Greinar

Fordómur ráðherrans

Greinar

Ef menn koma með kenningar, sem stríða gegn viðurkenndum fræðum, verða þeir að rökstyðja þær vel. Þeir, sem kasta fram slíkum kenningum órökstuddum, verða tæpast taldir viðræðuhæfir. Nema þeir séu ráðherrar og geti sem slíkir látið mikla bölvun af sér leiða.

Tugir og sennilega hundruð rannsókna í Bandaríkjunum hafa leitt í ljós, að áfengissýki er arfgengur sjúkdómur. Meðal upplýsingaforðans, sem myndazt hefur, eru rannsóknir á mismunandi afdrifum margra eineggja tvíbura, sem fengu mismunandi fóstur og uppeldi.

Til er gamalt og viturt spakmæli, sem segir, að fjórðungi bregði til fósturs. Læknavísindi nútímans virðast hneigjast að svipaðri niðurstöðu um orsakir fjölmargra sjúkdóma. Þeir eru margir hverjir að mestu leyti arfgengir, en að hluta til háðir áunnum umhverfisþáttum.

Þetta gildir um marga algengustu sjúkdóma nútímans. Með heilbrigðu lífi getur fólk dregið úr líkum á krabbameini og hjartasjúkdómum, þótt það megni ekki að koma í veg fyrir arf sinn, sem getur falið í sér hættu á þessum sjúkdómum. Hið sama gildir um áfengissýki.

Þegar fávís heilbrigðisráðherra Íslands segir áfengissýki vera áunna, er ekki meira sannleikskorn í því en, að krabbamein og hjartasjúkdómar séu áunnir, svo og endalaus röð sjúkdóma, sem hlaða heilbrigðiskerfið kostnaði. Fjórðungi þeirra bregður til fósturs.

Þegar ráðherrann segir, að fólk eigi að borga kostnað við einn sjúkdóm af þessu tagi, ætti hann um leið að segja, að fólk eigi að borga kostnað við krabbamein sitt og hjartasjúkdóma. Það verður að vera sístem í galskapnum, ef ráðherrar flagga kenningu sjálfskaparvítis.

Svo hlálega vill til, að áfengissjúklingar hafa þá sérstöðu meðal sjúklinga að hafa flestir áður greitt opinber gjöld af áfengi í margfalt meira mæli en sem nemur hinum tiltölulega lága kostnaði við endurhæfingu þeirra. Þeir ættu því ekki hafa minni rétt en aðrir.

Ef ráðherra vill í raun láta svokölluð áunnin atriði eða sjálfskaparvíti ráða því, hvort fólk þarf að borga fyrir heilsuþjónustu eða ekki, á hann að byrja á íþróttunum. Þær eru fyrirferðarmesti þátturinn í vandamálunum, sem rekur á fjörur slysadeilda heilbrigðiskerfisins.

Ef hins vegar er ekki ætlun hans að láta fólk borga fyrir aðgerðir, sem stofnað er til vegna iðkunar íþrótta og annars sjálfskaparvítis, er fráleitt að láta það borga fyrir aðrar aðgerðir, er stafa af sjúkdómum, sem eru að mestu leyti arfgengir. Þar á meðal er áfengissýki.

Ekki er nóg með að nærri allar rannsóknir í Bandaríkjunum á þessum sjúkdómi renni í þennan arfgengisfarveg. Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin hefur tekið mark á þeim og formlega viðurkennt áfengissýki sem sjúkdóm. Og það hefur íslenzka heilbrigðiskerfið einnig gert.

Undir venjulegum kringumstæðum nenna menn ekki að elta ólar við órökstuddar kenningar af tagi ráðherrans. Þar sem hann hefur aðstöðu til að láta frumstæða fordóma sína njóta sín til mikils skaða fyrir þjóðfélagið, er nauðsynlegt að víkja frá hinni venjulegu reglu.

Það er ábyrgðarhluti að blaðra í sífellu á opinberum vettvangi án þess að hafa gert neina tilraun til að setja sig inn í málin, sem eru til umfjöllunar. Það, sem kann að hafa gengið í bæjarmálum Hafnarfjarðar, gengur alls ekki á sérhæfðu sviði á borð við heilbrigðismál.

Ráðherra heilbrigðismála er hvattur til að fara í þagnarbindindi og magna í þess stað upp viljastyrk sinn til að leggja til atlögu við skjölin í ráðuneytinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Trosnaður aðgöngumiði

Greinar

Sjálfsímynd okkar hefur til skamms tíma verið af lestrarþjóð, sem notar langvinnt skammdegi til lestrar góðra bóka og sumpart til fræðistarfa, sem tengjast skráðum heimildum. Við höfum til skamms tíma talið, að Íslendingurinn væri lestrarhestur og fræðimaður í sér.

Nýbirt fjölþjóðakönnun bendir til, að þessi ímynd sé ýkt. Læsi á fræðibækur er að vísu betra meðal íslenzkra unglinga en annarra unglinga. En læsi er almennt betra meðal unglinga í Finnlandi, Frakklandi og Svíþjóð. Og læsi á töflur og myndrit er fremur lélegt hér á landi.

Ríkisstjórn og alþingi lögðu á miðju þessu ári stein í götu lestrarkunnáttu með því að leggja virðisaukaskatt á prentað mál. Samfara þessu hefur bókaútgáfa dregizt saman, tímaritaútgerðir orðið gjaldþrota og litlu dagblöðin ýmist lagt upp laupana eða hanga á horriminni.

Upplýsingar renna nú í fleiri straumum en í prentuðu máli einu. Fólk getur komizt sæmilega af í lífinu, þótt það sé stirt til lestrar eða notfæri sér ekki lestrarkunnáttu. En læsi verður áfram aðgöngumiði unga fólksins að vel launuðum og vel virtum störfum í þjóðfélaginu.

Fjölþjóðakönnun sýnir, að dagblöð stuðla meira en aðrir prentmiðlar að læsi unglinga. Meðan lestur og sala stærstu dagblaðanna fer lítillega vaxandi, er ástæða til að ætla, að almennt séð þurfi þjóðin ekki að hafa verulegar áhyggjur af læsi unglinga á líðandi stund.

Draumaverksmiðja sjónvarps er eigi að síður að rjúfa skörð í menntað stéttleysi þjóðarinnar. Smám saman myndast undirstétt, sem unir sér bezt við imbakassann. Innan hennar myndast botnstétt, sem lendir í vítahring atvinnuleysis, bjórneyzlu og sjónvarpsgláps.

Einkenni þessara hópa er, að þeir telja sjón vera sögu ríkari. Þeir ímynda sér til dæmis, að fréttaleikhús sjónvarps endurspegli raunveruleikann betur en fréttir á pappír. Þeir treysta líka upplýsingum sjónvarps betur en rituðum heimildum dagblaða og tímarita.

Undirstéttirnar kjósa okkur pólitíska foringja í samræmi við verksmiðjuframleiddar ímyndir í sjónvarpi. Þannig hafa á Vesturlöndum komizt til valda meira eða minna óhæfir ráðamenn, sem ekki eru vaxnir vandamálum, sem fylgja breytingum og byltingum nútímans.

Vestrænt samfélag og þar á meðal þjóðfélagið á Íslandi er farið að skaðast af völdum fjölmennrar undirstéttar, sem velur okkur leiðtoga eftir ímynduðum persónuleika; – sem telur fréttaleikhús endurspegla raunveruleikann; – sem lítt eða ekki notfærir sér lestur.

