Hestar

Svissarinn tapar Ormarsá

Hestar

Svisslendingurinn Ralph Doppler er að missa Ormarsá á Melrakkasléttu. Það er bezta mál. Hann virðir ekki íslenzk lög. Læsir hliði að gróinni þjóðleið samkvæmt herforingjaráðskortum. Sem nýtur því verndar samkvæmt Járnsíðu og náttúruverndarlögum frá 1999. Þar segir, að ferðamenn megi komast óhindrað um eignarlönd. Til að komast þessa leið hafa menn orðið að klippa víra. Nú fer veiðin í Ormarsá í hendur íslenzkra veiðitaka, er þekkja lög og reglur. Þeir, sem fara um þjóðleiðir á Melrakkasléttu, þurfa því ekki lengur að hafa naglbít með í för. Doppler er farinn, það fór vel, og komi hann ekki aftur.

Varað við keppnishestum

Hestar

Jens Einarsson hefur manna mest vit á hestamennsku hér á landi næst á eftir Jóni Finni Hanssyni, fyrrum ritstjóra Eiðfaxa. Jens ritstýrir Hestum og hestamönnum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Hann segir í leiðara, að flestir sýningarmenn í meistaradeildinni stytti sér leið með því að nota sérstök stangarmél. Það eru einjárnungsstangir með tunguboga. Búnaðurinn geri hross þæg á sýningu. Jens segir, að fljótt kólni hrossin í taumi af þessum búnaði. Þau leggist í tauminn, en þá er sýningarferlinum lokið og hrossið selt. Jens er í rauninni að vara hestamenn við að kaupa keppnishesta sýningarmanna.

Þefhestar og gaddavírskindur

Hestar

Hef lítið vit á hestum, enda á ég svo fáa, að ég get talið þá. Því kom flatt upp á mig, að þjálfa ætti þefhesta til að finna týnt fólk á fjöllum. Forsíða Fréttablaðsins fjallaði um þetta í gær. Skildist mér, að gangnahestar séu nærri því að þefa fé uppi í haustleitum. Fræði, sem ég hef aldrei heyrt. Brá mér á Google og fann ekkert um þetta, svo að þetta er líklega uppfinning í Borgarbyggð. Fleiri húsdýr en hestar hafa dulda hæfileika. Ég hef lengi haft áhuga á að selja sauðfé til erlendra herja. Kindur hafa dulda hæfileika til að komast yfir rimlahlið og gaddavírsgirðingar. Gagnlegur kostur í innrásum.

Feitasta fjallaskála-skráin

Hestar

Búinn að gera nýja skálaskrá. Nær yfir 214 fjallaskála, hnit þeirra, fjölda svefnplássa og símanúmer aðstandenda. Líklega landsins feitasta skálaskrá. Jeppamenn eiga lengri skálaskrá, en sú hefur færri upplýsingar og felur í sér horfna skála. Ég vann nýju skrána í tengslum við reiðslóðabanka minn á netinu, http://www.jonas.is/reidleidir/. Líklega birti ég hana við tækifæri á vefnum. Raunar á ég í erfiðleikum með listann. Menn hafa verið tregir til að senda mér leiðréttingar. Óhjákvæmilegt er, að villur séu í lýsingum á áttahundruð slóðum. Til dæmis skakkt sagt frá áttum. Þögnin er grunsamleg.

Heiðin mikla og veglausa

Hestar

Tvær stærstu og grónustu heiðar landsins eru í Norður-Þingi, Melrakkaslétta og Búrfellsheiði. Ég hef riðið um þær báðar. Sú síðari er merkari fyrir þá sök, að henni hefur ekki verið spillt með jeppaslóðum. Hún er nánast alveg veglaus frá Fjallalækjarseli í Þistilfirði upp að Heljardalsfjöllum ofan við Víðirhól á Fjöllum. Flæmið mikla er algróið, þótt fjöll standi stök upp úr heiðinni á nokkrum stöðum. Heiðin er svo fáfarin, að þar hafa varla mótast hestagötur, við töltum mest eftir kindaslóðum. Fjarlægð menningarinnar og spillingarinnar er óendanleg. Kyrrð og kvak, lyng og lykt, jarm og jóreykur.

