Hestar

Í skýjum á FEIF-ráðstefnu

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Almenn ánægja var á 115 fulltrúa og 13 landa ráðstefnu FEIF, alþjóðasamtaka íslenzka hestsins, í Kaupmannahöfn helgina 18.-20. febrúar. Þar starfaði stjórn FEIF, formenn og stjórnarmenn aðildarsambanda og nokkrar nefndir samtakanna.

Í ræktunarnefnd var samþykkt að taka á alþjóðlegum vettvangi upp reglur gegn spatti í stóðhestum, sem teknar verða í notkun á Íslandi á þessu vori. Í sportnefnd var samþykkt að hætta að mæla mél og hætta skrá yfir leyfileg mél, en taka í staðinn upp bannlista. Þar var einnig samþykkt, að 23 mm skeifur skuli gilda í öllum aðildarlöndum. Einnig var samþykkt að fækka skeiðdómurum í minni háttar keppni. Loks var samþykkt að taka íslenzku reglurnar upp í gæðingakeppni.

Þessar breytingar verða lagðar fyrir aðalfund FEIF í haust til endanlegrar ákvörðunar og taka því gildi eftir ár. Nánar verður skýrt frá einstökum málum ráðstefnunnar í sérstökum fréttum á Eiðfaxavefnum.

Að lokinni ráðstefnunni talaði Eiðfaxi við Guðlaug Antonsson landsráðunaut, Sigurð Sæmundsson sportfulltrúa og Jón Albert Sigurbjörnsson, formann Landssambandsins og voru þeir allir nánast í skýjunum yfir árangri hennar.

FEIF ræðst á spattið

Samþykkt var í ræktunarnefnd, að öll lönd tækju upp hinar nýju reglur á Íslandi gegn spatti. Þær gera ráð fyrir, að allir stóðhestar verði röntgenmyndaðir einu sinni fyrir 5 vetra kynbótasýningu eða að öðrum kosti fyrir 6 vetra sýningu.

Allar röntgenmyndir í hverju landi verði metnar á einum stað og niðurstöðurnar síðan kynntar opinberlega. Hins vegar verður notkun spattaðra stóðhesta ekki beinlínis bönnuð.

Þessar reglur hafa þegar tekið gildi á Íslandi og munu líklega taka gildi alls staðar í heimi íslenzka hestsins á næsta ári. Fulltrúaþing FEIF á eftir að staðfesta þær í haust.

Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir hrossa, flutti erindi á ráðstefnunni um þær niðurstöður um arfgengi spatts, sem ollu því, að farið var að ráðast gegn spatti á Íslandi.

Allir dómarar jafnir

Ekki tókst í ræktunarnefnd að herða reglur um aðgengi manna að störfum kynbótadómara.

Af Íslands hálfu og fleiri aðila var því haldið fram, að einn dómaranna ætti að þurfa að hafa mikla reynslu að baki til að sýning gæti talizt fullnægjandi. Bent hafði verið á það, að í sumum löndum séu stundum haldnar sýningar, þar sem hjón eru dómarar og sýnendur, sami maður sé einn daginn sýningarstjóri, annan daginn dómari og þriðja daginn sýnandi.

Hins vegar dugir ekki að standa þannig að málum, ef ætlunin er að tala niðurstöður sýningarinnar upp í WorldFeng. Þar sem Norðurlönd eru orðnir aðilar að þeim gagnabanka, má gera ráð fyrir, að ekki verði staðið þar óvandað að málum.

Í Þýzkalandi verða hins vegar áfram einhverjar kynbótasýningar utan ramma WorldFengs. Þróunin er hins vegar í þá átt að menn vilja vera innan rammans og taka þá á sig strangari siðareglur.

Tillagan um harðari dómgæzlu náði meðal annars ekki fram að ganga, að því var haldið fram, að ekki mætti stéttskipta hópi dómara, sem allir hafa sömu réttindi.

Frjáls mél og skeifur 23 mm

Í sportnefnd FEIF voru nokkrar breytingar samþykktar á keppnisreglum. Þær verða teknar upp á Íslandi, þar sem Landsþing hestamannafélaga ákvað í haust að taka upp alþjóðlegu reglurnar.

Ákveðið var að fella niður skrá yfir leyfð mél í keppni. Í stað þess verður val méla gefið frjálst, en gefinn út sérstakur listi yfir bönnuð mél.
Ákveðið var að samræma skeifuþykkt á alþjóðavísu í 23 mm þykkt. Verður hér eftir hægt að fara milli landa í keppni án þess að breyta um skeifur. Fleygar undir skeifum verða leyfðir í keppni.

Samþykkt var að fækka dómurum í minni háttar skeiðkeppni. Í stað níu löglegra dómara verði leyft að hafa þrjá dómara og sex skeiðeftirlitsmenn, sem meðal annars eiga að hafa gætur á, að reiðmennska á skeiði fari ekki úr böndum.
Einnig var samþykkt að taka íslenzku reglurnar um gæðingadóma, sem verið er að þýða á ensku, upp í öllum löndum íslenzka hestsins. Námskeið fyrir útlendinga verður haldið á Íslandi í sumar.

Áhugi hefur vaknað á gæðingadómum í ýmsum löndum, þar sem þeir voru ekki til áður. Meðal annars er rætt um að setja upp Euromót, sem verði hliðstætt íslenzku Landsmóti.

Í nokkrum atriðum, svo sem um stærð auglýsinga á búningum og um bólusetningar, verður farið eftir Alþjóðasambandi hestaíþrótta.

Reiðkennaranám

Menntanefndin samþykkti rammaáætlun eða beinagrind um áfangaskipt nám fyrir reiðkennara, að nokkru leyti í svipuðum farvegi og námsferill reiðkennara á Íslandi, en nógu opið til þess að flest menntakerfi í Íslandshestamennskunni geti fundið sér stað innan þess. Þetta auðveldar samvinnu í menntamálum milli landa.

Fulltrúi frá Alaska í Bandaríkjunum kvartaði við blaðamanna Eiðfaxa um, að reglur um knapamerkjakerfið væru ekki aðgengilegar á ensku. Honum hafi verið sagt, að fjármagn skorti til þýðingar og að enn væri það ekki fullbúið. Hann hafði því væntingar til rammaáætlunar kennslunefndar FEIF, sem er upprunnið í Hollandi.

Formaður menntanefndarinnar taldi, að Ísland og önnur lönd ættu ef til vill ekki samleið að öllu leyti, af því að á Íslandi væri námið í hinu almenna skólakerfi og lyti þeim reglum, sem þar gilda. Svipaðar aðstæður eru raunar að skapast á Norðurlöndum. Benti hann á, að reiðkennsla væri komin á háskólastig á Íslandi. Löndin í þessu kennslukerfi munu sennilega gefa út einn passa, sem gildir fyrir reiðkennara milli landa.

Í pallborðsumræðu um reiðkennslu kom svo ítrekað fram það sjónarmið, að varhugaverð gæti verið sú kennsla, sem felst í helgarnámskeiðum farandkennara, sem víða eru eftirsóttir. Í því sjónarmiði virðist felast ákveðin spenna heimakennara gagnvart farandkennurum, sem margir hverjir koma einmitt frá Íslandi.

Euromót eins og Landsmót

Tone Kolnæs, formaður FEIF, lýsti í lokaræðu ráðstefnunnar nokkrum atriðum, sem voru til umræðu á formannafundum landsamtakanna og verða til umræðu í stjórninni á næstunni.

Rætt verður um að setja upp Euromót í Evrópu að hætti hins íslenzka Landsmóts, fyrir gæðinga og kynbótahross. Ennfremur samstarf landssamtaka um sýningar söluhrossa.

Rætt verður um að gera ráðstefnuna árlega, svo að fulltrúar hinna ýmsu sviða hestamennskunnar geti hitzt og haft samráð sín í milli til undirbúnings mála fyrir fulltrúaþing.

Karlakór og Guðni ráðherra

Málþing um íslenzka hestinn var haldið á Norðurhafsbryggju, því miður á sama tíma og ráðstefnan, svo að ekki gátu menn sótt það, en komust hins vegar á reiðsýningu, sem haldin var í kjölfar málþingsins.

Sýningin leið fyrir snjókomu og vind, en Karlakórinn Fóstbræður vakti lukku. Þá töluðu Danir um, að Guðni Ágústsson ráðherra hefði farið á kostum í ræðu sinni og sögðu fréttamanni, að Íslendingar ættu gott að eiga einn skemmtilegan ráðherra.

Enn er til losarabragur

Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur:

Mikil samstaða var um spattið og þá leið, sem Íslendingar völdu í haust. Við munum koma á fót námskeiði í réttri röntgenmyndatöku, fjórum myndum af hverjum hækli. Allar myndir verða metnar á einum stað.

Okkur tókst ekki að ná fram þeirri kröfu, að aðaldómari hverrar kynbótasýningar komi af lista yfir reynslumestu dómarana. Við sáum í fyrra í Þýzkalandi sýningar, þar sem hjón dæmdu og sýndu á víxl og þar sem sýningarstjórar, dómarar og sýnendur skiptu um hlutverk. Vilji menn hafa losarabrag áfram, komast slíkar sýningar ekki í WorldFeng. Menn verða því fyrr eða síðar að fallast á strangari siðareglur í dómum, þótt það hafi ekki tekizt núna.

Árangursríkur fundur

Sigurður Sæmundsson, í sportnefnd FEIF:

Þetta var mjög árangursríkur fundur. Gerð var sátt um millileið í skeifuþykkt, 23 millimetrum. Með beizlisreglum fara allar mælingar út og öll mél verða frjáls, nema þau séu sett á bannlista. Reglur um skeiðdóma á minni háttar sýningum voru einfaldaðar niður í þrjá dómara og sex skeiðeftirlitsmenn. Gæðingakeppnin íslenzka verður tekin upp í öðrum löndum og íslenzku reglurnar einfaldlega þýddar.

Eini gallinn við ráðstefnuna er, að fulltrúafundur FEIF þyrfti að koma strax á eftir, en ekki um haustið, því að það tefur núna framvinduna um heilt sýningarár.

Útbreiðir hestinn okkar

Jón Albert Sigurbjörnsson, formaður LH:

Þetta var rosalega afdrifaríkur fundur, sem eykur mikilvægi alþjóðasamtakanna fyrir íslenzka hestinn. Slíkar ráðstefnur, þar sem fjöldi manns mæta og taka þátt í umræðum í nefndum og á fundum, verður til að efla stöðu FEIF sem mikilvægasta aflsins við útbreiðslu íslenzka hestsins. Við erum að vísu fámennir Íslendingar í nefndunum, en á móti kemur, að okkar fólk hefur unnið heimavinnuna sína vel og tekur afgerandi þátt í umræðunni. Sem dæmi um það má nefna Sigurð Sæmundsson, sem hefur mikla yfirsýn, nýtur mikils árlits í sportnefndinni og hefur lag á að leiða góð mál til lykta.

Eiðfaxi 2.tbl. 2005

Fagurt útsýni í Vonarskarði

Hestar

Kristjana og Baltasar Samper:

Við lögðum af stað frá Skógarhólum, þar sem menn og hestar höfðu safnast saman. Þetta voru sex manns með 28 hesta og svo tveir í trússi. Ferðinni var heitið upp á Kjöl og Sprengisand og síðan í Vonarskarð suður með Vatnajökli í Langasjó og síðan vestur Landmannaleið til baka. Þetta átti að vera tveggja vikna ferð.

Listafólkið Kristjana og Baltasar Samper segja blaðamanni Eiðfaxa frá einni af langferðum þeirra um landið á rúmlega þriggja áratuga ferli þeirra á þessu sviði. Þau fóru þessa ferð í júlí árið 1996 með Karli Benediktssyni, Margréti Grettisdóttur, Gretti Björnssyni, og Þorvaldi Þorvaldssyni. Í trússinu voru Halldóra Guðnadóttir og Sigurður Ingi Sveinsson.

Fyrsta dagleiðin var riðin austur frá Skógarhólum um Eyfirðingaveg til Hlöðufells og síðan áfram um línuveginn austur á Kjalveg og honum fylgt að Fremstaveri undir Bláfelli. Þessi langa dagleið er gott dæmi um, að ekki verður öllum hent eða að skapi að láta hross sín feta í fótspor þessa vaska ferðahóps.

Frá Fremstaveri var farin venjuleg reiðleið austur fyrir Bláfell upp á Hvítárbrú og síðan í Árbúðir skálann norðan við Hvítárvatn. Þessi hópur miðar dagleiðir eftir aðstæðum fyrir hross, og notar skála aðallega til matseldar þar sem þeim er fyrir að fara en hefur þar að auki gott eldhústjald, og gistir að mestu leyti í tjöldum, sem auðvitað gefa meira svigrúm í vali og skiptingu dagleiða.

Leiðin frá Árbúðum lá síðan upp með Svartá í Svarárbotna á Kili og síðan farið til austurs yfir þjóðveginn á leiðina yfir brúna á Jökulfalli til gistingar á tjaldstæði í Kerlingafjöllum. Þaðan var síðan farið norður fyrir Kerlingafjöll að jeppaskálanum Setri og þaðan riðið eftir kompás að skálanum í Tjarnarveri.

Næsta dagleið var um Arnarfell í Nýjadal. Farið var frá Tjarnaveri hefðbundna reiðleið að Nautaöldu, síðan fyrir Múlajökul. Þegar komið var að Arnarfellskvísl var hún í miklum vexti upp á miðjar síður. Sama var að segja um Þjórsárkvíslar austan Arnarfells unz komið var að vaðinu í Þjórsá sjálfri, sem var frekar vatnslítil.

Austan Þjórsár var fljótlega komið norðan Háumýra upp á gamla Sprengisandsveginn, sem fylgt var tvo-þrjá kílómetra til suðurs að afleggjaranum til Nýjadals. Þaðan er nokkuð löng leið með afleggjaranum til náttstaðar. Þar skildi hópurinn við hefðbundnar reiðleiðir, því að næst átti að fara í Vonarskarð og suður með Vatnajökli.

Fyrst var riðið frá skálanum austur Nýjadal og síðan upp hlíðar hans í skarðið suð-vestan Eggju, þaðan sem er voldugt útsýni, og stefnt á Deili í Vonarskarði, farið vestur fyrir hann og síðan riðið vestur Tvílitskarðs milli Skrauta í norðri og Kolufells í suðri. Úr skarðinu var mikilfenglegt útsýni vestur yfir Kvíarvatn til Hofsjökuls.

Frá Kvíarvatni var riðið norðan Kvíslarhnjúka austan við Nyrðri-Hágöngur að Syðri-Hágöngum, þar sem við gistum. Þetta var ákaflega fallegt svæði með miklum hverum, Fögruhverum. Vegna virkjana er þetta svæði allt núna komið undir Hágöngulón, þar á meðal leiðin, sem við riðum við Kvíslarhnjúka og Hágöngur. Þessi leiðarlýsing getur því ekki orðið forskrift fyrir aðra hestamenn.

Þessa nóttina sváfum við lítið vegna spennings, því að snemma morguns þurftum við að reyna að leggja í Köldukvísl. Restin af ferðinni var háð því, að við kæmumst yfir ána. Við komumst klakklaust yfir ána, sem var þung, og riðum austur með Sveðju upp að Köldukvíslarjökli í Vatnajökli.

Þar beygðum til hásuðurs undir fjöllunum og riðum milli hrauns og hlíða, vestan við Bryðju, milli Surts og Hraungils, yfir Sylgju að Innri-Tungnaárbotnum. Við fylgdum síðan hraunjaðrinum við Jökulgrindur að skálanum í Jökulheimum, þar sem við höfðum tveggja nátta stað.

Eftir hvíldardag í Jökulheimum riðum við yfir Tungnaá á breiðu vaði sunnan við Botnaver, fórum þvert yfir Tungnaárfjöll að Skeiðará nokkru innan við Langasjó. Við tókum krókinn austur fyrir Fögrufjöll, kringum enda þeirra í Skaftárfelli, milli ár og fjalla. Vegna eldgosa og flóða rann áin ekki eins og á korti, heldur þétt upp með Fögrufjöllum.

