Greinar

Stjörnuhröp í stjórnmálum

Greinar

Viðurkenndum stjórnmálaforingjum á Íslandi hefur fækkað úr þremur í tvo við kosningar og stjórnarskipti á þessu vori. Formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks tróna nú einir á tindi skoðanakönnunar DV um vinsældir og óvinsældir íslenzkra stjórnmálamanna.

Vinsældir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hafa aukizt og óvinsældir þeirra minnkað svo, að þær eru vart mælanlegar. Einkum á það við um Halldór, sem á sér fáa óvildarmenn í hverri könnuninni á fætur annarri. Hann hefur 23% vinsældir og 0,5% óvinsældir.

Stjörnuhrap skoðanakönnunarinnar er hjá formanni Þjóðvaka, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún var áður annar vinsælasti stjórnmálamaðurinn, næst á eftir Davíð Oddssyni. Staða hennar hefur gerbreytzt til hins verra. Nú er hún orðin meðal óvinsælustu stjórnmálamannanna.

Í janúar í vetur hafði Jóhanna 16,2% í plús og 4,0% í mínus. Nú er plúsinn kominn niður í 2,3% og mínusinn upp í 7,5%. Aðeins Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson eru óvinsælli en hún. Þetta er mesta stjörnuhrapið frá upphafi kannana af þessu tagi.

Breytingar á vinsældum Davíðs, Halldórs og Jóhönnu benda til, að fólk styðji sigurvegara, en ekki þá, sem bíða ósigur. Jóhanna var allt síðasta kjörtímabil vinsæl, fyrst fyrir andóf í þáverandi ríkisstjórn og síðan sem formaður nýs stjórnmálaflokks með mikið fylgi á tímabili.

Þegar Þjóðvaki náði ekki árangri í kosningunum, hrundu vinsældir Jóhönnu. Henni dugði ekki að hafa stundað vinsælt andóf í ríkisstjórn og hafa stofnað eigin flokk, sem um tíma náði yfir 20% fylgi í skoðanakönnunum. Að leikslokum var hún afskrifuð sem pólitískt afl.

Hefð virðist vera fyrir því, að vinsældir aukist og óvinsældir minnki hjá stjórnmálamönnum, sem annaðhvort vinna kosningasigur eða komast í ríkisstjórn og helzt hvort tveggja, og að þessu sé öfugt farið með hina, sem tapa í kosningum eða komast ekki í ríkisstjórn.

Fall Jóhönnu er hins vegar mun meira en venjulegt má teljast. Sennilega endurspeglar það væntingar, sem hafa brugðizt. Skiptir þá engu, hvað telja má sanngjarnt. Ósigur í einum kosningum virðist nægja til að tvístra stuðningsmönnum og hrekja þá á flótta.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur sigið úr fjórða sæti vinsældalistans í það sjötta. Sennilega endurspeglar það lélegt gengi Kvennalistans í Reykjavík, sem var áður helzta vígi hans. Eru þó vinsældir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur yfirgnæfandi meiri en óvinsældirnar.

Kvennalistinn skaðaðist við að fórna Ingibjörgu í þágu Reykjavíkurlistans í borgarstjórn. Við það varð Kvennalistinn í Reykjavík að höfuðlausum her. Á toppnum er þar afar litlaus þingmaður, sem af augljósu dómgreindarleysi kenndi borgarstjóra að nokkru um sínar ófarir.

Alþýðubandalagið losnar við Ólaf Ragnar Grímsson sem formann í haust og getur þá byrjað að taka þátt í samstarfi flokka. Enn er tómt mál að tala um samstarf milli flokka með Alþýðubandalagið innanborðs, af því að fáir þora að reyna að vinna með formanni þess.

Óvinsældir Ólafs Ragnars eru miklar og vaxandi, bæði meðal hugsanlegra smstarfsaðila í öðrum flokkum og meðal almennings, svo sem skoðanakönnunin sýnir. Sérkennilegt er, að helzti baráttumaður vinstra samstarfs skuli um leið vera helzti þröskuldur þess.

Undantekning á reglunni um auknar vinsældir sigurvegara er svo Finnur Ingólfsson ráðherra, sem á fáum vikum hefur lyfzt úr engu í fjórða sæti óvinsælda.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir vilja ná í fé þitt

Greinar

Stöðugt verðlag hefur ríkt hér á landi um margra missera skeið. Það á sér ýmsar forsendur, meðal annars samdrátt í efnahagslífinu. Höfuðforsenda stöðugleikans er þó verðtrygging fjárskuldbindinga, sem gerði það að verkum, að niður féll verðbólgugróði af fengnum lánum.

Á verðbólguárunum streymdi fé frá almenningi og lífeyrissjóðum, sem lögðu fyrir, og rann í hendur þeirra, sem pólitíska aðstöðu höfðu til að fá lán í bönkum og öðrum ríkisreknum fjármálastofnunum. Þá snérist líf og dauði í atvinnulífinu um forgang að ódýrum lánum.

Um nokkurt skeið hafa litlir möguleikar verið á að nýta pólitíska aðstöðu til að græða á óheftum aðgangi að fjármagni. Vextir og verðtrygging hafa gert fjármagn verðmætt á nýjan leik. Forráðamenn fyrirtækja þurfa að hugsa sig um tvisvar, áður en þeir taka lán.

Mörgum hefur orðið hált á svelli stöðugleikans. Frægasta dæmið er auðvitað Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem gufaði upp og hvarf, þegar það hætti að geta lifað af eiturlyfinu sínu, aðgangi að ódýrum lánum, sem brunnu upp. Það þoldi alls ekki verðtryggingu lána.

Sumir hafa farið illa út úr stöðugleikanum, ekki vegna eigin óráðsíu, heldur vegna óráðsíu viðskiptavina sinna. Þannig hafa stór verktakafyrirtæki, sem orðið hafa gjaldþrota, dregið með sér undirverktaka, er áttu sér einskis ills von. Markaðslögmálin geta stundum verið grimm.

Af ýmsum slíkum ástæðum eru fjölmennir hópar andvígir verðtryggingu fjárskuldbindinga og háum vöxtum. Þeir telja, að hag sínum væri betur borgið, ef lán væru ekki verðtryggð og vextir sanngjarnir, svo notað sér orðalag frægs sjóðasukkara, sem nú er Seðlabankastjóri.

Þeir, sem vilja fá að leika sér með ódýrt fjármagn, hafa verið að grafa undan verðtryggingu. Þeir hafa leitað stuðnings hjá þeim hluta almennings, sem átt hefur í erfiðleikum við að standa undir húsnæðislánum. Saman hafa þessir aðilar góðan aðgang að eyrum ráðamanna.

Þegar gæludýrum kerfisins hefur tekizt að stofna til afnáms verðtryggingar í áföngum, ætla þau að nota aðstöðu sína í opinberum peningastofnunum til að komast að nýju yfir ódýrt fé. Þannig munu gæludýrin að nýju framleiða verðbólgu eftir nokkurra missera hlé.

Stjórnarflokkarnir tveir eru hallari undir þessi sjónarmið en aðrir stjórnmálaflokkar. Þess vegna má búast við öllu illu. Raunar hefur ríkisstjórnin þegar skrifað Seðlabankanum bréf um þetta mál og fengið jákvæðar viðtökur hinna pólitískt kjörnu bankastjóra.

Bankastjórar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Seðlabankanum leggja nú til, að dregið verði í áföngum úr verðtryggingu fjárskuldbindinga, þannig að eftir fimm ár verði bannað að verðtryggja fjárskuldbindingar, sem eru til skemmri tíma en sjö ára.

Enginn vafi er á, að ríkisstjórnin mun samþykkja þessa tillögu Seðlabankans. Þess vegna sjáum við fram á, að á þessu kjörtímabili muni ekki borga sig að eiga peninga, því að þeir muni rýrna að verðgildi. Við sjáum líka fram á, að óráðsía og verðbóga fari að nýju í gang.

