Greinar

Samgönguæð nútímans

Greinar

Ríkið á alltaf og alls staðar erfitt með að nota peningaveldi sitt til að stuðla að nýsköpun í atvinnuvegum. Það er alþjóðleg reynsla, sem hefur fengið óvenjulega skýra staðfestingu hér á landi í miklu tapi opinberra sjóða af stuðningi við nýsköpun í loðdýrarækt og fiskeldi.

Lánasjóðir og gjafasjóðir ríkisins eiga líka erfitt með að finna einstök fyrirtæki eða verkefni, sem geti komizt á flug með hjálp Stóra bróður. Það er ekki til nein aðferð við að finna, hvaða hugvitsmenn og snillingar séu líklegastir til að ná árangri og hverjir blási sápukúlur.

Ríkið getur samt gert mikið gagn og búið í haginn fyrir atvinnugreinar nútímans. Það gerist með því að leggja í kostnað við að undirbúa jarðveginn. Beinasta og augljósasta dæmið um slíkt er samgöngukerfi á landi, í sjó og í lofti og ekki sízt í símaþráðum af ýmsu tagi.

Ríkið byggir og rekur vegi án þess að rukka sérstaklega fyrir notkun neins hluta þeirra. Með sveitarfélögum, sem líka eru opinberir aðilar, byggir það hafnir. Sveitarfélög reka þær með lágu notkunargjaldi, sem ekki tekur stofnkostnað með í dæmið, aðeins rekstrarkostnað.

Framtak opinberra aðila á þessum sviðum er forsenda hins hefðbundna atvinnulífs hér á landi. Ef ríkið gengi ekki fram fyrir skjöldu í vegagerð og hafnargerð, væri alls ekki hægt að stunda hefðbundna atvinnuvegi hér á landi, þar á meðal ekki fiskveiðar og fiskvinnslu.

Þessa dagana er orðið fínt að tala um, að hér á landi þurfi að byggja upp atvinnuvegi nútímans, greinar, sem byggja á menntun og hugviti. Talað er um gerð hugbúnaðar, fjarþjónustu, viðskipti á internetinu og ýmislegt fleira, sem skapi þjóðinni hálaunastörf við tölvur.

Ríkið getur stuðlað að þessu og fetað á undan þróuninni með því að byggja gott samgöngukerfi fyrir atvinnugreinar nútímans. Um þessar mundir er aðeins notuð alls kostar ófullnægjandi, 128 kílóbita lína til gagnaflutnings og annarra tölvusamskipta til og frá landinu.

Þetta þýðir, að þeir, sem ætla að ná árangri í utanríkisviðskiptum á þessum sviðum, verða að flytja rekstur sinn úr landi. Það er þeim auðvelt, af því að rekstur þeirra er ekki staðbundinn, heldur auðflytjanlegur. Hann notar engar vélar eða tæki í hefðbundnum skilningi.

Ef ríkið ætlar að halda þessu hálaunafólki í landinu, þarf það að lýsa formlega yfir, að það ábyrgist mun meiri bandvídd í gagnaflutningsgetu til og frá landinu en notuð er á hverjum tíma og muni til að byrja með auka bandvíddina úr 128 kílóbitum í 4.000 kílóbit.

Póstur og sími hefur raunar tífalda þá bandbreidd, 40.000 kílóbit, til ráðstöfunar. Það er rúmlega þrjúhundruðföld núverandi bandvídd. Kapallinn hefur verið lagður og bíður eftir viðskiptum. Það þýðir hins vegar ekki að verðleggja notkunina eins og einhvern fágætan hlut.

Ef ríkið og einkaréttarstofnun þess geta ekki jafnað aðstöðumun innlendra og erlendra fyrirtækja á sviði hugbúnaðargerðar, fjarþjónustu, viðskipta á internetinu og öðrum tölvusamskiptum, stoðar lítt að monta sig af 40.000 bita bandvídd til gagnaflutninga yfir hafið.

Svo kann að fara, að ríki og sími þurfi sameiginlega að afskrifa hluta af kapalverðinu til að gera þetta kleift og að ríkið þurfi jafnframt að bjóða út rekstur gagnaflutningsins eftir kaplinum til þess að ná fram lægra verði en einkaréttarstofnunin telur sig geta ráðið við.

Góðu fréttirnar eru, að ríkið getur nánast með tveimur pennastrikum lagt sitt af mörkum til að tryggja möguleika Íslendinga í hinum nýju atvinnugreinum tölvunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Mín stofnun

Greinar

“Þú stjórnar Arnóri. Ég stjórna þér. Þessi ráðherra er ekki hræddur við að berjast. Ég minni þig á framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs, sem nú er fyrrverandi framkvæmdastjóri. Gleðileg jól.” Þetta hefur fyrrverandi veiðistjóri eftir núverandi umhverfisráðherra.

Hinn skapstyggi umhverfisráðherra hefur nýlega verið í fjölmiðlum og látið orð falla á þann veg, að hann virðist sem fyrr halda, að hann eigi ráðuneyti sitt og stofnanir þær, sem undir það falla. Þetta er “mín stofnun”, sagði hann við það tækifæri um embætti veiðistjóra.

Tilefni málsins er, að umhverfisráðherra hefur látið eftir sér að hringja í embættismenn og opinbera starfsmenn með vafasömu orðavali, jafnvel út af málum, sem varða ekki verksvið viðkomandi stofnunar. Virðist ráðherrann ekki kunna sér neitt hóf á þessu sviði.

Starfsmaður embættis veiðistjóra hafði tjáð sig opinberlega um rjúpnaveiði sem félagi í Skotveiðifélagi Íslands, en ekki sem ríkisstarfsmaður, enda heyrir rjúpnaveiði ekki undir embætti veiðistjóra. Þessi tjáning hans var aðeins hluti af borgaralegum réttindum hans.

Samt hringir umhverfisráðherra í hann og síðan í yfirmann hans, þáverandi veiðistjóra, sem reyndi að útskýra fyrir ráðherranum, að mál þetta varðaði ekki embætti veiðistjóra, heldur væri einkamál starfsmannsins. Viðbrögð ráðherrans voru síður en svo vinsamleg.

Umhverfisráðherra “á” ekki embætti veiðistjóra, þótt það heyri undir ráðuneytið. Hann stjórnar því ekki, að veiðistjóri ráði persónulegum skoðunum starfsmanna embættisins á málum, sem ekki eru á verksviði embættisins. Ráðherrann hefur ofmetnazt af upphefð sinni.

Tilvísun ráðherrans um, að annar embættismaður sé orðinn fyrrverandi embættismaður, er ekki annað en bein hótun um, að ráðherrann muni reyna að gera veiðistjóra að fyrrverandi veiðistjóra. Það hefur svo komið á daginn, að hann er orðinn fyrrverandi veiðistjóri.

Ekki getur það verið umhverfisráðherra til afsökunar, að það sé svo mikið álag á hann að leika trúð á kjötkveðjuhátíðum karlaklúbba, að hann verði að fá útrás í vanstilltum símtölum við opinbera starfsmenn. Ráðherra á fremur að biðja viðkomandi starfsmenn afsökunar.

Það er hins vegar vandamál Alþýðuflokksins að þurfa að bjóða kjósendum að velja umhverfisráðherrann í annað sinn á þing, alveg eins og það er vandamál flokksins að þurfa að bjóða kjósendum að velja fyrrverandi bæjarstjóra og félagsráðherra í annað sinn á þing.

Síðan er vandamál kjósenda að hyggjast samkvæmt skoðanakönnunum hleypa sex mönnum Alþýðuflokksins á þing, þar á meðal þessum tveimur sérfræðingum í misnotkun ráðherravalds, að ógleymdum utanríkisráðherra, sem stundar einkennilegar mannaráðningar.

Það er jafnvel ástæða til að hafa samúð með fyrrverandi bæjarstjóra og félagsráðherra, því að hans glöp fólust einkum í að beina velvild og greiðasemi að einstaklingum, sem fengu á þann hátt fyrirgreiðslu, er aðrir fengu ekki. Hann er of stórtækur fyrirgreiðslumaður.

