Greinar

Er líf milli kannana?

Greinar

Stjórnmálamenn fara eftir skoðanakönnunum, þótt þeir lasti þær stundum. Þeir skipta jafnvel um borgarstjóraefni í miðri á, ef skoðanakannanir eru ekki nógu hagstæðar. Með sama áframhaldi hætta stjórnmálamenn að stjórna og gerast sporgöngumenn skoðanakannana.

Erlendis hefur mátt sjá, að áhrif skoðanakannana á framgöngu stjórnmálamanna hafa hægt og sígandi verið að aukast í nokkra áratugi. Þetta ósjálfstæði stjórnmálamanna er orðið svo ráðandi, að sumir valdamenn gera nánast ekkert án þess að spyrja skoðanakannanir fyrst.

Þetta gengur út í þær öfgar, að langtímasjónarmið víkja fyrir skammtímasjónarmiðum. Stjórnmálamenn fara að hugsa í stuttum tímaeiningum milli skoðanakannana í stað þess að hugsa í heilum kjörtímabilum; eða það, sem bezt er, í heilum stjórnmálaferli sínum.

Flestir stjórnmálamenn hafa meiri áhyggjur af næstu skoðanakönnun en stöðu sinni í veraldarsögunni eða landssögunni. Þetta veldur því, að þeir haga sér að verulegu leyti eins og tízkufyrirbæri. Þeir endast illa og fá léleg eftirmæli, þegar þeir hafa lokið ferli sínum.

Þetta er ekki skoðanakönnunum að kenna, heldur stjórnmálamönnunum sjálfum. Þeir gætu haft meira hóf í dýrkun sinni á skoðanakönnunum. Og skoðanakannanir hafa líka mjög jákvæð áhrif. Þær koma til dæmis í veg fyrir, að kosningastjórar mati fólk á ýktum fylgistölum.

Skoðanakannanir valda því, að við getum tiltölulega nákvæmlega fylgst með gengi flokka og manna í kosningabaráttu og þurfum ekki að sæta bulli úr kosningastjórum. Þær eru viðbót við fyrri upplýsingar og sem slíkar auka þær við þekkingu fólks og heilla þjóða.

DV hefur í vetur lagt sérstaka áherzlu á birtingu niðurstaðna skoðanakannana um fylgi framboðslistanna í Reykjavík. Þessar kannanir hafa orðið tíðari með vorinu og verður sú næsta birt á mánudaginn. Spennandi verður að sjá, hvort hún sýnir marktæka breytingu.

Hingað til hafa kannanirnar ekki sýnt miklar sveiflur og raunar eindregna yfirburði R-listans. Þær sýna líka, að persónur borgarstjóraefnanna skipta meira máli en nokkru sinni fyrr. Þær selja báðar svo vel, að segja má, að kosningabaráttan snúist bara um tvær persónur.

Könnun DV hefur sýnt, að kjósendur hafa litla sem enga skoðun á öðrum frambjóðendum listanna og í sumum tilfellum er hún fremur neikvæð en jákvæð. Borgarstjóraefnin fá hins vegar mjög jákvæða útkomu, Ingibjörg Sólrún 42% gegn 3% og Árni 26% gegn 7%.

Hingað til hafa kannanirnar sýnt, að óvenjulega stór hluti kjósenda hafði þegar gert upp hug sinn, áður en kom að kosningabaráttu. Aðeins 20% þeirra höfðu ekki afstöðu eða vildu ekki tjá sig. Yfirleitt hefur þetta hlutfall verið um og yfir 40% í upphafi kosningabaráttu.

Þegar kosningabaráttan var hafin, hækkaði hlutfall óákveðinna og þeirra, sem ekki vildu tjá sig, úr 20% í 25%. Það bendir til, að kosningabarátta geti lítillega hrært upp í sumu fólki. En það sannar ekki, að kosningar vinnist á að kasta tugmilljónum króna í þær í örvæntingu.

Þessar staðreyndir einkenna kosningabaráttuna. R- listinn reynir að halda sjó og forðast mistök. D-listinn leitar nýrra hliða, sem geti framkallað slík mistök. Báðir fiska listarnir sem óðast í þeim fimmtungi kjósenda, sem ekki hafði gert upp hug sinn í síðustu skoðanakönnun.

Hitt er svo önnur saga og gleðileg, að hvernig sem úrslit verða, fá Reykvíkingar borgarstjóra, sem verður mun betri en hefðbundnir stjórnmálaforingjar landsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Páfi skiptir um trú

Greinar

Bankastjóri og helzti málsvari Landsbankans sagði í ræðu á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á föstudag, að kreppan á Íslandi stafaði af óráðsíu, offjárfestingu og gegndarlausri eyðslu vegna kunningsskapar, fyrirgreiðslu og atkvæðakaupa stjórnmálamanna.

Það eru ekki nýjar fréttir, að kreppan á Íslandi sé framleidd af stjórnmálamönnum. Þessu hinu sama hefur til dæmis verið haldið fram í leiðurum DV um langt skeið. Það er hins vegar nýtt, að helzti málsvari langstærsta viðskiptabanka landsins komist að sömu niðurstöðu.

Það er ekki lengur sérvizka utan úr bæ, að íslenzka kreppan sé heimatilbúin. Þeirri skoðun er nú einnig haldið fram innan úr kerfinu sjálfu og það af manni, sem hefur áratuga reynslu af stjórnmálum sem þingmaður og ráðherra, er fékk að lokum bankastjórastól í verðlaun.

Hinn harðorði bankastjóri er Sverrir Hermannsson, sem á stjórnmálaferli sínum var einn þekktasti fulltrúi pólitíska fyrirgreiðslu- og atkvæðakaupakerfisins. Að einmitt hann skuli nú hafa tekið rétta trú, jafngildir því, að páfinn í Róm fari skyndilega að boða Lúterstrú.

Áður en Sverrir varð ráðherra, var hann um langt skeið forstjóri viðamestu fyrirgreiðslustofnunar stjórnmálanna, Byggðastofnunar. Hann var í senn þingmaður og Byggðastofnunarstjóri og þannig einn af valdamestu mönnum landsins á sviði úthlutunar til gæluverkefna.

Hvaða augum sem menn líta á stjórnmálaferil bankastjórans, þá fer ekki hjá, að þeir taki eftir, að einn helzti fulltrúi kerfisins prédikar skyndilega, að kerfið sé svo óalandi og óferjandi, að það sé nánast búið að koma í veg fyrir rekstur sjálfstæðs þjóðfélags á Íslandi.

Eitt sérkenna Íslendinga er, að þeir hneigjast margir til að hafa meiri áhuga á, hver segir hvað, en hvað er sagt. Þess vegna hljóta kenningar utankerfismanna um stjórnmálaóreiðu að öðlast aukið vægi við, að hinar sömu kenningar koma nú innan úr herbúðum kerfisins sjálfs.

Sverrir Hermannsson sagði líka í ræðunni, að stanzlaust góðæri gæti verið á Íslandi, ef þjóðin lærði af mistökunum. Samkvæmt því verður þjóðin þá fyrst fullnuma á þessu sviði, þegar hún hættir að endurkjósa stjórnmálamenn, sem hafa stundað fyrirgreiðslu og atkvæðakaup.

Ef þjóðin leggur niður þá, sem stundað hafa vitfirringu í efnahagspólitík, skiptir um fólk á Alþingi og ríkisstjórnum, fær sér nýja leiðtoga, sem ekki þurfa að hafa mikið annað til brunns að bera en að hafna fyrirgreiðslu og atkvæðakaupum, þá fer aftur að vora í efnahagslífinu.

Það er gott, að helzti talsmaður stærsta bankans skuli vera kominn á þessa línu. Það leiðir vonandi til þess, að starfsbræður hans í valdakerfi efnahags- og fjármála færi sig opinberlega á hina sömu línu og fari að segja þjóðinni og pólitískum leiðtogum hennar til syndanna.

Þjóðin hefur hingað til ekki viljað hlusta á sjónarmiðin, sem komu fram í ræðu Sverris Hermannssonar á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Hún hefur til dæmis látið gott heita, að árlega eru brenndir til ösku tæpir tveir tugir milljarða króna í landbúnaði einum.

