Hestar

Gamalreyndir fararstjórar hafa orðið

Hestar

Eiðfaxi hefur talað við nokkra gamalreynda fararstjóra í löngum hestaferðum um, hvernig ferðadagarnir séu skipulagðir. Svör nokkurra þeirra birtast hér í opnunni og á næstu opnu. Svör annarra munu birtast síðar í Eiðfaxa.

Með þessum greinaflokki er Eiðfaxi að dreifa þekkingu úr reynslubrunni liðinna áratuga til almennra hestamanna, sem ekki hafa enn öðlast þessa reynslu. Mikilvægt er að leita víða fanga, því að skipulag hestaferða er ekki orðin slík fræðigrein, að einn maður búi yfir öllum sannleika. Hins vegar er samanlögð reynsla þessara manna ómetanleg heimild.

Búinn að grandskoða kortin

Ólafur B. Schram:

Dagurinn byrjar með fundi kvöldið áður, þar sem farið er yfir leið morgundagsins og rætt, hvernig menn geti skipt hestum sínum á leiðina eftir aðstæðum, og ennfremur rætt um annað, sem menn kæra sig um að fá að vita. Þá heldur einn ferðafélaganna fyrirlestur um landafræði, jarðfræði, sagnfræði, þjóðfræði og persónufræði svæðisins. Um kvöldið eru einnig kannaðir fætur á hestunum og lagaðar járningar, ef á þarf að halda.

Ef dagleiðin er 40 kílómetrar yfir torleiði, vil ég fara í hnakkinn klukkan níu, annars alls ekki seinna en klukkan tíu og vil að staðið sé við brottfarartímana. Ég vil vera kominn í náttstað í síðasta lagi klukkan fimm-sex. Teygjan í deginum er fyrripartinn, en ekki seinnipartinn. Menn mega nota áfengi eins og þeir vilja, en þeir mega ekki láta sjá á sér.

Yfirleitt er fararstjórinn í forreiðinni. Hann verður að haga áföngum eftir landinu og aðstæðum í ferðahópnum. Hann þarf að finna á sér líðan fólks og hesta. Fólk og hestar geta þreytzt af tilfallandi orsökum, til dæmis ef menn hafa þurft að hleypa fyrir hross.

Ég vil stoppa eftir kortérs til hálftíma reið að morngi, svo að klárarnir geti kastað af sér vatni. Á fyrsta degi vil ég skipta um hesta á klukkutíma fresti, en síðar í ferðinni á 15-20 km fresti. Ef ég er einn, vil ég fara um 60 km á dag, en ekki meira en 35 km, ef ég er með öðrum. Þegar ég fór við þriðja mann hringinn umhverfis landið, voru þetta 60, 80 til 120 km dagar. Í öllum tilvikum vil ég vera með fjóra hesta og nota þrjá, en gefa einum frí þann daginn. Auðvitað eru þetta allt meginlínur, sem ég verð svo að sveigja frá eftir aðstæðum.

Við förum rólega af stað og gætum þess, að í hverjum áfanga séu einhverjir á reyndum klárum til að taka að sér að ríða fyrir hross og fara í aðrar reddingar. Oft byrja menn í forreið til að fara í fyrirstöður og fara síðan í eftirreið að því loknu eða koma aftur í forreiðina, ef þörf er á því. Eftirreiðin fylgist með helti og lausum skeifum. Sjálfur á ég ekki písk og slæ aldrei hest, en viðurkenni, að þægilegt er að hafa písk til að rétta út til að hindra lausan hest í að fara framúr.

Við erum alltaf nokkrir í hópnum með 20 metra bút af fánasnúru til að slá utan um hrossin í áningu. Þetta er til mikilla þæginda, þegar skipt er um hross. Þegar búið er að gefa áningarmerki í forreið, fara tveir-þrír eftirreiðarmenn meðfram hrossunum út á hlið til að loka hringnum betur. Svo fara allir á snúruna og einn skiptir í einu um hest. Allir eiga að gera strax það, sem þeir þurfa að gera.

Svo gefur fararstjóri merki um, hvenær eru þrjár mínútur í jæja, sem er merki um, að allir fari á bak í einu. Ekki má fara af stað fyrr en allir eru farnir á bak. Og alltaf verður að skilja einn eða tvo eftir hjá þeim, sem lokar hliðum, svo að hann eigi hægara með að komast á bak.

Þegar ég er einn á ferð, er ég ýmist á undan eða eftir. Það fer eftir því, hvort hrossin sækja fram eða slóra. Víðast er hægt að fara eftir slóðum. Ef ég er á eftir, kalla ég í forustuhestinn, ef hann velur ranga leið, og þá færir hann sig yfir á rétta leið. Yfirleitt finna þeir beztu leiðina. Þetta eru vanir hestar, sem ég er með. Einn þeirra er forustuhestur og annar er vara-forustuhestur. Báðir skilja þeir hljóðmerkin, sem ég gef. Þess vegna þarf ég ekki að þvælast fram og aftur.

Stundum erum við með staðkunnugan leiðsögumann, ef ég þekki ekki leiðina, sérstaklega í byggð eða þegar við höldum kyrru fyrir og viljum skoða nágrennið. Hins vegar leyni ég því ekki, að mínar skemmtilegustu stundir eru, þegar ég fer á undan hópnum og kanna ókunnugar slóðir til að finna, hvar bezt er að fara. Ég er auðvitað áður búinn að grandskoða kortin og sérstaklega hæðarlínurnar. Við þessar aðstæður er ég njósnari, landkönnuður, indjáni, allt þetta skemmtilega.

Ég nota ekki hjálpartæki við að rata rétta leið. Ég er að vísu með kompás, en hef aldrei notað hann, enda hefur hann takmarkað gildi, þegar finna þarf hlið eða vöð. Ég nota ekki staðsetningartæki, enda sé ég ekki, hvað menn með slík áhugamál hafa að gera á hestum. Þeir eiga bara að fá sér bíl.

Ef þoka skellur á og við erum á ókunnu svæði, stöðva ég hiklaust reksturinn og held kyrru fyrir heldur en að æða út í óvissuna. Ég sat einu sinni um kyrrt í fjórtán tíma á Hlöðuvöllum. Í sumum tilvikum getur maður komizt í næturstað með því að fylgja krókóttum slóða í stað þess að stytta sér leið, eins og maður hefði gert í góðu skyggni.

Skemmtilegra að reka en teyma

Hjalti Gunnarsson:

Þegar ég er ekki með ferðamenn, heldur í hópi kunningja, sem hafa ferðazt mikið saman, er lítið um formfasta verkaskiptingu. Við reynum að hafa bara ein járningatæki, því að óþarfi er að íþyngja hestunum með því að hafa mörg slík. Við reynum að deila skeifunum milli fólks. Stundum reiðum við með okkur heila girðingu með lítilli vasastöð.

Sjálfur er ég yfirleitt með písk, því að mér finnst ég annars vera handalaus í rekstri. Ég týni ekki pískum, af því að ég sting þeim í kenginn framan á hnakknum. Helzt vil ég hafa pískinn hvítan, svo að lausu hrossin sjái hann vel og agti hann betur.

Mér finnst skemmtilegra að reka en teyma. Við sumar aðstæður er þó heppilegra að teyma, til dæmis þegar ætlunin er að geta stanzað hvar sem er og skoða áhugaverða staði. Í rekstri er gott að láta lausu hrossin ráða ferðinni sem mest. Eftirreiðin má ekki fylgja of fast eftir, nema lestin sé farin að slitna. Hjá vönu fólki er þegjandi samspil milli forreiðar og eftirreiðar um áreynslulausan rekstur.

Í tvö sumur hef ég notað vasatalstöðvar milli forreiðar og eftirreiðar og finnst þær þægilegar. Þær ná 2-3 kílómetra. Svo er ég með NMT-vasasíma, sem ná því miður ekki sambandi víða á Kili jafnvel þótt farið sé upp á hóla. Öll slík tæki eru til mikils öryggis og það er ólíðandi að ekki skuli vera símasamband á svo fjölfarinni leið.

Reglur eru fáar en ákveðnar. Mikilvægast er að hafa notkun víns í lágmarki yfir daginn, áður en komið er náttstað. Bezt er raunar, að hún sé engin, meðan menn eru á hestbaki. Flestir nota hjálma núorðið, en við höfum ekki gert það að skilyrði. Ég vil helzt fara fremur seint af stað, helzt ekki fyrr en um hádegi, ef veður er þurrt og gott og dagleið ekki löng. Mér finnst hestar hvílast vel á tímanum frá kl.10 til 12.f.h.Þá liggur nánast hver einasti hestur.

Á ferðalagi gef ég alla heygjöfina í tveimur hlutum að kvöldi og ekkert að morgni. Þá eru hrossin oft í þann veginn að klára miðnættisgjöfina. Ég vil heldur, að hrossin leggist að morgni og hvílist fyrir ferðadaginn. Ég vil svo ekki gusast af stað, heldur leyfa hrossunum að leka úr gerðinu og taka niður á rólegu rölti, áður en farið er upp á fullan ferðahraða.

Notaleg dagleið er fimm-sex reiðtímar, 30-40 kílómetrar. Fólk, sem er að ferðast sér til skemmtunar, ætti að miða við, að hafa þetta ekki mikið meira. Fjarlægðir milli skála ráða því þó oft, hvað dagleiðir verða langar.

Ég fylgist vel með ástandi hrossa. Yfirleitt er ég í forreið, en stoppa stundum og fer til hliðar til að fylgjast með fótum hrossa. Ég læt reksturinn líða fram hjá mér og horfi aftur undir hrossin og sé undir alla fætur. Ég sé helti, heyri glamur og sé, ef skeifa er farin. Þetta þarf að gera öðru hverju. Eftirreiðin þarf að fylgjast með þessu á sama hátt frá sínu sjónarhorni. Svo stend ég oft við hliðið, þegar hross fara inn í áningarhólf, og þarf þá ekki að rölta um hólfið á eftir til að skoða fætur. Þá sé ég, hvort steinn sé fastur í hófi. Ég lyfti ekki upp fótum, nema af gefnu tilefni. Svo lít ég á fætur, þegar hrossum er gefið í náttstað.og brýni fyrir ferðafélugunum að hafa augun hjá sér.

Ég slæ alltaf bandi utan um hópinn í áningu og bý til lokað hólf, ef ætlunin er að skipta um hesta. Fólk þarf að dreifa sér á línuna. Og standa innan við línuna og hafa hana fyrir aftan bak. Ef hestur stekkur á línuna. Síðan skiptast menn á, þannig að fáir séu að taka hesta í einu, helzt ekki nema tveir. Annars er hætt við, að hestar styggist og skiptingin verði óþægilegri. Alltaf þurfa að vera tveir tilbúnir hnakkhestar til taks. Ef veður er vont, er stundum heppilegt að fleiri séu að skipta í einu. Þá er gott að menn taki með sér hestinn inn í hólfið og sleppi honum ekki fyrr en þeir hafa náð nýjum hesti. Við þær aðstæður hafa allir hest, ef stóðið springur. Ekki er gott að verða hestlaus í vondu verði. Passa verður að hafa hlið á línunni til að teyma hest í gegn,aldrei má teyma hest undir eða yfir línuna, því þá hætta þeir að bera virðingu fyrir henni.

Mikla aðgát þarf á vöðum jökulfljóta, einkum út af sandbleytum, til dæmis í Ströngukvísl. Ég reyni að sjá af straumfallinu, hvar eru lygnur, sem beri að forðast vegna sandbleytu, og hvar er skrúfustraumur, þar sem búast má við djúpum ál. Ég reyni að finna stað með jöfnum straumi, helzt á broti. Fyrst þarf einn að kanna vaðið, áður en flotinn leggur í ána. Oft leita lausu hrossin neðar og neðar, svo að eftirreiðin fer of neðarlega, ef hún hefur ekki lagt vaðið á minnið.

Leyfum
þeim að
lesta sig

Árni Ísleifsson:

Mér finnst gott að vera kominn af stað um kl. 10 á morgnana. Ef eitthvað er að veðri, er gott að hafa daginn fyrir sér. Ég held líka að það sé gott fyrir hestana að vera búnir að jafna sig fyrir sárasta kvöldkulið.

Ég teymi lítið og er mest með rekstur. Mikilvægt er, að eftirreiðin sé ekki með mikil læti, heldur leyfi hestunum að lesta sig, helzt í einni götu. Ef of hart er rekið, hrökkva hross úr götu, þau fara að bíta hvert annað til að verja stöðu sína í lestinni. Þau þreytast minnst, ef þau lesta sig vel. Raunar er þægilegast að láta lausu hrossin ráða ferðinni sem mest.

Ég nota písk, til dæmis til að hafa hemil á einstaka hesti, sem hefur þá áráttu að reyna að sækja fram úr forreiðinni. Ég man eftir tveimur hestum, sem voru afleitir saman í heilli ferð, svo að við þurftum að haga svo til, að alltaf væri öðrum þeirra riðið, þá var hinn til friðs.

Ég slæ rafmagnsspotta utan um hópinn í áningu. Síðan skiptast menn á um að taka hesta í rólegheitum. Svona spottar eru til mikilla þæginda. Hestar eru yfirleitt svo rólegir innan bandsins, að það má ganga beint að þeim. Svo fjölgar líka skiptihólfum, sem eru til mikilla bóta, því að þar slaka menn og hestar sér betur niður. Svona skiptihólf þurfa að vera með reglubundnu millibili á fjölförnum langleiðum, svo sem Kili.

Kvölds og morgna þarf að líta yfir hrossin í náttstað, lyfta fótum, þreifa á sinum og skoða járningar. Eftirreiðin þarf að fylgjast með skeifum og helti.

Ef ég er að fara nýjar slóðir, skoða ég bækur og kort. Yfirleitt hef ég einhvern kunnugan með mér. Mest fer ég slóðir, sem ég þekki vel. Ef ég hef farið einhverja leið einu sinni í björtu, er ég nokkuð öruggur um að rata hana aftur. Ef þoka skellur á og lítið er um kennileiti, er bezt að bíða og missa ekki rósemina. Ef ekki er gata til að fylgja, geta menn lent í að ríða í hringi.

Þingmannaleið hæfileg

Andreas Bergmann:

Áður fyrr voru dagleiðirnar of langar, 50-70 kílómetrar. Mér finnst gott að fara þingmannaleið, 36 kílómetra á dag, ef þannig stendur á skálum. Við förum oft ekki af stað fyrr en um hádegið og erum þá fimm-sex tíma í hnakknum. Af illri nauðsyn eru dagleiðirnar stundum lengri, til dæmis yfir Sprengisand. Þá vil ég fara fyrr af stað. Ég hef trú á því, sem Pálmi Hannesson sagði, að ekki sé gott að rífa ferðahesta upp snemma á morgnana, að minnsta kosti ekki fyrir klukkan átta. Yfirleitt er gott að fara af stað milli klukkan tíu og tólf og þá er líka gott, að menn hafi farið til kojs fyrir miðætti.

Fararstjóri hverrar ferðar þarf að leggja samferðamönnum sínum línurnar. Gott er að byrja á morgnana á styggum hesti, sem erfitt er að taka við slæmar aðstæður. Gott er líka að byrja fyrst á yngri hestunum og gefa þeim svo frí seinni part dagsins. Á morgnana þarf að stanza eftir hálftíma til að leyfa hestunum að pissa og til að herða gjarðir.

Þegar komið er í áningu, þarf fólk að dreifa sér hringinn, en hnappa sér ekki saman til að spjalla. Mikilvægt er, að það sé ekki að hlaupa strax inn í hringinn til að ná sér í hest, heldur gefa hrossunum frið til að hvíla sig. Gott er að hafa hringinn stóran í fyrstu, svo að hestarnir hvílist vel, þrengja síðan hringinn og leggja út band, þegar á að fara að taka. Þá vinni menn saman við að ná í nýja hesta og séu alltaf með hugann við lausu hestana. Allir verða að taka þátt í að passa þá. Alltaf þurfa að vera við hendina hnakkhestar, því að einn hestur getur skyndilega fengið það, sem Páll heitinn Briem kallaði öræfabrjálæði, og dregið allan hópinn með sér út í buskann.

Mikilvægt er að standa vel að rekstrinum yfir daginn. Fólk þarf að vera sér meðvitað um á morgnana, sérstaklega fyrsta daginn, að hrossin koma úr ýmsum áttum og hafa ekki enn samlagazt. Sum hross vilja taka sig úr hópnum og stökkva til baka. Þá þurfa að vera vel ríðandi menn í eftirreið og hafa eitthvað í hendinni. Písklausir menn eru ekki nema hálfir við slíkar aðstæður. Sama gildir um forreiðina, einkum í síðari hluta ferðar, þegar hópurinn nálgast byggð og sum hross fara að þrýsta á forreiðina. Vel ríðandi og vanur maður með písk getur leikið sér að því að halda hundrað lausum hestum fyrir aftan sig. Þó finnst mér betra, að tveir eða þrír séu í forreið.

