Greinar

Vandinn hófst í vor

Greinar

Hluta erfiðleikanna við samninga um kjör sjúkraliða á sjúkrastofnunum í Reykjavík er hægt að rekja aftur til síðasta vors. Þá var hafið flokkspólitískt ferli, sem á eftir að reynast þjóðinni dýrkeypt. Þar voru að verki fjármálaráðherra og þáverandi borgarstjóri í Reykjavík.

Mikil pólitísk örvænting einkenndi þennan tíma. Fjármálaráðherra og þáverandi borgarstjóri voru reiðubúnir til að fórna hagsmunum þjóðarinnar til að kaupa kosningasigur í Reykjavík. Þess vegna sömdu þeir við hjúkrunarfræðinga daginn fyrir borgarstjórnarkosningar.

Í rauninni fólst meiri spilling í aðgerð tvímenninganna en í tilfallandi fyrirgreiðslum fyrrverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði og fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Tvímenningarnir notuðu aðgang sinn að almannafé til að reyna að koma í veg fyrir stjórnarskipti í Reykjavík.

Komið hefur í ljós, að samningur fjármálaráðherra og fyrrverandi borgarstjóra við hjúkrunarfræðinga í vor fól í sér meiri hækkanir og meiri kostnað en fullyrt var á þeim tíma. Kostnaðaraukinn nemur sennilega um 15% og á eftir að enduróma lengi á vinnumarkaði.

Kosningasamningurinn við hjúkrunarfræðinga hlýtur að hafa fordæmisgildi fyrir sjúkraliða að þeirra mati. Þeir vilja hafa hliðsjón af nýgerðum samningum. Auk þess eru sjúkraliðar enn meiri láglaunastétt en hjúkrunarfræðingar og geta því krafizt enn meiri hækkunar.

Fjármálaráðherra fer með rangt mál á Alþingi, er hann segir sjúkraliða hafa hækkað í launum umfram aðrar stéttir á undanförnum árum. Fyrir því er enginn fótur. Hins vegar er löng reynsla af því, að þessi fjármálaráðherra trúir því, sem honum hentar hverju sinni.

Harkan í vinnudeilu fjármálaráðherra og sjúkraliða stafar að verulegu leyti af forsendum, sem fjármálaráðherra bjó sjálfur til í vor, þegar hann var að reyna að verja flokk sinn falli í borgarstjórnarkosningunum. Þá sáði hann til endurkomu séríslenzku verðbólgunnar.

Ekki er nóg með, að sjúkraliðar miði við 15% hækkun hjúkrunarfræðinga plús láglaunaprósentu handa sér. Láglaunahópar utan heilbrigðisgeirans ætla líka að miða við kosningasamninginn, þegar þeir fara í gang um eða eftir áramótin. Það verða líka erfiðir samningar.

Ríkisstjórnin horfist í augu við að missa verðbólguna af stað aftur rétt fyrir alþingiskosningar í apríl, af því að fjármálaráðherra tók í vor þá skammsýnu ákvörðun að misnota almannafé til að reyna að kaupa kosningasigur handa fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík.

Erfitt verður að vinda ofan af því ferli, sem fór af stað í vor. Mikil átök mun kosta að reyna það. Reynslan sýnir, að ríkisstjórnir eru ekki harðar af sér, þegar kosningar og kjósendur eru í aðsigi. Þá fyrst missa þær tökin á fjármálum ríkisins og fara að reyna að kaupa sér frið.

Þegar ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir fara að átta sig á, hvaða kaleikur hefur verið færður þeim fyrir tilstilli fjármálaráðherra og fyrrverandi borgarstjóra, án þess að atkvæðakaupin lánuðust, er hætt við, að þessir aðilar kunni ráðherranum litlar þakkir fyrir framtakið.

Oft skáka íslenzkir valdhafar í því skjólinu, að það sé vandi síðari tíma og hugsanlega annarra aðila að hreinsa upp eftir óvandaða meðferð valdhafanna á fjármunum almennings fyrir kosningar. Það muni gleymast á nokkrum árum. En nú koma skuldaskilin óvenjulega snemma.

Ljóst virðist að minnsta kosti, að afleiðingar kosningasamningsins í vor verði fyrirferðarmiklar á aðfaratíma alþingiskosninganna, sem verða eftir nokkra mánuði.

Jónas Kristjánsson

DV

Gerviárásir

Greinar

Flugher Atlantshafsbandalagsins tókst ekki að gera flugvöll Bosníu-Serba í Udbina ónothæfan. Þótt 39 árásarflugvélar tækju þátt í áhlaupinu, tókst aðeins að sprengja nokkrar holur í flugbrautarendana, svo sem sást á ljósmyndum, sem teknar voru á vegum Serba á jörðu niðri.

Merkilegt er, hve auðvelt herforingjum og öðrum ráðamönnum Atlantshafsbandalagsins reynist jafnan að ljúga fjölmiðla fulla. Til dæmis sagði International Herald Tribune í aðalfyrirsögn á forsíðu: “Air Base Destroyed”. Virtist blaðið trúa fréttum frá Nató bókstaflega.

Reynslan ætti að hafa kennt fjölmiðlum að taka með varúð fullyrðingum frá kölkuðum stofnunum á borð við Atlantshafsbandalagið og Sameinuðu þjóðirnar. Þessar stofnanir hafa langa reynslu í að fara með rangt mál til að reyna að dylja getuleysi sitt og tilgangsleysi.

Hin misheppnaða árás á flugvöllinn í Udbina átti að sýna Serbum, að Sameinuðu þjóðirnar og Atlantshafsbandalagið meintu hótanir sínar í alvöru. Niðurstaðan var þveröfug. Sú árás og þær síðari staðfestu vissu Serba um, að þetta væru marklaus pappírstígrisdýr.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkir hverja ályktunina á fætur annarri um Bosníu, en fer síðan ekki eftir neinni þeirra. Atlantshafsbandalagið þykist síðan reiðubúið til að vera eins konar lögga fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna, en reynist óhæft til hernaðaraðgerða.

Bretland og Frakkland hafa forustu um að drepa aðgerðum á dreif og skortir ekki fylgiríki. Sáttasemjarar eru sendir á vettvang til að fá Serba til að skrifa undir hvern samninginn á fætur öðrum, þótt reynslan sýni, að þeir rjúfa alla samninga innan klukkustundar.

Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti fyrir afdankaða stjórnmálamenn á borð við Owen hinn brezka og Stoltenberg hinn norska að vera hafðir að fífli hvað eftir annað á gamals aldri og halda samt áfram að reyna að útskýra framferði Serba og finna leiðir til að verðlauna þá.

Langdregið sáttastarf af hálfu vestrænna ríkja hefur gefið Serbum svigrúm til landvinninga og þjóðahreinsunar. Vopnasölubann vestrænna ríkja á Bosníu hefur tryggt Serbum yfirburði í herbúnaði. Og marklausar hótanir úr vestri hafa sannfært Serba um, að öllu væri óhætt.

Auðnuleysi og ræfildómur þeirra, sem ráða ferð vestrænna ríkja, Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins, hefur lengi mátt vera öllum ljós, sem fylgzt hafa með glæpunum í Bosníu. Samt halda fjölmiðlar áfram að tyggja upp yfirklórið og gera það að sínum orðum.

Harmleikurinn í Bosníu hefur staðfest, að tilverurétti Atlantshafsbandalagsins lauk, þegar óvinur þess í austri hætti að vera til. Þegar engin Sovétríki og ekkert Varsjárbandalag voru lengur á lífi, missti Nató fótfestuna og hefur ekki fundið sér neinn nýjan starfsvettvang.

Atlantshafsbandalagið er allt of dýrt lík í lest Vesturlanda. Ríkjahópur, sem þolir ekki lengur að sjá blóð, getur ekki haldið úti hernaðarbandalagi og verið í skjóli þess með hótanir út og suður. Slíkt verður ekkert annað en aðhlátursefni allra þeirra, sem hótað er.

