Greinar

Matur er mannsins megin

Greinar

Mikil aðsókn heilbrigðisstétta var að fyrirlestrum bandarískra lækna og næringarfræðinga, sem héldu opinn fund í Reykjavík fyrir helgina í boði bændasamtakanna og Náttúrulækningafélags Íslands. Fagfólk er farið að átta sig á, að næring hefur mikil áhrif á heilsu.

Það er svo sem ekki vonum fyrr, að áhugi heilbrigðisstétta beinist að náttúrulegum lækningaleiðum. Þær hafa verið kynntar hér í rúma sjö áratugi og oft sætt flimtingum. En nú eru menn farnir að viðurkenna, að oft er gott mataræði árangursríkara en lyf og uppskurðir.

Gott mataræði er ein bezta leiðin til að hindra viðgang sjúkdóma, sem tengjast lífsstíl nútímamannsins. Fyrirferðarmest eru þar krabbamein og hjartasjúkdómar. Sjúkdómar af því tagi kalla á mikinn og vaxandi hluta af þjóðartekjunum, sem um leið standa í stað eða minnka.

Enn er ekkert lát á óhófsneyzlu þjóðarinnar á hvítum sykri, sem haldið er fram, að sé eins mikill kostnaðarvaldur í heilbrigðiskerfinu og áfengi eða tóbak. Sú skoðun var sett fram af þekktum vísindamanni og lækni, sem ekki verður sakaður um sérvizku eða sértrúarofsa.

Í Bandaríkjunum og víðar eru næringarfræðingar að mestu orðnir sammála um, hvaða mataræði verndi heilsu fólks. Það er í stórum dráttum mataræðið, sem hér á landi hefur verið kynnt á vegum Náttúrulækningafélags Íslands og notað í Heilsustofnun þess í Hveragerði.

Þrátt fyrir skyndibitaátið hefur næring Íslendinga að ýmsu leyti batnað. Gróf heilhveitibrauð hafa náð útbreiðslu og farin eru að sjást pöstu úr heilhveiti. Ávextir og hreinir ávaxtasafar eru á hvers manns borði og notkun fjölbreytts grænmetis breiðist út jafnt og þétt.

Settar hafa verið á fót verzlanir, sem sérhæfa sig í vörum af þessu tagi. Einstaka sinnum er lífrænt ræktað grænmeti á boðstólum. Langt er þó frá því, að hollur matur sé eins aðgengilegur og hann þyrfti að vera. Ekki geta allir búið á Heilsustofnuninni í Hveragerði.

Læknarnir, sem voru hér fyrir helgina, svo og ýmsir aðrir bandarískir gestir íslenzku bændasamtakanna fyrr á þessu ári hafa bent á sérstöðu Íslands og möguleika íslenzks landbúnaðar á sviði náttúrulegrar fæðu, einkum í lífrænni ræktun grænmetis, mjólkur og kjöts.

Erlendis er jarðvegur víða orðinn eitraður af efnum, sem eiga að þenja afkastagetu landbúnaðar. Hið sama er að segja um alla fæðukeðjuna, sem byggist á þessum jarðvegi. Hér á landi hefur krafa til afkasta ekki enn haft eins skaðleg áhrif á umhverfi landbúnaðar.

Við samanburð á erlendum og innlendum landbúnaði verður að hafa þann fyrirvara, að víðast hvar í vestrænum löndum er auðvelt fyrir fólk að nálgast lífrænt ræktaða fæðu og aðra náttúrulega fæðu frá framleiðendum, sem hafa sérhæft sig á því sviði og fá hærra verð.

Hér á landi er hins vegar tiltölulega erfitt að fá slík matvæli, enda ríkir furðulegt innflutningsbann á lífrænum grænmetistegundum, þegar sömu tegundir fást hér ólífrænar. Íslenzkur landbúnaður er varla byrjaður að sveigja sig að innlendri neyzlu á þessu sviði.

Eins og oft vill verða hér á landi vilja menn gleypa sólina. Forustumenn í landbúnaði eru farnir að sjá í hillingum gullinn útflutning lífrænnar búvöru, þótt lítið sem ekkert hafi enn verið gert til að koma slíkri vöru á innlendan markað til að prófa hana fyrst með minni áhættu.

En vaxandi áhugi bænda mun eins og vaxandi áhugi heilbrigðisstétta leiða til aukins þrýstings á þjóðina um, að hún færi neyzlu sína í auknum mæli yfir í holla fæðu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgð á uppvakningi

Greinar

Júgóslavneski herinn og stjórnvöld í Serbíu skipulögðu og hófu þjóðahreinsun í Bosníu með fjöldamorðum, fjöldanauðgunum og öðrum hryðjuverkum, sem miðuðu að því að hræða annað fólk af svæðum, sem Bosníuserbar vildu komast yfir. Serbía ber ábyrgð á hryllingnum.

Ráðamenn Vesturlanda mega ekki taka gildar sjónhverfingar um, að Serbíustjórn hafi hætt stuðningi við Bosníuserba og hafi lokað landamærunum milli Serbíu og Bosníu. Fullkomlega siðlaust væri að fara að verðlauna Drakúla greifa fyrir að afneita Frankenstein.

Ráðamenn Vesturlanda bera líka ábyrgð á hryllingnum, einkum Mitterrand Frakklandsforseti, Major, forsætisráðherra Bretlands, og Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti. Leiðtogar af því auma tagi neituðu að grípa í taumana, þegar það var auðveldara og ódýrara en nú.

Ráðamenn Vesturlanda hafa sýnt ótrúlega fákænsku í málefnum arfaríkja Júgóslavíu. Þeir hafa komið því orði á Vesturlönd, að þar séu ráðamenn sífellt reiðubúnir að vera með hótanir út í loftið, en því megi hins vegar treysta, að þær verði aldrei framkvæmdar.

Frammistaða ráðamanna Vesturlanda í Bosníu hefur orðið Vesturlöndum dýrkeypt, því að flestar hryðjuverkastjórnir heimsins hafa síðan talið sér kleift að gefa Vesturlöndum langt nef. Þessi ömurlega staðreynd gildir allt frá Sómalíu til Haítí og frá Rúanda til Bosníu.

Ef ráðamenn Vesturlanda ætla nú að kóróna sköpunarverk sitt í Bosníu með því að verðlauna stjórnvöld í Serbíu með mildun á viðskiptabanni, sem merkast er fyrir þá sök, að það er eitt hriplekasta bann nútímans, eru þeir að magna ábyrgð sína á ástandinu í Bosníu.

Ef ráðamenn Vesturlanda halda líka áfram að bregða fæti fyrir framgang réttarhalda yfir þúsundum af stríðsglæpamönnum Serba, eru þeir að stimpla sig í veraldarsögunni sem meðreiðarsveina hins illa. Þeir munu aldrei getað þvegið af sér skítinn. Sem er bara sanngjarnt.

Það er ekki nóg að takmarka ábyrgðina við nokkur þúsund Bosníuserba, sem hafa leikið hlutverk Frankensteins. Ábyrgðin er meiri hjá Júgóslavíuher og Serbíustjórn, sem framleiddu uppvakninginn, og hjá ráðamönnum Vesturlanda, sem hafa örvað hann til ódáða.

Margra mánaða reynsla er fyrir því, að leiðtogar Serbíu og Bosníuserba eru sérfræðingar í sjónhverfingum og undirritun skjala, sem þeim hefur aldrei dottið í hug að fara eftir. Furðulegt er, að ráðamenn Vesturlanda og umboðsmenn þeirra virðast alltaf vera jafn bláeygir.

Hamslaus illvirki Serba eiga sér þrenns konar rætur. Í fyrsta lagi í kaldrifjuðum áætlunum stjórnenda Júgóslavíuhers og Serbíu. Í öðru lagi í ótrúlega víðtækri siðblindu meðal Serba. Og í þriðja lagi í viðbrögðum Vesturlanda við vandanum, þegar hann var enn viðráðanlegur.

