Hestar

Afneitun tamningamanna

Hestar

Félag tamningamanna hesta er haldið hinni séríslenzku afneitunaráráttu. Sér ekkert athugavert við myndband af illri meðferð ógnandi tamningakonu á körgu hrossi. Virðist telja gagnrýni jaðra við einelti. Eina frambærilega leiðin við að temja hross er að vinna það á sitt band. Það gerir ekki stúlkan á myndbandinu. Þótt tamningafélagið segi hana hafa fengið háa einkunn á Hólum. Sú einkunn getur bara verið skólanum til háðungar. Ekki má ná kergju úr hrossi með því að binda það niður og þvinga til að hlaupa áfram. Hrossið ver sig auðvitað. Félag tamningamanna réttlætir þarna forkastanlegt dýraníð.

Dýraníð keppnismanna

Hestar

Munnáverkar fundust í um 45% keppnishrossa á Landsmóti hestamanna í sumar. Það er snögg aukning og endurspeglar aukna hörku í keppni. Notkun méla með tunguboga og stangarméla á hiklaust að banna strax. Ennfremur þarf að taka harðar á framkomu knapa við hesta á mótum. Spillingin lekur úr íþróttamótum yfir í gæðingamót og endar í kynbótadómum. Jafnvel þar skiptir knapinn meira máli en hesturinn. Sem er fráleitt, því slíkir dómar eiga að endurspegla kynbætur. Áratugum saman hef ég sagt hestamönnum, að knapar séu ekki þáttur erfða í hrossum. Ábyrgðarmenn kerfisins þurfa að fara að hlusta á gagnrýni.

Farið um fornar götur

Hestar

Þegar ferðast er með lausa hesta milli héraða, raðast lausu hestarnir í einfalda röð eftir götunni. Þetta má hvarvetna sjá í hestaferðum. Í landinu mótast hestagata smám saman um aldir alda. Hestagötur eru um allt land og eru mestu fornminjar landsins, sumar þúsund ára gamlar. Þannig er gamli Kjalvegurinn, Síldarmannagötur og Sölvamannagötur, Grillirahryggur og Prestastígur, svo örfá dæmi séu nefnd. Í hestaferðum í óbyggðum er alltaf keypt hey í gistiskálum. Það er hvarvetna til sölu, þar sem hestamenn eru á ferð. Hestaferðir valda sáralitlu álagi á viðkvæma náttúru óbyggðanna.

Illt skipulag

Hestar

Langt er síðan lagt var fram arfavitlaus tillaga að breyttu deiliskipulagi Heiðmerkur. Sumpart voru þar lögbrot, þar sem strikað var yfir reiðleiðir með áratuga hefð. Sumpart var þar hreint hatur á hestamennsku, þar sem reynt var að gera hestaumferð sem erfiðasta. Þarna voru fingraför Bezta flokksins, sem viðurkennir ekki aðra hesta en hjólhesta. Þrátt fyrir ótal mótmæli var málið lagt fram að nýju í óbreyttri mynd. Eins og hjá Vatnajökulsþjóðgarði, sem aflagði elzta reiðveg landsins, Bárðargötu. Anzaði ekki einu sinni gagnrýni, þagði bara um málið. Til hvers er verið að opna skipulagsferli?

Lifandi fornminjar

Hestar

Kjalvegur forni var einn helzti þjóðvegur landsins fyrr á öldum. Þar fóru fjölmennar sveitir Árnesinga og Skagfirðinga til að sækja að innrásarliði Dalamanna í Skagafirði. Leiðin er enn farin af göngu- og hestafólki. Kemur niður við Mælifell í Skagafirði. Skagfirðingavegur liggur þvert á Kjalveg við Galtará við Blöndulón, kemur af Arnarvatnsheiði og Stórasandi og endar í Gilhagadal í Skagafirði. Eyfirðingavegur liggur frá Þingvöllum um Hlöðufell og yfir Kjalveg norðan Bláfells og síðan norðan Hofsjökuls á Vatnahjallaveg til Eyjafjarðardala. Þessar merku fornminjar eru notaðar enn þann dag í dag.