Aðgerðir ríkisstjórnar og seðlabanka í máli þessu eru hættulegar. Þær draga úr núverandi stöðugleika og hvetja til verðbólgu. Þær verða í anda Steingríms Hermannssonar, sem staðið hefur fyrir mestu fjármagnstilfærslum og verðmætabrennslu í sögu lýðveldisins.

Gæludýrin bíða í startholunum. Þau munu nota pólitíska aðstöðu til að ná í ódýrt fé, sem ekki þarf að endurgeiða í jafngildum verðmætum. Það er kjarni málsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Jafnrétti hjá kolbítum

Greinar

Sjálfstæðismenn eru góðir við konurnar sínar. Þeir punta með þær og leyfa þeim að vera fundarritarar og jafnvel fundarstjórar. Raunveruleg völd eru hins vegar hlutverk karla að mati forustuliðs stærsta stjórnmálaflokks landsins. Ráðherrar skulu til dæmis vera karlar.

Þegar skáka þarf karli í sparistöðu, sem þingmenn hafa gert að kvennastarfi, geta komið upp sérkennileg vandamál. Til dæmis hefur komið í ljós, að staða forseta Alþingis er orðin að láglaunastarfi sem kvennastarf. Því þarf að breyta, þegar fyrirvinna fær stöðuna.

Forustumenn stjórnarflokkanna gera í alvöru ráð fyrir, að laun forseta Alþingis verði hækkuð um tugþúsundir króna á mánuði, þegar Ólafur G. Einarsson tekur við starfinu af Salóme Þorkelsdóttur. Það er lýsandi dæmi um stöðu íslenzkra jafnréttismála árið 1995.

Bent hefur verið á, að Salóme geti vegna þessa kært launakjör sín sem forseti Alþingis til jafnréttisráðs og jafnvel fengið Ólafslaun afturvirkt. Það væri verðugur minnisvarði um stöðu Sjálfstæðisflokksins í jafnréttismálum, ef hún léti verða af svo sjálfsagðri kæru.

Enn broslegra væri, ef hún kærði ekki jafnréttisbrotið, en það mundi hins vegar gera forveri hennar, Guðrún Helgadóttir. Þar með væri Salóme búin að kyngja þeirri skoðun Sjálfstæðisflokksins, að konur séu körlum óæðri, enda séu þær ekki og eigi ekki að vera fyrirvinnur.

Viðhorf Sjálfstæðisflokksins til kvenna eru gamalkunn og koma því fáum á óvart. Þær mega vera með upp á punt, en þegar til kastanna kemur, gilda klisjur á borð við þá, að ekki beri að ráða konu, bara af því að hún sé kona. Að mati flokksins eru karlar hæfari en konur.

Þessi augljósa staðreynd hefur hins vegar komið á óvart ýmsum konum í Sjálfstæðisflokknum. Þær hafa sennilega tekið trú á kosningaáróður flokksins og ekki áttað sig á, að áróður er bara aðferð til að ná í atkvæði og halda atkvæðum, en er að öðru leyti alveg marklaus.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins til kvenna sem puntudúkka á sér sagnfræðiskýringar. Flokkurinn er til dæmis afar íhaldssamur og utangátta gagnvart umheiminum og breytingum, sem þar eru að gerast. Hann er til dæmis andvígur auknu Evrópusamstarfi Íslendinga.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins, einkum ráðherrarnir, eru undantekningarlítið lögfræðimenntaðir menn, sem ekki hleyptu heimadraganum á menntabrautinni. Þeir hafa ekki dvalizt langdvölum í útlöndum og eiga til dæmis afar erfitt með að tjá sig á erlendum tungum.

Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins eru sveitamenn í alþjóðlegu samhengi, að minnsta kosti þegar þeir eru bornir saman við ráðamenn annarra flokka. Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið að mestu á mis við ýmsa strauma í útlöndum. Þeir eru hálfgerðir kolbítar.

Þetta hefur stuðlað að vandræðalegri sambúð Sjálfstæðisflokksins við ýmis sjónarmið, sem hafa mótað hægri menn og jafnaðarmenn í útlöndum. Nýir straumar í hagmálum, svo sem markaðshyggja, hafa lítil áhrif haft í flokknum. Sama er að segja um jafnréttismálin.

Lögfræðingunum, sem ráða Sjálfstæðisflokknum, finnst, að konur eigi að vera fínar í tauinu. Þær eru ekki taldar eins hæfar og Björn Bjarnason, en mega rita fundargerðir og jafnvel stýra fundum. Þær mega vera lögfræðimenntaðar, en eru ella taldar grunsamlegar.

Ráðherraval Sjálfstæðisflokksins og launamál forseta Alþingis eru góð dæmi um, að jafnréttismál eru flokknum lokuð bók, hvað sem hann segir í kosningaáróðri.

Jónas Kristjánsson

DV

Yfirstétt var ógnað

Greinar

Áhyggjur mögnuðust meðal framsóknarmanna beggja stjórnarflokkanna, þegar Sól fór að bera víurnar í Mjólkursamlag Borgfirðinga. Áhyggjurnar urðu að skelfingu, þegar kom í ljós, að Hagkaup gæti vel hugsað sér að kaupa helminginn af framleiðslu mjólkursamlagsins.

Framsóknarmenn beggja stjórnarflokkanna töldu, að hlutafélög úr einkageiranum væru með þessu að trufla ríkisrekstur landbúnaðarins og gætu smám saman kollvarpað hinni friðsælu og dýru einokun búvöruiðnaðar, sem ríkið heldur uppi á kostnað bænda og neytenda.

Núverandi og fyrrverandi landbúnaðarráðherrar ríkisstjórnarinnar voru sammála um, að grípa þyrfti í taumana, áður en starfsfólk mjólkursamlagsins áttaði sig á, að tilboð úr einkageiranum gæti bjargað atvinnu þess. Skrifað var í skyndi undir ákvörðun um úreldingu.

Skipulögð úrelding er aðferð ríkis og samtaka landbúnaðarins við að draga saman seglin í landbúnaði og búvöruvinnslu. Í stað þess að leyfa markaðsöflum að ráða ferðinni og efla búvörusölu í leiðinni, er skipulagt að ofan, hvort afnema eigi þetta fyrirtæki eða hitt.

Ríkið og stofnanir landbúnaðarins skipuleggja á sama hátt, hvernig dregið skuli jafnt og þétt úr heimild bænda til að framleiða vörur. Þetta er jafnréttisaðferð, sem gerir alla fátæka eftir hlutfallareikningi og kemur í veg fyrir, að séðir bændur geti notfært sér markaðslögmálin.

Í öllum tilvikum er úrelding í landbúnaði að meira eða minna leyti framkvæmd á kostnað skattgreiðenda. Þeir leggja til peningana, sem notaðir eru til að kaupa framleiðslukvóta af bændum og til að leggja niður búvöruvinnslu á borð við Mjólkursamlag Borgfirðinga.

Ráðamenn Sólar báðu ráðherra um frest, svo að unnt væri að kanna, hvort hægt væri að sameina drykkjarvöruframleiðslu Sólar og mjólkurvöruframleiðsluna í Borgarnesi í nýju hlutafélagi, sem rekið væri í Borgarnesi. Þetta var ráðherranum óbærileg tilhugsun.

Óformlegar viðræður voru þá raunar þegar hafnar milli ráðamanna Sólar og stjórnarmanna Kaupfélags Borgfirðinga, sem rekið hefur mjólkursamlagið í Borgarnesi. Þessar viðræður höfðu verið á jákvæðum nótum, sem ýtti undir skelfinguna í landbúnaðarkerfinu.

Landbúnaðarráðherra ver gerð sína með tilvísun í formsatriði. Kaupfélagið í Borgarnesi hafi áður verið búið að óska skriflega eftir úreldingu og að hann hafi ekki skriflega fengið neina beiðni frá sama aðila um að fresta málinu, meðan hugmyndir Sólar væru kannaðar.

