Greinar

Erfðabreytta landið

Greinar

Öll ríki Vestur-Evrópu hafa bannað framleiðslu erfðabreyttra matvæla og útsæðis í löndum sínum. Nema Ísland. Allar þjóðir Vestur-Evrópu hafa átt kost á mikilli umræðu um kosti og galla erfðabreyttra matvæla og útsæðis. Nema Ísland. Hér var fyrsta málþingið um það efni haldið á þriðjudaginn.

Evrópusambandið var mörg ár í að kanna málið og búa til strangar reglur um, hvernig hugsanlega mætti flytja inn slíkar vörur til Evrópu. Ísland hefur ekki kannað málið. Landbúnaðarráðuneytið og Bændasamtökin ákváðu að leyfa ræktun erfðabreytts byggs hér á landi, án þess að málið væri rannsakað að hætti annarra ríkja og þjóða í Vestur-Evrópu.

Á málþinginu á þriðjudaginn talaði Carlo Leifert, prófessor í Newcastle og forstöðumaður 17 ríkja verkefnis um málið hjá Evrópusambandinu. Hann rakti ýmis dæmi um, að vísindamenn hafi vanmetið hættur af erfðabreyttri ræktun og lent í stóru tjóni. Hann taldi, að Ísland hefði meira eða minna rekið meðvitunarlaust í faðm hagsmunaaðila þessa iðnaðar.

Leifert taldi einnig það mundu verða slæma kynningu á Íslandi sem grænu ferðamannalandi, ef það væri eina landið í Vestur-Evrópu, sem heimilaði framleiðslu erfðabreyttra matvæla eða útsæðis. Almennt auglýsir Vestur-Evrópa og einstök héröð hennar sig sem erfðabreytingafrítt svæði.

Nánast allt Grikkland er auglýst erfðabreytingafrítt, einnig Ítalía og Austrríki, allt lönd, sem leggja mikla áherzlu á ferðamenn. Allt Suðurvestur-Bretland og Wales eru auglýst á sama hátt. Þannig hafa 3500 héruð í Evrópu beinlínis verið sett á slíka skrá að frumkvæði innlendra sveitarstjórna.

Sjö af hverjum tíu Evrópubúum er svo illa við erfðabreytt matvæli, að þeir vilja ekki sjá þau á hillum stórmarkaða. Engum verzlunarstjóra í Evrópu dettur í hug að hafa erfðabreytt matvæli á boðstólum. Evrópusambandið hefur sett strangar reglur um merkingar á umbúðum slíkra matvæla.

Ísland er ekki partur af þessari þróun. Ráfandi milli heimsku og æðis hafa ráðuneyti og bændasamtök gefið grænt ljós á starfsemi, sem nýtur ekki virðingar í Evrópu. Hér má selja erfðabreytt matvæli ómerkt og athugasemdalaust. Ísland liggur þar í sama feni og glæparíkin Rússland og Úkraína.

Nokkur íslenzk samtök, Landvernd, Neytendasamtökin, Matvæla- og veitingasambandið, Náttúrulækningafélagið og vottunarstofan Tún hafa opnað heimasíðu um þessi mál. Slóðin er “www.erfdabreytt.net”. Þar má finna margvíslegt efni, sem getur hjálpað fólki til að taka afstöðu í alvörumáli.

Ísland flýtur að þeirri óhjákvæmilegu niðurstöðu, að Evrópa öll loki á útflutning lambakjöts og annarrar búvöru frá landi, sem hefur tekið að sér hlutverk Guðs í þróuninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Framsókn afhjúpuð

Greinar

Framsókn getur ekki staðsett sig í stjórnmálum með plöggum og yfirlýsingum á flokksþingi. Staða flokka mælist af gerðum þeirra, en ekki meintum vilja þeirra til góðra verka. Og Framsókn hefur í langri stjórnarsetu gefið okkur greinargóða skýrslu um, hvar flokkurinn er staddur í tilverunni.

Undir forustu Halldórs Ásgrímssonar hefur flokkurinn færzt úr miðju íslenzkra stjórnmála út á hægri kantinn. Hann hefur í ríkisstjórn verið flokkur fasískra sjónarmiða, sem meðal annars hafa lýst sér í verki í andstöðu Árna Magnússonar við sjónarmið stéttarfélaga í deilum á Kárahnjúkasvæðinu.

Í orkumálim hefur Framsókn stimplað sig inn hjá kjósendum sem svartur flokkur. Ekki lengur grænn flokkur bænda og landsbyggðar, heldur svartur flokkur óheftrar auðhyggju og græðgi, þjónkunar við fjölþjóðafyrirtæki gegn grænni verndun landsins og óbyggða þess. Framsókn er á móti landvættunum.

Forsíða Framsóknarflokksins á þessu sviði er ekki bara þreytusvipur formannsins, heldur andlit Valgerðar Sverrisdóttur, sem er einn helzti andstæðingur náttúru landsins og vill greinilega virkja fallvötn um allt land, meðal annars í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljóti.

Með ýmsum hætti hefur Framsókn stuðlað að auknu bili milli ríkra og fátækra í landinu. Hún hefur í krafti stöðu sinnar í ráðuneytum Árna og Jóns Kristjánssonar skafið af fyrri velferðarstefnu, til dæmis í aukinni kostnaðarhlutdeild sjúklinga við lyf og meðferð og í skertri félagsþjónustu.

Framsókn hefur tekið trú á bandarískan dólgakapítalisma, sem telur, að hlúa þurfi að stórfyrirtækjum og stóreignamönnum til að auður þeirra sáldrist niður þjóðfélagsstigann. Ekkert bendir til, að þessi kenning sé rétt, en hún ræður ríkjum hjá stjórnmálaflokki, sem er nýgræðingur í auðhyggjunni.

Þekktust er Framsókn fyrir að hafa vikið frá stefnu hlutleysis, sem áður var svo hrein, að Ísland neitaði að segja sjálfum Adolf Hitler stríð á hendur. Nú er Ísland sjálfvirkur púðluhundur í dýragarði George W. Bush og vill komast í Öryggisráðið til að að þjóna leiðtoganum betur.