Víetnam hrakti Bandaríkjaher í loftið í Saigon. Sýrland hrakti Bandaríkjaher í sjóinn við Líbanon. Stríðsherra hrakti her Sameinuðu þjóðanna í sjóinn við Sómalíu. Íraksforseti ógnar enn landsmönnum og nágrönnum. Serbar og Bosníu-Serbar hafa umheiminn í flimtingum.

Vesturveldin hafa ekki bein í nefi til að stunda löggæzlu. Þau eiga að hætta þykjustuleik á því sviði, enda komast undanbrögðin og ósannindin upp um síðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Arafat er leppur

Greinar

Yasser Arafat er lítið annað en leppur Ísraelsstjórnar í Palestínu. Hann hefur sáralítið fengið í hlut Palestínumanna í samningum við Ísraelsstjórn. Þess vegna verður hann sífellt óvinsælli á herteknu svæðunum og enn óvinsælli á heimastjórnarsvæðunum í Gaza og Jeríkó.

Leppstjórn Arafats hefur misheppnazt. Hann hefur lítið reynt að fá hæft fólk til starfa fyrir stjórnina og eingöngu notað trygga stuðningsmenn úr þrengsta hópi Arafatista í Frelsissamtökum Palestínumanna. Afleiðingin er hreint ráð- og getuleysi í heimastjórninni.

Það er almenn þjóðfélagsregla, að tryggustu stuðningsmennirnir eru einmitt þeir, sem ekki geta unnið fyrir sér með öðrum hætti en þeim að vera tryggir stuðningsmenn. Þeir, sem eitthvað geta, hafa ætíð einhverja sjálfstæðistilburði, sem falla einræðissinnum illa í geð.

Jámenn Arafats kunna ekki til verka og því fer flest í handaskolum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna. Nú eru lögreglumenn hans meira að segja farnir að drepa Palestínumenn í hrönnum í uppþotum. Það sýnir vel, að Arafat og hirð hans hafa misst tökin.

Grundvöllur vandræðanna er, að Ísraelsstjórn notfærði sér veikleika Arafats út í yztu æsar og valtaði yfir hann í friðarsamningum. Græðgi og yfirgangur Ísraelsstjórnar hefur grafið undan viðsemjanda hennar og gert hann að fyrirlitlegum leppi í augum Palestínumanna.

Ísraelsstjórn hefur haldið áfram að leyfa byggingaframkvæmdir landnema á herteknu svæðunum. Hún hefur haldið áfram að leyfa landnemum að bera vopn og ógna vopnlausum Palestínumönnum. Ísraelsmenn hafa haldið áfram að vera “Herrenvolk” í Palestínu.

Ísraelsstjórn hefur hert kröfur um, að lögreglumenn og hermenn hennar beiti pyndingum gegn handteknum Palestínumönnum, svo sem Amnesty Internatonal hefur upplýst. Ísraelsstjórn heldur áfram margvíslegri iðju, er alþjóðlega flokkast sem glæpir gegn mannkyni.

Baráttan við Palestínumenn hefur smám saman verið að krumpa Ísraela og breyta þeim í hryðjuverkaþjóð með hryðjuverkastjórn. Þetta hefur gerzt í skjóli Bandaríkjanna, sem hafa fjármagnað Ísrael og verndað ríkið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra.

Ástandið hefur versnað síðan Clinton varð forseti Bandaríkjanna. Hann er eins og tuska í höndum Ísraelsstjórnar. Þetta hefur aukið áræði hennar og komið í veg fyrir, að hún sýndi nægan sveigjanleika gagnvart leppstjórn Arafats, svo að hún nyti fylgis Palestínumanna.

Hrokinn og hefnigirnin hefna sín með þeim hætti, að friðarsamningur Ísraels og Palestínu verður marklítill. Raunverulegur friður næst ekki á svæðinu nema tekið sér eitthvert tillit til óska og vona Palestínumanna, sem lengi hafa verið kúgaðir af Ísrael og Arafat.

Friður milli Ísraelsstjórnar og Husseins Jórdaníukonungs breytir heldur ekki miklu, af því að Hussein er jafn veikur og Arafat. Hann gerði sömu mistök og Arafat, þegar hann studdi Saddam Hussein Íraksforseta í Persaflóastríðinu og er enn að súpa seyðið af því.

Arafat og Hussein eru fúsir til að skrifa undir hitt og þetta, af því að þeir eru að reyna að vinna sig aftur í álit á Vesturlöndum. Arafat er auk þess að reyna ná persónulegum völdum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna á kostnað keppinauta sinna meðal landa sinna.

Vegna alls þess komast Hamas og aðrir róttækir hópar að hjörtum Palestínumanna og eru að verða hinir raunveruleg umboðsmenn drauma þeirra um eigið ríki.Jónas Kristjánsson

DV

Hann er verri en ég

Greinar

Rétt rúmlega þriðjungur kjósenda greiddi atkvæði í kosningunum í Bandaríkjunum í síðustu viku, þótt kosið væri til margs konar embætta í sveitarfélögunum, hjá ríkjunum og til beggja deilda þjóðþingsins. Tveir af hverjum þremur kjósendum tóku alls engan þátt í lýðræðinu.

Sumir kusu ekki, af því að þeir töldu atkvæði sitt skipta svo sem engu máli. Öðrum fannst kosningabaráttan vera of ógeðfelld fyrir sinn smekk og hjálpuðu þannig óbeint þeim, sem höfðu forustu í sóðaskapnum. Flestir eru þeir, sem hafa vanizt því að kjósa aldrei.

Þetta er auðvitað áhyggjuefni, ekki bara fyrir Bandaríkjamenn, heldur einnig fyrir aðra, af því að mörg dæmi eru um, að þjóðfélagslegar breytingar í Bandaríkjunum síist til annarra landa vegna hinna miklu og augljósu áhrifa, sem bandarískur lífsstíll hefur um allan heim.

Sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af ört vaxandi sóðaskap í bandarískri kosningabaráttu. Sóðaskapurinn kemur einkum fram í mínútubrots sjónvarpsauglýsingum, þar sem frambjóðendur ata hver annan auri sem mest þeir mega og án tillits til staðreynda.

Kjósendur geta að vísu komizt að hinu sanna, ef þeir fylgjast með fréttum annarra fjölmiðla, þar sem meðal annars er flett ofan af lyginni í sjónvarpsauglýsingum frambjóðenda. En kjósendur greiða ekki atkvæði gegn skítkösturum, heldur styðja þá með því að sitja heima.

Lágkúran í bandarískum sjónvarpsauglýsingunum er ævintýraleg. Myndir eru falsaðar til að sýna atburði, sem aldrei hafa gerzt. Lygin er endurtekin nógu oft, unz aularnir fara að trúa henni. Almennt má segja, að engin siðalögmál gildi um kosningabaráttu frambjóðenda.

Þar á ofan þurfa frambjóðendur til þjóðþingsins að verja sem svarar hundruðum milljóna króna og jafnvel milljörðum króna til að kaupa sér þingsæti með þessum soralega hætti. Þá peninga fá þeir hjá þrýstihópum, sem síðan telja sig eiga tilkall til þingmannanna.

Ástæða er til að velta því fyrir sér, hvort eitthvað af þessu muni síast til útlanda, til dæmis hingað, og hvernig skuli brugðizt við slíku. Það væri afar slæmt, ef íslenzkir frambjóðendur teldu sig verða að heyja dýra og neikvæða kosningabaráttu og yrðu háðir þrýsihópum.

Hér er barátta í prófkjörum og kosningum fremur málefnaleg og einkum þó jákvæð, því að meiri áherzla er lögð á að hrósa sér en að lasta hina. En það er ills viti, að prófkjörsbrátta einstaklinga skuli vera farin að kosta mikla peninga, hundruð þúsunda króna á mann.

Engin teikn eru á lofti um, að Bandaríkjamenn hreinsi til hjá sér á þessu sviði, jafnvel þótt sorinn og kostnaðurinn hafi stórlega dregið úr trausti almennings á mikilvægustu stofnunum stjórnmálanna. Þess vegna sökkva þeir dýpra í hverjum kosningaslagnum á fætur öðrum.

