Hestar

Rugl í ræktun hesta

Hestar

Íslenzkir hestar hafa ekki fimm gangtegundir, heldur sex. Valhopp var áður fyrr aðalgangtegundin, þegar menn voru að flýta sér. Nú er það ekki einu sinni tekið með í mati á hestum. Ræktun hrossa stælir erlenda montskóla aflagðra kóngaríkja. Unaðslegt, langstígt, skríðandi tölt þykir ekki fínt. Í staðinn hristast menn á heimsleikum á hágengu hopptölti, er gerir hest og mann örmagna á hálftíma. Það getur gengið í minni háttar útreiðum kringum hesthúsið, en dugar hvorki í hestaferðum né í haustleitum. Ræktun hestsins er orðin rugl stælinga á þjálfun hesta frá Slóveníu og Andalúsíu.

Ferjufjall og Möðrudalsöræfi

Hestar

Elzta ferja á Jökulsá á Fjöllum var á reginöræfum sunnan við Ferjufjall, um tíu km sunnan við Möðrudal. Biskupaleið úr Skálholti lá þar um garða og áfram Langadal austur í Vopnafjörð. Langt var milli bæja á þeirri leið, yfir þrjátíu km til efstu heiðarbýla. Önnur leið lá suður á Hérað um Rangalón eða Sænautasel. Á þeim slóðum voru áður bæir í allt að 600 metra hæð. Þriðja leiðin lá norður í Víðidal og Grímsstaði á Fjöllum. Á þessu hálenda, afskekkta svæði voru margar heiðajarðir fyrr á öldum, frægust Veturhús af Halldóri Laxness. Frá Ferjufjalli í Vopnafjörð eru 90 km.

Sprengisandur og Ódáðahraun

Hestar

Sprengisandur og Ódáðahraun voru mesti eyðivegur landsins fyrr á öldum, 180 km. Þar fóru biskupar úr Skálholti til að vísitera sóknir austur á landi. Frá Sóleyjarvaði á Þjórsá var farið beint norðvestur sandinn að vaði á Skjálfanda norðan Kiðagils. Þar var áð. Þaðan lá Biskupavegur, sem enn er varðaður, yfir Ódáðahraun til Ferjufjalls við Jökulsá á Fjöllum. Fyrr á öldum var meiri góður og fleiri lindir á þesari 180 km leið. Enda hefði hún tæpast verið þjóðbraut við þær aðstæður, sem nú nríkja. Við landndám vantaði aðeins tuttugu kílómetra í gróðurþekjuna hæst á Sprengisandi.

Langur biskupavegur

Hestar

Biskupaleið hin forna var 450 km. Farið var um Hreppa og Gnúpverjaafrétt, sem nú er vel vörðuð, yfir Sóleyjarvað, um Sprengisand, niður Kiðagil. Síðan yfir vað á Skjálfanda, um Ódáðahraun, að Ferjufjalli, yfir Jökulsá á Fjöllum, um Möðrudalsöræfi í Vopnafjörð. Vegalengdir skiptust þannig: Hreppar 90 km, Gnúpverjaafrétt 90 km, Sprengisandur 90 km, Ódáðahraun 90 km, Möðrudalsöræfi 90 km. Nútímamenn ríða þingmannaleið á dag, 36 km. Við getum varla gert okkur í hugarlund, hvílíkir garpar forfeður okkar voru. Þeir létu sig ekki muna um 90 km á dag, Skálholt-Vopnafjörður á fimm dögum.

Kóngur í ríki sínu

Hestar

Íslendingum er heimilt að ferðast um eignarlönd. Það gildir frá Járnsíðu á miðöldum til náttúruverndarlaga frá 1999. Réttur ferðamanna er settur ofar rétti landeigenda. Hefðbundnar leiðir eru skráðar á herforingjaráðskortum frá upphafi 20. aldar. Sumir vilja ekki vita af þessu, girða af gamlar leiðir og grafa skurði gegnum þær. Þeir eru kóngar í ríki sínu. Á ferðum hestamanna þarf stundum að ræða við fólk, sem tekur engum rökum. Við reynum að beita lagi og semja. Það tókst ekki núna, konan hefði fengið slag og fælt hrossin. Hugsun hennar var bandarísk. Við völdum heldur krókinn.

Sambandslaus á heiðum

Hestar

Að lenda utan þjónustusvæðis stafræns síma er eins og að detta út af sólkerfinu. Ég er á Melrakkasléttu í eyðibýli og hestarnir eru í girðingu á öðru eyðibýli. Ég þarf að ríða til Kópaskers eða Raufarhafnar til að ná sambandi við umheiminn. Bílasími næst hér, en hann er ekki stafrænn og kemur mér því ekki á veraldarvefinn. Af þessum sökum kann tilvera mín á vefnum að verða stopul næstu daga. Ferðinni er heitið frá Leirhöfn norður og austur meðfram rekaviðnum á ströndinnni. Síðan inn á Blikalónsheiði til bæjanna sunnan Raufarhafnar. Framundan eru rúmar tvær vikur í heiðasælu.

Riðið um þjóðgarðinn

Hestar

Góð aðstaða er fyrir hestaferðamenn í þjóðgarðinum við Jökulsárgljúfur. Vel merkt og falleg reiðleið liggur frá Ási um Vesturdal, Svínadal, Hólmatungur upp á veginn að Dettifossi við Ytra-Þórunnarfjall. Þverleið liggur úr Vesturdal vestur í Þeistareyki. Hægt að fá næturbeit fyrir hesta í túni eyðibýlisins í Svínadal. Þaðan þurfa hestamenn að ganga þrjá kílómetra að vegi í Vesturdal við Hljóðakletta. Bílar mega ekki fara þessa fallegu reiðleið. Það hefur pirrað suma hestamenn, sem eru lítið fyrir labb. Við höfum hins vegar ekkert nema gott af þægilegu þjóðgarðsfólki að segja.

Öfugu megin gljúfranna

Hestar

Riðum með Halldóri Olgeirssyni á Bjarnastöðum um Landsbjörg og Hrútabjörg á eystri bakka Jökulsár á Fjöllum. Fórum upp að Hafursstöðum og sáum Rauðhóla og Hljóðakletta handan árinnar. Hvergi er hægt að koma bílum að á þessari reiðleið og gönguleið. Héðan séð eru Rauðhólar mesta furðuverkið, löng röð óvætta í gljúfurbarminum. Við Halldór vorum sammála um, að allt lambakjöt beri að merkja upprunajörðinni. Við fórum líka í þjóðgarðssafnið í Ásbyrgi, sem er afar vel hannað nútímasafn. Það gerir á einfaldan hátt grein fyrir ótal forvitnilegum þáttum svæðisins, sem nær frá Dettifossi niður í sjó.

Umhverfis laufskálann

Hestar

Laufskálaheiði er fagurt nafn á norðurenda Búrfellsheiðar í Þistilfirði. Þessar heiðar upp af firðinum eru með stærstu heiðum landsins, umlykja stakt Búrfell í miðjunni. Gróðursæld þeirra stingur í stúf við eyðimörk Hólssands vestan fjallgarðsins. Enda eru þær lágar langt inn í land. Þar tifa lækir og tístir maríuerla í mýrum og móum. Þar er stelkur og spói. Við gistum í Laufskála, sem sagður var nýr, en er gamall skáli úr Gæsavötnum. Við riðum upp með Svalbarðsá og skoðuðum marga fagra fossa á leiðinni. Skrítið er að hafa ekki heyrt um, að Landsvirkjun hafi ágirnd á þessum fossum.

