Hestar

Brýtur möl á reiðvegum

Hestar

Björn Jónsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Snæfellsbæ:

Vegagerðin á Vesturlandi hefur tekið í notkun malarbrotsvél, sem tekur gróft efni, sem lagt hefur verið í reiðvegi, og brýtur yfirborð þess niður í sand. Tækið hefur verið notað í ágúst á nokkrum stöðum á Vesturlandi, þar á meðal í reiðveg frá þjóðvegi heim að Lýsuhóli á Snæfellsnesi og á reiðvegi meðfram þjóðvegi í Helgafellssveit.

Nota þarf traktor til að draga vélina og er tímakaupið samtals 15.800 krónur á settið. Áætlað kostnaðarverð á hvern malaðan kílómetra í reiðvegi er 38.000 krónur.

Tæki þetta er líka hægt að nota til að taka gróft land og brjóta yfirborð þess beint niður í fínlegra efni, þar sem aðstæður eru góðar til slíkra vinnubragða. Að öðrum kosti þarf fyrst að leggja út reiðveg með grófu efni, áður en þessi vél býr til heppilegt yfirborð.

Reiknað er með, að tækið verði einkum notað á venjulega malarvegi til að gera þá mýkri en þeir hafa verið. Gerðar hafa verið tilraunir með þetta, til dæmis á veginum út fyrir Jökul og gert er ráð fyrir að halda áfram á veginum yfir Uxahrygg.

Vélin kostaði 2,3 milljónir króna í innkaupi og mun væntanlega hafa næg verkefni. Hér er um áhugaverðan grip að ræða, sem mætti nota til að bæta bágt ástand, sem víða er á reiðleiðum.

Umsjónarmaður tækisins er Bjarni H. Johansen, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Borgarnesi.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2004

Helztu ferðaleiðir

Hestar

Friðland að Fjallabaki

Umferð hestamanna um hálendið fer ört vaxandi. Aðfaranótt 21. júlí voru 240 hestar í Hvanngili í góðu yfirlæti. Daginn áður og daginn eftir urðu ferðahópar að fara af stað úr Hólaskjóli og Hvanngili með ákveðnu millibili til að lenda ekki í árekstri. Ferðahópur beið í Landmannalaugum eftir að hópur úr Landmannahelli færi hjá á leið í Hólaskjól. Á Leirubakka voru nokkrir ferðahópar að koma og fara 25. júlí. Fjallabakið er að verða að Laugavegi hestaferða.

Allt gengur þetta upp, ef menn vita hver af öðrum og ferðast skipulega. Í auknum mæli fer jeppamaður á undan hópnum og slær upp gerði á ógrónu landi með 7-9 km bili til að halda hrossunum saman, skipta um reiðhross, tryggja að hrossin haldi sig við hefðbundnar og viðurkenndar reiðleiðir og að hægt sé að hleypa öðrum hópum hjá. Slík ferðamennska stuðlar að nauðsynlegri sátt milli hestaferðamanna og annarra málsaðila á hálendinu.

Til mikilla bóta væri til dæmis, ef friðlandsvörðurinn að Fjallabaki merkti áningarstaði á 7-9 km bili á þessu svæði með merkifánastöng til að tryggja, að allir hóparnir slái þar upp girðingu og hafi áningu á sömu stöðum, en ekki hér og þar. Þetta mundi kosta lítið í fé og fyrirhöfn, meðan beðið er eftir fjármagni í varanleg hestahólf á þessum svæðum. Sjö km bil hæfir í mishæðóttu landi og níu km í flötu landi. Að auki gæti hann gefið út hnit fyrir staðina. Þessi einfalda aðgerð mundi skapa aukinn frið um ferðir hestamanna á svæðinu.

Síðan mætti ganga lengra og setja upp lausar girðingar með plasthúðuðum járnstaurum, sem stungið er niður með handafli og breiður hvítur borði þræddur um augu þeirra, svipað lausu girðingunum, sem hestamenn hafa margir í trússi sínu. Svona hólf, um 25 metra á kant, getur einn maður búið til á 10 mínútum og það endist allt sumarið með smávægilegu eftirliti. Frá Áfangagili til Hólaskjóls yrðu þetta samtals sjö girðingar eða minna en eitt dagsverk og samtals innan við 30.000 krónur í útlögðum kostnaði. Síðar mætti setja upp fasta og trausta hornstaura.

Þetta væri áreiðanlega gagnlegri iðja friðlandsvarðar en að abbast ítrekað upp á friðsama og ódrukkna hestaferðamenn, þar á meðal landsþekkta náttúruverndarmenn, sem fara eingöngu viðurkenndar reiðleiðir í halarófu, og tala fyrst til þeirra og ljúga síðan um þá í fjölmiðlum eins og þeir séu að spóla um öll fjöll eins og jeppakallar eða torfærumenn. Því miður er skapstyggur friðlandsvörðurinn að Fjallabaki andvígur umferð íslenzkra hestamanna og reynir að snapa tilgangslausan fæting við hestafólk. Maður hlýtur að spyrja sig, hvort eitthvað sé að marka illt umtal hans um jeppakalla og torfærumenn.

Hann hefur þá kenningu, að hver hestamaður þurfi ekki nema tvö hross og þurfi ekki að stanza oftar en á 12-15 km bili. Hann hefur það eftir forstöðumanni hestaferðafyrirtækis, sem röltir mikið á feti með hópa erlendra ferðamanna. Íslenzkir hestaferðamenn, sem eru meira hestaðir, ferðast hraðar og skipta oftar um hesta, eru utan sjóndeildarhrings hans, eru ekki fagmenn að hans mati.

Betri eru viðtökurnar og meiri er árangurinn í Hvanngili, þar sem hægt er ráðgast við staðarhaldarann um, hvernig heppilegast sé að fara milli Hvanngils og Króks. Að ráði staðarhaldara fór stór ferðahópur lengri leið um jeppaslóðina meðfram Álftavatni í stað þess að fara hefðbundnu leiðina hjá Klámbrekkum og Torfahlaupi til þess að halda sig á leiðum, þar sem ekki verða nein spjöll af umferð hesta. Þannig næst árangur, ef forvígismenn málsaðila tala saman um leiðir í stað þess að hoppa um og rífast.

Erlendir ferðamenn kunna vel að meta lífið sem fylgir hestaferðunum. Hvarvetna stekkur fólk úr leigubílum sínum og rútum og myndar í gríð og erg, þegar hópar hestaferðamanna fara hjá eða æja. Einn útlendingurinn sagðist hafa tekið fleiri myndir af hestunum á einum stað en samanlagt af öllu landslaginu að Fjallabaki. Þannig gefa hestarnir æskilegt líf í forgrunn mynda af landslaginu og eru hluti af ímynd landsins í augum ferðamanna.

Því miður eru enn nokkur dæmi um, að íslenzkir hestaferðamenn fari um drukknir á ferðum sínum eða sinni fáum ferðareglum. Einn hópurinn girti yfir fjallveginn nálægt Gullfossi og neitaði að flytja sig til hliðar við veginn til að hleypa umferð í gegn. Svona hópar koma auðvitað óorði á hestaferðamenn og valda því, að samskipti þeirra við aðra málsaðila eru lakari en þau eiga að geta verið.

Jónas Kristjánsson

Draumalandið
Löngufjörur

Löngufjörur eru draumaland hestamannsins, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum, bæði dagleiðin suður í átt til Hítarness og Akra og dagleiðin vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Ef menn ríða bara einu sinni þessa leið, er bezt að ríða vestur og hafa Snæfellsjökul í fangið.

Hestum líður vel á þessari leið, þeir teygja sig á góðgangi og hafa margir gaman af að sulla eins og börn. Gamlir klárhestar verði ágætlega meðfærilegir á tölti, skeiðhestum er att saman og lausu hrossin æða áfram á stökki eins og þau eigi lífið að leysa. Erfitt er að hemja allt þetta á leirunum og þá er ráðið að leita upp í gróðursælar eyjar til að hvíla hrossin og sprengja ekki gæðingana.

Syðst á Löngufjörum er Akraós milli Akra og Stóra-Kálfalækjar í suðri og Hítarness í norðri, síðan Kaldárós milli Hítarness, Snorrastaða og Eldborgar, þá Haffjarðarós milli Stóra-Hrauns, Kolviðarness og Skógarness og loks Straumfjarðarós milli Skógarness og Stakkhamars. Allt eru þetta láréttar leirur. Þar fyrir vestan tekur við hallandi sandfjara, stundum hvít eða gullin af skeljum og gulum olivínkornum, oft kölluð gullsandur, fyrst frá Melkoti að Staðará og svo frá Görðum um Búðaós að Búðum.

Fjölmörg sumur hef ég farið reglulega með hópi hestamanna í rúma vikuferð um Löngufjörur og nágrenni. Oftast hefur verið farið frá stöðum í Borgarfirði yfir gömlu Hvítárbrúna við Ferjukot og síðan þvert yfir þjóðveg 1 um Laxholt, Stangarholt, Grenjar að Grímsstöðum, þar sem góð gisting á þjóðbraut hestamanna til Kaldármela. Frá Grímsstöðum er skemmtileg dagleið um Hraundal, Svarfhól, Staðarhraun, Fagraskógarfjall og Kaldármela í Snorrastaði, þar sem við höfum oftast byrjað ferðir okkar á fjörurnar.

Mikilvægt er að hafa staðkunnugan leiðsögumann, sem veit, hvar og hvenær vöð eru á Saltnesál, Haffjarðará, Straumfjarðará og Búðaósi. Þekktastur slíkra er Haukur Sveinbjarnarson á Snorrastöðum. Dagleiðum á þessu svæði verður að haga eftir flóðatöflum og reynslu staðkunnugra til að sleppa við sundreið yfir ála. Flóðatöflur Almannaksins duga ekki einar, því að þær hafa ekki frávik fyrir þetta svæði, nema fyrir Búðir.

Vestur Snæfellsnes hefur verið hefðbundið hjá okkur að hafa eina dagleið frá Snorrastöðum í Skógarnes, aðra frá Skógarnesi í Garða, þá þriðju frá Görðum í Arnarstapa og stundum þá síðustu frá Arnarstapa út fyrir jökul í Ingjaldshól eða Rif. Sjaldnar hef ég farið fjörurnar milli Snorrastaða og Hítarness og milli Hítarness og Syðri-Kálfalækjar, sem eru samtals ein dagleið.

Allt þetta svæði Löngufjara er með víðáttumiklu grunnsævi og leirum, sandfjörum og fitjum, eyjum og skerjum, blautum brokflóum, afar mikilvægt fyrir fjölbreytt fuglalíf, allt upp í eitt arnarpar nálægt Saltnesál. Tveir gamlir kaupstaðir voru áður fyrr á þessari leið og sést votta fyrir þeim, að austanverðu í Skógarnesi og að vestanverðu í Fram-Búðum. Hvítu og ljósrauðu fjörurnar vestan Melkots er bezt að ríða á útfallinu, því að þá eru þær blautar og harðar.

Eftir að fjörunum linnir að vestanverður, taka við áhugaverðir kaflar, fyrst Klettsgatan um Búðahraun, síðan Hraunlandarif fyrir Breiðuvík, Sölvahamar að Arnarstapa og svo kirkjustígur um Svartahraun norðan Dagverðarár, næst um opið land ofan við fornu kaupstaðina í Dritvík og Djúpalónssandi með góðri viðkomu í réttinni í Beruvík og loks aftur kirkjustígur norður um Prestahraun að Ingjaldshóli.

Lítið er riðið um bílvegi eða meðfram þeim á þessari leið allri. Fara þarf yfir þjóðveg 1 hjá Ferjukoti, þjóðveg 54 hjá Kaldármelum, meðfram sama vegi um 10 km leið frá Staðará að Görðum, og loks nokkrum sinnun yfir fáfarinn þjóðveg 574 á leiðinni út fyrir jökul.

Gætið þess að láta ekki ýta ykkur af Klettsgötu yfir á malbikaðan þjóðveginn, sem liggur himinhátt yfir landslaginu og er nánast ófær hestum á kafla. Klettsgatan er hefðbundin þjóðleið, sem harðar skeifur hesta bjuggu til á löngum tíma. Hestamenn eiga að nota þessa leið, en gott og skynsamlegt er að láta þjóðgarðvörð Snæfellsjökuls vita um ferðir ykkar í síma 436 6860. Stanzið ekki í Klettsgötu, til dæmis ekki við hliðið á vesturgirðingunni til að hafa hestaskipti, það getur leitt til traðks.

Gisting á Löngufjörum, sem hentar hestamönnum, er einkum þessi:

Grímsstaðir

Grímsstaðir, 35 km frá Hvanneyri, 35 km frá Snorrastöðum, vinsæll áningarstaður á leið manna vestur um Mýrar. Umsjónarmaður er Guðni Haraldsson í Borgarnesi, síma 892 3525. Á Grímsstöðum er gamalt íbúðarhús með dýnum fyrir 20 manns. Gisting fyrir manninn kostar 1900 kr og fyrir hestinn 190 kr.

Snorrastaðir

Snorrastaðir, 35 km frá Snorrastöðum, 25 km frá Skógarnesi, helzti viðkomustaður hestamanna á Löngufjörum. Þaðan má ríða suður í Stóru eða vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Umsjónarmaður er hinn landskunni Haukur Sveinbjarnarson, síma 435 6627. Við gistihús hans er nú kominn heitur pottur. Gisting fyrir manninn kostar 2.000 krónur og fyrir hestinn 200 kr.

Stóri-Kálfalækur og Lindartunga

Aðrir gististaðir á svæðinu eru Stóri-Kálfalækur sunnan Akrafjöru, umsjónarmaður Sigurður Jóhannsson, síma 437 1822, 15 km frá Snorrastöðum; og félagsheimilið Lindartunga við Kolbeinsstaði, síma 435 6633.

Eldborg

Hótel Eldborg í Laugagerðisskóla á Kolviðarnesi, síma 435 6602, auglýsir pakka fyrir hestamenn með gistingu, morgunmat og kvöldmat í tvær nætur og aðstöðu fyrir hesta á 10.000 kr samtals. Að öðru leyti kostar þar gisting fyrir manninn 1.500 kr og fyrir hestinn 200 kr.

Skógarnes

Í Skógarnesi, 25 km frá Snorrastöðum, 35 km frá Görðum, er hægt að fá næturhólf fyrir hesta, en menn verða að fara annað í gistingu, til Eldborgar eða í Garða til dæmis. Umsjónarmaður er Trausti Skúlason, síma 435 6687. Aðstaðan kostar 200 kr fyrir hestinn.

Garðar

Gistihúsið Langaholt í Görðum í Staðarsveit, 35 km frá Skógarnesi, 35 km frá Stapa. Þar ráða ríkjum hin þekktu hjón, Svava Guðmundsdóttir og Símon Sigurmonsson, síma 435 6789. Gisting fyrir manninn kostar 2.200 krónur og fyrir hestinn 150 kr.

Lýsuhóll

Gistihúsið Lýsuhóll er annar kostur á sama svæði. Umsjónarmenn eru Jóhanna Ásgeirsdóttir and Agnar Gestsson, síma 4356716. Gisting fyrir manninn kostar um það bil 1.700 kr í 6.900 kr smáhýsum og útvegað er pláss fyrir hesta í nágrenninu á 150-200 kr.

Snjófell

Gistihúsið Snjófell á Arnarstapa hefur verið helzti áningarstaður hestamanna á leið áfram vestur fyrir jökul, 35 km frá Görðum, 35 km frá Rifi. Umsjónarmaður er Tryggvi Konráðsson, síma 854 5150. Umsjónarmaður hestahólfs hefur verið Þorkell Högnason, síma 853 7638, en hann hefur nú misst hagana í hendur sveitarfélagsins, sem hefur skipulagt þar sumarhúsabyggð.

Gíslabær

Gíslabær á Hellnum tekur 14 manns í gistingu og útvegar hagabeit fyrir nóttina, þó ekki fyrir marga hesta. Umsjónaraðili er Björg Pjetursdóttir, síma 435 6886. Gistingin kostar 2000 kr fyrir manninn.

Hellissandur

Hótel Hellissandur, 35 km frá Arnarstapa, hefur svefnpokapláss fyrir 13 manns í Gimli, síma 444 4940. Gistingin kostar 2.000 kr fyrir manninn. Sæmundur Kristjánsson hestamaður og sagnaþulur útvegar beitarhólf fyrir hesta, síma 893 9797, 436 6767.

