Hestar

Ameríka: Allt önnur álfa

Hestar

Sigurbjörn Bárðarson:

Þegar ég byrjaði að selja hross til Bandaríkjanna árin 1985-1986, rak ég mig smám saman á, að markaðurinn þar er að ýmsu leyti öðru vísi en Evrópumarkaður. Fólk kom á skrautsýningar okkar, hreifst af íslenzku hestunum, stóð upp og klappaði óskaplega mikið. En það kom ekki eftir sýninguna til að kaupa hest.

Þar vestra eru menn lengur að ákveða sig en við höfðum vanizt frá Evrópu. Bandaríkjamenn taka sér margfalt meiri tíma. Þeir skoða hest og fara síðan heim til að hugsa málið. Þeir vilja koma aftur eftir tvær vikur og skoða hann betur og kannski aftur og aftur. Það getur tekið mánuð eða jafnvel þrjá mánuði að ljúka sölu á hesti, hvort sem kaupandinn er efnamaður eða ekki.

Ég varð að fara aðrar leiðir til viðbótar við sýningarnar. Smám saman byggði ég upp póstlista með 200-400 nöfnum. Þetta er fólk, sem á íslenzka hesta eða eru viðloðandi hann á annan hátt. Ég geri myndbönd með söluhestum og sendi til 120-130 nafna af listanum. Öllu þessu er fylgt eftir með símtölum og tölvupósti eftir því sem við á, svo og einföldum námskeiðum, þar sem fólki er kennt að láta sér líða vel á íslenzkum hesti. Með þessu tókst mér að tífalda söluna til Bandaríkjanna á stuttum tíma.

Bandaríkjamarkaður þarf að mörgu leyti öðru vísi hesta en Evrópumarkaður, sem kaupir mest ræktunarhross, keppnishesta og dýra hesta frá Íslandi, en er meira eða minna sjálfum sér nógur í millihrossum. Bandaríkjamenn vilja og þurfa meira af myndarlegum, þægum, traustum, fallegum, hreingengum, einföldum og taugasterkum fjölskylduhestum, sem sýna engin snögg viðbrögð og eru kyrrir, þótt menn gefi sér góðan tíma til að fara á bak. Öryggið skiptir meira máli í Bandaríkjunum en í Evrópu.

Þar sem Bandaríkin eru víðlend og þar sem salan gengur hægar þar en í Evrópu, mun taka mjög langan tíma fyrir þá að framleiða sín eigin millihross.
Þegar ég hafði komizt að raun um, hvað Bandaríkjamarkaðurinn þurfti, lét ég boð út ganga, að ég mundi ferðast um landið og skoða hross, sem uppfylltu þessi skilyrði. Mér voru sýnd 500-600 hross, en innan við 15% uppfylltu skilyrðin, all 80-90 hross. Hitt voru bara bikkjur, mestmegnis lítið tamdar.

Ef menn kaupa sex hross eða fleiri, sendi ég mann með þeim, sem er ytra í mánuð til að kenna fólki, svo að því líði vel á hestbaki. Síðan held ég áfram að vera í sambandi með tölvupósti til að svara fyrirspurnum um hrossin. Þetta er eins og að láta ábyrgðarskírteini fylgja, enda þarf ég að byggja upp góðan orðstír í Bandaríkjunum. Hestarnir, sem ég er búinn að selja, eiga að selja hrossin, sem ég á eftir að selja.

Það hefnir sín á útflutningi héðan, ef menn selja ódýr og léleg hross með ljósmyndum á netinu. Ljósmyndir sýna ekki raunveruleika lifandi hests. Þegar ég sendi 25 mínútna myndband af hesti, fara 10 mínútur í að sýna, hvernig komið er að hestinum, taumurinn hengdur upp á eyrað, pískurinn látinn strjúka hestinn og hnakknum fleygt hirðuleysislega á bak án þess að hesturinn láti sér bregða.

Á þessu sér kaupandinn, hvort hesturinn er traustur og rólegur eða ekki. Hann á raunar alltaf að heimta slík myndskeið.

