Hestar

Nær væri að borga þeim

Hestar

Hef nokkrum sinnum riðið Fjallabak meira eða minna eftir bílveginum. Gaman er að fylgjast með rútuferðamönnum. Þeir stoppa lítið, varla við Ljótapoll eða Kirkjufell til að meðtaka einstæða náttúru. Öðru máli gegnir, þegar þeir mæta hestaferðahópi. Þá er bílstjórinn látinn stoppa og farþegar flykkjast út Þeir ljósmynda hestaferðahópinn í bak og fyrir og eru yfir sig hrifnir. Hestar eru nefnilega stóra málið í íslenzkri náttúru. Nefndir, sem fjalla um þjóðgarða, ættu ekki að amast við hestaferðahópum eða banna þeim för. Nær væri að borga þeim fyrir að vera til sýnis með náttúruna sem bakgrunn.

Hestaferðirnar afskrifaðar

Hestar

Sumarið er ónýtt. Hestarnir búnir að vera veikir í tvo mánuði og hafa ekki enn losnað við lungnabólguna. Ekki illa veikir, en þurfa að vera áfram í fríi. Búið er að blása af hestaferðir sumarsins. Bezt hefur mér liðið, þegar þrjár-fjórar vikur fara í langar ferðir á fjöllum. Í sumar verður alls ekkert slíkt. Sit bara á bæjarhólnum og horfi á hestana. Fer stundum inn og skrifa upp úr Sturlungu um hestaferðir á heiðum og vöðum að fornu. Held, að hestunum leiðist líka. Þeir eru hressastir á léttum úðadegi á ferðalagi. Eðli hesta er að hlaupa út um allar trissur, helzt þrjátíu kílómetra á dag.

Löng ferð um Bárðargötu

Hestar

Bárður Bjarnason nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni til að athuga þetta betur. Þeir fundu ýmsan gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor að loknum undirbúningi lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi og byggði bæ að Gnúpum. Hét hann síðan Gnúpa-Bárður. Bárðargata er 250 km löng og liggur hæst í 1000 metra hæð. Á henni eru fimm stórfljót, Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Tungnaá, Skaftá og Hverfisfljót.

Grillirahryggur og Hallaragötur

Hestar

Það er ekki hlutverk náttúruverndarsinna að hata sagnfræðina, að slá striki yfir ellefu alda sögu þjóðarinnar. Fornar reiðleiðir eru lifandi þáttur sögunnar. Við þurfum að halda við fornum reiðleiðum, reisa hrundar vörður og halda áfram að ríða Vonarskarð. Vatnajökulsþjóðgarður ætti frekar að ráða mig til að ríða Vonarskarð en að banna mér það. Annars endar þessi vitleysa með því að við vitum ekkert lengur um Sölvamanagötur og Síldarmannagötur. Um Grillirahrygg og Hallaragötur, um Gullveginn og Kóngsveginn. Hestaskeifur henta betur en góritex-skór til að halda við þessum aldagömlu fornminjum.

Ellefu alda reiðleið bönnuð

Hestar

Íslendingar hafa riðið hestum um Vonarskarð frá landnámsöld. Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1849 er sýnd þjóðleið um skarðið. Nú liggur fyrir tillaga um að banna umferð hesta um skarðið. Engin rök fylgja tillögunni, enda eru hestar ekki vélknúin ökutæki. Miklu nær er fyrir þjóðgarðssinna að hvetja til umferðar hesta. Hún getur orðið til að varðveita mikilvægar fornminjar, sem felast í hófförum, kindagötum og reiðslóðum. Sjálfur var ég hvattur til að ríða með hestaflokk um einstigi í Snæfellsjökuls-þjóðgarði. Til að lífga við slóð, sem var að hverfa. Reiðbann í Vonarskarði er vanhugsuð regla.