Svissnesk lög á Íslandi

Hestar

Svisslendingar hafa á leigu Ormarsá sunnan Raufarhafnar. Þeir láta læsa hliðum á girðingum, sem liggja með þjóðvegi. Þar hafa þeir látið leggja vegi, sem þeir telja einkavegi, þótt þær séu á gömlum leiðum. Læsingarnar eru til að trufla veiðiþjófa. Samt má ekki læsa gömlum, hefðbundnum leiðum göngufólks og hestafólks. Þær eru tryggðar í Járnsíðu og náttúruverndarlögum frá 1999. Og merktar á herforingjaráðskortunum elztu. Réttur til umferðar er æðri rétti til eignar samkvæmt íslenzkum lögum. Önnur lög gilda í Bandaríkjunum og kannski líka í Sviss. Hér á landi gilda bara vírklippur, þegar menn koma að löglausum tálmum á fornum slóðum.

Sælureitur náttúrunnar

Hestar

Melrakkaslétta er sælureitur náttúrunnar. Engir færir bílvegir og flestar heiðar algrónar. Alls kyns fuglar, fullt af rjúpu. Við fórum um ströndina hjá Grjótnesi, suður Blikalónsdal inn á miðja Sléttu, síðan niður í byggð sunnan Raufarhafnar. Enn fegurri var leiðin í skjóli fjalla vestan Fjallgarðs frá Raufarhöfn til Þistilfjarðar. Nyrst við íshaf gistum við á tveimur eyðibýlum, háreistum húsum með kjallara og bröttu risi. Þau eru frá þeim tíma, er Sléttan var gósenland hlunninda, rekaviðar, fugls og eggja, silungs og sels. Áður en mánaðarleg laun á mölinni urðu markmið flestra.

Lúxusferðir á hestbaki

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Þegar við hjónin vorum hestlítil í upphafi hestamennsku okkar, fórum við eina eða tvær vikuferðir á hverju sumri með hestaferðafyrirtækjum, einkum Eldhestum og Íshestum. Við gátum lagt með okkur tvo hesta hvort og fengum viðbót úr hrossahópi ferðarinnar. Þetta reyndist okkur afar vel. Við lærðum mikið í nokkur sumur og enduðum sem starfsmenn. Í seinni tíð höfum við hins vegar hallast að ferðalögum með vinum og kunningjum, enda höfum við núna nóg af hestum og þekkjum vel til verka.

Ástæða er að benda fólki á leið fyrirtækjanna til að kynnast á mjúklegan hátt einu af því, sem er mest töfrandi við íslenzka hestamennsku, löngum ferðalögum í fögru landslagi. Fólk þarf ekki að bíða eftir að eignast nógu marga hesta, sem hafa úthald til langferða, sníkja sér lélega hesta hér og þar eða þekkja fólk, sem máli skiptir. Það dugar að hringja í hestaferðafyrirtæki eða senda tölvupóst og panta far. Gott getur verið fyrir kunningjafólk að taka sig saman um pöntunina, því að þá hafa menn góðan félagsskap á leiðinni.

Algengt er, að dagurinn í löngum hestaferðum kosti 16.000 krónur hjá fyrirtækjum og er þá allt innifalið, þar á meðal bílferðin frá Reykjavík fram og til baka. Þeir, sem aka á staðinn og leggja með sér eigin hesta, geta ekki vænzt að fá mikinn afslátt út á það, því að fyrirtækið þarf að borga fyrir þessa hesta hey og gistingu til viðbótar við aðra ferðahesta. Mikið umstang og mikill kostnaður fylgir hestaferðum, til dæmis er trúss fyrirhafnarmikið.

Þessi aðferð hentar ekki bara óvönum og hestlitlum eða þeim, sem koma frá útlöndum. Hún hentar til dæmis fólki, sem ekki er vant rekstri eða er vegna aldurs ekki fullfært um að taka þátt í allri vinnu, sem fylgir rekstri í langferðum, svo sem fyrirstöðum á hættulegum stöðum og þverleiðum, svo og varðstöðu í áningu, járningum og heygjöfum. Sá sem fer með hestaferðafyrirtæki er fyrst og fremst viðskiptavinur, sem hefur þá eina skyldu að reyna að hanga sem mest á baki. Hann getur síðan fikrað sig áfram með að fá að taka þátt í rekstrinum.

Til samanburðar má nefna, að félag eins og Fákur tekur um 10.000 krónur á daginn í árvissri langferð, enda eru þar sjálfboðaliðar að verki, sem taka að sér undirbúning og skipulag og ætlast jafnframt til að meðreiðarfólk taki fullan þátt í allri vinnu við hrossin meðan á ferðinni stendur. Fáksferðirnar eru sennilega í dýrari kantinum af ferðum hestamannafélaga, enda hefur viðurgerningur þar lengi verið hafður í hávegum.

Gífurlegt framboð er af löngum hestaferðum um byggðir og óbyggðir landsins. Fyrirferðarmestir eru Eldhestar og Íshestar, sem að mestu leyti eru á sömu slóðum, Suðurlandi, Snæfellsnesi, Austurlandi, Mývatni, Kili og Landmannalaugum. Þetta eru auðvitað vinsælustu reiðleiðir landsins. Eldhestar eru þar að auki á slóðum Njálu og á Sprengisandi. Þessi tvö fyrirtæki eru í rauninni ferðaskrifstofur með undirverktaka á sínum snærum í flestum landshlutum.

Aðrir öflugir aðilar með nokkrar ferðaleiðir eru Pólarhestar, sem mest eru í ferðum í Þingeyjarsýslum, Brekkulækur, sem mest er í ferðum í Húnaþingi vestra og í Dölum, svo og Hestasport, sem er í ferðum á Kili og Sprengisandi. Aðilar, sem eru á einni leið eða tveimur, eru Steinsholt, Hekluhestar, Snæhestar og Gæðingaferðir, svo að þekkt dæmi séu tekin, sem hafa verið í auglýsingum eða á vefnum og hafa fastar ferðir, eins konar rútur.

Á næstu síðu er birt kort af Íslandi, þar sem teiknaðar eru inn slóðir þessara fyrirtækja, eins og þær eru fyrirhugaðar á næsta sumri. Af kortinu má sjá, að Kjölur er vinsælasta leiðin og síðan koma Landmannalaugar og Löngufjörur. Á Kili má segja, að þrjár ferðir af þessu tagi séu í gangi í viku hverri á sumrin.

Hér að neðan eru netföng og vefslóðir fyrirtækjanna, þar sem sjá má nánari upplýsingar:

Íshestar: info@ishestar.is, http://www.ishestar.is/

Eldhestar: info@eldhestar.is, http://www.eldhestar.is/

Hestasport: hestaact@isholf.is, http://www.hestasport.is/

Pólarhestar: polarhestar@polarhestar.is, http://www.polarhestar.is/

Gæðingaferðir: gaedingatours@simnet.is, http://www.gaedingatours.is/

Hekluhestar: hekluhestar@islandia.is, http://www.randburg.com/is/hekluhestar/

Snæhestar: info@lysuholl.is, http://www.lysuholl.is/

Brekkulækur: brekka@nett.is, http://www.geysir.com/Brekkulaekur/

Steinsholt: steinsholt@steinsholt.is, http://www.steinsholt.is/

Fjallafákar: leirubakki@leirubakki.is, http://www.leirubakki.is/

Þetta eru þau fyrirtæki, sem mest hafa kynnt starfsemi sína í áætlunarferðum með hestamenn. Fyrirtæki á þessu sviði eru sennilega fleiri, yfirleitt þó annað hvort verktakar ofangreindra fyrirtækja eða þá með lítil umsvif.