Allt önnur hefð

Gunnar Arnarson:

Hestahefð í Bandaríkjunum er önnur en í Evrópu, þar sem margir unglingar hafa sótt klassíska reiðskóla og eru undir það búnir að umgangast íslenzka hestinn. Að svo miklu leyti, sem menn hafa lært að umgangast hesta í Bandaríkjunum, er það oftast í Western reiðmennsku, sem hentar ekki íslenzka hestinum. Bendingar eru til dæmis allt aðrar en þær, sem hestar venjast í tamningu á Íslandi og í klassíska reiðskólanum í Evrópu.

Að meðaltali eru Bandaríkjamenn því verr undir það búnir að ríða íslenzkum hestum en viðskiptavinir okkar í Evrópu. Af þessari ástæðu hlýtur reiðkennsla að vera mjög mikilvægur þáttur í reiðhrossasölu til Bandaríkjanna.

Miðaldra konur er að miklum hluta kaupendur íslenzka hestsins í Bandaríkjunum. Þær vilja fyrst og fremst þæg og auðveld hross, sem eru fulltaminn, þegar þau eru seld. Þangað þarf að velja hross, sem eru góð í umgengni og ekki of viljug eða viðkvæm. Við teljum, að íslenzkir seljendur hrossa séu almennt meðvitaðir um þessi sérkenni bandaríska markaðarins.

Notkun netsins við kaup og sölu á hrossum er meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu. Sumir seljendur hér á landi hafa sérhæft sig í slíkri sölu til Bandaríkjanna. Þeir eru vel sýnilegir á bandarískum spjallrásum um íslenzka hestinn og eru því í góðu sambandi við markaðinn þar.

Fullkomið traust

Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum:

Aðalatriðið á Ameríkumarkaði er, að fullkomið traust ríki milli kaupanda og seljanda. Þar eru menn ekkert í happa- og glappaaðferðum í hestakaupum. Fólk vill fyrst og fremst trausta og örugga hesta með hreinu tölti. Margir eru byrjendur í þessu. Þeir vilja hesta, sem eru ekki sjónhræddir á skógargötum.

Hjá mér byrjaði þetta sem áhugi á að fríska upp á enskukunnáttu mína frá skólaárunum. Ég fór að skrifast á við fólk í Bandaríkjunum. Sonur minn fór að vinna við hross þar vestra og við eignuðumst fullt af vinum. Öll þessi sambönd selja hesta, þegar til langs tíma er litið. Þetta hlóð utan á sig.

Nú orðið fara samskiptin mest fram í tölvupósti og í minna mæli í síma. Ég er líka með heimasíðu, þar sem eru upplýsingar og myndir af hestum frá mér, nágrönnum mínum og öðrum félögum í hrossaræktarsamböndunum í Húnaþingi. Ef fólk hefur áhuga á nánari atriðum, getur það fengið send myndbönd.
Þetta er ekki stór markaður, en á mikla framtíð fyrir sér.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Þið fáið sprautur

Hestar

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir:

Áður fyrr var lyfið Metamisol notað gegn hrossasótt, sprautað í vöðva. Það hafði litlar hliðarverkanir, svo að ekki kom að sök, þótt röng sjúkdómsgreining lægi að baki notkunar þess, sem gat til dæmis komið fyrir hjá hestamönnum á ferðalagi í óbyggðum
Komið er til sögunnar nýtt lyf, sem er áhrifameira, en vandmeðfarnara að því leyti, að því þarf að sprauta í æð. Það er einnig þess eðlis, að fagmaður þarf að ákveða, hvort um hrossasótt sé að ræða, áður en það er notað. Þetta lyf mega aðeins dýralæknar nota.

Af þessum ástæðum var hætt að afgreiða sprautur í fyrrasumar í sjúkrakassa, sem hestamenn fengu til langferða í óbyggðum. Í stað þess var sett inntökulyf, svokallað Glaubersalt. Ég veit, að þetta er lakari kostur fyrir hestamenn, af því að ekki er auðvelt að koma inntökulyfjum ofan í hesta.

