Hestar

Á þröskuldi nýrrar aldar

Hestar

Viðtal Eiðfaxa við Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunaut:

Regnhlífarsamtök atvinnumanna

Til þess að stuðla að framförum í hrossarækt og á öðrum sviðum hestamennsku verðum við að starfa meira saman en við gerum. Við þurfum til dæmis að mynda öflugri heildarsamtök, annars vegar regnhlíf fyrir atvinnumennskuna og hins vegar regnhlíf fyrir hestamennskuna í heild.

Ég sé fyrir mér hliðstæða þróun og orðið hefur í málum bílsins. Þar hefur myndazt öflugt bílgreinasamband, sem nær yfir ýmsa hópa atvinnumanna og fyrirtækja á því sviði. Það hefur svo samstarf í ýmsum málum við félag bifreiðaeigenda, sem er eins konar neytenda- eða áhugamannafélag.

Annars vegar er nauðsynlegt, að atvinnumenn í samtökum hrossaræktar og tamninga og á fleiri sviðum, svo sem í hestatengdri ferðaþjónustu, stofni heildarsamtök atvinnumanna eða félaga atvinnumanna, atvinnuvegarins í heild. Hins vegar er brýnt, að slík samtök atvinnuvegarins efli samstarf við Landssamband hestamannafélaga sem heildarsamtök áhugamanna.

Þannig er byggt á því félagsformi, sem fyrir er, en félagslega aflið fært út í nýjar víddir. Þannig styrkist hestamennskan í landinu til að takast á við ný verkefni, sem farin eru að banka á dyr. Æskilegt er, að frumkvæði í þessum efnum komi frá þeim, sem eru í forustu hinna ýmsu samtaka og félaga hestamanna.

Knapamerkin á miðri leið

Með knapamerkjakerfinu erum við komin hálfa leið í kennslumálum hestamanna. Við þurfum að vista kerfið til frambúðar á einum stað. Mér finnst eðlilegast, að það verði við Hólaskóla, þar sem ráðinn verði starfsmaður til að halda utan um kerfið og þróa það áfram.

Námsefnið er til, en nú þarf m.a. að útbúa leiðbeiningar fyrir kennara. Heppilegt er, að það gerist á Hólum, þar sem er verið að kenna væntanlegum kennurum í greininni. Verið er að ræða, hvernig staðið verði að þessu. Ég vona, að þetta komist á koppinn sem allra fyrst. Mestu máli skiptir, að vel takist til að finna rétta manninn í starfið.

Kennslumál eru eitt mikilvægasta markaðsmál hestamennskunnar um þessar mundir. Við þurfum að koma kennslu í hestamennsku inn í öll stig skólakerfisins, grunnskóla og framhaldsskóla. Til þess vantar kennara, sem kunna að útfæra knapamerkjakerfið. Reiðhallir og reiðskemmur eru mikilvægur þáttur þessa starfs, en þær eru enn af skornum skammti í sumum landshlutum.

Við höfum fyrirmynd í tónlistarnáminu. Það er rekið í misjafnlega nánu samstarfi sveitarfélaga og foreldra. Kostnaði er skipt með ýmsum hætti, en yfirleitt er boðið upp á lánuð hljóðfæri. Finna þarf leiðir til að fjármagna hliðstæðan stofnkostnað hesta og reiðtygja í reiðmennskunámi.

Kennslukerfi hestamennskunnar þarf að geta lánað kennsluhesta á öllum stigum skólakerfisins. Þetta þurfa að vera rólegir og taugasterkir hestar sem kunna það sem ætlunin er að kenna nemendunum. Ég sé fyrir mér hesta, sem beinlínis séu tamdir til að þjóna þessu hlutverki og séu mikið tamdir.

Þannig er hægt að gefa börnum og unglingum færi á að kynnast hestamennsku og taka áfanga eða stig í skólakerfinu án þess að þurfa að fjárfesta í hestum og þeim búnaði, sem fylgir þeim.

Knapamerkin eru útflutningsvara

Knapamerkjakerfið er orðið útflutningsvara. Í bandaríska félaginu fyrir eigendur íslenzkra hesta er mikill áhugi á að flytja kerfið inn í heilu lagi. Í sumum öðrum löndum eins og Þýzkalandi er til þróað kennsluefni, svo að þau þurfa síður á knapamerkjakerfinu að halda. Önnur lönd eru einhvers staðar þarna á milli.

Það skiptir máli fyrir útbreiðslu íslenzkra hesta um heiminn, að hér á landi hafi verið þróað nothæft kennslukerfi, sem hentar öllum aldursflokkum og er sem valgrein hluti hins almenna skólakerfis. Þeir, sem áhuga hafa í öðrum löndum, geta þá gengið að þessu kerfi og notað það eða hluta þess til að þróa rétta umgengni við íslenzka hestinn.

Þess vegna þarf að þýða og staðfæra íslenzka knapamerkjakerfið á erlend tungumál og erlendar aðstæður, fyrst á ensku fyrir Bandaríkjamarkað. Þetta á að vera eitt af fyrstu verkefnum hins fyrirhugaða umsjónarmanns þess á Hólum í Hjaltadal.

Ennfremur þarf að mynda sjóð til að styrkja og hvetja fólk til æðri menntunar í hestafræðum til að sinna í framtíðinni rannsóknum og æðri kennslu í hestafræðum. Þetta getur verið á ýmsum sviðum, svo sem í reiðmennsku, kynbótum, dýralækningum og fleiru. Við finnum verulega fyrir skorti á vísindamönnum

Setjum upp Íslensku mótaröðina

Keppnin er mikill þáttur í lífi margra atvinnumanna, sem byggja afkomu sína á hestum. Þeir verja miklum tíma í keppni, án þess að hún gefi neitt að ráði af sér, annað en frægðina, sem getur auðvitað nýtzt með óbeinum hætti. Við þurfum að finna leið til að koma meiri peningum inn í keppni atvinnumanna.

Við þurfum að skilja betur milli frjálslegrar keppni áhugafólks í léttum uppákomum annars vegar og hins vegar staðlaðrar keppni atvinnumanna. Ég tel heppilegt, að fyrirtækið Landsmót ehf hafi frumkvæði að staðlaðri mótaröð atvinnumanna, Íslensku mótaröðinni, fyrir landið í heild, t.d. fimm mótum á hverri vertíð. Þetta væri útvíkkun á starfi Landsmóts ehf, eins konar aukabúgrein. Hún gæti um leið verið eins konar úrtaka fyrir landsmót, a.m.k. að stórum hluta, áfram væru einhverjir hestar valdir á félagslegum grunni.

Búnaður og aðstaða, svo sem tölvukerfi, startbásar og tímataka, þarf að vera fyrsta flokks í mótaröðinni, svo og fyrsta flokks atvinnudómarar á öllum sviðum, í kappreiðum, í gæðingakeppni og í íþróttakeppni.

Þarna mætti hugsa sér að endurvekja gömlu sígildu hugmyndina um veðbankastarfsemi í kringum kappreiðar en ég held að það megi stækka þá hugmynd verulega. Erlendis hefur náðst mikill árangur í svonefndu “Breeders’ Trophy” kerfi fyrir önnur hestakyn og tilraunir hafa verið gerðar með það fyrir íslenzka hesta í Svíþjóð. Í þessu kerfi skráir ræktandi stóðhest gegn ákveðnu gjaldi sem gerir afkvæmi hestsins gjaldgeng í ákveðinni keppni síðar meir þar sem hefur þá myndast ákveðinn vinningspottur en í hann kemur líka veðmálafé frá almenningi.

Veðmálin standi alla vertíðina

Ég sé fyrir mér veðbanka um mótaröðina á Íslandi. Síðar mætti jafnvel hugsa sér að komið yrði á fót veðbanka um alþjóðlega mótaröð, sem jafnframt gæti virkað að hluta sem úrtaka fyrir heimsleika eins og íslenzka mótaröðin getur þjónað að hluta til sem úrtaka fyrir landsmót. Það kæmi mér nefnilega ekki á óvart þótt þessi landakeppni sem nú þykir sjálfsögð breytist meira yfir í keppni milli einstaklinga eftir því sem landamæri verða ógreinilegri og alþjóðleg hugsun festir betur rætur en það er annað mál.

Veðbankinn yrði studdur töflum, tölfræði og öðrum upplýsingum úr Mótafeng, svo að veðjarar geti haft svipaðar upplýsingar í höndunum og þeir hafa nú í veðmálum vegna kappreiða erlendis.

Lykillinn að árangri er að láta veðmálin snúast um fleira en skeiðið eitt. Erfitt er að halda uppi spennu í keppni, sem tekur aðeins 13-24 sekúndur, í samanburði við tveggja mínútna spretthlaup veðhlaupahesta af erlendum kynjum. Við getum náð spennunni inn með því að láta hana ná yfir heila mótaröð, heilt keppnistímabil.

Skeiðvakningin er svo hluti af þessu ævintýri. Ég tel, að þessi hugmyndafræði feli í sér mikla möguleika fyrir Landsmót ehf, sem er sameiginlegt fyrirtæki hestamennskunnar í landinu.

Hinn fjölhæfi Íslandshestur

Við sækjumst eftir fjölhæfum hesti, sem getur tekið þátt í fjölbreyttum tegundum af keppni á ýmsum gangtegundum, sem getur ferðast með reiðmann um fjöll og firnindi og verið gleðigjafi í hefðbundnum útreiðum.

Ferðalög á hestum eru vaxandi þáttur í atvinnumennskunni og áhugamennskunni. Ekki hefur verið hugsað nógu vel um þann þátt í ræktuninni, né heldur um almennar útreiðar frá hesthúsi eða haga. Huga þarf að rannsóknum til að finna út, hvernig er hægt að haga ræktuninni með tilliti til þessara sjónarmiða ferðamennskunnar, sem hafa á vissan hátt orðið útundan.

Mælum þol, mýkt, kjark og taugastyrk

Með auknum rannsóknum fáum við upplýsingar um eiginleika, sem eru gagnlegir á þessum sviðum og fleirum. Við verðum að finna nýja þætti í heildarmynd hestsins. Ókannaðir eða of lítið kannaðir eiginleikar þurfa smám saman að verða þáttur í ræktunartakmarki fyrir íslenzka hestinn.

Við þurfum til dæmis að skilgreina eiginleika, sem koma að gagni í ferðum. Það geta verið þol, fótvissa, mýkt, kjarkur og taugastyrkur. Í sumum tilvikum eru til aðferðir til mælinga eða vísir að þeirri tækni.

Við getum til dæmis mælt hjartsláttarbreytingar við langvinnt erfiði til að meta þolið. Við getum hugsað okkur mælingar á hristingi hnakkstæðis á hesti á tölti til að meta þýðleikann. Einnig getum við kortlagt kjark og taugastyrk hesta betur en við höfum hingað til gert.

Vantar meira um heilbrigði

Okkur vantar líka betri innsýn í heilbrigði hesta, þar á meðal þætti eins og sumarexem, spatt, endingu og frjósemi. Við erum komnir af stað á sumum þessum sviðum.

Við vonum, að rannsóknir á sumarexemi leiði til þess, að bólustetning verði möguleg og helst að áhættuþættir finnist þannig að við getum ræktað viðkvæmni fyrir sumarexemi úr stofninum í ekki allt of fjarlægri framtíð.

Spattrannsóknir eru lengra á veg komnar. Við vitum, að stóðhestar arfleiða afkomendur að spatti í misjöfnum mæli. Við getum því ræktað þann ókost úr stofninum með markvissum vinnubrögðum yfir lengri tíma ef við bara förum í það. Nú í sumar verður haldin hér á landi mikil ráðstefna helstu sérfræðinga á þessu sviði þar sem þessi mál verða krufin til mergjar en þar ætti að koma fram hvaða ræktunarleiðir eru raunhæfar í þessum tilgangi.

Þess er vonandi ekki langt að bíða, að við getum sett dálk um frjósemi eða fyljunarprósentu stóðhesta í kynbótamatið. Ég held að slíkt sé bezta leiðin til að ná árangri, betri en boð og bönn. Staðreyndir málsins verða öllum sýnilegar og hver ræktandi fyrir sig getur notfært sér þær, ef hann kærir sig um.

Menn sjá þá, hvaða áhættu þeir taka, ef þeir velja stóðhest, sem annað hvort hefur tilhneigingu til að gefa spatt eða tilhneigingu til að gefa lága fyljunarprósentu.

Fjölbreytt innihald kynbótamats

Allar mælanlegar upplýsingar um heilbrigði stóðhesta eiga erindi inn í þau gögn, sem hestamenn hafa við hendina, þegar þeir taka ákvörðun á borð við val á stóðhesti. Ekki er rúm fyrir nein leyndarmál í þeim efnum. Allar upplýsingar um hestinn eiga að vera gegnsæjar.

Suma þessa þætti væri gott að vigta inn í heildareinkunn í kynbótamati eins og fet og faxprýði hafa verið vigtuð inn í kynbótadóma. Aðrir þættir fengju bara sjálfstæða dálka án þess að vera vigtaðir inn í heildareinkunnina eins og hægt stökk er skráð sér í kynbótadómum án þess að vera vigtað sérstaklega inn í aðaleinkunn.

Ég tel ekki ástæðu til að víkka út kynbótadómana sem slíka. Mér finnst eðlilegt að þeir mæli atriði, sem koma fram á sýningum, en ekki önnur. Kynbótamatið getur hins vegar tekið inn ótal atriði, sem eru mæld á annan hátt og við aðrar aðstæður, og vigtað þau síðan inn í heildartölur kynbótamats, ef mönnum finnst þau skipta nógu miklu máli.

Rannsóknir og meiri rannsóknir

Fagráð í hrossarækt er sá aðili, sem tekur ákvarðanir um nýja þætti í kynbótamati og hvort þeir skuli vigtaðir inn í heildarmyndina. Ég tel, að þetta hlutverk verði sífellt mikilvægara eftir því sem fleiri rannsóknir koma til sögunnar og veita okkur nýja sýn á stöðu mála.

Fleiri aðilar koma að slíkum ákvörðunum, svo sem FEIF, alþjóðasamband íslenzka hestsins og kynbótanefnd þess, enda mkilvægt að allt þetta ferli sé vel viðrað á öllum stigum þess.

Mín skoðun er ljós. Við þurfum meiri rannsóknir og ennþá meiri rannsóknir og nota þær til að bæta upplýsingagrunninn þ.m.t. kynbótamatið. Við vitum allt of lítið um þætti tengda fóðrun og þjálfun íslenska hestsins en ég bind þó miklar vonir við rannsóknaátak það sem nú er verið að ýta af stað í samvinnu fagráðs í hrossarækt og Hólaskóla.

Prófíll að geðslagi hrossa

Okkur vantar nýja sýn á geðslag hesta, ekki eins og það kemur fram hjá úrvals knapa á sýningu, heldur eins og það kemur fram í daglegri umgengni. Geðslag er margbrotið. Því þarf að reyna að sundurgreina það í þætti.

Nota má þriggja stiga prófíla á borð við ljúfur-meðal-harður, kjarkaður-meðal-kjarklaus, glaður-meðal-fúll, daufur-meðal-ör. Með stöðluðum vinnubrögðum má finna prófíl af geðslagi hvers hests.

Verið er að prófa þetta við staðlaðar aðstæður á hrossum, sem nemar frá Hólaskóla hafa tamið á verknámsbýlum í 2-3 mánuði. Eftirlitsdómari kemur á staðinn og tekur hestinn út. Þetta minnir að nokkru á gömlu afkvæmaprófanirnar, en er ekki framkvæmt á einum stað, heldur á verknámsbúum víðs vegar um landið.

Ef vel gengur verður til úr þessu starfi einfalt kerfi sem þó lýsir geðslagi hvers hests vel. Hugsa mætti sér að útvíkka þetta kerfi til allra stærri tamningastöðva um landið og það yrði hluti af starfi héraðsráðunauta í hrossarækt að vera samræmingaraðilar og safna inn þessum upplýsingum. Það sem er styrkleiki kerfisins er að það er tiltölulega laust við skalaáhrif og því á að nást gott samræmi milli tamningastöðva.

Þetta felur í sér byltingu í mati á geðslagi á afkvæmum stóðhesta. Niðurstöður margra afkvæma hvers stóðhests gefa meðaltalstölur, sem sýna má sem punkta í tvívíðri eða þrívíðri mynd. Síðan má raða mörgum stóðhestum inn í þessa mynd og sjá myndrænt, hvers konar geðslagt líklegt er, að þeir gefi af sér.

Slíkar myndir munu hrossaræktendur geta notað, ef þeir sækjast meira eftir ákveðnum þáttum en öðrum í geðslagi hrossa sinna. Sumir munu kjósa fremur ör keppnishross, en aðrir fremur ljúflinga.

Athugasemdir fari í kynbótamatið

Um árabil hefur verið notað staðlað form til að skrá athugasemdir dómara á kynbótasýningum. Á þessum tíma hefur myndast mikið safn staðlaðra upplýsinga, sem þegar er orðið nothæft um stóðhesta, sem hafa t.a.m. 20 eða fleiri dæmd afkvæmi.

Þótt tvö afkvæmi hafi sömu einkunn fyrir ákveðinn eiginleika, getur einkunnin verið byggð upp af mismunandi þáttum. Þetta stafar af því að hver einkunn nær yfir safn af eiginleikum. Athugasemdirnar gera kleift að greina þetta sundur, skoða niður í kjölinn, hvað er á bak við einkunnina.

Til að útskýra notagildi þessa getum við tekið dæmi um afburðastóðhestinn Orra frá Þúfu. Orri liggur fremur lágt í kynbótamati fyrir réttleika fóta en hvað skyldi einkenna þennan eiginleika hjá afkvæmum hans. Með tölulegri meðferð athugasemdanna má meðal annars sjá, að afkvæmi Orra eru að meðaltali töluvert nágengari að aftan en afkvæmi flestra annarra þekktra stóðhesta. Þessar upplýsingar eru gagnlegar þegar kemur að pörun en óráðlegt væri að leiða áberandi nágengar hryssur undir Orra.

Aðalatriðið er, að töluleg meðferð athugasemdanna dregur upp nákvæmari mynd af hverjum eiginleika fyrir sig og hjálpar ræktendum að læra á stóðhestana ef svo má segja.

Mótafengur sýnir árangur afkomenda

Íslenska mótaröðin, sem nauðsynlegt er að koma á laggirnar, á að gefa staðlaðar upplýsingar í Móta-Feng, sem væntanlega kemst almennilega í gang í sumar. Fljótlega eiga að koma úr honum upplýsingar um, hversu mörgum hrossum hver stóðhestur skilar inn í keppni, burtséð frá árangri í keppni.

Eftir því sem upplýsingarnar hlaðast upp er hægt að sjá, hversu mörgum hrossum hver stóðhestur skilar inn í hverja tegund keppni. Er hann til dæmis að gefa af sér keppnishesta í 250 metra skeiði, eða er hann að gefa af sér töltkeppnishesta.

Úr þessu kemur eins konar kynbótamat hvers stóðhests fyrir ýmsar tegundir af keppni. Þess er væntanlega ekki langt að bíða, að hrossaræktendur, sem vilja rækta keppnishross, geti notað slíkar upplýsingar úr Móta-Feng.

Línur og horn spá um framtíðina

Almennt má segja, að æskilegt sé að breyta huglægu mati sem mest í hlutlægt með því að taka upp kerfisbundnar mælingar á mörgum sviðum. Við getum t.a.m. gert tilraunir með að mæla takt í gangi og þýðleika, skreflengd og fótlyftu, svif og hraða. Þá getum við mælt þátttöku og árangur í keppni eins og áður hefur komið fram.

Gera þarf tilraunir með líkamsmælingar á trippum, þar sem mæld eru horn og lengdir. Með því að fylgjast með þessum hrossum á lífsleiðinni, má sjá samhengi milli líkamsbyggingar og árangurs hrossanna á ýmsum sviðum, svo sem í keppni.

Þegar upplýsingasafnið er orðið nógu mikið, má leiða tölfræðilegar líkur að því, að ákveðnir þættir í líkamsgerð trippa kalli fram ákveðna eiginleika á fullorðinsárum, til dæmis í ganglagi, sem hrossaræktendur sækjast eftir. Þetta á að geta auðveldað þeim að velja unghross til tamningar.

Stórátak í erfðagreiningu

Ég vil, að gert sé átak í skipulegri ætternisgreiningu hrossastofnsins með DNA-rannsóknum á lífsýnum úr hrossum. Þetta er svo brýnt atriði fyrir hrossaræktina, að mér finnst einboðið að afla sem mestra upplýsinga á stuttum tíma í einföldu átaki. Ég tel, að leggja megi til fé úr m.a. stofnverndarsjóði til þess að koma verkefninu almennilega af stað.

Byrja má á því markmiði, að DNA-ætternisgreina öll hross sem koma til kynbótadóms á næsta ári. Síðan þarf að stefna að því, að öll hross í ræktun verði ætternisgreind. Þetta eru um 4000-5000 folöld, sem bætast í Feng á hverju ári.

Kostnaður við þetta getur numið um 6-10 milljónum króna á ári. Til að byrja með er rétt að greiða þetta úr sjóði til að koma verkefninu af stað, en síðar verður kostnaðurinn að leggjast á eigendur hrossanna.

Við stöndum andspænis byltingu

Ég tel að við stöndum andspænis byltingu í hrossaskráningu á Íslandi. Jarðvegurinn er tilbúinn fyrir hana. Við slíka skráningu yrði allt gert í einu til að spara kostnað: Almenn skráning og merking hrossa, svo og ætternisgreining. Ennfremur hestapassi, þar sem það á við.

Þetta eykur trúverðugleika íslenzka hrossastofnsins, enda er þegar gerð krafa um þetta um allan heim að því er varðar stóðhesta. Ætternisgreiningin er einfalt mál í sjálfu sér en framtíðarmúsíkin er svo almenn erfðagreining þ.e. kortlagning eiginleikanna sem einkenna íslenska hestinn. Þar mætti byrja á tiltölulega einföldum þáttum eins og litaarfgerðum enda hafa nú þegar mörg litagena hestsins verið staðsett. Notendur stóðhesta hafa margir hverjir efalaust áhuga á að vita fyrirfram hvaða litaarfgerðum þessi eða hinn stóðhesturinn býr yfir. Síðan má hugsa sér að víkka þetta út og hefja metnaðarfulla leit að mikilvægum genahópum fyrir tölt og skeið. Þar erum við að ræða um tímafrekar og dýrar rannsóknir eins og staðan er í dag en við megum ekki gleyma því að við höfum þegar öflug fyrirtæki á þessu sviði hér á landi. Möguleikarnir eru fyrir hendi og markmiðið er að kortleggja erfðaþætti íslenzka hestastofnsins.

Úrval í lokuðu kerfi

Úrvalið í hrossastofninum hér á landi fer fram í lokuðu umhverfi. Harðari ræktun hefur leitt til fækkunar forfeðra stofnsins. Til dæmis má nefna, að Hrafn frá Holtsmúla á 10% í stofninum eins og hann er núna.

Smám saman leiðir þetta til minni úrvalsmöguleika, minni fjölbreytni og hugsanlegs brottfalls eiginleika, sem geta reynzt mikilvægir í framtíðinni. Eindregin notkun á tiltölulega fáum tízkustóðhestum stuðlar að þessari breytingu.

Á sama tíma hafa ræktunarhross verið flutt úr landi í stórum stíl síðustu áratugi. Flæði erfðaefnis er bara í aðra áttina, úr landi, en ekki til landsins. Það þýðir, að erlendis kunna að koma upp innan tíðar kynbótagripir sem við þyrftum nauðsynlega að hafa aðgang.

Innflutningur á fósturvísum

Af þessari ástæðu er orðið tímabært fyrir okkur að undirbúa innflutning á erfðaefni, sæði eða fósturvísum úr erlendum toppkynbótagripum af hreinu íslensku kyni. Markmiðið er að tryggja að í upprunalandi íslenzka hestins sé ávallt uppspretta beztu fáanlegu einkenna í hrossastofninum.

Þetta er ekki bara mikilvægt fyrir Íslendinga sem samkeppnisaðila í ræktun íslenzka hestsins, heldur fyrir allan heim eigenda íslenzkra hesta. Því breiðari stoðum, sem skotið er undir ræktunina í upprunalandinu, því meiri verður ávinningur allra, sem koma að íslenzkum hestum á einn eða annan hátt.

Líklega er eðlilegast að félag hrossabænda setji á flot prófmál á þessu sviði til að ryðja því braut gegnum kerfið. Fara verður fram áhættumat á þessum innflutningi erfðaefnis, sem á sér forsendur á öðrum sviðum landbúnaðar. Slíkt ferli getur tekið nokkurn tíma, svo að brýnt er að hefjast handa sem fyrst.

Jafnframt tel ég, að byggja eigi erfðafjölbreytileika inn í kynbótamatið. Þannig verði þeim hrossum sem á hverjum tíma eru minna skyld hinum virka ræktunarstofni hampað hlutfallslega meira í kynbótamatinu. Þetta er alþekkt aðferð í búfjárrækt um allan heim og virkar einfaldlega þannig að af annars jöfnum hrossum í kynbótamatinu raðast þau efst sem minnst eru skyld stofninum á hverjum tíma.

Ljúka þarf rannsókn, sem lengi hefur staðið yfir og er langt komin á Keldum, þar sem fjölbreytileiki íslenskra hrossa er metinn í DNA-rannsókn. Úr rannsókninni má finna, hvort til séu sérstakir hópar hrossa, eins konar “stofnar”, sem kallaðir voru í gamla daga, þegar menn töluðu um Austanvatnahross, Hornfirðinga, Hindisvíkinga og svo framvegis. Markmiðið er að finna, hvort marktækur munur sé á erfðaefni slíkra hópa.

Í hæstu hæðir

Þegar allir þessir þættir, sem ég hef nefnt, eru komnir inn í gagnabankann og kynbótamatið, höfum við miklu öflugri tæki fyrir hrossaræktendur. Það verður rafrænt skýrsluhald um alla nýja þætti, sem vísindin færa okkur í hendur, gegnsætt og opið öllum, sem vilja nota það.

Þessar hugmyndir sem hér hafa verið nefndar eru úr ýmsum áttum, gamlar og nýjar, sumt af þessu er á lokastigi og annað er ekki hafið enn. Samanlagt stöndum við á þröskuldi nýrrar aldar í ræktun íslenzka hestsins og eigum að stíga skrefið inn í framtíðina. Snaraukin áhersla á rannsóknir, menntun og þróun keppnismennskunnar mun lyfta okkur í hæstu hæðir í faglegum vinnubrögðum og efla markaðsstöðu íslenzka hestsins.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl. 2004

Hestaráðstefna

Hestar

10. desember 1999 var undirritaður samningur milli ríkis og hestmanna um stofnun Hestamiðstöðvar Íslands og svo Átaksverkefni í hrossarækt og hestamennski. Samningurinn fól í sér að ríkið styrkti Átaksverkefnið um 15 milljónir á ári í 5 ár og Hestamiðstöð Íslands 25 milljónir á hverju ári auk þess sem sveitafélagið í Skagafirði lagði út 15 milljónir á ári.