Vinsælustu ferðaleiðirnar

Kjölur

Þrjú fyrirtæki eru í föstum ferðum yfir Kjöl, allar svipaðar og allar telja þær sex reiðdaga.

Biskupstungur eru önnur endastöðin í öllum tilvikum. Íshestar og Hestasport enda fyrir norðan nálægt Mælifelli í Skagafirði, en Eldhestar í Blöndudal í Húnaþingi. Eldhestar hafa tvo leggi fyrir sunnan Fremstaver undir Bláfelli, en hin hafa einn. Þau hafa aftur á móti þrjá leggi fyrir norðan Hverafelli, en Eldhestar tvo.

Sameiginleg með öllum ferðunum er gisting í Fremstaveri, Árbúðum og Hvítárvöllum. Íshestar og Hestasport hafa sameiginlega gistingu í Ströngukvísl og Galtará fyrir norðan.

Raunar eru tilhögun Kjalarferða þessara tveggja fyrirtækja nokkurn veginn alveg eins. Eldhestar hafa aftur á móti gistingu í Áfanga á leiðinni til Bollastaða í Blöndudal.

Fyrirtækin eru stanzlaust í þessum ferðum allt sumarið meðan fært er. Skálarnir eru góðir, dagleiðir milli þeirra eru hæfilegar, náttúran tignarleg, einkum þegar fjallasýn er góð á Kili. Kjalarleiðin er ein af þremur vinsælustu reiðleiðum landsins.

Fjallabak

Önnur af þremur vinsælustu reiðleiðum landsins er Fjallabak, það er landmannaleið og fjallabak syðra. Hún er sú þeirra, sem gefur flest ljósmyndurum flest mótíf. Einkum er það landmannaleið norður fyrir Heklu og austur að sýslumótum austan við Landmannalalaugar. Á syðri leiðinni er minnisstæðastur Mælifellssandur annars vegar og hins vegar leiðin milli Hvanngils og Einhyrnings um Krók.

Fjögur fyrirtæki hafa fastar ferðir á þessum slóðum, sex-átta reiðdagar. Tvö fyrirtæki hafa ferðir, sem ná hringinn um nyrðri og syðri fjallabaksleið, en hinar ferðirnar eru eingöngu um nyrðri leiðina.

Eldhestar fara frá Eyvindarmúla upp úr Fljótshlíð og enda þar aftur, fara fyrst syðri leiðina og síðan þá nyrðri að Landmannahelli, þaðan sem þeir fara aftur yfir á syðri leiðina í Hvanngili. Fyrri ferðatilögun Hekluhesta er svipuð, nema að ekki er komið tvisvar við í Hvanngili, heldur liggur önnur leiðin niður um Áfangagil í Austvaðsholt á Landi.

Íshestar fara nyrðri leiðina frá Hestheimum á Landi og enda austur í Búlandi í Skaftársveit. Síðari ferðatilhögun Hekluhesta fer fram og til baka frá Austvaðsholti yfir í Landmannalaugar. Svipaða sögu er að segja frá Steinsholti, þeirra ferð fer þaðan fram og til baka í Landmannalaugar.

Löngufjörur

Fjögur fyrirtæki fara um Löngufjörur, þriðju stóru hestaferðaleið landsins. Þessar ferðir eru mismunandi, yfirleitt um ein vika að lengd, en spanna misjafnan hluta af fjörunum, sem ná frá Ökrum á Mýrum vestur að Sölvahamri við Arnarstapa. Austan Stakkhamars eru fjörurnar á leirum, en vestan hans eru þær á skeljasandi.

Snæhestar á Lýsuhóli fara um fjörurnar austan frá Haffjarðará vestur á Sölvahamar við Arnarstapa og hafa þá sérstöðu að fara krók út í eyjar vestan Skógarness. Íshestar fara frá Stóra-Kálfalæk á Mýrum vestur í Traðir í Staðarsveit. Eldhestar fara frá Oddsstöðum í Lundareykjadal vestur um Mýrar yfir á Löngufjörur á Snorrastöðum og síðan alla leið vestur á Arnarstapa. Fjórða fyrirtækið er Brekkulækur, sem fer fram og til baka úr Húnaþingi vestra um Dali vestur í Skógarnes.

Mývatn

Þrjú fyrirtæki eru með fastar ferðir til Mývatns. Þær eru misjafnar, yfirleitt tæp vika að lengd.

Pólarhestar fara fram og til baka frá Grýtubakka hjá Grenivík og fara um Ljósavatnsskarð og Bárðardal. Eldhestar fara fram og til baka frá Eyjafirði og fara um Fnjóskadal og Bárðardal. Íshestar fara fram og til baka frá Húsavík og fara aðra leiðina um Þeistareyki og hina um Breiðumýri.

Yfirleitt fela þessar ferðir í sér útsýnisferð á bíl um Mývatnssveit, enda er ekki hægt um vik að ríða sveitina, því að malbikaður bílvegurinn einn liggur umhverfis vatnið.

Pólarhestar eru líka með ferð áfram austur um Þeistareyki í Öxarfjörð og síðan upp að Grímsstöðum á Fjöllum.

Austurland

Þrjú fyrirtæki eru með fastar ferðir á þessum slóðum, yfirleitt vikuferðir. Þau hafa hvert sína sérgrein á svæðinu.

Gæðingahestar á Útnyrðingsstöðum fara um firði og víkur, Borgarfjörð og Breiðuvík, svo og fjallvegi milli strandar og Héraðs. Íshestar fara frá Lagarfljóti upp á heiðar umhverfis Snæfell. Eldhestar eru norðar með sína starfsemi, fara frá Héraði yfir í Vopnafjörð, um heiðar þar og síðan aftur niður á Hérað.

Til þess að kynnast Austfjörðum á hestbaki, þurfa menn eiginlega að fara í allar þessar ferðir, því að þær skerast hvergi.

Gullni hringurinn

Þrjú fyrirtæki eru með ferðir umhverfis Geysi og Gullfoss, yfirleitt kallaðar Gullni hringurinn, en eru að öðru leyti ólíkar.

Eldhestar fara úr Hveragerði um Skógarhóla og Hlöðufell til Geysis. Pólarhestar fara sömu leið í samstarfi við Eldhesta. Íshestar fara frá Fossnesi í Hreppum um Brúarhlöð til Geysis fram og til baka, svo og í Þjórsárdal.

Sprengisandur

Tvö fyrirtæki fara á Sprengisand, þar af annað fyrirtækið alla leiðina.