Starfsfólk mjólkursamlagsins í Borgarnesi verður því að deila reiði sinni yfir atvinnumissi á tvo aðila, annars vegnar á ríkisstjórn Framsóknarflokkanna tveggja og hins vegar á stjórn kaupfélagsins, sem láðist að gæta hagsmuna fólksins á örlagastundu, er tækifæri gafst.

Hér var verið að tefla um vinnslu 15-18 milljón lítra af mjólkurvörum og öðrum drykkjarvörum og atvinnu fyrir 60-80 manns. Engu hefði verið fórnað með því að skoða málið, en atvinnutækifærum í Borgarnesi var fórnað með því að rjúka í að undirrita úreldinguna.

Atvinnu Borgnesinga var hafnað til að koma í veg fyrir að ruggað yrði báti, sem smíðaður var fyrir hagsmuni yfirstéttar landbúnaðarins. Markmið íslenzka landbúnaðarkerfisins er að halda uppi hægum og vel borguðum stjórnunarstöðum utan við hret markaðslögmálanna.

Þessi yfirstétt beitti pólitískum örmum sínum í stjórnarflokknum tveimur til að koma í veg fyrir lausn, sem hún taldi geta ógnað hagsmunum sínum sem yfirstéttar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir skila sér síðar

Greinar

Viðræðurnar um veiðistjórn í Síldarsmugunni fóru ekki út um þúfur, heldur var samið við Færeyinga. Reynslan hefur líka sýnt, að það tekur norsk stjórnvöld langan tíma að átta sig á, að íslenzk stjórnvöld taka hóflegt mark á frekju. Þannig var það í Jan Mayen deilunni.

Í meira en áratug hafa ráðherrar og aðrir fulltrúar Íslands á þessu sviði reynt að segja Norðmönnum, að semja þyrfti um veiðar úr norsk-íslenzka síldarstofninum á opna svæðinu milli Noregs og Íslands. Norðmenn hafa hins vegar ekki fengist til að ræða málin fyrr en núna.

Norskir samningamenn vilja gleyma, að þessi síldarstofn gekk milli Noregs og Íslands, þangað til Norðmenn gengu svo nærri honum, að hann hætti hringferð sinni um hafið. Íslendingar telja sig eiga rétt í þessum stofni frá þeim tíma, er hann veiddist hér við land.

Norsk stjórnvöld og samningamenn þeirra ganga út frá því, að Norðmenn eigi þennan stofn og geti skammtað öðrum úr honum, jafnvel veiði á hafsvæðum, sem eru fjær Noregi en Íslandi og Færeyjum. Meðan þeir halda fast við þetta, ná þeir ekki samkomulagi við aðra.

Þetta minnir á tregðu norskra stjórnvalda til að viðurkenna, að efnahagslögsaga fullvalda ríkis á borð við Ísland ætti að gilda óskert í átt til eyjar á borð við Jan Mayen, sem hefur ekki efnahagslíf. Þeir reyndu þá að hafa annað fram með frekju, en tókst það ekki.

Íslenzk stjórnvöld og sammningamenn þeirra munu halda ró sinni í máli Síldarsmugunnar. Fyrsta skrefið var að semja við Færeyinga um veiðikvóta og síðan væntanlega um ábyrga síldveiðistjórn á svæðinu. Það samkomulag kemur Norðmönnum í opna skjöldu.

Íslenzk stjórnvöld munu ekki senda frá sér nein tilmæli til íslenzkra útgerðarmanna og skipstjóra um að takmarka veiðar í Síldarsmugunni. Þær veiðar hefjast nú vonandi af fullum krafti. Það verður tregðulögmáli norskra stjórnvalda til verðugrar háðungar.

Ef samkomulag næst svo milli Færeyinga og Íslendinga um ábyrga veiðistjórn á svæðinu, munu íslenzk stjórnvöld takmarka veiðar íslenzkra skipa í samræmi við þá veiðistjórn. Verður þá hafréttarlegt frumkvæði málsins komið í hendur Færeyinga og Íslendinga.

Með því að sýna annars vegar festu gegn yfirgangi Norðmanna og að hafa hins vegar frumkvæði að ábyrgri veiðistjórn á svæðinu, koma íslenzk stjórnvöld fram sem ábyrgur hagsmunaaðili. Þannig næst mestur og traustastur árangur af hálfu Íslands í þessu hagsmunamáli.

Íslenzk stjórnvöld og samningamenn þeirra hafa haldið rétt á málum Síldarsmugunnar í viðræðum við norska gagnaðila. Útilokað var að ná samkomulagi á fyrsta fundi. Norðmenn verða að fá tíma til að horfa á veiðar annarra og læra að þekkja takmörk áhrifa sinna.

Sem betur fer er hrygningarstofn síldarinnar mjög sterkur um þessar mundir, ein eða tvær milljónir tonna. Hann mun því þola óheftar veiðar á þessari vertíð. Hugsanlegt er, að fyrir næstu vertíð verði norsk stjórnvöld orðin tilbúin til raunhæfra samninga um veiðistjórn.

Á þessu kjörtímabili þarf ríkisstjórn Íslands að gæta afar mikilvægra hagsmuna á hafsvæðum, sem liggja að efnahagslögsögu landsins, bæði í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg. Þessi hagsmunagæzla hefur farið vel af stað. Hún er í senn hörð og rökrétt eins og vera ber.

Þess vegna þarf ekki að valda vonbrigðum, að norskir samningamenn stökkva frá samningaborði í fyrstu umferð. Þeir munu skila sér síðar, reynslunni ríkari.

Jónas Kristjánsson

DV

Veiðigjaldi vex ásmegin

Greinar

Stefna veiðileyfagjalds í sjávarútvegi fékk stuðning úr óvæntri átt á aðalfundi Granda á föstudaginn. Stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins mælti með slíku gjaldi í ræðu sinni. Það var Árni Vilhjálmsson prófessor, sem gekk þannig fram fyrir skjöldu á minnisstæðan hátt.

Árni vildi, að sjávarútvegurinn innti af hendi eingreiðslu, sem næmi 50-80 krónum á hvert kíló í þorski eða þorskígildi í öðrum fisktegundum. Taldist honum, að þetta mundi kosta Granda 700 milljónir í stofngjald og 50 milljónir í árlega vexti, ef þeir væru 7%.

Stjórnarformaðurinn kom inn á nýstárlegar brautir í röksemdafærslu sinni fyrir veiðileyfagjaldi. Hann taldi gjaldið nauðsynlegt til að gefa sjávarútveginum eins konar vinnufrið, meðal annars fyrir neikvæðri umræðu fólks, þar sem orðið sægreifar kemur iðulega fyrir.

Hann benti á, að einn ráðherra fráfarandi ríkisstjórnar hefði lýst aflaheimildum útgerða sem ránsfeng. Einnig sagðist hann óttast, að fylgismenn veiðigjalds mundu leggjast á sveif með þeim hagsmunaaðilum innan sjávarútvegsins, sem vilja kvóta- eða aflamarkskerfið feigt.

Sú er einmitt raunin, að sjávarútvegurinn hefur sett ofan í umræðunni um þessi mál. Það fer í taugar fólks, að svokölluð þjóðareign skuli ganga kaupum og sölum og jafnvel ganga í erfðir. Einnig sker í augu, að verðgildi seldra skipa fer meira eftir kvóta þeirra en blikki.

Landssamband íslenzra útvegsmanna er helzti málsvari andstöðunnar við veiðileyfagjald. Það hefur smám saman verið að fá á sig stimpil klúbbs sægreifa, sem lifi á forgangi að þjóðareign og illri meðferð þjóðareignar. Landssambandið hefur enda tekið illa kenningum Árna.

Á ytra borði virðist staða sægreifanna vera fremur trygg um þessar mundir. Fráfarandi ríkisstjórn mannaði sig ekki upp í að framkvæma loforð um hert orðalag á þjóðareign auðlindarinnar. Sú ríkisstjórn, sem nú hefur tekið við, er ekki heldur líkleg til slíkra verka.

Utanríkisráðherra er stundum sagður guðfaðir kvótakerfisins og sjávarútvegsráðherra er dyggur fylgismaður hans á því sviði. Þeir munu líklega sjá um, að ríkisstjórnin standi vörð um núverandi ástand og geri á því eins litlar breytingar og hún kemst upp með hverju sinni.

