

Reynslan sýnir, að útvegsmenn freistast til að nota aðstöðu sína sem handhafa kvótakerfisins til að lækka tekjur sjómanna með því að láta fiskverð utan markaða vera eins lágt og þeir treysta sér til. Þetta hefur valdið mikilli úlfúð í samskiptum útvegsmanna og sjómanna.

Því fer fjarri, að kjarasamningar séu langt komnir, þegar ósamið er um verðmyndun á fiski, sem fer framhjá fiskmörkuðum. Miklu nær væri að segja, að viðræðurnar séu skammt á veg komnar, því að þetta atriði hlýtur að vera megininntak viðræðna um kjör sjómanna.

Útvegsmenn segjast ekki vera málsaðili og vísa sjómönnum á að ræða við samtök fiskvinnslunnar. Þetta er dæmigerð hundalógík, sem segir okkur einkum, að núverandi verðmyndunarkerfi er í þágu þeirra útvegsmanna, sem geta notað sér viðskipti skyldra aðila.

Ríkisstjórnin er að þessu sinni ekki fús til að hafa forgöngu um að koma flotanum aftur á sjó. Hún vill reyna að rjúfa vítahringinn, sem myndazt hefur á löngum tíma og felur í sér, að málsaðilar semja ekki, af því að þeir telja ríkisstjórnina munu leysa málin fyrir þá.

Vegna vítahringsins hafa samningaaðilar komizt upp með að láta eins og óþægir krakkar og verða sér hvað eftir annað til skammar með uppæsingi og reiðiköstum á almannafæri. Tímabært er orðið, að þeir fullorðnist og fari að semja um mál sín án afskipta ríkisins.

Í rauninni er margt gott um verkfallið að segja. Það hvílir fiskimiðin um tíma fyrir skipulegri ofveiði og eykur líkurnar á, að þjóðin hafi lifibrauð af fiskveiðum fram yfir aldamótin. Það verndar framtíðarhagsmuni fyrir stundarhagsmunum, sem annars ráða jafnan ferðinni.

Þess vegna er bezt, að ríkisstjórnin skipti sér ekki af verkfallinu og leyfi deiluaðilum að rífast um hagnaðinn, sem kvótakerfið hefur tekið af þjóðinni og fært sægreifunum. Ef samningamenn deiluaðila eru ófærir um að semja, þá verða deiluaðilar sjálfir að skipta þeim út.

Harkan í deilunni er gott dæmi um, að kvótakerfið hefur gengið sér til húðar og ætti að víkja fyrir gjaldskyldum veiðileyfum. Kvótakerfið færir mikla peninga til í þjóðfélaginu og býr á þann hátt til eins konar þýfi, sem forgangshópar berjast um með kjafti og klóm.

Við þær aðstæður er bezt, að allur fiskur sé seldur á markaði, svo sem sjómenn leggja til. Hin leiðin hvetur til misnotkunar eins og innherjaviðskipti gera yfirleitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Gott á neytendur

Greinar

Svo virðist sem fullorðið fólk í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu hafi ímyndað sér, að GATT-frumvarp ríkisstjórnarinnar mundi leiða til innflutnings á erlendri búvöru á 30% hærra verði en innlend búvara. Þetta fólk hefur nú reiknað dæmið betur og segist hafa verið blekkt.

Þeir, sem reyndari eru, vissu alltaf, að aldrei stóð til að leyfa innflutning. Frumvarpssmiðir höfðu það verkefni að búa svo um hnútana, að enginn kostur væri á innflutningi erlendrar búvöru, jafnvel þótt það jafngilti mörg hundruð prósent tolli og allt upp í 1400% toll.

Markmið frumvarpsins var að fullnægja formsatriðum, en ekki efnisatriðum í samkomulagi, sem Ísland hafði samþykkt í fjölþjóðlegu viðskiptasamstarfi á vegum GATT. Markmið frumvarpsins er lögfræðileg aðferð við að leyfa innflutning búvöru án þess að leyfa hann.

Að baki frumvarpsins eru stóru framsóknarflokkarnir tveir. Þeir hafa báðir jafnan sýnt, að þeir fyrirlíta neytendur og taka jafnan 100% afstöðu gegn þeim. Þetta er ósköp eðlilegt, því að þetta gera neytendur sjálfir, sem hafa áratugum saman fúslega látið hafa sig að fífli.

Hátt matarverð á Íslandi er ekki efnahagslegur vandi, heldur pólitískur. Kjósendur styðja jafnan mest og bezt þá flokka, sem líklegastir eru til að halda matarverði í landinu sem hæstu. Þetta gera þeir, þótt það kosti hverja fjögurra manna fjölskyldu 320.000 krónur á hverju ári.

Allir kjósendur eru líka neytendur. En kjósendur líta ekki á hagsmuni neytenda sem mikilvægan þátt í hagsmunum sínum. Margir þeirra vilja, að hagsmunir neytenda séu teknir fram yfir sérhagsmuni, en sá vilji er ekki svo ákveðinn, að hann ráði pólitískri afstöðu.

Ef kjósendur greiddu atkvæði sem neytendur, mundu þeir rústa gamla flokkakerfið. En það gera þeir ekki. Þótt boðið yrði upp á sérstakan stjórnmálaflokk neytenda, styddu þeir hann ekki. Þeir styðja ekki heldur Alþýðuflokkinn, því að allir vita, að hann svíkur.