Ráðamenn Vesturlanda stuðla ekki að lausn Bosníuvandans með því að strá salti í sár tugþúsunda kvenna, sem hafa þolað hervirki þúsunda geðveikra Serba. Friðarsamningurinn, sem ráðamenn Vesturlanda hafa smíðað, þjónar því miður einkum hagsmunum óargadýranna.

Ráðamenn Vesturlanda vinna gegn framtíðarhagsmunum Vesturlanda í samfélagi þjóðanna, ef þeir bæta nú gráu ofan á svart með því að fara að milda viðskiptabannið á Serbíu í stað þess að herða það enn frekar. Þeir vekja með því upp fleiri drauga víða um heim.

Hryllingurinn var fyrirsjáanlegur fyrir tveimur árum, þegar Serbar réðust á menningarsöguna í Dubrovnik. Þá þegar var margsinnis varað við óargadýrunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Lausafylgið bíður

Greinar

Staða Jóhönnu Sigurðardóttur í stjórnmálunum minnir á stöðu Vilmundar Gylfasonar og Alberts Guðmundssonar, þegar þeir buðu fram sérstaka lista í alþingiskosningum. Eins og þeir dregur hún að sér mikið lausafylgi, sem ekki nýttist framboðslistum þeirra á kjördegi.

Samkvæmt skoðanakönnun DV nýtur Jóhanna fylgis 6-7% kjósenda. Það ætti að nægja henni fyrir fjórum þingmönnum, ef kosið væri núna. Samkvæmt sömu könnun nýtur Jóhanna velvildar miklu fleiri kjósenda, um 30%, án þess þó að hafa allt það viðbótarfylgi í húsi.

Lausafylgið í landinu er núna orðið meira en það var í tíð Vilmundar og Alberts. Samanlagt eru velvildarmenn Jóhönnu og hinir óákveðnu meira en helmingur allra kjósenda. Þetta sýnir, að stjórnmálaflokkarnir hafa samanlagt ekki sniðið sig að þörfum helmings kjósenda.

Þótt gerðir Jóhönnu séu umdeildar, nýtur hún trausts fyrir það að vera heiðarleg og sjálfri sér samkvæm. Þeir hæfileikar eru ekki útbreiddir í stjórnmálum landsins. Þess vegna er hún vinsælust allra stjórnmálamanna og þess vegna mun hún koma nokkrum mönnum á þing.

Samkvæmt fyrri reynslu mun velvildarfylgið aðeins nýtast Jóhönnu að litlum hluta. Hún getur sjálf ekki skipað öll sætin á öllum framboðslistum flokks hennar. Hún verður að sýna frambjóðendur, sem njóta mun minna trausts en hún nýtur sjálf um þessar mundir.

Til þess að brjóta upp flokkakerfi, sem ekki hefur reynzt svara þörfum tímans, nægir ekki að hafa eina persónu sem eina aðdráttaraflið. Þess vegna náðu Vilmundur og Albert aðeins í hluta lausafylgisins og aðeins til skamms tíma. Hið sama virðist vera að gerast núna.

Samkvæmt fyrri reynslu er ekki auðvelt að byggja stjórnmálaflokk utan um einn stjórnmálamann, þótt hann njóti mikils trausts. Sú reynsla segir þó ekki, að ókleift sé að virkja lausafylgið í landinu, ef byggt væri á fleiri hornsteinum en einum vinsælum stjórnmálamanni.

Hingað til hefur lausafylgið ráfað milli flokka og stundum leitað að hluta útrásar í stuðningi við skyndiframboð. Enginn hefur náð að stöðva rásið og virkja það í þágu tiltölulega fastmótaðs stjórnmálaafls. Jóhönnu mun ekki takast það einni frekar en Vilmundi eða Albert.

Það er þó enginn ósigur fyrir Jóhönnu og sjónarmið hennar, þótt hún verði bara einn af mörgum þingflokkum eftir næstu kosningar. Ef hún fer á þing við fjórða mann, hefur hún að mörgu leyti betri aðstöðu til að hafa áhrif en hún hafði í húsmennsku hjá spilltum Alþýðuflokki.

Til þess að brjóta upp flokkakerfið nægir ekki heldur að fara hina leiðina, sem Kvennalistinn hefur farið, að slátra öllum stjórnmálakonum sínum, sem hafa aðdráttarafl, og sitja nú uppi með einkar svipdauft lið, er aðeins dregur til sín harðasta kjarna hugsjónafólksins.

Ef til vill þarf hvort tveggja í senn, trúverðuga forustu og hugmyndafræði, sem höfðar til lausafylgisins í heild, til þess að nýtt framboð geri meira en að valda tímabundinni skelfingu í flokkakerfinu. Ef til vill þarf eitthvað fleira en þetta tvennt til að líma pakkann saman.

Jóhanna hefur valdið skelfingu í flokkakerfinu. Vinsældir hennar í skoðanakönnun urðu stjórnmálamönnum í öllum flokkum tilefni til að mynda hræðslubandalag gegn haustkosningum. Þeir vilja fresta vandanum, enda kann bóla Jóhönnu að hjaðna nokkuð í vetur.

Jóhanna er tæplega því hlutverki vaxin að sópa burtu úreltu flokkakerfi. En það er hægt og verður einhvern tíma gert. Svo mikið er orðið lausafylgið í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Helmingaskiptastjórn

Greinar

Sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur eykur líkur á helmingaskiptastjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eftir kosningar. Jóhanna mun taka nokkurt fylgi frá Alþýðubandalagi og Kvennalista og rýra möguleika þeirra flokka til að taka þátt í stjórnarmyndun.

Lengi hefur legið í loftinu tveggja flokka stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Við formannaskiptin hefur Framsóknarflokkurinn færzt til hægri. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur í auknum mæli hallazt að Evrópustefnu, sem er að skapi Framsóknarflokknum.

Flokkarnir tveir hafa reynt að vekja athygli á öðrum möguleikum sínum í stöðunni, annars vegar til að villa um fyrir kjósendum á hefðbundinn hátt og hins vegar til að styrkja stöðu sína í fyrirhuguðum samningum um samstarf þeirra í milli eftir næstu kosningar.

Framsóknarflokkurinn hefur lengi sérhæft sig í Janusarstöðu á miðju stjórnmálanna og samið ýmist til hægri eða vinstri eftir kaupum á eyrinni. Sjálfstæðisflokkurinn er nú að reyna að sýna fram á, að Alþýðubandalagið geti verið vænlegur samstarfskostur að þessu sinni.

Ágreiningur um utanríkismál er að mestu horfinn. Alþýðubandalagið getur sætt sig við varnarlið og Atlantshafsbandalag, enda er Nató orðið að öryrkjabandalagi, sem meira eða minna lýtur neitunarvaldi Rússa í reynd, svo sem í ljós hefur komið að undanförnu á Balkanskaga.

Eini flokkurinn, sem hefur sérstöðu í utanríkismálum, er Alþýðuflokkurinn, sem hefur teflt sér út af skákborðinu vegna óvenjulega glæfralegrar spillingar í embættaveitingum. Kjósendur þola flokkum sínum flest, en Alþýðuflokknum hefur þó tekizt að ganga fram af fólki.

Eftir skoðanakönnunum að dæma er aðeins til eitt tveggja flokka stjórnarmynztur. Það er gamalkunnug helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Alþýðubandalag og Kvennalisti hafa ekki hvor um sig bolmagn til að leika hlutverk Framsóknarflokks.

Það er því tómt mál fyrir Morgunblaðið að auglýsa Alþýðubandalag sem afleysingaflokk fyrir Framsóknarflokk. Alþýðubandalagið hefur ekki fylgi til að leika slíkt hlutverk, einkum vegna sérframboðs Jóhönnu Sigurðardóttur. Taka yrði þriðja flokkinn inn í slíkt mynztur.

Vinstri stjórn verður líka erfiðari eftir sérframboð Jóhönnu. Ekki dugir lengur þrjá flokka til að mynda slíka stjórn, heldur þurfa þeir að vera fjórir til þess að dæmið gangi upp, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Kvennalisti og annaðhvort Jóhönnu- eða Alþýðuflokkur.