Í fyrravetur var sagt frá könnun, sem sýndi, að fjórðungur grunnskólanema getur tæpast talizt læs. Samkvæmt nýju könnuninni virðist þetta lagast á unglingsaldri, sumpart vegna notkunar á dagblöðum. Grunnskólatorlæsið er samt umhugsunar- og áhyggjuefni.

Skólamenn þurfa að taka á þeim vanda, að á grunnskólaaldri sitja Íslendingar í lestri á eftir mörgum vestrænum þjóðum og fara ekki að lagast fyrr en eftir þann aldur. Þeir þurfa að spyrja sig, hvort aðferðir við lestrarkennslu séu farnar að úreldast og þarfnist endurnýjunar.

Afþreying í bókum megnar síðan ekki að keppa við afþreyingu í sjónvarpi, þegar skólinn hefur sleppt hendinni af fólki. Helzt er hægt að treysta því, að dagblöðin taki við því óbeina hlutverki að halda við og efla lestrargetu þjóðarinnar, svo sem nýja fjölþjóðakönnunin sýnir.

Það er afar brýnt, að þjóðfélagið sé sem minnst skipt í stéttir og að sem flestir eigi þann aðgöngumiða að möguleikum, sem felst í að geta lesið og að notfæra sér það.

Jónas Kristjánsson

DV

Kreppan kemur á næsta ári

Greinar

Verðmæti sjávarafla upp úr sjó hefur aukizt frá því í fyrra um hálfan milljarð króna. Fyrstu tíu mánuði þessa árs nam það 42,3 milljörðum króna, en hafði verið 41,8 milljarðar á sama tíma í fyrra. Magnið hefur líka aukizt nokkuð, um 200 þúsund tonn í 1.500 þúsund tonn.

Þessar ánægjulegu staðreyndir stríða gegn tuggunni um, að efnahagskreppan í landinu sé aflabrögðum að kenna. Aflabrögð eru raunar með bezta móti og verðmæti aflans stórkostlegt. Kreppan er hins vegar heimatilbúin, pólitísk framleiðsla ráðamanna þjóðarinnar.

Nokkur tilfærsla milli tegunda rúmast innan breytingarinnar á aflabrögðum. Þannig hefur þorskafli minnkað um 15 þúsund tonn í 211 þúsund tonn. Það er nú allt og sumt hrunið í þorskveiðum, sem hver étur upp eftir öðrum í tilraunum til að vísa vandanum á náttúruöflin.

Það er ekki einu sinni rétt, að lítillega breytt aflasamsetning hafi komið Vestfjörðum sérstaklega illa. Staðreyndirnar eru allt aðrar. Þær segja okkur, að atvinnuleysi sé hvergi minna á landinu en á Vestfjörðum og hafi raunar minnkað þar milli ára úr 1,7 í 1,4%.

Miðað við íbúafjölda er atvinnuleysi þrefalt meira í Reykjavík og á Norðurlandi eystra, um og yfir 4% og fer ört vaxandi. Ráðstafanir gegn atvinnuleysi ber því einkum að miða við þessa landshluta, en ekki við hina, þar sem menn eru leiknastir við að barma sér opinberlega.

Ekki er heldur rétt, að skynsamlegt sé að miða ráðstafanir í efnahagsmálum við sem mestan fjölda starfa af völdum hverrar ráðstöfunar. Eina skynsamlega viðmiðunin er sem mest arðsemi vinnu og fjármagns, því að hún ein getur staðið undir vexti efnahagslífs.

Meðal annars er haldið fram, að efla beri smábáta á kostnað stærri skipa, því að hinir fyrri veiti fleiri störf á hver þúsund tonn. Það sem raunverulega er verið að segja með þessu, er, að arðsemi vinnu um borð í smábátum sé minni en arðsemi vinnu í stórum skipum.

Þegar menn halda fram, að efla beri atvinnuþætti með miklu vinnuafli og lítilli arðsemi vinnunnar, eru menn að reyna að dæma þjóðina til langvinns þrældóms í þjóðfélagi lífskjararýrnunar. Það er hin kalda staðreynd andspænis kenningum um gildi atvinnuskapandi aðgerða.

Merkilegasta breytingin á sjávarútveginum er innreið frystitogara. Þrátt fyrir mikinn fjármagnskostnað þeirra eru þeir langsamlega arðbærastir allra þátta sjávarútvegs. Það er fyrst og fremst þeim að þakka, að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi eru rekin með hagnaði á þessu ári.

Hingað til hefur svokölluð kreppa verið ræktuð í hugum fólks. Stjórnvöldum finnst þægilegt að geta vísað vandamálum til óviðráðanlegs náttúruafls, svo að þau geti haldið áfram að vernda gæludýr úreltra atvinnuhátta og safna skuldum fyrir hönd þjóðarinnar.

Þannig er reynt að tefja fyrir arðbærum tilfærslum og áherzlubreytingum í sjávarútvegi og reynt að varðveita ríkisafskipti af landbúnaði, hvort tveggja með árlegum milljarðakostnaði fyrir þjóðfélagið. Klisjan um kreppuna nýtist stjórnvöldum í þessari varðveizlu fortíðar.

Þetta hefur auðveldað stjórnvöldum að auka greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum úr þeim 20% útflutningstekna, sem þær voru árabilið 1985-1990, í tæplega 30% á þessu ári. Með ráðagerðum stjórnvalda fyrir næsta ár fer þessi greiðslubyrði í 36% á því ári.

Með þessu framhaldi verður raunveruleg kreppa í landinu. Hún hefst á næsta ári, meðal annars af því að markaðslögmálin hafa verið tafin í atvinnulífinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestfjarða-hremmingar

Greinar

Atvinna er meiri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum. Allt til þessa dags hefur atvinnuleysi á Vestfjörðum verið langt undir landsmeðaltali. Hvergi annars staðar hefur fyrirtækjum verið haldið gangandi í jafn ríkum mæli með erlendu vinnuafli og einmitt á Vestfjörðum.

Þótt Vestfirðingum gangi betur en öðrum landsmönnum, eru blikur á lofti hjá þeim eins og öðrum. Landsfræg fyrirtæki eru sum hver komin á sóttarsæng og önnur hafa lagt upp laupana. Vestfirðingar eiga því á hættu svipað atvinnuleysi og þegar hefur steðjað að öðrum.

Helzti grátkarl Vestfjarða hefur í tilefni þessa skorið upp herör gegn meintum óvinum Vestfirðinga. Í þeim meinta fjandaflokki fara fremst ríkisstjórnin, sem Matthías Bjarnason telur beinlínis ofsækja Vestfirði, og Landsbankinn, sem hann telur mismuna Vestfjörðum.

Landsbankastjórar eru orðnir svo beygðir af gagnrýni á lélegan rekstur og vafasama lánastefnu, sem krefst milljarða afskrifta á hverju ári, að þeir treystu sér ekki til að bera hönd fyrir höfuð sér um helgina og létu sér nægja að þegja um órökstuddar ásakanir Matthíasar.

Ríkisstjórnin er orðin svo beygð af gagnrýni á lélegan ríkisrekstur og vafasama skuldastefnu, sem óðfluga gleypir útflutningstekjur þjóðarinnar, að hún treysti sér ekki til að bera hönd fyrir höfuð sér um helgina og kvaðst mundu taka fjárkröfur Matthíasar til athugunar.

Ein stofnun í kerfinu er svo aum, að þar ræður Matthías öllu því, sem hann vill ráða. Undir forsæti hans hefur hún slegið hvert Íslandsmetið af öðru í botnlausu lána- og styrkjarugli. Þetta er Byggðastofnun, sem nú hefur gerzt sérstök byggðastofnun Vestfjarða.