Staðreyndin er nefnilega sú, að hér væri gósenland með nóg af arðvænlegum verkefnum fyrir komandi kynslóðir, ef peningar fengju eðlilega framrás og væru ekki fiskaðir upp til fyrirgreiðslu, atkvæðakaupa, gæluverkefna og annarrar óráðsíu á vegum pólitíkusa.

Ábyrgðin hvílir á herðum kjósenda, því að það er í umboði þeirra, sem stjórnmálamenn stunda fjármálasukkið, er trúskiptingurinn lýsti í ræðu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiðtoginn

Greinar

Sviss er eitt af helztu draumalöndum heims. Þar býr þrautseig og auðug þjóð, sem getur leyft sér að standa utan nokkurra þekktustu fjölþjóðasamtaka heims. Við vitum fæst, hverjir stjórna Sviss, enda trana leiðtogarnir sér ekki fram. En allir vita, að þar er vel stjórnað.

Sviss er líklega það ríki, sem kemst næst fyrirmyndarríki heimspekingsins Lao Tses. Þar fer saman vilji íbúa og leiðtoga á svo eðlilegan hátt, að fólk tekur ekki eftir, að stjórnað sé. Fólk veit ekki, hvað ráðherrann heitir, en gengur í fullu trausti til daglegra verka sinna.

Flestar uppgangsstofnanir hafa fyrirferðarmeiri leiðtoga en Sviss hefur, en þó leiðtoga, sem njóta virðingar á valdasvæði sínu. Slíkir leiðtogar geta verið með ýmsum hætti eftir aðstæðum og áherzlum hverju sinni. Einn hét til dæmis Olof Palme og annar heitir Carl Bildt.

Virtir leiðtogar hafa áhrif og ná árangri, af því að fólk vill fylgja þeim. Íbúarnir eru ekki allir sammála þeim, en bera virðingu fyrir þeim og treysta þeim til að stefna að farsælum lausnum á aðsteðjandi verkefnum og vandamálum. Þeir veita fólki sínu styrk og öryggi.

Ekki skiptir öllu, hvort slíkir leiðtogar eru beinlínis kjörnir til verka sinna eða komnir til þeirra með öðrum hætti. Til dæmis eru virtir leiðtogar hvergi brýnni en í styrjöldum, þar sem gengi herja fer að verulegu leyti eftir trausti og dálæti hermanna á foringjum sínum.

Gott er að sjá þetta í hnotskurn í sjávarútvegi Íslands. Karlinn í brúnni nýtur virðingar áhafnar og laðar hana til samræmdra, jafnvel ofurmannlegra átaka, sem leiða til mikils aflaverðmætis. Það þýðir ekki að stjórna fiskiskipi, ef áhöfnin óttast eða fyrirlítur kafteininn.

Við ýmsar aðstæður geta þrifizt leiðtogar, sem ekki eru virtir, heldur óttast menn þá eða fyrirlíta, allt eftir því, hvar menn eru staddir í valdapíramídanum. Þetta ástand fer saman við arðlausar og árangurslausar stofnanir, svo sem heri, er ekki hafa neitt fyrir stafni.

Þetta getur gilt um þjónustudeildir fyrirtækja, þar sem erfitt er að mæla árangur. Það getur gilt um heilu fyrirtækin, sem standa á fallanda fæti, stjórnardeildir, heilu ráðuneytin, svo og ríkisstjórnir, jafnvel vestrænna ríkja. Opinberum stofnunum er einna hættast á þessu sviði.

Lao Tse sagði: “Þegar ríki er á fallanda fæti, verður konunghollusta og hlýðni efst á baugi”. Slíkar stofnanir horfa í gaupnir sér, eru hættar að virka, framleiða hvorki frambærilega vöru né þjónustu, eru í sjálfu sér arðlausar, en þeim er haldið saman af ótta og fyrirlitningu.

Er hollusta fæst ekki með eðlilegum hætti eins og í Sviss eða með virðingu eins og í vel heppnuðum fyrirtækjum og ríkjum, fara leiðtogar að kalla á hana og reyna að láta starfsemi stofnana sinna snúast um hana. Þeir ógna undirmönnum sínum og uppskera fyrirlitningu.

Til langs tíma er farsælast, að leiðtoginn og hinir leiddu stefni í sömu átt af fúsum og frjálsum vilja, knúnir fram af innri gleði og krafti. Þannig næst árangur. Þannig verða fyrirtæki arðbær og þjóðir ríkar. Fólk er samhent, en óttast hvorki né fyrirlítur leiðtogana.

Því miður er svo komið fyrir Vesturlöndum, að leiðtogar bregðast fólki og framkalla ekki virðingu í röðum þess. Í vaxandi mæli eru þeir berir að athöfnum, sem leiða til fyrirlitningar fólks og falls þeirra í kosningum. Þetta er haft til marks um hnignun Vesturlanda.

Fyrirtæki verða ekki lengi arðbær og ríki ekki lengi auðug, nema leiðtogar starfi á þann hátt, að virðing renni sjálfkrafa til þeirra eins og vatn undan brekku.

Jónas Kristjánsson

DV

Slagsíður á Alþingi

Greinar

Þegar lög eru sett á Alþingi til að setja niður deilur, er ekki hægt að reikna með efnahagslega hagkvæmri niðurstöðu. Pólitísk hagkvæmni er allt annað en efnahagsleg hagkvæmni og verður oft að ráða ferðinni til þess að halda sæmilegum friði í þjóðfélaginu.

Sjávarútvegsfrumvarpið, sem rætt hefur verið um og deilt að undanförnu á Alþingi, er dæmigerð tilraun af þessu tagi. Meginhlutverk þess er að koma til móts við sjónarmið sjómanna, sem leiddu til átaka á vinnumarkaði í vetur. Því er stefnt gegn svonefndu kvótabraski.

Frumvarpið felur í sér auknar hömlur á sölu kvóta og dregur þannig úr möguleikum kvótakerfisins til að kalla á sjálfvirka hagræðingu í greininni, svo sem með samþjöppun kvóta á færri og virkari hendur. Frjáls sala er bezta leiðin til að jafna framboð og eftirspurn.

Bezt hefði verið að láta við þær breytingar sitja að setja á fót nefnd sjómanna og útvegsmanna til að úrskurða, hvort kvóti sé fluttur fram og aftur milli skipa til þess eins að rýra kjör sjómanna; og banna, að kostnaður vegna kvótakaupa komi niður á aflahlut sjómanna.

Því miður var ekki hægt að ná sátt um slíka leið, því að of margir aðilar vildu einnig koma böndum á kvótasölur sem slíkar, enda eru margir Íslendingar leynt og ljóst andvígir markaðsbúskap. Velferðarstefna í atvinnulífi er nær hjarta margra þingmanna en markaðshyggjan er.

Annað dæmi gefur góða innsýn í ríkjandi viðhorf á Alþingi. Stjórnarandstaðan er á móti lagafrumvarpi um lyfjasölu, af því að það færir lyfjasölu í þéttbýli að nokkru leyti inn í stórmarkaði og lækkar álagningu og þar með lyfjaverð í þéttbýli umfram lyfjaverð í dreifbýli.

Þessi afstaða felur í sér, að margir þingmenn geta ekki sætt sig við, að lífskjör batni í þéttbýli, ef það eykur mismun dreifbýlis og þéttbýlis. Þeir vilja jöfnuð og þeir vilja jöfnuð í átt til fátæktar, ef ekki er kostur á öðru. Svo rík er andstaðan í þjóðfélaginu gegn markaðsbúskap.

Í rauninni eru þingmenn um leið að ganga erinda lyfsala, sem eru áhrifamiklir og andvígir auknum markaðsbúskap í lyfsölu. Þetta er í samræmi við, að Alþingi gengur erinda allra annarra þrýstihópa, sem hafa aðstöðu til að láta að sér kveða umfram venjulega borgara landsins.

Sáttafrumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótakerfið, breytingartillögur sjávarútvegsnefndar við það sama frumvarp, svo og andstaðan við lyfsölufrumvarpið endurspegla það hlutverk, sem Alþingi hefur tekið að sér sem sáttasemjari milli hávaðasamra þrýstihópa.

