Greinar

Brengluð skilaboð

Greinar

Hæstiréttur og héraðsdómarar hafa verið að senda þau skilaboð til fólks, að það skuli ekki kæra ofbeldi, enn síður kynferðislegt ofbeldi og alls ekki kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Dómararnir muni gera kærendum lífið svo leitt, að þeir sjái eftir að hafa kært.

Lengst ganga dómarar í kærumálum vegna ofbeldis gegn börnum. Þeir neita að taka mark á framburði barna og fara alls ekki eftir lagaákvæðum um þyngd refsinga, ef þeir geta ekki fundið tæknilegar brellur til að eyða slíkum málum. Þeir hlífa afbrotamönnum á þessu sviði.

Ef þeir neyðast til að dæma afbrotamenn gegn börnum, nota þeir ekki tólf ára refsiheimildina, heldur dæma þá í þrjá mánuði skilorðsbundið, svo að þeir þurfa ekki að sitja inni. Þetta gera þeir, þótt um margendurtekin afbrot sé að ræða, svo sem nýlegt dæmi sannar.

Dómarar eru ekki einir um að valda vandræðum á þessu sviði. Rannsóknarlögregla hefur oft klúðrað málum af þessu tagi og raunar lengst af veitt kærendum svo grófar móttökur, að fólki finnst eins og verið sé að nauðga sér í annað sinn. Þess vegna þorir fólk ekki að kæra.

Athuganir benda eindregið til þess, að sáralítill hluti afbrota af þessu tagi sé kærður og að mörg þeirra, sem kærð eru, komist ekki á leiðarenda í kerfinu. Stafar það ýmist af tæknilegum örðugleikum við öflun sönnunargagna eða af áhugaskorti og vangetu rannsóknarmanna.

Til dóms koma aðeins fá mál, sem hafa þótt svo einföld og ljós og auðveld, að þorandi sé að fylgja þeim eftir. Þá taka dómararnir við, eyða málunum eða kveða upp dóma, sem eru svo ótrúlega vægir, að það jafngildir þriðju nauðguninni á kærendum slíkra mála.

Refsingar í dómum eru svo vægar, að þær mega teljast nánast engar og bætur eru einnig svo litlar, að þær mega engar teljast. Bætur eru svo aldrei greiddar, því að ríkið tekur ekki ábyrgð á þeim. Það greiðir sálgæzlu afbrotamanna, en neitar að borga fyrir þolendur.

Samanlagt myndar rannsókna- og dómstólakerfið múr utan um ofbeldisfólk, einkum kynferðislegt ofbeldisfólk og allra helzt það, sem beitir slíku ofbeldi gegn börnum. Þannig verður hver einstök nauðgun að þremur nauðgunum, annarri á rannsóknarstigi og þriðju á dómsstigi.

Kastljósið hefur að undanförnu beinzt að dómstólum landsins með Hæstarétt í broddi fylkingar. Eðlilegt er, að spurt sé, hvernig standi á hrapallegri meðferð þeirra á hverju málinu á fætur öðru, þannig að úr verður dómvenja, sem hlýtur að teljast í meira lagi ósiðleg.

Ef til vill ruglast dómarar í ríminu vegna réttmætra kenninga um, að dómar bæti ekki afbrotafólk. En það kemur bara ekki málinu við, því að markmið dóma er ekki að bæta eða lækna afbrotafólk, heldur að refsa því. Í lögum er talað um refsingu en ekki um lækningu.

Hitt er líklegra, að dómarar séu að einhverju leyti úti að aka í þjóðfélaginu, sumir hverjir sérvitrir og aðrir óhæfir, margir aldir upp í gömlum jarðvegi, þar sem peningaafbrot voru talin alvarlegri en persónuafbrot og nauðganir kannski hluti af eðlilegum gangi lífsins.

Með einhverjum hætti þarf þjóðfélagið að geta komið í veg fyrir, að dómarar sendi frá sér skilaboð, sem eru í misræmi við gildandi lög; í ósamræmi við þá stefnu löggjafar á síðustu árum að herða lög á þessu sviði; og í algerri andstöðu við helztu siðalögmál þjóðfélagsins.

Það grefur undan þjóðskipulaginu, ef opinbera kerfið hagar sér í veigamiklum atriðum á þann hátt, að það magnar vantrú og fyrirlitningu venjulegs fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Færri ferðir – meiri afrek

Greinar

Unnt er að minnka ferðakostnað ráðuneyta með sjónvarpssímafundum, sem eru farnir að ryðja sér til rúms erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Fundarmenn líta þá hver annan í sjónvarpstækjum eins og sjá má af slíkum fundum, sem haldnir eru á vegum sjónvarpsstöðva.

Með lagningu ljósleiðara til Íslands og um Ísland hefur þessi tækni orðið raunhæf, þótt verðlagi sé enn haldið óeðlilega háu hjá símaeinokun ríkisins. Helztu ráðuneyti ferðagleðinnar þurfa að koma sér upp sameiginlegu myndveri til að spara embættismönnum ferðalög.

Ferðakostnaður ríksins nam fyrir tveimur árum tæpum 800 milljónum króna erlendis og sömu upphæð innanlands, samtals tæpum 1.600 milljónum. Það eru of háar tölur fyrir kvartmilljón manna þjóð. Með markvissri notkun símafunda má lækka þær um helming eða meira.

Auðvitað þarf að semja við erlenda mótaðila um, að þeir komi sér upp sömu tækni á hinum endanum. Það getur tekið nokkur ár að fá Evrópusambandið, Efnahagssvæðið, Norðurlandaráð og aðrar slíkar stofnanir til að átta sig á sparnaðinum við sjónvarpsfundatækni.

Á tæknitímum nútímans er orðið úrelt að nota dýr samgöngutæki til að þveitast í eigin persónu fram og til baka yfir úthafið til að sækja klukkustundar fund í Stokkhólmi eða Brussel. Bandaríkjamenn hafa þegar áttað sig á þessu og Evrópumenn munu fylgja á eftir.

Hin nýja tækni er sérstaklega mikilvæg fyrir fólk, sem býr tiltölulega afskekkt og þarf að verja miklum tíma til ferðalaga umfram þá, sem búa nær valdamiðjum landsins, álfunnar eða heimsins. Sjónvarpssímafundir jafna almennt aðstöðuna milli miðjunnar og jaðarsins.

Það kostar íslenzkan embættismann þrjá ferðadaga að sækja klukkustundar fund, en þarf ekki að kosta hann nema tvær stundir, ef hann fer bara í myndver ríkisins. Hann getur notað afganginn af tímanum til að vinna við hefðbundnar og eðlilegar aðstæður í ráðuneyti sínu.

Þannig gefst betri tími til að tryggja, að Ísland missi ekki af neinum fundum, sem snerta hagsmuni ríkisins. Ekki þarf að koma fyrir, að Alþjóða heilbrigðisstofnunin kasti íslenzkum tölum út úr ársriti sínu, af því að íslenzkur embættismaður nennti ekki að mæta á brýna fundi.

Einnig þarf ekki að horfa í mikinn ferðakostnað til að koma í veg fyrir, að Tyrkjum takist að láta kasta séríslenzkum bókstöfum úr flokki undirstöðubókstafa vestrænna tölvukerfa. Við getum leyft okkur að senda marga færa menn á símafund, ef hagsmunagæzla okkar er brýn.

Að nokkru leyti stafar hár ferðakostnaður ríkisins af ferðahvetjandi reglum, sem valda því, að ráðherrar leggjast í ferðalög til að laga til í heftinu sínu. Með næsta fjármálaráðherra, sem væntanlega verður siðaðri, má laga þetta atriði og auka áhuga ráðherra á myndversfundum.

Ekki þýðir að reyna að koma á fót þeim tæknisparnaði, sem hér hefur verið fjallað um, ef hann stríðir gegn persónulegum fjárhagsmunum ferðagarpa hins opinbera. Ef ferðalög hætta að vera tekjuauki, er hægt að fá þá til að líta málefnalegar á kosti símafunda í myndveri.