Kakali flúði suður Sand

Hestar

Árið 1242 kom Þórður kakali út í Eyjafirði. Reið skjótt um Vaðlaheiði og suður Bleiksmýrardal á flótta undan Kolbeini unga. Fór suður Sprengisand að leita liðveizlu hjá Hálfdáni á Keldum. Samkvæmt korti Björns Gunnlaugssonar frá 1849 lá leiðin vestan Fjórðungsvatns. Síðan yfir Þjórsá við Arnarfell eða Sóleyjarhöfða og áfram suður Gnúpverjaafrétt. Þessa leið hef ég riðið og er hún ein löng dagleið á sandi milli grasa í Bleiksmýrardal og Arnarfelli. Þórður hafði kunnugan leiðsögumann og virtist ferðin ekki einsdæmi. Þá riðu grjótkastarar höfðingjanna hundruðum saman um fjöll og firnindi og fúafen.

Fornar leiðir týnast

Hestar

Í fyrra reið ég Kirkjustíg milli Keldna á Rangárvöllum og Heklubæja. Partur forna hringvegarins um landið. Frá Keldum var þjóðleið um Kirkjustíg, yfir Ytri-Rangá á Dýjafitjarvaði, áfram Nautavað á Þjórsá. Svo yfir Stóru-Laxá á Sólheimavaði, yfir Hvítá á Kópsvatnseyravaði, um Hólmavað á Tungufljóti að Skálholti. Kirkjustígur er að hverfa vegna of lítillar hestaumferðar. Sama gerist víðar. Reiðleiðir hverfa í Snæfellsjökuls-þjóðgarði. Í þjóðgarðinum við Jökulsá er reynt að varðveita þjóðleið með því að merkja hana. En nú á að banna reið um Vonarskarð. Hvílík afneitun ellefu alda sögu!

Fornar götur í Þingvallasveit

Hestar

Ég er í vandræðum með að finna fornar götur suður úr Þingvallasveit, þekktar úr Sturlungu. Hefur einhver hestamaður eða göngumaður farið þessar leiðir: Prestastíg milli Víðivalla við Ármannsfell og eyðibýlisins Hrafnabjarga. Prestagötur frá Hrafnabjörgum suður yfir hálsinn til Beitivalla við Laugarvatnshelli. Götuna frá Hrafnabjörgum suður til Gjábakka. Loks götuna frá Gjábakka suður með Lyngdalsheiði vestanverðri og austan við Búrfell um Búrfellsgötur að Klausturhólum. Annar vandi úr Sturlungu. Hefur einhver riðið Ámótsvað á Hvítá í Borgarfirði, þar sem Reykjadalsá rennur í hana?

Slöðruðu biskupi til lands

Hestar

Árið 1253 þurfti að koma Heinreki biskup yfir Hvítá í Borgarfirði frá sáttafundi með Vestlendingum. Sturlunga segir: “Á sína hlið reið hvor, Jón járnbúkur og Böðvar úr Bæ. Reið Jón við strauminum, en Böðvar forstreymis. Egill og Eiríkur birkibeinn riðu fyrir vaðið. Áin tók í síðuna. Þá snaraði biskup af baki og fékk hann eigi uppi setið öðruvísi en þeir héldu honum á baki og slöðraði svo til lands, en af baki rak Indriða af Rauðsgili og Sigurð úr Kálfanesi og varð þeim borgið. Biskup mælti, er hann kom af ánni, að hann mundi aldrei á jafnófært vatn ríða síðan.” Samgöngur á Sturlungaöld.

Vosbúð og hrakningar höfðingja

Hestar

Höfðingjar Sturlungaaldar vildu gjarna drepa hver annan og meiða smámenni. Í því skyni böðluðust þeir með fjölmenna flokka milli héraða. Höfðu af þessu vosbúð á erfiðum vöðum. Ámótsvað og Hábrekknavað voru örnefni á borð við Hlemm og Kringlu. Líka höfðu þeir af þessu hrakninga í hríðum á heiðum. Þar voru vinsælir fundarstaðir Hallbjarnarvörður á Kaldadal og Hvinverjadalur á Kili. Eins vinsælir og Þjóðmenningarhúsið í dag. Í stað þess að una glaðir við sitt í Snorralaugum þess tíma, glímdu þeir sér til hita á Tvídægru til að frjósa ekki úti í desemberhörkum. En hafa höfðingjarnir ekki bara lagazt?