Samhliða skætingi sínum hefur Matthías látið Byggðastofnun senda 300 milljóna króna kröfu til ríkisstjórnarinnar til að bæta hag Vestfjarða umfram aðra landshluta, jafnvel þótt aðsteðjandi kreppa hafi látið hægar að sér kveða á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum.

Upphlaup Byggðastofnunar og formanns hennar er enn eitt dæmið um, að heilbrigð rekstrarsjónarmið eru þar ekki í hávegum höfð, þótt töluvert sé þar af svokölluðum sérfræðingum, sem eiga að vita betur. Byggðastofnun hefur ekkert lært af langvinnri peningabrennslu sinni.

Þessi uppákoma hlýtur að styrkja kröfur um, að hin annálaða vandræðastofnun verði lögð niður, áður en hún veldur þjóðinni enn meira tjóni en þegar er orðið. Verðmætabrennsla hennar er einn helzti örlagavaldurinn að göngu þjóðarinnar inn í vaxandi kreppu og vonleysi.

Byggðastofnun hefur meira að segja stuðlað að eyðingu byggða með því að setja upp eða samþykkja óraunhæf fjármáladæmi, sem hafa reynzt ofviða öllum aðstandendum, henni sjálfri, athafnamönnum í héraði, sveitarstjórnum og almennum hluthöfum í fjármáladæmunum.

Innspýtingarstefna Byggðastofnunar hefur breytt litlum vandræðum í stórfelld vandræði, af því að hún hefur margfaldað fjármunina, sem í húfi hafa verið. Hún hefur ekki fylgt reglunni um, að gjaldþrot verða ekki stöðvuð með því að grýta peningum í þau í glóruleysi.

Ógæfa hefur í allt of mörgum tilvikum fylgt faðmlögum Byggðastofnunar. Þess vegna hafa nokkrir ráðamenn á Vestfjörðum þegar tekið dauflega undir fjárkröfur hennar og formanns hennar. Þeir vita, að fjáraustur er hættuleg tilraun til lausnar á vandamálum fjórðungsins.

Það er ekki nóg að yppta öxlum út af órökstuddu upphlaupi Matthísar og Byggðastofnunar, heldur þarf að gera ráðstafanir til losa grátkórinn af herðum okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Lestin brunar hjá

Greinar

Því færri kostir sem eru í boði, þeim mun auðveldara er kjósendum í Reykjavík að átta sig og taka afstöðu. Við val á milli aðeins tveggja lista fækkar óákveðnum og öðrum þeim, sem ekki svara, úr 45% niður í 18%. Allur þorri mismunarins styður sameinaðan lista.

Þetta er ein af niðurstöðum könnunar DV á skoðunum 600 kjósenda, sem birt var í blaðinu í gær og í fyrradag. Þar kom líka fram, að ekki er nóg með, að kjósendur styðji sameinaðan lista, heldur vilja þeir beinlínis velja milli tveggja nafngreindra borgarstjóraefna.

Í ljós kom, að sameinaður listi gegn núverandi meirihluta mundi fá 54% fylgi á móti 46% og að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur 52% fylgi á móti 48% fylgi Markúsar Arnar Antonssonar. Aðrir þeir, sem nefndir hafa verið, komust varla á blað í skoðanakönnuninni.

Litlu flokkarnir komast ekki lengur hjá því að vita, að sameinaðir geta þeir náð meirihluta í borginni og annars alls ekki. Og þeir komast ekki heldur lengur hjá því að vita, að þeir geta boðið vinsælt borgarstjóraefni, sem slær við sjálfum borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins.

Sennilega ýta mislukkaðir ráðamenn litlu flokkanna þessari óþægilegu staðreynd út af borðinu, af því að þeir óttast, að borgarstjóraefnið skyggi á þá sjálfa og að elsku litli flokkurinn þeirra sjálfra hætti að vera til, bráðni hreinlega í birtunni af sameiginlega framboðinu.

Niðurstöðurnar stríða gegn þeirri skoðun, að fjölbreytt framboð laði samanlagt að meira fylgi, af því að þá fái hver tegund sérvizku sinn griðastað og að síðan geti hinar ýmsu sérvizkur sameinazt um nægan meirihluta til að stjórna því kerfi, sem kosið er til.

Hingað til hafa margir talið, að heildarfylgi komist ekki til skila í sameinuðu framboði. Vísað er til reynslunnar af slysum á borð við af Hræðslubandalagið. En það bandalag var annars eðlis, því að þá studdu flokkar bandalagsins framboð hins á víxl eftir kjördæmum.

Ekki er heldur alltaf tækifæri til að nýta kosti sameiginlegra framboða. Ýmsar aðstæður geta valdið því, að fylgi kvarnist af jöðrum slíkra framboða og að þau nái ekki að grípa hugi kjósenda sem virkt og öflugt afl þeirra hluta, sem gera þarf. En tækifærið virðist þó vera núna.

Skoðanakönnunin sýnir einfaldlega, að meðal óákveðinna kjósenda sé mikill vilji til að skipta um meirihluta í Reykjavík og að sá vilji muni fá útrás, ef af sameiginlegu framboði smáflokkanna verður og ef Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður borgarstjóraefni framboðsins.

Könnunin sýnir líka, að viljinn fær ekki útrás, ef smáflokkarnir gauka áfram hver í sínu horni. Á þann hátt afla þeir ekki trausts meðal óákveðinna kjósenda. Á þann hátt vantar fókusinn, sem vera þarf að mati kjósenda, sem vilja hreinar og afdráttarlausar línur.

Dæmigerður kjósandi í nútíma kærir sig ekki mikið um smáatriði í raunverulegum eða ímynduðum mismuni flokka. Hann vill taka afstöðu í stórum línum og hann telur persónu lykilframbjóðandans skipta miklu máli. Það, sem hann vill í raun, er tveggja flokka kerfi.

Sú leið, sem smákóngar litlu flokkanna munu helzt sjá úr ógöngum sínum, er að halda áfram þeirri stefnu að bjóða fram í mörgu lagi, en gefa viljayfirlýsingu um stuðning við sameiginlegt borgarstjóraefni. Sú leið mun ná nokkrum árangri, en tæpast þeim, sem máli skiptir.

Kirkjugarður stjórnmálasögunnar er fullur af lítils háttar köllum, sem ekki höfðu vit á að stökkva um borð, þegar lestin brunaði hjá og hvarf inn í framtíðina.

Jónas Kristjánsson

DV

Skipt í þrjá hluta

Greinar

Auðveldara er að ræða um, hversu mikill sé stuðningur ríkisins við landbúnaðinn, þar sem landbúnaðarráðherra og utanríkisráðherra hafa náð pólitísku samkomulagi um, hvert skuli vera matið á þessum stuðningi í tilboði Íslands til alþjóðlega tollaklúbbsins GATT.

Landbúnaðarráðherra getur ekki lengur haldið fram, að stuðningur hins opinbera við landbúnaðinn nemi 12 milljörðum króna á ári eins og hann hélt fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október. Í tilboði hans til GATT er stuðningurinn metinn á tæpa 19 milljarða.

Nýja talan er fengin með samkomulagi milli sjónarmiða, þar sem utanríkisráðherra var með tölur, sem fela í sér minni stuðning, og landbúnaðarráðherra með tölur, sem fela í sér meiri stuðning en 19 milljarðana til að sýna fram á, hve varlega ætti að fara í tilboðinu.