Sumpart leiðir þetta til, að kjósendur eru sífellt að skipta út þingmönnum. Kjósendur telja þá, sem fyrir sitja á þingi, vera gerspillta og gagnslausa, og kasta þeim út, jafnvel þótt aðrir komi í staðinn, sem fyrirfram má vita, að eru enn spilltari og gagnsminni og einkum sóðalegri.

Bandaríkjamönnum virðist í vaxandi mæli fyrirmunað að velja sér umboðsmenn og aðra leiðtoga. Hver forsetinn á fætur öðrum er ímynd án verðugs innihalds, enda verða kjósendur þeirra jafnhraðan fyrir vonbrigðum með þá. Sama gildir um þingmenn og aðra stjórnmálamenn.

Svo virðist líka sem gróin sjálfsánægja Bandaríkjamanna komi í veg fyrir, að þeir sjái almennt, hve alvarlegt og ólýðræðislegt ástandið er orðið í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Litlu sætu löggurnar

Greinar

Lögreglumenn í Reykjavík hafa kært fegurðardrottningu heimsins fyrir að vera vonda við þá. Þeir kæra nafngreinda konu fyrir að misþyrma sér á lögreglustöðinni í Reykjavík. Þennan brandara segja þeir í skjóli nafnleysis sem hverjir aðrir embættismenn upp úr Kafka.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram, að hér er ekki hægt að segja allan sannleikann um lögreglumenn, af því að félag þeirra hleypur umsvifalaust á bak við úrelt lög um virðingu embættismanna, sem eru frá þeim tíma, er embættismenn voru merkari en annað fólk.

Oft hefur komið fram, að sumir lögreglumenn eiga í erfiðleikum með að umgangast fólk. Kringumstæður, sem reynast flestum þeirra eðlilegur hluti starfsins, verða að versta klúðri hjá sumum þeirra. Tilgangslaust er að tala um þetta, því að þessir menn eru verndaðir.

Lögreglumenn vernda hiklaust hver annan og þeir eru verndaðir af yfirboðurum sínum. Í stað þess að nota uppákomur til að laga ástandið eru þær notaðar til að þjappa mönnum saman gegn áreiti utan úr bæ. Þannig venjast menn því að þurfa ekki að kunna mannasiði.

Það eru auðvitað engir mannasiðir að láta menn úti í bæ siga sér á blásaklaust fólk út af máli af því tagi, sem lögreglan nennir annars tæpast að sinna. Fegurðardrottningin var í fullum siðferðilegum rétti til að reiðast. Lögreglumenn höfðu gefið ærið tilefni til þess.

Það eru auðvitað engir mannasiðir að lenda í slíkum átökum við fallegar konur, að þær þurfi síðan að fara á Slysadeild. Svona gera menn ekki, var nýlega sagt. Þau fleygu orð hæfa vel nýjustu uppákomunni í samskiptaörðugleikum lögreglunnar við borgara landsins.

Og fara síðan að klaga konuna fyrir að hafa verið vonda við litlu sætu löggurnar, er bara lélegur brandari. Svona hlutum halda menn ekki fram. Erlendis reyna lögreglustjórar að stöðva slík frumhlaup undirmanna, áður en þau leita útrásar sem formleg kæra á pappír.

Því miður er ekki von á góðu við meðferð Rannsóknarlögreglu ríkisins á málinu. Hún mun vernda starfsbræður sína. Þeir munu svo siga lögmanni stéttarfélagsins á fegurðardrottninguna og fá hana dæmda fyrir meiðyrði við embættismann. Slíkur er hetjuskapurinn á þeim bæ.

Rannsóknarlögregla ríkisins er raunar aumasta stofnun landsins. Hún klúðrar hverri rannsókninni á fætur annarri, þannig að stórmál eyðast fyrir dómi. Hún var nokkra mánuði að afgreiða Gýmismálið, þótt það hafi verið upplýst, áður en hún fékk það í hendur í sumar.

Í flestum stéttum þjóðfélagsins er til fólk, sem ekki kann til verka. Í fyrirtækjum úti í bæ er reynt að kenna þessu fólki eftir föngum og það síðan látið hætta, ef hvorki gengur né rekur. Hjá lögreglustjóranum í Reykjavík er ekki um neitt slíkt að ræða. Hann verndar sína.

Af þessari ástæðu lagast mál ekki hjá honum, þótt þau lagist hjá flestum öðrum forstjórum í landinu. Hin sjálfvirka og samvirka vörn lögreglukerfisins gegn öllu utanaðkomandi áreiti veldur því, að hvað eftir annað koma þar upp ofbeldismál, sem eru eins og úr þriðja heiminum.

Lögreglustjórinn mundi strax ná árangri, ef hann léti Sæma rokk halda námskeið fyrir lögreglumenn í almennum mannasiðum, svo að þeir slökustu fái tækifæri til að kynna sér helztu lágmarksatriði í mannlegum samskiptum, sem flestir borgarar þjóðfélagsins kunna.

Þótt lögreglumenn þurfi lögum samkvæmt ekki að kunna mannasiði, er hart fyrir embættið, að litlu sætu löggurnar skuli vera hafðar í flimtingum úti í bæ.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkur gerist boltalið

Greinar

Fráfarandi félagsráðherra hefur upplýst, að hann hafi ekki fengið rauða spjaldið, heldur gula spjaldið. Hann muni koma aftur í seinni hálfleik til að skora mörg mörk, eins og hann hafi gert í Firðinum í gamla daga. Auk þess hafi gula spjaldið í rauninni verið ranglátt.

Ef almennt verður farið að líkja stjórnmálum við boltaleik, er hætta á ferðum. Í boltanum er ekki spurt um hugmyndafræði eða þjóðarheill, heldur okkar lið og hitt liðið. Spurningin er um okkur eða hina. Gul og rauð spjöld eru bara óþægindi án nokkurs innra siðagildis.

Fráfarandi félagsráðherra hefur alls engrar afsökunar beðizt á pólitískum ferli sínum. Hann segist hafa verið ofsóttur af óvinum utan og innan flokks. Hann hafi vikið úr starfi aðeins til að létta lífið öðrum aðilum, sem ekki töldu sig geta staðið í að verja hann gegn ofsóknunum.

Upp á þessi undarlegu býti hefur forusta Alþýðuflokksins boðið hann velkominn á nýjan leik. Umhverfisráðherra segir hann hafa sýnt mikinn hetjuskap. Flest bendir til, að hinn fráfarandi ráðherra verði eitt helzta tromp Alþýðuflokksins í alþingiskosningunum í vetur.

Brottför ráðherrans úr ríkisstjórn hefur leyst vandamálin, sem hann hafði skapað ríkisstjórninni. En þau leysa ekki vandamálin, sem hann hafði skapað Alþýðuflokknum. Hann heldur áfram að vera varaformaður flokksins og einn helzti frambjóðandi hans í pólitík.

Vandamál ráðherrans fyrrverandi límast þannig við Alþýðuflokkinn, sem verður að heyja kosningabaráttu sína undir þeim merkjum, að varaformaður flokksins hafi ekkert gert umtalsvert af sér. Flokkurinn mun staðfesta stöðu sína sem spillingarflokkur þjóðarinnar.

Vafalaust munu margir halda áfram að kjósa Alþýðuflokkinn. Sumir hafa ekki enn fengið embætti og eru að bíða eftir því. Aðrir líta á flokkinn sinn eins og boltaáhugamenn líta á liðið sitt. Þeir horfa ekki á gulu og rauðu spjöldin, heldur spyrja, hvort skoruð verði mörk.

Svo áfram sé notað líkingamálið úr Firðinum, þá mun flokkurinn ekki skora mikið í næstu kosningum. Hann mun koma formanni og varaformanni á þing, en aðrir þingmenn verða fáir. Mikill fjöldi krata mun nefnilega neita að kjósa flokkinn eins og hvert annað boltalið.

