Hestar

Nútímavætt hrossabrask

Hestar

Hrossabrask er nútíma tölvuvæddur atvinnuvegur. Trippi eru skoðuð og mæld og fara á sýningar 4 vetra. Hross fá þá einkunnir fyrir gerð og kosti. Þau fá líka einkunnir frá forfeðrunum og síðar fá þær einkunnir frá afkvæmunum. Þetta eru flókin tölvudæmi. Góð hross eru útflutningsvara og geta þá kommur í einkunn reiknazt í milljónum króna. Hér í Reykjavík er stanzlaus straumur erlendra hrossakaupenda. Árangurinn er sá, að ættbókarfærð heiðurshross eru fleiri erlendis en hér heima. Í ljósi þessa bakgrunns er fráleitt að þurfa að hlusta á þvælu gegn föstum reglum um nafngiftir hrossa. Viðurkennd hrossaheiti eru hluti af öflugri markaðssetningu íslenzkra hrossa erlendis.

Árás á hestakynið

Hestar

Man bara eftir einu hestnafni, sem notað var með ákveðnum greini. Hrafn frá Holtsmúla var lengi helzti stóðhestur landsins. Í daglegu tali kallaður Hrafninn. Líta má á það sem virðingarheiti í almenningsálitinu. Formlega séð hét hesturinn Hrafn. Nú er reynt að koma ákveðnum greini á venjulega hesta. Hryssa fær ekki að heita Mósan. Það samræmist ekki hefðum í nafngiftum. Að frumkvæði erlends hestafólks hafa alþjóðasamtök Íslandshesta sett reglur um heiti hesta. Þeir verða að heita hefðbundnum, íslenzkum nöfnum. Ekki Toby eða Twitter. Ég tel það vera beina árás á þetta merka hestakyn að víkja frá bókfærðum nafnahefðum.

Eigandi er þríhross

Hestar

Skráning ræktunarhrossa aðgreinir einkenni, svo sem nafn, uppruna og ræktanda. Til dæmis: Sorry-Gráni frá Kaldbaki fæddur Jónasi. Þetta gekk lengi, unz farið var erlendis að skrá hross í kerfið. Þá lak sjálfhverfa í skráninguna. Svo sem: Jónasar-Gráni frá Jónasi fæddur Jónasi. Þarna vantar uppruna hrossins, en eigandinn orðinn að þríhrossi. Því miður hefur sjálfhverfan viðgengist og meira  að segja verið flutt inn. Nú sjást skráningar, sem segja ekkert um upprunann. Frekar vil ég vita, hvort hrossið er frá Kolkuósi eða Árnanesi. Var upphaflegur tilgangur bókhaldsins, en hér í villta vestrinu heldur enginn uppi neinum aga.

Hestamennska breytist

Hestar

Hestamennska á Íslandi er að verða áhorfendasport. Dýrt er að halda reiðhesta og enn dýrara að fara langferðir á hestum. Hefðbundin hestamennska víkur fyrir áhorfi á keppni fagfólks á hringvöllum. Verð reiðhrossa og ferðahrossa er lágt, en hátt á keppnishrossum. Útflutningur er nánast bara á keppnishrossum. Takmarkar markaðsmöguleika íslenzka hestsins og leiðir til einhliða ræktunar keppnishrossa. Um leið breytist kynið. Hrossin verða glæstari tilsýndar, mörg hrottahöst á brokki og jafnvel höst á tölti. Sjálfgefið skeið er sjaldgæfara, en fagfólkið nær því fram með ljótum taumakippingum. Framtíðin er brengluð.

Niðurlægjandi heiti

Hestar

Hestar eiga meira bágt en menn, þegar þeim eru gefin skrítin heiti. Til varnar er engin hestanafnanefnd. Þó eru til alþjóðasamtök íslenzka hestsins. Þau segja í reglum, að hrossin skuli bera íslenzk heiti. Samt eru tölvuskráð hross, sem heita rugli á borð við Cherry, Jupp, Jodo, Flippy, Patti, Fee og Bimbo. Dæmi úr lista mínum um 218 ónefni. Í lagi á plebejum, en skandall á hefðarhrossum. Sem sjálfskipaður umbi hestsins legg ég til, að þetta gælunafnarugl verði stöðvað. Ræktunarhross eru aðalshross með óralangar og göfugar ættartölur. Hross hafa ekki frjálsan vilja og geta ekki kvartað yfir nöfnum. Fyrir þeirra hönd heimta ég að hefðardömur fái lögleg og þjóðleg heiti við hæfi: Baldintáta, Dimmalimm, Kengála. Silkisif og Blátönn.