Gott dæmi um það er, að stjórnarsáttmálanum fylgir baksamningur um sjávarútveg, þar sem slett er um 10.000 tonna aukningu á þorski í þá hagsmunaaðila í sjávarútvegi, sem óánægðastir eru með ríkjandi kvótakerfi, svo að þeir fáist til að hætta að rugga báti sægreifanna.

Vopnaði friðurinn er samt ekki varanlegur. Baksamningurinn felur í sér aukið álag á ofveiddan þorskstofn. Ef þorskstofninn heldur áfram að minnka, er eðlilegt, að eigendur auðlindarinnar fari að ókyrrast enn frekar og vilji draga ábyrgðarmenn kerfisins til ábyrgðar.

Stjórnmálamenn og sægreifar verða taldir bera ábyrgð á, að árum saman hefur ekki verið farið eftir tillögum fiskifræðinga um hámarksafla, og ábyrgð á afleiðingum þessa í minnkandi þorskgengd. Ofveiðin stefnir í slíkt óefni, að kvótakerfið mun um síðir hrynja að innan.

Líta má á framtak formanns Granda sem tilraun til að benda ráðamönnum stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna á að færa víglínuna aftar, þar sem hún verði frekar varin, svo að kvótakerfið verði síður fórnardýr átaka um önnur og afar viðkvæm ágreiningsefni í sjávarútvegi.

Öðrum þræði er svo ræða hans merki um, að veiðileyfagjald á meiri hljómgrunn í greininni en ráðamenn Landssambands íslenzkra útvegsmanna vilja vera láta.

Jónas Kristjánsson

DV

Nærtækari hagsmunir

Greinar

Hagsmunir okkar af veiðum í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg eru miklu meiri en hagsmunir okkar af veiðum í Smugunni í Barentshafi. Hinir fyrrnefndu eru meiri í beinum krónum talið og þeir eru þar að auki í næsta nágrenni við okkar eigin fiskveiðilögsögu.

Miðað við stofnstærð og eðlilega veiðihlutdeild Íslendinga í Síldarsmugunni má ætla, að þar séu um fjögurra milljarða króna hagsmunir Íslendinga. Er þá miðað við, að við getum samið við aðra helztu hagsmunaaðilana um að fá um það bil þriðjung af leyfilegri síldveiði.

Er þá líka miðað við, að Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar komi sér saman um, að árlega verði veidd 20% af síldarstofninum á þessu svæði og að þessi ríki, sem hafa fiskveiðilögsögu, er liggur að smugunni, geti samið um að halda öðrum aðilum sem mest frá svæðinu.

Augljóst er, að Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar þurfa sem allra fyrst að koma veiðistjórn á Síldarsmuguna, burtséð frá því, hvernig þjóðirnar þrjár skipta með sér afla. Deilur um innbyrðis skiptingu mega ekki koma í veg fyrir, að ofveiði annarra aðila verði hindruð.

Svipað gildir um Reykjaneshrygginn. Hann liggur að fiskveiðilögsögu Íslendinga og Grænlending. Þær tvær þjóðir þurfa sem allra fyrst að ná samkomulagi um veiðistjórn á honum til að hindra ofveiði af hálfu úthafsveiðiþjóða, sem nú eru að flykkjast þangað á karfamiðin.

Samkvæmt veiðiráðgjöf má lítið auka sókn í karfa á Reykjaneshrygg. Þar hafa Íslendingar hingað til haft rúman helming aflans. Við þurfum að varðveita þá hlutdeild og semja um hámarksafla á svæðinu. Þetta eru hagsmunir okkar upp á hálfan þriðja milljarð króna.

Samtals má telja, að hagsmunir okkar af síldveiðum í Síldarsmugunni og karfaveiðum á Reykjaneshrygg nemi sjö eða átta milljörðum króna. Þetta eru helmingi meiri hagsmunir en fjögurra milljarða hagsmunir af nýlegum þorskveiðum okkar í Barentshafi samanlögðu.

Hafa verður í huga, að Svalbarðaveiðarnar gáfu í fyrra meira en helminginn af afla okkar í Barentshafi, en veiðar í Smugunni innan við helming aflans. Alls engar horfur eru á, að okkar skip nái framvegis að veiða á Svalbarðasvæðinu vegna ofríkis norsku strandgæzlunnar.

Veiðar okkar í Barentshafi munu framvegis takmarkast við tíu til tuttugu þúsund tonna möguleika í Smugunni og eins til tveggja milljarða króna aflaverðmæti. Við getum reynt að verja þessa hagsmuni og getum áreiðanlega náð samningum við Norðmenn um slíkan hlut.

Á sama tíma og við þurfum að verja hagsmuni strandríkja með oddi og egg í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg erum við að verja hagsmuni úthafsveiðiríkja í Smugunni. Of mikil áhrzla á hana spillir sjálfkrafa öðrum og meiri hagsmunum okkar á nærtækari miðum.

Norðmenn eru þegar búnir að hafa af okkur meira en helminginn af aflamöguleikum okkar í Barentshafi með því að loka Svalbarðasvæðinu. Þess vegna er óraunhæft að tala um fjörutíu þúsund tonna þorskafla í Smugunni. Hún mun í mesta lagi gefa fimmtán þúsund tonn á ári.

Þess vegna skiptir ekki miklu máli, hvort við semjum við Norðmenn um fimmtán þúsund tonn í Smugunni eða veiðum þar áfram fimmtán þúsund tonn án samninga. Aðalatriðið er, að þetta trufli ekki brýna hagsmuni okkar af samningum við þá og aðra um hin svæðin tvö.

Misvægi hagsmunanna er ljóst. Annars vegar er hálfur annar milljarður króna í Smugunni og hins vegar sjö- átta milljarðar í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg.

Jónas Kristjánsson

DV

Láglaun og hátekjur

Greinar

Hér býr láglaunaþjóð við millikjör í hátekjulandi. Miklar þjóðartekjur endurspeglast ekki að fullu í lífskjörum fólks og engan veginn í tímalaunum þess. Þverstæður þessar eru raunveruleiki Íslendinga. Þær greina okkur frá öðrum þjóðum í næsta nágrenni okkar.

Ekki er deilt um, að svonefndar þjóðartekjur eru hér á landi með því allra hæsta, sem þekkist í heiminum. Ekki er heldur deilt um, að mánaðarlegar tekjur fólks eru samt töluvert lægri en í nágrannalöndunum og að tímalaun eru langt frá tímalaunum nágrannaþjóðanna.

Þetta er íslenzkur raunveruleiki, sem vert er að minnast á baráttudegi verkafólks á mánudaginn. Þjóðartekjurnar skila sér verr í lífskjörum hér á landi en í nágrannalöndunum og langtum verr í tímakaupi fólks. Þetta hefur allt verið mörgum sinnum mælt í tölum.

Eðlilegt er, að spurt sé, hvers vegna þjóð, sem hefur sömu þjóðartekjur og nágrannaþjóðirnar, skuli hafi mun lakari lífskjör og langtum lægra tímakaup en þær. Þessari spurningu hefur oft verið svarað, en sjaldnast af neinu viti og allra sízt af hálfu verkalýðsrekenda landsins.

Augljóst er, að þjóðartekjurnar skila sér ekki til lífskjaranna eins greiðlega hér á landi og þær gera í nágrannalöndunum. Einnig er augljóst, að hér þarf töluvert lengri vinnutíma en í nágrannalöndunum til að ná sömu lífskjörum og þar ríkja. Hver er skýringin?

Munurinn felst í mismunandi hagkerfi þjóðanna. Hér á landi eru hinir hefðbundnu atvinnuvegir í meira mæli utan við markaðskerfið og innan opinbera geirans. Landbúnaðurinn hefur áratugum saman beinlínis verið ríkisrekinn og sjávarútvegurinn er núllaður með krónugengi.