Ill meðferð á skepnum

Hestar

Letileg voru ummæli bænda undir Eyjafjöllum, sem höfðu ekki gefið sér tíma til að taka skepnur á hús. Þeir höfðu þó fengið tveggja daga fyrirvara. Mér finnst það svívirðileg umgengni við skepnur. Spurning er, hvort slíkir eigi að hafa með húsdýr að gera. Pressan er með ágæta grein, þar sem ljósmyndarar lýsa trylltum hestum í öskufallinu. Þeir birtu líka myndir af þeim. Ef allt væri með sóma, hefðu öll dýr verið komin á hús áður en öskufallið hófst. Ég tel, að fjölþjóðleg dýravernd eigi að koma hér að. Óhæf íslenzk yfirvöld og sinnulausir bændur sváfu einfaldlega á verðinum.

Skeifur klappa steininn

Hestar

Um landið liggja hundruð fornra reiðgatna. Sjálfur hef ég kortlagt um 800 götur með GPS og eru þær sýnilegar á heimasíðu minni. Langflestar eru þær búnar til af járnuðum hestum, sem klappa steininn. Fólk á mjúkum skóm býr ekki til slóðir af sama krafti. Til dæmis ekki þeir, sem amast við fornum reiðgötum í landslaginu og kalla náttúruspjöll. Skeifnaskorur í steini sjást til dæmis á Hellisheiði, þar sem raflínan liggur yfir veginn. Margar fornar leiðir eru vel varðaðar og sumar vörður hafa verið lagaðar, svo sem á Sprengisandsleið á Gnúpverjaafrétt. Sama þyrfti að gera á Biskupaleið yfir Ódáðahraun.

Hraðbrautir fyrri alda

Hestar

Á Kjalvegi sunnan Þjófadala sjást reiðgötur liðinna tíma. Ellefu götur hlið við hlið. Líklega notaðar af tólfhundruð manna flokki Gissurar á leið norður í Örlygsstaðabardaga. Á Sprengisandsvegi á Gnúpverjaafrétti sjást svipaðar reiðgötur liðinna alda. Átta götur hlið við hlið. Eftir þeim flúði Þórður kakali skjótt milli landshluta. Þessir tveir vegir voru hraðbrautir fyrri alda. Sýnilegu göturnar eru í þurru landi og hafa ekki orðið til í samspili við vatnsveður. Um daginn amaðist Sigurður Sigurðarson umhverfis-bloggari við þeim. Ég er honum hjartanlega ósammála. Þetta eru lifandi fornminjar.

Hestum og fossum fækkar

Hestar

Fyrir nokkrum árum var völlur á okkur Kristínu. Fórum milli landshluta með níu ferðatrukka til reiðar. Eins vel hestuð og Gengis Khan. En ævi hests er ekki nema þriðjungur af ævi manns. Hestarnir eltust hraðar en við. Þrír eru þegar fallnir í hárri elli og fjórir ferðahestar dunda sér á elliheimili á Kaldbak. Eigum nú bara sex ferðahesta á járnum og erum farin að skipuleggja krúttlegar fúsk-ferðir eins og þeir kotungar, sem við erum í raun. Í sumar verður bara farið um afréttir hér í Gull-Hreppunum. Kveðjum fossa á Þjórsá, sem líklega fara undir vatn. Hestum og fossum fækkar, heimur versnandi fer.

Honum er aldrei ofgert

Hestar

Ferðahestar verða til með þjálfun. Þeir hlaupa 30-60 kílómetra á dag, þar af að minnsta kosti 10 kílómetra undir manni. Oft á erfiðum gangi, tölti, sem þeim er ekki eiginlegt. Ferðahestur vill samt alltaf meira. Hann er hress að kvöldi sem morgni. Það stafar af, að honum hefur aldrei verið ofgert. Hægt er að taka fjögurra vetra hest og byrja að láta hann taka þátt í ferðum. Ef áreynslan er hverju sinni í hófi, þroskast hesturinn á nokkrum sumrum að þoli og þreki. Hestur, sem þannig er þjálfaður, finnur, að hann ræður við öll verkefni. Verður glaður og frískur. Ókvíðinn hestur er ferðagæðingur.