Þjóðleiðir á vefnum

Hestar, Punktar, Þjóðleiðir

Efni bókarinnar „Þúsund og ein þjóðleið“ er komið hér á síðuna, enda er bókin fyrir löngu uppseld. Raunar eru leiðirnar orðnar 1132 og verða varla fleiri. Þetta er án bókarkortanna af leiðunum. Um þau vísast til bókasafna. Þú kemst í þennan vef gegnum orðið Þjóðleiðir hægra megin á heimasíðunni. Síðan geturðu skráð heiti leiðarinnar í reitinn, sem merktur er LEITA. Munir þú ekki heitið eða manst leiðina undir öðru heiti, geturðu fyrst leitað að nálægri leið og síðan fetað þig áfram eftir orðunum í listunum: Nálægir ferlar eða Nálægar leiðir. Getur líka gert það með að slá fyrst inn heiti landshlutans, t.d. Vestfirðir. Gott væri að fá leiðréttingar og viðbætur í tölvupósti til: jonas@hestur.is

(Ef einhver WordPress sérfróður gæti sett landshlutana (subcategories) í „drop down“ skrunlista undir orðið Þjóðleiðir (category) á heimasíðunni, mundi það einfalda grúsk lesenda)

Saga um byggðastefnu

Hestar, Punktar

Fyrst duttu út Skógarhólar og Hólar í Hjaltadal sem landsmótsstaðir hestamanna, síðan Melgerðismelar og núna Vindheimamelar. Kröfur um aðstöðu sliguðu fámenna staði. Eftir stóðu fjölmennu félögin, á Hellu og einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar er aðstaða fín og hægt að halda slík risamót án sligandi kostnaðar við framkvæmdir. Á móti kraumaði svo andstaða strjálbýlis gegn uppgangi þéttbýlis. Þetta klauf samtök hestamanna. Útkoman var sátt um að halda næsta landsmót á Hólum og láta skattgreiðendur borga aðstöðu, sem þar vantaði. Það tókst, undir yfirskini háskóla í hestamennsku á Hólum. Allir sáttir? Skattgreiðendur hvað?

Hugsaði eins og hestur

Hestar

Í hestaferðum með laus hross er mikið af „farþegum“. Þeir halda ró sinni og njóta landslagsins og samvistar við viljug hross og skemmtilega samferðamenn. Svo eru aðrir, einkum fararstjórar, sem hugsa eins og hrossin. Finna strax, hvernig röng hugsun flæðir leiftursnöggt um hrossahópinn. Passa að þau fari ekki hina leiðina. Loka hliðinu í hinum enda gerðisins, svo hrossin hverfi ekki. Heyra skeifu detta. Gæta þess, að allir passi strenginn, sem dregin er út í áningu. Að fólk og hross þreytist ekki um of. Að farið sé rétt í vað og að riðið sé upp eða niður fyrir gil. Ég var þannig, gekk fyrir tékklistum og adrenalíni allan tímann. Það var rosa gaman. Er nú orðinn gamall og hættur fararstjórn, vel bara friðsældina. Orðinn farþegi.

Þeysireið Anítu

Hestar

Þeysireið Anítu Margrétar í Mongólíu rifjar upp gamla tíma. Hyggst fara tæpa þúsund kílómetra á mongólskum hestum á tæpum tíu dögum. Nálægt 100 km á dag. Sami hraði og á riddaraliði Mongóla í innrásinni í Evrópu á Sturlungaöld. Fóru 7000 kílómetra á 70 dögum, tveimur mánuðum. Bundu sig í hnakkinn og riðu sofandi, steiktu kjötstykki undir hnakknum í nesti. Riðu 200 km á dag, þegar mikið lá við, ótrúlegt afrek manna og hesta. Þegar ég var sem mest í ferðum, gátu sumir riðið 100 km á dag í nokkra daga. Algengt var að fara 50 km á dag í tvær vikur. Notalegur ferðahraði var og er hins vegar þingmannaleið, 37,5 km á dag með þrjá hesta á mann.