Á dögunum hélt Landbúnaðarráðuneytið ráðstefnu um framfarir og þróun í hrossarækt og hestamennsku. Var tilgangurinn að kynna þessi verkefni og hvað þeim hefur áorkað þar sem samningnum er að ljúka í árslok.

Reiknaði ekki þessum árangri

Guðni Ágústson, Landbúaðarráðherra

Mér hefur fundist hestamennskan hafa vaxið og dafnað vel síðastliðin ár. Ég sé það greinilega út um gluggan minn við Ölfusána þegar stóru jepparnir fara hjá hver á eftir öðrum með hestakerrur í eftirdragi sem einna helst minna á hesthús. Ég sé það einnig á þeim fjölda hestamiðtöðva og reiðhalla sem rísa út um allt. Ég þakka hestamönnum drifkraftinn sem þeir hafa sýnt í verki með stuðningi sínum við þessi verkefni. Ég reiknaði ekki með því að þessir peningar sem færu í þetta myndu nýtast svona vel eins og raun ber vitni.

Ný staða Hestafulltrúa?

Sveinbjörn Eyjólfsson, stjórnarformaður Hestamiðstöðvar Íslands:

Upphafið að þessu átaki var í rauninni 1998 þegar hugmyndin fæddist. 1999 var svo undirritaður samning milli ríkisins og sveitafélagsins til fimm ára.

Verkefnið var hugsað sem byggðartengt átaksverkefni sem átti að efla starfsemi tengda hestinum, ekki endilega bara í Skagafirði heldur einnig á landinu öllu. Það var nokkuð gott að selja framámönnum hugmyndina að HMÍ enda góð hugmynd þar á ferð.

Ef það er eitthvað sem mér finnst við hafa staðið okkur verst í voru kynningarmál. Annars hefur þetta gengið vonum framar. Það sem ég sé fyrir mér koma í kjölfar Hestamiðstöðvarinnar er nýtt stöðugildi sem myndi kallast Hestafulltrúi. Starf hans gæti byggst á samstarfi við Flugu, félagið sem á og rekur reiðhöllina á Svaðastöðum, hesthús og sýningar tengdar Flugu, Vindheimamelar, ýmis þróunar og markaðsverkefni í sambandi við hestinn, ráðgjöf og verkefnastjórn fyrir hið opinbera í ákveðnum málum og svo sértæk verkefni fyrir félagasamtök. Þessi staða væri kannski ekki ósvipuð stöðu ferðamálafulltrúa sem eru víðsvegar um land. Það ætti að skoða þetta sem hugsanlegt samstarf milli ríkis og sveitafélags. Þetta starf yrði mun umfangsminna en HMÍ. Ef það reyndist vel væri svo hugsanlega hægt að keyra það einnig í öðrum landshlutum.

Margt sem var gert

Ingimar Ingimarsson, framkvæmdarstjóri HMÍ:

Í flestum tilfellum hefur HMÍ ekki átt beinan þátt í verkefnunum heldur aðallega lagt til fjarmagn. Það sem var meðal annars lagt upp með var heimasíða, veftímarit og/eða spjallrás. Í árslok 2000 keypti HMÍ í Eiðfaxi.net fyrir um fimm miljónir. Síðan skráði HMÍ sig fyrir hlutafé í Eiðfaxa ehf. fyrir 9 milljónir.

Annað verk sem lagt var upp með var að koma á laggirnar miðlægum gagnabanka sem tæki yfir nánast allt sem kæmi íslenska hestinum við. 2002 var svo stofnað Sögusetur íslenska hestsins en það heldur utan um og rekur slíkan gagnabanka auk þess sem það sér um að safna inn upplýsingum.

MótaFengurKappi var annað stórt samstarfsverkefni HMÍ og LH. MótaFengurKappi er skráningar og reikniforrit til notkunar á hestamótum. Reiknað er svo með því að gagnabanki verði til út frá þessu forriti sem fer svo inn í WorldFeng. MótaFengurKappi nýtir sér einnig WorldFeng við skráningu hrossa.

Svo voru það markmið sem við lögðum upp með sem lúta að menningu hestamanna. Í því sambandi má nefna ráðstefnu sem HMÍ stóð fyrir um hestinn og hlutverk hans í menningu þjóðarinnar. Í vinnslu er svo bók sem Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson ritstýra. Vinnuheiti hennar er Heimur íslenska hestsins. Þessi bók á að taka yfir sögu hestsins frá upphafi í máli og myndum. HMÍ er meðútgefandi bókarinnar.

Í markmiðum okkar var svo einnig talað um að koma á námi í hestamennsku við Fjölbrautaskóla Norðurlandsvestra. Var það gert í samstarfi við Átaksverkefnið í hrossarækt og hestamennsku. Við prufukeyrðum stigskipta reiðnámið sem Átaksverkefnið kom af stað. Það gekk vel og fékkst dýrmæt reynsla sem nýttist svo í að móta námsefnið frekar.

Við komum svo að var gæðaátak hjá hrossaræktarbúum. Það var samstarfsverkefni við Hólaskóla. Markmiðið var að auka gæði og hagkvæmni hrossabúskapsins. 11 bú tóku þátt í þessu verkefni og er það núna fullum gangi.

Gæði í hestatengdri ferðaþjónustu var verkefni sem við unnum með Hólaskóla og Samtaka ferðaþjónustunnar. Þetta verkefni er einnig enn þá í gangi. Markmiðið verkefnisins er að þróa gæða vinnu og gæða vitund í greininni.

Reiðmennska og reiðþjálfun fattlaðra var inn í markmiðum okkar. Tókum við upp samstarf við Íþróttasamband fattlaðra í þessu máli. Við fengum til liðs við okkur erlenda kennara sem komu hingað til lands og héldu tvö námskeið. Við veittum svo tvo námsstyrki til tveggja reiðkennara sem fóru erlendis til þess að mennta sig sérstaklega í þessum fræðum.

Það var getið um Laufskálarétt í viðskiptaáætlun til frekari þróunar. HMÍ beitti sér fyrir því að stóðréttardagar á norðurlandi vestra voru samræmdir. Í kringum Laufskálarétt hefur svo verið komið á laggirnar sölusýningu og uppskeruhátíð Skagfirðinga. Það má svo ekki gleyma réttarballinu sjálfu þar sem síðast mættu um 2000 manns.

HMÍ keypti sýningarréttinn að ,,Til fundar við hestinn” af Hestasporti ehf. Árið 2003 var svo stofnað Íslenskar hestasýningar ehf. sem hefur það að markmiði að halda úti og þróa frekar hestasýningar fyrir ferðamenn. Samstarf er við Varmalæk og Flugu hf. um framkvæmd sýninganna. Þessar sýningar eru stuttar og markvissar kynning á hestinum, kostum hans og sögu.

Við héldum vel sótt málþing um reiðvegi á Hólum 2001 og heppnaðist það ágætlega.

Í burðarliðnum er átaksverkefni Hólaskóla og Fagráðs í hrossarækt sem er hugsað til eflingar rannsókna, þekkingar og fræðastarfs í greininni. HMÍ styður það verkefni.

HMÍ kom að stofnun Umboðsmanns íslenska hestsins með fjárstuðningi. Honum er ætlað að kynna og markaðssetja íslenska hestinn erlendis eins og flestir vita.

Það er í undirbúningi að endurvinna kynningar- og fræðsluefni sem mun nýtast á sýningum og kynningum hér á landi og erlendis. Það er jafnframt verið að hugsa um að gera handbók sem mun fylgja með hverjum seldum hesti. Það verkefni er mjög spennandi og mun vonandi sjá dagsins ljós á þessu ári.

Íslensk hrossakynning ehf. var til fyrir lífdaga HMÍ en HMÍ keypti 40% hlut fyrirtækinu. Fyrirtækið hýsir heimasíður hrossaræktenda og tengda starfsemi. Vonin er að þetta verði upplýsingaveita fyrir hestatengda starfsemi í Skagafirði.

Reiðhöllin Svaðastöðum var stofnuð 1. júlí 2000. HMÍ var stofn hluthafi og á í dag 40 milljónir í hlutafé. Reiðhöllin hefur að mínu mati lyft grettistaki fyrir hestamennskuna i Skagafirði.

Þetta er bara hluti þeirra verkefna sem við komum að sem ég tek hérna til. Þetta eru kannski þau viðamestu en við tókum þátt í nokkuð mörg minni verkefnum.

Saga íslenska hestsins vistuð

Björn Kristjánsson, forstöðumaður Söguseturs ísl. hestsins á Hólum:

Saga íslenska hestsins er samofin sögu þjóðarinnar og er hann einn af þeim þáttum sem gerðu það mögulegt að búa á þessu landi. Hesturinn hefur skipað stóran sess í menningu landsins og er þar um merkilegan arf að ræða sem vert er að sitja vörð um.

Markmið Sögusetursins er að vera alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um sögu íslenska hestsins.

Helstu verkefnin hafa verið til að byrja með að vinna að rannsóknum og athugun á sögu íslenska hestsins í þeim tilgangi að skapa íslenska hestinum veglegt heimildarsafn um sögu hans. Sögusetrið mun búa til og vista gagnagrunn um minjar og aðrar heimildir.

Sögusetrinu er ætlað að standa fyrir sýningum innanlands og utan sem varpa ljósi á sögu hestsins. Við stöndum svo fyrir málþingum, fyrirlestrum og námskeiðum sem varða sögu hestsins.

Við erum með vefsíðu, sogusetur.is. Þar er að finna margvíslegan fróðleik um íslenska hestinn og sögu hans.

Svo komum við að fleiri verkefnum t.d bókina um sögu íslenska hestsins sem Gísli B. Björnsson og fleiri eru að vinna að, námskeiðið um sögu hestsins í samstarfi við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands o.fl.

Helsta markmið Sögusetursins er að koma upp sérhæfðir sýningar og rannsóknar aðstöðu á Hólum. Það verður ekki fyrr en sú aðstaða verður komin upp að unnt verður að sinna mjög mörgum mikilvægum verkefnum sem t.d. er varða kynningu á íslenska hestinum og hestamennsku til skólafólks og annarra áhugamanna.

Hafði góð áhrif á Skagafjörð

Árni Gunnarsson, framkvæmdarstj. Leiðbeiningarmiðstöðvarinnar ehf. á Sauðárkróki:

Hestamiðstöð Íslands er eitthvað sem styrkir ekki bara hestamennskuna heldu einnig ímynd byggðarlags, skapar sóknartækifæri til atvinnu.

Það sjást mjög greinileg áhrif Hestamiðstöðvarinnar á Skagfjörð. Má þar nefna undirstöðuna sem var að stofna og byggja reiðhöllina á Svaðastöðum. Það hefur orðið gríðarleg aukning í námskeiðahaldi sem hefur skilað sér í miklum framförum í reiðmennsku. Samstarf við Hólaskóla hefur blómstrað og síðar við sögusetrið.

Laufskálarétt hefur vaxið og öðlast nýja vídd. Með því að spila saman réttinni, atburðum í reiðhöllinni og dansleik hefur tekist að búa til viðburð sem er að skila sér til byggðarinnar.

Verkefnið hefur undirstrikað og styrkt stöðu Skagafjarðar sem Mekka hestamennskunnar á Íslandi. Auk þess sem verkefnið hefur undirstrikað sérstöðu menningar og sögu sem tengist íslenska hestinum í Skagafirði.
Það sem hefði betur mátt fara voru kynningarmál og að skilgreina verkefnið betur. Aftur á móti var heilmargt sem fór vel sem ég ætla ekki að vera þylja upp frekar.

Framtíðin erfðatækni og veðbanki

Ágúst Sigurðsson, formaður verkefnisstjórnar Átaksverkefnis í hrossarækt og hestamennsku:

Þetta verkefni var sett á laggirnar á haustdögum 1999 og hljóðaði samningurinn til fimm ár. Frá byrjun ársins 2000 og út árið 2004. Landbúnaðarráðherra stóð að þessum samningi með félagsskap hestamanna, þ.e.a.s. Bændasamtökum Íslands, LH, FT og FHrB.

Markmið samningsins voru að auka fagmennsku í greininni, aðlaga stærð stofnsins að markaði, ræktunar- og landnýtingarmarkmiðum, styrkja félagslega samstöðu hestamanna og auka arðsemi í greininni.

Það má skipta þessum markmiðum í tvennt. Annars vegar opinber markmið, þar sem við beitum okkur fyrir lagabreytingu eða setningu reglugerða sem eru okkur til hagsbóta, efla nám í hestatengdum greinum og beita okkur fyrir því að afnema sem mest tolla og kvaðir sem hvíla á greininni þá sérstaklega með tilliti til útflutnings. Hins vegar er það skipulag félagskerfis hestamennskunnar. Það er hægt að skipta því markmiði í sex flokka: stefnumótun fyrir félagskerfið, upprunalandið, gæðastjórnun, reiðkennslustigum, kynningar- og markaðsaðstoð, átak og rannsóknir.

Einn starfsmaður hefur starfað fyrir verkefnið á tímabilinu eða um tveggja ára skeið. Hulda Gústafsdóttir vann að ákveðnum verkefnum og vann að stærstum hluta við að búa til og þróa knapamerkjakerfið.

Helstu atriðin sem við unnum að voru nokkur. WorldFengur, sem meginstarfið hefur snúist um og allt fjármagn fyrsta ársins fór í, var okkar stærsta verkefni. Hestavegabréf, eignahafskírteini og eignahaldssamningar áttu að stuðla að meiri fagmennsku í greininni. Það hefur verið eitt töluverðum tíma í stefnumótun félaganna, samstarfsfleti þeirra og hvernig við getum straumlínulagað okkar félagslegu kerfi. Við komum svo einnig að Landsmóti hestamanna ehf., Eiðfaxa ehf., knapamerkjakerfinu, endurskoðun mótakerfis og rannsóknum.

Varðandi þessi verkefni í smáatriðum og hvernig fjarmagnið hefur verið nýtt má lesa um það í árskýrslum sem gefnar hafa verið út og má meðal annars lesa í hrossaræktartímaritinu Frey.

Í fyrstu fóru allir okkar kraftar í WorldFeng. WorldFengur er upprunaættbók íslenska hestsins í miðlægur gagnagrunni. Hann auðveldar allt alþjóðlegt skýrslu hald og gæðastjórnun. Að mínu mati er þetta tæki sem skiptir okkur öllu máli sem forystuþjóð íslenska hestsins.

Hvað árangur varðar þá tel ég mikilvægt hvernig við höfum unnið okkar þann sess sem forystuþjóð íslenska hestsins. Það kemur kannski best fram í því að núna eru Þjóðverja búnir að ákveða að leggja niður sitt gamla dómakerfi. Í vor verða í Þýskalandi eingöngu sýningar eftir okkar staðli og þeim aðferðum sem við höfum lagt til. Það er fyrst og síðast í gegnum þetta átaksverkefni og WorldFeng sem þetta hefur orðið að veruleika.

Það sem ég sé í framtíðinni er að við þurfum að eyða meira púðri í rannsóknir á íslenska hestakyninu. Það þyrfti að kortleggja erfðaþætti hestsins. Það kostar peninga en það er hægt. Það er hlutur sem myndi lyfta okkur í hæðstu hæðir hvað varðar fagleg vinnubrögð. Við erum með gamlar aðferðir og þurfum við að finna upp nýjar. Hreinlega að leita uppi þá erfðaþætti sem valda breytileika í stofninum og nýta okkur þá það í ræktuninni.

Frekari þróun kennsluefnis er eitthvað sem við þurfum að huga að og er það stórmál að mínu mati. Þá er ég ekki bara að líta til Íslands heldur einnig til útlanda. Við þurfum að sinna þessum þörfum sem á okkur dynja. Veit ég t.d. að Ameríkanar vilja taka upp nýja knapamerkjakerfið okkar eins og það leggur sig.

Við þurfum að mennta fólk til þess að sinna rannsóknum og þess háttar. Við þurfum að stuðla að því að æðri menntun í hestafræðum verði að veruleika. Ég sé fyrir mér styrktarsjóð íslenska hestsins sem sér um að styrkja fólk til menntunar í þessum fræðum.

Hvað varðar WorldFeng þá getum við ekki hætt hér. Við verðum að þróa hann og betrumbæta. Þetta er frábært tæki sem við höfum búið til en hann er ekki fullmótaður og er hægt að nýta hann mun betur.

Ferðalög á hestum er eitthvað sem sameinar alla hestamenn. Allir sem eru í hestum hafa unun af því að ferðast. Við þurfum að sinna þessu einnig. Við þurfum að safna í gagnabanka upplýsingum um reiðvegi, GPS punkta og kort.

Það sem mér finnst einnig vera mikilvægt er að koma arði inn í keppnismennskuna. Keppni er að mati margra toppurinn á tilverunni en menn hafa sáralítin ávinning. Við þurfum að koma upp einhverskonar kerfi sem hugsanlega myndi byggjast á einhverskonar veðbankastarfsemi. Þá er ég ekki endilega bara að tala um veðhlaup heldur einnig gæðingakeppni. Módelið er til. Svíar og Norðmenn eru með mjög þróað kerfi sem við gætum hugsanlega nýtt okkur. Svo er náttúrulega aukaávinningi sem hlytist af þess sem er endurvakning á skeiðinu sem er eitt aðalmerki íslenska hestsins.

Það eru mörg verk sem bíða og vona ég að ekki verði staðarnumið þegar þessum samningi er lokið.

Hagnaður Eiðfaxa

Jónas Kristjánsson útgáfustjóri:

Þegar Eiðfaxi var kominn í þrot um mitt ár 2002, tóku þrír aðilar höndum saman um að bjarga tímaritinu og fréttavefnum, sem þeir töldu vera meðal hornsteina hestamennskunnar í landinu og stöðu íslenskra hesta í heiminum. Þetta voru Göran Montan, sem er í félagi við Ólaf Hafstein Einarsson á Hvoli í Ölfusi, Hestamiðstöðin og Átaksverkefnið.

Í kjölfar samkomulags þessara kjölfestuaðila í lok september 2002 var Hrólfur Ölvisson fenginn í október til að fara inn í reksturinn og kynna sér ástandið. Í ljós kom, að tap ársins stefndi á 30 milljónir króna. Með samningum við lánardrottna tókst að koma tapi ársins 2002 niður í 23 milljónir.

Í kjölfar þessara aðgerða og aukningar hlutafjár var ný stjórn mynduð í Eiðfaxa 31. janúar 2003. Hana skipa Ólafur H. Einarsson, Gunnar Dungal, Hrólfur Ölvisson, Ágúst Sigurðsson og Sveinbjörn Eyjólfsson. 20. febrúar var ég svo ráðinn útgáfustjóri.

Starfsliði Eiðfaxa var fækkað úr 11 í 5, þar af 4 nýir. Ný ritstjórnarstefna var tekin upp í apríl. Dregið var úr afþreyingarefni og lögð meiri áhersla á fræðsluefni. Efnismagn var aukið um 20-30%. Til að jafna á móti þyngra efnisvali var uppsetningu blaðsins breytt í líflegra horf.

Árangurinn er sá, að áskrifendur voru orðnir fleiri í árslok en þeir voru við upphaf breytinganna. Auglýsingatekjur voru orðnar mun meiri en á sama tíma á fyrra ári. Samanlagt leiddu aðgerðir til algers viðsnúnings í rekstri fyrirtækisins.

Í stað 23 milljón króna taps árið 2002 varð 3 milljón króna hagnaður af rekstri án fjármagnsliða árið 2003 og 1 milljón króna hagnaður að fjármagnsliðum meðtöldum. Eiðfaxi er kominn fyrir vind.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2004.

Trússið

Hestar

Andreas Bergmann:

Síðari árin höfum við yfirleitt haft jeppa með á ferðalögum og góða, lokaða kerru fyrir trússið, miklu léttari í drætti og hærri en hestakerra. Jeppar komast miklu minna með kerru en án hennar, svo að það skiptir miklu máli, að hún sé há og létt. Um tíma leigðum við okkur Rússajeppa, sem voru svo rúmgóðir, að við þurftum ekki kerru, svo að þeir bílar komust þá allt. Þá voru hálendisvegirnir líka verri en þeir eru núna og jepparnir ekki eins góðir. Við fórum í fyrra með jeppa og kerru um tröllaveg í Skælinga. Í gamla daga höfðum við sérstakan bílstjóra, en undanfarið höfum við skipzt á um að keyra. Bílstjórinn þarf auðvitað að vera mjög öruggur í vöðum, því að oft er hópurinn hvergi nærri, þegar hann þarf að fara yfir.

Ég hef líka verið í ferðum með engan bíl og eingöngu trússhesta. Við fórum fjórir félagar norður Sprengisand með þrjá töskuhesta og vorum sjö daga norður að Gautlöndum í Mývatnssveit.

Í trússi höfum við mat og viðlegubúnað, aðallega svefnpoka, en ekki dýnur, því að þær eru yfirleitt í skálunum. Við höfum hitunartæki, því að ekki er alveg hægt að stóla á slíkt í skálum. Einnig er þar rafmagnsgirðing og NMT bílasími, sem er til mikils öryggis. Gemsarnir duga ekki á hálendinu, en koma oft að gagni, þegar menn eru að hringja sig saman í byggð eða jaðri hennar. Auðvitað á að nýta alla aðgengilega tækni, til dæmis GPS, þótt ég hafi ekki gert það sjálfur.

Í trússinu eru sjúkrakassar fyrir hross og menn. sem við höfum sem betur fer ekki þurft mikið að nota. Ég man bara eftir einu tilfelli hrossasóttar á öllum þessum tíma. Í trússinu er aukagjörð fyrir allan hópinn, járningatæki, botnar, tjara og hampur, svo og hnoð og gatatöng til viðgerða á reiðtygjum.

Umferð á hálendinu er orðin svo mikil, að skála þarf að panta með góðum fyrirvara. Mér finnst gott að gera það um páska, en hef oft þurft að gera það seinna, af því að seinlegt er að finna ferðatíma, sem hentar sumarleyfum allra þeirra, sem ætla í ferðina. Stundum hef ég þurft að hnika til fyrirhugaðri ferðaáætlun eða nota bíla til að selflytja fólk, þegar skálar hafa verið uppteknir. Þegar ég byrjaði í hestaferðum fyrir fjörutíu árum, var viðburður að hitta hestafólk á fjöllum, en nú er það að verða regla, að maður hitti nokkra hópa á leiðinni. Í Landmannahelli er mér sagt, að gistinætur hesta séu orðnar um 3000 á sumri.

Þröngu hólfin við fjallakofana, sem nú eru komin, eru ill nauðsyn, en frágangur þeirra er oft ekki nógu góður. Sem dæmi má nefna Árbúðir á Kili, þar sem hestahólfið er bara grjóturð. Svipað er í Landmannalaugum. Hestunum líður ekki nógu vel í svona hólfum. Ekki bætir úr skák, þegar selda heyið er stundum myglað.

Árni Ísleifsson:

Mér finnst gott að hafa jeppa með hárri einnar hásingar hestakerru undir trússið. Pickup getur dugað, ef ferðin er fámenn. Fyrir utan mat og viðlegubúnað er í trússinu fullkomin járningatæki, kindabyssa og sjúkrakassar. Í sjúkradótinu er mikilvægast að hafa sprautu og salt gegn hrossasótt. Pensilín og græðandi áburður eru líka mikilvæg.

Sem viðlegubúnað nota ég svefnpoka með kodda og oftast teppi líka. Það er orðið sjaldgæft, að ég gisti í tjöldum, en þá þarf létt dýna einnig að vera með í ferð. Oft er ég með bjór eða pela til að grípa í kvöldin. Mér finnst bezt, að ró sé komin á mannskapinn milli kl. 11 og 12 á kvöldin.

Baltasar og Kristjana Samper:

Við byrjum að undirbúa ferð í marz með því að velja ferðasvæði, helzt að einhverju leyti á nýjum slóðum, sem fer að verða erfiðara með hverju árinu, því að við höfum farið svo víða. Við reynum að mæla út heppilegar dagleiðir með hvíldardögum á góðum stöðum. Af kortunum tökum við GPS punkta af helztu kennileitum á leiðinni.

Við skoðum herforingjaráðskortin með gömlu reiðgötunum, sem eru gulls ígildi. Ég (Baltasar) safna öllum gömlum kortum. Á þeim eru eru oft fleiri reiðleiðir en á nýju kortunum, því að bændum hefur sums staðar tekizt að fá Landmælingar Íslands til að fjarlægja merktar og hefðbundnar reiðleiðir, sem liggja um lönd þeirra. Oft höfum við líka skrifað mikilvægar skýringar inn á gömlu kortin.

Eftir svona mánuð er ég (Baltasar) nokkurn veginn búinn að negla niður leiðina og áttina. Þá er haldinn fundur með þeim, sem hugsanlega færu í ferðina, og farið yfir stöðuna. Oft er skipt liði, til dæmis við að tala við bændur, umsjónarmenn skála og aðra kunnuga menn á svæðinu til að fá nánari upplýsingar og fá leyfi til að tjalda á ákveðnum stöðum og nota ákveðin hólf eða girðingar. Einnig fer ég í sýslulýsingar og Ferðafélagsbækurnar, sem eru mjög góðar, sérstaklega þessar gömlu. Einnig er til fullt af leitarmanna- og afréttabókum.

Að lokum prenta ég út alls konar upplýsingar úr þessum heimildum, þar á meðal GPS-punkta upp úr kortunum og dreifi þeim meðal ferðafélaganna. Allir fá sérstakt kort af hverri dagleið með upplýsingum um hana. Eftir þessum undirbúningi ríðum við, yfirleitt á eigin vegum, en stundum með leiðsögumanni.

Sumir byrja sínar ferðir á að ríða langar dagleiðir frá heimahögum hrossanna til þess staðar, þar sem ferðin á að hefjast. Þeir eru að ríða Kaldadal eða Kjöl fram og til baka ár eftir ár og missa mikið af fríinu sínu. Þetta gerum við ekki. Við látum flytja hestana á skemmtilegan stað og látum taka þá aftur á öðrum skemmtilegum stað, svo að við séum ekki að eyða frítíma í leiðir, sem við höfum ekki áhuga á að fara, auk þess sem margar þessara leiða eru afar fjölfarnar.

Hestaferðir geta verið fjölmennar á láglendi, en það gengur ekki á hálendinu. Þar er postulatalan hámarkið. Tólf manns í ferð er prýðileg tala, fleiri mega menn helzt ekki vera, en bezt er að vera átta til tíu talsins. Við erum oftast um það bil tíu.

Sumir leiðsögumenn hafa verið ógleymanlega góðir. Ég (Kristjana) man eftir, hvað var gott að hafa Ingimar á Jaðri til leiðsagnar, þegar við fórum yfir Jökulsá í Lóni. Þar hefði ég ekki viljað vera án kunnugs manns. Sumir aðrir leiðsögumenn hafa verið misjafnir, til dæmis þeir, sem rötuðu ekkert og neituðu að trúa áttavitanum okkar, svo að við urðum að taka völdin og finna réttu slóðina, sem við og gerðum.