Allt þetta andstyggilega við Framsókn bliknar í samanburði við stöðu hennar sem hornsteins spillingar í þjóðfélaginu. Framsókn hefur áratugum saman einkum verið hagsmunabandalag einstaklinga, sem vilja koma sér og sínum áfram í lífinu. Framsókn er flokkurinn, sem fann upp sjálf helmingaskiptin.

Allt sem Framsókn hefur illt gert fátækum og náttúrunni eru smámunir í samanburði við stöðu flokksins sem hornsteins pólitískrar spillingar og eigingirni í þessu landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Borgin gargar

Greinar

Á leið niður Laugaveg fyrstu vikuna í desember taldi ég auðu búðarplássin. Þau voru tíu, ágæt röksemd fyrir því áliti, að Laugavegurinn gangi ekki upp sem verzlunargata. Þeim fækkar greinilega, sem veðja á veðurguðina á frægri Þorláksmessu, sem skal einu sinni á ári bjarga verzlun Laugavegarins.

Skiljanlega vilja kaupmenn láta gera eitthvað til að bjarga Laugavegi sem verzlunargötu í samkeppni við Kringlu og Smáralind eða jafnvel bara samkeppni við Skólavörðustíg, er virðist rísa sem verzlunargata. Hugmyndin um að rífa gömul hús við Laugaveg er afleiðing af minni verzlun í götunni.

Því miður hræða sporin. Borgin hefur áður sætzt á að láta rífa gömul hús við Laugaveginn og raunar víðar í austurbænum gamla. Ef við berum saman húsin 25, sem á að rífa við Laugaveg og 25 nýlega byggð hús við Laugaveg, er freistandi að taka gömlu bárujárnskofana fram yfir strengjasteypuhúsin.

Hver vill fleiri hús á borð við Laugaveg 7, er einu sinni hýsti söluskrifstofu Flugleiða á jarðhæð, sem lengi hefur staðið auð? Hver vill fleiri hús af svipuðu tagi, svo sem Laugaveg 66? Hvort tveggja er svipaður arkitektúr og troðið var illu heilli milli Hótels Borgar og Reykjavíkurapóteks.

Af fenginni reynslu slíkra húsa og margra annarra treysta menn ekki Reykjavíkurborg, ekki arkitektum hennar og ekki arkitektum kaupmanna. Slíkir kunna ekki að byggja innan í gamlan stíl, þeir vilja æpa á það gamla, sparka í það. Þeir hata gamalt bárujárn og elska stórt gler og þunga steypu.

Í borgarskipulag Reykjavíkur hefur alltaf vantað virðingu fyrir hinu gamla, og núna meira en nokkru sinni fyrr. Þannig gargar Morgunblaðshúsið á alla Kvosina, marmarabíslagið æpir á Landsbankann, glerhús Almennra frussar á Reykjavíkurapótek og Hótel Borg, Iðnaðarbankinn dissar alla Lækjargötuna.

Hér þarf að taka til hendinni, rífa Morgunblaðshúsið, rífa marmarabíslagið, rífa glerhúsið, rífa Lækjargötubankann. Hér þarf að strika yfir hroka arkitekta og vinnuveitenda þeirra. Reykjavíkurborg þarf að kasta út þeim aðilum, sem vilja þétta byggð með því að ögra nánasta umhverfi framkvæmdanna.

Reykjavíkurlistinn hefur verið hallur undir hrokann, svo sem sjá má af endurteknum styrjöldum um ruddalega nýsmíði við íbúasamtök. Kornið, sem fyllir mælinn, er hugmyndin um að rífa 25 bárujárnskofa við Laugaveg og reisa í staðinn 25 gler- og steypuhús í sjálfumglöðum tízkum síðustu áratuga.

Borgin verður að hætta að troða nýjum tízkum inn í gamlan stíl. Kaupmenn verða að finna aðrar leiðir til að selja vöru en að efna til styrjaldar milli bárujárns og strengjasteypu.

Jónas Kristjánsson

DV

Peðin í stríðinu

Greinar

Við lifum á spennandi tíma, að ýmsu leyti viðsjárverðari en kalda stríðið var. Framtíð Íslands og Íslendinga ræðst sem peðs af atburðum og framvindu úti í heimi. Við lifum á viðskiptum við útlönd og sætum sveiflum, sem hafa áhrif á afkomu okkar og velferð, jafnvel varanlegum sviptingum.

Fyrsti áratugur nýrrar aldar einkennist af misheppnaðri tilraun Bandaríkjanna til heimsyfirráða. Hún hefur bein og óbein áhrif á ótal sviðum, allt frá heimsviðskiptum yfir í loftslag jarðar og mun því stýra afkomu okkar og velferð fram eftir næsta áratug. Okkur koma heimsyfirráðin við.

Undanfarin ár hefur Evrópa, undir forustu Frakklands og Þýzkalands, haldið uppi vörnum gegn einræði Bandaríkjanna. Þess vegna fór Evrópa ekki í stríð við Írak og neitar að fara í stríð við Íran. Evrópa lærði í heimsstyrjöldum 20.aldar þá lexíu, sem Bandaríkin lærðu ekki í Víetnam.

Evrópa hefur náð nánast öllum ríkjum heims undir hatta Kyoto-bókunar um aðgerðir gegn koltvísýringi og Alþjóða glæpadómstólsins í Haag, hvort tveggja gegn eindreginni andstöðu Bandaríkjanna, sem nú orðið telja alla samninga milli ríkja hefta svigrúm sitt sem heimsveldisins eina.

Kína og síðan Indland eru að koma til skjalanna sem fjölmennustu ríki heims með óhemjulegan hagvöxt. Kína á nú þegar svo mikið af dollurum, að hún getur rústað efnahag Bandaríkjanna með því að selja. Þessi tvö ríki munu á sinn hátt taka þátt í andstöðunni gegn heimsveldinu eina.

Bandaríkin geta ekki einu sinni tryggt leppum sínum í Írak, svo sem Ajad Allawi og Abd al-Madi, völd í landinu eftir þingkosningar. Þar munu taka við menn, sem hlýða skipunum sjítaklerka, sem taka velferð fram yfir markaðshyggju og vingast við Íran, sem Bandaríkin hatast núna mest við.