Allt er svo sem orðið framkvæmanlegt, einkum eftir að stjórnmálaflokkarnir urðu í reynd allir nokkurn veginn eins. Með afskiptaleysi sínu af stjórnmálum hafa kjósendur gert stjórnmálaflokkunum kleift að breytast í valdaframleiðsluvélar fyrir einstaka stjórnmálamenn.

Hvert sem menn kasta atkvæði sínu, er niðurstaðan nokkurn veginn hin sama: Flokkspólitísk spilling, andstaða við aukið Evrópusamstarf, framhald árlegrar milljarðabrennslu verðmæta í landbúnaði, óbreytt kvótakerfi í sjávarútvegi, þjóðarsættir, aukin fátækt og stöðnun.

Stjórnmálaþokan magnast lítillega, þegar formaður Framsóknarflokksins hrósar formanni Alþýðuflokksins og þegar Morgunblaðið hrósar Alþýðubandalaginu. Eigi að síður glittir í gamalkunna og hefðbundna helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Slík stjórn var orðin líklegust strax í vor og er nú orðin hálfu líklegri, er Jóhanna stefnir að Vilmundsku uppreisnarframboði, sem fær nokkra þingmenn.

Jónas Kristjánsson

DV

Áfram þjófar

Greinar

Forsætisráðherra Ítalíu og flokkur hans, Áfram Ítalía, styðja stórþjófa Ítalíu. Þeir hafa sleppt 2000 mönnum úr gæzluvarðhaldi og dregið úr baráttunni gegn mafíunni og öðrum stórglæpaflokkum landsins. Jafnframt hefur forsætisráðherrann reynt að skara eld að eigin köku.

Ítalir fóru úr öskunni í eldinn, þegar þeir kusu yfir sig Silvio Berlusconi í stað stjórnmálamannanna, sem leystu spillingarliðið af hólmi í gömlu stjórnmálaflokkunum og í arftakaflokkum þeirra. Ítalir ímynduðu sér í kosningunum í vor, að Berlusconi væri hvítur riddari.

Í síðustu viku gaf Berlusconi út tilskipun um, að ekki mætti halda mönnum í gæzluvarðhaldi vegna gruns um fjárglæfra. Á grundvelli tilskipunarinnar var 2000 mönnum sleppt úr haldi, þar á meðal mörgum þekktustu fjárglæframönnum stjórnmála og viðskiptalífs á Ítalíu.

Þótt tilskipun Berlusconis hafi verið dregin til baka í þessari viku, ganga hinir grunuðu lausir og hafa fengið nógan tíma til að spilla og eyða sönnunargögnum. Vegna tilskipunarinnar verður mun erfiðara en ella að ná lögum yfir þá, sem hafa stolið öllu steini léttara á Ítalíu.

Glæpaflokkar, stjórnmálamenn og viðskiptahöldar hafa háð stríð gegn þjóðfélaginu á Ítalíu. Gæzluvarðhald var orðið að virkustu vörn saksóknara og dómara gegn þessari aðför. Það er nauðsynlegt við ítalskar aðstæður, þótt annars staðar teljist það þrengja að mannréttindum.

Berlusconi tók persónulega þátt í aðförinni að saksóknurum og dómurum landsins og sagði þá hneppa menn í gæzluvarðhald til að baða sjálfa sig í sviðsljósi fjölmiðla. Hann hefur notað fjölmiðlaveldi sitt til að veitast að þessum bjargvættum ítalska þjóðfélagsins.

Jafnframt hefur Berlusconi gert atlögu að yfirmönnum ríkissjónvarpsins til að reyna að koma á alræði sínu í ljósvakaheimi Ítalíu. Hann segir þá ekki kunna með fé að fara og reynir að troða inn stuðningsmönnum sínum. Með þessu er honum að takast að gelda samkeppnina.

Í kosningunum á Ítalíu í vor féllu mafíuandstæðingar unnvörpum fyrir stuðningsmönnum Berlusconis, sem nutu fylgis þeirra, er áður höfðu kosið samkvæmt fyrirmælum mafíunnar. Niðurstaðan var sigur fyrir glæpaflokkana, svo sem nú er smám saman að koma í ljós.

Er Berlusconi lagði fyrir sig stjórnmál, var fjárglæfraveldi hans farið að riða til falls. Fjárfestingarfyrirtækið Fininvest skuldaði sem svarar 170 milljörðum íslenzkra króna. Gæzluvarðhaldsúrskurðir voru farnir að færast óþægilega nálægt hans mönnum og fyrirtækjum.

Raunar fæddist fjárglæfraveldi Berlusconis í jarðvegi spillingar. Það var einn allra spilltasti stjórnmálamaður gamla tímans, Bettino Craxi, þáverandi forsætisráðherra, er úthlutaði Berlusconi sjónvarpsleyfunum, sem urðu grundvöllurinn að fé hans og pólitískum frama.

Ítalir áttuðu sig ekki á, að Berlusconi var að bjarga eigin skinni. Þeir létu markaðsfræðinga hans hafa sig að fífli og sáu ekkert fyrir glýjunni af auglýsingaherferð í sjónvarpi. Niðurstaðan var hrapallegur ósigur skynseminnar, sem Ítölum er smám saman að hefnast fyrir.

Í stað þess að nota kosningarnar til að útvega sér heiðarlega stjórnmálamenn, fóru Ítalir úr öskunni í eldinn. Eina leiðin til bjargar málunum er, að framferði Berlusconis leiði til stjórnarkreppu og nýrra kosninga, þar sem Ítalir fái annað tækifæri, ef þeir vilja nota það.

Í kosningunum notaði Berlusconi slagorð úr fótboltanum, Áfram Ítalía, sem nafn á flokki sínum. Nú segja gárungarnir, að réttnefni hefði verið: Áfram þjófar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fugl sem flýgur hratt

Greinar

Viðamikil skýrsla fjögurra deilda Háskóla Íslands um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu verður lögð fram eftir rúma viku. Mikilvægt er, að efni skýrslunnar verði kynnt opinberlega og örvi rökræður um, hvort Ísland eigi að sækja um fulla aðild að sambandinu.

Fyrir löngu er orðið tímabært, að ríkisstjórnin vakni og fari að sinna skyldum sínum á þessu sviði. Hún þarf að skilgreina markmið Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hefja söluherferð fyrir markmiðunum í höfuðstöðvum og aðildarríkjum sambandsins.

Sinnuleysi forsætisráðherra um málið er farið að ganga út í öfgar, en minnir raunar á hliðstætt áhugaleysi hans á skyldum sviðum, svo sem fullgildingu nýja sáttmálans á vegum alþjóðlega tollaklúbbsins Gatt um aukna fríverzlun og minnkun viðskiptahindrana.

Almennt stendur ríkisstjórnin sig ekki í mikilvægum samskiptum við umheiminn. Hún hefur til dæmis ekki látið hefja neinn markvissan áróður á vegum sendiráðsins í Noregi fyrir markmiðum Íslands á hafsvæðum á borð við Smugu, Svalbarðamið og Atlantshafshrygg.

Í stað þess að vinna skipulega að Evrópumálum hefur stjórnin klofnað um hávaðasaman utanríkisráðherra annars vegar og þveran forsætisráðherra hins vegar. Markviss stefnumótun í utanríkisviðskiptum er óframkvæmanleg, meðan ráðherrarnir geta ekki unnið saman.

Þjóðin er komin langt framúr stjórnvöldum í afstöðu til umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Samkvæmt skoðanakönnunum hafa viðhorf fólks breytzt svo ört, að í vor var kominn meirihluti með umsókn. Sá meirihluti hefur síðan haldið áfram að vaxa.

Vilhjálmur Egilsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Verzlunarráðs, segir meirihluta flokksmanna sinna styðja umsókn um aðild og nokkra þingmenn flokksins vera komna á sömu skoðun. Allt er þetta hluti af sinnaskiptum í þjóðfélaginu.

Marklítið er að tönnlast á, að í aðgerðaleysi sínu fylgi ríkisstjórnin bara markaðri stefnu frá Alþingi og sú stefna hafi ekki breytzt. Milli ákvarðana Alþingis þarf stjórnin að undirbúa mál. Tíminn er fugl, sem flýgur hratt. Hann flýgur kannski úr augsýn þér í kvöld.

