Hestar

Lærdómsríkar ferðasögur

Hestar

Reyndir hestaferðamenn hafa flestir lent í lærdómsríkum aðstæðum, sem geta verið fróðlegar fyrir aðra hestaferðamenn, svo að þeir geti komizt hjá því að lenda í svipuðum vanda. Hér birtast tvær fyrstu smásögurnar af þessu tagi:

Á lausgirtu í Kýlingum

Valdimar K. Jónsson:

Einu sinn vorum við að fara austur Fjallabaksleið og beittum hrossunum í Kýlingum. Ég var á ungum og hörðum hesti, tafðist við að hjálpa manni á bak og átti síðan eftir að fara sjálfur á bak, þegar allir voru farnir af stað og ég stóð einn eftir. Gjörðin reyndist þá vera of laus og hesturinn fór að hrekkja með flugstungum, þegar ég hoppaði í hnakkinn. Eftir lítið hlé byrjaði hesturinn aftur og jók síðan hrekkina með vindingum í stungunum, svo að ég flaug af og lenti harkalega á bakinu. Hesturinn sleit hins vegar ítökin og setti hnakkinn af sér. Hesturinn náðist þó fljótlega, en ég mátti rölta nokkurn spöl til hópsins. Síðan hef ég reynt að muna að herða gjörðina áður en farið er af stað. Sumir hestar belgja sig mikið út, þegar girt er.

Áttaviti og GPS

Þormar Ingimarsson:

Einu sinni lenti ég í villu í góðu skyggni á leið úr Skaftárdal í Holtsdal. Einn maður í hópnum hafði farið þetta áður. Ég var í eftirreið þennan daginn, en var með áttavita og skildi ekki, af hverju var alltaf farið í norður, en ekki í austur. Í áningu kom svo í ljós, að maðurinn hafði hvorki áttavita né kort og fór bara eftir gloppóttu minni. Eftir skoðun á korti var ákveðið að fara til austurs og þannig komumst við að lokum í efstu drögin á réttum dal. Áður en svona dagleið er farin, þarf að fá nákvæma leiðsögn um, hvar er farið inn á sérleið, því að annars getur maður farið framhjá og lent í tómri vitleysu. Þetta minnir líka á mikilvægi áttvita og GPS-tækja.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Sýnd veiði

Hestar

Tillögur meirihluta reiðveganefndar um 38 milljón króna árlegt viðbótarframlag til reiðvega næstu fjögur árin jafngildir um það bil tvöföldun á framlagi til reiðvega.

Þetta er þó sýnd veiði, en ekki gefin, því að fulltrúi fjármálaráðuneytisins í nefndinni var ekki sammála niðurstöðunni og skilaði séráliti. Hann benti á, að tillagan væri “á skjön við efni skipunarbréfs nefndarinnar”, þar sem kemur fram, að henni sé ætlað að starfa með hliðsjón af því, að hlutfallslega verði “ekki veitt miklu meira fé af samgönguáætlun til reiðvegagerðar en nú er” gert.

Því verður ekki séð, að starf nefndarinnar komi hestamönnum að neinu gagni. Málið er í hnút milli ráðuneyta og tillaga meirihlutans nær ekki fram að ganga.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins vísaði í séráliti sínu á aðra leið til að bæta úr fjárskorti til reiðvega. Hann benti á samkomulag vegagerðarinnar og Landssambands hestamannafélaga frá 1982, þar sem m.a. er gert ráð fyrir, að við lagningu vega með bundnu slitlagi sé lögð reiðleið við hlið bílvegarins eða á öðrum stað, kostuð af nýbyggingarfé vegarins samkvæmt samgönguáætlun, en ekki af eyrnamerktu reiðvegafé.

Vegagerðin hefur í fæstum tilvikum farið eftir þessu samkomulagi og getur tæplega skotið sér á bak við, að ekki hafi komið tillaga um reiðleiðina frá samstarfsnefnd vegagerðarinnar og Landssambands hestamannafélaga, því að yfirleitt hefur þessi nefnd sem slík ekki fengið upplýsingar um bundið slitlag, fyrr en of seint.

Af skjölum reiðveganefndar kemur ekki fram, að nefndin hafi skoðað ábendingu fulltrúa fjármálaráðuneytisins eða gert tilraun til að ná samkomulagi um, að reiðleiðir séu lagðar fyrir nýbyggingarfé vega og án aðildar sérstaks reiðvegafjár, á þeim stöðum þar sem lagning slitlags síðan 1982 hefur spillt umferð hestamanna. .

