Greinar

Frjálsari viðhorf

Greinar

Stuðningsmönnum frjálsari utanríkisviðskipta og aukinnar þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu efnahagssamstarfi hefur fjölgað mikið að undanförnu. Þeir eru loksins komnir í meirihluta. Þetta sýndu niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar DV, sem birtist í blaðinu í gær.

Hörðust hefur stefnubreyting þjóðarinnar orðið í viðhorfinu til Evrópusambandsins. Fyrir tveimur árum vildu rúm 25% hinna spurðu sækja um aðild að því, en nú eru þeir komnir upp í rúm 51% hinna spurðu. Þetta getur flokkazt sem hrein stökkbreyting í málinu.

Viðhorfsbreytingin stafar meðal annars af því, að Íslendingar standa nú skyndilega andspænis þeirri staðreynd, að samanburðarþjóðir okkar á Norðurlöndum eru um það bil að flytja sig yfir í Evrópusambandið. Þar á meðal eru Norðmenn, helztu keppinautar okkar í fiski.

Enn ákveðnari er stuðningur þjóðarinnar við frjálsari innflutning á búvöru. Rúm 66% hinna spurðu vildu auka þetta frelsi og tæp 34% voru á móti. Athyglisvert er, að meirihluti er fyrir þessari skoðun í öllum stjórnmálaflokkunum, meira að segja í Framsóknarflokknum.

Samanlagt sýna þessar kannanir, annars vegar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og hins vegar um frjálsari innflutning búvöru, að þjóðin er komin langt fram úr pólitískum forustumönnum sínum í viðhorfi sínu til efnahags- og viðskiptahagsmuna sinna í umheiminum.Um leið fjölgar jafnt og þétt í þeim minnihluta, sem vill algert innflutningsfrelsi með búvöru. Fyrir fimm árum voru þeir 30% hinna spurðu, en eru nú komnir í 35% hinna spurðu. Þetta er töluvert meiri stuðningur en Evrópusambandið fékk hér fyrir tveimur árum.

Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa lítið sem ekkert gert til að fylgja í humátt á eftir þjóðinni á þessum mikilvægu sviðum. Forsætisráðherra hefur nýlega ítrekað hvað eftir annað, að umsókn um aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.

Þessi íhaldssama skoðun var staðfest á Alþingi í umræðum í fyrradag. Stjórnarandstaðan er meira eða minna sammála ríkisstjórninni á þessu sviði. Gerð var hörð hríð að utanríkisráðherra, sem hélt fram, að tímabært væri orðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Athyglisvert er, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka virkan þátt í að mála Alþingi út í horn í viðhorfinu til Evrópusambandsins, þótt mikill meirihluti stuðningsmanna flokksins hafi opnari viðhorf til umheimsins. Þetta skarpa misræmi kann að hefna sín á flokknum.

Enn skýrari drættir eru í misræminu í afstöðu þjóðar og þings til frjálsari innflutnings búvöru. Á nákvæmlega sama tíma og þjóðin vill frjálsari innflutning, hvar í stjórnmálaflokki sem hún stendur, eru þingmenn hennar algerlega á öndverðum meiði eins og verkin sýna.

Atkvæðamikill þingmaður reiknaði nýlega, að 50 þingmenn af 63 væru á móti frjálsari innflutningi búvöru. Þetta þýðir, að skoðun, sem hefur 66% fylgi meðal landsmanna, hefur ekki nema 21% fylgi á Alþingi, þar sem afturhaldið hefur gengið berserksgang að undanförnu.

Tilraunir Alþingis til að þrengja sem mest að innflutningi búvöru sýna, að þingmenn telja sér brýnna að gæta afmarkaðra sérhagsmuna, sem þeir telja þunga á metunum, heldur en að vernda almannahagsmuni eins og þeir líta út frá sjónarmiði meirihluta þjóðarinnar.

Samt er ástæða til að vona, að smám saman muni hinar öru breytingar á viðhorfi þjóðarinnar á þessum sviðum fara að endurspeglast í viðhorfi Alþingis.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðjungs árangur

Greinar

Mannfórnin í Sjálfstæðisflokknum náði nokkrum árangri, en ekki nægum. Hún skilaði einum borgarfulltrúa af þeim þremur, sem flokkinn vantaði til að halda meirihluta sínum í borgarstjórn Reykjavíkur. Sú er niðurstaða skoðanakönnunar DV, sem birt var í blaðinu í gær.

Skoðanakönnunin sýnir líka, að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru flestir sáttir við, að flokkurinn skyldi skipta um hest í miðri á. Þannig hefur tekizt að fara hjá hættunni á, að fólk tæki óstinnt upp að þurfa að skipta um þolanda persónudýrkunar frá því í prófkjörinu.

Könnunin sýnir hins vegar fremur lítinn stuðning óákveðinna kjósenda við mannaskiptin í sæti borgarstjóra. Hún gefur ekki tilefni til að ætla, að Sjálfstæðisflokknum takist að ná úr þeim hópi nægilegri fylgisaukningu til að halda meirihlutanum í borgarstjórn.

Hafa verður í huga, að skoðanakönnunin sýnir, að flestir hafa þegar gert upp hug sinn. Óákveðnir og aðrir þeir, sem svara ekki, eru aðeins 20%. Eftir viðhorfum þeirra til spurningarinnar um réttmæti mannfórnarinnar má ætla, að þeir skiptist jafnt milli listanna.

Mannfórnin í Sjálfstæðisflokknum mistókst á svarthvítum mælikvarða sigurs og ósigurs. Reykjavíkurlistinn hefur enn svo mikið forskot í skoðanakönnuninni, að það mundi jafngilda kraftaverki, ef D-listinn ynni það alveg upp í rúmlega tveggja mánaða kosningabaráttu.

Að vísu má aldrei vanmeta getu vinstri manna til að klúðra góðri stöðu. Staða Sjálfstæðisflokksins er ekki alveg vonlaus, þótt hann geti ekki sjálfur gert mikið meira til að laga hana. Alltaf er hugsanlegt að efna megi til illinda milli aðstandenda Reykjavíkurlistans.

Við venjulegar aðstæður ætti sex borgarfulltrúa útkoma af fimmtán mögulegum að teljast hrikaleg útreið. Það er bara í ljósi fyrri kannana, sem sýndu fimm borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að líta má á nýju könnunina sem varnarsigur í annars afar vonlitlu stríði.

Skoðanakannanir eru hinn raunverulegi sigurvegari mannfórnarinnar á borgarstjórastóli. Aldrei áður hafa þær velt jafn þungu hlassi. Aldrei áður hefur verið jafn augljóst, að stjórnmálamenn og -flokkar trúa meira eða minna bókstaflega og blint á niðurstöðutölur þeirra.

Þessi trú var svo sterk, að menn höfnuðu gömlu spakmæli, sem segir, að ekki skuli skipta um hest í miðri á. Menn tóku áhættu af nýju kenningakerfi, sem byggist á, að skoðanakannanir séu sá Stóridómur, sem öllu sé fórnandi fyrir, jafnvel sjálfum borgarstjóranum.

Nýja kenningakerfið er á þessa leið: “Við gerðum allt rétt í borgarstjórn, en kjósendur eru því miður vitlausir. Þar sem skoðanakannanir eru Stóridómur, skiptum við um hest í miðri á. Við uppgötvum mjúku málin um leið. Þetta er ekki örvænting, heldur hetjuskapur okkar.”

Auðvitað er mannfórnin í senn örvænting og hetjuskapur, enda er yfirleitt skammt á milli þeirra í raunveruleikanum jafnt sem ævintýrunum. En hún hefur ekki reynzt ná nema þriðjungi af þeim árangri, sem hinar örvæntingarfullu hetjur þurftu á að halda.

Ef skoðanakannanir eru sigurvegarinn, má um leið líta á stjórnmálamenn sem hinn sigraða. Mannfórnin markar þau tímamót, að stjórnmálamenn eru hættir að nota skoðanakannanir sem verkfæri og farnir að láta þær stjórna sér í hvívetna. Þrællinn er orðinn húsbóndi.