Það eru Eldhestar, sem fara frá Fellsmúla á Landi norður í Halldórsstaði í Eyjafirði. Það er eina ferðin, sem raunverulega liggur um Sprengisand. Hitt fyrirtækið er Hestasport, sem fer upp úr Skagafirði í Laugafell og þaðan niður að Mývatni. Það er eina ferðin, sem fer upp inndali Skagafjarðar í Laugafell

Dalir

Brekkulækur í Húnaþingi vestra er með tvær leiðir í Dali, aðra stutta og hina langa, sem nær alla leið á Löngufjörur.

Önnur er hringferð um Húsafell, Svarfhól og Stað í Hrútafirði. Hin fer báðar leiðir um Hrútafjörð og fer alla leið í Skógarnes sem fyrr segir.

Ferðir Brekkulækjar hafa nokkra sérstöðu á svæðinu um Húnaþing vestra og Dali.

Aðrar leiðir

Pólarhestar eru með ferðir frá Grýtubakka í Fjörður og aðrar ferðir í Öxarfjörð. Brekkulækur er með ferðir frá Brekkulæk um Hóp í Þingeyrar. Hestasport er með ferðir í nágrenni Hóla í Hjaltadal. Steinsholt er með ferðir um Þjórsárdal og hluti af Gullna hring Íshesta er einnig um Þjórsárdal.

Athugasemd

Fleiri fyrirtæki eru með fastar hestaferðir með reglubundnu sniði og föstum tímasetningum. Hér hafa verið valin þau fyrirtæki, sem þekktust eru vegna umfangs þeirra, auglýsinga og kynningarefnis, eða þá vegna opinberra réttinda, sem þau hafa aflað sér á sviði hestaferða. Aðrar ferðir kunna að vera jafngóðar.

Tvö fyrirtækin, Eldhestar og Íshestar, hafa þá sérstöðu, að þau eru ferðaskrifstofur með fasta undirverktaka, sem sjá um ákveðnar leiðir. Þannig starfar Sigurður á Oddstöðum í Lundareykjadal fyrir Eldhesta á Snæfellsnesi og þannig starfa Sigurður á Stóra-Kálfalæk á Mýrum fyrir Íshesta á Snæfellsnesi, Hjalti í Fossnesi í Gnúpverjahreppi fyrir Íshesta á Gullna hringnum og á Kili, svo og Bjarni Þór í Saltvík við Húsavík fyrir Íshesta á Mývatnsleið.

Í sumum ferðunum eru hvíldardagar og er þá í sumum tilvikum farið í bíl í skoðunarferðir.

Útundan

Svokölluð Hálsaleið var einu sinni á dagskrá fyrirtækja í hestaferðum, farin um Skógarhóla og Uxahryggi niður í Lundareykjadal og síðan um hálsa til Húsafells og endað með því að fara kringum Strútinn. Hún er ekki farin lengur.

Mér finnst líka vanta leiðir í Þórsmörk, leiðir um Hreppaafréttir inn í Arnarfell og Kerlingafjöll, leiðir upp af Þistilfirði, til dæmis góða reiðvegi um Sléttu, svo og um risavaxna Búfellsheiði. Einnig vantar leiðir austan Vatnajökuls, til dæmis um Víðidal.

Mest finnst mér vanta leiðir um afréttir Mýrdals, austan frá Höfðabrekku að fjallabaki vestur í Mýrdal. Það er eitthvert fegursta reiðsvæði, sem ég hef séð.

Í Vestur-Skaftafellssýslu er mikið reiðland á heiðum og grónu hrauni. Svo eru Vestfirðir eyðimörk á landakorti fyrirtækja í hestaferðum.

Á næstu opnu er kort af Íslandi, þar sem ofangreindar leiðir eru merktar. Taka ber fram, að næturstaðir hrossa eru tengdir með beinum strikum, sem fylgja ekki krókaleiðum veruleikans.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 1.tbl. 2005

Skýrsla sendiherrans

Hestar

Samkvæmt fyrstu skýrslu umboðsmannsins eða sendiherrans, sem nær yfir síðari hluta ársins 2003 og árið 2004, hefur hann látið gera sýningarbás, sem hafa má á sýningum, þar sem íslenzki hesturinn kemur fram. Ennfremur hefur hann aðstoðað lögfræðing Félags hrossabænda í tollamálinu í Þýzkalandi, sem fékk farsælan enda. Loks hefur hann komið á sýningum flokks reyndra reiðmanna á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum og í Birmingham í Bretlandi. Fleira en þetta þrennt er ekki nefnt um árangur í skýrslunni.

Tilraunir til að auðvelda reiðkennurum og sýningarmönnum að fá tímabundið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum hafa ekki enn gengið upp. Er nú þriðji bandaríski lögfræðingurinn kominn í málið. Ekki hefur enn fundizt leið til lausnar þessa máls, er getur verið hættulegt einstaklingum, sem hugsanlega verða settir inn og síðan gerðir varanlega brottrækir frá Bandaríkjunum. Ekki bætir úr skák, að við stjórn þar vestra eru valdhafar, sem ekki eru gefnir fyrir að gera útlendingum greiða.

Að mestu hefur tími sendiherrans farið í að kynna sér stöðu mála. Hefur hann í því skyni ferðast vítt og breitt um heim íslenzka hestsins og talað við menn um markaðsmál. Árangurinn er sá, að hann er kominn með svipaða þekkingu og sumir einkaaðilar, sem hafa verið að flækjast í markaðsmálum upp á sitt eindæmi. Greinargerð hans um þau mál og tillögur til úrbóta segja fátt eða ekkert nýtt, sem menn vissu ekki áður.

Sem dæmi um fyrirliggjandi markaðsþekkingu má nefna viðtöl og greinar, sem hafa birzt í nánast hverju tölublaði Eiðfaxa og Eiðfaxa International síðustu tvö árin. Umboðsmaðurinn hefði komizt langt í þekkingu með því að lesa þessi viðtöl, vera kyrr á sama stað og samt að vera að ferðast. Raunar hefur Eiðfaxi International síðustu misseri verið hafsjór af gagnlegum upplýsingum, sem fara í þúsundatali sex sinnum á ári til erlendra hestamanna, án þess að umboðsmaðurinn virðist vita mikið um það. Ekki heldur um örar fréttir frá Íslandi á ensku og þýzku á fréttarásinni: eidfaxi.is.

Sem dæmi um þetta efni má nefna viðtöl Eiðfaxa International við sýnendur á Equitana og Equine Affaire, viðtöl við sölumenn á Bandaríkjamarkaði, viðtöl um traust í hrossaviðskiptum, um hestapassann í útflutningi, margar greinar um spatt og sumarexem, ótal viðtöl við forustumenn í erlendum hrossasamböndum, umfangsmiklar kynningar á hestaferðum á Íslandi, svo og umræðu um samræmingu á dómum milli landa. Þá hefur Eiðfaxi International flutt gífurlega mikið efni frá fjölþjóðlegum mótum, ekki bara heimsleikum, heldur líka frá Norðurlandamóti og Miðevrópumóti.

Að mestu leyti felur skýrsla sendiherrans í sér ýmsar tillögur um aðgerðir, sem kosta peninga. Það mun vera eitt hlutverk umboðsmannsins að afla slíkra peninga. Fjárlög ríkisins fyrir árið 2005 benda ekki til, að mikið hafi fengizt frá ríkinu, en einkaaðilar kunna að geta komið til hjálpar. Það kemur í ljós á fyrstu mánuðum þessa árs. Ekki gengur heldur lengur, að kostnaður við embættið felist einkum í launum og ferðakostnaði sendiherrans.