Eftirreiðin er yfirleitt fjölmennari og þarf að fylgjast vel með glamri í skeifum og skeifuleysi í rekstrinum og sjá, hvenær hestur hefur fengið stein í hóf. Í áningum þarf svo hver fyrir sig að líta á hófana á sínum hestum og skoða undir þá hesta, sem á að fara að ríða. Í náttstað fer ég út í hestahólfið um kvöldið til að fylgjast með, hvort eitthvað ami að. Á morgnana göngum við svo allir um hópinn og skoðum, áður en við förum af stað. Þá er góður tími til að laga járningar.

Trússjeppann látum við fylgja með rekstrinum, þegar því verður við komið. Hann er með nesti og rafmagnsgirðingu, svo að fólk og hestar geti hvílst betur í áningum. Sums staðar eru komin áningarhólf, svo sem á Fjallabaksleið og Landmannaleið. Það er til mikilla þæginda. Hraðinn á ferðalaginu ræðst mikið af hrossunum og aðstæðum. Það þýðir ekki að ríða eftir klukku, en gott er að ríða í þrjú kortér eða klukkutíma og stoppa í kortér, ef aðstæður leyfa. Áningar með hestaskiptum hafa tilhneigingu til að fara langleiðina í klukkutíma. Svo er líka í lagi að slá hlutunum upp í kæruleysi og hafa langt aukastopp, ef allt í einu hættir að rigna og birtir til á fallegum stað. Sveigjanleiki verður að vera í spilunum.

Byrjað milli girðinga

Viðar Halldórsson:

Mér finnst gott að vera kominn í hnakkinn um klukkan ellefu. Helzt vil ég ekki koma seint í náttstað, ekki seinna en klukkan sjö. Klukkan átta er í það síðasta. Sex tímar eru hæfileg dagleið, svona 35 kílómetrar á dag, ef fjarlægð milli skála leyfir. Ef langar og erfiðar dagleiðir eru í byrjun ferðar, verða hestarnir þreyttir og bera þess merki alla ferðina.

Í rekstri er gott að haga ferðum þannig, að á fyrsta degi sé byrjað á stað, þar sem þægilegt er að reka, til dæmis milli tveggja girðinga. Það auðveldar okkur að venja hestana við að halda hópinn og minnkar hættuna á, að við missum þá frá okkur.

Ef farnir eru 40-50 kílómetrar á dag, vil ég að minnsta kosti fjóra fullfæra hesta fyrir mig. Ég tel yfirleitt, að menn komist ekki af með minna en þrjá fullgilda hesta á löngu ferðalagi. Auðvitað er misjafnt, hvað menn mega krefja hesta sína mikið. Menn þurfa að gæta þess, að ganga ekki of nærri hrossunum. Ef hrossin eru farin að svitna upp á lendina, þurfa menn að fara að gæta sín. Ef menn eru í vafa um þol hrossa, er kjörið að taka púlsinn hálftíma eftir stopp. Ef hann er ekki kominn niður í 45 eða lægra, þá er hætta á ferðum.

Gott er að hafa hálftíma í fyrsta stopp á hverjum degi og ríða annars upp undir eða um klukkutíma í áfanga, ef aðstæður leyfa manni að velja. Bezt er að ríða með jöfnum hraða á góðri milliferð og stoppa stutt í áningu, sérstaklega ef dagleið er löng. Lengsti tíminn fer oft í áningarnar og þær þvæla hrossin. Þau þreytast minna, ef þau komast sem fyrst í náttstað.

Fararstjórinn þarf að reyna að stjórna hraðanum. Mikilvægt er að fara ekki of hratt í byrjun dagsins. Mín reynsla er, að of mikill hraði í byrjujn valdi því, að hálfgerður tryllingur verði í lausu hrossunum allan daginn. Forreiðarmenn þurfa oft að veifa pískum til að hamla framsæknum hrossum.

Gott er, að eftirreiðin hafi svo sem þrjár eða fjórar hestlengdir í síðustu hestana, enda er þá minni hætta á, að hross springi úr lestinni og menn þurfi að elta þá.

Menn þurfa að skipta sér í tvo hópa fyrir framan og aftan. Þeir, sem eru á mjög viljugum hesti, eru betur settir fyrir framan, en hinir fyrir aftan, sem eru á fremur rólegum hesti. Báðir hestarnir verða þægilegri með þannig skiptingu. Að öðru leyti er gott að menn skiptist tiltölulega jafnt í forreið og eftirreið og taki allir þátt í rekstrinum.

Allir þurfa að vera með á nótunum, þegar áð er. Þá þarf að raða sér vel umhverfis hrossin og gæta sérstaklega að þeim kantinum, þar sem hestarnir sækja á. Ótal sögur eru af því, að menn hafa ekki staðið nógu vel að hrossunum, hafa misst þau frá sér á fulla ferð. Þá þurfa menn að vera sérstaklega vel ríðandi til að komast fyrir þau.

Gott er að hafa borða eða línu í ferðinni til að ná hrossum í áningu. Ég vil, að hestarnir séu fyrst látnir í friði dálítinn tíma áður en farið er að ná þeim. Það verður meiri spenna í hrossunum, ef strax er farið að atast í þeim. Betra er að róa þau niður fyst, þá gengur allt betur.

Á leiðinni er skynsamlegt að venja sig á að líta undir hestana fyrir framan sig til að sjá, hvort þeir hafi misst skeifur. Í áningarstöðum fara nokkrir og kíkja á hópinn til að gá, hvort skeifa sé farin. Þegar menn taka hesta, er gott að lyfta fæti til að sjá, hvort steinn hafi farið undir hófinn. Til að losa þá eru notaðir litlir krókar, sem fara vel í vasa. Við sama tækifæri þarf að strjúka niður fæturna til að skoða, hvort þeir séu farnir að bólgna og hvort allt sé í lagi. Stundum er ég með kælikrem og ber í náttstað á þá fætur, sem mér finnst vera viðkvæmir.

Lausu
hrossin ráða
ferðinni

Haraldur Sveinsson:

Í fyrstu ferðunum var lítið um girðingar eða gerði í áningarstöðum. Við heftum þá hestana og skiptumst á um að vaka yfir þeim. Ég á enn mjúk og fín leðurhöft, en áratugir eru síðan ég notaði þau.

Lítið hefur verið um formlega fararstjórn eða reglur í ferðunum. Þetta hefur mest gengið af sjálfu sér. Björn heitinn flugmaður var oft forreiðarmaður, enda þekkti hann landið vel eftir að hafa flogið ótal sinnum yfir það. Hann kom þeirri reglu á, að áfengi væri ekki notað yfir daginn. Við máttum fá einn snafs að morgni og síðan annan, þegar við sáum til næturstaðarins og vissum, að við mundum komast alla dagleiðina.

Við erum yfirleitt snemma á fótum og förum að huga að hrossunum. Eftir hafragrautinn förum við að taka saman og setja í bílinn. Aldrei er rekið á eftir neinum, svo að yfirleitt er ekki farið af stað fyrr en undir hádegið, nema fyrirhuguð dagleið sé óvenjulega löng.

Við látum yfirleitt lausu hrossin ráða ferðinni. Þau eru orðin vön því að fara á góðri milliferð, ekki með neinum gassagangi. Ég ríð með písk, en nota hann nánast ekkert nema til að ógna hrossum, sem vilja æða fram. Til þess að ég týni honum ekki, læt ég lykkjuna hanga á úlnliðnum.

Hver reynir að passa ástandið á sínum hestum. Ég hef vanið mig á að taka fæturna upp á mínum hestum á hverjum morgni. Járningamenn eru orðnir svo góðir, að sjaldgæft er, að skeifa fari undan hesti.

Ég vil fara hægt af stað að morgni og leyfa hestunum að míga eftir hálftíma. Svo er gott að taka einn eða tvo tíma í hvern áfanga eftir aðstæðum. Yfirleitt eru áfangar ekki skipulagðir fyrirfram, heldur koma af sjálfu sér eftir landinu. Við stöndum kringum hrossin í áningunni, en notum yfirleitt ekki band.

Við erum með góð kort í ferðum, förum yfir þau á kvöldin til að undirbúa morgundaginn. Við notum lítið leiðsögumenn, en höfum oft fengið upplýsingar hjá kunnugum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 9.tbl. 2003

Þjóðlegur matur í ferðaveizlum

Hestar

Breyttir tímar eru í hestaferðum á fjöllum síðan rúmgóðir trússbílar leystu þröngar trússtöskur af hólmi. Fararstjórar, sem Eiðfaxi talaði við, eru flestir orðnir vanir veizlumat í hestaferðum, yfirleitt í þjóðlegri kantinum. Lýsingar þeirra á mataræði á fjöllum fara hér á eftir.

Andreas Bergmann:

Yfirleitt reynum við að hafa lúxusmat í löngum hestaferðum, með matseðli fyrir hvern dag, enda veldur bíllinn því, að ekki þarf að spara rúmmál eða þyngd. Þegar fólk er orðið vant að kaupa inn fyrir ferðirnar, verða ekki afgangar. Mér finnst matarreikningurinn verða furðanlega lítill liður, þótt ekkert sé til sparað.

Við grillum kjöt á grind og eldum heil læri vafin í ál og alls konar annan veizlumat. Með þessu höfum við mikið grænmeti og sósur. Á morgnana erum við með hefðbundið hlaðborð eins og á hótelum, en erum hætt að hafa hafragraut með súru slátri, af því að menn urðu leiðir á að þvo upp eftir hann

Árni Ísleifsson:

Bezt finnst mér að hafa kjarngóðan mat, grillað kjöt af ýmsu tagi, kjötsúpa, svo og reykt og saltað lambakjöt. Fisk er gott að hafa í bland, en hann geymist ekki vel, nema þá saltfiskur. Ég hef tekið eftir því í ferðum, að þeir, sem eingöngu borða grænmetisfæði, eru yfirleitt grindhorað fólk, sem er miklu úthaldsminna en aðrir, ef eitthvað er að veðri. Á morgnana finnst mér hafragrautur beztur. Hann fer vel í maga. Venjulega tek ég með mér brauðsneiðar í nesti yfir daginn.

Bjarni E. Sigurðsson:

Mér finnst gott að hafa góðan mat í hestaferðum. Eftir langan reiðdag er gott að hlakka til að fá góðan mat. Það er það síðasta, sem maður sparar á ferðalögum. Fólk leggur meira í mat í hestaferð en það mundi gera heima hjá sér. Og svo er reynslan sú, að margir eru latir við að smyrja sér á morgnana og eru orðnir svangir, þegar kemur að kvöldmatnum. Sjálfur tek ég brauð með púðursykri í vasann.

Helzt vil ég steikur og fisk á kvöldin, saltkjöt og kjötsúpu, svo og hangikjöt helzt einu sinni í ferð. Morgunmatur þarf að vera á hlaðborði eins og á góðu hóteli. Kokkurinn þarf að vera glaður og listfengur, svo að maturinn verði fallegur. Mér finnst bezt að hafa sérstakan kokk, heldur en að skipta eldhúsverkum milli þreyttra ferðalanga. Þreyttur maður getur ekki búið til góðan mat. Oft er þetta sami maðurinn, sem keyrir bílinn, ef ferðirnar eru ekki þeim mun fjölmennari.

Einar Bollason:

Ég kýs mér helzt kjarnmikinn íslenzkan mat hefðbundinn, svo sem steiktan fisk, fiskibollur, kjötsúpu, saltkjöt og baunir, buff eða hakk og grillað lambalæri á síðasta degi. Mér finnst gott að hafa mikið grænmeti með. Ég legg mikið upp úr góðum morgunmat með mörgum tegundum af áleggi og finnst hafragrautur vera alveg ómissandi. Eini gallinn við hann er, að hann fyllir svo vel, að maður er í vandræðum með að borða eitthvað annað eftir hann. Svo finnst mér gott að stinga ávexti og einni samloku í vasann.

Guðbrandur Kjartansson:

Til matar höfum við saltkjöt, svið, hangikjöt, kjötsúpu, grillkjöt, svona íslenzkt kjarnafæði. Við viljum hafa það þjóðlegt til fjalla. Á morgnana er hafragrautur, súrmjólk og morgunkorn.

Hannes Einarsson:

Í fyrstu ferðinni eyðilagðist mestallur maturinn af fyrirhyggjuleysi okkar og við lifðum dögum saman á niðursoðnum kartöflum. Ég léttist um átta kíló. Mér veitti ekki af að komast í slíka ferð aftur. Annars er ég mest fyrir hefðbundinn, íslenzkan mat, kjötsúpu, hangikjöt, saltkjöt, flatkökur og harðfisk. Ég er ekki fyrir pasta. Á morgnana borða ég helzt brauð og álegg, kornflex og ab-mjólk. Ég mundi ekki vilja egg og beikon.

Haraldur Sveinsson:

Við höfum mest hafragraut og slátur á morgnana og grillmat eða hangikjöt á kvöldin. Oftast eldum við sjálf, en til að keyra bílinn höfum sérstakan mann, sem ekki er í reiðinni.

Hjalti Gunnarsson:

Mest er ég fyrir lambakjöti í matinn á ferðalagi, alla vega eldað, grill, súpukjöt, saltkjöt og hangikjöt. Á morgnana er ég mest fyrir hafragraut,slátur og lýsi. Sem viðlegubúnað nota ég sæng í seinni tíð, því að það er oft of heitt í skálum fyrir svefnpoka. Yfirleitt er ég með kort og lesefni, sem tengist ferðinni og stundum með óviðkomandi lesefni.

Kristjana Samper:

Við kaupum saman inn fyrir ferðina eftir að hafa útbúið matseðil fyrir alla dagana. Í ferðinni elda ég svo sjálf með hjálp annarra í hópnum. Ég undirbý oft kvöldmatinn, áður en við leggjum af stað á morgnana, svo að ég er fljót að ljúka eldamennskunni á kvöldin. Sums staðar er hægt að ná í nýjan fisk. Við notum þó meira frystan fisk, sem er geymdur í frystiboxum, sem eru tengd við rafmagnið í trússbílnum. Ég man eftir skötusel, sem enn var hálffrosinn eftir tíu daga ferð.

Við erum með lambakjöt, læri, kótilettur og kjötsúpu. Við erum alltaf með stífan fisk, lax, lúðu og skötusel. Við byrjum á nýjum og viðkvæmum mat og tökum síðar það frosna. Við notum mikið af grænmeti, heilan kassa af tómötum, eggaldin, paprikur, púrrur. Ég grilla grænmetisrétti. Við erum alltaf með sojabaunir í chili con carne og aðra baunarétti. Þá legg ég baunirnar í bleyti að kvöldi, sýð þær að morgni og geymi í boxi til kvölds. Við matreiðum saltfisk um það bil tvisvar í löngum ferðum, eftir ýmiss konar spænskum aðferðum.

Á morgnana höfum við oft katalónskan morgunmat á borð við eggjakökur, svo og súrmjólk, músli og síld. Svo höfum við súrdeigsbrauð og ítölsk brauð, sem eldast vel. Við ristum brauðið, þegar það er orðið gamalt, svo að það er alltaf eins og nýtt. Í lengstu ferðum höfum við fengið Mosfellsbakarí til að senda okkur brauðpakka inn í miðja ferð.

Ólafur B. Schram:

Í morgunmat höfum við aðallega brauð og álegg, súrmjólk og músli, sjaldan hafragraut. Á kvöldin er oftast kjötmeti, grillmatur til hátíðarbrigða fyrst og síðast í ferðinni, en á milli kjötsúpa, saltkjöt, unnin kjötmtur og dósamatur, þegar við höfum verið lengi í óbyggðum. Bannað er að fara í búðir, eftir að reið er hafin. Ef menn hafa keypt of lítið af tóbaki, gosi eða brennivíni, verða þeir bara að hafa það.

Valdimar K. Jónsson:

Við erum mest með hefðbundinn íslenzkan mat á borð við hangikjöt og kjötsúpu, svo og bjúgu, með dósamat í bland. Oft kryddum við kjöt ofan í fötu til að grilla. Á morgnana erum við með hafragraut, súrmjólk, brauð og álegg, blóðmör og lifrarpylsu. Þá smyrjum við okkur líka nesti fyrir daginn, nema jeppinn flytji okkur hressinguna, sem er þægilegast.

Viðar Halldórsson:

Mér finnst gott að hafa hefðbundinn mat á ferðalögum, súpukjöt og grillmat, jafnvel hangikjöt. Ég mundi grennast, ef pasta væri á boðstólum.

Þormar Ingimarsson:

Mest hef ég notað hágæðafæði, einkum lambakjöt, en líka lax, bleikju og lítillega kjúkling. Saltkjöt og hangikjöt hefur vikið fyrir grillmat. Kjötið er kryddlegið í loftþéttum umbúðum og geymist vel. Í lengri ferðum látum við oft senda okkur matarpakka á miðri leið. Í morgunmat er mest brauð og álegg, en einnig mjólkurvörur og kornmatur.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8tbl. 2003

Ferðavín

Hestar

Andreas Bergmann:

Áfengi er minna notað en áður, alls ekkert yfir daginn, en sumir fá sér rauðvín og bjór á kvöldin, aðrir ekki.