Raunar ætti það að vera kappsmál afskekktrar þjóðar að losna annars vegar úr viðjum íhaldssamrar og okurgjarnrar símaeinokunar og knýja hins vegar fjölþjóðlegar stofnanir til að taka upp fundatækni, sem jafnar aðstöðu smárra og afskekktra ríkja til þátttöku í samstarfi ríkja.

Um þessar mundir er tæknilega einmitt kominn rétti tíminn til að hefja aðgerðir á þessu mikilvæga sviði, sem í senn leiðir til aukins sparnaðar og aukins árangurs.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðsþakkafé

Greinar

Fyrir fimm árum varð til sérstakt ráðstöfunarfé ráðherra vegna tilfallandi útgjalda, sem ekki var hægt að sjá fyrir á fjárlögum. Ráðherrar hafa ekki notað peningana þannig, heldur hneigzt að því að nota þá sem eins konar guðsþakkafé handa aðgangshörðu ölmusufólki.

Listar menntaráðherra fyrir árin 1992-1994 sýna vel þessa ölmusustefnu. Þar er löng röð smágreiðslna, sem hver fyrir sig er guðsþakkaverk. Samanlagt sýna þær, að heppilegra væri að taka samræmt á ölmusum, svo að beiningafólk hafi tiltölulega jafna aðstöðu til þeirra.

Kirkjukórinn í hreppi ráðherrans er áreiðanlega vel að hálfri milljón króna kominn. En hvað með alla hina kirkjukórana í landinu? Af hverju beinist guðsþakkaféð aðeins að einum kirkjukór? Er það af því að hann hefur betri aðstöðu en hinir til að afla ölmusunnar?

Við sjáum fyrir okkur ráðherra, sem nýtur þess að dreifa aurum til smælingja, er rekur á fjörur hans, en hefur í tvö ár ekki tíma til að ræða við málsaðila um vanefndir á framkvæmd samnings í ráðuneytinu. Málefnafólk kemst ekki að á biðstofu fyrir ölmusufólki.

Þetta minnir á aldraða miðaldahöfðingja, sem dreifðu smáaurum fyrir sálu sinni, en er í mótsögn við nútímann, sem byggist á jafnrétti og réttlæti, er á að koma í veg fyrir, að fólk fari á stafkarls stíg. Í stað tilviljanakenndrar ölmusu kemur skipulagt velferðarkerfi.

Tvö kerfi eru samhliða í landinu. Annars vegar er almennt kerfi, sem allir hafa aðgang að. Hins vegar eru svo skúffupeningar ráðherra, sem sitja lon og don við að gera mönnum greiða. Það fé, sem fer til slíkra guðsþakka, er ekki til ráðstöfunar í almenna kerfinu.

Raunar eru kerfin fleiri, því að víða eru millistig. Til dæmis eru húsbréf með reglum, sem gilda fyrir alla. Síðan eru félagslegar íbúðir, þar sem sumir hafa betri aðgang en aðrir. Loks er svo persónuleg greiðasemi hafnfirzkra bæjarstjóra við flokksbræður, ættingja og vini.

Ráðherrar og bæjarstjórar, sem einbeita sér að guðsþakkaverkum, eru áreiðanlega góðmenni. Sumir hafa gert einstaklingsbundin góðverk að sérgrein sinni og eru stoltir af því að kallast fyrirgreiðslumenn. En þetta eru úrelt vinnubrögð úr fortíðinni fyrir daga jafnréttis.

Það, sem einn fær, fá hinir ekki. Þess vegna hefur nútíminn byggt upp aðferðir til að dreifa peningum á þann hátt, að sem flestir hafi sem jafnasta aðstöðu til að njóta þeirra. Eru í því skyni settar upp reglugerðir, þar sem talin eru upp ýmis skilyrði og forgangsatriði.

Samtök íþróttafréttamanna hafa notið ölmusu menntaráðherra til styrktar starfsemi sinni. Án efa er þar um að ræða þurfandi stafkarla. En hvernig veit ráðherrann, að einmitt þau samtök séu aumust allra slíka af öllum hinum fjölmörgu stéttarfélögum í landinu?

Þar á ofan telur ráðherrann nauðsynlegt að skera niður flestar fjárveitingar til ýmissa sjóða, sem reyna með mismunandi árangri að dreifa peningum í samræmi við lög og reglugerðir, en ver sjálfur miklu af tíma sínum til að dreifa sams konar peningum í formi guðsþakkafjár.

Þetta stafar af, að menntaráðherra hefur, eins og fleiri slíkir, misst sjónar á hlutverki ráðherra og á eðli jafnréttishugtaksins að baki stjórnskipulags landsins. Úr samanlögðum guðsþökkum af þessu tagi verður til spilling, sem við sjáum alls staðar í stjórnkerfinu um þessar mundir.

Hvorki fjármálaráðherra né aðrir ráðherrar vilja taka á þessu, af því að þeir telja, að kjósendur muni hér eftir sem hingað til leyfa þeim að komast upp með það.

Jónas Kristjánsson

DV

Innhverft útvarp

Greinar

Athyglisvert er, að Ríkisútvarpinu gengur verr en öðrum fjölmiðlum að halda úti pistlahöfundum. Þar hriktir í meginstoðum, þegar pistlahöfundar segja skoðun sína eins og þeir eru ráðnir til að gera. Á öðrum fjölmiðlum verður ekki vart við þetta sérkennilega vandamál.

Einkum eru stóru dagblöðin full af lausum og föstum dálkahöfundum, sem sumir hverjir hafa róttækar skoðanir á umræðuefni sínu og kveða fast að orði. Enginn virðist hafa áhyggjur af þessu, enda er hver skoðun ekki nema hluti af stóru mynztri skoðanaskipta í landinu.

Á Ríkisútvarpinu og umhverfis það virðast menn ekki geta horft á þennan stóra skóg í heilu lagi, heldur eru uppteknir af að horfa á einstök tré, sem þeir segja, að valdi sér sífelldum vandræðum. Viðkvæmni af þessu tagi bendir til, að ritstjórnarkerfið sé ekki í lagi.

Af hverju fer Ríkisútvarpið ekki hina leiðina og biður Hannes H. Gissurarson að hvetja hnífana fyrir kosningar til mótvægis við Illuga Jökulsson? Það væri uppbyggilegra að hlusta á rökstuddar skammir þeirra en að þola marklaust geðveikisrugl á símanum í Þjóðarsálinni.

Í fátinu var Hannes líka látinn fara, að því er virðist til mótvægis við brottrekstur Illuga. Í stað þess að hafa hóp lausra og fastra dálkahöfunda, sem spanna fjölbreytileg sjónarmið og mismunandi milda framsetningu þeirra, situr Ríkisútvarpið uppi fátækast fjölmiðla á sviðinu.

Þetta skiptir litlu fyrir þjóðfélagsumræðuna í landinu. Ef hún minnkar á einum stað, eykst hún á öðrum, svo sem sést af þætti Marðar Árnasonar og Hannesar H. Gissurarsonar á Stöð 2. Heimurinn heldur áfram að snúast, þótt umræðan dofni um sinn í Ríkisútvarpinu.

Þeir aðilar, sem hafa staðið í að ónáða yfirmenn Ríkisútvarpsins, þar á meðal félagar í Útvarpsráði; svo og þeir yfirmenn útvarpsins, sem hafa látið ónáða sig út af þessu máli, líta of stórum augum á stofnunina. Þeir tímar eru löngu liðnir, að hún var yfirfjölmiðill landsins.

Ríkisútvarpið er bara einn af fjölmiðlum landsins, rekið meira eða minna í samkeppni við aðra fjölmiðla, sem eru svipaðir að burðum. Því fer fjarri, að fréttir og skoðanir í Ríkisútvarpinu ráði hugsun og hegðun landsmanna. Ekki heldur skoðanir Illuga og Hannesar.

Undarlegt er, að yfirmenn á Ríkisútvarpinu láta fólk segja sér, að það telji skoðanir í útvarpinu vera skoðanir stofnunarinnar. Engum dettur í hug að telja dálkahöfunda dagblaða vera slíkan stofnanamat, að hann ónáði ritstjóra dagblaða með úreltum kvörtunum af því tagi.

