Hestar

Lífið er stíll – ekki keppni

Hestar

Ég sá um daginn einhvers staðar, að hestamennska væri orðin of dýr. Því til sönnunar var sagt, að dýrt væri að kosta þáttöku barna í keppni á landsmóti hestamanna. Hestamennska hefur vissulega hækkað í verði, en mér finnst þunnt að draga keppni inn í röksemdafærsluna. Ótrúlega margir virðast halda, að æskulýðsstarf hljóti að felast í keppni, fremur en lífsstíl. Börn eru látin keppa í alls konar íþróttum í stað þess að líta á þær sem leik. Nær er að kenna börnum og unglingum að fara í útreiðar og njóta þeirra. Njóta hesta, samfélags og náttúru. Stíf áherzla á stress gerir börnin bara að taugahrúgu.

Framar villtustu vonum

Hestar

Þúsund og ein þjóðleið seldist framar villtustu vonum mínum og útgefandans. Miklu munaði um bókmenntaverðlaun bóksalanna. Varð efst allra fræðibóka. Auk þess fékk hún harla góðar viðtökur í fjölmiðlum, fjórar og fimm stjörnur. Fyrir allt þetta er ég harla þakklátur. Bókin fjallar um leiðir þjóðarinnar um landið öldum saman. Með kortum og texta reyni ég að flytja göngufólki og hestafólki gömul og ný tíðindi af fjallvegum landsins. Tölvudiskur fylgir með til að auðvelda fólki að koma upplýsingunum inn í staðsetningartæki. Ég vona, að bókin verði mörgum hvatning til að skoða landið betur næsta sumar.

Nýr hagi – nýtt vatnsból

Hestar

Fyrir aldarfjórðungi fórum við hjónin að fara langar sumarferðir. Kynntumst þá fornri og sérstæðri tilvist, sem felst í að hafa hestinn fyrir heimili og komast í nýjan haga og nýtt vatnsból að kvöldi. Urðum heilluð af þessum lífsstíl. Einnig hafa kort alltaf verið dálæti mitt. Ég get skoðað kort eins og aðrir lesa skáldsögur. Heillaðist af dönsku herforingjaráðskortunum af Íslandi. Þau eru fegurstu kort, sem ég hef séð. Síðan komu til sögunnar GPS-leiðsögutæki, sem auðvelduðu ferðir og treystu öryggi fólks á ferðalögum. Samanlagt var þetta rótin að nýrri bók minni: “Þúsund og ein þjóðleið.”

Fornleifar á háheiðinni

Hestar

Farðu upp á Hellisheiði, ef þú vilt finna fornminjar á Íslandi. Stöðvaðu bílinn, þar sem raflínan fer yfir veginn. Þar sérð þú tveggja sentimetra djúpa rennu markaða í steininn. Þetta eru leifar Hellisheiðarvegarins forna. Þessa rennu hafa skeifur markað í hraunið, ekki á hundrað árum, heldur á meira en þúsund árum. Frá upphafi Íslandsbyggðar. Gangir þú rennuna, ertu að feta í fótspor kynslóðanna frá upphafi Íslandsbyggðar. Sagt er frá þessari þjóðleið og öðrum þúsund slíkum í bók minni, Þúsund og einni þjóðleið. Gamli Hellisheiðarvegurinn er hluti af tugþúsunda kílómetra neti fornleifa.

Þungavigt ársins

Hestar

Ég er höfundur einnar mestu þungavigtarbókar þessarar jólavertíðar. Þá tala ég í bókstaflegri merkingu. “Þúsund og ein þjóðleið” er 3,5 kíló að þyngd. Verður ekki ekki tekin með í ferðalög, jafnvel ekki í rúmið. Sófaborð ætti að vera trygg undirstaða. Í bókinni eru kort með 20 metra hæðarlínum af yfir þúsund þjóðleiðum um heiðar, skörð og firnindi. Bókinni fylgir tölvudiskur, svo að fólk getur hlaðið leiðum inn í tölvur og staðsetningartæki. Í bókinni eru lýsingar leiðanna og ýmis fróðleikur um þær, einkum sagnfræðilegur. Þar er líka kennsla um búnað, nesti og öryggi í ferðum göngufólks og hestamanna.