Til varnar hagsmunum neytenda eru samtök sérviturra neytenda og örfáir kaupmenn, sem hafa hagnazt á að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna. Þessir aðilar hafa hátt um þessar mundir, af því að ríkisstjórnin er greinilega að fara í kringum anda GATT-samningsins.

Nöldrið er tekið upp í fjölmiðlum, þar sem það rís og hnígur. Hljómgrunnur í þjóðfélaginu er nánast enginn. Kjósendur vilja láta nauðga sér sem neytendur eins og þeir hafa jafnan látið gera. Þeir vilja leyfa helztu stjórnmálaöflum landsins að traðka á sér á hefðbundinn hátt.

Íslendingar hafa margsinnis séð lotur í umræðum og deilum um mikilvægi hagsmuna neytenda annars vegar og landbúnaðarins sem kerfis hins vegar. Jafnan hefur niðurstaðan orðið sú, að hagsmunir neytenda verða 100% að víkja fyrir hagsmunum landbúnaðarkerfisins.

Núna stendur ein slík lota. Að henni lokinni mun kerfið halda áfram sinn vanagang af algeru tillitsleysi við hagsmuni neytenda. Við því er ekkert að segja. Þjóðin vill hafa þetta svona. Hún er meira en fús til að borga herkostnaðinn af yfirgangi landbúnaðarkerfisins.

Reikningsdæmi GATT-frumvarpsins liggja á borðinu, alveg eins og önnur reikningsdæmi landbúnaðarins. Samanlagt segja þessi dæmi, að hver fjögurra manna fjölskylda í landinu verður að greiða 320.000 krónur á ári til að halda uppi vonlausu batteríi landbúnaðar.

Fólk vill þjást í þágu landbúnaðarkerfisins. Það er kjarni málsins. Þess vegna er frumvarp ríkisstjórnarinnar ofur eðlilegt. Það er raunar gott á neytendur.

Jónas Kristjánsson

DV

Það er vitlaust gefið

Greinar

Íslendingar eru aftur komnir í efsta sæti þjóða heims í töpuðum vinnudögum vegna verkfalla, eftir að hafa verið í þriðja sæti á eftir Ítölum og Finnum í nokkur ár. Stöðugt gengi á ýmsum öðrum sviðum efnahagslífsins hefur ekki framkallað aukið jafnvægi á þessu sviði.

Skýringin er ekki flókin. Við búum við meira misræmi en aðrar vestrænar þjóðir milli þjóðartekna annars vegar og launa hins vegar. Þótt við séum sem þjóð meðal allra tekjuhæstu í heimi, verðum við að sæta mun lakari launum en starfsbræður okkar í mörgum löndum.

Launagreiðendur hafa ekki svigrúm til að hækka laun starfsfólks til samræmis við það, sem tíðkast í löndum á svipuðu stigi þjóðartekna. Afkoma fyrirtækja á Íslandi er lakari en gengur og gerist í slíkum löndum. Samanburðardæmið við útlönd gengur einfaldlega ekki upp.

Mikil spenna myndast á markaði kjarasamninga, þegar starfsfólk reynir að ná þeim tekjum, sem það telur sig eiga að fá, hjá fyrirtækjum og stofnunum, sem geta tæpast greitt lágu launin. Þetta leiðir til þess, að átök á vinnumarkaði eru meiri hér á landi en annars staðar.

Sex vikna verkfall kennara á þessu ári er stórkarlalegt sýnishorn af dæmi, sem gengur ekki upp. Að undanförnu hafa sjómenn verið í verkfalli, sem kostaði efnahagslífið hundruð milljóna á dag. Og nú eru rútubílstjórar komnir úr verkfall, sem var að verða illskeytt.

Reynslan af verkföllum er misjöfn og einkum léleg. Herkostnaður starfsmanna af verkföllum er mikill. Kennarar verða til dæmis mörg ár að vinna upp tapið af verkfallinu í vetur. Samt rembist fólk alltaf við þessa aðferð við að reyna að kreista fé úr launagreiðendum.

Íslendingum er fyrirmunað að skilja, að það er vitlaust gefið í þessu spili. Þjóðartekjurnar koma ekki nógu vel til skiptanna, af því að hluta þeirra er sóað á öðrum vettvangi, utan skipta. Þetta er búið að segja fólki áratugum saman, en það fæst ekki til að skilja samhengið.

Þegar 250 þúsund manna smáþjóð brennir 20 milljörðum króna árlega á altari landbúnaðar, með innflutningshöftum, niðurgreiðslum, uppbótum og styrkjum, er það fé ekki til ráðstöfunar í annað. Það gufar bara upp. Þetta eru 320.000 krónur á ári á fjögurra manna fjölskyldu.

Stefna innflutningshafta, niðurgreiðslna, uppbóta og styrkja í landbúnaði er studd meirihluta kjósenda og öllum þorra þingmanna. Þjóðin tekur hins vegar ekki afleiðingum þessara skoðana sinna. Hún vill bæði halda og sleppa. Og hún fer í verkföll því til staðfestingar.