Úr því að Bandaríkin réðu ekki við Írak, munu þau ekki ráða við Evrópu og enn síður við Evrópu, Kína og Indland. Nú þegar er Evrópusambandið farið að stýra viðskiptaumhverfi heimsins með reglugerðum, sem allur heimurinn fer eftir til að komast inn á langstærsta markað heimsins í Evrópu.

Ferðir Condoleezza Rice og George W. Bush til Evrópu breyttu engu. Utanríkisráðherrann sagði bla-bla-bla og evrópskir viðmælendur hennar sögðu bla-bla-bla á móti. Allir þóttust vera hinir samvinnuþýðustu. En Bandaríkin linna ekki kröfu sinni um heimsyfirráð og Evrópa linnir ekki andstöðunni.

Verst fyrir okkur við þessa spennu er, að Bandaríkin neita enn að taka þátt í aðgerðum heimsins til að tryggja mannkyni framtíð með því að vinda ofan af vaxandi umhverfismengun.

Jónas Kristjánsson

DV

Ísland örum skorið

Greinar

Fólk er rétt að byrja að skilja, að Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja eru að virkja jarðvarma til stóriðju á Grundartanga á sama tíma og Landsvirkjun er að virkja vatnsafl við Kárahnjúka til stóriðju á Reyðarfirði. Gufan verður tilbúin til sölu á næsta ári, á undan Kárahnjúkum.

Fólk er rétt að byrja að skilja, að ónotað og virkjanlegt gufuafl til stóriðju er jafn mikið og ónotað og virkjanlegt. vatnsafl. Þetta er staðreynd, sem lengi hefur verið ljós, en var til skamms tíma lítið rædd, af því að yfirvöld orkumála í Landsvirkjun og Iðnaðarráðuneyti einblíndu á vatnsaflið.

Fólk er rétt að byrja að skilja, að gufan er umhverfisvænni. Fjölmargar jarðvarmavirkjanir eru í hæsta gæðaflokki frá umhverfissjónarmiði, en einungis tvær vatnsaflsvirkjanir, Hólmsárvirkjun og Núpsvirkjun. Hægt verður að virkja framvegis til stóriðju án þess að stofna til ófriðar.

Ísland örum skorið er nafn á bæklingi, sem hefur farið víða, þrátt fyrir tilraunir til að hefta útbreiðslu hans. Þar kemur fram, að mögulegar jarðvarmavirkjanir jafngilda fjórum Kárahnjúkavirkjunum að orkugetu, án þess að þær eyðileggi stærsta ósnortna víðerni Evrópu á óafturkræfan hátt.

Nú hljóta margir að spyrja, hvers vegna Kárahnjúkavirkjun var keyrð ofan í kok á þjóðinni, þrátt fyrir mikla og harðskeytta andstöðu. Menn spyrja, hvers vegna Landsvirkjun fór ekki leið Orkuveitu Reykjavíkur, sem undirbjó og réðst í gufuaflið á sama tíma og með meiri hraða en Landsvirkjun.

Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun eru eins og svart og hvítt. Sú fyrri setur stór landsvæði á annan endann, svo að aldrei verður aftur tekið. Fyrir hinni síðari fer mjög lítið, auk þess sem unnt er að færa náttúruna aftur til fyrra horfs, ef orkuvinnslu lýkur vegna nýrra orkugjafa.

Af hverju var valtað yfir umhverfissinna við Kárahnjúka að ástæðulausu? Af hverju gekk Landsvirkjun berserksgang í að knýja fram stórfellda eyðileggingu á stærsta ósnortna víðerni í Evrópu? Af hverju nauðgaði Landsvirkjun okkur, þegar önnur og vistvænni tækni var komin hjá Reykjavík?

Fjöldi manna hefur ekki fyrirgefið Landsvirkjun, né þeim stjórnmálaðöflun, sem kúguðu þjóðina að ástæðulausu. Þar standa ærulausir leiðtogar, sem voru svo fullir hroka, að þeir vildu engar sættir, vildu knýja fram eyðileggingu, að því er virðist einkum til að sýna mátt sinn og megin.

Bæklingurinn Ísland örum skorið sýnir staðreyndir. Annars vegar eru fortíðaröfl ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar, hins vegar eru framtíðaröfl Reykjavíkur og Orkuveitunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Vonlaust framboð

Greinar

Baráttan fyrir íslenzku sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010 hefur aðeins einn kost. Hún hefur næstum þrefaldað framlög Íslands til þróunaraðstoðar upp í 0,2% landsframleiðslunnar. Þetta var veik og nízk aðferð til að afla framboðinu fylgis hjá ríkjum þriðja heimsins.

Þriðji heimurinn veit hins vegar, að Sameinuðu þjóðirnar gera ráð fyrir, að ríkar þjóðir leggi ekki 0,2%, heldur 0,7% landsframleiðslunnar til þróunaraðstoðar. Þess vegna áttu Norðmenn auðvelt með að komast í ráðið, af því að þeir standa sína pligt. Við erum hins vegar langt frá markinu.

Við skulum gera okkur grein fyrir, að keppinautar Íslands um sætið dreifa til ráðamanna í þriðja heiminum upplýsingum um, hversu andstætt Ísland er þróunarlöndunum, þegar kemur að greiðslum. Það er vonlaust að fara með 0,2% þróunaraðstoð í framboð, sem þarf að sækja fylgi til margra þróunarlanda.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir, að Ísland hefur verið stimplað sem fylgiríki Bandaríkjanna, yfirlýstur stuðningsaðili við stríð, sem logið var upp á okkur. Það er vonlaust fyrir Ísland að keppa við Austurríki og Tyrkland, sem ekki bera slíkan glæp á bakinu í kosningabaráttunni.

Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur þetta vonlausa framboð til Öryggisráðsins munu kosta okkur um eða tæpan milljarð króna. Morgunblaðið telur það hóflega áætlað, en Halldór Ásgrímsson segir töluna lægri. Við þekkjum Halldór og vitum að hann er að blekkja okkur.

