Hestar

Vöð

Hestar

Sandbleytur í jökulám

Hjalti Gunnarsson:

Mikla aðgát þarf á vöðum jökulfljóta, einkum út af sandbleytum, til dæmis í Ströngukvísl. Ég reyni að sjá af straumfallinu, hvar eru lygnur, sem beri að forðast vegna sandbleytu, og hvar er skrúfustraumur, þar sem búast má við djúpum ál. Ég reyni að finna stað með jöfnum straumi, helzt á broti. Fyrst þarf einn að kanna vaðið, áður en flotinn leggur í ána. Oft leita lausu hrossin neðar og neðar, svo að eftirreiðin fer of neðarlega, ef hún hefur ekki lagt vaðið á minnið.

Hesturinn fái að ráða

Ólafur B. Schram:

Einu sinni gerði ég þau mistök að taka ráð af hesti, sem vildi ekki út í jökulá. Ég hélt að þetta væri þvermóðska, en greyið sökk bara í sandbleytu. Ég fór af baki og áin náði mér í herðar, en við komumst báðir að landi sinn í hvoru lagi. Það borgar sig alltaf að taka mark á því, sem hestar vilja eða vilja ekki gera.
Þegar ég fer yfir ár, reyni ég að fara upp strauminn og hef auga með, hvar landtaka sé sæmileg hinum megin. Ég lærði að fara vöð, þegar ég var í sveit í Öræfunum. Þá vorum við alltaf að sullast í óbrúuðum jökulkvíslum.

Notið leiðsögumann

Andreas Bergmann:

Á ókunnugum slóðum er rosalega mikilvægt að hafa þaulkunnugan mann með í ferð. Slíkt ætti að koma í veg fyrir að fólk villist og á að auðvelda því að finna heppileg vöð, til dæmis yfir jökulár, sem eru sífellt að breyta sér. Stundum verður fólk frá að hverfa í vatnavöxtum, af því að enginn í hópnum þekkir rétta staðinn til að fara yfir við þær aðstæður. Það er til dæmis algengt, að hópar hafa ekki komizt inn í Arnarfell, af því að farartálmar á borð við Miklukvísl geta stækkað í augum þeirra, sem ekki þekkja til. Það eru auðvitað mikil vonbrigði að ná ekki takmarkinu. Þess vegna borgar sig ekki að spara í leiðsögninni.

Nautavað er alltaf eins

Árni Ísleifsson:

Nautavað í Þjórsá er alltaf eins, ein helzta samgönguæð Suðurlands frá fornu fari. Það er breitt og með góðum botni, nema vestast, þar sem það er dálítið grýtt. Vöð á afréttum, til dæmi undir Hofsjökli, eru allt öðru vísi, breytileg og viðsjál. Bezt er að fara þau á broti. Ef eyrar eru milli kvísla, er venjulega heppilegast að halda sig við vatnið og fara aldrei upp í eyrarnar sjálfar, því að þar er sandbleytan, einkum í eyraroddum.

Í Háumýrum lenti ég í því, að reksturinn fór á bólakaf í sandbleytu upp í eyrarodda í Blautukvísl. Þeir ruddust hver á annan og yfir hver annan. Það var ljótt að sjá. Við sáum fljótlega, að sum höfðu rifið undan sér í látunum. Þar sem við áttum ekki nógu margar skeifur í vösunum og þar sem landið var mjúkt á leiðinni í náttstað, ákváðum við að láta slag standa. Þetta fór allt vel að lokum, en við þurftum að járna níu hesta um morguninn.

Ég sat einu sinni hest, sem lenti í sandbleytu. Ég stökk af baki og hesturinn brauzt um fyrst, en gafst síðan upp. Ég beið eftir að hann jafnaði sig. Þegar hann ætlaði að fara brjótast um aftur, gaf ég honum duglegt drag á réttu augnabliki. Ef hesti bregður nógu mikið, tekur hann á öllu sínu og svo var í þessu tilviki. Hann hafði sig á þurrt. Ég held, að það setjist eitthvað að undir hófunum, ef hesturinn bíður aðeins í sandbleytunni, svo að hann fær dálitla spyrnu, þegar hann reynir aftur að komast upp.

Tunguvað hefur færzt ofar

Jón Hermannsson:

Grámelur er hár sandbakki í Tungulandi og liðast Hvítá þar með. Ofar hans eru Kópsvatnseyrar allt til Hvítárgljúfurs og erum við þá komin á besta vað Hvítár og fjölfarnasta gegnum tíðina. Fyrr á öldum var farið litlu ofar Grámels og þá beint í Tungu og eru gamlar götur nefndar Flosatraðir beggja megin árinnar. Ekki þarf mikið hugarflug til að tengja þær liðsbónar Flosa á Svínafelli, víða er sagan nálæg. Eins og nafnið Kópsvatnseyrar ber um, rennur áin í mörgum kvíslum og breytist því vaðið stundum eftir vetrarflóð. Talið er að Tunguvaðið eða Grámelsvað hafi orðið óreitt um 1920 og þá eftir alltaf farið nokkru ofar og er svo enn. Geta má þess að Guðmundur Erlendsson í Skipholti fór með heybandslest yfir á Kópsvatnseyrum og blotnaði lítið heyið ef nóg var þurrkað. Þá heyjaði hann í Pollengi, sem er í tungunni milli Hvítár og Tungufljóts.

Á þarf að ríða á broti

Bjarni E. Sigurðsson:

Ár þarf að ríða á broti. Sandurinn er fastur á brotinu sjálfu. Ef maður fer ofarlega, getur þar verið lausari sandur og jafnvel sandbleytur. Maður reynir að halda hestinum upp í strauminn, svo hann hrekist ekki niður af brotinu, heldur haldi sér á því. Oft er það þröngur vegur til að sleppa þurr yfir á góðu vaði.

Sem strákur í Hornafirði lærði ég fljótt á vöðin með því að fylgjast með, hvernig kýrnar lásu sig yfir þau á brotinu. Í fyrstu ferð minni þvert yfir Skagafjörð kom ég að Héraðsvötnum úr austri, bað ekki um neina aðstoð, heldur tók þau á broti. Þegar ég kom yfir, sá ég til argandi og gargandi manna, sem komu ríðandi af næsta bæ fyrir vestan. Á sama tíma hlupu tveir menn með sömu látum á harðaspretti niður túnið austan vaðsins. Það var bara ekki vaninn, að ókunnugir menn færu þarna yfir. En þetta var létt leið, bara með því að lesa á landið.

Mestu hættuna sá ég inni í Þórsmörk. Við fórum yfir vatnsmikla straumá, þar sem sænsk kona féll í ána. Hún barst niður ána í hröðum straumi í kulda og grjóti. Þorsteinn Hjartarson skólastjóri var í eftirreið, sérstaklega snarráður, reið í loftkostum niður með ánni, 30-40 metra niður fyrir konuna, stökk af baki, óð út í og greip konuna, sem hafði þá verið 30-50 sekúndur í vatninu.

Hann öskraði á fólk að láta sig hafa varaklæðnað. Konan var klædd í hendingskasti úr fötunum og klædd jafnhraðan aftur í skyrtu af einum, buxur af öðrum, peysu af þeim þriðja og svo framvegis. Þetta gerðist allt á 2-3 mínútum, svo að hún náði ekki að kólna og allt fór vel að lokum. En ég ráðlegg engum að ríða öflug straumvötn af þessu tagi, þar sem ekkert má út af bera. Það er allt annað að detta af baki í rólega bergvatnsá.

Fara í efri kantinum

Valdimar K. Jónsson:

Snemma lærði ég að umgangast vöð, því að ég ólst upp í Skaftafellssýslum. Aðalatriðið er að hafa vaðið fyrir neðan sig eins og máltækið segir, missa hestinn ekki undan straumi yfir í brotin, fara heldur í efri kantinum út í ána. Segja má, að reglurnar séu svipaðar og þær, sem við notum, þegar við förum vöð á bíl, en hestar hafa þó tilhneigingu til að víkja undan straumi og missa þannig vaðið. Ef mikið er í, má ekki vaða beint yfir, heldur kanna vaðið fyrst og gefa sér tíma til að finna réttu leiðina. Þá þarf bæði að gæta að grýttum botni og hugsanlegum sandbleytum.

Einu sinni lenti ég við annan mann í lúmskri sandbleytu í Múlakvísl. Ég hefði átt að snúa við, en hélt, að þetta væri örstutt og braust áfram. Bleytan versnaði hins vegar og að lokum stóðum við fastir. Við gátum varað ferðafélaga okkar við, fórum af baki og hestarnir brutust um. Með hvatningu gátum við látið þá berjast áfram með hvíldum á milli. Ég var orðinn skelkaður, en að lokum komumst við yfir bleytuna og þá var ég feginn. Það er af svona reynslu, sem maður lærir.

Annað sinn vorum við átta saman á leið um Emstrur frá Þórsmörk til Hvanngils. Emstruá var ekki árennileg, svo að við fórum upp með henni, þangað til við komum að vaði fjallabíla. Þar kannaði ég vaðið á gráum vatnahesti traustum, sem ég notaði mikið við erfiðar aðstæður. Ég bað fólk að fara varlega í halarófu og halda vaðinu með því að beita hestinum í strauminn. Þá er mikilvægt að hafa augu á föstum kennileitum í landi, en horfa ekki mikið í vatnið, því að það truflar jafnvægisskynið. Kunningi minni fór næstum flatt á þessu og hélt ekki vaðinu. Ég var orðinn hræddur um hann, en þá stanzaði hann, áttaði sig og breytti stefnunni og lét feta í land.

Í sumar varð ég eitt andartak hræddur um ferðafélaga minn á sandinum undan austurjaðri Mýrdalsjökuls í einni Þverkvíslanna. Ég hafði valið vað og sneri við til að fylgjast með hópnum fara yfir. Einn af þeim síðustu fór ekki í spor hinna, heldur neðar. Það skipti engum togum, að maður og hestur fóru á bólakaf í jökulvatnið, svo að eitt andartak sást hvorki tangur né tetur. Báðir komu þó í ljós aftur og bröltu á land. Reiðmaðurinn þurfti síðan að ríða rennblautur í hryssingi nærri dagleið um Hafursey í Kerlingadal, en bar sig þó vel, þegar yrt var á hann.

Vanir vatnahestar
hafa vit fyrir manni

Einar Bollason:

Á vöðum verða menn að gæta þess að ríða ekki út í lygnur, þar sem sandbleyta kann að vera undir. Menn ríða yfirleitt á broti. Séu vöð breytileg, er mikilvægt, að vanur maður á vönum vatnahesti taki að sér að leita að vaði og velja það, meðan hinir bíða. Þetta getur þýtt, að vaðmaðurinn þurfi að skipta um hest til að geta verið á hesti, sem hefur vit á að stanza, ef hann finnur, að leiðin er ófær. Mikilvægt er að sá, sem fer næstur á eftir vaðmanni, stimpli nákvæmlega inn, hvernig vaðið liggur. Síðan þarf hver maður í lestinni að gæta þess að beita hestinum aðeins upp í strauminn, eftir því hvað hann er hraður. Að lokum verður fólk að gleyma áhyggjum af að vökna, meira máli skiptir að, það sé ekki valt á hestinum.

Vanir vatnahestar geta haft vit fyrir mönnum. Einu sinni vorum við Jón í Eyvindarmúla á leið austur að Hunkubökkum með hópi fólks. Við tveir fórum að kanna vað yfir eina af kvíslum Skaftár, þegar við komum að henni í hlaupi. Jón var á Hrímni sínum og ég á Punkti, hvort tveggja öflugir vatnahestar. Þegar við vorum komnir út í miðjan ál, stönzuðu klárarnir skyndilega. Við hvöttum þá áfram, en þér létu sér ekki segjast. Við Jón ákváðum að láta hestana hafa vit fyrir okkur og snérum því við. Kusum heldur að taka 40 kílómetra krók niður á brú. Oft er krókur betri en kelda.

Ég man eftir að hafa komið að Svörtukvísl í miklum leysingum. Ég fór að kanna vaðið á Fífli, fremur örum klár, sem ekki er neinn sérstakur vatnahestur. Vatnið náði á miðjar síður, hesturinn hrasaði og ætlaði að brjótast yfir með látum. Við það valt hann í ánni og ég lenti undir honum. Báðir svömluðum við í land, ég ekki fyrr en straumurinn hafði velt mér þrisvar um koll. Ég reyndist hafa öklabrotnað þegar ég lenti undir hestinum, sem byltist um. Eftir þetta atvik er ég alltaf með hnút í maganum, þegar ég fer yfir erfiða jökulá. Áður hugsaði ég ekki um hættuna af slíkum ám, en hef farið gætilegar síðan. Það gerir minna til að falla af baki á stöðum eins og Löngufjörum, þar sem er lítill straumur.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 5.tbl. 2003

Íslandssagan er við hvert hófmál

Hestar

Jón Þorsteinsson læknir:

Íslandshandbókin er nærtækasta lesning þeirra, sem vilja kynna sér söguna og landið áður en þeir fara í hestaferðir. Þar er landinu skipt niður í sýslur og örnefnum sýslunnar raðað í stafrófsröð. Sagt er frá hverju örnefni í stuttri klausu, þar sem stiklað er á stóru.

Herforingjaráðskortin má einnig telja skyldulesningu. Þar eru sýndar hefðbundnar reiðleiðir og örnefni, sem tengjast þeim. Ég get ekki hugsað mér að fara í hestaferð á annan hátt en að hafa slík kort af leiðinni meðferðis.

Sumar árbækur Ferðafélagsins eru ágætar heimildir fyrir hestamenn á ferðalögum. Þær yngri eru ítarlegri, en hins vegar ekki samdar af mönnum, sem fóru um landið á hestbaki. Sjónarhorn höfundar eldri bókanna er hins vegar yfirleitt hestamannsins.

Ferðabækur Þorvaldar Thoroddsen frá árunum 1882-1898 og Sveins Pálssonar frá 1791-1797 eru afar mikilvægar heimildir um reiðleiðir og örnefni á reiðleiðum. Sömu ættar eru Sóknarlýsingar frá miðri 19. öld, sem Jónas Hallgrímsson bað presta landsins um að setja saman. Í þeim er fjallað um örnefni og leiðir innan sókna, en síður um leiðir milli sókna og héraða, sem fjallað er um í ferðabókunum.