Misræmið milli þjóðartekna og launatekna er ekki efnhagslegt vandamál, heldur pólitískt vandamál. Það er ekki á valdi launagreiðenda að brúa þetta augljósa bil. Verkfallsmenn eru yfirleitt í geitarhúsi að leita ullar, svo sem dýrkeypt dæmin sanna hvert á fætur öðru.

Nær væri fyrir launagreiðendur og launafólk að taka saman höndum um að stöðva verðmætabrennsluna, sem kemur í veg fyrir, að fjármagn komist til skiptanna í atvinnulífinu. Það verk er aðeins hægt að vinna á pólitískum vettvangi. Þar er lykillinn að launahækkunum.

Meðan meirihluti þjóðarinnar og allur þorri þingmanna hennar eru þeirrar skoðunar, að ekki megi hrófla við pólitískri verðmætabrennslu, verður þjóðin að reyna eftir fremsta megni að sætta sig við, að miklar þjóðartekjur endurspeglist ekki að fullu í launatekjum hennar.

Þjóðin hefur tekið pólitíska ákvörðun og neyðist síðan til að taka fjárhagslegum afleiðingum hennar. Þetta er bara gamla formúlan: Hver er sinnar gæfu smiður.

Jónas Kristjánsson

DV

Alger niðurlæging Nató

Greinar

Yfirmönnum Nató kom á óvart, að Serbar skyldu hlekkja hermenn þess við staura til að stöðva loftárásir bandalagsins. Voru Serbar þó margoft búnir að hóta þessu, ef Nató væri með derring. Enda hafði hlekkjunin tilætluð áhrif. Nató lagði niður rófuna að venju.

Þetta er gott dæmi um, að taumlaus greindarskortur ræður ferð Vesturveldanna á Balkanskaga. Dæmin eru raunar endalaus. Hvað eftir annað fara ráðamenn þeirra og samtaka þeirra með marklausar hótanir, sem aldrei er staðið við. En Serbar standa við allar hótanir.

Serbar eru tryllt þjóð, knúð áfram af sagnfræðiþrugli um stöðu sína í samfélagi þjóðanna. Þeim er stjórnað af eftirlýstum stríðsglæpamönnum, sem eru meira eða minna geðveikir. Sönnunargögn um ábyrgð stjórnenda hafa hrannast upp hjá stríðsglæpadómstólnum í Haag.

Pappírstígrisdýr Vesturveldanna eiga ekkert erindi í klær Serba. En ráðamenn fyrrverandi stórvelda og heimsvelda, ráðgjafar þeirra og hershöfðingjar geta alls ekki séð, að tilgangslaust er að vera sí og æ með gersamlega innihaldslausar hótanir við tryllta stríðsmenn.

Lengi hefur verið ljóst, að Nató varð að öryrkjabandalagi, þegar óvinurinn hvarf í austri. Tilgangsleysi og markleysi bandalagsins verður ljósara með hverju málinu, sem það flækist í. Til viðbótar er svo að koma í ljós alvarlegur greindarbrestur í yfirstjórn þess.

Veruleikafirring ráðamanna Nató varð greinileg í nóvember í fyrra, þegar þeir ímynduðu sér og auglýstu um allan heim, að flugvélar bandalagsins hefðu í loftárás eyðilagt flugbækistöð Serba í Udbina. Ekki var fótur fyrir þessu, svo sem Serbar sönnuðu með myndum.

Hernaðarbandalög og fyrrverandi stórveldi og heimsveldi, sem þola ekki að sjá blóð og leggja niður rófuna af minnsta tilefni, eiga ekki að vera að leika hernaðarbandalög, stórveldi og jafnvel heimsveldi. Þau eiga að snúa sér að léttvægari og friðsælli viðfangsefnum.

Efnahagslegt og peningalegt vald ræður ekki stöðu ríkja eða ríkjasamtaka í heiminum, þegar kemur að valdbeitingu. Efnahagslegar refsiaðgerðir eru til dæmis marklitlar. Það, sem ræður, er pólitískur og hernaðarlegur viljastyrkur, sem Serbar hafa í ríkum mæli.

Auðvitað er dapurlegt, þegar geðveikum stríðsglæpamönnum vegnar vel. Enn dapurlegra er þó, þegar þykjustuleikur gagnaðilans magnar slíka menn um allan heim og sannfærir þá um, að þeir geti óhræddir farið sínu fram, af því að Vesturveldin séu búin að vera.

Við þessu er bara ekkert að gera, þegar viljann vantar á Vesturlöndum. Hins vegar væri hægt að lágmarka skaðann með því að hætta að vera með marklausar hótanir, hætta að senda eftirlitsmenn á vettvang og hætta að hafa afskipti af erfiðum utanríkismálum.

Í staðinn gætu hinir pólitísku og hernaðarlegu öryrkjar reynt að hlúa að starfi stríðsglæpadómstólsins í Haag. Þar hafa verið lögð fram skjöl, sem sýna, að ráðamenn Serbíu og Serbahers eru aðilar að stríðsglæpum Bosníu- Serba. Þar á meðal er Milosevic Serbíuforseti.

Raunar hafa brezk og frönsk stjórnvöld reynt að bregða fæti fyrir stríðsglæpadómstólinn og eru að reyna að skrúfa fyrir fjárveitingar til hans. Um leið er verið að bjóða Milosevic stríðsglæpamanni afnám efnahagslegra refsiaðgerða, ef hann viðurkenni Bosníu.