Vandinn hefur hins vegar verið sá, að gamla Metamisol lyfið er ekki lengur framleitt hér á landi og raunar víðast hvar. Það var talið komið úr framleiðslu. Ég hef nú hins vegar komizt að raun um, að lyf þetta er enn framleitt erlendis og að hægt að fá það til landsins í litlu magni.

Þess vegna hef ég ákveðið að opna að nýju fyrir gömlu hrossasóttarsprauturnar fyrir hestamenn í langferðum í óbyggðum. Þeir geta í sumar fengið það í sjúkrakassa ferðarinnar hjá viðkomandi dýralækni, en þurfa aðeins að gæta þess að sækja um það með nægum fyrirvara, svo að lyfið verði örugglega til í tæka tíð.

Vona ég þar með að málið hafi fengið farsæla lausn, sem bæði menn og hestar á fjöllum geti sætt sig við.

Mjög góður kostur

Sigríður Björnsdóttir, yfirlæknir hrossasjúkdóma:

Metamízól er mjög góður kostur sem hrossasóttarlyf í neyðarkössum hestaferða, þar sem hægt er að gefa lyfið undir húð eða í vöðva og það veldur ekki aukaverkunum. Lyfið var tekið af skrá hér á landi sem víðar þar sem framleiðendur hafa ekki rannsakað hversu langan tíma hreinsun úr líkamanum tekur og þar af leiðandi hversu langur sláturfrestur sé á lyfinu. Nú hefur verið ákveðið (í Evrópusambandinu) að gefa megi hrossum slík (órannsökuð) lyf og skuli sláturfrestur vera 6 mánuðir. Það er því hægt er að flytja Metamízól inn á undanþágu en verið er að afla upplýsinga um kostnað.

Reglugerðin:

“11. gr.:Þrátt fyrir takmarkandi ákvæði þessarar reglugerðar, er dýralækni heimilt, að fengnu skriflegu leyfi yfirdýralæknis, að ávísa eiganda eða umráðmanni dýra eftirtöldum lyfjum í neyðarkassa til lengri ferðalaga, þegar gera má ráð fyrir að erfitt eða ómögulegt verði að ná í dýralækni:

1. Sýklalyf.

2. Lyf við hrossasótt.

3. Verkjastillandi lyf, þó ekki eftirritunarskyld lyf.

4. Staðdeyfilyf til útvortis notkunar.

5. Lyf til inntöku í ATC vet-flokki Q N 05 A A.”

Við viljum sprautur

Tilefni viðtalsins við Halldór Runólfsson yfirdýralækni hér til hliðar á síðunni eru ummæli nokkurra þekktra hestaferðamanna, sem Eiðfaxi hafði talað við. Þau fara hér á eftir.

Bjarni E. Sigurðsson:

Því miður er búið að taka af okkur hrossaveikissprautuna, sem áður bjargaði mörgum hestinum frá bráðum dauða. Ég man á Minni-Borg eftir hryssu, sem var svo illa haldin, að hún var lögzt. Eftir sprautuna var hún risin upp eftir tuttugu mínútur. Þessi sprauta var nauðsynlegust af öllu og óneitanlega er annarlegt að banna hana.

Einar Bollason:

Út í hött er sú breyting, sem gerð var í fyrra, að hætt var að afgreiða sprautur við hrossasótt í sjúkrakassa ferðamanna. Bændur fá þessar sprautur eins og skot og það ætti að vera enn meiri þörf fyrir þær á fjöllum, þar sem ekki er hægt að ná til dýralæknis. Það er ekki nóg með, að það eigi að láta okkur hafa þessar sprautur, heldur ætti beinlínis að halda námskeið í notkun þeirra. Glaubersaltið, sem við fáum, er seinvirkara og virkar raunar alls ekki í verstu tilvikum.