Þarna lentum við í miklum vandræðum í skriðum milli Fögrufjalla og Skeiðarár. Við misstum hrossin tvisvar upp á fjöll og urðum að hrekja þau niður að ánni, þar sem var eina færa leiðin. Á einum stað rann skriða undan fótum Kristjönu sem lenti úti í ánni, en gat haldið sér í hestinn, og klórað sig upp úr ánni aftur.

Fljótlega fórum við yfir Útfall, þar sem rennur úr Langasjó í Skeiðarár, fórum yfir Fögrufjöll norðvestur að Langasjó og riðum gígana suðaustan við vatnið, sums staðar í flæðarmáli eða úti í vatninu. Þetta er ákaflega fallegt og einstætt land, sem nú er verið að ræða um að setja undir miðlunarlón. Við enduðum svo atburðaríkan dag með því að slá upp tjöldum við vesturenda vatnsins undir Sveinstindi.

Hér vorum við aftur komin á hefðbundnar slóðir, riðum daginn eftir með jeppaslóð suðvestur í Hólaskjól, þar sem nútíminn tók á móti okkur með sturtum og öðrum lúxus. Þaðan héldum við síðan vestur Landmannaleið með næturstöðum í Landmannahelli og Áfangagili og loks um Rjúpnavelli niður í Skarði í Landssveit.

Þar lauk ferðinni, án þess að neitt alvarlegt hefði komið fyrir, varla farið skeifa undan hrossi. Sólskin fylgdi hópnum mest allan tímann og gerði ferðina mun auðveldari en verið hefði í sudda eða hvassviðri með litlu skyggni. Við höfðum fengið færi á að sjá tilkomumikil landsvæði, þar sem þarfasti þjónninn er bezta samgöngutækið.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 2.tbl. 2005

Ferðafélagið vinnur fyrir hestamenn

Hestar

Ásgeir Margeirsson, formaður Mannvirkjanefndar LH, og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands:

Ferðafélag Íslands vill auka og bæta sambúð og samstarf við hestaferðamenn, samtök hestamanna og fyrirtæki í hestaferðum, sérstaklega á svæðum, þar sem félagið er með starfsemi. Þessi stefna hefur verið mörkuð af stjórn Ferðafélagsins, sem vinnur nú að ákveðnum aðgerðum og endurbótum á tveimur stöðum til að bæta aðstöðu og aðgengi hestaferðamanna. Þetta eru Hvanngil og Hlöðufell.

Í Hvanngili á Fjallabaki syðra vill Ferðafélagið að hestaferðamenn viti, að þeir eru velkomnir þangað til áningar og dvalar. Skálavörðum verður gert kleift að vera hestamönnum til aðstoðar og upplýsinga. Reynt verður að merkja og greina hestaleiðir í nágrenni staðarins, bæta aðhald fyrir hesta á staðnum og koma upp betri hreinlætis-og svefnaðstöðu. Einnig viljum við leiða betur rekstrarhesta að hestagirðingunni með rafstreng.

Á Hlöðuvöllum við Hlöðufell hefur Ferðafélagið látið bora eftir vatni og tókst sú borun vel. Það undirbýr nú að koma fyrir dælu í borholuna, svo að þar verði nú loks nóg vatn fyrir menn og hesta. Hingað til hefur vatnsskortur háð næturgistingum hestamanna á þessum stað. Skálinn tekur 15 manns og þar er bæði gott gerði og stórt hestahólf. Þetta er í notalegri dagleið frá Skógarhólum, kjörinn áningarstaður fyrir hestamenn á leið frá höfuðborgarsvæðinu um Skógarhóla yfir í Biskupstungur, Hreppa og á Kjöl.

Þegar komin er reynsla á þessa tvo staði, mun Ferðafélagið endurmeta stöðuna og stefna að því að þróa aðra staði sem liggja vel við hestaferðum og þjálfa skálaverði upp í að vera betur í stakk búnir til að þjóna hestamönnum og merkja reiðleiðir í nágrenni þeirra. Ferðafélagið lítur á hestaferðamenn sem hverja aðra félagsmenn, viðskiptavini og samstöðuaðila í góðri umgengni um landið, sanna ferðamenn.

Ferðanefnd hestamannafélagsins Fáks, sem var upphafsaðili langra hestaferða á félagslegum grunni og hefur áratugum saman verið í forustu fyrir slíkum ferðum, hefur óskað eftir samstarfi við Ferðafélagið um gerð umhverfisstefnu, sem farið verður eftir í ferðalögum á vegum félagsins. Mun Ferðafélagið veita aðstoð með hliðsjón af eigin umhverfisstefnu.

Ferðafélagið á í góðum samskiptum við ýmsa aðila, sem skipta máli fyrir hestaferðamenn, svo sem Umhverfisstofnun, samtök ferðaþjónustunnar, sveitarfélög og umsjónaraðila hálendissvæða. Hvarvetna hef ég orðið var við, að ekki er litið öðrum og gagnrýnni augum á hestamenn en göngumenn á ferðum um landið. Markmiðið er að allir málsaðilar geti verið í góðu sambýli.

Í tengslum við það mun ég nýta mér tillögur, sem samþykktar voru á síðasta landsþingi hestamannafélaga um málefni, sem varðar hestaferðamenn. Mun ég ýta á eftir því, að Ferðafélagið taki slík mál upp á sína arma í samskiptum sínum við þessa aðila, sem ég nefndi, og aðra slíka, sem málin kunna að varða.

Þar á meðal eru atriði á borð við merkingu á æskilegum áningarstöðum og uppsetningu hornstaura, sem hestaferðamenn geta síðan tengt saman með bandi til að mynda gerði. Þetta getur verið bráðabirgðalausn meðan málsaðilar hafa ekki fjármagn til þess að gera varanleg gerði. Aðgerðir sem þessar eru öllum ferðamönnum til bóta og eru jákvæðar fyrir náttúruna og umhverfið.

Einnig er um að ræða stuðning við að koma leiðarpunktum reiðleiða á fjallvegum inn á reiðleiðakort Landmælinga Íslands á vefnum.

Ferðafélagið er félag, þar sem margir hestaferðamenn eru félagar. Við viljum benda hinum á að gerast félagar og fá þá í kaupbæti árbók Ferðafélagsins, sem er mikilvægt ferðagagn og stórfróðleg lesning fyrir alla, sem ferðast um landið. Auk þess býður Ferðafélagið upp á margþætta þjónustu og upplýsingagjöf sem nýtist öllum ferðamönnum, hestaferðamönnum og öðrum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 1.tbl. 2005.

Hugsjón og lífsstíll

Hestar

Í þessu tölublaði Eiðfaxa mæla nokkrir þekktir hestamenn, sem þekkja vel til kostnaðar við ræktun, einum rómi um, að ræktun sé ekki atvinnuvegur, sem skili arði, heldur lífsstíll eða hugsjón, sem skili ánægju. Þeir telja, að ekkert sé fjárhagslega upp úr ræktun sem slíkri að hafa. Tekjur ræktenda komi úr öðrum þáttum hestamennskunnar eða jafnvel frá allt öðrum atvinnugreinum.

Samt fjölgar ræktendum stöðugt. Lélegar afkomuhorfur virðast ekki fæla fólk frá ræktun sér til ánægju og upplyftingar. Raunar einkennist íslenzk hrossarækt í auknum mæli af þátttöku aðila, sem hafa engar sérstakar væntingar um fjárhagslega afkomu og búast sumir hverjir ekki einu sinni við, að neinn hluti fjárfestingarinnar skili sér til baka.

Þetta er óneitanlega sérkennileg staða. Heill atvinnuvegur tamningamanna, þjálfara, sýningarmanna, kennara, kaupmanna, flutningamanna, útflytjenda, járningamanna, dýralækna og ýmissa annarra hér á landi og í fjölmörgum öðrum löndum lifir, að vísu misjafnlega góðu lífi, á því að í bakgrunninum sé til fólk, sem er reiðubúið að gefa vinnuna sína, svo að íslenzk hross séu ræktuð.

Þetta er bæði kostur og galli. Markaðshagfræðin segir, að ótraustur sé atvinnuvegur, sem hvílir á arðlausum grunni. Reynslan sýnir samt, að þessi atvinnuvegur blómstrar í trássi við fræðibækurnar. Markaðshagfræðin segir, að áhugamenn hljóti að skaða atvinnumenn með því að halda niðri verðgildi ræktunar. Reynslan sýnir samt, að fremur eru það óskipulagðir fjöldaframleiðendur í hefðbundnum stíl, sem halda niðri verðinu.

Um allt þetta má lesa hér í Eiðfaxa. Veltið því fyrir ykkur og sendið okkur línu.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi, 1.tbl. 2004

Gott framfaraár

Hestar

Þetta hefur verið gott ár fyrir íslenzka hestinn. Útflutningur er farinn að hressast að nýju eftir nokkurra ára lægð. Minnisstæð eru ýmis stórmót heima og heiman og ber þar hæst landsmótið. Keppnisreglur hafa verið samræmdar í alþjóðlega mynd. Skref hafa verið stigin í átt til kynbóta á nýjum sviðum, svo sem í spatti. Allt þetta og ýmislegt fleira sýnir okkur mynd af atvinnu- og áhugagrein, sem er í örum vexti.

Útflutningur hrossa hefur fundið botninn og er nú að skríða aftur upp að nýju. Enn er hann mun minni en á velgengnisárunum, áður en kæruleysi okkar gagnvart spatti og sumarexemi leiddi til langvinnrar lægðar. Nú eru sjáanleg merki þess, að fagráð í hrossarækt fari að taka á heilsuvandamálum, sem undanfarin ár hafa staðið í vegi fyrir trausti kaupenda á íslenzkum hestum. Vonandi leiðir brottför forvígismanns og hrossaræktarráðunautar ekki til endurnýjaðrar afneitunar á raunverulegum vanda.

Landsmót þessa árs var það bezta í sögunni. Nú efast enginn lengur um, að rétt hafi verið að fjölga landsmótum. Þetta er orðin einstæð veizla fyrir augað. Hún sogar til sín fleira fólk á tveggja ára fresti en hún gerði áður á fjögurra ára fresti. Velgengni þessa móts hefur stuðlað að auknum áhuga erlendis á gæðingakeppni. Þar voru slík mót áður næsta óþekkt, en eru nú farin að skjóta upp kolli á ýmsum stöðum.

Jafnframt hefur íþróttakeppni orðið alþjóðlegri á allra síðustu árum. Komið hefur til sögunnar meginlandsmót, sem gerir það sama fyrir þýzkumælandi heiminn og norrænu mótin hafa gert fyrir Norðurlönd. Við siglum fram á við í þremur greinum í senn, í hestaíþróttum, í gæðingakeppni og í kynbótakeppni.

Þetta var árið, þegar skriðan kom í samræmingu á kynbótasýningum. Íslenzka kerfið hefur nánast alls staðar verið innleitt, nema í Þýzkalandi, þar sem um helmingur hrossanna eru sýnd eftir íslenzkum reglum og reikningsaðferðum og helmingur eftir þýzkum reglum og reikningsaðferðum. Við erum að nálgast þá stund, að öll íslenzk kynbótahross, hvar sem er í heiminum, lúti sama mati sömu dómara.

Á sama tíma og önnur lönd taka upp íslenzkar reglur í kynbótadómum og gæðingadómum hefur Ísland ákveðið upp að taka upp alþjóðlegar reglur íþróttakeppninnar á Íslandi. Landsþing hestamannafélaga ákvað þetta á þingi sínu í haust. Það sýndi, að Ísland getur bæði gefið og þegið. Hér eftir færast deilur um breytingar á íþróttakeppnisreglum inn í sportnefnd alþjóðasamtakanna FEIF í stað þess að einoka tíma landsþinganna áratug eftir áratug.

Landssambandið hefur styrkt stöðu sína, einkum formaður þess, Jón Albert Sigurbjörnsson, sem tók eindregna afstöðu með FEIF-reglum, þegar horfur voru á víðtækri andstöðu vel skipulagðra einstaklinga. Enda hafði gengið sér til húðar sú stefna, að sífelld tilraunastarfsemi og sífelldar breytingar tröllriðu einni af íþróttum landsmanna, hestaíþróttum. Að lokum sáu landsþingsfulltrúar sjálfir, að þessi hringavitleysa gekk ekki lengur.

Löng ferðalög á hestum njóta vaxandi vinsælda meðal heimamanna og heimsækjenda. Þau kalla á aukin samskipti við aðra aðila, sem koma að málum afrétta og hálendis, vegagerðar og landmælinga. Þörf eru á auknu frumkvæði af hálfu hestamanna, svo að forusta um breytingar falli ekki í hendur þeirra, sem líta á ferðalög hestamanna sem afgangsstærð eða jafnvel óþarfan þátt í náttúru landsins. Reynslan sýnir, að hestamenn geta haft áhrif, en þeir þurfa að beita sér meira í samfélaginu.

Á næsta ári kemst Svíþjóð í sviðsljós heimsleikanna, sem jafnan eru þungamiðja hestamennskunnar á þeim árum, þegar landsmót eru ekki haldin. Fyrir áratug stóð Svíþjóð langt að baki Þýzkalandi og Danmörku í aðild að íslenzka hestinum, en hefur síðan farið hamförum á framabraut og stendur nú ekki að baki fremstu löndum. Mikil stemmning fylgir jafnan heimsleikum og má búast við, að svo verði einnig að þessu sinni.

Næsta ár mun einnig mótast af nýjum hrossaræktarráðunauti, hörðum aðgerðum gegn spatti í hrossastofninum og skrefum í átt til gegnsærra aðgerða gegn ófrjósemi í stofninum. Hryssueigendur munu ekki lengi enn sæta spöttuðum og ófrjóum stóðhestum. Loks má ekki gleyma, að allur heimur íslenzka hestsins bíður með óþreyju eftir læknisfræðilegri lausn á sumarexemi, sem enn heldur útflutningi hrossa í heljargreipum.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 10.tbl. 2004

Hugsjón og lífsstíll

Hestar

Í þessu tölublaði Eiðfaxa mæla nokkrir þekktir hestamenn, sem þekkja vel til kostnaðar við ræktun, einum rómi um, að ræktun sé ekki atvinnuvegur, sem skili arði, heldur lífsstíll eða hugsjón, sem skili ánægju. Þeir telja, að ekkert sé fjárhagslega upp úr ræktun sem slíkri að hafa. Tekjur ræktenda komi úr öðrum þáttum hestamennskunnar eða jafnvel frá allt öðrum atvinnugreinum.

Samt fjölgar ræktendum stöðugt. Lélegar afkomuhorfur virðast ekki fæla fólk frá ræktun sér til ánægju og upplyftingar. Raunar einkennist íslenzk hrossarækt í auknum mæli af þátttöku aðila, sem hafa engar sérstakar væntingar um fjárhagslega afkomu og búast sumir hverjir ekki einu sinni við, að neinn hluti fjárfestingarinnar skili sér til baka.

Þetta er óneitanlega sérkennileg staða. Heill atvinnuvegur tamningamanna, þjálfara, sýningarmanna, kennara, kaupmanna, flutningamanna, útflytjenda, járningamanna, dýralækna og ýmissa annarra hér á landi og í fjölmörgum öðrum löndum lifir, að vísu misjafnlega góðu lífi, á því að í bakgrunninum sé til fólk, sem er reiðubúið að gefa vinnuna sína, svo að íslenzk hross séu ræktuð.

Þetta er bæði kostur og galli. Markaðshagfræðin segir, að ótraustur sé atvinnuvegur, sem hvílir á arðlausum grunni. Reynslan sýnir samt, að þessi atvinnuvegur blómstrar í trássi við fræðibækurnar. Markaðshagfræðin segir, að áhugamenn hljóti að skaða atvinnumenn með því að halda niðri verðgildi ræktunar. Reynslan sýnir samt, að fremur eru það óskipulagðir fjöldaframleiðendur í hefðbundnum stíl, sem halda niðri verðinu.