Árni Ísleifsson:

Oft er ég með bjór eða pela til að grípa í kvöldin. Mér finnst bezt, að ró sé komin á mannskapinn milli kl. 11 og 12 á kvöldin.

Kristjana Samper:

Við drekkum ekki vín á hestbaki, en höfum alltaf vín með kvöldmatnum. Það eru pappafernur, sem keyptar eru sameiginlega af hópnum. Víninu höldum við volgu á hitakönnum meðan við borðum.

Bjarni E. Sigurðsson:

Ég vil ekki, að áfengi sé notað í hestaferðum og ekki heldur tóbak. Þetta eru nautnalyf, sem ekki hæfa í samneyti við hesta og náttúru.

Einar Bollason:

Ég vil helzt vera kominn í náttstað klukkan fimm-hálfsex. Þá hafa menn góðan tíma til að þvo sér og fá sér í glas eftir vínbann dagsins, áður en farið er að borða kvöldmatinn klukkan sjö. Svo eru menn bara komnir í ró klukkan ellefu.

Hannes Einarsson:

Nú er yfirleitt búið að banna allt sem heitir áfengi, enda sýnir reynslan, að það hentar ekki á daginn í löngum hestaferðum, allra sízt ef hópurinn er fjölmennur.

Hjalti Gunnarsson:

Mikilvægast er að hafa notkun víns í lágmarki yfir daginn, áður en komið er náttstað. Bezt er raunar, að hún sé engin, meðan menn eru á hestbaki.

Ólafur B. Schram:

Menn mega nota áfengi eins og þeir vilja, en þeir mega ekki láta sjá á sér.

Viðar Halldórsson:

Mér finnst gott að fá mér glas að kvöldi, en vil ekki hafa vín um hönd á ferðalaginu yfir daginn. Þótt menn kunni vel með vín að fara og ekki sjái á þeim, þá er það staðreynd, að það fer miklu meiri orka í ferðina hjá þeim, sem staupar sig. Menn verða þreyttari en ella, hafa ekki úthald og gera kannski mistök, sem koma niður á öllum.

Þormar Ingimarsson:

Meðan ferðast er á hestum er mikilvægt, að ekki sé notað áfengi af neinu tagi. Á kvöldin er í lagi að nota vín í hófi fram að fyrirfram ákveðnum háttatíma, en alls ekki til að detta í það.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2003

Nýr Eiðfaxi

Hestar

Smávægilegur hagnaður er í niðurstöðutölum hálfs árs uppgjörs Eiðfaxa. Eru þetta mikil og snögg umskipti til hins betra, því að undanfarin ár hefur verið mikið tap á rekstri félagsins á hverju ári, yfir 20 milljónir króna í fyrra. Horfur eru góðar í rekstri félagsins síðari hluta ársins og er því búizt við jákvæðri útkomu ársreiknings.

Áherzla hefur verið lögð á, að Eiðfaxi og Eiðfaxi International komi jafnan út á tilsettum degi og hefur það tekizt. Ennfremur hefur verið hægt að auka texta tímaritanna um 20% með breyttri hönnun og breyttu letri. Lesendur fá því meira lesefni fyrir peningana en áður, enda fer áskrifendum innlendu útgáfunnar hægt og sígandi fjölgandi og erlendu útgáfunnar nokkru hraðar.

Áherzlubreytingar hafa orðið á efni Eiðfaxa. Fræðsla og fagleg mál skipa hærri sess en áður, að nokkru leyti á kostnað afþreyingarefnis. Þannig eru í þessu blaði margar greinar, sem samanlagt fela í sér uppgjör á samræmi í dómum sumarsins, íþróttadómum, kynbótadómum og gæðingadómum. Jafnframt er þetta uppgjör á skoðunum manna á aukinni samræmingu íslenzkra og alþjóðlegra dómskerfa.

Í þessum greinum eru fjölbreytt sjónarmið dregin saman í einn pakka. Svipað hefur verið gert í undanförnum tölublöðum í mikilvægum málum, svo sem úttekt á ýmsum þáttum hestaferða í sjötta og sjöunda tölublaði, á spatti og exemi í fimmta og sjötta tölublaði, úttekt á trausti í hrossaviðskiptum í fjórða tölublaði, svo að þekkt dæmi séu tekin.

Í öllum tilvikum hefur víða verið leitað upplýsinga og skoðana, en efnið ekki sett fram í hefðbundnum langhundi, heldur með fjörlegum nútímahætti til að ná til sem flestra. Þetta hefur undantekningarlítið mælzt vel fyrir, enda er líklegt, að efnið ná til fleiri lesenda, þegar það er þannig sett fram. Margir hafa beinlínis haft samband af fyrra bragði til að þakka þessa framsetningu.

Í upphafi breytinganna var einnig sett það markmið, að hvert tölublað nái til fjölbreyttra þátta hestamennskunnar. Fræðsluefni hefur því verið aukið á ýmsum sviðum, sem áður var minna sinnt, ekki sízt þeim, sem snerta hinn almenna hestamann. Má þar nefna hestaferðir, rekstur hesthúsa og samanburð á reiðtygjum.

Þegar miklir atburðir gerast, höfum við gert þeim rækileg skil. Glæsilegir Heimsleikar íslenzka hestsins í Herning skiluðu sér í 30 síðum í blaði, sem póstlagt var tíu dögum eftir mótið. Við gerum ráð fyrir, að leggja nótt við dag og taka svipaðar rispur við önnur sérstök tækifæri, sem snerta hestamenn meira en önnur, svo sem landsmót.

Í þessu tölublaði sláum við botninn í mótavertíð sumarsins með frásögnum af síðsumarsýningunum á Hellu og Vindheimamelum, Fákaflugi í Skagafirði og Metamóti í Andvara. Með hraðari vinnslu blaðsins en áður væntum við, að menn geti lesið um slík mót í Eiðfaxa áður en þau eru fallin í gleymsku.

Jón Finnur Hansson, sem hestamönnum er að góðu kunnur, hefur gengið til liðs við Eiðfaxa. Hann mun leggja áherzlu á skrif um ræktun, sýningar og tamningar. Þessa sér þegar stað í blaðinu. Hann skrifar meðal annars grein um sveiflur í kynbótadómum í tengslum við heimsleikana í Herning. Aðra grein skrifar hann um breyttar aðferðir við frumtamningu hrossa. Einnig skrifar hann um stóðhestana Kolfinn frá Kjarnholtum og Tígul frá Gýgjarhóli.

Að lokum má ekki gleyma palladómum valinkunnra manna um kraftaverkamanninn Þorgeir Þórðarson, þar sem þeir leitast við að svara spurningunni um, hvers vegna hann nær feiknarlegum árangri á kynbótasýningum. Vonandi verða lesendur margs vísari af þessari nýstárlegu framsetningu forvitnilegs efnis.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 9.tbl. 2003

Fornar leiðir

Hestar

Sveitarfélögin um miðbik Snæfellsness hafa gefið út ferðakort, þar sem merktar eru allar reiðleiðir af gömlu herforingjaráðskortunum. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur gefið út ferðakort, þar sem merktar eru fornar reiðleiðir umhverfis jökulinn.

Þessi kort eru dæmi um breytt viðhorf í garð hestamanna, svipuð og komu fram í viðtölum síðasta tölublaðs Eiðfaxa við landverði og skálaverði. Staða ferðamanna á hestum hefur batnað verulega. Við erum ekki lengur taldir vera drykkfelldir sóðar, heldur áhugamenn um útivist og náttúru, svo og viðskiptavinir í héraði.

Hestaferðamenn njóta stuðnings margra þeirra, sem hafa það hlutverk að efla ferðaþjónustu í héraði. Þeir sjá, að hestamenn eru viðskiptavinir, sem kaupa næturbeit, gistingu og uppihald og segja þannig frá ferðum sínum, þegar heim er komið, að fleiri fylgja í kjölfarið.

Í sama tölublaði Eiðfaxa kom fram sú skoðun Sigurðar Líndal lagaprófessors, að reiðleiðir herforingjaráðskortanna, sem teiknuð voru í upphafi 20. aldar, njóti lagaverndar samkvæmt gömlum og nýjum lögum. Þar kom einnig fram, að þessar leiðir eru í kortagrunni Landmælinganna, þótt þær hafi ekki verið sýndar á nýjum kortum.

Að þessum upplýsingum fengnum er æskilegt, að samtök hestamanna taki upp þráðinn, hafi samband við ferðamálastofnanir einstakra svæða og bendi þeim á að taka upp gamlar reiðleiðir á ýmis sérkort, sem þær láta teikna fyrir ferðamenn. Þetta mun festa leiðirnar betur í sessi.

Einnig er æskilegt, að Landssamband hestamanna fari að beita fyrir sig samkomulaginu við Vegagerðina frá 1982, þar sem gert var ráð fyrir, að við lagningu vega með bundnu slitlagi sé lögð reiðleið í staðinn af nýbyggingarfé bílvegarins, en ekki af takmörkuðu reiðvegafé.

Landssambandið hefur síðustu árin fremur kosið að einbeita sér að því að reyna að byrja á núllpunkti í samstarfi við skipulagsyfirvöld og vinna að fjáröflun til reiðvega í sérstakri reiðveganefnd, sem hafði þó það vegarnesti, að ekki mætti veita meira fé til reiðvega.

Tilraunir til að fara í kringum veganestið fóru út um þúfur, en fulltrúi fjármálaráðuneytisins benti í staðinn á áðurnefnd samkomulag frá 1982. Sú reynsla gefur Landssambandinu ástæðu til að endurskoða stefnu sína á þann hátt, sem hér er lýst.

Meðbyr reiðleiða og reiðvega er meiri í þjóðfélaginu en verið hefur um áratuga skeið. Mikilvægt er, að forustumenn hestamanna taki það með í reikninginn. Hefðin og rétturinn er okkar, en ná stundum ekki fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 8.tbl. 2003

Gott samræmi í dómum

Hestar

Samræmi í dómum vakti athygli á heimsleikunum í Herning. Í mörgum tilvikum gáfu allir dómararnir fimm sömu einkunn. Þorgeir Guðlaugsson í Nornabæli í Hollandi lét Eiðfaxa í té töflu um vaxandi samræmi í dómum í fimm síðustu heimsleikum, svo sem fram kemur í töflu hér neðar á síðunni. Taflan sýnir einnig, að samræmi er mest í fjórgangi, en minnst í slaktaumatölti. Eiðfaxi leitaði álits Einars Ragnarssonar, íþróttadómara og yfirdómara heimsleikanna, á þessum tölum. Einnig talaði blaðið við gæðingadómara og kynbótadómara og birtast þau viðtöl á hægri síðunni.

Einar Ragnarsson yfirdómari:

Gott og vaxandi samræmi í dómum á heimsleikum stafar mest af vinnu dómara sjálfra. Íþróttadómarar ferðast meira milli landa og dæma oftar saman. Á flestum meiri háttar mótum eru notaðir dómarar frá ýmsum löndum. Sérstaklega er áberandi, hversu duglegar Norðurlandaþjóðirnar eru við að fá til sín erlenda dómara. Þetta þýðir, að menn fá meiri æfingu í að dæma. Með þjálfuninni verða menn hæfari.

Mikilvægast er, að alþjóðadómarar í hestaíþróttum hittast flestir á tveggja daga fagráðstefnum einu sinni eða tvisvar á ári. Það mæta svona 50-60 af 60-70 manna hópi alþjóðadómara. Þeir borga sjálfir fyrir sig, en fá sumir ferðastyrki frá heimalöndum sínum. Íslenzkir þátttakendur verða þó oftast að sjá alveg um sig sjálfir.

Í tengslum við ráðstefnurnar eru svo haldin próf fyrir landsdómara, sem vilja fá alþjóðaréttindi. Um 70% fall er í þessum prófum. Þeim var komið á fót fyrir einum áratug og hafa verið gerð að skyldu fyrir dómara á heimsleikum síðan 1999.

Fyrir alþjóðadómara í hestaíþróttum hefur verið samin rækileg forskrift, sem minnir á forskriftir kynbótadómara. Þetta er svokölluð FIPO-biblía, sem felur í sér 20 síðu forskrift, þar sem tekið er fram, hvað standi á bak við einkunnina tíu og síðan hvert hálft stig þar fyrir neðan.

FIPO-reglurnar urðu til eftir fyrstu heimsleikana árið 1970 og hafa síðan verið í stöðugri endurnýjun. Nú eru í gildi reglur frá árinu 2000. Á Íslandi er enn notaðar næstu reglur þar á undan, en nýju reglurnar hafa verið þýddar og verða vonandi teknar í notkun sem fyrst.

Mér fannst athyglisvert í Herning, að dómarar þorðu að teygja sig í skalanum. Við sáum oft einkunnina níu, enda áttu hestarnir skilið þær einkunnir.

Við höfum ekki mælt samræmi í dómum á Íslandi á heildstæðan hátt, eins og gert hefur verið á heimsleikunum. Árin 1995-1997 voru þó teknir út tíu efstu hestarnir og mælt samræmi í einkunnum þeirra. Þær tölur eru ekki fyllilega sambærilegar við tölur heimsleikanna, en segja í stórum dráttum, að samræmið sé svipað í íslenzkum landsdómum og á heimsleikunum. Sama er að segja um samræmi í dómum á Norðurlöndum og í Þýzkalandi, þar sem dómarar hafa mesta þjálfun.

Mér skilst, að MótaFengur geri kleift að keyra út töflur um samræmi milli dómara, enda var það í þarfagreiningunni, sem forritið var grundvallað á. Slíkar tölur hafa ekki verið birtar hér á landi enn og voru ekki birtar eftir Íslandsmótið í sumar. Mín skoðun er, að það sé í allra þágu og ekki sízt dómara, að slíkar tölur séu birtar sem hluti af niðurstöðum hvers einasta móts. Það ætti að stuðla að málefnalegri gagnrýni og sjálfsgagnrýni á dóma.

Minna samræmi í dómum fyrir slaktaumatölt stafar eingöngu af því, að þar eru þrír hestar inni í einu, svo að nákvæmni í dómum er minni en þegar einn hestur er inni í einu. Ef einn hestur væri inni í einu, væri svipað samræmi í dómum fyrir slaktaumatölt og fyrir aðrar keppnisgreinar. Ég tel, að slík breyting sé æskileg.

Meira samræmi í dómum fyrir fjórgang stafar eingöngu af því, að margir dómarar eru ekki eins vanir að dæma skeið og aðrar gangtegundir. Sérstaklega á þetta við um dómara utan Íslands. Gæði skeiðs vefjast meira fyrir sumum dómurum en gæði annarra gangtegunda. Í fjórgangi er þessi skekkjuvaldur ekki í myndinni og því er þar meira samræmi en í fimmgangi. Með meiri þjálfun í dómum á skeiði ætti þessi munur að fara minnkandi.

Notum tölvugögn næst

Helgi Helgason, formaður Gæðingadómarafélags LH:

Seint hefur gengið að koma dómaskráningu í tölvutækt form hér á landi, meðal annars á tveimur síðustu landsmótum. Nú á þetta að vera að komast í lag, svo að ég vænti þess, að framvegis verði á stærstu mótum innanlands hægt að fá útskrift á samræmi gæðingadóma eins og fengist hefur í íþróttadómum á nokkrum síðustu heimsleikum íslenzka hestsins. Ég tel, að mikil framför verði að slíkum útreikningum.

Almennt tel ég, að samræmi sé svipað í gæðingadómum og íþróttadómum og hafi farið batnandi. Einkum tel ég, að svonefndum dómaramistökum hafi fækkað svo, að þau megi heita úr sögunni. Þar hefur komið til sögunnar stóraukin fræðsla og annað samstarf dómara.

Við höldum upprifjunar- og samræmingarnámskeið á hverju vori. Þar gangast allir dómarar undir hæfnispróf, ef þeir vilja halda virkum réttindum það árið. Mikil þátttaka var á námskeiðinu s.l. vor. Um 60 manns af 70 skráðum í félagið mættu. Menn eru hiklaust felldir, ef þeir standa sig ekki nógu vel. Byggt er á myndböndum og verklegum æfingum í samræmi við leiðbeiningar Sigurðar Haraldssonar frá fyrri árum. Fræðslunefnd félagsins hefur endurbætt þessar leiðbeiningar.

Dómararáðstefna er á hverju hausti í tengslum við aðalfund félagsins. Þar er m.a. tekið fyrir samræmi í dómum og annað, sem efst er á baugi hverju sinni. Á fyrstu dómararáðstefnunni s.l. haust var farið grannt í dóma á börnum og unglingum. Það hafði staðið lengi upp á dómara að sinna þessum aldurshópum betur.

Það er auðvitað tilvalið að hafa tölvukeyrð gögn um samræmi dóma til umfjöllunar á slíkum ráðstefnum. Þau ættu að verða tiltæk í síðasta lagi á landsmóti ársins 2004 og vonandi fyrr hjá hestamannafélögum, sem tölvukeyra skráningar og dóma.