Hjalti Gunnarsson:

Ég væli út hrossasóttarsprautu, sem er bráðnauðsynleg, en ekki auðfengin. Mér finnst ekki í lagi að meina mönnum að hafa slíkar sprautur á ferðum um óbyggðir. Inntökulyfin eru miklu erfiðari í notkun og virka miklu hægar.

Viðar Halldórsson:

Það er mjög slæmt og raunar ótrúlegt, ef dýralæknar eru farnir að neita að láta menn hafa hrossasóttarsprautur fyrir langferðir, því að þessar sprautur voru það nauðsynlegasta í sjúkrakassanum. Sprautan er svo fljótvirk og auðveld í notkun, miklu meðfærilegri en glaubersaltið.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Vestið hans Baltasars

Hestar

Þetta segir hestaferðamaðurinn og listmálarinn Baltasar Samper um hlutina, sem komu upp úr vösunum á ferðavesti hans:

GPS er eitt nauðsynlegasta öryggistæki í hestaferðum í óbyggðum. Nauðsynlegt að vera búinn að æfa sig á tækið áður en til kastanna kemur, því að tækin eru ekki mjög notendavæn. Menn verða líka að æfa sig á sömu tegund og notuð verða í ferðinni, því að tæki mismunandi framleiðenda virka á misjafnan hátt. Þegar vandamál koma upp, þurfa menn að geta unnið hratt á tækið, í stað þess að fálma sig áfram. Menn þurfa til dæmis að geta gefið upp staðarákvörðun í síma fyrirvaralítið í neyðartilvikum.

Tækið þarf líka að vera vatnsþétt, því að vasar yfirhafna gegnblotna stundum. Mikilvægt er líka að muna að skipta um rafhlöður, svo að menn sitji ekki uppi með ónothæft tæki á örlagastundu. Einnig þurfa menn að muna að staðfesta á leiðinni, hvort tækið sýni rétta punkta með því að slá inn nýja punkta til samanburðar. Bezt er að hafa tæki, sem hefur að geyma íslenzkt landakort, sýnir rétta segulmisvísun á áttavitanum og sýnir einnig í hvaða átt menn þurfa að fara til að komast á fyrirhugaðan áfangastað. Menn þurfa að hafa fyrirfram æft sig á að ferðast eftir áttavitanum í tækinu.

Öll hnit hverrar dagleiðar tek ég upp af nákvæmu tölvukorti, 1 á móti 50.000 eða 1 á móti 100.000, áður en lagt er af stað í ferðina. Þessi hnit eru ekki mörg, en þau sýna brottfararstað og endastað, svo og mikilvægar staðsetningar á leiðinni, svo sem vöð, hlið, krossgötur og mikilvægar beygjur. Fyrir hverja dagleið prenta ég út tölvukort með hnitum, sem sýnir leiðina. Allir ferðafélagarnir hafa slíka útprentun. Fyrir utan þessa útprentun er gott fyrir hvern ferðafélaga að hafa kort, sem sýnir stærri hluta landsins til að sjá afstöðuna til kunnugra kennileita, sem eru utan svæðis útprentaða kortsins.

Ég er líka með kortahjól, sem mælir krókóttar vegalengdir á korti. Við niðurstöðutölurnar þarf að bæta 10%, af því að raunveruleg leið hestanna er alltaf aðeins lengri en leið hjólsins á kortinu. Einnig er ég með glæru, sem skiptir leitarkortareitum björgunarsveita í 24 reiti. Með því að bregða glærunni á kortið, get ég gefið björgunarsveit upp með nokkurri nákvæmni, númer þess reits landsins, sem ég er staddur á, ef hópurinn þyrfti á aðstoð að halda.

Ég er líka með minnisbók með vatnsþéttum blaðsíðum, þar sem hægt er skrifa nótur í rigningu. Svo er ég með Almannak háskólans, handhæga bók, þar sem hægt er að sjá flóðatöflur, upplýsingar um sólarupprás og sólsetur, misvísun á kompás og margvíslegar aðrar gagnlegar upplýsingar, svo sem um stjörnuhimininn. Það er meira að segja hægt að sjá, hvaða vikudagur, ef maður er svo afslappaður, að maður hafi gleymt því.