Hreppaafréttir
ekki fyrir bíla

Afréttir Hreppamanna eru víðáttumikið skemmtilegt land með ýmsum áningarstöðum, sem ekki eru aðgengilegir þeim, sem ferðast um á bílum. Þar á meðal eru hin frægu Laxárgljúfur, ýmsir fossar í Þjórsá, svo sem Gljúfurleitarfoss og Dynkur, og vinjar undir Hofsjökli, svo sem Nautaver og Arnarfelli hið mikla. Á þessu svæði eru einnig Háifoss í Þjórsárdal og Kerlingarfjöll á Kili.

Góðir leitarmannaskálar varða hringinn um þetta fjölbreytta svæði. Sums staðar eru hreinar eyðimerkur, annars staðar grösugir hagar og náttúruundur. Verin milli Hofsjökuls eru kapítuli út af fyrir sig, fræg af deilum um virkjanir og stíflur, eins og fossarnir í Þjórsá, sem fæstir hafa barið augum og verða kannski von bráðar ekki nema svipur hjá sjón vegna fyrirhugaðra raforkuframkvæmda.

Gott er að byrja ferðina í Hólaskógi, því að þangað liggur vegur, sem er fær öllum bílum. Einnig er hægt að byrja niðri í byggð í Gnúpverjahreppi og ríða fyrsta daginn upp í Hólaskóg. Einnig er hægt að ríða frá Kaldbak í Hrunamannahreppi meðfram Laxárgljúfrum upp í Helgaskála. Í þessari leiðarlýsingu er gert ráð fyrir, að menn byrji í Hólaskógi og fari rangsælis um afréttir Hreppamanna.

Frá Hólaskógi liggur grösug leið yfir Sandafell og Skúmstungur og síðan um Starkaðarver og meðfram Hjallaverskvísl og Blautukvísl að skálanum í Gljúfurleit. Síðan liggur leiðin upp með Þjórsá, áfram að mestu um gróið land, framhjá fossunum Gljúfurleitarfossi, Dynki og Kjálkaversfossi að skálanum í Bjarnalækjarbotnum. Í öllum tilvikum þarf að taka krók af leiðinni niður að fossunum í Þjórsá. Þetta er hin gamla Sprengisandsleið.

Eftir Bjarnalækjarbotna er farið yfir árnar Miklalæk og Kisu og síðan meðfram Norðlingaöldu, þar sem skiljast leiðir. Önnur heldur áfram Sprengisandsleið í Tjarnarver, þar sem er áningarstaður þeirra, sem ætla í Arnarfell og kannski áfram yfir Þjórsá á Sprengisand. Hin liggur yfir eyðimörkina Stórasand framhjá skálanum Setrinu að Kerlingafjöllum. Þar er bæði hægt að fara suður fyrir eða norður fyrir, sem er heppilegra, ef menn ætla í sumarhúsahverfið í Ásgarði. Þá er farið um Illahraun, Kisubotna í 800-900 metra hæð, og í Jökulkrók, að lokum vestur fyrir Ásgarðsfjall.

Kerlingafjöll eru kapítuli út af fyrir sig, litskrúðugur heimur fjallstinda og smájökla. Jarðhiti er við áningarstaðinn, svo að þar er hægt að fara í sturtu og heitan pott, sem auðvitað hefur ekki verið hægt í neinum skálanna, sem undan hafa gengið og eftir eiga að koma.

Frá Ásgarði liggur liðin niður með Kerlingafjöllum vestanverðum, fyrst suður milli Skeljafells og Mosfells og síðan austur Hænsnaver og Miklumýrar í skálann í Leppistungum, síðan um vel gróið land niður með Sandá til skálans í Svínárnesi og loks að Helgaskála, sem er á krossgötum línuvegarins milli Hólaskógs og Tungufells annars vegar og leiðarinnar, sem hér hefur verið lýst.

Frá Helgaskála liggur leið suður Hrunaheiðar meðfram Laxárgljúfrum að Kaldbak, innsta bæ við Stóru-Laxá. Að öðrum kosti halda menn meðfram línuveginum frá Helgaskála að upphafsreitnum í Hólaskógi. Skömmu áður en komið er á leiðarenda er afleggjari að góðum útsýnisstað við Háafoss.

Gisting á afréttum Hreppamanna, sem hentar hestamönnum er einkum þessi:

Hólaskógur

Hólaskógur á Gnúpverjaafrétti, 25 km frá Helgaskála, 25 km frá Gljúfurleit. Umsjónarmaður er Sigurður Gröndal, síma 820 8784. Hér er nóg pláss og sturtur í nýjum skála. Gisting fyrir manninn kostar 1.600 kr og fyrir hestinn 295 kr.

Gljúfurleit

Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétti, 25 km frá Hólaskógi, 20 km frá Bjarnalækjarbotnum. Umsjónaraðili er hreppurinn, síma 486 6014, umsjónarmaður skála Atli Eggertsson, síma 864 6119. Hér er pláss fyrir 20-30 manns. Gisting fyrir manninn kostar 1.000 krónur og hey kostar 700 kr hver 15-16 kg baggi.

Bjarnalækjarbotnar

Bjarnalækjarbotnar á Gnúpverjaafrétti, 20 km frá Gljúfurleit, 25 km frá Tjarnarveri. Umsjónaraðilar, sjá Gljúfurleit. Hér er pláss fyrir 20 manns. Gisting, sjá Gljúfurleit, og hey kostar 750 kr bagginn.

Tjarnaver

Tjarnarver á Gnúpverjaafrétti, 25 km frá Bjarnalækjarbotnum, 15 km frá Setrinu og 50 km frá Kerlingafjöllum. Hér er pláss fyrir 10 í lélegum skála og 10 í innréttuðu hesthúsi, alls 20 manns. Umsjónaraðilar, sjá Gljúfurleit. Hér er pláss fyrir 20 manns. Gisting, sjá Gljúfurleit, og hey kostar 1000 kr bagginn.

Kerlingafjöll

Kerlingafjöll á Hrunamannaafrétti, 50 km frá Tjarnarveri, 25 km frá Leppistungum. Hér er nóg pláss. Umsjónaraðilar eru Páll í síma 892 5132 og Gunnar í síma 894 2132. Heitir pottar eru innifaldir í gistingarverði. Gisting fyrir manninn kostar eftir aðstæðum 2.000-2.300 kr og fyrir hestinn 350 kr.

Leppistungur

Leppistungur á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Kerlingafjöllum, 25 km frá Svínárnesi. Umsjónaraðili er hreppurinn, síma 480 6600 umsjónarmaður skála Guðbjörn Dagbjartsson, síma 486 6725. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn kostar 1.200 kr og fyrir hestinn 250 kr.

Svínárnes

Svínárnes á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Leppistungum, 25 km frá Helgaskála. Umsjónaraðilar, sjá Leppistungur. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn og hestinn, sjá Leppistungur.

Helgaskáli

Helgaskáli á Hrunamannaafrétti, 20 km frá Kaldbak, 25 km frá Svínárnesi, 25 km frá Hólaskógi. Umsjónaraðilar, sjá Leppistungur. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn og hestinn, sjá Leppistungur.

Laxárgljúfur

Ef riðið er niður með Laxárgljúfrum frá Helgaskála eru 25 km til byggða á Kaldbak. Þar er ekki gisting, en hægt að fá næturbeit fyrir hestinn á 250 kr. Símar þar eru 481 2633 og 893 6780.

Fegurst að
Fjallabaki

Fegurst samfellt svæði langferða á hestum er Fjallabak, svæðið umhverfis Heklu, Tindfjallajökul og Torfajökul. Þar er eins og fjöllunum hafi verið grýtt af tilviljun út og suður. Einna fegurst er á syðri leiðinni, þar sem Grænufjöll og Mælifell móta útsýnið nær og bunga Mýrdalsjökuls fjær. Þar er líka einn mesti skeiðvöllur landsins, Mælifellssandur, þar sem oft kemst feiknarlegt skrið á lausagönguhross, sérstaklega á austurleið, því að þau skynja, að indælar gróðurflesjur eru handan við næstu fjöll.

Allt er þetta svæði á virku gossvæði, þar sem frægastar eru Hekla og Katla. Önnur fjöll á svæðinu eru meira eða minna einnig gosstöðvar, tættar giljum, sem eru grafin af vatni og vindum, sumar hverjar klæddar mosa, sem gera þær fagurlega grænar. Örnefnin á svæðinu hæfa stórbrotnu landslagi, hér eru Einhyrningur og Emstrur, Hungurfit og Hvítmaga, Kaldaklof og Klámbrekka, Sauðleysur og Strútur.

Hestamannafélagið Fákur fór í sumar hringferð að Fjallabaki, fram og til baka frá Leirubakka í Landssveit, svipaða leið og margir hafa áður farið, austur Landmannaleið og vestur Fjallabaksleið syðri. Fyrstu nóttina var gist í Áfangagili undir skörðóttu Valafelli eftir stutta dagleið. Síðan var farin önnur stutt dagleið um Klofninga, síðan suður fyrir Sauðleysur og meðfram Helliskvísl í Landmannahelli.

Þriðja daginn var farinn Dómadalur, hjá Frostastaðavatni, sem er í 572 metra hæð, Ljótapolli, Norðurnámum og síðan framhjá Landmannalaugum norður fyrir Kirkjufell, um Jökuldali og Herðubreiðarháls, gegnum Eldgjá í skálann Hólaskjól í Lambaskarðshólum. Þetta var löng daleið um fagurt svæði. Frá Lambaskarðshólum er góður bílvegur til byggða í Skaftársveit.

Úr Hólaskjóli lá leiðin suður um Álftavötn og yfir Hólmsá norður fyrir Brytalæki og áfram inn í eyðimörkina að baki Mýrdalsjökuls, framhjá Háöldu, Mælifelli, frægu af ljósmyndum, og Brennivínskvísl inn á Mælifellssand, sem er í um 600 metra hæð og hann riðinn vestur að Kaldaklofskvísl. Farið var norður yfir hana á grýttu vaði inn í Hvanngil, sem er miðpunktur Syðri-Fjallabaksleiðar.

Fyrir sunnan allt þetta svæði er Mýrdalsjökull, þar sem Katla kraumir undir niðri, heldur sein til aðgerða að þessu sinni. Jarðskjálftarnir í jöklinum að undanförnu hafa einkum verið vestarlega í jöklinum, yfir Þórsmörk, sem eykur hættuna á, að hlaupið fari niður í Markarfljót í stað þess að fara niður Mýrdalssand, sem það hefur oftast gert undanfarnar aldir.

Næsta dagleið var um Álftavatn og undir Torfatindi, yfir Markarfljót að krossgötum í Króki, þar sem víðir vex í 550 metra hæð. Þar er hægt að fara vestur Reiðskarð í Hungurfit og síðan niður á Rangárvelli. Í þessari ferð var hins vegar farið niður vestan Markarfljóts að Emstrubrú og síðan niður í skálann Bólstað undir Einhyrningi. Afar fagurt og mikilúðlegt landslag er á þessari leið.

Þar á eftir var farið niður Fljótshlíðarveg og Markarfljótsaura að Goðalandi í Fljótshlíð. Þá voru eftir tvær stuttar dagleiðir í byggðum til baka um Vatnsdal, Gunnarsholt, Heklubraut og loks yfir Rangá að Leirubakka.

Skálar á Fjallabaksleiðum, sem henta hestamönnum, eru einkum þessir:

Leirubakki

Leirubakki, 25 km frá Áfangagili. Umsjónarfólk er Júlíus Ævarsson og Ólöf Eir Gísladóttir, síma 487 6591 og 862 8005. Hér er nóg pláss fyrir hestamenn og hesta þeirra. Gisting á reiðhallarlofti fyrir manninn kostar 1.400 kr og fyrir hestinn kostar 250 kr. Hópar geta tekið söngskálann á leigu fyrir 15.000 kr.

Áfangagil

Áfangagil, 25 km frá Leirubakka á Landi, 20 km frá Landmannahelli. Umsjónarmaður er Jón Gunnar Benediktsson í Austvaðsholti, síma 847 9123. Í Áfangagili eru 24 dýnur og hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1.500 kr og fyrir hestinn 300 kr.

Landmannahellir

Landmannahellir, 20 km frá Áfangagili, 45 km frá Hólaskjóli. Umsjónarmaður á sumrin er Guðni Kristinsson frá Skarði, síma 893 8407, á veturna Engilbert Olgeirsson í Nefsholti, sími 899 6514. Mikil aðstaða er í Landmannahelli í nokkru upphituðum húsum og einnig hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1.600 kr, í tjaldi 550 kr, og fyrir hestinn 310 kr. Sturta kostar 200 kr og veiðileyfi 2.000 kr fyrir kvöldið.

Hólaskjól

Hólaskjól (öðru nafni Lambaskarðshólar), 45 km frá Landmannahelli, 40 km frá Hvanngili. Umsjónarmaður er Berglind Guðgeirsdóttir, síma 847 4577. Mikil aðstaða er í Hólaskjóli, þar á meðal hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1500 kr og fyrir hestinn 100 kr fyrir utan hey, sem kostar 8000 kr rúllan. 250 kr kostar að fara í sturtu.

Hvanngil

Hvanngil, 40 km frá Hólaskjóli, 25 km frá Bólstað um Markarfljótsbrú, 30 km frá Bólstað um Krók. Umsjónarmaður er Ferðafélag Íslands, sími 568 2533. Þar er stór skáli nýlegur og annar gamall, svo og hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1600 kr á mann og fyrir hestinn 250 kr. Sturta kostar 300 kr.

Bólstaður

Bólstaður (öðru nafni Einhyrningur), 25 km frá Hvanngili um brú, 30 km frá Hvanngili um Krók, 30 km frá félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð. Umsjónarfólk er Auður og Jens Jóhannsson í Teigi, sími 487 8407. Hér eru 24 dýnur og hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1.000 kr. Hey er selt fyrir 2000 kr rúllan fyrir utan flutning, sem er 6000 kr á fimm rúllur hið mesta.

Goðaland

Goðaland er 30 km frá Bólstað. Þetta er félagsheimili Fljótshlíðinga við Kirkjulækjarkot. Umsjónaraðili er sveitarskrifstofan á Hvolsvelli og umsjónarmaður er Sigurður Eggertsson í Smáratúni. Þar er góð aðstaða, meðal annars sturtur. Gisting fyrir manninn kostar 1.100 kr og fyrir hestinn 200 kr.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 7.tbl. 2004

Völdin leka út

Hestar

Sjá má í frásögn þessa Eiðfaxa á bls. 46 af rifrildi um aðgengi að ættbókarfærslum í WorldFeng, að alþjóðasambandi íslenzkra hestamannafélaga, FEIF, tókst að setja landbúnaðarráðuneytinu stólinn fyrir dyrnar, þegar veita átti Skotum aðgang að kerfinu. Í ráðuneytinu óttuðust menn, að útlönd gengju úr WorldFeng, ef kröfum FEIF yrði ekki hlýtt.

Skotar, sem urðu undir í slagnum, benda á, að Evrópusambandið hafi gefið út reglugerð um ættbækur hrossa, sem WorldFengur standist ekki. Ennfremur hefur skozka sambandið fengið viðurkenningu þarlendra stjórnvalda og Evrópusambandsins, sem hvorki FEIF né WorldFengur hafa fengið. Liggur munurinn í, að Evrópusambandið viðurkennir ekki aðild lokaðra klúbba að slíkum ættbókum. Er þá vísað til þess, að FEIF hefur ekki veitt Skotum aðild.

Af þessu má ráða, að staða Íslands sem upprunalands íslenzka hestsins hefur veikzt og getur enn veikzt vegna merkilega harðrar andstöðu FEIF við sjálfstæðistilburði í Skotlandi og vegna stuðnings Landssambands hestamannafélaga við þessa hörðu andstöðu FEIF. Ráðuneytið og Bændasamtökin verða að hlýða FEIF.

Íslenzkir hestamenn og reiðmenn íslenzkra hesta eru nú orðnir fjölmennari erlendis en hér á landi og geta í auknum mæli farið að segja heimalandinu fyrir verkum. Kannski er það bara málefninu til góðs. En bezt er þá, að Íslendingar hafi meðvitund á undanhaldinu.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 6.tbl. 2004

Burt með spattið

Hestar

Alþjóðleg ráðstefna dýralækna

Burt með spattið

Í tilefni af 70 ára afmæli Dýralæknafélags Íslands hélt það alþjóðlega ráðstefnu á Selfossi 26.-28.júní um sjúkdóma íslenzka hestsins. Yfir hundrað þáttakendur voru á ráðstefnunni, þar á meðal fjölmargir erlendir sérfræðingar í hrossaræktarsjúkdómum.