Sú aðferð hefði þó í senn fullnægt óskum hestamanna um aukið fé til reiðvega og fullnægt skipunarbréfi nefndarinnar um hömlur á aukningu sérstaklega eyrnamerkts reiðvegafjár.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi, 3.tbl. 2003

Vona að sterkur maður finnist

Hestar

Guðni Ágústsson:

Sendiherra eða umboðsmaður íslenzka hestsins er samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta, landbúnaðarráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og samgönguráðuneytisins. Flugleiðir og Búnaðarbankinn koma einnig að verkefninu sem styrktaraðilar.

Hlutverk sendiherrans er að halda fram forustuhlutverki Íslands sem upprunalands íslenzka hestsins og höfuðlands kynbóta, ræktunar og fagmennsku í hestamennsku. Sendiherrann á að hafa samstarf við sendiráð og ræðismannsskrifstofur Íslands um allan heim, svo að þessir aðilar geti gefið sem beztar upplýsingar um íslenzka hestinn.

Markmiðið er að efla jákvæða ímynd hrossaræktar og hestamennsku og auka sölu á íslenzka hestinum og hestatengdri vöru og þjónustu innanlands og utan. Sendiherrann á að taka þátt í sýningum, ráðstefnum, kaupstefnum og almennri landkynningu. Hann fær hagsmunaaðila til að taka sameiginlega þátt í slíkum viðburðum.

Einnig á hann að vera í góðu sambandi við íslenzka hestamenn og félagskerfi þeirra hér heima og erlendis. Ennfremur er æskilegt, að hann efli áhuga á hestamennsku innanlands með fræðslu og kynningu í skólum.

Umboðsmaðurinn er hugsaður sem mikilvægur upplýsingagjafi og sterkt sameiningarafl og raunar talsmaður íslenzkra hestamanna. Ég bind miklar vonir við þetta embætti og vona að sterkur maður finnist til að gegna hlutverkinu með sóma.

Sitt sýnist hverjum um sendiherrann

Gunnar Arnarson hrossaútflytjandi:

Þetta er vafalaust vel meint, en um leið mjög tvíbent. Ég set allt í bremsu, þegar ég heyri svona hugmyndir. Ég sé fyrir mér einhvern kall, sem fer um allt og svo gerist ekki neitt. Við erum með alls konar stofnanir í hestamennskunni og þetta er ein silkihúfan ofan á hinar. Við höfum þegar Hestamiðstöð, Átaksverkefni og Heiðursvörð. Ég sé ekki fyrir mér, að þetta fyrirhugaða embætti virki. Það kallar á gríðarlega þekkingu viðkomandi manns. Ég efast um, að til séu framsóknarmenn í þetta allt saman. Við eigum þegar marga öfluga sendiherra íslenzka hestsins í útlöndum. Þar gilda vinnubrögðin maður á mann. Í stórum dráttum ætti ríkisvaldið að láta okkur sem mest í friði. Peningar eru því aðeins vel þegnir, að sjá megi fyrir, að eitthvert gagn verði að þeim, annars gera þeir illt verra.

Hróðmar Bjarnason í Eldhestum:

Allt slíkt framtak er gott, sem kynnir íslenzka hestinn. Hins vegar er ekki sama, hvernig þetta er útfært og hver gerir það. Ég sé fyrir mér, að umboðsmaðurinn sjái um að framleiða fyrsta flokks kynningarefni til notkunar erlendis og sjái um, að það sé sem víðast sýnilegt, til dæmis í hestatímaritum á erlendum tungumálum. Svo þarf hann að vera mjög virkur á netinu. Hann getur líka styrkt aðild Íslendinga að kaupstefnum og sýningum erlendis á þessu sviði, svo að þátttaka Íslendinga í sýningunum sé til mikils sóma. Mikilvægt er líka, að hann sé hlutlaus aðili, sem allir geta sætt sig við. Og það getur reynzt erfitt að finna slíkan mann, því að landið er lítið og ágreiningsefnin mörg.

Jón Albert Sigurbjörnsson formaður LH:

Ég vil ekki loka á þessa hugmynd, en ég vil skoða hana mjög vel og sjá betur, hvaða útfærslur koma til greina. Mér hugnast illa, að alltaf er verið að finna upp nýjar stofnanir í stað þess að efla það starf, sem fyrir er. Mér finnst heldur ekki gott, ef þessi nýja ríkisstofnun fer í samkeppni við frjálsu félögin um styrktaraðila. Svo finnst mér, að skilgreina þurfi markaðsmál á víðum grundvelli.

Unglingstarf er markaðsmál og reiðvegir eru markaðsmál, svo að dæmi séu tekin. Það er ekki bara markaðsmál að selja hestinn. Ég legg líka áherzlu á, að enginn einn maður hefur yfirsýn yfir allt sviðið. Sem dæmi má nefna, að hér hjá landssambandinu erum við með sérfræðinga á ýmsum sviðum samskipta við útlönd. Að lokum legg ég áherzlu á, að einingum sé fækkað í hrossageiranum, svo að starfið verði sem skilvirkast.