Lokuð gleraugu til notkunar í sandstormi geta komið að góðu gagni, til dæmis skíðagleraugu eða fjallageraugu, en ekki sundgleraugu, því að þau eru óþægileg. Allir ættu að vera með lítil vasaljós til að sveifla kringum sig til að vekja athygli á sér í myrkri og þoku, þegar ferðazt er síðsumars. Það er miklu þægilegra að nota ljós heldur en að vera að æpa og öskra.

Við erum með NMT síma í bílnum og nú orðið er ég með Iridium síma í vasanum. Þeir nota gervihnattasamband, sem er ekki eins dýrt og áður var. Hægt að taka sambandið á leigu fyrir 48 dollara í opnunar- og lokunargjald og 1.000 kr leigu á dag, fyrir utan notkunina sjálfa, sem kostar 1-1,5 dollara á mínútu. Þessir símar ná alls staðar sambandi og eru miklu léttari en NMT símar. Þeir fást til leigu í Radiomiðun á Grandagarði.

7-8 kg í vösunum

Undir þunnri goritex úlpu er Baltasar í vel ræstu skotveiðivesti með ótal vösum, þar sem hver vasi gegnir sínu sérstaka hlutverki. Alls er hann með 7-8 kíló af gagnlegum hlutum í vösunum. Þar að auki er hann svo með hníf og járningatæki í beltinu.

Efst til hægri er brjóstvasi fyrir GSM-síma. Til hliðar við hann er vasi fyrir munnhörpu. Fyrir neðan símavasann eru tveir litlir vasar, annar fyrir stækkunargler til kortalestrar og hinn fyrir áttavita með segulmisvísun. Efst til vinstri er lítill brjóstvasi fyrir tvö kortahjól til að áætla fjarlægðir á korti. Þar fyrir neðan er stærri vasi fyrir GPS-staðsetningartæki.

Að neðan til hægri er stór vasi fyrir hart geraugnahulstur með sólgleraugum. Þar er annar stór vasi fyrir Iridium-gervihnattasíma, sem nær sambandi hvar sem er á fjöllum. Þar er líka lítill vasi fyrir flugnanet. Vinstra megin að neðan eru nokkrir vasar, einn fyrir kíki, annar fyrir vasaljós, þriðji fyrir hófkrækju og sá fjórði fyrir ýmis gögn, svo sem minnisbók með vatnsþéttum blöðum, útskrift af korti af svæðinu og GPS-punktum leiðarinnar, svo og almannak háskólans.

Innan á vestinu er hægra megin að ofan brjóstvasi fyrr herforingjaráðskort í mælikvarðanum 1/100.000 eða 1/50.000. Vinstra megin er að ofan er vasi fyrir seðlaveski. Aftan á vestinu er stór og víður vasi með heildarkorti af Íslandi í mælikvarðanum 1/250.000.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Hesturinn minn

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Hesturinn minn

Á bak Álmi kom ég fyrst við hraunréttina í Kleppahrauni norðvestan við Strútinn. Það var sumarið 1991 í Tvídægruferð með Reyni Aðalsteinssyni á Sigmundarstöðum. Fjögurra vetra unghesturinn byrjaði að dansa dúnmjúkt tölt um leið og ég var kominn á bak og renndi sér á fulla ferð í átt til öræfanna.

Álmur leyfði mér að stýra, en vildi sjálfur ráða hraða og gangi. Aldrei fataðist honum taktvisst töltspor, þótt yfirferðin væri svipuð öðrum hestum á stökki. Þegar hann var kominn um það bil 20 metra fram úr samferðahestunum, slakaði hann á sér og valsaði áfram á góðri milliferð, reistur og stoltur.
Álmur leit ekki við Surtshelli, en fékkst loks til að stanza í Vopnalág.