Að vísu er landbúnaðurinn víðar ríkisrekinn en hér á landi. En hér hefur hann verið frystur í umfangsmeira ástandi en í nágrannalöndunum og er því hlutfallslega meiri byrði á hvern einstakling í þjóðfélaginu. Þessi frysting fortíðarinnar hefur kostað 400 milljarða í 20 ár.

Með millifærslum frá sjávarútvegi til þjóðfélagsins og frá þjóðfélaginu til landbúnaðarins er hluti aflafjár þjóðarinnar brenndur, svo að þjóðartekjurnar skila sér ekki í lífskjörum og enn síður í tímakaupi. Þetta er meginskýringin á mismun þjóðartekna, lífskjara og tímakaups.

Þessar millifærslur vega þungt hér á landi, af því að þær varða greinar, sem eru fyrirferðarmiklar hér. Í nágrannalöndunum eru hins vegar mun fyrirferðarmeiri aðrar greinar, sem eru í meira mæli innan markaðskerfisins, svo sem kaupsýsla, iðnaður og stóriðja.

Merkilegast við umræðuna um hið séríslenzka ástand er, að henni er haldið uppi af nokkrum hagfræðingum og öðrum utangarðsmönnum, en ekki af þeim, sem mestra hagsmuna hafa að gæta, launafólkinu í landinu, meintum talsmönnum þess og verkalýðsrekendum.

Það eru ekki formenn bandalags ríkisstarfsmanna, Verkamannasambandsins eða Alþýðusambandsins, sem benda á raunhæfa leið til að færa tímakaup og lífskjör upp að þjóðartekjum. Það eru ekki þeir, sem heimta, að þessum millifærslum í efnahagslífinu verði hætt.

Á mánudaginn mun fólk þramma Laugaveginn undir stjórn faglegra og pólitískra sauðarekstrarstjóra, sem enga lausn hafa að bjóða íslenzku láglaunafólki, af því að þeir vilja ekki fyrir nokkurn mun horfa á orsök þess, að miklar þjóðartekjur skila sér ekki í tímakaupinu.

Þannig er til raunveruleg þjóðarsátt um, að hér skuli búa láglaunafólk við millikjör í hátekjulandi til að halda uppi opinberu velferðarkerfi í efnahagslífinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ávísun á ímyndaðan auð

Greinar

Baksamningur nýju ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál gerir ráð fyrir, að ofveiði á þorski verði aukin um 8-12.000 tonn á ári til að friða eigendur veiðiskipa, sem eru minni en 150 tonn, án þess að gera það á kostnað hinna, sem eiga stærri skip en 150 tonna.

Þetta er dæmigerð pólitísk lausn, afbrigði af prentun peningaseðla, sem eru ekki ávísun á nein ný verðmæti. Lausnin mildar að sinni ágreining milli smárra og stórra innan sjávarútvegsins með því að búa til viðbótarkvóta, sem ekki er ávísun á nein viðbótarverðmæti í hafinu.

Þorskurinn var ofveiddur, áður en þessi pólitíska sjónhverfing var hönnuð. Hún stuðlar að aukinni ofveiði á líðandi stund og þar með stuðlar hún að minnkun á verðgildi hverrar kvótaeignar fyrir sig, þegar hættan á hruni þorskstofnsins færist enn nær okkur en hún er nú.

Áfram verður haldið að meta stöðu þorskstofnsins. Misræmið milli raunverulegra veiða og þeirra veiða, sem þorskstofninn þolir, mun aukast og valda auknum kröfum um almennan niðurskurð veiðiheimilda áður en stofninn hrynur að færeyskum og kanadískum hætti.

Kröfurnar munu koma frá hinum raunverulegu eigendum þorskstofnsins, sem eru hvorki ráðherrar né sægreifar, heldur fólkið í landinu. Það mun krefjast þess, að umboðsmenn sínir láti ekki smáa og stóra útgerðarmenn gera þjóðareignina verðlausa með illri umgengni.

Þeim vanda ætlar ríkisstjórnin að mæta, þegar að honum kemur. Að sinni finnst henni brýnna að sætta misjöfn sjónarmið eigenda fiskiskipa á kostnað eigenda auðlindarinnar. Stjórnmálamönnum hefur jafnan fundizt skynsamlegast að pissa í skóinn á líðandi stund.

Hin innstæðulausa ávísun á þorsk er að þessu sinni sérstakt áhyggjuefni. Fremur hefði verið búizt við henni af ríkisstjórn með aðild Alþýðuflokks, sem á síðasta kjörtímabili var veikur fyrir kenningum galdralækna um, að reiknilíkön fiskifræðinga væru ekki nógu góð.

Framsóknarflokkurinn var hins vegar talinn búinn þeim kosti að vera hallari en aðrir flokkar undir ábyrga fiskveiðistjórn. Það stafaði af, að núverandi formaður hans reyndist ekki vera eins óábyrgur sjávarútvegsráðherra á sínum tíma og aðrir slíkir höfðu þá verið.

Þar sem sjávarútvegsráðherra fráfarandi og nýrrar ríkisstjórnar hefur að mestu fetað að þessu leyti í fótspor formanns Framsóknarflokksins á valdaskeiði sínu, hefði mátt vona, að samstarfsflokkarnir í nýju ríkisstjórninni sýndu meiri ábyrgð en fram kemur í baksamningnum.

Að létta og ljúfa leiðin skyldi vera valin sýnir okkur, að takmörk eru fyrir ábyrgðartilfinningu í stjórnmálum. Þrýstihóparnir eru smám saman að verða óbilgjarnari og valda stjórnmálamönnum vaxandi ótta. Þetta er hættuleg þróun, svo sem baksamningurinn sýnir.

Ábyrgðarbilun af tagi baksamningsins veldur þjóðinni miklu tjóni. 8-12.000 tonna aukin þorskveiði mun rýra þorskstofninn og valda enn meiri niðurskurði til mótvægis á allra næstu kvótaárum, nema ábyrgðarleysið vaxi enn og leiði til eyðileggingar auðlindarinnar.

Þorskurinn í sjónum eykst ekki neitt, þótt stjórnmálamenn auki veiðiheimildir um 8-12.000 tonn. Langt er síðan almennt varð ljóst, að þorskurinn er ofveiddur og fer með hverju árinu rýrnandi sem auðlind. Hlutverk stjórnmálamanna ætti að felast í að snúa þeirri þróun við.

En ríkisstjórnin lítur ekki á sig sem umboðsmann fólksins, heldur sem umboðsmann sérhagsmuna, er alltaf hafa átt fremur ljúfan aðgang að stjórnarflokkunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kapteinninn var fiskifæla

Greinar

Alþýðuflokkurinn fékk tiltölulega fáa þorska í veiðikeppni flokkanna að þessu sinni. Þyngst vegur á metunum, að formaðurinn hagaði málum á þann veg, að unnt var að kljúfa flokkinn. Samkvæmt kenningu sama formanns á að skipta um kapteina á bátum, sem ekki fiska.

Á síðasta kjörtímabili fékk Alþýðuflokkurinn á sig réttmætt spillingarorð. Það lýsti sér einkum í óeðlilega eindreginni áherzlu á að útvega flokksmönnum gögn og gæði af almannafé. Þessi ímynd flokksins olli því, að klofningsframboð Þjóðvaka fékk töluverðan stuðning.

Þegar varaformaður flokksins varð að segja af sér ráðherraembætti, fylgdi því alls engin iðrun. Þvert á móti var hann staffírugur og sagði vonda flokksbræður og fjölmiðla hafa búið til fár, sem ylli flokknum óþægindum og kallaði á fórn, þótt málsefni væru engin.

Þótt varaformaðurinn væri að mestu leyti hafður í felum í kosningabaráttunni, hefur flokkurinn enga tilraun gert til að gera upp spillta fortíð sína á kjörtímabilinu. Flokkurinn gekk óhreinsaður og illa lyktandi til kosninga, þannig að enn er feimnismál að vera krati.