Ef Nató hefði gripið í taumana fyrir þremur árum, þegar Serbar réðust á menningarsögu Vesturlanda í Dubrovnik, hefði verið unnt að hemja skrímslið.

Jónas Kristjánsson

DV

Styðjum sauðfjárbændur

Greinar

Þjóðfélagið þarf að koma sauðfjárbændum til aðstoðar um þessar mundir. Þeir hafa sætt stórfelldri tekjurýrnun, sem stafar einkum af markaðshruni. Neytendur eru að verða fráhverfir lambakjöti, sem þykir of dýrt, þótt ríkið niðurgreiði umtalsverðan hluta verðsins.

Venjulega hefur ríkið ekki afskipti af gjaldþrotum í öðrum greinum, þótt þau komi í bylgjum. Ríkið leggur til dæmis ekki neitt af mörkum til að milda gjaldþrot tuga verktaka í byggingariðnaði. Eru þó þar í hópi margir undirverktakar, sem hafa hrunið með hinum stóru.

Munurinn á undirverktökum í byggingariðnaði og sauðfjárbændum felst fyrst og fremst í, að hinir fyrrnefndu hafa vitandi vits tekið áhættu í grein, þar sem vitað er, að skammt er milli gróða og taps. Sauðfjárbændur eru hins vegar flestir fæddir inn í hlutskipti sitt.

Í raun hafa sauðfjárbændur áratugum saman verið eins konar opinberir starfsmenn. Til skamms tíma voru kjör þeirra reiknuð út frá kjörum viðmiðunarstétta á mölinni og greidd sem slík, einkum í formi niðurgreiðslna og uppbóta. Það kerfi brást með markaðinum.

Þegar þetta tvennt kemur saman, að sauðfjárbændur hafa ekki valið hlutskipti sitt, heldur erft það, og að þeir hafa lengi getað gengið að vísum tekjum, þá er ekki hægt að láta köld markaðslögmál ein um að ráða örlögum þeirra. Samfélagið ber hluta ábyrgðarinnar.

Sauðfjárbændur verða þó sakaðir um að hafa ekki tekið mark á þeim, sem bentu á, að ríkisrekstur sauðfjárræktar gæti ekki staðizt til lengdar vegna mikils og vaxandi kostnaðar. Þeir verða sakaðir um að hafa trúað hinum, sem hafa sagt gagnrýnendur vera óvini bænda.

Mest er ábyrgð forustumanna bænda. Þeir hafa áratugum saman hafnað allri gagnrýni. Nú verða þeir að standa sjálfir fyrir þeirri fækkun bænda, sem nauðsynleg var fyrir löngu. Hún er núna miklu þungbærari en var, þegar nóg framboð var af atvinnu og tækifærum.

Áratugir eru síðan farið var að benda á, að í stöðunni væri ódýrast fyrir ríkið að kaupa jarðir af bændum og styðja þá til að koma sér fyrir í öðrum atvinnugreinum. Þetta var þá hægt að fjármagna af peningum, sem þá fóru í að hvetja til offramleiðslu á óþörfu kjöti.

Nú er minna fé aflögu til að framkvæma það, sem svonefndir óvinir bænda lögðu til fyrir mörgum áratugum og æ síðan. Svigrúm ríkisins til aðgerða er minna en verið hefur alla þessa áratugi. Eigi að síður verður ríkið að grípa til neyðaraðstoðar við sauðfjárrækt.

Ekki bætir úr skák, að sauðfjárbændur eru orðnir fangar ímyndunarfræðinga, sem telja þeim trú um, að miklir möguleikar séu í útflutningi lambakjöts til Bandaríkjanna. Til stuðnings blekkingunni er gripið til tízkuorða á borð við lífræna og vistvæna framleiðslu.

Það mun hefna sín að reyna að koma af stað útflutningi á framleiðslu, sem ekki stenzt fullyrðingar. Framleiðsla íslenzks lambakjöts getur ekki talizt lífræn ræktun í skilningi bandarískra krafna. Bakslagið getur orðið bændum dýrt, þegar upp kemst um strákinn Tuma.

Athyglisvert er, að aldrei er minnst á skilaverð til bænda, þegar fleygt er fram nýjum og nýjum töfralausnum. Alltaf eru fundnir nýir og nýir galdramenn, sem ætla að selja offramleiðsluna á grundvelli ímyndunarfræða, en aldrei fæst neinn peningur úr óskhyggjunni.

Slíkir draumar valda skaða með því að tefja fyrir, að sauðfjárbændur, forustumenn þeirra og ríkisvaldið opni augun fyrir staðreyndum markaðshruns á lambakjöti.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóri vinningurinn

Greinar

Margir ætluðu sér að þéna góðan vel með lítilli fyrirhöfn á dögum heimsmeistaramótsins í handbolta. Verð á gistingu hækkaði víða. En útlendingarnir létu ekki hlunnfara sig. Þeir sátu heima og horfðu á leikina í sjónvarpi, en íslenzkir áhorfendur stóðu undir mótskostnaði.

Feginsalda fór um þjóðfélagið og sérstaklega um Suðurnes í þessum mánuði, þegar fréttist, að stjórnendur Atlantsáls-hópsins væru að dusta rykið af fyrri ráðagerðum um álver á Keilisnesi. Menn sáu í rósrauðum hillingum, að sjálfvirk hagsveifla riði yfir þjóðfélagið.