Ein ferðabók önnur er líka góð heimild, Íslandsferð eftir Konrad Maurer frá 1858, þar sem er til dæmis mikilvægur kafli um Sprengisand. Sú bók var gefin út á íslenzku hjá Ferðafélagi Íslands árið 1999.

Landnáma er merkileg heimild um örnefni og hestaferðir, sérstaklega um Kjöl. Þar er fjallað um Flugu, hryssuna góðu, og sagt frá ferðum þræla úr Skagafirði suður á Kjöl.

Njála er full af hestaferðasögum. Þar er til dæmis lýst ferð Flosa og brennumanna frá Svínafelli í Öræfum til Bergþórshvols í Landeyjum. Af þeirri frásögn má ráða, að Mýrdalsjökull hafi verið minni en nú, því að Flosi komst af Mælisfellssandi niður í Goðaland.

Af fornritunum er hestamanninum mestur fengur í Sturlungu. Hún er skrifuð af mönnum, sem tóku þátt í langferðunum, sem lýst er sumum hverjum mjög nákvæmlega, meðal annars yfir Kjöl og Tvídægru. Þar eru frækilegar ferðasögur, svo sem vetrarferð Þórðar kakala frá Þingvelli vestur í Breiðafjörð og ferð Kolbeins unga sama daga úr Miðfirði yfir Tvídægru vestur í Hvítársíðu og síðan á eftir Þórði vestur Mýrar. Á leið sinni frá Þingvelli til Helgafells riðu menn Þórðar einhesta um 200 kílómetra leið á rúmlega 30 klukkustundum, enda var um líf og dauða að tefla.

Mér finnst athyglisvert af frásögnum Njálu og Sturlungu, að fornmenn fóru miklu beinna en við gerum nú. Þeir styttu sér leið í stað þess að velja þægilegar slóðir. Þeir létu sér ekki bregða við að sundríða ár til að spara sér króka á vöð. Oft riðu þeir hreinlega sem mest beint af augum.

Það er líka ljóst, að þeir voru harðgerðari ferðamenn en við erum nú á tímum og hestar þeirra í betri þjálfun. Söguhetjurnar riðu hiklaust um 100 kílómetra á dag, oft einhesta. Þeir sváfu ekki heilu næturnar, en köstuðu sér niður til að sofa smástund í senn. Þeir voru blautir og hraktir af rigningum og vatnareið, en létu það ekki aftra för sinni, enda hafa þeir verið í efnismiklum vaðmálsfötum. Höfðingjar þess tíma hafa verið vanir vosbúð og fundist hún vera eðlilegur þáttur á sífelldum ferðalögum þeirra.

Þeir voru mjög fljótir að koma sér af stað. Þegar Kolbeinn ungi fréttir af ferðum Þórðar kakala með 200 manns í Skálholt, þar sem hann kúgar Sunnlendinga til hlýðni, safnar Kolbeinn í skyndingu fjölmennu liði um allt Norðurland, allt austur í Þingeyjarsýslur. Hann fer síðan með rúmlega 700 manns um hávetur í stórhríð og hrakningum um Tvídægru á einum sólarhring til að reyna að hafa hendur í hári Þórðar.

Sá, sem hefur lesið fornsögur, þjóðsögur og ferðabækur frá svæðum þeim, sem farið er um í hestaferðum, fær miklu dýpri innsýn í landið og fær miklu meira út úr ferðinni en hinir, sem láta sig söguna og landið minna varða. Sérhver dagleið hestaferðamanns er full af sagnfræði, landafræði og þjóðsögum. Íslandssagan er við hvert hófmál.

Jónas Kristjánsson skráði

Kolbeinn ungi
veitir Þórði
kakala eftirför

“Er þeir fóru upp úr Gnúpsdal lét Kolbeinn ungi telja lið sitt og var vel sex hundruð manna.”

“Er á leið daginn tók að frysta. Hljóp þá veðrið í norður. Gerðist þá hríð svo grimm sakir myrkurs og frosts að sjaldan verða þvílíkar. Leið eigi langt áður þeir vissu eigi hvar þeir fóru. Dróst þá liðið mjög af kulda. Bað Kolbeinn menn þá stíga af baki og taki menn glímur stórar og viti ef mönnum hitnar við það.”

“Tók þá heldur að birta veðrið. Kenndust þeir þá við að þeir voru komnir á vatn það er Hólmavatn heitir. Hóf þá hver annan á bak. Fóru þeir þá þar til er þeir komu á Gilsbakka nokkru fyrir dag.”

“En er Þórður kakali kom ofan í Reykjardal að Englandi þá kom í móti honum Þórður Bjarnason og segir honum að Kolbeinn var norðan kominn með fjölmenni.”

“Reið þá Þórður ofan eftir dal og ætlaði yfir um á að Gufuskálum og svo vestur Langavatnsdal. En er hann kom ofan á Völlu þá var sagt að eigi var hrossís yfir ána. Sneri þá flokkurinn allur upp til Grafarvaðs.”

“Reið Börkur þá með Þórði upp til Grafarvaðs. En er hann sneri ofan aftur heyrði hann til hvorstveggja flokksins, Þórðar og Kolbeins.”

“Þórður reið út á Mýrar með allan flokkinn og var allill færð.”

“Kolbeinn reið nú í Stafaholt. Þar fengu þeir sanna njósn af um ferðir Þórðar og riðu þá eftir sem ákafast.”

“Höfðu þeir Kolbeinn þá skeiðreitt eftir stígnum.”

“Tók þá og svo að batna færðin að þá var allt skeiðreitt. Þórður bað þá menn fara í kirkju er þrotna höfðu hesta.”

“Brú var á Álftá og var þar seinfært yfir.”

“Þegar Þórður var burt riðinn úr Álftártungu þá koma þegar flokkurinn Kolbeins.”

“Síðan tóku þeir eftirreið sem ákafast. En er þeir komu að Álftá varð þeim eigi þar greiðfært yfir því að Þórður hafði látið af draga brúna.”

“Bar þá enn undan. Kolbeins menn tóku þá drjúgum menn af Þórði er hestana þraut.”

“En er Þórður leið út á vaðlana þá sáu þeir Kolbeins menn að undan mundi bera og hurfu þá aftur.”

“Þótti þá öllum mikil furða og varla dæmi til finnast að menn hefðu riðið hinum sömu hestum í einni reið af Þingvelli og til Helgafells í svo miklum ófærðum sem þá voru. Þórður reið fimmtadag um hádegi af Þingvelli en kom til Helgafells föstunóttina er stjarna var í austri.”

“Reið Svarthöfði undan sem ákafast en þeir eftir og kvíuðu hann fram á hamri nokkrum. Hann hratt þar fram af hestinum og hljóp þar sjálfur eftir. Það var hár hamar en hvorki sakaði hann né hestinn því að mikill lausasnjór var borinn undir hamarinn. En engi þeirra vildi þar eftir fara.”

(Úr Þórðar sögu kakala)

Eiðfaxi 5.tbl. 2003

Tveggja ára sögusetur

Hestar

Sögusetur íslenska hestsins var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001. Að setrinu standa: Hestamiðstöð Íslands, Hólaskóli og Byggðasafn Skagfirðinga. Því er ætlað að verða alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um sögu íslenska hestsins, svo sem uppruna, þróun, eiginleika, notkun og samfélagsleg áhrif, frá landnámi til nútíma. Verkefni Sögusetursins eru margþætt:

Sögusetrið mun búa til og vista gagnagrunn um minjar og aðrar heimildir og upplýsingar er varða íslenska hestinn og gera þær aðgengilegar. Sögusetrinu er ætlað að taka við og vista muni og aðrar heimildir í samráðið við aðrar stofnanir. Þegar hafa verið gerðir samningar þar að lútandi við Bændasamtök Íslands og helstu hagsmunasamtök hestamanna og hrossaræktenda hér á landi, það er Landssamband Hestamannafélaga, Félag Tamningamanna og Félag Hrossabænda.

Sögusetur íslenska hestsins mun vinna að rannsóknum og athugunum á sögu hestsins. Það mun standa fyrir lifandi þemasýningum og sögulegum yfirlitssýningum sem varpa ljósi á sögu og notkun íslenska hestsins, innan lands og utan, eftir því sem tilefni gefst. Það mun standa fyrir málþingum og fyrirlestrum er varða sögu hestsins, halda úti heimasíðu og gefa út fræðsluefni eftir því sem tilefni er til.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 5.tbl. 2003

Háir í tölti

Hestar

Kynbótamat fyrir tölt er óvenjulega hátt á öllum þessum hestum miðað við þann tíma, þegar þeir voru og eru uppi, þótt tölur gömlu hestanna þættu ekki háar í dag.

Orri frá Þúfu 135

Þokki frá Garði 124

Piltur frá Sperðli 120

Hrafn frá Holtsmúla 119

Adam frá Meðalfelli 118

Kolfinnur frá Kjarnholtum 118

Otur frá Sauðárkróki 115

Ófeigur frá Flugumýri 113

Þáttur frá Kirkjubæ 110

Sörli frá Sauðárkróki 109

Hervar frá Sauðárkróki 109

Nökkvi frá Hólmi 107

Kjarval frá Sauðárkróki 106

Blakkur frá Hofstöðum 105

Forfeður tölthestanna

Taflan sýnir þekktustu stóðhesta hvers tíma og hversu vel þeir hafa arfleitt eftirkomandi kynslóðir af tölti. Aðeins eru teknir með hestar sem eru með yfir 50 dæmd afkvæmi og sýnir annar dálkurinn fjölda dæmdra afkvæma. Þriðji dálkurinn sýnir hlutdeild hestsins í nútímanum eins og hún kom fram í Landsmóti 2002. Hægra megin er sýnt kynbótamat fyrir tölt og hægatölt. Vegna framfara í hrossarækt á liðinni öld eru kynbótatölur neðanskráðra hrossa mjög háar fyrir þau tímabil, þegar þeir voru uppi, þótt þetta þættu ekki háar tölur í ræktuninni í dag.

Árabil Fjöldi R>0 RR>0 Númer Forfaðir Tölt Hægt tölt A.eink

1910-1920

222 5,39 1916158550 Sörli 71 Svaðastöðum 101 93 100

1921-1930

222 6,23 1924158550 Léttir 137 Svaðastöðum 102 95 103

110 3,39 1922157999 Sörli 114 Nautabúi 100 92 98

102 3,29 1922157934 Hörður 112 Kolkuósi 99 92 99

1931-1940

220 4,95 1933158228 Blakkur 169 Hofsstöðum 105 98 106

218 3,57 1937177180 Skuggi 201 Bjarnanesi 89 93 88

212 5,63 1932158550 Sörli 168 Svaðastöðum 100 91 102

1941-1950

218 5,02 1941177415 Nökkvi 260 Hólmi 107 99 104

124 7,38 1947158568 Randver 358 Svaðastöðum 98 89 100

102 5,46 1946158585 Léttir Kolkuósi 101 95 102

1951-1960

72 6,97 1957158589 Hörður 591 Kolkuósi 101 95 102

67 6,47 1960177160 Hrafn 583 Árnanesi 92 81 89

1961-1970

191 15,16 1968157460 Hrafn frá Holtsmúla 119 106 118

168 12,05 1964157001 Sörli frá Sauðárkróki 109 100 104

123 7,44 1962186101 Hylur frá Kirkjubæ 97 89 95

65 16,33 1967186102 Þáttur frá Kirkjubæ 110 103 111

1971-1980

98 21,15 1976157003 Hervar frá Sauðárkróki 109 99 113

65 28,03 1974158602 Ófeigur frá Flugumýri 113 112 116

1981-1990

54 27,13 1982151001 Otur frá Sauðárkróki 115 109

46 39,65 1986186055 Orri frá Þúfu 135 130 131

24 29,13 1981187020 Kolfinnur frá Kjarnholtum 118 98 119

21 32,38 1981157025 Kjarval frá Sauðárkróki 106 94 117

Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 5.tbl. 2003

Traust

Hestar

Margir nýliðar í hestamennsku innanlands kvarta um, að erfitt sé að fá traustar upplýsingar um eiginleika söluhrossa. Þeim finnst, að atvinnumenn séu í skjóli meiri þekkingar að koma gölluðum hrossum út, fremur en að selja nýliðum hross, sem henta þeim. Ennfremur sé verðlagið of hátt í ljósi gallanna. Er eitthvað hægt að gera til að efla traust manna í millum í viðskiptum með hross, sérstaklega þegar kaupandinn hefur takmarkaða þekkingu á málefninu?

Ólafur H. Einarsson:

Kaupandi sem hefur litla þekkingu þarf að geta leitað til ráðgjafa sem hann treystir. Atvinnumenn sem í skjóli þekkingar eru að koma út gölluðum hrossum eru jafnframt að skjóta sig í fótinn og verða ekki langlífir í “bransanum”.

Þórður Ólafsson:

En ég get tekið heilshugar undir það, bæði sem mína persónulegu reynslu svo og hvað ég hef horft upp á hjá mörgum félögum mínum, að því miður er það allt of algengt að ekki sé hægt að treysta seljanda hests með þá lýsingu sem hann gefur af hestinum miðað við þann raunveruleika sem blasir við eftir að kaupin hafa farið fram.

Ég er ekki með neina patent lausn á þessu meðan salan fer fram a´öðrum hvorum bæ landsins og út úr öðru hvoru eða jafnvel hverju hesthúsi landsins.
En ég held að sölusýningar þar sem einhverjir matsmenn og þá jafnvel að lágmarki þrír, væru látnir prófa hestinn gefa honum lýsingu og byggja upp skala fyrir þau atriði sem skipta máli og gefa einkunn fyrir hvert þeirra ásamt dýralæknisskoðun væri eitthvað sem hægt væri að byggja upp til framtíðar.

Einhverjir svona “testarar” væri í hverjum landsfjórðungi og seljendur kæmum sínum söluhestum til þeirra og útskrift ásamt mynd og ásamt verðbili færi inn a´ eitthvert sölutorg a´netinu. Hugsanlega allt eitthvað sem yrði erfitt í reynd annars staðar en í þéttbýlinu en ekki væri vitlaust að byrja þar.
Þetta eru svona fyrstu viðbrögð en augljóslega þarf eitthvað að gera til að traust myndist milli seljenda og kaupenda því dag er þetta þannig að kaupandinn er nálum um að verða ekki plataður og seljandinn telur sig oft vera með mun betri vöru en hann fær viðbrögð við hjá kaupanda.