Við höfum
annað kerfi

Jón Vilmundarson kynbótadómari:

Kerfið hjá okkur er öðru vísi, því að dómarar vinna saman og gefa út sameiginlega niðurstöðu dómnefndar. Fyrir 5-6 árum var gerð tilraun með að láta dómara gefa aðskildar einkunnir, en okkur fannst hún ekki gefast nógu vel. Samráðin skerpa einbeitingu dómara í löngum dómlotum og halda uppi gagnlegri umræðu milli þeirra, sem eykur hæfni þeirra.

Við gerum hins vegar ýmislegt annað til að auka samræmi milli sýninga. Við höldum ráðstefnur á hverju ári, þar sem farið er yfir tölfræði dóma og mismun milli sýninga og dómnefnda. Niðurstaðan er sú, að samræmi sé gott og fari batnandi.

Byrjendur eru betur undirbúnir en áður og gangast undir mjög ströng próf. Gegnum nálaraugað komast ekki nema 2-3 nýir kynbótadómarar á hverju ári. Alls eru núna virkir hér á landi 10-15 dómarar og þar af 3-4 formenn, sem skipta með sér að dæma í öllum mótum innanlands.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2003

Slúðrið

Hestar

Ólíkt hafast menn að. Meðan fjöldinn skemmtir sér á heimsleikum íslenzka hestsins eða tekur annan þátt í fögnuði þeirra, sem vel gengur undir miklu álagi eftir mikla vinnu, sitja öfundin og illgirnin atvinnulaus heima við tölvuna og spúa galli á vefinn.

Slúðrið á hestavefnum 847 er fróðleg innsýn í hugarheim sumra þeirra, sem ekkert hafa eða geta gert sér til ágætis og fá útrás við að reyna að sverta þá, sem leggja hart að sér við að ná árangri og skara fram úr á ýmsum sviðum hestamennskunnar.

Níðið um Berglindi og Bassa á 847 er nýjasta dæmið úr langri óheillasögu slúðurdálksins, sem nær yfir ásakanir um innbrot og þjófnaði og annað saknæmt athæfi. Í öllum tilvikum eru nafnleysingjar að ráðast á nafngreint fólk eða fólk, sem auðþekkjanlegt er af lýsingunni.

Öfund og illgirni eru engan veginn aðalefni slúðursins. Þar fer meira fyrir meinlausu blaðri, þar sem fáfróðir velta drýgindalega vöngum yfir því, sem hægt er að fletta upp í heimildum. En gallið flýtur með blaðrinu, af því að dálkinum er ekki ritstýrt.

Samkvæmt fjölmiðlalögum og dómvenju ber ritstjóri/framkvæmdastjóri/eigandi fjölmiðils ábyrgð á nafnlausu slúðri eins og hann hafi samið það sjálfur. Þess vegna er nafnlaust slúður í dagblöðum ritskoðað og yfirleitt aðeins birt, ef það er annað hvort hlutlaust eða jákvætt.

Daníel Ben Þorgeirsson ber persónulega ábyrgð á öllu nafnlausu níði á 847. Ef landsliðsnefndin eða tamningamannafélagið fyrir hönd Berglindar eða landssambandið fyrir hönd annarra hestamanna, sem hafa verið svertir á 847, telja við hæfi að kosta málshöfðun samkvæmt lögum um fjölmæli, er Daníel Ben í vondum málum.

Fólk hefur sterka réttarstöðu gegn nafnlausu slúðri. Um leið og landslög styðja málfrelsi með því að veita mönnum rétt til óvæginnar gagnrýni undir eigin nafni, vernda þau þá, sem sæta öfund og illgirni nafnlausra fjölmiðlunga.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 7.tbl. 2003

Skipst á skoðunum um samskipti á fjöllum

Hestar

Stundum er litið á hestaferðamenn annars vegar og landverði og skálaverði hins vegar sem eins konar andstæðinga, þar sem annars vegar séu óforbetranlegir lögbrjótar og hins vegar umboðsmenn lögregluríkis.

Eiðfaxi kannaði málið með því að tala við nokkra landverði og hestamenn um samskiptin. Hér á síðunni og á næstu opnu birtast svör þeirra, svo og álit hestamanna á samskiptum við landeigendur. Af svörunum má ráða, að samskiptin eru alls ekki eins afleit og ætla mætti af þekktum undantekningum, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Í opnunni þar á eftir er svo fjallað um réttarstöðu hestaferðamanna og afstöðu kortagerðarmanna til reiðleiða.

Reiðleið um
þjóðgarðinn

Guðbjörg Guðmundsdóttir, Snæfellsþjóðgarði:

Hér hafa ekki verið nein vandamál í samskiptum við hestamenn síðan ég fór að starfa hér. Margir hringja á undan sér og fá upplýsingar.

Við erum líka að gera ýmislegt fyrir hestamenn. Í sumar kemur út kort af þjóðgarðinum, þar sem merkt er reiðleið um hann allt vestur að Ingjaldshóli. Þar á meðal eru gömlu hraunstígarnir norður frá Hellnum og suður frá Ingjaldshóli.

Lausaganga hrossa hefur verið bönnuð, svo að hestamenn eiga ekki lengur á hættu að missa lausahross í reksturinn. Menn mega reka ferðahross gegnum þjóðgarðinn, ef þau kunna að lesta sig eins og vera ber, en fara verður varlega Klettsgötuna um Búðahraun.

Reiðgata um
þjóðgarðinn

Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, Jökulsárþjóðgarði:

Lítið er um ferðir hestamanna um þjóðgarðinn, en þær ganga snurðulaust fyrir sig. Við höfum ekki yfir neinu að kvarta, en viljum, að hópar hafi samband við okkur fyrirfram. Við gefum þá ráð um áningarstaði á leiðinni. Við viljum líka minna þá á að fara ekki af reiðleiðinni inn á göngustíga.

Hér hefur í áratug verið merkt reiðgata um þjóðgarðinn frá norðri til suðurs. Hún liggur frá Ási í stórum dráttum eins og gamla leiðin um Ásbyrgi, Vesturdal, Hólmatungur og Svíndal upp á jeppaveg, sem liggur áfram til suðurs eða á reiðslóð að skálanum við Eilífsvötn. Þetta er fremur fáfarin, en greið leið fyrir hestamenn.

Hestar eru
óvelkomnir

Björk Bjarnadóttir, Herðubreiðarlindum:

Hér hafa ekki komið hestamenn þau þrjú sumur, sem ég hef verið með þetta svæði, enda er umferð hesta bönnuð um þjóðgarðinn. Fyrir þremur árum kom hingað hópur, sem var að fara Biskupaleið frá Austurlandi og tjaldaði í Grafarlandi. Úr því varð lögreglumál, en það var fyrir mína tíð í þessu starfi.

Fararstjórar
þekkja reglur

Margrét Dan Þórisdóttir, Hveravöllum:

Hér var mikið um að vera í fyrrasumar í tengslum við landsmótið. Það sumar gistu hér 30 hópar hestamanna og aðeins einn þeirra átti erfitt með að fylgja reglum um næturfrið og umgengni. Áfengi var haft um hönd hjá flestum þessara hópa, en yfirleitt af hófsemi. Við höfum yfirleitt ekki yfir neinu að kvarta í tengslum við hestamenn. Flestir hóparnir eru á vegum Íshesta, Eldhesta og Hestasports, og þar eru fararstjórar, sem þekkja allar umgengnisreglur.

Hafa of marga
hesta á mann

Helgi Hallgrímsson, Landmannalaugum:

Almennt ganga samskiptin við hestamenn vel, þótt til séu svartir sauðir í þeim hópi eins og hjá jeppamönnum. Hestafjöldinn er það eina, sem ég er óánægður með, hann er stundum er langt umfram þarfir ferðahópsins. Í flestum tilvikum ættu tveir hestar á mann að duga. Fyrir hefur komið, að menn missa stjórn á stóðinu, en yfirleitt halda menn sig á reiðleiðunum. Beztir eru hópar, sem eru undir stjórn reyndra fararstjóra, einkum hjá Hekluhestum. Hér hafa ekki orðið varanlegar skemmdir á landi af völdum hestaferðahópa. Hins vegar er ekki gott að hafa hestamenn og erlenda ferðamenn í næturgistingu í sama skála, því að hestamönnum fylgir skítur og hestalykt.

Ferðafélagsfólk
reynist þægilegt

Andreas Bergmann:

Við reynum að fylgja settum reglum á ferðalögum. Við reynum að skilja við skála í betra ástandi en við komu og við skúrum og vöskum upp. En ég þarf alls ekki að kvarta yfir umgengni í skálum, sem við komum að. Yfirleitt er gengið mjög vel um þá. Ef ekki er gámur á staðnum, tökum við með okkur sorpið, því að refurinn kemst í það, ef það er grafið niður.

Ef ég þarf að setja upp rafmagnsgirðingu við skála, reyni ég að færa hana til um kvöldið og aftur um morguninn og sparka síðan úr skítahrúgunum, því að það gerir landinu gott. Þannig er áningarhólfið í Hvítárnesi, sem aftur og aftur var kvartað um í fjölmiðlum að væri orðið eitt flag. Það er fallegasti bletturinn á svæðinu. Sama er að segja um gerðið í Bólstað í Þjórsárverum. Þar er alltaf áð í klukkutíma, en samt er þar alltaf síðbreiða af þessu fína grasi vegna áburðarins frá hrossum og fé á liðnum áratugum.

Ég hef verið mikið í hestaferðum í fjóra áratugi og hef ekki séð land, sem er skemmt af hestaferðum, ef frá eru skilin sum þröng geymsluhólf við fjallaskála. Menn fórna þessum litlu blettum fyrir þægindin af að hafa hestana aflokaða við skálana. Yfirleitt hefur ástand gróðurs á hálendinu batnað við fækkun sauðfjár á fjalli.

Flestir reyndir landverðir hafa reynzt mér þægilegir. Sumir óvanir landverðir eru dálítið smásmugulegir í samskiptum. Ég man eftir einum, sem kom í loftköstum á bíl úr Landmannahelli og klossbremsaði til að amast við því að við áðum í gróðurteygingum við vaðið á Helliskvísl á Landmannaleið til að skipta um hesta. Þeir voru þá dreifðir á stóru svæði og voru engum gróðri til tjóns. Annar bannaði trússbíl að fara með farangur okkar eftir bílvegi inn að eyðibýlinu Svínadal við Hólmatungur, þótt við værum með leyfi frá eiganda skálans að gista þar. Ferðafélagsfólkið er yfirleitt betra í samskiptum við okkur en sumir krakkar, sem eru í landvörslu á vegum ríkisins.

Hins vegar hefur undantekningarlaust verið gott að eiga við bændur um að fara um lönd þeirra til að komast inn á hálendið. Aðalatriðið er að tala við þá fyrirfram og passa síðan vel að ganga vel um. Ég óttast, að ríkið verði erfiðara í samskiptum, ef það fær aukin tök á afréttum. Ég minnist þess, þegar bóndinn missti ábúðarrétt á Skriðufelli í Þjórsárdal og skógræktin tók við. Þá var strax girt yfir gömlu, vörðuðu Sprengisandsleiðina, sem liggur frá Skriðufelli að Mýri í Bárðardal, og alls ekki sett neitt hlið. Eftir nokkrar kvartanir var sett hlið á girðinguna, en mál þetta sýnir ákveðnar tilhneigingar opinberra aðila.

Okkur tókst
Að sefa hann

Árni Ísleifsson:

Yfirleitt er samstarfið gott við landeigendur og landverði. Ég lenti þó einu sinni í því í Hólmatungum, að við höfðum fengið leyfi land-eiganda til að nota skála, sem hann átti á svæðinu. Við fórum á merktri reiðleið um tungurnar. Þá mættum við öskuvondum landverði, sem sagði, að við þyrftum sérstakt leyfi til að fara þarna um. Okkur tókst um síðir að sefa manninn. Landeigendur eru yfirleitt sáttir, ef maður hringir fyrirfram í þá. Slíkt þarf þó ekki, þegar um hefðbundnar leiðir er að ræða.

Fólk er við þig
Eins og þú við það

Bjarni E. Sigurðsson:

Samskipti við landeigendur byggjast á þeirri tillitssemi að hringja í fólkið, áður en maður kemur. Ég man ekki eftir neinum, sem hafi tekið slíku illa. Hins vegar geta menn orðið móðgaðir, ef ekki er talað við þá fyrirfram. Endur fyrir löngu man ég eftir einhverjum orðaskiptum við skálaverði eða landverði, en það er ár og dagur síðan. Yfirleitt er fólk við þig eins og þú ert við það.

Margir hestamenn
eru hrokagikkir

Einar Bollason:

Við hestamenn megum skammast okkar í samskiptum við aðra aðila. Það er allt of mikið af slúbbertum og hrokagikkjum í okkar röðum. Það bætir ekki stöðuna, ef hinum megin er háskólagenginn unglingur í landvörzlu. Ég er alltaf að suða um þetta við forustumenn samtaka hestamanna, en alltaf fyrir daufum eyrum. Landssamband hestamannafélaga er svo upptekið af breytingum á keppnisreglum, að það getur ekki sinnt hagsmunamálum hestaferðamanna. Kjarni málsins er sá, að reglur verða settar á okkur, ef við verðum ekki fyrri til að setja okkur reglur.

Um reglur fyrir hestaferðamenn vil ég taka Arnarfell sem dæmi. Vegna Arnarfellsmúlanna á algerlega að banna hestaferðir inn í Arnarfell með stærri hópa en 50 hesta. Þú verður bara að skilja afganginn af hrossunum eftir í Tjarnarveri. Það á einnig að banna slíkar ferðir, nema þær séu undir leiðsögn kunnugs manns, sem er viðurkenndur af sveitarstjórn Gnúpverjahrepps.

Svipað getur verið um fleiri staði, sem geta tímabundið verið viðkvæmir út af gróðri. Ég vil, að hestamenn setji sjálfir ítölu á ákveðin svæði. Ég vil, að samtök okkar komi fram af ábyrgð, fremur en aðrir setji reglur á okkur. Þeim mun meiri líkur eru á, að reglurnar verði skynsamlegar.

Ef aðrir setja reglurnar, er hætta á ýmsum vitleysum, eins og að fyrirskipað verði að teyma, þótt vanir menn viti, að vel lestaður rekstur fer betur með land en teymingar gera. Það skiptir líka miklu máli, að gerðar séu greinilegar götur, þar sem farið er um viðkvæm svæði, því að hrossin lesta sig því betur sem gatan er greinilegri.

Svo er það staðreynd, að við höfum ekkert val, þegar einhliða eru settar ósanngjarnar reglur. Tökum til dæmis Búðahraun sem dæmi, þar sem hestar hafa öldum saman lestað sig og búið til þrönga götu. Ef Náttúruverndarráð vill, að við hættum að nota þessa götu, verðum við bara að taka því. Við verðum að lifa í sátt og samlyndi við landeigendur og Náttúruverndarráð, jafnvel þótt okkur finnist skrítið að banna hestum að fara götu, sem hestar bjuggu til.

Í mörgum tilvikum er auðvelt og ódýrt að laga reiðgötur á viðkvæmum svæðum og koma þannig í veg fyrir, að þeim verði lokað. Mér skilst til dæmis, að Biskupstungnamenn hyggist fara með traktor að lagfæra reiðleiðina austur fyrir Bláfell til að koma í veg fyrir að hestalestirnar spilli landi á nokkrum stöðum á leiðinni.

Svo verðum við hestaferðamenn að muna, að ein símhringing í landeiganda kostar lítið til að biðja leyfis um að fara í gegn. Að öðrum kosti er gott að staldra við, meðan einhver ríður heim á bæ til að afla leyfis. Menn fá kurteisina margfalt til baka. Ég man ekki eftir öðru en jákvæðum viðbrögðum. Ef menn hins vegar fara leyfislaust um lönd, má búast við vandræðum. Þetta er bara spurning um að respektera náungann. Kurteisi kostar ekki peninga.

Menn treysta
vínlausum

Hannes Einarsson:

Samskipti við landeigendur og skálaverði hafa undantekningarlaust verið góð. Í stóru Fáksferðunum er áfengi beinlínis bannað á daginn og því sést ekki vín á nokkrum manni, þegar við eigum í samskiptum við ýmsa aðila á leið okkar. Ég held, að þessi viðhorf okkar spyrjist smám saman út og leiði til þess, að menn treysti hestaferðamönnum betur en áður.

Tvisvar hef ég þó lent í, að staðkunnugur leiðsögumaður hafði trassað að tala fyrirfram við bónda um, að við færum í gegn hjá honum. Það er eins og heimamenn hafi minni tilfinningu fyrir mikilvægi þessa atriðis en við aðkomumennirnir eða nenni síður að eyða tíma í það, sem þeir telja vera smáatriði. Ég var fararstjóri í báðum tilvikunum og sá um að hafa samband við hlutaðeigandi aðila og biðjast afsökunar. Því var vel tekið.

Skilningur
er almennur

Haraldur Sveinsson:

Í gamla daga var frjálsara en nú að fara gamlar reiðgötur um eignarlönd manna, en í seinni tíð eru menn meira farnir að vænta þess, að beðið sé um leyfi. Á móti kemur, að víðast ríkir skilningur á, að hestamenn þurfi að komast leiðar sinnar á ferðalögum. Samkomulag við landverði hefur batnað mikið síðan hestamenn fóru að gefa hey í náttstöðum í stað þess að láta hrossin lifa af landinu.