Mál þetta bendir til of mikillar innhverfu í ritstjórnarkerfi Ríkisútvarpsins, með Útvarpsráð og sveit forstjóra í broddi fylkingar. Ríkisútvarpið hefur aldrei verið nafli alheimsins og er það allra sízt nú á tímum frjásrar fjölmiðlunar, þegar skoðanir eru hvarvetna á boðstólum.

Þar að auki hefur Ríkisútvarpið fallið í þá gryfju að láta ónáða sig til að draga úr rökstuddum skoðanaskiptum á sama tíma og stofnunin hefur efnt til og haldið úti þeirri símaþvælu, sem fyrirferðarmest er í skoðanaskiptum í landinu, það er að segja Þjóðarsál á beinni línu.

Brottrekstur Illuga og Hannesar er enn eitt dæmið, sem bendir til, að úrelt sé orðið að reka Ríkisútvarpið á vegum ríkisins og eftirlitsmanna þess. Það kerfi, sem einu sinni þótti vera til bóta, er orðið úrelt og innhverft í langri og hraðri þróun fjölmiðlunar í landinu.

Ríkisvaldið á ekki að hafa afskipti af fjölmiðlun í landinu. Það hefur meira en nóg á sinni könnu, þótt það sé ekki að vasast í mati á gæðum pistla- og dálkahöfunda.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðrir eru skárri

Greinar

Forsætisráðherra ver spillingu ráðherra og ráðuneytisstjóra með því að segja embættaveitingar ekki flokkspólitískari hér á landi en í öðrum löndum. Hann segir alls staðar tíðkast, að valdamenn ráði flokksbræður sína, og benti sérstaklega á Bandaríkin til samanburðar.

Í Bandaríkjunum er annað kerfi. Þar eru kosnir beint fjölmargir embættismenn, sem hér eru ráðnir ævilangt. Þar fylgja stjórnmálamönnum ýmsir aðstoðarmenn, sem fara líka, þegar lénsherrar þeirra fara úr embætti. Skjólstæðingar sitja ekki áfram, eins og sumir gera hér.

Án efa er minni pólitísk spilling í Bandaríkjunum en hér. Til dæmis mundu Bandaríkjamenn aldrei þola, að ráðherrar gerðu ekki skýran greinarmun á kostnaði í þágu hins opinbera, í þágu flokksins og í einkaþágu. Bandarískir ráðherrar sundurgreina slíkt í reikningum.

Einnig vilja Bandaríkjamenn, að háir og lágir séu jafnir fyrir lögum og reglum. Þar gætu ráðherrar ekki haft aðrar skattareglur fyrir sig en annað fólk og þar gætu ráðuneytisstjórar í heilbrigðisráðuneytum ekki rekið ráðuneytið eins og ættar- eða fjölskyldufyrirtæki.

Bandaríkjamenn þyldu ekki, að hluti af launum ráðherra væri dulbúinn sem dagpeningar á ferðalögum, sem bætast við allan ferðakostnað þeirra, sem greiddur er sérstaklega fyrir utan dagpeningana. Þar ferðast ráðherrar ekki til þess eins að ná hærri tekjum í vasann.

Ekki væri látið viðgangast í Bandaríkjunum, að valdamenn liggi á upplýsingum um geðþóttagreiðslur ráðherra, svokallaða skúffupeninga, sem hér hafa tíðkazt. Þar segja lög og reglur, að stjórnvöld skuli starfa fyrir opnum tjöldum, en ekki á bak við byrgða glugga.

Íslenzkir ráðherrar eru svo forstokkaðir, að menntaráðherra taldi sér kleift að gagnrýna innihald skúffupeningaskráa annarra ráðherra, á meðan hann vildi ekki gefa út eigin skrá. Segja má þó samráðherrum hans til hróss, að þeir höfðu hann ofan af þessu í tæka tíð.

Íslenzkir ráðherrar eru svo forstokkaðir, að fjármálaráðherra telur sér kleift að halda uppi ferðahvetjandi launakerfi í dagpeningaformi fyrir ráðherra þrátt fyrir mikla gagnrýni, á sama tíma og hann reynir að skera niður hálfa daga í greiðslum til óbreyttra liðsmanna.

Ef forsætisráðherra vill bera íslenzka spillingu saman við erlenda, á hann ekki að lasta þá, sem ekki eiga það skilið, svo sem Bandaríkjamenn. Hann á frekar að segja, að spilling sinna ráðherra sé ekki meiri en hjá harðstjórum í þriðja heiminum eða til skamms tíma á Ítalíu.

Nú eru Ítalir að reyna að hreinsa til hjá sér, enda grotnaði gamla flokkakerfið niður í eigin spillingu. Frakkar eru að byrja að draga ráðherra fyrir dóm. Í engilsaxneskum löndum og á Norðurlöndum hefur áratugum saman verið hreinna borð í pólitískum siðum en hér á landi.

Það er einmitt af slíkum ástæðum, að margir Íslendingar hafa í seinni tíð hneigzt til stuðnings við Evrópusambandið. Þeir eru orðnir svo þreyttir á forstokkuðum stjórnmála- og embættismönnum íslenzkum, að þeir vilja heldur fá að sjá útlend áhrif á gang íslenzkra mála.

Slík viðhorf eru hættuleg. Ef kjósendur gefast upp og telja innlenda umboðsmenn sína ólæknandi á sviði spillingar, er skammt í, að innihaldið skorti til að reka sjálfstætt ríki hér á landi. Við verðum að gera sjálf hreint fyrir okkar dyrum, en ekki mæna á lausn frá Evrópu.

Það er einmitt hornsteinn íslenzkrar spillingar í stjórnmálum og opinberum rekstri, að kjósendur hafa látið ráðamenn sína komast upp með að þenja út gráu svæðin.

Jónas Kristjánsson

DV

Nú er loksins nóg komið

Greinar

Umræðan um embættisfærslur fyrrverandi bæjarstjóra og núverandi félagsráðherra mun koma að nokkru gagni, þótt hún leiði ekki snarlega til marktækra umbóta í meðferð ráðherravalds. Hún mun til dæmis stuðla að slæmri útkomu Alþýðuflokksins í kosningunum í vor.

Þetta er eðlileg afleiðing af því, að leifar Alþýðuflokksins hafa að mestu leyti fylkt sér um ráðherrann og hafnað umræðunni sem marklausri árás. Því til staðfestingar hefur flokkurinn vísað málinu til Ríkisendurskoðunar, sem tæpast getur fjallað um siðamál af þessu tagi.

Í vörnum fyrir ráðherrann hefur verið lögð áherzla á, að embættisfærslurnar hafi ekki verið ólöglegar, þótt aðilar úti í bæ telji þær ósiðlegar. Þetta er gamalkunnug vörn, sem byggist á, að of lítið er um, að lög og reglur hefti valdbeitingu af hálfu bæjarstjóra og ráðherra.

Í vörnunum hefur líka verið lögð áherzla á, að margumræddur stjórnmálamaður sé alls ekki einn um að hafa beitt bæjarstjóra- og ráðherravaldi á umdeildan hátt. Þetta er líka gamalkunnug vörn, sem felst í raun og veru í að segja: Hinir eru ekkert betri en ég.

Í þriðja lagi hefur í vörnunum verið lögð áherzla á að telja annarlegar hvatir vera að baki gagnrýninnar, einkum þá, að hún sé upprunnin hjá flokksbróður ráðherrans, heilbrigðisráðherra, sem sé að berjast við félagsráðherra um næstu formennsku í Alþýðuflokknum.

Samsæriskenningin hefur nokkurn hljómgrunn, af því að hefðbundið er í þjóðmálunum, að menn geti litið fram hjá innihaldi þess, sem sagt er, og einbeitt sér í staðinn að spurningum á borð við: Hver sagði það, hvers vegna sagði hann það og hver stendur á bak við það?

Þeir, sem að staðaldri skrifa um íslenzk stjórnmál, komast ekki hjá því að taka eftir, hversu sjaldan menn bregðast við efnisatriðum gagnrýni og hversu oft þeir einbeita sér að því að finna, hvaða hvatir séu líklega að baki gagnrýninni og hver sé höfundur að samsærinu.