Friðrik Pálson framkvæmdastjóri:

Margt kemur í hugann við þessa spurningu. Almennt er það þannig í viðskiptum, að seljandi leggur sig fram um að tryggja að kaupandi fái það sem hann telur sig vera að kaupa, bæði vegna þess að flestir eru heiðarlegir í eðli sínu og jafnframt af þeim eigingjörnu ástæðum, að flestir reikna með því að fyrstu viðskipti leiði til meiri viðskipta síðar og þá skiptir máli að viðskiptavinurinn sé ánægður.

Fyrr á árum var talsvert um það, að einhvers konar opinberar eftirlitsstofnanir legðu mat á gæði vöru og þjónustu og átti það að vera til öryggis fyrir kaupandann. Margir gallar fylgdu þessari aðferð, m.a. að seljandanum fannst hann verða leystur undan ábyrgð sér gæðamatið og með því móti varð ábyrgð hans sem seljanda óljósari og eftir atvikum erfiðara fyrir kaupandann að sækja rétt sinn, ef á þurfti að halda. Þetta fyrirkomulag hefur verið á hröðu undanhaldi.

Það á við í öllum viðskiptum, að hafi kaupandi takmarkaða þekkingu á þeirri vöru eða þeirri þjónustu, sem hann er að kaupa, þá verður hann annað hvort að reiða sig á heiðarleika seljandans eða leita til hlutlauss kunnáttumanns til að skoða fyrir sig gripinn. Hvað gera menn unnvörpum í bílaviðskiptum, fasteignaviðskiptum og mörgum öðrum viðskiptum?

Í hnotskurn finnst mér að svarið við spurningu þinni um hrossakaup því vera þetta:

Það eflir því aðeins traust kaupenda á seljanda hesta að hann skapi sér það traust sjálfur. Það getur seljandi gert með ýmsum hætti.

Í fyrsta lagi getur hann lagt sig fram um að lýsing hans á viðkomandi hesti sé eins nákvæm og góð og kostur er.

Í öðru lagi leggur hann áherslu á að kaupandinn kynni sér hestinn vel, prófi hann fyrst nokkrum sinnum í viðurvist seljanda eða fulltrúa hans og fái hann síðan lánaðan um nokkurra daga skeið til frekari reynslu, eins og algengt er.
Í þriðja lagi hefur seljandi þá vinnureglu, að komi í ljós síðar, að hesturinn og knapinn ná ekki saman, sem ekki þarf endilega alltaf að vera hestinum að kenna, þá taki hann hestinn til baka og hafi þá rétt á því að útvega annan hest, en ekki endilega að kaupin gangi til baka.

Í fjórða lagi fylgir góður seljandi hestinum eftir, með því t.d. að hringja kerfisbundið 2svar til 3svar á næstu mánuðum til að spyrjast fyrir, hvort allt sé ekki í lagi. Ekki aðeins skapar þetta mikið traust kaupandans á seljandanum, heldur gefur það seljandanum tækifæri til að nefna að hann hafi fleiri góða hesta til sölu.

Í fimmta lagi skiptir auðvitað máli, að seljandi geri kaupanda grein fyrir því, hvers vegna hann telur þennan tiltekna hest vera þessara peninga virði, sem upp er sett. Þar má nefna ætterni og útlit, en það sem skiptir óvanann kaupanda mestu máli er geðslag hestsins, hve hreingengur hann er og hversu mikið hann er gerður. Óvanir hestamenn þurfa ekki aðeins á því að halda að allt þetta sé í lagi, heldur þarf hesturinn að vera þannig gerður, að knapinn eigi ekki auðvelt með að “skemma” hann.

Í sjötta lagi og með tilliti til þess sem að ofan er sagt, ráðlegg ég öllum, sem tök hafa á , að fara strax með nýjan hest á stutt námskeið til að læra á þennan tiltekna hest. Það er afar mikilvægt og verður seint ofmetið.

Mér er það vel ljóst, að þetta svar mitt er er ekki tæmandi, en að lokum vil ég aðeins undirstrika það, sem ég sagði hér í upphafi, að traust í viðskiptum skapast af reynslu og orðspori og engu öðru. Ég veit um og gæti nefnt nokkra hrossabændur, sem ég gæti sagt að viðhefðu nánast allt það, sem ég hér að ofan nefndi að góðan seljanda mætti prýða. Þeir hafa líka skapað sér það orð, að þeim sé treystandi og við þá sé gott að eiga viðskipti.

Ásgeir Margeirsson:

Ég er að vísu ekki reyndur maður í hrossaviðskiptum enda er hestamennskan algerlega áhugamál hjá mér, en ég hef þó náttúrulega eitthvað komið nálægt kaupum og sölu hrossa.

Þessi markaður er alveg “villtur”, villtur í þeim skilningi að þar gilda engar reglur, bara frumskógarlögmálin ef svo má segja. Og öll verðlagning er fullkomlega afstæð, hvað kaupanda finnst eðlilegt, hvað hann er til í að borga og hvað seljanda finnst eðlilegt eða nægjanlegt. Samanburður milli hesta er oft erfiður, því engir tveir eru eins. Sem kaupandi á markaði virðist gagnast best að vera nógu grófur í að bjóða lágt og jafnvel að “veifa seðlum framan í seljandann” eins og það er kallað.

Það sem mér finnst þó hafa gagnast mér best er að hafa fagmann sem ég treysti mér við hlið. Ég var sem áhugamaður hreinlega ragur við að feta mig áfram á þessari braut á sínum tíma.

Ég þekki vel dæmi um það sem þú ert að nefna og má jafnvel kalla óheiðarleika. Ég prófaði t.d. hesta fyrir borgarstjórann í Búdapest, þar á meðal einn sem reyndist hvumpinn og óöruggur þegar hann kom í nýtt umhverfi og annan sem reyndist ropari. Það hefur seljandi áreiðanlega vitað. Og þetta þrátt fyrir skýrar kröfur um hvernig hesti væri verið að leita að. Þú getur rétt ímyndað þér hvort ég leiti næst til þess sem sendi mér roparann!

Þarna kem ég að því sem er kjarni málsins að mínu mati. Seljendur hrossa (atvinnumenn) sem horfa til framtíðarviðskipta í faginu og byggja á trausti eru þeir sem ég vil versla við (og áreiðanlega margir fleiri) og ég tel að þeir nái lengra en braskarar og svikahrappar. Þeir sem horfa til skyndigróða og fagna því að plata menn til að kaupa eru ekki líklegir til að fá viðskiptavini sína aftur.

Eina sögu, raunverulegt nýlegt dæmi, þekkjum við hjónin af unglingsstúlku sem keypti hest sem að sögn seljanda átti að henta henni vel. Reyndin varð allt önnur og hesturinn hrekkti og henti henni af sér og var ómögulegur. Seljandinn neitaði að draga kaupin til baka þrátt fyrir að foreldrar stúlkunnar (sem ekki eru í hestamennsku) óskuðu eftir því og afleiðingin varð að stúlkan hætti í hestamennsku. Hver hagnaðist á þessum viðskiptum? Ég er viss um að hagur seljandans var ekki mikill þegar til lengdar lætur.

Ég geri ráð fyrir því að þú sért nokkuð sammála því sem ég hef hér sagt en ég er náttúrulega ekki kominn með lausn á málinu: Hvernig fáum við braskarana til að vinna faglega? Svar kaupandans er líklega helst það að versla ekki aftur við slíkan seljanda, en það leysir ekki allt málið.

Sú lausn sem mér finnst helst koma til greina er reynslutími, að það sé skilgreint að kaupandi fái að hafa hestinn hjá sér í 1-2 vikur og hafi skilarétt. Hann prófi hestinn á sínum stað, við sínar aðstæður og skilyrði og fái þannig mat á hann. Dæmin tvö um hestana sem ég skilaði úr prufu fyrir borgarstjórann komu bæði þannig til að ég var með hestana hjá mér og skilaði þeim eftir um viku dvöl. Hestinn sem ég svo keypti festi ég eftir að hafa haft hjá mér í 10 daga. Þetta var algjört lykilatriði.

Kaupandi á náttúrulega þann möguleika að fá þriðja aðila, vonandi hlutlausan, til að prófa fyrir sig hest. En ég tel að það verði best gert ef hesturinn er kominn til væntanlegs kaupanda og búinn að vera þar einhverja daga.

Mér finnst jafnvel stundum eins og hestasalar virði sjónarmið erlendra kaupenda betur, að þeir líti frekar á þá sem viðskiptavini sem koma aftur og aftur. En það sjónarmið á alveg jafnt við um innlenda kaupendur að mínu mati. Líkt og unnið er að því að koma á gæðastarfi í hrossarækt væri verðugt viðfangsefni að koma betra skikki á viðskipti með hesta og lyfta þessu á hærra plan. Verðmat manna á hestum er og verður alltaf afstætt, en svik eiga ekki að þekkjast.

Ef ég tek saman það sem máli skiptir úr þessar langloku minni sem svar við spurningu þinni segi ég: Reynslutími og óháður aðili til að prófa hestinn.

Vottunarstöð er
bezta lausnin

Helgi Leifur Sigmarsson:

Þegar menn lenda í vandræðum með hross, sem þeir hafa keypt, er ábyrgðinni alltaf skellt á seljandann, stundum réttilega og stundum ranglega. Ef hestur er hættulega hrekkjóttur, hefði ekki átt að selja hann. Ef hann dettur hins vegar úr fínu tölti niður í brokk eða lull, er það oftast vegna lélegrar eða óþroskaðrar reiðmennsku kaupandans, sem ríður við slakan taum.

Seljandinn verður að reikna út hest og kaupanda og átta sig á, hvort þeir eiga saman. Oft finnur seljandi ekki rétta hestinn, en langar óskaplega mikið til að koma á sölu og fer þá út á villigötur.

Það er fyrirhafnarsamara að selja hesta en áður var. Allir eru að passa sig á hrossapröngurum. Til þess að sala gangi eðlilega fyrir sig, þarf að hafa myndazt persónulegt traust milli manna. Þá er alltaf hægt að leysa málin. Ég reyni að forðast að selja hesta til fólks án þess að hafa kynnzt því og reiðmennsku þess.

Í Þýzkalandi eru komnar Evrópureglur, sem fela í sér tveggja ára ábyrgð seljanda á hrossum. Það þýðir, að kaupandi, sem hefur gert brokkara eða lullara úr góðum töltara, getur skilað hestinum. Þetta er ekki skynsamleg leið til að koma á trausti.

Ég tel bezt, að valinkunnir menn í Félagi tamningamanna, sem ekki eru í hrossasölu sjálfir, gætu tekið að sér einir sér eða á einhvers konar vottunarstofu, að taka út hesta, sem eru í sölu. Svona vottunarstofur eru farnar að tíðkast í ýmsum atvinnugreinum.

Með hálftíma prófun geta slíkir þriðju aðilar fundið út, hvert sé útlit hestsins, viðmót, hæfileikar og líkamsástand. Þeir gætu síðan fyllt út staðlað krossapróf, sem væri viðurkennt í bransanum og gefið út af einhverri ábyrgri stofnun. Í krossaprófinu lýsti skoðunarmaður hestinum. Þetta þyrfti ekki að kosta nema 2.000-3.000 krónur og er staðfesting á því, hvernig hesturinn er, þegar hann er seldur. Þetta ætti að draga úr eftirmálum.

Kallið til
ráðgjafa

Gunnar Arnarson:

Eftirmál í hrossasölum eru minni en áður og hrjá ekki greinina lengur. Kúvending hefur orðið á síðustu 5-10 árum. Ruslakistumarkaðurinn er að hverfa. Vandræðahestar sjást varla lengur, þótt alltaf komi upp stök dæmi.

Bezta leiðin fyrir óvant fólk er að finna sér ráðgjafa eða trúnaðarmann, sem hjálpar þeim við að kaupa hest. Flestir þreifa sig áfram og finna einhvern slíkan.

Skólarnir eru að útskrifa fullt af fagfólki, sem fer í Félag tamningamanna, og getur verið fólki til ráðgjafar. Mér finnst vel koma til greina, að félagið reyndi að gera slíka þjónustu sýnilegri, til dæmis með því að hafa lista af félagsmönnum, sem vilja veita slíka þjónustu og þá gegn skilgreindu og vægu gjaldi.

Sjálfur hef ég gert mikið af því að hjálpa fólki við að kaupa hesta af öðrum og veit, að sumir kollegar mínir hafa gert hið sama.

Heiðarlegur
kunningi

Pétur Behrens:

Það má skrifa langt mál um hrossasölu og hrossaprang, heiðarleika eða plat, dæmin eru eins mörg og ólík og hestarnir og nýju eigendur þeirra. Besta ráð, sem ég veit: Biðja reyndan, heiðarlegan kunningja um aðstoð. Reyna má að finna gallalítinn hest eða næstum gallalausan fyrir nýliðann. En ef nýliðinn lærir ekki að sitja hestinn skammlaust, fer samt ekki vel.

Kennsla sé
innifalin

Eysteinn Leifsson:

Enginn atvinnumaður reynir vísvitandi að selja gallaðan hest. Ef kaupandi er ekki öruggur með sig, er gott að fá fróðan þriðja aðila með sér til að líta á hestinn, alveg eins og maður fær fróðan mann með sér til að líta á notaðan bíl.

Það mundi efla traust í viðskiptum með hesta, ef skýrari upplýsingar lægju fyrir um hestinn, ættir hans, ferilskrá og fleira. Grunnskráning hesta er ekki nógu góð í mörgum tilvikum.

Í Félagi tamningamanna hafa menn rætt um, að tamdir hestar séu teknir út og metnir, hvað kunnáttu snertir, en málið hefur ekki komizt á framkvæmdastig.
Einn vandinn er sá, að smávægilegir gallar koma ekki fram hjá atvinnumanni.

Þegar lítt vanur eigandi tekur við hestinum, fara gallar að koma í ljós og ágerast. Ég held, að það væri til bóta, að hestar væru seldir aðeins dýrar og þá með inniföldum nokkrum kennslutímum.