Þorvaldur H. Þórðarson á Dýraspítalanum í Víðidal er formaður félagsins. Ráðstefnuna skipulögðu dýralæknarnir Sigríður Björnsdóttir, Helgi Sigurðsson, Páll Stefánsson og Þorvaldur Hlíðdal Þórðarson. Um 30 erindi voru flutt.

Mikið af tíma ráðstefnunnar fór í að ræða spatt og aðra sjúkdóma í fótum hesta. Einnig vær rætt um smitsjúkdóma af völdum sníkla, sýkla og veira og loks var fjallað um sumarexem.

Þátturinn um spatt var umfangsmestur og áhugaverðastur. Fram kom, að fræðimenn eru samála um, að spatt er töluvert arfgengt, um og yfir 30%, og að draga má verulega úr vandamálinu með því að banna eða draga úr notkun spattaðra stóðhesta.

A. Barnevald frá Hollandi sýndi, hvernig spatt hefur nánast horfið sem vandamál í hollenzkum hestum á tveimur áratugum í kjölfar þess, að bannað var að nota spattaða stóðhesta.

Almennt eru menn sammála um, að beygjupróf og röntgenmyndir, sem eru rétt teknar, geti sýnt, hvort spatt er í hesti eða ekki. Per Eksell frá Svíþjóð sagði, að fjórar röntgenmyndir teknar á réttan hátt og með réttri stöðu hestsins nægðu til að sýna spatt, ef það er í hesti.

Sigríður Björnsdóttir sagði nauðsynlegt að röntgenmynda alla stóðhesta í ræktun á sama aldri, til dæmis þegar þeir eru sýndir fimm eða sex vetra gamlir. Þetta er í samræmi við umræðuna, sem farið hefur fram um þetta mál, meðal annars hér í Eiðfaxa fyrir ári, í 6. tölublaði 2003, bls. 28-29.

Á ráðstefnunni skýrði Sigríður Björnsdóttir frá rannsóknum á beinum hesta úr kumlum frá heiðnum tíma. Af 23 beinagrindum, sem athugaðar voru, reyndust 7 vera með spatt. Þetta sýnir, að spatt hefur verið algengt vandamál íslenzka hestsins frá fyrstu tíð, þegar notkun hans var þó að ýmsu leyti önnur en hún er núna og hestar voru ekki járnaðir og þegar land var meira gróið en það er nú.

Sigríður flutti annað erindi um spatt sérstaklega. Þar kom fram, að spatt fer snemma í gang í hrossum og þróast hægt á löngum tíma. Umhverfisþættir á borð við notkun og þjálfun virðast ekki hafa áhrif á sjúkdóminn. Flest benti til töluverðs arfgengis, sem byggist líklegra á skakkri afstöðu í beinagerð og liðum, sem leiða til ójafnvægis í hestinum.

Helgi Sigurðsson skýrði frá því, að hér á landi skorti opinberar skýrslur eða tölur um dreifingu sjúkdóma í hrossastofninum. Hann gæti aðeins byggt á eigin reynslu í aldarfjórðung. Síðan ræddi hann um misjafnt gengi hrossasjúkdóma hér á landi, sumir eru fáséðir eða óþekktir, en aðrir algengir. Hann vakti athygli á, að 70-80% hrossasjúkdóma kæmu fram fyrri hluta árs og 20% í maímánuði einum.

Johan Blix er dýralæknir hjá dýrarannsóknastofnun tryggingafélagsins Agria í Svíþjóð. Hann skýrði frá sænskum tryggingaskýrslum, sem sýna yfir langt árabil, að spatt í Svíþjóð er þrefalt algengara í íslenzkum hestum en öðrum hestum. Að spattinu frátöldu séu íslenzkir hestar hins vegar heilsubetri en aðrir hestar í Svíþjóð, í sumum tilvikum mun heilsubetri.

Þorvaldur Árnason fjallaði um arfgengi spatts. Miklum árangri megi ná gegn því með breyttri ræktunarstefnu. Á fjórum kynslóðum hesta megi auka heilbrigði stofnsins á þessu sviði úr 81% í 89% í sex vetra hrossum. Hann taldi ekki nóg að beina sjónum að stóðhestunum, einnig yrði að fást við spatt í hryssum. Helzti þröskuldurinn í vegi aðgerða væri fjárskortur og andstaða sumra ræktenda.

Per Eksell er fræðimaður við röntgendeild sænska landbúnaðarháskólans í Uppsölum. Hann sagði frá tilraunum með beygjuprófun og röntgenmyndatökur af íslenzkum hestum í Svíþjóð. Samanlagt geta þessar aðferðir nýtzt til að útiloka hross úr ræktun.

Sue Dyson er fræðimaður við brezku Dýraheilsustofnunina í Lanwades Park í Bretlandi. Hún sagði frá ýmsum lyfjum, sem prófuð hafa verið gegn spatti og virtist henni þau flest ná litlum eða engum árangri. Bodo Hertsch er fræðimaður við dýrafræðideild Freie Universität í Berlín. Hann fjallaði rækilega um ýmsar aðferðir við að hamla gegn spatti með flóknum skurðaðgerðum.

A. Barnevald er fræðimaður við hestafræðiskor dýrafræðideildar háskólans í Utrecht í Hollandi. Hann taldi, að róttækar aðgerðir gegn spatti á vegum Konunglegu hollenzku ættbókarinnar þar í landi hefðu minnkað spatt úr 5% í 1%. Nú væri svo komið, að spatt gæti ekki lengur talizt vera alvarlegur hrossasjúkdómur þar í landi og væri ekki lengur til umræðu, þegar hross ganga kaupum og sölum. Engir stóðhestar með spatt fá leyfi til notkunar í Hollandi.

Niðurstöður ráðstefnunnar er í stórum dráttum tvær. Í fyrsta lagi er hægt að draga verulega úr spatti. Í öðru lagi hafa flestir aðrir en Íslendingar þegar tekið á vandanum og leyst hann.

Sigríður Björnsdóttir yfirdýralæknir hrossa:

7 af 23 fornhestum voru spattaðir. Spatt er mjög arfgengt, en aftur á móti óháð notkun. Röntgenmynda ber alla stóðhesta fimm eða sex vetra.

Helgi Sigurðsson dýralæknir, Dýraspítalanum:

70-80% hestasjúkdóma koma upp fyrri hluta ársins, 20% í maí.

Johan Blix, Agria dýratryggingum, Svíþjóð:

Íslenzkir hestar eru heilsubetri en önnur hestakyn, nema hvað þeir eru þrefalt meira spattaðir.

Eric Strand prófessor, Noregi:

Verðgildi íslenzka hestsins felst í því, að hann er fimmgengur miðaldahestur í mörgum litum, hraustur og getur borið þriðjung þyngdar sinnar.

Þorvaldur Árnason, ræktunarráðgjafi, Svíþjóð:

Arfgengi spatts er 0,33 eða um 33%. Með breyttri ræktunarstefnu má bæta heilbrigði hestsins gagnvart spatti úr 81% í 89%.

Per Eksell, háskólakennari, Svíþjóð:

Beygjuprófun og fjórar vandaðar röntgenmyndir teknar á réttan hátt og með réttri stöðu hestsins sýna, hvort hann er með spatt.

Rikke Schulz

Fótasjúkdómar í íslenzkum hrossum tengjast oft járningum, sem byggist á þeirri hefð að menn járna sjálfir í stað þess að láta lærða fagmenn gera það.

Sue Dyson, dýraheilsusjóðnum, Englandi:

Lyfjameðferð við fótasjúkdómum í hrossum hefur ekki gefizt vel.

Bodo Hertsch, háskólakennari, Þýzkalandi:

Með uppskurðum má draga úr áhrifum spatts.

A. Barneveld, háskólakennari, Hollandi:

Spatt er 32% arfgengt. Hollendingar strikuðu spatt út sem vandamál í ræktuninni á tveimur áratugum 1981-2000 með því að banna notkun spattaðra stóðhesta.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 6.tbl. 2004

Reiðleiðavefurinn opnaður

Hestar

Opnaður hefur verið reiðleiðavefurinn, sem sagt var frá í síðasta tölublaði Eiðfaxa. Að honum standa Landmælingar Íslands, sem hýsa vefinn á síðu sinni, lmi.is, Vegagerðin og Landssamband hestamannafélaga.

Á þessari kynningarútgáfu vefsins eru einkum leiðir á Reykjanesskaga og Vesturlandi og slæðingur leiða í öðrum landshlutum. Ekki eru á vefnum leiðir, sem bárust samstarfsverkefninu umsvifalaust, þegar það kallaði eftir ferilpunktum ferðamanna á hestum. Væntanlega verður bætt úr því fljótlega, svo að menn haldi áfram að safna leiðum í sarpinn.

Kortin á vefnum gefa kost á mikilli stækkun, allt upp í stærðina á gömlu herforingjaráðskortunum, 1:100.000, er birtast á vefnum sem samfelld heild án áberandi skila milli korta. Menn eiga að geta prentað út kort af svæðum, sem þeir ætla að fara um, þannig að reiðleiðirnar sjáist á kortunum. Ennfremur er hægt að fá reiknaðar vegalengdir milli staða á kortinu.

Þetta er að sjálfsögðu til mikilla þæginda og öryggis fyrir hestaferðamenn. Enn betra hefði verið að geta merkt reiðleið á kortinu og tekið sjálfkrafa upp hnit hennar í einu handaki til að flytja stafrænt yfir í GPS-tæki. Því miður gerir vefurinn þetta ekki kleift enn sem komið er. Það er raunar ekki heldur kleift á kortadiski með reiðleiðum, sem landmælingarnar hafa gefið út og er til sölu í helztu bókabúðum.

Þetta er næsta furðulegur annmarki í ljósi þess, að hnitin eru að baki kortanna. Mikilvægt er, að hestaferðamenn bendi aðstandendum vefssins á þennan annmarka, svo að úr honum verði bætt eins fljótt og auðið er. Kortaskjárinn þarf að verða GPS-vænn, fyrr nær hann ekki fullum tilgangi sínum.

Ýmsir aðrir annmarkar eru á reiðleiðavefnum. Sérstaklega er brýnt að birta skýringatexta og skrár yfir lágmarks tölvubúnað og hugbúnað, sem þarf til að geta opnað vefinn með öllum hans eiginleikum, svo að menn séu ekki að berjast um á hæl og hnakka við að ná sambandi, ef ytri aðstæður leyfa þeim það ekki.

Mörgum hefur gengið illa að ná sambandi við kortaskjáinn á vefnum vegna gamalla tölva, gamalla stýrikerfa, gamalla vafra og gamalla útgáfna af Java-forritinu. Menn gefast upp á vefnum, ef þeir fá ekki leiðbeiningar um, hvað þurfi að hafa við hendina til að geta nýtt sér hann.

Aðstandendur vefsins hafa tekið fram, að þetta sé kynningarútgáfa. Þeir hafa hvatt hestamenn til að senda athugasemdir og ábendingar. Rétt er að verða við þeirri ósk, svo að kortaskjárinn á vefnum verði sem fyrst að vel þróuðu hjálpartæki hestaferða.

Ætlunin er að byggja ekki aðeins upp reiðleiðir, heldur einnig reiðleiðagagnasafn af öllu landinu. Safnið á meðal annars að fela í sér upplýsingar um vöð, brýr, girðingarhlið, reiðgöng, áningarstaði, beitarhólf, heysölu, réttir, hindranir og hesthúsahverfi.

Hér er farið af stað viðfangsefni, sem fyrr eða síðar kemur hestaferðamönnum að ómetanlegu gagni.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 6.tbl. 2004

FEIF berst við Skota og Evrópusambandið

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Mikil læti hafa verið um aðild Skotlands að WorldFeng, sem FEIF, alþjóðasamtök íslenzka hestsins, hafa eindregið lagzt gegn.

Upphafið má rekja til þess, að Clive Philips var formaður brezka Íslandshestafélagsins, en var felldur úr því starfi og stofnaði þá sérstakt samband í Skotlandi, SIHA. Skotland er sérstakt land með eigin þingi í því sameinaða konungsveldi, sem Bretland er. FEIF hefur ekki samþykkt aðild þessa félags, en það hefur þó fengið viðurkenningu Evrópusambandsins og skozkra stjórnvalda.

Hinn 12. nóvember í fyrra sendi landbúnaðarráðuneytið Bændasamtökum Íslands bréf, þar sem segir m.a.:

“Skoska Íslandshestafélagið vill ekki una því að geta ekki skráð hross milliliðalaust í “móðurættbókina”, WorldFeng, heldur að vera vísað á að fá skráningu hjá Brezka Íslandshestafélaginu (IHSGB) samkvæmt ákvæðum í samningi milli FEIF og BÍ. Milli þessara samtaka er ekki samkomulag um þetta fyrirkomulag, og sáttaumleitanir BÍ hafa, að því er virðist, engan árangur borið.

Það er ágreiningslaust, að skoska félagið SIHA hefur viðurkenningu Evrópusambandsins og skoskra stjórnvalda til að halda ættbók yfir íslensk hross, og uppfyllir félagið þar með skilyrði reglugerðar um uppruna og ræktun íslenska hestsins nr. 948/2002 um ættbókarfærslu í WorldFeng.

Ráðuneytið telur ótvírætt, að Skoska Íslandshestafélagið eigi að njóta jafnræðis við önnur erlend ræktunarfélög sem uppfylla sett skilyrði og Bændasamtökunum beri að veita félaginu skráningaraðgang að WorldFeng, annað hvort með beinum hætti eða þannig að BÍ annist skráninguna fyrir SIHA án atbeina eða afskipta annars jafnsetts félags. Hér með er lagt fyrir Bændasamtök Íslands að koma þessum málum í rétt horf.”

Bændasamtökin skýrðu brezka sambandinu frá þessari niðurstöðu, en Bretarnir vísuðu því til FEIF, sem brást illa við á aðalfundi, sem haldinn var 15. febrúar 2004. Í fundargerðinni kemur að vísu ekki fram, að ályktað hafi verið um málið á fundinum, en skýrt er frá þeirri ákvörðun stjórnar, að stjórnarmennirnir Per Anderz Finn og Jens Iversen yrðu sendir til Íslands síðar í mánuðinum til að kynna sjónarmið stjórnar FEIF.

Samkvæmt fundargerðinni virðist svo sem ekki sé hægt að sættast á, að aðrir aðilar en þeir sem eru aðilar að FEIF geti skráð hross í WorldFeng. Áður hafði aðild skozka félagsins að FEIF verið hafnað. Fulltrúi Landssambands hestamannafélaga á aðalfundinum studdi þessi viðhorf.

Koma FEIF manna til Íslands 26. febrúar 2004 leiddi til þess, að íslenzka landbúnaðarráðuneytið dró fyrri reglugerð og fyrra bréf um málið til baka með nýrri reglugerð og nýju bréfi til Bændasamtakanna í júní 2004, þar sem forstjóra þeirra eru gefnar frjálsar hendur til að leysa málið eftir hans beztu vitund með því að setja skilyrði um skráningu í WorldFeng.

Eftir sinnaskipti landbúnaðarráðuneytisins eru Bændasamtök Íslands komin í þá aðstöðu að telja sig verða að skipta um skoðun og neita Skotum um ættbókarfærslu á svipaðan hátt og Íslendingum var neitað um að ganga undir eigin fána en ekki dönskum, þegar landið var hluti Danaveldis. Hugmynd Bændasamtaka Íslands hafði áður verið, að Ísland annaðist skráningu fyrir Skotland og að Skotland fengi ekki sérstaka bókstafi í WorldFeng. Á þá málamiðlun hefur FEIF ekki fallizt.

Brezka sambandið hefur ekki lengur bein afskipti af málinu, en vísar því til stjórnar FEIF, sem er hörð gegn aðild SIHA að FEIF og WorldFeng. Skýringin á þessu viðhorfi er talin vera sú, að stjórnin óttist félagslegan glundroða í hreyfingu hestamanna, ef einstök lönd, sem ekki mynda fullvalda ríki, til dæmis þýzku löndin, geti gerzt sjálfstæðir aðilar að FEIF og WorldFeng.

Á landsmóti hestamanna afhentu Bændasamtökin formanni FEIF bréf, þar sem sagt er, að framvinda málsins verði áfram í fullu samráði og samstarfi við FEIF. Íslenzk hross í Skotlandi verða því að sinni ekki skráð í WorldFeng.