Þannig er reistur þrefaldur múr umhverfis fyrrverandi bæjarstjóra og núverandi félagsráðherra. Hann er sagður ekki hafa gert neitt, sem sé beinlínis ólöglegt; hann er sagður ekkert verri en hinir; og hann er sagður vera fórnardýr samsæris að undirlagi keppinautar.

Þetta fellur í kram margra, enda hafa ekki myndazt hér á landi neinar siðgæðishefðir, sem líkjast þeim, er ráða ferðinni hjá nágrönnum okkar í engilsaxneskum löndum og á Norðurlöndum. Stjórnmálamenn setja ekki lög um siði sína, en bylta sér um á gráum svæðum.

Sjálfsöryggi ráðamanna á þessu sviði sést af, að fjármálaráðherra hyggst skera niður hálfa daga í greiðslum til minni háttar embættismanna, sem koma frá útlöndum á miðjum degi, en heldur óbreyttum ferðahvetjandi greiðslum til ráðherra umfram ferðakostnað þeirra.

Munurinn á félagsráðherra og öðrum valdamönnum er líklega mestur sá, að þeir fara með löndum og reyna að dylja vafasamar embættisfærslur sínar til að minnka líkur á umfjöllun, en bæjarstjórinn og félagsráðherrann stökk hins vegar ótrauður og áberandi út í fenið.

Hingað til hefur umræða um spilltar embættisfærslur ekki leitt til mælanlegra áhrifa á fylgi stjórnmálaflokka eða -manna. Kjósendur hafa ekki talið, að vandamálið keyrði svo úr hófi fram. En ýmislegt bendir til, að þetta sé að breytast og spilling fari senn að hefna sín.

Meðal annars mun fólk verða þyngra viðskiptis í næstu kjarasamningum og kjósendur munu verða Alþýðuflokknum næsta erfiðir í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjósendur í svefnrofunum

Greinar

Fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar og núverandi félagsráðherra er ekki einn á báti í misbeitingu valds til einkavinavæðingar. Hann kom að vísu eins og sprengja inn í spillinguna og hefur á skömmum tíma afrekað meira á því sviði en aðrir valdamenn til samans.

Svonefndir nornaveiðarar á fjölmiðlum hafa haldið áfram svokölluðum galdraofsóknum og fundið, að utanríkisráðherra Alþýðuflokksins hefur einnig verið drjúgur á sviðinu. Hann fór fremur hægt af stað, en hefur síðan aukið ferðina samkvæmt formúlunni, að allt vald spillir.

Utanríkisráðherra hefur á ferli sínum ráðið tólf alþýðuflokksmenn til ráðuneytisins og til starfa á Keflavíkuflugvelli, alla án auglýsingar á störfunum. Í öllum tilvikum gekk hann framhjá reyndu fólki í ráðuneytinu og á vellinum og spillti um leið starfsandanum.

Ráðherrann gróf undan ráðuneytisstjóranum í sumar, þegar hann lét hann fullyrða, að búksláttarfræðingur og fyrirhugað sendiherraígildi í London hefði formlega diplómatastöðu. Skömmu seinna varð ráðuneytisstjórinn að fífli, þegar ígildið fékk loks slíka pappíra.

Utanríkisráðherra hefur leikið ráðuneytið grátt á valdaferli sínum. Hann hefur meðhöndlað það eins og sandkassa, hrakið hæfan hafréttarfræðing úr starfi og hlaðið upp fólki, sem ekki getur unnið fyrir sér úti í þjóðfélaginu. Hann hefur gert ráðuneytið illa starfhæft.

Þótt þessi spilling hafi grafið um sig á nokkrum tíma og farið hægt vaxandi, hefur hún fallið í skugga sprengunnar úr Hafnarfirði, sem hefur verið umræðuefni fjölmiðla í þessum mánuði. Sameiginlegt í báðum tilvikum er, að forustuflokkur spillingar ræður ferðinni.

Alþýðuflokkurinn er orðinn svona spilltur, af því að ráðamenn hans hafa sannfært sig um, að kjósendur séu fljótir að gleyma og láti spillinguna ekki koma niður á flokknum. Með djarflegri framgöngu flokksbroddanna í kosningabaráttu megi hjálpa fólki til að gleyma.

Ráðamenn Alþýðuflokksins hafa líka sannfært sig um, að tiltölulega fáir kjósendur geri sér rellu út af spillingu og aðrir muni í staðinn halla sér að flokknum í von um feita bita af einkavinaborði valdsins. Og það er einmitt rétt, að kjósendur eru bæði áhugalitlir og gleymnir.

Ráðamenn Alþýðuflokksins vara sig hins vegar ekki á, að almennt stefnir stjórnkerfið hægt og sígandi í átt frá skömmtun og fyrirgreiðslu til fastra mynztra og reglna, sem mismuna ekki borgurum landsins. Aukin einkavinavæðing Alþýðuflokksins stefnir í öfuga átt.

Þótt kjósendur hafi ekki nógu miklar áhyggjur af spillingu, eru þeir vafalaust í stórum dráttum fylgjandi því, að Ísland færist smám saman í átt til siðmenningarríkja á því sviði. Það getur hefnt sín á Alþýðuflokknum að reyna að færa spillingarklukkuna aftur á bak.

Um þessar mundir mælist Alþýðuflokkurinn með minna en 6% fylgi. Það jafngildir, að þjóðin hafi að sinni hafnað flokknum sem marktækum þátttakanda í stjórnmálum. Ekki er víst, að ráðherrunum verði að þeirri von, að kjósendur hafi gleymt öllu í næstu kosningum.

Ef ættingja- og einkavinaflokkurinn fær verðuga ráðningu í næstu kosningum, hafa kjósendur lagt sitt af mörkum til að vara stjórnmálamenn og -flokka við að ganga of langt í spillingu. Slík viðbrögð kjósenda mundu vafalítið leiða almennt til hægfara samdráttar í spillingu.

Eftir allt, sem á undan er gengið, er orðið brýnt fyrir kjósendur að losna undan því ámæli, að þeir hafi hvorki greind né minni til að standa undir hlutverki sínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Aldrei heyrt hans getið

Greinar

Fang Tseng hefur tvisvar hlotið gullverðlaun á Þriðja heims leikum fatlaðra. Hann er fótalaus kringlukastari í Kína og vinnur fyrir sér með því að selja gos og smávörur við þjóðvegi. Hann reiknaði með að fá að taka þátt í leikum ársins, sem voru haldnir í síðustu viku.

Í sumar kom í ljós, að Fang hafði misst fæturna, er skriðdreki Kínahers ók yfir hann á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Fang var rekinn heim og Kína sendi engan kringlukastara á leikana. Þar vannst kringlan á 12 metrum, en Fang hafði kastað 27 metra í sumar.

Deng Pufang er líka fatlaður, máttlaus neðan mittis. Hann fatlaðist árið 1968, þegar honum var ýtt út um glugga í menningarbyltingunni vegna föður hans, sem er hinn frægi Deng, ráðamaður að tjaldabaki í Kína. Deng Pufang er formaður velferðarráðs fatlaðra.

Deng yngri reyndi að fá stjórnvöld til að endurskoða brottrekstur Fangs, en fékk því ekki framgengt. Þegar vestrænir blaðamenn spyrja nú Deng yngra um þetta mál, segist hann ekki hafa hugmynd um, hver Fang sé. Hann hefur gersamlega strikazt úr minni Dengs yngra.

Sama er að segja um aðra ráðamenn, sem hafa komið að þessu máli. Enginn þeirra hefur nokkru sinni heyrt Fangs getið. Meðal þeirra er Li Peng forsætisráðherra, sem opnaði Þriðja heims leika fatlaðra að þessu sinni, nýkominn úr kurteisisheimsókn til Þýzkalands.

Li forsætisráðherra var sá, sem á sínum tíma gaf skipun um blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar. Hann er dæmigerður ráðamaður í Kína, fantur og fúlmenni eins og hinir. Við erum heppin, að hann skuli ekki hafa lagt leið sína um Keflavíkurflugvöll í kurteisisferðunum.