Kennsla fylgi

Eyþór Einarsson:

Ég er alveg ósammála því að seljendur séu almennt að reyna að leyna göllum hrossa sinna. Enda hlýtur það að vera skammgóður vermir ef menn ætla að starfa í þessari grein og selja sama kúnnanum oftar en einu sinni hest. Ég gæti trúað að algengasta ástæðan fyrir því að nýliðinn telur sig hafa keypt köttinn í sekknum sé sú að hann býr ekki yfir nægilegri kunnáttu til þess að viðhalda gæðingskostum hestsins sem hann keypti. Viljugur og flottur töltari getur breytzt ótrúlega hratt í skeiðgengan og taumstífan jálk.

Því finnst mér nauðsynlegt fyrir nýliða í hestamennsku að leita sér fræðslu og hjálpar, sækja námskeið eða eða einkatíma hjá reiðkennurum. Allir sem ætla að byrja í hestum þurfa skilyrðislaust á kennslu að halda, reiðlistin er ekki bara einhver meðfæddur eiginleiki. Menn þurfa sífellt að vera sækja sér meiri fróðleik og tel ég það vera eðlilegan hlut fyrir alla knapa hvort sem þeir eru nýliðar eða atvinnumenn.

Ég held að það sé góða leið til að efla traust manna í millum í hrossa viðskiptum að seljandi hestsins fylgi kaupunum eftir með reiðkennslu eða annarri aðstoð og þjónustu við kaupandann.

Í dag tel ég að með tilkomu reiðskóla sem útskrifa tamningamenn og þjálfara að tamningar séu almennt mun staðlaðri og vandaðri en áður. Því finnst mér að verð á reiðhestum sé yfirleitt alltof lágt miðað við þá vinnu sem að baki liggur.

Eyðublað með reitum
sýni prófíl hestsins

Sigurbjörn Bárðarson:

Kaupandinn þarf að fá tækifæri til að sjá, hvernig hestur, sem er til sölu, bregzt við ýmsum bendingum og ýmsu áreiti.

Seljandanum ber að sýna, að hesturinn sé óttalaus og yfirvegaður, svari bendingum knapans úr hendi eða rödd, sæki fram, stöðvi, víki til hliðar og bakki. Hesturinn standi kyrr og slakur, þegar komið er á bak, gangi spennulaus af stað og svari mjúklega taumábendingum.

Seljandinn sýni, að knapinn geti sleppt hendi af taum og rétt handleggina út, fram og aftur, án þess að hesturinn ókyrrist. Ennfremur, að hesturinn taki því vel, að fótum sé þrýst að síðum um og aftur fyrir gjörð. Kaupandinn þarf að vita, hvort óhætt er að leita í vösum sínum á hestbaki og hvort hægt sé að laga ístaðsól með hendi, skipta kæruleysislega um hendi á písk, missa ístað og leika eftir ýmsar uppákomur, sem geta komið fyrir á hestbaki, án þess að hesturinn spennist upp.

Sýna ber hestinn með einföldum reiðbúnaði, án hófhlífa eða annars hjálparbúnaðs, svo að ganghæfni hans komi skýrt í ljós. Taka ber hestinn beint úr hesthúsi, án þess að hann hafi verið hreyfður áður þann daginn eða úr haga.

Sem betur fer eru fullmótaðir hestar ekki lengur sjaldgæfir. Tamningamenn eru mun betur menntaðir og kunna almennt séð betur til verka en áður var. Þeir eiga að geta skilað af sér þægum fjölskylduhestum, sem venjulegt fólk getur notað til félagslyndra útreiða, þar sem það getur spjallað saman og gantast, án þess að hesturinn verði of órólegur.

Erfitt er að setja upp formúlur fyrir því, hvernig söluhestur er skoðaður, en ég tel þó, að eins konar skriflegur prófíll gæti verið gagnlegur. Notað sé staðlað eyðublað með reitum fyrir krossa, þar sem merkt er, hvernig hestur bregzt við ýmiss konar bendingum og áreiti. Út úr þessu kæmi eins konar stöðluð lýsing á hestinum, prófíll hans.

Sumir vilja dauðþæga hesta, sem eru öruggir við allar aðstæður, en aðrir vilja meira fjör og jafnvel geðríki í hestum, án þess að þeir verði hættulegir. Sumum hentar ekki, að hestur tvístígi, þegar maður fer á bak, en öðrum getur það verið dæmi um hesturinn sé hæfilega ör.

Prófíllinn á að geta staðsett hestinn í þessu mynztri, hvort hann sé alþægur eða fyrir lengra komna og þá fyrir hve langt komna reiðmenn. Ég tel, að Félag tamningamanna geti haft frumkvæði að gerð svona eyðublaðs, sem verði að prófíl hestsins, þegar það er fyllt út. Um leið segir prófíllinn, hversu mikið er búið að temja hestinn, hversu vel hann er undirbúinn.

Svona eyðublað yrði aðhald að lélegum sölumönnum, sem eyðileggja markaðinn með því að selja fólki hesta, sem ekki henta því. Ég sé fyrir mér, að eyðublaðið sé hæfilegt millistig, sem leysi úr brýnni þörf fyrir aukið traust á hestakaupamarkaði, án þess að skriffinnska og skipulag keyri úr hófi fram.

Ónothæf forskrift að hestakaupum

Jónas Kristjánsson:

Á vegum stofnana og samtaka í hestageiranum hefur verið búin til forskrift að hestakaupasamningi, sem fólk hefur aðgang að, meðal annars á Eiðfaxavefnum. Þessi forskrift er samin út frá hagsmunum seljenda, tekur ekki á skorti á trausti í hrossaviðskiptum og kemur því ekki að gagni.

Sem dæmi um anda forskriftarinnar má nefna 4. grein hennar um ábyrgð. Samkvæmt greininni þarf hann meira að segja sjálfur að kosta dýralæknisskoðanir á hestum, sem honum eru boðnir til kaups:

“Hesturinn er seldur eins og hann hefur verið skoðaður, kaupandi hefur riðið hestinum eða látið gera það og sættir sig við ástand hans eins og það er í einu og öllu. Kaupandi getur ekki borið fyrir sig leynda galla á hestinum, nema hann láti dýralæknaskoða hestinn innan tveggja vikna frá móttöku hans.

Seljandi lýsir því yfir að hann hefur ekki ástæðu til að ætla að hesturinn sé haldinn neinum þeim leyndu annmörkum/göllum sem telja má að kaupandi myndi setja fyrir sig ef upplýst væri.

Hesturinn er seldur óséður og ber seljandi ekki ábyrgð á ástandi hans, hafi kaupandi ekki kvartað yfir hestinum innan tveggja vikna frá móttöku hestsins.”

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl. 2003

Skriffinnskan kostar tólf þúsund á hest

Hestar

Gunnar Arnarson:

Skriffinnska er mikil og vaxandi. Hestapassinn er nýr af nálinni og yfirleitt þá fyrst fylltur út, þegar hrossið er selt til útlanda. Kostnaður við útgáfu passans nemur 12.000-13.000 krónum við útflutning, sem er of mikið, auk þess sem mikið umstang er hjá okkur í kringum þetta.

Í framtíðinni má hins vegar gera ráð fyrir, að öll nýfædd hross fái slíkan passa. Ennfremur að rétt eins og í Evrópu séu það trúnaðarmenn bændasamtakanna, sem semji hann, en ekki dýralæknar, alveg eins og trúnaðarmenn samtakanna sjá um frost- og örmerkingar.

Þetta tengist því, að frá og með þessu ári þarf að skrá og merkja öll folöld. Þegar svo er komið, hlýtur sami maðurinn að sjá um örmerkingarnar og hestapassann, því að það eru meira eða minna sömu upplýsingarnar. Þá snarlækkar verðið á passanum og þar að auki má reikna með, að sérstakur útflutningskostnaður í tengslum við passann verði hóflegur.

Hitt er svo vandamál, að ættarupplýsingar í Feng eru stundum rangar. Það getur því staðið annað í passanum en í Feng, sem veldur ruglingi. Það eru ófáar ferðir okkar vestur á Hagatorg til að fá svona villur lagaðar
Hestapassinn er í sjálfu sér af hinu góða og ætti líka að vera notaður í sölu hrossa innanlands og verður það vafalaust innan fárra ára . Hann staðfestir, að þú sért að kaupa alvöru vöru. Hann skráir örmerki og frostmerki, staðfestir ýmsar upplýsingar um hrossið, er heilsufarsbók þess og ættartal. Engin ástæða er til að vernda ekki innlenda kaupendur hrossa til jafns við erlenda kaupendur hrossa.

Evrópsk matvælalög hljóta fyrr eða síðar að leiða til þess, að menn verða að velja um, hvort þeir eru að rækta reiðhest eða kjöt. Nú eru settar svo strangar reglur um aukaefni í kjöti, að ýmis lyf og efni, jafnvel lúsaduft, sem notað er á reiðhesta, valda því, að ekki má fara með hrossið í sláturhús í hálft ár á eftir.

Væntum breytinga
frá ráðuneytinu

Ágúst Sigurðsson:

Útgáfa á hestavegabréfum fyrir hross sem eru á leið úr landi er allnokkuð framfaraskref. Hestavegabréfin eru fyrst og fremst til þess að þjóna okkar viðskiptafólki betur, en slík vegabréf eru útgáfuskyld í löndum Evrópusambandsins. Áður voru hér gefin út svonefnd upprunavottorð með lágmarksupplýsingum um hrossin sem síðan mynduðu grunn að hestavegabréfi sem var þá gefið út í viðkomandi innflutningslandi með tilheyrandi aukakostnaði fyrir kaupandann.

Hestavegabréfin eru aðeins mismunandi að gerð eftir löndum en okkar fyrirmynd að hestavegabréfi var fyrst og fremst það danska sem inniheldur hvað mest af upplýsingum. Vegabréfin hjá Evrópusambandinu eru upphaflega hugsuð sem ferðaskjöl þ.e. þegar verið er að flytja hross á milli landa vegna keppni eða sölu. Þannig eru t.d. þessar svonefndu útlitsteikningar ekki fylltar út í nándar nærri öllum tilfellum í sumum löndum nema þegar hross fara á milli landa. Þess má geta að Hollendingar sleppa teikningunni alfarið og segja að nútíma merkingaraðferðir, þ.e. örmerkingar, dugi til þess að bera kennsl á hrossið.

Hvað um það þá teljum við að það borgi sig að fylgja reglunum eins vel og okkur er unnt til þess að forðast vandræði við flutning á milli landa og var því strax gert ráð fyrir að teikning væri útbúin fyrir útflutningshrossin.

Við gerðum ráð fyrir frá upphafi að þessar teikningar yrðu gerðar af trúnaðarmönnum BÍ líkt og er með örmerkingarnar og það höfum við lagt til við landbúnaðarráðuneytið enda teljum við að þannig megi ná fram mestri hagræðingu hvað þetta atriði varðar.

Við endurskoðun útflutningsreglugerðar í tengslum við þessar nýjungar vildi ráðuneytið hins vegar halda fast í það að einungis dýralæknar mættu rissa upp þessar teikningar. Þetta gerðum við strax athugasemd við með formlegum hætti þar sem við bentum á að þessar teikningar væru eðlilegur hluti af skýrsluhaldi í hrossarækt sem BÍ sjái alfarið um og óeðlilegt að taka þetta atriði út eitthvað sérstaklega sem dýralæknaverk. Þetta erindi okkar er nú til afgreiðslu í ráðuneytinu og ég á ekki von á öðru en þessu verði breytt í það horf sem við leggjum til.

Hestavegabréfið frá BÍ kostar kr. 3.900 fyrir hross með A-vottun á ætterni, en kr. 4.600 fyrir hross sem hefur ekki þess konar vottun. Þetta er nálægt því að vera hreint kostnaðarverð fyrir útgáfuna og þá vinnu sem henni fylgir. Auk þessa þarf að greiða stofnverndarsjóðsgjald sem er kr. 500 á hest. Við þetta bætast síðan dýralæknakostnaður kr. 3.600 við skoðun útflutningshrossa í útflutningshöfn auk þess gjalds sem dýralæknar taka fyrir útlitsteikninguna.
Hvað framtíðina varðar þá tel ég ekki tímabært að hefja útgáfu á hestavegabréfum fyrir öll fædd folöld, það held ég að sé bara of dýrt miðað við núverandi kröfur um hestavegabréf. Hins vegar má vel hugsa sér að tengja þetta gæðastjórnuninni og bjóða ræktendum upp á útgáfu slíkra vegabréfa ef þeir óska. Ég á reyndar fastlega von á því að þessi pappírs-vegabréf muni breytast í e.k. smartkort innan tíðar sem ættu að gera útgáfuna mun ódýrari og notadrýgri.

Örmerkingar nægja

Kristinn Guðnason

Hestapassarnir fóru úrskeiðis að því leyti, að ráðuneytið ákvað, að eingöngu dýralæknar mættu teikna yfirlitsmynd af hrossinu í passann. Við erum að reyna að ná þessu til baka aftur. Okkar skoðun er sú, að menn eigi með námskeiðum að geta aflað sér réttinda til að teikna hross í passa.

Ýmislegt mælir gegn því að gefa út hestapassa fyrir öll folöld. Aðeins þriðjungur þeirra er fluttur út. Öll hross eru örmerkt frá og með þessu ári og það ætti að nægja sem passi í innanlandsviðskiptum. Frekari skriffinnska ætti að vera óþörf, því að örmerkingakerfið er einfalt og öruggt.

Verðlagið

4.600 vegabréfið sjálft

500 stofnsjóðsgjald

3.600 dýralæknaskoðun í útflutningi

4.500 hestateikning í vegabréfi

13.200 heildarverð hestapassans

Ef læknar Dýraspítalans í Víðidal teikna marga hesta í einni vitjun, lækkar verðið um 2.000 krónur á hest.

Eignarhaldsskírteini

Gunnar Arnarson:

Nýtt eignarhaldsskírteini hrossa getur valdið óþægilegum misskilningi. Ef hross er ræktað með A-vottun, en ekki samkvæmt gæðakerfi bændasamtakanna, fara í skírteinið upplýsingar um, að gæðakerfið sé ekki notað. Ef hins vegar hross er hvorki ræktað með A-vottun né samkvæmt gæðakerfi bændasamtakanna, stendur ekkert um það í passanum. Hann er athugasemdalaus. Af því mætti ráða, að betra sé að hafa hvoruga vottunina. Það getur ekki verið tilgangur skírteinsins að gera A-vottun tortryggilega. Hér hlýtur að vera um að ræða handvömm hjá bændasamtökunum.