Vatn og hey í eyðimörkinni

Hestar

Ásahreppur rekur mikilvæga þjónustu fyrir hestaferðamenn á Sprengiandi. Í Háumýrum er komið hestagerði og heysala eftir pöntun, 487-6501. Auðveldar hestaferðir um Sprengisand. Hvort sem komið er um Arnarfelli yfir Þjórsá úr vestri eða frá Versölum úr suðri eða Laugafelli úr norðri. Um 50 km leið er í skála í þrjár áttir frá Háumýrum, þolanlegar dagleiðir. Menn verða þá að vísu að tjalda í Háumýrum eða láta aka með sig í Versali. Sprengisandur á hestbaki er einstæð lífsreynsla, sem líkist ferðum á arabískum hestum um sanda Arabíuskaga og Sahara. Öðru vísi en Kjölur, sem býður grónar götur.

Hella andmælir Reykjavík

Hestar

Forustumenn hestamannafélaga á Suðurlandi andmæla landsmóti í Reykjavík. Vilja heldur Hellu, þar sem landsmót hafa oftar verið. Segja fólk vilja koma saman í dreifbýli. Of dýrt sé að hafa landsmót á mörgum stöðum. Miklu þurfi að kosta í endurbætur í Reykjavík. Færri hafi mætt á landsmót í Reykjavík en á Hellu. Hins vegar er sagt, að betur fari um hesta og keppendur í borginni, þar sé fullt af hesthúsum. Erlendir og innlendir gestir eigi þar auðveldara með að fá gistingu. Sumt fólk vilji ekki búa á háværum tjaldsvæðum. Raunar er þetta þekkt rifrildi um mismun á aðstæðum í strjálbýli og þéttbýli.

Fjársjóðurinn í Gullveginum

Hestar

Búinn að auka reiðleiðabanka minn á vefnum upp í 800 leiðir. Sumpart eru það leiðir, sem ég hef farið. Sumpart hundrað ára gamlar leiðir af kortum danska herforingjaráðsins. Og sumpart leiðir á nýjum útivistarkortum. Notendur sjá leiðirnar á kortum í tölvum sínum og staðsetningartækjum. Allt er það frítt. Gömlu leiðirnar hafa sagnfræðilegt gildi, saga samgangna á Íslandi er enn óskrifuð. Ein leiðin heitir Gullvegurinn, því að þar glataði sauðakaupmaður gullpeningasjóði. Útivistarleiðirnar tengja núið við gamla samgöngutækni. Og leiðirnar mínar endurvekja mér kynslóðaminni um farandlíf Herúla í Evrópu.

Hlupu upp á Ok

Hestar

Áramótin voru oftast okkur Kristínu erfið. Vorum lengst af með hestana á húsi í Reykjavík. Þurftum að vernda þá fyrir æði áramótafólks. Höfðum kveikt ljós og tónlist í hesthúsinu, svo að hestarnir hræddust síður fyrirganginn. Ég skil vel áhyggjur hestafólks í Andvara af áramótabrennunni í 150 metra fjarlægð frá hesthúsahverfinu á Heimsenda. Síðustu árin höfum við ekki tekið inn hross fyrr en á nýju ári. Þeir eru öruggari með sig uppi á heiðum um áramótin. Stundum nægir það ekki. Fyrir nokkrum árum ærðust hestar um áramót í Borgarfirði. Þeir ærðust og hlupu upp á Ok og urðu úti uppi á jöklinum.

Hefðarréttur hestaferðamanna

Hestar

Dönsku herforingjaráðskortin með ótal reiðleiðum eru grundvallarheimild um, hvað séu hefðbundnar reiðleiðir, sem njóta lagaverndar, allt frá Jónsbók ársins 1281 yfir í náttúruverndarlög ársins 1999. Það segir Sigurður Líndal lagaprófessor. Réttarstaða hestaferðamanna er betri en margir hafa talið, þótt lítið hafi verið látið á hana reyna fyrir dómstólum. Það er til dæmis varla löglegt að banna rekstur hrossa um Þjórsárbakka. Samtök hestamanna hafa látið undir höfuð leggjast að verja hefðarrétt hestaferðamanna á gömlum götum og slóðum, svo að hann kann að hafa fallið niður á mikilvægum leiðum.