Utanríkisráðherra hefur gert ýmsa góða hluti í samskiptum við ráðamenn í Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess. Hann hefur fengið þá til að tjá sig á jákvæðan hátt um aðild Íslands og um ýmsa sjávarútvegshagsmuni, sem við þurfum að gæta í viðræðum um aðild.

Sorglegt er, að þessi vinna skuli ekki koma að gagni, af því að trúnaðarbrestur hefur orðið milli forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sumpart vegna of mikils einleiks utanríkisráðherra í málinu og sumpart vegna of mikils þverlyndis forsætisráðherra í sama máli.

Komið hafa í ljós ýmsir möguleikar á að ná samningi um aðild að sambandinu tiltölulega snögglega og á grundvelli fullgildrar aðildar annarra ríkja á Norðurlöndum, í stað þess að fá síðar valdaminni smáríkjaaðild á svipuðum nótum og Malta og Kýpur munu sennilega fá.

Komið hefur í ljós, að ástæðulaus var ótti um, að þátttaka í Evrópska efnahagssvæðinu mundi leiða til flóðs útlendinga hingað í atvinnuleit og til óhóflegra fjárfestinga útlendinga í landinu, svo sem jarðakaupa. Óheillaspár á sviði evrópsks samstarfs hafa alls ekki rætzt.

Að fenginni reynslu á þessu sviði er orðið tímabært að setja á blað skýr markmið Íslands í evrópsku samstarfi og hefja kynningu þeirra í höfuðborgum Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Borgarsómi?

Greinar

Almennt hefur verið talið til skamms tíma, að friðsamlegt samkomulag hafi verið undirritað um, að heimsmeistarakeppni í handbolta yrði haldin í Laugardalshöll á næsta ári, búið væri að draga lið saman og allt væri komið í tiltölulega farsælan og einkum ódýran farveg.

Ágætir menn höfðu tekið ósleitilega til höndum við að bjarga í höfn þessu vandræðamáli, sem aðrir höfðu stofnað til af ofsafengnu kappi og lítilli fyrirhyggju fyrir fjölmörgum árum. Flestir önduðu léttar, þegar lausir endar höfðu verið hnýttir og lið dregin saman.

Þá kemur allt í einu upp úr dúrnum, að Reykjavíkurborg er komin á fulla ferð við að reyna að bjarga því, sem nýir valdhafar á þeim bæ kalla þjóðarsóma, rétt eins og borgarsómi dugi þeim ekki. Allt í einu er verið að velta upp 500 milljón króna handboltahöll að nýju.

Nokkuð ýkjukennt er að tala um þjóðarsóma, þegar málsaðilar voru áður búnir að sættast á þau málalok, að heimsmeistarakeppnin yrði í Laugardalshöll, jafnvel þótt hún sé miklu minni en sem nemur kröfunum, er settar voru fram, þegar mótið féll Íslandi í skaut.

Nú er talað um, að höllin taki í rauninni ekki þann fjölda, sem lofað var, þegar sætzt var á hana. Erfitt er að sætta sig við þá tilhugsun, að jafneinfalt atriði og hámarksfjöldi áhorfenda í gamalgrónu húsi þurfi að vera uppgötvunaratriði löngu eftir að endar voru hnýttir.

Svo virðist þó sem höllin rúmi þá áhorfendur, sem þar þurfi brýnt að vera, en stærri höll mundi geta rúmað fleiri íslenzka áhorfendur, sem ella yrðu að horfa á leikina í sjónvarpi. Varla getur þetta innanlandsvandamál flokkast undir borgarsóma og hvað þá þjóðarsóma.

Hins vegar má taka inn í dæmið auknar tekjur af aðgangseyri í stærri höll og ýmsar tekjur ríkisins og fyrirtækja í samgöngum og ferðaþjónustu af straumi útlendinga til landsins vegna heimsmeistarakeppninnar. Það er mál slíkra aðila að meta gagnið af stærri höll.

Ósvarað er þá nokkrum spurningum. Vilja mótshaldarar leggja fram auknu aðgangstekjurnar sem hlutafé í nýrri höll? Vill ríkið leggja fram tekjuauka sinn í sama skyni? Vilja fyrirtæki í samgöngum og ferðaþjónustu gera það líka? Hvað kemur samanlagt út úr slíku?

Ekki er víst, að alls staðar sé feitan gölt að flá. Hótelrými í Reykjavík mun minnka fram að heimsmeistarakeppni. Íslandsbanki hyggst breyta stóru nágrannahóteli Laugardalshallar í bankaskrifstofur í haust. Ekki verða erlendir gjaldeyristúrhestar hýstir þar á biðstofunum .

Laugardalshöll nýtist illa til vörusýninga og annarrar tekjuöflunar utan handboltatímans. Erfitt er að ímynda sér, að enn stærri höll mundi standa undir sér af stóraukinni starfsemi af slíku tagi. Þess vegna er ekki raunsætt að búast við bitastæðu hlutafé úr ráðstefnugeiranum.

Ef til vill er hægt að reisa fjölnota skemmu fyrir tiltölulega lítið fé og hafa af henni talsverðar tekjur umfram þær, sem nú fást af Laugardalshöll. Hætt er þó við, að tekjuáætlanir málsaðila verði í rósrauðum litum, svo sem oft vill verða, þegar erfið dæmi eru leyst með handafli.

Hin nýju borgaryfirvöld í Reykjavík virðast telja sig hafa ráð á að spýta í þetta dæmi 150 milljónum króna, sem gömlu borgaryfirvöldin gátu ekki, enda dösuð af Perlu og ráðhúsi og Árbæjarlaug. Það hefur löngum verið auðvelt að vera örlátur á kostnað skattborgaranna.

Borgin getur líklega greitt hlut borgarbúa, en annað er, hvort borgar- eða þjóðarsómi heimti þvílíkt frumkvæði hennar, að málsábyrgð lendi að mestu á borginni.

Jónas Kristjánsson

DV

Fara verður að lögum

Greinar

Póst- og símamálastjóri hyggst fara að ósk húsfriðunarnefndar um, að gamla pósthúsið á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis verði málað í upprunalegum lit rauðbrúnum. Með þessu fer hann að lögum og gefur öðrum valdamönnum gott fordæmi, sem ekki veitir af.

Gamla pósthúsið í Reykjavík var friðað árið 1991, eftir að miklar skemmdir höfðu verið unnar á því að innan. Síðan húsið var friðað má ekki breyta svipmóti þess og hafa verður samráð við húsfriðunarnefnd um breytingar. Um mál af þessu tagi gilda sérstök húsfriðunarlög.

Fólk getur deilt um, hvort hin og þessi lög séu góð eða skynsamleg, en nauðsynlegt er að fara eftir þeim. Ef lög eru talin ónothæf, er til stofnun, sem getur breytt þeim. Það er Alþingi. Þetta kerfi lagahefðar er hornsteinn þjóðskipulagsins hér á landi og í öllum nágrannalöndunum.

Töluvert er um, að valdamenn vilji ekki fara að lögum og komist upp með það. Nokkur dæmi um slíkt hafa verið í fréttum að undanförnu. Til skamms tíma leit svo út, sem Póst- og símamálastjóri mundi ekki leita samráðs við húsfriðunarnefnd um litinn á pósthúsinu.

Samkvæmt lögum ber að fá leyfi fornleifanefndar til að raska fornleifum, sem eru orðnar hundrað ára. Fornleifanefnd neitaði að veita leyfi til að raska bæjarstæði Hrafns Sveinbjarnarsonar læknis á Eyri við Arnarfjörð, þegar Hrafnseyrarnefnd vildi reisa þar torfbæ.

Samt fór Hrafnseyrarnefnd sínu fram gegn lögum og rétti. Hún sneri sér til óviðkomandi aðila, þar á meðal til forsætisráðuneytisins, sem lét sig hafa það að lýsa sérstakri ánægju með lögbrotið. Menntaráðherra hefur stutt lögbrotið með því að gera ekkert í málinu.