Erfið sala hreindýrabrokkara

Hestar

Samkvæmt Sigurbirni Bárðarsyni hestakappa er offramboð hesta og niðurskurður því fyrirsjáanlegur. Samt gekk mér illa í vor að finna tvo mjúka og viljuga ferðahesta. Þeir voru bara ekki til, bara hágengir og hastir klárhestar með manndrápsbrokki, sem menn kalla svifmikið. Ég spyr því, hvort hrossaræktin hafi eitthvað feilað í ofuráherzlu á fótaburð og svif. Hvort markaðurinn sé að sumu leyti annar en ræktunin telur hann vera. Viðurkenni, að freistandi er að hafna ræktun gæðinga á 750.000 krónur stykkið, sé hægt að selja Svíum hreindýrabrokkara á 1.500.000 krónur stykkið. En hvað, þegar salan bregzt?

Skrítinn þjóðflokkur

Hestar

Hestamenn eru skrítinn þjóðflokkur, sem líkist Íslendingum að útliti, en á fátt annað sameiginlegt. Vita varla, að forsetakosningar eru í dag, en vita flest um einkunnir stóðhesta og allt um ættir þeirra. Halda vikulanga hátíð sína, fjölmennasta samkvæmi Íslands. Í Reykjavík, því landsbyggð og þéttbýli eru sátt í þessum hópi. Í Víðidal eru nú 30 veitingahús, 40 búðir og ótal hrossaprangarar, sem vita, hvar viðskiptin eru. Bændasamtökin rækta með sér gamalt Reykjavíkurhatur, neituðu fyrst að vera með, vita ekki hvar bisness er. Létu sér segjast að lokum. Enda er hér glæsilegasta hestahátíð sögunnar.

Flottur landsmótsstaður

Hestar

Reykjavík er flottur staður Landsmóts hestamanna. Elliðaárdalurinn í allri sinni dýrð, breiður dalur með vatnsmikilli bergvatnsá, skógi vöxnum hlíðum og borgarhúsum í fjarlægð. Fáir mótsstaðir standast Víðidalnum samanburð að náttúru og umhverfi. Hér er líka hægt að hýsa þúsund mótshesta með sóma. Ég kíki daglega á Trausta veðurspámann, sem rýnir í háloftin og spáir stilltu veðri enn um sinn. Reykjavík hefur átt erfitt uppdráttar sem landsmótsstaður vegna illa rekins landsmóts árið 2000. Nú eru nýir tímar og flest bendir til ánægjulegrar viku á uppskeruhátíð margra af flottustu töfrahrossum landsins.

Hugarfar að hætti 2007

Hestar

Afleggjarar 2007-hugarfars, þau Árni Hjörleifsson og Ingibjörg Davíðsdóttir, hafa lokað ökuleið göngufólks á Skessuhorn. Sem landeigendur Horns mega þau ekki loka leiðum, sem hefð er komin á. Er bannað með lögum. Leiðin er orðin þjóðleið, þótt hún sé ekki skráð í bók minni: “Þúsund og ein þjóðleið”, sem ekki snýst um fjallgöngur, heldur leiðir milli staða. Hugarfar starfskonu utanríkisþjónustunnar sést af orðalagi hennar: “Þvílík fegurð!! Ég á’etta” á fésbók. Stöku sinnum sést frekja af þessu tagi, til dæmis hjá Seðlabankanum í Holtsdal. Það mál var leyst með klippum, einu vörn fólks gegn græðgisliði.

Jeppalaus víðátta

Hestar

Spennandi slóðir göngufólks eru að baki hinna umtöluðu Grímsstaða á Fjöllum. Ein leiðin liggur norður um Mynni upp á Búrfellsheiði, sem er stærsta gróna heiðaland okkar. Algengast er að fara um Álandstungu niður í Áland, en aðra leið er hægt að fara niður í Svalbarð, hvort tveggja í Þistilfirði. Austur frá Grímsstöðum liggur Haugsleið austur í Vopnafjörð. Af þeirri leið liggur leið um vel gróinn Heljardal til Þistilfjarðar. Dimmifjallgarður er syðri leið til Vopnafjarðar. Norður í Öxarfjörð liggur leiðin Hestatorfa. Að baki leiðanna er gífurleg víðátta, þar sem nánast útilokað er að mæta jeppum.