Í kosningabaráttunni hafði flokkurinn þá sérstöðu, að vera í andstöðu við sínar eigin gerðir í ríkisstjórnum. Eftir langvinna valdaaðstöðu sína bauð flokkurinn upp á aukna Evrópuaðild og jöfnun kosningaréttar, fráhvarf frá kvótum í sjávarútvegi og ríkisrekstri landbúnaðar.

Tæpast getur talizt traustvekjandi að byggja kosningabaráttu á loforðum um að breyta og bæta á nokkrum sviðum án þess að hafa getað notað langvinna stjórnarsetu til að þoka málum áleiðis á sömu sviðum. Slík þversögn gefur kosningabaráttu óraunverulegan svip.

Hins vegar er rangt, að þessi mál hafi verið flokknum fjötur um fót. Þau fara saman við skoðanir fjölmenns minnihluta þjóðarinnar. Til dæmis vilja fjórir af hverjum tíu reyna aukna aðild að Evrópu og sama hlutfall vill umtalsverða minnkun á ríkisrekstri landbúnaðar.

Stjórnmálaflokkur, sem hefur aðeins 10-20% fylgi, getur leyft sér að styðja minnihlutaskoðanir, sem hafa 40% fylgi kjósenda. Ef allir aðrir flokkar eru að fiska í meirihlutanum, eiga að vera miklir möguleikar fyrir lítinn flokk að afla sér fylgis á bilinu frá 10-20% í 40%.

Það er rangt hjá fallkandidat flokksins á Austfjörðum, að sérmál Alþýðuflokksins sem slík hafi verið honum fjötur um fót. Fremur má telja, að kjósendur hafi af fyrri reynslu ekki treyst flokknum í þessum málum og talið ekki henta langvinnum valdhafa að lofa öllu fögru.

Þannig ber flokkurinn ímynd óvenjulega mikillar spillingar og óvenjulega mikils misræmis milli orðs og borðs. Við þetta bætist, að fráfarandi ráðherrar flokksins, að Rannveigu Guðmundsdóttur undanskilinni, eru í hópi þeirra stjórnmálamanna, sem liðugastan hafa talanda.

Þannig er enn ein ímynd flokksins af ráðherrum, sem geta blaðrað endalaust og eru alltaf tilbúnir til burtreiða, en geta ekki látið verkin tala; af ráðherrum, sem framleiða mikinn hávaða og skrautlegt fjaðrafok, en hafa reynzt litlu hafa breytt, þegar moldviðrinu linnir.

Formaður flokksins ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessum ímyndum, sem samanlagt valda því, að flokkurinn er tæpast talinn marktækur. Formaðurinn hefur haft mikinn tíma til að móta flokkinn eftir sínu höfði. Þar á ofan ber hann hálfa ábyrgð á klofningi flokksins í vetur.

Svo vel vill til, að þessi sami formaður hefur fyrir löngu sjálfur upplýst, hvaða gera eigi við kapteina, sem ekki fiska. Nú þarf útgerðin að meta stöðu fiskifælunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Löngu ljóst mynztur

Greinar

Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kemur ekki á óvart. Búið var að forhanna hana nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Þá var komið í ljós, að mál þessara tveggja flokka lágu saman í flestum atriðum, en ágreiningur hafði magnazt milli stjórnarflokkanna.

Kosningabaráttan staðfesti þetta. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn buðu kjósendum sömu afstöðuna, þegar búið var að skafa hefðbundið orðskrúð af yfirlýsingum þeirra. Þeir vildu óbreytt ástand í flestum þeim atriðum, sem valdið hafa ágreiningi í landinu.

Þessir flokkar vilja ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þeir vilja ekki minnka sjálfvirka peningabrennslu í landbúnaði. Þeir vilja halda nokkurn veginn óbreyttu kvótakerfi í sjávarútvegi. Þeir hafa lítinn áhuga á frekari jöfnun atkvæðisréttar milli kjósenda.

Síðast en ekki sízt standa þeir vörð um velferðarkerfi sérhagsmuna, sem þeir hafa byggt upp í svonefndum helmingaskiptastjórnum, er þeir hafa nokkrum sinnum myndað. Þetta eru einkum sérhagsmunir stórfyrirtækja, arftaka Sambandsins og byggðastefnufyrirtækja.

Þegar talið hafði verið upp úr kössunum, var komið í ljós, að kjósendur voru sáttir við þessa tilhögun. Eini hemillinn á framkvæmd málsins var, að meirihluti fráfarandi stjórnar hékk enn á einu atkvæði. Þá kom Guðmundur Árni til hjálpar og stimplaði sig ótryggan.

Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað haldið uppi lengri málamyndaviðræðum við Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkurinn hefði getað hafið raunverulegar stjórnarmyndunarviðræður litlu flokkanna fimm. Það hefði verið nær hefðbundnum vinnubrögðum í stjórnarmyndun.

Oft hefur verið talið nauðsynlegt að draga málamyndaviðræður á langinn til að vekja athygli stuðningsmanna á erfiðleikum við myndun stjórnar, sem forustumennirnir vilja ekki, og sætta fólk við þá stjórnarmyndun, sem alltaf lá á borðinu, að væri eðlilegasti kosturinn.

Þessi yfirborðsdans tók skamman tíma að þessu sinni. Það sýnir vel, að forustumenn stóru flokkanna tveggja töldu sig ekki þurfa miklar afsakanir til að mynda enn eina helmingaskiptastjórn. Enda geta allir séð, sem sjá vilja, að málefni flokkanna tveggja falla saman.

Að vísu snúast stjórnmál ekki nema að litlum hluta um málefni, kannski 10%. Þau snúast meira um persónur, kannski 30%, og mest um ráðherrastóla, kannski 60%. Málefnin koma í myndina sem takmarkandi þáttur. Þau geta tafið fyrir, að persónur komist í stóla.

Málefnin tefja ekki samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Blágræn bók var samin á einni kvöldstund. En stærri málin voru líka að mestu auðleyst, bæði skipting ráðuneyta og val ráðherra. Það hefði bara verið að drepa tímann að draga það fram yfir helgi.

Kjósendur geta ekki í neinni alvöru haldið fram, að þetta stjórnarmynztur komi aftan að þeim. Til dæmis hefur mynztrið verið boðað í leiðurum DV allt frá því í janúar. Það lá þá í augum uppi, bæði vegna formannaskipta í Framsóknarflokki og vegna málefnasamstöðu.

Sjálfstæðisflokkurinn færði sig inn á Framsóknarlínuna í stjórnmálum á síðasta kjörtímabili. Í ríkisstjórn rak flokkurinn kvótastefnu Framsóknar, búvörustefnu Framsóknar, Evrópustefnu Framsóknar, atkvæðastefnu Framsóknar og sérhagsmunastefnu Framsóknar.

Þetta var hægt, af því að forusta Sjálfstæðisflokksins hefur uppgötvað, að það eru fleiri framsóknarstefnumenn í Sjálfstæðisflokknum en í Framsóknarflokknum.

Jónas Kristjánsson

DV

Nákvæmar kannanir

Greinar

Skoðanakannanir síðustu dagana fyrir kjördag fóru nærri um úrslit kosninganna og næst fór sú könnun, sem birtist í DV á föstudaginn. Engin skoðanakönnun frá upphafi slíkrar starfsemi hér á landi hefur farið nær raunverulegum úrslitum en einmitt þessi könnun DV.

Meðalfrávik könnunar DV frá kosningaúrslitum var 0,3% á framboðslista að meðaltali. Gallup kom næst DV með 0,5% meðalfrávik. Síðan kom Félagsvísindastofnun með rúmlega 1,0% og Skáís með tæplega 1,3%. Lestina rak Stöð 2 með 1,4% meðalfrávik á framboðslista.

Allar voru þessar kannanir langt undir þeim 2,5% skekkjumörkum, sem eðlileg mega teljast af stærðfræðilegum ástæðum. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, því að tveggja áratuga reynsla er fyrir því, að íslenzkar skoðanakannanir eru vel þroskuð fræði- og atvinnugrein.