Valdshyggjumennirnir eru verri. Kjósendur og stjórnmálaflokkar ættu að forðast stjórnmálamenn, sem nota valdastöður til að sparka í fólk, sem þeir telja standa sér skör lægra, og reyna að kúga það með yfirgangi, orðbragði og dulbúnum hótunum, þótt marklausar séu.

Illa tamin valdshyggja er eiginleiki, sem allra eiginleika sízt á erindi í stjórnmál í lýðræðisríki. Valdshyggjan er afturhvarf til lénsveldis hinna myrku miðalda.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt um sultarlaun

Greinar

Ríkissjóður á ekki fyrir hærri launum kennara eða annarra starfsmanna sinna. Ríkissjóður á hvorki hálfan milljarð til viðbótar við þá sjö milljarða, sem hann borgar kennurum árlega, né neina aðra upphæð. Ríkissjóður á satt að segja ekki bót fyrir rassinn á sér.

Þetta stafar af þjóðarsátt um velferðarkerfi gæludýranna. Þar ber hæst hinn hefðbundna landbúnað, sem kostar ríkissjóð svipað á fjárlögum og nemur öllum launum kennara í landinu samanlögðum. Eins og aðrir landsmenn eru kennarar óbeinir aðilar að þjóðarsáttinni.

Skoðanakannanir sýna, að meirihluti þjóðarinnar stendur að þjóðarsátt, sem felur í sér þennan milljarðakostnað ríkissjóðs og þar á ofan enn hærri upphæðir, sem neytendur borga árlega í of dýrar matvörur vegna innflutningshafta á samkeppnisvörum landbúnaðarins.

Auðvitað er skömm að launum kennara eins og raunar margra annarra hópa í landinu. En þessi lágu laun eru sjálfskaparvíti þjóðar, sem telur sig hafa ráð á skipulagðri verðmætabrennslu, sem nemur nálægt tuttugu milljörðum í hefðbundnum landbúnaði einum saman.

Kennarar og samtök þeirra hafa ekki frekar en aðrir aðilar bent á, að skerða megi velferðarkerfi gæludýranna til að efla velferð kennara. Raunar hafa engar tillögur komið úr þeirri átt um, hvernig ríkið eigi að fjármagna kröfur kennara í viðræðunum um nýja kjarasamninga.

Eðlilegt er að krefjast tillagna um þetta. Ef samtök kennara sjá enga matarholu í velferðarkerfi gæludýranna, geta þau sett fram vinsælar tillögur, til dæmis um, að skattar verði hækkaðir á þeim hluta hálaunafólks, sem ekki hefur aðstöðu til að snyrta skattskýrslur sínar.

Þá gætum við séð skemmtilegar samanburðartölur á borð við þær, að hækka þurfi skattahlutfall svonefnds hátekjufólks í rúmlega 100% til að standa undir kröfum kennara. Ef alls engar tillögur eru fáanlegar, verður að telja, að kjarakröfurnar séu alls ekki málefnalegar.

Eigi að síður enda kjarasamningarnir með, að kennarar fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það stafar af, að alþingiskosningar eru á næsta leiti. Við slíkar aðstæður er hefðbundið, að ráðamenn samþykkja ýmsa óráðsíu, taka peninga að láni og senda reikninginn til afkomenda okkar.

Allir ráðamenn þjóðarinnar á undanförnum áratugum hafa verið vissir um, að lappa megi upp á velferð þjóðarinnar með því að féfletta börnin okkar. Nú verður það enn einu sinni gert og að þessu sinni í þágu kennara, sem líklega telja þann anga málsins vera sér óviðkomandi.

Athyglisverður hliðarbrandari í máli þessu er, að ríkisvaldið vill ekkert hafa með kennara að gera og er í önnum að losna við þá sem bráðast í hendur sveitarfélaganna, sem heldur ekki vilja hafa neitt með þá að gera og mótmæla hástöfum of miklum hraða við yfirfærsluna.

Allir þrýstihópar vilja fá það, sem þeir telja vera sinn hlut, og engar refjar. Enginn þrýstihópur telur sig þurfa að útskýra, hvernig eigi að fjármagna fyrirgreiðslur, sem þeir heimta. Þjóðmálin eru meira eða minna farin að snúast um útgjöld án innistæðna, hraðprentun seðla.

Meðal starfsmanna ríkisins er minni skilningur en annars staðar á samhengi verðmætasköpunar og verðmætanotkunar. Vegna þjóðarsáttarinnar um velferð gæludýra er ekki hægt að segja, að slíkur skilningur sé í verkahring annarra og komi kennurum ekki við.

Kennarar eru hluti þjóðar, sem getur ekki veitt sér mannsæmandi laun af því að hún hefur ákveðið að verðmætabrennsla í þágu gæludýra sé algert forgangsmál.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkaflakk

Greinar

Langvinn aðild að stjórnmálaflokki er ekki lengur aðgöngumiði að öruggu sæti eða vonarsæti á lista flokksins í kosningum. Í vaxandi mæli leita flokkar í nánasta umhverfi sínu að nýju, en þekktu fólki, sem talið er geta selt ímynd flokksins, dregið fleiri atkvæði í dilk hans.

Jafnframt kemur fyrir, að sama persónan íhugar opinberlega, hvort hún eigi að taka boði þessa flokksins eða hins um öruggt sæti eða vonarsæti á lista. Sem dæmi um þetta má nefna formann félags sjúkraliða, sem átti kost á sæti fyrir tvo flokka í tveimur kjördæmum.

Landamærin eru orðin sérstaklega óljós milli Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Þjóðvaka. Þar rambar fólk inn og út án vegabréfaskoðunar, síðan Þjóðvaki losaði um flokkstengsl fólks á vinstri væng stjórnmálanna. Þarna eru greinilega þrír flokkar á sama markaði.

Af formlegri stjórnmálastefnu þessara flokka mætti ætla, að einhver munur væri milli Alþýðuflokks og Þjóðvaka annars vegar og Alþýðubandalags hins vegar. Fólkið, sem flakkar milli þessara flokka, telur þennan formlega stefnumun þeirra þó ekki skipta sköpum.

Er þó til dæmis Alþýðuflokkurinn með aðra stefnu í Evrópumálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum en til dæmis Alþýðubandalagið. Þetta hindrar formann félags sjúkraliða ekki í að íhuga, hvort hún eigi að velja framboð á vegum þessa flokksins eða hins.

Fleiri flokkar koma við sögu í flakki fólks. Ýmsir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins tala eins og þeir ætli að styðja Alþýðuflokkinn að þessu sinni, sumpart vegna stefnunnar í málum Evrópu, sjávarútvegs og landbúnaðar og sumpart til að verja flokkinn fylgishruni.

Framsóknarflokkurinn sætti flokkaflakki á fyrri hluta þessa vetrar, en virðist að mestu hafa endurheimt lausagöngufólkið. Minnkandi fylgi Þjóðvaka í skoðanakönnunum hefur meðal annars stafað af, að framsóknarfólkið í Þjóðvaka er horfið heim til föðurhúsanna.

Kvennalistinn hefur þá sérstöðu að hafa á þessu kjörtímabili skyndilega tekizt að stimpla sig sem kerfiskarlaflokk án þess að eiga neina aðild að landsstjórninni. Stuðningur þingflokksformannsins við mannréttindafrumvarp kerfiskarlanna er punkturinn yfir i-ið.

Sem stimpluðum kerfiskarlaflokki hefur kvennalistanum ekki tekizt að endurheimta sinn hluta af fylginu, sem Þjóðvaki sópaði til sín á öndverðum vetri, þótt öðrum flokkum hafi tekizt að krafsa í sinn hluta. En hann bíður færis eins og aðrir flokkar í nágrenni við Þjóðvaka.

Flestir búast við, að fylgi Þjóðvaka muni halda áfram að dala, þegar komið er í ljós, að stefnuskráin er gamalkunn og frambjóðendur gamalkunnir fallistar úr öðrum flokkum. Þess vegna keppast aðrir flokkar við að ná í þingmannsefni, sem geta höfðað til Þjóðvakafólks.