Vantar viljuga ferðahesta

Hestar

Okkur vantar tvo sumarferðahesta. Fyrst og fremst viljuga, en þó hrekklausa. Verða að vera mjúkir á öllum gangi. Engir svifabrokkarar koma til greina, né hágengir yfir vinkil á tölti. Fimmgangarar fremur en brokkhestar. Heppilegir væru fulltamdir hestar um það bil tíu vetra. Æskilegur litur er rauður eða betri. Ekki merar, þær eru oft ófriðlegar á húsi, vonandi þó ekki túlkað sem kvenhatur mitt. Æskilegt væri, að ég gæti fengið húspláss fyrir þá á leigu í Víðidal í marz og apríl á þessu ári, þar sem mitt hús er þegar fullskipað. Hestarnir verða staðgreiddir. Flóknari er óskhyggja mín ekki að þessu sinni.

Leiðréttið villur núna

Hestar

Velgengni bókar minnar, Þúsund og einnar þjóðleiðar, á jólavertíðinni leiddi til krafna um frekari útfærslu. Útgefandi minn gefur kannski kortin út á ensku. Hvaða leið, sem farin verður, þá þarf að endurprenta kort og texta. Þá skiptir miklu, að hreinsaðar verði út villur. Í bók hundrað staðreynda um þúsund leiðir eru alls um hundrað þúsund staðreyndir. Þar af hljóta hundrað staðreyndir að vera beinlínis rangar, 0,1%. Nú hafa ótalmargir haft færi á að lesa bókina eftir jólin. Þar af sumir, sem þekkja betur til en ég. Brýnt er, að þeir sendi mér nú þegar leiðréttingar í tölvupósti á jonas@hestur.is.

Hatur á hestum

Hestar

Bezti flokkurinn og Samfylkingin hafa slegið heimsmet í hækkun skatts, 750%. Aldrei áður í sögu mannkyns hefur einn skattur verið hækkaður um 750%. Þeir Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson duttu á höfuðið. Hækkuðu fasteignagjald hesthúsa í Reykjavík úr 0,22% af fasteignamati í 1,65% af fasteignamati. Hesthús, sem áður bar 56.000 króna fasteignagjald, ber framvegis 426.000 króna fasteignagjald. Á hverju ári! Fyrir utan 130.000 króna holræsagjald. Á hverju ári! Hesthús bera hér eftir margfalt hærri gjöld en fjós og fjárhús. Og bera raunar margfalt hærri gjöld en íbúðir mannfólksins. Hatur á hestum?

Fjallaskálar á Íslandi

Hestar

Ein mikilvæg heimild féll niður, er ég gekk frá heimildaskrá bókar minnar: Þúsund og ein þjóðleið. Það er bók Jóns G. Snæland: Fjallaskálar á Íslandi. Þar fékk ég margvíslegar upplýsingar um búnað fjallaskála og dýnufjölda, í sumum tilvikum einnig um staðsetningu skálanna. Mér þykir miður, að bók Jóns skuli hafa fallið niður í heimildaskránni, svo mikilvægur fengur sem hún er. Sérstaklega vil ég benda á myndirnar af skálunum í bókinni, sem eru einstök samantekt. Mér til afsökunar er, að heimildaskrá Þúsund og einnar þjóðleiðar var tekin saman daginn áður en ég lagðist undir hnífinn á Landspítalanum.

Læstur skáli ei leigður

Hestar

Í bók minni “Þúsund og ein þjóðleið” er listi yfir 400 skála við þjóðleiðir í óbyggðum. Skráð er staðsetning, búnaður og símanúmer staðarhaldara. Framan við skrána stendur stóru letri: “Nafn skála á lista þýðir ekki, að öruggt sé, að hann sé til leigu. Talið við umsjónarmann.” Á fésbók kvartar Jakob Bjarnar Grétarsson yfir birtingu ónafngreinds skála nálægt Fljótsdal. Segist eiga skálann og ekki vilja láta vísa á hann. Fleiri dæmi eru sennilega um slíkt. Tilvist skála á fjalli þýðir alls ekki, að nota megi hann án leyfis. Læstur skáli er ekki til leigu. Skálaskráin segir bara, að hann sé þarna.