Ágúst Sigurðsson:

Það er alveg rétt athugað að þetta gat verið misvísandi ef smáa letrið var ekki skoðað – enda var þessu breytt.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl. 2003

Alls konar GPS tæki fást

Hestar

Helztu seljendur GPS-tækja eru R. Sigmundsson, sem er með Garmin, og Aukaraf, sem er með Magellan.

Garmin vasatæki eru af mörgum gerðum. Ódýrast er Geko 101, sem kostar 14.500 krónur. Ódýrasta tækið, sem getur tekið landakort, er Legend, sem kostar 29.000 krónur og alls 44.000 krónur með korti. Vista hefur rafeindaáttavita og loftvog til viðbótar og kostar 44.000 krónur og alls 59.000 krónur með korti, rafeindaáttavita og loftvog. Þessi tæki eru um 150 grömm á þyngd nema Geko, sem er 90 grömm. Verð kann að hafa breyzt, síðan Eiðfaxi athugaði það.

Magellan vasatæki eru líka af mörgum gerðum. Ódýrast er GPS 310, sem kostar 19.900 krónur. Ódýrasta tækið, sem getur tekið landakort, er Sportrak Map, sem kostar 39.900 krónur með korti, en felur ekki í sér rafeindaáttavita. Sportrak Pro er meira tæki og kostar 49.900 krónur. Þessi tæki eru um 170 grömm á þyngd. Verð kann að hafa breyzt, síðan Eiðfaxi athugaði það.

Bezt eru tæki með
korti og áttavita

Jónas Kristjánsson:

Bezt er að eiga GPS tæki með korti og stafrænum áttvita, sem auka öryggi ferðamannsins, þótt þú hafir ekki skráð neina leiðarpunkta í það. Á kortinu sérðu, hvar þú ert á landinu, og áttavitinn sýnir þér, í hvaða átt þú ert að fara eða þarft að fara. Kortið sýnir flest neyðarskýli á svæðinu, sem þú ert að ferðast um, og mikilvægustu örnefni. Minna gagn er af tækjum, sem ekki hafa þessa tvo ágætu eiginleika.

Ef GPS-tækið á að koma að meira gagni en að vera einfalt staðsetningartæki í neyðartilvikum, þarftu að vera búinn að setja inn leiðarpunkta áður en þú ferð. Það er auðveldast fyrir þá, sem hafa komizt yfir tölvudisk með stafrænu GPS-korti í hlutföllunum 1 á móti 50.000, miklu nákvæmara en kortið í tækinu sjálfu, sem er 1 á móti 300.000. Af nákvæma tölvukortinu má merkja með tölvumúsinni röð af leiðarpunktum inn á tölvuna. Punktaröðinni er síðan hlaðið inn í GPS-tækið.

Leiðarpunkta má einnig setja inn eftir grófara kortinu, sem er í GPS-tækinu sjálfu. Innsetning punkta verður síðan miklu einfaldari, þegar Landmælingarnar setja í sölu ódýru kortadiskana með nákvæmum kortum í hlutföllunum 1/50.000 og 1/100.000, sem fara sennilega líka beint inn á GPS-kubbana, svo sem Magnús Guðmundsson lýsir hér á öðrum stað í opnunni.

Leiðarpunkta má líka setja inn í GPS-tæki með því að fara á vettvang og merkja staðina inn. Ef það er gert í hestaferð, myndast leiðsögn, sem hægt er að nota í síðari hestaferðum, þótt hún nýtist ekki í fyrri ferðinni. Á slíku ferðalagi er hægt að setja nákvæmlega inn vöð, vænlega áningarstaði, hlið og aðra leiðarpunkta fyrirhugaðrar ferðar.

Sem dæmi má taka fyrirhugaða langferð Fáks í sumar um Kerlingafjöll og afréttirnar milli Þjórsár og Hvítár. Áður verður væntanlega búið að fara á bíl um svæðið og setja inn leiðarpunkta, þar sem skilur með jeppa- og hestaslóðum og þar sem þær mætast aftur. Öll vöð, vænlegir áningarstaðir og hlið verða þá komin inn á GPS-tækin, sem notuð verða í ferðinni. Sömuleiðis ýmsir aðrir mikilvægir leiðarpunktar.

Jafnframt verður sennilega haft tæki opið alla leiðina til að skrá sjálfvirkt raunverulega ferilpunkta ferðarinnar. Úr slíkum ferilpunktum, sem eru mjög þéttir, má síðan velja ýmsa mikilvæga ferilpunkta og gera að leiðarpunktum í leiðarlýsingu fyrir aðra, sem ætla að fara sömu leið síðar. Á þann hátt bjó ég til leiðarlýsingu fyrir fimm daga ferð um Löngufjörur og nágrenni, allt frá Hvanneyri að Arnarstapa.

Þannig geta margir lagt smám saman til efni í banka af leiðarlýsingum fyrir hestamenn. Bankinn getur svo farið á vefinn eins og hjá jeppamönnum og vélsleðamönnum.

Í síðasta tölublaði Eiðfaxa sagði listmálarinn Baltasar Samper frá reynslu sinni af notkun GPS-tækja. Hann benti þar á, að nauðsynlegt er að æfa sig fyrirfram á sömu tegund tækja og notuð er í ferðinni, því að mismunandi tæki virka á mismunandi hátt. Sérstaklega taldi hann mikilvægt að æfa notkun stafræna áttavitans, sem er gagnmerkt öryggistæki.

Einnig þurfa menn að muna eftir að hafa aukarafhlöður með í reiðinni. Það er sérstaklega mikilægt, ef menn hafa tækið alltaf opið til að skrá sjálfvirka ferilpunkta, því að sett af rafhlöðum tæmist á tíu klukkustundum. Ef ekki eru skráðir slíkir punktar, þarf aðeins að hafa tækið opið, þegar það er notað, því að það finnur gervihnettina fljótt. Við þær aðstæður ætti nýtt sett að endast alla ferðina.

Betri
kort
koma

Magnús Guðmundsson:

Hagur GPS notenda fer senn að vænkast, því að tveir stórir atburðir eru ívændum.

Undanfarið hafa ýmsar nýjungar komið á markað frá Landmælingum Íslands sem lengi hefur verið beðið eftir og má þar nefna nýjan Íslandskortadisk sem kom út í lok síðasta árs, þar sem kort í mælikvarða 1:250.000 eru gerð aðgengileg fyrir tölvunotendur með sérstökum hugbúnaði. Einnig má nefna diskinn Á flugi yfir Íslandi, sem selst hefur í um 10.000 eintökum á rúmu ári.

Um mitt þetta ár verða gömlu herforingjaráðskortin í mælikvarðanum 1/100.000 komin í stafrænu formi með GPS hnitum í sölu á geisladiski, sem seldur verður á 5.000 krónur eða minna á almennum markaði. Um mitt næsta ár koma svo enn nákvæmari kort, í mælikvarðanum 1/50.000, í stafrænu formi með GPS hnitum í almenna sölu á geisladiski á svipuðu verði.

Notendur kortanna geta merkt punkta með músinni og fengið upp hnitin, hlaðið slíkum hnitum í lista í tölvunni og flutt svo úr henni yfir í GPS-tækin. Ennfremur eru í gangi viðræður við einkaaðila, sem selja GPS-tæki, um að þessi kort fari beint í kubbana í GPS-tækjunum sjálfum.

Flest verða þessi kort samfelld heild, en ekki á aðskildum blöðum. Að grunni til eru herforingjaráðskortin 87 talsins og kortin í mælikvarðanum 1:50.000 um 200 talsins af öllu landinu. Áður voru til 110 kort í 1:50.000, sem náðu yfir hálft landið. Þau voru til sölu á diski, sem var mjög dýr, en ekki nógu vel læstur, svo að menn brenndu af honum sjóræningjaútgáfur í stað þess að kaupa diska.

Að baki kortadisksins í mælikvarðanum 1/50.000 verður nýr og stafrænn kortagrunnur, sem verið er að vinna hjá Landmælingum Íslands af landinu öllu. Verður fyrsta útgáfa hans tilbúinn í lok þessa árs. Nýi gagnagrunnurinn í mælikvarðanum 1:50.000 byggist á margs konar gögnum, loftmyndum, gervihnattamyndum og gögnum frá ýmsum stofnunum.

Ég tel, að þessi bylting í landmælingum muni færa notendum GPS-tækja, þar á meðal hestamönnum, frábær gögn í hendur.

Samstarf
leysir
málin

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri:

Vegagerðin tók þátt í tilraun til að flokka, skrá og merkja reiðleiðir á kort á Norðurlandi vestra. Við teljum heppilegt og nauðsynlegt að halda slíkri vinnu áfram, en Vegagerðin getur ekki gert það ein. Sveitarfélögin, sem hafa skipulagsvaldið, þurfa að taka þátt í þessari vinnu, enda hljóta þau að hafa skoðanir á, hvar og hvernig reiðleiðir eigi að liggja. Ennfremur er æskilegt, að þeir, sem hagsmuna hafa að gæta, hafi sem mest frumkvæði í málinu, til dæmis Landssamband hestamannafélaga og staðbundin hestamannafélög. Ekki stendur á Vegagerðinni að taka þátt í slíkri vinnu.

Merking reiðleiðanna í tilraunverkefninu var handvirk. Við erum nú farnir að merkja bílvegi stafrænt á kort og teljum eðlilegt, að reiðvegir verði einnig merktir á þann hátt. Bílvegirnir eru merktir með því að aka þá með GPS-tæki og taka ferilpunkta. Reiðleiðir þarf að merkja stafrænt með sama hætti, það er að segja með því að ríða þær með GPS-tæki á “trakki”, að minnsta kosti þær reiðleiðir, sem ekki liggja meðfram bílvegum. Það er hins vegar flóknara dæmi og meiri kostnaður að ríða reiðvegi en aka bílvegi. Draga má úr þessari fyrirhöfn með því að fá ferilpunkta hjá ýmsum aðilum, sem hafa riðið þessar leiðir með opið GPS-tæki. Vegagerðin er opin fyrir samstarfi við slíka aðila.

Fyrst þarf
að æfa sig

Þormar Ingimarsson:

Fyrir ferðalag er ég búinn að taka inn alla GPS-punkta, sem ég held, að ég þurfi að nota. Ég set inn alla skála, sem ég ætla að fara í og aðra skála í nágrenninu að auki. Ég set inn einstök kennileiti, svo sem vöð og áberandi fjöll. Þetta tek ég allt inn af korti heima hjá mér og er búinn að skipuleggja allt í GPS. Ég tel líka, að gott sé að hafa sömu upplýsingar í tveimur tækjum í ferð, svo að annað sé til reiðu, ef hitt blotnar eða bilar. Það er ég að hugsa um að gera næsta sumar og hafa þá annað tækið opið á trakki (ferilpunktum) alla daga. Aðalatriðið við notkun á GPS er að vera búinn að æfa sig áður en það er notað í ferð.

Það væri til bóta, ef við upphaf og endi reiðleiða yrðu sett upp skilti með helztu upplýsingum um leiðina, áningastaði og með mikilvægum GPS-punktum á henni.

Verkefninu
miðaði lítið

Jón Albert Sigurbjörnsson:

GPS er verkefni sem er búið að vera hér á dagskrá hjá LH í nokkurn tíma. Forsaga málsins er að árið 2000 var samþykkt á landsþingi að hefja samstarf við E-ferðir sem var að vinna að svipuðum verkefni fyrir jeppa og göngufólk.
Hugmyndin var að vera í samstarfi vegna þess á þeim tíma var mjög dýrt að fá svokallaða kortagrunna og mikil vinna þessu samfara. Við fengum m.a. birtingarétt allra aðila sem rituðu greinar í “Áfanga”.

Þetta verkefni er í samstarfi við Hestamiðstöð Íslands og átti að taka Norðurland vestra sem tilraunaverkefni. Verkefninu hefur því miður miðað lítið og höfum við ákveðið að endurskoða það frá grunni.

Kort eru nauðsyn
nauðsyn

Andreas Bergmann:

Ég fór norður með Gusti á landsmótið á Vindheimamelum 1974. Við riðum inn Gnúpverjaafrétt. Öðrum bílnum var snúið við í Bjarnalækjabotnum og hinn fylgdi okkur í Tjarnarver með það allra nauðsynlegasta. Við lögðum svo þaðan tímanlega af stað um morguninn mjög langa dagleið til Laugafells. Við fórum í Arnarfell og yfir Þjórsárkvíslar og í áttina að Laugafelli vestan allra bílaslóða. Ég hafði skilið kortin eftir í trússinu, af því að ég var ekki fararstjóri. Svo kom í ljós, að fararstjórarnir höfðu líka skilið kortin eftir.

Búið var að segja okkur, að kofinn væri norðvestan undir Laugafelli. Þegar við svo sjáum hnjúk framundan, ríðum við niður með honum að vestan, en finnum engan kofann eftir þrettán tíma í hnakknum. Þá vorum við í rauninni við Laugafellshnjúk, sem er miklu meira kennileiti en Laugafell, sem er bara alda, þegar það er séð úr suðri. Ákveðið var að senda tvo-þrjá menn til að leita að skálanum. Þeir komu til baka eftir hálfan annan tíma og höfðu þá fundið hann. Við komum svo í náttstað eftir sautján tíma reið. Ef við hefðum haft kort með okkur, hefðum við ekki lent í þessum misskilningi.

Í Laugafelli var engin beit, því að veður hafði verið kalt. Í þá daga voru menn ekki farnir að hafa hey í ferðum. Engir hagar höfðu verið síðan í Tjarnarveri. Við ákváðum því að fara sex saman eftir þriggja tíma áningu með hrossin niður í byggð í Skagafirði, en hitt fólkið kom svo með bílunum um morguninn. Þegar komið var að eyðibýlinu Þorljótsstaði innst í Vesturdal, var dagleiðin úr Tjarnarveri orðin nokkuð löng.

Ég man vel eftir fyrstu löngu hestaferðinni minni, árið 1963. Farið var upp Gnúpverjaafrétt inn í Arnarfell og þaðan yfir Þjórsárkvíslar austur í Nýjadal. Þar gerði á okkur mikið norðanrok, versta veður, sem ég hef lent í, og tjöldin fuku um koll. Þá var búið að vera mikið vatnsveður, en sandurinn fauk samt blautur. Við þessar aðstæður var hætt við að fara suður gróðurleysurnar austan Þjórsár og í staðinn riðið til baka í Arnarfell.