Um allt þetta má lesa hér í Eiðfaxa. Veltið því fyrir ykkur og sendið okkur línu.

Jónas Kristjánsson

Ræktun
skilar
ekki arði

Niðurstaða rekstrargreiningar Hestamiðstöðvarinnar á afkomu bænda í hrossarækt sýnir, að þeir hafa ekkert upp úr ræktuninni sjálfri, en lifa af ýmsu öðru, sem sumt tengist hrossarækt, en annað ekki. Samkvæmt viðtölum Eiðfaxa við hrossabændur er ræktunin ekki raunveruleg búgrein í hefðbundnum skilningi, heldur eins konar lífsstíll eða hugsjón. Hún skilar ekki arði, heldur ánægju.

Er ekki
búgrein

Bjarni Þorkelsson á Þóroddsstöðum:

Ég hef aldrei getað leyft mér að líta á hrossarækt sem búgrein. Þetta hefur alltaf verið tómstundagaman eða hugsjón meðfram fullri vinnu á öðru sviði. Ég hef mátt þakka fyrir, ef búskapurinn hefur lufsast til að reka sig. Það hefur gerzt sum árin, en önnur ekki.

Búskapurinn byggist auðvitað á því, að fjölskyldan gerir nánast allt sjálf nema að þjálfa beztu hrossin fyrir sýningar og koma þeim á framfæri. Að því leyti er ég í afar farsælu samstarfi við einn flinkasta tamninga- og sýningamann landsins, heimsmeistarann Daníel Jónsson. Við temjum, þjálfum, járnum og seljum að mestu leyti sjálf. Þetta samstarf við Daníel er eflaust lykill að því, að á þessu ári og einkum í haust hefur þó gengið svo vel, að ég er að láta reyna á, hvort ég geti snúið mér að þessu eingöngu. Ég er til dæmis farinn að selja mönnum helming á móti mér í efnilegum mertrippum, sem eru svo áfram í vist hjá mér.

Í sjálfu sér hef ég ekki tekið út þátt ræktunarinnar í búskapnum. Það er hins vegar ljóst, að hún skilar sér óbeint, ef ræktunarbú öðlast orðspor og getur farið að selja jafnt og þétt. Við þær aðstæður má segja, að brugðið hafi til hins betra og ræktunin sé farin að rúlla yfir núllið.

Það skiptir líka miklu máli, að ræktendur láti ekki illar tungur segja sér fyrir verkum. Skynsamt fólk og fordómalaust sækist eftir því að halda undir stóðhestana mína. Slíku fólki fjölgar í röðum hrossaræktenda.

Hrossum fyrirgefst margt

Ingimar Ingimarsson á Hestamiðstöðinni:

Hestamiðstöðin og Hólaskóli hófu í ársbyrjun 2001 gæðaátak í hrossabúskap. Um tíu bændur í Skagafirði og Húnaþingi tóku þátt í verkefninu, sem hefur staðið síðan. Í átakinu voru teknir fyrir fimm meginþættir í hrossabúskap, kynbætur; fóðrun, uppeldi og heilbrigði; landnýting; tamning, þjálfun og sýningar; rekstur, markaðssetning og sala.

Haldin voru námskeið í þessum þáttum á Hólum árið 2001 og þátttakendur heimsóttir. Síðan hefur átakinu verið haldið við með heimsóknum og framhaldsfundum. Snemma í ferlinu var gerð rekstrargreining á hrossabúskap þátttakenda til að komast að raun um, hver væru raunveruleg útgjöld og hverjar væru raunverulegar tekjur hrossabænda.

Tekjur voru reiknaðar af hrossasölu og tengdum tekjum, svo sem tamningu, folatollum, hestaferðum, reiðkennslu og fleiru. Útgjaldaliðir blandaðra búa voru brotnir niður, svo að hægt væri að finna þátt hrossanna í fóðri, áburði og vélanotkun. Ennfremur var reiknaður ýmis kostnaður við dýralækna, járningar, skeifur og reiðver, folatolla og tamningagjöld. Einnig var reiknuð hlutdeild í rafmagni, fasteignagjöldum og tryggingum, í viðhaldi húsa og girðinga, síma og ýmsu öðru.

Markmiðið með þessari úttekt var að reyna að finna fá skýrari mynd af ástandinu í rekstri hrossabúa og finna módel fyrir hrossarækt, sem gæti nýtzt öðrum á sama sviði. Sjá mætti þætti, þar sem auka mætti gæði og hagkvæmni. Oft hafa menn ekki greint milli hrossaræktar og annarra búgreina og jafnvel ekki viljað horfast í augu við staðreyndir.

Í verkefninu settu þátttakendur sér markmið, svo sem að nýta ræktunarhóp sinn betur, einkum að fækka afætum og beina ræktuninni að nýtilegustu hrossunum. Allir fækkuðu hrossum sínum á tímabilinu eins og raunar margir fleiri hafa gert á sama tíma. Grisjun hrossa er meginþáttur í bættri afkomu hrossabúa. Menn verða að temja sér markvissari vinnubrögð og ekki sætta sig við fullt af óskilgreindum hrossum í ræktuninni.

Eitt helztu atriðanna, sem fram komu í rekstrargreiningunni, var að hrossum fyrirgefst margt umfram kindur og kýr. Einlembdar ær og illa mjólkandi kýr eru felldar, en tilfinningaleg tengst ráða aftur á móti miklu um viðhorfin til hesta. Oft er töluvert um reiðhesta til frístunda, sem skekkja afkomumyndina. Slíkir hestar eru oft í eigu ættingja, sem farnir eru að heiman.

Annað veigamikið atriði er óreglulegt tekjuflæði hrossabúskapar. Menn geta ekki gengið að reglubundnum sölum sem vísum eins og hægt er í mjólk og kjöti. Gjöldin falla hins vegar til jafnt og þétt og erfitt getur verið að stýra breytilegum kostnaði. Fóður vegur þar þungt á metunum. Allt gerir þetta hrossaræktun fjárhagslega erfiða.

Flestir hrossabændur eru annað hvort í öðrum búskap líka eða spara sér aðkeypta þjónustu við hrossabúskapinn með því að gera sem flest sjálfir, járna til dæmis og temja sjálfir. Raunar er það grundvallarforsenda í afkomu hrossabúskapar að vera sem mest sjálfbjarga og kaupa helzt ekki aðra þjónustu en sýningar og þjálfun fyrir þær.

Niðurstaða rekstrargreiningarinnar var, að almennt hafa hrossaræktendur ekkert upp úr ræktuninni sjálfri í beinhörðum peningum og sumir raunar minna en ekki neitt. Þeir höfðu tekjur sínar af öðrum búgreinum, af því að þjónusta sig sjálfir í stað þess að kaupa af öðrum, og af þjónustu fyrir aðra í ýmsum greinum hestamennskunnar.

Hins vegar má líta á það, að hrossaræktin er grundvöllur að öflun meiri tekna en ella af tamningum og öðru slíku og gerir mönnum kleift að skipuleggja slíka vinnu eftir álagstímum á öðrum sviðum, til dæmis misjöfnum önnum af sauðfjárbúskap. Einnig má líta á það, að hafi hrossabónda tekizt vel til og ræktunin gert garðinn frægan, stuðlar það að tekjum hans á hliðarsviðum og liðkar fyrir sölu hrossa.

Flóknasta búgreinin

Kristinn Guðnason í Árbæjarhjáleigu:

Liðinn er tími hrossabúa, þar sem hrossin eru aukageta á jaðri annarra búgreina. Algengast var á slíkum búum, að hrossin legðu ekkert til sameiginlegs kostnaðar og væru seld á lágu verði, oftast lítið gerð og stundum bara til að losna við þau. Menn höfðu litla tilfinningu fyrir kostnaðinum.

Einnig er liðin sú tíð, að kúabændur og sauðfjárbændur fari í hrossarækt til að bæta sér upp minni kvóta á hefðbundnum sviðum. Menn eru almennt farnir að átta sig á, að hrossarækt er allt annað fag og að mörgu leyti flóknara en aðrar búgreinar, þar sem fengizt er við afmarkaða hluti á borð við mjólkurmagn eða fallþunga.

Ekki er hægt að mæla með slíkri hrossarækt sem hliðarbúgrein nú á tímum. Hún er í mesta lagi dýrt frístundagaman góðbænda, sem hafa gaman af hestum, en reikna ekki með tekjum af þeim. Ekki má heldur gleyma, að lágt söluverð slíkra bænda á hrossum og þjónustu á borð við hagabeit heldur uppi röngum verðhugmyndum á þessu sviði. Hvað viltu borga, spyrja bændur, sem hafa hross sem jaðarbúgrein.

Hrossabændur geta haft sómasamlega afkomu, ef þeir reka blandaðan búrekstur með hross. Þeir mega þá helzt ekki hafa meira en 25-30% af tekjum sínum af ræktuninni. Hitt verður að koma frá margvíslegri hestatengdri þjónustu fyrir aðra, svo sem tamningum, járningum, hagabeit, ferðaþjónustu, milligöngu í sölu hrossa, svo og kennslu. Það telur allt í tekjunum.

Ég tel, að blandað hrossabú eigi ekki að hafa mörg ræktunarhross. 10-15 folöld á ári er alveg nóg. Leggja ber áherzlu á, að þetta séu góð hross, hátt yfir meðallagi. Ræktun annarra hrossa felur í sér hreint tap. Gæðin skipta meira máli en magnið og menn bæta sér upp sölusveiflur með tekjum af þjónustu.

Bændaskólinn á Hólum kemur til móts við þessar þarfir, einkum með verklegri kennslu við búskap á sumrin. Mikilvægt er, að nemendur í starfsþjálfun kynnist ýmsum hliðum hrossabúskapar, en lendi ekki á jörð, þar sem eitt sérsvið er stundað einhliða, til dæmis ræktun eða tamningar. Auka þarf þó kennslu, sem lýtur að ferðaþjónustu hrossabænda og markaðsmálum þeirra.

Mikilvægt er, að hrossabændur átti sig á, að þeir eru að stunda alvöru atvinnuveg, sem hefur allt sitt uppi á borði. Skattamál þurfa að vera í lagi, enda fjölgar þeim, sem þurfa að geta sýnt fram á, að þeir hafi tekjur til að standa undir skuldbindingum. Svartur rekstur hefur minnkað mjög á síðustu árum.

Á ferðum okkar Ágústs Sigurðssonar um landið, sáum við ungt fólk vera að gera góða hluti í öllum landshlutum. Aðalatriðið er, að fólk sé duglegt og útsjónarsamt, kunni að safna sér reynslu, hafi úti öll spjót í tekjuöflun, einkum í þjónustu fyrir aðra, og leggi meiri áherzlu á gæði en magn í ræktun.

Hugsjón

Bæring Sigurbjörnsson á Stóra-Hofi:

Ég fitna svo sem ekki af hrossarækt, en er þó hér enn á Stóra-Hofi og geri ráð fyrir að stunda áfram þessa grein. Raunar væri ég ekki í þessu, ef ég hefði ekki gaman af því. Þetta er meira hugsjón en atvinna, en stendur þó undir tekjum búsins. Arðurinn af ánni, sem kviknaði fyrir nokkrum árum, hefur farið í að byggja hesthús. Það er einu utanaðkomandi peningarnir, sem hafa farið í hrossin.
Þetta gengur hér af því að við hjónin eru saman í þessu af lífi og sál og erum í góðu samstarfi við Albert Jónsson, sem er með hrossin sín hér. Við erum með 30-40 hross inni í þjálfun um þessar mundir. Ég tem dálítið sjálfur, en járna ekki, svo að mikið af vinnu er aðkeypt.

Sala hrossa er orðin erfiðari en áður. Kaupendur eru ekki lengur í áskrift. Þeir gera meiri kröfur en áður, vilja meiri gæði og helzt, að hrossin séu fulltamin. Ræktendur eru orðnir mjög margir, en sumir standa stutt við, því að þeir ná ekki nógu góðum árangri. Frá mínu sjónarmiði er ræktun skemmtilegt og erfitt starf, sem stendur undir afkomu heimilisins.

Gerum allt sjálf

Skapti Steinbjörnsson á Hafsteinsstöðum:

Hrossabúskapurinn hér á Hafsteinsstöðum byggist á því að við reynum að gera sem allra mest sjálf. Við reynum að fá fram sem allra best hross, temjum þau, þjálfum og sýnum. Til þess að þetta gangi upp höfum við valið þá leið að vera með frekar fá hross, erum að fá frá 5 og upp í 8 folöld á ári.

Ég sé litla möguleika á að hrossarækt standi undir sér sem búgrein, ein og sér. Til þess þurfa hrossabændur helst að geta tamið sjálfir og jafnvel sýnt. Ég held að það séu fáir sem lifa eingöngu á hrossarækt þó kannski séu þeir til. Langflestir stunda þetta sem aukabúgrein eða þá sem tómstundagaman.

Mesti möguleiki fyrir þann sem vill lifa á hrossarækt og hestamennsku er að geta tengt hana tamningum, þjálfun og sölu á hrossum og/eða annarri þjónustu t.d. eins og kennslu og námskeiðahaldi. Markaðurinn hefur breyst og vill aðeins góð og vel tamin hross, eins er líka mikil eftirspurn eftir vel ættuðum kynbótahryssum.

Lífsstíll

Baldvin Kr. Baldvinsson í Torfunesi:

Ég hætti með sauðfé í fyrrahaust og er núna eingöngu með hross. Ræktunin ein gefur óreglulegar tekjur. Stundum getur komið langur tími, þegar engin sala er, en síðan komið söluhrota. Þessi tími er dýr og étur upp söluhagnað. Erfitt er að stilla ræktunartekjur af. Það er dýrt að fjármagna biðina eftir hrotunni. Því er ekki tæknilega mögulegt að lifa eingöngu af ræktun. Ég hef verið heppin með ýmsar góðar sölur, en það nægir ekki eitt út af fyrir sig.

Ég hef verið að koma undir mig fótunum í hliðargreinum ræktunar. Til dæmis komið mér upp beinu sambandi við ýmsa kaupendur innanlands og erlendis og tekið hross annarra í umboðssölu. Ég er byrjaður með hestaleigu í Torfunesi og hef reynt fyrir mér með hestaferðir. Þetta telur allt. Svo frumtem ég öll mín hross sjálfur, en fæ þó atvinnumenn til að framhaldstemja þau og sýna. Með öllu samanlögðu gengur dæmið vonandi upp.

Ræktun hrossa er fyrst og fremst lífsstíll og hugsjónastarf fremur en atvinnuvegur. Til þess að lifa, þurfa menn að sinna sem allra flestum þáttum hestamennskunnar. Ungt fólk þarf að afla sér réttinda á sem flestum sviðum hennar til að geta starfað í greininni. Góð ræktun getur komið að gagni sem gæðastimpill á annað, sem verið er að gera. Þannig getur hún komið að gagni á annan hátt en í beinhörðum peningum. Ég hef til dæmis haft gagn af því, að Torfunes er víða orðið þekkt nafn.

Ekki er nauðsynlegt að vera í nábýli við markaðinn til að geta stundað þessa grein. Það munar að vísu 10.000 krónum í flutningi á seldum hesti. En annað kemur á móti, sem er ódýrara í umhverfinu hér fyrir norðan, svo sem ódýrari þjónusta á sumum sviðum og ódýrari húsakostur. Með tölvutækni er hægt að vera í nánu sambandi við markaðinn og selja hross beint, þótt maður búi norður í Þingeyjarsýslu.

Menn þurfa að átta sig á, að markaðssetja og kynna þarf hross eins og annað, sem menn framleiða. Ekki gengur að bíða eftir kaupanda heima. Líka má benda á að mikið veltur á því fyrir okkur á landsbyggðinni, að við stöndum saman um að koma okkar svæði á kortið og vinna því sess í huga markaðarins. Mér finst við ekki hafa staðið okkur sem skyldi í þessum efnum.