Landverðir sáttir
við hesta og menn

Hjalti Gunnarsson:

Samskipti við landeigendur og landverði eru yfirleitt góð, ef maður talar við þá fyrirfram, jafnvel þótt maður sé að fara gamla þjóðleið um einkalönd. Undantekningarlaust er því vel tekið og menn kunna að meta kurteisina. Stundum vilja ungir og óreyndir landverðir, að hestar renni ekki út úr götu og skíti aðeins á ákveðnum stöðum og þá þarf stundum lagni við að umgangast þá. Flestir landverðir eru hins vegar mjög sáttir við hesta og menn.

Ég hætti við að fara austan Bláfells, af því að ég fór þar mikið um með stóran flota, stundum í vætutíð. Farið var að sjá á landinu á einstaka stöðum, þótt allt í lagi hafi verið að fara það í þurru. Þetta er einkum aðdragandinn að Lambafellsveri beggja vegna og stígar í giljaskorningum. Það var ekki út af kvörtunum, að ég fór að fara gamla bílveginn vestan fellsins, heldur tók ég þetta upp hjá sjálfum mér.af því ég vil ekki skemma land ef annað er hægt.

Eru bara að
fylgja reglum

Ólafur B. Schram:

Sambúðin við landeigendur hefur verið hnökralaus, enda hef ég lagt mikið upp úr að fá leyfi til að fara um lönd þeirra, að leita ráða hjá þeim og fara eftir ráðleggingunum. Ég er líka duglegur við að setjast inn í eldhús hjá þeim og spjalla.

Landverðir eru upp og ofan, en þeir eru yfirleitt bara að fylgja reglum, sem þeir hafa ekki búið til, og við verðum að taka tillit til þess. Það má hins vegar ekki taka gamlar slóðir, sem hestarnir hafa búið til, og merkja þær sem gönguleiðir, sem bannaðar séu hestum.

Landverðir eru
heldur stirðir

Marinó Pétur Sigurpálsson:

Við höfum yfirleitt verið í ágætis sambandi við landeigendur. En okkur finnst landverðir að jafnaði heldur stirðir í umgengni. Okkur gramdist til dæmis í Landmannahelli, þar sem maður ríður eftir nokkuð beinum bílvegi, sem vinkilbeygir síðan til vinstri. Gömul og ómerkt reiðgata liggur hins vegar beint úr beygjunni að skálanum, sem er í augsýn. Við riðum auðvitað beinu slóðina heim, þar sem landvörðurinn tók gargandi og æpandi á móti okkur.

Ef beina á slóð hrossa af einni götu yfir á aðra, er yfirleitt nóg að stinga niður nokkrum staurum og festa eitt band á milli þeirra. Þá rata hrossin rétta leið. Í stað þess að gera þetta, sem kostar klukkutíma vinnu, vilja sumir landverðir standa í rifrildi við ferðamenn. Aðrir eru hins vegar ágætir.

Ekki má banna
gamlar leiðir

Valdimar K. Jónsson:

Ég hef alltaf reynt að tala við landeigendur, ef við þurfum að fara um land þeirra, til dæmis á mörkum afrétta og byggðar. Yfirleitt er því vel tekið, ef maður hefur fyrir því að tala við menn áður. Þá fær maður líka að vita, hvort gæta þurfi að lausum hrossum á leiðinni.

Ég man ekki heldur eftir öðru en góðum samskiptum við skálaverði, þótt sumir séu óþarflega einstrengingslegir. Það gengur til dæmis tæpast að segja, að gamlar reiðleiðir séu bannaðar slíkri umferð, svo sem leiðin frá Hungurfitjum í Hvanngil um Krók, Sátu og Torfahlaup. Betra er að merkja leiðina skýrt með stikum, svo að hópurinn fari ekki út af henni.

Aðalatriðið er, að hestarnir fari alltaf sömu, gömlu slóðina, en ekki út og austur. Landvarzlan má ekki fara út í öfgar.

Víða er viðkvæmt land á afréttum. Hestamenn þurfa að varast að fara yfir slíkt land, til dæmis mosa og alls ekki stanza á viðkvæmu landi. Með bandi er auðvelt að halda utan um hrossin á berum sandi.

Orðaskak er
alltaf til ills

Viðar Halldórsson:

Ef maður vill fara um einkalönd, er bezt að hafa samband við menn á undan ferðinni eða fara heim á bæi og tala við landeigendur, meðal annars til að fá leiðsögn um beztu og skemmtilegustu leiðirnar, sem oft liggur á lausu. Skála þarf að panta með löngum fyrirvara og tryggja sér hey og aðra aðstöðu. Ég man ekki eftir erfiðleikum í samskiptum við landverði og landeigendur. Orðaskak er alltaf til ills. Og auðvitað verður að umgangast landið með virðingu.

Ekki má æja á
viðkvæmu landi

Þormar Ingimarsson:

Ef ég þarf að fara inn í heimalönd, reyni ég að tala við bændur fyrirfram, ef þess er kostur. Einnig þarf að gæta þess að loka hliðum og taka ekki með heimahrossin, ef einhver eru. Ég hef aldrei lent í neinum leiðindum í samskiptum við bændur eða landverði.

Miklu máli skiptir að æja ekki á viðkvæmum blettum á hálendinu, heldur slá upp bandi á auðu landi, ef þess er kostur. Nú orðið stóla menn hvort sem meira á hey en beit í ferðalögum um afrétti. Hins vegar þurfum við að standa á rétti okkar, ef menn reyna að loka hefðbundnum reiðleiðum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 7.tbl. 2003

Lögin eru okkar megin

Hestar

Dönsku herforingjaráðskortin gömlu með ótal reiðleiðum um landið eru grundvallarheimild um, hvað séu hefðbundnar reiðleiðir, sem njóta lagalegrar verndar, allt frá Jónsbók ársins 1281 yfir í náttúruverndarlög ársins 1999. Þetta má sjá af viðtölum Eiðfaxa við Sigurð Líndal lagaprófessor og tvo forstjóra Landmælinganna, Ágúst Guðmundsson og Magnús Guðmundsson. Af viðtölunum má ráða, að réttarstaða hestaferðamanna er betri en margir hafa talið, þótt lítt hafi verið látið á hana reyna fyrir dómstólum. Það er til dæmis varla löglegt að banna rekstur hrossa um Þjórsárbakka, svo að þekkt dæmi sé tekið. Ennfremur er varla löglegt að merkja gamla reiðleið sem gönguleið og banna umferð hesta um hana. Hins vegar er ljóst, að samtök hestamanna hafa látið undir höfuð leggjast að verja hefðarrétt hestaferðamanna á gömlum götum og slóðum, svo að hann kann að hafa fallið niður í sumum tilvikum.

Hætt að fella
út reiðleiðir

Ágúst Guðmundsson

Landgreining er að afla heimilda um yfirborð landsins. Unnið er eftir stöðlum, sem hafa breytzt í tímans rás. Sérstök ákvörðun er, hvaða upplýsingar eru notaðar í hvern kortaflokk fyrir sig. Kort eru í ýmsum mælikvörðum. Færri merkingar eru í kortum í mælikvarðanum 1/250.000, þar sem km á landi er 4 mm á korti en í mælikvarðanum 1/25.000, þar sem km á landi er 4 sm á korti.

Danir mældu landið á fyrsta áratug tuttugustu aldar. Þær mælingar eru grundvöllur kortanna, sem eru í mælikvarðanum 1/100.000. Þar eru merktir alls konar slóðar og stígar, raunar fjórir flokkar leiða, sem ekki eru bílvegir. Þessar leiðir voru einnig lengi merktar inn á kort í mælikvarðanum 1/250.000, svo og á kort, sem unnin voru af Bandaríkjamönnum og prentuð í mælikvarðanum 1/50.000.

Þegar bílvegir urðu meginæðir milli landsvæða, voru þessar gömlu leiðir að mestu felldar út af nýjum útgáfum af kortum í mælikvarðanum 1/250.000.

Upp úr 1970 fór að bera á, að landeigendur óskuðu eftir því við Landmælingarnar, að felldar yrðu niður merkingar á gömlum götum og slóðum um land þeirra. Að mestu byggðust þessar óskir á ágreiningi við hestamenn. Landeigendur girtu lönd, grófu skurði og gerðu tún, en hestamenn rifu girðingar, ef ekki voru hlið á þeim, þar sem kortin sýndu leið.

Í samræmi við slíkar óskir voru gamlar leiðir teknar út af kortum í miklum mæli í þéttbýli, en miklu minna á óbyggðum svæðum. Segja má, að óskir landeigenda hafi nánast verið afgreiddar eftir pöntun, þótt dæmi séu um, að þeim hafi verið hafnað.

Um 1975 fóru óskir einnig að berast frá náttúruverndarsamtökum um, að leiðir yrðu yfirleitt ekki merktar inn á kort. Þetta átti að vernda staði, en leiddi um leið til þess, að umferð dreifðist vítt og breitt, en takmarkaðist ekki eins vel við slóða og stíga. Reynslan hefur sýnt, að merking leiða á kort fer betur með landið.

Engin lög eða reglugerðir voru til á þessum tíma um Landmælingarnar. Þar með voru ekki til nein fyrirmæli um, hvernig þær ættu að fara með erindi um niðurfellingu leiða.

Þegar ég varð forstjóri Landmælinganna árið 1985, hófst vinna við staðla fyrir nýja landgreiningu. Samkvæmt þeim átti að staðsetja allar leiðir, en misjafnt af þeim fór inn á kort eftir stærðarhlutfalli þeirra. Á kort í mælikvarðanum 1/250.000 fóru aðeins bílvegir og jeppaslóðir, en ekki götur og gamlar leiðir, sem sýndar voru áfram á kortum í mælikvarðanum 1/100.000 og stærri mælikvörðum.

Meginstefnan varð sú, að kort ættu að sýna landið, burtséð frá eignarhaldi og utanaðkomandi sjónarmiðum. Þess vegna var hætt að verða við óskum um niðurfellingu leiða af kortum, þegar ég tók við Landmælingunum. Frá þeim tíma hafa sjáanlegar og þekktar leiðir verið hluti landlýsingar stofnunarinnar eins og þær voru í landmælingunum í upphafi 20. aldar.

Rof milli þjóðleiða
og nýrra reiðvega

Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinganna:

Enn er fylgt þeirri reglu hér á stofnuninni, að reiðleiðir eru ekki teknar út úr kortagrunni eftir pöntun hagsmunaaðila. Hins vegar er matsatriði, hvaða staðreyndir skuli sýna á útgefnum kortum og hvaða atriði fari fyrst inn í stafrænan kortagrunn, sem er í smíðum. Reiðleiðir hafa þar ekki verið í forgangi.

Reiðleiðir herforingjaráðskortanna verður hægt að sjá á geisladiski, sem kemur út í haust og nær til alls landsins, en alls verða á þeim diski 87 kortablöð í kortaröð sem nefnd er Atlaskort. Diskurinn nær yfir yngstu útgáfur þessara korta, þannig að einhverjar reiðleiðir úr fyrstu útgáfum hafa fallið út, en allur þorri reiðleiðanna er á kortinu.

Við höfum samráð við ýmsa aðila um gerð korta t.d. Vegagerðina, Örnefnastofnun, samtök ferðaþjónustunnar og sveitarfélög. Hestamenn hafa komið að þessu samstarfi og við höfum gefið út sérstök reiðleiðakort í samstarfi við Landssamband hestamannafélaga.

Það verður þó að segjast, að þessir aðilar hafa meiri áhuga á uppbyggðum reiðvegum við þéttbýli og innansveitarleiðum heldur en gömlum þjóðleiðummilli sveita. Þess vegna meðal annars hafa leiðir af herforingjaráðskortunum ekki verið teknar upp í ýmis nýleg sérkort til ferðalaga, svo sem kort af Reykjanesskaga og kort af Hornströndum.

Segja má því, að myndast hafi rof milli gömlu þjóðleiðanna á herforingjaráðskortunum og nýju reiðveganna, sem eru þáttur í skipulagi sveitarfélaga. Það er þó markmið Landmælinganna, að allar upplýsingar fari að lokum í stafræna kortagrunninn, þar á meðal reiðleiðir herforingjaráðskortanna.

Reiðleiðir eru
lögverndaðar

Herforingjaráðskortin gilda

Sigurður Líndal lagaprófessor:

Samkvæmt Jónsbók frá 1281, landsleigubálki 24, er mönnum heimilt að ríða um annarra manna land og almenning og æja hestum þar. Þetta umferðarfrelsi er staðfest í nýjustu náttúruverndarlögum nr. 44 frá 1999. Í þriðja kafla laganna er fjallað nánar um einstök atriði og takmarkanir þessa almannaréttar, sem varða hestamenn, einkum í 12.-16. grein þeirra.

Meginreglan er að mönnum er almennt heimil för um landið, þar á meðal um eignarlönd, og heimil dvöl á landi í lögmætum tilgangi. Þeir þurfa ekki að fá sérstakt leyfi til að fara um óræktað land. Þeim er ekki bannað að hafa lausa hesta með í för. Á eignarlöndum mega þeir að fengnu leyfi slá upp aðhaldi og næturhólfi, enda valdi þau ekki landspjöllum. Óheimilt er að loka gömlum þjóðleiðum með girðingum og skurðum, nema hafa á þeim hlið, brýr eða stiga.

Hestaferðamenn skulu sýna landeigendum og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, einkum vegna búpenings, hlunninda og ræktunar. Þeim ber að fara eftir merktum leiðum og loka hliðum á eftir sér. Þeir eiga að fylgja skipulögðum reiðstígum eins og kostur er. Á hálendinu er þeim gert að æja á ógrónu landi og hafa fóður í næturstað. Þeir þurfa að hafa samráð við landverði, þegar þeir fara um náttúruverndarsvæði.

Landeigandi getur unnið eignarhefð á tilfæringum bundnum við fornar þjóðleiðir og þeir sem hafa farið um slíkar þjóðleiðir geta unnið afnotahefð og þannig helgað sér rétt til umferðar. Þar kæmi til 20 ára hefðartími, hugsanlega einnig 40 ára, ef slíkur réttur teldist til ósýnilegra ítaka. Reiðleiðir munu væntanlega falla undir þessa skilgreiningu. Ein mikilvægasta heimildin um hefðbundnar reiðleiðir eru kort danska herforingjaráðsins frá fyrsta áratug 20. aldar, þar sem merktar eru inn fjórar tegundir leiða, fyrir utan akvegi.

Hafi leiðum dönsku kortanna ekki verið mótmælt í orði eða verki í, má líta svo á, að þær séu verndaðar af hefðarrétti, en skoða verður hvert tilfelli til að ákvarða nánar rétt einstakra manna. Ef einhver vill vefengja reiðleið á dönsku herforingjaráðskorti, sem kortlögð hefur verið í góðri trú, hvílir á honum sönnunarbyrði um, að hún sé ekki hefðbundin þjóðleið, en ekki á hinum, sem vill ríða þessa leið.

Ef hefðbundin reiðleið hefur lengi ekki verið farin og landeigandi eða rétthafi hefur girt yfir hana í góðri trú og enginn mótmælt því, má ef til vill líta svo á, að girðingin hafi unnið sér hefð, sem víki eldri hefð reiðleiðarinnar til hliðar. Hér mætti ef til vill hafa hliðsjón af hefðartíma, 20 eða 40 árum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 7.tbl. 2003

Hálendið heillar hesta og menn

Hestar

Nokkrir hestamenn segja í þessu tölublaði Eiðfaxa frá hughrifum sínum í hestaferðum um landið, einkum um ósnortin víðerni þess. Þeir segja frá sérstakri stemmningu, sem fylgir rekstri lausra hrossa frá einum áningarstað í annan. Þeir lýsa náttúru, hestum og samferðafólki.

Þegar hross hafa jafnað ágreining um stöðu sína í rekstri og eru farin að liðast um í fallegri lest, hvert á fætur öðru, slaknar á hrossum og mönnum. Þá gefst gott færi á að drekka í sig umhverfið og lifa sig inn í hinn sérstæða heim hestaferðanna.

Hross og að minnsta kosti sumir menn hafa fengið flökkueðli í arf frá löngu liðnum forfeðrum einhvers staðar á meginlandi Evrópu. Það snertir frumstæða taug í sál þeirra að taka sig upp á hverjum morgni og stefna til náttstaðar í nýjum haga við nýtt vatnsból.

Flestum hestum líður hvergi betur en í hestaferðum, þar sem rekið er, en ekki teymt. Þá sýna þeir beztu hliðar sínar. Gamlir klárar yngjast upp og gefa bakið eftir á töltinu. Víðidalsgutlarar verða að fjallagæðingum á öðrum eða þriðja degi.

Eins er það með fólkið. Við breytumst, verðum hjálpsöm og förum að hugsa sameiginlega eins og ein heild, skiptumst á um að halda í spotta og skipta um hest. Við erum frumhópurinn, einn í heiminum, oftast í ægifögru umhverfi.