Fljótlega eftir að sendiherrann tók við störfum, fór að bera á gagnrýni á hann í spjallrásum. Eiðfaxi hvatti þá til að menn hefðu þolinmæði og biðu átekta um sinn.

Upp á síðkastið hefur gagnrýnin einkum beinzt að tillögum hans um sýningarflokk atvinnumanna, því að áður hafði komið í ljós við sýningar á vegum einkaframtaksins, að menn kaupa ekki hesta, þótt þeir hrífist á sýningum. Samband sýninga og sölu er ekki beint. Hins vegar getur þetta samband verið óbeint. Þannig geta dýrar sýningar hugsanlega verið verk fyrir sendiherra, sem er þá orðinn eins konar sirkusstjóri.

Alténd er biðtímanum lokið og embættisverkin verða að fara að tala.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 1.tbl. 2005

Rauna- og gleðisaga hestakaupanda

Hestar

Sérstæðir persónuleikar

Jónas Kristjánsson:

Fyrsti hesturinn minn var klárhestur, hátíðlegur og fremur latur, hastur á brokki, ekki mikið gefinn fyrir að tölta, en lét sig hafa það með semingi. Hann tölti raunar nokkuð hágengt, en þó ekki lengi í senn nema hann væri á heimleið, en þá varð hann líka rokna viljugur. Raunar átti dóttir mín hann, fékk hann í eins konar síðbúna fermingargjöf vorið 1987 með öðrum hesti, sem var hins vegar lullari.

Félagarnir höfðu verið að velkjast um á markaði. Þetta hestaval var misheppnað, dæmigerð vond byrjun, fyrst fyrir hana og síðan fyrir mig, 47 ára gamlan byrjanda. Seljandinn var auðvitað bara að gera sitt bezta, en ofmat greinilega getu okkar og þolinmæði til að fást við erfiða hesta, sem tóku auðvitað of mikil völd af byrjendunum í sínar hendur, fóru jafnvel að bíta í vegkantinum, þegar þeim hentaði.

Lastið virkaði öfugt

Vinkona hennar vildi ári síðar eignast lullarann, þrátt fyrir varnaðarorð mín. Ég sat lengi með foreldrum hennar og rakti alla galla hestsins, en allt kom fyrir ekki. Því meira sem ég lastaði hestinn, þeim mun sannfærðari urðu þau um ágæti hans. Þetta er raunar eini hesturinn, sem ég hef selt um ævina, en ég veit altjend, hvernig á að selja hest. Kannski get ég haldið námskeið fyrir hrossabraskara.

Við gömlu hjóninn sátum þá bara uppi með klárhestinn og sex hesta hús, þegar dóttirinn nennti þessari vitleysu ekki lengur. Við vorum eina fólkið á landinu, sem átti bara einn hest í sex hesta húsi. Þetta var Kóngur, fæddur 1979, Þráðarson 912 frá Nýja-Bæ, Sörlasonar 653 frá Sauðárkróki, sótvindrauður hestur með stjörnu í enni, ættaður frá Blönduósi, undan óþekktri meri út af Stormi 521 frá Eiríksstöðum.

Hann var upphafið að ellefu reiðhesta flokki, þar sem allir eru enn á lífi. Þar sem þessir hestar hafa komizt í eigu okkar með margvíslegum og mismunandi hætti, en þó einkum fyrir tilviljun, getur verið lærdómsríkt fyrir aðra að læra af reynslu okkar og kannski varast vítin í sumum tilvikum. Þetta er sem sagt sagan um, hvernig tólf hesta hús var fyllt af sérvitringum, sem hentuðu okkur misjafnlega vel.

Hátíðlegur höfðingi

Bezta ráðið í langferðum var að halda sig í eftirreiðinni. Kóngur vildi ekki missa af lestinni og vaknaði til lífsins, þegar hann dróst aftur úr. Þá sætti hann sig við að tölta virðulega nokkuð lengi í senn á milliferð. Í rauninni er hann fremur hringvallarhestur en ferðahestur og var raunar einu sinni lánaður í keppni með skammlausum árangri. Hann var þá hátíðlegur. Mig minnir, að Sigurbjörn Bárðarson kalli svona hesta höfðingja.

Samt notaði ég hann ætíð í langferðum tvisvar eða þrisvar á sumri, t.d. yfir Sprengisand og nokkrum sinnum yfir Kjöl og Arnarvatnsheiði. Hann var dæmdur óvenjulega fótaslappur í vísindarannsókn á gömlum ferðahestum, en reyndist aldrei til vandræða, varð aldrei fótaveikur. Hann er nú kominn alveg óbilaður á eftirlaunaaldur og hefur það gott, 26 vetra gamall, í sveitinni, enginn nennir að ríða honum, að minnsta kosti ekki frá húsi.

Við keyptum þessa tvo hesta ódýrt í einum pakka af kunnum hestamanni. Mér þótti það samt löngu síðar maklegt, þegar ég frétti, að lullarinn var aftur kominn í hendur seljandans, sem þá var búsettur í Svíþjóð. Báðir þessir hestar eru dæmi um, að hestar geta lifað af í sambýli við manninn, þótt þeir séu lítt þjónustuliprir við óvana. Þeir ganga þá kaupum og sölum, því að alltaf má finna nýja aula.

Trukkur á tölti

Nú vantaði okkur hest handa konunni, svo að við gætum farið saman í hesthúsið. Jens Einarsson fann fyrir hana frekar ódýran hest, Stíg, fæddan 1980, Léttisson 600 frá Vík, sem var á aldur við Kóng, undan lítt þekktri meri í Mýrdalnum. Þetta var feiknalega mjúkur og þægilegur trukkur, hvort sem var á tölti eða brokki, lággengur og fótviss, mikill og feitur hestur, þindarlaus og áhugasamur á ferðalögum, akkúrat fyrir okkur.

Þessi dökkjarpi trukkur fékk í áðurnefndri rannsókn fína fótaeinkunn, en eigi að síður bilaðist hann um tvítugt í fótum og fór þá á ellilaun. Hann hafði þá verið í þjónustu okkar í hálfan annan áratug og aldrei misst úr ferðasumar, en var farinn að hrasa síðasta sumarið. Lengst af var hann foringi hópsins. Í ellinni hefur hann safnað svo miklu spiki á haustin, að hann hlýtur að lifa af veturinn, þótt matarlaus yrði.

Eingangshesturinn

Jens hafði um svipað leyti milligöngu um kaup á hesti fyrir mig. Álmur, fæddur 1987, fékkst hjá Þorkeli Steinari á Stóru-Ármótum, ættaður úr Landeyjum. Foreldrarnir voru lítt þekktir, en föðurafinn var frá Kirkjubæ, Reginn 866, á ýmsa vegu út af Ljúfi 353 frá Hjaltabakka. Móðurafinn er þekktur skeiðgarpur, Fönix 903 frá Vík, af Svaðastaða- og Stokkhólmaættum. Móðuramman var af hinu óstýriláta Stórulágarkyni, undan Hrafni 583 frá Árnanesi.