Nýja talan er af svipaðri stærðargráðu og tölur, sem óháðir aðilar úti í bæ hafa látið frá sér fara um þetta efni. Þær hafa verið á bilinu frá tæpum 17 milljörðum upp í tæpan 21 milljarð króna. 19 milljarðarnir í samkomulagi ráðherranna fara bil beggja í þessu efni.

Það auðveldar alla umræðu, þegar staðreyndirnar eru svipaðar að baki misjafnra skoðana. Þá þarf ekki að eyða umræðunni í, hvað séu staðreyndir, heldur er hægt að leggja áherzlu á, hvernig beri að túlka þær. Það er mikilvægt skref, að fólk sé farið að tala um sama hlutinn.

Flestir ættu að geta fallizt á, að stuðningur, sem nemur árlega 19 milljörðum plús eða mínum tvo milljarða, sé svo mikill, að minnka þurfi. Sú er raunar stefna þessarar ríkisstjórnar eins og annarra á undan henni. Það hefur bara hvorki gengið né rekið að minnka upphæðina.

Hér hefur oft verið lagt til, að leggja beri þennan stuðning niður, með því að ríkið hætti öllum afskiptum af landbúnaði, sem eru umfram aðra atvinnuvegi. Það gerist með afnámi innflutningsbanns og tolla; niðurgreiðslna og uppbóta; framlaga og framleiðslutengdra styrkja.

Hagnaðinum af þessu má skipta í þrjá jafna hluta. Sex milljarðar renni til bænda og starfsfólks í búvöruiðnaði sem skaðabætur fyrir vanefndir á hinum siðlausa búvörusamningi. Heildarupphæðin gæti verið ígildi atvinnuleysisbóta fyrir 10.000 manns í þessum greinum.

Þetta er hægt, af því að núverandi stuðningur kemst ekki til skila í vasa bænda, heldur brennur upp í herkostnaði freðmýrabænda við að stunda búskap, sem er ættaður frá tempruðum löndum og heittempruðum, einkum það, sem kalla mætti ylrækt á búfénaði á húsi.

Þótt bændum og fólki í búvöruiðnaði séu sendar atvinnuleysisbætur eða eins konar skaðabætur, geta bændur haldið áfram búskap, ef þeir vilja. Aðalatriðið er, að nýja leiðin krefji ekki skattgreiðendur eða neytendur um stuðning við framleiðslu og sölu afurðanna.

Sex milljarðar króna geta runnið til neytenda í formi lægra verðs á búvöru vegna innflutningsfrelsis og tollfrelsis afurðanna. Það bætir lífskjör hverrar fjögurra manna fjölskyldu um átta þúsund krónur á mánuði hverjum, þar með talin lífskjör bænda og búaliðs.

Sex milljarðar króna geta runnið til skattgreiðenda í formi lækkunar á tekjuskatti úr um það bil 40% af tekjum fólks niður í um það bil 25% af tekjum eða með einhverri blöndu skattalækkana. Þetta er annar eins bati á lífskjörum almennings og áðurnefnd lækkun vöruverðs.

Vegna tilboðs ráðherranna vitum við nú, að árlega eru um eða yfir 18 milljarðar til ráðstöfunar, ef þjóðin ákveður, að hún þurfi á peningunum að halda í kreppunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrt sameiningarflaustur

Greinar

Kosningin um sameiningu sveitarfélaga var sóun á peningum skattgreiðenda. Framhaldskosningarnar í marz verða líka sóun á opinberu fé. Þessar kosningar byggjast nefnilega ekki á neinum vitrænum upplýsingum um viðhorf fólks til ýmiss konar sameiningar.

Atkvæðagreiðslur almennings um ýmis mál eru ágæt efling lýðræðis. En þær eiga að hanga á reglubundnum kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, svo að ekki sé varið óþarflega miklum fjármunum til þeirra. Sérstakar kosningar um hugdettur eru utan ramma skynseminnar.

Hugdettur á að prófa í tiltölulega ódýrum skoðanakönnunum og ekki fara með málin í dýra kosningu fyrr en skoðanakannanir hafa sýnt, að einhverjar af þessum hugdettum hafi möguleika á að ná fram að ganga. Slíkar aðferðir kosta ekki nema brot af núverandi aðferðum.

Í skoðanakönnun á völdum stöðum á landinu hefði verið hægt að finna, að íbúar dreifbýlishreppa eru yfirleitt ekki hrifnir af sameiningu við þéttbýlishrepp, af því að þeir óttast, að kaupstaðurinn eða kauptúnið gleypi sveitina, sem verði útkjálki nýs sveitarfélags.

Í slíkri skoðanakönnun hefði einnig verið hægt að finna, hvort íbúar dreifbýlishreppa geti fremur hugsað sér að sameinast öðrum dreifbýlishreppum til þess að búa til nýtt sveitarfélag, sem haldi í megindráttum sögulegum og félagslegum einkennum gömlu hreppanna.

Að fengnum þessum upplýsingum og fleiri af því tagi hefði verið hægt að leggja áhugaverðar sameiningartillögur fyrir dóm kjósenda í tengslum við næstu almennu kosningar í landinu, svo að ekki sé verið að fleygja tugum milljóna króna í atkvæðagreiðslur út í loftið.

Ferli sameiningarmálsins hefur farið úr böndum. Lagt var upp með þá hugmynd, að sameina þyrfti fámenna hreppa, sem einkum eru dreifbýlishreppar, til þess að gera þá færa um taka við fyrirhuguðum verkefnum frá ríkinu, svo sem grunnskólum og öldrunarþjónustu.

Síðan leiddist málið út í hugdettu um víðtæka sameiningu, þar sem dreifbýlishreppar yrðu sameinaðir þéttbýlisstöðum, sem voru nógu fjölmennir fyrir; og þar sem fjölmennir þéttbýlisstaðir yrðu sameinaðir öðrum enn fjölmennari. Þessi hugdetta kolféll í kosningunum.

Svo virðist sem þær nefndir heimamanna, sem sömdu hinar föllnu tillögur, hafi annaðhvort gert sér litla grein fyrir viðhorfum heimamanna eða ekki unnið starf sitt í alvöru. Útreið umdæmanefndanna er ágæt, en dýrkeypt kennsla í, hvernig ekki eigi að standa að málum.

Í mars er svo ráðgert að prófa aðra hugdettu, sennilega þá, að sveitahreppar vilji sameinast öðrum sveitahreppum. Skynsamlegt er að falla frá þessari kostnaðarsömu tilraunastarfsemi og koma í staðinn með ódýra könnun á viðhorfum fólks til slíkrar sameiningar.

Ef í ljós kemur í slíkri könnun, að einhver hugdetta af því tagi sameiningar hafi marktækan hljómgrunn meðal fólks, að minnsta kosti sem öflug minnihlutaskoðun, er hægt að fara með málið í almenna kosingu, sem væri samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Niðurstaðan er, að hugdettur á að prófa í tiltölulega ódýrum og svæðisbundnum skoðanakönnunum. Þegar hinni félagsfræðilegu vinnu eru lokið, má síðan fara í kosningar með þær hugdettur, sem marktækar hafa reynzt, og hafa þetta samhliða öðrum kosningum.