Ef illa árar í könnunum verður hér eftir ótrauðar skipt um menn og málefni eins og föt og farða. Stjórnmálamenn munu láta meira stjórnast af veðri og vindum.

Jónas Kristjánsson

DV

Enn eitt skólaáfallið

Greinar

Fjölþjóðleg könnun hefur leitt í ljós, að íslenzkir grunnskólanemar eru fremur illa á vegi staddir í landafræði, á svipuðum slóðum og bandarískir nemar, sem þekktir eru að fáfræði á þessu sviði. Í annarri könnun kom í ljós, að 70% íslenzkra nema ráða ekki við áttir á korti.

Í síðarnefndu könnuninni kom einnig fram, að fjórðungur íslenzkra grunnskólanema getur tæpast talizt læs. Einkum eiga börnin erfitt með að nýta sér myndrænar upplýsingar, svo sem í línuritum og annars konar gröfum, alveg eins og þau eru ekki vel læs á landakort.

Þetta dapurlega ástand er í skólakerfi, sem gefur sér heil sjö ár til þess tveggja ára verkefnis að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna. Því má spyrja, til hvers íslenzkir skólar séu og hvort þeir séu fyrst og fremst geymslustaðir fyrir börn, svo að þau séu ekki á götunni.

Snemma var farið að misþyrma landafræði og raunar einnig sagnfræði í skólakerfi landsins. Áratugir eru síðan átthagafræði leysti þessar greinar af hólmi í yngstu bekkjunum og lengi hefur þokukennd samfélagsfræði komið í stað landafræði og sagnfræði í eldri bekkjum.

Landafræði og sagnfræði eru afmarkaðar fræðigreinar. Landafræðin hefur samhengi í flatarmáli og sagnfræði í atburðarás. Það dugir ekki að búta þessar greinar í sundur í eins konar sýnishorn og líma brotin saman með tízkufyrirbæri á borð við félagslega vandamálafræði.

Bandaríkjamenn byggja ekki mikið á utanríkisviðskiptum og geta því litið á getuleysi í landafræði sem minni háttar böl. Það getum við hins vegar ekki, af því að utanríkisviðskipti eru óvenjulega mikilvægur þáttur þjóðfélagsins og raunar hornsteinn tilveru okkar.

Vegna utanríkisviðskipta okkar þurfum við að þekkja japanska sögu og landafræði, bandaríska og evrópska. Við höfum í staðinn eins konar Tanzaníufræði, þar sem búin er til rammfölsk mynd af þriðja heims einræðisríki, þar sem nær allt hefur gengið á afturfótunum.

Í skólakerfinu hafa ekki aðeins orðið afdrifarík mistök á afmörkuðum sviðum, svo sem með samfélagsfræðinni og mengjafræðinni, heldur hafa líka verið framleidd vandamál með aðgerðum, sem eru almenns eðlis. Þessar aðgerðir hafa stundum verið nefndar: Fúsk og leikir.

Sem dæmi um það er áherzlan á hópvinnu, sem felur í sér, að einn nemandi hópsins er bílstjóri og hinir hlutlausir farþegar, sem hafa lítið gagn af hópvinnunni. Þetta er angi þeirrar áráttu og rangmats að telja félagsleg vinnubrögð vera merkilegri en framtak einstaklingsins.

Annað dæmi er áherzlan á þjónustu við nema, sem eru til geymslu í skólunum og hafa lítinn eða engan áhuga á raunverulegu námi. Þetta lækkar staðalinn án þess að koma þessum nemum að gagni. Tekin eru upp vinnubrögð, sem eiga að forða nemum frá fyrirhöfn.

Hér hafa aðeins verið rakin dæmi um það, sem miður fer. Þau eru tilraun til að skýra út frá kerfinu, hvers vegna athuganir leiða aftur og aftur í ljós, að íslenzka skólakerfið nær ekki þeim árangri, sem stefnt er að, og ekki sama árangri og sumt erlent skólakerfi nær.

Fúsk og leikir geta ekki komið í stað vinnu og fyrirhafnar. Hópvinna getur ekki komið að sama gagni og vinna. Börn þurfa að verða vel læs á fáum árum, en ekki illa læs á sjö árum. Ekki má spilla grónum námsgreinum með því að klippa þær niður í samfélagsgraut.

Þegar fjórðungur íslenzkra barna getur ekki talizt læs og þegar Ísland lendir í 17. sæti af 25 í landafræðikunnáttu, er eðlilegt að telja kerfið sjálft vera í ólagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Við forðumst forvarnir

Greinar

Fyrir rúmu ári var fyrst lagt til í leiðara í DV, að Íslendingar gengju í Evrópusambandið með félögum sínum í Fríverzlunarsamtökunum. Þessi skoðun hefur nokkrum sinnum verið ítrekuð, en helztu stjórnmálamenn landsins hafa ekki einu sinni viljað láta kanna málið.

Eftir samninga Evrópusambandsins við Svía, Finna og Austurríkismenn hafa viðhorf íslenzkra ráðamanna breytzt lítillega. Ráðherrar úr báðum stjórnarflokkunum segja nú, að tímabært sé orðið að kanna, hvort heppilegt sé fyrir Ísland að sækja um aðild að sambandinu.

Við munum ekki fá eins góð kjör við næstu stækkun sambandsins og við hefðum fengið, ef við hefðum fylgt Svíum, Finnum og Austurríkismönnum. Þeir, sem fara inn núna, eru hinir síðustu, sem fá full réttindi á borð við framkvæmdastjórastöður og aðgang að formennsku.

Viðhorf íslenzkra ráðamanna endurspeglar almennt viðhorf á Íslandi, sem felur í sér, að ekki skuli leysa mál, fyrr en komið er í óefni á elleftu stund. Forvarnir eru fjarlægar okkur og ráðamönnum okkar, að minnsta kosti í stjórnmálum, viðskiptum og atvinnulífi.

Svíar vilja komast inn í Evrópusambandið til að ná áhrifum. Þeir vilja komast að stjórnvelinum til að taka þátt í að móta umhverfi sitt og lífsskilyrði fram á næstu öld. Þeir hafa markmið og vilja ekki þurfa að standa andpænis ytri aðgerðum, sem eru þeim andsnúnar.

Við höfum ekki slík markmið sem þjóð. Við erum lítið fyrir að reyna að breyta umhverfi okkar og lífsskilyrðum, heldur reynum við að mæta vandamálum, sem upp koma hverju sinni. Við höfum ekki frumkvæði og við stundum ekki efnahags- og viðskiptalegar forvarnir.

Aðgerðir Frakka gegn innflutningi á íslenzkum fiski eru gott dæmi um, hve óhagkvæmt er að einblína á viðbrögð við aðsteðjandi vandamálum. Ef við værum þegar komnir í Evrópusambandið, hefðu Frakkar ekki treyst sér til að brjóta fjölþjóðlega samninga á okkur.

Frönsk stjórnvöld eru ekki öðruvísi en meirihluti íslenzkra þingmanna, sem vilja fara í kringum fjölþjóðlega viðskiptasamninga til að vernda þrönga sérhagsmuni landbúnaðar gegn víðum hagsmunum neytenda og skattgreiðenda og útflutningshagsmunum sjávarútvegs.

Bandaríkjamenn eru nógu stórir og sterkir til að ógna Frökkum á móti, svo að þeir leggi niður rófuna. Við getum hins vegar bara hótað að kaupa ekki eina þyrlu og nokkra bíla. Sú hótun er svo lítilvæg, að Frakkar mundu bara flissa, ef hún væri sett fram í alvöru.

Við erum fáir og smáir og höfum ekki næga vernd gegn tilhneigingu fyrirferðarmikilla frekjudalla til að beygja og brjóta fjölþjóðlega viðskiptasamninga á borð við þá, sem gerðir hafa verið í Alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum GATT og í Evrópska efnahagssvæðinu.

Í sandkassa alþjóðlegra viðskipta komast stóru strákarnir upp með ýmislegt, sem litlu strákunum líðst ekki. Eina vörn litlu strákanna er að ganga í öll fjölþjóðleg samtök, bandalög, samfélög og sambönd, sem kostur er á. Bezta vörnin gegn mafíunni er að ganga í hana.