Flokkaflakkið sýnir, að áhugafólk um stjórnmál er hætt að gefa mikið fyrir formlegar stefnuskrár, sem draga hvort eð er dám hver af annarri. Þetta viðhorf endurspeglast hjá kjósendum almennt, sem eiga margir hverjir fremur erfitt með að ákveða sig í skoðanakönnunum.

Þeim mun meiri áherzlu leggur fólk á frambjóðendur og einkum flokksforingja, sem það telur sig geta treyst. Þetta kom í ljós, þegar Þjóðvaki skauzt fyrst upp á himin skoðanakannana. Og þetta hefur haldið áfram að koma fram í leit flokka að söluhæfum frambjóðendum.

En þrátt fyrir flokkaflakk verður víðast hvar í framboði gamalkunnugt kerfisfólk, sumt undir nýjum formerkjum. Byltingin á flokkakerfinu verður ekki núna.

Jónas Kristjánsson

DV

Verðstýrð heilsa

Greinar

Heilbrigðisráðherra á kost á betri leiðum til að gera heilbrigðiskerfið ódýrara en að taka upp tilvísanakerfi að nýju. Hægt er að beita mildari stýritækjum en því að leggja eitt kerfi niður í heild sinni og taka annað eldra upp í staðinn, en ná samt fram ekki minni sparnaði.

Raunar hefur ekki verið sýnt fram á, að sparnaður sé fyrir þjóðfélagið af tilvísanakerfinu, sem á að hefja göngu sína eftir rúma viku. Sparnaður ríkisins sjálfs er sagður um 100 milljónir, en er að mestu á kostnað notenda, svo að sparnaður þjóðfélagsins er nær enginn.

Sparnaður er torsóttur, af því að þjónusta sérfræðinga utan sjúkrahúsa er tiltölulega ódýr og mun ódýrari en þjónusta sérfræðinga á sjúkrahúsum. Hin nýja reglugerð mun meðal annars fela í sér flutning frá ódýrari þjónustunni yfir til hinnar dýrari á sjúkrahúsum landsins.

Þetta vegur á móti þeim sparnaði, sem fæst af því, að heimilislæknar og heilsugæzlustöðvar taki við hluta þjónustunnar, sem nú fæst beint hjá sérfræðingum. Hafa verður í huga, að þjónusta sérfræðinga utan sjúkrahúsa er ekki miklu dýrari en heilsugæzlulækna og -stöðva.

Einnig má taka með í reikninginn, að ríki og sveitarfélög hafa mikinn kostnað af byggingu og rekstri heilsugæzlustöðva, sem ekki er af húsnæði og húsbúnaði sérfræðinga utan sjúkrahúsa. Hinir síðarnefndu verða að sjá um sig sjálfir og borga það af eigin tekjum.

Samt sem áður getur heilbrigðisráðuneytið haft gildar ástæður til að ætla, að hagkvæmt sé að reyna að stýra viðskiptum sjúklinga frá sérfræðingum til heilsugæzlustöðva. Þar með væri stefnt að því, að sem flest mál yrðu afgreidd á frumstigi og án aðildar sérfræðinga.

Þetta má gera með því að breyta kostnaðarhlutfalli ríkisins, þannig að gert sé ódýrara fyrir fólk að fara til heilsugæzlustöðva en til sérfræðinga utan sjúkrahúsa, en ganga ekki svo langt að neita að taka nokkurn þátt í kostnaðinum, þegar fólk fer beint til sérfræðinga.

Um leið og fólk er hvatt til að fara heldur til heimilislækna en til sérfræðinga utan sjúkrahúsa væri einnig æskilegt að hvetja fólk til að nota fremur ódýra þjónustu sérfræðinga utan sjúkrahúsa en dýra þjónustu sjúkrahúsa, ef mál eru ekki svo flókin, að þau kosti legu.

Með mildri stýringu af þessu tagi getur heilbrigðisráðuneytið sparað ríkinu 100 milljónir króna og náð þannig þeim árangri, sem stefnt er að með nýju reglugerðinni. Sá árangur mundi líka nást í raun, en ekki vera ímyndaður eins og árangur tilvísanakerfisins.

Ef hægt er að komast að niðurstöðu, sem friður ríkir um, losnar ríkið við þann kostnaðarsama vanda, að þjónusta sérfræðinga utan sjúkrahúsa flyzt inn á sjúkrahúsin. Sá vandi mun án efa leiða til þeirra aukaverkana, að ríkið fari að rukka meira fyrir þjónustu sjúkrahúsa.

Heilbrigðisráðuneytið gæti lært mikið af stýritækjum fjármálaheimsins. Þar eru smávægilegar tilhliðranir á vöxtum notaðar til að halda jafnvægi á markaði. Á sama hátt væri eðlilegt að nota verðbreytingar í stað kúvendinga til mildrar stýringar á heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisráðuneytið er ekki þekkt að mikilli þekkingu á sviðum hagstjórnar og markaðsmála. Yfirstjórn þess hefur þvert á móti töluvert verið í fréttum vegna óstjórnar og minnisleysis. Það magnar efasemdir um, að reglugerðir, sem þar verða til, séu fyllilega nothæfar.

Enn er tími til að víkja frá einstefnu reglugerðar ráðuneytisins og taka upp markaðsvæna verðstýringu, sem heldur sæmilegum vinnufriði í heilbrigðisþjónustunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðargjöf klúðrað

Greinar

Íslenzka ríkið og embættismenn þess munu halda áfram að tapa málum fyrir fjölþjóðlegum mannréttindadómstólum, ef illa unnið og afleitt afturhaldsfrumvarp formanna allra þingflokka um nýjan mannréttindakafla stjórnarskrárinnar verður samþykkt á Alþingi.

Einn höfunda frumvarpsins er hæstaréttardómari, sem var ráðgjafi íslenzka ríkisins, þegar það fór hrakförina fyrir mannréttindadómstóli Evrópu í máli, sem rithöfundurinn Þorgeir Þorgeirson sótti með góðum árangri. Ríkisvaldið virðist ekkert hafa lært af því.

Það er hart aðgöngu, að embættismenn ríkisins og forustumenn stjórnmálaflokkanna hyggjast gefa þjóðinni stjórnarskrárkafla, sem í ýmsum atriðum stendur að baki þeirri stjórnarskrá, sem danskur kóngur gaf Íslendingum að þeim forspurðum fyrir meira en heilli öld.

Ákvæði frumvarpsins um tjáningarfrelsi eru hlaðin undantekningum í anda íslenzkrar embættismannastéttar. Þau minna á hliðstæð undanbrögð í nokkrum frumvörpum um aðgang að opinberum upplýsingum. Þau frumvörp hafa sem betur fer ekki náð fram að ganga.

Aðferð frumvarpshöfundanna er svipuð og höfunda frumvarpanna um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Fyrst eru sett fram ákvæði í samræmi við alþjóðlegar hefðir. Í næstu grein eru þau dregin til baka með undantekningarákvæðum, sem yfirvöld geta túlkað sér í hag.

Amnesty International hefur sent stjórnarskrárnefnd Alþingis umsögn um frumvarpið að mannréttindakaflanum. Í umsögninni segir, að frumvarpið standist ekki alþjóðlegar kröfur í veigamiklum atriðum og sé ekki í samræmi við skyldur, sem Ísland hefur tekið á sig.

Virðing Íslands á alþjóðlegum vettvangi hefur beðið hnekki af smíði þessa frumvarps. Það er forkastanlegt, að alþjóðasamtök, sem hafa öðlast frægð af verndun lítilmagnans fyrir harðstjórum þriðja heimsins, skuli þurfa að taka íslenzka ríkið á hné sér til rassskellingar.

Athugasemdir Amnesty eru svo fjölþættar, að tæpast stendur steinn yfir steini í frumvarpinu. Þar vantar ákvæði um mannréttindi á tímum neyðarástands, um mannréttindi flóttamanna og ákvæði um bann við illri meðferð af hálfu lögreglu, sem dæmi hafa verið um.