Flaustur umdæmanefnda hefur hins vegar orðið til skammar öllum þeim, sem að málum hafa staðið; og til stórfelldra útgjalda fyrir skattgreiðendur landsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Varnarliðið fer

Greinar

Þjóðinni er ekki gerður greiði með örvæntingar-tilraunum stjórnvalda til að fá bandarísk stjórnvöld til að fresta brottför varnarliðsins á Íslandi eða draga hana á langinn. Nær væri að taka af festu á afleiðingum þess, að varnarliðið er að leka brott að loknu kalda stríðinu.

Hér í blaðinu hefur í nokkur ár verið bent á, að tímabært sé að mæta óhjákvæmilegri brottför varnarliðsins í stað þess að stinga höfðinu í sandinn eins og ekkert hafi í skorizt. Ísland hefur færzt úr miðju átakasvæði heimsveldanna yfir í hernaðarlegan norðurhjara veraldar.

Fyrir tæpum tveimur árum héldu öryggismálafræðingar Íslands ráðstefnu, þar sem þeir stungu sameiginlega höfði í sand og komust að þeirri niðurstöðu, að hernaðarlegt mikilvægi Íslands væri hið sama og áður. Ráðstefnan sýndi, að oft kemur menntun að engu gagni.

Síðan hefur varnarliðið verið að fara. Það hefur fjarlægt ratsjárþotur og fækkað orrustuþotum. Það hefur reynt að stöðva framkvæmdir og tekizt að draga töluvert úr þeim. Þegar núverandi athöfnum lýkur, er ekki hægt að reikna með frekari uppbyggingu á þess vegum.

Gamanfréttir berast af, að forustumenn ríkisstjórnar Íslands séu að reyna að telja bandarískum viðmælendum sínum trú um, að kalda stríðinu sé ekki lokið og að enn stafi ógn af erfðaríkjum Sovétríkjanna. Sagnfræðingar af slíku tagi tala fyrir daufum eyrum viðmælenda.

Eina haldbæra röksemdin er, að varnarliðið megi ekki fara alveg, því að í gildi sé langtímasamningum milli ríkjanna um varnir Íslands. En viðmælendurnir geta haldið fram, að þrjátíu menn dugi til þess, úr því að 3000 manns hafi dugað í mestu frosthörkum kalda stríðsins.

Komið hefur fram, að hinir bandarísku viðmælendur hafa ekki tök á öllum þáttum á sínum enda. Stjórnmálamenn í þinginu vilja í auknum mæli láta leggja niður úreltar herstöðvar í útlöndum til að spara peninga til ýmissa mála heima fyrir, sem þeir telja brýnni.

Framkvæmdir á vegum varnarliðsins hafa verið að dragast saman og munu fljótlega leggjast af. Þjónusta við starfsmenn varnarliðsins mun minnka hratt í hlutfalli við fækkun þeirra. Og í auknum mæli verður kostnaði við rekstur Keflavíkurvallar þrýst á okkar herðar.

Hugsanlegt er, að Atlantshafsbandalagið vilji kosta einhverju til að halda opnum flugbrautum á Keflavíkurvelli fyrir óvænta liðsflutninga og að Alþjóða flugmálastofnunin vilji taka þátt í að halda opnum varaflugvelli fyrir tveggja hreyfla úthafsþotur í farþegaflugi.

Ennfremur er hugsanlegt, að Atlantshafsbandalagið vilji halda uppi einhverju af hinu nýtízkulega ratsjáreftirliti, sem komið hefur verið upp hér á landi. En það má gera með tiltölulega fámennu starfsliði íslenzku. Á sama hátt er hægt að halda opnum vara- og viðlagaflugvelli.

Hermang Íslenzkra aðalverktaka er um það bil að leggjast niður og þar með mestöll vinna við framkvæmdir á Keflavíkurvelli. Einnig mun minnka mikið vinna við rekstur mannvirkja. Þar á ofan er og verður krafizt, að Ísland auki þátttöku sína í kostnaði við flugvöllinn.

Fyrir löngu hefðu íslenzk stjórnvöld átt að vera farin að skilja gang sögunnar. Þau hefðu fyrir löngu átt að hætta að þjónusta einokunaráráttu Flugleiða og búa í þess stað í haginn fyrir alþjóðlegt vöruflug um Keflavíkurvöll og íslenzk fríhafnarsvæði í tengslum við það.

Aumar hafa verið tilraunir stjórnvalda til að efla atvinnutækifæri á Suðurnesjum í stað þeirra, sem óhjákvæmilega fara forgörðum vegna fráfalls kalda stríðsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Engrar undankomu auðið

Greinar

Ísland mun leggja 358%-674% tolla á innflutta búvöru samkvæmt samkomulagi landbúnaðarráðherra og utanríkisráðherra um tilboð landsins í svokölluðum GATT-viðræðum. Lægri tollur verður á örlitlu broti innflutningsins og bann verður á kjöti, mjólk og eggjum.

Þessar rosalegu prósentur segja mikla og átakanlega sögu um íslenzkan landbúnað árið 1993. Að baki þeirra er samanburður á heimsmarkaðsverði og innanlandsverði. Hann sýnir, að innlenda verðið á búvöru er 4,6 sinnum til 7,7 sinnum hærra en heimsmarkaðsverð.

Það er þessi gífurlegi munur, sem nú kostar íslenzka neytendur marga milljarða króna á hverju ári, líklega tólf milljarða. Landbúnaðarráðherra hefur nú sjálfur staðið að samkomulagi, sem felur í sér viðurkenningu á, að innflutningsbannið kosti 50.000 krónur á mann.

Þetta segir ekki alla sorgarsögu landbúnaðarins. Ofan á tjón neytenda af núverandi innflutningsbanni og rosatollunum, sem eiga að leysa það af hólmi samkvæmt tilboðinu, kemur beinn kostnaður skattgreiðenda eins og hann birtist í fjárlögum hvers árs, um níu milljarðar á ári.

Samtals eru það 85.000-90.000 krónur á ári, sem er herkostnaður hvers Íslendings af landbúnaðarstefnu stjórnvalda, eins og hún birtist í búvörusamningum og í tollatilboðum Íslands á erlendum vettvangi. Þetta eru 350.000 krónur á ári á fjögurra manna fjölskyldu.

Í samanburði við þessar hrikalegu tölur, sem annars vegar má lesa úr fjárlögum ríkisins og hins vegar úr samkomulagi ráðherranna, eru öll önnur efnahagsleg og peningaleg vandamál þjóðarinnar ekkert annað en skítur á priki, sem leysa mætti með afnámi ríkisafskiptanna.

Ef ríkið mundi neita að styrkja landbúnaðinn með innflutningsbanni og tollum, niðurgreiðslum og ýmsum beinum styrkjum og sendi 10.000 manns í staðinn beinar atvinnuleysisbætur í pósti, mundi það ekki kosta nema sex milljarða af þessum 21 milljarðs herkostnaði.

Ef ríkið gerði þetta, fengju 10.000 manns lifibrauð af eins konar skaðabótum af hálfum ríkisins og gætu samt framleitt búvöru, unnið úr henni og selt afurðir að vild, svo framarlega sem alls engar kvaðir eða kostnaður legðust á ríkið í tengslum við þá framleiðslu og sölu.

Um leið og 10.000 manns gætu valið um að setjast í helgan stein eða stunda eins konar frístundabúskap án afskipta ríkisins, mundi þjóðin í heild spara mismuninn, heila fimmtán milljarða króna á ári. Það eru 240.000 krónur á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Þjóðin getur notað þessa peninga til að lækka skatta og vöruverð í landinu. Hún getur notað þá til að kosta ýmsa félagslega þjónustu, sem hefur farið halloka að undanförnu. Hún getur notað þá til að stöðva söfnun skulda í útlöndum og fara í staðinn að greiða þær niður.