Halldór Ásgrímsson hefur þegar eytt skattfé stjórnlaust til að taka upp stjórnmálasamband við fjörutíu ríki og koma upp sendiráðum á ýmsum stöðum, þar sem engir aðrir hagsmunir eru í húfi aðrir en þeir að reyna að fá viðkomandi ríki til að lofa stuðningi við framboð. Allt þetta fé verður talið með.

Keypt loforð halda ekki. Já þýðir ekki endilega já í þriðja heiminum, heldur kannski. Ekki sést, hvaða ríki bregðast stuðningi í leynilegri atkvæðagreiðslu, þegar á hólminn kemur árið 2008. Í greinargerð utanríkisráðuneytisins frá 2002 er talið, að 25-30 ríki muni bregðast gefnu loforði.

Ísland getur aldrei unnið upp forskot keppinautanna, þótt ráðnir verði tugir sendimanna til að reyna að kaupa fylgi fátækra ríkja með yfirlýsingum um stuðning við áhugamál viðkomandi ríkis. Ísland breytist í hóru, sem styður hvað sem er, í veikri von um stuðning í atkvæðagreiðslu 2008.

Halldór Ásgrímsson kom okkur í þennan dýra vanda, sem fer í nokkra milljarða, þegar spennan æsist. Rétti tíminn til að hætta við vonlaust framboð stórmennskuæðis er: Nú þegar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Logið að Halldóri

Greinar

Halldór Ásgrímsson hefði getað sagt fyrir löngu: “Það var logið að okkur um Írak, þar voru engin gereyðingarvopn og þar voru engar hryðjuverkasveitir til árása á Vesturlönd.” Þetta hafa efnislega sagt ýmsir þjóðarleiðtogar, sem hafa dregið til baka stuðning við stríð Bandaríkjanna við Írak.

Stjórn Bandaríkjanna laug nefnilega að Halldóri eins og öðrum. En viðbrögð hans voru ekki rökrétt, af því að hann var kominn svo langt til hægri, að hann vildi ekki trúa því, sem allur heimurinn vissi. Hann hefur fylgt George W. Bush úr einu lygavörninni í aðra, þegar fyrri lygar urðu séðar.

Hann hefði getað sparað sér, það sem hann og dólgar hans kalla ofsóknir og einelti, með því að viðurkenna það, sem leiðtogar Frakklands og Þýzkalands sáu fyrirfram. Þá hefði hann losað þjóðina undan þeirri þjáningu að þurfa að auglýsa í New York Times, að hún sé meira en 80% andvíg stefnu hans.

Allt annað en þetta er eftirleikur. Halldór hefur hamast við að lýsa því yfir, sem sumir aðrir ráðherrar muna ekki eftir, að Írak hafi verið rætt í ríkisstjórn, svona til að koma sér undan því að svara, hvort árásin hafi verið samþykkt. Sama gildir um utanríkismálanefnd, almennt spjall um Íraksmál.

Halldór ber með Davíð Oddssyni ábyrgð á, að Ísland var og er talið fylgja upplognum forsendum fyrir stríði og fólskulegu stríði, þar sem saman fara fjöldamorð og stríðsglæpir, allt í nafni þeirra félaga, sem hafa skorið sig frá þeirri hefð Íslendinga að vera á móti stríði, jafnvel gegn Hitler.

Þetta mál er hluti af þróun, þar sem Framsóknarflokkur Halldórs og dólga hans er kominn á hægri jaðarinn með ofsóknum á náttúru og vistkerfi Íslands, ofsóknum á gamalt fólk og öryrkja, sölu á innviðum þjóðfélagsins á borð við ljósleiðarann. Framsókn Halldórs breytist í fasistaflokk.

Einu sinni þóttist Framsókn vera miðflokkur og flestir þeir, sem eftir eru af kjósendum hans, telja sig vera þar. Hvað Halldór er að sækja yzt á hægri kantinn, er öllum nema honum og dólgum hans fyrirmunað að sjá. Ólíklegt er, að hann vinni þar meira fylgi en hann hefur kastað frá sér á miðjunni.

Enn eru þjóðarleiðtogar seint og um síðir að viðurkenna, að logið hafi verið að þeim um Írak. Nú eru Hollendingar að fara frá Írak, svo og Úkraínumenn og Pólverjar. Ekki er of seint fyrir Framsókn að sigla aftur inn á miðjuna og taka upp stefnu, sem meira en 80% þjóðarinnar fylgja réttilega.

Halldór segir, að það sé mál hans og Davíðs, hvort Ísland samþykki stríð við ríki, sem hafa ekki gert okkur neitt. Það er hornsteinn fasisma hans, sem hann verður að falla frá.

Jónas Kristjánsson

DV

Vegavilltir dómarar

Greinar

Síðasti dómurinn yfir svonefndum Kaptein Kókaín er gott dæmi um héraðsdóm, sem er úti að aka. En hann er ekki sá eini. Í dómum síðustu áratuga má finna ýmis dæmi þess, að mat héraðsdómara sé misjafnt, að sumir þeirra sjá ekki það, sem aðrir sjá og sumir sjá ekki einu sinni það sem allir sjá.

Þetta er annað umkvörtunarefni en það, sem stundum hefur heyrzt um Hæstarétt, þar sem talinn var vera á ferðinni kerfislægur misskilningur á þjóðfélaginu. Af oftrú á kerfinu dæmdi Hæstiréttur til dæmis oft ríkisvaldinu í vil og varð síðan gerður afturreka af æðri dómstólum úti í Evrópu.

Í héraðsdómum kunna hins vegar sumir dómarar ekki lögin, veita magnafslætti eða fara niður fyrir refsirammann, taka til dæmis ekki tillit til, að glæpur sé framinn á skilorði. Aðrir dæma í neðri kanti rammans, af því að þeim ofhasar refsigleði þess Alþingis, sem á sínum tíma setti lögin.

Við verðum auðvitað að sætta okkur við, að í stétt dómara sé tregt fólk og fólk, sem er ekki eins og fólk er flest. En þá þarf líka að vera til aðili eða stofnun, sem vekur athygli dómara á misræmi og reynir að hvetja þá til að fara eftir lögum og ekki reyna að túlka lögin út og suður úr rammanum.