Eftir situr stjórnmálaflokkur, sem orðinn er að eins konar boltaliði úr Firðinum. Hann verður minni en nokkru sinni fyrr og spilltari en nokkru sinni fyrr. Þeir kratar, sem neita að líta á mál ráðherrans fyrrverandi sem eins konar boltamál, fara annað með atkvæði sitt.

Úr því að ráðherranum fyrrverandi er tekið fagnandi af forustu flokksins og boltasinnum Alþýðuflokksins í Hafnarfirði, án þess að hann hafi beðizt afsökunar á ráðherraferli sínum, taka þessir aðilar fulla ábyrgð á vinnubrögðum hans og gera þau raunar að Alþýðuflokksmáli.

Það verður mál Alþýðuflokksins, að ráðherrar flokksins megi hlúa að vinum og ættingjum á kostnað almennings, án þess að almenningur fái sömu þjónustu. Þetta er bara hluti velferðarkerfisins að mati ráðherrans fráfarandi og merki um stuðning hans við lítilmagnann.

Það verður vandamál Alþýðuflokksins að innan hans séu aðilar, sem hafi tekið þátt í að ofsækja einn helzta markaskorara flokksins og hrekja úr ráðherraembætti. Það verður vandamál Alþýðuflokksins, að hann neyðist til að gera ráðherrann fyrrverandi að píslarvotti.

Þetta skiptir litlu í þjóðmálunum, af því að nægt er framboð af krataflokkum. En það skiptir öllu fyrir Alþýðuflokkinn að hafa loksins fundið sig. Sem boltalið.

Jónas Kristjánsson

DV

Harmleikur

Greinar

Afsögn félagsráðherra á blaðamannafundi í gær var harmleikur í beinni útsendingu. Ráðherranum var svo brugðið, að spyrja má, hvort ekki hefði verið miklu betra fyrir hann eins og svo marga aðra, sem líða fyrir mál hans, að hann hefði sagt af sér nokkrum vikum fyrr.

Ljóst er af svanasöngi ráðherrans, að hann telur sig miklu órétti beittan. Embættisfærsla hans sem ráðherra hafi í flestu verið í samræmi við lög og hefðir og að hin sárafáu “mistök” hans hafi ekki verið meiri eða merkilegri en annarra núverandi og fyrrverandi ráðherra.

Svo virðist sem fráfarandi ráðherra trúi því sjálfur í einlægni, að skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfesti nokkurn veginn alveg sjónarmið hans sjálfs í hinum umdeildu málum. Samkvæmt því hefur hann ekki lært neitt af hremmingunum og telur sig vera fórnardýr ofsókna.

Þetta þýðir, að hann heldur áfram að vera varaformaður flokks síns og líklega einn helzti frambjóðandi hans í komandi kosningum. Vandamál hans halda því áfram að vera vandamál Alþýðuflokksins, þótt ríkisstjórninni hafi tekizt að koma myllusteininum af hálsi sér.

Ýmis efnisatriði í vörn hins fyrrverandi ráðherra eru að nokkru leyti réttmæt. Aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn og öðrum fyrri hafa gert hluti, sem stríða gegn almennum siðferðissjónarmiðum. Þeir hafa gert mistök eins og það heitir á máli hins ofsótta ráðherra.

Munurinn á honum og hinum er fyrst og fremst tvenns konar. Í fyrsta lagi hafa hremmingar hans hlaðizt upp á skömmum tíma. Hann skellti sér út á gráa svæðið um leið og hann varð ráðherra og var þar löngum stundum, meðan aðrir ráðherrar hættu sér þangað endrum og eins.

Í öðru lagi er líklegt, að almenn siðferðissjónarmið í þjóðfélaginu hafi orðið harðari með árunum. Hugsanlegt er, að formaður Alþýðubandalagsins yrði að segja af sér sem ráðherra, ef hann væri núna að gefa Þormóð ramma og kaupa ímyndaðar vörur af Svörtu og hvítu.

Raunar ættu fjölmiðlar að verða við áskorun hins fráfarandi ráðherra og bera saman athugasemdir Ríkisendurskoðunar við embættisfærslu hans og annarra ráðherra í þessari ríkisstjórn og öðrum fyrri. Væntanlega stuðla aðrir ráðherrar að opinberun athugasemdanna.

Að loknu fárviðrinu, sem leitt hefur til afsagnar ráðherrans, er einnig eðlilegt, að spurt sé, hvort eitthvert gagn hafi orðið af öllu saman, annað en það, að ráðherra fái nú tækifæri til að ná réttum litum og taka gleði sína á ný eftir hvíld frá linnulausri orrahríð stjórnmála.

Sennilega munu ráðherrar fara varlegar en áður. Þeir munu ekki hætta sér eins mikið og áður út á gráa svæðið. Þeir eru þegar farnir að birta skrár yfir ráðstöfun skúffupeninga sinna og væntanlega fara þeir senn að birta athugasemdir Ríkisendurskoðunar um sjálfa sig.

Hitt er svo líka rétt, að séu ráðherrar eins harðskeyttir og sannfærðir um mátt sinn og dýrð og sá, sem nú fór frá, munu þeir einnig fresta í lengstu lög að draga rétta ályktun af hremmingum, sem þeir munu lenda í af völdum of tíðra ferða sinna út á gráa svæðið.

Öllum nýjum valdamönnum er brýnt að geta í tæka tíð skipt um skoðun, ef siðferðishugmyndir þeirra reynast ekki falla alveg að almennum siðferðishugmyndum eins og þær eru á hverjum tíma. Annars geta afleiðingar orðið eins og í þeim harmleik, sem við höfum nú séð.

Að leiðarlokum var ræðupúltinu komið táknrænt fyrir úti í horni, þar sem ráðherrann stóð innikróaður og særður og lýsti sig blásaklaust fórnardýr ofsókna.

Jónas Kristjánsson

DV

Barnaskattmann

Greinar

Um nokkurt skeið hefur Friðrik Sophusson fjármálaráðherra verið skattakóngur þeirrar stéttar. Sérstaklega hefur hann verið duglegur við að finna upp og hækka ýmis gjöld, sem hann telur sjálfum sér trú um, en engum öðrum, að séu ekki skattar, heldur þjónustugjöld.

Skattakóngurinn hefur með ýmsum hætti komið skattheimtu ríkisins töluvert upp fyrir það, sem var í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrirrennara hans. Nýjasta uppfinning Friðriks er barnaskatturinn, sem nú leggst á sölulaun, sem börn fá fyrir ýmiss konar sölumennsku.

Fyrir þetta afrek verður Friðrik hér eftir réttnefndur Barnaskattmann. Hann ber ábyrgð á þessum nýja skatti, þótt hann reyni í hugleysi að skjóta sér á bak við ónafngreinda embættismenn í kerfinu. Það er pólitísk ákvörðun, en ekki embættisleg, að taka upp nýja skattheimtu.

Barnaskatturinn á sér stoð í lögum frá 1988. Þá vildu embættismenn túlka lögin á þann hátt, sem nú hefur verið gert. Þá var tekin pólitísk ákvörðun um að túlka lögin öðruvísi. Þegar nú er tekin ákvörðun um að breyta þeirri túlkun, er það ekkert annað en pólitísk ákvörðun.

Barnaskatturinn er ekki greindarlegur skattur. Hann kostar mjög mikla skriffinnsku, en gefur lítið í aðra hönd. Skriffinnskukostnaður ríkis og fyrirtækis á hvert barn nemur 2.015 krónum á ári. Það er herkostnaðurinn við hugsjón Barnaskattmanns í embætti fjármálaráðherra.

Dæmi verða til um börn, sem skráð verða í bókhald fyrirtækis með sölulaun upp á 26 krónur á árinu fyrir sölu á einu eintaki. Af þessari upphæð á barnið að greiða eina krónu og fimm tíu og sex aura til Barnaskattmanns og fyrirtækið átta tíu og þrjá aura til viðbótar.