Amnesty gagnrýnir líka ófullnægjandi ákvæði um tjáningarfrelsi. Sú gagnrýni fer saman við gagnrýni af hálfu nýstofnaðs Málfrelsissjóðs, sem rithöfundar og listamenn hafa stofnað til að berjast fyrir umbótum á lögum um málfrelsi, prentfrelsi og tjáningarfrelsi.

Verzlunarráð Íslands hefur lagzt á sveif með Amnesty og Málfrelsissjóði og raunar fleiri aðilum, svo sem Lögmannafélagi Íslands, til varnar tjáningarfrelsi. Bendir ráðið á, að ýmis takmarkandi atriði í frumvarpinu séu ekki í samræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu.

Allt er, þegar þrennt er. Alþingi Íslendinga hefur í þrígang orðið sér til minnkunar með efnisrýrum montsamþykktum um þjóðargjöf. Eitt sinn gaf Alþingi fræ og áburð á hálendið, en kindur átu síðan gjöfina. Næst gaf Alþingi þjóðarbókhlöðu með langvinnum harmkvælum.

Í þetta skipti gleymdu ráðamenn Alþingis að undirbúa nógu vel hálfrar aldar afmæli lýðveldisins. Þeir ætluðu að bjarga Alþingi fyrir horn með sérstökum auka- og afmælisfundi á Þingvöllum, þar sem samþykkt var að láta smíða nýjan mannréttindakafla í stjórnarskrána.

Embættismönnum hefur fatazt smíðin hrapallega. Og formenn þingflokkanna sitja uppi sem hverjir aðrir aular með afturhaldsfrumvarp, sem bezt er, að fái hægt andlát.

Jónas Kristjánsson

DV

Kolkrabbinn kortlagður

Greinar

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu skýtur tölulegum grunni undir umræðuna um kolkrabbann. Hún sýnir samtvinnað fjármálaveldi umhverfis ráðamenn Eimskipafélagsins, Sjóvá-Almennra, Skeljungs og Flugleiða.

Höfuðfyrirtæki kolkrabbans eiga hlutafé hvert í öðru og ráðamenn hvers þeirra sitja í stjórnum hinna. Í kringum þau eru önnur fyrirtæki, sem eru að hluta í eigu höfuðfyrirtækjanna og sækja þangað stjórnarmenn. Þetta er allt kortlagt í skýrslu Samkeppnisstofnunar.

Hitt stóra aflið er ekki nema svipur af fornri frægð. Það er smokkfiskurinn, sem felur í sér leifar veldis Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Þungamiðja hans er í Olíufélaginu og Vátryggingafélaginu og aðrar helztu birtingarmyndir í Samskipum og Íslenzkum sjávarafurðum.

Minna fer fyrir öðrum valdamiðjum fjármálaheimsins. Landsbanki Íslands hefur fært út kvíarnar með yfirtöku ýmissa fyrirtækja, sem hafa farið halloka í lífsbaráttunni. Og Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur verið iðinn við að kaupa smáhluti í öflugum fyrirtækjum.

Fyrrum var jafnvægi milli kolkrabbans og smokkfisksins. Þá réðu oft ríkjum helmingaskiptastjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þær gættu hagsmuna stórfyrirtækjanna og notuðu miðstýringu og skömmtunarvald ríkisins óspart í þágu þeirra sameiginlega.

Í þá daga skipti til dæmis meira máli að fá að vita um gengislækkun með dags fyrirvara heldur en að hafa góð tök á sjálfum rekstrinum. Með hægfara opnun þjóðfélagsins minnkuðu forréttindin. Og verðtrygging fjárskuldbindinga varð til þess, að Sambandið féll í valinn.

Kolkrabbinn lagaði sig betur að breyttum aðstæðum og sat að lokum einn eftir með yfirburðastöðu í peningaheiminum. Þegar forréttindin minnkuðu, notaði hann heljartök sín á markaðinum til að mynda einokun eða fáokun eftir aðstæðum og hindra viðgang nýrra aðila.

Í samgöngum hafa Eimskip og Flugleiðir nánast einokun, hvort á sínu sviði, og Flugleiðir þar á ofan í ferðaþjónustu. Olíufélögin þrjú mynda fáokun á sínu sviði og sömuleiðis tvö tryggingafélögin stóru. Þessi fáokun á sér einnig hliðstæðu í bankakerfinu og í útflutningi á freðfiski.

Með ýmsum hætti, einkum með ítökum í stjórnmálum og bönkum, hefur kolkrabbanum, oftast einum sér og stundum í fáokun með leifum smokkfisksins, tekizt að bægja frá innlendri samkeppni, sem hefur látið á sér bæra af vanefnum, einkum í millilandasamgöngum.

Með aukinni þátttöku landsins í alþjóðlegum viðskiptasamkundum hefur ný hætta steðjað að yfirburðastöðu kolkrabbans í þjóðlífinu. Það er samkeppni af hálfu erlendra aðila, sem hafa margfalt meira bolmagn en hinir innlendu aðilar, sem hafa att kappi við kolkrabbann.

Þannig geta Flugleiðir ekki lengur einokað vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli og komið þannig óbeint í veg fyrir erlenda samkeppni. Um síðir verða stjórnvöld líka neydd til að afnema einokun félagsins á farþegaflugi. Erlend olíu- og tryggingafélög eru einnig komin á stjá.

Einstök bæjarfélög, með Reykjavík í broddi fylkingar, geta flýtt fyrir hruni einokunar og fáokunar með því að veita nýjum aðilum hafnaraðstöðu og aðrar lóðir til umsvifa. Aðstaða kolkrabbans til að hindra þetta hefur farið versnandi að undanförnu og mun versna enn.

Við sleppum síðan undan oki kolkrabbans, þegar erlendir bankar stofna hér útibú með eðlilegum viðskiptaháttum. Það verður upphaf að endalokum kolkrabbans.

Jónas Kristjánsson

DV

Sértæk góðvild

Greinar

Mörkin eru óljós milli spillingar, fyrirgreiðslu og góðvildar. Sumpart eru þetta þrjú orð yfir sama málið. Orðamunurinn lýsir fyrst og fremst misjöfnum sjónarhóli fólks. Þetta hefur til dæmis komið vel fram í opinberri umræðu um pólitísk ágreiningsefni í Hafnarfirði.

Fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar og félagsráðherra naut mikils stuðnings í prófkjöri Alþýðuflokksins, þótt hann næði ekki efsta sætinu, sem hann sóttist eftir. Í prófkjörsbaráttunni birtust um hann greinar stuðningsmanna, þar sem meðal annars var lýst góðvild hans.

Góðvild lýsir sér meðal annars í greiðasemi við náungann. Þessi góðvild eða greiðasemi er yfirleitt meira eða minna sértæk. Hún beinist einkum að þeim, sem næst standa og bezt sjást, af því að þörf þeirra er ljósari en hinna, sem fjær standa og sjást illa eða alls ekki.

Góðvild og greiðasemi eru hornsteinar í frumstæðu þjóðfélagi, þar sem réttur og velferð hefur ekki náð því stigi, sem er í auðugustu ríkjum Vesturlanda. Ættin og hreppurinn voru eins konar tryggingafélag í hörðum heimi liðinna alda. Þannig þraukuðu forfeður okkar.

Nú á tímum hafa altækar aðgerðir að mestu leyst sértækar af hólmi. Lög og réttur ná í stórum dráttum jafnt til allra. Velferðin nær í stórum dráttum jafnt til allra. Við lifum í þjóðfélagi, sem telur höfuðhlutverk sitt að vera eins konar tryggingafélag fyrir lítilmagnann.

Ættin, vinirnir og hreppurinn skipta einstaklinginn miklu enn þann dag í dag. Þar gilda hinar sértæku aðgerðir áfram. Til stjórnmálamanna eru hins vegar gerðar þær kröfur í nútímanum, að þeir starfi fyrir heildina. Í raun eru þeir þó flestir á kafi í sértækum aðgerðum.

Hinir hörðustu líta á þetta sem góðvild sína og það gera líka margir fylgismenn þeirra. Þetta hefur verið áberandi í Alþýðuflokknum að undanförnu. Í öðrum tilvikum er fremur talað um fyrirgreiðslur og stjórnmálamenn tala jafnvel um sjálfa sig sem fyrirgreiðslumenn.