Þetta ætti að hafa vakið næga athygli til þess, að ráðuneyti dómsmála, félag héraðsdómara eða einhver annar ábyrgur aðili láti fara fram úttekt á héraðsdómum og skilgreini, hver sé munurinn á dómvenju einstakra dómara. Þetta þarf síðan að nota til að kippa afvegaleiddum dómurum aftur inn í rammann.

Ef opinber aðili, sem kannar héraðsdóma, kemst að þeirri niðurstöðu á tilgreindu sviði, að refsirammi laganna sé skakkur, er ekkert einfaldara en að snúa sér til Alþingis með rökstuddu bréfi um, að sett verði ný lög, sem löguðu refsirammann með hliðsjón af nýrri yfirsýn góðra manna.

Í stuttu máli sagt skortir aga á héraðsdómurum. Þeir leika lausum hala. Einn þeirra sagði mér, að hann hefði sýknað verktaka af hraðakstri, af því að hann teldi verktaka vera í svo miklum önnum, að ekki væri hægt að ætlast til, að þeir væru á ferðinni á löglegum hámarkshraða eða undir honum.

Ef þessi röksemd er annað og meira en rugl, þarf að koma henni á framfæri við Alþingi, svo að það geti undanþegið ákveðnar stéttir lögum um hámarkshraða í umferð. Ef hún er hins vegar rugl, þarf að vera til einhver, sem kippir í skikkju dómarans og segir honum að fara að hafa gát á sér.

Allt þetta skiptir miklu, af því að virðing hárra og lágra fyrir lögum og rétti er meiri, ef samræmi er milli dóma og þeir eru innan marka laga. Og brýn þörf er á virðingunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Náðarhögg í kosningum

Greinar

Þingkosningarnar í Írak um helgina eru upphafið að endalokum hernáms Bandaríkjanna. Sjítar eru fjölmennastir í landinu og munu mæta á kjörstað til að tryggja völd sín. Ríkisstjórn þeirra mun taka við af umboðslausri leppstjórn, sem starfar til bráðabirgða, en hefur engin raunveruleg völd í landinu.

Sjítar lúta einkum tveimur leiðtogum, hinir rólegri fylgja Ali al-Sistani erkiklerki að málum, en hinir róttækari halla sér að öðrum erkiklerki, Moktada al-Sadr, sem hefur eldað grátt silfur við bandaríska herinn. Búast má við, að Sistani verði valdamestur að tjaldabaki eftir þingkosningarnar.

Til að byrja með munu leiðtogar sjíta reyna að fara með löndum í samskiptum við súnníta, sem eru minnihluti og ætla auk þess ekki að greiða atkvæði. Til málamynda verða nokkrir súnnítar gerðir að ráðherrum, en ólíklegt er, að það nægi til að koma í veg fyrir borgarastyrjöld milli trúarhópanna.

Sjítar hafa lýst því yfir, að ekki verði komið á klerkaveldi að hætti Írans. Mjög fáir klerkar eru í framboði til þingsins og fullyrt er, að enginn þeirra verði ráðherra. Eigi að síður verða trúarleg áhrif mikil að tjaldabaki og mikið samband við ráðandi öfl í nágrannaríki sjíta í Íran.

Kosningarnar verða ekki líkar því, sem við eigum að venjast. Menn eiga auðvelt með að kjósa úti um allan heim, en erfitt er að kjósa víða í heimalandinu. Til dæmis er ekki séð, að flóttamenn frá eyðilögðu borginni Falluja verði fjölmennir á kjörstað, svo er bandaríska hernum fyrir að þakka eða kenna.

Athyglisverðara er þó, að mikill fjöldi frambjóðenda er nafnlaus. Þeir fela andlit sitt eins og lögreglumennirnir, svo að þeir verði ekki drepnir. Hryðjuverkamenn geta hins vegar leikið lausum hala án þess að fela sig. Það sýnir í hnotskurn hvorir hafa stuðning meðal almennings í landinu.

Eigi að síður munu niðurstöður kosninganna verða teknar gildar. Sjítar munu komast til valda og hefjast handa við að losna við bandaríska herinn. Súnnítar munu reyna að negla sjíta og bandaríska herinn saman með hryðjuverkum, sem leitt geti til samstarfs sjíta og Bandaríkjahers um gagnaðgerðir.

Sjítar vita, að þeim er lífsspursmál að losna við herinn sem fyrst, svo að þeir verði ekki stimplaðir sem hernámssinnar, sem eru afar óvinsælir meðal almennings samkvæmt könnunum. Þeir munu smám saman sækjast eftir auknu samstarfi við Íran, þar sem er ríkisstjórn afar fjandsamleg Bandaríkjunum.

Þetta er upphafið að endalokum hernámsins. Bandaríkjastjórn hefur fengið alla nema Kúrda upp á móti sér og missir leppstjórnina úr höndum sér í þingkosningunum um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV

Frjósöm og langlíf

Greinar

DeCode Genetics hefur náð þeim merka áfanga, að sérfræðileg tímarit eru farin að birta greinar starfsmanna. Nature Genetics hefur birt grein um víxlun erfðavísa á litningum Evrópubúa, þar á meðal Íslendinga. Af viðbrögðum erlendis má ráða, að þessi grein þyki fela í sér merkilega uppgötvun.

Birting í sérfræðiriti er annað en að kalla á íslenzka blaðamenn og segja þeim, að deCode hafi unnið vísindalegt afrek. Sérfræðiritin bera greinar undir nefndir sérfræðinga, sem meta, hvort vísindi og röksemdir að baki greinanna séu í lagi, og gera oftast tillögur um endurbætur á greinunum.

Þannig hafa greinar, sem birtast í þekktum sérfræðiritum meira vægi en greinar eða fréttatilkynningar, sem fást birtar athugasemdalaust. Því þrengri, sem síur ritsins eru, þeim mun hærra er ritið metið í sérfræðiheiminum. Loflegar greinar í fjölmiðlum Íslands hafa vægið núll á þessum skala.