Að minnsta kosti tvisvar á ári fréttist af hugleiðingum um kaup á íslenzku rafmagni um sæstreng til Skotlands og meginlands Evrópu. Alþýðuflokkurinn framleiddi eina slíka frétt í kosningabaráttunni til að sýna fram á dugnað sinna manna við að útvega happdrættisvinninga.

Endalaus röð áætlana um ver af ýmsu tagi þekja bókahillu væntanlegrar iðnþróunarsögu. Sumt var reynt eins og áburðarverksmiðjan og saltver, en annað rykféll, svo sem sykurver og kísilver. Við erum alltaf reiðubúin að trúa á ný töfraver til að leysa vandamál okkar.

Um daginn var stungið gat á eina af þrálátari blöðrum af þessu tagi. Þá var birt skýrsla, sem hafði þá sérstöðu meðal skýrsla af þessu tagi, að höfundurinn ætlaðist greinilega ekki til að fá framtíðartekjur af hönnun fleiri slíkra skýrsla. Það var skýrslan um frísvæði í Keflavík.

Stundum er eins og tilvera okkar snúist um væntingar um uppgrip. Smugan átti í fyrra að bjarga þjóðarbúskapnum og svo voru það Svalbarðamið. Í ár eru það Síldarsmugan og Reykjaneskarfinn, sem leika sama hlutverk. Við erum alltaf að spá í stóra vinninginn.

Ef til vill erum við nær veiðimannaþjóðfélaginu en aðrar auðþjóðir heims. Við erum kynslóð eftir kynslóð orðin vön því, að aflahrota eða blessað stríðið leysi vandræðin, sem skapast af því, hve erfitt við eigum með að ná endum saman í hversdagsleika efnahagslífsins.

Við gerum hins vegar ekkert til að búa til happdrættisvinninga eða aflahrotur. Við ræktum ekki veiðilendurnar eins og rótgrónir veiðimenn gera. Við ofveiðum árlega í stað þess að byggja upp stóra stofna, sem geti fært okkur aflahrotur eftir nokkur ár eða áratugi.

Við vorum lengi að láta okkur dreyma um frísvæði á Suðurnesjum. Á sama tíma varðveittum við einokun í afgreiðslu vöruflugs á Keflavíkurflugvelli. Þegar það var svo afnumið um síðir, var orðið alltof seint að efna til frísvæðis, því að offramboð var orðið af þeim.

Við erum núna í þeirri dæmigerðu stöðu, að stjórnmálamenn dreymir upphátt um svokallaða upplýsingahraðbraut, er henti Íslendingum sem gáfaðri og menntaðri þjóð. Á sama tíma koma stjórnvöld í veg fyrir hana með því að leggja ekki vegi á þessu mikilvæga sviði.

Þvaðrið um upplýsingahraðbrautina er í líkingu við það, að uppi væru ráðagerðir um stórkostlega vöruflutninga um Lyngdalsheiði milli Þingvalla og Laugarvatns, en engum dytti í hug, að gera þyrfti nýjan veg og varanlegan yfir heiðina. Jarðsambandið skortir alveg.

Tómt mál er að tala um upplýsingahraðbraut Íslands nema stjórnvöld tryggi mikla og stöðuga, hnökralausa og álagsþolna bandbreidd í samgöngukerfinu. Þessa dagana er upplýsingahraðbraut Íslands lakasta upplýsingaslóð Vesturlanda og líkist Lyngdalsheiðarveginum.

Þannig forðumst við að rækta garðinn okkar daglega, en látum okkur dreyma um stóra vinninginn. Við lifum utan raunveruleikans í von um skjóttekinn gróða.

Jónas Kristjánsson

DV

Mengað og óhreint land

Greinar

Erfitt er að greina milli ímyndunar og veruleika í ráðagerðum um sölu á margvíslegri vöru og þjónustu á þeim forsendum, að Ísland sé hreint og ómengað land. Í sumum tilvikum verða athafnamenn fangar síbyljunnar um frábæra kosti landsins umfram öll önnur lönd.

Á flöskumiða íslenzks vatns til útflutnings er sagt, að það sé úr djúpum lindum á fjögur hundruð metra dýpi undir fjarlægum fjöllum. Í rauninni er þetta vatn úr Heiðmörkinni. Á sama miða segir, að vatnið sé náttúrulegt lindarvatn. Í rauninni er sett í það gos.

Vonandi lenda fjárfestar ekki í vandræðum, þegar upp kemst um strákinn Tuma. Reynslan sýnir í útlöndum, að seljendur vatns og gosvatns geta lent í miklum erfiðleikum, ef varan uppfyllir ekki gefin fyrirheit. Þess vegna er betra að fara með löndum í fullyrðingum vörumiða.

Á þessum flöskumiða eru hugfangnar lýsingar á mengunarleysi Íslands, einföldu lífi þjóðarinnar og mengunarvernd í veðurkerfum landsins. Sérstaklega er tekið fram, að verksmiðjur séu færri en bílar í landinu. Virðist þetta samið í óvenjulega kræfum ýkjustíl auglýsingastofa.