Fulltrúar Kína á alþjóðavettvangi eru fleiri. Í síðustu viku var Xu Huisi hershöfðingi í kurteisisheimsókn í bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Xu þessi var sá, sem framkvæmdi skipun Lis um blóðbað á Torgi hins himneska friðar. Hinir blóði drifnu gera því víðreist.

William Perry, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tók Xu með kostum og kynjum, viðraði sig upp við hann og hrósaði Kína opinberlega. Þetta er í anda þeirrar stefnu, að Bandaríkin verði að gera hosur sínar grænar fyrir ríki, sem verði helzta heimsveldi næstu aldar.

Kína nýtur svonefndra beztukjara viðskipta í Bandaríkjunum og notfærir sér þau til að selja Bandaríkjamönnum vörur, sem framleiddar eru af pólitískum þrælum í fangabúðum. Sjálfsagt hafa ráðamenn Kína bandaríska starfsbræður að háði og spotti heima fyrir.

Kínastjórn endurgeldur engan veginn stinamýkt Bandaríkjastjórnar. Kína er eina kjarnorkuveldið, sem eflir vígbúnað sinn um þessar mundir og hið eina, sem stundar tilraunir með kjarnorkuvopn. Kína er líka eina ríkið, sem beinir kjarnorkuvopnum að Bandaríkjunum.

Þótt ótal dæmi séu til viðvörunar, virðast bandarísk stjórnvöld ímynda sér, að núverandi stjórnvöld í Kína séu eilíf og þess vegna beri að vingast við þau og hunza stjórnarandstæðinga í Kína. Illmennastjórnin í Kína mun hins vegar hrynja eins og aðrar stjórnir kommúnista.

Hvað eftir annað hefur Bandaríkjastjórn fjárfest í erlendum skúrkum, sem hafa kvalið og kúgað þjóðir sínar. Þegar þeim hefur verið velt úr sessi, hefur Bandaríkjastjórn reynzt erfitt að ná góðu sambandi við arftakana. Samt lærir Bandaríkjastjórn aldrei af reynslunni.

Dæmi kringlukastarans Fengs sýnir raunverulegt óeðli þeirra ráðamanna Kína, sem vestrænir stjórnmálamenn, þar á meðal íslenzkir, eru að reyna að sleikja.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvenær er nóg komið?

Greinar

Umræðan um vafasöm embættisverk fyrrverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði og fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefur fallið í hefðbundinn farveg. Þolandi umræðunnar kallar hana galdraofsóknir og ýmsum öðrum slagorðum, en forðast efnisatriði málsins sem allra mest.

Þetta dugir flokksbræðrum hans í kjördæminu mæta vel. Þeir segjast þjappa sér um hann. Þetta gerist alltaf í stjórnmálaflokkum, þegar foringjar lenda í vondum málum, ekki sízt í Alþýðuflokknum, sem orðinn er höfuðflokkur spillingarinnar, síðan Jóhanna sagði af sér.

Þolandi umræðunnar varð bæjarstjóri í ríku bæjarfélagi, sem hafði miklar álverstekjur umfram önnur sveitarfélög. Hann vandist því að geta haft um sig hirð skjólstæðinga og geta grýtt peningum í ýmsar áttir. Þennan ósið flutti hann síðan með sér yfir í ráðuneytið.

Þolandinn telur sig vera á gráu svæði eins og aðra stjórnmálamenn. Svo virðist, sem hann telji sig bara hafa verið að gera það sama og aðrir, sem komast í meirihlutaaðstöðu og fá völd út á það. Hann ofmetur spillingu annarra, sem ramba af og til út á gráa svæðið.

Munurinn á honum og öðrum stjórnmálamönnum, sem daðra við spillingu, er, að hann heldur sig sem mest á gráa svæðinu og leitast við að þenja það út. Hann hefur á skömmum stjórnmálaferli hlaðið upp mun lengri lista spillingarmála en aðrir stjórnmálamenn á löngum ferli.

Þegar gráa svæðið er þannig þanið út, sigla aðrir stundum í kjölfarið með tilvísun til þess, að hefð sé komin á hin spilltu vinnubrögð. Þannig grefur spillingin um sig fyrir tilverknað þeirra, sem framtakssamastir eru á sviðinu, svo sem umræddur bæjarstjóri og ráðherra.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur Alþýðuflokkurinn orðið að forustuflokki á sviði spilltra embættaveitinga. Hann hefur á ótrúlega skömmum tíma hlaðið upp sendiherrum og forstjórum í ríkiskerfinu, svo og nefndakóngum af ýmsu tagi og hirðmönnum á ævintýralaunum.

Auðvitað var ekki rúm fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur í slíku ráðherraliði. Hún var of heiðarleg til að haldast þar við. Enda er nú sagt í gráu gamni og alvöru, að Alþýðuflokkurinn sé bandalag þeirra, sem hafi náð embætti út á flokkinn og þeirra, sem ætla sér að gera það.

Ýmislegt bendir til, að kjósendur láti sér fátt um finnast, einkum ef stjórnmálamenn eru einnig dugmiklir á öðrum sviðum. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki, því að ráðherrann reyndist afar illa í heilbrigðisráðuneytinu og sprengdi kostnað langt upp úr fjárlögum.

Því er ekki víst, að Alþýðuflokkurinn komist upp með að hafa skýra forustu í spillingu og bjóða þjóðinni upp á ráðherra með lengstan lista spillingarmála á stytztum tíma. Því er ekki víst, að Alþýðuflokkurinn geti látið duga að þjappa sér utan um hinn gagnrýnda ráðherra.

Einhvern tíma verða kjósendur að stinga við fótum. Annars mun spillingin smám saman magnast við víkkun gráa svæðisins. Ítalir fundu sinn spillingarbotn afar seint og á miklu dýpi, en þeir fundu hann. Einhvern tíma verða Íslendingar að gera upp sakir á svipaðan hátt.

Í vetur mun koma í ljós, hvert hlutverk Alþýðuflokkurinn ætlar spilltasta ráðherranum í kosningunum, og í vor mun koma í ljós, hvert hlutverk kjósendur ætla spilltasta stjórnmálaflokknum í kosningunum. Kannski verða menn þá loksins búnir að fá nóg af sukkinu.

Einhvern tíma neyðast kjósendur til að afsanna kenningu úr leiðurum þessa blaðs, að þeir hafi þær áhyggjur einar af spillingu að komast ekki í hana sjálfir.

Jónas Kristjánsson

DV

Stýfum kvótann strax

Greinar

Við ættum að vera að nota svigrúm þorskveiðanna í norðurhöfum til að minnka þorskkvótann við Ísland að sama marki. Við fáum að minnsta kosti 40 þúsund tonn í norðurhöfum og ættum því að geta sigið úr 155 þúsundum tonna í 115 þúsund tonna þorskafla á heimamiðum.

Við erum enn að veiða þorsk í fiskveiðilögsögu okkar langt umfram tillögur fiskifræðinga. Svo hefur verið árum saman. Að meðaltali höfum við farið 62 þúsund tonn á ári fram úr tillögunum. Frá 1987 til 1994 höfum við samtals veitt 430 þúsund tonn umfram tillögurnar.

Ár eftir ár höfum við teflt á tæpasta vað í þorskveiðum okkar. Afleiðingin er, að ekkert klak hefur heppnazt í tíu ár. Seiðatalning á þessu hausti sýnir enn einn magran árgang. Það kemur ekki á óvart, því að önnur vegsummerki sýna, að þorskstofninn er að hruni kominn.

Of lítill hrygningarstofn er sennilegasta skýringin á, að góð klakár eru hætt að koma. Og hrygningarstofninn hefur árum saman verið óvenjulega lítill og farið minnkandi með hverju ári. Að baki þessarar ógæfu er sennilega ekkert annað en langvinn ofveiði okkar á þorski.

Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra hefur reynt að ná stuðningi ríkisstjórnarinnar við minni þorskkvóta, en ekki tekizt. Eftir seiðatalningu þessa hausts hefur hann ítrekað þetta og sagzt harma, að ekki hafi náðst pólitísk samstaða um að fara að tillögum fiskifræðinga.