Hitt kemur á óvart, að þeir kjósendur, sem gerðu upp hug sinn eftir síðustu kannanir, skuli hafa dreifzt á framboðslistana í sömu hlutföllum og hinir kjósendurnir, sem voru búnir að ákveða sig fyrir síðustu kannanir. Það bendir til, að lokaáróður flokkanna hafi verið áhrifalaus.

Fyrri skoðanakannanir vetrarins sýndu miklar sveiflur í fylgi flokkanna. Þannig reis fyrst og hneig Kvennalisti og síðan reis og hneig Þjóðvaki. Sveiflurnar héldust fram að síðustu viku fyrir kosningar, en þá hættu þær að mestu, nema hjá Þjóðvaka, sem hélt áfram að dala.

Fylgisrýrnun Þjóðvaka í kosningavikunni var þó ekki svo mikil, að rétt sé að túlka hana sem fráhvarf fylgismanna hans. Miklu fremur var um það að ræða, að þeir mörgu, sem hættu að vera óákveðnir í síðustu vikunni, röðuðu sér á aðra stjórnmálaflokka en Þjóðvaka.

Kjósendur virðast mynda sér skoðanir á flokkunum fyrr en ætla mætti af fjölda hinna óákveðnu í skoðanakönnunum. Þessi skoðanamyndun gerist allan tímann milli kosninga og ekki mikið fremur í mánuði kosningabaráttunnar en í öðrum mánuðum kjörtímabilsins.

Ef mánuður kosningabaráttunnar er greindur niður í vikur, er ekki hægt að sjá, að skoðanamyndun sé örari síðustu vikuna en hinar fyrri. Að vísu fækkar hinum óákveðnu örar en áður, en þeir raðast á flokkana í nokkurn veginn sömu hlutföllum og hinir ákveðnu.

Þetta bendir til, að auglýsingar og áróður flokkanna skili sér annaðhvort ekki vel eða jafnist þannig út, að heildarniðurstaða auglýsinga og áróðurs sé nánast núll. Gildir þá einu, hvort flokkar verja milljónum króna eða tugum milljóna króna til þessa í síðustu vikunni.

Ekki verður heldur séð, að fréttir hafi áhrif. Þjóðvaki lenti í hremmingum vegna frétta af úrsögnum á síðustu dögum baráttunnar og kenndi þeim að hluta um niðurstöðuna. Fylgissig Þjóðvaka í síðustu vikunni var þó ekki meira en það hafði verið í vikunum þar á undan.

Líklegast er, að fylgissveiflur flokka séu tiltölulega hægar og illviðráðanlegar. Líklegast er, að þær fari eftir undiröldu, sem myndist á löngum tíma eftir breytingum á aðstæðum í þjóðfélaginu. Ef þetta er rétt, þýðir það í raun, að sjálf kosningabaráttan hefur takmörkuð áhrif.

Skoðanakannanir eru mikilvægur þáttur í fréttaflutningi þjóðmála. Áður en þær komu til sögunnar og hlutu almenna viðurkenningu, urðu kjósendur að sæta öfgafullum skoðunum kosningastjóra á fylgi flokkanna. Slíkar skoðanir hafa horfið eins og dögg fyrir sólu.

Skoðanakannanir eru eðlilegur þáttur upplýsingaflæðis kosningabaráttunar. Eftir þessar kosningar munu fáir draga í efa, að þær fara í aðalatriðum með rétt mál.

Jónas Kristjánsson

DV

Kanada vísar veginn

Greinar

Af erlendum fjölmiðlum er ljóst, að Kanada hefur unnið alþjóðlega áróðursstríðið gegn Spáni og Evrópusambandinu í deilunni um fiskveiðar utan 200 mílna lögsögunnar við Nýfundnaland. Kanadamenn eru almennt taldir góðu karlarnir og Spánverjar vondu karlarnir.

Efnisatriði málsins eru ekki svona einföld. Báðir aðilar hafa framið lögbrot. Kanadamenn hafa farið út fyrir valdsvið sitt sem strandþjóð, en brot þeirra eru talin afsakanleg, af því að þeir eru að reyna að koma í veg fyrir rányrkju á fiskimiðum rétt utan lögsögunnar.

Sums staðar kemur fram, að Kanadamenn séu að feta í fótspor Íslendinga, sem hafi unnið þorskastríð sín við Breta á svipaðan hátt, með því að vera í hlutverki smælingjans, sem er að reyna að vernda lifibrauð sitt fyrir ásókn sjóræningja, og auglýsa það hlutverk af kappi.

Kanadíski sjávarútvegsráðherrann hefur haldið sönnunargögnum á lofti, þéttriðnum og klæddum netum, smáfiskum og leynihólfum í sjóræningjaskipi. Ljósmyndir af sönnunargögnunum hafa birzt um allan heim og sýnt Spánverja í ljósi skeytingarlausra villimanna.

Og það er bara rétta ljósið. Spánverjar eru fyrir löngu orðnir illræmdir fyrir algert tillitsleysi í umgengni við verðmæti hafsins og við hagsmuni mannkyns af viðhaldi fiskveiða. Framkomu Spánverja og spánskra stjórnvalda verður bezt lýst sem villimannlegri græðgi og frekju.

Í þessu vandsæmdarmáli er einna athyglisverðast eins og í öllum slíkum málum, að Evrópusambandið tekur upp hanzkann fyrir aðildarríkið gegn utangarðsríki. Enginn málstaður er nógu fáránlegur til þess, að Evrópusambandið hafni því að láta beita sér fyrir hann.

Framganga og málflutningur Evrópusambandsmanna í fiskveiðideilunni er langt handan við heilbrigða skynsemi. Það er eins og þeir lifi í einkaheimi, þar sem hvorki skiptir máli innihald né ímynd. Eins og páfagaukar þylja þeir bara ruglið upp úr spánskum stjórnvöldum.

Þeir, sem fylgjast vel með, vita líka, að Evrópusambandið hefur eindregið stuðlað að ofveiði á öllum miðum, bæði við Evrópu og annars staðar, með því að veita stjarnfræðilegar upphæðir til styrktar smíðum og kaupum og rekstri fiskiskipa í aðildarríkjunum.

Í Evrópusambandinu er litið á fiskveiðar sem eina grein landbúnaðar. Þess vegna er auðvelt fyrir byggðastefnumenn að afla styrkja til stuðnings atvinnurekstri í sjávarplássum. Ofveiði af hálfu Evrópusambandsins er bara hluti af geigvænlegum landbúnaðarvanda þess.

Utan deiluríkjanna sér fólk myndina í skýru ljósi. Það veit, að fiskstofnar eru ofveiddir og vill, að þeir séu verndaðir strax, en ekki seinna, þegar þeir eru uppurnir. Það veit, að alþjóðareglur duga alls ekki til að vernda fiskinn fyrir Spánverjum og öðrum sjóræningjum.

Allt er þetta lærdómsríkt fyrir Íslendinga. Sérstaklega er mikilvægt að taka eftir því, að Kanada hefur gersigrað í áróðursstríðinu. Það bendir til, að auðveldara verði fyrir okkur að ná tangarhaldi á mikilvægum miðum rétt utan við 200 mílna lögsöguna heldur en fjarri henni.

Við munum aldrei fá neinn stuðning við veiðar í Smugunni. Og þær munu spilla fyrir tilraunum okkar til að vernda eigin smugur. Nálægar smugur ættu þó að vera okkur mikilvægari en fjarlægar, af því að þær tengjast meira framtíðarhagsmunum okkar sem fiskveiðiþjóðar.

Okkur gekk vel, þegar við vorum í hlutverki strandríkis gegn úthafsríkjum. Tilraunir okkar til að leika úthafsríki hafa gefið skjótan arð, en munu hefna sín um síðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Lofað og mútað

Greinar

Kosningabaráttan hefur fallið í hefðbundinn farveg upp á síðkastið. Miklu er lofað og töluvert er mútað, rétt eins og stjórnmálamenn telji kjósendur sætta sig við augljóst markleysi stjórnmálanna. Það jákvæða er, að illindi og níð hafa verið með minnsta móti að þessu sinni.