Samtals fær ríkið tvær krónur og þrjátíu og níu aura í tekjur á móti 2.015 króna kostnaði málsaðila í pappírs-, póst- og launakostnaði vegna skattsins. Þetta er án efa langmesti taprekstur, sem þekkist í þjóðfélaginu um þessar mundir, verðugur minnisvarði um lélegan pólitíkus.

Embættismenn, sem hafa lítið að gera, eru sambandslitlir við umheiminn og gætu raunar tæpast unnið fyrir sér úti í lífinu, mega láta sér detta ýmislegt vitgrannt í hug, af því að þeir verða aldrei dregnir til ábyrgðar, þótt þeir hugsi ekki formsatriði sín til leiðarenda.

Ráðherrann vissi vel, að fyrirrennari hans hafði hafnað þessari skattheimtu, af því að hann sá, að hún borgaði sig ekki. Barnaskattmann getur því ekki kennt öðru um en eigin greindarskorti að hafa byrjað skattheimtu, sem er svona dýr í rekstri og gefur svona lítið í aðra hönd.

Það þarf óvenjulega menn til að efna til kostnaðar upp á meira en tvö þúsund krónur til að ná í tekjur, sem nema í sumum tilvikum aðeins rúmlega tveimur krónum. Það Íslandsmet Friðriks Sophussonar í taprekstri á skattheimtu verður sennilega aldrei slegið.

Barnaskattmann hefur reynt að skýla sér á bak við embættismenn. Það kemst hann ekki upp með, því að hann einn tók hina pólitísku ákvörðun um að breyta fyrri pólitískri ákvörðun fyrirrennarans. Með flóttanum bætir hann hugleysi ofan á önnur sjálfskaparvíti.

Barnaskatturinn er aðeins nýjasta dæmið af mörgum um lélega frammistöðu Friðriks í embætti fjármálaráðherra, allt frá einstæðri skuldasöfnun ríkissjóðs yfir í vanefndir á undirskrifuðum samningum, svo sem illræmt er orðið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Barnaskattmann verður augljós myllusteinn um háls flokks síns og ríkisstjórnar, þegar kjósendur líta fyrir kosningar yfir feril hans í fjármálaráðuneytinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Greindarskortur

Greinar

Í ýmsum dómum Hæstaréttar að undanförnu hefur hann haft siðalögmál almennings að engu. Þegar hann dæmir þar á ofan sífellt í öðrum kanti heimilda um refsingu og skaðabætur, má efast um, að hann þekki landslög. Hann virðist vera úti að aka í þjóðfélaginu.

Þegar ráðherra getur ekki sjálfur tekið af skarið um, að hann sé orðinn flokki sínum og ríkisstjórn þvílík byrði, að hann lami getu stjórnarflokkanna til að mæta þjóðinni í kosningum að fáum mánuðum liðnum, má efast um, að hann skilji nokkuð í málavöxtum.

Greindarskortur háir Íslendingum. Við erum að reyna að halda uppi þjóðfélagi með fullri reisn milljónaþjóða, en getum það ekki fyllilega, af því að helztu stofnanir þjóðfélagsins eru fjölmennari en sem svarar framboði af hæfu fólki til að reka allar þessar stofnanir.

Við megum ekki heldur gleyma atgervisflótta, til dæmis í vísindum og viðskiptum. Margir hæfustu fræðimenn landsins hafa ílenzt við erlenda háskóla, af því að þeir fá annaðhvort ekki starf við sitt hæfi hér á landi eða af því að þeir vilja ekki reyna að lifa á sultarlaunum.

Atgervisflóttinn skaðar háskólamenntun innanlands og bætist ofan á slakan undirbúning margra nemenda úr grunn- og framhaldsskólum. Sumar deildir Háskólans hafa dregizt aftur úr hliðstæðum deildum erlendis vegna skorts á hæfum kennurum og hæfum nemendum.

Svipað ástand er í atvinnulífinu. Í sjávarútvegi eru ýmis dæmi um, að ríkjum ráða gamlir karlar, sem hvorki skilja né vilja skilja helztu lögmál viðskiptalífsins. Afleiðingin er sú, að sum sjávarútvegsfyrirtæki safna skuldum og eru á hvínandi kúpunni, þótt önnur hagnist vel.

Svona verður ástandið, þegar ríkjandi smábyggðastefna knýr þjóðfélagið til að reyna að koma í veg fyrir, að fyrirtæki fái eðlilegt andlát eða renni inn í þau, sem betur eru rekin. Ef Darwinslögmálið fengi meiru að ráða, væru færri forstjórar og betri í sjávarútvegi.

Um opinbera geirann í þjóðfélaginu þarf ekki að hafa mörg orð. Þar er hver silkihúfan upp af annarri. Fólk, sem ekki getur unnið fyrir sér með eðlilegum hætti, hefur gengið fram í stjórnmálaflokkum til að láta þá útvega sér störf, stöður og stóla hjá hinu opinbera.

Afleiðingin er, að stórir þættir hins opinbera lúta alls engri rekstrarstjórn, heldur kjaga áfram af gömlum vana og sumpart hreinu tilgangsleysi. Sumar eftirlitsstofnanir hafa þar á ofan aðstöðu til að efna til vandræða úti í atvinnulífinu. Sumar skattstofur drepa þannig tímann.

Niðurstaðan af þessu öllu vekur spurninguna um sjálfstæði þjóðar, sem telur 260.000 manns. Getum við haldið áfram að vera sjálfstæð þjóð, þegar umheimurinn gerir sífellt harðari kröfur um aukna framleiðni? Munum við fylgja á eftir Færeyingum sem úrelt fyrirbæri?

Færeyingar fóru á hausinn vegna lélegra ráðamanna í stjórnmálum og atvinnulífi. Við erum fleiri og getum því mannað fleiri pósta með sóma. Samt eru mikilvægustu störfin fleiri en svo, að við getum mannað þau með sóma og oft vilja ráðamenn ekki manna þau með sóma.

Ef við viljum áfram vera sjálfstæð þjóð fram á næstu öld, þurfum við að fækka smákóngunum í landinu og vanda betur val þeirra, sem eiga að hafa forustu í stjórnmálum, vísindum, atvinnulífi og opinberum rekstri. Við þurfum að hafa fáa kónga og velja þá rétt.

Setja ber tímamörk á embættismenn, létta fyrirtækjum að verða gjaldþrota og koma upp siðalögmálum í stjórnmálum til að gera greindarskortinn bærilegri.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafnarhúsið endurvakið

Greinar

Verzlanir og veitingar efla mannlíf í gömlum bæjarhlutum. Þetta er alþjóðleg reynsla, sem rætt hefur verið um að nýta hér á landi með því að hafa Kolaport í Tollhúsi, smáverzlanir í Hafnarhúsi, stórmarkað í kastalanum við Tryggvagötu 15 og veitingar á öllum stöðunum.

Listasafn Errós í Hafnarhúsi er góð viðbót við þessar ráðagerðir, ef portið og efri hæðir hússins nægja slíku safni. Ekki er hins vegar ráð að víkja frá þeirri grundvallarhugmynd, að Hafnarhúsið og húsin í kring séu fyrst og fremst notuð til að draga fólk að gamla miðbænum.

Safninu hentar auðvitað betur að vera í miðbænum fremur en í útjaðri hans. Miklu meiri líkur eru á, að fólk notfæri sér safn, sem verður á vegi þess, en safn, sem er milli brauta á einum hinna stóru golfvalla, er borgarverkfræðingur og skipulagsstjóri þrá svo ákaft.

Errósafn hefði hvílzt í virðulegri einangrun að Korpúlfsstöðum, ef sá kostur hefði komið til greina vegna útgjalda. Errósafn í miðbæ Reykjavíkur er miklu líklegra til að verða lifandi safn, þótt minna verði. Gildi safns ræðst af auðveldum og áhugavekjandi aðgangi fólks.