Auðvitað á Alþingi fremur að leita sátta en efna til úlfúðar með setningu laga. Heppilegt er, að það setji lög, sem þjóðin sættir sig við að fara eftir; eða að það fari að minnsta kosti eins konar meðalveg milli ólíkra sjónarmið á þann hátt, að allir séu hæfilega ósáttir.

Því miður hefur þessi fagra mynd skekkzt í tveimur atriðum, sem hér hefur verið vikið að. Í fyrsta lagi er á Alþingi óeðlileg slagsíða gegn tveimur þáttum þjóðlífsins, annars vegar gegn þéttbýlinu, einkum höfuðborgarsvæðinu; og hins vegar gegn frjálsum markaðsbúskap.

Í öðru lagi ríkir vaxandi ójafnvægi annars vegar í áhrifum vel skipulagðra þrýstihópa á alþingsmenn og áhrifum almannahagsmuna hins vegar. Víðtækir hagsmunir, svo sem hagsmunir skattgreiðenda og neytenda, verða yfirleitt að víkja fyrir háværum sérhagsmunum.

Umræður og atvæðagreiðslur á Alþingi síðustu dagana fyrir sumarfrí draga dám af þessu óeðlilega ástandi, sem veldur því, að Alþingi nýtur lítillar virðingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfið sefur á verðinum

Greinar

Kerfið ver miklum tíma og kostnaði í þágu ofbeldisfólks, en lætur sér í léttu rúmi liggja, að fólk, sem verður fyrir ofbeldi, nær ekki rétti sínum. Sá, sem sleginn var með meitli í andlitið um helgina, verður sjálfur að borga um 600 þúsund króna viðgerð á 13 brotnum tönnum.

Fórnarlömb nauðgara búa við svipaða fyrirlitningu kerfisins. Þau þurfa sjálf að borga þjónustu kerfisins og fá engar skaðabætur greiddar, á sama tíma og fjöldi sérfræðinga sér um, að nauðgarar fái umönnun og þjónustu af ýmsu tagi og séu ekki skaðaðir með innilokun.

Dómarar lifa í draumaheimi og úrskurða fórnarlömbum skaðabætur, sem þau fá aldrei, af því að ofbeldisfólk borgar aldrei neitt og af því að þjóðfélagið neitar að gegna þessum þætti næturvarðarhlutverks síns með því að hlaupa í skarð þeirra, sem ekki eru borgunarmenn.

Vandinn er á öllum sviðum dóms og laga. Ráðuneytismenn hafa minni áhuga á vandamálum fórnarlamba en ofbeldismanna og hafa ekki frumkvæði að lögum til að draga úr misræminu. Alþingismenn hafa ekki áhuga á að setja lögin og dómarar eru vægir í túlkun laga.

Í ráðuneytum og félagsmálakerfum ríkir samúð með ofbeldisfólki, sem sagt er hafa alizt upp við lélegt uppeldi, tíða flutninga og lítið tilfinningaatlæti; og sem sagt er muni bara versna við frelsissviptingu í fangelsi. Í staðinn beri að senda þetta síbrotafólk til sálfræðings.

Lögreglan virðist líta á ofbeldisfólk sem eðlilegan hlut og lætur því meira að segja eftir miðju höfuðborgarinnar að næturlagi um helgar. Þeir, sem ferðast um miðju borgarinnar á þeim tíma eru taldir gera það á eigin ábyrgð og geti meira eða minna sjálfum sér um kennt.

Svona kæruleysislegt viðhorf til ofbeldis þekkist ekki einu sinni í frjálslyndum borgum á borð við Kaupmannahöfn og Amsterdam og enn síður í annáluðum næturlífsborgum á borð við Madrid og Róm. Þar getur fólk gengið að næturlagi um miðborgir án þess að missa tennur.

Í fremur daufum smábæ, sem heitir Reykjavík, getur síbrotamaður hins vegar afrekað 30 glæpi á 43 dögum og verið jafnharðan látinn laus. Slíkir fá í fyrstu skilorðsbundna dóma fyrir heilar kippur af afbrotum, síðan lenda þeir á biðlistum fangelsa og fá loks reynslulausnir.

Bezt væri að senda síbrotamenn á sviði ofbeldis til Serbíu eða Rúanda, ef það væri hægt. Að öðrum kosti þarf að loka þá inni, svo að fólki stafi ekki hætta af þeim. Réttur almennings til öryggis ætti að vera meiri en réttur síbrotamanna til skilningsríks mannúðarkerfis.

Innrétta ber meira rými til geymslu síbrotamanna; hraða meðferð mála þeirra fyrir dómi; þyngja dóma; draga úr reynslulausnum og náðunum; og setja harðari lög um ofbeldisglæpi, þar með taldar nauðganir. Þetta er ekki hefnd, heldur til að auka öryggi almennings.

Jafnframt þarf Alþingi að setja lög um, að ríkið ábyrgist skaðabótagreiðslur til fórnarlamba ofbeldis og taki á sig kostnað, sem þau verða fyrir í kjölfar ofbeldis. Með slíkum lögum tekur ríkið ábyrgð á því að hafa ekki staðið við það hlutverk sitt að gæta öryggis borgaranna.

Mikið er deilt um, hversu víðtækt eigi að vera hlutverk ríkisins. Sumum finnst ríkið vasast í of mörgu, en allir eru sammála um, að grundvallartilgangur ríkisins felst í næturvarðarhlutverki þess. Tilveruréttur ríkisins byggist einmitt á því, að það gæti öryggis borgaranna.

Ofbeldi helgarinnar minnir á, að kerfið hefur misst sjónar á grundvallarhlutverki sínu og er flækt í ógöngum sálfræðiþjónustu handa mikilvirkum óbótamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Sextán óhæfir leiðtogar

Greinar

Hugmyndafræðin að hörmulegri útreið Vesturlanda í Bosníu liggur einkum grafin í utanríkisráðuneytum Bretlands og Frakklands. Þar starfa óvenjulega óhæfir menn, sem ímynda sér meðal annars, að harðneskjuleg viðhorf séu á einhvern hátt í sjálfu sér hagkvæmari en önnur.

Þessir hugmyndafræðingar náðu því ekki, að framkvæmd viðhorfanna leiðir til atburðarásar, sem getur orðið upphafsaðila afar óhagkvæm, svo sem Bosníuruglið sýnir greinilega. Það skerðir stórlega möguleika Vesturlanda til að hafa áhrif á gang veraldarsögunnar.

Óhæfir hugmyndafræðingar hafa ekki verið og verða ekki dregnir til ábyrðar fyrir handarbakavinnuna í Bosníu. Það verða hinir pólitísku yfirmenn í stólum utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Þeir verða hengdir í almenningsálitinu fyrir ráðgjöfina, sem þeir þágu.

Þetta fer að skipta máli nú, þegar komið er í ljós, að stefna Vesturlanda í Bosníumálinu leiðir til stórminnkaðs áhrifavalds þeirra í umheiminum; þegar fólk fer að spyrja, hvers vegna ekki var tekið mark á aðvörunum fyrir hálfu öðru ári, er ódýrara var að stöðva Serba.

Fremstir í flokki þeirra, sem ábyrgð bera á rugli Vesturlanda, eru Major forsætisráðherra og Hurd utanríkisráðherra Bretlands. Í svipaðri röð kemur Mitterrand Frakklandsforseti, sem fer með raunverulega stjórn utanríkismála í Frakklandi vegna stöðu forsetavaldsins.

Af minni spámönnum í Evrópu bera mesta ábyrgð þeir Gonzales, forsætisráðherra Spánar, og forsætisráðherrar Grikklands, fyrst Mitsotakis og síðan Papandreou. Grikkirnir hafa af trúarbragðaástæðum séð til þess, að viðskiptabannið á Serbíu hefur verið hriplekt.

Í Bandaríkjunum hvílir ábyrgðin á forsetunum, Bush og Clinton, þótt ekki megi gleyma Christopher og Perry, ráðherrum utanríkis- og varnarmála. Í raun veldur ruglið Bandaríkjunum mestu tjóni, því að þau höfðu úr hæstum sessi að falla sem fyrrverandi heimsveldi.