Boltinn er því hjá Skotum núna, sem hugleiða að kæra niðurstöðuna til Evrópusambandsins, er hefur sett reglur um ættbækur fyrir hesta, sem samningur Bændasamtakanna og FEIF um WorldFeng uppfyllir ekki.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins er ekki hægt að halda ættbækur hrossa í samstarfi klúbba eða samtaka á borð við FEIF, sem útiloka aðra klúbba, auk þess sem SIHA er viðurkenndur aðili hjá Evrópusambandinu. Þar sem Ísland er ekki í Evrópusambandinu er ekki ljóst, hvort þessi ákvæði þar binda hendur landsins að einhverju leyti, en á það mun hugsanlega reyna í síðari málaferlum. Staðan getur líka á ýmsan annan hátt truflað íslenzka hagsmuni, þegar fram líða stundir. Í bréfi Skota til íslenzka ráðuneytisins er rakin staða Evrópusambandsins í málinu.

Það er svo skondinn vinkill í málinu, að Clive Philips, forustumaður Skotanna, er einmitt lögfræðilegur höfundur samningsins, sem felur í sér umdeilt einkaleyfi FEIF sem samstarfsaðila Bændasamtakanna um WorldFeng.

Eiðfaxi 6.tbl. 2004

Frábært landsmót

Hestar

Landsmótið á Hellu var glæsilegra og betur skipulagt en nokkru sinni fyrr. Dagskrárliðir héldu áætlun og voru jafnvel færðir fram. Einkum var þó svæðið betur í stakk búið til að mæta misjöfnu veðri. Aðstæður voru farnar að líkjast því, sem var á landsmótinu í Víðidal, með malbiki og þökum.

Malbikuð göngusvæði voru nýjung í Víðidal árið 2000. Eftir mótið á Hellu verður hér eftir ekki haldið landsmót án þess að göngusvæði, tjaldbotnar og gönguleiðir verði malbikuð og vatnsræst. Þar með eru taldar gönguleiðir milli helztu svæða staðarins. Hér eftir munu landsmót ekki rigna niður í svað.

Tjöldin miklu voru frábær og gefa tóninn um framtíðina, sem byrjaði með reiðhöllinni á landsmótinu í Víðidal. Á Hellu gátu hundruð manna setið samtímis af sér regnskúri sunnudagsmorguns undir þaki í veitinga- og kvöldvökutjöldum. Næst verða áreiðanlega enn víðáttumeiri tjöld í boði.

Bezta nýjungin á Hellu var risaskjárinn á úrslita- og kynbótavellinum, sem gaf ótrúlega skýrar myndir af keppni og tölum. Númeruðu sætin voru líka góð nýjung, þar sem fólk gat gengið að tryggum sætum gegn hóflegu gjaldi. Landsmót verða hér eftir ekki haldin án tveggja risaskjáa og númeraðra stúkusæta.

Veitingarekstur gekk líka betur en oftast áður og verzlunarrekstur var meiri en nokkru sinni fyrr, einkum í vel skipulögðu markaðstorgi, þar sem stórir og smáir aðilar sýndu hlið við hlið. Í næsta skrefi veitinga fjölgar afgreiðslustöðum með mismunandi tegundum veitinga, eins og oft hefur verið á heimsleikum.

Hella er mjög gott landsmótsvæði með löngum hrygg milli tveggja keppnissvæða. Vindheimamelar og Melgerðismelar eru ekki sambærilegir eins og stendur, en má auðvitað laga með töluverðum kostnaði. Með góðu skipulagi stenzt Víðidalurinn hins vegar tæknilega samanburð við Hellu. Greinilegt er þó, að margir vilja fremur halda slík mót í sveit heldur en í borg.

Skrens varð í prótókolli landsmótsins. Hvergi voru nærri forsetahjónin, sem gert hafa mikið fyrir hestamennsku og fengið fjögurra ára umboð þjóðarinnar til viðbótar. Lítið bar á landbúnaðarráðherra, sem gengið hefur berserksgang fyrir hestamennsku síðan hann tók við störfum. Stjórnendur landsmóta verða að stíga varlega í pólitík og siðareglum, þótt vel hafi gengið um skeið.

Eiðfaxi fjallar að þessu sinni eingöngu um þetta frábæra landsmót og um mál, sem komu upp í tengslum við það, svo sem dýralæknaráðstefnuna á Selfossi og reiðleiðakerfi á vefnum, sem opnað var á landsmótinu, svo og bréfaskipti út af aðgengi Skota að WorldFeng.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 6.tbl. 2004

GPS-punktar afhentir

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Fyrstu GPS-punktarnir voru afhentir Landssambandi hestamannafélaga 27. maí sl. Myndin er tekin við það tækifæri. Þar sjást frá vinstri Jónas Kristjánsson, Sveinbjörn Jónsson, Baltasar Samper, Halldór Halldórsson og Þormar Ingimarsson. Baltasar, Þormar og Jónas afhentu punktana og Halldór, Sveinbjörn og Þormar tóku við þeim.

Landssambandið hefur sett á vef sinn, www.lhhestar.is, leiðbeiningar um vinnslu GPS-punkta fyrir gagnabanka, sem LH, Landmælingarnar og Vegagerðin hafa sett upp um reiðleiðir á Íslandi. Er ætlunin, að þessi gagnabanki verði öllum aðgengilegur á netinu frá og með næsta landsmóti hestamanna, sem verður á Hellu um mánaðamótin júní-júlí.

LH hvetur hestamenn til að senda sér GPS-punkta, sem allra fyrst. Helzt vilja menn fá ferilpunkta (track points) hverrar dagleiðar fyrir sig eða a.m.k. leiðarpunkta (waypoints) hennar, þar sem sjást öll mikilvæg atriði hennar, svo sem vöð, brýr, vörður, hlið, réttir og krossgötur. Mikilvægt er, að hestamannafélögin eða GPS-notendur heima í héraði taki sem fyrst slíka punkta í nágrenni við hesthúsahverfin og sendi LH, skjoni@simnet.is eða Landmælingum Íslands, ingunn@lmi.is .

Mikill fjöldi GPS-tækja er nú fáanlegur og hefur verðið farið stöðugt lækkandi. Nú er hægt að fá tæki fyrir innan við 20.000 krónur. Bezt eru tæki, sem hafa innbyggt Íslandskort og áttavita með leiðréttingu fyrir segulskekkju. Þau eru mikið öryggistæki í ferðalögum, ef brestur á með þoku. Menn sjá þá áttirnar leiðréttar og geta séð, hvar er næsti kofi.

Hafa verður í huga, að GPS-tækin eru ekki beinlínis notendavæn. Menn þurfa að æfa sig rækilega á þeim, áður en þeir fara af stað með þau til að taka punkta. Einnig þurfa menn að gæta þess vel, að hafa aukarafhlöður meðferðis, því að tækin éta rafmagn grimmt. Ef menn eru með þau opin á sjálfvirku “trakki” má búast við, að par af rafhlöðum fari á 8-10 klst. reiðdegi.

Baltasar er líklega sá, sem lengst hefur notað GPS-tæknina við hestaferðir hér á landi. Hann hefur farið á hverju sumri í þriggja vikna hestaferð og tekið nýtt landsvæði fyrir að hverju sinni. Safn hans nær yfir meira en áratug og er sérstaklega mikill fengur að því, en vinna þarf betur ýmsa þætti þess til þess að gera það birtingarhæft á vefnum.

Söfn Þormars og Jónasar ná til nokkurra ára og eru í stórum dráttum nothæf til birtingar í núverandi ástandi. Þar má m.a. sjá vöð á Saltnesál, Haffjarðará, Straumfjarðará og Búðaós á Löngufjörum, svo og ýmsar sjaldfarnar reiðleiðir í Vestur-Skaftafellssýslu og leiðir á Hreppaafréttum.

Mikið atriði fyrir hestamenn er að ná í gagnagrunninn sem fyrst gömlu reiðleiðunum, sem merktar voru inn í upprunalega útgáfu gömlu herforingjaráðskortin, áður en þær voru ritskoðaðar burt í seinni útgáfum kortanna. Með því að ná punktum þessara leiða inn í gagnagrunninn, fá leiðirnar bætta réttarstöðu inn í framtíðina.

Í viðtali, sem birtist á bls. 45 í 7. tölublaði Eiðfaxa árið 2003 segir Sigurður Líndal lagaprófessor frá lagaumhverfi gamalla reiðleiða. Þar kemur fram, að ákvæði Jónbókar frá 1281 um ferðafrelsi reiðmanna hafi verið staðfest í náttúruverndarlögum nr. 44 frá 1999. Þar kemur líka fram, að mikilvægasta heimildin um þjóðleiðir felist í þessum gömlu herforingjaráðskortum gömlu. Hefðarréttur fylgi þessum leiðum, sem merkt eru í góðri trú inn á kortin.

Með samstarfi Landssambands hestamannafélaga, Landmælinganna og Vegagerðarinnar ætti að vera kominn grunnur að kortlagningu gamalla og nýrra reiðleiða hvar sem er á landinu. Með þessu samstarfi hafa hestaferðamenn náð tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum þeirra, sem kvartað hafa yfir girðingum og skurðum, sem hafa lokað hefðbundnum reiðleiðum.

Í framangreindu viðtali segir Sigurður m.a.: “Meginreglan er að mönnum er almennt heimil för um landið, þar á meðal um eignarlönd, og heimil dvöl á landi í lögmætum tilgangi. Þeir þurfa ekki að fá sérstakt leyfi til að fara um óræktað land. Þeim er ekki bannað að hafa lausa hesta með í för. Á eignarlöndum mega þeir að fengnu leyfi slá upp aðhaldi og næturhólfi, enda valdi hrossin ekki landspjöllum. Óheimilt er að loka gömlum þjóðleiðum með girðingum og skurðum nema hafa á þeim hlið, brýr eða stiga.”

Ennfremur sagði Sigurður: “Hafi leiðum dönsku kortanna ekki verið mótmælt í orði eða verki, má líta svo á, að þær séu verndaðar af hefðarrétti, en skoða verður hvert tilfelli til að ákvarða nánar rétt einstakra manna. Ef einhver vill vefengja reiðleið á dönsku herforingjaráðskorti, sem kortlögð hefur verið í góðri trú, hvílir á honum sönnunarbyrði um, að hún sé ekki hefðbundin þjóðleið, en ekki á hinum, sem vill ríða þessa leið.”

Eiðfaxi 5.tbl. 2004

Sumarferðir

Hestar

Löngufjörur

Jón Sólmundarson, formaður Dreyra, Akranesi:

Við höfum í fjögur ár farið einhesta í eins dags vorferðir í heimsóknir til annarra hestamannafélaga, fyrst til Sörla í Hafnarfirði, síðan Gusts í Kópavogi og loks Harðar í Mosfellssveit. Höfum við þá tekið hestana í tvo flutningabíla og farið sjálfir í rútu.

Við höfum stefnt að því að geta farið í 3-4 tíma reiðtúr með heimamönnum. Þetta hefur gefizt vel og er vinsælt, enda gaman að hitta nýtt fólk í reiðtúrum. Þessar ferðir hafa kostað um 3.000 krónur á mann í flutningi og um 2.000 krónur í mat. Harðarmenn voru hér um daginn að endurgjalda heimsóknina frá í fyrra.

Nú ætlum við að breyta aðeins til og fara ekki í heimsóknarferð, heldur stutta sumarferð með sama hætti á Löngufjörur. Í því tilviki gerum við ráð fyrir, að matur verði ekki innifalinn, heldur komi hver fyrir sig með það, sem hann vill fá á grillið. Ferðin hefur ekki verið tímasett nákvæmlega, en verður um miðjan júní.

Reykjanesskagi

Jónas Ragnarsson, formaður ferðanefndar Mána:

Við förum ekki sumarferðir, en eina helgarferð förum við á hverju vori til Grindavíkur, tveggja eða þriggja daga ferð, og njótum þá gestrisni hestamanna þar í bæ. Við fórum þessa ferð 22-23.maí í vor og vorum þá 45 í miklu rigningarveðri. Í fyrra var gott veður og þá fóru 100 manns eða þriðjungur félagsmanna.

Við förum í skipulagðar ferðir af og til allan veturinn hér um nágrennið á Reykjanesskaga, til dæmis í Voga. Almennt má segja um ferðir Mána, hvort sem er til Grindavíkur eða annað, að vín er nánast ekki haft um hönd og hefur verið svo árum saman.

Fjallabaksleiðir

Jónas Kristjánsson, formaður ferðanefndar Fáks:

Að þessu sinni förum við átta daga hringferð réttsælis um Fjallabak, byrjum á Leirubakka og endum á sama stað. Eins og venjulega er þetta ferð með rekstur. Flestir ferðadagar eru stuttir, um og innan við 30 km, en tveir eru um 45 km. Gert er ráð fyrir, að menn séu með fjóra hesta hver. Sennilega verður fullt hús í ferðinni, um 35 manns.

Frá Leirubakka er fyrst farið í Áfangagil, síðan í Landmannahelli, Lambaskarðshóla (Hólaskjól), Hvanngil, Einhyrning (Bólstað), Goðaland og Gunnarsholt áður en komið er til baka á Leirubakka. Fjallabakið er með fegurstu svæðum landsins, ákaflega vinsælt meðal hestaferðamanna. Landslag á þessum slóðum er afar sérstætt, með því fjölbreyttasta, sem til er á landinu.

Öðrum þræði er þetta lúxusferð samkvæmt hefðum Fáks. Rósa Valdimarsdóttir og Ómar Jóhannsson eru með trússið og sjá að venju um þríréttaðan veizlumat á hverju kvöldi. Einnig verðum við með kaffijeppa, sem fylgir hópnum, og bílstjórinn setur upp skiptigerði, þar sem því verður við komið.

Kostnaður á mann verður 65.000 krónur á mann og er þá allt innifalið fyrir menn og hesta, nema flutningur á hestum til Leirubakka og frá Leirubakka. Við höfum samið við Guðbrand Óla og Kristján um að tína upp hross í sumarhögum og skila þeim aftur. Margir hafa þó þann sið að koma ríðandi í ferðina og úr henni. Svo verður einnig að þessu sinni.

Fákur hefur langa og farsæla reynslu af löngum og fjölmennum hestaferðum. Undanfarin á hefur verið farið um Hreppaafréttir, um Borgarfjörð og Mýrar, hringferð umhverfis Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul, um heiðar og strendur Vestur-Skaftafellssýslu, um Dalasýslu, að Arnarfelli í Hofsjökli, um Kjöl og Arnarvatnsheiði til baka. Hestafjöldi í þessum ferðum hefur verið á bilinu 120-180 hestar og margur stólpagripurinn með í för.

Fákur býr að langri hefð hestaferða, sem hafa verið minnst 7 daga og mest 12 daga, oftast að nokkru eða mestu leyti um óbyggðir. Hver ferðanefnd á fætur annarri hefur byggt á fyrri reynslu og bætt í sarpinn eftir föngum. Allir taka virkan þátt í rekstrinum og vinna saman að góðri ferð. Að töluverðu leyti er þetta sama fólkið, sem ferðast með Fáki ár eftir ár og kann vel til verka.

Hjálmaskylda hefur lengi verið í þessum ferðum og vínbann á daginn, unz komið er í áfangastað. Eigi að síður hafa miklir gleðimenn verið í hópnum, mikið um hljóðfæraslátt og söng. Ferðinni í sumar lýkur með miklu hófi í söngskálanum á Leirubakka.

Húnaþing

Margrét Friðriksdóttir, formaður ferðanefndar Sörla:

Við förum að þessu sinni fjögurra daga ferð um Vatnsnes og Þingeyrar. Við höldum allan tímann til á Hótel Hópi á Þorfinnsstöðum, þar sem aðstaða er góð, og ríðum þaðan fyrir nesið í Saurbæ, síðan yfir Vatnsnesfjall til baka annan dag. Þriðja daginn ríðum við yfir Hópið til Þingeyra og fjórða daginn til baka aðra leið.

Þetta er ferð með rekstur, eins og við reynum venjulega. Við stefnum að því að hafa dagleiðir ekki mikið lengri en 30 km og reiknum með tveimur-þremur hestum á mann. Við vorum áður fyrr í lengri og erfiðari ferðum og lágum meira við í fjallaskálum, en höfum áttað okkur á, að með því að leggja áherzlu á meiri þægindi og lúxus fáum við mun betri þáttöku.

Hrossin fara á flutningabíl úr Hafnarfirði fram og til baka. Á Þorfinnstöðum gista menn ýmist í herbergjum eða á tjaldstæði við húsið. Hestahólfið er einnig við hliðina. Ferðin kostar 28.750 kr, ef gist er í húsinu, en 24.750, ef gist er í tjaldi eða fellihýsum. Allt er innifalið í þessu verði nema flutningur á hestum, sem kostar 6.000 kr á hest fram og til baka.