Þeir, sem fá bakteríuna, losna ekki við hana. Meðan heilsan leyfir fara þeir á hverju sumri í að minnsta kosti eina langferð með lausa hesta um víðáttur landsins. Sumir viðmælendur blaðsins hafa farið slíkar ferðir á hverju sumri áratugum saman.

Svipað er að segja um marga, sem koma hingað í skipulagðar hestaferðir hjá fyrirtækjum eða bændum. Þeir koma aftur og aftur. Hrifningu þeirra má sjá nokkrum sinnum á hverju ári í greinum, sem skrifuð eru í blöð Íslandshestafólks í öðrum löndum.

Kjölur er alltaf vinsæll, enda eru skálar á þeirri leið orðnir góðir. Fjallabaksleið er ekki síður mikið farin, einkum syðri leiðin. Löngufjörur á Snæfellsnesi eru þriðja draumaleið hestamanna. Hreppaafréttir og Arnarvatnsheiði eru einnig ofarlega á óskalistanum, svo og Vestur-Skaftafellssýsla nánast eins og hún leggur sig frá fjörum til fjalla.

Bjarni Eiríkur Sigurðsson segir hér í blaðinu: “Það er lyktin af hestunum og úr jörðinni, þú ríður yfir mosaþembur með annarri lykt en valllendi. Þú fylgist með öllu, fuglum og náttúrunni kringum þig, teygir þig eftir eyrarrós.”

Og Einar Bollason klykkir út: “Mér finnst ég komast á annað tilverustig í hestaferðum, í eins konar algleymi.”

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 6.tbl. 2003

Varast þarf spöttuð kynbótahross

Hestar

Sigríður Björnsdóttir:

“Val á kynbótahrossum út frá niðurstöðu röntgenmyndatöku eða beygiprófs á hæklum væri til þess fallin að lækka tíðni sjúkdómsins í hrossastofninum. Röntgenmyndataka er öruggari greiningaraðferð en beygiprófið og því vænlegri til árangurs. Mikilvægast er að varast stóðhesta og hryssur sem greinst hafa ung með röntgenbreytingar þar sem gera verður ráð fyrir að þau beri með sér mestan veikleika fyrir sjúkdómnum.”

Meðfæddur
veikleiki
fyrir spatti

“Hross fæðast með mismikinn veikleika fyrir spatti vegna mismunandi arfgerðar, og getur veikleikinn falist í byggingargöllum (krepptum hækli og/eða kýrfættri fótstöðu), eða öðrum göllum í gerð hækilsins (liðfletir passa illa saman og/eða los í stuðningsvef). Þetta veldur óeðlilegu álagi á eðlilegt brjósk og bein flötu liða hækilsins og leiðir til brjóskeyðingar í þeim. Hversu snemma brjóskeyðing tekur að þróast og hversu alvarlegar og útbreiddar liðskemmdirnar verða, fer að miklu leyti eftir því hversu mikill meðfæddur veikleiki er til staðar hjá hverju hrossi fyrir sig.”

Álag og tölt
hafa ekki áhrif

“Álag í reið, hvort heldur á ung hross (4-5 v.) eða eldri, reyndist ekki auka hættuna á spatti, né hafa neikvæð áhrif á þróun sjúkdómsins. Ekkert bendir heldur til að tölt sé áhættuþáttur.”

Skiptir máli á
miðjum aldri

“Samkvæmt þessari rannsókn eru hross sjaldan felld vegna afturfótahelti fyrir 13 vetra aldurinn og mörg hrossa með röntgenbreytingar eða helti eftir beygjupróf er hægt að nota til reiðar í mörg ár eftir að röntgenbreytingar koma fram. Því má segja að spatt hafi lítil áhrif á notagildi hrossa framan af aldri en síðan skilur greinilega á milli hrossa með röntgenbreytingar og hrossa án þeirra.”

(Kaflar úr útdrætti úr doktorsritgerð Sigríðar Björnsdóttur um spatt)

6-7 vetra hestar
röntgenprófaðir

Sigurður Sæmundsson:

Þar sem komið hefur í ljós, að arfengi spatts er mjög hátt, tel ég, að allir sex eða sjö vetra stóðhestar eigi að fara í röntgenskoðun. Upplýst verði, hverjir þeirra mælast með skugga. Hverfandi líkur eru á, að hinir séu arfberar og því ætti að vera tiltölulega öruggt að nota þá. Þessi röntgenskoðun á 6-7 vetra stóðhestum ætti að vera skylda og niðurstöðurnar opinberaðar öllum. Með slíkri aðgerð má draga verulega úr spatti í ræktuninni.

Nú þegar er búið að mæla marga stóðhesta í tengslum við rannsóknina og niðurstöður mælinganna eru á eins konar munnmælastigi, sem alls ekki er nógu gott. Spilin eiga að liggja upp á borði, annars verður enginn ræktunarárangur af rannsókninni.

Ég er hins vegar ekki sannfærður um gagnsemi þess að mæla fótstöðu stóðhesta út frá hugsanlegum orsökum spatts, því að ég held, að enn séu ekki komin þau vísindi, sem geti sagt fyrirfram, að þessi eða hinn stóðhestur sé með þannig fótstöðu, að líklegt sé að hann mælist með skugga, þegar hann er orðinn 6-7 vetra. Ég er vantrúaður á að láta augnamælingu kynbótadómara eða dómaranefnda ráða gengi ungra stóðhesta og tel betra að taka þá úr ræktuninni 6 vetra gamla, ef þeir eru þá komnir með skugga.

Svo tel ég í fljótu bragði í lagi, að eldri stóðhestar mælist með skugga, því að líklegt er, að þeir séu ekki miklir erfðaberar spatts, ef skuggi kemur fram tiltölulega seint á ævinni. Í því tilviki má frekar líta á spatt sem öldrunarsjúkdóm en erfðasjúkdóm.

Engin ástæða er
til gönuhlaupa

Gunnar Arnarson:

Ég vil fara varlega í að draga ályktanir af lítilli rannsókn, sem ekki var byggð á vísindalegu tilviljanaúrtaki. Í rannsóknina fór mikið af hrossum, sem talin voru geta verið spöttuð. Slík hross voru valin inn.

Ég held að miklu meira mark væri takandi á gagnabanka, sem byggður væri á röntgenmyndum og beygjuprófunum, sem dýralæknar framkvæma holt og bolt. Það eru 500-800 hross röntgenmynduð á hverju ári.

Mér sýnist vandamálið í útflutningi vera um 15% og fara heldur minnkandi. Ég held, að uppeldi hrossa sé áhrifaþáttur í þessu. Ef hross hafa gott fóður, góða haga, gott svigrúm og mikla hreyfingu, eru minni líkur á spatti samkvæmt minni reynslu.

Spattrannsóknin gefur auðvitað vísbendingar, sem kalla á frekari rannsóknir. Engin ástæða er hins vegar til gönuhlaupa á grundvelli hennar einnar. Við skulum láta alhæfingar eiga sig og halda frekar áfram rannsóknum.

Mæla upp alla
stóðhestana

Bjarni E. Sigurðsson:

Auðveldast og einfaldast er að vanda til vals á stóðhestum, því að þeir eru tiltölulega fáir og eru samt helmingur alls dæmisins. Ræktendur verða að fá að vita, hvaða stóðhestar eru arfberar spattsins. Tiltölulega einfalt er að mæla upp alla stóðhesta, sem eru í ræktuninni og birta niðurstöðurnar.

Svo verður hver ræktandi fyrir sig að gæta þess að hætta að nota spattaðar merar í eigin ræktun, en það er mál hvers ræktanda fyrir sig.

Skoða stóðhesta
sem koma í dóm

Bjarni Þorkelsson:

Ef á að verða árangur í kynbótastarfi í framhaldi af þeirri niðurstöðu spattrannsóknarinnar, að spatt sé að töluverðu leyti arfgengt, er nauðsynlegt að halda rannsóknum áfram og láta þær ná almennt til þeirra stóðhesta, sem eru í notkun. Mér finnst þó ekki líklegt, að draga megi ályktanir af spatti í gömlum stóðhestum, sem gætu verið spattaðir fyrir aldurs sakir. Hins vegar finnst mér rétt að skoða nýja stóðhesta, þegar þeir koma í dóm, 4, 5 og 6 vetra gamlir, og taka þá til dæmis af þeim röntgenmyndir. Ef þeir eru á þeim aldri komnir með bletti, er sennilega um arfgengi að ræða og ekki vænlegt að nota þá í ræktuninni.

Leitaraðferðir
eru ónákvæmar

Brynjar Vilmundarson:

Auðvitað er athyglisvert, að spattið skuli ekki stafa af álagi á ung hross, heldur vera að stórum hluta arfgengt. Hins vegar er ekki einfalt að nota þær upplýsingar í kynbótastarfi, því að enn vantar aðferðina við að grisja spatthrossin út í tæka tíð. Mælingar á hæklum eru ekki nákvæm vísindi og sama er að segja um röntgenmyndir. Skuggar, sem koma fram á myndum, eru stundum tæknileg eðlis, en ekki raunverulegir. Það væri ábyrgðarhluti að henda stóðhesti úr ræktun út á gallaðar upplýsingar af slíku tagi. Ég skil, að ráðamenn vilji ekki birta nöfn stóðhesta, sem sýndu spatt í rannsókninni, því að miklu fleiri stóðhestar voru ekki rannsakaðir, en gætu auðvitað verið jafnmikið spattaðir og hinir. Að mínu viti á enn eftir að þróa aðferð til að nýta niðurstöður spattrannsóknarinnar í markvissu kynbótastarfi. Það er brýnt mál.

Trippi leggja
ekki lengur af

Bjarkar Snorrason:

Ég er ekki viss um, að mikið sé að marka þessi vísindi og tel vafasamt að fara að reyna að flokka stóðhesta út frá líkum á spatti. Ég hef meiri trú á, að spattið tengist því, að trippi verða ekki lengur þunn á útmánuðum. Hingað kom einu sinni austurrískur dýrafræðiprófessor, sem hélt þessu fram. Það er truflun á gangverki ársins, þegar trippi eru höfð feit árið um kring. Hross eiga að leggja af á útmánuðum, það er þeim eðlilegt.

Mælingarnar eru
á gráa svæðinu

Jón Friðriksson:

Því er haldið fram, að með markvissu kynbótastarfi í aldarfjórðung megi minnka spatt um 10%. Þess vegna er ekki víst, að tímabært sé að grípa til aðgerða á þessu stigi málsins. Rannsaka þarf spatt betur og fylgjast með ungum hrossum um langt árabil. Blettir á röntgenmyndum geta stafað af meiðslum, sem algeng eru á ungum hrossum í stóði. Ég tel óráðlegt að útiloka góða stóðhesta út af röntgenmælingum, sem eru á gráu svæði og túlka má á ýmsa vegu. Ég held, að erfitt verði að setja mörkin á gráa svæðinu. Ég hef heyrt þá skoðun, að spattprófa eigi stóðhesta, þegar þeir koma til dóms, en hef ekki tekið trú á þá skoðun.

Mikilvægast er að
vanda ákvörðunina

Ágúst Sigurðsson:

Á vegum fagráðs í hrossarækt er í gangi vinnuhópur um heilbrigðisþætti í ræktunarstarfinu sem hefur fjallað um hvernig við eigum að taka skipulega á m.a. frjósemi og spatti. Dýralæknarnir Sigríður Björnsdóttir og Páll Stefánsson hafa starfað með okkur í þessum vinnuhópi. Hvað frjósemina varðar er búið að leggja nokkuð línurnar fyrir næstu árin en spattið er áfram til skoðunar. Rannsókn Sigríðar svarar mjög mörgum spurningum um spattið og gefur sterklega til kynna að hægt væri að lækka tíðni spatts í ungum hrossum með skipulegu úrvali. Þetta er hins vegar spurning um aðferðir og kostnað. Málið stendur þannig núna að við viljum taka okkur tíma í að skoða all ítarlega hversu miklum, og hve skjótum, árangri nokkrar mismunandi leiðir skila. Þetta verður gert með s.k. runureikningum (simuleringum) þar sem líkt er eftir raunverulegu ræktunarstarfi með þennan eiginleika. Við gerum ráð fyrir að hafa svör við þessum spurningum á haustdögum. Á næsta ári stendur til að halda hérlendis alþjóðlega vísindaráðstefnu um heilbrigði hrossa þar sem þessi mál verða m.a. rædd með færustu sérfræðingum. Ákvarðanir um hvernig íslensk hrossarækt muni standa að ræktunarstarfi m.t.t. spatts bíða því fram yfir þessa ráðstefnu. Spattið hefur fylgt hrossunum okkar frá örófi alda eins og rannsóknir Sigríðar leiddu í ljós og því skiptir eitt ár til eða frá litlu. Meiru er um vert að vanda ákvarðanatöku í þessum efnum.

Breytt stefna
komin 2005

Kristinn Guðnason:

Rannsóknir á spattti eru ekki enn orðnar nógu miklar til að hægt sé að grípa til aðgerða nú þegar. Fagráð í hrossarækt hefur tekið þá stefnu að safna frekari rannsóknum og taka endanlega ákvörðun í málinu á næsta ári, árið 2004, og koma þeirri stefnu til framkvæmda árið eftir, árið 2005.

Mér finnst líklegast, að niðurstaðan verði sú, að allir sex vetra stóðhestar, sem fengið hafa fyrstu verðlaun á sýningu, verði röntgenmyndaðir fyrir spatti. Þessi myndataka verði skylda og niðurstöðurnar verði birtar opinberlega. Síðan ráði eigendur stóðhesta og þeir, sem undir hestana leiða, hvort þeir fari eftir þessum upplýsingum eða ekki.

Mín skoðun er, að röntgenmynda verði alla stóðhesta á sama aldri, svo að jafnræði verði með þeim. Ég tel enga ástæðu til að röntgenmynda gamla stóðhesta, því að hjá þeim má líta á spattið sem öldrunarsjúkdóm. Óþarfi er að eyða tíma og fé í að mynda aðra en fyrstu verðlauna hesta, því að hinir eru hvort sem er ekki í neinni notkun.

Mér finnst nauðlegt, að einn fagaðili verði fenginn til að meta allar röntgenmyndirnar, svo að sama túlkun gildi um alla hestana. Fagráð hefur nú tvo dýralækna sér til ráðgjafar á þessu sviði, Sigríði Björnsdóttur og Pál Stefánsson.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 6.tbl. 2003

Að vera eða vera ekki

Hestar

Íslendingar hafa lengi verið á báðum áttum gagnvart helztu kaupstefnu hestamennskunnar í heiminum, á Equitana í Essen, þar sem íslenzki hesturinn er dropi í hafi hestakynjanna. Þessi viðhorf endurspeglast í viðtölum Eiðfaxa við menn, sem komu með ýmsum hætti að kaupstefnunni, og menn, sem kusu að koma ekki að henni.

Sennilega er íslenzkum þætti þessarar 250.000 gesta kaupstefnu að fara aftur. Sýningar á íslenzka hestinum skara ekki lengur fram úr og eru hættar að valda almennri hrifningu umfram sýningar á kostum annarra hestakynja. Því valda einkum erfiður fjárhagur þeirra, sem sjá um sýningarnar, og þröngar skorður, sem ráðamenn kaupstefnunnar hafa sett höfuðsýningunni á kvöldin.

Í viðtali Eiðfaxa við Hans Joachim Erbel, forstjóra Equitana, lofaði hann ítrekað, að næst yrði gert kleift að leggja áherzlu á sérstaka kosti íslenzka hestakynsins í höfuðsýningunni á kvöldin. Þetta ætti að vera aðstandendum íslenzka hestsins hvatning til að setja saman glæsilega sýningu, sem fær gesti til að standa upp og klappa.

Þáttur íslenzkra hesta á kaupstefnunni var að þessu sinni borinn uppi af þrenns konar aðilum. Í fyrsta lagi voru það Íshestar og nokkur önnur hestaferðafyrirtæki, í öðru lagi voru það Saga reiðskólarnir þýzku og nokkrar þýzkar Íslandshestajarðir. Í þriðja lagi voru það vörumerkin Top Reiter og Quick Shop.

Það er dýrt í básaleigu og mannahaldi að taka þátt í Equitana. Nokkurra þreytumerkja gætti hjá sumum, sem voru þar með Íslandshestabása, jafnt Þjóðverjum sem Íslendingum. Sumir sögðu, að íslenzki þátturinn héldi sjó, en aðrir töldu hópinn vera á hægu undanhaldi. Það bætir úr skák, að næst er líklegt, að nýja Landsmótsfélagið verði sýnilegt á kaupstefnunni.

Eldhestar eru stór hestaferðaskrifstofa, sem ekki er með. Félag hrossabænda er ekki með og ekki heldur Bændasamtökin eða Landbúnaðarráðuneytið. Við sjáum í viðtölum Eiðfaxa ýmsar og ástæður efasemda slíkra aðila. Að mestu er þó eitt atriði, sem mestu máli skiptir: Það vantar sterka kjölfestu í hópinn.