Nú ber ráðherranum að herða aftur upp hugann og leggja til við ríkisstjórnina, að kvóti nýbyrjaðs fiskveiðiárs verði minnkaður frá því, sem áður hafði verið boðað. Það er ekki nóg að bíða í heilt ár eftir tillögum um minni þorskveiði en nú er heimiluð samkvæmt kvóta.

Ef ríkisstjórnin hafnar slíkum tillögum sjávarútvegsráðherra, hefur hún tekið þunga ábyrgðarinnar af herðum hans og flutt yfir á sínar. Meðan svo er ekki, hvílir ábyrgðin þyngst á honum. Og það er þung ábyrgð að sitja aðgerðalaust yfir hruni íslenzka þorskstofnsins.

Því miður hafa skammtímasjónarmið eflzt í stjórnmálum landsins. Ráðamenn flokkanna eru flestir ófúsir að horfa til langs tíma. Þeir líta í bezta lagi til næstu kosninga og í sumum tilvikum aðeins til næstu pólitísku slagsmála. Þeir eru burtreiðamenn, en engir stjórnvitringar.

Þetta er þjóðinni sjálfri að kenna. Hún hefur hallað sér í auknum mæli að kjaftforum kraftaverkamönnum, þar sem hver kynslóð froðusnakka er spilltari en hin næsta á undan. Hún virðist orðin ófær um að greina kjarnann frá hisminu í vali sínu á stjórnmálamönnum.

Þegar þjóð, sem er ófær um að vera sjálfstæð, velur sér stjórnmálamenn, sem eru ófærir um að varðveita fjöregg hennar, er ein af niðurstöðunum sú, að þorskstofninn hrynur. Og ekki virðist vera pólitískur vilji til að horfast í augu við raunveruleikann á þessu sviði.

Merkilegt er, að engum stjórnmálamanni virðist detta í hug, að virðing hans yxi og staða hans efldist, ef hann horfðist í augu við alþjóð og segði: Því miður höfum við gengið of langt í þorskveiðum og verðum að kúvenda, þótt það kosti háa og lága miklar fórnir um tíma.

Þetta er einmitt það, sem ístöðulitla þjóð vantar um þessar mundir. Hún þarf landsfeður, sem geta leitt hana af villigötu ofveiðinnar á þorski. Hana skortir langtíma- leiðtoga, sem hafa kjark til að stýfa þorskkvótann strax úr 155 þúsund tonnum niður í 115 þúsund tonn á ári.

Við höfum einmitt tækifæri nú, því að veiðin í norðurhöfum gefur okkur að minnsta kosti 40 þúsund tonna þorskafla, sem bætist ofan á aflann af heimamiðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Örlög ráða

Greinar

Fjárhagur þjóðarinnar mun alls ekki batna á næstu árum, heldur versna. Við höfum ekki enn náð botni kreppunnar, af því að árangursríkar veiðar togaraflotans við Svalbarða og í Barentshafi hafa mildað afleiðingarnar af samdrætti í þorskveiðum á heimamiðum okkar.

Ef áfram verður unnt að ná nokkurra milljarða króna búbót í þorski við Svalbarða og í Barentshafi á hverju ári, kemur það í stað minni þorskafla á heimamiðum. Það gefur sjómönnum miklar tekjur og heldur uppi frambærilegri rekstrarstöðu í sjávarútveginum í heild.

Aðrar greinar atvinnulífsins hafa í stórum dráttum lagað sig að nýjum og verri lífsskilyrðum. Hálfsársuppgjör ýmissa stórfyrirtækja sýna, að þeim hefur tekizt að halda sjó, til dæmis með því að fækka fólki á launaskrá og með því að rýra launakjör þess, sem eftir situr.

Þjóðin í heild hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni í þrengingum sínum. Það sést bezt af vöruskiptajöfnuðinum við útlönd, sem er afar hagstæður. Það felur í sér, að við borgum fyrir innfluttar vörur með útfluttum vörum og eigum samt mikinn afgang til að greiða niður skuldir.

Aðlögunin að kreppunni hefur ekki verið ókeypis. Stéttaskipting hefur magnazt og vaxandi fjöldi fólks býr hálfgerðu eymdarlífi á þjóðfélagsjaðrinum. Atvinnuleysi er mikið, þótt það sé hætt að vaxa, og er orðið að föstum áhrifavaldi í mótun nútímaþjóðfélags á Íslandi.

Á næsta ári verða tekjur af þorskveiðum á heimamiðum mun lægri en þær eru á þessu ári. Til þess að jafna upp þann missi verða tekjur af þorskveiðum í norðurhöfum að verða mun hærri en þær hafa verið að undanförnu. Telja verður ólíklegt, að slíkt muni takast.

Búast má því við, að efnahagsástandið verði heldur lakara á næsta ári en það er um þessar mundir. Það mun hægfara síga á ógæfuhliðina á svipaðan hátt og hefur verið að gerast á undanförnum misserum. Jafnframt eru langtímahorfur síður en svo bjartar.

Við höfum um langt skeið ofveitt þorsk og fleiri stofna. Við höfum ekki farið að ráðum fræðimanna á þeim sviðum, heldur teflt á tæpasta vað. Afleiðingin er sú, að þorskstofninn stendur ekki lengur undir væntingum um stóra árganga. Það er búið að ganga of nærri honum.

Auknar líkur eru á, að við lendum í sama þorskleysi og Færeyingar og verðum að stíga sama skref og Kanadamenn, það er að leggja niður þorskveiðar á heimamiðum um langt árabil. Ef við lendum í því sjálfskaparvíti, magnast kreppan snögglega í stað þess að aukast hægt.

Við ættum að nota 40.000 tonna árlega búbót í norðurhöfum til að minnka heimaaflann úr 155.000 tonnum í 115.000 tonn af þorski á ári. Þá værum við að nota búbótina til að reyna að byggja upp þorskstofninn heima fyrir. Okkur mun hefnast fyrir að gera þetta ekki.

Raunar er merkilegt, að ráðamenn þjóðarinnar skuli treysta sér til að skipuleggja óhófsafla á þorski gegn fróðustu manna ráðum og eiga um leið á hættu að verða einungis minnst í Íslandsssögunni sem mannanna, er báru ábyrgð á hruni íslenzka þorskstofnsins.

Tvennt kemur til greina. Bjartsýni möguleikinn er, að kreppan aukist nokkuð frá því sem nú er, nái botni 1995 eða 1996, haldist síðan í stórum dráttum til aldamóta og sennilega lengur. Svartsýni möguleikinn er, að þorskstofninn hrynji og kreppan verði illskeytt.

Við stjórnum ekki lengur örlögum okkar. Stjórnvöld hafa þegar smíðað þá gæfu, sem við eigum skilið. Svo er bara að bíða og vona, að allt fari á illskárri veg.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjarkmikil spilling

Greinar

Guðmundur Árni Stefánsson vakti snemma athygli, þegar hann varð heilbrigðisráðherra fyrir rúmu ári. Mannaráðningar hans og embættaveitingar þóttu verri en annarra ráðherra og er þá mikið sagt. Síðan hafa hlaðizt upp tilvik, sem hljóta að teljast umdeilanleg.

Þegar hann skildi við ráðuneytið eftir eitt ár í starfi, mátti heita að flest væri þar í rúst. Sparnaður, sem forveri hans hafði náð fram með ærinni hörku, hafði rokið út í veður og vind á einu stjórnlausu ári og ráðuneytið hafði farið milljarð króna fram úr ráðgerðum útgjöldum.

Embættislega er heilbrigðisráðuneytið með slakari ráðuneytum. Ráðherrar þurfa að halda þar vel á spöðunum til að halda utan um mál. Guðmundur Árni kom með ættingja sína og vini inn í ráðuneytið og þeir reyndust auðvitað engir bógar til að hjálpa honum og vernda.

Hann virðist hafa vanizt því í bæjarstjórasessi Hafnarfjarðar að þurfa ekki að setja sig sjálfur inn í mál. Þetta leiddi meðal annars til, að hann úrskurðaði, að alþjóðlega viðurkenndur arfgengissjúkdómur væri sjálfskaparvíti, sem ætti að vega léttar hjá ríkinu en aðrir.