Við reiknum með um 50 manns í þessa ferð eins og í fyrra. Það er orðinn stór hópur, sem fer með Sörla á hverju sumri. Allir taka virkan þátt í ferðinni og þeirri vinnu, sem fylgir henni. Við skiptum í þrjá hópa á hverjum degi, þar sem einn sér um þrif, annar um eldamennsku og sá þriðji um hestana.

Sú staðreynd, að meira en tíundi hver félagsmaður Sörla fer í þessar ferðir, segir þá sögu, að ferðaformið hentar mönnum almennt vel, það er að segja léttari ferðir og betri aðstaða í náttstað en áður var. Eins virðist það hafa talsverð áhrif á þátttökuna að fara snemma eða meðan hross eru í góðu formi eftir veturinn.

Í fyrra fórum við í Þórsmörk fjögurra daga ferð og gistum annars vegar í Skálakoti og hins vegar í Þórsmörk. Sumarið áður fórum við Löngufjörur á Snæfellsnesi og sumarið þar áður fórum við út frá Leirubakka.

Einarsstaðir

Pétur Haraldsson, formaður ferðanefndar Léttis:

Síðustu árin hefur myndazt sú hefð, að Léttismenn fara eina langa helgarferð á hverju sumri til Einarsstaða í Reykjadal á hestamannamótið, sem þar er jafnan helgina eftir frídag verzlunarmanna.

Er þá farið á tveimur dögum austur, fyrst um Bíldsárskarð í Sörlastaði og síðan um Eyjadal niður í Bárðardal. Til baka er farið á einum degi eða tveimur. Hrossin eru rekin laus í þessum ferðum. Farangur ferðamanna er í trússbíl og sér hver um sig sjálfan í nesti. Góð þáttaka er í þessum ferðum og vænti ég, að svo verði einnig að þessu sinni.

Fyrr á árum var farið í aðrar sveitir, svo sem á Flateyjardal. Síðan varð lægð í þessum ferðum, en þær hafa nú verið endurvaktar í formi Einarsstaðaferðanna. Auk þess förum við stundum dagsferðir og kvöldferðir eftir stemmningu hverju sinni.

Eina ferð höfum við farið umhverfis Kerlingu. Fórum við þá inn Eyjafjörð, upp Skjóldal og um Kambsskarð niður í Öxnadal og heim um Moldhaugaháls.

Rangárvallasýsla

Sigurður Grímsson, formaður ferðanefndar Sleipnis:

Sumarferðin verður að þessu sinni um Rangárvelli, Landeyjar og Fljótshlíð. Þetta er fimm daga ferð, sem hefst 16. júní og lýkur 20. júní, byrjar og endar á Selfossi.

Fyrsta daginn er farið í Þjóðólfshaga, annan daginn um Gunnarsholt í Hellishóla í Fljótshlíð, þriðja daginn um Aurasel, niður með Markarfljóti að Gunnarshólma, fjórða daginn vestur Landeyjar að Hellu og loks fimmta daginn heim á Selfoss.

Kostnaður hvers þáttakenda er 10.000 krónur og felur í sér rútuferðir, kvöldverð og gistingu á tveimur stöðum. Menn greiða hagabeit sérstaklega og sjá sjálfir um morgunmat og nesti.

Sleipnir hefur farið í sumarferð á hverju sumri, áður styttri ferðir, en lengri ferðir hófust í fyrra. Þá var farin fimm daga ferð fram og til baka frá Selfossi að Leirubakka og riðið um Skarfanes. Í ferðinni voru 44 manns og yfir hundrað hestar.

Áður fórum við helgarferðir, í hittifyrra upp með Þjórsá í Þjórsárdal. Í öllum þessum ferðum höfum við haft tvo-þrjá til reiðar og teymt allan tímann. Dagleiðirnar í ferðum okkar hafa verið á bilinu frá 35 km upp í 50 km.

Norðausturland

Baltasar Samper:
Við verðum átta saman og förum þriggja vikna ferð, að þessu sinni frá Kópaskeri til Breiðdals. Við förum frá Kópaskeri yfir Kerlingahraun að Þjófaklettum við Hermundarfell, um Svalbarðstungu að Gunnarsstöðum í Þistilfirði, Langanesströnd, Viðvíkurheiði, Vopnafjarðarströnd, Selárdal, Vesturárdal að Burstafelli í Vopnafirði, Smjörvatnsheiði, Lágheiði, Hjaltastaðaþing yfir í Ósnes, þaðan í Bakkagerði í Borgarfirði eystra, ríðum um víkur í Útnyrðingsstaði um Eiðaþinghá við Lagarfljót, um Svínadal að Búðareyri til Þingmúla að Geitdal, suður Norðurdal og Öxina niður í Breiðdal.

Í fyrra fórum við um Strandir. 2002 riðum við Vatnsnesið. Þar áður fórum við frá Mývatni til Hjallalands í Vatnsdal í Húnaþingi. Þá fórum við um Eilífsvötn, Jökulsá á Fjöllum, Ásbyrgi, Þórseyri, Þeistareyki, Hraun í Aðaldal, Flateyjardal, í Fjörðum, Akureyri, Þorvaldsdal, Árskógsströnd, Svarfaðardal, Heljardalsheiði, Fjall í Kolbeinsdal, Kolkuós, Glæsibær, Víðidalur, Litla Vatnsskarð, Laxárdalur og Húnsstaðir, Þingeyrar, Hópið og Hjallaland.

Við gistum ekki í skálum, heldur tjöldum og getum því haldið kyrru fyrir, ef veður spillast. Við höfum eldhústjald meðferðis í trússbíl og matreiðum sjálf í ferðinni. Trússbílnum fylgir upphækkuð og styrkt hestakerra.

Við notum alltaf GPS-tæki og setjum inn helztu punkta, áður en við leggjum í hann, svo að við villumst ekki í þokum. Við ríðum oft um 15-18 daga og tökum þrjá til fjóra daga í hvíld inn á milli, þar á meðal oftast þriðja ferðadaginn.

Óskadagleiðir eru um þingmannaleið, 40 km og höfum við þá níu eða tíu hesta hjónin saman. Mér finnst gott að nota fjóra hesta á dag og hvíla einn, ef aðstæður leyfa. Hestarnir eru allir vel þjálfaðir um veturinn og vorið, en hvíla sig síðan frá miðjum júní og fram í júlí, þegar ferðir okkar hefjast venjulega.

Þingeyjarsýslur

Hólmgrímur Þorsteinsson:

Þessi ferðahópur á uppruna sinn í Fjárborgarfélaginu í Reykjavík og hefur ferðazt á hverju sumri í nokkur ár. Að þessu sinni er ferðinni heitið um Þingeyjarsýslur.

Þetta er níu daga ferð, sem hefst 9. júlí við Mývatn og koma sumir ríðandi þangað. Sumir ætla að ríða suður aftur og verður þá ferðin fram og til baka orðin mánuður.

Fyrst verður farið austur á Grímsstaði og síðan um Búrfellsheiði og norður Melrakkasléttu í Voga, þaðan sem farinn verður Hólsstígur að Kópaskeri. Áfram liggur leiðin um Kelduhverfi og Þeistareyki á endastöðina við Einarsstaði í Reykjadal. Sumir ætla að ríða suður aftur.

Þetta verður 20 manna hópur með um 80 hross. Við rekum allan tímann og lengstu dagleiðirnar eru um 50 km, sv o að menn þurfa fjóra hesta hver. Mér sýnist aksturinn með hrossin fram og til baka muni kosta um 7.000 krónur á hest, það er að segja um 30.000 á úthald eins manns. Við verðum með tvo trússbíla og kokk.

Rangárvellir

Ingvar Pétur Guðbjörnsson, formaður ferðanefndar Geysis:

Í sumar verður reynt að endurvekja sumarferðir Geysis, sem tíðkuðust fyrr á árum. Þá var fyrst riðið inn í Þórsmörk og síðan umhverfi Leirubakka, eftir að ferðaþjónusta kom þar til sögunnar. Að þessu sinni verður riðið frá Hvolsvelli að Fossi á Rangárvöllum og riðið um nágrenni Foss.

Þetta er helgarferð, sem stendur yfir 23.-25. júlí. Á föstudagskvöldið koma menn og hestar til Hvolsvallar, þaðan sem riðið er morguninn eftir inn Vallarkrók og upp Krappa, gegnum Reynifellsland að Fossi. Eftir hádegi verður riðið upp Fosshaga inn fyrir afréttarmörk og yfir Ytri-Rangá til baka.

Á sunnudaginn verður riðið niður að Reynifellsbrú, Reyðarvatnsréttum og Strönd, þar sem austanmenn ríða til Hvolsvallar og vestanmenn til Hellu.
Kostnaður verður 5.500 krónur á fullorðna og 3.000 krónur á börn. Innifalin er þjónusta trússbíls, léttur hádegisverður á laugardag og grillveizla á laugardagskvöld, gisting og aðstaða á Fossi, morgunverður og léttur hádegisverður á sunnudeginum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 5.tbl. 2004.

Ferðakennslubók

Hestar

Með þessum greinum um ferðaföt lýkur greinaflokki, sem birzt hefur í Eiðfaxa í um það bil ár. Í viðtölum við reynda langferðamenn á hestum hefur verið fjallað um ýmis atriði, sem geta skipt þá máli, sem hyggjast fara í ferðalög um óbyggðir. Líta má á þetta samanlagt sem kennslubók í fagi, þar sem enn eru skiptar skoðanir um ýmis atriði. Ég vil þakka þeim, sem hafa miðlað lesendum Eiðfaxa af langri reynslu sinni, svo og Svandísi Kjartansdóttur, sem tekið hefur allar myndir með greinunum, þar á meðal þeim, sem hér birtast.

Greinaflokkurinn hefur birzt í þessum tölublöðum Eiðfaxa:

2003.03. Fótabúnaður, sjúkrakassar

2003.04. Ferðahestar, GPS-tæki, kort

2003.05. Vöð, hjálmar

2003.06. Fjallaferðir

2003.07. Hnakkar, skeifur, samskipti, kort

2003.08. Matur og drykkur

2003.09. Ferðadagar I

2003.10. Ferðadagar II

2004.01. Ferðadagar III

2004.02. Í vösum

2004.03. Trúss

2004.04. Ferðaföt

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 5.tbl. 2004

Rennilás í báðar áttir

Hestar

Rennilás í báðar áttir

Marinó Pétur Sigurpálsson og Guðbrandur Kjartansson:

Föt þurfa að vera væn og hlý. Ég (G) er í hlýjum nærfötum, ýmist 66 gráður eða Akíl, sem mér finnst bezt, létt og mjúkt og með eindæmum hlýtt. Ég (M) er í bláum, norskum, sem hafa fengizt í Ellingsen. Við notum íslenzka ullarsokka. Við erum í reiðbuxum og skálmum úr leðri fremur en rúskinni, því að leðrið er liprara og léttara.

Við höfum lent í vöðum upp á mið læri, en skálmar og stígvél hafa haldið okkur þurrum. Mikilvægt er að bera vel á hvort tveggja og úða með rakaþétti.

Hér áður fyrr vorum við í vaxbornum reiðfrökkum, en í seinni tíð í hefðbundnum reiðúlpum eða goritex reiðúlpum, aðallega Mountain Horse.

Mikilvægt er, að rennilásinn gangi í báðar áttir og geti opnast að neðan, svo að þær rifni ekki. Ennfremur þarf að vera nóg af vösum. Mér (M) finnst bezt að vera í lopapeysu, en ég (G) nota fremur flísina. Vaxbornu frakkarnir duga stutt og fótaböndin slitna, þegar maður krýpur og stendur svo upp. Það sá verulega á þessum frökkum eftir hálfs mánaðar túr.

Ég (G) er með grábláa ullarvettlinga frá benzínstöðvunum og létta vettlinga að auki, en ég (M) er með tvenna leðurhanzka, aðra þunna og hina fóðraða.

Skálmarnar komu
og föðurlandið hvarf

Baltasar og Kristjana Samper:

Við höfum fyrst og fremst verið í mjúkum og góðum baðmullarnærfötum. Föðurlandið hvarf í hestaferðum, þegar skálmarnar komu til sögunnar. Konur þurfa að hafa breiða og þétta hlíra á brjóstahöldurum.

Við notum ekki rúskinnsskálmar, heldur leðurskálmar, sem við berum vel á fyrir hverja langferð. Undir skálmunum erum við í reiðbuxum. Þegar rignir, förum við utanyfir skálmarnar í regnbuxur, sem við höfum klippt skálmarnar af. Þær hlífa þá rassinum, sem skálmarnar gera ekki. Í trússinu eigum við líka til heilar regnbuxur, sem við teipum að neðan við stígvélin, þegar við þurfum að sundríða. Þá gyrðum við úlpuna ofan í buxurnar og bindum fyrir með snæri eða hnakkólum.

Árum saman riðum við í þunnum ullarskokkum frá Thorvaldsensbazarnum, en síðustu árin höfum við notað þykka austurríska sokka úr þæfðri alull fyrir stígvélin og sokka frá 66 gráðum norður með ull í hæl og tá fyrir skóna. Við skiptum gjarna um sokka á miðjum reiðdegi, ef hann er langur. Ég (Kristjana) er líka með einangrunarleppa úr ull og áli í botninum í stígvélunum.

Við notum lopapeysur og austurrískar peysur úr þæfðri alull, sama efni og er í sokkunum. Við viljum ekki flíspeysur, af því að þær þyngjast svo mikið, þegar þær blotna. Við höfum ekki enn fundið réttu vettlingana, þrátt fyrir áratuga leit. Við höfum meira að segja reynt silki. Okkur dreymir um, að einhvern tíma komi regnheldir goritex vettlingar á markað. Leður verður andstyggilegt, þegar það blotnar. Ullin er enn það skásta, sem ég (Kristjana) hef fundið. Baltasar ríður venjulega berhentur. Þegar rignir, er hann með þunna, svarta vettlinga með gúmdoppum. Á höfðinu erum við nú orðið alltaf með hjálma og stundum húfu undir þeim, ef kalt er í veðri.

Við höfum notað vatnsþéttar goritex úlpur í tvo áratugi. Síðan höfum við varla farið í þungar vaxkápur. Við höfum alltaf varaúlpu í trússinu til skiptanna, ef við komum hundblaut í náttstað. Við höfum að vísu líka vatnsgalla í trússinu til að nota í alveg ausandi rigningu. Mér (Baltasar) finnst bezt að vera í þunnri goritex úlpu og vera undir henni í vel loftræstu skotveiðivesti með mörgum vösum.

Nota ekki regnföt heldur
ástralskan olíufrakka

Einar Bollason:

Ég er svo heitfengur, að ég hef ekki verið í síðum, síðan ég fór að nota skálmar, en mæli hins vegar með þeim fyrir fólk, sem ekki er vant alls konar veðrum á hálendinu. Síðar nærbuxur varna líka gegn ýmiss konar nuddi. Sjálfur nota ég síðar á haustin, til dæmis þegar ég fer í göngur og þá hafa reynzt vel þessi norsku, bláu nærföt.

Ég hef nánast ekki farið í regnföt í þrjú ár. Ef til vill er farið að viðra betur en áður, en mér finnst þó, að leðurskálmar og síður frakki komi alveg í staðinn fyrir regnföt. Mér finnst hafa orðið gerbreyting til batnaðar með skálmunum. Svo er ég bara í skyrtu og flíspeysu undir frakkanum. Ég er alltaf í reiðbuxum undir skálmunum, síðustu árin í hlýrabuxum. Fiskroðið er svo óskaplega sterkt, að það sér ekki á því. Á fótunum er ég með ullarsokka. Oftast er ég berhentur, mér finnst það þægilegast, en hef ódýra ullarvettlinga í hnakktöskunni.

Ég nota ástralskan olíufrakka, en ekki þessa venjulegu vaxfrakka. Frakkar eru að vísu þungir og flaksa nokkuð, en mínir hestar eru vanir þeim. Þetta eru svo sem engin tamningaklæði, en ungir folar venjast þeim fljótt. Ég get líka hent mér niður hvar sem er, hvernig sem viðrar. Ég tek fóðrið úr frakkanum á góðum dögum á sumrin og hef það í hnakktöskunni. Ég hef frakkann oftast töluvert opinn að framan og get þá breitt hann yfir hnakkinn að aftanverðu, þannig að ég blotna síður í sætið, þegar rignir. Hins vegar er spurning, hvort ekki borgi sig að vera einnig í stuttum gúmbuxum í rigningu.
Stór neftóbaksklútur um hálsinn er ómissandi. Í rigningum aftrar hann vatninu að renna niður hálsinn. Í sandroki má setja hann yfir vitin.