Síðan tók við grýttur og seinfarinn áfangi yfir Þorvaldsháls að Helluvaði á Norðlingafljóti. Hann fékkst til að slá örlítið af hraðanum í grjótinu, en var ekki til viðtals um að gera sér hlaupin léttari með því að færa sig úr taktföstu danstölti yfir í traust brokk eða skeiðlull.

Álmur var kominn í mínar hendur fyrir tilviljun. Af Þorkeli Steinari Ellertssyni á Ármótum hafði ég keypt hest, sem ég var ekki viss um, að ég kynni við. Þorkell sagði mér að prófa hestinn betur á ferðalagi og taka með mér annan hest frá sér til viðbótar. Gæti ég þá að loknu ferðalagi valið hvorn, sem ég vildi heldur. Fyrri hesturinn heltist raunar og fór aldrei í ferðina. Síðari hesturinn er Álmur.

Hann er rauðglófextur og faxmikill, svipfríður og nettbyggður, ættaður úr Landeyjum. Föðurafi hans er lítt þekktur Kirkjubæingur, Reginn 866, sem er á ýmsa vegu út af Ljúfi 353 frá Hjaltabakka. Móðurafinn er þekktur skeiðgarpur, Fönix 903 frá Vík, af Svaðastaða- og Stokkhólmaættum. Móðuramman er Sunna, hryssa af hinu óstýriláta Stórulágarkyni, undan Hrafni 583 frá Árnanesi.

Frá Regin hefur Álmur sennilega litinn og fegurðina, frá Fönix teygjuna í vöðvunum og frá Hornfirðingunum í Árnanesi og Stórulág hefur hann örugglega óbeizlaðan kraftinn og úthaldið.

Álmur sá um, að gera mér ferðina ógleymanlega norður Tvídægru og Grímstunguheiði og síðan suður aftur um Haukagilsheiði. Ég sé hann enn fyrir mér eða finn frekar, hvernig hann fer reistur og stoltur fyrir hópnum góða götu létta á fótinn fram eftir Haukagilsheiði. Alltaf dansandi og alltaf áreynslulaust.

Snemma þótti fólki ráðlegt, að ég gluðaði ekki út og suður á þessum hesti, heldur riði settlega eins og góðborgara sæmir, sérstaklega í fjölmenni um helgar að vetrarlagi í Víðidal. Ekki gekk það vel, því að Álmur vildi enn ráða ferðahraða og skeytti engu, hvort hestar yrðu í vegi hans. Hann hljóp bara aftan á þá og hratt þeim til hliðar. Urðum við af þessu óvinsælir að makleikum.

Leitaði ég þá ráða hjá einum þekktasta tamningamanni og reiðkennara landsins. Réð hann mér að fara með hestinn í þröngt hringgerði og láta hann hamast þar, unz ofsinn rynni af honum. Prófaði ég þetta, en gafst fljótlega upp, því að Álmur varð hálfu trylltari af þrengslunum, gnísti tönnum og ólmaðist.

Stefán Pálsson bankastjóri hefur dálæti á Hornfirðingum og mikla reynslu af þeim. Hann sagði mér að reyna ekki að kúga Álm til hlýðni, ekki þrengja að svigrúmi hans og ekki fara mikið á honum í fjölmenni að sinni. Við skyldum heldur fara einir saman langar ferðir upp í heiði og gefa okkur góðan tíma. Helgi Leifur Sigmarsson tamningamaður bætti við, að ég skyldi fara nokkrum sinnum af baki, ganga með hestinum góðan spöl og tala við hann.

Ég fór að ráðum Stefáns og Helga Leifs. Smám saman róaðist Álmur nógu mikið til þess, að við urðum okkur ekki til skammar í fjölmenni. Hann hefur hins vegar aldrei sætt sig við að vera ekki fremstur í flokki, þar sem margir fara saman. Hann sættir sig þó við að hafa annan sér við hlið í hópreið. Við rekstur er hann enn ónothæfur í eftirreið.