Ekki er öll leiðarlýsing til gagns, þótt þeir, sem hana gefa, eigi að teljast kunnugir. Einu sinni var okkur sagt, að við kæmum jeppanum með kerrunni nokkurn vegin alla leið að skála upp á heiði. Þetta reyndist hinn versti óvegur, svo að trússfólkið varð að aflesta kerruna til að komast yfir verstu torfærurnar. Það sprakk á öllum hjólum. Síðar fréttum við, að heimamenn höfðu árið áður brotið traktor á þessari ófæru leið.

Trússið höfum við í bíl með hestakerru. Við veljum þá tegund kerru, af því að hún kemur að góðum notum, ef hestur meiðir sig. Um nokkurt skeið höfum við notað sérstaklega upphækkaða og styrkta hestakerru, sem dugar vel á vondum vegum. Í trússinu er ferðaklósett með litlu indjánatjaldi, alvöru járningagræjur og saltsteinn, viðgerðarverkfæri fyrir bílinn og annan búnað, tjöld, góð eldunaráhöld og grill, borð og stólar. Vinir okkar hafa lengzt af keyrt fyrir okkur í sjálfboðavinnu.

Við notum mjög gott fjallatjald, sem þolir alls konar veður. Einnig venjulega Ajungilak svefnpoka, litla rúllukodda og þunna göngumannadýnu, sem blæs sig út sjálf og einangrar vel frá jörðinni. Í trússinu er líka gítar, munnharpa, bjór og rauðvín. Við drekkum ekki vín á hestbaki, en höfum alltaf vín með kvöldmatnum. Það eru pappafernur, sem keyptar eru sameiginlega af hópnum. Víninu höldum við volgu á hitakönnum meðan við borðum.

Áður fyrr fórum við í ferðir, þar sem eingöngu voru notaðir trússhestar. einn á hverja tvo menn. Þá gistum við mikið í leitarmannakofum. Við gistum sjaldnar í þeim núna, af því að höfum lent í pantanarugli og tvíbókunum. Núna gistum við nánast eingöngu í tjöldum, af því að þau veita meira frelsi, og höfum trússbíl með í ferð, en notum trússhest á sumum dagleiðum, þegar trússbíllinn kemst ekki til okkar eina eða fleiri nætur. Hver hefur sitt fjallatjald og svo er eitt sameiginlegt tjald til að elda í og borða. Við erum með rafmagnsgirðingu og rafstöð til að slá utan um hestana í náttstað.

Trússtöskurnar eru gamlar og léttar strigatöskur fóðraðar og nokkuð vatnsþéttar. Það er galli við þessar gömlu trússtöskur, að aftari gjörðin færist aftar og kitlar suma hesta. Þess vegna höfum við látið sauma gjörð milli fremri og aftari gjarðar til að halda óbreyttu bili milli þeirra. Taka þarf trússið af í lengri áningum og leyfa hestinum að velta sér. Svo þarf að skipta um trússhest reglulega. Æskilegt er, sem flestir hestar venjist því að bera trúss.

Kosturinn við trússhestaferðir er, að við erum frjáls sem fuglinn fljúgandi. Við þurfum ekki að bíða eftir bílnum eða vonast til, að hann komi á réttum tíma. Við erum með allt sem við þurfum, þar á meðal svefntjöld, svo að við getum gert okkur náttstað, hvar sem við erum. En gallarnir eru fleiri og auðvitað er meiri fyrirhöfn og meira líkamlegt erfiði að ferðast á þann hátt. Þetta hentaði okkur betur, þegar við vorum yngri. Þá þarf líka að velja og hafna í farangri. Það er til dæmis ekki pláss fyrir rauðvín og bjór.

Bjarni E. Sigurðsson:

Ég ferðast nú orðið aldrei með trússhesta, aðeins með trússbíl, helzt með fjórhjóladrifi. Oftast læt ég bílinn bara fara milli áningarstaða og tek nesti til dagsins í vasann. Ef vel stendur á, er þó til þæginda að hitta trússbílinn einu sinni á miðjum degi, en ég legg enga sérstaka áherzlu á það. Ef bíllinn rúmar ekki allt trússið, hengi ég lokaða og vatnsþétta kerru í hann, en ekki opnu hestakerru.

Í trússinu er auðvitað farangur fólksins, og svo fullkomin járningatæki og steðji til að geta lagað járningar almennilega í næturstað. Svo eru þar sjúkrakassar og gott er að hafa saltsteina fyrir hestana. Einstöku sinnum hef ég tekið harmoníku með og oft eina góða bók. Skála panta ég með löngum fyrirvara, nú orðið oft með heils árs fyrirvara.

Ég vil ekki, að áfengi sé notað í hestaferðum og ekki heldur tóbak. Þetta eru nautnalyf, sem ekki hæfa í samneyti við hesta og náttúru. Ég vil líka, að allir taki þátt í ábyrgðinni, fari umsvifalaust af baki í áningu og taki þátt í að vakta hestana og halda í bandið, ef það er notað. Vont er, að mikið sé um, að menn hópist í fundahöld í áningu. Á því sér maður oft, hverjir eru næmir hestaferðamenn og hverjir eru bara farþegar í eðli sínu.

Flestir vilja komast í ró fyrir miðnættið. Sjálfur vil ég helzt fara að sofa um eða upp úr klukkan ellefu. Ég er hættur að nota svefnpoka og fer núna með sæng og kodda. Mér finnst pokarnir vera þröngir, há hreyfingum og valda órólegri svefni. Mér finnst gott að hafa morgunmat klukkan átta og vera kominn í hnakkinn klukkan níu eða hálftíu. Ég vil helzt hafa daginn fyrir mér, ef eitthvað kemur upp á. Það er líka gaman að koma saman í fyrir kvöldmat og spjalla um landslagið á dagleiðinni og atburði, sem þá komu fyrir.

Einar Bollason:

Ef bíll er notaður fyrir trússið, er oftast bezt að hafa traustan jeppa með góðri farangurskerru, sem hægt er að fá leigða á mörgum bílaleigum og jafnvel benzínstöðvum. Maður tekur þá aftursætin úr jeppanum eða leggur þau fram til að fá meira pláss. Þetta ætti að duga 8-10 manna hestaferð. Hestakerrur eru hins vegar alveg ómögulegar, enda ekki ætlaðar til notkunar á jeppaslóðum hálendisins. Þótt hópar af þessari stærð geri mikið af því að elda sjálfir og skiptast á um að keyra bílinn, er óskastaðan sú, að sérstakur maður sé ráðinn til að keyra og elda. Hitt er bölvað vesen. Sá, sem er á bílnum, er oft í hálfgerðri fýlu. Og menn búa ekki til góðan mat, ef þeir eru ekki í góðu skapi.

Í trússinu eru meiri háttar járningatól og mikið úrval af skeifum. Þar er meira af sjúkradóti fyrir menn og hesta. Þar eru aukareiðtygi og saltsteinar. Líka er gott að hafa þar stóra vatnskúta og stampa til að bera í vatn, ef vatnslaust er í skálum. Á sumum leiðum, til dæmis Sprengisandi, getur maður þurft að hafa hey og vatn handa hestum á leiðinni milli skála.

Mér finnst skynsamlegt, að hinir reyndari menn í ferðahópi gefi út fatalista handa fólki, því að margir hafa tilhneigingu til að taka allt of mikið af sér af fatnaði, sem er ekkert notaður, en belgir út trússið. Það er líka gott að benda fólki á að skipta farangri sínum í tvær litlar töskur frekar en að setja hann í eina stóra. Önnur taskan er með meira notuðu dóti og fer inn í skála, þar sem er oftast lítið pláss, en hin verður eftir úti í trússi.

Ég nota dúnsvefnpoka, kodda og lak, því að ég nota pokann bara eins og sæng, fer aldrei ofan í hann, því að skálarnir eru yfirleitt heitir á nóttunni.

Hannes Einarsson:

Trússbíla þarf að velja eftir landsvæðinu og fjölda manna í ferð. Stórir hópar þurfa flutningabíl, aðrir komast af með hækkaðan Econoline, sem má þá draga kerru til að fá meira pláss. Í stórum hópum væri líka gott að hafa jeppa með til að fylgja hópnum eftir föngum með sjúkradót, góðar járningagræjur og nesti og svo laus sæti til að taka upp reiðmenn, sem þurfa að hvíla sig. Það er líka þægilegt að fá kaffi og meðlæti um miðjan daginn, ef hægt er að koma því við. Fólki líkar það vel og það lyftir stemmningunni. Í fámennum ferðum er bezt að nota jeppa með kerru.

Skála panta ég með góðum fyrirvara, svona um miðjan vetur, og staðfesti síðan um páska. Ég læt ekki símann duga, heldur reyni að keyra til umsjónarmanna, svona til að sýna mig og leggja áherzlu á, að það sé full alvara í pöntuninni. Oft þarf að keyra og kortleggja leiðina eftir föngum, kanna aðstæður við skála, tryggja næturhólf og hey og einnig rútu, ef menn gista á öðrum stað en hestarnir.

Bezt er, að einn maður sjái um þetta, en ekki sé framleiddur ruglingur með því að fleiri séu að krukka í því. Gott er að vita af einhverjum á hverju svæði, sem gæti komið til skjalanna, til dæmis með hestakerru, ef hestur veikist eða slasast.

Í trússinu eru öflugir sjúkrakassar fyrir hross og menn, svo og kindabyssa, ef fella þarf hross. Nú erum við hættir að fá sprautur gegn hrossasótt og er það afleitt mál. Í trússinu er líka lína með staurum og rafmagnsstöð. Við erum með saltsteina, sem étast fljótt upp.

Ég nota góðan svefnpoka með kodda og teppi. Ég treysti mest á skálana, en á líka tjald, en hef ekki sett það upp enn. Ég hef oft eina hestabók með mér, oftast Áfanga, þar sem eru leiðalýsingar. Annars fer tíminn á kvöldin mikið í að fylgjast með hestunum og stundum fer ég í göngutúr um svæðið.

Haraldur Sveinsson:

Síðan við hættum að hafa trússið á hestum höfum við mest notað jeppa með hestakerru. Þægilegt er að koma farangri fyrir í þeim og einstaka sinnum koma þær sér vel, þegar flytja þarf hross til dýralæknis eða í hvíldarhaga.

Í trússinu höfum við lítið annað en nesti og viðlegubúnað. Ég hef meðferðis svefnpoka og litla dýnu. Stundum hef ég kodda, en oft nota ég bara fötin undir hausinn. Í trússinu eru líka saltsteinar, rafmagnsgirðing og hófbotnar.

Hjalti Gunnarsson:

Þegar ég fer með kunningjum, er trússið yfirleitt í jeppa og þá með sérstaka trússkerru rykþétta, sem ég smíðaði sjálfur til að þola hnjask. Áður var ég með hestakerrur, en þær eru lágar og fara illa á ferðalögum um fjallvegi. Oftast reynum við að fá einhvern til að sjá um bílinn og matreiðsluna, svo að við séum ekki að vasast í því sjálf. Mest reynum við að gista í skálum.

Fyrir utan mat og fatnað eru í trússinu aukareiðtygi og viðgerðartól fyrir bíl og skeifur, sjúkrakassar fyrir menn og hesta, einnig kindabyssa. Ég hef einu sinni lent í að þurfa að nota hana og hef síðan aldrei gleymt að hafa hana með. Salt er í trússinu, því að bráðanauðsynlegt er, að hrossin fái salt í hverjum náttstað. Einu sinni veiktist hestur svo í miklum hita, að við urðum að hálfdraga hann í náttstað. Þar stóð hann bara og góndi, en nærðist ekki. Þegar ég lét hann hafa saltstein, sleikti hann steininn í óratíma og kenndi sér síðan einskis meins.

Marinó Pétur Sigurpálsson og Guðbrandur Kjartansson:

Ég (G) fer aldrei í hestaferð án þess að hafa nóg til vara af öllum fatnaði jafnt sem öllum reiðtygjum. Maður veit aldrei í hverju maður lendir. Ég er til dæmis með tíu skyrtur í þriggja vikna ferð. Viðhorfin til rúmmáls í farangri hafa gerbreytzt síðan bíllinn tók við af klyfjahestinum. Við erum þar af leiðandi líka með nóg til vara af öllu, sem getur bilað í hestaferðum. Svo erum við með lesningu á borð við árbækur Ferðafélagsins, Göngur og réttir og Landið þitt. Það gefur svona ferðum gildi að tengja saman söguna og landið.

Við erum oftast með jeppa með í ferðum, einn eða tvo, og oftast hestakerru, ef farangurinn er mikill. Oftast keyra eiginkonur, sem ekki vilja sjálfar vera á hestbaki eða þá að hjón, sem ekki eru nógu mikið hestuð, skiptast á um að keyra. Stundum er eldamennskan á herðum hópsins og stundum höfum við fengið sérstakan aðila til að sjá um hana. Til þæginda látum við bíl vera samferða reiðinni eins mikið og hægt er yfir daginn.

Fyrir utan mat og viðlegubúnað er margvíslegur öryggisbúnaður í trússinu, svo sem varareiðtygi og fullur kassi af skeifum. Ég (M) nota svefnpoka, en ég (G) nota sæng, lak og kodda.

Ólafur B. Schram:

Undirbúningur ferðar er einn þriðji af ferðinni. Fyrst þarf ég að ákveða, hvert á að fara. Síðan spyr ég, hvort nokkur vilji koma með. Yfirleitt er þetta sami kjarninn, sex-átta manns, sem koma. Allur hópurinn þarf að samþykkja nýja ferðafélaga og boðið gildir aðeins um eina ferð til að byrja með, því að sumum hentar ekki að vera í langferðum á hestum, en það kemur ekki í ljós fyrr en ferðin er hafin. Sumir kveikja strax á því, sem gera þarf í hestaferðum, aðrir verða farþegar alla sína tíð.

Næst er að finna dagsetningar og panta skála. Það gerist yfirleitt á haustin, svo að skálarnir séu ekki upppantaðir. Að vísu erum við með stórt hringtjald með einni súlu. Allir geta sofið í því, svo að ekki eru hundrað í hættunni með skálana.

Síðan tekur við skemmtilegt tímabil, þegar ferðafélagarnir halda undirbúningsfundi og skipta með sér verkum. Allir hafa eitthvert hlutverk. Einn fer síðastur úr húsi, einn færir gestabækur, einn urðar ruslið, einn hleður kerruna og losar, einn er opinber myndatökumaður ferðarinnar, einn telur hestana, einn sér um saltsteininn, kannar vatn í hólfinu og fer á girðingar til að kanna, hvort þær séu heldar, einn er með járningatólin, einn er með sjúkragögnin, einn er gjaldkeri, einn fullvissar sig um að við höfum gengið vel frá skálanum og einn heldur saman vísum, sem verða til í ferðinni.

Ferðafélagarnir skipta með sér dögunum. Hver tekur einn dag að sér, kynnir sér landafræði, jarðfræði, sagnfræði, þjóðfræði og pesónufræði svæðisins, sem farið er um þann daginn. Hann heldur svo fyrirlestur um efnið kvöldið áður. Menn skiptast líka á um að keyra bílinn og helzt ekki nema hálfan dag í einu, svo að allir fái að vera eitthvað með í reiðinni á hverjum degi. Svo er skipuð morgunmatarnefnd og kvöldmatarnefnd, ekki með sama fólkinu. Þannig dreifum við vinnuálaginu.

Þormar Ingimarsson:

Ég hef ekki bara gaman að ferðinni sjálfri, heldur öllum undirbúningi hennar, til dæmis þegar verið er með kortum og símtölum að púsla saman ferðaáætlun um veturinn. Sem dæmi um fyrirvarann má nefna, að í september síðastliðnum var ég að skipuleggja ferð næsta sumars.

Við undirbúning ferðar set ég upp GPS punkta ferðarinnar eftir korti Landmælinga þar sem gefnir er upp punktar hvers staðar og eins þjálfa ég annaðslagið að reikna punkta af korti. Á leiðinni slæ ég svo inn viðbótarpunkta fyrir staði sem mér finnst skipta máli. Þá hef ég slökkt á tækinu milli þess sem ég set inn punkta. Það skiptir miklu máli varðandi allt er lítur að GPS að æfa sig vel á tækið og gera prufur t.d. úr bíl. Við sum tæki er hægt að kaupa móttökuloftnet sem má setja upp á topp á bíl.

Nú orðið eru bílar notaðir meira en trússhestar, venjulega jeppi með kerru. Mér finnst mikilvægast, að bíllinn sé í góðu lagi og bili ekki á leiðinni. Bílstjórinn þarf að kunna akstur í óbyggðum og geta bjargað sér einn. Oftast höfum við fengið mann í aksturinn, frekar en að skiptast á um að keyra. Ég hef gjarðir í trússinu til að grípa til, ef þarf að teyma, en það er raunar ekki vinsælt á ferðalögum.

Í fjölmennari ferðum sér einhver um eldhúsið, en í fámennari ferðum er þeirri vinnu skipt niður á ferðalangana.

Meðan ferðast er á hestum er mikilvægt, að ekki sé notað áfengi af neinu tagi. Á kvöldin er í lagi að nota vín í hófi fram að vissum háttatíma, en alls ekki til að detta í það.

Yfirleitt gistum við í skálum, en þurfum að gera ráð fyrir að geta tjaldað. Ég er yfirleitt með lítið jöklatjald og góðan og efnismikinn svefnpoka, sem þolir mikinn kulda, ennfremur kodda og dýnu, sem er rúllað upp. Ég er líka með kort og hjól til að mæla vegalengdir á korti, einnig diktafón til að lesa inn ferðalýsingar.

Valdimar K. Jónsson:

Yfirleitt nota ég jeppa og litla hestakerru undir trúss. Hestakerran er til mikils öryggis, ef hestur verður fyrir einhverju á ferðalagi og þarf að komast til byggða eða til læknis. Í fjölmennum ferðum eru stundum notaðir háir trússbílar, en mér finnst í þeim tilvikum betra, að við hendina sé líka jeppi og kerra. Jeppinn getur einnig verið til mikilla þæginda, ef hann er látinn fylgja ferðahópnum með kaffi og meðlæti, öryggisbúnað og lausa girðingu til að setja upp á heppilegum áningarstöðum. Ég var sjálfur á jeppa með hópi yfir Kaldadal í fyrra og setti upp girðingu á tólf kílómetra fresti til að auðvelda hestaskipti og flýta fyrir þeim. Síðan tók ég girðinguna niður, keyrði fram úr og setti hana upp á næsta áningarstað. Þetta gafst vel. Í litlum hópum skiptum við stundum á okkur akstrinum með trússið, en oftast erum við þó með sérstakan trússara.

Ég reyni oftast að panta skála með sem lengstum fyrirvara, helzt á miðjum vetri. Stundum verða þó ferðir til með minni fyrirvara og þá verður maður oft að hnika ferðatímum til. Við erum yfirleitt með gastæki meðferðis og oft ljós, því að margir fjallakofar eru ekki lýstir. Aðalferðatími minn er síðari hlutinn í júlí, meðal annars vegna lítils vatnsmagns í ám, en þá er farið að dimma á kvöldin og gott að hafa ljós í ferð. Viðlegubúnaður er svefnpoki með léttum kodda og áður fyrr vindsæng, þegar ekki voru dýnur í skálum. Við höfum lítið sem ekkert notað tjöld á ferðalögum.

Í litlum hópum eldum við stundum sjálf, en í stærri hópum sér oftast kokkur um matinn.

Viðar Halldórsson:

Ég hef yfirleitt haft jeppa og háa hestakerru fyrir trússið. Kosturinn við hestakerru er, að það er hægt að taka farangurinn úr henni og setja inn hest, sem þarf að fara til dýralæknis niðri í byggð. Hins vegar eru vélsleðakerrur þægilegri í drætti, af því að þær eru svo háar og ekki flæðir inn í þær, þegar farið er yfir djúpar ár. Yfirleitt notast fólk þó við þær kerrur, sem það hefur aðgang að.

Í trússinu er sjúkrakassi fyrir hesta og annar fyrir fólk. Það er mjög slæmt og raunar ótrúlegt, ef dýralæknar eru farnir að neita að láta menn hafa hrossasóttarsprautur fyrir langferðir, því að þessar sprautur voru það nauðsynlegasta í sjúkrakassanum. Sprautan er svo fljótvirk og auðveld í notkun, miklu meðfærilegri en glaubersaltið. Þar eru líka skeifusafn og góðar járningagræjur, svo og saltsteinn. Kindabyssa er til þæginda, þótt menn geti aflífað hross með hamri.

Í lengri og fjölmennari ferðum finnst mér nauðsynlegt að hafa sérstakan kokk og bílstjóra. Í fámennari ferðum höfum við skipzt á um að elda, en fengið mann til að keyra.

Ég er með svefnpoka og kodda. Ég held, að dýnur séu í nánast öllum skálum, svo að þær eru óþarfar í trússi, nema ætlunin sé að tjalda. Mér finnst gott að fá mér glas að kvöldi, en vil ekki hafa vín um hönd á ferðalaginu yfir daginn. Þótt menn kunni vel með vín að fara og ekki sjái á þeim, þá er það staðreynd, að það fer miklu meiri orka í ferðina hjá þeim, sem staupar sig. Menn verða þreyttari en ella, hafa ekki úthald og gera kannski mistök, sem koma niður á öllum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2004

Ráðunautur í stuði

Hestar

Ráðunauturinn okkar var í stuði á ráðstefnunni, sem sagt er frá á 20-22. bls. í þessu tölublaði Eiðfaxa. Um morguninn hafði Ágúst Sigurðsson fengið símtal frá nýjum formanni ræktunardeildar þýzka Íslandshestasambandsins, þar sem hún sagði, að Þjóðverjar mundu í sumar leggja niður þýzka dómkerfið að mestu og taka upp það íslenzka.

Þetta felur í sér lokasigur þeirrar stefnu, að eitt dómkerfi sé notað í öllum löndum, þar sem eigendur íslenzkra ræktunarhrossa búa, og að það dómkerfi sé upprunnið á Íslandi og að mestu þróað þar. Enda var áður búið að frumkvæði ráðunautarins að taka ýmislegt af því bezta úr erlendum dómkerfum upp í það íslenzka, svo sem fetið.

Raunar byggjast þessar breytingar á því, að Ísland hefur um nokkurra ára skeið haft landsráðunaut í hrossarækt, sem er diplómat og heimsmaður. Eftir vandræðalegt hlé hefur aftur komið til sögunnar landsráðunautur, er getur fetað í spor Gunnars Bjarnasonar, sem um allan heim var hinn mesti aufúsugestur.

Ágúst hafði fleiri ástæður til að vera kátur á ráðstefnunni. Þar kom fram, að töluverður árangur hefur náðst af ýmsum helztu verkefnunum, sem ráðizt hefur verið í á vegum Hestamiðstöðvar Íslands og Átaksverkefnis í hrossarækt og hestamennsku. Frá því er sagt hér á bls. 20-22.

Þessi tímamót í sögu hrossaræktar gáfu ráðunautnum tækifæri á ráðstefnunni til að mála framtíðina á vegginn. Hann sagði, að nú þyrfti að fara að kortleggja erfðaþætti íslenzka hestsins. Hann vildi einnig stofna sjóð til að efla rannsóknir á honum. Hann hvatti til, að safnað verði í gagnabanka upplýsingum um reiðvegi og GPS punkta á reiðleiðum. Hann mælti með fleiri hugmyndum, svo sem veðbanka og aukinni áherzlu á skeið.

Bandaríkjamenn vilja taka upp nýja knapamerkjakerfið eins og það leggur sig, væntanlega öðrum þjóðum til eftirbreytni. Allt eru þetta merki um, að nú séu kaflaskil og kominn tími til að blása til sóknar íslenzka hestsins á ýmsum nýjum sviðum.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 2.tbl. 2004

Reiðvegir

Hestar

Allar höfuðleiðir opnar á höfuðborgarsvæðinu

Halldór Halldórsson, formaður Reiðveganefndar í Kjalarnesþingi hinu forna:

Nú er að linna margvíslegum hindrunum, sem hafa verið í vetur á umferð hestamanna milli hesthúsahverfa á höfuðborgarsvæðinu. Erfiðast hefur verið Vatnsendahverfið, þar sem orðið hefur átta mánaða töf á gatnagerð. Sú leið milli Víðidals annars vegar og hins vegar Heimsenda og Kjóavalla var lokuð fram á þorra, en hefur nú verið opnuð.

Fákur-Heimsendi

Til bráðabirgða er riðin sama leið og áður frá Víðidal um trébrýrnar á Elliðaánum, sem hafa verið lokaðar fyrir bílaumferð. Á Elliðavatnsvegi er hjáleið við Breiðahvarf vegna framkvæmda.

Síðan er beygt af Elliðavatnsvegi inn á Elliðahvammsveg, eins og hestamenn gera, þegar þeir fara umhverfis Elliðavatn, en beygt suður af þeirri leið upp Traðir, nýja leið, sem liggur milli sumarbústaðalóða. Hún kemur inn á leiðina við Heimsenda rétt ofan við hverfið. Þannig koma menn úr Fáki og Herði að Heimsenda að ofanverðu, en ekki að neðanverðu.

Síðar verður gerður varanlegur reiðvegur milli Víðidals og Heimsenda nær Elliðavatni, nálægt bænum á Vatnsenda. Lega hans hefur ekki verið endanlega ákveðin og ekki heldur, hvenær komi að framkvæmdum.

Fákur-Heiðmörk

Lokið er við nýja leið frá Víðidal inn í Heiðmörk um ný göng undir Breiðholtsbraut, meðfram Bugðu að austanverðu og síðan upp með Bölta á gömlu leiðina inn í Heiðmörk. Þessi leið var tekin í notkun hestamanna í lok janúar. Samkvæmt upphaflegu skipulagi áttu blokkir að vera við hlið reiðvegarins sunnan skógarlundarins við Norðlingabraut, en Fákur og reiðveganefndin fengu þessu breytt í raðhús.

Hólmsheiði

Í vor á að ljúka stuttum kafla frá Fjárborg inn á nýjan reiðveg um Hólmsheiði og vestan við Hafravatn að Reykjahverfi í Mosfellsbæ, þaðan sem reiðvegur liggur áfram um Skammadal niður í Mosfellsdal, þar sem hann skiptist í Skógarhólaleið annars vegar og leið með Kaldá niður í hverfi Harðar á Varmárbökkum.

Þetta er góður reiðvegur. Hinn nýi hluti hans er að miklu leyti klæddur sérstakri reiðstígablöndu úr Bolöldu. Reiðveganefndin hefur mælt með þessu efni, sem sums staðar er komið í reiðvegi á höfuðborgarsvæðinu.

Hólmsheiðarvegurinn er mikill fengur fyrir hestamenn á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er mikilvægt, að hestamenn hafa fengið skriflegt leyfi Orkuveitu Reykjavíkur til að nota veginn meðfram Nesjavallaæð til austurs frá Hólmsheiðarvegi að Hafravatnsvegi.