Stagbætt góritex úlpa

Hannes Einarsson:

Ég er svo heitfengur, að ég nota ekki síðar, en á norskar í trússinu, ef veður yrði óvenjulega kalt. Ég nota hefðbundnar reiðbuxur og leðurskálmar utan yfir þær, nema búast megi við heitum degi. Ég hef notað bæði leðurskálmar og rúskinnsskálmar og finnst leðrið þjálla og léttara. Ég nota væna baðmullarsokka og stundum ullarsokka, ef kalt er. Yfirleitt er ég berhentur, en á leðurhanzka í trússinu.

Ég hef lengi átt þunna góritex úlpu, sem ég hef mikið notað og kann vel við, en er núna komin til ára sinna og mikið stagbætt. Þegar rignir, nota ég yfirleitt úlpuna og buxur af léttum pollagalla í stað skálmanna. Létta pollagallann reyri ég með leðurólum aftan á hnakkinn, oft með snúruhönk til að slá utan um hrossahópinn. Svo er ég með olíugalla í trússinu. Ég á líka hefðbundna reiðúlpu. Í gamla daga notaði ég íslenzka gæruúlpu, sem ég sé dálítið eftir. Ég tók stundum gæruna úr og notaði fyrir reiðvesti.

Samfestingur

Haraldur Sveinsson:

Ég nota þessi bláu, norsku nærföt, sem hafa fengizt hjá Ellingsen, þar á meðal síðar. Þau eru þægileg og valda ekki eins og ullin. Venjulega er ég í hefðbundnum reiðbuxum og tvennum sokkum, einum venjulegum og öðrum vænum ullarsokkum. Á höndunum hef ég þessa gulu, gamaldags vinnuvettlinga, sem seldir hafa verið áratugum saman.

Ég nota oft skálmar að vetrarlagi og þær geta stundum hentað í sumarferðalögum. Ef kalsalegt er í veðri, er ég farinn að vera í stórum samfestingi með leðurbótum eins og seldir hafa verið í hestavöruverzlunum. Þeir eru gærufóðraðir og hrinda nokkuð frá sér vætunni. Maður þarf að vera vel búinn á ferðalögum, því að allra veðra er von fyrirvaralítið. Síðan bílar fóru að fylgja hestamönnum nota ég síðan regnfrakka í hlýrra veðri.

Skálmar nota ég ekki

Andreas Bergmann:

Alla ferðadaga nota ég síð norsk nærföt, hvort sem er kalt eða heitt í veðri. Mér finnst þau þægileg og hlífa vel gegn nuddi, til dæmis innan á hnjánum. Svo ég ég í góðri skyrtu með vösum og reiðbuxur með leðurbótum, en skálmar nota ég ekki. Áður notaði ég ullarsokka, en upp á síðkastið fremur frotté-sokka, og hef nóg af þeim í farangrinum til skiptanna.

Sem yfirhöfn nota ég góða reiðúlpu með nægum vösum og innfelldu vesti. Í hlýju veðri get ég þá látið vestið nægja. Svo er ég með 66 gráðu galla aftan á hnakknum eða á trússhesti, því að annað kemur ekki að gagni, ef eitthvað fer að rigna í alvöru. Á höndunum er ég ýmist með leðurhanzka eða bláa ullarvettlinga, sem kosta lítið á benzínstöðvum. Þessir bláu eru að vísu ekki stamir á tauminn, en þeir eru hlýir í rigningu og kalsaveðri og auðvelt er að vinda þá.

Einangrunarskálmar

Valdimar K. Jónsson:

Ég er í hlýjum ullarnærfötum, sem einangra bæði gegn kulda og hita. Áður fyrr var ég í þessum síðu norsku, en upp á síðkastið hef ég verið í neopren einangrunarskálmum, sem mér finnst gera síðar nærbuxur óþarfar. Skálmarnar eru úr svipuðu efni og veiðivöðlur og einangra gegn raka. Þær hafa enzt vel, harðna ekki og þurfa ekki olíu eins og leðrið. Undir skálmunum er ég í venjulegum reiðbuxum.

Á höndunum er ég yfirleitt með hlýja vettlinga úr gerviefnum, þessa grænu og bláu, sem fást á benzínstöðvum. Þeir eru reyndar sleipir á taumum, en á móti kemur, að ég nota gúmkennda og stama tauma. 66 gráðu vatnsgalla tek ég fram að morgni, ef spáin er þannig, en annars ríð ég í úlpu, sem hrindir frá sér vatni, og tek vatnsgallann ekki með þann daginn. Úlpur þola þó ekki mikla rigningu, en maður lætur sig þá hafa það að blotna.

Vettlingar með doppum
fást á benzínstöðvum

Þormar Ingimarsson:

Ég nota norsku, bláu og þunnu nærfötin, hefðbundnar reiðbuxur, milliþykkar hosur og þykka flíspeysu, sem fer vel upp í háls. Á höndunum hef ég þunna vettlinga með gúmdoppum í lófanum, sem fást á benzínstöðvum. Þeir eru góðir á tauma og vindast vel, ef þeir blotna. Þeir eru ódýrir og ég tek svona tvö-þrjú pör með mér í ferðina. Stundum nota ég leðurskálmar, ef kalt er í veðri. Stóran tóbaksklút hef ég um hálsinn.

Ég er í hefðbundinni reiðúlpu, sem er hlýrri en þunnu úlpurnar úr sérstöku rakavarnarefni, enda verður oft kalt og vindasamt á fjöllum. Ég reiði hins vegar gulan 66 gráðu galla aftan á hnakknum og fer í hann allan, ef eitthvað fer að rigna að ráði. Ef hlýtt er í veðri, renni ég niður lásnum á úlpunni og peysunni og þá loftar vel milli klæða. Oft ríð ég í peysunni og bind úlpuna um mig.

Leðrið hlífir ótrúlega vel

Ólafur B. Schram:

Á ferðum er ég alltaf í síðum nærbuxum, sem ekki eru með saumi innan á. Þar utan yfir er ég í reiðbuxum. Þetta tvennt dugar samanlagt til varnar gegn nuddi. Ég nota ekki skálmar. Á höndunum hef ég þunna hanzka úr svínsleðri, af því að ég er innivinnumaður og get orðið sár á höndunum í jaskinu, sem fylgir hestaferðum. Leðurhanzkar eru alltaf heitir og liprir.

Ég er yfirleitt í kragamiklum bol, sem fer vel upp á hálsinn. Svo er ég í skyrtu með mörgum vösum, helzt fjórum. Þar utan yfir er ég í lopapeysu og síðan ágætlega fóðrað leðurvesti með háum kraga. Upprunalega var það jakki, sem ég tók ermarnar af og bætti við vösum. Leðrið hlífir mér ótrúlega vel.

Það er skrokkurinn, sem er viðkvæmur fyrir kulda, ekki handleggirnir. Ég er ekki í neinu utan yfir vestið, nema ég þurfi að fara í regngalla.

Reiðúlpa með teygjum
á úlnliðum og í mitti

Viðar Halldórsson:

Ég mæli með góðum, hlýjum og síðum nærfötum, því að búast má við öllum veðrum, bæði hlýjum og köldum. Síðu nærbuxurnar hlífa við nuddi. Ég er alltaf í góðum ullarsokkum. Ég er alltaf með leðurhanzka og leðurtauma.

Ég er oftast í reiðbuxum með miklum leðurbótum alveg upp á rass. Þar utanyfir er ég í leðurskálmum. Ég hef prófað bæði venjulegar og úr rússkinni. Ég kann vel við skálmar, því að maður er nánast hreinn undir þeim, þegar maður kemur í hús. Gallinn við skálmarnar er, að þær halda ekki vatni í miklum rigningum.

Ég nota vatnsheldan reiðjakka. Þar þurfa menn að passa sig dálítið, því að það er ekkert verra en að ríða gegnblautur heila dagleið. Það er ekki nóg að fara út í búð og kaupa yfirhöfn. Þær eru mjög misjafnlega vatnsheldar, hvort sem þær eru vaxbornar eða ekki. Gott er að vera í ófóðruðum, vatnsþéttum úlpum og klæða sig undir þær eftir aðstæðum.

Beztu reiðúlpuna keypti ég á Equitana, stutta ameríska, sennilega úr eins konar góritexi, sem var svo vatnsheld, að hún hélt í samfelldri rigningu heila dagleið frá Hagavatni að Dalsmynni í Biskupstungum. Þá blotnuðu margir, sem voru í 66 gráðum norður. Það gerði gæfumuninn, að ég gat reimað upp í háls og það var teygja á úlnliðunum og teygja í mitti.

Lopi er betri en flís

Árni Ísleifsson:

Ég er hættur að vera í ullarfötum og er farinn að nota þessi léttu og þægilegu, bláu nærföt. Þar utan yfir er ég í reiðbuxum með leðurbótum, en hef ekki verið með skálmar, þótt mér finnist þær ágætar. Á fótunum hef ég ullarsokka.

Ég hef lopapeysu með mér og fer í hana, ef ekki er heitt í veðri. Lopinn er betri en flísin, sem þyngist mikið, þegar hún vöknar. Yfirleitt er ég í hefðbundinni reiðúlpu. Svo hef ég regngalla bundinn aftan á hnakkinn. Ef ég er bara með gallann, þarf ég ekki púða undir hann. Yfirleitt er ég berhentur, en hef ullarbelgvetninga meðferðis.

Ullin er bezt

Bjarni E. Sigurðsson:

Sjálfur er ég í þykkum og rakadrægum polyester nærfötum frá 66 gráðum norður, þar með talið síðum nærbuxum. Eftir veðráttu vel ég milli baðmullarpeysu og lopapeysu. Ullin er raunar bezti klæðnaðurinn, en flestir eru hættir að nota hana næst sér. Ég er í reiðbuxum og alltaf skálmum utan yfir. Skálmar eru góð vörn gegn höggum og girðingum og hlífa fötum, svo að maður er oftast sæmilega til fara, þegar maður kemur inn í hús. Þykka sokka nota ég, oftast lopasokka, sem einangra vel. Á höndunum hef ég þunna leðurhanzka eða þunna vettlinga með gúmpunktum. Hvort tveggja er gott á tauma.

Um tíma reið ég í stórum, olíubornum regnfrakka, sem varði vel gegn regni. Ég hætti því fljótlega, enda lufsast þeir og flaksa og geta fælt hesta. Ég ríð því núna í loftdrægri reiðúlpu. Ég er alltaf með 66 gráðu vatnsgalla, ýmist í trússinu, ef veðurútlit er gott, eða sem eins konar fyllingu í járningatösku, ef útlitið er lakara. Þar sem ég er alltaf í skálmum, klippi ég neðan af vatnsbuxunum til að létta þær. Þá hlífa þær rassi og lendum, en skálmarnar sjá um fæturna. Mikilvægt er að draga ekki að fara í gallann, þegar fer að rigna, því að maður getur orðið gegnblautur á skömmum tíma. Svo er líka víða í skálum ekki gott að þurrka föt.

JK

(Hjalti Gunnarsson:

Ég nota mest þessi bláu norsku ullarnærföt, sem eru þægileg, og nota þau hvernig sem viðrar. Það er minna um, að ég noti síðar, frá því að skálmarnar komu til sögunnar. Þær voru mikil breyting til batnaðar í hestaferðum. Bæði hef ég notað skálmar úr leðri og rúskinni og geri ekki upp á milli þeirra. Undir skálmunum er ég í reiðbuxum með leðurbótum. Ég nota ullarsokka af sömu gerð og göngufólk notar.

Ég ríð yfirleitt berhentur, en nota stundum gráa fingravettlinga úr ull, sem ég hef í vasanum. Mest nota ég hefðbundnar reiðúlpur og nota undir þeim skotmannavesti, sem hafa mikið af vösum. Ég er alltaf með tvískiptan vatnsgalla í hnakktösku.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 5.tbl. 2004

Ný öld loksins hafin

Hestar

Í viðtali Eiðfaxa við Ágúst Sigurðsson ráðunaut í þessu blaði leggur hann línur að framtíðarsýn til nýrrar aldar, þar sem verkfæri fagmanna verða fleiri og betri en þau hafa verið. Í viðtalinu er kafað ofan í margþætt umræðuefni hans á mannþingum og ráðstefnum á síðustu mánuðum og gefin fyllri mynd af ýmsum atriðum, sem þar hafa komið fram. Þetta heildstæða yfirlit á erindi til allra fagmanna í hestamennsku, til ræktunar- og tamningamanna, til sýningar- og kaupmanna.

Ágúst vill bæta kynbótamatið með því að auka það mörgum þáttum, sem eru mælanlegir eða verða mælanlegir. Hann vill, að matið nái til þols og mýktar, til kjarks og taugastyrks. Hann vill, að matið nái til heilbrigðisþátta á borð við spatt og exem, endingar og fyljunarprósentu. Hann vill, að matið nái til allra þátta hins fjölhæfa hests, sem nýtist til keppni, ferðalaga og útivistar.

Ennfremur vill hann, að athugasemdir dómnefnda fari inn í kynbótamatið, svo að fá megi nákvæmari mynd af hverjum eiginleika fyrir sig. Hann vill gera prófíla að geðslagi hrossa eins og það kemur fram, þegar eftirlitsdómarar taka út hross, sem Hólanemendur hafa verið með í tamningu á verksnámsbýlum. Hann sér fyrir sér, að kynbótamatið magnist smám saman upp í marghliða talnagrunn, sem verði öllum aðgengilegur og augljós og fyrst og fremst öllum gagnlegt verkfæri.

Fjölbreyttara matskerfi hægir á fækkun erfðaeiginleika hestsins og getur stöðvað hana. Hingað til hefur dóms- og matskerfið stuðlað að aukinni einhæfni stofnsins í samspili við feiknarlega notkun hins frjálsa markaðar á fáum tízkustóðhestum. Ágúst vill einnig ætternisgreina stofninn með lífsýnum og hampa stóðhestum, sem eru fjarskyldastir meðalstofninum. Loks vill hann flytja inn fósturvísa til að endurheimta einkenni, sem hafa glatazt eða eru að glatast úr landi.

Af viðtalinu er ljóst, að Ágúst lítur ekki á verkfæri og kerfi hvers tíma öðru vísi en sem börn hvers tíma. Hann lítur ekki á dómkerfi og kynbótamat sem endanlegan sannleika af himnum ofan, heldur sem árangur rannsókna og þess, sem bezt er vitað á hverjum tíma. Ef ræktun á þessum forsendum hefur um tíma þrengt og takmarkað hrossastofninn, þarf kerfið að vera sveigjanlegt til að hliðra til og spyrna á móti með fjölbreyttari upplýsingum, sem gefa heillegri mynd, byggðar á nýjum rannsóknum.

Það er þessi opnun hugans og inntaka nýrra hugmynda, sem byggðar eru á nýrri þekkingu, sem Ágúst hefur verið að mæla með á fundaferðum sínum og ráðstefnum að undanförnu. Allt bendir til þess, að hann hafi stuðning fagmanna, hvort sem þeir eru ræktendur eða tamningamenn, sýningarmenn eða kaupmenn, og annarra áhugamanna um velgengi íslenzka hestsins. Sem fagrit íslenzkra hestamanna, hvar á sviðinu sem þeir standa, hefur Eiðfaxi lagt og mun áfram leggja lóð sitt á þessa sömu vogarskál.

Við erum á þröskuldi nýrrar aldar og sjáum slóðina framundan.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 4.tbl. 2004

Spennandi atburðir

Hestar

Spennandi atburðir eru að gerast í alþjóðaheimi íslenzka hestsins. Gæðingakeppnin, sem var séríslenzkt fyrirbæri, er komin í ferðalag út í heim. Og skipuleggjendur næstu vetrarólympíuleika eru farnir að velta fyrir sýningu íslenzkra hesta á ís við setningu leikanna eða annað hátíðlegt tækifæri.

Björn Ólafsson, sem skipuleggur reiðsýningar í skautahöllum í Bandaríkjunum, hafði milligöngu um komu tveggja framkvæmdastjóra frá vetrarólympíuleikunum á Ítalíu. Þeir fylgdust með ístöltinu í skautahöllinni í Reykjavík og fengu að sjá sérstaka hópsýningu, sem sett var saman til að sýna, hversu öruggur og agaður íslenzki hesturinn er í mynzturreið á ís, með tilheyrandi fánum, stjörnuljósum og eldglæringum.