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:

Ég held, að við getum haft mikið gagn af þessum aðila. Hestamennskuna vantar sérstakan mann í ýmis verkefni, svo sem að hafa forustu um aðild hagsmunaaðila að kaupstefnum í útlöndum og hafa forgöngu um að koma greininni á framfæri í fjölmiðlum. Auðvitað fer þetta mikið eftir manninum, sem verður fyrir valinu. Hann þarf að hafa vit á hrossum og vera vel menntaður og vel máli farinn á ýmsum tungumálum. Þetta þarf að vera Gunnar Bjarnason nútímans.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003.

Hesturinn minn

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Hesturinn minn

Á bak Álmi kom ég fyrst við hraunréttina í Kleppahrauni norðvestan við Strútinn. Það var sumarið 1991 í Tvídægruferð með Reyni Aðalsteinssyni á Sigmundarstöðum. Fjögurra vetra unghesturinn byrjaði að dansa dúnmjúkt tölt um leið og ég var kominn á bak og renndi sér á fulla ferð í átt til öræfanna.

Álmur leyfði mér að stýra, en vildi sjálfur ráða hraða og gangi. Aldrei fataðist honum taktvisst töltspor, þótt yfirferðin væri svipuð öðrum hestum á stökki. Þegar hann var kominn um það bil 20 metra fram úr samferðahestunum, slakaði hann á sér og valsaði áfram á góðri milliferð, reistur og stoltur.
Álmur leit ekki við Surtshelli, en fékkst loks til að stanza í Vopnalág.

Síðan tók við grýttur og seinfarinn áfangi yfir Þorvaldsháls að Helluvaði á Norðlingafljóti. Hann fékkst til að slá örlítið af hraðanum í grjótinu, en var ekki til viðtals um að gera sér hlaupin léttari með því að færa sig úr taktföstu danstölti yfir í traust brokk eða skeiðlull.

Álmur var kominn í mínar hendur fyrir tilviljun. Af Þorkeli Steinari Ellertssyni á Ármótum hafði ég keypt hest, sem ég var ekki viss um, að ég kynni við. Þorkell sagði mér að prófa hestinn betur á ferðalagi og taka með mér annan hest frá sér til viðbótar. Gæti ég þá að loknu ferðalagi valið hvorn, sem ég vildi heldur. Fyrri hesturinn heltist raunar og fór aldrei í ferðina. Síðari hesturinn er Álmur.

Hann er rauðglófextur og faxmikill, svipfríður og nettbyggður, ættaður úr Landeyjum. Föðurafi hans er lítt þekktur Kirkjubæingur, Reginn 866, sem er á ýmsa vegu út af Ljúfi 353 frá Hjaltabakka. Móðurafinn er þekktur skeiðgarpur, Fönix 903 frá Vík, af Svaðastaða- og Stokkhólmaættum. Móðuramman er Sunna, hryssa af hinu óstýriláta Stórulágarkyni, undan Hrafni 583 frá Árnanesi.

Frá Regin hefur Álmur sennilega litinn og fegurðina, frá Fönix teygjuna í vöðvunum og frá Hornfirðingunum í Árnanesi og Stórulág hefur hann örugglega óbeizlaðan kraftinn og úthaldið.

Álmur sá um, að gera mér ferðina ógleymanlega norður Tvídægru og Grímstunguheiði og síðan suður aftur um Haukagilsheiði. Ég sé hann enn fyrir mér eða finn frekar, hvernig hann fer reistur og stoltur fyrir hópnum góða götu létta á fótinn fram eftir Haukagilsheiði. Alltaf dansandi og alltaf áreynslulaust.

Snemma þótti fólki ráðlegt, að ég gluðaði ekki út og suður á þessum hesti, heldur riði settlega eins og góðborgara sæmir, sérstaklega í fjölmenni um helgar að vetrarlagi í Víðidal. Ekki gekk það vel, því að Álmur vildi enn ráða ferðahraða og skeytti engu, hvort hestar yrðu í vegi hans. Hann hljóp bara aftan á þá og hratt þeim til hliðar. Urðum við af þessu óvinsælir að makleikum.

Leitaði ég þá ráða hjá einum þekktasta tamningamanni og reiðkennara landsins. Réð hann mér að fara með hestinn í þröngt hringgerði og láta hann hamast þar, unz ofsinn rynni af honum. Prófaði ég þetta, en gafst fljótlega upp, því að Álmur varð hálfu trylltari af þrengslunum, gnísti tönnum og ólmaðist.