Hingað til hefur deCode nokkrum sinnum leikið þann leik að hóa saman blaðamönnum og tjá þeim, að merkileg uppgötvun hafi verið gerð í fyrirtækinu. Síðan höfum við séð þetta, heyrt eða lesið í fjölmiðlum og yppt öxlum, því að slík vísindi hafa ekkert vægi. Nú er öldin orðin önnur og betri.

Umrædd rannsókn deCode bendir til, að ákveðin röskun hafi orðið á röð erfðavísa á 17. litningi fyrir þremur milljónum ára, sem hlýtur að teljast hafa verið í árdaga mannkyns. Þegar á því frumstigi hefur orðið stökkbreyting í erfðum Evrópubúa, en að litlu leyti í Afríku og alls ekki í Asíu.

Einn af hverjum fimm Evrópubúum og þar á meðal einn af hverjum fimm Íslendingum býr við þessa röskun á röð erfðavísa á 17. litningi, sem fer saman við meiri barneignir kvenna og meira langlífi fólks. Röskunin virðist semsagt leiða til aukinna barneigna og aukins langlífis fólks.

Þetta felur raunar í sér ókeypis hádegisverðinn, sem ein tegund hagfræði segir ekki vera til. Hingað til hefur verið talið, að annað hvort erfist aukin frjósemi til að vega á móti miklu skammlífi, eða aukið langlífi erfist til að bæta upp litla frjósemi. Þarna hafa menn kökuna og éta hana.

Miðað við mikla þjóðflutninga í heiminum í þrjár milljónir ára, kemur óneitanlega ó óvart, að svona mikill munur sé á Evrópu og Asíu, sem liggja saman. Einnig kemur á óvart, að mannkynið var talið runnið frá einum milljón ára gömlum einstaklingi, en röskunin er þriggja milljón ára gömul.

Þannig virka vísindin. Gerðar eru uppgötvanir, sem raska fyrra samhengi. Þá setjast menn niður við að reyna að finna skýringar með frekari tilraunum. DeCode tekur þátt í þessu.

Jónas Kristjánsson

DV

100.000 manns

Greinar

Talan 100.000 manns um mannfall óbreyttra í Írak er fengin frá Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health læknaskólanum í Baltimore. Rannsóknin var birt í Lancet, einu þekktasta læknatímariti heims, þar sem greinar eru ekki birtar fyrr en eftir gaumgæfilega skoðun tilkvaddra dómara.

Ekki var hægt að telja hina látnu, af því að hernámslið Bandaríkjanna í Írak telur ekki sjálft: “We dont do body counts”, sagði Tommy Franks herstjóri. Ennfremur leggur það sig fram um að hindra aðra í að telja. Einkum hefur hefur verið reynt að hindra lækna á bráðadeildum í að koma upplýsingum á framfæri, jafnvel með því að drepa þá.

Þegar Bandaríkjaher réðist inn í Falluja, voru bráðadeildir sjúkrahúsanna fyrstu skotmörkin. Ráðizt var strax á þau, læknar drepnir og gemsar teknir af öðrum. Eftir fyrsta dag árásarinnar var enginn bráðalæknir eftir í borginni. Einnig var ráðizt á blaðamenn, sem reyndu að lýsa ástandinu.

Í erfiðri stöðu fóru vísindamenn Johns Hopkins skólans sömu leið og almennt er farin í læknavísindum. Þeir fundu hverfi víða um Írak, töluðu við íbúana og mátu, hversu margir hefðu verið drepnir í fjölskyldum þeirra. Með því að framlengja tölurnar fyrir allt landið, mátu þeir heildarstöðuna.

Það varpar engum skugga á þessa viðurkenndu og árangursríku aðferð læknavísindanna, að íslenzkir þrætubókarmenn á borð við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vefengi hana. Almennt er viðurkennt um allan heim, nema í sóðakreðsum Davíðs & Halldórs, að 100.000 óbreyttir borgarar hafi verið myrtir.

Almennt er viðurkennt um heim allan, að Bandaríkjaher hafi farið fram með miklu offorsi og brotum á alþjóðalögum gegn óbreyttum borgurum í Írak, meðal annars jafnað Falljua við jörðu, ekki til þess að ná skæruliðum, sem voru nærri allir farnir, heldur til að reyna að segja öðrum Írökum, að svona geti farið fyrir þeim, ef þeir hagi sér ekki almennilega.

Allt hefur þetta haft þveröfug áhrif. Bandaríkin komu að ríki, sem átti engin mikilvæg vopn og var engin ógnun við önnur ríki og þar sem friður ríkti yfirleitt á götum úti. Það eru Bandaríkin, sem hafa breytt gömlu menningarríki í sláturhús til að þóknast róttækum trúarofstækismönnum.

Um allan heim er fullt af ógeðfelldum harðstjórum, sem flestir stjórna í skjóli Bandaríkjanna. Þau komu raunar Saddam Hussein á fót fyrir nokkrum áratugum og létu hann þá hafa efnavopn til að myrða nágranna sína í Íran. Öll samskipti Bandaríkjanna við þetta hrjáða land eru hluti af vitfirringu heimsveldis, sem þekkir sér engin takmörk.

Í einkasamsæri Davíðs & Halldórs voru Íslendingar gerðir að siðferðilegum ábyrgðaraðila þessa viðurstyggilega stríðs, þar sem 100.000 óbreyttir borgarar hafa verið myrtir.

Jónas Kristjánsson

DV

Síðasta klukkustundin

Greinar

Helmings líkur eru sagðar á, að börn, sem fæðast á næstu árum, verði vitni að endalokum mannkyns eins og við þekkjum það. Þekktasti stjörnufræðingur Bretlands, sir Martin Rees við Cambridge-háskóla, telur, að þessar séu horfurnar á tilvist nútíma siðmenningar um næstu aldamót, eftir 95 ár.

Í bókinni Our Final Hour er Rees hvorki að tala um hættu á kjarnorkustríði né hættu á árekstri loftsteins við jörðina. Hann er bara að tala um vísindi og vísindamenn, hættuna á að fikt við erfðaefni muni leiða af sér breytingar, sem menn missi tökin á, leiði til dæmis til ógnvekjandi farsótta.