Mýkt og taktur hrossa

Hestar

Oft hef ég hvatt hestamenn til að taka tæknina í sína þjónustu á hestamótum. Komnir eru til sögunnar öflugir og ódýrir nemar, sem festa má í hnakka. Þeir mæla til dæmis meðalfrávik frá beinni línu áfram á ferð hestsins. Til dæmis lóðrétt í höstu brokki eða lárétt í hliðarslætti í skeiði. Hvort tveggja er óþægilegt í ásetu. Þannig má gefa hesti mýktareinkunn. Einnig mæla nemar mismun í hófataki og finna þannig frávik frá hreinum fjórgangi eða tvígangi. Þannig má gefa hesti takteinkunn. Skemmst er frá því að segja, að aldrei hef ég fundið minnsta áhuga á að færa huglægt mat þannig yfir í vísindalegt mat.

Tungumélin eru bönnuð

Hestar

Um helgina bannaði landssamband hestamanna réttilega notkun tunguméla, sem meiða og pína hross. Byggist á lögfræðiáliti, sem segir, að slík ákvörðun sé á valdi sambandsins. Tekur nú þegar gildi og mun gilda á mótum og sýningum hestamanna í sumar. Í haust verður það svo lagt fyrir landsþing hestamanna til frekari staðfestingar. Hins vegar gildir þetta ekki um kynbótasýningar, sem eru á vegum hrossabænda, ekki hestamanna. Félag hrossabænda hefur eins og félag tamningamanna neitað að styðja bannið. Vegna aðildar bænda að Landsmóti hestamanna á Hellu verða tungumélin því leyfð þar í kynbótasýningum eingöngu.

Bönnum tungumélin

Hestar

Jens Einarsson er bezti álitsgjafi hestabransans. Birti á blogginu ágæta GREIN um tungumél, sem dýralæknar og Landssamband hestamanna vilja banna. Þau stytta tamningamönnum leið með því að valda hrossinu þjáningu, ef þau hlýða ekki strax. Tamingamenn hafa tekið illa tillögum um bann við tungumélum. Jens vitnar í suma og rök þeirra eru hallærisleg. Haraldur Þórarinsson, formaður hestamanna, bendir á að samkvæmt lögum og reglum samtakanna skuli hesturinn ávallt njóta vafans, ef grunur leikur á að búnaður eða þjálfunaraðferðir valdi honum meiðslum og þjáningum. Jens tekur undir það og því er ég sammála.

Varúð – álagspróf

Hestar

Eftir hrunið klóraði forstjóri fjármálaeftirlitsins sér í kollinum. Jónas Fr. Jónsson sagði bankana hafa staðizt álagspróf. Ég missi því úr slag, er forsætis fullyrðir, að órar hans í skuldavandanum hafi „staðizt álagspróf“. Slæm er reynsla okkar af þessu slagorði, sem fundið var upp í blöðruhagkerfi Hannesar Hólmsteins. Finn líka ólykt af þeirri forspá Sigmundar Davíðs, að stjórnarandstaðan muni ljúga í næstu viku. Svoleiðis rugl getur runnið ljúft í aldraða miðstjórn Framsóknarflokksins. Aðrir sjá í þessu framhaldið af þekktri paranoju forsætisráðherra, sem ítrekað kvartar yfir að sæta einelti.

Enginn tími til neins

Hestar

Undanfarin ár hafa hestar yfirleitt verið vel tamdir hér, til dæmis vegna áhrifa frá svonefndu hestahvísli. Tamningamenn reyna með góðu að fá hesta í lið með sér. Einstaka sinnum eru hestar erfiðir og frumtamning dregst aðeins á langinn. Þótti í lagi í gamla daga, þegar tíminn var afstæður. Nú liggur sumum svo lifandis ósköp á. Þeir þykjast ekki hafa tíma til að vinna hestinn á sitt band. Læra af Iben Andersen að misþyrma hestum til að kúga þá til að hlýða. Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir vill réttilega banna hestaníðið. Ég vildi ekki eiga hest, sem Iben Andersen hefur tamið, það er heila málið.

Seisei.is eftir Jens

Hestar

Pistlar eftir Jens Einarsson bera af öðrum fréttum af heimsleikum íslenzka hestsins í Berlín. Jens er gamall refur í hestafréttum og býr yfir langri þekkingarsöfnun í faginu. Blandar skemmtilega saman gríni og alvöru. Gaman er, þegar slíkir segja skilið við félagslegan rétttrúnað og fara að segja sannleikann án tillits til kerfiskarla. Jens lætur allt flakka um hlægilega dóma og dómahefð, hreyfihamlaða verðlaunahesta og annað, sem skiptir meira máli en froðan úr kerfiskörlum hestafrétta. Lesið pistlana og lærið, hvernig á að segja fréttir af öðrum hlægilegum vettvangi, svo sem íslenzkri pólitík.