Þegar hlustað er og horft á stjórnmálamenn og lesnar fullyrðingar þeirra, mætti ætla, að þeir hafi alls ekki komið að stjórnvelinum. Staðreyndin er hins vegar sú, að langflestir stjórnmálaforingjar landsins hafa meira eða minna verið ráðherrar á undanförnum áratug.

Einkennilegt getur virzt, að fyrrverandi ráðherrar skuli núna vera að átta sig á, að bæta þurfi stöðu ýmissa hópa og mála, en ekki þegar þeir voru við völd. Og einkennilegt getur virzt, að núverandi ráðherrar séu fyrst núna í kosningabaráttunni að átta sig á hinu sama.

Skýringin er augljós. Stjórnmálamennirnir meina ekkert með loforðum sínum. Þau eru dregin upp úr kistunni fyrir kosningabaráttu og lögð niður í hana aftur að henni lokinni. Ef þeir komast í ráðherrastóla, efna þeir ekki loforð sín, svo sem dæmin sanna, gömul og ný.

Enginn heilvita maður ætti að kjósa eftir loforðum stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Sumir gera það eigi að síður. Fólk er gleymið. Fjögur ár eru langur tími og hvað þá áratugur. Margir láta ginna sig aftur og aftur á fjögurra ára fresti. Lýðræðið er ekki fullkomið.

Sumir ráðherrar eru örlátir á kosningavíxla. Lengst gengur Sighvatur Björgvinsson, er galdrar úr hatti ímyndað álver, sem á að byggja strax í sumar. Næst gengur Halldór Blöndal, sem leggur undir sig flugvél Flugmálastjórnar til að strá peningum um kjördæmið.

150 milljónum er lofað í fiskeldi, 100 milljónum í lækkaðan símakostnað, 43 milljónum í stóðhestastöð (!), 96 milljónum í hjúkrunarheimili, 285 milljónum í sjúkrahús, 300 milljónum í heilsugæzlustöð, 180 í hitaveitu, 115 til rannsókna, 200 í skuldbreytingar og 800 í háskóla.

Ef allt væri með felldu í stjórnmálunum, mundu mútukallar af þessu tagi ekki fá neinn hljómgrunn meðal almennings. Guðmundur Árni Stefánsson fellur í skuggann af þessum vænu slummum. En kjósendur virðast sáttir og fá auðvitað þá þingmenn, sem þeir eiga skilið.

Kosningavíxlar ráðherra verða auðvitað ekki greiddir nema að litlu leyti, enda getur ríkið ekki borgað þessi ósköp. Víxlarnir eru að því leyti verri en loforðin, að þeir kosta skattgreiðendur oftast einhverjar málamyndagerðir, en hreinu loforðin eru yfirleitt alveg ókeypis.

Alþýðuflokkurinn er uppvís að því að hella brennivíni í róna og draga þá til utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Össur Skarphéðinsson lætur ráðuneytið greiða kostnað við prentun áróðursrits um meint afrek hans sem ráðherra. Sú tegund spillingar er annars að mestu horfin.

Rónabrennivínið og ráðuneytisbæklingurinn raga kjósendur ekki frekar en dýru kosningavíxlanir og ódýru kosningaloforðin. Menn ráfa að mestu leyti í þá dilka, sem þeir þekkja frá fyrri tíð. Sveiflan í flokkafylgi frá síðustu kosningum verður ekki tiltakanleg á laugardag.

Í rauninni er furðulegt, hversu margir kjósendur hafa gert upp hug sinn í skoðanakönnunum. Miðað við hvað framboðið er lélegt, mætti ætla, að meirihluti kjósenda teldi sig ekki hafa athvarf hjá neinum stjórnmálaflokki. En meirihlutinn hefur þegar rambað í sína dilka.

Verið getur, að kjósendur geri einhvern tíma uppreisn gegn lélegum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. En þeir gera það ekki í kosningunum á laugardaginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Örlagavaldur lífskjara

Greinar

Samkvæmt rannsókn Neytendasamtakanna er verð landbúnaðarafurða mun lægra í Danmörku en hér á landi. Þetta er í fullu samræmi við aðrar athuganir á liðnum árum og stingur í stúf við fullyrðingar hagsmunagæzluráðherra landbúnaðarins að undanförnu.

Enn meiri munur kemur í ljós, þegar íslenzkt matarverð er borið saman við þróuð landbúnaðarríki, sem standa utan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins og vernda ekki landbúnaðinn í jafnmiklum mæli. Bandarískt verð er bara brot af hinu íslenzka.

Vegna nálægðar og samskipta hefur mótazt sú venja, að bera íslenzkt búvöru- og matarverð saman við danskt. Sá samanburður segir ekki alla söguna um, hvað innflutt búvara mundi kosta hér á landi, því að vafalaust yrði mikið flutt inn frá ódýrari landbúnaðarlöndum.

Í rannsókn Neytendasamtakanna kemur líka fram, hvað danskar afurðir mundu kosta hér á landi, ef þær væru fluttar inn. Samkvæmt þeim tölum mundu þær kosta frá fjórðungi og upp í helming af verði innlendra afurða, ef þær væru ekki tollaðar sérstaklega.

Að svo miklu leyti sem erlendar búvörur eru tollaðar við komuna til landsins, græðir ríkissjóður þá peninga fyrir hönd skattgreiðenda, en afganginn græða neytendur. Með fyrirhuguðum ofurtollum á innfluttan mat ætlar ríkið að ná öllum gróðanum til sín og rúmlega það.

Í rúmlega tvo áratugi hefur verið margsagt hér í blaðinu, að það jafngilti lífskjarabyltingu í landinu að heimila tollfrjálsan innflutning búvöru og greiða innlendum bændum fyrir að bregða búi í ósamkeppnishæfum greinum. Þessi kenning er í fullu gildi enn þann dag í dag.

Á þessum rúmlega tveimur áratugum hefur þjóðfélagið fórnað samtals um 400 milljörðum króna á altari hins hefðbundna landbúnaðar. Sú tala jafngildir tvöfaldri heildarskuld þjóðarinnar við útlönd. Hún jafngildir fjárlögum ríkisins í tvö ár. Hún er stjarnfræðileg.

Búvörustefna stjórnvalda er ein sér nægileg skýring á því, hvers vegna kaupmáttur tímakaups er miklu lægri á Íslandi en í nágrannalöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Hún er um leið nægileg skýring á því, hvers vegna íslenzkt atvinnulíf er ekki samkeppnishæft.

Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið pólitískur vilji til að skera meinsemdina. Meirihluti kjósenda hefur stutt og styður enn þá ófarnaðarstefnu, sem fylgt hefur verið. Í könnunum hefur hún haft um 60% fylgi. Fólkið í landinu ber því fulla ábyrgð á afleiðingum stefnunnar.

Sama er að segja um stjórnmálaflokkana. Í reynd styðja þeir allir helstefnu landbúnaðarráðuneytisins. Sumir styðja hana ekki í orði, en hafa ævinlega reynzt gera það á borði, þegar þeir hafa haft tækifæri til. Alþýðuflokkurinn er þar engan veginn undanskilinn.

Það sker í augu, að í kosningunum um helgina eiga neytendur engan málsvara. Þeir eru ekki taldir nógu merkur þrýstihópur í samanburði við aðra hagsmuni í þjóðfélaginu. Það segir allt, sem segja þarf um möguleika okkar á að ná vestrænum lífskjörum fyrir dagvinnu.

Neytendasamtökin hafa samt braggast töluvert á allra síðustu árum. Þau hafa lagt niður fyrri bannhelgi á málum landbúnaðarins og beita nú vaxandi þrýstingi gegn helstefnunni. Rannsókn þeirra á verði danskra landbúnaðarafurða er dæmi um þá stefnubreytingu.

Stóra málið er þó, að fyrir kosningar er orðið ljóst, að á næsta kjörtímabili mun áfram verða brennt 20 milljörðum króna á ári á altari hins hefðbundna landbúnaðar.

Jónas Kristjánsson

DV