Síðan fórum við suður fyrir Hofsjökul og norður fyrir Kerlingafjöll, þar sem var snjókoma. Þaðan fórum við í Hvítárnes og síðan niður Hrunamannaafrétt, með áningu í Svínárnesi, Miklaöldubotnum og Hrunakrók. Í Miklaöldubotnum var veðrið gengið niður og við hengdum blautu fötin okkar til þerris yfir nóttina. Um morguninn voru þau öll beingödduð, svo að minna varð úr þurrkinum en til stóð.

Í þessari ferð voru hestarnir heftir á nóttunni og vakað yfir þeim til skiptis, því að hvergi voru hús né girðingar. Margar mínar beztu minningar úr hestaferðum eru af vöktunum yfir hestunum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl.2003

Tveir þriðju í þéttbýli

Hestar

Tveir þriðju í þéttbýli

Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunautur:

Tveir þriðju hrossaræktenda eru búsettir í þéttbýli. Það er tímanna tákn, að fjölmennasti fundur þessarar fundaraðar skuli vera hjá Fáki í Reykjavík.

Á þessu ári tekur hestapassinn gildi í útflutningi. Til greina kemur að taka síðar upp hestapassa fyrir öll folöld, sem sett eru á.

Unnið er að endurskoðun á kynbótamati á skeiði. Áður var aðeins tíunda hvert hross klárgengt, en nú er þriðjungur hrossa klárgengur. Arfgengi skeiðs hefur hingað til verið ofmetið.

Fjölþjóðlegt kynbótamat er að komast á. Öll Norðurlönd eru komin í Feng og á þessu ári verða 4-5 sýningar í Þýzkalandi samkvæmt íslenzkum reglum.

Rannsóknastarf í hrossarækt er að eflast. Frjósemisrannsóknum fjölgar. Lokið er viðamikilli spattrannsókn, sem leiddi í ljós, að spatt stafar ekki af áreynslu, heldur er það arfgengt.

Sumarexem er stóra vandamálið í markaðsmálum hrossa. Á Keldum er með samstarfi við vísindastofnanir í mörgum löndum stefnt að framleiðslu bóluefnis, hugsanlega DNA-bóluefnis gegn exeminu. Í þetta umfangsmikla verkefni voru útvegaðar 10 milljónir króna á ári í þrjú ár. Unnið er að frekari fjármögnun þess.

Ropi hefur lítið verið rannsakaður enn. Flest bendir til, að hann stafi að litlu leyti af erfðum, en að mestu af aðstæðum í umhverfinu, til dæmis þegar viljug og ör hross eru langtímum saman á húsi.

Stefnt er að betri skilgreiningu ýmissa vídda geðslags, svo sem kjarks og viðkvæmni, deyfðar og vilja, gleði og fýlu, hörku og ljúflyndis. Fyrstu athuganir á þessu sviði fara fram með aðstoð nema í Hólaskóla.

Stærsta átaksverkefni hrossaræktarinnar er uppsetning WorldFengs, sem hefur kostað 15 milljónir króna. Ennfremur eru miklar vonir eru bundnar við endurreisn Eiðfaxa, sem nú stendur yfir.

Samfellt menntakerfi í hestamennsku er að hefja göngu sína. Það er í fimm stigum frá grunnskóla upp í fjölbraut. Tilraun hefur verið gerð með fyrsta stig á Gauksmýri og þriðja-fimmta stig í fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki.

Hestamenn þurfa að fylgjast vel með framvindu hugmyndarinnar um sendiherra íslenzka hestsins og beita áhrifum sínum til að hún komi að sem mestu gagni.

Vinsælar sýningar í skautahöllum

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:

Félag hrossabænda hefur samið við Bændasamtökin um, að félagsmenn fái aðgang að World Feng fyrir 1.250 krónur á ári í stað fulls gjalds, sem nemur 6.200 krónum. Samanlagt verður félagsgjald og áskrift 3.000 krónur.

Biðlistar sláturhrossa hafa horfið, enda hefur hrossum fækkað í landinu um 12.000 á nokkrum árum.

Samdráttur hefur orðið í sölu lífhrossa til útlanda, úr 2.600 hrossum á ári í 1.500 hross. Exem og tollsvikamál hafa skemmt fyrir útflutningi hrossa.

Möguleikar á Bandaríkjamarkaði eru að aukast. Á þessu ári verða hestasýningar á ís í mörgum skautahöllum vestan hafs. Slíkar sýningar hafa vakið mikla athygli.

Hrossabændur þurfa að vera í fleiru en hrossarækt. Til þess að búin beri sig, þurfa þeir að vera í alhliða þjónustu, svo sem tamningum og ferðaþjónustu.

Skoðanir fundarmanna

Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunautur og Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda voru á fundaferð um landið á ofanverðum þessum vetri. Síðasti fundur þeirra var haldinn í Fáksheimilinu í Víðidal og er sagt frá þeim fundi á þessari síðu. Margir tóku til máls eftir framsöguerindin. Meðal annars kom þetta fram.

Kári Arnórsson:

Til þess að Fáksmenn geti fengið afsláttarverðið á WorldFeng þurfa þeir að vera félagsmenn í ræktunardeild félagsins og greiða félagsgjald í henni.

Snorri Ingason:

Eðlilegt er, að landsmót verði framvegis haldin á fjórum stöðum á landinu. Ennfremur er eðlilegt, að stórar kynbótasýningar verði í Reykjavík, þar sem mikið er af eigendum kynbótahrossa.

Kristinn Hugason:

Gera þarf meira til að efla gengi kappreiða. Ennfremur þarf að varðveita vilja og viðkvæmni í íslenzkum hrossum. Óeðlilegt er, að opinberir sjóðir eigi hlutafé í Eiðfaxa með einum erlendum aðila.

Viðar Halldórsson:

Eru ekki leiðbeiningarstöðvar það, sem okkur vantar á Bandaríkjamarkaði?

Jón Albert Sigurbjörnsson:

Við uppbyggingu markaðar í Bandaríkjunum er mikilvægast að efla félagskerfi bandarískra hestamanna. Hér heima eigum við að efla það starf, sem fyrir er, í stað þess að stofna sífellt til einshvers nýs, svo sem sendiherra íslenzka hestsins.

Eiríkur Benjamínsson:

Við þurfum að fá aftur umsagnir fróðra manna um mikilvægustu kynbótahrossin eins og voru í bókinni Ættfeður. Til greina kemur, að fá einn mann til að finna alla galla á viðkomandi hrossi og annan til að finna alla kosti þess. Allt of lítið er hlustað á tamningamennina, sem vita bezt, hvernig kynbótahrossin eru í raun og veru. Æskilegt er að koma að nýju á fót reiðdómurum.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson:

Við skulum taka hugmyndina um sendiherra íslenzka hestsins mátulega alvarlega. Kosningar eru í nánd og hestamenn hafa reynslu af því, að ráðherrar lofa oft upp í ermina á sér.

Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Ameríka: Allt önnur álfa

Hestar

Sigurbjörn Bárðarson:

Þegar ég byrjaði að selja hross til Bandaríkjanna árin 1985-1986, rak ég mig smám saman á, að markaðurinn þar er að ýmsu leyti öðru vísi en Evrópumarkaður. Fólk kom á skrautsýningar okkar, hreifst af íslenzku hestunum, stóð upp og klappaði óskaplega mikið. En það kom ekki eftir sýninguna til að kaupa hest.

Þar vestra eru menn lengur að ákveða sig en við höfðum vanizt frá Evrópu. Bandaríkjamenn taka sér margfalt meiri tíma. Þeir skoða hest og fara síðan heim til að hugsa málið. Þeir vilja koma aftur eftir tvær vikur og skoða hann betur og kannski aftur og aftur. Það getur tekið mánuð eða jafnvel þrjá mánuði að ljúka sölu á hesti, hvort sem kaupandinn er efnamaður eða ekki.

Ég varð að fara aðrar leiðir til viðbótar við sýningarnar. Smám saman byggði ég upp póstlista með 200-400 nöfnum. Þetta er fólk, sem á íslenzka hesta eða eru viðloðandi hann á annan hátt. Ég geri myndbönd með söluhestum og sendi til 120-130 nafna af listanum. Öllu þessu er fylgt eftir með símtölum og tölvupósti eftir því sem við á, svo og einföldum námskeiðum, þar sem fólki er kennt að láta sér líða vel á íslenzkum hesti. Með þessu tókst mér að tífalda söluna til Bandaríkjanna á stuttum tíma.

Bandaríkjamarkaður þarf að mörgu leyti öðru vísi hesta en Evrópumarkaður, sem kaupir mest ræktunarhross, keppnishesta og dýra hesta frá Íslandi, en er meira eða minna sjálfum sér nógur í millihrossum. Bandaríkjamenn vilja og þurfa meira af myndarlegum, þægum, traustum, fallegum, hreingengum, einföldum og taugasterkum fjölskylduhestum, sem sýna engin snögg viðbrögð og eru kyrrir, þótt menn gefi sér góðan tíma til að fara á bak. Öryggið skiptir meira máli í Bandaríkjunum en í Evrópu.

Þar sem Bandaríkin eru víðlend og þar sem salan gengur hægar þar en í Evrópu, mun taka mjög langan tíma fyrir þá að framleiða sín eigin millihross.
Þegar ég hafði komizt að raun um, hvað Bandaríkjamarkaðurinn þurfti, lét ég boð út ganga, að ég mundi ferðast um landið og skoða hross, sem uppfylltu þessi skilyrði. Mér voru sýnd 500-600 hross, en innan við 15% uppfylltu skilyrðin, all 80-90 hross. Hitt voru bara bikkjur, mestmegnis lítið tamdar.

Ef menn kaupa sex hross eða fleiri, sendi ég mann með þeim, sem er ytra í mánuð til að kenna fólki, svo að því líði vel á hestbaki. Síðan held ég áfram að vera í sambandi með tölvupósti til að svara fyrirspurnum um hrossin. Þetta er eins og að láta ábyrgðarskírteini fylgja, enda þarf ég að byggja upp góðan orðstír í Bandaríkjunum. Hestarnir, sem ég er búinn að selja, eiga að selja hrossin, sem ég á eftir að selja.

Það hefnir sín á útflutningi héðan, ef menn selja ódýr og léleg hross með ljósmyndum á netinu. Ljósmyndir sýna ekki raunveruleika lifandi hests. Þegar ég sendi 25 mínútna myndband af hesti, fara 10 mínútur í að sýna, hvernig komið er að hestinum, taumurinn hengdur upp á eyrað, pískurinn látinn strjúka hestinn og hnakknum fleygt hirðuleysislega á bak án þess að hesturinn láti sér bregða.

Á þessu sér kaupandinn, hvort hesturinn er traustur og rólegur eða ekki. Hann á raunar alltaf að heimta slík myndskeið.

Allt önnur hefð

Gunnar Arnarson:

Hestahefð í Bandaríkjunum er önnur en í Evrópu, þar sem margir unglingar hafa sótt klassíska reiðskóla og eru undir það búnir að umgangast íslenzka hestinn. Að svo miklu leyti, sem menn hafa lært að umgangast hesta í Bandaríkjunum, er það oftast í Western reiðmennsku, sem hentar ekki íslenzka hestinum. Bendingar eru til dæmis allt aðrar en þær, sem hestar venjast í tamningu á Íslandi og í klassíska reiðskólanum í Evrópu.

Að meðaltali eru Bandaríkjamenn því verr undir það búnir að ríða íslenzkum hestum en viðskiptavinir okkar í Evrópu. Af þessari ástæðu hlýtur reiðkennsla að vera mjög mikilvægur þáttur í reiðhrossasölu til Bandaríkjanna.

Miðaldra konur er að miklum hluta kaupendur íslenzka hestsins í Bandaríkjunum. Þær vilja fyrst og fremst þæg og auðveld hross, sem eru fulltaminn, þegar þau eru seld. Þangað þarf að velja hross, sem eru góð í umgengni og ekki of viljug eða viðkvæm. Við teljum, að íslenzkir seljendur hrossa séu almennt meðvitaðir um þessi sérkenni bandaríska markaðarins.

Notkun netsins við kaup og sölu á hrossum er meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu. Sumir seljendur hér á landi hafa sérhæft sig í slíkri sölu til Bandaríkjanna. Þeir eru vel sýnilegir á bandarískum spjallrásum um íslenzka hestinn og eru því í góðu sambandi við markaðinn þar.

Fullkomið traust

Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum:

Aðalatriðið á Ameríkumarkaði er, að fullkomið traust ríki milli kaupanda og seljanda. Þar eru menn ekkert í happa- og glappaaðferðum í hestakaupum. Fólk vill fyrst og fremst trausta og örugga hesta með hreinu tölti. Margir eru byrjendur í þessu. Þeir vilja hesta, sem eru ekki sjónhræddir á skógargötum.

Hjá mér byrjaði þetta sem áhugi á að fríska upp á enskukunnáttu mína frá skólaárunum. Ég fór að skrifast á við fólk í Bandaríkjunum. Sonur minn fór að vinna við hross þar vestra og við eignuðumst fullt af vinum. Öll þessi sambönd selja hesta, þegar til langs tíma er litið. Þetta hlóð utan á sig.

Nú orðið fara samskiptin mest fram í tölvupósti og í minna mæli í síma. Ég er líka með heimasíðu, þar sem eru upplýsingar og myndir af hestum frá mér, nágrönnum mínum og öðrum félögum í hrossaræktarsamböndunum í Húnaþingi. Ef fólk hefur áhuga á nánari atriðum, getur það fengið send myndbönd.
Þetta er ekki stór markaður, en á mikla framtíð fyrir sér.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Þið fáið sprautur

Hestar

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir:

Áður fyrr var lyfið Metamisol notað gegn hrossasótt, sprautað í vöðva. Það hafði litlar hliðarverkanir, svo að ekki kom að sök, þótt röng sjúkdómsgreining lægi að baki notkunar þess, sem gat til dæmis komið fyrir hjá hestamönnum á ferðalagi í óbyggðum
Komið er til sögunnar nýtt lyf, sem er áhrifameira, en vandmeðfarnara að því leyti, að því þarf að sprauta í æð. Það er einnig þess eðlis, að fagmaður þarf að ákveða, hvort um hrossasótt sé að ræða, áður en það er notað. Þetta lyf mega aðeins dýralæknar nota.