Auðvelt er að rökstyðja, að Félag hrossabænda eigi með aðstoð sjóða og styrktaraðila að vera með bás á sýningunni, þar sem lögð verði áherzla á tvö atriði. Röksemdir fyrir þessum tveimur atriðum koma fram í viðtölum Eiðfaxa. Annars vegar þarf gagnsókn í exemsmálinu og hins vegar áherzlu á sérstöðu Íslandsfædda hestsins umfram íslenzka hesta, sem fæddir eru erlendis.

Fleiri en Hamlet standa andspænis spurningunni um að vera eða vera ekki. Af öllum svörum er svar Hamlets verst -að vera hvorugt. Velunnarar íslenzka hestsins þurfa að hittast og meta stöðuna. Eiga menn að vera á þeim vettvangi, þar sem baráttan stendur milli hestakynja heimsins eða eiga menn bara að vera á vettvangi hinna sannfærðu, heimsleikum íslenzka hestsins? Menn þurfa að ákveða, hvort þeir vilja vera eða vera ekki.

Equitana er mikil freisting. Þar er mannhaf 250.000 gesta á meira en tíu hektörum, þar sem eru 800 sölubásar frá 20 löndum og samhliða hestasýningar á mörgum stöðum, meðal annars á töltbraut í sýningarsal Íslendinga. Equitana er gluggi fyrir Ísland sem ferðaland, sem upprunaland gæðinga, sem upprunaland sérstæðrar vöru og þjónustu. En jafnframt er þetta dýr freisting.

Hægfara andlát aðildar er verst. Betra er að velja aðra hvora leiðina. Annað hvort að hætta þátttöku og nota peningana betur á annan hátt. Eða endurreisa aðildina á þann hátt, að eftir verði tekið í alþjóðaheimi hestamennskunnar.

Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi júní 2003

Fjallaferðir

Hestar

Dásamleg andleg hvíld á fjöllum

Baltasar og Kristjana Samper:

Þetta er áhugamennska frá bernsku hjá okkur báðum. Það er í genunum hjá okkur að vera vitlaus í hesta. Við fundum strax, að sýningar og keppni voru ekki fyrir okkur. Öll vetrarþjálfun okkar stefnir að stóru hestaferðinni í júlí. Hún er hinn árlegi hápunktur áhugamálsins. Í henni fáum við þessa dásamlegu, andlegu hvíld við að komast út í náttúruna í óbyggðum, þar sem litlar eða engar mannaferðir eru. Við höfum það fram yfir göngufólkið, sem er í sömu erindagerðum að hafa hestana okkur til ánægju, ef það er svo dimmt yfir, að við njótum ekki umhverfisins.

Fyrir mig (Baltasar) sem útlending hafa þessar ferðir gefið mér stórkostlega mikið og gott samband við land, sem ég þekkti ekki áður og hafði aldrei dreymt um að ég mundi síðar þekkja betur en margir heimamenn. Ég held ég hafi riðið yfir flestar ár á Íslandi og riðið meira eða minna um allar sýslur landsins.

Heillaður af landi og samvistum við hestana

Hannes Einarsson:

Ég er heillaður af Íslandi yfirhöfuð og hef bara skoðað brot af því. Ég nenni alls ekki að fara til útlanda og hef ekkert þangað að sækja. Ég bjó erlendis í sex ár og það var alveg nóg. Ég færi í mesta lagi til Færeyja eða Grænlands. Núna langar mig til dæmis til að skoða landið, sem á að fara undir uppistöðulón, áður en það verður of seint. Ef heilsan lofar, vonast ég til að geta varið sumarleyfum mínum í hestaferðum um ókomin ár.

Samvistin við fólk og hesta í náttúru landsins er mér mjög hugleikin. Hrossin verða fljótt eins skemmtileg og þau geta bezt orðið. Þetta eru meiri háttar ævintýri. Á ferðalögum hestamanna um landið eru allir eins og ein stór fjölskylda. Allir eru natnir við að aðstoða alla við hvað sem er, leggja sig fram um að bjarga öllum málum, gera þetta og gera hitt. Alltaf eru sjálfboðaliðar til taks.

Afskekkt Arnarfell vafið ævintýraljóma

Andreas Bergmann:

Ég hef alla tíð í hestamennsku haft langmest gaman af hestaferðunum. Ég hafði lítinn áhuga á að ríða út í Reykjavík á veturna, þótt ég væri með hesta í bænum, og hef alltaf riðið miklu meira út á sumrin, raunar flestar helgar, fyrir utan langferðirnar sjálfar. Á þeim tíma voru sumir duglegir við að ríða út í vetrarhörkunum í Reykjavík, riðu síðan sleppitúr austur fyrir fjall, drógu þar undan hrossunum og litu ekki á þau fyrr en um næstu jól.

Af því, sem ég hef ekki farið, langar mig mest til ferðast um hálendi Austurlands, Brúaröræfi og Vesturöræfi. Af því, sem ég hef farið, fannst mér einna skemmtilegust þrettán daga ferð árið 1985 um Nyrðri-Fjallabaksleið og síðan meðfram Fögrufjöllum alveg inn í Grasver fyrir innan Langasjó, þar svo yfir Skaftá og niður Skaftáreldahraun alveg niður í Hrossatungur og austur að Klaustri, þaðan svo um Holtsdal vestur í Skaftárdal og Syðri-Fjallabaksleið heim.

Oft hef ég komið í Arnarfell og finnst það alltaf skemmtilegt, þó aldrei eins og fyrst fyrir fjórum áratugum. Þá hafði ég sem strákur í sveit heyrt gömlu karlana í sveitinni tala um þennan óvenjulega afskekkta stað og vefja hann ævintýraljóma. Það magnar gildi hans í augum hestamanna. Það er líka sérstakt að sjá allan þennan gróður og alla þessa liti í brekkunum inni í miðju Íslandi. Ekki er þá síðri hvönnin í Arnarfellsmúlunum og sefið í tjörnunum neðan við þá.

Einnig fannst mér gaman að ríða frá Hvítárnesi vestur yfir Fúlukvísl, síðan meðfram Hrefnubúðum og á bakka Hvítárvatns þvert fyrir mynni Fróðárdals og ganga þaðan inn í Karlsdrátt, þar sem er mikill gróður. Þetta hef ég farið tvisvar.

Fyrstu ferðina fór ég í Arnarfell og Nýjadal sem fylgdarsveinn með Páli Agnari Pálssyni yfirdýralækni árið 1963, Viðari Péturssyni og fleirum. Ég hafði þá verið í sveit hjá Lofti Eiríkssyni í Steinsholti, sem var leiðsögumaður ferðamanna á sumrin. Í þessari fyrstu ferð minni var enginn bíll til fylgdar og farið með trúss á ellefu hestum fyrir tólf manns til tíu daga.

Ég lærði mest í þessari fyrstu ferð. Þetta voru ákaflega vel undirbúnir menn. Þeir voru búnir að lesa Thoroddsen og ferðafélagsbækurnar upp til agna. Þeir þekktu hvert einast örnefni, þótt þeir væru sumir að fara um svæðið í fyrsta skipti. Þeir kunnu líka sögurnar, sem voru tengdar stöðum á leiðinni.

Árið 1973 fór ég í hálfs mánaðar ferð austur að Núpsstað með Hreini Árnasyni og fleirum. Tveimur árum síðar fór ég að ferðast með Birni Guðmundssyni flugmanni, Árna Þórðarsyni, Haraldi Sveinssyni og fleirum. Af öllum þessum mönnum lærði ég sitt lítið af hverjum og allir voru þeir frábærir ferðafélagar.

Snerting við lífið og
tilveruna á hálendinu

Árni Ísleifsson:

Mér líður sérstaklega vel, þegar ég er einn á ferð með hestinum mínum, án þess að ég sé neitt að forsmá fámennan félagsskap góðra vina. Mér er til dæmis ógleymanleg tólf daga smölun okkar Hjalta í Fossnesi í Heklugosinu 1981, þegar við höfðum það hlutverk að ýta fénu innar á afréttinn, þar sem ekki var vikurfall. Við gerðum út frá skálanum í Gljúfurleit og riðum á hverjum degi fram á Sandafell til að snúa fénu til baka.

Mig langaði alltaf til að ferðast um hálendið. Ég var í hestum frá blautu barnsbeini og lærði mikið af gömlum gangnamönnum. Faðir minn hafði farið mikið um afréttir og sagði mér frá þeim ferðum. Ég drakk í mig allar sögur hans og annarra um þau mál. Yfir þessu öllu var ævintýraljómi, sem fangaði hug minn. Það er svo miklu meiri snerting við lífið og tilveruna að ferðast um hálendið á hestum frekar en á jeppum.

Árin 1964 og 1965 var ég starfsmaður hjá Guðna í Skarði, sem hafði ferðaþjónustu á hestum, og fór í ferðir þaðan, Fjallabak, Sprengisand og Kjöl. Þá var lítið um skála og hólf. Við vorum með tjöld, heftum hestana og vöktum til skiptis yfir þeim. Eftir að ég flutti hingað, fór ég nokkrar ferðir inn á afrétt með Sigurgeir Runólfssyni í Skollabúðum og lærði mikið af honum. Það var gott að spyrja hann og hann var ólatur við fræðsluna. Hann var feiknarlega gætinn maður og hestlaginn. Árum saman fór hann með sama hópinn ýmsar leiðir um hálendið.

Ég fylgi fólki mikið yfir Nautavað á Þjórsá, enda er vaðið nánast hér í túnfætinum. Mest hef komist í þrjár ferðir á dag og þurfti auðvitað að skipta um hest milli ferða, því að áin er svo köld. Það tekur svona um það bil klukkustund að fara vaðið, ef ég vísa fólki á reiðgötunar, þegar komið er yfir ána. Ég sé mest á steinum, sem standa upp úr, hvort áin er fær eða ekki. Gísli Jónsson, sem bjó hér áður í Þjórsárholti, kenndi mér á vaðið árið 1969. Ég svo kennt sonum mínum á það. Þetta er þekking, sem hefur fylgt ábúðinni hér á jörðinni öldum saman.

Ég hef farið um allt hálendi Suðurlands og norður Kjöl og Sprengisand og allt austur í Axarfjörð, en ekki verið á Vesturlandi og Austurlandi. Ótal ferðir hef ég farið í Arnarfell og fylgt fólki þaðan yfir Þjórsárskvíslar í Háumýrar, en síðan haldið sjálfur til baka. Einnig hef ég tekið á móti fólki í Háumýrum og fylgt því suður afrétt. Mig langar til að ríða um Borgarfjörð, Mýrar og Löngufjörur vestur á Snæfellsnes, þangað þyrfti ég endilega að komast. Af því, sem ég hef farið, fannst mér minnisstæðast að fara hringinn Fjallabaksleiðir. Það er þægileg leið með feiknagóðum töltvegum, óskaferðin mín.

Ég hressist allur
í hestaferðunum

Haraldur Sveinsson:

Ég byrjaði að hnýta upp í hesta og fara á bak þeim, þegar ég var fjögurra ára og hef æ síðan haft unun af að stússa kringum hross. Mér fannst strax sem ungum manni, að ég yrði að komast í ferðalög með hestum. Snemma fór ég leitir með Mýramönnum og Mývetningum og kynntist ferðamennskunni. Í löngum hestaferðum á sumrin hef ég verið frá árinu 1948. Ég hressist allur í hestaferðum, sé landið allt öðru vísi en úr bil og kynnist mörgu góðu fólki.

Um þetta leyti voru slíkar ferðir að byrja fyrir alvöru hjá hestamönnum í Reykjavík. Ég þekkti flesta þessa menn og slóst í för með þeim. Fyrst voru þetta aðallega ferðir á landsmót og fjórðungsmót, en síðan fóru þetta að breytast í sumarleyfisferðir og þá oft um nýjar og spennandi slóðir. Á veturna var setið og spjallað um, hvert ætti að fara næsta sumar.

Mæti náttúruöflunum,
tekst á við óvissuna

Ólafur B. Schram:

Ég fer í langar hestaferðir af ýmsum ástæðum, meðal annars til að sigrast á náttúruöflunum, til að takast á við óvissuna. Ég kann vel við slarkið og skítinn. Landið og veðrið eru aldrei eins og hestarnir og mennirnir eru líka misjafnir. Ég hef líka gaman af að fara nýjar slóðir og sjá land, sem ég hef ekki séð áður. Þetta er að hluta söfnunarárátta. Ég er líka að kynnast hestunum mínum betur með því að reyna á þá við ýmsar aðstæður. Og síðast en ekki sízt er það samneytið við annað fólk.

Ég lærði mest í ferðamennsku á hestum af bændum í Öræfasveit, þegar ég var þar unglingur í sveit. Af öðrum mönnum lærði ég mest af Hjalta Pálssyni, sem ég fór með í eina ferð snemma á ferðaferli mínum. Síðan hefur þetta komið mest af reynslu á löngum tíma.

Tengi hesta við
náttúrukönnunina

Þormar Ingimarsson:

Ég hef áhuga á hálendinu og náttúru þess. Þar sem ég hef lengi verið í hestum, finnst mér gott að geta tengt hestana við náttúrukönnun. Það er líka eitthvað í því að vera á fjöllum, sem ekki er hægt að skýra. Svo skiptir félagsskapurinn líka máli.

Ein fimmtán ár er ég búinn að vera í hestaferðum á hverju sumri. Áður var ég búinn að þvælast dálítið um einn með hesta. Lengi var ég svo í fámennum hópi með Valdimar K. Jónssyni, sem er afbragðs ferðamaður og þægilegur maður, sem ég hef lært mikið af. Einnig hef ég lært mikið af bændum, sérstaklega þeim, sem hafa verið leiðsögumenn eða gangnafrömuðir. Ég hef raunar lært af mörgum og lít aldrei á mig sem fullnuma. Ég get alveg eins lært af nýliðum eins og gamalreyndum. Ég horfi alltaf til náungans til að sjá, hvernig hann fer að. Svo hef ég lesið ferðabækur og ferðalýsingar, til dæmis í bókaflokknum Hestar og menn.

Sérstaklega hafa verið lærdómsríkar stóru Fáksferðirnar, þar sem eru stundum upp undir 40 manns í hnakk. Í þeim ferðum hefur á síðari árum verið reynt að taka skipulegar og ákveðnar á hlutunum en almennt gerist í hestaferðum. Mikill fjöldi fólks og hesta kallar á meiri aga og meiri formfestu, til dæmis um meðferð áfengis og svefntíma, um verkaskiptingu í áningarstöðum og skipulag forreiðar og eftirreiðar. Sumar Fáksferðirnar eru í mínum huga sem fullkomnar ferðir, til dæmis ferðirnar tvær í Vestur-Skaftafellssýslu árin 1998 og 2000, alveg snurðulausar ferðir þrátt fyrir mikla stærð flotans. Þar fór saman samheldið og duglegt fólk undir góðri leiðsögn og veður eins og best verður á kosið.

Mest hef ég ferðast um miðhálendið og landið suðvestanvert, frá Núpsstaðaskógi til Skarðsstrandar. Mest gaman hefur mér þótt að ferðast um Vestur-Skaftafellssýslu, á svæðunum umhverfis Kirkjubæjarklaustur, bæði að fara upp í fjöllin og niður á sandana, svona til skiptis eins og við gerðum árið 2000. Mér eru líka Löngufjörur og Fjallabaksleiðir hugleiknar. Ef ég ætti bara eina ferð eftir, vildi ég fara Fjallabakshringinn með trússhesta.

Annað tilverustig,
algleymi í ferðum

Einar Bollason:

Mér finnst ég komast á annað tilverustig í hestaferðum, í eins konar algeymi. Hestaferðamaðurinn líkist göngumanninum í því, að hann sækist eftir friði og fríi frá amstri og áreiti hversdagsins. Ég gef ekki upp símanúmerið í NMT símanum öðrum en þeim, sem ég hef samskipti við vegna ferðarinnar. Með góðum undirbúningi og langri reynslu, með góðum leiðsögumanni og vönum samferðamönnum verður ekkert stress í hestaferðum, þótt menn verði að vera vakandi fyrir ýmsum hættum.

Skemmtilegasti staður í hestaferð er að vera aftastur. Ég reyni alltaf að koma því svo fyrir, að ég geti verið aftastur um tíma á hverjum ferðadegi. Þá er ég bara með sjálfum mér og mínum hesti. Það eru yndislegar stundir sérstaklega þegar við erum að feta einstigi um hraun. Þótt ég hafi alltaf verið mikil félagsvera, þá finnst mér einveran vera mikilvæg í bland. Það er sama tilfinning og ég fæ, þegar ég ríð út á veturna utan almenns frítíma, þegar engir aðrir eru á ferð og ég er bara einn með mínum hesti.

Þetta er ákveðin veiki. Í gamla daga var ég oft sjö eða átta vikur á baki á hverju sumri. Seinni árin er ég tvær-þrjár vikur á ferð á hverju sumri, fyrir utan göngur og réttir. Þegar ég reið sem mest á sumrin, var ég ekki tilbúinn að fara að ríða út á veturna fyrr en í febrúar eða mars. Núna er ég farinn að ríða út fram í októberbyrjun og byrja aftur að ríða út, að vísu á öðrum hestum, upp úr áramótum.