Þeir, sem standa næst góðviljuðum fyrirgreiðslumanni, fá svonefnda stóla, til dæmis sendiherraembætti. Í næsta hring fyrir utan fá menn stöður í ríkiskerfinu. Í þriðja hringnum fá menn svo sporslur, svo sem styrk hjá menntaráðherra eða íbúð hjá bæjarstjóra.

Fjölmiðlarnir hafa tilhneigingu til að tala um góðvilj-aðar fyrirgreiðslur ráðamanna sem spillingu. Fara þeir í því að vestrænni fyrirmynd frá útlöndum. Þar vita menn, að það, sem einn fær, fá hinir ekki. Þar er talin spilling að taka einn úr biðröðinni og þjónusta hann.

Mikill fjöldi manna er sömu skoðunar hér á landi. Þess vegna hafa fjölmiðlar nokkurn hljómgrunn, þegar þeir nefna dæmi um góðvild og fyrirgreiðslu og kalla þau spillingu. Af stuðningi kjósenda við fyrirgreiðslumenn stjórnmálanna má þó sjá, að þetta er umdeilt atriði.

Halldór Laxness lýsir þjóðarsál Íslendinga í Innansveitarkroniku og segir þar meðal annars: ,,Afturámóti klífa þeir þrítugan hamarinn til að verða við bænarstað vina og frænda, enda mundi landsbygð á Íslandi hafa lagst niður fyrir mörgum öldum ef eigi væri svo.” Dálæti margra Íslendinga á sértækum fyrirgreiðslum er arfur frá fyrri öldum, þegar hugarfar af því tagi var nauðsynlegt í lífsbaráttunni. Nú á tímum er þetta dálæti ekki lengur kostur, heldur dragbítur á vegferð þjóðarinnar inn í jafnréttis- og markaðsþjóðfélag nútímans.

Því færri sem nota orðin góðvild og fyrirgreiðslu og því fleiri sem nota orðið spillingu um hina umdeildu atburði, þeim mun lengra er þjóðin á veg komin.

Jónas Kristjánsson

DV

Stuðlað að olíusamkeppni

Greinar

Þótt sjálfsagt hafi verið að greiða götu Irving Oil til eflingar samkeppni í olíu- og benzínsölu á Íslandi, er ekki jafn sjálfsagt að greiða götu nýs smásölufyrirtækis, sem hyggst skipta við eitt af fyrirtækjunum þremur, er hingað til hafa einokað olíu- og benzínverzlun í landinu.

Skeljungur hefur þegar nægar lóðir á Reykjavíkursvæðinu, alveg eins og Olíufélagið og Olíuverzlunin. Ekkert þessara félaga þarf nýjar lóðir næstu árin. Ef hægt er að útvega nýjar lóðir undir benzínstöðvar eiga þær að fara til nýrra félaga utan einokunarhringsins.

Ef Hagkaup og Bónus fá aðstöðu til að selja benzín í samvinnu við þriðjunginn af þríhöfða þursi olíuverzlunarinnar, verður að reyna að tryggja, að það sé ekki dulbúin leið til að fjölga benzínstöðvum þursins með því að hagnýta velvilja í garð neytendavænna kaupmanna.

Slík benzínsala má vera á lóðum, sem hin vinsælu verzlunarfyrirtæki hafa til sinna starfa, en ekki á nýjum lóðum, sem síðan rynnu smám saman til olíufélagsins, er stendur að baki framtakinu. Reykjavíkurborg þarf að gæta þess, að neytendur verði ekki gabbaðir.

Benzínnotendur munu ekki njóta ávaxta af samkeppni fyrr en rofin hafa verið tök hins þríhöfða þurs á benzínmarkaðnum. Áratuga reynsla er fyrir því, að íslenzku olíufélögin hafa rekið sameiginlega og lengst af ríkisverndaða einokun gegn hagsmunum fólksins í landinu.

Við þurfum fleiri en þrjú olíufélög í landinu alveg eins og við höfum fleiri en þrjá fréttamiðla. Við þurfum líka fleiri en tvö stór tryggingafélög og fleiri en þrjá banka. Ekki síður þurfum við fleiri en eitt stórt skipafélag og eitt stórt flugfélag. Við þurfum frelsi frá kolkrabba.

Reynslan sýnir, að innlendir aðilar hafa í flestum tilvikum ekki bolmagn til að ráðast gegn einokunar- og fáokunarfyrirtækjum landsins. Til þess að frjáls verzlun fái að njóta sín hér á landi þurfum við að greiða götu erlendra kaupmanna á borð við Irving Oil feðgana.

Með aðild okkar að fjölþjóðlegum viðskiptasamningum opnast leiðir til að rjúfa heljartök innlendra einokunar- og fáokunarfyrirtækja. Skandia er að reyna að gera það í tryggingum og Irving Oil í benzíni. Við þurfum að laða hingað fleiri slíka aðila og á fleiri sviðum.

Ríkisvaldið hefur löngum rekið velferðarkerfi einokunar- og fáokunarfyrirtækja og reynt að hindra erlenda samkeppni, til dæmis í flugi og flugafgreiðslu. Stærstu stjórnmálaflokkarnir tveir hafa lengst af verið reknir sem þjónustustofnanir kolkrabbans og smokkfisksins.

Reykjavíkurborg og nágrannabyggðir hennar leggja lóð á vogarskál viðskiptafrelsis með því að útvega aðstöðu fyrir nýja samkeppni að utan, óháða áratuga samráðum innlendrar fáokunar. Þetta gera sveitarfélögin með því að bjóða hafnaraðstöðu og verzlunarlóðir.

Hagkaup og Bónus hafa reynzt vera neytendavæn fyrirtæki og eru alls góðs makleg. En þau starfa saman og hafa á sínu sviði markaðshlutdeild, sem er yfir hættumörkum. Hún gæti valdið erfiðleikum, ef skipt yrði um ráðamenn og viðskiptastefnu í fyrirtækjunum.

Af öllum þessum ástæðum er eðlilegt að líta öðrum augum á benzínsmásölu Skeljungs, Hagkaups og Bónusar en á nýja samkeppni af hálfu Irving Oil, sem þarf nýjar lóðir til að geta farið af stað. Skeljungsafkvæmið getur athafnað sig á lóðum málsaðilanna þriggja.

Aðalatriðið er, að Reykjavíkurborg veiti nýjum aðilum nýjar lóðir, en ekki gömlum og grónum aðilum, hvort sem þeir eru undir eigin nafni eða í nýjum dulargervum.

Jónas Kristjánsson

DV

Spilling kjósenda

Greinar

Prófkjör Framsóknarflokksins á Norðurlandi vestra og Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi sýna, að margir kjósendur eru farnir að taka þátt í kosningaundirbúningi annarra flokka en þess, sem þeir hyggjast styðja í kosningunum. Þessi spillti kjósendahópur fer stækkandi.

Þegar þátttaka í prófkjöri er orðin meiri en sem nemur mestu fylgi flokksins í kjördæminu og flokkurinn er ekki í neinni sérstakri uppsveiflu að mati skoðanakannana, er greinilega maðkur í mysunni. Stuðningsmenn annarra flokka eru farnir að ráða framboði flokksins.

Fyrir svo sem einum áratug eða tveimur bar ekki mikið á þessu. Þá þótti ekki við hæfi, að fólk gengi milli flokka í prófkjörum. Aðeins hörðustu og spilltustu kjósendurnir létu hafa sig út í slíkt. En núna þykir það sjálfsagður hlutur, sem áður þótti vera siðferðisbrestur.

Helzti hvati þessarar tegundar spillingar er áhugi kjósenda í ákveðnum hluta kjördæmis á því, að frambjóðendur sem flestra stjórnmálaflokka komi frá þeim hluta og muni gæta hagsmuna hans umfram aðra hluta kjördæmisins. Prófkjörin breytast í slag milli landssvæða.

Spilling kjósenda hefur gengið svo langt á þessu sviði, að á Suðurnesjum er talað um það sem sjálfsagðan hlut, að Suðurnesjamenn verði að taka þátt í prófkjörum allra flokka til að tryggja sem bezt aðstöðu Suðurnesja við kjötkatla stjórnmálanna í samkeppni við önnur svæði.