Hörður-Fákur

Þá er að nýju komin tenging byggðaleiðina milli Varmárbakka og Víðidals, sem rofnaði við miklar vegaframkvæmdir á Vesturlandsvegi milli Grafarholts og Grafarvogs. Gerð hafa verið undirgöng fyrir hestamenn á þremur stöðum, annars vegar undir Vesturlandsveg og hins vegar undir Víkurveg og aðrein af Vesturlandsvegi á Víkurveg.

Á allri þessari leið milli Fáks og Harðar eru að vísu fimm staðir, þar sem ríða verður göngubrautir þvert yfir bílvegi, en verða síðar þrír staðir. Syðst er það við Víðidal, þar sem farið er yfir Selásbraut. Síðan er það í Hádegismóum við Rauðavatn, þar sem riðið er yfir heimreiðina að húsi Árvakurs. Þar á raunar síðar að leggja reiðvegarkrók austur fyrir húsið.

Þriðji staðurinn er við göngin undir Vesturlandsveg, þar sem fyrst þarf að fara yfir Krókháls og síðan Grafarholtsveg, áður en komið er að göngunum. Líta má á þann vanda sem eins konar skipulagsslys.

Loks þarf að fara yfir afrein Víkurvegar, áður en komið er að síðustu undirgöngunum. Undir þessa afrein eiga síðar að koma göng.
Þegar norður fyrir slaufurnar er komið, er greið leið alla leið á Varmárbakka.

Á golfvallarsvæðinu á Korpúlfsstöðum er reiðvegurinn ekki í endanlegri mynd. Hann verður síðar færður þannig, að minni truflun verði milli hans og vallarins. Þá verður ekki lengur farið yfir Korpu á Klapparvaði, heldur nokkur hundruð metrum ofar við ána.

Elliðaárdalur

Þá er í góðu gildi reiðleiðin milli gamla Fáks og Faxabóls um Elliðaárdal. Það er hindrunarlaus leið, sem mikið er notuð af hestamönnum.
Segja má, að reiðvegamál í Reykjavík sé í miklum bata um þessar mundir. Borgin gerir ekkert í skipulagsmálum hesthúsahverfa og reiðvega án þess að hafa samráð við Fák og reiðveganefndina.

Heimsendi-Kjóavellir

Við Heimsenda er í uppsiglingu það vandamál, að skipulagðar hafa verið fjórar 9-12 hæða blokkir 120 metrum norðaustan við hesthúsahverfið. Reiðveganefndin hefur fengið því áorkað, að minnkuð hefur verið lóðin, sem næst er Heimsenda. Vestan við hverfið, en nokkru fjær, áttu að koma 20 hæða blokkir, en þar hefur deiliskipulagi verið frestað. Ekki verður tekin ákvörðun um svæðið öðruvísi en að höfðu samráði við hestamenn. Háhýsi við hesthúsahverfi þrengja auðvitað andrými hestamennskunnar.

Engar hindranir eru milli Heimsenda og Andvara.

Gustur

Gustarar þurfa að fara tvisvar yfir veg á leiðinni á Kjóavelli eða Heimsenda, fyrst við hesthúsahverfi þeirra og síðan yfir Vatnsendaveg eða Flóttamannaveginn. Mikil byggð á að rísa á þessum slóðum, en gert er ráð fyrir mörgum undirgöngum fyrir hestamenn, einkum annars á sérstakri leið, sem fyrirhuguð er meðfram Arnarnesvegi frá Gusti til Fáks.

Má segja, að reiðvegamál í Kópavogi hafi tekið mikinn kipp til hins betra, enda hafa aðstæður hestamanna þar í bæ löngum verið erfiðastar á höfuðborgarsvæðinu. Á nýjum byggingasvæðum er gert ráð fyrir mörgum undirgöngum fyrir hestamenn.

Þrengslin í Kópavogi eiga raunar eftir að verða enn erfiðari, þegar gerð verða mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar eftir fimm-sex ár. Þá verður að rífa efstu hesthúsalengjuna í Gusti og vegfláinn mun koma alveg að næstu húsaröð. Reynt var að lina þetta með því að bjóða makaskipti á landi við Garðabæ og færa veginn aðeins sunnar, en Garðabær hefur ekki tekið það í mál.

Andvari-Sörli

Í sumar hyggst Vegagerðin breikka Elliðavatnsveg á köflum sunnan Vífilstaða og færa til reiðleiðina á þessum köflum á leið hestamanna milli Andvara í Garðabæ og Sörla í Hafnarfirði. Á þeirri leið þarf að fara yfir Vífilstaðaveg og Elliðavatnsveg á Setbergsholti. Þegar á svæði Sörla er komið liggja góðar reiðgötur til flestra átta, enda hefur Hafnarfjörður tekið myndarlega á málum hestamanna.

Tvær stofnbrautir

Staðan á höfuðborgarsvæðinu er nú þannig, að greiðar eru tvær stofnbrautir frá suðri til norðurs, annars vegar leiðin, sem þræðir hesthúsahverfin og hins vegar ofanbyggðavegurinn, sem liggur um Heiðmörk og Hólmsheiði.

Milli þessara stofnleiða eru góðar tengingar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Þverleið hefur verið sett á skipulag í Garðabæ meðfram Heiðmerkurvegi undir Vífilstaðahlíð. Hún hefur verið stikuð út og Vegagerðin hefur boðizt til að leggja fram helming kostnaðar. Verið er að reyna að fá Garðabæ til að leggja fram fé á móti.

Garðabær erfiður

Af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu hefur Garðabær um langt árabil verið erfiðastur viðureignar. Þar voru engir reiðvegir á gildandi aðalskipulagi, voru þurrkaðir út árið 1995. Raunar tafði bærinn fyrir því árið 1996, að lagður yrði Hjallavegur um Heiðmörk, en gaf þó eftir að lokum og vegurinn var lagður árin 1998-2000.

Ennfremur hefur bærinn sett í bið óskir hestamanna um reiðleið út á Álftanes, þar sem hestamannafélagið Sóti er einangrað eins og úti á eyju. Þegar gerð verða mislæg gatnamót um Engidal, ætti að vera auðvelt að gera ráð fyrir göngum fyrir hestamenn. Tekið hefur verið frá land fyrir reiðveg á þessum slóðum, án þess að því fylgi nokkuð loforð um framkvæmdir.

Þverleiðir milli stofnleiða
Fyrir atbeina nefndarinnar gerir Garðabær þó ráð fyrir undirgöngum undir Urriðaholtsveg, fyrirhugaðan bílveg milli Reykjanesbrautar og Elliðavatnsvegar. Mannvirki tengd þessum vegaframkvæmdum gætu orðið þáttur í leið út á Álftanes.

Þegar byggt verður við Úlfarsfell, verður lagður reiðvegur milli stofnleiðanna nálægt Úlfarsá og mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Þessi leið er raunar komin á skipulag. Í tengslum við þetta fyrirhugaða skipulag verða reiðgöng gerð í sumar undir Vesturlandsveg við Korpu.

Erfiðara verður að fá tengingu milli stofnleiðanna frá Varmárbökkum um Álafoss upp í Reykjahverfi. Nú ríða hestamenn þessa leið á bílaumferðargötum, sem býður hættunni heim. Mosfellsbær hefur ekki hafið neinn undirbúning að reiðleið á þessum slóðum og þarf greinilega að taka sig á í reiðvegamálum að þessu leyti.

Dropinn holar steininn

Ekki hefur verið átakalaus sá árangur, sem náðst hefur í reiðvegamálum höfuðborgarsvæðisins. Reiðveganefndin sækir fundi hjá yfirvöldum og sendir þeim bréf. Formlegar og skriflegar athugasemdir hafa gefið beztan árrangur. Nefndin kvartar og minnir á fyrri loforð. Hún vinnur samkvæmt kenningunni um, að dropinn holi steininn.

Hún er alltaf á vaktinni, af því að reynslan sýnir, að árangur, sem náðst hefur inn á skipulagskort, getur skyndilega dottið út af næstu kortum. Dæmi er líka um, að sprengt sé fyrir undirgöngum, en þau síðan fyllt af möl. Almennt má segja, að við séum ekki vissir um árangur, fyrr en reiðgatan er orðin sýnileg.

Svo þegar reiðvegirnir eru komnir, taka við verktakar, sem vantar athafnapláss og finnst kjörið að koma gámum og vinnuskúrum fyrir á reiðvegum. Algengt, að verktakar loki leiðum og hirði aðeins um hjáleiðir fyrir bíla, en ekki fyrir reiðmenn. Fleiri líta girndaraugum til reiðvega. Ég á mynd af strætisvagnaskýli, sem sett var á reiðveg. Skýlið var með víðáttumiklu skyggni í hálshæð reiðmanns.

Ekki má gleyma vélhjólamönnum, einkum á torfæruhjólum, sem hafa spænt upp reiðvegi og gera enn. Samtök þeirra hafa gefið út ágætar umgengnisreglur, sem birtast á heimasíðu þeirra, en einstakir torfærukappar fara ekki eftir neinum reglum.

Reiðveganefndin

Reiðveganefndin hefur starfað síðan 1990. Hún er skipuð fulltrúm allra sjö hestamannafélaganna á suðvesturhorninu. Sjálfur kem ég frá Andvara, Valdimar Jónsson er frá Fáki, Guðmundur Jónsson frá Herði, Sævar Kristjánsson frá Gusti, Sveinbjörn Jónsson frá Sörla, Jóhann Þór Kolbeinsson frá Sóta og Vilberg Skúlason frá Mána.

Nefnin hefur afskipti af reiðvegamálum utan höfuðborgarsvæðisins, sem er umræðuefni þessa viðtals. Mikill árangur hefur náðst á leiðinni suður með sjó og unnið er að endurheimt reiðleiðar undir Esju á Kjalarnesi. Það er ekki fjarlægt markmið, að samfelld reiðleið, aðskilin frá bílaumferð, nái ofan úr Kjós um höfuðborgarsvæðið suður í Reykjanesbæ og Grindavík.

Aðskilnaðarstefna

Það er almenn stefna sveitarfélaga á þessu svæði að skilja sundur umferð bíla annars vegar og stíga fyrir útivistarfólk hins vegar, þótt stundum skorti nokkuð á, að góðu áformin verði að veruleika. Almennt má þó segja, að við séum komnir hálfa leið, þegar skipulagið er komið og reiðleiðirnar sjást á skipulaginu. Lykillinn að árangri er að koma sjónarmiðunum á framfæri strax við gerð skipulags. Þegar bílvegir eru komnir af teikniborði í landslagið, verður nýlagning reiðvega miklu dýrari og torsóttari.

Almenn get ég sagt um samskiptaaðila okkar hjá Vegagerðinni og sveitarfélögum svæðisins, að samskiptin eru orðin miklu ljúfari og árangursríkari en þau voru, þegar nefndin tók fyrst til starfa fyrir hálfum öðrum áratug. Hestamenn standa í mikilli þakkarskuld við þá, sem áður skipuðu nefndina, einkum fyrrverandi formenn, sem þurftu að brjóta ísinn í samskiptum við opinbera aðila.

Þá er ótalinn Sigurður Þórhallsson, fyrrum framkvæmdastjóri Landssambands hestamannafélaga, sem var mikill áhugamaður um reiðvegi og ekki sízt Skógarhólaleið, sem er í umsjón nefndarinnar.

Í ágætum samskiptum við Vegagerðina hefur reiðveganefndin í auknum mæli lagt áherzlu á samning Landssambands hestamannafélaga og Vegagerðarinnar frá 1982 um, að gerður sé reiðvegur af vegafé, þegar lagt er bundið slitlag á vegi, sem notaðir hafa verið öðrum þræði sem reiðvegir.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 2.tbl. 2004.

Ferðamaður eða ekki ferðamaður

Hestar

Sitthvað fleira en hníf og snæri í vösum.

Eitt af því fyrsta, sem ég heyrði um útbúnað til hestaferða, voru hnífur og baggaband í vasanum. Þetta tvennt átti að vera til marks um, hvort maður væri hestaferðamaður eða ekki. Enn eru þetta í góðu gildi sem nytsamlegir hlutir, en ýmislegt fleira kemur í ljós, þegar gamalreyndir fararstjórar eru beðnir um að tína upp úr vösum sínum og hnakktöskum. Hér á eftir fer það, sem þeir telja nytsamlegast að hafa við hendina í hestaferðum. Áður var Eiðfaxi búinn að skoða í vestisvasa Baltasars Samper, þar sem finna mátti sjö-átta kíló af ýmsum ferðahlutum og birtist sú frásögn í þriðja tölublaði síðasta árs.

Andreas Bergmann:

Í vösunum er ég með hníf og baggaband, áttavita og kort, atlasblöð í hlutföllunum einn á móti hundraðþúsund.

Við reynum að hafa jeppa með hópnum og höfum þar regnfatnað, aukapeysur og nóg af nesti, einnig rúsínur og súkkulaði. Annars notum við einn trússhest undir það nauðsynlegasta af þessu. Í trússinu eru líka flugnanet, skeifur og járningadót. Við höfum verið með strigatöskur, sem eru furðanlega vatnsþéttar, en þéttum þær oft að innan með svörtum plastpoka.

Árni Ísleifsson:

Í vösunum hef ég hníf og spotta og í beltinu hef ég fjölnota járningatöng. Þær eru feiknarlega þægilegar og fyrirferðarlitlar.

Ég nota ekki hnakktöskur af neinu tagi, en hef í staðinn trússhest, ef bíll fylgir ekki hópnum. Mér finnst þægilegt að hafa trússhest. Það léttir á reiðhestunum og eykur svigrúm reiðmanna. Í trússinu eru járningatæki, skeifur, sjúkradót, vatnsgallar og nesti til dagsins. Ég nota venjulegar trússtöskur úr striga og set innan í þær maurasýrubrúsa, sem ég er búinn að stinga úr eina hliðina. Brúsarnir passa nokkurn veginn í töskurnar, vatnsverja farangurinn og verja hann gegn hnjaski.

Töskuhesturinn þarf að vera þægur og traustur og það er nóg af slíkum klárum. Hestar venjast trússinu fljótt. Helzt er það aftari gjörðin, sem getur kitlað þá. Ég hef fest ól á milli gjarðanna, svo að aftari gjörðin sæki ekki aftur undir nára. Trússið er yfirleitt léttur burður, 20-30 kíló, sem reynir lítið á hestinn. Mér finnst gott að skipta um trússhest á miðjum degi og létta töskunum af hestunum í áningum.

Bjarni E. Sigurðsson:

Í vösunum er mest lítið, safafernur, vasahnífur og baggaband. Hins vegar hef ég alltaf tvær litlar framtöskur. Í annarri er sjúkradót, blanda af því brýnasta úr sjúkrakössum fyrir menn og hesta, sem eru í trússinu. Meðal þess mikilvægasta eru stór og góð sárabindi fyrir hesta. Þar eru líka góð græðandi smyrsl í stórum, bláum túpum. Ennfremur plástrar og teygjubindi. Það er mikið öryggi að vera þannig búinn, að maður geti tekið á flestum slysum. Ég læt fjaðrir líka í þessa tösku, því að þá hringla þær ekki.

Í hinni framtöskunni hef ég lítil járningatæki, nettan hamar, nettan naglbít og hnykkingatöng. Svo haga ég málum alltaf þannig, að einhver annar í hópnum hafi vandaðri járningatæki í hefðbundinni þverbakstösku, svona til að dreifa byrðinni af sameiginlegum áhöldum á fleiri aðila. Ég fæ líka einhvern þriðja aðila til að hafa á sér bandið, sem við notum stundum og stundum ekki við hestaskipti í áningum.

Einar Bollason:

Í vasanum er ég með svissneskan herhníf og treysti á, að einhver í hópnum sé með járningasamstæðu í beltinu. Annað er ég með í litlum töskum framan við mig í hnakknum og er raunar einn sá fyrsti, sem fór að nota slíkar töskur hér á landi. Þar er ég öðrum megin með blandaðan sjúkrakassa fyrir menn og hesta, ásamt vettlingum. Hinum megin hef ég nesti, botna, tvær skeifur og aukasokka. Þegar maður blotnar, breytir öllu að fara í nýja sokka, þótt maður nái ekki að þurrka skófatnaðinn.

Aftan á hnakknum hef ég mjúka tösku, sem má vöðla saman, ef ekkert er í henni og setja má í þvottavél. Þetta eru töskur, sem norski herinn notar, nánast eins vatnsþéttar og leðurtöskur. Ég hef þessa tösku til vonar og vara, til dæmis ef ég þarf að fara úr peysunni vegna hita. Alltaf er einhver í ferðinni með spotta, sem er nógu langur til að ná utan um öll hrossin í áningu.

Mér finnst mesta upplifunin að vera í trússferðum í fámennum hópi, þar sem farangurinn er á hestum, en ekki í bíl. Ógleymanlegasta ferðin í minningunni er trússferð tveggja hjóna inn á Hveravelli. Við notuðum vaxþéttar gallon-töskur, sem reyndust einstaklega vel.

Hannes Einarsson:

Ég er frekar þungur og reyni að hafa sem minnst af dóti á mér á hestbaki. Eina framfótarskeifu og eina afturfótarskeifu hef ég í vösunum og stundum fleiri, aðallega stærðina 11,5. Svo er ég alltaf með í vasanum Ledermann-hníf, sem hentar til margs konar viðgerða. Svo er baggaband og plastpoki með mylsnu eða nammi fyrir hesta.

Ég er sjálfur ekki með plástra, en vil, að einhver í hópnum sé með nauðsynlegustu sjúkragögn, grisju og bindiplástur. Svo er ég frá gamalli tíð með flautu í vasanum til að nota í rekstri og í þoku, en hef í rauninni ekkert notað hana. Flugnanet er nauðsynlegt, svo og áttaviti. Svo er oft í vösunum ein flatbrauðssamloka og vatnsílát með safa. Nú er yfirleitt búið að banna allt sem heitir áfengi, enda sýnir reynslan, að það hentar ekki á daginn í löngum hestaferðum, allra sízt ef hópurinn er fjölmennur.

Ég er með járningasamstæðu í beltinu, eitthvert mesta þarfaþing, sem ég hef eignazt. Ég á bæði hefðbundna þverbakstösku og stórar hliðartöskur til að hafa af aftanverðu, en nota hvorugt. Mér finnst koma til greina að fá mér litlar töskur til að hafa að framanverðu. Ég hef ekki ferðast með trússhesta, en hefði gaman af að prófa slíka ferð, til dæmis á norðanverðum Ströndum, þar sem ekki verður komið við bílum.

Haraldur Sveinsson:

Alltaf er ég með hníf og spotta í vasa, en ekki mikið annað. Svo er ég með hefðbundna hnakktösku, þar sem ég hef nokkrar skeifur, fjaðrir og naglbít og stundum einnig eina eða tvær brauðsneiðar. Annars hef ég vanizt því að borða vel á morgnana og kvöldin í ferðalögum, en lítið þess á milli.

Áður fyrr var ég mikið í löngum ferðalögum með trússhesta. Ég eignaðist forláta trússtöskur úr leðri hjá Bjarna Ásgeirssyni. Við skiptum um trússhesta einu sinni á meðallangri dagleið og tókum trússið þar að auki af baki, þegar skipt er um hesta. Við vorum sjálfstæðari í gamla daga, þegar við ferðuðumst með töskurnar og gistum í tjaldi, sem við höfðum meðferðis.

Hjalti Gunnarsson:

Fyrir utan vettlingana er ég með sjúkradót og smyrsl, snæri, vasahníf, fjaðrir, skeifur, hrossabursta og hófkrækju í vösunum. Stundum er ég með nesti í vasa, en nota það yfirleitt ekki.

Ég hef líka litlar framtöskur með heimasmíðuðum járningatækjum og skeifum. Ég stytti hnykkingatöng og sauð á hana klaufhamarshaus. Þetta er fjölnota áhald, sem virkar á svipaðan hátt og nýju beltistangirnar. Svo er ég með lítinn naglbíta til að draga út fjaðrir. Í töskunum er líka aukataumur og aukamél. Einnig hengi ég rafmagnsborða í hnakkinn, nógu langan til að ná utan um hrossin, og gæti þess vel að ganga þannig frá trossunni, að hún rakni ekki.

Oft nota ég trússtöskur og á tvennar slíkar úr strigaefni. Ég hef notað glæra plastpoka innan í þær, þeir eru þykkari en þessir svörtu og auðveldara að finna rétta pokann. Ég á líka gamla maurasýrubrúsa, sem ég hef skorið úr eina hliðina. Þeir passa eins og kassar innan í trússtöskurnar. Við þurftum trúss á tvö hesta, þegar við fórum sex karlar norður Kjöl, og þá var létt á hestunum. Mesta fyrirferðin var í svefnpokunum. Við gistum þá í skálum og höfðum ekki tjöld. Á léttum dagleiðum var ekki skipt um trússhest, en tekið af honum í aðaláningu á miðjum reiðdegi.

Guðbrandur Kjartansson:

Ég er með hníf og spotta í vösunum, vatnspela, varasalva og hófkröku. Ennfremur er ég með plastpoka af salthnetum og rúsínum, sem við notum stundum og stundum ekki, svo og nokkrar þurrkaða rúgbrauðskubba til að ná hrossum í skiptiáningu. Þar að auki er ég með ýmis sjúkragögn, hálfs lítra vatnspela og stóran tóbaksklút, sem nota má sem umbúðir og jafnvel sem fetil.

Ég er með hefðbundna hnakktösku úr leðri, saumuð fyrir mig á Raufarhöfn. Þar eru járningatæki, skeifur, fjárbyssa, góður hnífur, sjúkradót, aukavettlingar og aukataumur, svo og annar hálfs lítra vatnspeli. Ég drekk heilan lítra á dag í hestaferð. Við klæðum okkur að morgni til dagsins og höfum ekki meðferðis neinn viðbótarfatnað, til dæmis ekki regngalla.

Ólafur B. Schram:

Ég legg mikið upp úr mörgum vösum. Ég vil hafa ótal hluti við hendina, hvern í sínum vasa. Ég hef fjaðrir í einum vasa, júgursmyrsl í öðrum, stærri hníf, taumalás, stóran vasaklút, sem ég nota í miklu ryki, hnakktöskuólar og boginn nagla, sem ég nota sem hófkrækju og svo framvegis. Ég vil ekki, að hlutirnir séu í bílnum, þegar ég þarf á þeim að halda. Ég er ekki með sjúkragögn í ferð með öðrum, læt aðra um það.

Ég hef Max regngalla í hnakktöskunni eða ofan á henni. Neðan á buxurnar hef ég saumað bönd, sem fara undir skóna, svo að buxurnar dragist ekki upp í reið. Úlpuhlutinn er með anóraksniði, lokaður að framan, mér finnst það betra. Í hnakktöskunni eru líka aukapeysa, aukavettlingar, baggabönd, aukataumur, brauðsneiðar og tjaldhæll til að festa hestinn við, þegar ég sinni öðru fólki. Utan á hnakkinn hengi ég 20 m. fánasnúru til að slá um hrossahópinn í áningu

Ég er líka með litlar hnakktöskur framan við hnakkinn. Þar hef ég skeifur og járningatæki. Þessr töskur hafa sérstakar ólar fyrir hamar og naglbít.

Valdimar K. Jónsson:

Í vösunum er hnífur og baggabönd, tvær skeifur og fjaðrir. Nesti er ég með í sérstakri beltistösku og járningasamstæðu í buxnabeltinu. Þetta er allt og sumt og enga nota ég hnakktösku. Ég hef ekki heldur vanizt því að setja trúss á hesta, en reyni að láta jeppa fylgja hópnum eftir föngum. Ég á trússtöskur, en hef aldrei komið í verk að nota þær.

Viðar Halldórsson:

Í vösunum hef ég júgursmyrsli í tómu filmuboxi til að bera í munnvik og önnur sárindi á hesti. Oft er ég með flugnanet, þótt ég noti það lítið. Oft leynast líka rúsínur, súkkulaði eða harðfiskur í vasa. Það er lítið meira í vösunum, en í beltinu er ég yfirleitt með járningasett eða hníf með fjölbreyttum eiginleikum.

Móðir mín kenndi mér að hafa alltaf þurra ullarpeysu og þurra sokka í hnakktöskunni og fyrstu árin gerði ég það. Einu sinni var ég á ferð úr Skógarhólum, þar sem reiðmaður lenti í hyl í Öxará og blotnaði allur. Hann vildi enga aðstoð. Þegar við komum niður fyrir afleggjarann á Skálafell var honum orðið svo kalt, að hann vildi bara stoppa og leggjast fyrir. Ég þröngvaði honum í sokkana og peysuna, sem ég var með í hnakktöskunni, og held, að það hafi hreinlega bjargað honum.

Ég hef alltaf verið með hefðbundna þverbakstösku, en viðurkenni, að hinar töskurnar eru þægilegri að mörgu leyti. Konan mín er alltaf með litlar töskur framan við hnakkinn. Ég mæli með því, að menn velji slíkar, ef þeir ætla að fá sér tösku. Þær rúma ekki meira en hefðbundna taskan, en það er þægilegra að komast í þær, jafnvel á ferð. Í hnakktöskunni er vatnsgalli og aukasokkar, svo og nesti, ef ég tek það með. Stundum er ég með brauðsneið og safa, ef ég á ekki von á að hitta trússið á leiðinni.

Þormar Ingimarsson:

Í beltinu er járningatöng og GPS tæki með áttavita, sem ég set stundum í brjóstvasann á peysunni, þegar ég þarf að vera fljótur að ná í það. Í vösunum er ég með vasahníf og baggaband, varasalva og sólarvörn, júgursmyrsl og vatnspela, flugnanet og landakort, skíðagleraugu gegn ryki og rafmagnsvírspotta til að laga reiðtygi.

Ég er með poka af brauðmylsnu í litlum plastpoka til að ná hestum og tvöfaldan pakka af Síríus suðusúkkulaði sem neyðarnesti. Svo er ég með tvær skeifur, framfótar og afturfótar. Ég er með marga vasa og flest er þetta fremur létt. Í haust fékk ég mér eins konar veiðivesti með enn fleiri vösum, sem ég ætla að nota næsta sumar, líklega í staðinn fyrir flíspeysu. Þá get ég skipulagt smádótið betur í vasana. Ég nota hins vegar engar hnakktöskur.