Þjóðin getur líka notað þessa fimmtán milljarða á ári til að mæta tekjutapi og kostnaðarauka vegna hægfara brottfarar bandaríska varnarliðsins. Hún getur notað þá til að efla menntun í hagnýtum fræðum á nútímasviðum, svo sem í sérhæfðum tölvuiðnaði fyrir sjávarútveg.

Þótt leysa megi ótal vandamál með því að hætta ríkisafskiptum af landbúnaði, ráðgerir ríkisstjórnin að hvika hvergi frá núverandi stefnu. Í nýja tilboðinu til GATT er meira að segja gert ráð fyrir, að setja megi tolla á nauðsynjavörur á borð við hveiti og hrísgrjón.

Með samkomulagi sínu hafa ráðherrarnir staðfest, að engrar undankomu verði auðið úr vítahring landbúnaðarstefnunnar, meðan núverandi flokkakerfi blífur.

Jónas Kristjánsson

DV

Brezk og frönsk ábyrgð

Greinar

Hrunin er brúin hjá Mostar yfir ána Neretva í Bosníu. Þetta var hin síðasta af nokkrum fjögurra alda gömlum brúm, sem soldáninn í Miklagarði lét reisa á þessum slóðum. Þessi brú þótti svo mikið verkfræðiafrek, að ferðamenn komu úr öðrum löndum til að skoða hana.

Að þessu sinni voru Króatar að verki, en ekki Serbar, sem hingað til hafa átt 80-90% af öllum hryðjuverkum í Bosníu, allt frá morðum og nauðgunum yfir í árásir á sjálfa menningarsöguna. Hinn illi andi Serba smitar smám saman út frá sér til annarra þjóða á svæðinu.

Tvö utanríkisráðuneyti standa umfram aðra aðila að baki Serbum í þjóðahreinsun þeirra í Bosníu, það brezka og franska. Þau hafa frá upphafi skotið niður hugmyndir um, að vesturveldin framkvæmi hótanir sínar um hernaðarleg afskipti af útþenslustríði Serba.

Þegar brezka og franska utanríkisráðuneytið hófu iðju sína, var auðvelt að stöðva Serba. Nú er það erfitt, enda vita þeir, að hótanir vesturveldanna eru einskis virði, og að svokallaðir sáttasemjarar vesturveldanna hafa reynt að staðfesta landvinninga Serba í Bosníu.

Stjórnir Bandaríkjanna og Þýzkalands hafa ítrekað reynt að fá framgengt afnámi vopnasölubanns á stjórnina í Bosníu. Hvað eftir annað hafa stjórnir Bretlands og Frakklands komið í veg fyrir, að Bosníumenn fengju sómasamlegt tækifæri til að verja hendur sínar.

Brezku og frönsku rökin gegn afnámi vopnasölubanns á Bosníu eru í senn fáránleg og ógeðsleg, utan mannlegs skilnings. Ef þeim hefði verið beitt við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar, væri Hitler núna herra yfir heiminum. Þessi rök segja, að fleiri vopn auki mannfallið.

Churchill og de Gaulle hefðu sagt, að snúa þyrfti mannfallinu frá Bosníumönnum yfir á Serba til að leiða þeim fyrir sjónir, að landvinningastríð þeirra mundi ekki ná árangri. Formúla brezka og franska utanríkisráðuneytisins felur í sér, að jafnan skuli gefizt upp í átökum.

Brezka og franska utanríkisráðuneytið hafa reynt að gelda stríðsglæpadómstól Júgóslavíu, sem kemur saman í Haag í þessari viku á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þau hafa neitað að taka þátt í kostnaði við dómstólinn og einnig neitað að veita honum brýnustu upplýsingar.

Aðeins einn rannsóknamaður er að störfum á vegum stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna. Hann á að rannsaka skipulegar nauðganir Serba á þúsundum Bosníukvenna, fjöldamorð þeirra á tugþúsundum Bosníumanna og annað, sem til fellur af stríðsglæpum á svæðinu.

Vitað er, að skipulegir og markvissir stríðsglæpir Serba eru framdir með vitund og vilja Slobodans Milosevics Serbíuforseta; Radovans Karadziks, hins geðsjúka forseta Bosníuserba; Ratkos Mladics, herstjóra Serba í Bosnía; og annarra ráðamanna Serba á svæðinu.

Þetta eru einmitt mennirnir, sem umboðsmenn Vesturlanda eru að reyna að friða. Svokallaður sáttasemjari, Owen lávarður, hefur beinlínis sagt, að menn geti gleymt stríðsglæparéttarhöldum, því að þau verði engin haldin. Og Owen reynir jafnframt að verðlauna þremenningana.

Hinn siðlausi og skammsýni andi Owens svífur yfir vötnum brezka og franska utanríkisráðuneytisins. Þar ganga menn úr vegi til að koma í veg fyrir fjáröflun og gagnaöflun stríðsglæpadómstólsins í Haag. En þeir geta ekki hindrað, að við komumst að raun um ábyrgð þeirra.

Skammsýni Breta og Frakka felst meðal annars í, að velgengni stórglæpamanna á einum stað hvetur til svipaðra vandræða á öðrum stöðum, svo sem dæmin sanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Minnisstæð ábyrgð

Greinar

Félög og félagasambönd launafólks hafa stuðlað að aukinni stéttaskiptingu í landinu síðasta áratuginn. Þessi aukning byrjaði árið 1984 og fór að hraða á sér árið 1986, einkum í svonefndum þjóðarsáttum. Síðustu tvö ár vaxandi atvinnuleysis hafa komið skiptingunni á skrið.

Konur eru fjölmennar í hópi lágstéttarinnar og á lægri stigum millistéttarinnar. Þær stunda lakar greidd störf en karlar og fá minna borgað fyrir sömu vinnu. Margar eru einstæðar mæður. Aukin stéttaskipting á einum áratug hefur í heildina komið sérstaklega hart við konur.

Það er því ofur eðlilegt, að pólitísk samtök kvenna veki umfram aðra athygli á lélegri frammistöðu samtaka launafólks í málefnum kvenna. Árangursleysið á þessu sviði er þó að verulegu leyti þáttur í almennu getuleysi þeirra og áhugaleysi um velferð lágstéttarinnar.

Þjóðarsættir samtaka launþega hafa farið saman við lækkað ris á velferðarkerfi almennings. Það er að verða dýrara að veikjast og senda börn í skóla. Lágstéttin stendur í vaxandi mæli frammi fyrir að þurfa að velja lakari kostinn, af því að betri kosturinn er henni ofviða.

Þjóðarsættir samtaka launþega hafa farið saman við aukið bil milli tekna hinna bezt settu í þjóðfélaginu og þeirra, sem eru á nöktum töxtum eða atvinnuleysisbótum. Fimmtánfaldur munur er orðinn á tekjum ráðherrans og Sóknarkonunnar, en var áður minna en tífaldur.

Yfirstéttin í landinu hefur komið sér hjá aðild að samdrætti þjóðartekna. Hún hefur raunar bætt stöðu sína umtalsvert á þessu tímabili. Millistéttin og lágstéttin hafa tekið á sig alla minnkun þjóðartekna. Það er millistéttinni þungur baggi og lágstéttinni sligandi baggi.