Evrópusambandið er að stofni til verndar- og tollmúrasamband, sem hefur lengi stundað ofbeldi í efnahagslegum samskiptum við umhverfi sitt. Það verndar hins vegar þá, sem komnir eru inn, þótt litlir séu. Þess vegna hafa Frakkar ekki ráðizt gegn fiskinnflutningi þeirra.

Við höfum mikið böl af að hafa ekki vit á að stunda forvarnir á þessu sviði, heldur vera alltaf önnum kafnir að fást á elleftu stund við aðsteðjandi uppákomur.

Jónas Kristjánsson

DV

Landnemarnir fari

Greinar

Eftir fjöldamorðin í Hebron hafa SS-sveitir Ísraelshers drepið rúmlega tuttugu manns til viðbótar á hernumdu svæðunum í Palestínu. Enn hefur herraþjóðin þrengt að Palestínumönnum með útgöngubanni, fleiri handtökum án dóms og laga og auknum dólgshætti SS-sveitanna.

Á sama tíma er ekkert gert til að hafa hendur í hári vopnaðra ofsatrúarmanna í hópi ísraelskra landnema á hernumdu svæðunum. Eins og fjöldamorðinginn Goldstein bera þeir hríðskotabyssur, sem þeir hafa fengið frá hernum. Þeir umgangast Palestínumenn eins og hunda.

10.000 Palestínumenn sitja í fangelsi fyrir lögmætt andóf gegn brotum Ísraels á undirrituðum alþjóðareglum um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Dag eftir dag fréttist af nýjum mannréttindabrotum herraþjóðar, sem er að krumpast á sama hátt og Þýzkaland Hitlers.

Hrunið er norska samkomulagið um friðarferil í Palestínu, enda var það byggt á sandi. Ísraelsstjórn samþykkti það til að vinna tíma, en ekki til að láta það ná fram að ganga í raun. Og Arafat samþykkti það til að reyna að ná frumkvæði, sem hann hafði glatað.

Flokkur Arafats nýtur ekki lengur stuðnings Palestínumanna. Þvergirðingsháttur Ísraels í framhaldi friðarviðræðnanna hefur kippt fótunum undan viðsemjanda þeirra. Palestínumenn styðja nú Hamas og aðra flokka, sem eru róttækari en útlagaflokkur Arafats.

Þetta er eðlileg þróun. Framkoma Ísraels, einkum landnema og SS-sveita hersins, á hernumdu svæðunum ár eftir ár eftir ár leiðir smám saman til þess, að kúgaðir og smáðir Palestínumenn hætta að styðja miðjuflokk og gerast róttækari í skoðunum sínum á ástandinu.

Fjöldamorðin í Hebron sýna líka, að röng var aðferðafræðin í fyrstu skrefum friðarviðræðnanna. Það eru ísraelsku landnemarnir á hernumdu svæðunum, sem eru krabbameinið. Þeir framkalla meirihlutann af vandræðunum, sem gera friðarviðræðurnar svo erfiðar.

Ástandið í Hebron er dæmigert. Þar búa 70.000 óvopnaðir Palestínumenn og 400 vopnaðir landnemar, sem ögra meirihlutanum með stuðningi SS-sveita Ísraelshers. Þetta er tímasprengja, sem stjórn Ísraels hefur búið til með því að leyfa landnám á hernumdum svæðum.

Stærstu ábyrgðina ber Bandaríkjastjórn, sem hefur stutt Ísrael peningalega, pólitískt og hernaðarlega þrátt fyrir landnám, mannréttindabrot og stríðsréttindabrot. Ef Bandaríkin hefðu skilyrt stuðninginn, hefði Ísrael ekki krumpazt eins mikið og dæmin sanna dag eftir dag.

Ekki er lengur hægt að búast við friði í Palestínu nema landnemarnir og SS-sveitir Ísraelshers fari þaðan. Það er þáttur af fyrsta skrefinu í átt til friðar, ef það verður stigið. Fortíðarinnar vegna ber Bandaríkjastjórn ábyrgð á, að svo skuli verða. Hún fjármagnaði krabbameinið.

Allt þetta hefði átt að vera mönnum ljóst, þegar þeir dönsuðu af gleði yfir norska samkomulaginu um friðarferil í Palestínu. Menn létu óskhyggjuna ráða, þótt ljóst mætti vera, að samkomulagið tók ekki á staðreyndum um orsök vandans og var því dæmt til að mistakast.

Nú er hins vegar kominn tími til að opna augun. Bandaríkjastjórn neyðist á endanum til að axla sína þungu ábyrgð og hætta öllum stuðningi, fjárhagslegum, pólitískum og hernaðarlegum, við skjólstæðing, sem hefur breytzt úr undrabarni í alþjóðlegt vandræðamál.

Bandaríkin verða á eigin kostnað að ganga í milli og sjá um, að Ísraelar geti búið og ráðið í sínu landi og Palestínumenn búið og ráðið í sínu landi. Í friði.

Jónas Kristjánsson

DV

50 framsóknarmenn

Greinar

Framsóknarmenn eru í öllum flokkum Alþingis, enda sagðist Egill Jónsson hafa 50 þingmanna fylgi af 63 í slagnum um búvörufrumvarpið. Meðal þeirra eru þingmenn í Alþýðuflokknum. Segja má raunar í þéttbýlinu, að atkvæði greitt Alþýðuflokki sé atkvæði greitt Eydalaklerki.

Flestir framsóknarmenn eru þó í þingflokki sjálfstæðismanna. Eftir síðustu kosningar urðu framsóknarmenn í þingflokki sjálfstæðismanna fleiri en í þingflokki framsóknarmanna. Þessa sér skýr merki í störfum þeirra á Alþingi og í svonefndu samstarfi flokksins í ríkisstjórn.

Meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem ganga fram fyrir skjöldu í stuðningi við landbúnaðarstefnu Egils, eru þingmaðurinn frá Bolungavík, þingmaðurinn frá Hafnarfirði, þingmaðurinn frá Stykkishólmi og nýi þingmaðurinn frá Akureyri. Allir eru þeir nýir á þingi.

Athyglisvert er, að nýrri þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli vera harðari stuðningsmenn hefðbundinnar landbúnaðarstefnu en sumir eldri þingmennirnir. Einnig er athyglisvert, að þingmenn þéttbýlissvæða eru ekki síður harðir á þessu en þingmenn dreifbýlissvæða.

Þingflokkur sjálfstæðismanna og ráðherrar hans vekja einnig eftirtekt fyrir andstöðu við flest, sem orða mætti við frjálshyggju, það er að segja við þá hugsun, að markaðsöfl eigi að ráða ferðinni. Sjálfstæðisflokkurinn telur, að málum eigi að miðstýra með handafli hins opinbera.

Eini ráðherrann, sem reynir eftir mætti að losa um höft, er Sighvatur Björgvinsson, sem skar niður lyfjakostnað og ýmsan annan heilsukostnað ríkisins og er nú að reyna að gera olíuverzlun frjálsa að meira en nafninu til. Hann er auðvitað ráðherra Alþýðuflokksins.

Vafalítið mun rísa andstaða í þingflokki sjálfstæðismanna við olíufrumvarp viðskiptaráðherra. Það væri eðlilegt framhald af núverandi ástandi, sem líkist æ meira miðstýringaráráttu síðustu vinstri stjórnar í landinu. Sértækar aðgerðir handa Vestfjörðum sýna það vel.

Á síðasta kjörtímabili reis alda frjálshyggju í Sjálfstæðisflokknum. Sumir studdu hana til að geta snúið út úr einkavæðingu og búið til úr henni einkavinavæðingu, sjálfum sér til framdráttar. Frjálshyggjan var fyrst og fremst notuð til að einkavæða opinbera spillingu.

Að öðru leyti er frjálshyggja einkum höfð að háði og spotti í Sjálfstæðisflokknum. Þeir, sem meintu hana í alvöru, fara með veggjum og láta lítið fara fyrir sér. Eftir frammistöðuna á kjörtímabilinu verður erfitt fyrir flokkinn að dusta rykið af henni á síðasta ári þess.