Í ferðum með trússhesta, þegar farangur er ekki fluttur á bílum, nota ég gamlar strigatöskur, sem ég set svarta ruslapoka innan í til að halda farangrinum þurrum. Ég miða við eina tösku á mann, hef svefnpokana ofan á og stundum tjald og gítar, ef það á við. Í töskunni er fjallgöngumannamatur og ýmis annar matur, eldunaráhöld og allra nauðsynlegustu föt til skiptanna, svo og nokkrar skeifur. Þar eru líka sjúkrapakkar fyrir menn og hesta. Valdir eru traustir hestar í trússið og þeir látnir hlaupa lausir, nema þegar farið er gegnum hlið.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 2.tbl. 2004

Kennslubók í GPS fyrir þig og mig

Hestar

GPS-staðsetningartæki hafa breiðst út meðal hestamanna, án þess að maður sjái mikla notkun þeirra á ferðalögum. Satt að segja veigra margir sér við að nota þau, af því að þau eru flóknari í viðkynningu en GSM-farsímar og leiðbeiningar með þeim eru enn flóknari og ná sumpart ekki þeim tilgangi að útskýra flókið mál fyrir venjulegu fólki. Í rauninni eru tækin sáraeinföld í notkun, þegar menn hafa lært á þau.

Ég hef notað GPS-tæki um árabil og var nokkurn tíma að átta mig á þeim. Þetta eru ekki tæki, sem þú ferð með beint upp á fjall og ætlar að kortleggja það um leið og þú notar það. Til kunna að vera snillingar, sem geta það, en flestir þurfa að æfa sig á tækið, áður en til kastanna kemur. Þessari grein er ætlað að skýra notkun þeirra fyrir óvönum, til dæmis þeim, sem fengu svona tæki í jólagjöf.

Aðalatriðið er að átta sig á, að venjulegur hestamaður notar ekki nema brot af möguleikum tækisins og þarf ekkert að læra um annað en það, sem hann vill nota. Flestir hafa þarfir, sem nema minna en 10% af getu tækisins. Í einum eða tveimur bíltúrum er hægt að átta sig á notkun þess.

Kortið og áttavitinn

Flestir hestamenn þurfa aðeins að kunna tvö atriði á GPS-tæki, annars vegar að sjá, hvar þeir eru staddir á kortinu og hins vegar að vita, hverjar eru áttirnar. Hvort tveggja er einfalt og árangursríkt í GPS-staðsetningartæki. Fátt getur alvarlegt hent þann, sem veit, hvar hann er staddur og hverjar áttirnar eru.

1. Ekki þarf að lesa neinar leiðbeiningar til að finna, hvar þú ert á kortinu. Rafhlöður þurfa að vera í tækinu, þú þarft að kveikja á því og bíða í tvær mínútur eftir að tækið nái gervihnattasambandi. Að því loknu flettir þú skjámyndum unz þú kemur að Íslandskortinu. Þar er ör sem sýnir, hvar þú ert staddur á kortinu. Þú getur stækkað og minnkað mælikvarða kortsins.

2. Þú þarft ekki heldur lesa leiðbeiningar til að finna áttavitann. Þú þarft kannski að nota leiðbeiningar til að finna staðinn á skjámyndinni, þar sem þú gangsetur áttvitann. Að því loknu þarftu að snúa þér hægt í þrjá hringi til að gera tækinu kleift að átta sig. Sú stilling virkar unz þú þarft næst að skipta um rafhlöður. Eftir hverja skiptingu þarf að stilla áttavitann upp á nýtt.

Meira en þetta þurfa fæstir að kunna. Þú þarft ekki að lesa leiðbeiningar, nema þú ætlir að finna út, hvernig ferlar og leiðir, þínar eigin eða annarra hestamanna, eru settar inn í tækin. Ef þú þarft ekki á því að halda, geturðu hætt að lesa þessar leiðbeiningar og farið beint í að æfa þig í að finna Íslandskortið og stilla áttavitann. Takk fyrir lesturinn, góða skemmtun!

Tækin sjálf

Sjálfur nota ég tveggja ára gamalt eTrex Vista frá Garmin, sem er svart-hvítt staðsetningartæki með sæmilegu Íslandskorti. Nú eru komin betri tæki í lit, sem gerir kortin mun aðgengilegri en þau voru áður. Slík tæki fást í ýmsum útgáfum bæði frá Garmin og Magellan. Takkar og matseðlar á þessum tækjum eru misjafnir eins og öðrum slíkum, þannig að hvert tæki þarf sína kennslubók.

Ekki ætla ég að reyna að búa til kennslubók um takka og matseðla, heldur skýra almennt meðferð tækjanna, burtséð frá því, hvar hver aðferð er í tækinu og hvernig hún virkar. Menn verða að lesa leiðbeiningar með tækjunum, sérstaklega svonefndan Quick Start Guide, og nota þær samhliða lestri þessarar greinar.

Fyrst er mikilvægt að átta sig á, hvaða skjámyndir eru í tækinu, hvernig flett er milli skjámynda og hvernig menn færa sig til á skjámynd, upp og niður, til hægri og vinstri og hvernig valdar eru línur í matseðlum, sem koma í ljós, þegar stimplað er á svæði í skjámyndinni.

Passið rafmagnið

Fljótt komast menn að raun um, að GPS-tæki fyrir hestamenn éta rafhlöður eins og kjötsúpu. Ef tæki er haft opið í gangi í heilan dag, er það búið að ná meira en helmingnum af rafmagni tveggja rafhlaða. Í rauninni kveikja menn því aðeins á tækinu, þegar þeir þurfa að nota það, en hafa yfirleitt slökkt á því þess á milli.

Það er eitt algengasta vandamálið að vera búinn með rafhlöðurnar á miðjum degi, þegar eftir er að skrá mikilvægustu punkta dagsins. Næstalgengasta vandamálið er að vera búin með rafhlöðurnar í miðri langferð, af því að menn hafa vanmetið eyðsluna á rafmagni. Passið því ævinlega að hafa nóg af rafhlöðum í trússinu.

Vasatæki og bílatæki

Til eru staðsetningartæki, sem eru tengd við rafmagn, til dæmis í bíl og má hlaða upp. Það eru þyngri tæki, fara verr í vasa og ekki eins hentug fyrir hestamenn, því að við getum lent í að hafa engan aðgang að rafmagni dögum saman, ekki einu sinni bílarafmagni. En þetta er atriði, sem hver kaupandi þarf að gera upp við sig.

Þeir, sem þurfa að nota tækið við akstur erlendis, til dæmis sölumenn eða þjónustumenn, mundu frekar kaupa bíltæki með stórum skjá og sem gefur viðvörun, þegar beygja þarf á krossgötum. Slík tæki eru notuð erlendis til að finna heimilisföng viðskiptavina, hótela og veitingahúsa. Ég prófaði slíkt tæki líka, GPSmap 276C frá Garmin og það virkar á svipaðan hátt og Etrex Vista.

Skjámyndir og matseðlar

Etrex Vista tækið hefur nokkrar skjámyndir. Fremst eru sýnd gervitungl og samband tækisins við þau. Síðan kemur kortaskjár með Íslandskorti. Þá er áttaviti með segulleiðréttingu. Næstur er hæðarmælir. Svo kemur talnaskjár, sem sýnir ýmsar stærðir, svo sem ferðahraða og áætlaðan ferðatíma. Loks er skjár með táknmyndum og er hann mest notaður.

Á táknmyndaskjánum er íkon eða fyrir merkingu punktsins, sem þú ert staddur á í því andartaki. Þar er táknmynd til að merkja (mark) leiðarpunkta í tækinu. Einnig táknmynd til að finna (find) leiðarpunkta (waypoints) í tækinu. Þá er táknmynd til að finna ferla (tracks) í tækinu. Ennfremur er táknmynd til stillingar (setup) á tækinu. Loks er táknmynd fyrir ýmis hliðarforrit (accessories).

Þú þarft að læra að fletta milli skjámyndana, kunna að nota gleðipinnann (joystick) til að færa sig milli staða á skjánum og til að velja stað á skjánum, til dæmis til að ná í vallista til að velja aðgerð af. Þetta er allt saman spurning um fingrafimi, sem lærist af reynslunni.

Önnur tæki eru að einhverju leyti frábrugðin þessu tæki. Ég er með GPSmap 276C staðsetningartæki frá Garmin fyrir framan mig. Það hefur fleiri takka á sér, stærri skjá, góðan lit og að ýmsu leyti aðra uppsetning á skjámyndum og matseðlum. Menn þurfa að læra á hverja tegund tækja fyrir sig, ekki aðeins á hvern framleiðanda fyrir sig.

Ferlar og leiðir

Mikilvægt er að skilja mismun á eðli ferla (tracks) og leiða (routes).

1. Ferlar eru raðir ótal lítilla ferilpunktar(trackpoints), sem merkjast sjálfkrafa inn og sýna samanlagt ferð, sem hefur verið farin. Í þessu tilviki er hugsunin sú að skrásetja nákvæmlega leiðina, svo að hægt sé að setja hana nákvæmlega inn á kort og fara nákvæmlega eftir henni.

2. Leiðir eru raðir af miklu færri leiðarpunktum (waypoints), sem settir eru handvirkt inn á mikilvægum stöðum, svo sem krossgötum, afleggjurum, girðingarhliðum, vöðum, gerðum og skálum. Í þessu tilviki er hugsunin sú, að óþarfi sé að merkja inn aðgerðalitla kafla leiðarinnar, aðeins þau hnit, sem skipta máli, þegar taka þarf ákvörðun.

Ef þú keyrir frá Selfossi til Hvolsvallar með tækið í gangi verða til ferilpunktar, sem sýna leiðina með öllum sínum beygjum. Þú getur líka stimplað handvirkt inn leiðarpunkta, sem sýna mikilvæga áfanga, svo sem Skeiðavegamót, Þjórsárbrú, Landvegamót, Hellu, Gunnarsholtsveg. Hvor aðferðin fyrir sig hefur sitt ákveðna gildi.

Þetta gerir þú:
Báðar aðferðirnar eru einfaldar, þegar maður hefur lært á þær.

1. Ferlar eru búnir til með því að hreinsa (clear) opið ferilminni við upphaf ferðar og vista (save) það við lok hennar.

2. Leiðir eru búnar til með því að stimpla (click) tvisvar á takka eða gleðipinna á minnisverðum stöðum og fara síðar, kannski lögu síðar í tölvu og raða leiðarpunktunum upp í leiðir að ferð lokinni, til dæmis næsta vetur.

3. Handhægast er auðvitað að láta aðra gera þetta fyrir sig, byggja á gögnum þeirra, sem hafa gert þetta áður. Þá þurfa menn einungis að kunna að hlaða (import) hnitatöflum inn í tölvu sína og síðan að hlaða (export) þeim úr tölvunni inn í GPS-tækið, þá kemur leiðin fram á kortinu í tölvunni.

Tækjunum fylgja forrit til að gera þetta og þau eru sáraeinföld í notkun. Bezt er að fylgja bara forskriftinni og vera ekki með sérvizku í vali á hnattvarpi eða hnitaeiningum.

Ef þú ert svo heppinn að geta fengið ferla og leiðir hjá öðrum og þetta er allt komið inn í tækið, er eiginlega ekkert eftir fyrir þig að kunna eða gera. Þú kveikir á tækinu, bíður í 2-3 mínútur eftir gervihnattasambandi, flettir á skjámynd Íslandskortsins og sérð nákvæmlega, hvar þú ert í heiminm. Þú getur aukið (zoom) eða minnkað mælikvarðann á kortinu.

Ferilpunktar

Við skulum byrja að útskýra innsetningu ferilpunkta (trackpoints). Þú ákveður fyrst að byrja dagleið með hreint borð, núllpunkt. Þú eyðir úr minninu þeim lausu ferilpunktum, sem orðið hafa til meðan þú varst að sækja hestana í haga, leggja á, fara í fyrirstöður og gera annað það, sem þarf við brottför.

Það er oft furðu mikill þvælingur í upphafi ferðadags og þú vilt ekki að hann trufli leiðina. Þú núllstillir (clear) feril dagsins með því að eyða lausaminninu. Síðan gerir þú ekkert fleira, tækið sér um sjálft sig alla dagleiðina, allan ferilinn. Þegar þú kemur í náttstað vistar (save) þú feril dagsins og ert komin með eina dagleið í tækið.

Við enda dagsins er mikilvægt að vista ferilinn strax og komið er á áfangastað til að koma í veg fyrir að truflandi viðbót komi í hann af rölti þínu fram og aftur um svæðið.

Þegar þú ert búinn að vista feril dagsins, sérðu hvað dagleiðin hefur verið löng. Þú getur kallað hana fram á korti, annað hvort kortinu í tækinu eða á stafrænu korti í tölvunni þinni.

Þú þarft að finna skjámyndina og matseðilinn, þar sem gefinn er í fyrsta lagi á kostur á að núllstilla ferilinn og í öðru lagi að vista hann. Ef þú manst að núllstilla dagleiðina fyrst og vista hana síðast, þarf ekkert að hugsa um annað. Tækið sér um sig sjálft. Þú þarft hins vegar að passa upp á, að það týnist ekki, hristist ekki of mikið og sé utarlega í fötum þínum.

Til þess að tækið týnist ekki, hefurðu snúru úr því um hálsinn. Til þess að það hristist ekki, svo að það slokkni ekki óvart á því, hefurðu það í brjóstvasa. Og til þess að það sé nógu utarlega til að ná gervihnattasambandi hefurðu það í yzta fatinu, venjulega í úlpuvasa. Flestar úlpur hafa litla brjóstvasa utan við rennilásinn á bringunni. Þú þarft bara að passa að losa um hálsólina áður en þú ferð úr úlpunni, svo að ólin slitni ekki.

Ferlar

Innsetning ferilpunkta hefur þann tilgang að búa til ferla (tracks) og setja í ferlasöfn, annað hvort þitt safn eða eitthvert almennt safn. Venjulega þarf að hlaða ferlinum inn í tölvu og fikta þar við hann áður en hann fær sitt endanlega form. Venjulega þarf að eyða ferilpunktum, sem verða til í áningarstöðum, þar sem menn eru á röltinu án þess að það komi við ferlinum í heild.

Þegar búið er að eyða slíkum óþarfa punktum, sem geta orðið margir á nokkurra fermetra svæði, er ferillinn fullbúinn til notkunar. Landmælingar Íslands geta til dæmis tekið ferilinn og hlaðið honum inn á reiðleiðkortið, sem þær hafa á veraldarvefnum. Þar geta aðrir séð ferilinn á korti og haft hann til hliðsjónar, ef þeir hyggjast fara sömu leið, en geta að vísu ekki límt hnitin í sína tölvu.

Hin leiðin til að vinna ferla til frekari notkunar er að tína til mikilvæga punkta ferilsins, svo sem krossgötur, afleggjara, girðingarhlið, vöð, skála, gerði og mikilvæga hlykki á ferðinni og búa til grunn að leið. Þá eru hnit mikilvægra ferilpunkta límd inn í röð í töflu, sem myndar leið.

Slíkt er raunar betra að gera án þess að nota ferilpunkta. Þá ýtir maður handvirkt á hnapp, hvenær sem maður kemur að einhverju minnisverðu atriði í landslaginu, svo sem krossgötum, afleggjurum, girðingarhliðum, vöðum, skálum og gerðum.

Leiðarpunktar á hestbaki

Þá erum við komin að hinni aðferðinni við innsetningu upplýsinga í tækið, innsetningu leiðarpunkta (waypoints). Munurinn á þeim punktum og ferilpunktunum er sá, að þú þarft að ýta tvisvar á hnapp eða gleðipinna á tækinu til að merkja leiðarpunkta, en tækið setur sjálft inn ferilpunkta. Á sumum tækjum þarf að halda hnappi niðri smástund áður en þrýst er á í seinna skiptið.

Þú þarft ekki að gera annað en að ýta tvisvar á viðeigandi hnapp, venjulega gleðipinnan, til að merkja leiðarpunkt. Þú getur beðið með að gefa punktinum heiti og gefa honum einkennistákn, þangað til þú ert kominn heim í tölvuna þína, þar sem auðveldara er að vinna við slíkt með lyklaborði og stórum skjá.

Athugaðu að ekki er nauðsynlegt að stimpa inn beygjur á reiðleið, þú sérð þær yfirleitt. Það er ekki tilgangur leiða að líkja eftir ferli, aðeins að merkja punkta, sem skipta máli, krossgötur, afleggjara, girðingarhlið, vöð, skála og gerði.

Ég áttaði mig á nytsemi GPS-tækja, þegar við hjónin vorum á leið Kirkjustíginn frá Keldum á Rangárvöllum í átt að Koti og Næfurholtsbæjum. Ég vissi, að girðing með hliði var á leiðinni, en vissi ekki nákvæmlega, hvar það var, en það væri ekki á leiðinni. Þegar ég kom að girðingunni, vissi ég ekki, hvort ég átti að fara upp með henni eða niður með henni, af því að hafði ekki hnitin á hliðinu.

Athugaðu líka, að þú þarf tíma til að athafna þig við hvern leiðarpunkt. Ef skrið er á rekstrinum, getur verið erfitt að sækja tækið í vasann, tvísmella gleðipinnanum og passa að átakið sé lóðrétt niður á tækið, en hvorki upp eða niður, til vinstri eða hægri. Ferilpunktarnir skrá sig hins vegar sjálfir.

Leiðir heima fyrir

Heima hjá þér raðar þú í tölvunni upp leiðarpunktum í töflu sem verður að einni leið (route). Þú getur bætt inn punktum úr ferli eða úr annarri leið eða fellt út punkta eftir hentugleikum. Þú getur líka vélritað inn hnit nýrra punkta, sem þú hefur fengið annars staðar, til dæmis úr hnitaskrá fjallaskála.

Þegar þú ert búinn að búa til heila leið með þessum hætti og hlaða henni aftur inn í GPS-tækið þitt, sérðu leiðina á korti með viðeigandi heitum mikilvægra staða og táknmyndum fyrir tegundir staða á leiðinni. Leiðin fellur eðlilega inn í landslag kortsins, þar sem hæðarlínur og örnefni sjást.

Í stórum dráttum verða leiðir til á þann hátt, að fyrst eru merkt inn kennileiti og svo er seinna, kannski löngu seinna þessum hnitum raðað upp í röð, sem mynda leið. Síðari áfanginn er unninn á heimatölvunni, ekki í GPS-tækinu, nema menn séu í vandræðum með að finna eitthvað til að drepa tímann.

Mín aðferð

Ég hef að mestu orðið að byrja frá grunni, þar sem aðgengi mitt að punktum frá öðrum aðilum er takmarkað. Hægt er að hlaða inn hnitum skála af vefnum og sömuleiðis leiðum af heimasíðum jeppamanna og vélsleðamanna, en hestamenn hafa því miður ekki slíkan gagnabanka enn, þrátt fyrir samstarfið við Landmælingar.

Ég ríð leið og læt tækið skrá feril hennar sjálfvirkt. Síðan fer ég næsta vetur í að að hreinsa ferilinn og búa til hreinan feril. Við sama tækifæri bý ég til leið með því að taka upp mikilvægustu ferilpuntana og hlaða þeim inn á band leiðarinnar. Ef ég fer aftur sömu ferð, hef ég bæði feril hennar og leið hennar í GPS-tækinu. Ég get farið ferðina í hvora átt sem er.

Dæmi um slíka notkun mína Löngufjörur. Þegar ég er einu sinni búinn að fara yfir vað, hef ég hnit þess í tækinu og get næst farið yfir ána á nákvæmlega sama stað og þannig aukið líkur á að ég komist klakklaust yfir, svo framarlega sem ég ana ekki beint út í, heldur met aðstæður hverju sinni. GPS-tæki koma ekki í stað árvekni og hugsunar.

Í fyrrasumar var ég fararstjóri í ferð á Löngufjörum. Ég var vanur að koma að landi vestan við Saltnesál eftir landslaginu, eins og það sást utan frá leirunum. Nú hafði vaðið færst svo upp eftir álnum, að við vorum komin upp undir landsteina. Þaðan frá séð leit landslagið út á allt annan hátt heldur en utan frá leirum séð. Þá var tækið hentugt, ég dró það upp og reið áfram undir fjörunni, unz tækið sýndi rétta staðinn til að taka land.

Með GPS-tæki í vasa get ég sennilega farið í svartamyrkri um allar Löngufjörur og fundið réttu vöðin. Það eina, sem vantar í tækið, eru flóðatöflur, sem birtar eru í Almanaki hvers árs. GPS leysir ekki allan vanda.

Leið flestra

Flestir munu fljótlega ekki nota GPS-tækin til að safna ferlum eða leiðum, heldur aðeins til að skoða ferla og leiðir úr gagnabönkum, sem aðrir hafa safnað, og ríða eftir þessum upplýsingum. Slíkar upplýsingar eru aðgengilegar í hnitatöflum, sem menn hlaða fyrst inn í tölvuna sína og síðan úr henni í GPS-tækið.

Sennilega fylgir forrit og tölvutengi öllum GPS-tækjum. Þú þarft að finna staðinn á tölvunni, þar sem tengt er. Síðan opnar þú tölvuna og forritið. Þar getur þú fundið skipun um að flytja inn (import) hnitaraðir, sem þú til dæmis finnur á vefnum. Þar getur þú líka fundið skipun um að flytja út (export) hnitaraðir, annað hvort ferla eða leiðir, úr tölvunni inn í GPS-tækið, sem þá stundina er tengt við tölvuna.

Garmin-tækin nota til þessa forrit, sem heitir MapSource. Það á að vera sáraeinfalt í notkun fyrir alla, sem eru vanir að taka inn gögn, meðhöndla þau og senda frá sér. Þessi þáttur í notkun GPS-tækja er einkar mikilvægur, því að tölvan gefur betra svigrúm til að skrifa inn heiti, tákn og skýringarmyndir, svo og skýringartexta.

Landmælingakortið

Auðvitað væri einfaldast, ef Landmælingarnar hefðu slíkar hnitaraðir aðgengilegar. Því miður er sá stóri, sá risastóri galli á framtaki Landmælinganna í samstarfi við Landssamband hestamannafélaga, að forritið að baki kortsins á vefnum tekur ferla og leiðir bara inn í sig, en skilar þeim ekki út. Forritið er eins og svarthol í stjörnufræðinni.

Það er ekki hægt að merkja feril á kortinu og hlaða honum inn í tölvuna sína stafrænt, heldur verða menn að nota músina til að pota í leiðina og handskrifa niður hnitin og slá síðan inn handvirkt á lyklaborð hnit stakra punkta, sem er auðvitað hrein Kleppsvinna. Ég skil alls ekki þessi vinnubrögð Landmælinganna. Þar kalla menn útflutning gagna “fídus”, sem komi síðar.

Til að bæta úr þessari vondu skák er nauðsynlegt, að Landmælingarnar séu með síðu, þar sem skráðar eru reiðleiðir. Þegar menn velja ákveðna reiðleið af listanum, komi upp tafla með öllum hnitum leiðarinnar. Þessa töflu geti menn svo vistað í sinni eigin tölvu.

Meðan Landmælingarnar ráða ekki yfir þessari einföldustu stafrænu tækni útflutnings gagna úr gagnabanka, verða menn að fá ferla og leiðir hjá vinum og kunningjum. Þetta má eftir aðstæðum kalla hlægilegt eða grátlegt, en svona er ástandið.

Fyrr eða síðar verður að finna leið til að vista hnit reiðleiða á vefnum, svo að öllum sé aðgengilegt. Ef Landssamband hestamannafélaga losnar úr bóndabeygju Landmælinganna, getur það haft frumkvæði að slíku, annars verður framtakið að koma frá einstaklingum, eins og raunin hefur verið hjá jeppamönnum og vélsleðamönnum.

Niðurlag

Eins og áður segir, enda kynni okkar við GPS-tækið á þann hátt, að tæknin verður sáraeinföld í notkun.

1. Ef þú ætlar ekki að búa neitt til, þarftu annars vegar að geta fundið Íslandskortið í tækinu og finna aðferðina við að stilla áttavitann, svo að hann virki.

2. Til að eignast hnit ferla eða leiða frá öðrum aðilum þarftu að kunna að hlaða hnitatöflum í tölvuna þína og síðan úr henni í GPS-tækið.

3. Til að búa til eigin ferla, þarftu að kunna að núllstilla hvern feril við upphaf og vista hann á leiðarenda.

4. Til að búa til eigin leiðir, þarftu fyrst að merkja mikilvæga punkta með tvísmellingu og tengja þá síðar saman í tölvu til að búa til leið.

GPS-tæki búa yfir mörgum eiginleikum og ber þar hæst Íslandskortið, sem sýnir mikilvæg örnefni og hæðarlínur.

Einnig er mikilvægur áttavitinn, sem býr yfir leiðréttingu vegna segulskekkju. Athugaðu, að stilla þarf áttavitann eftir hver skipti á rafhlöðum. Athugaðu líka, að þú ert áttavitalaus, ef rafhlöðurnar eru búnar. Þá er betra að vera með gamaldags áttavita, sem ekki gengur fyrir rafmagni.

Tækin sýna einnig hæð yfir sjávarmál, ferðahraða, hreyfingar himintungla, dagbók, veiðidaga og reiknivél. Nýjustu bílatækin eru heilt safn af undursamlegri tækni. Þau tala mannamál og vara þig við, þegar þú nálgast krossgötur, þar sem þú þarft að beygja.

Framtíðin

Senn munu koma tæki, sem sameina GPS + farsíma eða GPS + lófatölvu eða allt þetta þrennt, GPS + farsíma + lófatölvu. Vönduð kort eru fáanleg fyrir ýmsa heimshluta, ef þú hyggst fá þér bílaleigubíl í útlöndum.

Og svo eru aðeins nokkur ár, þangað til sögunnar kemur enn nákvæmari tækni en GPS, það er að segja gervihnattanet Evrópusambandsins. Það kerfi heitir Galileo og verður toppurinn á tilverunni. Þá veistu örugglega, hvort þú ert að ríða á veginum eða í skurðinum við hliðina!

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 2.tbl. 2004

Þungavigtarbók um íslenzka hestinn

Hestar

Loksins höfum við fengið sófaborðsbók um íslenzka hestinn, rúmlega þriggja kílóa þungavigtarbók um nokkurn veginn alla þætti hestsins og hestamennskunnar. Bókin heitir Íslenski hesturinn og mun sóma sér á hverju heimili, sem er í hestamennsku.

Myndirnar eru tromp bókarinnar. Hvergi er samankomið á aðgengilegum stað eins mikið og fjölbreytt úrval alls konar mynda, sem ótrúlega margar hafa hvergi birzt áður. Hér er endalaust hægt að fletta fram og aftur og njóta myndanna, sem gegna lykilhlutverki í bókarhönnun Gísla B. Björnssonar.

Textinn er yfirleitt lipurt skrifaður á góðri íslenzku. Helzt má að honum finna, að víða flæðir hann meira en eðlilegt er í góðri sófaborðsbók. Hann flæðir oft milli opna, jafnvel í miðri málsgrein. Víða tekst að hemja hann, en sums staðar ekki. Bókin hefði orðið betri, ef öguðum og knöppum stíl sófaborðsbóka hefði verið stífar haldið.

Í slíkum bókum er venjan að aga textann í aðgreinda kafla inn á opnur, sem hver hefur sitt sjálfstæða hlutverk í bókinni, með eigin fyrirsögnum. Þá er léttara að nota hverja opnu án tillits til þess, sem fór á undan eða fer á eftir, svo sem sjá má í hverri bókabúð, sem selur sófaborðsbækur. Það eru bækur til að fletta óskipulega á ýmsum tímum, oftast skamman tíma í senn.