Einnig þarf að koma einhverju skikki á hrossasölu. Mér finst ég verða allt of mikið var við fólk, sem býður hross á mjög lágu verði. Spurning er, hvað borgar þetta fólk til samfélagsins af þessum sölum. Við hrossabændur borgum sjóðagjöld og búnaðargjald og virðisauka af okkar hrossum, en það virðist vera fullt af fólki að bjóða hross og selja án virðisaukask atts. Þetta gerir hrossabændum mjög erfitt fyrir.

Ójafnt tekjuflæði

Ólafur Hafsteinn Einarsson

Félagsmenn Félags tamningamanna eru í auknum mæli tamningamenn og reiðkennarar í senn, enda útskrifast jafnt og þétt fólk frá Hólum með próf í báðum greinum. Þeir reyna að koma sér fyrir á þessum tveimur sviðum og stunda margir einnig járningar og önnur störf, sem falla til í greininni.

Séu þeir búsettir í dreifbýli, eru þeir oft með hóflega hrossarækt til hliðar og ýmsa þjónustu, svo sem ferðaþjónustu, ráðgjöf, vistun hrossa og hagabeit. Ræktunin hefur þá sérstöðu, að hún tekur mikinn tíma og tekjuflæðið er ójafnt. Hún getur aðeins í fáum tilvikum verið undirstaða í tekjuöfluninni.

Blandaðan þjónustubúskap af þessu tagi er hægt að stunda alls staðar á landinu. Í öllum landshlutum hafa risið myndarleg bú utan um fjölbreytta hrossaþjónustu.
Ekki má heldur gleyma því, að fyrir mörgum er búseta í dreifbýli eins konar lífsstíll. Til sögunnar hafa komið efnamenn innlendir og erlendir, sem hafa byggt upp jarðir og stuðlað að glæsilegri ásýnd hestamennskunnar, sem kemur allri greininni að gagni og skapar mörg störf í hestamennskunni.

Ásýnd hestamennskunnar hefur verið að breytast og er það að hluta tilkomið vegna bættrar menntunar tamningamanna og reiðkennara. Þeim sem hafa einhverja hestatengda starfsemi sem aðal atvinnu hefur í kjölfarið fjölgað.

Okkar kynslóð hrossabænda er eins konar brautryðjandi, sem er að finna sér farveg í hestum. Sauðfjárbændur og kúabændur feta yfirleitt slóð, sem áður hefur verið farin, en hrossabændur eru að finna sér nýjan farveg sem framleiðendur og þjónustubændur.

Mikilvægur þáttur í þessu er reiðkennslan, sem flýtir fyrir útbreiðslu þekkingar, stuðlar að fjölgun iðkenda og eflir samband við fólk innan lands og utan. Starf reiðkennaranna er þannig grunnurinn að vexti greinarinnar.

Ræktun er mikilvæg. Áhugi á hrossarækt er mikill og þeir sem ná þar góðum árangri eru þar með að stimpla sig inn hjá stórum hópi fólks. Áhugi útlendinga á kynbótasýningum landsmóta sýnir, að ræktun er aðdráttarafl.

Hver atvinnumaður finnur sér blöndu við hæfi og aðstæður. Margir leggja mesta áherzlu á einn þáttinn og hafa hina meðfram, eru til dæmis aðallega í ferðaþjónustu eða aðallega í ræktun eða aðallega í kennslu og tamningum. Sumir bæta tekjuflæðið, einkum fyrstu árin í greininni, með því að taka tímabundin störf á óskyldum sviðum.

Farsælast fyrir byrjendur er að hafa öll spjót úti til að byrja með og finna síðan, hvaða þætti skynsamlegast er að hafa í fyrirrúmi. Mér sýnist, að ungt fólk, sem kemur til starfa í greininni, átti sig yfirleitt á þessu og finni sér nokkuð fljótt þá samsetningu á starfseminni sem þeim hentar.

Borgum ekki fyrir ræktun

Brynjar Vilmundarson

Enginn getur lifað af hrossarækt einni sér, þótt hann sé heppinn, klár og duglegur. Flestir hafa ekki einu sinni upp í útlagðan kostnað, hvað þá upp í eigin vinnu. Þeir, sem hafa reynt þetta, hafa lent í miklum fjárhagserfiðleikum. Það er hægt að lifa eingöngu af tamningum eða járningum, sýningum eða kennslu, ferðaþjónustu eða braski, en ekki af ræktun. Hún getur ekki skilað neinum arði, aðeins ánægju, sem ekki mælist í peningum.

Allir ræktunarmenn niðurgreiða hana með tekjum af öðru, sumir af störfum á öðrum sviðum hestamennsku, aðrir af utanaðkomandi tekjum. Algengast er, að hrossaræktarmenn nái tekjum með því að temja fyrir aðra og stunda önnur hliðarstörf í greininni.

Ungt fólk með menntun í tamningum og reiðkennslu fær sér vinnu á öðrum sviðum. Í þéttbýlinu er það í fastri vinnu og notar síðan frítímann um kvöld og helgar til að ganga milli húsa í hesthúsahverfum, þjálfa hross og sinna annarri þjónustu. Í strjálbýlinu fer það á vertíð eða stundar önnur tímabundin störf, þegar þau gefast, og er í hestum þess á milli.

Víða er slíkt fólk enn í föðurgarði að sinna hrossum og hrossarækt, án þess að sá rekstur leggi nokkuð af mörkum til sameiginlegra þarfa búsins og án þess að kostnaður við ræktunina sé reiknaður sérstaklega. Í þeim tilvikum er hrossaræktin byrði á öðrum búrekstri.

Ef við förum yfir nöfn þeirra, sem standa sig bezt í hrossarækt, sjáum við, að megintekjur þeirra allra koma úr öðru en ræktun, í sumum tilvikum úr öðrum greinum hestamennskunnar og í öðrum tilvikum úr óskyldum greinum, jafnvel frá útlöndum.

Þekktir sýningamenn og hestakaupmenn hafa farið út í vandaða hrossarækt, ekki til að græða á því, heldur sér til andlegrar upplyftingar. Allir niðurgreiða þeir ræktunina af öðrum tekjum sínum, en nota ræktunina auðvitað til að auka hróður sinn víða um heim.

Allt þetta fólk er í hrossarækt af ástríðu, en ekki til að hafa upp í kostnað. Ræktunin er að flytjast í hendur hugsjónamanna, sem hafa efni á að leita sér lífsfyllingar á þessu sviði. Þess vegna fjölgar þéttbýlisfólki, sem er með örfáar góðar merar, kaupir á þær dýrustu stóðhesta og reiknar aldrei heildarkostnaðinn.

Góðu hrossin í landinu koma frá öllu þessu fólki. Vondu hrossin koma hins vegar frá fjöldaframleiðendum, sem fá lánaða titti undan 1. verðlauna foreldrum og nota á óræktarstóð af ósýndum merum. Tittirnir hafa 125 stig í blöppi, en geta samt ekki lagað óræktarstóðið. Úr þessu koma folöld og trippi, sem eru seld út á ömmuna og afann á 15-20 þúsund krónur eða helminginn af því, sem alvöru ræktunarfólk borgar í folatoll.

Þessi undirboð valda miklum óskunda, halda botnverðinu niðri og valda því, að taminn hross eru seld á minna en 200.000 krónur eða innan við tamningakostnað. Draga mætti stórlega úr þessu böli með því að láta greiða 10-15 þúsund krónur fyrir hvert hross, sem fer í Feng. Þetta hef ég árum saman sagt forustuliði hrossabænda, en þeir skilja þetta ekki og verða alltaf jafn vanstilltir.

Ég hef verið heppnari í hrossarækt en margir aðrir. Samt stendur mín ræktun ekki undir sér. Hún er fjármögnuð af því, sem ég hef aflað mér í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Mér finnst frábært, þegar menn geta fengið erlenda hugsjónamenn til að fjármagna ræktunina og harma það bara, að hafa ekki fundið neinn slíkan sjálfur.

Góð ræktun er stunduð af fólki, sem getur farið til sólarstranda fyrir hálfa milljón króna á ári, en notar peningana í staðinn í ræktun. Góður vinur minn reiknaði út, að það fé, sem ég hef lagt í hrossarækt, hafi ég sparað annars staðar með því að reykja ekki og fara ekki til útlanda í aldarfjórðung.

Fjárfesting mín í reiðskemmu í haust er þó til viðbótar þessu reikningsdæmi.
Miklir peningar eru í hestamennsku og sumir geta haft miklar tekjur, ekki sízt kaupmenn og kennarar. Við höfum hins vegar aldrei borgað fyrir ræktun. Hún er ekki atvinnuvegur, heldur lífsstíll.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi, 1.tbl. 2004.

Útreiðar

Hestar

Fagur og faxprúður

Bjarni E. Sigurðsson:

Óskahestur útreiðamannsins hentar misjafnlega vönum knöpum, því að menn þurfa að geta boðið minna hestfærum vinum áhættulaust í reiðtúr. Hann er fagurlitur og faxprúður, vel hirtur og tekur sig vel út. Hann veitir ánægju, unað og skemmtun. Hann er mannelskur og tekur vel umstangi. Hann er ganglipur og fangreistur, má vera dáltítið montinn, en ekki endilega hágengur. Helzta og mest notaða gangtegundin er tölt, en hann þarf að kunna gangskiptingar og geta gefið tilfinningu fyrir brokki og jafnvel skeiði. Hann er taumhlýðinn sem teygjuband. Taumstífni mundi oft leiða til reiptogs. Hann er ljúfur og þjáll, mjúkur og þægur, ekki styggur í gerði. Hann má vera dúllari, en ekki letingi eða lullari. Oft er hann minna þjálfaður en hestar, sem notaðir eru til annarra þarfa, af því að útreiðar krefjast ekki markvissrar þjálfunar, en getur með þjálfun nýzt á öðrum sviðum hestamennskunnar.

Göngur:

Fótfimur og brekkufær

Kristinn Guðnason:

Óskahestur gangnamannsins er sterkur hestur, sem er óvenjulega fótfimur og þolir álag í brekkum, hefur úthald og seiglu. Hann getur farið hratt yfir í ósléttu landi og á alltaf einn sprett eftir. Brokk og tölt er mest notað, en gott er, að hann kunni líka að valhoppa, sem er ofsalega þægilegur gangur fyrir mann og hest. Sumir gangnahestar geta farið ágætlega á skeiði eingöngu. Mikið álag í göngum getur tekið það fínasta úr keppnishesti og skemmir hægaganginn, en að öðru leyti er gott fyrir keppnishest að fara í göngur. Með þjálfun má laga hann aftur að keppni. Eindregnir keppnishestar með mikilli fótlyftu og miklu svifi á brokki geta þá átt erfitt með að laga sig að göngum, þar sem kröfurnar eru talsvert ólíkar. Slíkir hestar henta síður í göngur en aðrir hestar. Kröfur um seiglu eru harðari en hjá langferðahestum og kröfur um mýkt eru mildari.

Langferðir:

Mjúkur og langstígur

Jónas Kristjánsson:

Óskahestur ferðamannsins er ganggóður og mjúkur hestur, fer vel á feti og tölti, en sækir lítið í brokk og ekkert í skeið. Hann er viljugur, getur hlaupið allan daginn og tekið knapa í svo sem tíu kílómetra í senn einu sinni eða tvisvar á dag. Hann fer yfirleitt á góðgangi, en er fús að taka torfæruspretti á brokki í veg fyrir óþæga hesta. Hann er ekki styggur í áningu. Hann liggur hátt í vatni á sundi. Keppnishestur, sem fer í ferðalag, lækkar fótlyftu og verður langstígari, en nær fyrra horfi með nýrri þjálfun fyrir keppni. Langferðamenn forðast hátt dæmda fjórgangshesta, sem hoppa mikið upp í loftið og þreytast fljótt. Mýkt og fjaðurmagn er í miklum metum, en mikill fótaburður á tölti og svif á brokki hins vegar lítils metin. Álagið á hestinn er minna en í göngum og í stað þess lögð meiri áherzla á mýktina.

Keppni:

Fyllir knapann stolti

Sigurbjörn Bárðarson

Óskahestur keppnismannsins er alhliða hestur eða klárhestur, stór og fallegur, hálslangur, með mjúkt hnakkaband og á auðvelt með alla eftirgjöf. Hann er léttbyggður og bolgrannur hestur, um 140-143 sentimetrar á stöng. Hann hefur trausta og góða fótagerð með lofthæð og góðu hófskeggi. Hann er fax- og taglprúður, litfagur hestur með liti sem hrífa, t.d. brúnn( svartur), brúnskjóttur eða hvítur, dökkrauður og ljóst fax og tagl. Fagurlitaðir hestar höfða til dómara við einkunnagjöf. Þessi hestur er viljugur og hefur frábært geð, þar sem hann er ávallt tilbúinn, spennulaus með mjög trausta lund og hlustar ávallt á beiðni knapans og leggur sig fram. Allar gangtegundir eru takthreinar og rúmar með háum fótaburði. Hesturinn er skrefastór, hraustur og úthaldsmikill. Hann leggur mikið land undir sig á öllum gangtegundum og gengur dansandi mjúkt hægatölt. Þetta er hestur sem fyllir knapann stolti og sælutilfinningu bæði við þjálfun og í keppni.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 10.tbl. 2004

Hrossaheiti

Hestar

Helztu söfn íslenzkra hrossaheita eru Hrímfaxi frá 1995 eftir Hermann Pálsson með um 2000 heiti og Hrossanöfn frá 2002 eftir undirritaðan með um 7000 heiti, báðar með skýringum á íslenzku og ensku. Innihald síðari bókarinnar er einnig aðgengilegt á vefnum á hestur.is

Sérstaða bókar Hermanns er, að hún fjallar ekki fyrst og fremst um notuð heiti, sem eru raunar fjölmörg alls ekki í bókinni, heldur um heiti úr goðafræði, Íslendingasögum og þjóðsögum, sem hann vill benda hestaeigendum á til að auka fjölbreytni í hrossanöfnum. Hann uppfærir alls konar nöfn dýra og kynjavera og vill yfirfæra þau á hross nútímans. Þar hefur Hermann ekki haft árangur sem erfiði, því að slík heiti hafa ekki sjáanlega aukizt í hrossum síðasta áratuginn.

Sérstaða minnar bókar er, að hún fjallar nánast eingöngu um heiti ættbókarfærðra hrossa á Íslandi og annars staðar og getur þess í leiðinni, hve mörg tilvik hafa fundizt af hverju heiti. Einnig er þar reynt að greina milli nothæfra nafna og þeirra nafna, sem notuð hafa verið án þess að vera nothæf. Það er í samræmi við þá stefnu alþjóðasamtaka íslenzka hestsins, að hross af íslenzkum stofni beri íslenzk heiti. Sú stefna hefur haldizt að mestu, með tiltölulega fáum undantekningum, sem sjá má í grein á næstu síðu.

Með grein þessari fylgir einnig skrá hér á vinstri síðunni yfir ýmis hrossaheiti, sem Hermann kom á framfæri, en hafa ekki enn verið tekin upp í kynbótahrossum í ættbók. Loks eru hér til hægri þulubrot úr Snorra-Eddu, þar sem eru listar hrossanafna. Sá listi sýnir raunar, að margir forfeður okkar hljóta að hafa haft nógu mikinn áhuga á hestum til að gefa þeim sérkennileg heiti og yrkja um þau.

Raunar er mikil og vaxandi fjölbreytni í nafngiftum hrossa um þessar mundir. En menn sækja ekki tilbreytinguna í fornar heimildir eða meðmæli Hermanns, heldur sækja ýmist landfræðileg nöfn eða ríða í humátt á eftir sérfræðingunum, sem búa til götuheiti á höfuðborgarsvæðinu.