Ráðamenn Bandaríkjanna hafa sér ekki til afsökunar vonda ráðgjöf úr utanríkisráðuneytinu. Þar var mörgum ljóst, að stefnan mundi stórskaða Bandaríkin. Þeir létu í sér heyra og nokkrir lykilmenn ráðuneytisins sögðu hreinlega af sér, þegar ekki var hlustað á þá.

Ekki má gleyma þremur fjölþjóðastofnunum, sem hafa smækkað að marki af ruglinu í Bosníumálinu. Fremst fer þar Atlantshafsbandalagið með Wörner í broddi fylkingar. Síðan koma Sameinuðu þjóðirnar með Ghali í fararstjórn og Evrópusambandið með Delors sem oddvita.

Vandræði Atlantshafsbandalagsins eru sýnu mest, enda er þar um að ræða hernaðarstofnun, er hefur reynzt alveg óhæf til að hefta útþenslustefnu fámennra hópa villimanna af serbneskum toga og það á svæði, sem var utan við heimsveldi Sovétríkjanna sálugu.

Loks eru það sáttasemjararnir þrír, sem ráku málið af annáluðum barnaskap, þeir Owen og fyrst Vance og síðan Stoltenberg. Þeir áttu mikinn þátt í að telja Vesturlöndum trú um, að með kjaftavaðli og sviknum loforðum fengist niðurstaða, sem Vesturlönd gætu sætt sig við.

Afskipti þeirra manna, sem hér hafa verið nefndir, og líklega nokkurra í viðbót, hafa leitt til þess, að Vesturlandaþjóðir hafa glatað trú á sjálfar sig og Vesturlönd hafa glatað möguleikum á að sveigja mál í umheiminum til samræmis við pólitíska hagsmuni Vesturlanda.

Foringjaval á Vesturlöndum hlýtur að vera orðið kolbrenglað, þegar sextán nafngreindir foringjar þeirra stuðla allir í kór að hnignun og hruni Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Neytendur með í ráðum

Greinar

Þegar bankastjórar og kaupmenn skrifuðu undir samning um bankakortamálið, var þriðji málsaðilinn hvergi sjáanlegur. Neytendur eða samtök þeirra voru ekki aðilar að samningnum eða undirbúningi hans. Varðar efni hans þó þann málsaðila ekki síður en hina tvo.

Bankakortamálið snýst um, hvernig eigi að dreifa kostnaði og sparnaði af nýju greiðsluformi í almennum viðskiptum. Niðurstaðan varð auðvitað, að sá aðili, sem ekki var við samningaborðið, skyldi bera mestan hluta kostnaðarins og fá alls engan hluta af sparnaðinum.

Samkeppnisstofnun hefur lýst þennan samning ógildan og er það vel. Væntanlega verður kallað til Neytendasamtakanna, þegar gerð verður önnur tilraun til að skipta kostnaði og sparnaði af hinum nýju bankakortum, en bönkum ekki leyft að keyra þau áfram á undanþágu.

Neytendur hafa aðgang að kortum, sem þeir bera lítinn kostnað af, svo framarlega sem þeir forðast verzlanir, sem okra á korthöfum með svokölluðum staðgreiðsluafslætti. Þetta eru krítarkortin. Flestar neyzluvöruverzlanir okra ekki á notendum krítarkorta með þeim hætti.

Neytendasamtökin mættu raunar veita neytendum betri fræðslu um, í hvaða búðum er sama verðgildi á kortum þeirra og á seðlum eða ávísunum. Þannig mætti brjóta niður óbeina gjaldtöku kaupmanna, sem í flestum tilvikum er hærri en sem nemur kostnaði þeirra.

Ekki er sjáanleg nein ástæða fyrir handhafa krítarkorta að taka í staðinn upp notkun hinna nýju bankakorta í einhverjum hluta viðskipta sinna. Þeir þurfa að borga afgreiðslugjald af bankakortum, en ekki af krítarkortum. Gjaldið er miðað við verð á ávísanaheftum.

Fólk mun hins vegar smám saman neyðast til að taka upp bankakortin í stað ávísanahefta í þeim viðskiptum, þar sem það notaði áður ávísanir. Ennfremur má búast við, að bankarnir hafi með sér samráð um að þrýsta almenningi frá krítarkortum yfir í bankakort.

Ólöglegur samningur bankastjóra og kaupmanna um bankakort er fyrirtaks dæmi um, að neytendur eru yfirleitt aldrei spurðir neins hér á landi. Þeir eru til dæmis orðalaust látnir bera tólf milljarða kostnað á hverju ári af verzlunaránauð ríkisvaldsins á sviði búvöru.

Ef Alþingi stendur andspænis vali milli hagsmuna framleiðenda og neytenda, velur það undantekningarlaust hagsmuni framleiðenda. Þannig kemur ríkisvaldið einnig fram í fjölþjóðasamningum. Alltaf eru gerðar kröfur fyrir hönd íslenzkra framleiðenda, en ekki neytenda.

Neytendum kæmi bezt, ekki sízt á tímum lágra launa og skorts á vinnu, að hér á landi ríkti almennt innflutnings- og verzlunarfrelsi, lítið sem ekkert hindrað af völdum skattheimtu. Alþingi og ríkisstjórn reyna hins vegar að takmarka þennan aðgang neytenda sem allra mest.

Í þessu andrúmslofti fyrirlitningar á neytendum, sem gegnsýrir yfirstéttina á Alþingi og í ríkisstjórn, er við því að búast, að bankastjórar og kaupmenn telji sig ekki þurfa að kalla á fulltrúa neytenda, þegar þeir semja um að láta neytendur kosta hagræðingu í bankakerfinu.

Samkeppnisstofnun er sá armur ríkiskerfisins, sem helzt hefur það hlutverk að gæta hagsmuna neytenda gegn ofurvaldi sérhagsmuna af ýmsu tagi. Æskilegt er, að stofnunin sjái, hversu mikilvægt er, að neytendur fái fulla aðild að samningum um hin nýju bankakort.

Með ógildingu stofnunarinnar á samningi bankastjóra og kaupmanna hefur myndazt tækifæri til að taka þráðinn upp á eðlilegan hátt, með aðild fulltrúa neytenda.

Jónas Kristjánsson

DV

Fastir liðir að venju

Greinar

Skipun Steingríms Hermannssonar í stöðu seðlabankastjóra er í fullu samræmi við þá spillingarhefð í landsstjórninni, að einn alvörubankastjóri sé í bankanum og síðan tveir gervibankastjórastólar til ráðstöfunar fyrir tvo stærstu stjórnmálaflokkana í landinu.

Steingrímur Hermannsson leysir Tómas Árnason af hólmi, rétt eins og Birgir Ísleifur Gunnarsson leysti Geir Hallgrímsson af hólmi. Í öllum tilvikum er samtvinnað valdakerfi flokkanna að veita þreyttum stjórnmálamönnum náðugt hátekjubrauð að loknum löngum ferli.

Þannig telja stjórnmálaflokkarnir sig hafa til ráðstöfunar nokkra bankastjórastóla, nokkrar sendiherrastöður og nokkur embætti forstjóra ríkisstofnana, svo sem ýmis fræg dæmi hafa verið um á síðustu misserum. Ráðherrar Alþýðuflokksins hafa gengið harðast fram í þessari hefð.

Formaður bankaráðs Seðlabankans sagði af sér í gær út af skipun Steingríms, enda hafði bankaráðið talið tvo fagmenn í fjármálum og hagmálum hæfari til starfans en flokksformaðurinn, sem er fremur búinn kostum á öðrum sviðum en þeim, sem prýða eiga seðlabankastjóra.

Ágúst Einarsson bankaráðsformaður taldi framþróun eðlilega á þessu sviði. Hann vildi brjóta hefð pólitískrar spillingar við skipun bankastjóra Seðlabankans. Ráðherrann taldi brýnna að viðhalda hefðinni, þótt hann vissi, að formaðurinn mundi þess vegna segja af sér.

Við skipun Steingríms var notaður hefðbundinn leikaraskapur. Ráðherra talaði út og suður með engilbjörtum svip. Þegar hann var spurður, hvort skipunin hefði ekki fyrir löngu verið ákveðin, svaraði hann, að ákvörðun hefði verið formlega tekin þann hinn sama dag.