Þorkell Steinar sendi mér raunar tvo hesta og sagði mér að velja. Báðir fóru þeir að Sigmundarstöðum sumarið 1991, þaðan sem við ætluðum í okkar fyrstu langferð á hestum fram og til baka yfir Arnarvatnsheiði. Annar heltist í haganum áður en lagt var af stað og er því úr þessari sögu, en Álmur lagði einn lagði af stað. Hann var í rekstrinum frá Sigmundarstöðum upp í réttina fyrir ofan Kalmanstungu, þar sem ég fór fyrst á bak honum.

Það skipti engum togum, að þessi fjögurra vetra rauðglófexti Kirkjubæingur tók milliferð og tölti með mig dagleið upp í Álfakrók, þar sem við biðum lengi dags eftir samferðafólkinu. Ljóst var, að hann taldi sig jafnan mér í goggunarröðunni, vildi ráða gangi og hraða, en ég mátti ráða kompásnum. Ég hef að mestu leyti sætt mig við þetta, en reyni að ríða honum lítið í þéttbýli, því að hann hleypur á aðra hesta, sem eru fyrir.

Tók mig með trompi

Hann hefur allar gangtegundir hreinar eins og litina hjá Ford, svo framarlega sem þær eru yfirferðartölt. Hann hefur að vísu ekki fengizt til að brokka og sjaldan til að feta, en einu sinni lét Bjarni Eiríkur Sigurðsson hann skeiða. Mér var hins vegar ráðlagt að láta það eiga sig, af því að töltið er svo fínt. Hann hefur borið mig eins og dúnsæng um fjöll og firnindi. Þessi erfiði hestur tók mig með trompi.

Því miður fékk hann mörgum árum seinna kvíslbandsbólgur í þrígang með nokkurra ára millibili, sem endaði með því, að hann fór á eftirlaun í haust, aðeins 17 vetra, að vísu aftur orðinn óhaltur eftir lækningu. Ég hélt þá, að ég mundi hætta í hestamennsku, svo nátengdur er þessi hestur orðinn mér, hefur verið minn aðalhestur í öllum hestaferðum til þessa. Þótt ég hafi komið á marga góða hesta síðan, jafnvel verðlaunahesta, hef ég ekki fundið jafningja hans.

Eitt sérkenni þessa hests, að ekki er hægt að teyma á honum, en sjálfur er hann ljúfur í taumi. Ég nota hann til að hengja þriðja hestinn utan á, því að Álmur er alltaf á sama stað, við hæl, hvað sem þriðji hesturinn ólmast. Ef hins vegar ég ætla að teyma á honum sjálfum, verður hann alveg ólmur og óreiðfær. Þetta er því ekki einvörðungu streita, heldur meira í ætt við vilja og kappsemi.

Dýralæknirinn bjargaði

Um svipað leyti kom í hesthúsið grár hestur ættlítill, sem tengdadóttir okkar, Katrín dýralæknir, keypti á Krossi í Landeyjum, einhver ferðafúsasti hestur, sem ég veit um. Hann afsannar kenningu Jens Einarssonar um, að hestum leiðist að ferðast. Kári er alltaf til í tuskið, en nennir stundum ekki að tölta langtímum saman og hrekkur þá í brokk. En hann er alltaf jafn kátur og ötull, á alltaf eitthvað eftir.

Kári er fæddur 1986, með Fönix 903 frá Vík og Hrímni 585 frá Vilmundarstöðum að öfum, mjallhvítur og sumarfagur, en hefur á veturna þann leiða sið að sækjast eftir að velta sér upp úr skít. Hann lenti hjá mér í slysi, er hestakerra valt á malbikuðum þjóðvegi eitt á Kjalarnesi. Fjórðungur af hófi skarst af og hefði illa farið, ef ekki hefði verið aðgangur að teygju fyrir farangursgrind til að stöðva blóð. Eigandinn hjúkraði hestinum í heilt ár með daglegum skiptum á sárabindum.

Síðan er liðinn áratugur og hófurinn er farinn að líkjast venjulegum hófi. Samúðin, sem hesturinn fékk í erfiðleikum sínum hafði svo þau hliðaráhrif, að hann varð dálítið heimtufrekur á fóðurmola. Það er skammt í gæludýrið í reiðhestum, ef fólk gætir sín ekki í góðseminni. Mér sýnist það raunar vera víðar vandamál en hjá mér, að ekki er gott að fá þriðjung af tonni í fangið til að biðja um mola.

Kári er djúpsyndari en aðrir hestar, raunar óþægilega. Í Fáksferðinni 1996 vorum við á Þingeyrum að leika okkur að sundríða í sumarhita. Ég var óviðbúinn á Kára. Hann synti svo djúpt, að það flaut ekki bara yfir bakið, heldur yfir hálsinn líka og á endanum stóðu nasirnar einar upp úr. Ég hélt, að ég væri að drekkja hestinum og fleygði mér af baki, en hesturinn hélt áfram að synda með þessum einstæða hætti, sem örugglega hentar ekki í jökulfljótum.

Þóttafullur Sörlahaus

Næstir í röðinni voru tveir öflugir hestar. Annan keypti ég handa sjálfum mér af Einari á Skörðugili, var raunar lengi búinn að fala hest af honum. Skemmst er frá því að segja, að það tók Einar tvö ár að finna í stóði sínu hestinn, sem hann seldi mér á sanngjörnu verði og sagði allt nákvæmlega satt um hestinn. Síðar gaf ég konu minni þennan hest og varð hann fljótlega uppáhaldshesturinn í hennar gengi.

Þetta er brúnn hestur, Prúður, fæddur 1987, undan Sörla 654 frá Sauðárkróki og Prúði 6285, undan Skó 823 frá Flatey, feiknarlegur ferðahestur með svo langstígu tölti á ferðalögum, að hestar hafa ekki við honum á stökki og skeiði. Hann sparar þá lyftinguna, en getur lyft á hringvelli, enda notaði sonur Einars hann til keppni, þegar hann var í skóla úti á Króki. Prúður hefur Sörlahaus með kunnuglega köldum þóttasvip.

Stundum hefur komið upp í honum kergja, þegar farið er frá húsi. Hann skýtur þá upp kryppu og höktir af stað. Eftir nokkur skref hrekkur allt í lag. Engar mælingar benda til, að líkamlega sé neitt að hestinum, hann virðist bara vera með þennan löst, sem kemur fram suma vetur, en ekki aðra. Á sumrin er þetta hreinn öndvegishestur, allra hesta beztur á þindarlausum yfirferðargangi, fyrirmynd annarra hesta á ferðalögum.

Urrandi hestur

Hinn hesturinn kom til skjalanna á sérkennilegan hátt. Ég var á langferð í Kelduhverfi, þegar bóndi í héraðinu, sem reið með hópnum, vildi prófa hnakkinn minn. Ég fékk að prófa hestinn hans á meðan. Ég sá strax, að þetta væri gullmoli fyrir bakveika konu, svo mjúkur var hann á töltinu, falaði hestinn og við urðum sáttir um kaupin, ef Kristín kæmi norður til að prófa og segði til um, hvort hún vildi eiga þennan jarpa hest.

Hún fór norður og beið með húsfreyjunni í kaffi eftir bónda, sem kom með hestinn bullsveittan í taumi. Hún fór á bak og féll fyrir hestinum eins og ég. Hesturinn var sendur suður með fyrstu ferð. Hann var faxmikill og mikilúðlegur og urraði, þegar hann kom af bílnum. Því fannst mér ráð að prófa hann sjálfur fyrst. Það gerðist nokkrum dögum síðar, að ég reið þessa hefðbundu leið Fáksmanna niður að stíflunni í Elliðaánum.