Froða af þessu tagi getur ef til vill gengið í auglýsingum fyrir innlendan markað, þar sem kröfur eru ekki miklar. Hins vegar geta menn lent í vandræðum með hástemmda froðu í útlöndum, ef einhverjum dettur í hug að kanna, hvort nokkur veruleiki sé að baki henni.

Í rauninni er Ísland mengað land mikillar ofbeitar og afleits frágangs úrgangsefna. Þjóðin stundar sama sem enga lífræna ræktun í landbúnaði. Hún lifir engan veginn einföldu lífi, heldur veltir sér í sóunarheimi einnota umbúða. Hún er þjóð hamborgara og gosdrykkja.

Froðan í enska textanum á flöskumiðum útflutningsvatns endurspeglar óskhyggju á öðrum sviðum atvinnulífsins. Verið er að markaðssetja íslenzkan landbúnað í útlöndum sem lífrænan landbúnað, þótt hann sé næstum laus við að geta flaggað slíkum lýsingarorðum.

Markaðssetning af þessu tagi getur hefnt sín, ef hún byggist ekki á traustum grunni staðreynda. Útlendingar koma til landsins. Þeir geta séð, hvernig við förum með sorp. Þeir geta séð, hvernig sumar fjörur eru leiknar. Þeir geta fundið dæmi um mengað og illa farið land.

Mjög gott væri, ef hægt væri að markaðssetja íslenzka vöru og þjónustu sem ómengaða, hreina, lífræna og svo framvegis. Miklu máli skiptir að fá góðan stimpil af slíku tagi á sjávarafurðir okkar, landbúnaðarvörur, iðnaðarvörur á borð við vatn, og ekki sízt ferðaþjónustu.

En fyrst þarf að skapa forsendurnar. Gerbreyta þarf sorphirðu í það form, sem farið er að tíðkast meðal siðaðra þjóða. Stórir geirar landbúnaðarins þurfa að hætta að nota tilbúinn áburð og draga verulega úr notkun fúkkalyfja, svo að nokkur einföld dæmi séu nefnd.

Einkum er mikilvægt, að Íslendingar leggi niður sóðalega umgengni, sem hvarvetna verður vart. Menn verða að hætta að kasta frá sér rusli eins og þeim þóknast. Það er hugarfar þjóðarinnar, sem verður fyrst að breytast, áður en farið er að selja ímynd hreinleika og fegurðar.

Forsendur slíkrar sölumennsku eru því miður ekki til. Íslendingar eru sóðar, sem búa í sóðalegu landi rusls og mengunar. Það er einföld og dapurleg staðreynd, sem kemur í veg fyrir, að hægt sé að láta rætast villta drauma um miklar tekjur af sölu ímyndaðs hreinleika.

Það kostar mikið fé að gera landið hreint. En á því verður að byrja, áður en menn hætta miklum fjármunum til að selja íslenzka vöru og þjónustu sem hreina.

Jónas Kristjánsson

DV

Frísvæði er óskhyggja

Greinar

Komin er niðurstaða athugunar á möguleikum frísvæðis á Íslandi. Þar kemur fram, að óraunhæft sé að tala um slíkt svæði á Íslandi. Stingur það í stúf við fyrri bjartsýni um, að byggja megi upp ýmsa starfsemi á Suðurnesjum í tengslum við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.

Venjulega eru niðurstöður athugana þannig, að þær leiða til aukinnar bjartsýni. Þær leiða til frekari athugana og meiri tekna skýrsluhöfunda og loks til undirbúnings framkvæmda. Óvenjulegt er að fá allt í einu skýrslu, sem segir, að litlir möguleikar séu á umræddu sviði.

Einar Kristinn Jónsson rekstrarfræðingur vann skýrsluna fyrir Aflvaka Reykjavíkur. Er hún liður í víðtækari úttekt á skilyrðum atvinnurekstrar á Reykjavíkursvæðinu. Samkvæmt henni er betra að bæta skilyrðin almennt, heldur en að ívilna frísvæðisfyrirtækjum.

Frísvæði er vel þekkt fyrirbæri í útlöndum. Svæðið við Shannon-flugvöll á Írlandi hefur oft verið notað til viðmiðunar, þegar talað hefur verið um frísvæði við Keflavíkurflugvöll. En aðstæður eru allt aðrar hér og auk þess er Shannon-frísvæðið of dýrt og misheppnað í raun.

Keflavík getur ekki keppt við Shannon og hin 300 frísvæði heimsins, af því að offramboð er af slíkum svæðum; af því að aðrir voru fyrri til; af því að lega landsins veldur háum flutningskostnaði; af því að laun eru lægri annars staðar; og vegna mikils markaðskostnaðar.

Menn hafa miklað fyrir sér, að tollfrjáls aðgangur að Evrópumarkaði mundi leiða til íslenzks frísvæðis. Í ljós kemur hins vegar, að þessi aðgangur er mjög takmarkaður. Það á til dæmis við um hátækniiðnað. Og samsetningariðnaður forðast hálaunasvæði á borð við Ísland.

Styrkir og ívilnanir í þágu fyrirtækja á frísvæði mismuna innlendri starfsemi, og skekkja rekstrarskilyrði utan og innan svæðisins. Þar á ofan sýnir reynslan frá Shannon, að fyrirtæki á frísvæði eru rótlaus og færanleg Þau hlaupa oft til þeirra, sem bezt bjóða hverju sinni.