Þetta hlýtur að enda með, að litlir flokkar og miðlungsflokkar geta ekki lengur látið prófkjör ráða framboði. Það er slæmt, því að prófkjör voru á sínum tíma ágætis leið til að efla lýðræði, hrista upp í stöðnuðu flokkskerfi og til að virkja fólk til þátttöku í pólitísku starfi.

Leiðin til bjargar prófkjörum er einföld. Hún er vel þekkt erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig verið reynd hér og með góðum árangri, einkum fyrir byggðakosningarnar 1982. Hún felst í sameiginlegu prófkjöri flokkanna, svokölluðum forkosningum.

Í forkosningum er sameiginlegur kjördagur og sameiginlegir kjörstaðir fyrir alla stjórnmálaflokka, sem vilja vera með. Kjósendur geta valið sér einn flokk í prófkjörinu og velja þá væntanlega þann flokk, sem næst stendur þeim. Þeir tíma varla að eyða atkvæðinu í aðra flokka.

Forkosningar koma í veg fyrir, að spilltir kjósendur geti misnotað atkvæði sitt til að kjósa Hafnfirðinga eða Kópavogsmenn allra flokka, Sauðkrækinga eða Siglfirðinga allra flokka. Þeir hafa hver um sig bara eitt atkvæði og geta ekki margfaldað það í staðarhagsmunapoti.

Forkosningar leysa ekki öll vandamál prófkjöra. Eftir stendur, að víða liggja flokkar í sárum, sem gróa seint og illa, vegna of harðrar baráttu milli einstakra frambjóðenda í prófkjöri. Innanflokksátök milli manna í prófkjöri leiða til dæmis stundum til klofningsframboða.

Þennan vanda er líka hægt að leysa, svo sem sums staðar hefur verið gert erlendis. Það er gert með því að hafa óraðaða lista í kosningunum. Þannig flytjast prófkjörin og forkosningarnar inn í sjálfar kosningarnar. Þetta hefur nokkrum sinnum verið rætt hér á landi.

Persónuáróður einstakra frambjóðenda innan lista yrði innan ramma kosningabaráttu flokksins. Ólíklegt er, að mikið yrði um neikvæðan áróður, sem skaðaði þá, sem honum beittu. Og frambjóðendur hefðu ekki svigrúm til að fara í fýlu milli prófkjörs og kosninga.

Þar sem kjósendur eru í þann veginn að gera prófkjör óhæf til síns brúks, er orðið tímabært í staðinn að taka annað hvort upp forkosningar eða óraðaða lista.

Jónas Kristjánsson

DV

Lakkríslandið

Greinar

Íslenzk lakkrísverksmiðja var reist í Kína fyrir tveimur árum. Aðalþingmaður og aðalfréttamaður Vestmannaeyja var við opnunina. Skömmu síðar fór íslenzki landbúnaðarráðherrann til Kína til að skoða framtakið, enda voru forvígismennirnir frá Norðurlandi eystra.

Ríkisstjórn Íslands hefur litið björtum augum til möguleika íslenzkra aðila til að græða peninga í Kína. Fyrir nokkrum mánuðum var komið upp sendiherra þar í landi. Hann hefur hafzt við í hótelherbergi í Beijing, en á nú að fá langþráð húsakjól í sænska sendiráðinu.

Margir hafa tekið eftir, að margt fólk býr í Kína, miklu fleira en í Bandaríkjunum og Japan. Svo virðist sem ríkisstjórn Íslands telji meiri möguleika vera í Kína en í Japan úr því að sendiráð í Beijing var tekið fram yfir sendiráð í Tokyo, sem lengi hefur verið á döfinni.

Utanríkisráðherra fór með fríðu föruneyti á Sagaklass til að ræða viðskiptamál við ráðamenn í Kína. Undir árslok fór svo forsætisráðherra með fríðu föruneyti í sama skyni, en í þetta sinn var föruneytið á almennings-farrými. Þá hafa þingmenn farið austur í fylkingum.

Kínverskir ráðamenn eru ánægðir með þessar heimsóknir, því að þeir eru að leita eftir atkvæðum til að komast inn í stofnanir á borð við Alþjóðlegu viðskiptastofnunina, þótt þeir uppfylli ekki nein skilyrði og sýni raunar ekki neina alvarlega tilburði í þá áttina.

Erlendir fjárfestar í Kína eru á sama tíma að átta sig á, að það er seintekinn gróði að gera hestakaup við Sumarliða póst. Valdamenn í Kína bera nefnilega nákvæmlega sömu virðingu fyrir útlendingum og peningum þeirra og fyrir innlendum andófsmönnum, það er enga.

Lögleysa er allsráðandi í Kína. Hún birtist í virðingarleysi fyrir mannréttindum og mannhelgi. Og hún kemur fram í kaupsýslu Kínverja. Þeir stela vestrænum hugverkum og hugbúnaði og framleiða eftirlíkingar í þrælabúðum á vegum hersins og einstakra valdhafa.

Lögleysan kom ekki bara fram í morðum á Torgi hins himneska friðar. Hún kemur líka fram í, að erlendir fjárfestar þurfa að rækta pólitísk sambönd, sem koma í stað vestrænna leikreglna. Þeir þurfa að liðka fyrir hverju skrefi með mútum í hefðbundnum þriðja heims stíl.

Þegar Kínverjar með sambönd sáu sér gróða í að reisa viðskiptahöll rétt við Torg hins himneska friðar, sögðu þeir McDonald’s veitingakeðjunni að hypja sig, þótt fyrirtækið hefði 20 ára leigusamning um staðinn. Undirritaðir pappírar eru nákvæmlega einskis virði í Kína.

Lehman Brothers fyrirtækið gat ekkert aðhafzt, þegar tvö kínversk fyrirtæki í eigu valdhafa hættu við að greiða því hundrað milljóna dollara skuld. Þetta eru tvö dæmi af mörgum. Það er engin leið til að leita réttar síns í Kína. Þar kemur geðþótti valdhafa í stað laga og réttar.

Íslenzka lakkrísverksmiðjan fór auðvitað á hausinn þegjandi og hljóðalaust, enda minni bógar þar á ferð en hjá McDonald’s og Lehman Brothers. Þannig verður líka um aðra íslenzka fjárfestingu í kínverskri framtíð. Hún mun öll hverfa og ekki ein króna skila sér í arði.

Ástandið er allt annað handan sundsins, í Japan. Þar gilda að mestu leyti lög og reglur að vestrænum sið, enda hafa mörg íslenzk fyrirtæki gert það gott í viðskiptum við Japan. Þar er miklu meira en nægur markaður fyrir íslenzk fyrirtæki. Þar ætti sendiherra okkar að vera.

Það er ekki nóg að dást að mannfjölda. Það þarf líka lög og rétt. Okkur dugar minna en fjölmennasta ríki heims, hvort sem við viljum selja lakkrís eða fisk.

Jónas Kristjánsson

DV

Eyrarbyggð er bezt

Greinar

Þrjár leiðir þarf að fara samhliða til að draga úr líkum á mannskaða og eignatjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla á landinu. Þær miða í fyrsta lagi að verndun fólks á hættusvæðum, í öðru lagi að verndun mannvirkja og í þriðja lagi að mun strangari skipulagsreglum.

Meðan fólk býr í húsum, sem standa í brekkum undir bröttum fjallshlíðum, er einfaldast að herða á því ferli, sem leiðir til brottflutnings þess til hættuminni staða, þegar varað er við snjóflóðum. Í flestum tilvikum þarf að flytja fólk úr brekkuhúsum í hús úti á eyrum.

Þetta er gert núna. Um 800 Vestfirðingar hafa flutt úr húsum sínum til hættuminni staða. Þetta er engin óskalausn, en tekur þó tillit til fjárfestinga í húsum á glæfralegum stöðum. Með hertu og bættu mati á snjóflóðahættu er hægt að hindra mannskaða að verulegu leyti.