Þannig heita hrossin Eldey og Papey, Hekla og Katla og gætu heitið eftir götum í Reykjavík, Gvendargeisli og Katrínarlind, Gautavík og Þingás, en þau heita ekki Sinir og Álftarleggur, sem hafa sögulegt gildi, né heita þau Fjörsvartnir og Dynblakkur, sem höfða til hestsins sjálfs, fremur en til landafræðinnar.

Er ekki skemmtilegra að ríða Mundilfara eða Fjölmóði en Flóa eða Parker?

Úr Snorra-Eddu (hestanöfn)

Sennilega er það engin tilviljun, að með því elzta sem kveðið hefir verið um hesta á norræna tungu og hefur varðveist, er í sambandi við nafngiftir þeirra. Fornmönnum virðist hafa verið það nokkur metnaður, að þessi glæsilegu hestaheiti féllu ekki í gleymsku. Og þá er til þess gripið, sem traustast hefir reynzt: að fella nöfnin í stuðla svo að þau falli sem bezt við hrynjandi málsins. Í Snorra-Eddu hafa geymzt nokkur þulubrot um hestaheiti.

Hrafn ok Sleipnir

hestar ágætir

Valur ok Léttir,

var þar Tjaldari,

Gulltoppur ok Goti,

getit heyrðak Sóta,

Mór ok Lungur með Mari.

Vigg ok Stúfur,

vas með Skævaði,

þegn knátti Blakkur bera;

Silfrintoppur og Sinir,

svá heyrðak Fáks of getit,

Gullfaxi ok Jór með goðum.

Blóðughófi hét hestr

es bera kváðu

öflgan Atriða;

Gisl ok Falhófnir,

Glær ok Skeiðbrímir,

Þar var ok Gyllis of getit.

Dagur reið Drösli,

en Dvalinn Móðni,

Hjálmþér Háfeta,

en Haki Fáki,

reið bani Belja

Blóðughófa,

en Skævaði

skati Haddingja.

Vésteinn Vali,

en Vífill Stúfi,

Meniþjófr Mói,

en Morginn Vakri,

Áli Hrafni,

er til íss riðu,

en annarr austr

und Aðilsi

grár hvarfaði

geiri undaðr.

Björn reið Blakki,

en Bjárr Kerti,

Atli Glaumi,

en Aðils Slöngvi,

Högni Hölkvi,

en Haraldur Fölkvi,

Gunnar Gota,

en Grana Sigurðr.

Glaður ok Gyllir,

Glær ok Skeiðbrimir,

Silfrintoppur og Sinir,

Gisl ok Falhófnir,

Gulltoppur ok Léttfeti,

þeim ríða Æsir jóum

(dag hvern

es þeir dæma fara

at aski Yggdrasils).

Skinfaxi heitir,

es enn skíra dregur

dag of dróttmögu;

hesta beztur

þykkir með Hreiðgotum;

ey lýsir mön af mari.

Hrímfaxi heitir,

es hverja dregur

nótt of nýt regin;

méldropa fellir

morgin hverjan;

þaðan kömur dögg of dala.

Þeir af ríki

rinna létu

Sveipuð og Sveigjuð

Sólheima til

dala döggótta

dökkvar hlíðir,

skalf Mistar – mærr

hvar – megir fóru.

Og ennfremur:

Rinni rökkn bitluð

til Reginþinga

en Sporvitnir

að Sparinsheiði,

Mélnir ok Mýlnir

til Myrkviðar …..

Ónotuð hrossanöfn

Aðalfari

Alhvít

Allsvartur

Allvar

Alsterkur

Andlangur

Andra

Angan

Angeyja

Angilja

Angurboða

Angurgapi

Apall

Apla

Apli

Arfa

Atla

Auðkúla

Auðráð

Aurboða

Ausa

Ákafi

Álfagjöf

Álfröðull

Áma

Ámur

Áni

Árroði

Ártali

Ásvaldur

Ávaldi

Baldi

Balti

Bandvöttur

Baugi

Baukur

Bautuður

Bálki

Berfótur

Bergelmir

Berserkur

Beyla

Birningur

Birrungur

Bíldur

Bjálmi

Bláfeldur

Blágráni

Bláhvít

Bláinn

Blákápa

Blávör

Bleikfaxa

Bleikfaxi

Bleikkolla

Bleikrauðka

Bleiksa

Blikfaxa

Blikfaxi

Blikki

Blíðfari

Blíður

Blígur

Blóðhófur

Blóðughófi

Blæfaxa

Blæfaxi

Bobbi

Bor

Borði

Bófi

Bótrún

Brandi

Brandur

Brattur

Bráhvít

Bráviður

Bresi

Brimill

Brík

Brími

Broddur

Brokkur

Brók

Brúnhvít

Brúnkollur

Brúntoppur

Brymir

Brýja

Bursta

Butraldi

Búi

Búri

Búseyra

Bútur

Böggvir

Bölti

Bölþvari

Bör

Daðri

Dagbjartur

Dagstyggur

Dallur

Dalsbrá

Dana

Dáðrökk

Dálkur
Deigja
Dellingur
Digra
Djangi
Djúpráð
Dóni
Drafna
Drasill
Draugur
Draumsýn
Dreitill
Drellir
Drifhvít
Drynur
Drösull
Dröttungur
Durtur
Dyfra
Dyggur
Dynblakkur
Dynbrími
Dynfara

Dynfari

Dýri

Dörruður

Döttur

Eikþyrnir

Eimyrja

Einfari

Einráð

Einurð

Ekla

Eldfaxi

Eldhrímnir

Eldibrandur

Engill

Erpir

Ess

Eyðir

Eykjarður

Eykur

Élfaxi

Falhófnir

Fannhvít

Fantur

Farfús

Farmóður

Farri

Faxprúð

Feila

Fenna

Fenrir

Ferðalangur

Feti

Fetmóður

Fetvíðnir

Félagi

Fimafengur

Finnugur

Fífilbleikur

Fjalgerður

Fjósi

Fjöllungur

Fjölmóður

Fjölráð

Fjölsvinnur

Fjölverkur

Fjörnir

Fjörsvartnir

Fjötra

Fjötri

Flaug

Flauma

Fláráð

Flenja

Flíra

Flosa

Fluðra

Flugfaxi

Flugglöð

Fordæða

Forusta

Fótfim

Fótviss

Fraðmar

Framfús

Framgjörn

Fránmar

Freysfaxi

Fró

Fúlga

Fyla

Fylja

Fölkvir

Fölrauður

Fölski

Fölvir

Förul

Föstólfur

Gangleri

Ganglöt

Gangtöm

Ganta

Garðar

Garðrofa

Gaumur

Gaupa

Gaupi

Gaupnir

Gautrekur

Gautstafur

Gálma

Gálmur

Gárungi

Gát

Gegða

Geiguður

Geitla

Gelmir

Gemsa

Gengilbeina

Gera

Geri

Gerra

Gessa

Gestilja

Geyfa

Gikkur

Ginfaxi

Gísl

Gjúki

Glaðastjarna

Glaðnir

Glámblesi

Glefja

Gleipnir

Glenur

Glirnir

Glitfaxa

Gljáfaxi

Gljásvartur

Glóinn

Gluggi

Glyrna

Glæpur

Glæra

Gnepja

Gnýfeti

Gnýpa

Goldnir

Golltoppur

Goti

Góðráð

Grábakur

Grábrók

Gráði

Gráfaxa

Gráfeldur

Gráfríður

Gráhetta

Gráhvítur

Grákollur

Gráma

Grámana

Gránasi

Gráska

Gráskeggur

Grástakkur

Grásteinn

Grátoppur

Greipa

Gremja

Gréla

Grilla

Gripnir

Grípir

Gróði

Græska

Gullfaxa

Gullinfaxi

Gullnir

Gullskjóni

Gumpa

Gungnir

Gunnlöð

Gýgur

Gæðingur

Gægir

Hafall

Hagaljómi

Hagall

Hamðir

Hamskarpur

Hamskerpir

Hamskörp

Harki

Harkur

Hattur

Hábrók

Háðvör

Hákur

Hálsi

Hámóður

Hástiga

Hástigi

Hávar

Hávi

Heiða-Rauður

Heiðþornir

Heimfús

Heiti

Helsingi

Hengill

Herjann

Herkir

Hervir

Hildir

Himinglæfa

Hirðir

Híði

Hít

Hjari

Hjúpur

Hjör

Hjötra

Hlaðvör

Hláka

Hlátur

Hlemmur

Hlenni

Hlébarður

Hlini

Hlífar

Hljóð

Hlóra

Hlymur

Hlý

Hlöður

Hnaggur

Hnakkur

Hnallur

Hnefi

Hnikar

Hnífur

Hnjáka

Hnjótur

Hnjúkur

Hnubbur

Hnúkur

Hnúta

Hnútur

Holti

Hornungur

Hraði

Hrami

Hrapi

Hrauðnir

Hraunbúi

Hreggfaxi

Hreggmóð

Hreggmóður

Hreggsvöl

Hreini

Hreppir

Hriki

Hringfaxi

Hringiða

Hrist

Hríðir

Hrímaldi

Hrímandi

Hrími

Hrjóður

Hroði

Hroki

Hrota

Hrökkvir

Hröng

Hugljúfur

Huldumær

Hvanni

Hvati

Hvatvís

Hveðna

Hvítfaxi

Hvíti-Hrafn

Hvítskjóni

Hvæsir

Hyltingur

Hyndla

Hyrnir

Hýsingur

Hækingur

Hænir

Hödd

Högnuður

Hölknir

Hölkvir

Hörgur

Höskuldur

Hösvi

Iði

Ifill

Ifjungur

Inni-Krákur

Ími

Ípa

Ívi

Íviðja

Jaðrakan

Jafnhár

Jari

Jarplitfara

Jarpvinda

Jálfaður

Járviðja

Jófreður

Jógrímur

Jóki

Jólfur

Jólnir

Jórekur

Jöður

Jörvi

Jötunn

Kafteinn

Kaldrani

Kaldyrja

Kali

Kerskni

Kesja

Kinnskjóna

Kinnskjóni

Kisi

Kjamma

Kjangi

Klambra

Klára

Klókur

Klumba

Klúka

Kolblakkur

Kolubleik

Koppur

Korpur

Kotrún

Krákur

Króknefur

Kröggur

Kubbur

Kuggur

Kumba

Kurfa

Körtur

Langbrók

Langförli

Laxi

Láðvörður

Leiðitöm

Lenja

Leppa

Leppur

Léna

Léttbrún

Lifra

Lifri

Líkn

Ljóma

Ljósálfur

Ljósbleik

Ljósbleikur

Ljósfara

Ljósi

Ljósjarpur

Ljóskollur

Ljósnasi

Ljósnös

Ljóstá

Ljósvængur

Loðna

Loðungur

Loftsteinn

Logbrandur

Lóði

Lóngant

Lóra

Lungur

Lunti

Lurkur

Lúsablesi

Lymska

Lyrgur

Læpa

Lötra

Maka

Makráð

Mani

Margerður

Margvís

Marþöll

Málfeti

Málmfeti

Mávur

Melasól

Mélnir

Miðlungur

Mikjáll

Milska

Mjaðveig

Mjelnir

Mjónasi

Mold

Morgungjöf

Morgunn

Morgunroði

Móáli

Móblesi

Móði

Mófaxi

Mói

Móinn

Mókollur

Mósokki

Mótoppa

Mótoppur

Mundilfari

Mundill

Munkur

Muskur

Mussa

Múskur

Mýlnir

Mýsingur

Mækja

Mæra

Mærð

Mökkvi

Naddi

Naddur

Naðra

Naður

Nafar

Nasa

Nauma

Nátttröll

Nennir

Neri

Nertill

Nesta

Niðhöttur

Niði

Niður

Nift

Nípa

Nístingur

N-Jörp

Norðri

Nóri

Nótti

Nykur

Næðingur

Næfill

Ófnir

Ómi

Órator

Órnir

Óspakur

Ótrauð

Peningur

Perta

Pexi

Peyi

Pinni

Poki

Polli

Prakkari

Punktur

Rakni

Ralli

Rani

Rati

Ratvís

Rauðhöfði

Rauðkápur

Rauðkollur

Rauðkúfur

Rauðnasa

Rauðsokki

Rauðvængur

Raumur

Ráðvaldur

Rásfim

Refja

Reifur

Reikistjarna

Reimar

Reimir

Rekja

Rerir

Rimmugýgur

Rindur

Risna

Rígur

Ríp

Rít

Rjósta

Rjúkandi

Rolla

Róði

Róma

Róni

Rysja

Rýgur

Rögnir

Sága

Sáttur

Sendlingur

Serkur

Seyðir

Sigðir

Siklingur

Silfrintoppur

Silfrún

Silfurfaxi

Silfurkolla

Silkitoppur

Simul

Sinfjötli

Sinir

Sinmara

Síðförli

Sígandi

Síla

Sjálfráð

Sjóður

Sjólfur

Skagi

Skarfur

Skati

Skálkur

Skálmar

Skálmi

Skeiðbrimir

Skeiðfaxi

Skelfir

Skelkur

Skelmir

Skemill

Skemmingur

Skerpingur

Skilfingur

Skiptingur

Skjáfa

Skjálf

Skjálgur

Skjómi

Skjór

Skjótráð

Skodda

Skolbrún

Skota

Skrámur

Skreppur

Skriðfinnur

Skriður

Skrumba

Skræfa

Skúfur

Skúr

Skúrbeinn

Skúti

Skyndir

Skær

Skævaður

Slefa

Slemba

Sléttfeta

Sléttfeti

Slíkja

Slungnir

Slyðra

Slödd

Snafs

Snapi

Snapvís

Snarfara

Snegða

Snepill

Sníkir

Snjóhvít

Snoppi

Snotri

Snuggur

Snæhvít

Snæra

Snöp

Sólargeisli

Sólbaki

Sólhvít

Sporvitnir

Sprengur

Sprógur

Spyrning

Stakkur

Steggur

Stelkur

Stillir

Stjörnujarpur

Stórfeti

Stórstjarni

Stubbur

Stuttbrók

Stúfi

Stúfur

Styrja

Stökkull

Suttungur

Svali

Svalinn

Svartblesi

Svartfaxa

Svartfaxi

Svarthöfði

Svartkúfa

Svartsokka

Svarttoppa

Svásuður

Sveðja

Sveggjuður

Sveigðir

Sveipuður

Sviðgrímur

Sviður

Svipall

Svipdapur

Svipuður

Svipul

Svoli

Sværa

Svörður

Svörfuður

Sæðir

Sæfari

Sælir

Sæmingur

Sætt

Sölgi

Tanni

Targa

Tálga

Teiti

Telgja

Teyta

Tildri

Tinta

Tipt

Tífa

Tífill

Típa

Tjaldari

Tjasna

Tjálga

Tofa

Torta

Tossi

Trafali

Trantur

Trauð

Tremill

Trunta

Trönubeina

Tugga

Tveggi

Tvíserkur

Tyrta

Týja

Tögg

Ullur

Umbun

Unaður

Undurfurða

Uni

Unnusta

Úð

Úði

Úfa

Vafþrúðnir

Vagl

Vagna

Vakri-Skjóni

Valbrá

Valhrímnir

Vallarbesi

Vallari

Valtýr

Vandstyggur

Varmi

Varúð

Váfuður

Veður

Vegbjartur

Vegdrasill

Vegdraupnir

Vegmóður

Veig

Veila

Velgja

Vena

Venja

Vestri

Viðauki

Viðrir

Viður

Vilji

Vilnir

Vindill

Vindljóni

Vindstjarni

Vindsvalur

Vindsvöl

Vinduður

Vingskornir

Vingull

Vingþór

Vinka

Virkt

Visk

Vitra

Vitringur

Víðar

Víðbláinn

Víðfeðmir

Víðförli

Vígblær

Vígglitnir

Vígi

Víkverji

Víli

Vísla

Víva

Vorblíða

Vordagur

Vægð

Vægir

Vængskjóna

Vængskjóni

Völsi

Völur

Yggur

Ylgja

Ylgur

Yrðlingur

Þaga

Þausn

Þegn

Þella

Þexla

Þiðrandi

Þingja

Þír

Þísl

Þjarka

Þjótur

Þjösnir

Þrafi

Þrasar

Þrái

Þreyta

Þriði

Þrift

Þriggi

Þrima

Þrista

Þrívaldi

Þrjótur

Þrjózkur

Þröng

Þulur

Þumalingur

Þumall

Þundur

Þurs

Þvara

Þýðfari

Þýðlynd

Þöngull

Æringi

Öglir

Ölmóður

Ölvaldi

Ölvir

Örvi

Ötull

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 10.tbl. 2004

Undarleg nöfn í ættbók ársins 2004

Hestar

Stínóla og Ponýta,
Cosima og Amica

Jónas Kristjánsson:

Árgangur 2004 í WorldFeng hefur venjulegan skammt af undarlegum hrossanöfnum, sem sýna kæruleysi eða aulafyndni í nafngiftum, svo sem Gasalegur-Hellingur frá Hofsósi. Sum þeirra kunna að eiga sér skýringar, en eigi að síður skera þau í augu í hinum mikla og breiða flokki hrossa, sem eru eðlilega nefnd samkvæmt hefðum.