Shannon-svæðinu er haldið uppi af gífurlegum styrkjum Evrópusambandsins, af því að Írland er skilgreint sem jaðarsvæði. Styrkirnir námu fjórum milljörðum króna árið 1993 og fara vaxandi. Ekki er til neinn stóri bróðir í útlöndum, sem vill gefa Íslandi slíkar summur.

Shannon-svæðið fékk forskot, af því að það var stofnað 1959, þegar tollar voru mun hærri en nú. Það hefur ekki aukið atvinnu Íra. Atvinnuleysi þar í landi er um 18%. Raunar hefur atvinna á Íslandi aukizt hraðar en þar og flugumferð um Keflavík er hlutfallslega meiri.

Höfundur skýrslunnar segir, að hugmyndin um frísvæði á Suðurnesjum beri keim af tækifæris- og töfralausnum, sem stundum sé gripið til í íslenzkri stjórnmálaumræðu og eigi að bjarga öllu, en skorti jarðsamband. Telur hann, að Suðurnes eigi betri atvinnukosti.

Hann segir, að það mundi skila meiri árangri við eflingu atvinnu og útflutnings að styðja þúsundir fyrirtækja í landinu með almennum, en ekki sértækum aðgerðum, svo og betri starfsskilyrðum, heldur en að styðja örfá fyrirtæki með sértækum og dýrum átaksaðgerðum.

Hann tekur þó fram, að ekkert sé athugavert við að búa til aðstöðu til frírekstrar, svo framarlega sem hann sé byggður upp fyrir áhættufé þeirra, sem að honum standa, og lúti almennum markaðslögmálum. Það eru bara styrkirnir og ívilnanirnar, sem hann varar við.

Þótt fréttir þessar séu naprar, er kuldi jafnan hressandi. Auðveldara er að tala um íslenzk atvinnutækifæri, þegar búið að taka úr umferð óskhyggju um frísvæði.

Jónas Kristjánsson

DV

Pósturinn Páll

Greinar

Nýr forseti Alþingis fylgdi eftir sjónarmiðum sínum í eldhúsdagsumræðu á Alþingi á fimmtudagskvöldið, þegar hann áminnti Jón Baldvin Hannibalsson fyrir að nota óviðurkvæmilegt orðalag, sem greinilega fól í sér niðrandi ummæli um Pál Pétursson félagsmálaráðherra.

Þegar Ólafur G. Einarsson tók við embætti forseta Alþingis, tók hann sérstaklega fram, að draga þyrfti upp aðra mynd af þingstörfunum en nú birtist almenningi í fjölmiðlum. Benti hann á, að þingmenn sjálfir hefðu mest áhrif á, hver ímynd þingsins væri í augum fólks.

Hin nýja áherzla þingforseta er tímabær og eðlileg. Málgefnir og sjálfumglaðir þingmenn hafa ekki vaxið upp úr málfundastíl ræðukeppna í framhaldsskólum, þótt um nokkurt skeið hafi verið sjónvarpað frá venjulegum þingfundum beint inn í stofur fólksins í landinu.

Fólk hefur horft á þennan málfundastíl og ekki verið hrifið. Þess vegna hefur virðing Alþingis minnkað við beint sjónvarp frá fundum þess. Gott ráð til að sporna gegn því væri að hóa saman nokkrum helztu vandræðabörnunum og sýna þeim sjónvarp frá brezka þinginu.

Brezkir þingmenn tala skýrt og málefnalega og einkum stutt og aftur stutt. Þeir geta líka verið hvassir og jafnvel eitraðir, en allt er það innan ramma, sem er miklu þroskaðri en þær hefðir, sem illu heilli hafa mótazt á Alþingi. Þeim hefðum þarf að breyta í nýju kastljósi.

En það er ekki bara orðbragðið, hálfkæringurinn og leikaraskapurinn, sem þarf að lagast. Okkar þingmenn geta ekki síður lært af Bretum að halda ræðulengd í hófi. Þrátt fyrir breytingar á þingsköpum í átt til styttingar máls, eru langhundar ennþá alltof algengir á Alþingi.

Hinn nýi þingforseti sagði réttilega, að almenningur, sem fylgist daglega með störfum Alþingis, gerði ríkar kröfur um vitrænan málflutning, snarpar umræður og tilþrif á Alþingi. Þess vegna verði að bæta umræðuna og þingmenn að gera meiri kröfur til sjálfra sín.

Ólafur G. Einarsson benti á annað atriði, sem hann taldi geta aukið virðingu Alþingis með því að draga úr því áliti, að það sé lítið annað en afgreiðslu- og handauppréttingastofnun framkvæmdavaldsins. Það væri, að fólk léti af þingmennsku við að verða ráðherrar.

Það getur verið óþægilegt, ef stjórnarslit verða á miðju kjörtímabili og ráðherrar hafa sagt af sér þingmennsku og fá hana ekki aftur. Þess vegna þarf að breyta lögum þannig, að þingmenn verði að taka leyfi frá þingstörfum meðan þeir gegna embætti ráðherra, en eigi afturkvæmt.

Tillögur og hugmyndir þingforseta eru markverðar og benda til, að hann muni á ferli sínum hafa jákvæð áhrif á störf Alþingis. Um eitt atriði í tillögum hans þarf þó að gera fyrirvara. Það er, að bág launakjör og léleg starfsaðstaða fæli hæft fólk frá þáttöku í stjórnmálum.