Frumkvæði að lögbrotinu hafði fyrrverandi ráðuneytisstjóri, sem hefði átt að vita betur. En valdshyggjan er honum orðin svo eiginleg, að hann hefur misst sjónar á, hvar geðþóttavaldið endar og hvar lögin byrja. Hið sama má segja um ráðuneytin, sem styðja hann.

Á Seltjarnarnesi er bæjarstjóri, sem þekktur er af andstöðu við náttúru og menningarsögu. Hann hefur látið gera við Ráðagerði voldugt bortorg, sem er tvöfalt stærra en það þarf að vera. Í því skyni hefur honum tekizt að spilla fjöru, sem ótvírætt er á náttúruminjaskrá.

Samkvæmt lögum þarf að hafa samráð við náttúruverndarráð í slíkum tilvikum, en það var ekki gert, enda fullyrti bæjarstjórinn í fjölmiðlum, að fjaran væri ekki á náttúruminjaskrá. Óbeint er hann studdur af náttúruverndarráði, sem enn hefur ekki mannað sig til mótmæla.

Áður hafði verið rifinn meira en aldargamall sjóvarnar- og túngarður við Eiði. Grjótið úr garðinum hefur nú verið notað í annan vegg, sem er allt öðruvísi en gamli garðurinn og sumpart á öðrum stað. Búið er að breyta fornminjum í eins konar fyrirbæri úr tízkublaði.

Varað var við þessum spjöllum bæjarstjórans á Seltjarnarnesi í tæka tíð. Samt var ekki farið að lögum og engin tilraun gerð til að tryggja, að garðurinn yrði endurhlaðinn á upprunalegan hátt. Ef ljósmyndir hafa verið teknar og teikningar gerðar, þá voru þær ekki notaðar.

Lögbrot eru ekki bara framin á sviðum menningarsögu og náttúruverndar. Á sama tíma hafa bankarnir ólögleg samráð um debetkort, þar sem tugum milljóna er velt á herðar almennings, og hafa síðan ólöglög samráð við samtök kaupmanna um staðfestingu lögbrotsins.

Með sífelldum lögbrotum af ýmsu tagi og afskiptaleysi af lögbrotum af ýmsu tagi eru stjórnvöld í anda austræns geðþótta að grafa undan hornsteini þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Færeysk-vestfirzka leiðin

Greinar

Vestfirðir eru víti fyrir þjóðina til að varast. Þar fellur atburðarásin í farveg, sem minnir á Færeyjar síðustu tvo áratugina, er skuldlaust ríki breyttist á undraskömmum tíma í gjaldþrota ríki. Enda minna úrbótatillögur frá Vestfjörðum á hrapalleg úrræði færeyskra stjórnvalda.

Þótt atvinna sé enn meiri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum, stendur hún mjög tæpt vegna slæmrar stöðu mikilvægra fyrirtækja. Hér í blaðinu birtist á laugardaginn yfirlit yfir stöðuna. Það sýndi, að hrun blasir við stórfyrirtækjum í flestum plássum Vestfjarða.

Færeysk-vestfirzka ástandið lýsir sér bezt í einhæfu atvinnulífi. Vestfirzk fyrirtæki hafa fæst fetað leið annarra sjávarútvegsfyrirtækja, sem áður voru eins háð þorski, en hafa smám saman breytt samsetningu aflans. Vestfirðingar hafa bitið sig fasta í þorsksérhæfinguna.

Um atvinnulíf gilda svipuð lögmál og um dýrategundir. Sumum dýrategundum vegnar vel um tíma, af því að þær laga sig að sérstökum aðstæðum. Þegar þær aðstæður breytast snögglega, deyja sérhæfðu tegundirnar út, meðan hinar sveigjanlegri lifa áfram og þróast.

Nýjasta og róttækasta dæmið um færeyskt-vestfirzkt ástand er Þingeyri. Þar hefur sérhæfingin verið slík, að nánast öll egg atvinnulífsins eru í einni kaupfélagskörfu. Þegar Fáfnir riðar til falls, er allt bæjarfélagið í hættu, af því að enginn annar stór vinnuveitandi er á staðnum.

Við þessi lögmál Darwins bætist svo fyrirhyggjuleysi ráðamanna Þingeyrar. Á sama tíma og atvinnulífið er að sigla í strand, standa þeir í stórframkvæmdum á borð við íþróttahús, sundlaug, heilsugæzlustöð og vistheimili fyrir aldraða, fyrir samtals 260 milljónir króna.

Svo veraldarfjarlægir eru ráðamenn Þingeyrar, að þeir segja skuldir sveitarfélagsins vera þolanlegar. Um þær gildir þó gamalt lögmál, sem segir, að allt sé aumingjanum of dýrt. Þegar sveitarfélag missir útsvarstekjur vegna gjaldþrota, minnkar skuldagreiðslugeta þess.

Ráðamenn Þingeyrar bíða nú eftir lánum til að standa undir fjárfestingarsukki sínu. Þegar á svo að fara endurgreiða lánin, mun atvinnulífið á staðnum hafa dregizt saman og útsvarstekjur sveitarfélagsins minnkað. Þetta er færeysk-vestfirzka ástandið í hnotskurn.

Á sama tíma hafa þingmenn Vestfjarða staðið fremstir í flokki þeirra, sem standa vörð um, að þjóðfélagið brenni 15-20 milljörðum á hverju ári í ríkisrekstri hefðbundins landbúnaðar. Þannig hafa þeir hindrað, að ríkið eigi aflögu hálfan milljarð í Vestfjarðaaðstoð.

Þannig er ógæfa Vestfjarða að mestu heimatilbúin af lélegum þingmönnum, lélegum sveitarstjórnarmönnum og lélegum forstjórum atvinnulífs. Þessir aðilar hafa bitið sig fasta í fortíðina og vilja nú, að samfélagið dragi sig vélarvana að landi. Þetta er alveg eins og í Færeyjum.

Munur Færeyja og Vestfjarða er raunar helztur, að danski ríkiskassinn hefur verið gjafmildari á undanförnum árum en hinn íslenzki. Þess vegna eru Færeyjar þegar orðnar gjaldþrota, en Vestfirðir búa enn við blómlega atvinnu, þótt þeir rambi á brún hengiflugsins.

Að svo miklu leyti sem framtíð Vestfjarða er í þorski, felast hagsmunir Vestfjarða í margumtöluðum auðlindaskatti, sem leysi þreytulegt kvótakerfi af hólmi. Að öðru leyti verða Vestfirðingar eins og aðrir að losna úr vítahring einhæfninnar og sérhæfingarinnar í þorski.

Ríkissjóður getur lítið gert til aðstoðar, því að hann er þegar ryksugaður í þágu landbúnaðar, að tilhlutan vestfirzkra þingmanna með færeyskan hugsunarhátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Sukkflokkar endurkosnir

Greinar

Í lögþingskosningunum á fimmtudaginn studdu Færeyingar gömlu stjórnmálaflokkana, sem hafa komið þeim á kaldan klaka. Flokkarnir, sem ráðið hafa ferðinni undanfarna áratugi, Sambandsflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn og Fólkaflokkurinn, fengu 19 þingmenn af 27.

Mestan stuðning hlaut Sambandsflokkurinn, sem hefur ráðið mestu um þá hefðbundnu stefnu færeyskra stjórnvalda að mjólka danska ríkissjóðinn sem allra mest, í stað þess að færa fjárhagslega ábyrgð af tilveru Færeyinga sem þjóðar yfir á herðar Færeyinga sjálfra.

Fremst þar í flokki hefur verið aðalblað Færeyja, Dimmalætting, sem áratugum saman hefur varað Færeyinga við íslenzku leiðinni og flutt rækilegar fréttir af verðbólgu á Íslandi og öðru því, sem þar væri að fara fjandans til, einmitt vegna íslenzka sjálfstæðisbröltsins.

Sníkjustefnan gagnvart Dönum, sem Sambandsflokkurinn og Dimmalætting stóðu fyrir, fór saman við smábyggðastefnuna, sem Jafnaðarmannaflokkurinn stóð fyrir. Úr þessu varð mikið peningaflæði og skuldaskrímsli, sem hefur komið Færeyjum í dúndrandi gjaldþrot.