Skipuleggjendur ólympíuleikanna láta vel af því, sem þeir sáu, og eru að velta fyrir sér, hvort hópreið íslenzkra hesta sé kjörið atriði fyrir sjónvarp og áhorfendur. Ekki kemur í ljós fyrr en í sumar eða haust, hvort sú verður niðurstaðan. En þegar er ljóst, að hróður og frægð íslenzka hestsins fer ört vaxandi um þessar mundir.

Gaman er líka að vakningu í útlöndum fyrir gæðingakeppni, sem víða þykir nýstárlegt fyrirbæri. Á blaðsíðum yy-xx í Eiðfaxa er viðtal við Sigurbjörn Bárðarson um námskeið og próf, sem haldið var í lok marz í Reykjavík fyrir erlenda gæðingadómara. Í kjölfarið munu sumir þessara nýju dómara, ásamt íslenzkum starfsbræðrum, dæma í gæðingakeppni, sem verður á nokkrum stöðum í Evrópu í sumar.

Erlendis hafa menn hingað til nærri eingöngu lagt áherzlu á íþróttakeppni, eins og við þekkjum hana á heimsleikum og Íslandsmeistaramótum, en lítið vitað um gæðingakeppni, sem einkennir íslenzku landsmótin. Nú eru menn erlendis að átta sig á, að gæðingakeppni er hin hefðbundna og gamalgróna hestakeppni á Íslandi og sú keppni, sem einna helzt aðgreinir íslenzka hestinn frá öðrum hestakynjum.

Þessi viðtöl um vetrarólympíuleikana og landvinninga gæðingakeppninnar eru skýr dæmi um, að íslenzki hesturinn sækir fram á ýmsum sviðum um þessar mundir. Ef árangur næst á þessum sviðum og að veruleika verður framtíðarsýnin, sem sagt er frá í hinni greininni á þessari síðu, er vissulega bjart framundan í heimi íslenzka hestsins.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 4.tbl. 2004.

Gæðingakeppnin fer út í heim

Hestar

Sigurbjörn Bárðarson, formaður fræðslunefndar gæðingadómara Landssambands hestamannafélaga:

Tímamót urðu í sögu íslenzku gæðingakeppninnar í lok marz, þegar hingað komu þekktir alþjóðadómarar úr íslenzkum hestaíþróttum á þriggja daga námskeið í gæðingadómum og luku þar prófi íslenzkra gæðingadómara. Námskeið þetta á vegum LH og Alþjóðasambands íslenzka hestsins, FEIF, var svo vel heppnað, að við erum að undirbúa annað í haust, ef þátttaka fæst.

Það er töluverð upplifun fyrir erlenda íþróttadómara að kynnast íslenskum gæðingadómum, að sjá þann mikla frjálsleika og fas sem einkennir gæðingakeppnina samkvæmt Íslenskri hefð. Og hið einfalda form sem einkennir keppnina hentar flestum sem stunda hestamennsku, hvort heldur er til ánægju eða keppni.

Námskeiðið var afleiðing vakningar, sem hafin er meðal Íslandshestafólks í öðrum löndum, einkum á Norðurlöndum og í Þýzkalandi. Þar eru menn farnir að átta sig á, að hestinum fylgja aldagamlar reiðmennskuhefðir, sem eru hluti af sögu og tilvist íslenzka hestsins. Klúbbar eru farnir að halda mót í gæðingakeppni og hafa áhuga á að læra meira um hana og hafa leitað til höfuðstöðvar íslenska hestsins L.H um framhaldið.

Í uppsiglingu eru tvö stór gæðingamót í Þýzkalandi. Þar munu verða gæðingadómarar frá Íslandi, Sigurður Ævarsson og Ingibergur Árnason, auk sumra þeirra erlendu manna, sem nú hafa lokið prófi í gæðingadómum. Við væntum þess, að sama sagan verði erlendis og hér heima, að þessi tegund keppni höfði til hins almenna hestamanns og verði til að fjölga mótum.

Annað gildismat

Gæðingakeppni er ólík íþróttakeppni og hefur annað gildismat. Í gæðingakeppni er hesturinn í fyrirrúmi, en knapinn skipar annað sæti. Þetta á sér rætur aftur í öldum, þegar íslenzkir hestamenn hittust með gæðinga sína á eyrum og leirum og sérskipið dómnefnd fengin til að meta, hver átti bezta gæðinginn.

Smám saman hefur þessi íslenzka hefð fengið ákveðið mynztur, sem við sjáum til dæmis á landsmótum. Hjá LH hafa reglur um þetta fengið fast mót á síðustu tveimur árum. Allar reglur hafa verið endurskrifaðar, svo að nú hafa dómarar staðlaðar forskriftir að vinnubrögðum, sem eiga að stuðla að samræmi í dómum, þótt eðli gæðingakeppninnar sé frjálslegra en íþróttakeppninnar.

Gæðingakeppnin hefur þannig verið aðlöguð nútímanum og er tilbúin til útflutnings. Eigi að síður er hún enn hin sama gamla erfðavenja, sem öldum saman hefur verið hápunktur félagslífs hestamanna, þegar stoltir eigendur sýna hesta sína og bera saman við það bezta í héraðinu eða á landsvísu. Hún er sú keppni, sem hæfir íslenzka hestinum bezt.

Eðli gæðingakeppninnar er séríslenzkt. Það er gæðingur, sem er fasmikill og leggur undir sig mikla jörð á öllum gangi, sýnir ekki bara takt, heldur takt og samræmi í hreyfingum, og býður af sér ekki bara svipmót, heldur útgeislun hins frjálsborna. Í gæðingakeppni á sjálfið í hestinum að njóta sín.

Nýr markaður

Með gæðingakeppni í fjölmörgum löndum opnast nýr markaður fyrir íslenzka hesta, öðru vísi hesta en þá, sem taka þátt í íþróttakeppni. Markhópurinn fyrir þessa er ekki alveg sami og sá, sem hefur keypt íþróttahestana, og hefur burði til að verða miklu stærri, áður en upp er staðið.

Ég hef trú á, að smám saman komist aukinn hraði í þetta ferli og um síðir verði gæðingakeppni orðin að hornsteini hestamennskunnar um allan heim íslenzkra hesta. Við munum stuðla að þessu með því að þjálfa erlenda dómara og senda íslenzka dómara á gæðingamót í útlöndum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl. 2004.

Á þröskuldi nýrrar aldar

Hestar

Viðtal Eiðfaxa við Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunaut:

Regnhlífarsamtök atvinnumanna

Til þess að stuðla að framförum í hrossarækt og á öðrum sviðum hestamennsku verðum við að starfa meira saman en við gerum. Við þurfum til dæmis að mynda öflugri heildarsamtök, annars vegar regnhlíf fyrir atvinnumennskuna og hins vegar regnhlíf fyrir hestamennskuna í heild.

Ég sé fyrir mér hliðstæða þróun og orðið hefur í málum bílsins. Þar hefur myndazt öflugt bílgreinasamband, sem nær yfir ýmsa hópa atvinnumanna og fyrirtækja á því sviði. Það hefur svo samstarf í ýmsum málum við félag bifreiðaeigenda, sem er eins konar neytenda- eða áhugamannafélag.

Annars vegar er nauðsynlegt, að atvinnumenn í samtökum hrossaræktar og tamninga og á fleiri sviðum, svo sem í hestatengdri ferðaþjónustu, stofni heildarsamtök atvinnumanna eða félaga atvinnumanna, atvinnuvegarins í heild. Hins vegar er brýnt, að slík samtök atvinnuvegarins efli samstarf við Landssamband hestamannafélaga sem heildarsamtök áhugamanna.

Þannig er byggt á því félagsformi, sem fyrir er, en félagslega aflið fært út í nýjar víddir. Þannig styrkist hestamennskan í landinu til að takast á við ný verkefni, sem farin eru að banka á dyr. Æskilegt er, að frumkvæði í þessum efnum komi frá þeim, sem eru í forustu hinna ýmsu samtaka og félaga hestamanna.

Knapamerkin á miðri leið

Með knapamerkjakerfinu erum við komin hálfa leið í kennslumálum hestamanna. Við þurfum að vista kerfið til frambúðar á einum stað. Mér finnst eðlilegast, að það verði við Hólaskóla, þar sem ráðinn verði starfsmaður til að halda utan um kerfið og þróa það áfram.

Námsefnið er til, en nú þarf m.a. að útbúa leiðbeiningar fyrir kennara. Heppilegt er, að það gerist á Hólum, þar sem er verið að kenna væntanlegum kennurum í greininni. Verið er að ræða, hvernig staðið verði að þessu. Ég vona, að þetta komist á koppinn sem allra fyrst. Mestu máli skiptir, að vel takist til að finna rétta manninn í starfið.

Kennslumál eru eitt mikilvægasta markaðsmál hestamennskunnar um þessar mundir. Við þurfum að koma kennslu í hestamennsku inn í öll stig skólakerfisins, grunnskóla og framhaldsskóla. Til þess vantar kennara, sem kunna að útfæra knapamerkjakerfið. Reiðhallir og reiðskemmur eru mikilvægur þáttur þessa starfs, en þær eru enn af skornum skammti í sumum landshlutum.

Við höfum fyrirmynd í tónlistarnáminu. Það er rekið í misjafnlega nánu samstarfi sveitarfélaga og foreldra. Kostnaði er skipt með ýmsum hætti, en yfirleitt er boðið upp á lánuð hljóðfæri. Finna þarf leiðir til að fjármagna hliðstæðan stofnkostnað hesta og reiðtygja í reiðmennskunámi.

Kennslukerfi hestamennskunnar þarf að geta lánað kennsluhesta á öllum stigum skólakerfisins. Þetta þurfa að vera rólegir og taugasterkir hestar sem kunna það sem ætlunin er að kenna nemendunum. Ég sé fyrir mér hesta, sem beinlínis séu tamdir til að þjóna þessu hlutverki og séu mikið tamdir.

Þannig er hægt að gefa börnum og unglingum færi á að kynnast hestamennsku og taka áfanga eða stig í skólakerfinu án þess að þurfa að fjárfesta í hestum og þeim búnaði, sem fylgir þeim.

Knapamerkin eru útflutningsvara

Knapamerkjakerfið er orðið útflutningsvara. Í bandaríska félaginu fyrir eigendur íslenzkra hesta er mikill áhugi á að flytja kerfið inn í heilu lagi. Í sumum öðrum löndum eins og Þýzkalandi er til þróað kennsluefni, svo að þau þurfa síður á knapamerkjakerfinu að halda. Önnur lönd eru einhvers staðar þarna á milli.

Það skiptir máli fyrir útbreiðslu íslenzkra hesta um heiminn, að hér á landi hafi verið þróað nothæft kennslukerfi, sem hentar öllum aldursflokkum og er sem valgrein hluti hins almenna skólakerfis. Þeir, sem áhuga hafa í öðrum löndum, geta þá gengið að þessu kerfi og notað það eða hluta þess til að þróa rétta umgengni við íslenzka hestinn.

Þess vegna þarf að þýða og staðfæra íslenzka knapamerkjakerfið á erlend tungumál og erlendar aðstæður, fyrst á ensku fyrir Bandaríkjamarkað. Þetta á að vera eitt af fyrstu verkefnum hins fyrirhugaða umsjónarmanns þess á Hólum í Hjaltadal.

Ennfremur þarf að mynda sjóð til að styrkja og hvetja fólk til æðri menntunar í hestafræðum til að sinna í framtíðinni rannsóknum og æðri kennslu í hestafræðum. Þetta getur verið á ýmsum sviðum, svo sem í reiðmennsku, kynbótum, dýralækningum og fleiru. Við finnum verulega fyrir skorti á vísindamönnum

Setjum upp Íslensku mótaröðina

Keppnin er mikill þáttur í lífi margra atvinnumanna, sem byggja afkomu sína á hestum. Þeir verja miklum tíma í keppni, án þess að hún gefi neitt að ráði af sér, annað en frægðina, sem getur auðvitað nýtzt með óbeinum hætti. Við þurfum að finna leið til að koma meiri peningum inn í keppni atvinnumanna.

Við þurfum að skilja betur milli frjálslegrar keppni áhugafólks í léttum uppákomum annars vegar og hins vegar staðlaðrar keppni atvinnumanna. Ég tel heppilegt, að fyrirtækið Landsmót ehf hafi frumkvæði að staðlaðri mótaröð atvinnumanna, Íslensku mótaröðinni, fyrir landið í heild, t.d. fimm mótum á hverri vertíð. Þetta væri útvíkkun á starfi Landsmóts ehf, eins konar aukabúgrein. Hún gæti um leið verið eins konar úrtaka fyrir landsmót, a.m.k. að stórum hluta, áfram væru einhverjir hestar valdir á félagslegum grunni.

Búnaður og aðstaða, svo sem tölvukerfi, startbásar og tímataka, þarf að vera fyrsta flokks í mótaröðinni, svo og fyrsta flokks atvinnudómarar á öllum sviðum, í kappreiðum, í gæðingakeppni og í íþróttakeppni.

Þarna mætti hugsa sér að endurvekja gömlu sígildu hugmyndina um veðbankastarfsemi í kringum kappreiðar en ég held að það megi stækka þá hugmynd verulega. Erlendis hefur náðst mikill árangur í svonefndu “Breeders’ Trophy” kerfi fyrir önnur hestakyn og tilraunir hafa verið gerðar með það fyrir íslenzka hesta í Svíþjóð. Í þessu kerfi skráir ræktandi stóðhest gegn ákveðnu gjaldi sem gerir afkvæmi hestsins gjaldgeng í ákveðinni keppni síðar meir þar sem hefur þá myndast ákveðinn vinningspottur en í hann kemur líka veðmálafé frá almenningi.

Veðmálin standi alla vertíðina

Ég sé fyrir mér veðbanka um mótaröðina á Íslandi. Síðar mætti jafnvel hugsa sér að komið yrði á fót veðbanka um alþjóðlega mótaröð, sem jafnframt gæti virkað að hluta sem úrtaka fyrir heimsleika eins og íslenzka mótaröðin getur þjónað að hluta til sem úrtaka fyrir landsmót. Það kæmi mér nefnilega ekki á óvart þótt þessi landakeppni sem nú þykir sjálfsögð breytist meira yfir í keppni milli einstaklinga eftir því sem landamæri verða ógreinilegri og alþjóðleg hugsun festir betur rætur en það er annað mál.

Veðbankinn yrði studdur töflum, tölfræði og öðrum upplýsingum úr Mótafeng, svo að veðjarar geti haft svipaðar upplýsingar í höndunum og þeir hafa nú í veðmálum vegna kappreiða erlendis.

Lykillinn að árangri er að láta veðmálin snúast um fleira en skeiðið eitt. Erfitt er að halda uppi spennu í keppni, sem tekur aðeins 13-24 sekúndur, í samanburði við tveggja mínútna spretthlaup veðhlaupahesta af erlendum kynjum. Við getum náð spennunni inn með því að láta hana ná yfir heila mótaröð, heilt keppnistímabil.

Skeiðvakningin er svo hluti af þessu ævintýri. Ég tel, að þessi hugmyndafræði feli í sér mikla möguleika fyrir Landsmót ehf, sem er sameiginlegt fyrirtæki hestamennskunnar í landinu.

Hinn fjölhæfi Íslandshestur

Við sækjumst eftir fjölhæfum hesti, sem getur tekið þátt í fjölbreyttum tegundum af keppni á ýmsum gangtegundum, sem getur ferðast með reiðmann um fjöll og firnindi og verið gleðigjafi í hefðbundnum útreiðum.

Ferðalög á hestum eru vaxandi þáttur í atvinnumennskunni og áhugamennskunni. Ekki hefur verið hugsað nógu vel um þann þátt í ræktuninni, né heldur um almennar útreiðar frá hesthúsi eða haga. Huga þarf að rannsóknum til að finna út, hvernig er hægt að haga ræktuninni með tilliti til þessara sjónarmiða ferðamennskunnar, sem hafa á vissan hátt orðið útundan.

Mælum þol, mýkt, kjark og taugastyrk

Með auknum rannsóknum fáum við upplýsingar um eiginleika, sem eru gagnlegir á þessum sviðum og fleirum. Við verðum að finna nýja þætti í heildarmynd hestsins. Ókannaðir eða of lítið kannaðir eiginleikar þurfa smám saman að verða þáttur í ræktunartakmarki fyrir íslenzka hestinn.