Safn er að því leyti eins og banki eða ríkiskontór, að það dregur ekki sjálfkrafa að sér. Þess vegna eiga söfn ekki frekar en bankar eða ríkiskontórar að vera á jarðhæðum miðbæja. Þar eiga að vera verzlanir og veitingahús og önnur þjónusta, sem ekki þarf mikið rými.

Stofnanir á borð við bankana og Póst & síma hafa stuðlað að hnignun miðbæjar Reykjavíkur. Allar stofnanir, sem eru fyrirferðarmiklar við götu, eitra út frá sér. Langir og dyralausir útveggir eru fráhrindandi. Slíkar stofnanir eiga alls ekki heima á jarðhæðum miðbæjarhúsa.

Það væri gott fyrir Errósafn að hafa stuðning af þeirri starfsemi, sem rætt hefur verið um, að verði í höllunum þremur, sem mynda norðurhlið Tryggvagötu. Um leið getur safnið gefið til baka með því að veita Hafnarhúsinu listrænna innihald. Úr þessu getur orðið góð sambúð.

Bezt væri, ef safnið fengi portið og tvær efri hæðir hússins, þjónusta af ýmsu tagi aðra hæðina, verzlanir og veitingarekstur þá neðstu. Þannig er líklegast, að einstakir þættir starfseminnar styðji hver annan og þá þætti, sem ráðgerðir eru í stóru húsunum beggja vegna.

Vegna veðurfars í Reykjavík er æskilegt að hafa innangengt alla línuna frá strætisvagnahúsi, sem ráðgert er á bílastæðinu austan Tollhúss, um Tollhús og Hafnarhús, í vöruhúsið að Tryggvagötu 15. Með góðu skipulagi getur orðið úr lengjunni eins konar Kringla miðbæjarins.

Hugmyndina um sambýli verzlunar og menningar í Hafnarhúsi má færa yfir á Tollhús, ef aðgangur að efri hæðum þess verður gerður minna fráhrindandi en hann er nú. Ef hægt er að laða umferð úr Kolaporti upp á efri hæðirnar, opnast rými fyrir fleiri menningarsöfn.

Þetta eru ekki draumórar. Erlendis hefur víða tekizt að snúa vörn í sókn í nýtingu þreyttra miðbæja. Bezt hefur það tekizt, þar sem verzlun og veitingar eru andlitin, sem snúa að vegfarendum og draga þá inn, en innar og ofar taka við þjónusta og menning af ýmsu tagi.

Innan um aðra þjónustu þarf auðvitað að vera rými fyrir útibú og afgreiðsludeildir banka, pósts, síma, tolls og skatts. En það er alveg út í hött að fylla miðbæi af almennum skrifstofum slíkra stofnana. Reykjavíkurborg þarf að mestu að losna við slíka mammúta úr miðbænum.

Gott er, ef unnt verður tengja hugmyndina um Erró- safn í Hafnarhúsi við frábærar hugmyndir Þróunarfélags Reykjavíkur um nýtingu norðurhliðar Tryggvagötu.

Jónas Kristjánsson

DV

Jöfnuður næst ekki

Greinar

Tveir stærstu þingflokkarnir munu koma í veg fyrir marktæka breytingu á misjöfnum atkvæðisrétti íslenzkra kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sendu þau skilaboð af sjónvarpsfundi á þriðjudaginn, að ekki mundi semjast um jafnan atkvæðisrétt.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins endurtók í sífellu, að ekki mundi semjast um að leiðrétta ástandið í einu lagi, heldur yrði að gera það í áföngum. Þar sem reynslan sýnir, að hver áfangi tekur tvö kjörtímabil, er hann að tala um jöfnun atkvæðisréttar á nokkrum áratugum.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins töluðu um millileiðir og bráðabirgðaleiðir í líkingu við það, sem hafa hingað til verið reyndar og hafa jafnan leitt til þess, að misræmi hefur vaxið að nýju og náð fyrra marki fyrir næstu breytingu.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins hyggjast bjóða kjósendum stækkun á atkvæði kjósenda úr um fimmtungi úr atkvæði upp í svo sem þriðjung úr atkvæði, sem síðan leki aftur úr þriðjungi úr atkvæði niður í fimmtung úr atkvæði.

Slíkt kák var síðast afsakað með því, að þannig væri hægt að leysa málið með einfaldri breytingu á kosningalögum án þess að breyta stjórnarskránni. Nú er slíkt ekki hægt lengur, svo að breyta þarf stjórnarskránni hvort sem er, jafnvel þótt kák verði fyrir valinu.

Svo virðist sem aðrir flokkar en þessir tveir geti sætzt á, að landið verði allt að einu kjördæmi. Stuðningur við þá aðferð nær raunar inn í þingflokk Framsóknar. Eitt kjördæmi hefur galla eins og aðrar lausnir, en tryggir þó bæði flokkum og kjósendum jafnan atkvæðisrétt.

Ef kjósendur fengju í kjörklefanum að raða frambjóðendum innan listanna, væri til viðbótar náð kostum, sem eru í líkingu við það, sem margir sjá í einmenningskjördæmum. Ennfremur væri þá hægt að leggja niður prófkjörin, sem eru að verða dýrkeypt vandræðabarn.

Mesti kostur eins kjördæmis er, að það eyðir þörfinni á að hlaupa upp til handa og fóta á svo sem átta ára fresti til að breyta stjórnarskránni, svo að misrétti kjósenda minnki nokkuð. Í einu landskjördæmi hafa allir kjósendur og allir flokkar alltaf heilt atkvæði.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir, að ekki muni nást samkomulag um þetta. Það er auðvitað hótun, sem verður að taka alvarlega, en segir kjósendum um leið, hvar Sjálfstæðisflokkurinn stendur í þessum mannréttindum. Hann vill hafa þau eins lítil og unnt er.

Gott var, að Framsóknarflokkurinn skyldi sýna sitt rétta afturhaldsandlit á sjónvarpsfundinum. Vegna hræringa í þingliði flokksins höfðu margir ímyndað sér, að Framsóknarflokkurinn væri til viðtals um marktækar leiðréttingar. Nú er staðfest, að svo er alls ekki.

Eins og línurnar hafa skýrzt, er eðlilegt, að stóru þingflokkarnir tveir taki saman höndum um sáralitlar breytingar, sem aðrir þingflokkar verði síðan kúgaðir til að styðja á þeim forsendum, að lítið sé betra en ekkert. Þetta er líka eðlileg byrjun á nýju stjórnarmynztri.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn láta svona, af því að þeir telja, að þeir kjósendur, sem hafa aðeins brot úr atkvæðisrétti, muni áfram sætta sig við það og ekki refsa þessum tveimur flokkum fyrir að koma í veg fyrir, að þeir fái heilan atkvæðisrétt.

Við komum því enn einu sinni að kunnuglegri staðreynd, að kjósendur fá eins og aðrir vesalingar yfir sig það böl, sem þeir eiga skilið, hvorki meira né minna.

Jónas Kristjánsson

DV

Rökstudd bjartsýni

Greinar

Betri tíð er í vændum að mati almennings og forstöðumanna fyrirtækja. Búizt er við, að ekki þurfi áfram að fækka starfsfólki fyrirtækja, heldur sé fjölgun þess í vændum. Þetta eru meðaltalstölur, sem hafa reynzt vel við spár um, hvort þensla eða kreppa sé á næsta leiti.

Samkvæmt þessum væntingum hefur kreppan náð hámarki á þessu ári. Næsta ár ætti að verða betra, enda er raunar þegar komið í ljós, að atvinnuleysi á öndverðum vetri er heldur minna en það var á sama tíma í fyrra. Þensla er þannig þegar byrjuð að leysa kreppu af hólmi.

Minnkun atvinnuleysis hefur tvenns konar gildi. Annars vegar dregur það úr margs konar böli í lífi fólks og minnkar spennu og sundrungu í þjóðfélaginu. Hins vegar eflir það bjartsýni og framtak, sem eru forsenda þess, að þjóðfélagið missi ekki af framfaralestinni.