Við hjónin lærðum hestaferðir hjá prófessorum í faginu á borð við Svein heitinn á Varmalæk og Ragnar Stefánsson á Akureyri. Hjá þeim innbyrtum við hundruð smáatriða, sem skipta máli í hestaferðum. Þetta var okkur ómetanlegt. Við höfum síðan reynt að miðla þessu og einnig fengið fullt af punktum annars staðar. Rekstur hrossa er list og ætti að sjálfsögðu að skipa veglegan sess í námskrám beggja bændaskólanna.Þá ættu öll hestamannafélög að beita sér fyrir námskeiðum í ferðalögum á hestum.

Tign og dulúð landsins,
lykt af hestum og jörð

Bjarni E. Sigurðsson:

Ég ferðast enn, þótt ég sé hættur að hafa atvinnu af því. Mestu máli skiptir núna mín eigin slökun. Hana gefur útiveran og tilbreytingin í landslaginu. Það er lyktin af hestunum og úr jörðinni, þú ríður yfir mosaþembur með annarri lykt en valllendi. Þú fylgist með öllu, fuglum og náttúrunni kringum þig, teygir þig eftir eyrarrós. Ég held líka, að það sé í eðli mínu að hafa gaman af að skipta um stað, færa sig um set, koma í nýja laut.

Síðustu árin hef ég yfirleitt verið með vönu fólki, svo að ég þarf ekki að vera með augun á öllu og get fengið að vera í friði með mínum hestum, notið þeirra áhyggjulaust. Ég fæ núna að vera ég sjálfur í ferðalögum með góðu fólki, sem ég þekki og þarf ekkert að skipuleggja. Mér er margfalt meiri nautn í þessu en í að fara á falleg hótel og fræg söfn á útlendum ferðamannastað.

Ég er búinn að fara víða. Mesta tign og dulúð hef ég séð í Skaftafellssýslum, Ingólfshöfða og Hunkubökkum, Lakagígum og Hungurfit. Þar eru sandar og jöklar, ógn og auðn, en notalegur gróður á milli. Sprengisandur er tilbreytingarlítill, en spennandi. Hveravellir eru alltaf fallegir og þar er sagan líka þrungin. Rólegast og öruggast er fara Löngufjörur á Snæfellsnesi. Þangað fer ég, þegar ég þarf að hvíla mig.

Ég hef ekki riðið í hálendi Vestfjarða og Austfjarða. Ef ég mætti aðeins fara einn túr um ókunnar slóðir, mundi ég velja að ríða frá Egilsstöðum um fjallaleiðir suður í Lón.

Ég lærði mína ferðamennsku hjá Páli á Kröggólfsstöðum, þrælvönum hestamanni og ferðamanni, alltaf fljótandi rólegum og gamansömum. Hann bauð mér fyrst í skemmtilega ferð úr Skagafirði þvert yfir Norðurland að Dettifossi með 42 skozka unglinga. Síðan fór ég oft með honum í söluleiðangra með hross, enda voru hestakaup hans mesti unaður. Hann var oft sjálfur á bílnum á eftir, en ég á undan á hestbaki. Það var um 1962-1963, að ég byrjaði að ferðast með honum.

Hestaferðirnar
blunduðu í mér

Hjalti Gunnarsson:

Sem barn í Fossnesi hafði ég strax áhuga á hestaferðum, enda fóru Páll Agnar yfirdýralæknir og fleiri í ferðir héðan og sömuleiðis voru sumar Fáksferðir farnar héðan í þá daga. Þessar ferðir blunduðu alltaf í mér og ég byrjaði sjálfur fyrir tvítugt að ferðast um landið á hestum. Það var um 1970 og hef farið á hverju sumri síðan, auk ferðanna fyrir Íshesta. Síðustu 20 árin hef ég farið með sama hópnum í ferðalag síðast í júní, áður en Íshestavertíðin byrjar í júlí.

Mest hef ég lært af Sigurgeir heitnum í Skáldabúðum sem ég fór með í margar fjallferðir. Hann var mikill ferðagarpur og óþreytandi við að segja manni til. Hann kemur mér oft í hug. Hann var nærfærinn við menn og skepnur og virtist skilja þarfir allra. Ég fór líka í ferðir með Gunnari Tryggvasyni og lærði af honum, einnig fékk ég góð ráð hjá Gunnlaugi Skúlasyni dýralækni í Laugarási. Sigurgeir og Gunnlaugur kenndu mér til dæmis að gefa hestum ekki hey strax og við komum í náttstað, heldur klukkutíma síðar, þegar þeir hafa kælt sig niður.

Ég hef mest ferðast um svæðið sunnan Hofsjökuls og mikið um Kjöl og Sprengisand, einnig austur um Fjallabaksleiðir báðar. Ég hef einnig farið Arnarvatnsheiði og vestur í Dali, Borgarfjörð og Löngufjörur. Ég hef einnig riðið út í tvo daga í Vestmannaeyjum, það var öðru vísi. Af því, sem ég hef ekki farið, langar mig mest á norðausturhornið, einkum Melrakkasléttu, og næstmest á Strandir norðanverðar.

Hesturinn batnar
frá degi til dags

Marinó Pétur Sigurpálsson og Guðbrandur Kjartansson:

Hestaferðir höfða til svo margs. Hesturinn batnar frá degi til dags, ef á annað borð er eitthvað varið í hann. Það kallar líka á einhverjar frumhvatir að standa andspænis náttúruöflunum og klára sig af því, þótt flestir dagar séu raunar fallegir og þægilegir. Það vill svo oft verða, að brasið verður minnisstæðast, þegar tímar líða fram. Erfiðleikarnir gera ferðirnar eftirminnilegar og verða skemmtilegir í minningunni.

Það er stórkostlegt að vera úti í náttúrunni til fjalla að sumarlagi. Það er eitthvað í þessu, sem kallar alltaf aftur og aftur á mann. Eftir fyrstu ferðina er maður með ólæknandi þrá. Við veljum hestaferðir umfram allt annað.

Mikil lífsfylling
að ferðast á hestum

Viðar Halldórsson:

Það er mikil lífsfylling að ferðast á hestum. Að vera á góðum hestum í góðu veðri er það allra skemmtilegasta, sem ég veit. Svo kynnist maður landinu mjög vel. Útivera á hálendinu er sérstök. Ég hef líka gaman af að ríða í byggð, þar sem reiðleiðir eru víða mjög góðar. Ég hef verið í langferðum í þrjá áratugi og síðustu tvo áratugi á hverju sumri.

Ég hef ekki enn farið Sprengisand, ekki norður fyrir Vatnajökul og hvorki riðið á Vestjörðum né á Austurlandi. Þetta vantar í safnið hjá mér. Flest annað hef ég farið. Af því, sem ég hef farið áður, finnst mér Fjallabakshringurinn skemmtilegastur og afréttir Vestur-Skaftafellssýslu. Löngufjörur eru líka skemmtilegar í sólskini og skemmtilegu veðri.

Ég lærði ferðamennsku fyrst af tengdaföður mínum, Boga heitnum Eggertssyni, þótt ég ferðaðist ekki mikið með honum. Hann kenndi mér, hversu mikið mætti leggja á hesta og sagði mér, að fimm vetra mættu hestar hlaupa með í ferðum, sex vetra mætti byrja að nota þá og sjö vetra væru þeir orðnir fullsterkir. Hann sagði mér jafnframt að fara að gæta mín, þegar hesturinn væri farinn að svitna upp á lendina að aftan.

Mest í ferðamennsku lærði ég af Gunnari Bogasyni, sem ég var í fyrstu mikið með í ferðum. Hann var mikill kennari í sér og var alltaf að segja mér til. Þar var ég heppinn, því að margir, sem stjórna ferðum, segja mönnum ekki nógu mikið til, svo að þeir geta verið lengi í ferðum án þess að læra neitt að ráði, eru bara eins konar farþegar.

Síðar hef ég ferðazt mikið með Reyni Aðalsteinssyni. Hann les hesta og getu hesta mjög vel og er snillingur í að deila deila álaginu misjafnlega á hestana eftir getu þeirra. Reynir er frábær hestaferðamaður.

Hestarnir fólkið og
afskekktar óbyggðir

Valdimar K. Jónsson:

Ferðirnar eru það skemmtilegasta í hestamennskunni. Ég nýt hestanna og félagsskaparins og virði fyrir mér landslag, sem í mörgum tilvikum er ekki aðgengilegt eða auðséð á annan hátt. Ég hef mjög gaman af að skoða mig um á nýjum slóðum, einkum í óbyggðum. Ég veit af mönnum, sem ferðast einir, en það ætti ekki við mig. Ég vil hafa félagsskapinn.

Ég veit um mann í Keflavík, sem ferðast einn með sjö hesta og lætur þá elta sig. Hann talaði við mig í sumar til að spyrjast fyrir um aðstæður í Mýrdal. Annað maður, Guðmundur Magnússon, bróðir Vigfúsar læknis, ferðast líka svona og rekur hestana á undan sér. Hann var að fara upp Árbæjarveg og missti hestana um opið hlið inn á tún hjá mér. Hann lét sér ekki bregða, elti hrossin hljóðalaust inn og beindi þeim í hring, þannig að þau fóru út aftur í halarófu. Hann var greinilega vanur svona slaufum.

Ég hef mest lært ferðamennsku af föður mínum, en einnig sagði Einar heitinn Guðlaugsson í Vík mér margt gagnlegt frá hestaferðum, þótt ég færi lítið með honum sjálfur í ferðir. Að öðru leyti hef ég mest lært af félögum mínum og samferðamönnum, ekki síður af þeim yngri en þeim eldri. Enn er ég að læra um hestaferðir. Ég byrjaði að fara í nokkurra daga hestaferðir á þrítugsaldri, á sjöunda áratugnum. Lengri sportferðir inn á afréttir byrjuðu hjá okkur hjónum upp úr 1970.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 6.tbl. 2003

Að vera eða vera ekki

Hestar

Íslendingar hafa lengi verið á báðum áttum gagnvart helztu kaupstefnu hestamennskunnar í heiminum, á Equitana í Essen, þar sem íslenzki hesturinn er dropi í hafi hestakynjanna. Þessi viðhorf endurspeglast í viðtölum Eiðfaxa við menn, sem komu með ýmsum hætti að kaupstefnunni, og menn, sem kusu að koma ekki að henni.

Sennilega er íslenzkum þætti þessarar 250.000 gesta kaupstefnu að fara aftur. Sýningar á íslenzka hestinum skara ekki lengur fram úr og eru hættar að valda almennri hrifningu umfram sýningar á kostum annarra hestakynja. Því valda einkum erfiður fjárhagur þeirra, sem sjá um sýningarnar, og þröngar skorður, sem ráðamenn kaupstefnunnar hafa sett höfuðsýningunni á kvöldin.

Í viðtali Eiðfaxa við Hans Joachim Erbel, forstjóra Equitana, lofaði hann ítrekað, að næst yrði gert kleift að leggja áherzlu á sérstaka kosti íslenzka hestakynsins í höfuðsýningunni á kvöldin. Þetta ætti að vera aðstandendum íslenzka hestsins hvatning til að setja saman glæsilega sýningu, sem fær gesti til að standa upp og klappa.

Þáttur íslenzkra hesta á kaupstefnunni var að þessu sinni borinn uppi af þrenns konar aðilum. Í fyrsta lagi voru það Íshestar og nokkur önnur hestaferðafyrirtæki, í öðru lagi voru það Saga reiðskólarnir þýzku og nokkrar þýzkar Íslandshestajarðir. Í þriðja lagi voru það vörumerkin Top Reiter og Quick Shop.

Það er dýrt í básaleigu og mannahaldi að taka þátt í Equitana. Nokkurra þreytumerkja gætti hjá sumum, sem voru þar með Íslandshestabása, jafnt Þjóðverjum sem Íslendingum. Sumir sögðu, að íslenzki þátturinn héldi sjó, en aðrir töldu hópinn vera á hægu undanhaldi. Það bætir úr skák, að næst er líklegt, að nýja Landsmótsfélagið verði sýnilegt á kaupstefnunni.

Eldhestar eru stór hestaferðaskrifstofa, sem ekki er með. Félag hrossabænda er ekki með og ekki heldur Bændasamtökin eða Landbúnaðarráðuneytið. Við sjáum í viðtölum Eiðfaxa ýmsar og ástæður efasemda slíkra aðila. Að mestu er þó eitt atriði, sem mestu máli skiptir: Það vantar sterka kjölfestu í hópinn.

Auðvelt er að rökstyðja, að Félag hrossabænda eigi með aðstoð sjóða og styrktaraðila að vera með bás á sýningunni, þar sem lögð verði áherzla á tvö atriði. Röksemdir fyrir þessum tveimur atriðum koma fram í viðtölum Eiðfaxa. Annars vegar þarf gagnsókn í exemsmálinu og hins vegar áherzlu á sérstöðu Íslandsfædda hestsins umfram íslenzka hesta, sem fæddir eru erlendis.

Fleiri en Hamlet standa andspænis spurningunni um að vera eða vera ekki. Af öllum svörum er svar Hamlets verst -að vera hvorugt. Velunnarar íslenzka hestsins þurfa að hittast og meta stöðuna. Eiga menn að vera á þeim vettvangi, þar sem baráttan stendur milli hestakynja heimsins eða eiga menn bara að vera á vettvangi hinna sannfærðu, heimsleikum íslenzka hestsins? Menn þurfa að ákveða, hvort þeir vilja vera eða vera ekki.

Equitana er mikil freisting. Þar er mannhaf 250.000 gesta á meira en tíu hektörum, þar sem eru 800 sölubásar frá 20 löndum og samhliða hestasýningar á mörgum stöðum, meðal annars á töltbraut í sýningarsal Íslendinga. Equitana er gluggi fyrir Ísland sem ferðaland, sem upprunaland gæðinga, sem upprunaland sérstæðrar vöru og þjónustu. En jafnframt er þetta dýr freisting.

Hægfara andlát aðildar er verst. Betra er að velja aðra hvora leiðina. Annað hvort að hætta þátttöku og nota peningana betur á annan hátt. Eða endurreisa aðildina á þann hátt, að eftir verði tekið í alþjóðaheimi hestamennskunnar.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi júní 2003

Raflost og pípuhlið

Hestar

Kristjana Samper:

Alltaf þarf að vera viðbúin hættulegum stundum. Einu sinni vorum við að fara yfir Köldukvísl við Hágöngur í vexti, þegar allir lausu hestarnir okkar sneru við í miðri á og fóru niður eftir henni. Óráðlegt var að elta þá í straumþungri ánni, svo að ég (Kristjana) kallaði og kallaði til þess fremsta með nafni og á endanum hlustaði hann, sneri við og kom á eftir hópnum. Við svona aðstæður þarf að vera vant fólk á öllum póstum, í forreið og eftirreið.

Á ferð í Laxárdal í Þingeyjarsýslu setti ég (Kristjana) hausinn í rafmagnsgirðingu. Við höfðum skilið við Baltasar veikan eftir í vegkantinum, ég var búin að vera með hausverk og við vorum að koma upp rafmagnsgirðingu á opnu svæði. Ég var þá með sítt hár, sett upp í hnút, sem var festur með málmspennu.

Rafmagnið var komið á og ég var að skríða undir girðinguna, þegar ég festi spennuna í vírnum. Ég varð að hanga í henni meðan ég var að vekja athygli á vandræðum mínum. Þá fékk ég að kynnast rafstraumi, því ég fékk hvert höggið á fætur öðru, áður en menn tóku eftir þessu og slökktu á stöðinni. Þegar ég stóð svo upp, fann ég að hausverkurinn var horfinn. Ég veit ekki, hvort þetta er algild hrossalækning við slíkum verk.

Fyrir tveimur árum vorum við hluta úr leið í samfloti með heimahestum, sem höfðu vanið sig á að fara yfir pípuhlið. Þeir gerðu það og helzti gæðingurinn hans Baltasars stökk á eftir þeim. Samt var maður með písk á grindinni.

Hesturinn festist í grindinni, en gat sem betur kraflað sig upp. Hann slasaðist ekki alvarlega, en húðin á öðrum afturfætinum lafði niður eins og sokkur. Þá kom sér vel að hafa hestakerru undir trússinu. Við losuðum hana í hvelli og komum hestinum til Akureyrar, þegar dýralæknir var búinn að gera að honum. Þar var hann svo í gæzlu hjá lækninum, þangað til ferðinni lauk.

Það hefur áður komið fyrir hjá okkur, að heimahestar hafa farið yfir pípur, þótt ekki færi neinn á eftir þeim í það skiptið. Þessar pípur eru stórhættulegar og í mörgum tilvikum óþarfar, hálffullar af sandi og möl. Oft er líka svo, að við þurfum að fara um þröng hlið, sem eru fast við pípurnar, svo að fyrirstaðan á þeim getur verið erfið. Það liggur við, að setja þurfi band á pípuhlið, hvenær sem maður kemur að þeim.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 6.tbl. 2003