Þingflokkur og ráðherrar Sjálfstæðisflokks hafa varið hefðbundna búnaðarstefnu af hörku gegn atlögum Alþýðuflokks; hafa haft forustu um að endurvekja sértækar aðgerðir hins opinbera að hætti Steingríms Hermannssonar; hafa hafnað skrefum í átt til markaðsbúskapar.

Sem dæmi um þessa stöðu má nefna fjármálastjórn, sem ekki hefur tekizt að laga útgjöld ríkisins að minnkuðum tekjum vegna samdráttar í atvinnulífinu, þannig að sett var Íslandsmet í hallarekstri ríkissjóðs í fyrra og að reiknað er með nýju Íslandsmeti á þessu ári.

Í stórum dráttum hefur Sjálfstæðisflokkurinn á þessu kjörtímabili hvergi reynt að rétta hlut neytenda og skattgreiðenda gegn þrýstihópum sérhagsmuna og hvergi reynt að laga hlut sérhagsmuna sjávarútvegs gagnvart yfirþyrmandi dýrum sérhagsmunum landbúnaðar.

Það verður gaman að sjá, hvernig flokkurinn hagar kosningabaráttu að ári, með þá staðreynd kjörtímabilsins á bakinu, að hann er tvíburabróðir Framsóknarflokksins.

Jónas Kristjánsson

DV

Grátkarlar um land allt

Greinar

Komið hefur í ljós, að fleiri en Vestfirðingar telja sig hafa orðið að sæta svo mikilli minnkun þorskkvóta, að til vandræða horfi í kjördæminu. Hagsmunagæzlumenn einstakra kjördæma hafa fetað í fótspor starfsbræðra sinna á Vestfjörðum. Matthías er ekki einn í heiminum.

Fyrstir á vettvang urðu þingmenn Austfjarða og Norðurlands eystra. Hagsmunagæzlumenn frá Suðurnesjum og Vesturlandi fylgdu í kjölfarið. Er nú bara beðið eftir, að kröfugerð frá Reykjavík verði nýjasti liðurinn í atvinnuátaki kosningaundirbúnings borgarstjórans.

Allir þessir aðilar segja, að líta verði á þorskkvótaleysið frá almennum sjónarhóli, en ekki grípa til sértækra aðgerða fyrir aðeins einn landshluta. Það er auðvitað nokkuð til í þessu, ef byggt er á þeirri forsendu Vestfirðinga, að minnkaður þorskkvóti sé stóra vandamálið.

Að vísu hafa Vestfirðir þá sérstöðu, að þar er lítið sem ekkert uppland og lítið um tækifæri utan sjávarútvegs. Þar hafa menn sérhæft sig í sjávarútvegi og aftur sjávarútvegi. Það gildir um Vestfirðinga í meira mæli en aðra landsmenn, að þeir hafa ekki að annarri iðju að hverfa.

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með, hvernig hagsmunagæzlumenn Vestfjarða hafa til skamms tíma átt erfitt með að sjá sérstöðuna. Þeir hafa til dæmis verið manna frekastir í kröfum um fyrirgreiðslur til landbúnaðar, þótt þær séu kostaðar af peningum úr sjávarútvegi.

Þeir, sem stjórna úthlutun á peningum skattgreiðenda, segjast setja ýmis skilyrði fyrir hinum fyrirhuguðu greiðslum, sem kalla má fyrirhugaðar verðlaunaveitingar fyrir óvarlega meðferð á þorskkvóta. Snúast skilyrðin mest um samruna fyrirtækja og samruna sveitarfélaga.

Þegar skilyrðin verða sett, ættu úthlutunarstjórar að líta á yfirlýsingar frá Vestfjörðum um, að útgerðaraðilar hyggist eða séu byrjaðir að veiða umfram þorskkvóta á forsendum eins konar neyðarréttar, sem sé í stöðunni æðri landslögum, er séu andsnúin Vestfirðingum.

Nógu slæmt er að standa að verðlaunaveitingum fyrir óvarlega meðferð þorskkvóta, svo að ekki sé því bætt ofan á að verðlauna útgerðaraðila fyrir að brjóta lög og fara vísvitandi fram úr þorskveiðikvóta. Slíkt fordæmi getur orðið stjórnkerfinu nokkuð þungt í skauti.

Upphlaupið á Vestfjörðum er raunar hluti af víðtækri og raunar óskipulagðri árás á kvótakerfið, sem greinilega er að verða satt lífdaganna. Stóra spurningin er, hvað taki við af þessu kerfi, þegar búið er að slátra því. Verður það færeyskt stjórnleysi eða auðlindaskattur?

Þegar Vestfirðingar tala um rétt manna til að stunda sjá á sama hátt og forfeðurnir gerðu, eru þeir óviljandi að biðja um sams konar öngþveiti í ofveiði og það, sem hefur framkallað hrun fiskistofna við Færeyjar og hrun sjálfstæðs þjóðfélags á eyjunum í kjölfarið.

Upphlaupið á Vestfjörðum staðfestir um leið enn einu sinni, að afkastageta veiðiflota og fiskvinnslustöðva er hér á landi langtum meiri en efni standa til. Dæmið gengur aldrei upp fyrr en skipum hefur verið stórfækkað og fiskvinnslustöðvum hefur verið stórfækkað.

Auðlindaskattur, öðru nafni veiðileyfagjald, hefur þann kost umfram kvótakerfi að halda ekki aðeins veiðinni í hófi, heldur lágmarka einnig kostnað þjóðfélagsins af fyrirhöfninni við að ná aflanum. Sú skömmtunaraðferð hefur reynzt bezt, þegar auðlindin er takmörkuð.

Upphlaupið á Vestfjörðum er lærdómsríkt. Miklu máli skiptir, að menn dragi af því réttar ályktanir, svo að niðurstöður aðgerðanna verði öllum til góðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðar fréttir í bland

Greinar

Stækkun Evrópusamfélagsins með aðild Norðurlanda hefur ýmis bein og óbein áhrif á stöðu Íslands í umhverfinu. Flest eru þau til bóta, þótt einmanalagt og raunar nokkuð dýrt kunni að verða í Fríverzlunarsamtökunum, ef Ísland verður eitt eftir í þeim eða með Noregi einum.

Svíar og Finnar munu hafa góð áhrif á Evrópusamfélagið. Þeir munu leggja lóð á vogarskálina gegn ofbeldishneigðri efnahagsfrekju, sem í allt of miklum mæli einkennir samskipti Evrópusamfélagsins við umheiminn, svo og gegn miðstýringaráráttunni frá Frakklandi.

Svíar og Finnar verða að því leyti á báti með Bretum, að þeir munu fremur fylgja því, að Evrópusamfélagið verði stækkað með aðild fleiri ríkja, heldur en að það verði dýpkað með nánari miðstýringu. Það léttir okkur aðild, þegar við teljum okkur þurfa á henni að halda.

Svíar og Finnar munu leggjast gegn efnahagslega ofbeldishneigðum vinnubrögðum á við þau, sem frönsk stjórnvöld hafa stundað að undanförnu við takmörkun innflutnings á fiski. Eftir inngöngu Norðurlanda verður líklega heldur minni hætta á uppákomum af því tagi.

Þegar kemur að samningum um aðild Íslands, hvenær sem það verður, munu Svíar og Finnar stuðla að því, að ekki verði gerðar óhóflegar kröfur í okkar garð í stíl við þær, sem Spánverjar hafa haldið fram gegn Norðmönnum og hafa komið í veg fyrir samkomulag við Norðmenn.

Hvernig sem hin efnahagslegu utanríkismál Íslendinga rekast á næstu árum, þá er ljóst, að við verðum að halda verndarhendi yfir auðlind hafsins. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu gerir okkur það kleift. Aukin Evrópuaðild má ekki tefla þeirri stöðu í tvísýnu.

Við verðum svo um leið að átta okkur á, að sjálfir rekum við ofbeldishneigða efnahagsstefnu gagnvart útlöndum, alveg eins og Frakkar og Evrópusamfélagið. Við leggjum hrikalegar hindranir í götu innflutnings á búvöru. Okkur verður í auknum mæli hegnt fyrir það.