Af þessum ástæðum var hætt að afgreiða sprautur í fyrrasumar í sjúkrakassa, sem hestamenn fengu til langferða í óbyggðum. Í stað þess var sett inntökulyf, svokallað Glaubersalt. Ég veit, að þetta er lakari kostur fyrir hestamenn, af því að ekki er auðvelt að koma inntökulyfjum ofan í hesta.

Vandinn hefur hins vegar verið sá, að gamla Metamisol lyfið er ekki lengur framleitt hér á landi og raunar víðast hvar. Það var talið komið úr framleiðslu. Ég hef nú hins vegar komizt að raun um, að lyf þetta er enn framleitt erlendis og að hægt að fá það til landsins í litlu magni.

Þess vegna hef ég ákveðið að opna að nýju fyrir gömlu hrossasóttarsprauturnar fyrir hestamenn í langferðum í óbyggðum. Þeir geta í sumar fengið það í sjúkrakassa ferðarinnar hjá viðkomandi dýralækni, en þurfa aðeins að gæta þess að sækja um það með nægum fyrirvara, svo að lyfið verði örugglega til í tæka tíð.

Vona ég þar með að málið hafi fengið farsæla lausn, sem bæði menn og hestar á fjöllum geti sætt sig við.

Mjög góður kostur

Sigríður Björnsdóttir, yfirlæknir hrossasjúkdóma:

Metamízól er mjög góður kostur sem hrossasóttarlyf í neyðarkössum hestaferða, þar sem hægt er að gefa lyfið undir húð eða í vöðva og það veldur ekki aukaverkunum. Lyfið var tekið af skrá hér á landi sem víðar þar sem framleiðendur hafa ekki rannsakað hversu langan tíma hreinsun úr líkamanum tekur og þar af leiðandi hversu langur sláturfrestur sé á lyfinu. Nú hefur verið ákveðið (í Evrópusambandinu) að gefa megi hrossum slík (órannsökuð) lyf og skuli sláturfrestur vera 6 mánuðir. Það er því hægt er að flytja Metamízól inn á undanþágu en verið er að afla upplýsinga um kostnað.

Reglugerðin:

“11. gr.:Þrátt fyrir takmarkandi ákvæði þessarar reglugerðar, er dýralækni heimilt, að fengnu skriflegu leyfi yfirdýralæknis, að ávísa eiganda eða umráðmanni dýra eftirtöldum lyfjum í neyðarkassa til lengri ferðalaga, þegar gera má ráð fyrir að erfitt eða ómögulegt verði að ná í dýralækni:

1. Sýklalyf.

2. Lyf við hrossasótt.

3. Verkjastillandi lyf, þó ekki eftirritunarskyld lyf.

4. Staðdeyfilyf til útvortis notkunar.

5. Lyf til inntöku í ATC vet-flokki Q N 05 A A.”

Við viljum sprautur

Tilefni viðtalsins við Halldór Runólfsson yfirdýralækni hér til hliðar á síðunni eru ummæli nokkurra þekktra hestaferðamanna, sem Eiðfaxi hafði talað við. Þau fara hér á eftir.

Bjarni E. Sigurðsson:

Því miður er búið að taka af okkur hrossaveikissprautuna, sem áður bjargaði mörgum hestinum frá bráðum dauða. Ég man á Minni-Borg eftir hryssu, sem var svo illa haldin, að hún var lögzt. Eftir sprautuna var hún risin upp eftir tuttugu mínútur. Þessi sprauta var nauðsynlegust af öllu og óneitanlega er annarlegt að banna hana.

Einar Bollason:

Út í hött er sú breyting, sem gerð var í fyrra, að hætt var að afgreiða sprautur við hrossasótt í sjúkrakassa ferðamanna. Bændur fá þessar sprautur eins og skot og það ætti að vera enn meiri þörf fyrir þær á fjöllum, þar sem ekki er hægt að ná til dýralæknis. Það er ekki nóg með, að það eigi að láta okkur hafa þessar sprautur, heldur ætti beinlínis að halda námskeið í notkun þeirra. Glaubersaltið, sem við fáum, er seinvirkara og virkar raunar alls ekki í verstu tilvikum.

Hjalti Gunnarsson:

Ég væli út hrossasóttarsprautu, sem er bráðnauðsynleg, en ekki auðfengin. Mér finnst ekki í lagi að meina mönnum að hafa slíkar sprautur á ferðum um óbyggðir. Inntökulyfin eru miklu erfiðari í notkun og virka miklu hægar.

Viðar Halldórsson:

Það er mjög slæmt og raunar ótrúlegt, ef dýralæknar eru farnir að neita að láta menn hafa hrossasóttarsprautur fyrir langferðir, því að þessar sprautur voru það nauðsynlegasta í sjúkrakassanum. Sprautan er svo fljótvirk og auðveld í notkun, miklu meðfærilegri en glaubersaltið.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Vestið hans Baltasars

Hestar

Þetta segir hestaferðamaðurinn og listmálarinn Baltasar Samper um hlutina, sem komu upp úr vösunum á ferðavesti hans:

GPS er eitt nauðsynlegasta öryggistæki í hestaferðum í óbyggðum. Nauðsynlegt að vera búinn að æfa sig á tækið áður en til kastanna kemur, því að tækin eru ekki mjög notendavæn. Menn verða líka að æfa sig á sömu tegund og notuð verða í ferðinni, því að tæki mismunandi framleiðenda virka á misjafnan hátt. Þegar vandamál koma upp, þurfa menn að geta unnið hratt á tækið, í stað þess að fálma sig áfram. Menn þurfa til dæmis að geta gefið upp staðarákvörðun í síma fyrirvaralítið í neyðartilvikum.

Tækið þarf líka að vera vatnsþétt, því að vasar yfirhafna gegnblotna stundum. Mikilvægt er líka að muna að skipta um rafhlöður, svo að menn sitji ekki uppi með ónothæft tæki á örlagastundu. Einnig þurfa menn að muna að staðfesta á leiðinni, hvort tækið sýni rétta punkta með því að slá inn nýja punkta til samanburðar. Bezt er að hafa tæki, sem hefur að geyma íslenzkt landakort, sýnir rétta segulmisvísun á áttavitanum og sýnir einnig í hvaða átt menn þurfa að fara til að komast á fyrirhugaðan áfangastað. Menn þurfa að hafa fyrirfram æft sig á að ferðast eftir áttavitanum í tækinu.

Öll hnit hverrar dagleiðar tek ég upp af nákvæmu tölvukorti, 1 á móti 50.000 eða 1 á móti 100.000, áður en lagt er af stað í ferðina. Þessi hnit eru ekki mörg, en þau sýna brottfararstað og endastað, svo og mikilvægar staðsetningar á leiðinni, svo sem vöð, hlið, krossgötur og mikilvægar beygjur. Fyrir hverja dagleið prenta ég út tölvukort með hnitum, sem sýnir leiðina. Allir ferðafélagarnir hafa slíka útprentun. Fyrir utan þessa útprentun er gott fyrir hvern ferðafélaga að hafa kort, sem sýnir stærri hluta landsins til að sjá afstöðuna til kunnugra kennileita, sem eru utan svæðis útprentaða kortsins.

Ég er líka með kortahjól, sem mælir krókóttar vegalengdir á korti. Við niðurstöðutölurnar þarf að bæta 10%, af því að raunveruleg leið hestanna er alltaf aðeins lengri en leið hjólsins á kortinu. Einnig er ég með glæru, sem skiptir leitarkortareitum björgunarsveita í 24 reiti. Með því að bregða glærunni á kortið, get ég gefið björgunarsveit upp með nokkurri nákvæmni, númer þess reits landsins, sem ég er staddur á, ef hópurinn þyrfti á aðstoð að halda.

Ég er líka með minnisbók með vatnsþéttum blaðsíðum, þar sem hægt er skrifa nótur í rigningu. Svo er ég með Almannak háskólans, handhæga bók, þar sem hægt er að sjá flóðatöflur, upplýsingar um sólarupprás og sólsetur, misvísun á kompás og margvíslegar aðrar gagnlegar upplýsingar, svo sem um stjörnuhimininn. Það er meira að segja hægt að sjá, hvaða vikudagur, ef maður er svo afslappaður, að maður hafi gleymt því.

Lokuð gleraugu til notkunar í sandstormi geta komið að góðu gagni, til dæmis skíðagleraugu eða fjallageraugu, en ekki sundgleraugu, því að þau eru óþægileg. Allir ættu að vera með lítil vasaljós til að sveifla kringum sig til að vekja athygli á sér í myrkri og þoku, þegar ferðazt er síðsumars. Það er miklu þægilegra að nota ljós heldur en að vera að æpa og öskra.

Við erum með NMT síma í bílnum og nú orðið er ég með Iridium síma í vasanum. Þeir nota gervihnattasamband, sem er ekki eins dýrt og áður var. Hægt að taka sambandið á leigu fyrir 48 dollara í opnunar- og lokunargjald og 1.000 kr leigu á dag, fyrir utan notkunina sjálfa, sem kostar 1-1,5 dollara á mínútu. Þessir símar ná alls staðar sambandi og eru miklu léttari en NMT símar. Þeir fást til leigu í Radiomiðun á Grandagarði.

7-8 kg í vösunum

Undir þunnri goritex úlpu er Baltasar í vel ræstu skotveiðivesti með ótal vösum, þar sem hver vasi gegnir sínu sérstaka hlutverki. Alls er hann með 7-8 kíló af gagnlegum hlutum í vösunum. Þar að auki er hann svo með hníf og járningatæki í beltinu.

Efst til hægri er brjóstvasi fyrir GSM-síma. Til hliðar við hann er vasi fyrir munnhörpu. Fyrir neðan símavasann eru tveir litlir vasar, annar fyrir stækkunargler til kortalestrar og hinn fyrir áttavita með segulmisvísun. Efst til vinstri er lítill brjóstvasi fyrir tvö kortahjól til að áætla fjarlægðir á korti. Þar fyrir neðan er stærri vasi fyrir GPS-staðsetningartæki.

Að neðan til hægri er stór vasi fyrir hart geraugnahulstur með sólgleraugum. Þar er annar stór vasi fyrir Iridium-gervihnattasíma, sem nær sambandi hvar sem er á fjöllum. Þar er líka lítill vasi fyrir flugnanet. Vinstra megin að neðan eru nokkrir vasar, einn fyrir kíki, annar fyrir vasaljós, þriðji fyrir hófkrækju og sá fjórði fyrir ýmis gögn, svo sem minnisbók með vatnsþéttum blöðum, útskrift af korti af svæðinu og GPS-punktum leiðarinnar, svo og almannak háskólans.

Innan á vestinu er hægra megin að ofan brjóstvasi fyrr herforingjaráðskort í mælikvarðanum 1/100.000 eða 1/50.000. Vinstra megin er að ofan er vasi fyrir seðlaveski. Aftan á vestinu er stór og víður vasi með heildarkorti af Íslandi í mælikvarðanum 1/250.000.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Bílarnir eru ódýrari

Hestar

Kristján Kristjánsson hestaflutningamaður:

Fimm hesta kerra kostar meira en milljón krónur. Vextir af þeirri upphæð gætu verið 120.000 krónur á ári, auk rekstrar kerrunnar og eldsneytis á dráttarbíl. Það er alveg sama, hvernig menn reikna, hestaflutningar á bílum eru alltaf miklu ódýrari en flutningar í eigin kerrum, nema kannski hjá atvinnumönnum með mikilli flutningaþörf. Því er þó ekki að leyna, að þeim fjölgar, sem leyfa sér þann lúxus, sem kerrurnar eru. Þess vegna og einnig vegna lágs verðlags á flutningum hefur fækkað þeim, sem reka hestaflutninga, enda gera menn góð með að skipta við bílana.

Hörður Hermanns hestaflutningamaður:

Aðalsamkeppni okkar kemur frá kerrunum. Þegar tíð er góð, nota menn þær mikið, en halla sér meira að okkur, þegar veður og færð spillast. Mönnum finnast vera þægindi í að eiga kerrur til að snatta með, en það er ekki reikningsdæmi, sem gengur upp. Kerra, sem kostar 1,3 milljónir, brennir 104 þúsund krónum í vexti á ári, 195 þúsund krónum í afskriftir og 50 þúsund krónum í viðhald. Þetta gera 349 þúsund krónur á ári og jafngildir 35 ferðum til Hellu. Einnig má líta á, að okkar farmur er tryggður, en ekki það, sem er í kerrunum.

Kerrurnar veita frelsi

Þröstur Karlsson hestakerrusali:

Salan var mest í fimm hesta kerrum, en núna eru tveggja og þriggja hesta kerrur aftur farnar að seljast betur. Fólk velur kerrur alveg eins og það vill fara um í eigin bíl í stað þess að taka strætó. Það kýs frelsið og sveigjanleikann, sem fylgir kerrunum. Þeim, sem finnst kerrur of dýrar, taka sig oft saman tveir eða fleiri um kerru, t.d. þeir, sem eru saman um hesthús og hagabeit.

Hinrik Gylfason hestakerrusali:

Fólk vill hafa frelsi, fara þegar það vill fara og geta stjórnað sínum tíma. Vafalaust er ódýrara fyrir marga að flytja hestana á flutningabíl, en þetta er eins og munurinn á strætó og einkabíl. Hingað komu sextug hjón, sem hafa verið tvo áratugi í sumarferðum. Þau keyptu kerru og hafa síðan verið á flakki um landið eftir veðri og aðstæðum og riðið út frá nýjum og nýjum stöðum. Einn viðskiptavinur sagðist hafa keyrt kerruna sína 20.000 km. á einu ári.

Sigurgeir Þórðarson hestakerrusali:

Mest sala er í tveggja og þriggja hesta kerrum. Kerrueign er orðin afar almenn meðal hestamanna. Þú mætir tuttugu kerrum á leiðinni austur yfir fjall. Fólk hefur meiri frítíma en áður og hefur betri aðstöðu fyrir hrossin, bæði í bæ og sveit. Menn vilja vera sjálfs sín herrar, flytja hesta þegar það hentar þeim sjálfum og þá fyrirvaralaust.