Lengi vel var tölt eini gangur Álms. Hann byrjaði meira að segja að dansa tölt í kyrrstöðu, þegar farið var á bak. Helgi Leifur kom honum þó á brokk með ærinni fyrirhöfn, en ráðlagði mér að vera ekki að eyða mikilli orku í það. Hann sagði, að þessi hestur væri bara til í einu eintaki og ég skyldi láta mér það vel líka.

Til að sýna mér ganghæfni Álms lagði Bjarni Eiríkur Sigurðsson skólastjóri hestinn á tilþrifamikið flugaskeið fyrir hrifna áhorfendur við Brennistaði í Flókadal sumarið 1992. Síðan hefur hesturinn ekki verið skeiðlagður, enda hef ég ágætan hest til þess, rólegan, traustan og kraftmikinn skeiðara.

Tilraunir okkar til stökks enduðu með skelfingu meðfram Suðurlandsvegi andspænis Rauðhólum. Á ofsahraða rak Álmur hófinn í stein og kútveltist. Ég lá óvígur eftir í vegkantinum. Á Slysadeild kom ég með hægra lærið tvöfalt af innri blæðingu og var sett í það frárennslislögn. Ekki hefur sú gangtegund verið prófuð frekar.

Síðan lærði Álmur að feta, sérstaklega í upphafi reiðar. Nú er svo komið, að hann er sáttur við að feta af stað frá hesthúsi og hita sig þannig upp fyrir dansinn. En hann kærir sig ekki um að vera truflaður af öðrum hestum. Þá fer hann fljótlega að dansa innra með sér og leita eftir tölti.

Smám saman höfum við Álmur sætt okkur hvor við annan eins og við erum. Ég fæ að ráða mestu um, hvort fetað sé eða tölt. Hann fær að ráða mestu um hraðann. Ég fæ að ráða áttinni og hafa hófleg áhrif á hraðann. Við erum ekki vinsælir í eftirreið, en erum góðir í að ná upp hraða í forreið.

Við höfum séð mikið af landinu á sumrin, Kjöl og Sprengisand, allar húnvetnsku heiðarnar og Tvídægru, Gnúpverjaafrétt og Arnarfell hið mikla. Alltaf er Álmur jafn léttur og fimur, reistur og stoltur, ör og harðfenginn. Alltaf er hann svo mjúkur í gangi, að hann er hvíld frá öðrum hestum, þótt góðir séu.

Álmur er ekki líkur neinum hesti, sem ég hef kynnzt. Í eigu okkar hjóna eru fjórir úrvals töltarar, sem hafa vel við honum á yfirferðinni, og er einn þeirra einnig vakur og annar flugvakur. En eðli þeirra er annað og rólegra, þeir dansa ekki í kyrrstöðu og þeir taka tillit til aðstæðna og ábendinga.

Álmur er styggur og fer undan í flæmingi, þegar á að beizla hann. Svo ákveður hann skyndilega, að hann hafi sýnt nægt sjálfstæði að sinni og stendur grafkyrr, meðan hann er beizlaður. Það er meira að segja hægt að setja hnakkinn á, áður en hesturinn er beizlaður.

Í fyrstu var Álmur einrænn og lítill fyrir sér í hesthúsi, vék fyrir öðrum hestum og vildi fá að vera í friði. Smám saman hefur hann þó fetað upp goggunarröðina og er nú, tíu vetra gamall, orðinn leiðtogi hópsins án þess að vera með nein læti við aðra hesta. Yfirleitt líður honum vel á húsi, er hreinlátur og glansar á feldinn, en beinir oft höfðinu til fjalla og bíður eftir sumri.

Raunar held ég, að Álmur sé af öðru hestakyni, sennilega af því kyni, sem þjóðsögur segja, að sé með álfum. Kannski fæ ég að fara með honum, þegar hann langar til að leita á slóðir upprunans. Ég reyni því að koma mér í mjúkinn hjá honum.

Úrval 3. hefti 1997