Á leiðinni mættum við manni á hjóli. Þá snarsneri hesturinn og rauk til baka. Ég mátti hafa mig allan við að haldast á baki. Eftir 200 metra róaðist hesturinn og við mættum Magnúsi Norðdahl. Hvaða hestur er þetta, spurði hann. Þetta er nú eiginlega frúarhesturinn, sagði ég. Þá glotti hann og sagði: Er þér eitthvað illa við hana? Enda kom á daginn, að það tók hana tíma að venjast hesti, sem urraði eins og ljón.

Þetta er sannur Víkingur, fæddur 1987, sonur Leós 975 frá Stóra-Hofi, elzta ættbókarsonar Dreyra 834 frá Álfsnesi og merar af Hindisvíkurkyni frá Polda í Hreðavatnsskála. Hann er orðinn afar þægur við Kristínu, en hendir öðrum af baki, jafnvel máttarstólpum í þjóðfélaginu, ef hann er ekki sáttur. Hann gæti sjálfsagt tölt undir hnakki þindarlaust heilu dagana, án þess að blása úr nös, blæs raunar aldrei úr nös og er alltaf til í eltingaleik við óþæg hross.

Einhvern grun hafði bóndinn um, að ekki væri allt í lagi með þessi viðskipti með ljónið, enda hringdi hann til að kanna, hvort við vildum ekki heldur fá aðeins dýrari hest, sem væri betri í umgengni. Sá hestur kom raunar suður, en reyndist latur og heimþrár, svo að hann fór til baka. Víkingur komst hins vegar smám saman í uppáhald hjá okkur hjónum, feitari en aðrir hestar og þekkir ekki þreytu á ferðalögum.

Klikkaður fyrir mína tíð

Síðastur hestanna í fyrra reiðhestagengi okkar er eldrauður Logi frá Húnavöllum, með Hervar 963 frá Sauðárkróki og Sleipni 785 frá Ásgeirsbrekku að öfum. Hann er alger sprengja, sennilega orðinn klikkaður löngu fyrir mína tíð. Ég veit ekki, af hverju mér datt í hug að kaupa hann, því að hann hafði aðeins einn gang, roku á tölti. Hann hefur lítið lagazt með aldrinum, en sættir sig þó við að feta, þegar ég vil það. En hann vill helzt ekki annað tölt en fótvisst yfirferðartölt.

Eins og Álmur er Logi svo erfiður í umgengni, að ekki er hægt að teyma á honum, en teymist sjálfur vel. Þessir hestar valda mér erfiðleikum í svokölluðum teymingaferðum, en eru gallalitlir í rekstrarferðum. Sérstæður persónuleiki þessara hesta bætir mér upp vandamálin. Það fer oft svo, að erfiðir og sérstæðir hestar verða manni minnisstæðari en nánast fullkomnir hestar, sem hlýða nákvæmlega hverri beiðni.

Á ferðalögum er þetta átakahestur, viljugur og þolgóður töltari. Sumarið 2002 misstum við 45 hesta frá Langavatni yfir Staðartungu og Langá vestur um Hraundal niður að afréttargirðingu við Svarfhólsmúla, um 18 km leið. Við vorum þrír í þessum eltingaleik, hörkutólin Hannes flísari Einarsson og Jón lögmaður Egilsson. Ég missti dýnu undan hnakknum og félagarnir misstu skeifur. Allan tímann tölti Logi á hundraðinu, yfir hraun, fjöll, ár, hvað sem var.

Logi er dæmi um, hversu erfitt er að meta hest. Í rauninni hefur hann alltaf verið ómögulegur sem reiðhestur, af því að hann tekur engri kennslu, hvorki frá mér né færari mönnum. Hins vegar get ég ekki hugsað mér neinn hest, sem hentaði mér betur í svaðilförum á sumrin, þegar allt er undir hestinum komið, hvort maður nær áfanga eða öðrum árangri. Hann virðist vera gersamlega þindarlaus á töltinu.

Skeiðari eða símastaur

Við gerðum nú hlé á hestakaupum, enda hestarnir orðnir sjö og við því sæmilega hestuð til ferðalaga. Nokkrum árum síðar kom skriða af yngri hestum, sem eiga að taka við hlutverki hinna, sem eru farnir að verða tvítugir. Við kaup á þessum nýju hestum, sem urðu fimm talsins, nutum við leiðsagnar og milligöngu Helga Leifs Sigmarssonar, sem um leið kenndi okkur á hestana, sem flestir voru keyptir yfir getu.

Fyrstan má nefna brúnan skeiðara, Garp frá Dýrfinnustöðum, fæddan 1990, undan Hrafni 802 frá Holtsmúla og ættbókarfærðrar Hofstaðamerar. Hann keypti ég sérstaklega til að læra á skeið. Jafnframt notaði Helgi hann sjálfur um skeið í keppni, þar á meðal í úrtöku í gæðingaskeiði fyrir heimsleika, fékk eitthvað af verðlaunum, en í rauninni var hesturinn of stressaður til að vera keppnishestur. En hann átti að breyta mér í reiðmann.

Margan daginn fórum við Helgi saman í reiðtúr til að kenna mér að liðka hestinn, fá hann til að brokka, fá hann til að halda takti á tölti og fá líka úr honum þessa feiknarlegu skeiðspretti, sem eru toppurinn á tilverunni. Þetta var mikið basl, fyrst og fremst af því að ég verð seint talinn vera næmur nemandi. Allt tókst þetta loksins, ég get hin síðari árin haldið honum til brokks og tölts eftir þörfum.

Fyrstu veturna kom Garpur á hús eins og símastaur af útigangi, svo stirður, að hann gat ekki beygt, bara hrökkvið í beygjum. Smám saman fór hann að lagast og í vetur kom hann á hús í því formi, að hann gat beygt á tölti og brokki og haldið tölti óþvingað í langan tíma, án þess að hafa farið í beygjuæfingar. En fyrir mig var nýjung að komast í tæri við hest, sem hefur lull að frígangi og hrekkur í lull, þegar klárhestar hrökkva í brokk.

Einfaldur stólpagripur

Í sárabætur fyrir þessa erfiðleika keypti ég næst auðveldan hest frá Flagbjarnarholti, Gauk, rauðan hest, fæddan 1993, með Anga 1035 frá Kirkjubæ og Riddara 1004 frá Skörðugili að öfum. Hann minnir á Prúð, er stór hestur, býr yfir skeiði, þægilegur í umgengni og orðinn stólpahestur til ferðalaga, seinþreyttur á tölti. Stundum hefur hann tekið upp á að basla, en hefur svo jafnóðum hætt því aftur, þegar tekið hefur verið af festu á vandanum.

Kraflarssyni fer fram

Ungan Prins, fæddan 1994, fengum við frá Brynjari á Feti, Kraflarsson 1283 frá Miðsitju, móðurafi er Þröstur 908 frá Kirkjubæ. Hann var stór og fallega rauðmjóblesóttur, heldur seinþroska og latur til að byrja með. Auk þess var hann stundum með frekjulæti, lullaði gjarna nokkur spor í upphafi dags. Hann efldist hins vegar í ferðum og varð að lokum sterkur og viljugur hestur, sem hætti öllum ósiðum og fyrir löngu farinn að tölta faglega.