Vægi einstakra greina er misjafnt í bókinni. Meira er um ættir hesta en heilsufar þeirra. Meira er um keppni og keppnishesta en um útreiðar og hirðingu. Sjálfur hefði ég viljað, að bókin veitti mér meiri skilning á forsögu íslenzka hestsins, leið hans frá Norður-Asíu hingað vestur í Atlantshaf og um hlutverk hernaðar og herferða í þróun hestamennsku.

Auðvitað er þetta ekki fræðirit og á ekki að vera það. Bók af þessu tagi er auðvitað samantekt og úrvinnsla upplýsinga, sem til eru í öðrum bókum, skjölum og tímaritum, ekki sízt í Eiðfaxa. Hún hlýtur því að endurspegla misjafnlega mikinn þekkingarforða um ýmis svið hestamennskunnar, þar sem þyngst hafa vegið ættfræði og sýningar af ýmsu tagi.

Þáttur Þorgeirs Guðlaugssonar um landnám íslenzka hestsins erlendis er sér á parti. Þar gerist bókin heimild, verður fræðitexti. Þar koma fram upplýsingar, sem ég hef ekki séð áður, um að hrossin, sem flutt voru utan á öndverðri nítjándu öld, fóru ekki öll í brezkar kolanámur, heldur voru mörg hver seld sem sporthestar og jafnvel flutt til annarra landa, svo sem Danmerkur og Bandaríkjanna.

Ég hefði viljað fá meiri innsýn í reiðmennsku forfeðra okkar á miðöldum í samanburði við reiðmennsku úti í Evrópu. Ég hefði til dæmis viljað átta mig betur á notkun skeifna, söðla og ístaða á þessum tíma á Íslandi og fá skýringu á, hvers vegna Íslendingar fóru einir þjóða af baki til að berjast, einmitt á riddaratímanum í Evrópu. En bókarhöfundar hafa orðið að sæta skorti á íslenzkum rannsóknum á þessum tíma.

Ekki hnaut ég um villur í bókinni. Í myndatexta á bls.384 með Nautavaðsmynd er talað um Þrándarholt, sem ég held eiga að vera Þjórsárholt. Mér fannst ónákvæmt að fjalla um samskipti norrænna manna við kalífaveldið í skýringartexta a bls.402, þar sem fjallað var um ferðir Íslendinga í Miklagarð. Þar var soldáninn og í Bagdað var kalífinn, en þangað komu Íslendingar ekki. Þeir unnu hjá tyrkneska soldáninum, en fluttu hingað mynt, sem hafði flækzt frá persneska kalífanum.

Þá fannst mér skorta í kaflanum um blöppið, að nefnd háskólans um þá stærðfræði fjallaði um hana sem stærðfræðilega aðferðafræði, en ekki um, hvort sú stærðfræði hentaði þeim tiltekna raunveruleika, sem hún átti að mæla, en um það snerist deilan um blöppið. Niðurstaða nefndarinnar var því ekki marktækt innlegg í sjálfa deiluna.

Allar þessar aðfinnslur eru um minni háttar atriði og mega ekki skyggja á þær staðreyndir, að útgáfa bókarinnar er þrekvirki og að árangurinn af starfinu er frábær. Þetta er bók, sem mun liggja lengi á mínu sófaborði. Ég mun oft fletta í henni og staðnæmast hér og þar eftir tíma og aðstæðum. Þannig er góð sófaborðsbók.

Bezti kaflinn fannst mér vera um hestinn í myndlist Íslendinga á 20. öld. Þar er með ljósmyndum af frábærum listaverkum sýnt fram á, hvernig hesturinn hefur alla tíð verið lykilþáttur í verki þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar, allt frá Jóni Stefánssyni og Jóhannesi Kjarval, Finni Jónssyni og Þórarni B. Þorlákssyni.

Kaflinn um myndlistina ber auðvitað merki annars ritstjóra bókarinnar, Gísla B. Björnssonar, sem er sjálfur listamaður. Þegar ég fletti þessum ágæta kafla, hugsaði ég með sjálfum mér, að næst þyrfti Gísli að færa okkur sófaborðsbók, sannkallaða þungavigtarbók um hestinn í íslenzkri myndlist 20. aldar.

Bókarkaflar eru 16, misjafnlega langir: Uppruni í Asíu. Landneminn. Hjörðin. Litaskrúð. Íslandssagan. Vagnar og vélar. Reiðtygi. Fas og gangtegundir. Hestamennska nútímans. Tamning og þjálfun. Ræktun. Keppni og sýningar. Í útlöndum. Listir og bókmenntir. Göngur og réttir. Fjallafrelsi.

Íslenski hesturinn er rúmlega 400 blaðsíður í mjög stóru broti. Þar eru um 700 ljósmyndir. Ritstjórar eru Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson. Þar fyrir utan fjalla Sigríður Sigurðardóttir um reiðtygi, Þorgeir Guðlaugsson um hestinn á erlendri grundu og um keppni, Kári Arnórsson um ræktun. Ljósmyndarar eru auðvitað fjölmargir. Útgefandi er Mál og menning í samstarfi við Sögusetur íslenska hestsins á Hólum. Bókin er prentuð í Odda.

Hér á næstu opnu fyrir aftan er minnkuð útgáfa af einni opnu úr þessari frábæru bók, sem á eftir að gleðja margan hestamanninn á komandi jólum. Til hamingju með þetta afrek.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 1.tbl. 2004.

40 km dagleiðir

Hestar

40 km dagleiðir

Fararstjórarnir

Eiðfaxi hefur talað við nokkra gamalreynda fararstjóra í löngum hestaferðum um, hvernig ferðadagar séu skipulagðir. Svör nokkurra þeirra birtust í tveimur síðustu tölublöðum. Hér í opnunni og á næstu opnu birtast nokkur svör í viðbót. Þar með lýkur þessum greinaflokki.

Baltasar Samper:

Þrjár vikur og jafnvel fjórar finnst okkur vera hæfileg lengd á sumarferð. Við ríðum fyrst í tvo daga til reynslu og reynum svo að hvíla hestana á þriðja degi ferðar, ef aðstæður leyfa, annars við fyrsta tækifæri. Síðan gerum við ráð fyrir einum eða tveimur hvíldardögum í hverri viku. Stundum er hægt að nota aukadaga til að skreppa á bílnum í sund eða hitta bændur og búalið, þegar riðið er í byggð.

Við erum yfirleitt með níu-tíu hesta saman við tvö. Okkur finnst gott að nota fjóra hesta á dag og hvíla einn, ef aðstæður leyfa. Á venjulegum dagleiðum þurfum við ekki nema þrjá-fjóra hesta. Áfangar hjá okkur eru oft hálfur annar klukkutími eða tíu kílómetrar. Við stefnum að 40 kílómetra dagleiðum, sem taka þá um átta klukkustundir. Inn á milli geta verið lengri dagleiðir, ef aðstæður kalla á slíkt. Við erum samt ekki að rembast við langar dagleiðir, því að við erum fyrst og fremst að slaka á.

Við ríðum reglubundið út allan veturinn, svo að hestarnir eru vel þjálfaðir. Við sleppum þeim svo í haga yfirleitt um miðjan júní. Við snertum þá svo ekki fyrr en kemur að ferðalaginu í júlí. Þeir fá góðan tíma til að hvíla sig fyrir ferðina. Þjálfunin um veturinn nægir þeim vel til undirbúnings. Þeir tapa ekki formi á þremur vikum. Við teljum þetta fara vel með hestana og gott að fara af stað í ferð með úthvílda hesta. Ef hross hafa ekki fengið vetrarþjálfun og koma beint af útigangi, er skynsamlegt að láta þau bara hlaupa með fyrstu þrjá dagana, áður en farið er að brúka þau.

Við byrjum daginn eftir morgunmat á fundi, þar sem ég afhendi hverjum fyrir sig kort og lýsingu dagleiðarinnar. Þar ræðum við svo um, hvernig dagurinn verður, hvernig líklegt sé, að áfangarnir skiptist og hvar sé bezt að nota hvaða hest, hvar séu ár á leiðinni og svo framvegis. Einnig er farið sérstaklega yfir leiðina, sem bílstjórinn þarf að fara, sem oft er allt önnur leið. Við áætlum líka ferðatíma og komu í nýjan næturstað. Síðan er farið að pakka trússinu og fella tjöld. Trússarinn gengur svo frá hestagirðingunni, þegar við erum farin af stað.

Hann reynir svo að vera kominn á undan okkur á nýja staðinn til að setja girðinguna upp, áður en við komum. Þegar reiðfólkið kemur, er byrjað á að reisa stóra eldunar- og matartjaldið, sem tekur enga stund. Kristjana og kvenfólkið fer að elda, en ég og karlarnir förum að ganga frá hestunum, gefa þeim og líta á járningar.

Við reynum að byrja daginn á ungu klárunum og leyfum þeim gömlu að liðka sig, áður en við förum á bak þeim. Ef dagleiðin er venjuleg, förum af stað eftir hádegið, þegar hestarnir eru búnir að leggja sig í hádeginu. Við leggjum oft af stað um tvöleytið og erum komin í náttstað um tíuleytið eða framundir miðnættið. Við erum helzt á ferðinni í júlí, þegar nætur eru bjartar. Ef dagleiðir eru langar eða við þurfum að fara yfir ár, sem eru minnstar á morgnana, förum við fyrr af stað.

Yfirleitt er engin sérstök stjórn á hlutunum, þegar allt er í lagi og flestir eru vanir. Gott er að hafa einn eða tvo í forreið og einhverja, sem eru tilbúnir að fara á vængina, ef á þarf að halda. Ég er oft fremstur, ef leiðin er vandrötuð. Flestir eru í eftirreið, nema þeir vilji vera fyrir framan vegna viljugra hesta. Svo er fólk stundum á hestum, sem ekki er hægt að beita, og þá er það óvirkt meðan á því stendur. Að öðru leyti eru flestir vanir rekstri og geta tekið þátt í honum.

Ég hef gamaldags svipu, sem ég renni í vasa sem ég hef látið sauma á skálmarnar, svo að ég týni henni ekki. Hana nota ég til að koma í veg fyrir, að lausir hestar fari fram úr mér. Margir ferðafélaga okkar eru með píska og vinna vel með þeim.

Við látum hrossin mest ráða ferðinni, enda eru þau flest vön ferðahross. Forreiðin þarf stundum að halda aftur af fremstu hestunum, ef of mikið er rekið á eftir lestinni. Yfirleitt gengur þetta vel, hestarnir lesta sig fljótt, rúlla slakir og fínir og auka hraðann, þegar gatan er góð. Ætli hraðinn sé ekki um svona sjö kílómetrar á klukkustund á venjulegri götu.

Í hnakkinn kl.10

Þormar Ingimarsson:

Á síðari árum hefur það verið föst regla hjá mér að fara ekki um ókunnar slóðir nema hafa einhvern staðkunnugan með í ferð. Ég er alveg hættur allri ævintýramennsku á því sviði. Það er heldur ekki svo dýrt að ráða topp-leiðsögumann, þegar kostnaðurinn skiptist á marga ferðafélaga, þúsundkall á mann á dag upp í tíuþúsund krónur alls á dag. Slíkur maður þekkir landið og býr til slaka í hópnum, því að enginn efi er um, hvar við séum og hvert er verið að fara.

Í fjölmennum ferðum getur verið töluverð verkaskipting. Einhver hefur venjulega skipulagt leiðina og er eins konar leiðsögumaður af hálfu hópsins og sambandsaðili við staðkunnuga leiðsögumanninn. Sami maður eða einhver annar er svo eiginlegur fararstjóri og stjórnar hópnum. Í stórum hópum er líka gott að hafa einhvern eða einhverja eftirreiðarstjóra, sem passa að reksturinn lesti sig og ekki sé rekið of mikið á eftir. Þeir fylgjast með, hvort skeifur séu að losna eða hestar að heltast. Gott er líka, að þeir hafi áhrif á að jafna út vinnu við að ríða fyrir hross, því að menn eru misjafnlega duglegir við slíkt.

Ef óvanir menn eru í hópnum, er gott að benda þeim strax á að taka virkan þátt í að vakta hestana í áningu, mynda hringinn umhverfis hrossin, standa að þeim og vera ekki að einhverju gaufi eða að tala við náungann. Það þarf að minna þá á að sleppa ekki hnakkhestinum fyrr en þeir hafa náð í nýjan hest. Gott er, að menn vinni saman tveir og tveir og skiptist á um að ná hestum og passa hringinn.

Einnig þurfa nýliðar að vita, að menn eiga ekki að stíga á bak, fyrr en fararstjóri gefur merki. Annað, sem nýliðar þurfa að vita, kemur yfirleitt af sjálfu sér, svo sem að taka þátt í að ríða fyrir hesta, sem fara úr rekstrinum.

Yfirleitt nota ég band í áningu. Í fyrrasumar byrjaði ég að nota granna og sterka veiðilínu. Hún er á litlu veiðihjóli, sem kemst í vasa. Það heyrist dálítið skrallhljóð, þegar hún er dregin út, svo að hestarnir vita af henni. Það er fljótlegt að draga hana inn og hún flækist ekki eins og borðarnir gerðu stundum. Ég hef líka prófað línu eins og smiðir nota, en veiðihjólið reyndist betur.

Mér finnst gott að fara á fætur um áttaleytið á morgnana og vera kominn í hnakkinn um klukkan tíu. Góður áfangi finnst mér vera þrjú kortér eða 6-8 kílómetra og skipti þá um hest í hverjum áfanga. Bezt er að skipta sem oftast.

Ég hef aldrei minna en fjóra hesta fyrir mig sjálfan og oft fimm. Velja þarf hraða, sem hentar öllum, svo að menn dragist ekki aftur úr. Góður ferðahraði er 15-20 kílómetrar á klukkustund, meðan flotinn er á hreyfingu.

Mér finnst gott að vera með písk á ferðalögum til að sveifla út og halda aga á lausu hrossunum, til dæmis þeim, sem vilja æða fram úr forreiðinni. Sumir eru að vísu á svo viljugum hestum, að þeir eiga erfitt um vik að nota písk.

Lesa þarf á hestana

Bjarni E. Sigurðsson:

Yfirleitt nota ég þrjá hesta minnst. Áfangar fara að einhverju leyti eftir því, hversu hestsárir samferðamennirnir eru. Sumir vilja hlífa ákveðnum hestum við ákveðnu landslagi eða nýta flottan gæðing á góðri götu. Til þess að taka tillit til allra slíkra sjónarmiða verða áfangarnir oft styttri og fleiri en þeir þurfa nauðsynlega að vera og það er bara ágætt.

Páll á Kröggólfsstöðum hafði þrjár grundvallarreglur, sem ég hef haldið alla tíð. Fyrsta reglan var að ríða alltaf utan við þjóðbrautina, þegar þú getur. Hann var harður á þessu, enda sá ég, hvernig hestar linuðust við að ríða á hörðu.

Önnur reglan var að stanza vel í vatni og leyfa öllum hestunum að drekka. Forreiðin þarf þá að gæta þess að halda aftur af lausu hestunum og eftirreiðin má ekki þrýsta á. Í þriðja lagi mega hross ekki missa kviðinn á ferðalagi, þá verða þau máttlaus. Hross mega til dæmis ekki fara mögur í ferðir. Þau mega hins vegar vera of feit, en þá er gott að ríða hægar til að byrja með,stanza oftar og brúka þau minna.

Sumir ferðamenn vilja fara 50-70 kílómetra á dag. Það finnst mér ekkert sniðugt, ef maður er að slaka sér og njóta ferðarinnar. Skemmtiferð hættir að vera skemmtiferð um leið og maður eða hestur verður þreyttur. Það er ekkert gaman að kvöldi í áningarstað, ef allir eru þreyttir. Þá verður jafnvel maturinn vondur, af því að við erum pirruð. Hæfileg dagleið er ein eða tæp þingmannaleið, 36 kílómetrar.

Í upphafi ferðadags og eftir hverja áningu þarf að finna, hverjir verða í forreið og hverjir verða í eftirreið og skipta liði í staðsetningu, þegar lausu hrossunum er sleppt. Þá er mikilvægt að hafa virkilega góða reiðmenn fyrir aftan, því að það er vont að missa hest til baka. Það getur kostað tveggja-þriggja tíma eltingaleik. Eftirreiðin þarf líka að geta fylgzt með, hvort skeifa byrjar að glamra eða hestur er farinn að sýna helti.

Sumum finnst meira gaman að vera á eftir og njóta sem bezt að sjá lausu hrossin hlaupa í landslaginu. Beztu ljósmyndir úr hestaferðum eru teknar úr eftirreiðinni. Öðrum finnst meira gaman að vera á undan og sjá landið opnast fyrir sér. Allt gengur þetta ágætlega upp í samhentum hópi.

Gott er að byrja daginn á hægri ferð og ríða ekki mikið meira en 20 mínútur áður en gefið er pissustopp. Eftir það má fara að kasta toppi. Allir þurfa að vera ábyrgir fyrir lausu hrossunum og vera tilbúnir til að hugsa hraðar en hestarnir. Þeir, sem eru fyrir framan, verða að passa upp á hliðin og sinna fyrirstöðu á þverleiðum. Vanir ferðamenn hafa í sér tilfinningu fyrir þessu.

Eftir fyrstu áningu er oft lagt á betri helminginn af flotanum, sérstaklega ef gatan framundan er greið. Þá eru hestarnir orðnir mjúkir og heitir og ferðin sækist greiðar. Hraðinn eykst oft, þegar líður á hæfilega dagleið. Oftast eru hestar þá orðnir rólegir og verða ekki til neinna vandræða þann daginn. En fari svo, að hestur byrji að sperra eyru í áningu, þurfa ferðamennirnir líka að hafa aukinn vara á sér. Menn þurfa að venjast við að lesa á hestana.

Oft þarf að halda niðri hraða á lausu hrossunum um tíma. Góður ferðahraði er ekki meira en 10 kílómetrar á klukkustund. Forreiðin má þó aldrei tefja eftirreiðina, því að þá kemst hún fljótt í hörkuvinnu við að halda aftur af framsæknum hrossum. Þá er betra að gefa eftir og greikka sporið um tíma. Þetta kenndi mér Páll á Kröggólfsstöðum.

Það fylgir þessu, að eftirreiðin má ekki fara svo hratt, að hún ýti lausu hrossunum á forreiðina. Hún þarf að halda bili milli sín og hrossanna og gefa þeim færi á að lesta sig. Hún getur svo þurft að hotta á öftustu hestana einstöku sinnum, ef stórar eyður myndast í lestina.

Stundum eru hestar svo samrýmdir, að þeir fara á taugum, ef félaginn er undir hnakki. Þá er bezt að leyfa lausa hestinum að fylgja hnakkhestinum, en vera ekki eyða orku í að reyna að lemja hann inn í hópinn. Það eru jafnvel til hestar, sem eru viðráðanlegastir, þegar þeir fá að hlaupa á undan forreiðinni. En í stórum dráttum er lestin mikilvægust, því hún kennir hestunum að hlaupa slakir hver á eftir öðrum og láta sér síður detta í hug að fara úr braut.

Harðjaxlana fremst

Hannes Einarsson:

Á kvöldin er ákveðinn brottfarartími daginn eftir, hvenær sé morgunmatur, hvenær viðlegubúnaðurinn þurfi að vera kominn út og hvenær menn skuli vera komnir í hnakkinn. Það eru alltaf einhverjir slugsarar, sem annars tefja fyrir.

Algengasta vandamálið er, að menn þykist endilega þurfa að járna, þegar á að fara af stað. Þess vegna þurfa tímasetningar að vera skýrar. Það er leiðinlegt fyrir hóp, sem er tilbúinn, að þurfa að bíða eftir einum, sem ekki hefur sitt á hreinu.

Mér finnst gott að vera kominn í hnakkinn ekki seinna en klukkan ellefu, ef dagleiðin er ekki óvenjulega löng eða stutt. Mér finnst gott að vera kominn úr hnakknum milli klukkan fimm og sex, miðað við að hafa kvöldmat klukkan sjö. Mér finnst gott að fara átta til tíu kílómetra á hverjum hesti við meðalgóðar aðstæður.

Það er vel þegið, að einhver geti að morgni rakið fyrir fólki fyrirhugaða leið dagsins eftir beztu getu, spáð í hvaða götur verði góðar eða slæmar og hvernig áfangaskipting sé líkleg. Samt verður að gæta að því, að menn viti, að þeir geta alltaf beðið um stopp, ef eitthvað er að, til dæmis hestur orðinn þreyttur, sem kemur oft fyrir, þegar menn koma með óþjálfuð hross í langferð.

Mjög gott er að geta byrjað morguninn, sérstaklega á fyrsta degi, á reiðkafla milli girðinga, meðan hrossin eru að byrja að jafna sig. Í hestaferð koma saman hópar hesta úr ýmsum áttum. Milli þeirra eru oft ýmsar ýfingar og valdabarátta, áður en þau fara að lesta sig almennilega. Alltaf er hætta á, að rekstur springi í upphafi ferðar, og þá er gott að hafa girðingar til að halda að rekstrinum. Einnig þarf að muna eftir pissustoppi fljótlega eftir að farið er af stað að morgni.

Fremst þarf að hafa galvaska reiðmenn og harðjaxla á góðum hestum. Gæta þarf þess, að ekki séu of fáir í forreiðinni, því að sums staðar þarf að fara í fyrirstöðu, sem þýðir að það týnist úr forreiðinni í eftirreiðina. Og svo er það að minnsta kosti í Fáksferðunum, sem ég þekki bezt, að mörg viljug hross í rekstrinum eru framsækin. Á opnum svæðum, til dæmis söndum, er gott að hafa hliðarmenn á rekstrinum.

Oft þarf hafa dálítið fyrir því að ná niður hraðanum, koma lestinni niður á fetgang af og til. Til þess þarf að hafa píska til að veifa framan í frekjuhrossin, sem æða fram. Annars er milliferðin ágætur ferðahraði.

Leiðsögumaður þarf að þekkja leiðina vel eins og lófann á sér og hafa talað við ráðamenn lands, sem farið er um. GPS með góðum punktum er orðið nauðsynlegt hjálpartæki við leiðsögn. Ég er að hugsa um að fá mér svoleiðis tæki og fara að prófa það. NMT símar eru líka mikilvæg öryggistæki, einkum þegar slys ber að höndum, Vasatæki af því tagi virka því miður misjafnlega vel, en ná þó yfirleitt sambandi, ef menn fara upp á hæðir og hóla.

Fararstjóri stýrir ferðinni að öðru leyti og verður að hafa góðan aga, því meiri aga sem hópurinn er stærri. Hann gefur upp áætlaðan tíma í áningu og minnir menn á að draga ekki að skipta um hross og að líta á lausu hrossin sín í hverri einustu áningum, skoða fætur og lyfta hófum á sínum hrossum, ef búið er að ríða á grýttu landi. Gott er, að glöggir menn standi við hlið, þegar hross renna í hólf, og fylgist með fótum allra hrossanna. Hross, sem fer tíu kílómetra á lélegum hóf skeifulausum, getur verið úr leik.

Í áningu þarf að fylgjast vel með hrossunum. Menn hafa hvað eftir annað lent í vandræðum, þegar þeir brjóta þetta boðorð. Menn eiga að mynda jafnan hring og hafa jöfn bil á milli sín. Bezt er að nota band til öryggis. Að öðrum kosti þurfa menn að standa alveg klárir að hrossunum. Frá því að bandið er tekið upp og þangað til menn eru komnir í hnakkinn er sérstaklega hætt við ókyrrð og rási í hrossunum.

Ég hef notað rafmagnsborða til að slá utan um hrossin í áningu, en er að hugsa um að prófa næst kasthjól með línu. Borðinn flækist æði oft og það tekur oft dálítinn tíma að ganga frá honum. Veiðilínan ætti að vera auðveldari.

Fari sem frjálsast

Valdimar K. Jónsson:

Mér finnst bezt að fara seint af stað, seint á tólfta tímanum. Ég tel, að hvíldartími hestanna sé á morgnana, enda leggja þeir sig oft á þeim tíma. Ef óvant fólk er með í ferð og jafnvel þótt svo sé ekki, reyni ég að brýna fyrir mönnum, að þeir, sem eru á viljugari hestunum, séu sem mest í forreið, því að oft grisjast úr þeim hópi í fyrirstöðum á leiðinni. Fólk á hægfara hestum verður þó að vera í eftirreið, því að það örvar hestana, ef þeir óttast að missa af stóðinu. Öfluga forreið þarf líka til að halda aftur af framsæknum hrossum. Písk nota ég ekki, en sé þó, að þeir nýtast til að ógna framsæknum hestum, sem vilja ryðjast gegnum forreiðina.

Stór rekstur hefur tilhneigingu til að skipta sér í léttrækan hóp að framan og hægari hross að aftan. Þá þarf forreiðin að gæta þess að fara ekki of hratt, svo að reksturinn klofni ekki. Við þær aðstæður getur verið gott á krókóttri leið að hafa tvo menn í millireið til að hafa betri yfirsýn og týna síður hrossum úr rekstrinum. Þá þarf líka að gæta þess að ýta ekki of mikið á hæggengu hrossin, að minnsta kosti ekki með óhljóðum og látum, því að það ærir bara hrossin, sem eru fremst í rekstrinum. Bezt er að lausu hestarnir fari sem frjálsast og ráði ferðinni. Þeir lesta sig betur og maður verður bara að taka því, að línan geti teygzt á köflum.

Gott er að glöggur hestamaður sé í eftirreið og fylgist með hópnum. Lausaglamur í skeifum þarf að skoða og laga í næstu áningu. Almennt er gott að huga að skeifum sinna hesta í hverri áningu og að gá að grjóti undir hófum í náttstað. Ef hestur sýnir helti á ferð, þarf auðvitað að huga að því strax. Fyrir brottför að morgni þarf að líta aftur yfir þetta og laga allt, sem athugavert er. Næsta sumar hef ég áhuga á að prófa að hafa litlar 5 km talstöðvar fyrir samband milli forreiðar og eftirreiðar, svo að forreiðin geti stöðvað reksturinn um leið og eftirreiðin sér eða heyrir, að eitthvað hefur farið úrskeiðis, til dæmis skeifa farið undan. Þetta er sérstaklega mikilvægt, þegar reksturinn er langur. Gemsarnir duga skammt á fjöllum.

Ef jeppi er ekki í samfloti með hópnum, bið ég einhvern um að hafa með sér í vasanum band, sem er nógu langt til að ná langleiðina utan um hópinn. Við reynum að ganga þannig frá bandinu, að forreið, þótt fámenn sé, geti verið fljót að stökkva af baki og taka út bandið, ef skyndilega þarf að stöðva reksturinn. Þá þurfa allir að vera samtaka um að raða sér á línuna. Gott er að tveir og tveir séu saman á línunni og skiptist á um að halda og að skipta um hesta.