Ráðherrann fór fögrum orðum um, að þjóðin hefði valið Steinrím til að fara með landsmál og hlyti hann því í sjálfu sér að vera jafnhæfur til að fjalla um eina undirdeild í landsmálunum. Vantaði bara, að hann segði Steingrím ekki mega gjalda þess að vera stjórnmálamaður.

Ráðherra neitaði, að rifizt hefði verið um þetta mál á þingflokksfundi Alþýðuflokksins, þar sem þetta mál heyrði ekki undir þingflokka. Samkvæmt þessu er síbreytilegt, hvenær þingmenn flokksins eru á þingflokksfundi og hvenær þeir eru bara í eigin málfundafélagi.

Íslenzkir ráðamenn eru farnir að sérhæfa sig í þessari aðferð, er þeir líta á sem eins konar íþrótt. Þeir svara spurningum með vingjarnlegum útúrsnúningum og þykjast verða sármóðgaðir, ef menn leyfa sér að efast um, að verk þeirra séu reist á málefnalegum grunni.

Allt er þetta leikaraskapur, sem byggist á þeirri bjargföstu skoðun landsfeðranna, að kjósendur séu fávitar. Sannfæringin byggist raunar á þeirri dapurlegu staðreynd, að ráðherrar hafa löngum komizt upp með ýmislegt, sem ekki þætti góð latína í alvöruþjóðfélagi.

Hliðardæmi um tvískinnung stjórnmálamanna er, að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bankaráði Seðlabankans, Ólafur B. Thors, kvartaði yfir málsmeðferð ráðherrans, en hafði ekki talið ástæðu til andmæla, þegar flokksbróðir hans var skipaður bankastjóri fyrir nokkrum árum.

Bjarta hliðin á þessu máli er, að Seðlabankinn hefur svo lítil verkefni með höndum, að þar er nóg að hafa einn alvörubankastjóra með stuðning af fjölmennu liði aðstoðarstjóra af ýmsu tagi. Ekki er reiknað með, að pólitísku bankastjórarnir geti gert nokkuð af sér.

Þannig er vafalaust þegjandi samkomulag um, að fagmaðurinn Eiríkur Guðnason taki við hlutverki Jóhannesar Nordal sem fasts aðalbankastjóra Seðlabankans.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir hlusta ekki

Greinar

Nautakjöt hefur verið á hröðu undanhaldi, meðal annars vegna þess að hamborgarar hafa vikið fyrir pitsum aðallega og einnig pöstum sem vinsælasta skyndifæði ungs nútímafólks á Íslandi. Það sést bezt af margföldun pitsustaða á höfuðborgarsvæðinu á sárafáum árum.

Nautakjöt er ekki nauðsynlegur þáttur í pitsum og pöstum og er lítill þáttur, þegar það er notað. Hamborgarar hins vegar byggjast að mestu leyti á kjöti. Þegar tilfærsla verður í neyzluvenjum úr kjötríkum réttum í kjötlitla eða kjötlausa, minnkar heildarsala nautakjöts.

Nautakjöt hefur ekki verið mikilvægur þáttur í sparimatreiðslu og frístundamatreiðslu Íslendinga. Fólk grillar að vísu, en þá yfirleitt lambakjöt, sem er ekki eins viðkvæmt fyrir eldun og nautakjötið er. Nautakjötið hefur heldur ekki þótt nógu gott, til dæmis of seigt.

Þetta er ólíkt ástandinu í ýmsum nálægum löndum, þar sem nautakjöt þykir víða girnilegasta kjötið og er til dæmis ókrýndur konungur í grillveizlum. Þetta ætti að vera athugunarefni öllum þeim, sem hafa tekjur eða vilja hafa tekjur af nautakjötsframleiðslu hér á landi.

Fólk notar lítið af nautakjöti af því að það er of dýrt og of áhættusamt að kaupa það. Flestir skrokkar eru magrir og seigir, auk þess sem þeir eru af meira eða minna blönduðu kyni. Bragðlítið og seigt Galloway hefur blandazt inn í gamla, bragðmikla, íslenzka nautakynið.

Jafnvel í beztu verzlunum er ekki auðvelt að fá að velja milli feitra gripa og magurra, íslenzkra og Galloway. Þeir, sem þekkja gott nautakjöt frá útlöndum, verða að fara krókaleiðir til að ná í gott nautakjöt hér á landi. Margir nenna því ekki og snúa sér að öðrum matvælum.

Þetta vandræðaástand er eindregið stutt af stirðnuðu valdakerfi landbúnaðarins. Ólseigir sultarskrokkar fara í fyrsta verðflokk, en innanfeitt og meyrt kjöt fellur niður í annan flokk. Þetta stafar af, að bændastjórar hafa aldrei viljað hlusta á neytendur og vilja það ekki enn.

Nú á að gera illt verra með því að skylda nautakjötsbændur til að láta þriðja hvern skrokk af hendi til frystingar. Það er gert til að draga úr framboði á líðandi stund og ná fram hærra verði. Neytendur munu mæta hækkuninni með því að draga enn frekar úr neyzlu nautakjöts.

Nautakjöt versnar mjög við frystingu. Það er því vandséð, hvað eigi að gera við nautakjötið, sem mun hlaðast upp í frystigeymslum samvinnufélaga á sama hátt og lambakjötið. Í valdakerfi landbúnaðarins rækta menn drauma um að selja það til útlanda sem hollustuvöru.

Bændastjórar eru fangar eigin áróðurs um, að útlendingar lifi á hormónakjöti. Þeir eru farnir að trúa honum sjálfir og skipuleggja útflutning í samræmi við hann. Er þó fyrir töluvert framboð erlendis af kjöti, sem er framleitt út frá margbreytilegum sjónarmiðum um hollustu.

Reynsla annarra sýnir, að enginn vinnur sigur á alþjóðamarkaði fyrr en hann hefur unnið sigur á heimamarkaði. Nautakjötsframleiðendur þurfa fyrst að vinna sinn heimamarkað, áður en þeir leggja til atlögu við alþjóðamarkað. Þeir þurfa að byrja að hlusta á neytendur.

Til eru íslenzkir nautabændur, sem hlusta á markaðinn, og framleiða mjög gott nautakjöt af gamla, íslenzka nautakyninu, feitt, meyrt og bragðmikið. Til eru kjötverkendur, sem sækjast eftir þessu kjöti. Og til eru veitingahús, sem byggja vinsældir sínar á þessu sama kjöti.

Bændastjórar ættu að byrja að hlusta á þessa aðila áður en þeir gera enn eina atlöguna að neytendum í landinu, einmitt þeim sem ættu að vera viðskiptavinir.

Jónas Kristjánsson

DV

Öryggisnetið er rifið

Greinar

Alþingi og ríkisstjórn þurfa nú þegar að taka á vandræðum, sem komið hafa fyrst í ljós við innreið kreppunnar, einkum atvinnuleysinu. Á velferðarkerfi landsins eru rifur, sem fólk lét sér áður í léttu rúmi liggja, þegar vinna var á boðstólum fyrir næstum alla, sem vildu vinna.

Þessar rifur á öryggisneti félagsmála valda meðal annars því, að í vor kemur fólk úr skólum án þess að fá atvinnu og án þess að fá atvinnuleysisbætur. Það stafar af því, að fólk þarf að hafa unnið í ákveðinn tíma til að öðlast rétt til bóta. Og nám er ekki reiknað sem starf.

Einfalt er fyrir Alþingi að leysa þetta atriði strax í vor með lítilli lagabreytingu um, að nám jafngildi starfi að öllu eða mestu leyti, þegar metinn er réttur til atvinnuleysisbóta. Þetta ætti að gilda um hefðbundið nám og nám, sem efnt er til beinlínis vegna atvinnuleysis.

Í félagsmálaráðuneytinu er talið erfitt eða ófært að ná fram slíkri breytingu fyrir vorið. Sú skoðun byggist annaðhvort á takmörkuðum áhuga á þeim bæ eða á þeirri skoðun, að takmarkaður áhugi sé meðal þingmanna á málinu. Líklega er dálítið til í hvoru tveggja.

Áhugaleysið byggist að hluta á, að stjórnmálamenn og embættismenn vita, að útgjöld ríkisins hafa farið úr böndum, þótt þetta bætist ekki við. En á sama tíma eru þeir að gamna sér við rugl á borð við sendiráð í Kína og auknar greiðslur til gæluverkefna í landbúnaði.