Þjóðin hefur staðið sig í kreppunni. Hún hefur kunnað fótum sínum forráð og lækkað rekstrarkostnað sinn. Það sést annars vegar af því, að álag á félagslega kerfið jókst ekki eins mikið í kreppunni og búast mátti við. Og hins vegar af hagstæðum vöruskiptajöfnuði við útlönd.

Þetta gildir ekki síður um fyrirtækin í landinu. Mörg hver hafa náð ágætum árangri í rekstri á þessu ári. Þau hafa náð af sér aukakílóum, meðal annars með sársaukafullum uppsögnum starfsfólks. Þess vegna eru þau nú reiðubúin til nýrra átaka og nýrra mannaráðninga.

Eini aðilinn, sem ekki hefur staðið sig, er ríkissjóður. Hann hefur verið illa rekinn, ekki rifað seglin eins og aðrir, heldur haldið áfram að safna skuldum. Þær hafa aukizt úr 120 milljörðum í 160 milljarða á kjörtímabilinu og eru orðnar mun meiri en eins árs velta ríkisins.

Þetta hefur þó ekki verið verra en svo, að verðbólgan hefur ekki látið á sér kræla. Hún gerir það raunar ekki enn, þótt fyrstu þenslumerkin séu að byrja í atvinnulífinu. Það verður stórsigur, ef veltan nær að aukast í þjóðfélaginu, án þess að verðbólgan fari af stað að nýju.

Allt eru þetta horfur á líðandi stund og geta snögglega breytzt til hins verra. Við lifum enn í veiðimannaþjóðfélagi, sem rís og hnígur með aflasveiflum. Við höfum mildað kreppuna með happdrættisvinningi í Smugunni, en vitum ekki, hversu langvinnur hann verður.

Loðnan hefur orðið okkur til hjálpar og sennilega er síldin nú að koma til skjalanna. Þannig hefur hvert happið rekið annað og dregið úr afleiðingunum af hruni þorskstofnsins á heimamiðum. Sum sjávarútvegsfyrirtæki hafa blómstrað, þótt önnur hafi koðnað niður.

Við höfum ekki borið gæfu til að nota happdrættisvinningana til að hlífa þorskstofninum á heimamiðum. Engar horfur eru á, að hann rétti við á næstu árum. Fram til aldamóta að minnsta kosti er hann ekki undir það búinn að leysa Smugu, loðnu og síld af hólmi.

Ef við lítum yfir allt sviðið, þarf að tempra það mat, að þjóðin hafi staðið sig vel í kreppunni. Hún hefur í stórum dráttum staðið sig vel, en eigi að síður vikið sér undan að taka fullum afleiðingum af hruni þorskstofnsins og alls ekki náð að hemja rekstur ríkisbúsins.

Aðalatriðið er þó, að ýmsir traustir mælikvarðar sýna batnandi tíð í þjóðfélaginu og að aukin bjartsýni fólks og forráðamanna fyrirtækja á sér raunhæfar forsendur. Við sjáum því fram á góðan vetur, þótt nokkur langtímamál séu enn á hverfanda hveli að hefðbundnum hætti.

Verðbólga þessa árs verður innan við 2%, atvinnuleysi innan við 5% og hagvöxtur er byrjaður á nýjan leik. Þetta eru staðreyndir, sem gefa tilefni til bjartsýni.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlind á móti auðlind

Greinar

Þegar viðræður hefjast um aðild Íslands að Evrópusambandinu, verða talsmenn okkar að gera nógu miklar kröfur til ítaka í auðlindum Evrópu. Við eigum að gera kröfu til rekstraraðildar að koparnámum á Spáni, marmaranámum í Grikklandi og olíulindum í Frakklandi.

Þetta verður svar okkar við kröfum frá löndum Evrópusambandsins um aðild að auðlindum 200 mílna efnahagslögsögunnar og kröfum frá Evrópusambandinu um að fá að stjórna þessum auðlindum. Það hlýtur að verða gagnkvæmni í kröfum um aðgang að auðlindum annarra.

Krafa okkar um aðgang að evrópskum auðlindum er eina leiðin til að mæta þeirri frekju, sem einkennir kröfur Evrópusambandsins og aðildarríkja þess í viðræðum um aðild nýrra ríkja. Þær eru eina leiðin til að sýna fram á fáránleikann í frekjunni, sem þessir aðilar sýna.

Norðmenn höfðu ekki vit á að láta kröfu mæta kröfu. Þeir gerðu óhagstæðan samning við Evrópusambandið. Samningurinn felur í sér, að Evrópusambandið stjórni nýtingu norskra fiskimiða og að frekustu Evrópuríkin fái lítils háttar aðgang að veiðum á norskum fiskimiðum.

Ríkisstjórn Noregs hefur ekki tekizt að telja norskum kjósendum trú um, að þessu sé í rauninni varið á annan hátt, að Norðmenn muni stjórna veiðunum á óbeinan hátt í gegnum skriffinna í Brussel og að norsk fiskveiðistjórnarstefna verði óbeint tekin upp í Evrópu.

Þess vegna munu norskir kjósendur fella samninginn um aðild Noregs að Evrópusambandinu, jafnvel þótt meirihluti næðist í Svíþjóð með aðild. Samningur Noregs er einfaldlega svo óhagstæður, að norsk stjórnvöld geta ekki selt hann þjóðinni. Það sýna skoðanakannanir.

Þetta er hagstætt fyrir Ísland, af því að útreið Evrópusamningsins í Noregi dregur úr líkum á, að hann hafi fordæmisgildi, þegar enn einu sinni verður reynt að semja um aðild Noregs og þegar Ísland verður loksins tilbúið til að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Aðild að Evrópusambandinu getur orðið okkur mjög hagkvæm. Hún ver okkur til dæmis töluvert vel fyrir efnahagslegri og viðskiptalegri ofbeldishneigð sambandsins út á við. Við þurfum sem smáríki að vera inni í hlýjunni, svo að tekið sé tillit til hagsmuna okkar.

Hins vegar er ástæðulaust að kaupa aðganginn að Evrópu of dýru verði að hætti norsku ríkisstjórnarinnar. Við eigum ekki að fallast á að veita Evrópusambandinu yfirstjórn efnahagsmála í 200 mílna lögsögunni og ekki fallast á veiðikvóta til ágengra Evrópuríkja.

Með þetta í huga getum við sótt í alvöru um aðild að Evrópusambandinu, ekki til að kanna málin, heldur með því markmiði, að Ísland verði aðili. Það kemur ekki í veg fyrir, að slitnað geti upp úr viðræðum, ef kemur í ljós, að Evrópa fellur ekki frá fiskimiðafrekju sinni.

Það er ekki fáránlegra, að við krefjumst koparnáma á Spáni, marmaranáma í Grikklandi og olíulinda í Frakklandi, en að ríkisstjórnir þessara landa geri kröfur til að fá aðgang að íslenzkum auðlindum og að Evrópusambandið sjálft fái að skipuleggja þær og stjórna þeim.

Með því að setja ásóknina í íslenzk fiskimið í rétt samhengi gagnkvæmniskröfunnar og fáránleikans á að vera unnt að verjast slíkri ásókn, einkum eftir að norskir kjósendur hafa fellt samning, sem felur í sér óviðurkvæmilegt afsal norskra landsréttinda á þessu sviði.

Ef við berum höfuðið hátt og gefum ekkert eftir af því, sem mestu máli skiptir, getum við náð góðum árangri í æskilegum viðræðum um Evrópuaðild okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný kosningalög í vetur

Greinar

Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, hafa sameinazt um að óska eftir, að strax í vetur verði kosningalögum breytt í því skyni að afnema alveg eða því sem næst það mikla misvægi, sem nú er á atkvæðisrétti fólks eftir búsetu þess í landinu.

Athyglisvert er, að ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka standa að þessari yfirlýsingu, þar á meðal Framsóknarflokksins, sem löngum hefur verið andvígur breytingum á kosningalögum, af því að fylgi hans var lengst af meira í fámennum kjördæmum en í fjölmennum.