Ég reyni að brýna fyrir fólki að sleppa ekki hnakkhestinum fyrr en það er búið að ná í næsta hest. Stóðið getur fælzt af óútreiknanlegum ástæðum og horfið út í buskann og þá eru menn illa settir hestlausir. Einnig vil ég, að fólk, sem ætlar að skipta um hesta, geri það tímanlega, svo að ekki verði tafir, þegar hópurinn ætlar að fara af stað aftur. Gott er að hafa stallmúla á styggum hestum, svo að fljótara sé að ná þeim í áningu. Það er líka auðveldara að taka strokugjarna hesta í taum, ef þeir bera múl.

10 km á hestinn

Marinó Pétur Sigurpálsson og Guðbrandur Kjartansson:

Áður en að ferðalaginu sjálfu kemur höldum við undirbúningsfundi, þar sem farið er yfir ýmis minnisatriði og nýliðum sagt til um, hvernig þeir geti búið sig í ferðina. Ferðafélagarnir mega helzt ekki vera færri en fimm, svo að fjórir geti verið á bandinu í áningu meðan einn skiptir um hest. Þeir mega ekki heldur verða of margir, því að þá verður ferðalagið of þungt í vöfum. Gott er, að sem flestir séu vanir og þekkist helzt.

Ákveða þarf leiðina og náttstaði mjög snemma, því að panta þarf skála á haustin, að minnsta kosti á vinsælum leiðum á borð við Kjöl. Það er óþægilegt, ef einn skálinn er alveg upptekinn í langri röð skála. Þá getur þurft að færa alla ferðina og allar gistingar um einn dag til að hafa skála allar nætur. Úr þessu getur orðið hálfgert púsluspil.

Við höfum oft farið áður á bílum og reynt að kanna aðstæður á nýjum slóðum. Einu sinni áðum við nálægt Bjarnalækjarbotnum og skiptum um hesta. Þegar við vorum búnir að ríða 100 metra í viðbót, komum við að skálanum. Ef við hefðum kannað aðstæður áður, hefðum við getað haft þetta einfaldra og farið beint í réttina við skálann.

Áfengi er alveg skilyrðislaust bannað á daginn. Flest kvöld er farið snemma að sofa, en eitt kvöld í ferðinni er eins konar skemmtikvöld með fínni mat. Venjulega er það kvöldið fyrir frídag, sem einnig er fastur liður hjá okkur í þessum hefðbundnu tveggja vikna ferðum okkar.

Morgunmatur hjá okkur er oftast um níuleytið. Yfirleitt förum við af stað um hádegið, ef dagleið er hæfileg. Við höfum tekið eftir, að hrossin fara að sofa um tíu-ellefu á morgnana. Við brottför er skipt í forreið og eftirreið og þess gætt, að einhverjir séu vel ríðandi í forreið.

Áður fyrr fórum við stundum langar dagleiðir, en hin síðari ár höfum við ekki viljað fara meira en 40 km á dag og nota hvern hest að meðaltali 10 km áfanga, ef aðstæður leyfa. Það eru fjórir hestar á meðaldegi.

Við erum sjálfir með fleiri hesta, oft sex á mann, þannig að hestarnir fá hvíldardaga á milli. Það þýðir, að okkur er óhætt að beita hestunum töluvert með tætingi og sprettum, ef við þurfum á því að halda. Þeir fá þá frí daginn eftir. Það er ekkert gaman að ferðast, ef hestar verða þreyttir.

Í áningum verða forreiðarmenn að dreifa sér og standa fyrir lausu hrossunum meðan verið er að loka hringnum með merkilínu. Þegar búið er að loka, fara einn eða tveir í einu með hestinn sinn inn í hringinn til að skipta um hest, en hinir halda uppi línunni. Við erum með tvær-þrjár slíkar rúllur, sem hver er 30-40 metrar og fer sáralítið fyrir í vasa. Þessar línur slitna við álag, sem er nauðsynlegt. Einu sinni var maður með veiðilínu í ferð með okkur og það gekk ekki eins vel, því að línan slitnaði ekki og maðurinn skarst.

Til að venja ung hross við línuna, sláum við upp rafmagnslínu með straumi í fyrsta næturstað, þótt þar sé girðing fyrir. Ef eitthvert hrossið fær straum í sig, passar allur hópurinn sig út ferðina.

Einn hefur það hlutverk að ríða aftastur og fylgjast með, að allt sé í lagi. Að öðru leyti þarf eftirreiðin að gæta þess að ýta ekki of skart á lausu hrossin. Veðráttan, landið og lausu hrossin ráða mest ferðinni.

Við lítum mest á fætur og skeifur á kvöldin, en eitthvað líka að morgni. Hver sér um að fylgjast með sínum hestum, bæði í áningu og náttstað. Af og til tökum við upp löpp. Eftirreiðin fylgist líka með þessu og sjálfir förum við stundum úr götu, þar sem góð aðstaða er til að fylgjast með fótunum, þegar flotinn siglir framhjá. Þetta sést allt vel, þegar lausu hrossin eru farin að lesta sig.

Við höfum lítið notað leiðsögumenn, þegar við höfum farið ókunnar slóðir, en oft fengið lýsingar staðkunnugra. Ég (M) er iðinn við að afla upplýsinga um leiðirnar og hef þær að mestu leyti í höfðinu, þegar til kastanna kemur.

Auðvelt er að velja vöð yfir bergvatnsár. Maður sér nokkurn veginn, hvar er grynnst. Jökulárnar eru erfiðari, en vöðin eru oft merkt með vörðum eða stikum. Ef svo er ekki, fer maður eftir tilfinningu, sem er byggð á reynslu. Í einstöku tilvikum höfum við fengið leiðsögumann á vað, til dæmis Árna í Þjórsárholti til að hjálpa okkur yfir Þjórsá við Arnarfell.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 1.tbl. 2004

Endurskipulagning hestamanna

Hestar

Jón Albert Sigurbjörnsson, formaður Landssambands hestamannafélaga:

Okkur vantar einfaldari boðleiðir, skynsamlegri forgangsröðun verkefna, aukna yfirsýn í heimi íslenzkra hestamanna og aukinn slagkraft þeirra. Ég hef talað um það í nokkur ár, að við þurfum að skipuleggja okkur að nýju.

Samtök og stofnanir hestamennskunnar eru máttvana og frek á vinnukraft áhugafólks. Sem dæmi um vanmátt okkar er, að fyrir nokkrum árum voru þrír starfsmenn hjá þessum samtökum, en eru núna tveir. Verkefnum hefur samt fjölgað á þessum tíma. Við þurfum að bæta þjónustuna, en höfum til þess þunglamalegt kerfi.

Hér er Landssamband hestamannafélaga með tvö dómarafélög innan sinna vébanda. Í sömu húsakynnum er Félag hrossabænda og Félag tamningamanna, sem hefur sérstöðu sem fagfélag með skilyrta félagsaðild. Svo eru til Átaksverkefni, Hestamiðstöð, Umboðsmaður, Landsmót ehf, Fagráð í hrossarækt og Hólaskóli.

Sumir þessara aðila hafa vel skilgreind verkefni, en aðrir miður. Enginn þessara aðila hefur yfirsýn yfir hestamennskuna í heild. Þar á ofan eru sumir þeirra í samkeppni um fjármagn af hálfu opinberra aðila og styrktaraðila í einkageiranum.
Þegar Landssambandið leitar til opinberra aðila eða einkaaðila um aðstoð við að koma á fót mikilvægum verkefnum, er því vinsamlega bent á alla þá fjármuni, sem renna með margvíslegum hætti til hestamennskunnar í landinu.

Ríkisvaldið leggur fram mikla peninga um þessar mundir, Á fimm árum fara 125 milljónir til Hestamiðstöðvar, 75 milljónir til Átaksverkefnis og 45 milljónir til Umboðsmanns auk 10 milljona til viðbótar sem eru fengar af styrktaraðilum, þeim sömu og hafa verið okkar aðal styrktaraðilar svo árum skiptir.

Hestamannafélögin voru aftur á móti með veltu upp á 127 milljónir árið 2001 og LH með 21 milljón króna veltu (tölur frá ÍSÍ). Þetta sýnir glöggt hversu mörg þau verkefni eru sem hvíla á landssambandinu.

Landssambandið, sem hefur 9000 félagsmenn, er aðeins með mann í stjórn eins ofantalinna verkefna. Áhrif þess eru því afar takmörkuð miðað við stærð, þótt miklir fjármunir séu í húfi fyrir hestamennskuna í landinu.

Landssambandið er miklu meira en þjónustu- og ráðgjafarstofnun fyrir hestamannafélögin í landinu. Það sér um landslið á heimsleikum, skipuleggur æskulýðsstarf og berst fyrir reiðvegamálum, svo að dæmi séu nefnd.

Mikill tími fer hjá Landssambandinu og landsþingum þess í að halda utan um keppnisreglur og gera á þeim breytingar. Raunar er kominn tími til að taka upp alþjóðlegar FIPO-reglur og gefa sér í staðinn meiri tíma á landsþingum til að takast á um forgangsröðun verkefna.

Ég tel tímabært að sameina landssambandið Félagi hrossabænda í ein landssamtök hestamanna. Þessi samtök verði síðan deildaskipt eins og hliðstæð samtök í öðrum löndum íslenzka hestsins. Þetta verði sjálfstæðar deildir með sérstökum stjórnum, sem séu kjörnar á landsþingi. Formaður hverrar stjórnar sitji svo í stjórn sjálfs landssambandsins.

Ég sé fyrir mér ræktunardeild, frístundadeild, keppnisdeild, æskulýðsdeild, menntadeild og hugsanlega fleiri deildir. Þá mættu vera til nefndir eins og t.d. mannvirkjanefnd sem myndi heyra beint undir stjórn. Í keppnisdeildinni má til dæmis fara yfir og afgreiða allar þær tillögur, sem uppi eru um keppnisreglur, svo að landsþing þurfi ekki að ræða þær, heldur staðfesti þær bara eða synji þeim.

Ég veit ekki um nema tvær röksemdir gegn sameiningu Landssambands hestamannafélaga og Félags hrossabænda. Það er kenningin um, að atvinnumenn og áhugamenn eigi ekki samleið í einu félagi, þ.e. hagsmunir málsaðila séu ekki nógu líkir og að Félag hrossabænda sé búgreinafélag. En það væri hægt að leysa með því að Ræktunardeildin ætti aðild að Bændasamtökum Íslands.

Landssambandið er alltaf að vinna fyrir atvinnumenn jafnt sem áhugafólk. Það hefur landsliðsnefnd, er sér fjárhagslega um landslið, sem skipað er atvinnumönnum. Það sér um unglingastarf, sem er óbeint í þágu atvinnumanna. Það fæst við reiðvegamál, sem er hagsmunamál atvinnumanna. Það ver miklum tíma í fágun keppnisreglna að tilhlutan atvinnumanna. Þannig má lengi nefna.

Átta eða níu af hverjum 10 félögum í Félagi hrossabænda og Félagi tamningamanna eru líka félagar í landssambandinu. Tveir af hverjum þremur, sem eiga hross á kynbótasýningum, eru ekki félagar í Félagi hrossabænda, heldur úr hópi svokallaðra áhugamanna. Stóru LH-félögin á Faxaflóasvæðinu hafa ræktunardeildir innan sinna vébanda.

Ég held, að hagsmunir félagsmanna í landssambandinu og Félagi hrossabænda fari saman. Það vantar einn stóran aðila, sem komi fram gagnvart stjórnvöldum sem fulltrúi greinarinnar í heild, svo að hafa verði samráð við hann, þegar fjármunum er skipt eða úthlutað.

Félagsmenn Félags hrossabænda eru um 1000, en félagsmenn Landssambands hestamannafélaga eru 9000. Það gæti því verið styrkur fyrir þá fyrrnefndu að hafa með sér kraft hinna síðarnefndu enda snýst þessi hugmyndafræði mín um að sameina kraftana og einfalda ferlið.

LH þarf líka að hreinsa til hjá sjálfu sér. Við munum ræða það á formannafundi í nóvember. Mín hugmynd er að deildaskipta sambandinu eins og áður segir og veita deildunum mikið sjálfstæði og afgreiða fleiri mál á því stigi.

Með því að formenn deildanna sitji í stjórn sambandsins næst aukin yfirsýn yfir þarfir hestamennskunnar í heild. Þetta er það fyrirkomulag, sem víðast er notað erlendis og gefur góða raun.

Einnig tel ég heppilegt, að hestamannafélögin í landinu stefni að aukinni sameiningu. Samgöngur og skipan sveitarfélaga hafa breytzt síðan félögin voru stofnuð. Þannig eru t.d. þrjú hestamannafélög í sveitarfélaginu Skagafirði og tvo í sveitarfélaginu Borgarbyggð. Sameinuð mundu slík félög hafa meira afl til góðra verka.

Í stórum dráttum fjalla hugmyndir mínar um, að LH verði endurskipulagt og með sameiginlegri starfsemi leggi það síðan áherzlu á að verða umsagnaraðili um stofnun og fjármagnsnotkun stofnana á borð við Átakið, Hestamiðstöðina og Umboðsmanninn. Þannig næst einföldun, yfirsýn, forgagnsröðun og slagkraftur.

Mismunandi verkefni

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:

Félag hrossabænda og Landssamband hestamannafélaga eiga ekki samleið að öllu leyti. Verkefni félaganna eru að mörgu leyti mismunandi. Fyrrnefnda félagið er atvinnumannafélag og á að mörgu leyti samleið með Félagi tamningamanna, sem einnig er atvinnumannafélag.

Landssambandið er hins vegar áhugamannasamtök að upplagi, þótt það hafi tekið að sér að sinna málum, sem koma atvinnumönnum að gagni. Það eru einkum mál, sem varða sýningar og keppni, en síður mál, sem varða ræktun.

Landþing LH hefur sjálft rætt deildaskiptingu innan sambandsins og hafnað henni. Auðvitað má taka umræðuna upp aftur og við erum alltaf tilbúnir hjá Félagi hrossabænda að ræða málin. En við teljum samstarf betra en samruna.

Ekki má gleyma, að Félag hrossabænda er í Bændasamtökunum. Í tengslum við það samstarf fá sýnendur kynbótahrossa margvíslega fyrirgreiðslu, sem aðeins greiðist fyrir að hluta í sýningargjöldum. Hrossabændur vilja ekki skera á aðild sína að almennum samtökum bænda.

Bændasamtökin hafa sýnt gott frumkvæði í erlendum samskiptum, sem hafa komið hrossabændum að gagni. Fyrir atbeina Bændasamtakanna hafa Félag hrossabænda og félagsmenn þess náð miklum og góðum tengslum við erlenda viðskiptavini.

Í tízku eru slagorð á borð við sameiningu. Menn virðast telja, að hún framleiði nýja peninga, en svo er ekki. Það gildir jafnt um Félag hrossabænda og Landssamband hestamannafélaga, að þau eru fjárhagslega veikburða. Reynslan sýnir, að sameining tveggja eða fleiri veikburða aðila myndar ekki einn sterkan aðila.

Við í Félagi hrossabænda höfum ekki staðið okkur lakar en félagar okkar í LH. Til dæmis höfum við stuðlað að traustu ferli kynbótadóma, sem hefur verið tekið upp í öðrum löndum. Við viljum ekki verða deild í breyttu LH og teljum vera tímasóun að verja miklum tíma í að ræða það.

Skilja betur
milli atvinnu
og frístunda

Ólafur Hafsteinn Einarsson, formaður Félags tamningamanna:

Mér finnst ekki skynsamlegt að eyða miklum tíma í að ræða sameiningu Landssambands hestamannafélaga og Félags hrossabænda meðan forustumenn annars félagsins hafa ekki áhuga. Þetta mál hefur þegar verið rætt nógu mikið og LH getur ekki innbyrt önnur félög gegn vilja þeirra.

Miklu fremur er nauðsynlegt að skilja betur milli áhugamennsku annars vegar og atvinnumennsku hins vegar. Landssambandið er samnefnari almennings íþróttarinnar hestamennska. Hagsmunagæsla til handa atvinumennskunni á betur heima hjá Félagi hrosssabænda og Félagi tamningamanna. Að sjálfsögðu skarast þetta starf stundum og þá eiga félagasamtök hestamennskunnar að hafa samstarf.

Atvinnumennska í hestageiranum felst að mestu leiti í ræktun, tamningum, kennslu, ferðaþjónustu, verzlun og útflutningi. Skynsamlegt er, að þessir aðilar reyni að ná saman um hagsmunamál atvinnumennsku í hestageiranum. Þau eru sumpart hin sömu og hagsmunamál áhugamanna, en sumpart eru þau önnur.

Í þjóðfélagi reglugerða og skipulags er mikilvægt, að atvinnumennskan geti komið fram sem ein heild til að bæta starfsskilyrði greinarinnar og stuðla þannig að bættum hag þeirra sem hafa hestamennskuna að atvinnu.

Ég tel að Félag hrossabænda og Félag tamningamanna muni auka samstarf sitt og það verði skarpari skil milli starfa þeirra og starfa Landssambands hestamannafélaga í framtíðinni. Það að hestamennskan skuli nú eiga nám sem er hluti af íslensku menntakerfi mun áreiðanlega flýta fyrir þessari þróun. Þeir sem fara um þetta nám verða nú félagsmenn í Félagi tamningamanna og er félagið þannig þeirra afl til að hafa áhrif í samfélagi hestamennskunnar. Hrossabóndi framtíðarinnar er líklega sá sem hefur farið þennan menntaveg og aukið samstarf þessara félaga tel ég skref í rétta átt.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 1.tbl. 2004

Fölsuð Atlaskort

Hestar

Atlaskortin á nýja geisladiskinum koma hestamönnum ekki að því gagni, sem forstjóri Landmælinganna fullyrti í viðtali við Eiðfaxa í vor. Þau sýna ekki landið eins og mælingamenn herforingjaráðsins danska sáu það. Að geðþótta hafa verið felldar brott ótal reiðleiðir, þar á meðal sumar þær frægustu og greinilegustu, svo sem vesturbakkar Þjórsár, sem eru fjölfarnir enn þann dag í dag. Þar sem ég er orðinn kunnugur í Hrunamannahreppi, komst ég að raun um, að meirihluti reiðleiða hreppsins hefur verið strikaður út, þar á meðal leiðin frá Núpstúni um Sólheima, Hörgsholt og Kaldbak í Kluftir. Óskiljanlegt er, að stórfé sé varið af almannafé í ódýrar eftirlíkingar frá ýmsum tímum. Diskurinn falsar útlit landsins eins og það var á tímum mælinganna og eins og það er að töluverðu leyti enn þann dag í dag. Hestamenn verða áfram að nota dönsku frumútgáfuna á pappír. Svei Landmælingunum.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi, 10.tbl. 2003

Þjóð hestsins

Hestar

Tímarnir eru góðir áhugamönnum og atvinnumönnum um íslenzka hestinn. Alltaf fjölgar hestum, sem fara vel og eru til sóma ræktendum, tamningamönnum og eigendum. Þetta gildir hvort sem er á Íslandi eða hjá þeim, sem hafa í öðrum löndum tekið ástfóstri við hinn sérstæða og skapljúfa ganghest.

Um leið og heimur íslenzka hestsins hefur stækkað, hefur hann líka þrengzt. Verkefnin og vandamálin eru svipuð, hvar sem er í þessum heimi. Hér á Eiðfaxa finnum við, að meira eða minna sama efnið höfðar til áhugamanna og atvinnumanna, hvar sem þeir starfa í heiminum. Heimur íslenzka hestsins er að verða einn.

Árið 2003 hefur verið dæmigert fyrir þessa þróun. Á heimsleikunum í Herning í sumar kom í ljós ótrúlega mikið samræmi í dómum vel þjálfaðra fagmanna á því sviði. Ennfremur runnu dómkerfi kynbótahrossa að mestu leyti saman í eitt kerfi á þessu ári. Með samanburði á dómvenjum mismunandi landa verður fljótlega komið samræmi milli dóma á kynbótahrossum, hvar sem er í heiminum.

Á þessu sviði var íslenzka dómkerfið tekið var upp í öðrum löndum. Samt er Ísland engan veginn að valta yfir önnur lönd á öllum sviðum. Áhrifin verka í báðar áttir. Vaxandi fylgi er á Íslandi við að taka upp alþjóðlegu FIZO-reglurnar í dómum á íþróttamótum. Og frumtamning hrossa á Íslandi fer í auknum mæli eftir nýjum aðferðum, sem einkum koma frá Bandaríkjunum.

Með breytingu Eiðfaxa í fagrit áhugamanna og atvinnumanna snemma árs hefur tímaritið orðið vettvangur frásagna af þessari þróun og skoðana á henni. Um leið höfum við fundið, að lesendur hvar sem er í heiminum vilja fylgjast með, hvernig gengur að fást við ýmis vandamál, sem hafa heft útbreiðslu íslenzka hestsins.

Sem betur fer hafa úrbætur verið örar á þessu ári. Rannsóknir á spatti eru svo langt komnar, að menn vænta þess, að senn komi til sögunnar prófun, sem sé nógu nákvæm til að byrja megi að rækta spatt úr stofninum eftir ár. Ennfremur eru mælingar á ófrjósemi orðnar svo víðtækar, að þegar er unnt að byrja að rækta hana úr stofninum. Lesendur Eiðfaxa hafa getað fylgst vel með þróun þessara mála árið 2003.

Ekki síður hafa þeir getað fylgzt með aðgerðum til að ná tökum á exemi, sem er ein helzta hindrunin í vegi útflutnings. Bent hefur verið á ný og áhrifamikil krem og breytta útivistar- og hýsingartíma hrossa. Reynt er að þróa próf, svo að unnt sé að rækta næmi fyrir exemi úr stofninum og reynt er að þróa bóluefni, sem geti varið hross við vandanum.

Hvar sem er í heimi íslenzka hestsins hafa menn áhuga á sæðingum og frystingu sæðis. Einnig hafa menn áhuga á mikilvægum mótum, þótt þau séu haldin í fjarlægum löndum. Upp úr standa auðvitað landsmót og heimsleikar. Við á Eiðfaxa höfum orðið vör við, að einnig er þörf á umfjöllum um Norðurlandamót og þýzka meistaramótið. Tímaritið þarf framvegis að sinna mikilvægustu mótum ársins, hvar sem er í heiminum.

Það er ekki bara umræðan um kynbætur og hestaíþróttir, sem er að verða alþjóðleg. Sama er að segja um ræktunarmarkmið á borð við stöðu skeiðs og fótaburðar í mati manna á hrossum. Alþjóðlegar eru vangaveltur um vandamál í tamningu, svo sem rokur og gan, lull og kergju. Ekki sízt er feiknarlegur áhugi um allan heim íslenzka hestsins á gæðum og gengi frægra einstaklinga í röðum stóðhesta.

Satt að segja kemur okkur stundum á óvart, hvað þessi heimur er orðinn heill. Til dæmis höfum við fengið kvartanir um, að grein um notkun GPS-tækja í fjallaferðum hestamanna skuli ekki vera birt í alþjóðaútgáfu Eiðfaxa. Við höfðum talið þetta vera staðbundið áhugamál. Svipað kemur á daginn, þegar erlend hestatímarit fá birt efni úr Eiðfaxa. Þá er jafnvel sótzt eftir séríslenzkum frásögnum af baráttu við alþjóðlegan tamningavanda.

Hvort sem flett er íslenzkri eða erlendum útgáfum Eiðfaxa árið 2003, er fljótlegt að sjá hvort tveggja í senn, öra faglega framþróun í heimi íslenzka hestsins og ört heildstæðari mynd hans. Hin áleitna spurning er, hvort áhugamenn og atvinnumenn íslenzka hestsins um allan heim séu að renna saman í eina þjóð.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 10.tbl. 2003

Ferðadagurinn

Hestar

Einar Bollason:

Í fjallaferðum er morgunmatartíminn fínt tækifæri fyrir húslestur. Þá er gott að lýsa aðstæðum á væntanlegri dagleið og setja mönnum lífsreglurnar, segja frá örnefnum og sögustöðum. Fólk vill vita, hvernig leiðir eru, hvernig áfangar skiptast, hvenær er bezt að nota grófa hesta, hvar eru ár á leiðinni, hvernig er bezt er að vera skóaður, hvar markverðir staðir séu og svo framvegis. Þeir, sem fróðari eru, miðla hinum. Þetta á líka að gera, þótt ekki séu nema 6-8 menn í ferðinni.

Draumadagleið er 30-35 kílómetrar. Þá leið er gott að fara með stoppum á fimm-sex tímum. Menn eiga raunar ekki að vera streitast neitt meira. Þá er gott að geta fundið á miðri leiðinni góðan stað, þar sem hægt er að stoppa í einn eða einn og hálfan klukkutíma. Á slíkri dagleið mundi meðalþungur maður nota þrjá hesta, en þungur maður eins og ég mundi velja fjóra hesta.

Á þessari venjulegu dagleið er gott að byrja á morgunmat milli klukkan átta og níu. Einhverjir eru komnir á stjá klukkan sjö, fara að gefa og hita kannski kaffi sjálfir án þess að vekja kokkinn. Svo þarf að ganga frá og sumir fara að líta á hrossin og smala þeim, ef þess þarf. Síðan hittast allir úti við hestana klukkan tíu og eru komnir í hnakkinn klukkan ellefu. Ég vil helzt vera kominn í náttstað klukkan fimm-hálfsex. Þá hafa menn góðan tíma til að þvo sér og fá sér í glas eftir vínbann dagsins, áður en farið er að borða kvöldmatinn klukkan sjö. Svo eru menn bara komnir í ró klukkan ellefu. Þetta er draumaferðin, sem hentar miklum meirihluta manna.

Ef dagurinn er lengri, til dæmis 50 kílómetrar, er mikilvægt að taka hann fyrr en þetta, svo að ekki sé komið seint í náttstað. Fólk þreytist meira, ef dagurinn er afturþungur heldur en það gerir, ef dagurinn er framþungur. Séu dagleiðir 60-70 kílómetra er bezt að hafa hvíldardag á eftir.

Mér finnst bezt að skipta sem oftast um hest á ferðalagi. Það er miklu betra að ríða hesti tvisvar sinnum tíu kílómetra á dag, en einu sinni tuttugu. Þetta er meginreglan. Í stórum hópum er oft freistandi að skipta sjaldnar en æskilegt er, þegar langur vegur er fyrir höndum, og hvert stopp tekur mikinn tíma. En við venjulegar aðstæður finnst mér hæfilegt að skipta á þriggja kortéra til klukkutíma eða tæplega tíu kílómetra fresti. Fyrsti spottinn á hverjum degi má þá ekki vera lengri en um það bil hálftími. Auðvitað fer þetta eftir landi og eftir því, hvar eðlilegir áningarstaðir eru. Þetta fer líka eftir þyngd manna og hvað menn krefja hestinn mikið.