Búast má við fleiri uppákomum í stíl við frönsku innflutningshömlurnar á íslenzkum fiski og við kanadísku innflutningshömlurnar á íslenzkri iðnaðarvöru. Auðvelt verður fyrir erlenda haftasinna að segja sig bara vera að nota íslenzk vinnubrögð í utanríkisviðskiptum.

Umræður á Alþingi um búvöru benda til, að mikill meirihluti íslenzkra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka stundi stefnu Framsóknarflokksins í eindreginni blindni og vilji gæta hagsmuna landbúnaðarins á kostnað sjávarútvegs, iðnaðar, neytenda og skattgreiðenda.

Svo forstokkaðir eru sumir ráðamenn okkar, að forsætisráðherra sagði beinlínis í fyrradag, að nýgert samkomulag í alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum GATT skipti okkur ekki miklu og að við gætum gefið okkur góðan tíma til að athuga, hvort við ættum að staðfesta það.

Meðan íslenzk stjórnmál eru á slíkum villigötum geta horfur í utanríkisviðskiptum ekki talizt góðar. Þegar fréttirnar að innan eru að mestu leyti slæmar, þurfum við þeim mun betri fréttir að utan, svo sem þær nýjustu, að Evrópusamfélagið sé að víkka í átt til norðurs.

Allir fjölþjóðasamningar, sem víkka fríverzlun án þess að efla miðstýringu, hafa góð áhrif á viðskiptaandrúmsloftið á svæðinu og jaðarsvæðum þess. Aðild Svía og Finna að Evrópusamfélaginu er sigur framfaraafla gegn afturhaldi á borð við það, sem ræður Alþingi Íslendinga.

Meðan góðar fréttir berast í bland við slæmar er ekki útilokað, að við getum áfram lifað góðu lífi á að selja vöru og þjónustu til þeirra, sem beztu verði vilja kaupa.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvörnin malar

Greinar

Þeim fjölgar hægt en örugglega, sem vilja breyta hinni opinberu búvörustefnu, taka upp innflutningsfrelsi og afnema niðurgreiðslur og styrki. Í árslok 1989 sýndu skoðanakannanir, að 30% þjóðarinnar vildu innflutningsfrelsi, en haustið 1993 voru 47% þeirrar skoðunar.

Þetta er mikil hugarfarsbreyting á fjórum árum. Með sama áframhaldi verða farnar að renna tvær grímur á stjórnmálamenn, þegar þeir búa sig undir að mæta kjósendum í lok næsta kjörtímabils. Kvörn réttlætisins malar hægt á þessu sviði, en hún malar örugglega.

Ekki er hægt að búast við endurbótum á núverandi ástandi meðan meirihluti þjóðarinnar styður núverandi hömlur, þótt sá meirihluti sé orðinn afar naumur. En búast mætti við, að ráðamenn létu sér nægja að vernda kerfið og létu hjá líða að magna það og herða.

Ágreiningur stjórnarflokkanna um búvörulög snýst að verulegu leyti um, hvort landbúnaðarnefnd Alþingis og formaður hennar mega taka ákvarðanir, sem sniðganga skuldbindingar, er fylgja aðildinni að alþjóðlegri fríverzlun og eiga að koma til framkvæmda eftir ár.

Við erum ekki ein um þessa hituna. Í Frakklandi hafa stjórnvöld ákveðið að minnka innflutning á fiski með því að beita nákvæmlega þeirri aðferð, sem íslenzk stjórnvöld hafa mest notað til að hindra innflutning á búvöru. Aðferðin felst í tilbúnum heilbrigðisástæðum.

Ef hin ízlenzku og frönsku vinnubrögð ná útbreiðslu í heiminum, munu þær þjóðir tapa mestu, sem mest eiga undir útflutningsverzlun og mest allra munu Íslendingar tapa. Í kjölfar hinna frönsku aðgerða fer þessi einfalda staðreynd senn að síast inn í heilabú íslenzkra kjósenda.

Sum erlend stjórnvöld ganga beinna til verks en hin frönsku. Kanadamenn hafa komið í veg fyrir sölu á framleiðsluvörum Hampiðjunnar og Marels. Þetta gera þau beinlínis í hefndarskyni fyrir innflutningsbann Íslendinga á vörum, sem framleiddar eru í Kanada.

Atburðir á við þessa sýna okkur, að við erum ekki ein um verndarhituna. Þeir sýna kjósendum, að með búvörustefnu sinni eru íslenzk stjórnvöld að fórna hinum miklu meiri hagsmunum sjávarútvegs, iðnaðar og verzlunar fyrir hina miklu minni hagsmuni landbúnaðar.

Þetta hefur hins vegar ekki enn síazt inn í heilabú alþingismanna. Líklegt er talið, að um það bil 50 af 63 þingmönnum styðji verndarsjónarmið formanns landbúnaðarnefndar. Meðal þeirra eru nefndarmenn úr sjávarútvegskjördæmum á borð við Vestfirði og Reykjanes.

Samkvæmt þessu styður aðeins 21% þingmanna frelsissjónarmið, sem hafa 47% fylgi með þjóðinni. Samkvæmt þessu eru þingmenn langt á eftir þjóðinni í skilningi á efnahagslegum hagsmunum þjóðarinnar. Þannig er Alþingi einn af myllusteinunum um háls þjóðarinnar.

Vaxandi sviptingar í utanríkisviðskiptum kunna að valda því, að tvær grímur renni á stjórnmálamenn, sem hingað til hafa alls ekki áttað sig á, að með stuðningi við verndarsjónarmið landbúnaðar eru þeir leynt og ljóst að vinna gegn útflutningshagsmunum sjávarsíðunnar.

Síðar er hugsanlegt, að kjósendur fari að átta sig á hagsmunum sínum sem neytendur og skattgreiðendur. Þegar almenningur hættir að láta teyma sig á asnaeyrunum í þágu þröngra sérhagsmuna, þá fyrst verða hin stóru þáttaskil í atvinnu- og hagstefnu stjórnmálamanna.

Við stöndum á þröskuldi þess, að minni hagsmunir víki fyrir meiri. Síðan mun hægt og bítandi koma að því, að sérhagsmunir víki fyrir almannahagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Úlfurinn er enn á ferð

Greinar

“Úlfur, úlfur” er hrópað í annað sinn á skömmum tíma á Vestfjörðum. Fyrir þremur mánuðum sögðu nokkrir framámenn Vestfjarða, að ríkisstjórnin og Landsbankinn væru að drepa Vestfirði. Þeir létu Byggðastofnun heimta, að útvegaðar yrðu 300 milljónir króna í sárabætur.

Þá kom þó í ljós við skoðun, að atvinnuástand var betra á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum. Atvinnutekjur á mann voru meiri þar en annars staðar og atvinnuleysi miklu minna. Sums staðar vestra var meira að segja notað erlent farandverkafólk til að magna veltu.

Nú er aftur hrópað “Úlfur, úlfur” á Vestfjörðum og meira að segja með auknum þunga. Innihaldið að baki neyðarópsins virðist að þessu sinni vera þetta: “Við höfum farið svo óvarlega með þorskkvótann okkar, að það þarf að verðlauna okkur með auknum þorskkvóta.”

Enn þann dag í dag er atvinna meiri á Vestfjörðum en annars staðar og tekjur fólks meiri. En á Vestfjörðum breiðist út ótti um, að þessu góðæri fari að linna, því að of mikil sókn á fyrri hluta kvótatímabilsins muni leiða til, að leggja þurfi fiskiskipum á síðari hlutanum.

Krafan um aukinn kvóta á sér hljómgrunn í kenningum um, að fiskifræði nútímans sé ónákvæm fræðigrein. Bent hefur verið á, að hugsanlegt sé, að ýmis ómæld atriði hafi jafn mikil eða meiri áhrif á viðgang fiskistofna en þau atriði, sem Hafrannsóknastofnunin hefur mælt.

Ýmsir aðilar og þar á meðal fræðimenn hafa bent á samræmi milli viðgangs íslenzkra fiskistofna og ýmissa atriða á borð við breytilegar vindáttir hér við land eða þá aðstæður við Jan Mayen eða í Barentshafi. Aðrir hafa bent á misræmi árgangsstærða og nýliðunar.