Sitt sýnist hverjum um skoðanir Rees, en enginn efast um, að hann er einn þekktasti fræðimaður heims á sviði svarthola í geimnum. Hann segir, að tímabært sé að fara að gera sér ekki bara grein fyrir möguleikum á sviði yztu vísinda, heldur einnig hættum, sem fylgja því að leika guð yfir jörðinni.

Rees varð allt í einu þungamiðja í deilum fræðimanna um stöðu þeirra í tilverunni. Annars vegar eru hinir bjartsýnu arftakar upplýsingaaldar, sem segja: Því meiri þekking, þeim mun betra. Hins vegar eru hinir svartsýnu, sem segja, að kominn sé tími til að meta áhættuna og setja hömlur á fót.

Þetta varðar ýmsa hluti, sem verið er að gera um þessar mundir. Erfðabreytt matvæli eru komin til sögunnar við mikla hrifningu fólks í Bandaríkjunum og miklar efasemdir fólks í Vestur-Evrópu. Það er orðið að heimspólitísku deilumáli, hvernig selja megi erfðabreytt matvæli í Evrópusambandinu.

Bandaríkjamenn telja, að Evrópusambandið sé að reyna að verja landbúnaðinn heima fyrir með því að setja hömlur á innflutning á afurðum bandarísks landbúnaðar. Hið sanna er, að Evrópumenn eru svartsýnni en Bandaríkjamenn og miklu líklegri til að setja upp varnagla gegn róttækum nýjungum.

Þegar kúariðan hafði hrist upp í Bretum fyrir nokkrum árum, ætlaði landbúnaðarráðherrann að lægja öldurnar með því að gefa dóttur sinni erfðabreyttan hamborgara í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þetta fór á öfugan veg, æsingurinn varð svo mikill, að ráðherrann varð að segja af sér.

Tveir þriðju hlutar Evrópubúa eru andvígir erfðabreyttum matvælum og neita algerlega að kaupa þau. Aðeins hér á Íslandi leika þau lausum hala. Aðeins hér á Íslandi eru stundaðar erfðabreytingar á korni. Við erum greinilega bandaríkjamegin í afstöðu til kosta og galla yztu vísinda.

Í Evrópu telja menn alls ekki gefið, að meiri og meiri vísindi feli endalaust í sér framþróun. Þar telja margir, að einhvern tíma fari mannkynið sér að voða við að leika guð.

Jónas Kristjánsson

200 megrunarkúrar

Greinar

Ef einn einasti megrunarkúr virkaði, væru ekki til sölu 200 mismunandi megrunarbækur í bandarískum bókabúðum, heldur bara ein. Þar sem engin bókin virkar, eru bækurnar 200. Þessi sannindi hafa nú verið staðfest af rannsókn, sem sýnir, að engar rannsóknir staðfesta neina megrunaraðferð.

Í nokkrar aldir hefur það verið eðli nútímans, að allt er rannsakað og borið saman. Einn hópur er borinn saman við annan, sem er eins að öðru leyti en því, að hann fær ekki lyfið eða matinn eða hvað annað, sem verið er að rannsaka. Þannig er reynt að sjá, hvort fullyrðingar standast skoðun.

Fljótsagt er, að þeir, sem selja okkur leiðir til megrunar, bækur eða duft eða annað, forðast eins og heitan eldinn að fá staðhæfingar sínar sannreyndar. Þær skyggja nefnilega á drauminn, sem reynt er að selja. Það sýnir rannsókn, sem um daginn var birt í tímaritinu Annals of Internal Medicine.

Greinarhöfundar fundu 108 rannsóknir á þessu sviði, þar af tíu, sem voru gerðar á sómasamlegan hátt. Aðeins ein þeirra sýndi smávægilegan árangur í skamman tíma. Weight Watchers aðferðin gaf 5% megrun á sex mánuðum, en mest af þyngdinni kom til baka á einu ári eða tveimur. Heildarútkoman var 0.

Til samanburðar má nefna, að aðferðir AA til að halda fólki frá áfengi voru staðfestar í umfangsmikilli rannsókn Vaillant við Yale-háskóla, sem stóð nokkra áratugi. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð á hliðstæðri aðferð við megrun, svokallaðri Overeaters Anonymus. Hún er enn óvís.

Vísindamenn og embættismenn sem stóðu að rannsókninni á stöðu megrunarkúra í vísindum, segja, að furðulegt sé, að nánast enginn megrunarkúrastjóri sækist eftir vísindalegum aðferðum við að staðfesta orð þeirra eða hafna þeim. Þeir segja, að þetta sé eins og að setja ókannað lyf á markað.

Þetta segir okkur, að lítið mark er takandi á Herbalife og öðru dufti, South Beach eða Atkins eða öðrum bókum. Öll þessi vara selzt, af því að fólk dreymir um að léttast, verða grönn eins og fyrirmyndir í sjónvarpi og bíómyndum. Sumir eru í ævilangri þyngdarsveiflu í nýjum og nýjum kúrum.

Niðurstaða málsins er, að aðferðirnar séu að berjast við náttúrulögmál. Á einu ári endurheimti fólk þriðjung hinna brottfallinna kílóa og á tveimur árum tvo þriðju. Eftir fimm ár er fólk aftur komið í upphafsstöðu. Þetta eru auðvitað skelfileg tíðindi fyrir þá, sem berjast um í voninni.

Þar sem mikið heilsutjón er af völdum of mikillar þyngdar, er orðið tímabært, að heilbrigðisyfirvöld á Vesturlöndum taki saman höndum um að finna staðfesta leið til megrunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykur, fita og salt

Greinar

Ef menn vilja sauma að áfengi og tóbaki á markaði, er eðlilegt, að óhollur matur fari sömu leið. Hann er meiri ógnun við heilsufar þjóða heldur en áfengi og tóbak. Hann veldur meiri kostnaði í heilsugeiranum. Því er eðlilegt, að ríkisvaldið leiti leiða til að hamla gegn óhollum mat.