Jafnframt þessu þarf að reisa mannvirki til að verja sjálf brekkuhúsin. Of dýrt er að verja heilu byggðirnar á þennan hátt. En framkvæmanlegt er að reisa mannvirki, sem beina snjóflóðum eftir landslagi í aðra farvegi. Þarf þá oft að fórna sumum húsum fyrir önnur.

Fjármagna þarf kerfi, sem felur í sér, að keypt verði hús, sem verst standa, og jafnframt tryggt, að þau verði mannlaus. Snjóflóðum sé beint í átt til þeirra frá öðrum húsum, sem betur standa og áfram verður búið í. Í hverju byggðarlagi þarf að ganga skipulega að þessu.

Loks þarf að hætta að byggja hús í brekkum undir bröttum fjallshlíðum. Byggð í þröngum fjörðum á aðeins að vera úti á eyrum og við fjarðarbotna. Eyrarbyggð er betri kostur en botnabyggð vegna betri hafna. Í nágrenni Súðavíkur er til dæmis nokkuð góður staður á Langeyri.

Víðar á Vestfjörðum er hægt að nýta vanbyggðar eyrar til stækkunar á byggðum. Annars staðar verður hreinlega að hverfa frá einnar eða tveggja hæða húsum og byggja háhýsi úti á eyrum til að geta dregið byggðina úr hættulegum brekkum út á tiltölulega öruggt land.

Fyrr á öldum var fjarðarbyggð einkum úti á eyrum og við fjarðarbotna. Það byggðist á reynslu kynslóðanna. Fólk vissi, að hætta á snjóflóðum og skriðuföllum var einkum í brekkunum milli eyra og botna. Þannig vörðust forfeður okkar óviðráðanlegum náttúruöflum.

Fyrr á öldum og áratugum voru aðeins skráð í heimildir þau snjóflóð, sem féllu á byggð og ollu tjóni. Hin voru ekki skráð, af því að enginn vissi af þeim eða af því að þau skiptu ekki máli. Snjóflóðamat, sem byggist á sagnfræðilegum heimildum, hefur vanmetið brekkusvæðin.

Mestum árangri með minnstum kostnaði má ná með því að fara allar þrjár leiðirnar samhliða. Síðasta leiðin horfir til framtíðar, af því að hún fjallar um hús og önnur mannvirki, sem enn eru ekki risin. Hún er bezt, en dugar ekki ein, af því að lausnir þarf hér og nú.

Önnur leiðin felur í sér ný varnarmannvirki og nýtt áhættumat, sem saman fela í sér, að fjárfestingu í sumum húsum verði fórnað til að vernda fjárfestingu í öðrum. Bæta verður húsin, sem fórnað verður. Þessi lausn tekur líka tíma, en ekki eins langan og framtíðarlausnin.

Sú leið, sem fyrst var nefnd, er raunar þegar hafin. Fólk flytur úr húsum sínum, þegar hætta er á ferðum. Bæta þarf þá lausn með virkara aðvörunarkerfi og harðara mati á, hver séu hættusvæðin. Þetta kostar ekki annað en bættar almannavarnir og töluvert umstang.

Reynslan er til að læra af henni. Harmleikurinn í Súðavík á að vera okkur hvatning til að taka af festu og hraða á hættunni af snjóflóðum og skriðuföllum.

Jónas Kristjánsson

DV

Stíflan heldur enn

Greinar

Vinsældir Þjóðvaka, persónulegs flokks Jóhönnu Sigurðardóttur, í skoðanakönnunum er nýjasta dæmið í röð flokka, sem byggja fylgi sitt á vaxandi óánægju meðal kjósenda. Þeir telja sumir, að fjórflokkurinn gamli svari ekki þörfum sínum, og eru að reyna eitthvað nýtt.

Meirihluti kjósenda styður enn gömlu flokkana sína, sumir af meiri eða minni sannfæringu og aðrir af gömlum vana. Skoðanakannanir sýna, að smám saman saxast á þennan meirihluta. Þeim fjölgar, sem nefna nýja eða nýlega flokka eða eiga erfitt með að ákveða sig.

Þannig risu og hnigu flokkar Vilmundar Gylfasonar og Alberts Guðmundssonar og þannig er flokkur Jóhönnu að rísa í vetur. Stuðningsmenn hennar telja, að hún muni vinna gegn rótgróinni spillingu fjórflokksins og gegn óbeit hans á atlögum gegn vandamálum.

Jóhanna nýtur þess, að hún fékk sér ekki ríkisbíl, þegar hún var ráðherra, og misnotaði ekki ferðahvetjandi launakerfi ráðherra. Hún er talin heiðarleg. Það er stóra málið í hugum margra stuðningsmanna, en ekki stefnan, sem að mestu er gamalt tóbak frá eðalkrötum.

Svipað var uppi á teningnum, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóraefni. Kannanir sýndu strax, að nafn hennar dugði eitt, áður en vitað var um stefnuskrá eða önnur borgarfulltrúaefni Reykjavíkurlistans. Hún hefði náð meirihluta ein sér og án stefnu.

Kvennalistinn fellur ekki að þessari mynd Vilmundar, Alberts, Ingibjargar og Jóhönnu. Hann ber byrðar takmarkandi sjónarmiða, sem draga suma að, en fæla enn fleiri frá. Auk þess hafnar hann foringjadýrkun og neitar sér þar með um fókus, sem dregur kjósendur til sín.

Nýr og óráðinn kjósandi er ekki að biðja um nákvæmlega skilgreind sjónarmið pólitískra leiðtoga. Hann vill geta treyst dómgreind þeirra og heiðarleika og er sáttur við, að þeir útfæri þá persónueiginleika í hverjum þeim verkefnum og vandamálum, sem verða á vegi leiðtoga.

Þetta er lykillinn að tölum, sem við sjáum í miklum mæli í skoðanakönnunum og í minna mæli í kosningum. Tölurnar munu smám saman magnast, unz fjórflokkurinn hrynur eða einhverjir þættir hans taka þeim hamskiptum, að uppreisnarkjósendur fari að treysta þeim.

Í þessu skyni dugar ekki lengur að skipta um nafn eins og forverar Alþýðubandalagsins gerðu reglulega. Alþýðubandalaginu mun ekki gagnast núna að kalla sig Alþýðubandalagið og óháða, né heldur að kalla til þreytta verkalýðsrekendur, sem þegar voru merktir flokknum.

Fjórflokkurinn er fremur öruggur um sig, þrátt fyrir undirölduna í þjóðfélaginu. Sem dæmi má nefna, að ráðherrar hafa ekki afnumið ferðahvetjandi launakerfi sitt, þótt þeir geti ekki haldið uppi neinum vörnum í málinu. Þeir telja sig geta skriðið saman í nýja stjórn.

Sennilega eru tök fjórflokksins á þjóðfélaginu enn svo mikil, að hann geti haldið áfram að stjórna eftir kosningar. Það leysir hins vegar ekki vandann, heldur magnar fylkingu þeirra kjósenda, sem telja fjórflokkinn ekki svara þörfum sínum. Fyrr eða síðar hrynur kerfið.

Þegar fjórflokkur er staðinn að því að mynda nýjar og nýjar ríkisstjórnir á ýmsa vegu, kosningar eftir kosningar, án þess að nokkuð breytist, myndast ójafnvægi í stjórnmálaástandinu. Lengi getur fjórflokkurinn hamið ójafnvægið, en stíflan getur ekki haldið endalaust.

Af atferli fjórflokksins um þessar mundir má ráða, að hann telur brölt kjósenda í könnunum ekki hindra sig í að mynda enn eina hefðbundna stjórn eftir kosningar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkisstjórn á leiðarenda

Greinar

Ófriðlegt er í ríkisstjórninni. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra deila opinberlega um nýjasta og stærsta Hafnarfjarðarbrandarann. Á sama tíma deilir sjávarútvegsráðherra við forsætis- og utanríkisráðherra um komu kanadíska sjávarútvegsráðherrans til landsins.

Ólíkt höfðust þessir sömu flokkar að á viðreisnaráratugnum. Þá féll ekki styggðaryrði milli ráðherra, hvorki innan flokka né milli flokka. Ráðherrar létu ekki einu sinni freistast til slíks rétt fyrir kosningar, af því að þeir stefndu að sama stjórnarsamstarfi eftir kosningar.