Hestaflutningamenn

Í hestaflutningum eru umsvifamestir tengdafeðgarnir Guðbrandur Óli Þorbjörnsson og Kristján Kristjánsson og síðan kemur Hörður Hermanns. Guðbrandur Óli er sennilega með meira en helminginn af markaðinum og Hörður með meiripartinn af afganginum. Aðrir flutningamenn hafa komið og farið, eru ekki með fastar ferðir og eru meira í tilfallandi flutningum.

Fastar áætlunarferðir

Báðir aðilar reka fastar áætlanir vikulega norður í land og tvisvar í viku austur fyrir fjall. Guðbrandur Óli er þar að auki með þriðju vikulegu ferðina austur fyrir fjall og Hörður með mánaðarlega ferð austur á land. Báðir aðilar fara norður mánudaga og koma aftur þriðjudaga og eru í tengslum við það með ferðir austur fyrir fjall sunnudaga og miðvikudaga.

Flutningskostnaður

Ýmsir afslættir tíðkast í hestaflutningum, yfirleitt miðaðir við viðskiptamagn og greiðslutíma. Staðgreiðslumenn í föstum viðskiptum fá lægra verð en aðrir. Um slíkt verður að spyrja hverju sinni. Samkvæmt algengri gjaldskrá hestaflutninga kostar kostar 3.500 krónur að flytja hest úr bænum austur að Hellu og 9.300 krónur í Skagafjörð, hvort tveggja með vaski. Ef fluttir eru fimm hestar, fæst afsláttur, sem gæti numið 15% og farið upp í 25%, ef fluttur er heill bílfarmur af hrossum, en í slíku tilviki er oft notað kílómetragjald.

Tengivagnar

Tengivagnar eða trailers hafa komið og farið. Um þessar mundir er Benedikt Jóhannsson í Faxaflutningum sennilega einn á markaðinum eða einn af sárafáum. Slíkir vagnar taka oftast um 12 hesta. Gjaldskrá er svipuð og hjá stóru bílunum eða ívið lægri.

Álagstímar

Mest er að gera í hestaflutningum í desember-janúar, þegar fólk tekur á hús og síðan í júní, þegar hross eru flutt í haga. Tamningamenn nota flutninga mikið í marz-apríl fyrir flutninga með stök hross. Á sumrin eru flutningar vegna gangmála og ferðalaga, en lítið vegna sýninga, því að sýningamenn eru mest með eigin kerrur.

Hestakerrusalar

Þröstur Karlsson er umsvifamesti hestakerrusali landsins með Humbaur kerrur. Næstur honum kemur Hinrik Gylfason með Böckman kerrur. Þriðji í röðinni er sennilega Sigurgeir Þórðarson í Víkurvögnum, sem smíðar kerrur að fullu og selur einnig undirvagna til annarra kerrusmiða, sem eru nokkrir, en fæstir umsvifamiklir. Allar þessar kerrur eru hannaðar fyrir íslenzkan markað, en eru misgóðar utan malbiks.

Hestakerruverð

Algengt verð á sex hesta kerru er 1,5-1,6 m.kr., á fimm hesta kerru 1,4-1,5 m.kr., á fjögurra hesta kerru 1,1-1,2 m.kr., á þriggja hesta kerru 0,7-0.8 m.kr. og á tveggja hesta kerru um 0,7 m.kr. Öll eru þess verð með vaski og miðuð við, að kerran sé komin á götuna.

Hestakerruleiga

Hrímfaxi á Heimsenda leigir tveggja og þriggja hesta kerrur á klukkutímagjaldi og sólarhringagjaldi. Fimm klukkustundir kosta 4.000 kr á tveggja hesta kerru og 5.000 kr á þriggja hesta kerru. Sólarhringur kostar 8.000 kr á tveggja hesta kerru og 10.000 kr á þriggja hesta kerru. Allar þessar tölur eru með virðisaukaskatti. Kerrurnar eru kaskótryggðar með sjálfsábyrgð.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Hestamenn orðnir snyrtilegir

Hestar

Hestamenn orðnir snyrtilegir

Eiðfaxi spurði verzlunarstjóra nokkurra hestavöruverzlana um breyttar áherzlur viðskiptavina, tízkustrauma og varanlegar breytingar á vöruvali fólks á vetrarvertíðinni. Svörin voru fjölbreytt, en flestir voru sammála um, að hestamenn verðu sífellt meiri peningum í fatnað og væru mun betur til fara á hestbaki en áður var

Arnar Guðmundsson í Ástund:

Við seljum meira af ópottuðum skeifum en áður og gjarnan með uppslætti. Fleiri tegundir loftpúðahnakka eru komnar til sögunnar og hnakkar eru aftur farnir að sækja á dýnurnar, sem voru í tízku á tímabili. Undirdýnur seljast betur en áður og yfirbreiðslur eru farnar að seljast. Amerísku mélin með koparflögum og þriggja málma mél eru vaxandi hluti af sölu méla. Sala á græjum fyrir hringtaum og frumtamningar hefur aukizt. Skór og skóbuxur hafa leyst stígvél og hefðbundnar reiðbuxur af hólmi. Vatnsgallar hafa meira eða minna vikið fyrir vatnsheldum öndunarefnum á borð við goritex. Hjálmar seljast vel, eru öruggari en áður, efnismeiri, en hafa ekki þyngzt. Hestamenn kaupa meira af fatnaði en áður, eiga meira til skiptanna og eru mun betur til fara við útreiðar og þjálfun.

Birgir Skaptason í Ístölti:

Mesta breytingin er fólgin í því, að fólk gerir betur við sig í fatnaði og reiðtygjum en áður. Það er snyrtilega klætt, þegar það ríður út á veturna. Aukizt hefur sala á sérhæfðum fatnaði fyrir hestamenn. Einnig er meira um, að menn hafi sérstök reiðtygi fyrir hvern hest, einkum sérstakan beizlabúnað. Þetta fylgir reiðskólunum og aukinni fagmennsku. Hirðingarvörur á borð við hestasjampó seljast líka miklu meira en áður, hugsanlega vegna þess að hitaveita er komin í hesthús og þau eru loftbetri og lykta ekki lengur. Þá eru hjálmar orðnir betri en áður og nú eru nær eingöngu í boði hjálmar samkvæmt Evrópustaðli.

Bjarni Þór Sigurðsson í Hestum og mönnum:

Uppsláttarskeifur seljast í auknum mæli. Einföld höfuðleður án kverkólar og ennisbands eru í aukinni sölu. Sívöl höfuðleður eru að koma inn í vaxandi mæli. Hirðingarvörur hafa stóraukizt í sölu, ef til vill vegna þess að fólk heldur hrossunum betur til í húsum, þar sem búið er að leggja hitaveitu. Fólk gerir meira við sig í fatnaði en áður, á til dæmis meira til skiptanna. Almennt er fólk næmara fyrir verði en áður og leitar að vöru á sanngjörnu verði. Við reynum að bregðast á réttan hátt við þeirri breytingu á markaðinum.

Gunnar Már Gunnarsson í MR-búðinni:

Við seljum meira en áður af vandaðri höfuðleðrum og höfuðleðrum án kverkólar. Hringamél breiðast út á kostnað stanga. Stígvél eru að víkja fyrir reiðskóm og gegningaskóm og þar af leiðandi eru skóbuxur að ryðja stígvélabuxum til hliðar. Sala á hnökkum er farin að aukast á kostnað sölu á dýnum, enda er verðmunur ekki mikill. Stóraukizt hefur sala á magnesíumblokkum, sem ekki renna og henta því fyrir gerði. Að flestu öðru leyti eru innkaupavenjur hestamanna svipaðar í vetur og þær hafa verið undanfarna vetur. Við höfum tekið inn fleiri vörutegundir eftir að Töltheimar hættu og erum ánægðir með söluna, sem er jöfn og góð.

Ragna Gunnarsdóttir í Baldvin & Þorvaldi:

Þrískipt mél seljast núna miklu meira en hefðbundin mél, sömuleiðis einföld höfuðleður eða höfuðleður með ennisól. Menn kaupa meira en áður sérsmíðaða hnakka, sem við framleiðum eftir óskum hvers og eins. Sala í skálmum, saumuðum eftir máli, er stöðug, leðurskálmum fyrir útlendinga og rúskinnsskálmum fyrir Íslendinga. Fólk er snyrtilegra til fara en áður, þegar það ríður út og kaupir meira af sérhönnuðum reiðfatnaði. Stígvél eru að hverfa úr sölu og leðurskór með teygju, með eða án stáltár, eru farnir að yfirgnæfa gegningaskó, sem eru úr gúmmí að neðan. Sala á pottuðum skeifum eykst á kostnað ópottaðra og uppsláttarskeifur er sífellt meira keyptar.

Nýtt í búðunum

Ástund er farin að bjóða Eyjólfs-stangir, hannaðar af Eyjólfi Ísólfssyni. Stangirnar kosta 19.000 og 20.000 krónur.

Hestar og menn eru komnir með samtvinnaða þverbakstösku með hliðartöskum úr vatnsheldu og níðsterku næloni, framleiddar af Top Reiter eftir amerískri fyrirmynd. Verðið er 6.900 krónur.

Ístölt er búið að fá í sölu Body Guard öryggisúlpur úr næloni frá Mountain Horse. Þetta eru léttar úlpur með árekstrapúðum í fóðrinu. Púðarnir eru fyrirferðarlitlir og þá má fjarlægja. Tilboðsverð er 19.900 krónur.

MR-búðin er farin að selja Jacson fatnað fyrir hestamenn. Meðal annars eru komin Lyx regnföt, jakki og buxur úr sérstaklega styrktu og vatnsþéttu næloni með soðnum saumum og rennilásum upp skálmarnar, svo og bandi undir iljar. Verðið er 8.900 krónur fullorðinsstærð.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Lærdómsríkar ferðasögur

Hestar

Reyndir hestaferðamenn hafa flestir lent í lærdómsríkum aðstæðum, sem geta verið fróðlegar fyrir aðra hestaferðamenn, svo að þeir geti komizt hjá því að lenda í svipuðum vanda. Hér birtast tvær fyrstu smásögurnar af þessu tagi:

Á lausgirtu í Kýlingum

Valdimar K. Jónsson:

Einu sinn vorum við að fara austur Fjallabaksleið og beittum hrossunum í Kýlingum. Ég var á ungum og hörðum hesti, tafðist við að hjálpa manni á bak og átti síðan eftir að fara sjálfur á bak, þegar allir voru farnir af stað og ég stóð einn eftir. Gjörðin reyndist þá vera of laus og hesturinn fór að hrekkja með flugstungum, þegar ég hoppaði í hnakkinn. Eftir lítið hlé byrjaði hesturinn aftur og jók síðan hrekkina með vindingum í stungunum, svo að ég flaug af og lenti harkalega á bakinu. Hesturinn sleit hins vegar ítökin og setti hnakkinn af sér. Hesturinn náðist þó fljótlega, en ég mátti rölta nokkurn spöl til hópsins. Síðan hef ég reynt að muna að herða gjörðina áður en farið er af stað. Sumir hestar belgja sig mikið út, þegar girt er.

Áttaviti og GPS

Þormar Ingimarsson:

Einu sinni lenti ég í villu í góðu skyggni á leið úr Skaftárdal í Holtsdal. Einn maður í hópnum hafði farið þetta áður. Ég var í eftirreið þennan daginn, en var með áttavita og skildi ekki, af hverju var alltaf farið í norður, en ekki í austur. Í áningu kom svo í ljós, að maðurinn hafði hvorki áttavita né kort og fór bara eftir gloppóttu minni. Eftir skoðun á korti var ákveðið að fara til austurs og þannig komumst við að lokum í efstu drögin á réttum dal. Áður en svona dagleið er farin, þarf að fá nákvæma leiðsögn um, hvar er farið inn á sérleið, því að annars getur maður farið framhjá og lent í tómri vitleysu. Þetta minnir líka á mikilvægi áttvita og GPS-tækja.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Sýnd veiði

Hestar

Tillögur meirihluta reiðveganefndar um 38 milljón króna árlegt viðbótarframlag til reiðvega næstu fjögur árin jafngildir um það bil tvöföldun á framlagi til reiðvega.

Þetta er þó sýnd veiði, en ekki gefin, því að fulltrúi fjármálaráðuneytisins í nefndinni var ekki sammála niðurstöðunni og skilaði séráliti. Hann benti á, að tillagan væri “á skjön við efni skipunarbréfs nefndarinnar”, þar sem kemur fram, að henni sé ætlað að starfa með hliðsjón af því, að hlutfallslega verði “ekki veitt miklu meira fé af samgönguáætlun til reiðvegagerðar en nú er” gert.

Því verður ekki séð, að starf nefndarinnar komi hestamönnum að neinu gagni. Málið er í hnút milli ráðuneyta og tillaga meirihlutans nær ekki fram að ganga.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins vísaði í séráliti sínu á aðra leið til að bæta úr fjárskorti til reiðvega. Hann benti á samkomulag vegagerðarinnar og Landssambands hestamannafélaga frá 1982, þar sem m.a. er gert ráð fyrir, að við lagningu vega með bundnu slitlagi sé lögð reiðleið við hlið bílvegarins eða á öðrum stað, kostuð af nýbyggingarfé vegarins samkvæmt samgönguáætlun, en ekki af eyrnamerktu reiðvegafé.

Vegagerðin hefur í fæstum tilvikum farið eftir þessu samkomulagi og getur tæplega skotið sér á bak við, að ekki hafi komið tillaga um reiðleiðina frá samstarfsnefnd vegagerðarinnar og Landssambands hestamannafélaga, því að yfirleitt hefur þessi nefnd sem slík ekki fengið upplýsingar um bundið slitlag, fyrr en of seint.

Af skjölum reiðveganefndar kemur ekki fram, að nefndin hafi skoðað ábendingu fulltrúa fjármálaráðuneytisins eða gert tilraun til að ná samkomulagi um, að reiðleiðir séu lagðar fyrir nýbyggingarfé vega og án aðildar sérstaks reiðvegafjár, á þeim stöðum þar sem lagning slitlags síðan 1982 hefur spillt umferð hestamanna. .

Sú aðferð hefði þó í senn fullnægt óskum hestamanna um aukið fé til reiðvega og fullnægt skipunarbréfi nefndarinnar um hömlur á aukningu sérstaklega eyrnamerkts reiðvegafjár.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi, 3.tbl. 2003