Danskir stjórnmálamenn bera líka töluverða ábyrgð á hruni Færeyja. Það varð að hefð í dönskum stjórnmálum, að færeyskir þingmenn á þingi Dana studdu ríkisstjórnir með tæpan eða engan meirihluta gegn því að fá síaukna styrki og fyrirgreiðslur til Færeyja.

Smám saman glötuðu færeyskir ráðamenn tilfinningunni fyrir verðmætum. Fræg eru götin, sem þeir létu bora hér og þar í fjöll til að efla samgöngur. Nógir peningar fengust frá Dönum til allra hluta og ekkert þurfti að standa undir sér, ekki einu sinni sjávarútvegurinn.

Færeyingar voru lengi svo verndaðir gegn raunveruleikanum, að þeir töldu sig ekki þurfa neitt takmörkunarkerfi á fiskveiðar á borð við íslenzka kvótakerfið. Þeir veiddu sinn fisk í þrot og uppskera nú aflabrest, sem er margfalt alvarlegri en íslenzki þorskbresturinn.

Hagsmunaðilar í sjávarútvegi, sægreifar og verkalýðsrekendur sjómanna, tóku höndum saman við færeysk stjórnvöld og fjölmiðlana um að búa til viðamikið styrkjakerfi, sem endaði með því árið 1988, að önnur hver króna af tekjum sjávarútvegs fékkst frá hinu opinbera.

Aðferðir færeyskra stjórnmálamanna minntu nokkuð á aðferðir íslenzkra stjórnmálamanna á svipuðum tíma, einkum hjá ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem setti upp milljarðasjóði að færeyskum hætti til að tryggja atvinnu út og suður og forða fyrirtækjum frá gjaldþroti.

Munur Íslands og Færeyja fólst í stærðargráðu sjóðasukksins, sem var margfalt meira í Færeyjum, og einnig í viðtakanda reikningsins. Íslendingar sendu afkomendum sínum reikninginn, sem verður greiddur; en Færeyingar sendu hann Dönum, sem vilja ekki greiða hann.

Ef Færeyingar hefðu verið sjálfstæðir eins og Íslendingar, hefði ekki verið hægt að rækta eins gegndarlaust ábyrgðarleysi og þeir gerðu í skjóli velvildar danskra ráðherra til hægri og vinstri, sem héngu í stólunum fyrir atkvæði færeyskra þingmanna á danska þinginu.

Niðurstaða kosninganna í Færeyjum sýnir, að kjósendur þar í landi eru ekki reiðubúnir til að taka afleiðingunum af fortíðinni, heldur kjósa þeir að reyna að láta Dani halda áfram að borga brúsann, enda þótt gjafmildi herraþjóðarinnar hafi brugðizt síðasta rúma árið.

Í kosningunum endurkusu Færeyingar gömlu stjórnmálaflokkana, sem mótuðu þá þróun efnahags- og fjármála, svo og lífsviðhorfa, sem urðu Færeyjum að falli.

Jónas Kristjánsson

DV

Botninn skrapaður

Greinar

Forsætisráðherra telur, að botni sé náð í efnahagskreppu landsins. Til fulltingis hefur hann þjóðhagsstjóra, sem telur, að hagtölur séu hættar að versna og muni batna örlítið á næsta ári. Með þessum yfirlýsingum er ráðgert, að þjóðin komist í betra skap á kosningaári.

Ánægjulegt er, að landsframleiðslan dregst ekki saman á þessu ári eins og búizt hafði verið við í þorskveiðikreppunni. Landsframleiðslan virðist munu haldast óbreytt milli ára vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði áls og fjölgunar erlendra ferðamanna til landsins.

Að þessu leyti njótum við efnahagsbata umheimsins. Hagvöxtur er að komast á góða ferð í nágrannalöndunum og það endurspeglast að venju í batnandi viðskiptakjörum okkar og auknum þjóðartekjum. Það falla alltaf molar til okkar, ef vel gengur í viðskiptalöndum okkar.

Þótt botni sé náð í kreppunni, eru spátölur Þjóðhagsstofnunar fyrir næsta ár ekki svo glæsilegar, að hægt sé að hrópa húrra. Gert er ráð fyrir 1% hagvexti á næsta ári í stað 0% á þessu ári, 5,3% atvinnuleysi í stað 5,2% á þessu ári og 2% verðbólgu í stað 1,7% á þessu ári.

Í rauninni segja tölurnar, að ástandið á næsta ári verði svipað og það hefur verið á þessu ári. Það er út af fyrir sig varnarsigur, því að þjóðin hefur meira eða minna lagað sig að núverandi aðstæðum og sett upp súpueldhús fyrir þá, sem ekki geta bjargað sér í atvinnuleysinu.

Spátölur ríkisins segja líka, að á næstu misserum muni Ísland ekki taka neinn marktækan þátt í aukinni velgengni umheimsins. Á næsta ári muni áfram ríkja hér meiri eða minni stöðnun, á sama tíma og hjól efnahagslífsins eru komin á góða ferð í nágrannalöndunum.

Spátölurnar segja okkur, að við höfum sem þjóð lagað okkur að efnahagserfiðleikunum, en tæpast gert nokkuð að gagni til að aflétta séríslenzkum aðstæðum, sem hafa búið til séríslenzka kreppu. Við höfum varla gert nokkuð til að losna við kreppuvalda efnahagslífsins.

Við búum enn við ríkisrekstur hefðbundins landbúnaðar og brennum á þann hátt 15-20 milljörðum króna á hverju ári. Það eitt út af fyrir sig nægir til að rækta myndarlega kreppu. Til viðbótar frestum við í sífellu að breyta kvótakerfi sjávarútvegs í vitrænna horf.

Við munum áfram búa við kreppu, meðan ekki er lagður niður ríkisrekstur á landbúnaði og meðan ekki er komið upp auðlindaskatti í stað kvótakerfis í sjávarútvegi. Hægfara aukning erlendra ferðamanna og sveiflur á álverði megna ekki að bæta okkur aðgerðaleysið.

Ef til vill er þjóðin orðin svo framtakslítil og væntingasnauð, að hún fagnar upplýsingum og kenningum um, að vont efnahagsástand muni ekki enn versna. En ekki eru mörg ár síðan hún ætlaði sér stærri hluti í lífinu en að verða að eins konar Árbæjarsafni í Atlantshafi.

Sjálfsánægjan að baki kenningarinnar um betri tíð sýnir, að núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að enda feril sinn með neinum aðgerðum, sem gefi tilefni til aukinna væntinga þjóðarinnar. Næsta ríkisstjórn, á vegum Framsóknarflokksins, mun ekki heldur gefa slík tilefni.

Íslendingar hafa verið duglegir við að hlaða niður börnum, en minna hugsað um að búa þeim glæsta framtíð. Þeim mun duglegri höfum við verið að hnýta börnum okkar skuldabagga til að standa undir eyðslu líðandi stundar. Við erum að eyðileggja væntingar arftakanna.

Ný þjóðhagsspá og meðfylgjandi sjálfsánægja stjórnvalda yljar ekki á ljúfum sumardegi, heldur gefur kuldahroll af tilhugsuninni um veruleikann að baki tölunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Frábær sendiherra

Greinar

Aðeins ein íþróttagrein kallar ein sér á tíu þúsund áhorfendur, er Íslandsmót er haldið. Í aðeins einni grein sitja menn þúsundum og dögum saman í grasbrekku til að horfa á svo langvinna keppni, að í sumum tilvikum fást ekki tölur fyrr en að nokkrum dögum liðnum.

Landsmót hestamanna að Hellu sýndi enn einu sinni, að hestamennska er í senn ein helzta þátttökuíþrótt landsmanna og langsamlega vinsælasta áhorfendaíþróttin. Hraðgengustu boltaíþróttir með miklum markafjölda ná ekki þvílíkum áhorfendaskara á helztu leiki Íslandsmóta.

Landsmót hesta og hestamanna eru raunar tvö, því að í lok þessa mánaðar verður haldið árlegt Íslandsmót í hestaíþróttum. Munurinn á þessu tvennu er einkum sá, að á landsmóti hestamanna keppa hestarnir, en á Íslandsmóti í hestaíþróttum keppa knaparnir.