Við þurfum til dæmis að skilgreina eiginleika, sem koma að gagni í ferðum. Það geta verið þol, fótvissa, mýkt, kjarkur og taugastyrkur. Í sumum tilvikum eru til aðferðir til mælinga eða vísir að þeirri tækni.

Við getum til dæmis mælt hjartsláttarbreytingar við langvinnt erfiði til að meta þolið. Við getum hugsað okkur mælingar á hristingi hnakkstæðis á hesti á tölti til að meta þýðleikann. Einnig getum við kortlagt kjark og taugastyrk hesta betur en við höfum hingað til gert.

Vantar meira um heilbrigði

Okkur vantar líka betri innsýn í heilbrigði hesta, þar á meðal þætti eins og sumarexem, spatt, endingu og frjósemi. Við erum komnir af stað á sumum þessum sviðum.

Við vonum, að rannsóknir á sumarexemi leiði til þess, að bólustetning verði möguleg og helst að áhættuþættir finnist þannig að við getum ræktað viðkvæmni fyrir sumarexemi úr stofninum í ekki allt of fjarlægri framtíð.

Spattrannsóknir eru lengra á veg komnar. Við vitum, að stóðhestar arfleiða afkomendur að spatti í misjöfnum mæli. Við getum því ræktað þann ókost úr stofninum með markvissum vinnubrögðum yfir lengri tíma ef við bara förum í það. Nú í sumar verður haldin hér á landi mikil ráðstefna helstu sérfræðinga á þessu sviði þar sem þessi mál verða krufin til mergjar en þar ætti að koma fram hvaða ræktunarleiðir eru raunhæfar í þessum tilgangi.

Þess er vonandi ekki langt að bíða, að við getum sett dálk um frjósemi eða fyljunarprósentu stóðhesta í kynbótamatið. Ég held að slíkt sé bezta leiðin til að ná árangri, betri en boð og bönn. Staðreyndir málsins verða öllum sýnilegar og hver ræktandi fyrir sig getur notfært sér þær, ef hann kærir sig um.

Menn sjá þá, hvaða áhættu þeir taka, ef þeir velja stóðhest, sem annað hvort hefur tilhneigingu til að gefa spatt eða tilhneigingu til að gefa lága fyljunarprósentu.

Fjölbreytt innihald kynbótamats

Allar mælanlegar upplýsingar um heilbrigði stóðhesta eiga erindi inn í þau gögn, sem hestamenn hafa við hendina, þegar þeir taka ákvörðun á borð við val á stóðhesti. Ekki er rúm fyrir nein leyndarmál í þeim efnum. Allar upplýsingar um hestinn eiga að vera gegnsæjar.

Suma þessa þætti væri gott að vigta inn í heildareinkunn í kynbótamati eins og fet og faxprýði hafa verið vigtuð inn í kynbótadóma. Aðrir þættir fengju bara sjálfstæða dálka án þess að vera vigtaðir inn í heildareinkunnina eins og hægt stökk er skráð sér í kynbótadómum án þess að vera vigtað sérstaklega inn í aðaleinkunn.

Ég tel ekki ástæðu til að víkka út kynbótadómana sem slíka. Mér finnst eðlilegt að þeir mæli atriði, sem koma fram á sýningum, en ekki önnur. Kynbótamatið getur hins vegar tekið inn ótal atriði, sem eru mæld á annan hátt og við aðrar aðstæður, og vigtað þau síðan inn í heildartölur kynbótamats, ef mönnum finnst þau skipta nógu miklu máli.

Rannsóknir og meiri rannsóknir

Fagráð í hrossarækt er sá aðili, sem tekur ákvarðanir um nýja þætti í kynbótamati og hvort þeir skuli vigtaðir inn í heildarmyndina. Ég tel, að þetta hlutverk verði sífellt mikilvægara eftir því sem fleiri rannsóknir koma til sögunnar og veita okkur nýja sýn á stöðu mála.

Fleiri aðilar koma að slíkum ákvörðunum, svo sem FEIF, alþjóðasamband íslenzka hestsins og kynbótanefnd þess, enda mkilvægt að allt þetta ferli sé vel viðrað á öllum stigum þess.

Mín skoðun er ljós. Við þurfum meiri rannsóknir og ennþá meiri rannsóknir og nota þær til að bæta upplýsingagrunninn þ.m.t. kynbótamatið. Við vitum allt of lítið um þætti tengda fóðrun og þjálfun íslenska hestsins en ég bind þó miklar vonir við rannsóknaátak það sem nú er verið að ýta af stað í samvinnu fagráðs í hrossarækt og Hólaskóla.

Prófíll að geðslagi hrossa

Okkur vantar nýja sýn á geðslag hesta, ekki eins og það kemur fram hjá úrvals knapa á sýningu, heldur eins og það kemur fram í daglegri umgengni. Geðslag er margbrotið. Því þarf að reyna að sundurgreina það í þætti.

Nota má þriggja stiga prófíla á borð við ljúfur-meðal-harður, kjarkaður-meðal-kjarklaus, glaður-meðal-fúll, daufur-meðal-ör. Með stöðluðum vinnubrögðum má finna prófíl af geðslagi hvers hests.

Verið er að prófa þetta við staðlaðar aðstæður á hrossum, sem nemar frá Hólaskóla hafa tamið á verknámsbýlum í 2-3 mánuði. Eftirlitsdómari kemur á staðinn og tekur hestinn út. Þetta minnir að nokkru á gömlu afkvæmaprófanirnar, en er ekki framkvæmt á einum stað, heldur á verknámsbúum víðs vegar um landið.

Ef vel gengur verður til úr þessu starfi einfalt kerfi sem þó lýsir geðslagi hvers hests vel. Hugsa mætti sér að útvíkka þetta kerfi til allra stærri tamningastöðva um landið og það yrði hluti af starfi héraðsráðunauta í hrossarækt að vera samræmingaraðilar og safna inn þessum upplýsingum. Það sem er styrkleiki kerfisins er að það er tiltölulega laust við skalaáhrif og því á að nást gott samræmi milli tamningastöðva.

Þetta felur í sér byltingu í mati á geðslagi á afkvæmum stóðhesta. Niðurstöður margra afkvæma hvers stóðhests gefa meðaltalstölur, sem sýna má sem punkta í tvívíðri eða þrívíðri mynd. Síðan má raða mörgum stóðhestum inn í þessa mynd og sjá myndrænt, hvers konar geðslagt líklegt er, að þeir gefi af sér.

Slíkar myndir munu hrossaræktendur geta notað, ef þeir sækjast meira eftir ákveðnum þáttum en öðrum í geðslagi hrossa sinna. Sumir munu kjósa fremur ör keppnishross, en aðrir fremur ljúflinga.

Athugasemdir fari í kynbótamatið

Um árabil hefur verið notað staðlað form til að skrá athugasemdir dómara á kynbótasýningum. Á þessum tíma hefur myndast mikið safn staðlaðra upplýsinga, sem þegar er orðið nothæft um stóðhesta, sem hafa t.a.m. 20 eða fleiri dæmd afkvæmi.

Þótt tvö afkvæmi hafi sömu einkunn fyrir ákveðinn eiginleika, getur einkunnin verið byggð upp af mismunandi þáttum. Þetta stafar af því að hver einkunn nær yfir safn af eiginleikum. Athugasemdirnar gera kleift að greina þetta sundur, skoða niður í kjölinn, hvað er á bak við einkunnina.

Til að útskýra notagildi þessa getum við tekið dæmi um afburðastóðhestinn Orra frá Þúfu. Orri liggur fremur lágt í kynbótamati fyrir réttleika fóta en hvað skyldi einkenna þennan eiginleika hjá afkvæmum hans. Með tölulegri meðferð athugasemdanna má meðal annars sjá, að afkvæmi Orra eru að meðaltali töluvert nágengari að aftan en afkvæmi flestra annarra þekktra stóðhesta. Þessar upplýsingar eru gagnlegar þegar kemur að pörun en óráðlegt væri að leiða áberandi nágengar hryssur undir Orra.

Aðalatriðið er, að töluleg meðferð athugasemdanna dregur upp nákvæmari mynd af hverjum eiginleika fyrir sig og hjálpar ræktendum að læra á stóðhestana ef svo má segja.

Mótafengur sýnir árangur afkomenda

Íslenska mótaröðin, sem nauðsynlegt er að koma á laggirnar, á að gefa staðlaðar upplýsingar í Móta-Feng, sem væntanlega kemst almennilega í gang í sumar. Fljótlega eiga að koma úr honum upplýsingar um, hversu mörgum hrossum hver stóðhestur skilar inn í keppni, burtséð frá árangri í keppni.

Eftir því sem upplýsingarnar hlaðast upp er hægt að sjá, hversu mörgum hrossum hver stóðhestur skilar inn í hverja tegund keppni. Er hann til dæmis að gefa af sér keppnishesta í 250 metra skeiði, eða er hann að gefa af sér töltkeppnishesta.

Úr þessu kemur eins konar kynbótamat hvers stóðhests fyrir ýmsar tegundir af keppni. Þess er væntanlega ekki langt að bíða, að hrossaræktendur, sem vilja rækta keppnishross, geti notað slíkar upplýsingar úr Móta-Feng.

Línur og horn spá um framtíðina

Almennt má segja, að æskilegt sé að breyta huglægu mati sem mest í hlutlægt með því að taka upp kerfisbundnar mælingar á mörgum sviðum. Við getum t.a.m. gert tilraunir með að mæla takt í gangi og þýðleika, skreflengd og fótlyftu, svif og hraða. Þá getum við mælt þátttöku og árangur í keppni eins og áður hefur komið fram.

Gera þarf tilraunir með líkamsmælingar á trippum, þar sem mæld eru horn og lengdir. Með því að fylgjast með þessum hrossum á lífsleiðinni, má sjá samhengi milli líkamsbyggingar og árangurs hrossanna á ýmsum sviðum, svo sem í keppni.

Þegar upplýsingasafnið er orðið nógu mikið, má leiða tölfræðilegar líkur að því, að ákveðnir þættir í líkamsgerð trippa kalli fram ákveðna eiginleika á fullorðinsárum, til dæmis í ganglagi, sem hrossaræktendur sækjast eftir. Þetta á að geta auðveldað þeim að velja unghross til tamningar.

Stórátak í erfðagreiningu

Ég vil, að gert sé átak í skipulegri ætternisgreiningu hrossastofnsins með DNA-rannsóknum á lífsýnum úr hrossum. Þetta er svo brýnt atriði fyrir hrossaræktina, að mér finnst einboðið að afla sem mestra upplýsinga á stuttum tíma í einföldu átaki. Ég tel, að leggja megi til fé úr m.a. stofnverndarsjóði til þess að koma verkefninu almennilega af stað.

Byrja má á því markmiði, að DNA-ætternisgreina öll hross sem koma til kynbótadóms á næsta ári. Síðan þarf að stefna að því, að öll hross í ræktun verði ætternisgreind. Þetta eru um 4000-5000 folöld, sem bætast í Feng á hverju ári.

Kostnaður við þetta getur numið um 6-10 milljónum króna á ári. Til að byrja með er rétt að greiða þetta úr sjóði til að koma verkefninu af stað, en síðar verður kostnaðurinn að leggjast á eigendur hrossanna.

Við stöndum andspænis byltingu

Ég tel að við stöndum andspænis byltingu í hrossaskráningu á Íslandi. Jarðvegurinn er tilbúinn fyrir hana. Við slíka skráningu yrði allt gert í einu til að spara kostnað: Almenn skráning og merking hrossa, svo og ætternisgreining. Ennfremur hestapassi, þar sem það á við.

Þetta eykur trúverðugleika íslenzka hrossastofnsins, enda er þegar gerð krafa um þetta um allan heim að því er varðar stóðhesta. Ætternisgreiningin er einfalt mál í sjálfu sér en framtíðarmúsíkin er svo almenn erfðagreining þ.e. kortlagning eiginleikanna sem einkenna íslenska hestinn. Þar mætti byrja á tiltölulega einföldum þáttum eins og litaarfgerðum enda hafa nú þegar mörg litagena hestsins verið staðsett. Notendur stóðhesta hafa margir hverjir efalaust áhuga á að vita fyrirfram hvaða litaarfgerðum þessi eða hinn stóðhesturinn býr yfir. Síðan má hugsa sér að víkka þetta út og hefja metnaðarfulla leit að mikilvægum genahópum fyrir tölt og skeið. Þar erum við að ræða um tímafrekar og dýrar rannsóknir eins og staðan er í dag en við megum ekki gleyma því að við höfum þegar öflug fyrirtæki á þessu sviði hér á landi. Möguleikarnir eru fyrir hendi og markmiðið er að kortleggja erfðaþætti íslenzka hestastofnsins.

Úrval í lokuðu kerfi

Úrvalið í hrossastofninum hér á landi fer fram í lokuðu umhverfi. Harðari ræktun hefur leitt til fækkunar forfeðra stofnsins. Til dæmis má nefna, að Hrafn frá Holtsmúla á 10% í stofninum eins og hann er núna.

Smám saman leiðir þetta til minni úrvalsmöguleika, minni fjölbreytni og hugsanlegs brottfalls eiginleika, sem geta reynzt mikilvægir í framtíðinni. Eindregin notkun á tiltölulega fáum tízkustóðhestum stuðlar að þessari breytingu.

Á sama tíma hafa ræktunarhross verið flutt úr landi í stórum stíl síðustu áratugi. Flæði erfðaefnis er bara í aðra áttina, úr landi, en ekki til landsins. Það þýðir, að erlendis kunna að koma upp innan tíðar kynbótagripir sem við þyrftum nauðsynlega að hafa aðgang.

Innflutningur á fósturvísum

Af þessari ástæðu er orðið tímabært fyrir okkur að undirbúa innflutning á erfðaefni, sæði eða fósturvísum úr erlendum toppkynbótagripum af hreinu íslensku kyni. Markmiðið er að tryggja að í upprunalandi íslenzka hestins sé ávallt uppspretta beztu fáanlegu einkenna í hrossastofninum.

Þetta er ekki bara mikilvægt fyrir Íslendinga sem samkeppnisaðila í ræktun íslenzka hestsins, heldur fyrir allan heim eigenda íslenzkra hesta. Því breiðari stoðum, sem skotið er undir ræktunina í upprunalandinu, því meiri verður ávinningur allra, sem koma að íslenzkum hestum á einn eða annan hátt.

Líklega er eðlilegast að félag hrossabænda setji á flot prófmál á þessu sviði til að ryðja því braut gegnum kerfið. Fara verður fram áhættumat á þessum innflutningi erfðaefnis, sem á sér forsendur á öðrum sviðum landbúnaðar. Slíkt ferli getur tekið nokkurn tíma, svo að brýnt er að hefjast handa sem fyrst.

Jafnframt tel ég, að byggja eigi erfðafjölbreytileika inn í kynbótamatið. Þannig verði þeim hrossum sem á hverjum tíma eru minna skyld hinum virka ræktunarstofni hampað hlutfallslega meira í kynbótamatinu. Þetta er alþekkt aðferð í búfjárrækt um allan heim og virkar einfaldlega þannig að af annars jöfnum hrossum í kynbótamatinu raðast þau efst sem minnst eru skyld stofninum á hverjum tíma.

Ljúka þarf rannsókn, sem lengi hefur staðið yfir og er langt komin á Keldum, þar sem fjölbreytileiki íslenskra hrossa er metinn í DNA-rannsókn. Úr rannsókninni má finna, hvort til séu sérstakir hópar hrossa, eins konar “stofnar”, sem kallaðir voru í gamla daga, þegar menn töluðu um Austanvatnahross, Hornfirðinga, Hindisvíkinga og svo framvegis. Markmiðið er að finna, hvort marktækur munur sé á erfðaefni slíkra hópa.

Í hæstu hæðir

Þegar allir þessir þættir, sem ég hef nefnt, eru komnir inn í gagnabankann og kynbótamatið, höfum við miklu öflugri tæki fyrir hrossaræktendur. Það verður rafrænt skýrsluhald um alla nýja þætti, sem vísindin færa okkur í hendur, gegnsætt og opið öllum, sem vilja nota það.

Þessar hugmyndir sem hér hafa verið nefndar eru úr ýmsum áttum, gamlar og nýjar, sumt af þessu er á lokastigi og annað er ekki hafið enn. Samanlagt stöndum við á þröskuldi nýrrar aldar í ræktun íslenzka hestsins og eigum að stíga skrefið inn í framtíðina. Snaraukin áhersla á rannsóknir, menntun og þróun keppnismennskunnar mun lyfta okkur í hæstu hæðir í faglegum vinnubrögðum og efla markaðsstöðu íslenzka hestsins.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl. 2004