Hágengi dansarinn

Lokahesturinn er Djarfur frá Kálfhóli, fæddur 1991, sonur Topps 1102 frá Eyjólfsstöðum, rauðstjörnóttur, litill og liðugur dansari með öllum gangi, jákvæður og viljugur, erfiðislaus með öllu, enda dýrast keyptur. Stundum hefur Arna Rúnarsdóttir keppt á honum. Hans galli á ferðalögum er, að hann kann ekki að haga fótlyftu eftir aðstæðum eins og Prúður og þreytist því nokkuð fljótt. Raunar er hann meiri sýningarhestur en ferðahestur.

Hamingjurík þrautasaga

Þetta er sagan af hestakaupum okkar hjóna. Við höfum eins og margir fleiri átt í erfiðleikum með að finna réttu hestana, höfum stundum keypt of ódýra hesta, sem við höfum síðan þurft að glíma við. En á móti því kemur ánægjan, sem fylgir því að hafa getað gert hest betri en hann var. Þannig hafa hestar, sem rauverulega var platað inn á okkur, reynzt okkur hinir mestu hamingjugjafar, þegar við höfðum fundið lagið.

Öll er þessi saga mörkuð af þörfum okkar, sem eru sumpart aðrar en ýmissa annarra, af því að við höfum lagt svo mikla áherzlu á hæfni hestanna til ferðalaga. Við höfum litið á öndverðan veturinn sem þjálfunartíma fyrir sumarferðir. Þegar hestur getur tölt á milli- og yfirferð kringum Elliðavatnið án þess að stoppa, telzt hann útskrifaður úr vorskólanum, tilbúinn til að fara í sumarbeit og að takast í ferðum á við firnindin.

Þið hafið kannski tekið eftir, að allir þessir hestar eru geldingar. Það er meðvituð ákvörðun okkar, eftir að hafa verið í sambýli með hryssueigendum í hesthúsi. Það er nóg að hafa eina dellu, þótt við tvöföldum hana ekki með því að fara í ræktun!

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 3.tbl. 2005

Hrossaræktarfundir

Hestar

Arfgengi lita í WorldFeng

Forustumenn hrossaræktarinnar hafa verið með fundaherferð um landið undanfarnar vikur. Þetta eru Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda, Guðlaugur V. Antonsson hrossaræktarráðunautur og Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir hrossasjúkdóma. Eiðfaxi mætti á fundinn á Hvolsvelli.

Fundarmenn spurðu mest um fyrirhugaðar aðgerðir gegn spatti í stóðhestum og voru almennt sáttir við útskýringarnar.

Útflutningur á uppleið

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:

Útflutningur er að taka við sér aftur eftir lágmarkið árið 2003. Það, sem af er þessu ári hafa 100 fleiri hross verið flutt út en á sama tíma í fyrra. Bandaríkin hafa valdið vonbrigðum, en Þýzkalandsmarkaður er aftur kominn í gang.

Freistandi er að stefna að ætternisgreiningu allra mera, sem eru í ræktun og ætternisgreina þannig virka ræktunarstofninn. Þótt þetta kosti dálítið af peningum, eru þær tölur yfirstíganlegar.

Gagnrýnir reiðmennsku

Guðlaugur V. Antonsson hrossaræktarráðunautur:

Það er sláandi, að fjórðungur hrossa er með áverka í dómi. Þar skipta máli miklar kröfur knapa og eigenda. Hófhlífar voru ekki til fyrir 1970, en samt gripu hross ekki á sig þá. Nú eru öll hross með hófhlífar í sýningu, en slasast samt. Hér þarf að koma til skjalanna betri reiðmennska, enda er nefnd innan Félags tamningamanna að kanna, hvernig eigi að taka á grófri reiðmennsku.

90% ásettra folalda væru nú komin í skýrsluhaldið. Þriðjungurinn er á Suðurlandi, sjötti hluti í Húnavatnssýslum og annar sjötti hluti í Skagafirði. Helmingur allra dóma var á Hellu í sumar.

Gæðamatið hefur farið af stað. 40 bú hafa náð árangri í skýrsluhaldi og landnýtingu, en aðeins 16 bú hafa náð öllum pakkanum, þar á meðal umhirðu.
WorldFengur er að verða gífurlega mikilvægur gagnabanki með 210.000 hrossum. Nú er rætt um að bæta við DNA-skráningu ætternis og verið er að sameina MótaFeng og WorldFeng.

Sjúkdómaskráning er farin í gang og er þar fyrst spattið. Mælingar á spatti í fimm og sex vetra stóðhestum fara inn í WorldFeng og verður þar öllum aðgengilegt.

Verið er að búa til reiknilíkan fyrir arfgerðamat lita í WorldFeng. Með því verður unnt að vakta sjaldgæfa liti, hjálpa ræktendum og villuprófa í skýrsluhaldi. Þetta líkan ætti að verða tilbúið á næstu mánuðum.

Tíðni lita er þessi: Brúnn 32%, rauður 29%, jarpur 16%, skjótt 10%, bleikálótt 6%, grár 6%, mósótt 5%, vindótt 3%, leirljós 2%, moldótt 1,5% og litförótt 0,5%.

Við þurfum að að halda vöku okkar og ekki tapa litum. Það væri til dæmis skaði að missa litförótta litinn. Sem betur fer eru sumir litir í lágu hlutfalli komnir aftur á uppleið, það er að segja vindóttur, grár og skjóttur litur.

Því miður stendur ekki í reglugerð um kynbótasýningar, að knapar hafi hjálma spennta. Því miður haga margir knapar sér heimskulega á þessu sviði. Ég mun mæla með því við Fagráð í hrossarækt, að reglugerðinni verði breytt þannig að hjálmar verði spenntir í dómi.

Arfgengur öldrunarsjúkdómur

Sigríður Björnsdóttir, yfirlæknir hrossasjúkdóma, lýsti rannsóknum og athugunum, sem hafa leitt til þeirrar niðurstöðu, að spatt, það er að segja slitgigt í hæklum, sé arfgengur veikleiki, öldrunarsjúkdómur, sem hefur göngu sína snemma og er að miklu leyti arfgengur. Notkun og vinnuálag er ekki áhrifavaldur og ekki heldur tölt.

Með því að mæla fyrir spatti fimm og sex vetra stóðhesta, áður en þeir koma í dóm, verður hægt að draga verulega úr spatti í íslenzka hrossastofninum. Ekki mega vera neinar leiðir fyrir sýnda stóðhesta framhjá þessari mælingu. Röntgenmyndataka er öruggari en beygjuprófun. Aflestur röntgenmynda verður samræmdur á einum stað. Niðurstöðurnar verða birtar í WorldFeng. Sömu reglur verða teknar upp um allan Íslandshestaheiminn.

Vænta má þess, að 10-12% stóðhesta mælist með spatt, 5-10 sýndir stóðhestar á ári. Ekki verður hins vegar bannað að nota spattaða stóðhesta. Rækilega hefur verið fjallað um þetta efni nýlega í Eiðfaxa, þar á meðal sagt frá alþjóðlegri ráðstefnu dýralækna á Selfossi í fyrrasumar og frá niðurstöðu Fagráðs um þetta efni.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 2.tbl. 2005