Vanir vosbúðinni

Hestar

Fornmenn riðu miklu beinna en við gerum nú. Styttu sér leið í stað þess að velja þægilegar slóðir. Létu sér ekki bregða við að sundríða ár til að spara sér króka á vöð. Oft riðu þeir hreinlega beint af augum. Voru harðgerðari en við erum nú á tímum og hestar þeirra þrekmeiri. Söguhetjurnar riðu hiklaust um 100 kílómetra á dag, oft einhesta. Sváfu ekki heilu næturnar, en köstuðu sér niður til að sofa smástund í senn. Voru blautir og hraktir af rigningum og vatnareið. En létu það ekki aftra sér, enda voru þeir í efnismiklum vaðmálsfötum. Höfðingjar fornsagna voru vanir vosbúð og óhræddir við hana.

Hestamenn í Sturlungu

Hestar

Af fornritunum er hestamanninum mestur fengur í Sturlungu. Hún er skrifuð af nafnkunnum mönnum, sem tóku þátt í langferðum. Sumum leiðum er beinlínis lýst, meðal annars yfir Sprengisand. Finna má frækilegar sögur, svo sem vetrarferð Þórðar kakala frá Þingvelli vestur í Breiðafjörð. Og ferð Kolbeins unga á sama tíma úr Miðfirði yfir Tvídægru vestur í Hvítársíðu og síðan á hæla Þórði vestur Mýrar. Á leið sinni frá Þingvelli til Helgafells riðu menn Þórðar einhesta um 200 kílómetra leið á rúmlega 30 klukkustundum. Enda var þá um líf og dauða að tefla. Slíkar þolreiðir þekkjast engar núna.

Huglægar forsendur dóma

Hestar

Samanburður hrossa á gæðingamótum og kynbótasýningum byggist á stöðluðum viðmiðum. Málsaðilar þekkja kerfið og einn dómari kemst að sömu niðurstöðu og næsti dómari. Þannig er sátt um kerfið og framkvæmd þess. Innra samræmið er í góðu lagi. Hins vegar eru sjálfar forsendur kerfisins í mikilli óvissu. Hvers vegna eru brokkarar taldir fegurri en skeiðarar? Hver ákvað upphaflega hvernig einn hrosshaus væri fagur og annar ljótur? Af hverju er aldagamall grunngangur ekki í dómkerfinu, valhoppið? Tugir slíkra spurningar vakna. Þær sýna, að bak við einhlítt dómkerfi eru óljósar og afar huglægar forsendur.

Of flóknir bæklingar

Hestar

GPS tæki eru einfaldari í notkun en ætla má af leiðbeiningum. Í tækjunum er áttaviti, sem er hagkvæmari í notkun en venjulegur áttaviti. Þar er líka kort, sem sýnir, hvar þú ert í heiminum. Ef þú hefur hlaðið inn punktaðri leið eða sáldruðum ferli, sérðu hvar þú ert staddur miðað við slóðina. Ef þú vilt skrá slóðina, sem þú ert að fara, hefurðu tækið í gangi og það gerir allt sjálfvirkt. Flóknara er að skrá inn valda punkta, svo sem hlið eða vöð. Þú þarft þá að nota einn putta hverju sinni. Fyrir löngu las ég bækling um svona tæki, ímyndaði mér því, að notkun þeirra væri ofan við minn skilning.

Sörli frá Milestone

Hestar

Fyrir nokkrum árum stigu Bændasamtökin það ógæfuspor að heimila notkun vörumerkja í stað fæðingarstaðar hrossa í skýrsluhaldi. Áður hétu hestar Sörli frá Sauðárkróki, Hrafn frá Holtsmúla og Orri frá Þúfu. Nú geta þeir heitið Sörli frá Milestone, Hrafn frá Jóni Jónssyni og Orri frá Flotthestum. Skrítið, því að í þriðja dálki í skráningunni er pláss fyrir ræktandann. Og í fjórða dálki fyrir eigandann, ef hann er annar. Lítil þörf er að tvítaka þær upplýsingar í dálki nr.2. Er samt gert undir þrýstingi sjálfmiðjaðra frekjuhunda, einkum erlendra. Samtökin höfðu því miður ekki bein í nefinu.