Mikið framboð fólks til stjórnmálastarfa og einkum til þingmennsku bendir ekki til, að þessi fæling sé öflug. Og séu kjör þingmanna of bág, á að breyta þeim á opinskáan hátt, en ekki að vera pukrast með hliðaratriði á borð við greiðslur fyrir ómælda þáttöku í ráðstefnum.

Um það atriði var rækilega fjallað í leiðara DV í gær og þarf ekki að fara frekari orðum um það. Augljóst er, að Alþingi getur á ýmsan hátt stuðlað að aukinni virðingu sinni í augum fólksins í landinu og að nýr þingforseti hefur þegar gefið skynsamlegan tón á því sviði.

Einna mikilvægast er, að málgefnir og sjálfumglaðir þingmenn færi ræðustíl sinn úr því horfi, sem þótti góð latína á málfundum, þegar þeir voru í framhaldsskóla.

Jónas Kristjánsson

DV

Kolkrabbi og smokkfiskur

Greinar

Dómsmálaráðherra hefur með hjálp Alþingis gengið erinda fáokunarhrings tryggingafélaganna gegn hagsmunum almennings. Hvort hann hefur gert það af einhverjum orsökum eða hvötum skiptir minna máli en staðreyndin sem slík, að sérhagsmunir ráða ferð hans.

Tryggingafélögin eru siðlaus í viðskiptum við fólk. Þau neita til dæmis að greiða lögboðnar bætur og láta tugi mála fara fyrir dómstóla. Þótt þau tapi hverju málinu á fætur öðru, halda þau hinum málunum til streitu án þess að taka mark á fordæmisgildi dóma í prófmálum.

Þannig hefur ríku og voldugu aðilunum tekizt að fresta því, að tugir einstaklinga, sem eiga um sárt að binda, fái nokkrar bætur. Þannig hafa ríku og voldugu aðilarnir þvingað þá, sem verst eru settir vegna örkumla, til að semja um mun minni bætur en lög gera ráð fyrir.

Óbilgirni og græðgi tryggingafélaganna hefur magnazt í skjóli dómsmálaráðherra og Alþingis. Viðurkennt er, að frumvarp til skaðabótalaga var samið í dómsmálaráðuneytinu að frumkvæði samtaka fáokunarhrings tryggingafélaganna, sem vildu minnka útgjöld sín.

Fenginn var til þess lagaprófessor, sem var hallur undir tryggingafélögin og hafði unnið fyrir þau. Hann gaf Alþingi rangar upplýsingar um innihald laganna. Markmið þeirra var og er að minnka útgjöld tryggingafélaganna á kostnað fólks, enda hefur það tekizt.

Hvorki dómsmálaráðherra né Alþingi hafa þó sér það til afsökunar, að hafa sætt blekkingum prófessorsins. Flett var ofan af málinu í fjölmiðlum á sínum tíma, en ráðamenn þjóðarinnar létu það sem vind um eyru þjóta. Þeir voru ákveðnir í að þjóna tryggingafélögunum.

Lagafrumvarp tryggingafélaganna var útskýrt með því að segja misvægi vera milli bóta fyrir mikil og lítil tjón. Því vægi var hins vegar ekki breytt með því að færa fjármagn milli flokka, heldur með því að minnka greiðslur á öðrum vængnum og halda þeim óbreyttum á hinum.

Frumvarpið var einnig varið með því að segja, að það gerði ráð fyrir fullum bótum. Staðreyndin var hins vegar sú, að það gerði ráð fyrir þremur fjórðu hlutum af fullum bótum. Tryggingafélögin og prófessorinn komust upp með þessar blekkingar fyrir rúmum þremur árum.

Síðan hefur sannleikurinn komið í ljós. Allsherjarnefnd Alþingis fékk skipaða nefnd til að finna hann. Hún lagði til fyrir réttu ári, að margföldunarstuðull yrði hækkaður úr 7,5 í 10 til þess að lögin næðu yfirlýstum tilgangi. Þessi niðurstaða var rækilega rökstudd.

Dómsmálaráðherra hefur ekki lyft litla fingri til að fá lögunum breytt til samræmis við þetta. Alþingi hefur ekki heldur reynt að bæta fyrir mistök sín. Lögin eru enn þann dag í dag eins og þau voru samin af prófessor tryggingafélaganna og að frumkvæði samtaka þeirra.

Ekki eru líkur á, að ástandið batni í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem er mynduð af tveim stjórnmálaflokkunum, sem ganga lengst í að gæta hagsmuna hinna voldugu, annar kolkrabbans og hinn smokkfisksins. Stjórnarflokkarnir munu gæta hagsmuna tryggingafélaganna.

Síðan geta menn velt fyrir sér ættar- og fjölskyldutengslum í stjórnmálum og fáokunarfyrirtækjum. Þau eru út af fyrir sig ekki kjarni málsins, heldur hitt, að voldugustu stjórnmálaöfl landsins taka jafnan hagsmuni fáokunarfyrirtækja fram yfir hagsmuni almennings.

Meðan kjósendur sætta sig við, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu pólitískir armar fáokunarfyrirtækja, verður ástandið áfram eins og það er.

Jónas Kristjánsson

DV