Athyglisvert er, að undarlegum nöfnum fjölgar lítillega á Íslandi meðan þeim fækkar erlendis með betri kunnáttu útlendinga á íslenzkum hestanöfnum og öflugri stafagerðar í tölvum, sem gerir útlendingum kleift að stafsetja rétt nöfn með séríslenzkum bókstöfum. Þannig hefur Odin vikið fyrir Óðni víðast hvar í útlöndum

Indjánanöfnum skýtur af og til upp á yfirborðið á Íslandi. Þau hafa lengi gert það, en ekki náð fótfestu. Svarta-Systir frá Stóra-Vatnsskarði er eina dæmið um það í árganginum 2004. Hún er undantekningin, sem sannar regluna um, að markaðurinn hefur hafnað þessari nýjung í nafngiftum.

Ákveðinn greinir, sem áður þekktist ekki, hefur skotið upp kollinum á allra síðustu árum. Hesturinn frá Nýjabæ og Hallarfrúin frá Ytra-Vallholti eru dæmi ársins 2004. Ennfremur er um eitt dæmi á ári um föðurnefningu hrossa og er Helga-Jarlsdóttir frá Skíðbakka dæmi ársins 2004.

Einnig er farið að bera á tilbúnum nöfnum, sem eiga sér ekki sagnfræðilega stoð, svo sem Bekan frá Kolsholti, Vár (karlkyn) frá Vestra-Fíflholti, Vár (kvenkyn) frá Vestur-Leirárgörðum. Útlend nöfn, sem ekki falla undir alþjóðlega goðafræði, leka inn af og til, svo sem Parker frá Sólheimum og Lady frá Neðra-Seli.

Gæluyrði hafa alltaf verið nokkur á hverju ári. Nú voru það Gúndi frá Krossi og Sossa frá Hæringsstöðum. Sjaldan er kennt við eiganda eða föður, núna voru það Skúlína frá Eyrarbakka og Galsína frá Hofi. Slík nöfn hafa oft skotið upp kollinum, en aldrei verið fordæmi.

Svo virðast alltaf nokkur nöfn á ári hverju vera út í loftið, svo sem Stínóla frá Áslandi og Ponýta frá Skarði, svo og Fröken-Sara frá Hvítárvöllum tilraun til að vera sérvitur eða fyndinn.

Ekkert af þessum nöfnum eru dæmi um þróun í nafngiftum hrossa. Þetta eru stök tilvik, sem flest bera merki kæruleysis og hafa ekki dregið dilk á eftir sér. Samtals eru þetta um 1% af sýndum hrossum árið 2004 og skipta engu í heildarmyndinni.

Þjóðverjar voru fyrr á árum margir hverjir slæmir í nafngiftum, en hafa batnað mikið á síðustu árum. Sum lönd eru næstum laus við undarlegar nafngiftir, svo sem Bandaríkin, Austurríki, Bretland, Finnland, Holland, Svíþjóð og Sviss. Flest dæmin hér að neðan koma frá Þýzkalandi, Danmörku og Noregi.

Flest gölluðu hrossanöfnin eru heimatilbúnar útgáfur af íslenzkum nöfnum, svo sem árið 2004 Eric (Eiríkur) frá Erichshof, Gaudi (Gauti) frá Sommerberg, Gilfi (Gylfi) frá Stegberg, Thór (Þór) frá Højtbjerg, Kolbein (Kolbeinn) frá St. Restrup, Odin (Óðinn) frá Årsvoll, Brennu (Brenna) frá Gl. Essendrup, Freia (Freyja) frá Laven, Freja (Freyja) frá Kastaniely, Freja (Freyja) frá Fjalla-Vegur, Spidling (Spilling) frá Sviland.

Í öðru lagi virðast sum frá útlöndum séð vera íslenzk, en hafa enga meiningu, svo sem árið 2004 Túmi frá Stefanihof, Daghermur frá Roetgen, Nör frá Bucherbach, Kormur frá Akureyri, Fjör (karlkyn) frá Löfkulla, Bjarg (karlkyn) frá Gyðjulind, Flýfil frá Skarholt, Runi frá Bråtorpsgård, Þorleiftur frá Skogsstjärnan, Heira frá Osterkamp, Fengeraða heimilislaus, Gessa frá Wiesenhof, Ýlfa frá Katulabo.

Í þriðja lagi eru tvínefni, sem eru sjaldgæf erlendis eins og Íslandi. Dæmin frá 2004 eru Ágústa-Sól frá Oren, Stúlku-Hvöt frá Þokuheimum og Prins-Sælingur heimilislaus.

Loks eru í fjórða lagi nöfn úr öðrum áttum, sem ekki koma Íslandi við, svo sem Simba frá Steinadlerhof, Godewind frá Westensee, Sondre frá Brampton, Harry frá Stugudal, Torden frá Gjelsten, Josi frá Tiergarten, Cosima frá Ascheloh og Amica frá Steinadlerhof. Þetta eru sýnishornin frá 2004.

Á heildina litið virðist vera mjög lítill hluti hrossa á kynbótasýningum, sem bera nöfn, er annað hvort stríða gegn hefðinni eða eru á gráu svæði. Allur þorri ættbókarhrossa erlendis sem innanlands fylgja þeirri hefð að nota íslenzk nöfn.

Enginn vandi er núna að velja íslenzk nöfn. Fullt er af ónotuðum hrossanöfnum í bókunum Hrímfaxa, þar sem eru 2000 nöfn, og Hrossanöfnum, þar sem eru 7000 nöfn. Í gagnabankanum hestur.is eru líka 7000 hrossanöfn. Í öllum þessum heimildum eru íslenzk hrossanöfn útskýrð á ensku, svo að menn eiga að vita, að hvaða meiningum þeir ganga í hrossanöfnum.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 10.tbl. 2004

Reisa vörður á vegum hestamanna

Hestar

Fyrir tveimur árum söfnuðu Sigrún Bjarnadóttir í Fossnesi, Ragnar Ingólfsson í Heiðargerði og Páll Gunnlaugsson á Hamarsheiði, um sig 60 manna liði vina, kunningja og nágranna í Gnúpverjahreppi og víðar til að endurreisa gamlar vörður á Sprengisandsleið, sem upphaflega voru reistar árið 1906.

Félagið heitir Vörðuvinafélagið og hefur lagað og endurreist 260 vörður af 425 á þessari leið upp að Sóleyjarhöfðavaði í Þjórsá undir Hofsjökli. Félagið ætlar að ljúka verkinu sumarið 2006, þegar vörðurnar eiga aldarafmæli og ætlar að gera upp gömlu kofana í Bólstað, sem er frá árinu 1892, Kjálkaveri, frá 1894, og Gljúfurleit.

Þetta er mjög þarft framtak, því að vörður og torfkofar spillast á löngum tíma. Þetta eru ekki bara sagnfræðilegar minjar um samgöngur fyrri tíma, heldur einnig mikið öryggi fyrir hestaferðamenn nútímans, sem lenda í misjöfnum veðrum og misjöfnu skyggni eins og forverar þeirra, þegar þessir kofar og vörður voru upphaflega reist.

Allar endurreistu vörðurnar á Sprengisandsleið hafa verið hnitaðar í GPS-kerfinu og fara inn í gagnabanka, sem ferðamenn geta haft í GPS-tækjum sínum og verða á Íslandskorti fyrir hestaferðamenn, sem verið er að byggja upp á vef Landmælinga Íslands í samstarfi við Vegagerðina og Landssamband hestamannafélaga.

Sigrún Bjarnadóttir er formaður félagsins. Hún sagði Eiðfaxa, að vel hefði gengið á þessu ári. Stór hópur manna fór 2.-3. október og endurreisti vörður alla leið yfir Þjórsá á Sóleyjarvaði. Eftir eru nú vörður, sem eru nær byggð, frá Dalsá og fram fyrir Gljúfurleit.

Sigrún sagðist hafa reynt að hvetja aðra til að gera slíkt hið sama á sínum afréttum. Benti hún á Holtamenn, sem eiga afréttinn frá Sóleyjarvaði norður á sýslumörk og á Bárðdælinga, sem eiga afréttinn þar fyrir norðan. Á svæði þessara tveggja aðila er helmingur gömlu Sprengisandsleiðarinnar og þá sennilega um eða yfir 400 vörður, sem þarf að endurreisa.

Einnig sagðist hún ítrekað hafa rætt við Tungnamenn um, að þeim stæði nálægt að endurreisa vörður á Kjalvegi, sem er mörgum sinnum meira farin leið en Sprengisandur. Ekkert hefði komið út úr þessum tilmælum enn sem komið væri, en menn vissu af verkefninu.

Spurning er, hvort ekki er rétt fyrir hestamenn á viðkomandi svæðum að hafa frumkvæði að stofnun hliðstæðra hópa sjálfboðaliða, því engir hafa meira gagn af þessu framtaki en einmitt hestamenn. Raunar er það væntanlega Vegagerðin, sem á að sjá um viðhald þessara samgöngumannvirkja, því að vörðurnar voru reistar á vegum Stjórnarráðsins og Vegagerðarinnar. Vegagerðin gæti að minnsta kosti styrkt verkefnin fjárhagslega.

Vörðurnar á Sprengisandsvegi voru raunar meðal fyrstu verkefna íslenzkrar heimastjórnar. Fengnir voru þrír Bárðdælingar, Eiríkur Sigurðsson frá Sandhaugum, Jón Þorkelsson frá Jarlsstöðum og Jón Oddsson, sem hafði verið í fjallaferðum með Daniel Bruun og fleirum. Þeir vörðuðu alla leiðina sumarið 1906. Til er frásögn af verkinu og er einkum þekktur kaflinn um hrakningar þeirra með hestakerru, sem hvolfdi, er þeir fóru yfir Sóleyjarhöfðavað, þegar Þjórsá var í vexti.

Vörðurnar á Kjalvegi hinum vestri, sem hestaferðamenn nota núna, liggja með Fúlukvísl og vesturfjöllum. Þær eru rúmlega áttræðar, voru síðast endurhlaðnar og reistar að nýju sumrin 1920-1922 á vegum vegamálastjóra. Verkið vann Halldór Jónasson frá Hrauntúni með ýmsum samverkamönnum. Ekki eru sagðar neinar sögur af hrakningum við þá vinnu, en margar vörðurnar standa enn og eru hinar stæðilegustu sumar hverjar.

Enn reisulegri eru vörðurnar á Kjalvegi hinum eystri, sem liggur þvert yfir Kjalhraun. Þær eru tveggja metra háar og hafa ílanga steinnibbu, sem vegvísi til norðurs, svo að vegfarendur í þoku og myrkri þurfa ekki að velkjast í villu um réttar áttir. Þessar vörður eru taldar hafa verið reistar rétt fyrir aldamótin 1900 og hafa verið óhreyfðar síðan, enda vel hlaðnar úr nærtæku hraungrýti. Þær eru með 70-150 metra millibili og eiga að geta veitt Reynistaðabræðrum framtíðarinnar mikið öryggi.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 10.tbl. 2004

Leiðari

Hestar

Markaður

Í þessu tölublaði Eiðfaxa er skrifað um heiðursverðlaunahestana fjóra frá landsmótinu í sumar og bent á þær athyglisverðu staðreyndir, að ekki er fullbókað fyrir hryssur hjá þremur þeirra og að sjá fjórði stendur tæpt í frjósemi. Þetta er liður í viðleitni Eiðfaxa að gera öllum aðgengilegar á prenti ýmsar upplýsingar, sem hinir innvígðu tala um. Sjáið bls. 8-9.

Hesthús

Hesthús eru í smíðum og endurnýjun þessa dagana. Í Víðidalnum hafa hús verið tekin og nánast rifin niður fyrir gólf til að geta byggt nýtt hús á sama stað. Í þessu tölublaði Eiðfaxa eru heimsóttir nokkrir aðilar á höfuðborgarsvæðinu, sem standa í nýbyggingum og endurbyggingum. Forvitnast er um, hvaða leiðir þeir fari. Þetta er forvitnilegt fyrir þá, sem eru að velta fyrir sér breytingum. Sjáið um framkvæmdir á bls. 16-22.

Útlönd

Við segjum ykkur fréttir frá útlöndum í þessu tölublaði Eiðfaxa. Á bls. 26-28 er sagt frá kynbótasýningunni í Bandaríkjunum, á bls. 23-24 er sagt frá íslenzkum hestum á Írlandi og á bls. 54-58 eru viðtöl við kunna ræktunarmenn í Þýzkalandi. Við höfum gagn og gaman af að lesa um, hvernig farið er að hlutunum á stöðum, sem okkur eru ekki eins aðgengilegir og heimahagarnir.

Tamningar

Nokkrir þekktir knapar, innlendir og erlendir, fjalla í þessu tölublaði um vilja, hvernig hægt er auka hann og draga úr honum eftir aðstæðum. Þeir, sem fjalla um þetta í blaðinu eru Sigurbjörn Bárðarson, Sigurður Marínusson, Páll Bragi Hólmarsson, Stian Petersen, Alexandra Montan, Jolly Schrenk og Guðmar Þór Pétursson. Hvernig leysa þekktir reiðmenn vanda, sem er algengur í hestum manna. Sjáið bls. 34-40.

Ræktun

Mikið er um ræktun í þessu nýja tölublaði eins og jafnan áður. Fjallað er um heiðursverðlaunahesta ársins. Einnig er fjallað sérstaklega um stóðhestana Stíg frá Kjartansstöðum, sjá bls. 41-43 og Þorsta frá Garði, sjá bls. 44-45. Þá er rakið í blaðinu, hve mikið hver kynbótadómari hefur dæmt á árinu og hvaða kröfur eru gerðar til kynbótadómara, sjá bls. 14-15.

Fjölbreytni

Margt fleira er í þessu blaði, til dæmis greinar um ferðalög, viðtöl við þekkta hestamenn og fjallað um, hvaða hestatryggingar koma til greina. Þetta blað er gott dæmi um, að víða er komið við í hverju tölublaði Eiðfaxa, fjallað er um nánast öll áhugasvið hestamennskunnar hverju sinni.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 9.tbl. 2004

Markaðurinn hafnar heiðursverðlaunum

Hestar

Af fjórum heiðursverðlaunahestum sumarsins er aðeins einn í svo mikilli almennri notkun, að hann annar ekki eftirspurn. Hinir þrír eru heimahestar, sem hafa ekki mikið að gera á almennum markaði. Þessi þverstæða vakti athygli margra á landsmótinu og vekur spurning um lögmál markaðarins annars vegar og um lögmál ræktunarstefnunnar hins vegar.