Áhugaleysið byggist að hluta á, að námsmenn eru fremur veikur þrýstihópur í samanburði við ýmsa aðra og eru auk þess fremur óvinsælir af ýmsum, sem mikla fyrir sér kostnað þjóðfélagsins af menntamálum og af niðurgreiðslu þess á vöxtum af lánum til námsmanna.

Áhugaleysið byggist að hluta á, að margir áhrifamenn hafa þá skoðun, að öryggisnet í þjóðfélaginu séu of þétt riðin og dragi úr sjálfsbjargarviðleitni fólks. En raunar ætti það ekki að vera sama málið, hvort slík net séu þétt eða gisin og hvort þau séu hreinlega rifin.

Öldum saman var samhjálp einn öflugasti hornsteinn þjóðfélagsins. Hrepparnir höfðu úti félagslegt öryggisnet á fátæktaröldum Íslandssögunnar, löngu áður en innleitt var velferðarkerfi nútímans að norrænni og evrópskri fyrirmynd. Samhjálp er hefðbundin á Íslandi.

Velferðarkerfi okkar er gisnara en velferðarkerfi nágrannaþjóðanna á Norðurlöndum. Það stafar af, að við teljum okkur ekki hafa ráð á eins þéttu neti og að við teljum, að ekki megi draga úr sjálfsbjargarviðleitni. En það þýðir alls ekki, að við viljum hafa netið rifið.

Atvinnuleysi hefur verið svo lítið áratugum saman hér á landi, að lög og reglur þjóðfélagsins gera hreinlega ekki ráð fyrir því. Þess vegna hefur of lítið verið lagt til hliðar af fjármunum til að mæta því og of lítið verið gert til að rimpa saman öryggisnet atvinnuleysisbóta.

Við stöndum nú andspænis miklu og varanlegu atvinnuleysi. Við þurfum annars vegar að mæta því með svipuðu öryggisneti og er í nágrannaríkjunum, þar sem atvinnuleysi er í svipuðum mæli. Þáttur í því er að setja í vor í lög, að nám jafngildi starfi í rétti til bóta.

Hins vegar ber okkur að mæta því með atvinnuskapandi aðgerðum til langs tíma. Þá er ekki átt við verkjalyf á borð við vegagerð og skógrækt, heldur ræktun á framtaki, áræði og bjartsýni í atvinnulífinu, til dæmis með aukinni þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi um fríverzlun.

En til skamms tíma ber að virða þá hefð, sem hæfir fámennri þjóð, að hver einstaklingur sé nógu mikils virði til að hafa aðgang að gisnu en órifnu öryggisneti.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrænn viljaskortur

Greinar

Rússland hefur endurheimt hluta af heimsveldisstöðu Sovétríkjanna og er nú orðið að mestu valdamiðstöð Evrópu. Rússland ræður til dæmis ferðinni á og við áhrifasvæði Serba og mun tryggja, að landvinningar þeirra verði að mestu leyti staðfestir af umheiminum.

Rússland er dæmi um, að ástand efnahags og viðskipta ræður litlu um valdastöðu ríkja í umheiminum. Hagur Rússlands er í rúst, en samt reynist ríkinu kleift að halda uppi endurvakinni útþenslustefnu, sem felst í miklum og vaxandi afskiptum af málum nágrannaríkja.

Serbía er enn skýrara dæmi um þessa reglu. Þjóðfélagið er þar margfaldlega gjaldþrota frá sjónarhóli efnahags og viðskipta. Það kemur ekki í veg fyrir, að Serbía hafi rekið og reki enn árangursríka landvinningastefnu á kostnað nágrannaríkjanna. Og komist upp með það.

Áhrif ríkja í umheimi sínum fara ekki eftir stærð þeirra og styrk og fjölda viðskiptatengsla við útlönd. Áhrifin fara eftir vilja ríkja til að hafa áhrif. Þessi viljastyrkur hvarf um tíma í Rússlandi eftir hrun Sovétríkjanna, en er nú óðfluga að magnast á nýjan leik.

Það nægir til dæmis ekki Bandaríkjunum að vera rík og hafa góð sambönd um allan heim, þegar viljann skortir til að fylgja eftir áður fenginni heimsveldisstöðu. Í leiðara DV á laugardaginn var bent á hrakfarir Bandaríkjanna í málum Kína, Norður-Kóreu, Sómalíu og Haítí.

Enn síður nægir Evrópusambandinu og valdaríkjum þess að hafa mikil efnahagsumsvif. Það þarf pólitískan og hernaðarlegan vilja til að byggja upp aukin áhrif um heila álfu eða stærra svæði. Þennan vilja hefur hvorki Evrópusambandið í heild né helztu valdaríki þess.

Vanmáttur Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og ekki sízt hernaðarsamstarfs Bandaríkjanna og Evrópu í Atlantshafsbandalaginu hefur birzt skýrt í málum Serbíu. Eftir margra mánaða japl og jaml og fuður tók Rússland frumkvæðið í Bosníu og mun ráða niðurstöðunni.

Í laugardagsleiðara DV voru rakin dæmi um, hvernig hver dólgurinn á fætur öðrum í þriðja heiminum gefur Bandaríkjunum langt nef og sumir þeirra hafa þau að fífli. Þetta álitshrun varð einkum í kjölfar vangetu Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins í málum Serbíu.

Hvarvetna um heiminn sjá menn nú Bandaríkin sem pappírstígrisdýr á svipuðu valdastigi og Evrópusambandið. Menn sjá, að þessi pólitísku öfl kvarta og kveina og hóta ekki síður út og suður, án þess að nokkru sinni sé gert ráð fyrir, að standa þurfi við stóru orðin.

Breytingin er studd þeirri staðreynd, að Vesturlönd eru að missa hæfni til að velja raunverulega leiðtoga. Fjölmennustu ríkjunum ráða markaðssett smámenni á borð við John Major í Bretlandi. Einkum ber á þessu í Bandaríkjunum með hverju smámenninu á fætur öðru.

Clinton Bandaríkjaforseti fór í vetur sneypuför um Austur-Evrópu. Heima fyrir var ferðin túlkuð sem sigurganga, en hafði í raun neikvæð áhrif. Daginn eftir að hann var farinn frá ríkjum á borð við Úkraínu og Rússland, færðist aukin harka í utanríkisstefnu ríkjanna.

Clinton og hirð hans bera lítið skynbragð á utanríkismál. Þar á ofan eru þessir aðilar svo sambandslitlir við veruleikann, að þeir ímynda sér, að kjaftagangur og sífelldar hótanir geti komið í staðinn fyrir, að verkin tali. Þessi vestræni vandi er einna verstur í Bandaríkjunum.

Vegna vestræns viljaskorts hefur Rússland stokkið inn í valdaeyðuna, sem myndazt hefur í Evrópu, alveg eins og Kína hefur stokkið inn í valdaeyðuna í Asíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fyrrverandi heimsveldi

Greinar

Kínversk yfirvöld hafa ekki tekið mark á kröfu Bandaríkjastjórnar um aukin mannréttindi í Kína, þótt hótað hafi verið brottfalli svonefndra beztukjara kínverskra afurða í Bandaríkjunum. Þvert á móti hafa þau hert á mannréttindabrotum, sem stríða gegn alþjóðasáttmálum.

Ekki gagnaði Bandaríkjastjórn að senda Warren Christopher utanríkisráðherra til Kína. Kínversk yfirvöld svöruðu honum fullum hálsi og gerðu sérstakar ráðstafanir til að sýna fram á, að þau væru herrar í eigin húsi. Og þau njóta enn beztukjaraviðskipta í Bandaríkjunum.

Áður reyndi Kínastjórn að milda brot sín, þegar kom að endurnýjun ákvarðana um beztukjaraviðskipti, til þess að ónáða ekki bandarískt almenningsálit rétt á meðan. Nú fara þau í öfuga átt, af því að þau vita, að Bandaríkjastjórn er orðin fótaþurrka á alþjóðavettvangi.