Skammt er frá slíkum efasemdum yfir í fullyrðingar um, að það, sem gæti staðizt, hljóti að standast. Þannig var einu sinni reiknað út samræmi milli vegalengda í göngum píramídans mikla og veraldarsögunnar og búin til fræðigrein, sem kölluð hefur verið píramídafræði.

Reiknilíkön Hafrannsóknastofnunar gefa án efa takmarkaða mynd, sem þarf að víkka og bæta eftir því sem rannsóknatækni eykst. Hitt er vafasamt að hafna þessum reiknilíkönum á grundvelli hugarfars píramídafræðinnar, jafnvel þótt um rökstuddar getgátur sé að ræða.

Alveg eins og skammt er frá rökstuddum getgátum yfir í kenningakerfi, þá er skammt frá kenningakerfum yfir í óskhyggju. Sérstaklega er þetta hættuleg braut, þegar hagsmunaaðilar telja henta sér að grípa til óskhyggju, sem byggist á hinum rökstuddu getgátum.

Niðurstaðan er alltaf sú sama. Því er haldið fram, að óhætt sé að veiða meira en kvótanum nemur. Því er aldrei haldið fram, að veiða eigi minna en kvótanum nemur. Þetta byggist auðvitað á samtvinnun hagsmuna og óskhyggju, sem hvílir á grunni rökstuddra getgátna.

Einn stór galli er við þá stefnu, að veiða megi meira en sem kvótanum nemur. Gallinn er, að ekki verður aftur snúið. Ef hin gagnrýndu reiknilíkön reynast hafa verið betri en engin, er of seint að byggja stofnana upp að nýju. Þeir eru horfnir eins og norsk-íslenzka síldin.

Við höfum víti að varast á þessu sviði. Færeyingar gátu ekki sætt sig við aflatakmörkun á borð við kvótakerfi. Þeir töldu, að meiri fiskur væri í sjónum en fiskifræðingar héldu fram. Þeir leyfðu óskhyggju að ráða ferðinni og glötuðu snögglega efnahagslegu sjálfstæði sínu.

Þótt tekið sé tillit til efasemda um gildi fiskifræða, er á þessu stigi ekki nein ástæða til að taka þá áhættu að leyfa meiri afla við Vestfirði en sem nemur kvótanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vegamót í Suður-Afríku

Greinar

Nelson Mandela tekur við af de Klerk sem forseti Suður-Afríku eftir almennar kosningar, sem verða í landinu 26.-28. apríl í vor. Fylgi Afrísku þjóðarsamkomunnar, flokks Mandelas, nær samkvæmt skoðanakönnunum til meirihluta landsmanna, þar á meðal til Zulumanna.

Mangosuthu Buthelezi og Inkatha-flokkur hans eru á undanhaldi. Samkvæmt skoðanakönnunum nær hann minna en 20% fylgi í eigin heimahéraði, Natal, þar sem Zulumenn eru fjölmennastir. Þess vegna treystir Buthelezi sér ekki til að taka þátt í kosningunum.

Buthelezi hefur gert bandalag við róttæka hægri flokka hvítra manna um að taka ekki þátt í kosningunum, svokallað Frelsisbandalag. Allir aðilar að því bandalagi eiga það sameiginlegt, að þátttaka í almennum kosningum mundi leiða í ljós rýrt fylgi að baki miklum hávaða.

Fylgi flokkanna í Suður-Afríku fer ekki eingöngu eftir ættflokkum, heldur einnig eftir atvinnuháttum. Zulu-bændur hafa til skamms tíma yfirleitt stutt Inkatha og Zulu-kónginn, en Zulu-þéttbýlismenn eru farnir að styðja Afrísku þjóðarsamkomuna eins og aðrir svartir menn.

Svipað er að segja um flokka hvítra manna í Suður- Afríku. Þéttbýlisbúar styðja flestir Þjóðarflokk de Klerks eða Lýðræðisflokkinn, sem einnig er sáttasinnaður, en margir bændur styðja nokkra róttæka smáflokka, sem hafa myndað með sér svokallað Þjóðarbandalag.

Á mánudaginn samþykkti þingið í Suður-Afríku nokkrar breytingar á stjórnarskránni í því skyni að koma til móts við dreifbýlisöflin meðal hvítra manna og svartra. Þær fela meðal annars í sér sérstakar kosningar til héraðsþinga og traustari verkaskiptingu ríkis og héraða.

Inkatha og Þjóðarbandalagið hafa hafnað þessari sáttahönd og munu reyna að trufla kosningarnar eftir tvo mánuði. Búast má við blóðbaði í tengslum við kosningarnar, enda hafa þegar fallið 14.000 manns í átökum milli stjórnmálaflokka svartra manna á síðustu fjórum árum.

Þótt Suður-Afríku takist að komast yfir þröskuldinn, eru vandamál landsins engan veginn úr sögunni. Afríska þjóðarsamkoman er fremur vinstri sinnuð og miðstýringarhneigð. Margir foringjar hennar hafa fremur lítinn skilning á markaðslögmálum og uppsprettu verðmæta.

Nelson Mandela gerir sér grein fyrir, að illa hefur farið fyrir nærri öllum ríkjum svartra manna í Afríku. Ástandið hefur verið svo slæmt í nágrannaríkjunum, að stríður straumur flóttamanna hefur verið til aðskilnaðarlandsins Suður-Afríku, en alls ekki í hina áttina.

Stjórn Mandelas mun líklega gera ráðstafanir til að reyna að sefa ótta fjármagnseigenda í landinu og soga til landsins fjármagn frá Vesturlöndum og Japan. Ef þetta tekst, eru horfur í Suður-Afríku fremur bjartar, því að landið er nógu stórt og ríkt fyrir alla íbúa þess.

Suður-Afríka er auðug að ótal góðmálmum og hefur góð skilyrði til landbúnaðar. Vestrænt fyrirmyndarástand er á samgöngum og síma og fjölmiðlun. Stjórnkerfið er virkt og dómstólar eru óháðir. Suður-Afríka hefur alla burði til að verða leiðandi afl í Afríku.

Mandela er orðinn 75 ára og er ekki einráður í flokki sínum. Í valdastöðum flokks hans eru margir, sem hafa stjórnmálaskoðanir, er munu fæla fjármagn frá landinu, svo og margs konar þekkingu, sem Suður-Afríka þarf á að halda til að komast hjá örlögum svörtu Afríku.

Fordæmin eru til viðvörunar. Illa fór fyrir Rhódesíu, þegar hún varð að Zimbabve. Með því að læra af reynslu annarra getur Suður-Afríka komizt hjá sömu örlögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Rússland 1 – Nató 0

Greinar

Hernám Rússa á hæðunum umhverfis Sarajevo er gott fyrir fólkið í borginni. Það fær nú loksins frið fyrir árásum Serba á óbreytta borgara. Það er miklu skárra að hafa Rússa á hæðunum, því að þeir munu ekki stunda stríðsglæpi á borð við bandamenn sína, Serba.

Hernám Rússa er líka gott fyrir Serba. Þeir geta flutt hernaðartæki sín til annarra staða í Bosníu, þar sem þeir halda andstæðingum sínum í herkví. Hernám Rússa á Sarajevo-hæðum eykur möguleika Serba á að ná hernaðarlegum árangri á öðrum stöðum í Bosníu.

Serbar hafa tekið hernámsliði Rússa sem englum af himnum ofan. Horfin er hættan af Nató, sem hafði tilhneigingu til að styðja fórndardýr Serba, en í staðinn er komið rússneskt herlið, sem lítur á sig sem bandamann Serba frá fornu fari. Sigurinn er Serba og Rússa.

Þetta eru sömu rússnesku hermennirnir og áður voru í Króatíu og gengu þar fram fyrir skjöldu til að gæta hagsmuna Serba í ágreiningi þeirra við Króata. Enginn vafi er á, að hið sama mun gerast á hæðunum umhverfis Sarajevo. Bosníumenn munu engan aðgang fá að þeim.