Gott er taka þessa fjóra verðlaunahesta til athugunar, því að þeir fengu titil sinn ekki fyrir verðleika foreldra eða forfeðra og ekki heldur fyrir eigin verðleika á sýningum, heldur beinlínis fyrir verðleika afkvæma og afkomenda á sýningum. Þetta eru hestar, sem eiga nógu marga góða afkomendur til að verða tilnefndir til Sleipnisbikars sem heiðursverðlaunahestar. Þetta eiga því örugglega að vera mjög góðir og eftirsóttir ræktunarhestar.

Andvari frá Ey nýtur einn þessara hesta mikilla vinsælda. Hins vegar kemur á óvart, að hinir þrír, Óður frá Brún, Galsi frá Sauðárkróki og sjálfur bikarhesturinn Kraflar frá Miðsitju hafa af ýmsum ástæðum dalað í vinsældum markaðarins. Kraflar hefur lengi verið slasaður, sem vafalaust hefur áhrif á frjósemina, enda er hann nánast ekki lengur notaður heima á Feti. Galsi er helzt notaður út á folatolla frá gömlum tíma og Óður er mest notaður af eigendunum sjálfum.

Andvari

Andvari einn nýtur gífurlegra vinsælda. Þær hafa aukizt jafnt og þétt með árunum. Það segir okkur, að hann gefi markaðshæf hross. Eiginlega eru allir sammála um, að Andvari gefi góð hross, er standa sig vel sem reiðhross, kynbótahross, keppnishross og söluhross.

Andvari var fyrsti Orrasonurinn sem fékk háan dóm fimm vetra gamall. Þá fékk hann 8,36 í aðaleinkunn og þar af 9,5 fyrir tölt, 9,0 fyrir háls og herðar, brokk og fegurð í reið. Andvari er klárhestur, sem gefur alhliða hross með vel vökrum hryssum. Það er aðallega frjósemin, sem hefur staðið honum fyrir þrifum upp á síðkastið. Annars væri hann að mala eigendum sínum gull, því að alltaf virðist vera fullt hjá honum. Raunar gildir um Andvara eins og ýmsa fleiri stóðhesta, að traustari upplýsingar þarf um frjósemina.

Eins og segir í dómsorðum Andvara gefur hann stórmyndarleg og traust reiðhross með góðum fótaburði og fallegri framgöngu. Stundum vantar aðeins meiri vilja til að fylgja öllum hæfileikunum eftir. En hann gefur hross, sem eru góð söluvara og flest allir geta riðið og notið. Þó vantar oft, að þau séu nógu prúð á fax og tagl. Og ekki teljast þau léttbyggð hross þó þau stigist vel í byggingadómi.

Galsi

Andvari naut í fyrstu ekki eins mikilla vinsælda og jafnaldri hans Galsi frá Sauðárkróki, sem sló í gegn strax fjögurra vetra gamall og fékk 8,25 í aðaleinkunn, þar af 8,63 fyrir hæfileika. Sex vetra fékk hann hvorki meira en minna en 9,01 fyrir hæfileika, þar af 9,8 fyrir skeið, 9,5 fyrir vilja, 9,3 fyrir brokk, 9,0 fyrir fegurð í reið og 8,5 fyrir tölt.

Galsi fékk þá mikið af hryssum og var mikið notaður af hryssueigendum, enda var hann ímynd hins íslenska alhliða gæðings, þótt sumir settu út á töltið og kölluðu skeiðborið. Á landsmótinu 1998 á Melgerðismelum toppaði Galsi svo feril sinn og sigraði í A-flokki gæðinga. Þá keyptu nokkur hrossaræktarsambönd hlut í honum á háu verði.

Þótt hann hafi ekki verið auglýstur, vilja þessi sambönd trúlega selja hann, ef einhver vildi kaupa, því að vinsældir hans sem stóðhests hafa dalað umtalsvert. Í dómsorðum Galsa segir, að hann gefi fjölhæf og rúm ganghross með létta byggingu – með öðrum orðum alhliða hross, sem eru skeiðmegin í tölti og bundin í bógum.

Þessi hestgerð, skeiðmegin í tölti, hentar ekki almennum hestamönnum og fer oft í binding hjá lítið vönum reiðmönnum. Þegar lítil fótlyfta er samfara, eru þetta léleg söluhross og ekki vænleg ræktunarhross frá sjónarhóli markaðarins. Þó hafa komið fram ýmis hross undan Galsa, sem eru mjög góð, en markaðurinn telur mörg hin vera of lélega söluvöru.

Rangur markaður?

Hér er ekki verið að segja, að markaðurinn hafi rétt fyrir sér og ræktunarstefnan ekki. Verið getur, að markaðurinn mæli skammtíma hagnað, en ræktunarstefnan miðist við lengri tíma. Það getur til dæmis verið hlutverk ræktunarstefnu að varðveita skeið, svo að íslenzka hestakynið verði ekki að klárhestakyni á löngum tíma. Það er líka spurning, hvort kröfur markaðarins um fótaburð séu ekki bara komnar út í öfgar, heldur hreint rugl. Brekkan rugli saman hugtökunum bezt og mest, en dómar séu raunsærri.

Kraflar

Svipað má segja um frænda hans Kraflar, sem er undan Hervari, en Galsi er undan Hervarsdóttur. Raunar er Kraflari ekki haldið fram á markaði, enda mikið fyrir honum haft vegna slyssins, sem varð, þegar hryssa braut undan honum. Einnig heldur lítið sem ekkert við honum. Áhugi á honum hefur minnkað, einnig heima fyrir.

Hinn almenni ræktandi telur, að hann gefi oft afkvæmi með brothættan gang. Þau eru liðleg á tölti, en skeið þarf að þjálfa og brokkið er ekki rúmt. Samfara þessu eru þau ekki hágeng svo það er lítið í Kraflar að sækja fyrir ýkta fótlyftumarkaðinn. Hann gefur hins vegar falleg stóðhross og nýtist þar sem góður höfuðburður og mikill vilji er talinn meira aðalsmerki en firna fótaburður og heilsteyptur gangur.

Óður

Óður frá Brún er í eigu hlutafélagsins Óðs sf. Margir eigendur koma að honum. Stóðhestar með marga eigendur, sem hafa borgað folatollinn fyrirfram, dala síður í vinsældum, því að menn nota áfram það, sem þeir hafa þegar keypt.

Óður fékk sjálfur 8,90 fyrir hæfileika í kynbótadómi. Var hann með skörulegri hestum á brautinni og fékk hann 9,7 fyrir skeið, 9,0 fyrir tölt, vilja og fegurð í reið. Óður var snillingur á gangi, hágengur og vel vakur og gekk honum vel í keppni, þótt lundgalli eða heimþrá, eins og eigendur kölluðu það, hafi staðið honum fyrir þrifum, þegar hann var kominn með fyrsta sætið í sjónmál á Hellu, en ákvað þá að verða kargur.

Flestir sem hafa notað Óð eru sammála um að hann gefi stundum miður fögur hross og miður lundgóð. Þótt þau séu oft getuhross á gangi með góðum fótaburði, sé ekki hægt að horfa framhjá útlits- og skapgöllum.

25% samræmi

Tölvubókhald ræktunarstefnunnar segir okkur þá ráðgjöf reynslunnar, að hryssueigendur eigi að vera í biðröð til að leiða undir hestana, sem hér hefur nokkuð verið lýst og voru tilnefndir af stærðfræðinni til heiðursverðlauna á landsmótinu á Hellu í sumar.

Markaðurinn hefur kveðið upp allt annan dóm og nánast afskrifað alla hestana nema Andvara, sem þó er tæpur í frjósemi. Samræmið milli stærðfræðinnar og markaðarins er ekki nema 25%. Hér er ekki verið að fullyrða, að markaðurinn hafi réttar fyrir sér en stærðfræðin, aðeins að samræmi þessara tveggja mælingaraðferða mætti vera meira.

Stóðhestaúrvarlið er mikið og bætast við nýir og rosahátt dæmdir stóðhestar á hverju ári. Hryssueigendur eru oft í vanda, þegar velja skal stóðhest handa hryssu eða jafnvel nokkrum hryssum. Valið hlýtur að ráðast af markmiði hrossaræktarinnar, sem hann er að stofna til. Oftast er markið sett hátt og stefnt að ræktun hrossa, sem geti skipað sér í fremstu röð sem kynbótahross eða keppnishross.

Til að ná markmiðinu er oftast leitað til stóðhesta, sem eru hæst dæmdir í kynbótadómum, einkum í afkvæmadómum, sem eiga að vera nákvæmastir. En eru þeir að gefa bestu hrossin? Spurningin er stór, en svarið kann að finnast í þróuninni í notkun hryssueigenda á stóðhestunum. Að vísu geta spilað margir ytri þættir inn, svo sem misjafnlega víðtækt eignarhald.

Fyrsta spurningin er, hvor sé betri mælikvarði á gæði stóðhesta, stærðfræðilegur útreikningur á árangri afkomenda þeirra eða vinsældir stóðhestsins, hversu margir hryssueigendur vilja nota hann, þegar reynsla þeirra er komin á afkvæmin.

Síðari spurningin er, hvort hægt sé að koma betra samræmi á þessa tvo mælikvarða. Að minnsta kosti betra samræmi en 25%.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 9.tbl. 2004.

Ábyrgðartrygging

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Ábyrgðartrygging

Síðan lausaganga búfjár var bönnuð víða um land er brýnasta trygging hestamannsins að tryggja sig fyrir tjóni, sem hross hans geta valdið öðrum aðilum, eignum eða fólki. Þeir geta ekki bara rispað bíla og nagað tréverk eða valdið öðru eignatjóni, heldur getur hreinlega orðið manntjón með milljónatjóni eða jafnvel tugmilljón króna tjóni, ef fullur bíll af fólki veltur, þegar bílstjórinn reynir að forðast árekstur við hest, sem hefur sloppið úr gerði eða girðingu, sem ekki hefur verið tryggilega lokuð.

Þetta eru miklu hærri fjárhæðir en þær, sem liggja í einstökum hestum. Því er ábyrgðartrygging mikilvægasta trygging hestamannsins, hvort sem hún er tekin eins sér eða samtvinnuð öðrum tryggingum. Tryggingafélögin bjóða yfirleitt 74 milljón króna ábyrgð með 10% sjálfsábyrgð, sem nær þó hámarki í 134.000-170.000 krónum. Þegar þessi nýja ábyrgð hestamannsins varð ljós í fréttum af slysum vegna lausagöngu hesta tók ég mér umsvifalaust sérstaka ábyrgðartryggingu á alla mína hesta. Þar með yrði ég ekki gjaldþrota, þótt illa færi.

Með öðrum tryggingum

Sumar tryggingar fela í sér hluta af hestatryggingum. Þannig er til landbúnaðartrygging, sem gerð er eftir forðagæzluskýrslum. Einnig nær hesthústrygging oft til brunatryggingar og innbrotstrygginar á hestum eins og öðru því, sem er í húsinu, ef óskað er. Síðan hitaveita kom í hesthús er einnig hægt að tryggja hesta eins og innbú fyrir tjóni af völdum heits vatns. Hesthúsið, þar sem hestarnir mínir eru síðari hluta vetrar, er tryggt á þennan hátt og hestarnir þar með bruna- og innbrotstryggðir.

Þegar menn eru farnir að brunatryggja og innbrotstryggja hesta og jafnvel hitaveitutryggja, kemur auðvitað að því að hagkvæmara sé að tryggja hestinn fyrir tjóni á honum, hvort sem það er í hesthúsi eða annars staðar og einnig fyrir sjúkdómum. Það eru einkum slíkar tryggingar, sem nú eru seldar og fela þær þá einnig í sér ábyrgðartryggingu á tjóni, sem hesturinn veldur öðrum aðila. Það er svona trygging, sem ég eins og margir aðrir er að velta fyrir mér um þessar mundir. Dæmið er flóknast á þessu sviði og því er niðurstaðan ekki einföld.

Heildartrygging

Í gamla daga, það er fyrir tæpum tveimur áratugum, var hægt að tryggja hesta eftir nafni og lit. Menn tryggðu þá einn brúnan hest og einn rauðan hest og komust upp með það. Úr þessu varð greinilegt svindl, sem þýddi, að tryggingin var alltof dýr á hvern hest. Ég spurði þá tryggingafélögin, hvort ég gæti fengið afslátt af tryggingu út á, að öll mín hross væru ekki bara brún og rauð, heldur frostmerkt, þannig að tryggingafélagið gat sannreynt, hvaða hross hefði orðið fyrir tjóni. Þessu var neitað í þá daga, svo að ég hætti við að tryggja í það skiptið.

Nú er öldin önnur. Hestar þurfa að vera örmerktir eða frostmerktir og jafnvel hafa farið í læknisskoðun til að fá tryggingu, svo að möguleikar á svindli eru hverfandi. Kostnaður við að gera hvern hest kláran fyrir tryggingu er 7.000-10.000 krónur fyrir dýralæknisvottorð og 1.500-3.000 krónur fyrir örmerkingu eða frostmerkingu, ef hesturinn hefur ekki áður verið merktur. Þetta er kostnaður, sem fellur til einu sinni, en kemur í veg fyrir, að iðgjaldið sjálft þurfi að vera eins hátt og það var í gamla daga.

Hestamenn geta haft margs konar sjónarmið, þegar þeir tryggja hesta. Hugsanlega eru þeir atvinnumenn og vilja tryggja sig fyrir tjóni, sem atvinnurekstur þeirra getur orðið fyrir. Það er mjög nærtækt fyrir atvinnumann að láta ekki ófyrirséða atburði leiða til mikilla fjárhagsvandræða, sem setja reksturinn úr skorðum. Slíkir aðilar eiga kost á margvíslegu tryggingamynztri, sem fela til dæmis í sér afnotamissistryggingu hryssa og ófrjósemistryggingu stóðhesta.

Svo er hægt að slysatryggja og sjúkdómatryggja öll hross, svo og líftryggja þau, bæði fyllilega og með takmörkuðum hætti. Þegar hestamaður, sem ekki er atvinnumaður, velur sér tryggingu, þarf hann að gera sér grein fyrir verðgildi hesta sinna og hvort hann vill líta á það, sem örlög, ef eitthvað kemur fyrir einhvern þeirra eða hvort hann telur ástæðu til að tryggja sig fyrir þeim. Hann getur kosið að tryggja hjá sjálfum sér, sem er annað orðalag yfir að tryggja sig ekki, eða tryggt hjá tryggingafélagi.

Þetta er auðvitað spurning fyrir hestamann, sem á hesta, sem metnir væru á 150.000 krónur hver, hvort hann eigi að gera eitthvað annað en að bíta á jaxlinn, ef hann verður fyrir óhappi. Dæmið lítur öðru vísi út, þegar hver hestur er metinn á 400.000 krónur. Þetta er semsagt spurningin um, hvort menn eigi fortakslaust að tryggja sig fyrir öllu eða byrja að tryggja sig, þegar í húfi er einhver lágmarkstala fyrir hvern hest.

Það er auðvitað einstaklingsbundið, hvar menn setja mörkin. Sumir vilja taka meiri áhættu en aðrir vilja. Sumir vilja taka alla áhættuna og aðrir vilja enga áhættu taka. Þegar menn hafa gefið sér forsendur, er rétt að tala við tryggingafélög og leita samninga um einhverja þá tryggingu, sem þeir telja henta sér í sinni stöðu.

Þrjú félög auglýsa

Þrjú tryggingafélög hafa auglýst tryggingar fyrir hestamenn. Það eru Tryggingamiðstöðin, Sjóvá-Almennar og Vátryggingafélag Íslands í samstarfi við sænska tryggingafélagið Agria, sem sérhæfir sig í dýratryggingum. Það er ekki markmið þessarar greinar að gera upp á milli þeirra eða velta vöngum yfir mismunandi aðferðafræði fyrirtækjanna við samsetningu trygginga og því síður að gera fjárhagslegan samanburð. Það verður hver hestaeigandi að gera fyrir sig. Hér á opnunni má sjá ýmis sjónarmið fulltrúa þessara fyrirtækja.