Áhorfendur á Íslandsmóti í hestaíþróttum verða mun færri en voru á landsmóti hestamanna. Þar verða keppendur, frændur og vinir eins og á stórmótum í öðrum vinsælustu íþróttagreinum landsmanna. En keppni knapanna stenzt engan samjöfnuð við keppni hestanna.

Enginn atburður á Íslandi dregur útlendinga til landsins í þeim mæli, sem landsmót hestamanna gerir á reglubundinn hátt. Heimsmeistarakeppni í handbolta mun tæpast draga hingað 4000 útlendinga, hvað þá önnur keppni eða hátíð. En það gerði landsmótið að þessu sinni.

Íslenzki hesturinn er orðinn að þvílíkum draumi í hugarheimi fólks víðs vegar um Evrópu og Norður- Ameríku, að utan Íslands eru gefin út að minnsta kosti fjórtán tímarit um íslenzka hestinn eingöngu. Um 50.000 íslenzkir hestar eru í Þýzkalandi einu saman.

Eigendur íslenzkra hesta um allan heim eru að verða að eins konar þjóðflokki, sem heldur þjóðhátíð sína til skiptis á landsmóti hestamanna á Íslandi og á heimsleikum íslenzkra hesta, sem haldnir eru í Evrópu. Allir þræðir þessarar sérvitringaþjóðar liggja til Íslands.

Hesturinn er það, sem allt snýst um í þessum hópi. Það er ekki aðeins hin einstæða geta á fimm gangtegundum, sem höfðar til fólks, heldur einnig óvenjulega ljúft skaplyndi, hlaupagleði og mannelska íslenzka hestsins, sem hittir fólk um allan heim beint í hjartastað.

Þótt mestu áhugamennirnir reyni alls staðar að rækta sjálfir íslenzka hesta, er reynslan sú, að það bezta verða menn að sækja til Íslands. Árlega eru fluttir út milli 2000 og 3000 fulltamdir reiðhestar og kynbótahryssur, svo og tugir stóðhesta. Þessi útflutningur vex með hverju ári.

Umhverfis þetta áhugamál hefur myndazt fjölmenn stétt atvinnumanna. Þar eru hrossabændur og ferðabændur; tamningamenn og járningamenn, sýningarknapar og hestabraskarar, hestaleigjendur og leiðsögumenn hestaferða, reiðkennarar og fjölmiðlamenn.

Hestamennska er orðin umfangsmikill þáttur í ferðaþjónustu, svo sem sést af landsmóti hestamanna. Hundruð erlendra gesta eru hér vikum saman, margir kaupa hesta og hestavörur. Margir koma hingað á hverju ári til að hitta vini, stunda viðskipti eða til hestaferða.

Samt eru lagðir steinar í götu hestaferða, einkum af hálfu Vegagerðarinnar, sem spillir og eyðir gömlum reiðleiðum, og sumra landeigenda, sem girða fyrir gamlar reiðleiðir. Hvort tveggja er ólöglegt, en samt framkvæmt í stórum stíl, af því að lögum er ekki framfylgt.

Öll byggist þessi velta á íslenzka hestinum, sem hvarvetna verður miðpunktur fjölskyldulífs, þar sem hann kemur á vettvang, hinn frábæri sendiherra Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV

Skopmynd af ríkisrekstri

Greinar

Einn þekktasti leturhönnuður og leturfræðingur heims er Gunnlaugur Briem, sem búsettur hefur verið jöfnum höndum í San Francisco og London. Hann hefur ritað þekkta bók um leturfræði og er eftirsóttur fyrirlesari. Hann hefur hannað letur ýmissa heimsþekktra blaða.

Ætla má, að íslenzk stofnun, sem býr ekki yfir nokkurri minnstu þekkingu á sviði leturfræða og prentlistar, taki tveimur höndum vinsamlegum tillögum frá slíkum manni um leturbreytingu á símaskrá, svo að hún minnki um fjórðung og verði læsilegri um leið.

En embættismenn Póst- og símamálastjórnarinnar á Íslandi vita ekkert, hver er Gunnlaugur Briem, ekki frekar en þeir vita, hver var Picasso eða Gutenberg. Þeir vita yfirleitt ekki, hvað er leturfræði eða leturhönnun. Allt, sem varðar prentlist, er þeim lokuð bók.

Er bréf Gunnlaugs Briem barst yfirmönnum Pósts og síma fyrir nokkrum árum, stungu þeir því undir stól, af því að þeir töldu, að fólk úti í bæ ætti ekki að skipta sér af þeim. Þeir sameinuðu heimsku og hroka skopmyndarinnar af embættismönnum í einokunarstofnun.

Löngu áður en byrjað var að undirbúa hina furðulegu símaskrá, sem landsmenn hafa nú fengið í hendur, vissu yfirmenn Pósts og síma, að framganga þeirra í leturmálinu var orðin til umfjöllunar í fjölmiðlum. Eigi að síður fóru þeir sínu fram, með augljósum afleiðingum.

Ef embættismenn Pósts og síma hefðu meðtekið tillögur sérfræðingsins af tilhlýðilegri auðmýkt og virðingu, hefði verið hægt að koma allri símaskránni fyrir í einu bindi, sem ekki hefði verið stærra en annað bindið er nú. Um leið hefði bókarletrið orðið mun læsilegra.

Afleiðingin af framgöngu embættismanna Pósts og síma er tvískipt símaskrá, sem er full af villum og eyðum vegna tvískiptingarinnar. Viðskiptamenn stofnunarinnar verða að leita í tveimur skrám til að finna símanúmer fyrirtækja og stofnana og sum númer finnast alls ekki.

Tugir og ef til vill hundruð farsímanúmera eru ekki í skránum, ekki heldur ýmis númer á sviði neyðarþjónustu, svo sem nokkurra lækna. Að öðrum númerum leita menn fyrst í atvinnuskránni og finna síðan í almannaskránni, samkvæmt geðþóttaskiptingu Pósts og síma.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur Póstur og sími gefið út símaskrá, sem er skorin á þann hátt, að sums staðar detta línur og símanúmer niður af síðunum. Hörmuleg vinnubrögð stofnunarinnar við útgáfu skrárinnar eru óþekkt fyrirbæri í útgáfustarfsemi á Íslandi.

Þetta er auðvitað stofnunin, sem heldur, að Ericsson hafi fundið upp símann, og hefur ítrekað valdið fyrirtækjum stórfelldum skaða með óskýranlegum bilunum í nýlegum símstöðvum. Stofnunin, sem hagar sér svona, er auðvitað ein þekktasta einokunarstofnun ríkisins.

Þótt raunasaga Pósts og síma sé löng, eru viðbrögð stofnunarinnar við leturtillögum, og afleiðingar þeirra viðbragða í furðulegri símaskrá, eitt einfaldasta og skýrasta dæmið um, að stofnunin er ekki fær um að þjóna fólkinu í landinu og ætti að glata einokuninni.

Hlutverks síns vegna gefur Póstur og sími út á hverju ári þá bók, sem eðli málsins samkvæmt er mest notuð. Þess verður hvergi vart, að fagþekkingu, sem beitt er við nokkurn veginn allar aðrar bækur og flest prentað mál, sé beitt innan hinnar gæfulausu einokunarstofnunar.

Póstur og sími fékk lausn símaskrármálsins afhenta á silfurfati fyrir nokkrum árum, en heimska og hroki komu í veg fyrir, að stofnunin nýtti sér hana.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkis- og heimilisrekstur

Greinar

Rekstur íslenzkra heimila er ekki byggður á vinnubrögðum, sem stjórnvöld hafa tamið sér við rekstur ríkisins. Heimilisfólk safnar ekki saman óskalistum, er fela í sér útgjöld, sem fara 20% umfram tekjur. Það heldur sér einfaldlega innan við ramma heimilisteknanna.