Kínastjórn hefur ekki fengizt til að hjálpa við að fá stjórn Norður-Kóreu ofan af brotum sínum gegn samningi um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Og stjórn Norður-Kóreu er ekki hrædd við að meina eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna aðgang að kjarnorkuverum.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa síðan lagt grundvöll að tvöfaldaðri framleiðslu á plútóníum, sem er lykilefni í kjarnorkusprengjum. Þau hlæja bara að bandarískum hótunum um refsiaðgerðir í milliríkjaviðskiptum og hóta á móti að fara í stríð við Suður-Kóreu og Bandaríkin.

Í Sómalíu var sent á vettvang bandarískt herlið. Yfirmenn þess gáfu stórorðar yfirlýsingar um, að taka skyldi í lurginn á bófanum Aidid, sem valdið hafði almenningi ólýsanlegum hörmungum. Hótanir þeirra fóru út fyrir hefðbundið verksvið friðarsveita Sameinuðu þjóðanna.

Nú er bandaríska herliðið á flótta frá Sómalíu með rófuna milli fótanna, en bófinn Aidid stendur eftir með pálmann í höndunum. Hann vissi alltaf, að Bandaríkin eru ekki lengur neitt heimsveldi, af því að þau hafa ekki lengur neitt úthald til að standa við stóru orðin.

Flótti bandaríska herliðsins frá Sómalíu minnir á flótta þess frá Líbanon á sínum tíma. Þá var byrjað að koma í ljós, að Bandaríkjamenn þoldu ekki lengur að sjá blóð á vígvöllum sínum og gátu því ekki lengur staðið undir hlutverki heimsveldis á borði, aðeins í orði kveðnu.

Persaflóastríðið markaði síðan þáttaskil í hruni Bandaríkjanna sem heimsveldis, þótt fáir tækju þá eftir því og flestir ímynduðu sér raunar, að þau hafi unnið þar sigur. En stríðinu var hætt, þegar kom að návígi í Írak, af því að Bandaríkjaher þoldi ekki að sjá blóð.

Þess vegna situr Saddam Hussein í traustum sessi í Írak, alveg eins og Assad í Sýrlandi og Aidid í Sómalíu og Kim Il Sung í Norður-Kóreu. Þess vegna hefur bófinn Cédras á Haiti haft samningamenn Bandaríkjastjórnar að fíflum án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Cédras samdi raunar um að afhenda völdin á Haiti í hendur löglegum stjórnvöldum, en notaði samningatímann til að treysta stöðu bófaflokksins, sem stjórnar landinu með fáheyrðu ofbeldi. Hann veit, að Bandaríkjastjórn getur ekkert annað en kvartað og kveinað.

Þótt margir tækju ekki eftir raunverulegum ósigri Bandaríkjanna í Persaflóastríðinu, komust stórglæpamenn heimsins ekki hjá því að sjá, að Bandaríkin og hernaðararmur þeirra í Atlantshafsbandalaginu hafa ekki þorað að svara útþenslustefnu Serba í Bosníu.

Ófarirnar í málum Kína, Norður-Kóreu, Sómalíu og Haiti eru bein afleiðing þess, að um allan heim eru valdamenn hættir að líta á Bandaríkin sem heimsveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Úr öskunni í eldinn

Greinar

Ítalir féllu á prófinu í fyrstu kosningunum eftir hrun hinna gömlu og spilltu stjórnmálamanna, sem stjórnað höfðu Ítalíu í hálfa öld. Ítalir létu markaðsfræðinga taka sig í nefið og kusu að trúa á innantóm loforð fjölmiðlakóngsins Berlusconis, sem varð ríkur á gamla kerfinu.

Silvio Berlusconi náði í sjónvarpsréttindi sín í skjóli skömmtunarvalds eins hins allra spilltasta af gömlu stjórnmálamönnunum, Bettino Craxi, foringja jafnaðarmanna. Og nú hefur Berlusconi misnotað hinn illa feng til að troða sér upp á óviðbúna kjósendur Ítalíu.

Berlusconi á helming sjónvarps á Ítalíu. Stöðvar hans voru ein samfelld áróðursvél í kosningabaráttunni. Þær bjuggu til af honum glansmynd, sem Ítalir féllu fyrir. Slíkt hefði ekki verið hægt hér á landi, jafnvel þótt einn maður hefði alla valda- og markaðsstöðu Berlusconis.

Ef við hugsum okkur, að einn maður ætti Stöð 2, Morgunblaðið, Eimskip, Skeljung og Sjóvá-Almennar, stofnaði um sig stjórnmálaflokk og gerði Stöð 2 að áróðursvél sinni, mundi hann ekki ná miklum árangri í kosningum. Hér vita kjósendur, að vald á að vera dreift.

Vestrænum ríkjum hefur gefizt vel að dreifa valdi, hafa pólitískt vald á nokkrum stöðum, efnahagsvald á mörgum öðrum stöðum og fjölmiðlavald á enn öðrum stöðum. Það kann ekki góðri lukku að stýra að draga þrenns konar vald í einn stað að hætti Berlusconis.

Því miður er ástæða til að óttast, að Berlusconi telji sig þurfa á ríkinu að halda til að verja efnahagsveldi sitt falli. Skuldir þess hafa aukizt hratt, mun hraðar en eignirnar, og nema nú 4000 milljörðum líra. Innrás hans í stjórnmálin getur öðrum þræði verið hagsmunagæzla.

Ekki er nóg með, að Ítalir hafi eytt 24% þingsætanna á nýstofnaðan flokk Berlusconis, heldur hafa þeir glutrað 16% á flokk nýfasista, sem var í kosningabandalagi með Berlusconi. Samtals hafa þessir tveir hættulegu flokkar 40% af þingmönnum Ítalíu á nýkjörnu þingi landsins.

Foringi nýfasista er Gianfranco Fini, sem hefur orðið illræmdur af yfirlýsingu um, að Istría og Dalmatía, sem eru hlutar af hinni gömlu Júgóslavíu, ættu að falla undir Ítalíu. Nógir eru um valdabaráttu á því svæði, þótt Ítalir bætist ekki við og flæki málin enn frekar.

Eftir kosningar hefur Fini bætt um betur. Hann segir Mussolini hafa verið mesta stjórnmálaskörung aldarinnar. Þannig hefur hann tengt nýfasista við gamla fasistaforingjann, sem sýndi raunar ekki skörungsskap, heldur fór illa með Ítalíu í algerlega misheppnuðu stríðsbrölti.

Að öðru leyti felst stefna nýfasista eins og gömlu fasistanna einkum í harðvítugri miðstýringaráráttu, sem gengur þvert á stefnu þriðja aðilans í kosningabandalaginu, Norðurlígunnar, sem vill stórauka vald héraða og landshluta á kostnað miðstjórnarvaldsins í Rómaborg.

Fylgi Norðurlígunnar er bundið við norðurhluta landsins, þar sem hinn ríkari hluti landsmanna býr og vill draga úr opinberu fjárstreymi til suðurs. Fylgi nýfasista er hins vegar bundið við suðurhluta landsins, þar sem fátækari hlutinn býr og vill efla þetta streymi.

Kosningaúrslitin fólu í sér hrun stjórnmálamanna, sem harðast hafa gengið fram í baráttunni við Mafíu, Camorra og Ndrangheta glæpaflokkana. Mafíuandstæðingar féllu unnvörpum fyrir mönnum Berlusconis, meðal annars fyrir atbeina fjölskyldnanna 150 á Sikiley.

Með atkvæðum sínum hafa Ítalir bakað sér ný vandamál, sem verða þeim þung í skauti. Eftir ragnarök gamla kerfisins hafa þeir alls ekki komizt á neina Iðavelli.

Jónas Kristjánsson

DV

Færeyjagengið á ferð

Greinar

Færeyjagengið er að færa sig upp á skaftið á Íslandi. Það hefur virkjað efasemdir veðurfræðinga og vatnalíffræðinga um aðferðir Hafrannsóknastofnunar. Það hefur flutt frumvarp á Alþingi um afnám aflahámarks á nokkrum tegundum og um rýmri heimildir til veiða á þorski.

Markmið Færeyjagengisins er að fá að veiða meira hér og nú. Í forustu fyrir því fer grátkór Vestfirðinga, sem hafa átt erfiðara en aðrir með að laga sig að minnkandi þorskstofni. Þeir vilja fá verðlaun fyrir að hafa ekki getað treint þorskkvótann eins vel og aðrir sjómenn.