Matvælafyrirtæki reyna með auglýsingaherferðum að troða óhollum mat upp á börn og unglinga. Fremstir fara þar gosdrykkjaframleiðendur, skyndibitastaðir og framleiðendur á morgunkorni. Kellogs er núna að kynna á brezkum markaði morgunkorn, sem er 43% sykur. Við höfum Mjólkursamsöluna.

Um áramótin voru auglýsingar á gotteríi og skyndibitamat bannaðar í sjónvarpi í Írlandi. Skylt er að merkja á umbúðir slíkrar vöru, að gos- og sykursnakk geti skemmt tennur, að skyndibita beri að nota í hófi og svo framvegis. Ennfremur hafa Írar bannað frægðarfólki að auglýsa skyndibitamat.

Svíar og Grikkir hafa sett lög, sem takmarka auglýsingar um slíkar vörur, er beinast að börnum. Bretar hafa komizt að raun um, að þrír fjórðu hlutar auglýsinga með barnaefni eru matarauglýsingar og 90% þeirra eru auglýsingar á vörum, sem hafa of mikinn sykur eða of mikla fitu eða of mikið salt.

Bretar munu á miðju árinu fylgja þessum niðurstöðum með sérstökum kröfum um litamerkingar. Heilsuspillandi vörur verða merktar rauðar, hlutlausar vörur merktar gular og hollar vörur verða merktar grænar. Í öllum tilvikum er miðað við innhald á ógnvöldunum þremur, sykri eða fitu eða salti.

Í hvítri bók brezku ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir margvíslegum öðrum vörnum gegn ofurafli auglýsenda á borð við Kellogs, Coca Cola og MacDonalds. Til greina kemur að leggja sjúkraskatt á slík fyrirtæki, sem sérfræðingarnir segja, að séu ekki að framleiða matvæli, heldur sælgæti.

Því á engum að koma á óvart, að stjórnmálaflokkar hér á landi taki upp þráðinn og beini augum sínum að auglýsingum í barnaefni sjónvarps. Það er bara fyrsta skrefið. Ef eiturfyrirtækin gefa ekki eftir, verður fyrr eða síðar brýnt að sérmerkja vörur þeirra betur og skattleggja þau.

Auðvitað munu margir andmæla þessu eins og þeir eru á móti aðgerðum gegn áfengi og tóbaki. Ríkið þarf hins vegar að gæta sinna hagsmuna, sem eru þeir, að neyzla á vörum með sykri, fitu eða salti veldur feiknarkostnaði hins opinbera í sjúkrageiranum. Meiri kostnaði en áfengi og tóbak valda.

Hingað til hefur almenningur ekki áttað sig á víðtækri óhollustu alls kyns matvæla. Þegar fólk hefur áttað sig, má búast við, að stuðningur við varnaraðgerðir muni eflast.

Jónas Kristjánsson

DV

Uppeldisbresturinn

Greinar

Ef nýr forsætisráðherra og aðrir máttarstólpar þjóðarinnar á síðustu árum vilja fá betur upp alin börn á Íslandi, er nærtækast fyrir þá að gefa foreldrum betri tíma. Ráðamenn hafa hins vegar rekið þjóðarbúskapinn á þann hátt, að barnafjölskyldur þurfa tvær fyrirvinnur til að lifa af.

Framleiðni á Íslandi er lítil, meðal annars vegna áherzlu stjórnvalda á gæludýrarekstri, til dæmis landbúnaði. Til þess að standa jafnfætis vestrænum þjóðum, verða Íslendingar að bæta sér þetta upp með löngum vinnudegi og tvöfaldri fyrirvinnu. Það leiðir víða til gallaðs uppeldis barna.

Ríkisstjórnin getur lagt sitt af mörkum með því að afnema félagslega velferð í atvinnulífinu og auka þannig framleiðni til dæmis upp í það, sem hún er í Frakklandi. Þá gæti hún stytt vikulegan vinnutíma niður í 35 tíma og gert fleiri foreldrum kleift að sinna börnum sínum betur en hingað til.

Meðan við bíðum eftir, að ríkisstjórnin breyti áherzlum í atvinnumálum, getum við notað tækifærið til að hvetja máttarstólpa, svo sem stjórnmálaflokka og þjóðkirkju, til að taka afstöðu gegn dýrkun ofbeldis og kynóra, sem flæðir yfir unga fólkið í sjónvarpsefni, bíómyndum og tölvuleikjum.

Uppspretta þessa ógeðs er að mestu í Bandaríkjunum, þar sem stjórnvöld eru að ala upp fallbyssufóður. Það er spurning, hvort þjóðkirkjan og stjórnmálaflokkar vilja skera að frönskum hætti upp herör gegn illum uppeldisáhrifum, sem berast hingað í skjóli bandarísks ofurafls í lágmenningu.

Einnig er nauðsynlegt, að stjórnvöld beini augum sínum að börnum og unglingum, sem þegar hefur verið spillt af ofangreindum ástæðum. Margir unglingar fara fram af fullkomnu tillitsleysi við umhverfið, af því að þeir komast upp með það, lögin gera ekki ráð fyrir sakhæfum unglingum.

Bretar eiga við þyngri vanda að etja á þessu sviði. Þar í landi ganga um flokkar bjórdrukkinna unglinga, sem eru haldnir skemmdarfýsn. Bretar eru farnir að sekta foreldra þessara unglinga um 30-40 pund eða 4000-5500 krónur fyrir hvert athæfi unglinga og barna allt niður í tíu ára aldur.

Síbrotafólk meðal foreldra, sem ekki hefur skikk á börnum sínum þrátt fyrir sektir, eru Bretar farnir að senda á námskeið í uppeldi. Ekki er enn vitað, hvort slíkt hefur áhrif, en sendir öllu falli þau skilaboð út í þjóðfélagið, að gerð sé krafa um, að foreldrar beri ábyrgð á uppeldinu.

Við getum ekki horfið aftur í tímann til ástands, sem við ímyndum okkur að hafi verið í gamla daga. En stjórnvöld, máttarstólpar og foreldrar geta samt andæft siðleysinu.

Jónas Kristjánsson

DV