Hafnarfjörður hefur sérstöðu meðal sveitarfélaga. Hann hefur lengi haft mjólkurkú í álverinu. Þess vegna ætti fjárhagur bæjarins að vera betri en hinna, sem ekki hafa slíka kú. Þvert á móti er að koma í ljós, að Guðmundur Árni kom bænum í tveggja milljarða skuldasúpu.

Eitt dæmið um sukkið í Hafnarfirði var formaður húsnæðisnefndar bæjarins, sem varð að fara frá, þegar fjármál hennar voru gerð upp. Síðan gerði ráðherrann formann nefndarinnar að formanni Hollustuverndar ríkisins. Sukkarinn var fluttur frá bæ til ríkis.

Í ljós kom eftir vistaskipti ráðherrans, að hann hafði sem bæjarstjóri látið greiða sér og vildarmönnum sínum miklar greiðslur umfram umsamin laun. Þessi iðja hélt síðan áfram í ráðuneytinu, þar sem ráðherrann lét greiða fylgdarsveini sínum 600.000 króna mánaðarlaun.

Fræg eru milljónabiðlaunin, sem hann lét Hafnarfjarðarbæ greiða sér, enda þótt hann væri þegar kominn í ráðherrastarf. Ummæli ráðherrans um þetta bentu til, að hann hefði ekki hefðbundin viðhorf í siðferðismálum og ætlaði sér ekki að láta neitt fé úr hendi sleppa.

Ráðherrann réð þekktan flokksbróður sinn sem forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og lét áfram greiða forveranum full forstjóralaun, enda var hann líka flokksbróðir. Þetta er svo sem ekki önnur spilling en sú, sem tíðkast í gerspilltum Alþýðuflokki, en spilling samt.

Smám saman hafa verið að birtast fréttir af sérkennilegum embættisverkum hans og ættrækni sem bæjarstjóra í Hafnarfirði. Hann réð tengdaföður sinn sem skólahúsvörð, án þess að staðan væri auglýst. Hann lét náfrænku sína hafa nánast leigufría íbúð hjá bænum.

Ennfremur hefur komið í ljós, að hann heimilaði framkvæmdastjóra Alþýðublaðsins sjálfdæmi í birtingu auglýsinga frá Hafnarfjarðarbæ. Mátti framkvæmdastjórinn klippa auglýsingar úr öðrum blöðum og birta hjá sér. Reikningar, sem hann sendi, voru orðalaust greiddir.

Meðan slík atriði hafa verið að koma í dagsins ljós, hefur Alþýðuflokkurinn verðlaunað ráðherrann með því að gera hann að varaformanni í stað þeirrar konu, sem áður hélt uppi siðferðisímynd flokksins. Má nú segja að skel hæfi kjafti í þeirri valdastöðu flokksins.

Pólitískur frami Guðmundar Árna er dæmi um, hve langt menn geta komizt á kjaftavaðli, kunnáttuleysi og kjarklegri spillingu, ef kjósendur eru nógu heimskir.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandalag erkiklerka

Greinar

Athyglisvert afturhaldsbandalag hefur myndazt milli kaþólsku kirkjunnar í Vatíkaninu og róttækra leiðtoga íslams gegn uppkasti undirbúningsnefndar að ályktun mannfjölda- og þróunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í Kaíró í Egyptalandi á mánudaginn.

Orðalagið, sem fer í taugar hinna róttæku afturhaldsmanna, er í rauninni varfærnislegt, enda hefur það útvatnazt í meðförum 170 ríkja, sem hafa tekið þátt í undirbúningi ráðstefnunnar. En það miðar að auknum áhrifum einstaklinga, einkum kvenna, á fjölskyldumál.

Hinir guðfræðilegu róttæklingar telja, að orðalagið leggi blessun yfir fóstureyðingar og vestrænt lauslæti í kynlífi. Þessi túlkun þeirra er einkar frjálsleg, því að ályktunin fjallar fremur um, hvernig megi draga úr þörf fóstureyðinga og stuðla að ábyrgðartilfinningu fólks.

Flestir aðrir en róttæklingarnir telja, að nauðsynlegt sé að draga úr fólksfjölgun í heiminum. Bent er á Rúanda sem dæmi um vandann. Þar fjölgaði fólki frá 1950 til 1994 úr 2,4 milljónum í 8,4 milljón manns. Landið stóð ekki undir þessu, svo að úr varð illræmd borgarastyrjöld.

Íbúafjöldi jarðar hefur tvöfaldazt síðan 1950 og nemur nú 5,6 milljörðum. Mest hefur fólksfjölgunin orðið í ríkjum, þar sem minnstir eru möguleikar á að brauðfæða fjölgunina. 70% aukningarinnar eru í löndum, þar sem fjölskyldutekjur eru innan við 4.000 krónur á mánuði.

Andstaða klerka Vatíkansins og íslams við aðgerðir gegn fólksfjölgun endurspeglar kvenhatur þeirra. Það hefur farið vaxandi í Vatíkaninu í páfadæmi Jóhannesar Páls, sem hefur á mörgum sviðum reynt að færa klukkuna aftur á bak. Og kvenhatur íslamsklerka er alþekkt.

Klerkabandalagið hefur gengið svo langt, að sendimaður Páfastóls fór til Írans til að samræma aðgerðir með erkiklerkum Persa, sem þykja klerka fjandsamlegastir öllu því, sem minnir á vestrænan nútíma. Stjórn Írans sjálf hyggst þó taka þátt í ráðstefnunni í Kaíró.

Mörg ríki íslams hafa tekið þátt í fjölskylduáætlunum í anda frumvarpsins að Kaíró-ályktuninni, flest önnur en afturhaldsríki olíufursta á Arabíuskaga. Hin nýja andstaða er því afturhvarf frá nútíma, eins og hann hefur verið í löndum á borð við Egyptaland og Tyrkland.

Bakslag íslams birtist meðal annars í, að afturhaldsríkin Sádí-Arabía og Súdan ætla ekki að taka þátt í ráðstefnunni og þjóðarleiðtogarnir Tansu Ciller frá Tyrklandi og Khalida Zia frá Bangladesh hafa hætt við komu. Prestaháskólinn Al Azhar í Kaíró hamast gegn ráðstefnunni.

Sagnfræðingar leika sér að getgátum um, að þriðja heimsstyrjöldin muni geisa milli veraldlegra, vestrænna lýðræðisríkja annars vegar og hins vegar trúarlegra og afturhaldssamra ríkja íslams. Þeir benda á vaxandi baráttu róttækra íslamsklerka gegn vestrænum áhrifum.

Þótt afturhaldið kunni ekki að fara svo mikið úr böndum, er ástæða til að vekja athygli á þeim félagsskap, sem afturhaldssemi Jóhannesar Páls páfa hefur kallað yfir kaþólsku kirkjuna. Hann er að skipa henni í sveit gegn vestrænum nútíma, sem er eina birtan í nútímanum.

Hin veraldlegu nútímaríki á Vesturlöndum hafa fundið leið úr miðaldamyrkri fátæktar og grimmdar inn í vestrænt lýðræði, þar sem einstaklingar og fjölskyldur hafa margfalt betri möguleika en nokkru sinni áður í veraldarsögunni til að njóta fegurðar og menningar.

Með andstöðu sinni við grundvallarhugsjónir einstaklings- og fjölskyldufrelsis eru erkiklerkar kaþólsku og íslamstrúar að tefla sér í hlutverk Satans í nútímanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Norskt sjórán

Greinar

Íslendingar hafa sögulegan rétt til veiða við Svalbarða og í Barentshafi, ef slíkur réttur er á annað borð viðurkenndur. Þeir hafa veitt þar þorsk allt frá árinu 1930, síld frá 1967 og loðnu frá 1975. Norsk stjórnvöld fara með rangt mál, er þau segja Íslendinga nýja á miðunum.

Norðmenn eiga ekki Svalbarða og hafa alls ekki sama vald yfir honum og eigin landi. Um Svalbarða gildir samningur frá árinu 1920. Rúmlega fjörutíu ríki eru aðilar að samningnum og þar á meðal Ísland. Norsk lög og norskar reglugerðir gilda ekki sjálfkrafa um Svalbarða.