Kennslubók í ferðamennsku

Hestar

Tveir langir formálar eru að bókinni “Þúsund og ein þjóðleið”, sem kemur út innan skamms. Páll Ásgeir Ásgeirsson göngugarpur skrifar formála um búnað göngufólks, nesti þess og varúðarráðstafanir. Ég skrifa þar svipaðan formála um meðferð lausra hesta í fjallaferðum, búnað hesta og hestamanna, áningar og gistingu. Samanlagt eru þessir formálar eins konar vísir að kennslubók í ferðalögum utan bílaslóða í óbyggðum. Stærstur hluti bókarinnar er þó kort af öllum þjóðleiðunum í nákvæmum mælikvarða með 20 metra hæðarlínum. Hverju korti fylgja lýsingar leiða og ýmis fróðleikur um þær, svo sem sagnfræði.

Kort sjóliða og útivistar

Hestar

Tvenns konar kort voru beztu heimildir mínar að “Þúsund og einni þjóðleið”, sem senn kemur út. Fyrst er fræg að telja herforingjaráðskortin frá fyrsta áratug síðustu aldar. Danski sjóherinn mældi þá landið og skráði reiðgötur í smáatriðum. Fagurlega teiknuð kort, sem enn eru notuð. Eini galli þeirra er, að þetta eru hundrað ára gamlar leiðir, sem sumpart hafa hnikazt til. Síðan hafa á fyrsta áratug þessarar aldar verið gefin út fjölmörg útivistarkort héraða. Þar eru sýndar göngu- og reiðleiðir nútímans. Allar þessar leiðir og fleiri eru í bókinni, svo og í stafrænu GPS-formi á tölvudiski, sem fylgir.

Erfiðislausar hestaferðir

Hestar

Með ýmsum hætti ferðast menn með laus hross í óbyggðum. Sumir sækjast eftir spenningi, sem fylgir vandamálum, hafa gaman af að leysa aðsteðjandi vanda. Aðrir sækjast eftir erfiðislausum ferðum, einkum ef reynslulítið fólk er með í ferð. Þannig ferðast fararstjórar Íshesta og Eldhesta. Fararstjórar hinna fjölmennu Fáksferða hafa líka ferðast þannig um áratugi. Þar hefur safnast upp góð þekking á fyrirbyggjandi aðgerðum. Þessi þekking hefur verið skráð. Hún mun birtast í formála bókar minnar, Þúsund og ein þjóðleið, sem kemur út fyrir næstu jól. Þar geta reiðmenn lært að ferðast erfiðislaust um óbyggðir.

Tröllasögur af útlendingi

Hestar

DV birtir í dag tröllasögu af eignarhaldi Svisslendingsins Rudolf Lamprecht á jörðum í Mýrdal og Geithelladal. Hann endurnýjaði ekki veiðisamning við Stangaveiðifélag Keflavíkur. Það er réttur hans eins og annarra eigenda veiðiréttar. Lokaði jörðunum hins vegar ekki fyrir ferðafólki. Lögin banna það. Annar Svisslendingur, Ralph Doppler, komst upp með slíkt við Ormarsá á Sléttu. Þar var lélegur sýslumaður. En hestamenn eiga naglbíta og klipptu sig bara gegnum girðingu. Vandamál göngumanna og hestamanna af landeigendum eru lítil og snúa fremur að innlendum landeigendum, svo sem Seðlabankanum.

Afsakið, hlé

Hestar

Lenti í hjartauppskurði og tilheyrandi gjörgæzlu og sjúkrahúsvist í fjórar vikur. Kom heim í dag í góðum bata. Sé, að ég á enn eftir að afla meiri orku til að geta skrifað greinar í mínum stíl, lausar við mjálm og væl. Því frestast um sinn, að ég hefji blogg og fésbók að nýju. Ég biðst afsökunar á þessu langa hléi. Huggun harmi gegn er, að fyrir horn slapp stóra bókin, Þúsund og ein þjóðleið. Það er nákvæm kortabók um fornar og nýjar göngu- og reiðleiðir landsins. Hún var komin í próförk, þegar mér var skutlað inn á skurðarborð. Hún verður þungavigtarbók, þyngsta bók næstu jóla.