Eðlilegt framhald af snilldarbragði Rússa við Sarajevo er, að þeir gangi á sama hátt á milli á öðrum stöðum, þar sem Bosníumenn sæta grimmdarlegu umsátri Serba. Þannig verða núverandi landvinningar Serba treystir og Rússar verða að hernámsliði í landinu í heild.

Þetta líkar landvinningamönnum Serba. Þeir þurfa ekki að gefa eftir tæpan þriðjung af landvinningum sínum samkvæmt tilllögum sáttasemjara, heldur geta þeir haldið öllu sínu í skjóli þess, að þeir séu hættir að drepa fólk. Og rússneskir hermenn varðveita landvinninga þeirra.

Mál þetta sýnir, að ekkert samhengi er milli efnahagslegs og hernaðarlegs valds. Serbía er margfaldlega gjaldþrota ríki, en heldur samt áfram að vera til og þenjast út. Rússland er um það bil að verða gjaldþrota, en eykur samt hernaðaráhrif sín í flestum nágrannaríkjunum.

Bandaríkin og Nató vaða í peningum, en hafa hins vegar lítil sem engin hernaðarleg áhrif í heiminum. Þessir aðilar minna á Zhírínovskí að því leyti, að þeir gelta mikið, en bíta ekki. Sífelldar hótanir misserum saman í garð Serba hafa smám saman leitt þetta í ljós.

Tindátar heimsins hafa tekið vel eftir þessu. Aidid í Sómalíu og Cédras á Haiti gefa Bandaríkjunum langt nef. Saddam í Írak færir sig að nýju upp á skaftið og Kim Il Sung í Norður-Kóreu safnar áhyggjulítið í atómsprengjuna sína. Þeir vita allir, að gelthundar bíta ekki.

Að baki hótana af hálfu Bandaríkjanna og Nató er ekkert nema tómið. Allir vissu, að ekki stóð frekar til að standa við síðustu hótunina gagnvart Serbum en allar hinar fyrri. Rússland skauzt inn í valdaeyðuna, sem myndaðist, og er nú orðið ráðandi veldi á Balkanskaga.

Margir bera ábyrgð á þessu. Brezk og frönsk stjórnvöld stóðu fyrir endurteknum töfum á íhlutun í Bosníu, þegar hún var auðveldari en nú. Bandarísk stjórnvöld eru flækt í barnslegri oftrú á Jeltsín Rússlandsforseta sem bandamann í bandarísk-rússneskum heimsfriði.

Nató hefur glatað upprunalegu hlutverki sínu og hefur ekki tekizt að útvega sér nýtt. Það geltir bara og geltir án þess að nokkur taki eftir því. Það þykist eins og Bandaríkjastjórn vera málsaðili að hernámi Rússa í Bosníu, en er það engan veginn. Nató er orðið að elliheimili.

Þetta er engan veginn alvont. Friður í Sarajevo er mikils virði. En það er ekki Nató-friður eða bandarískur friður. Það er rússnesk-serbneskur friður í Sarajevo.

Jónas Kristjánsson

DV

Rómuð og alræmd

Greinar

Reykjavík fékk slæma útreið í skoðanakönnun ferðatímartisins Condé Nast Traveler um, hvaða borg heimsins hefði verstu veitingahúsin. Þessi niðurstaða er afar skaðleg fyrir ferðaímynd landsins, því að þetta er eitt allra þekktasta og mest selda ferðatímarit í heimi.

Öfugir vinsældalistar af þessu tagi hafa tilhneigingu til að hafa varanleg áhrif, sem engin leið er að bæta með auglýsingaherferðum. Skoðanakannanir eru yfireitt óhlutdrægt ritstjórnarefni, sem hefur meira vægi en kynningarefni frá aðila, sem hefur hagsmuna að gæta.

Niðurstaða könnunarinnar kemur okkur í opna skjöldu. Íslenzkir gagnrýnendur á sviði veitinga hafa fremur talið ástandið í Reykjavík vera gott í samanburði við erlendar borgir. Erlendir kunnáttumenn á þessu sviði hafa yfirleitt stutt þetta álit að fenginni reynslu.

Fyrsta hugsunin eftir lestur tímaritsins er, að einhver mistök hafi átt sér stað við úrvinnslu skoðanakönnunarinnar, til dæmis að víxl hafi orðið á borgum. Þetta er langsótt skýring, svo að við neyðumst til að líta í eigin barm til að leita að því, sem hlýtur að vera í ólagi.

Hafa verður í huga, að þeir, sem róma íslenzk veitingahús, eru yfirleitt að tala um nokkra veitingastaði í Reykjavík. Þetta eru yfirleitt frekar fínir staðir, sem margir ferðamenn tíma ekki að sækja. Þótt þetta séu dýrir staðið, eru þeir ekki dýrari en hliðstæðir staðir í útlöndum.

Verðbilið frá venjulegum stað yfir í dýran stað er miklu þrengra hér á landi en í útlöndum. Þótt dýrari staðirnir í Reykjavík standist samkeppni við hliðstæða staði í útlöndum, gera ódýrari staðirnir það ekki. Það eru ódýru staðirnir í borginni, sem eru allt of dýrir.

Erlendir ferðamenn laðast sennilega að stöðum, sem þeir búast við, að séu ódýrir og frambærilegir í senn. Í þessum hópi eru vestrænir skyndibitastaðir fyrir hamborgara, pítsur og pítur, svo og austræn veitingahús af ýmsu tagi. Á þessum alþýðlegu sviðum fáum við mínus.

Enn verra er ástandið, þegar komið er út á þjóðvegina. Þar ríkir víðast undarleg verðlagning, þar sem hamborgarasjoppur við benzínstöðvar eru að reyna að herma eftir verðlagi fínu staðanna. Þessar sjoppur eru misjafnar að gæðum, en almennt séð á óvenjulega lágu plani.

Verið getur, að erlendir ferðamenn séu með í huga þessa utanbæjarstaði, þegar þeir gefa Reykjavík lága veitingaeinkunn. Við vitum alténd, að þetta eru staðir, sem margir útlendingar neyðast til að skipta við, af því að ekki er kostur á neinum öðrum á viðkomandi svæði.

Annað atriði, sem dregur okkur niður í áliti ferðamanna, er svimandi hátt verð á bjór. Útlendingar telja hann vera hversdagslega fæðu á borð við kartöflur, en stjórnkerfið á Íslandi telur hann vera eina helztu lúxusvöruna, sem beri að skattleggja upp fyrir topp.

Þriðja atriðið er óbeins eðlis, hin opinberu mötuneyti. Þau eru óhagkvæm í rekstri og tefja útbreiðslu ódýrra hádegisverðarstaða í borginni. Framkvæma þarf ágæta nefndartillögu um, að starfsfólk fái að nota hina niðurgeiddu matarmiða sína á frjálsum veitingastöðum.

Aðilum íslenzkra ferðamála ber að taka málið föstum tökum. Skilgreina þarf, hvað það er, sem erlendum ferðamönnum fellur ekki, og reyna síðan að bæta þá þætti, sem lakastir eru. Afleitt er, ef hluti ferðaþjónustunnar kemst upp með að skaða hagsmuni heildarinnar.

Þegar íslenzk veitingamennska er sumpart rómuð og sumpart talin alræmd, hlýtur það að byggjast á einhverju misræmi, sem breyta má í hagstætt jafnvægi.

Jónas Kristjánsson

DV

Upphefð að utan

Greinar

Dómar hafa skánað nokkuð hér á landi, síðan fólk fór að hagnýta sér þann möguleika að vísa málum sínum til fjölþjóðlegra dómstóla, sem Ísland hefur neyðst til að samþykkja vegna viðskiptahagsmuna okkar af þátttöku landsins í fjölþjóðlegu samstarfi af ýmsu tagi.

Íslenzkir dómstólar eru ekki lengur eins hallir undir yfirvaldið og áður var. Nú verða þeir að taka tillit til mannréttinda og ýmissa grundvallaratriða í lýðræðislegu þjóðfélagi, svo að úrskurðum þeirra verði ekki enn einu sinni hnekkt af fjölþjóðlegum dómstóli úti í Evrópu.