Hinar skörpu línur milli flokka á þessu sviði hafa verið að óskýrast. Framsóknarflokkurinn sækir nú orðið töluvert af fylgi sínu til suðvesturshornsins og hefur þingmenn þar. Formaður Sambands ungra framsóknarmanna kemur einmitt frá Reykjaneskjördæmi.

Ungliðahreyfingarnar hafa sameinazt um að gagnrýna núverandi kosningalög, þótt þau séu svo nýleg, að þau hafa aðeins verið notuð við tvennar kosningar. Í ályktun þeirra segir, að það sé samdóma álit ungs fólks úr öllum flokkum, að þessi nýlegu lög hafi mistekizt.

Það er einmitt eftirminnilegt siðleysið, sem einkenndi samningu þessara illræmdu kosningalaga. Höfundar laganna voru þingmenn, sem höfðu á sínum snærum reikningsstráka, sem reiknuðu þingmenn inn og út af þingi til að finna leið, er truflaði þingmenn sem minnst.

Niðurstaðan varð illskiljanlegur bastarður, sem jafnaði kosningarétt eftir flokkum meira en eftir kjördæmum og tafði um leið, að gengið væri af alvöru að jöfnun atkvæðisréttar eftir búsetu. Enda er það fyrst á þessu ári, að farið er að bera mikið á óánægju með kosningalögin.

Ungliðahreyfingarnar benda á, að í vetur séu síðustu forvöð að breyta kosningalögunum, ef unnt á að vera að koma breytingunum í framkvæmd fyrir aldamót. Það stafar af, að breytingar gilda auðvitað ekki í fyrstu, heldur í öðrum kosningum eftir fyrstu samþykkt þeirra.

Niðurstaða ungliðahreyfinganna felur ekki í sér samkomulag um, hvaða leið skuli valin að jöfnuði atkvæðisréttar eftir búsetu, heldur aðeins um sjálft markmiðið við væntanlega kosningalagabreytingu. En það eitt út af fyrir sig er afar merkilegt tímamótasamkomulag.

Þar að auki er athyglisvert, að það kom í ljós, að innan flestra ungliðahreyfinganna er mest fylgi við, að landið verði allt gert að einu kjördæmi, þótt ekki sé einhugur um að mæla með þeirri leið. Fólk vill hreinar og einfaldar línur í kosningalög, en ekki verzlun milli flokka.

Ungliðahreyfingarnar hafa unnið gott verk, komizt að sameiginlegri niðurstöðu og fengið hreyfingu á málið. Eftir helgina munu þær halda sjónvarpsfund með forustumönnum flokkanna, þar sem þeir verða knúnir svara um viðbrögð þeirra við þrýstingnum á kosningalögin.

Aukinn jöfnuður á þessu sviði stuðlar að þeirri tilfinningu, að hér búi ein þjóð í einu landi. Slík tilfinning verður þjóðinni nauðsynleg á næstu árum, þegar hún stendur andspænis viðskiptalegum ávinningi af auknu samfloti með öðrum þjóðum og tilsvarandi rýrnun fullveldis.

Jafnari staða eftir búsetu, jafnari staða eftir aldri, jafnari staða eftir kynjum, jafnari staða eftir tekjum og jafnari staða eftir stöðu í kerfinu. Allt eru þetta atriði, sem hjálpa kvartmilljónar manna þjóð til að standa saman um það, sem mestu máli skiptir í brimasamri framtíð.

Vonandi leiðir framtak ungliðahreyfinganna til samkomulags stjórnmálokkanna á þessum vetri um ný og betri kosningalög, sem nýtist í þarnæstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Forstokkun

Greinar

Framkvæmdastjóri Listahátíðar í Hafnarfirði viðurkennir mistök í starfi, en tekur samt enga áþreifanlega ábyrgð á þeim. Þáverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði og núverandi félagsráðherra játar á sig mistök vegna listahátíðarinnar, en tekur enga áþreifanlega ábyrgð á þeim.

Þáttur bæjarstjórans fyrrverandi er eitt af mörgum málum, sem hafa orðið honum til minnkunar í haust. Hann hefur veitt þunn eða engin svör við flestum þeirra. Hann tekur enga ábyrgð á ferli sínum sem bæjarstjóri og ráðherra. Og flokkur hans er þessu samþykkur.

Svo er nú komið í stjórnmálum og opinberum rekstri í landinu, að enginn tekur ábyrgð á neinu. Menn tala út og suður og játa mistök í einstaka tilvikum, þegar málsefni eru svo gróf, að engin útgönguleið er önnur. Síðan halda spilling og getuleysi áfram á óbreyttan hátt.

Orð halda ekki lengur í stjórnmálum og opinberum rekstri og þar á ofan eru skrifuð orð um það bil að bresta. Fjármálaráðherra tekur ekki mark á eigin undirskrift samnings ríkis við sveitarfélög um, að ekki verði framhald á framlagi sveitarfélaga í atvinnuleysissjóð.

Í stað þess að leita til sveitarfélaganna og óska eftir viðræðum um, að fyrra samningi verði breytt á þann hátt, að greiðsla frá sveitarfélögum haldi áfram á næsta ári, setur hann beint í fjárlagafrumvarpið þá upphæð, sem hann hyggst ná í, þvert á fyrri undirskrift sína.

Áður hefur vakið athygli, að hver þjóðarsátt, sem gerð er á vinnumarkaði að undirlagi stjórnvalda, felur í sér ákvæði um, að efnd skuli atriði, sem ríkisstjórnin lofaði með undirskrift næstu þjóðarsáttar á undan. Þannig hlaðast upp skrifleg loforð, sem eru marklaus með öllu.

Það er að verða meiri háttar vandamál í samskiptum við ríkið, að ekkert heldur lengur, ekki einu sinni undirskriftir. Svo er komið, að ráðherrar líta á undirskriftir sínar sem eins konar tæknibrellu til að komast til bráðabirgða yfir enn einn þröskuldinn í ráðherrastarfi.

Þetta ástand hefur smitað ríkisgeirann. Fjölmiðlar hafa svo mörg dæmi um, að embættismenn segi rangt frá eða svo takmarkað, að rangt má telja, að fréttamenn eru að hætta að trúa því, sem þeim er sagt, jafnvel þótt rétt sé. Traustið í þjóðfélaginu er að minnka.

Þá svara embættismenn út og suður ekki síður en ráðherrar. Eitt nýjasta dæmið er úr landbúnaðarráðuneytinu, sem úthlutar höfðingjum sumarbústaðalöndum á ríkisjörðum algerlega án auglýsingar, en heldur samt blákalt fram, að allir geti fengið slíkar lóðir.

Embættismaðurinn, sem svarar fyrir ráðuneytið, segir, að það hafi ekki tíma til að auglýsa sumarbústaðalóðir á ríkisjörðum, en það loki ekki dyrunum á þá, sem vilji fá slíkar lóðir. Þær eru leigðar á 6-14 þúsund krónur á ári til 25 ára með áframhaldandi forleigurétti.

Sumir embættismenn svara út í hött, á villandi hátt eða fara beinlínis með rangt mál eins og stjórnmálamenn án þess að gera sér mikla rellu út af því. Í stjórnkerfinu er farið að telja það eðlilegan gang lífsins og listgrein í sjálfu sér að blekkja fólkið í landinu sem allra mest.

Ekkert annað en skortur á sjálfsvirðingu getur gert stjórnmálamenn og embættismenn svo forstokkaða, að þeir axla ekki ábyrgð á verkum sínum, taka ekki mark á undirskriftum sínum, svara út í hött, villandi eða beinlínis rangt, þegar þeir eru spurðir um viðkvæm atriði.

Þetta eyðir smám saman því trausti, sem brýnt er, til þess að lýðræðisríki fái staðizt í tæknilega flóknum nútíma, er krefst góðs gangverks í þjóðfélaginu í heild.

Jónas Kristjánsson

DV