Markmið greinarinnar er að vekja athygli á mikilvægum atriðum, sem gott er að hafa í huga, áður en gengið er til samninga um tryggingar og vekja athygli á þeirri staðreynd, að breyttir þjóðfélagshættir á borð við bann við lausagöngu búfjár geta haft geigvænlegar afleiðingar fyrir hestamanninn, án þess að hann fái nokkra aðra rönd við reist en að gæta þess að vera tryggður.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 9.tbl. 2004

Kjölur: Þjóðbraut að fornu og nýju

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Hveravellir

Hveravellir eru miðpunktur allra Kjalarferða, hvaðan sem þeir koma og hvert sem þeir fara. Þaðan liggja leiðir til allra átta. Þetta var þjóðleið Gizurar jarls og Kolbeins unga í herferðum þeirra og samráðafundum á Sturlungaöld. Þetta er ein af vinsælustu leiðum fyrirtækja í hestaferðum nútímans, enda víðast hægt að fara langt frá bílvegum. Heita laugin magnar gildi staðarins fyrir þreytta og rykuga hestaferðarmenn.

Í árbók Ferðafélagsins árið 2001 er Kili lýst þannig, að hann sé allt að 30 km breiður salur milli Langjökuls og Hofsjökuls og 50 km langur frá ármótum Jökulfalls og Hvítár að sunnan og ármótum Blöndu og Seyðisár að norðan. Allt er þetta land meira en 400 metra yfir sjávarmáli og reiðgata fer hæst í 600 metra hæð við Grettishelli á austurleið hins forna Kjalvegar.

Leiðirnar frá Hveravöllum liggja norður í Áfanga vestan Blöndu til að komast niður í Austur-Húnavatnssýslu, einnig yfir Blöndu norður í Ströngukvísl til að komast niður í Blöndudal austanverðan eða í Skagafjörð, þangað sem hinn forni Kjalvegur liggur

Þær liggja suður í Árbúðir til að komast vesturleið hins forna Kjalvegar niður í Biskupstungur vestan Hvítár og einnig suður um austurleið hans í Svartárbotna til að komast yfir Hvítá í Kerlingafjöll eða í Leppistungur áleiðis niður í Hreppa.

Og loks liggur leið norðvestur um Djöflasand og Krák til að komast um skálana í Fljótsdrögum og Álftakróki yfir í Borgarfjörð eða um Fellaskála norður í Vestur-Húnavatnssýslu.

Landið er ekki lengur gróið saman yfir Kjöl og menn gera ekki lengur þar til kola úr viði eins og í upphafi Íslandsbyggðar. Enn er þó jafn mikilfenglegt sem fyrr að ríða þessa leið, varðaða tveimur af helztu jöklum landsins og miklum fjöllum á borð við Bláfell, Hrútafell, Kerlingafjöll og Blágnípu.

Suður Kjöl

Tvær greinilegar reiðleiðir liggja frá Hveravöllum suður um Kjöl.
Önnur liggur með fjöllum í stóran sveig til vesturs umhverfis Kjalhraun, að mestu leyti um gróið land og að mestu leyti vörðuð. Þetta er falleg leið um Tjarnardali, Sóleyjardal og Þjófadali og síðan niður með Fúlukvísl undir rismiklu Hrútafelli og ávalri Baldheiði suður í Árbúðir. Rétt er að fara með laus hross austur fyrir Þjófadali, en ríða einhesta um dalina. Þessi dagleið er sennilega hin minnisstæðasta á reiðvegum á Kili og við hann, enda sú sem mest er farin.

Hin leiðin liggur beint til suðurs um greinilega og að mestu leyti varðaða reiðgötu yfir Kjalhraun vestan Rjúpnafells, framhjá Grettishelli í 700 metra hæð, Beinahóli Reynistaðabræðra og síðan austan Kjalfells í Svartárbotna, þar sem er kominn nýr skáli. Þriðja leiðin um Kjöl er svo nálægt bílveginum austan Kjalhrauns, sem hestamenn hafa dálítið farið síðustu árin.

Úr Svartárbotnum liggur leið til suðvesturs yfir á vestari Kjalveg til Árbúða. Önnur liggur til austurs yfir bílveginn og Kerlingafjallaafleggjarann á brúna yfir Jökulfall. Við hinn enda Jökulfallsbrúar skiptast leiðir og liggur önnur stuttan veg upp í Kerlingafjöll og hin lengri veg niður til byggða, fyrst um hrjóstrugt land og síðan niður í Miklumýrar um gróin heiðalönd í skálana í Leppistungum fyrst og síðan Svínárnesi, þaðan sem leiðin liggur áfram í Helgaskála. Þaðan er svo stutt dagleið vestan við hin miklu Laxárgljúfur, sem fáir hafa séð, niður að Kaldbak, innsta bæ við Stóru-Laxá, þar sem hægt er að fá haga.

Sé farinn sveigurinn frá Hveravöllum til Árbúða, liggur leiðin frá Árbúðum fyrst meðfram Hvítárvatni og síðan yfir Hvítárbrú, þar sem hestamenn beygja yfirleitt á hefðbundna reiðleið um blaut Lambafellsver austur fyrir Bláfell, en sunnan undir því er skálinn í Fremstaveri. Þetta er mun grónari og skemmtilegri leið en barningurinn við bílveginn um Bláfellsháls vestan Bláfells. Útsýni er hins vegar mikilfenglegra af hálsinum í góðu veðri. Frá Fremstaveri er farið að mestu um sendið og grýtt land til byggða í Kjóastöðum, efsta bæjar í Biskupstungum, þar sem hægt er að fá haga.

Norður heiðar

Góð leið, en ekki sjáanlega forn, liggur frá Hveravöllum vestan Blöndu og bílvegar um dæmigerðar heiðar Húnvetninga niður að skálanum við Áfanga, þaðan sem leiðin liggur áfram niður í byggðir Húnvetninga vestan Blöndu, fyrst í Friðmundarvötn og síðan annað hvort vestur í Vatnsdal eða norður í Svíndal í félagsheimilið í Dalsmynni, þar sem er gisting og hagi. Greið leið er til dæmis niður í bændagistinguna að Hofi í Vatnsdal, þar sem er gisting og hagi, og síðan áfram á bökkum Vatnsdalsár norður á Þingeyrar, þar sem er gott reiðland.

Hinn kosturinn á norðurleið er að fara hinn forna Kjalveg yfir vaðið á Blöndukvísl ofan við ármót Seyðisár og síðan yfir vaðið á Ströngukvísl ofan við Draugháls, fyrst í skálann austan Ströngukvíslar og síðan yfir Haugakvísl í skálann við Galtará. Langt er síðan ég fór þessa leið, en í minni mínu er hún skemmtileg og greið reiðleið fjarri leiðum bíla.

Frá Galtará liggja leiðir vestur yfir Blöndustíflu yfir í áðurnefndan Áfanga eða til innstu byggðar í austanverðum Blöndudal að Bollastöðum, þar sem er hægt að fá haga fyrir hross, og loks einnig tvær leiðir milli fjalla til Skagafjarðar. Í Kjalarferðum Eldhesta er farið frá Hveravöllum um Áfanga í Bollastaði, en í Kjalarferðum Íshesta er farið frá Hveravöllum um Ströngukvísl og Galtará í Hvíteyrar. Hvor leið hefur sína kosti.

Til Skagafjarðar er venjulega er farin nyrðri leiðin, hinn hefðbundni Kjalvegur um Mælifellsdal norðan Mælifells og þá komið niður að Hvíteyrum í Skagafirði, þar sem hægt er að fá hestahaga og ekki langt að láta flytja sig út í Varmahlíð til gistingar og sundlaugarferðar. Hin leiðin liggur sunnan Mælifells og er þá komið niður að Gilhaga í Skagafirði.

Um fyrsta fund Kjalvegar segir í Landnámabók frá þrælnum Rönguði, sem Eiríkur í Goðdölum í Skagafirði sendi á fjall til að leita landa:

“Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með þeirri er fellur fyrir vestan Hvinverjadal og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar og kom þar á manns spor og skildi að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá er nú heitir Rangaðarvarða. Þaðan fór hann aftur og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína, og þaðan af tókust ferðir um fjallið milli Sunnlendingafjórðungs og Norðlendinga.”

Skálar

Fremstaver

Fremstaver undir Bláfelli, 30 km frá Kjóastöðum, 30 km frá Árbúðum á Kili. Umsjónaraðili er Bláskógabyggð, símar 486 8808 og 852 7258. Hér er pláss fyrir 28 manns. Gisting fyrir manninn kostaði í sumar 1.500 krónur. Hey var selt í böggum, líklega 300 kr á hest.

Árbúðir

Árbúðir á Kili, 30 km frá Fremstaveri, 20 km frá Svartárbotnum, 40 km frá Hveravöllum vestri leið, 25 km eystri leið. Umsjónaraðili, sjá Fremstaver. Hér er pláss fyrir 28 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Fremstaver.

Hveravellir

Hveravellir þjónustumiðstöð, leiðir til allra átta, 40 km frá Árbúðum vestri leið, 25 km eystri leið, 20 km frá Svartárbotnum, 25 km frá Ströngukvísl, 40 km frá Áfanga. Umsjónaraðili er Svínavatnshreppur, símar 452 7123, staðarsímar 452 4200 og 853 4685. Hér er nóg pláss, gamli skálinn einn tekur 30 manns. Gisting fyrir manninn kostaði 1.700 krónur, hey var selt í rúllum, líklega 300 kr á hest.

Áfangi

Áfangi ofan Svínadals, 40 km frá Hveravöllum, 25 km frá skálanum við Friðmundarvötn og síðan 25 km til viðbótar frá Dalsmynni í Svínadal og 35 km frá Hofi í Vatnsdal, 25 km frá Galtará, 40 km frá Bollastöðum í Blöndudal. Umsjónarmaður er Jón Gíslason, símar 452 7133, 853 6416 og 868 3750. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn kostaði 1.800 krónur, hey var selt í rúllum, líklega 300 kr á hest.

Galtará

Galtará ofan Blöndudals, 40 km frá Hvíteyrum í Skagafirði, 30 km frá Bollastöðum í Blöndudal, 25 km frá Ströngukvísl, 25 km frá Áfanga. Umsjónaraðili er Sigfús Guðmundsson, símar 853 0269 og 846 5545. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn kostaði 1.400 krónur, hey var selt í rúllum, líklega 300 kr á hest.

Strangakvísl

Strangakvísl ofan Svínadals, 25 km frá Galtará, 25 km frá Hveravöllum. Umsjónaraðili, sjá Galtará. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Galtará.

Svartárbotnar

Svartárbotnar á Kili, 20 km frá Hveravöllum, 15 km frá Kerlingafjöllum, 20 km frá Árbúðum , 30 km frá Leppistungum. Umsjónaraðili, sjá Fremstaver. Hér er pláss fyrir 40 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Fremstaver.

Leppistungur

Leppistungur á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Svartárbotnum, 25 km frá Kerlingafjöllum, 25 km frá Svínárnesi. Umsjónaraðili er hreppurinn, síma 480 6600 umsjónarmaður skála Guðbjörn Dagbjartsson, síma 486 6725. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn kostaði 1.200 kr og fyrir hestinn 250 kr.

Svínárnes

Svínárnes á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Leppistungum, 25 km frá Helgaskála. Umsjónaraðili, sjá Leppistungur. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Leppistungur.

Helgaskáli

Helgaskáli á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Kaldbak, 25 km frá Svínárnesi. Umsjónaraðili, sjá Leppistungur. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Leppistungur.

Heiðajarðir

Vel staðsettar heiðajarðir, sem selja beit fyrir ferðamenn, sem fara á Kjöl eða koma af Kili eru m.a. Bollastaðir í Blöndudal, Hvíteyrar í Skagafirði, Kaldbakur í Hrunamannahreppi og Kjóastaðir í Biskupstungum.

Eiðfaxi 9.tbl. 2004

Við tökum á spattinu í vor

Hestar

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:

Fagráð í hrossarækt mun taka á spattinu á næsta sýningarári kynbótahrossa. Næstu fundir ráðsins munu fjalla um málið og væntanlega ljúka því fyrir áramót. Komin er til sögunnar dýrmæt þekking á spatti og arfgengi þess, sem gerir þetta kleift.

Ég tel sjálfur eðlilegast, að niðurstaðan verði, að öllum sex vetra stóðhestum verði að fylgja röntgenmyndir og umsögn, sem birt verði opinberlega.

Á alþjóðaráðstefnu dýralækna, sem haldin var á Selfossi í tengslum við landsmótið, kom fram, að almennt er talið vera 32-33% arfgengi í spatti, sem er mikið. Ennfremur kom fram, að með aðgerðum gegn spatti má draga tíðnina á fjórum kynslóðum hrossa úr 19% í 11%, sem er mikil framför. Í Hollandi hefur spatti nánast verið útrýmt sem vandamáli. Á ráðstefnunni kom almennt fram, að vísindamenn úr mörgum áttum eru sammála um spattið.

Svíar telja, að fjórar rétt teknar röntgenmyndir nægi til að sýna, hvort spatt er í hesti eða ekki. Við gerum ráð fyrir, að dýralæknar taki röntgenmyndir eftir ákveðnum reglum og að þær verði síðan sendar einum trúnaðardýralækni, sem túlkar þær, þannig að sams konar túlkun gildi um alla sýnda stóðhesta.

Margir hafa efasemdir um röntgenmyndir, en ég held, að reynslan eigi að tryggja okkur, að þessar myndir gefi okkur ekki villandi upplýsingar á næsta ári.

Ég hef ekki trú á boðum og bönnum í þessu efni frekar en öðrum þáttum hrossaræktar. Ég veit, að Hollendingar hafa bannað notkun spattaðra stóðhesta, en ég tel samt, að það nægi, að spilin liggi á borðinu, svo að hver hryssueigandi fyrir sig geti metið, hvort hann leggur meiri áherzlu á að forðast spattið eða að sækjast eftir öðrum eiginleikum stóðhesta.

Ekki þýðir að mæla stóðhesta mikið eldri en sex vetra. Spatt er öðrum þræði hrörnunarsjúkdómur, sem stóðhestar geta fengið á löngum tíma, þótt þeir búi ekki beinlínis yfir arfgengi. Það væri líka mismunun að mæla stóðhesta á ýmsum aldri. Bezt er, að það sé við sex vetra aldurinn fyrir alla stóðhesta og verði þá skylda. Það er hættulegt, ef sex vetra hestur er kominn með skugga.

Erlendir kaupendur íslenzkra hesta hafa margir afar miklar áhyggjur af spatti og munu vafalaust fagna því, að Íslendingar taka núna í alvöru á sjúkdóminum. Í Svíþjóð hafa íslenzkir hestar mælzt með óvenjulega háa heilbrigði að öllu öðru leyti en spatti, sem er þrisvar sinnum algengara í íslenzkum hestum en hestum af öðru tagi.

Ég tel, að krafan um röntgenmyndir af sex vetra stóðhestum muni einnig hafa áhrif á hryssur. Eigendur þeirra munu margir hverjir fá áhuga á að láta röntgenmynda sex vetra hryssur og gefa út niðurstöðurnar. Þannig getur framförin orðið hraðari en hún yrði, ef hún beindist eingöngu að stóðhestunum.

Fagráð kemur saman í október út af þessu. Það mun kalla til sérfræðinga, svo sem Þorvald Árnason frá Svíþjóð. Ennfremur mun vinnuhópur um heilbrigðisþætti koma að málinu. Síðan verður það sett í tæknilega úrvinnslu og stefnt að því, að niðurstöður um reglur liggi fyrir í desember. Þetta er í samræmi við ferli, sem fagráð ákvað fyrir rúmu ári.

Við stefnum í þessu efni að árangri, sem muni auka traust manna á góðu heilsufari íslenzka hestsins og efla stöðu hans á markaði. Átak gegn spatti er skref á þeirri braut.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2004