Í grófum dráttum má skipta þjóðinni í þrjá hluta, tíu prósent yfirstétt og tíu prósent undirstétt og áttatíu prósent millistétt. Þetta hefur ekki verið mælt hér á landi, en er ekki fjarri því, sem hefur lengi mælzt í Bandaríkjunum. Millistéttin er hér alténd langsamlega fjölmennust.

Yfirstéttin stjórnar flestu því, sem máli skiptir í þjóðfélaginu og skammtar sér lífskjör, sem fara batnandi á sama tíma og lífskjörum annarra hrakar. Innan yfirstéttarinnar vex tillitsleysi gagnvart lítilmagnanum og græðgi í lífsins gæði, eins og áður gerðist í Bandaríkjunum.

Millistéttin býr við sæmilegan kost á ýmsum forsendum. Í mörgum tilvikum afla hjón tvennra tekna, í öðrum hafa menn mikla vinnu, hentuga menntun eða góða aðstöðu í einhverju hinna mörgu kerfa þjóðfélagsins, sem veldur því, að þeir þurfa ekki að sæta nöktum töxtum.

Samtök launafólks gæta einkum hagsmuna millistéttarinnar og reyna að verja hana áföllum. Svonefndur uppmælingaraðall hefur lengi verið einn helzti hornsteinn hinnar íhaldssömu forustu samtaka launafólks. Forustumennirnir sækja fylgi sitt í slíka millistéttarhópa.

Hagfræðilegt ósjálfstæði og hugmyndafátækt veldur því, að þau hafa ekki skorið upp herör gegn áhrifavöldum samdráttarins, annars vegar innflutningsbanni og ríkisstuðningi í landbúnaði og hins vegar fyrirstöðu sjávarútvegs gegn uppboðskerfi veiðileyfa í stað kvótakerfis.

Í skipulegu undanhaldi ósjálfstæðra og hugmyndasnauðra samtaka launafólks er ekkert rúm fyrir hagsmuni hins áhrifalitla minnihluta lágstéttarinnar. Sá hluti er bara skilinn eftir í varnarstríðinu og þjóðarsáttunum, sem varða veg launþegasamtakanna til kreppunnar.

Aukin stéttaskipting er íslenzk staðreynd, kortlögð í heilan áratug. Samábyrgð samtaka launafólks á þessari stéttaskiptingu er staðreynd, minnisstæð staðreynd.

Jónas Kristjánsson

DV

Andvígir eigin áliti

Greinar

Bæjarstjórinn í Njarðvíkum var formaður nefndar, sem samdi tillögu um sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Bæjarstjórinn í Njarðvíkum hefur unnið leynt og ljóst að því að spilla kynningu málsins og koma í veg fyrir, að það verði samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu.

Þannig hefur einn og sami maðurinn forustu um að búa til tillögu, sem hann síðan hefur forustu um að fella. Lengra verður tæpast gengið í tvískinnungi. Því miður hafa fleiri sveitarstjórnarmenn sýnt svipaðan skort á sjálfsvirðingu við varðveizlu á atvinnu sinni.

Til skamms tíma létu margir sveitarstjórnarmenn sér nægja að samþykkja sameiningartillögur í umdæmanefndum og fara síðan í felur. Síðustu daga hafa þeir hins vegar gerzt áræðnari í andstöðunni, enda er ekki nema hálf önnur vika til almennu atkvæðagreiðslunnar.

Dæmi um það er bæjarstjórn Seltjarnarness, sem um helgina lét dreifa kynningarbæklingi, þar sem sameiningartillagan er formlega kynnt. Aftan við hvern kafla kynningarinnar eru feitletraðar og undirstrikaðar athugasemdir, þar sem áherzla er lögð á rök gegn sameiningu.

Feita letrið og undirstrikanirnar leyna ekki skoðunum höfunda kynningarbæklingsins. Það gerir ekki heldur inngangur hans, þar sem beinlínis er klykkt út með því að segja, að bæjarfélagið hafi nú þegar og án sameiningar “alla burði og getu” til að sinna verkefnum sínum.

Röksemdirnar gegn sameiningu geta verið réttar, einkum í sveitarfélögum, sem hafa þúsundir íbúa fyrir sameiningu. Þegar bæjarstjórar og heilar bæjarstjórnir á slíkum stöðum leggjast gegn sameiningu, er eðlilegt, að íbúarnir fallist á það sjónarmið í atkvæðagreiðslunni.

Við slíkar aðstæður er svo vonlaust að leggja sameiningu fyrir kjósendur, að það er ekkert annað en sóun á tíma og peningum. Þess vegna hlýtur að teljast vera ábyrðarskortur sveitarstjórnarmanna að framleiða tillögur, sem þeir síðan láta fella í heimabyggðinni.

Sums staðar hafa hreppar sameinazt án átaks að utan. Þannig hefur Austur-Barðastrandarsýsla sameinazt, svo og Eyjafjarðarsveit og Skaftársveitir. Slík sameining getur haldið áfram á stöðum, þar sem hún er talin knýjandi og þar sem samstarf sveitarstjórna er orðið gott.

Þetta gerist hins vegar ekki með heildarátaki um allt land. Það hefur komið í ljós í aðdraganda almennu atkvæðagreiðslunnar, sem á að verða 20. nóvember. Ekki dugir að troða sameiningu upp á sveitarstjórnir, sem ætla að sjá til þess, að sameining verði felld.

Þegar settar eru fram hugmyndir um róttæka sameiningu sveitarfélaga, verður að hafa í huga, að margir sveitarstjórar missa vinnu og margir sveitarstjórnarmenn missa spón úr aski sínum, ef hún nær fram að ganga, og að hjarta margra þeirra slær nálægt veskinu.

Aðferðin við að drepa málinu á dreif hefur komið málstað sameiningar í opna skjöldu. Sveitarstjórnarmenn smíða fyrst sameiningartillögu í umdæmanefnd, fara síðan undan í flæmingi og enda með því að leggjast gegn tillögunni. Litlum vörnum verður við komið.

Niðurstðan er sú, að mikið er unnið fyrir gýg og að miklum fjármunum er varið af hálfu skattgreiðenda til að fara í gegnum feril, sem hefur ekkert hagnýtt gildi, því að fyrirfram er vitað, að ekkert kemur út úr honum, einmitt vegna andstöðunnar í sveitarstjórnum.

Viðurkenna ber, að tvískinnungum í sveitarstjórnum hefur tekizt að eyðileggja málið. Þess vegna er skynsamlegt að fresta atkvæðagreiðslunni um óákveðinn tíma.

Jónas Kristjánsson

DV

Meðvitundarleysi

Greinar

Skiljanlegt er, að stórskuldugt fólk og forráðamenn stórskuldugra fyrirtækja hafi ánægju af vaxtalækkuninni, sem ríkisstjórnin bjó til með handafli einu saman. Skiljanlegt er, að eina spurning þeirra sé, hvers vegna ríkisstjórnin hafi ekki fyrr beitt þessu handafli sínu.

Enn frekar er skiljanlegt, að stjórnarandstaðan og aðilar vinnumarkaðarins lofi vaxtalækkunina. Hún er í stíl við stjórnarathafnir fyrri ríkisstjórna og þær sjónhverfingar, sem áratugum saman hafa einkennt kjarasamninga og aðrar gerðir pólitísku aflanna í landinu.

Athyglisverðara er, að sérfræðingar í efnahagsmálum og skyldum greinum hafa undantekningarlítið hrósað handaflinu, ef þeir hafa á annað borð lýst skoðun sinni. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar, sem hafa bent á augljósa sjónhverfingu málsins og hættur þess.