Þetta lið má réttilega kalla Færeyjagengi, því að það vill í raun fara þá leið, sem gert hefur Færeyinga gjaldþrota. Færeyingar komu sér ekki upp kvótakerfi eins og við og þeir hafa alls ekki rætt veiðileyfasölu, sem hefur verið ofarlega í íslenzkri þjóðmála- og efnahagsumræðu.

Þorskafli Færeyinga hefur hrunið í kjölfar ofveiðinnar. Þetta hefur síðan leitt til hruns efnahagslífsins. Þeir hafa orðið að segja sig til sveitar í Danmörku og lifa nú frá degi til dags á bónbjörgum frá dönskum stjórnvöldum, sem helzt af öllu vildu losna við Færeyjabölið.

Ef róttækur veiðiskapur að færeyskum hætti heldur innreið sína í landhelgi Íslands, hrynur þjóðfélagið hér á sama hátt og hið færeyska. Við erum svo háð sjávarútvegi, að við höfum ekki ráð á að prófa kenningar íslenzka Færeyjagengisins og fræðimanna á þess vegum.

Fréttaritið Economist gerði ofveiði að forsíðuefni 19. marz. Þar var bent á, hvernig þorskafli hefur hrunið af völdum ofveiði hjá hverju ríkinu á fætur öðru. Bandaríski aflinn hefur hrunið úr 800 þúsund tonnum í tæp 50 þúsund. Þorskveiði Kanadamanna hefur lagzt niður.

Í engu tilviki er um að ræða, að láðst hafi að grisja stofninn í samræmi við kenningar vatnalíffræðinga íslenzka Færeyjagengisins. Í öllum tilvikum hafa menn hamast á fiskistofnum með sífellt betri búnaði, unz þeir þoldu ekki álagið, samanber íslenzk-norsku síldina.

Economist benti líka á, að veiðibann og strangar takmarkanir hefðu bætt stöðuna á nokkrum stöðum. Nokkurra ára veiðibann á Norðursjávarsíld stækkaði stofninn úr 52 þúsund tonnum í 646 þúsund tonn. Framseljanlegir veiðikvótar treystu stofna við Nýja-Sjáland.

Til bjargar fiskistofnum jarðar leggur Economist annars vegar til framseljanlega aflakvóta að íslenzkum hætti og hins vegar veiðileyfagjald eða auðlindaskatt á sama hátt og hefur verið í umræðunni hér á landi, en ekki náð fram að ganga vegna fyrirstöðu grátkóra og þrýstihópa.

Hin ítarlega frásögn í Economist af breytingum á fiskistofnum um allan heim og tillögur blaðsins til úrbóta eru drjúgur stuðningur við þá skoðun, að skynsamlegt sé að mæta minnkun fiskistofna með skerðingu á aflakvótum og að hefja sköttun á hinni takmörkuðu auðlind hafsins.

Þverstæðuna við sjónarmiðin í Economist má sjá í kenningum þess stjórnmálamanns í Færeyjum, sem mesta ábyrgð ber á hruni færeyska þjóðfélagsins, Atla Dam, fyrrverandi lögmanns. Hann ber enn höfðinu við stein á svipaðan hátt og íslenzka Færeyjagengið.

Atli Dam berst gegn framseljanlegum kvótum í Færeyjum og segir sölu veiðileyfa ekki koma til álita. Þannig átti hann þátt í að koma Færeyjum á kaldan klaka. Sú hin sama yrði niðurstaðan hér, ef tekið yrði mark á íslenzka Færeyjagenginu og fræðimönnum á þess vegum.

Þótt fræði Hafrannsóknastofnunar séu götótt, er samt ljóst, að leyfður afli við Ísland er án svigrúms, á ýmsum sviðum í hámarki og á öðrum sviðum yfir hámarki.

Jónas Kristjánsson

DV

Auglýsingar eru fréttir

Greinar

Auglýsingar geta falið í sér upplýsingar og ekki verið minni fréttir en annað efni fjölmiðla. Þær eru mikilvægur þáttur þjóðfélagsins, stuðla meðal annars að betri nýtingu á vöru og þjónustu. Og þær geta auðveldað notendum þeirra að komast af og áfram í lífinu.

Einfalt atriði á borð við birtingu krónutalna í auglýsingu getur sparað væntanlegum notendum tíma og fyrirhöfn. Með beinum eða óbeinum samanburði milli slíkra auglýsinga geta notendur grisjað framboð vöru eða þjónustu á því sviði niður í tiltölulega viðráðanlegan fjölda.

Oft byggist birting krónutalna í auglýsingum á því, að seljandinn er ánægður með frammistöðu sína. Hann hefur náð árangri í innkaupum og vill auglýsa hann til að bæta markaðshlutdeild sína. Viðskiptavinurinn fær hagstæðara verð en ella og seljandinn meiri veltu.

Mörg dæmi eru um, að kaupmenn nái hagkvæmu verði með kaupum á miklu magni, sem þeir losna síðan fljótlega við með því að auglýsa óvenjulega lágt verð á vörunni. Margar auglýsingar í dagblöðum eru þessa eðlis. Þær eru þáttur í þjóðhagslega mikilvægu ferli.

Einn þáttur dæmisins er, að seljendur lækka skyndilega verð á vöru, sem ekki hefur selzt upp. Þar með hreinsa þeir til í birgðunum og gefa notendum kost á ódýrri vöru, sem er fyllilega nothæf, þótt hún sé af ýmsum öðrum ástæðum ekki í samræmi við nýjustu tízku.

Dagblöð eru full af auglýsingum, sem koma lesendum að gagni. Þeir fá að vita, hvað varan kostar. Þeir geta nýtt sér hagkvæmni magninnkaupa og þeir geta gert ódýr kaup á útsölum. Allt eru þetta mikilvægir þættir í vel smurðu þjóðfélagi, þar sem markaðslögmál ráða.

Oft auglýsa hinir nytsömu kaupmenn hver út af fyrir sig, til dæmis þegar þeir ná góðu verði á tölvum eða hljómtækjum fyrir fermingartímann. Stundum auglýsa þeir saman í sérstökum innskotskálfum í dagblöðunum, svo sem í gjafahandbókum, bílablöðum og ferðablöðum.

Einn merkasti þáttur þessa kerfis eru smáauglýsingarnar, þar sem raðað er saman auglýsingum á hverju sviði fyrir sig. Þær stuðla að því, að hver hlutur lendi þar sem hann kemur að beztu gagni. Þjóðfélag með miklum og góðum smáauglýsingum er vel smurt þjóðfélag.

Smáauglýsingar gefa lesendum sínum innsýn í grasrót mannlífsins. Þær segja stundum harmleik á borð við þann, að maður vill selja hestinn sinn fyrir skrjóð og mótatimbur eða gleðilegt ævintýri á borð við, að annar maður vill selja skrjóð og mótatimbur fyrir draumahest.

Svo eru líka til auglýsingar, sem hvorki koma auglýsendum né notendum að gagni. Þar fara fremstar í flokki ímyndarauglýsingar í sjónvarpi, þar sem ekki er fyllilega ljóst, hvort verið er að auglýsa bleiur eða banka, dömubindi eða olíufélag. Þessar auglýsingar eru allar eins.Sameiginlegt einkenni margra ímyndarauglýsinga í sjónvarpi er, að viðkomandi auglýsandi hefur ekkert að auglýsa. Vara hans eða þjónusta er nákvæmlega hin sama og keppinautanna og verðið hið sama. Fremst fara í þessum flokki fáokunarfyrirtæki á borð við bankana.

Heilar herferðir auglýsinga byggjast á innantómu bulli, svo sem frægt dæmi um misheppnaða tilraun á sölu lambakjöts. Þessar herferðir halda uppi nokkrum ímyndarstofnunum í auglýsingatækni, en koma hvorki auglýsanda né neytendum að nokkru merkjanlegu gagni.

Þegar veitt eru árleg verðlaun fyrir auglýsingar, væri snjallt hafa hliðsjón af nytsemi auglýsinga fyrir notendur og auglýsendur og draga í staðinn úr vægi á bankabulli.

Jónas Kristjánsson

DV