Stefán Pálsson bankastjóri hefur dálæti á Hornfirðingum og mikla reynslu af þeim. Hann sagði mér að reyna ekki að kúga Álm til hlýðni, ekki þrengja að svigrúmi hans og ekki fara mikið á honum í fjölmenni að sinni. Við skyldum heldur fara einir saman langar ferðir upp í heiði og gefa okkur góðan tíma. Helgi Leifur Sigmarsson tamningamaður bætti við, að ég skyldi fara nokkrum sinnum af baki, ganga með hestinum góðan spöl og tala við hann.

Ég fór að ráðum Stefáns og Helga Leifs. Smám saman róaðist Álmur nógu mikið til þess, að við urðum okkur ekki til skammar í fjölmenni. Hann hefur hins vegar aldrei sætt sig við að vera ekki fremstur í flokki, þar sem margir fara saman. Hann sættir sig þó við að hafa annan sér við hlið í hópreið. Við rekstur er hann enn ónothæfur í eftirreið.

Lengi vel var tölt eini gangur Álms. Hann byrjaði meira að segja að dansa tölt í kyrrstöðu, þegar farið var á bak. Helgi Leifur kom honum þó á brokk með ærinni fyrirhöfn, en ráðlagði mér að vera ekki að eyða mikilli orku í það. Hann sagði, að þessi hestur væri bara til í einu eintaki og ég skyldi láta mér það vel líka.

Til að sýna mér ganghæfni Álms lagði Bjarni Eiríkur Sigurðsson skólastjóri hestinn á tilþrifamikið flugaskeið fyrir hrifna áhorfendur við Brennistaði í Flókadal sumarið 1992. Síðan hefur hesturinn ekki verið skeiðlagður, enda hef ég ágætan hest til þess, rólegan, traustan og kraftmikinn skeiðara.

Tilraunir okkar til stökks enduðu með skelfingu meðfram Suðurlandsvegi andspænis Rauðhólum. Á ofsahraða rak Álmur hófinn í stein og kútveltist. Ég lá óvígur eftir í vegkantinum. Á Slysadeild kom ég með hægra lærið tvöfalt af innri blæðingu og var sett í það frárennslislögn. Ekki hefur sú gangtegund verið prófuð frekar.

Síðan lærði Álmur að feta, sérstaklega í upphafi reiðar. Nú er svo komið, að hann er sáttur við að feta af stað frá hesthúsi og hita sig þannig upp fyrir dansinn. En hann kærir sig ekki um að vera truflaður af öðrum hestum. Þá fer hann fljótlega að dansa innra með sér og leita eftir tölti.

Smám saman höfum við Álmur sætt okkur hvor við annan eins og við erum. Ég fæ að ráða mestu um, hvort fetað sé eða tölt. Hann fær að ráða mestu um hraðann. Ég fæ að ráða áttinni og hafa hófleg áhrif á hraðann. Við erum ekki vinsælir í eftirreið, en erum góðir í að ná upp hraða í forreið.

Við höfum séð mikið af landinu á sumrin, Kjöl og Sprengisand, allar húnvetnsku heiðarnar og Tvídægru, Gnúpverjaafrétt og Arnarfell hið mikla. Alltaf er Álmur jafn léttur og fimur, reistur og stoltur, ör og harðfenginn. Alltaf er hann svo mjúkur í gangi, að hann er hvíld frá öðrum hestum, þótt góðir séu.

Álmur er ekki líkur neinum hesti, sem ég hef kynnzt. Í eigu okkar hjóna eru fjórir úrvals töltarar, sem hafa vel við honum á yfirferðinni, og er einn þeirra einnig vakur og annar flugvakur. En eðli þeirra er annað og rólegra, þeir dansa ekki í kyrrstöðu og þeir taka tillit til aðstæðna og ábendinga.

Álmur er styggur og fer undan í flæmingi, þegar á að beizla hann. Svo ákveður hann skyndilega, að hann hafi sýnt nægt sjálfstæði að sinni og stendur grafkyrr, meðan hann er beizlaður. Það er meira að segja hægt að setja hnakkinn á, áður en hesturinn er beizlaður.

Í fyrstu var Álmur einrænn og lítill fyrir sér í hesthúsi, vék fyrir öðrum hestum og vildi fá að vera í friði. Smám saman hefur hann þó fetað upp goggunarröðina og er nú, tíu vetra gamall, orðinn leiðtogi hópsins án þess að vera með nein læti við aðra hesta. Yfirleitt líður honum vel á húsi, er hreinlátur og glansar á feldinn, en beinir oft höfðinu til fjalla og bíður eftir sumri.

Raunar held ég, að Álmur sé af öðru hestakyni, sennilega af því kyni, sem þjóðsögur segja, að sé með álfum. Kannski fæ ég að fara með honum, þegar hann langar til að leita á slóðir upprunans. Ég reyni því að koma mér í mjúkinn hjá honum.

Úrval 3. hefti 1997