Endurtekin sneypa ríkisins á þessum fjölþjóðlega vettvangi hefur leitt til betri aðgreiningar dómsvalds og stjórnsýslu. Sýslumanna- og fógetaembættum hefur verið skipt í héraðsdómaraembætti annars vegar og sýslumannsembætti hins vegar. Þetta er umtalsverð réttarbót.

Á fleiri sviðum eru utanaðkomandi áhrif farin að vernda almenning betur gegn yfirvaldinu og gæludýrum þess. Eitt nýjasta dæmið er, að fjölþjóðlegir viðskiptasamningar takmarka geðþótta landbúnaðarráðherra í ofbeldisaðgerðum gegn innflutningi ódýrrar matvöru.

Með aðild ríkisins að fjölþjóðlegum stofnunum á borð við Fríverzlunarsamtökin, Evrópska efnahagssvæðið og alþjóðlega fríverzlunarklúbbinn GATT hafa verið takmarkaðir möguleikar íslenzkra yfirvalda á að skattleggja almenning í formi einokunar og innflutningsbanns.

Viðskiptahagsmunir Íslands hafa neytt stjórnvöld til að undirrita samninga, sem munu smám saman valda auknu vægi innlendra almannahagsmuna gagnvart innlendum sérhagsmunum. Stjórnvöld hafa af alefli reynt að takmarka þessa breytingu, en orðið að gefa eftir.

Á öllum þessum sviðum birtast útlendar stofnanir, svo sem dómstólar og samtök, sem verndarenglar íslenzkrar alþýðu gegn innlendri yfirstétt embættis- og stjórnmálamanna, sem stjórna ríkinu í þágu afmarkaðra sérhagsmuna á borð við ráðuneyti, landbúnað og stórfyrirtæki.

Þetta er ekki ný bóla. Allt frá miðöldum hefur íslenzki jarðeigna- og embættaaðallinn gert ráðstafanir til að halda niðri sjávarútvegi og skattleggja hann í þágu landbúnaðar, svo sem fram hefur komið í nýlegum sagnfræðirannsóknum. Kóngur og hirð voru helzt til varnar fólki.

Þegar nýir lýðræðisstraumar í Evrópu fengu upplýsta hirðmenn í Kaupmannahöfn til að reyna að bæta stöðu íslenzkrar alþýðu, börðust íslenzkir embættismenn gegn því af hörku, svo að vinnumenn færu ekki að heimta hærra kaup í skjóli þess, að ella færu þeir á vertíð.

Höfuðástæðan fyrir því, að Ísland varð sjálfstætt ríki, er ekki heimastjórnin fyrir 90 árum, heldur stofnun Íslandsbanka á sama tíma. Um hann streymdi hingað erlent fjármagn, sem varpaði töfrasprota sínum á frumstæðan sjávarútveg og gerði hann að vélvæddri stóriðju.

Síðan komu tvær heimsstyrjaldir, sem færðu Íslandi stórgróða. Þær komu að utan eins og annar happafengur þjóðarinnar. Eftir þær kom kalda stríðið landinu í góðar flugsamgöngur við umheiminn. Jafnan voru það utanaðkomandi öfl, sem bættu stöðu almennings á Íslandi.

Hinar lýðræðislegu og efnahagslegu forsendur fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands og fyrir velmegun almennings hafa að verulegu leyti komið að utan, sumpart fyrir þrýsting. Þær eru ekki verk innlendrar yfirstéttar, heldur eru þær sumpart komnar til sögunnar þrátt fyrir hana.

Upphefðin hefur komið að utan. Við eigum enn eftir að sýna fram á, að við getum rekið sjálfstætt og efnahagslega öflugt lýðræðisríki á Íslandi fyrir eigin tilverknað.

Jónas Kristjánsson

DV

Kolbítar úr öskustó

Greinar

Námskeið ýmissa aðila fyrir atvinnulausa hafa gerbreytt lífi margra þeirra, sem þátt hafa tekið. Þeir hafa ekki aðeins aflað sér nytsamlegrar og verðmætrar kunnáttu. Þeir hafa einnig áttað sig á ýmsum atvinnu- og athafnatækifærum, sem þeir sáu ekki greinilega áður.

Menningar- og fræðslusamband alþýðu hefur bætzt í hóp þeirra aðila, sem bjóða fræðslu fyrir atvinnulausa. Það býður vikunámskeið, sem eru svo eftirsótt, að það annar ekki eftirspurn. Þetta starf fór fremur hægt af stað fyrir ári, en er nú komið á fljúgandi ferð.

Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir þátttökugjöld atvinnulausra. Því fé er vel varið. En sjóðurinn er illa stæður og hefur ekki efni á að gera eins mikið og þyrfti á þessu sviði, því að skyldur hans beinast fyrst og fremst að atvinnuleysisbótum, sem hafa þyngzt ört í vetur.

Atvinnuleysi er líkt kreppu að því leyti, að það á rætur að hluta í hugarfari fólks. Atvinnuleysi hugarfarsins er skylt kreppu hugarfarsins. Þetta sést jafnan vel í aðvífandi kreppu, þegar margir magna hana með því að draga saman segl á sama tíma til að verjast stórsjóum.

Háskólinn hefur frumkvæði að söfnun upplýsinga, sem sýna, að töluvert er til af ónotuðum tækifærum. Þar er líka búið að koma á fót stuttu námi í hagnýtum fræðum, sem henta þeim, sem vilja afla sér þekkingar á vænlegum sviðum. Þátttakendur þurfa ekki stúdentspróf.

Margir atvinnulausir eru auðvitað ekki undir það búnir að grípa tækifæri úr gögnum Háskólans eða leggja í eins árs nám, sem getur reynzt erfitt. Sumum henta frekar hálfs vetrar námskeið, sem boðin eru í námsflokkum, svo sem gamalgrónum Námsflokkum Reykjavíkur.

Fyrir suma getur hentað að byrja á vikunámskeiðum hjá Menningar- og fræðslusambandi Alþýðu, stökkva síðan upp í Námsflokkana, taka svo til við eins árs nám í Háskólanum og grípa loks eitt af hinum mörgu tækifærum til nýsköpunar, sem eru á skrám Háskólans.

Þetta byggist á, að kreppa er yfirleitt tengd afmörkuðum greinum, einkum láglaunagreinum. Samhliða atvinnuleysinu er verið að auglýsa eftir fólki á öðrum sviðum og stundum með of litlum árangri, hreinlega af því að ekki er til nógu mikið af fagfólki á því sviði.

Bjóða þarf atvinnulausum byrjendanámskeið, þar sem farið er yfir atvinnutilboð í dagblöðum og skilgreint, hvers konar kunnátta er eftirsótt. Síðan þarf að bjóða stutt námskeið á sviðum, þar sem hugsanlegt er á stuttum tíma að ná afmörkuðum árangri, það er að fá vinnu.

Þeir, sem lengra eru komnir í sjálfstrausti, geta þurft námskeið í rekstrartækni og markaðssetningu, bókfærslu og tölvubókhaldi, réttritun og viðskiptaensku, fjárhagslegu aðhaldi og fjármálastjórn, svo og auðvitað námskeið í sérstökum geirum atvinnulífsins.

Afleiðingin er, að fleiri en áður rífa sig upp úr hugarkreppu atvinnuleysis og gera sig hæfa til að vinna nýtt starf í stað hins tapaða og að fleiri en áður grípa tækifæri til nýsköpunar. Á þetta leggst bónus, sem felst í margfeldisáhrifum veltunnar í þjóðfélaginu.

Sá, sem aflar sér atvinnu á nýju sviði, aflar sér um leið tekna, sem hann notar að hluta til að kaupa þjónustu. Það þýðir aukna veltu í þjóðfélaginu, aukna bjartsýni og nýjar ráðagerðir um útþenslu. Þannig má útrýma kreppu með því að ráðast fyrst á kreppu hugarfarsins.

Einnar viku námskeið getur verið eins og ævintýrið um kolbítinn, sem reis úr öskustó. Enn markvissara starf getur látið kreppu hverfa eins og dögg fyrir sólu.

Jónas Kristjánsson

DV