Nú er vitað, að stjórnarmynztrið hefur runnið sitt skeið á enda. Alþýðuflokkurinn hefur ekki burði til að mynda tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Sumir ráðherrar krata hafa misnotað stjórnaraðstöðuna meira en þjóðin sættir sig við.

Ágreiningurinn er ekki allur milli flokka. Spennan milli núverandi og fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hjaðnað hið minnsta. Hún skýtur sífellt upp kollinum. Þeir virðast ekki vera menn til að láta tímann lækna persónulega óvild frá fyrri tíma.

Þetta er bagalegt fyrir flokk þeirra, þar sem aðrir forustumenn flokksins komast ekki á blað í vinsældum og trausti í skoðanakönnunum. Aðrir ráðherrar flokksins eru núll og nix í huga almennings, nema hugsanlega landbúnaðarráðherra, helzti fulltrúi afturhaldsins.

Sú verkaskipting hefur raunar orðið með stjórnarflokkunum, að Alþýðuflokkurinn hefur færzt til hægri og er flokkur markaðsbúskapar og Evrópuhyggju, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið til vinstri og komið sér fyrir nokkurn veginn á miðlínu Framsóknarflokksins.

Þessi tilfærsla Sjálfstæðisflokksins er eðlilegur undanfari samstarfs hans við Framsóknarflokkinn um nýja ríkisstjórn eftir kosningar á hreinum og ómenguðum afturhaldsgrundvelli Framsóknarflokksins. Það er eina tveggja flokka stjórnarmynztrið, sem er í augsýn.

Auk landbúnaðarráðherra hefur sjávarútvegsráðherra lengi verið á línu Framsóknarflokksins, enda kosinn á þing fyrir landbúnaðarkjördæmi. Nýrra er, að forsætisráðherra hefur notað hvert tækifæri til að sveigja stjórnarstefnuna að miðlínu Framsóknarflokksins.

Þetta hefur komið greinilega fram í tilfærslu valds til landbúnaðarráðherra, sem hefur fengið það kærkomna hlutverk í ríkisstjórninni að tolla innfluttan mat upp úr öllu valdi til að tryggja, að neytendur hafi ekki hag af stofnaðild Íslands að Alþjóða viðskiptastofnuninni nýju.

Framsóknarflokkurinn er á grænni grund í þjóðmálunum. Annaðhvort myndar hann framsóknarstjórn með Sjálfstæðisflokki eða framsóknarstjórn með Alþýðubandalagi og Þjóðvaka. Engu máli skiptir, hvor kosturinn verður fyrir valinu, því að þeir eru alveg eins.

Ríkisstjórnaraðild Þjóðvaka breytir engu í þessu mynztri. Hennar heilagleiki er eðalkrati í ættir fram og hæfir vel samstarfi við Framsókn, þar sem hún fær sérsvið með líkum hætti og áður. Henni fylgja í stjórn aðrir eðalkratar með sömu forræðishyggju í framsóknarstíl.

Mesti örlagavaldur þessa ferlis er utanríkisráðherra, sem er eini frambærilegi stjórnmálamaður landsins á alþjóðlegum vettvangi, en er um leið gersamlega ófær um að vera flokksformaður vegna stanzlausrar áráttu til pólitískra slagsmála og hrokafullrar framgöngu.

Með því að rústa Alþýðuflokkinn og koma óorði á markaðshyggju og Evrópuhyggju hefur utanríkisráðherra gulltryggt fjögur ár Framsóknar-afturhalds.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinir Hafnarfjarðar

Greinar

Fyrirhugaður meirihluti á vegum krata í Hafnarfirði er of seint á ferð til að koma í veg fyrir skýrslur og aðrar upplýsingar um fyrri spillingu þessara aðila. Það er hins vegar kjörinn vettvangur fyrir nýja spillingu í skjóli nýs bæjarstjórnar-meirihluta á vegum Alþýðuflokksins.

Hafnarfjörður tapaði 70 milljónum króna á viðskiptum bæjarins við Hagvirki á fyrri valdatíma jafnaðarmanna. Ógætileg meðferð fjármuna á því sviði minnir á svipaða meðferð fjármuna vegna listahátíðar í Hafnarfirði. Sukkið hefur verið og er enn einkenni krata í Hafnarfirði.

Skel hæfir kjafti, ef bæjarstjóri nýja meirihlutans verður höfuðsmaðurinn sjálfur, sem hrökklaðist úr ráðherrastóli í nóvember fyrir að hafa afrekað meira í fyrirgreiðslum og annarri þjónustu við vini og valda aðila á tíu mánuðum en kræfustu ráðherrar afreka á tíu árum.

Í stjórnarmyndunarviðræðum hefur verið minnzt á þann kost, að ráðherrann fyrrverandi verði bæjarstjóri á nýjan leik. Hagvirkisarmur bandalagsins hefur ekki viljað samþykkja það. Óneitanlega yrði meiri stíll yfir spillingunni, ef afturhvarfið yrði þannig fullkomnað.

Athyglisvert er, hversu hlýtt jafnaðarmönnum í Hafnarfirði er til spillingar í opinberum rekstri. Það kom greinilega fram í frægðarmálum fyrrverandi bæjarstjóra og ráðherra og kemur nú ekki síður skýrt í ljós í smíði bláþráðar-bandalags um endurheimta stjórn bæjarins.

Alþýðuflokksmenn í Hafnarfirði eru sagðir munu ætla að sjá um, að þeirra maður verði efstur í prófkjöri flokksins í Reykjaneskjördæmi og haldi þannig stöðu sinni í flokknum, þar sem hann er varaformaður. Verður hann þá fljótt eftirmaður hins fylgislausa flokksformanns.

Íslendingar kalla ekki allt ömmu sína í dálæti á spillingu og öfund í garð þeirra, sem ná langt á því sviði. Samt hefur krötum í Hafnarfirði tekizt að ganga fram af venjulegu fólki. Skoðanakannanir sýna, að almenningi blöskrar framganga þeirra og höfuðsmanns þeirra.

Undarlegt ástand í Hafnarfirði stafar ekki af, að þar búi verra fólk en annars staðar í landinu. Tvennt hefur myndað jarðveg spillingar. Annars vegar er langvinn barátta íhalds og krata, sem blindar málsaðila svo, að þeir sjá allt í andstæðunum: Okkar menn og óvinirnir.

Þegar mikil spenna hefur lengi verið milli tveggja póla, er stundum hætt við, að flokkadrættir ryðji til hliðar almennu mati og viðhorfum, þar á meðal siðgæðisviðhorfum. Þá er ekki spurt um efnisatriði, heldur hvort viðkomandi sé með ,,okkur” eða á móti ,,okkur”.

Hin forsendan er árlegi fjársjóðurinn, sem Hafnarfjörður fær í gjöldum frá álverinu. Miklar tekjur umfram önnur sveitarfélög hafa gefið hafnfirzkum bæjaryfirvöldum tækifæri til að fara með peninga eins og skít. Víðar en í Færeyjum þarf sterk bein til að þola góða daga.

Samkvæmt Pétursreglu fyllir opinber rekstur alltaf það svigrúm, sem fæst af auknum tekjum. Eyðsluglaðir kratar í Hafnarfirði fylgdu ekki bara þessari reglu um meðferð opinberra fjármuna, heldur tókst þeim líka að gera bæinn að einum hinum skuldugasta í landinu.

Þetta voru sæludagar í Hafnarfirði. Þáverandi bæjarstjóri var eins og kóngur í ævintýraríki og grýtti peningum í allar áttir til vina Hafnarfjarðar, hvort sem þeir voru á vegum listahátíða eða þóknanlegra verktaka. Hirðina dreymir enn um að endurheimta dýrðardagana.

Framhaldssögunni um vini Hafnarfjarðar er ekki lokið. Nýr kapítuli er að hefjast. Hann verður minnisstæður og vafalaust tilefni nýrra Hafnarfjarðarbrandara.

Jónas Kristjánsson

DV