Það er fáránlegt að vera á hestaferðalagi, þar sem allir stjórna. Samkomulag verður að vera um einn stjórnanda, sem getur svo skipað undirstjóra til sérverka, svo sem að stjórna eftirreið eða forreið eða vera leiðsögumaður, ef hópurinn er svo stór, að fararstjórinn telji eitthvað af slíku vera æskilegt. Mikilvægt er fyrir stjórann að sjá um, að alltaf sé einhver vanur maður á öflugum hesti á þeim stað, þar sem stjórinn er ekki. Það þarf alltaf að vera einn vanur maður bæði fyrir framan og aftan. Stjórinn á að ráða öllu, sem viðkemur reiðinni, en þarf ekki að ráða öðrum þáttum ferðarinnar, svo sem fótaferðatíma. Sjálf reiðin er eins og skip, sem lætur ekki að stjórn, nema einn sé skipstjóri og hafi skipstjóravald.

Menn þurfa að koma sér saman um, hverjir séu hverju sinni í forreið og eftirreið. Þetta fer að nokkru leyti eftir þeim hestum, sem menn eru á hverju sinni. Svo finnst sumum gaman að vera á eftir, af því að þá sjá þeir hestalestina í forgrunni náttúrunnar. Öðrum finnst gaman að vera sem mest á undan. Yfirleitt er auðvelt að raða í þessa hópa.

Allir þurfa að kunna reglurnar við rekstur. Mér finnst miður, að hvergi skuli vera boðin námskeið í hestaferðum. Menn, sem hafa verið í ferðum í tuttugu ár, eru enn að gera grundvallarmistök í rekstri hrossa. Það er hins vegar unun að ferðast með fólki, sem hefur þessa hluti á hreinu.

Fyrsta reglan í hrossarekstri er, að hinn fullkomni rekstur er, þegar hrossin lesta sig slök og róleg hvert á eftir öðru og eftirreiðarmenn eru 15-20 metrum fyrir aftan þau. Auðvitað verða menn að vaka yfir því, að reksturinn slitni ekki, en það þarf ekki að gera það með neinum látum. Menn mega ekki vera öskrandi og gargandi, því að þá vekja köllin enga eftirtekt, þegar menn þurfa raunverulega að nota þau, til dæmis þegar hestur tekur strikið úr hópnum. Ef raddböndin eru spöruð, vita hestar og menn, þegar eitthvað er raunverulega að. Versti galli hestaferða eru eftirreiðarmenn, sem komast í ákveðna tegund af algleymi og eru óafvitandi gargandi og öskrandi í rassinum á aftasta hrossi.

Það er allt í lagi, að einn og einn hestur hlaupi upp úr götu og sé til hliðar við lestina. Yfirleitt er hann ekkert að hugsa um að fara sínar eigin leiðir, heldur hefur hann aðeins orðið undir í valdabaráttu í lestinni og á eftir að finna sér nýjan stað aftar í henni. Stundum er einn grimmur hestur, sem fer hægt og heldur öðrum fyrir aftan sig, svo að mikið bil myndast í lestina. Þá þarf oft að hjálpa þeim hrossum, sem þora ekki framúr, og það gengur kannski ekki nema með einhverjum hávaða. Bezt er þó að gera það með því að ríða fram með lestinni og hotta á hestinn, sem stíflar hana.

Önnur mikilvæg regla er að reyna að hægja á rekstrinum, ef framundan er brekka niður. Hrossin herða á sér og fara að ýta á forreiðina, sem þarf að halda aftur af þeim. Enn ein regla er að láta aldrei einn mann standa á pípuhliðum, heldur alltaf tvo. Einnig þarf alltaf að minnsta kosti einn maður að bíða eftir þeim, sem lokar hliðum, svo að hann komist klakklaust á bak hesti, sem er hræddur við að missa af hópnum. Bezt er, að öll eftirreiðin bíði eftir manninum, sem er að fara á bak. Það skiptir engu máli, þótt 50-70 metrar séu í aftasta hest, þegar eftirreiðin fer af stað.

Í áningu er mikilvægt að leggja ekki af stað, fyrr en allir eru komnir í hnakkinn. Þegar forreiðin leggur af stað, má eftirreiðin ekki leggja jafnóðum af stað. Hún á að bíða eftir, að lausu hrossin fari að lötra á eftir forreiðinni og byrja að lesta sig, sem þau gera undantekningarlaust strax. Eftirreiðin má ekki æsa þau upp á fulla ferð með því að reka á eftir þeim. Það er auðvitað fiðringur í mönnum og hestum í eftirreiðinni og þess vegna endurtekur þetta vandamál sig alltaf aftur og aftur, þótt menn viti betur. Þegar farið er af stað, þarf að taka tillit til þess, að lausu hrossin eru enn í hnapp og eiga eftir að teygja hópinn upp í langa lest.

Ef lausir hesta fara fram úr forreiðarmanni, til dæmis af því að hann er ekki á heppilegum forreiðarhesti, of lötum eða of viljugum, borgar sig ekki fyrir hann að streitast við, heldur hægja ferðina og síga aftur í eftirreiðina. Þetta getur komið í veg fyrir slys, sem verða, þegar menn ráða ekki lengur við hestinn sinn, þegar hann æsist upp.

Ég nota yfirleitt písk út af rekstrinum. Ágeng hross fremst í rekstri verða yfirleitt þægari, ef menn hafa eitthvað til að sveifla. Píska má líka nota sem spelkur við beinbroti.

Á þurru og gróðurlausu landi mega forreiðarmenn ekki ríða framhjá vatni eða læk án þess að stoppa, því að menn vita aldrei, hvenær maður kemur næst að vatni. Þegar hestar forreiðarmanna hafa drukkið, mega þeir ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorizt, heldur halda aftur af stóðinu og gefa bara hægt og sígandi eftir, svo að aftari hestarnir og hestar eftirreiðarmanna verði ekki of æstir til að gefa sér tíma til að drekka. Það er mikilvægt, að allir drekki. Því er bezt að forreiðin geti haldið rekstrinum, meðan eftirreiðin vatnar sínum hestum. Sumir hestar drekka ekki einu sinni, nema reiðmaðurinn fari af baki.

Eftirreiðarmenn þurfa að fylgjast með hlaupalagi hesta og hlusta eftir skeifnaglamri, svo að hestar detti ekki úr leik með því að hlaupa lengi með stein í hófi eða skeifulausir.

Hjá vegagerðinni hafa verið merktir staðir fyrir skiptihólf, sem auðvelda ferðamönnum hestaskipti. Þessum hólfum fer sem betur fer fjölgandi. Þau er til dæmis komin upp á Landmannaafrétti og eru væntanleg á Kili. Bezt eru þessi hólf, þegar lækur rennur um þau.

Ef ekki eru skiptihólf, borgar sig alltaf að slá spotta kringum allan hópinn. Einhver í forreiðina þarf að vera með bandið, svo að menn séu byrjaðir að taka það út, þegar stóðið kemur. Ég nota þessa spotta líka, þótt næturhólf séu girt. Þá set ég spottann á hliðin og á þá hlið girðingarinnar, sem snýr heim frá sjónarmiði hrossanna. Sumir hestar virða gaddavír og aðrir virða rafmagnsvír. Það er aldrei of varlega farið.

Þegar verið er að skipta á hestum, eru allir á bandinu. Fyrsta mál á dagskrá er að byrja á því að anda rólega. Við þurfum að ná niður þessum athafnamönnum, sem eru þegar byrjaðir á hestaskiptum um leið og bandið lokast hringinn. Í fámennari hópum er bezt, að það séu bara ein hjón inni í einu að taka hesta, svo að taka eins hests trufli ekki töku annars. Þegar eitt par er komið út með sína hesta, tekur næsta par strax við, og fyrra parið fer strax að leggja á og ganga rösklega frá sínum málum til að gera farið sem fyrst á bandið með hinum. Auk þess er gott, að parið skiptist þá strax um að gera það, sem það þarf að gera, svo sem að fara í galla eða úr eða að ná í nestið.

Því gæfari, sem hestar eru, þeim mun betra verður ferðalagið. Einn og einn maður er stundum með snarvitlausa hesta, sem framkalla mikla streitu allra, þegar verið er að reyna að ná þeim. Menn þurfa að gæta sín á að vera ekki að eyða óratíma í að reyna að ná styggum hesti. Slíka hesta er bezt að taka að morgni dags eða í skiptihólfi, þar sem aðstæður eru rólegar. Að öðrum kosti er ráð að fá aðstoð annarra við að ná hestinum og ganga ekki of framarlega að hestinum, þegar hann hefur verið króaður af, heldur stefna á bóginn. Ef hestur sleppur úr kví, er vont, að menn byrji strax að hlaupa og æsa sig upp. Sumir hestar þurfa að fá leyfi til að rölta tvo-þrjá hringi, áður en þeir leyfa manni að ná sér.

Ég hef aldrei utan einu sinni farið um land, sem ég þekki ekki, án þess að vera með mann, sem þekkir landið. Ég hef haft þetta fyrir reglu. Menn mega vera mjög öruggir með sjálfa sig og vera í mjög góðu veðri, ef menn ætla að fara með hóp, þar sem enginn er kunnugur. Ég ræð mönnum eindregið til að fá sér góðan leiðsögumann. Það er ekkert mál að finna þá og það kostar ekki mikið, þegar það deilist á marga.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 10.tbl. 2003

Gagnabanki á netinu

Hestar

Björn Kristjánsson, forstöðumaður Söguseturs íslenzka hestsins:

Sögusetur íslenzka hestsins er að opna heimasíðu sína, www.sogusetur.is, sem væntanlega verður komin í gagnið, þegar þetta viðtal birtist í Eiðfaxa. Á síðuna verður safnað margvíslegum upplýsingum, sem tengjast sögu íslenska hestsins. Meðal efnis, sem þegar er komið inn, er yfirlit yfir kynbótasýningar og upplýsingar um öll kynbótahross, sem voru skráð í ættbók allt frá þeim tíma, er fyrst var farið að færa ættbókina og fram til 1945. Þar má finna ýmsar upplýsingar , sem ekki hafa birst áður opinberlega, m.a. dómsorð flestra hrossanna. Þetta efni er að miklu leyti unnið upp úr handrituðum frumheimildum, sem varðveittar hafa verið hjá Bændasamtökunum.

Margt fleira áhugavert efni er að finna á þessum vefsíðum. Þar er einkum um að ræða eldra efni, bæði greinar og kaflar úr bókum, sem nú er gert aðgengilegt. Einnig er þar að finna frumsamdar greinar um ýmis efni sem tengjast sögu íslenska hestsins. Sérstaklega má nefna yfirlitsgrein reiðver og reiðtygi fyrri tíma eftir Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga.

Ætlunin er að bæta efni inn á þessar heimasíður nokkuð jafnt og þétt, þannig að smám saman verði þarna til gagnabanki á netinu, þar sem áhugamenn um sögu íslenska hestsins og hestamennsku geta leitað fanga í.

Veglegt heimildasafn

Sögusetrið var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001 og er þar til húsa. Að því standa Hestamiðstöð Íslands, Hólaskóli og Byggðasafn Skagfirðinga. Því er ætlað að verða alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um sögu íslenzka hestsins, svo sem uppruna, þróun, eiginleika, notkun og áhrif hans á samfélagið frá landnámi til nútíma.

Meginverkefnið er að vinna að rannsóknum á sögu íslenska hestsins, og búa til veglegt heimildasafn um íslenska hestinn. Sögusetrið mun vista gagnagrunn um minjar og heimildir, svo sem skjöl, prentmál og ljósmyndir. Það mun hafa samráð við sérhæfðar stofnanir um vistun slíkra heimilda og aðgang manna að þeim. Sögusetrið hefur gert samstarfssamkomulag við helstu samtök í hestamennsku á Íslandi (þ.e. Landsamband Hestamannafélaga, Bændasamtök Íslands, Félag Tamningamanna og Félag Hrossabænda), sem felur í sér að Sögusetrið hafi aðgang að gögnum og heimildum sem þessi samtök búa yfir.

Eitt helsta markmið Sögusetursins er að koma upp veglegri sýninga- og rannsóknaaðstöðu á Hólum, þar sem verður að finna varanlega yfirlitssýningu um sögu íslenzka hestsins. Það mun standa fyrir lifandi þemasýningum og sögulegum yfirlitssýningum í samráði við aðra aðila. Það mun standa fyrir málþingum og fyrirlestrum, efla heimasíðuna og gefa út fræðsluefni.

Töltsýning á Hólum

Í 5. tbl. Eiðfaxa á þessu ári var sagt frá málþingi um tölt, sem sögusetrið stóð fyrir á Hólum í vor. Þar var sagt frá erindum á málþinginu og ýmsum gögnum, sem lögð voru fram, svo sem um arfgengi tölts.

Í kjölfar málþingsins var sett upp sýning á Hólum. Hún bar heitið: Apalgangur og yndisspor – Tölt í 150 ár. Þar var leitast við að fara yfir sögu töltreiðar á Íslandi, og meðal annars leitað fanga í fornum heimildum. Á sýningunni var lýst upphafi töltreiðar í nútímaskilningi um miðja 19. öld, þar sem fóru einna fremstir Jón Ásgeirsson á Þingeyrum og séra Jakob Benediktsson í Miklabæ. Litið var á hvernig tölt hefur verið skilgreint á mismunandi hátt í gegn um tíðina, og allt til dagsins í dag, og einnig var fjallað um þær breytingar sem hafa orðið á reiðmennsku og reiðtygjum á þessum tíma.

Námskeið

Sögusetrið mun í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands standa fyrir námskeiði sem haldið verður í Reykjavík í febrúar og mars á næsta ári. Á þessu námskeiði verða skoðaðir ýmsir þættir sem tengjast sögu íslenska hestsins og og hestamennsku hér á landi. Meðal fyrirlesara verða Dr. Stefán Aðalsteinsson, Þórður Tómasson, safnstjóri á Skógum, Kristinn Hugason fv. hrossaræktarráðunautur og Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur. Þeim sem áhuga hafa á að taka þátt í þessu námskeiði er bent á að hafa samband við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands til að fá nánari upplýsingar. Ýmislegt fleira er á döfinni, sem verður auglýst sérstaklega síðar.

Hafið samband!

Að lokum eru eindregin tilmæli til allra þeirra sem hafa í fórum sínum ljósmyndir, kvikmyndir, ritaðar heimildir eða önnur gögn sem tengjast sögu íslenska hestsins og hestamennsku, að hafa samband við Sögusetrið.
Meðal efnis sem við erum sérstaklega að leita að eru myndir frá fyrstu landsmótum og fjórðungsmótum sem haldin voru, og eins af nafngreindum kynbótahrossum og gæðingum frá því fyrir 1980.

Sími Söguseturs íslenzka hestsins er 455 6345, netfang bjorn@holar.is og veffang www.sogusetur.is.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 10.tbl. 2003.

Spurningaþáttur í sjónvarpi

Hestar

Jónas R. Jónsson

Fyrst hafði ég ekki áhuga, þegar talað var við mig um að taka að mér spurningaþátt í sjónvarpi. Nokkrir ímyndarmenn, sem ég hafði samráð við, hvöttu mig þó til að íhuga málið betur, því að hlutverkið gæfi mér sem umboðsmanni tækifæri til að hafa aðgang að fjölmiðlum á annan hátt en beint á vegum hestamennskunnar.

Ég mundi kynnast fólki og það mundi kynnast mér. Ég yrði aðgengilegri í hugum fólks og það mundi nýtast störfum mínum á vegum hestamennskunnar, ekki sízt erlendis, þar sem víða þykir merkilegt eða athyglisvert að stjórna þessari vinsælu tegund sjónvarpsþátta.

Á þessum forsendum lagði ég málið fyrir stjórn embættisins, sem samþykkti það. Þáttarstjórnin tekur engan tíma frá mér. Ég kem ekki nálægt undirbúningi þáttanna og er bara við störf á sýningartímanum. Ég er því ekki að taka vinnutíma frá hlutverki mínu í þágu hestamennskunnar, heldur aðeins að skapa mér aukin færi á að koma málum hestamennskunnar á framfæri.

Á þessum fyrstu mánuðum í starfi mínu sem umboðsmaður hestsins hef ég einkum verið að kynnast fólki og hlusta á það, læra af reynslu þess. Fyrstu aðgerðir eru hafnar og beinast einkum að kerfisbundinni uppbyggingu sóknar á erlenda markaði, einkum á Bandaríkjamarkað og þjónustu við hann. Stjórn verkefnisins er samþykk þessari forgangsröðun.

Atvinnuleyfi í Bandaríkjunum

Eitt brýnasta málið er að fást við þann vanda, að íslenzkir reiðkennarar og tamningamenn eru á stöðugum ferðum til Bandaríkjanna án þess að hafa vegabréfsáritun til launaðara starfa. Þeir hafa bara ferðamannaáritun til þriggja eða sex mánaða og hafa sumir þegar lent í að vera vísað frá landinu við komuna á flugvelli, af því að tími vegabréfsáritunar var útrunninn.

Hætta er á, að sumum þessara manna verði vísað frá Bandaríkjunum til langs tíma af því að þér séu þar við launaða vinnu án þess að hafa til þess skilríki. Þeir hafi komizt inn í landið undir því yfirskyni, að þeir séu ferðamenn.

Ég hef sett í gang ferli, sem miðaðar að viðurkenningu innflytjendaskrifstofunnar í Bandaríkjunum á því, að íslenzki hesturinn þar í landi sé sérstæður, til dæmis vegna fimm mismunandi gangtegunda. Til skjalanna þurfi að koma íslenzkir reiðkennarar og tamningamenn með sérhæfða kunnáttu. Ákvæði eru um þetta í reglum um innflytjendur í Bandaríkjunum.
Við erum í sambandi við þrjár lögmannsstofur þar vestra, sem sérhæfa sig í málum innflytjenda. Ég hyggjst fyrir áramót velja eina þeirra til að taka að sér að benda á leið til ódýrara og einfaldara umsóknarferlis en verið hefur.

Þegar rétt umsóknarferli er fundið, geta starfsmenn utanríkisþjónustunnar stuðlað að almennri afgreiðslu málsins með samböndum sínum við hlutaðeigandi aðila í Bandaríkjunum.

Markmiðið er, að reiðkennarar og tamningamenn geti farið til Bandaríkjanna til starfa og verið þar langtímum saman á fullkomlega löglegan hátt án þess að eiga yfir höfði sér neinar refsiaðgerðir eða útskúfun. Fyrstu ágizkanir benda til, að viðurkenningarferlið kosti tæpar 200.000 krónur á mann hjá þeirri lögfræðistofu, sem tekur málið að sér.

Við verðum svo að horfast í augu við, að það getur tekið nokkur ár að koma málinu í gegn, af því að hryðjuverkaótti í Bandaríkjunum hefur gert allt slíkt ferli seinvirkara en áður var. Tilslakanir á ferðahömlum eru ekki lengur gerðar nema að mjög rækilega athuguðu máli.

Meira en hestasalan ein

Bandaríkjamarkaður er að ýmsu leyti erfiðari en hinir hefðbundnu markaðir íslenzka hestsins. Jafnframt eru flestir sammála um, að möguleikar á útþenslu séu mestir þar. Þess vegna hef ég tekið verkefni Bandaríkjamarkaðar fram fyrir verkefni á evrópskum mörkuðum, sem eru orðnir meira eða minna þróaðir.

Eitt helzta sérkenni bandaríska markaðarins eru miðaldra konur, sem vilja mjög þæga hesta, eru oft í töluverðum vandræðum með þá og þurfa á mikilli aðstoð að halda. Annað helzta sérkennið eru miklar fjarlægðir milli staðanna, þar sem íslenzk reiðmennska er kennd og íslenzkir hestar þjálfaðir.

Miklu máli skiptir, að upp rísi búgarðar eða aðrar miðstöðvar, þar sem Íslendingar sinni bústjórn, tamningum og reiðkennslu. Þannig myndast tengsl milli Íslands og kaupenda í Bandaríkjunum. Þannig myndast grunnur að þekkingu á sérstakri meðferð íslenzka hestsins. Þannig myndast festa í samskiptum og viðskiptum.

Bandaríkin eru markaður, þar sem salan er bara einn þáttur dæmisins. Flytja þarf hestana héðan til viðurkenndra Íslandshestabúgarða, þar sem þeir fá tíma til að jafna sig eftir ferðalagið og fá þjálfun af hálfu þekkingarfólks. Þegar hesturinn er tilbúinn, þarf að þjálfa væntanlegan eiganda til að ná tökum á hestinum.

Þetta eykur auðvitað kostnaðinn, en á ekki að hafa áhrif á söluverðið, heldur koma til viðbótar við það. Ég sé þetta fyrir mér sem hvetjandi kerfi, þar sem kaupendur sjái sér hag í að kaupa þjálfun, námskeið og aðra þjónustu ofan á hestverðið.

Ná þarf til háskóla

Mikilvægt er, að Bandaríkjamarkaðurinn nái til unga fólksins á svipaðan hátt og gerzt hefur í Evrópu. Koma þarf íslenzkum hestum í reiðklúbba og koma þar inn sértækri reiðkennslu fyrir íslenzka hestinn. Úr þessum reiðklúbbum kemur fólk, sem er reiðubúið að taka hestamennsku alvarlega og getur náð góðum tökum á íslenzka hestinum.

Fyrst þurfum við að koma Hólaskóla í samband við nokkra bandaríska háskóla, þar sem reiðmennska er kennd og flytja þannig þekkingu frá þekkingarfólki til þekkingarfólks. Ég sé fyrir mér, að kennarar frá Hólum fari milli þessara háskóla til að kenna hina sérstöku þætti íslenzkrar reiðmennsku. Á móti kæmu hingað kennarar og nemendur til þjálfunar.

Ef svo sem fimm bandarískir háskólar hefðu 500 nemenda reiðmennskudeildir og 2-3 íslenzka hesta hver, væri hægt að kveikja áhuga hjá sumum nemendum. Ef 2% fengju áhuga, eru það 50 manns á ári og 250 manns á 5 árum. Þetta mundi síðan hafa margfeldisáhrif út frá sér.

Þetta er forgangsmál hjá mér næst á eftir breyttum vegabréfsáritunum. Í vetur ætla ég að vinna að því að koma á samböndum við háskóla í Bandaríkjunum og selja þar hugmyndina um samstarf við íslenzka aðila. Að því loknu vil ég leggja fram drög að tillögu um, að Hólaskóli fái frá árinu 2005 fjárveitingu fyrir einum viðbótarkennara og ferðakostnaði í tengslum við samskiptin vestur um haf. Áhugi er fyrir þessu í ráðuneytinu, en berjast þarf fyrir því, að þetta mál komist inn í næsta fjárlagafrumvarp.

Losnum við sóttkvína

Afnám sóttkvíar í Bandaríkjunum er þriðja mál í forgangsröðinni. Sóttkví er núna þriggja daga fyrir hesta frá Íslandi og kostar 100.000 krónur. Við stöndum þar vel að vígi í samanburði við Þjóðverja, sem þurfa að hafa sína hesta í sóttkví í 30 daga. Við getum hins vegar fengið sóttkvína alveg fellda niður og þá um leið kostnaðinn, sem henni fylgir.

Það getum við, ef vísindamönnum á Keldum tekst að ákveða, hvaða veira af þremur mögulegum olli hrossasóttinni um árið. Fjármagn vantar til að ljúka þeim rannsóknum, sem gætu kostað 10 milljón krónur hið mesta. Við mundum ná þeim kostnaði til baka af sparnaði við sóttkví 100 hesta.

Embætti umboðsmannsins hefur sjálft ekkert fé til verkefna af þessu tagi, en reynir að stuðla að því, að fjármagn komi frá öðrum aðilum. Ég held, að það muni takast, þegar þekkingarleg samskipti í hestafræðum milli Íslands og Bandaríkjanna eru komin í traustan farveg.

Tökum af festu á exemi

Við þurfum að taka af festu á sumarexemi. Við þurfum að breiða út þá þekkingu, sem þegar er til um, hvernig fagmenn fara að því að halda því svo mikið í skefjum, að það verði ekki alvarlegt vandamál. Um þetta hafa komið ágætar greinar í alþjóðaútgáfu Eiðfaxa og verða vonandi fleiri. Annars vegar er um að ræða lyf og krem og hins vegar sérstakar aðstæður í húsakosti og nákvæmni í útivistartíma hrossa.

Jafnframt þarf að verja meiri fjármunum til rannsókna á Keldum með það fyrir augum að finna varanlega lausn á vandamálum exems. Meðan við bíðum eftir því, þurfum við að taka exemið mjög alvarlega og dreifa jafnóðum beztu fáanlegri þekkingu um meðferð þess.

Við erum að hefja undirbúning að gerð bæklings um meðferð íslenzka hestsins, þar sem meðal annars verður fjallað um exem. Þar eiga að vera öll helztu atriði, sem varða hófhirðu, ormalyf, fæðu og fleira, sem menn þurfa að vita, en hafa ekki greiðan aðgang að upplýsingum um. Stefnt er að því, að slíkur bæklingur fylgi öllum hestum, sem seldir eru til útlanda. Undirbúningur að gerð hans er þegar hafinn.

Upprunaland og knapamerki

Eitt af verkefnum umboðsmannsins er að vinna að alþjóðlegri staðfestingu á Íslandi sem upprunalandi íslenzka hestsins, svo að það fari ekki milli mála á alþjóðlegum vettvangi. Þetta virðist sjálfgefið hér á Íslandi, en því til viðbótar þurfum við að fullnægja ýmsum formsatriðum á erlendum vettvangi.

Knapamerkjakerfið, sem Hulda Gústafsdóttir vann fyrir Átaksverkefnið, er merkilegt framtak, sem stuðlar að kerfisbundinni þróun hestamennskunnar og útbreiðslu hennar í menntakerfinu, þar sem hestamennska verði gerð að valgrein. Ég er bjartsýnn á útvegun fjármagns til þess, ef raunhæfar áætlanir um ferlið verða gerðar. Mikilvægt er, að hestamannafélögin taki sem mest frumkvæði í málinu.

Vottun hesta og búgarða

Æskilegt er að koma upp einhvers konar óháð vottunarkerfi fyrir hesta og tamningu eins og tíðkast í ýmsum öðrum atvinnu- og útflutningsgreinum. Við getum hugsað okkur, að vottunarblað gæfi greinargóða mynd af hestinum og sagt hvers konar fólki hann gæti hentað. Slík vottun yrði til að efla traust og liðka fyrir sölu hesta bæði innanlands og utan.

Einnig er skynsamlegt að stefna að vottunarkerfi fyrir búgarða í útlöndum, þar sem unnið er markvisst eftir þeim markmiðum, sem við leggjum áherzlu á, svo sem góðum undirbúningi fyrir sölu hrossa og með góðri eftirfylgni, þar sem íslenzkir fagmenn koma að málum. Allt, sem stuðlar að trausti í hrossakaupum, leiðir til léttari sölu og aukinnar sölu. Þetta er hins vegar umdeilt mál og þarf töluverðan tíma til gerjunar, áður en tímabært er að setja fram áætlun um aðgerðir.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 9.tbl. 2003