Handaflið gæti fylgt markaðslögmálunum, ef ríkisstjórnin treysti sér til að sæta því fjármagni, sem hún nær að útvega ríkissjóði á nýjum og lægri vöxtum. Ef hún gæti það, væri eingöngu um að ræða flutning á fjármagni frá eigendum þess yfir til skuldunauta þeirra.

Það er hins vegar fyrirfram vitað, að hún getur það ekki. Enda kemur fram í yfirlýsingu hennar, að hún hyggst bæta sér upp minnkað peningaframboð á innlendum markaði með því að taka aukin lán í útlöndum. Hún telur, að markaðslögmálin láti ekki að sér hæða.

Það gerist á þann hátt, að margir innlendir fjármagnseigendur reyna að verja fjármagnstekjur sínar með því að færa sig til á lánamarkaði og leita uppi peningahungraða aðila, sem fylgja ríkisstjórninni ekki alla leið í vaxtalækkun eða sætta sig jafnvel við fyrra vaxtastig.

Smám saman verður tilfærsla á peningamarkaðnum. Peningar renna í auknum mæli til þeirra sem minnst eða ekki lækka vexti, en þurrð kemur fram í fjárstreymi til ríkisins og annarra aðila, sem bjóða tveimur prósentustigum lægri vexti en voru fyrir tíð handaflsins.

Ríkisstjórnin veit, að þetta muni gerast og þess vegna er hún þegar farin að undirbúa auknar lántökur í útlöndum. Afleiðingin mun koma fram í auknum skuldum þjóðarinnar. Greiðslubyrði erlendra lána, sem var 20% af útflutningsframleiðslu árið 1990, fer í 40% árið 1995.

Til skamms tíma fóru tveir af hverjum tíu þorskum í að standa undir skuldum þjóðarinnar við útlönd. Eftir rúmt ár munu fjórir af hverjum tíu þorskum fara í að reka þessar skuldir. Þetta er sú leið í efnahagsmálum, sem leitt hefur Færeyinga fram af hengifluginu.

Í sumum tilvikum er í lagi að auka skuldir sínar. En aðstæður eru þær hér á landi, að skuldasöfnun gagnvart útlöndum var komin upp fyrir hættumörk, áður en ríkisstjórnin greip til hins vinsæla handafls. Einmitt þess vegna er handaflið hættulegt við núverandi aðstæður.

Ríkisstjórnin gæti forðast þessar skuggahliðar með því að neita sér um aukin lán í útlöndum og lækka í staðinn fjárhagsáætlanir sínar um nokkra milljarða með því að draga úr einokun landbúnaðarins, sem kostar þjóðfélagið frá 15 og upp í 20 milljarða króna á hverju ári.

Merkilegast er, að þeir, sem eiga að vita betur vegna menntunar sinnar eða reynslu, láta eins og ekkert sé. Þeir tala blíðum rómi um skammtímaáhrif á vexti og atvinnuástand, en forðast eins og heitan eldinn að minnast á langtímaáhrifin, færeysku leiðina í efnahagsmálum.

Þögnin um afleiðingar aðgerða ríkisstjórnarinnar sýnir, að hagfræðileg meðvitund er skammt á veg komin hér á landi og að það gildir jafnt um lærða sem leika.

Jónas Kristjánsson

DV

Agi og sjálfsvirðing

Greinar

Það er sök ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra sem verkstjóra hennar, að Ísland hefur að undanförnu ekki staðið við alþjóðlega viðskiptasamninga, hvorki nýlegan samning um Evrópska efnahagssvæðið né gamlan sáttmála á vegum alþjóðlega fríverzlunarklúbbsins GATT.

Ráðherrar voru í vor ósammála um, hvaða breytingar ætti að gera á búvörusamningi um leið og honum yrði breytt til samræmis við Evrópusamninginn. Landbúnaðarráðherra vildi að venju nota tækifærið til að bæta við hann atriðum, sem kosta skattgreiðendur meiri peninga.

Ríkisstjórninni bar skylda til að leysa þennan ágreining milli ráðherra og koma sér saman um frumvarp til lagabreytingar, sem gerði henni kleift að standa við evrópska samninginn. Það gerði hún ekki í vor og hefur ekki enn gert á þessu hausti. Hún er því ber að svikum.

Það er svo sem ekki nýtt, að ríkisstjórnin efni ekki loforð sín á innlendum vettvangi. Verra er, ef slíkt mat hennar á eigin orðum og undirskriftum nær til samninga, sem hún gerir við alþjóðlegar og fjölþjóðlegar stofnanir. Slík sjálfsfyrirlitning dregur dilk á eftir sér.

Um leið hefur ríkisstjórnin látið viðgangast, að landbúnaðarráðherra setji reglur, sem brjóta í bága við sáttmála, er Ísland hefur samþykkt í Gatt. Einnig hefur hún látið viðgangast, að fjármálaráðherra vísi erlendum vörum frá með rosagjöldum, sem standast ekki samninga.

Það er skylda ríkisstjórnarinnar og einkum forsætisráðherra sem verkstjóra hennar að sjá um, að ekki séu gerðir aðrir samningar við alþjóðlegar og fjölþjóðlegar stofnanir en þeir, sem hægt er að standa við, og að knýja fram lagabreytingar, er geri þessa samninga marktæka.

Hugsanlegt er, að svik ríkisstjórnarinnar við erlenda viðsemjendur leiði ekki í bráð til refsiaðgerða gegn Íslandi. Þau rýra eigi að síður álit Íslands á erlendum vettvangi og fæla erlend ríki, svo og fjölþjóðlegar og alþjóðlegar stofnanir frá frekari samningum við Ísland.

Þetta er slæmt veganesti inn í framtíð, þar sem velferð þjóðarinnar verður í auknum mæli háð vilja annarra ríkja og ríkjabandalaga til að kaupa af okkur sjávarafurðir og aðra framleiðslu okkar. Samningssvik hefna sín beint eða óbeint á skömmum eða löngum tíma.

Ríkisstjórnin ber líka ábyrgð á, að landbúnaðarráðherra fær að leika lausum hala og valda neytendum og skattgreiðendum árlegum milljarðabúsifjum með búvörusamningum við þrýstihópa landbúnaðar og með einokunarreglugerðum, sem hann gefur út á færibandi.

Þetta árlega milljarðatjón í landbúnaði hefur búið til efnahagsástand, sem er svo slæmt, að ríkisstjórnin hefur gefizt upp við að reyna að stjórna af viti og hefur ákveðið að láta reka á reiðanum að færeyskum hætti. Hún ætlar nú að stórefla skuldasöfnun sína í útlöndum.

Agaleysið og ábyrgðarleysið í ríkisstjórninni veldur því, að á fimm ára tímabili, frá 1990 til 1995, hækkar greiðslubyrði þjóðarinnar gagnvart útlöndum úr 20% af útflutningsframleiðslu í 40% af útflutningsframleiðslu, ef ekki verður gripið í taumana á næstu mánuðum.

Ríkisstjórnin hefur í auknum mæli leiðst til að afgreiða ágreining á kostnað neytenda. Bann hennar við innflutningi á ýmsum ódýrum vörum, nú síðast gúrkum, er óbein stríðsyfirlýsing gegn almenningi, sem næði betri lífskjörum, ef staðið væri við erlenda samninga.

Skortur á aga og sjálfsvirðingu í ríkisstjórn og raunar einnig í stuðningsflokkum hennar á Alþingi á drjúgan þátt í ýmsum ógöngum þjóðarinnar að undanförnu.

Jónas Kristjánsson

DV