Álmur er fallinn

Hestar

Álmur er fallinn, 25 vetra gamall, uppáhalds reiðhesturinn. Fékk innanmein og varð ekki læknaður. Einstæður hestur og óstýrilátur, hafði bara einn gang, tölt, jafnvel í kyrrstöðu. Milli okkar voru deilur um goggunarrröð, sem leystust með, að ég fékk að ráða stefnu og hann hraða. Mýkri hest og úthaldsbetri hef ég aldrei setið. Fór með mig um Sprengisand og nokkrum sinnum Kjöl, Arnarvatnsheiði og Fjallabaksleiðir, ótal sinnum Löngufjörur. Rauðglófextur að hætti Kirkjubæjar og ganginn hafði hann frá Fönix frá Vík. Síðustu árin dvaldist hann í góðu yfirlæti á elliheimili hesta á Kaldbaki.

Ég um Mig frá Mér til Mín

Hestar

Ég heyrði um daginn í manni, sem sagði stórt nei við IceSave í útvarpi Sögu. Man eftir honum úr hestaferð fyrir löngu. Var svona Ég um Mig frá Mér til Mín týpa. Fór ekki eftir verklagsreglum um rekstur lausra hrossa. Þær hentuðu honum ekki. Fór ekki eftir reglum um aðgætni í áningu. Þær hentuðu honum ekki. Ekki þýddi að útskýra fyrir honum forsendur verklagsreglna. Hann skildi ekki útskýringar. Var þó ekki í útrásinni, of heimskur til að græða peninga. Hugsaði samt eins og bófarnir. Vildi skara eld að eigin köku, en ekki slökkva óviðkomandi elda. Ég gætti þess, að hann kæmi ekki aftur með.

Riðin Héraðsvötn

Hestar

Á Sturlungaöld runnu Héraðsvötn meira í tveimur kvíslum um Vellina. Þá var auðveldara að komast yfir þau og vöð voru víða. Algengast var að fara milli Flugumýrar og Víðimýrar með viðkomu í Vallalaug. Hún var miðja Skagafjarðar á þeim tíma. Var þá vestari kvíslin riðin við Húsey og austari kvíslin við gömlu bílabrúna, en menn tóku krók suður í laugina. Gissur jarl og Kolbeinn ungi riðu Héraðsvötn undan Reykjatungu. Það hefur verið skelfileg sjón fyrir Sturlunga á Örlygsstöðum að sjá 1600 manna her þokast yfir Héraðsvötn. Nú ríða menn ána á brúm. Enn er þó riðið vaðið milli Stapa og Kúskerpis.

Vegir sukku í mýrar

Hestar

Vestast á Fellsströndinni, undir Klofningi, eru blautar mýrar og sund. Þar voru lagðar hestagötur með lagi, sem Þorsteinn Þorsteinsson sýslumaður lýsir í Árbók Ferðafélagsins 1947. Hrís lagt undir, tyrft og hlaðið á ofan grjóti, helzt hellusteinum. Seig það smám saman niður í sundin, en þá var bætt grjóti á ofan. Mjóar brýr voru og gerðar úr hnausum yfir mýrar þessar og stráð síðan möl ofan á. Oft var erfitt að fá bændur til þessara starfa og varð stundum að beita hörðu til þess að fá verkið framkvæmt”. Vegagerð fyrri alda á Íslandi var furðanlega lítil og furðanlega óvinsæl af notendum vega.

Þúsund-og-ein þjóðleið

Hestar

Í gær kláraði ég þúsundogeina þjóðleið, kort og texta. Göngu- og reiðleiðir milli byggða á Íslandi. Annars vegar stafræn kort með staðsetningarpunktum. Hins vegar tilheyrandi texti. Með lýsingum leiða og örnefnum þeirra. Með frásögnum soðnum upp úr fornritum, einkum Sturlungu, og úr yngri heimildum, svo sem árbókum Ferðafélagsins. Stærstu heimildir eru Herforingjaráðskortin elztu, 384 leiðir; ný útivistarkort, 263 leiðir; mínar eigin ferðir, 189 leiðir; árbækur Ferðafélagsins, 122 leiðir. Ekki veit ég, hvað skal gera við þetta, sem mér sýnist vera orðin plássfrek sófaborðsbók. Útgefendi, einhver?