Á íslenzkum heimilum fara ekki fram fundahöld um, hvort rétt sé að kaupa uppþvottavél eða fara í ferðalag fyrir peninga, sem ekki eru til. Meira að segja börnin á heimilinu skilja, að ýmis lífsgæði kosta raunverulega peninga, en eru ekki bara línur í bókhaldi töframanns.

Því síður geta íslenzkar fjölskyldur ákveðið að meira eða minna af óskhyggju þeirra nái fram að ganga með því að skylda umhverfið til að láta þær hafa meiri tekjur. Heimilisrekstur er ekki truflaður af skattlagningarvaldi eins og rekstur ríkisins hefur reynzt vera.

Ef ríkisreksturinn væri með felldu, væri fyrst áætlað, hverjar tekjurnar yrðu við óbreyttar aðstæður. Síðan væri athugað, hvort rétt væri að lækka skatta til að gleðja fólkið í landinu. Hins vegar létu menn sér ekki detta í hug að hækka enn einu sinni skatta á fólkinu.

Þegar þannig væri búið að finna áætlaða tekjuhlið ríkisrekstrarins á næsta ári, væri kannað, hverjar væru skuldbindingar ríkisins á ýmsum sviðum. Að vísu er matsatriði, hversu mikið þær eiga að kosta hverju sinni, en nauðsynlegt er að hafa hliðsjón af lagasmíði Alþingis.

Með tilliti til skuldbindinga ríkisins væri síðan ráðstöfunarfé ársins skipt milli ráðuneyta og helztu stofnana ríkisins og þeim skipað að halda sig innan rammans, alveg eins og hver heimilismaður verður að halda sig innan þess ramma, sem fjárhagur heimilisins leyfir.

Við slíkar aðstæður þarf að leysa frá störfum þá embættismenn, sem ekki geta haldið sig innan rammans. Við fyrsta brot má senda þá á hússtjórnarskóla til að læra grundvallaratriði í heimilishaldi. Við ítrekað brot er brýnt að skipta þeim út fyrir aðra, sem kunna sér hóf.

Auðvitað yrði mikið ramakvein í kerfinu. Embættismenn segðu, að ekki væri hægt að komast af með svona litla peninga. Alþingismenn heimtuðu, að staðið væri við kippur af óskhyggjulögum, sem þeir hafa afgreitt út í loftið án hliðsjónar af kostnaði við framkvæmd laganna.

Smám saman áttuðu embættismenn og alþingismenn sig á, að ekki mætti byggja ríkisrekstur á óskhyggju og að fresta þyrfti mörgum ráðgerðum góðverkum. Ramakveinum fækkaði og rekstur ríkisins færðist nær eðlilegu horfi, svo sem við þekkjum frá heimilum landsins.

Fjölskyldurnar í landinu geta ekki stundað góðverk á kostnað skattgreiðenda. Það hafa embættismenn og alþingismenn hins vegar hingað til getað gert. Þeim hefur reynzt auðvelt að vera örlátir á kostnað annarra. Þess vegna eru fjárlög ríkisins að sliga þjóðfélagið.

Enn einu sinni hefur óskhyggjuleiðin verið farin við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár. Safnað hefur verið saman óskhyggju embættismanna, sem sumpart er byggð á óskhyggju úr lögum frá alþingismönnum. Úr þessu kemur heildargat, sem nemur 20 milljörðum króna.

Senn mun hefjast hefðbundið rifrildi um, hvernig brúa megi bilið með niðurskurði og sköttum, svo að eftir verði helmingur af tapi ársins. Niðurstaðan verður nokkurn veginn hin sama og í ár, eins konar uppgjöf. Fjárlög næsta árs fara um eða yfir 10 milljarða úr böndum.

Stundum hefur verið minnt á, að á ríkisreksturinn þurfi að beita þekkingu og reynslu úr heimilisrekstri. Á það er aldrei hlustað, ekki heldur að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Dularfullur flokkur

Greinar

Alþýðuflokkurinn hefur þá sérstöðu meðal stjórnmálaflokka að rúma bæði vinsælasta stjórnmálamann þjóðarinnar og hinn óvinsælasta. Nýlega hafnaði flokkurinn hinum vinsæla sem formanni og endurkaus hinn óvinsæla. Um leið jók flokkurinn fylgi sitt lítillega.

Í þessu felast miklar þverstæður. Jóhanna Sigurðardóttir er rúmlega tvöfalt vinsælli en þeir stjórnmálamenn þjóðarinnar, sem næstir koma. Jón Baldvin Hannibalsson er óvinsælli en aðrir stjórnmálamenn samanlagðir, en heldur samt völdum í flokknum og eykur fylgi hans.

Hluti af skýringunni felst í, að Jóhanna Sigurðardóttir sækir fylgi sitt aðeins að litlu leyti til kjósenda Alþýðuflokksins, 6%. Hún hefur meira fylgi í öðrum flokkum og langmest meðal óákveðinna kjósenda, 50%. Það fylgi nýtist henni ekki í valdabaráttu innanflokks.

Hefðbundnir jafnaðarmenn, sem Jóhanna telur sig höfða til, eru bara að litlu leyti í Alþýðuflokknum. Hann er ekki lengur íslenzkur fulltrúi jafnaðarstefnunnar nema að forminu til. Að innihaldi hefur flokkurinn breytzt í atvinnu- og embættabandalag virkra félagsmanna.

Þetta virðist duga flokknum til nokkurs fylgis. Eftir margar og frægar embættaveitingar á vegum flokksins í vetur er hann heldur á uppleið og nálgast það fylgi, sem hann hafði í síðustu kosningum. Hann nýtur 14% fylgis þjóðarinnar og hafði 15,5% í síðustu kosningum.

Alþýðuflokknum er hvorki refsað fyrir framúrstefnu í pólitískri spillingu né fyrir að hafna vinsælasta stjórnmálamanni þjóðarinnar. Þessi sérstaða hlýtur að byggjast á, að flokkurinn er ekki lengur hefðbundinn flokkur, heldur aðferð til að útvega félagsmönnum störf.

Þetta virðast ef til vill vera fátæklegar og ófullnægjandi skýringar á merkilegu rannsóknarefni. Hálfu erfiðara er þó að skýra, hvers vegna eiginhagsmunaflokkur heldur dauðahaldi í langsamlega óvinsælasta stjórnmálamann landsins sem skipstjóra á flokksfleyinu.

Stundum hafna virkustu félagsmennirnir, svokallaðir flokkseigendur, vinsælum stjórnmálamönnum af ótta við að missa tökin, af ótta við flokkseigendaskipti. Frá sjónarmiði flokkseigenda er oft mikilvægara að hafa sterk tök á litlum flokki heldur en veik tök á stórum flokki.

Ef til vill eru virkir flokksmenn ánægðir með fylgisafla skipstjórans eins og hann er, úr því að hann dugar flokknum til aðildar að ríkisstjórn, og vilja ekki láta hugmyndafræðilegan stjórnmálamann spilla andrúmslofti bróðurlegrar skiptingar opinberra starfa.

Erlendis eru þó mörg dæmi um, að hagsýnir flokkar eru fljótir að skipta um formann, ef þeir verða óvinsælir. Þeir reyna að tefla fram vinsældamönnum hvers tíma til að vernda aðstöðu flokksins til að skaffa virkum flokksmönnum gott lifibrauð og varðveita það.

Við höfum raunar nýlegt dæmi um, að hagsýnn stjórnmálaflokkur skipti um borgarstjóraefni í miðri kosningabaráttu í útreiknaðri von um, að það mætti verða til að verja meirihlutann í borginni og þar með aðstöðu flokksins til að deila og drottna. Það tókst næstum því.

Flókið dæmi Alþýðuflokksins sýnir, hversu erfitt er að búa til formúlur um stjórnmál. Er sjónarmið og hagsmunir togast á, geta tiltölulega léttvæg atriði ráðið úrslitum á vogarskálinni. Vonin um varðveizlu 15% fylgis getur til dæmis aukið kjark til viðhalds spillingar.

Gallinn við 15% fylgi og óvinsælan karl í brúnni er þó sá, að það dugar Alþýðuflokknum ekki til áframhaldandi setu við kjötkatlana í núverandi stjórnarmynztri.

Jónas Kristjánsson

DV