Samkvæmt annarri grein samningsins njóta allir þegnar og skip aðildarríkjanna sama réttar til veiða í landhelgi Svalbarða. Norskar verndaraðgerðir skulu ávallt eiga jafnt við um alla þegna samningsaðilanna, “án nokkurra undantekninga, forréttinda eða ívilnana”.

Ekkert ríki Svalbarðasamningsins, að Finnlandi undanskildu, hefur viðurkennt sjálftöku Noregs á fiskveiðilögsögu, þar á meðal úthlutun veiðikvóta að norskum geðþótta til að hygla eigin sjómönnum. Mörg ríkjanna og þar á meðal Ísland hafa harðlega mótmælt þessu.

Ofbeldi norskra stjórnvalda í sumar á miðunum við Svalbarða er hreint sjórán, sem brýtur gegn hefðarrétti og gegn samningi, sem Noregur hefur gert um svæðið. Þessi árásarhneigð minnir raunar sterklega á offors Norðmanna gegn Íslandi í Jan Mayen fiskveiðideilunni.

Þessu ofbeldi fylgir ótrúlegur munnsöfnuður ráðherra í ríkisstjórn norska Verkamannaflokksins, þar á meðal gribbugangur í sjálfum forsætisráðherranum. Íslendingar telja ekki allt ömmu sína í þessum efnum, en verða að játa sig gersigraða í óhefluðu ráðherraorðbragði.

Munnsöfnuður ráðherranna er sagður ætlaður til notkunar í norðurhéruðum Noregs, þar sem sjávarútvegur er eins konar félagsmálapakki, sem á að koma í veg fyrir, að fólk flykkist suður til Osló. Einnkennilegir mega þeir kjósendur vera, sem finnst munnsöfnuðurinn ljúfur.

Jafnframt er sagt, að norskir ráðamenn verði viðmælandi í nóvember, þegar lokið er þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild ríkisins að Evrópusambandinu. Með gribbugangi eigi að draga fjöður yfir þá staðreynd, að Noregur hefur gert lélegan fiskveiðisamning við sambandið.

Stundum finnst okkur íslenzkir stjórnmálamenn vera of ódýrir í orði og á borði. Það bliknar þó í samanburði við ráðamenn Noregs, sem láta skjóta föstum skotum á skip; láta taka skip með ofbeldi; og setja lög og reglugerðir, sem brjóta jafnræðisreglu Svalbarðasamningsins.

Ef allt þetta framferði ríkisstjórnar Gro Harlem Brundtland er aðeins þáttur í grófri kosningabaráttu í Norður-Noregi, er fundinn í Noregi pólitískur botn, sem ekki hefur fundizt til dæmis á Íslandi, þótt sitthvað kunni að vera upp á íslenzka stjórnmálamenn að klaga.

Samhliða atgangi norskra stjórnvalda hafa þau staðfastlega neitað að setjast að samningaborði. Endurteknar tilraunir til að draga þau til samninga hafa engan árangur borið. Óhjákvæmilegt virðist því, að Ísland fari dómstólaleiðina í málinu, er hin leiðin virðist brostin.

Um leið þurfa íslenzk stjórnvöld að styðja betur við bak sjómanna sinna, til dæmis með því að taka þátt í sameiginlegri baktryggingu fyrir skaða, sem sjómenn og útgerðarfélög kunna að verða fyrir vegna töku skipa, annars ofbeldis og lögleysu af hálfu norska ríkisins.

Leiðinlegt er að þurfa að standa í útistöðum við nágranna. En það er líka leiðinlegt að láta þá valta yfir sig. Því stöndum við fast gegn norskri frekju og yfirgangi.

Jónas Kristjánsson

DV

Parísarframleitt skrímsli

Greinar

Hörmungar Rúandamanna ætla engan enda að taka. Fyrst voru fjöldamorð í landinu sjálfu fyrr í sumar; síðan flóttamannastraumur til nágrannalandanna og stjórn glæpamanna á flóttamannabúðunum þar; og loks er komið í veg fyrir, að fólk snúi aftur til síns heima.

Þeir, sem bera ábyrgð á morðum á 500.000 manns í Rúanda, stjórna nú milljón manns í flóttamannabúðum nágrannaríkjanna. Þeir stjórna matargjöfum og annarri hjálp. Þeir nota aðstöðuna til að halda völdum í búðunum og til að koma í veg fyrir að fólkið snúi við.

Fólk féll áður fyrir sveðjum og bareflum, en nú fyrir hungri og sjúkdómum. Hjálparstofnanir ná ekki tökum á stöðunni, af því að skipuleggjendur og framkvæmdastjórar hryllingsins koma í veg fyrir það. Morðingjar njóta hjálparstarfsins, en almenningur mætir afgangi.

Fjölmiðlamenn fyrri ríkisstjórnar Rúanda stjórnuðu fjöldamorðunum með sífelldum hvatningum í útvarpi. Þeir stjórna nú ótta flóttamanna á sama hátt, með útvarpi. Þeir hvetja Hútumenn til að flýja land og hvetja þá til að fara ekki til baka úr flóttamannabúðunum.

Það var Mitterrand Frakklandsforseti og franskir embættismenn, sem framleiddu þetta skrímsli í Afríku. Þeir hindruðu fyrir nokkrum árum valdatöku siðaðra manna í Rúanda og bjuggu til ríkisstjórn og lífvarðasveitir, sem nú hafa staðið fyrir blóðbaðinu í landinu.

Frönsk stjórnvöld höfðust ekki að, meðan ríkisstjórnin og lífvörðurinn létu drepa hálfa milljón manns. Það var ekki fyrr en uppreisnarmenn voru farnir að hrekja lífvörð og stjórnarher á flótta, að Frakkar komu á vettvang til að hindra, að ósigur skrímslisins yrði alger.

Frakkar komu upp verndarsvæði í suðvesturhorni landsins, þar sem umbjóðendur þeirra fengu griðland. Þaðan hafa þeir getað útvarpað hvatningum til fólks að flýja land og snúa ekki til baka úr flóttamannabúðunum. Allur er þessi ljóti leikur á franskri ábyrgð.

Frakkar hafa haft forustu um að haga málum á þann veg, að vestrænt hjálparstarf er ekki rekið frá höfuðborg Rúanda, þar sem ný og fremur siðuð stjórn hefur tekið við völdum, heldur á vegum fjöldamorðingjanna, sem ráða ríkjum í flóttamannabúðum í nágrannaríkjunum.

Gott væri, ef Sameinuðu þjóðirnar mönnuðu sig upp í að taka málin úr höndum Mitterrands og franskra embættismanna. Styðja þarf við bakið á nýju stjórninni í Rúanda og einnig senda eftirlitsmenn til að sjá um, að hún efni loforð um að hefna ekki fyrir fjöldamorðin.

Sameinuðu þjóðunum ber að sjá um, að hjálparstarf sé rekið framhjá valdsviði fjöldamorðingjanna í flóttamannabúðunum og á verndarsvæðinu. Ennfremur ber þeim að styðja nýju stjórnina við að koma upp dómstóli, sem komi lögum yfir morðingja og stjórnendur þeirra.

Aðstoð Sameinuðu þjóðanna við stríðsglæparéttarhöld mun stuðla eindregið að heilbrigðu uppgjöri Rúandabúa við fjöldamorðingjana innan ramma laga og réttar og draga úr líkum á, að þeir, sem hafa um sárt að binda, taki í staðinn lögin í eigin hendur og hefni sín grimmilega.

Athyglisvert er, að nýja stjórnin í Rúanda og hermenn hennar hafa í stórum dráttum forðazt hefndaraðgerðir og annað atferli, sem geti dregið úr trausti flóttamanna á eðlilegum móttökum í heimahögum. Nýja stjórnin á að njóta þess, að hún hegðar sér fremur siðlega.

Athylgisverðast er þó, að endastöð ábyrgðarinnar á hörmungunum í Rúanda er í hjarta Evrópu, í París, hjá forseta Frakklands og frönskum embættismönnum.

Jónas Kristjánsson

DV