Hestar

Mikið hneggjað í kvöld

Hestar

Eins einmanalegt og er stundum að vetrarlagi á Kaldbak er oft líf og fjör um hásumar. Sjálf komum við um tvöleytið með hrossin úr hestaferð um Fjallabak. Stundu síðar kom fjölskyldufólk frá Flúðum með þrjátíu hross af Hreppaheiðum og áði í gerðinu okkar. Öðrum tíma síðar komu Íshestar í vikulegri viðkomu á Gullna hringnum. Komu frá Geysi og Gullfossi með fimmtíu hross. Verða hér í næturhaga í nótt og halda síðan áfram í fyrramálið yfir í Fossnes. Í kvöld kemur hestaútgerðin í Syðra- Langholti með áttatíu hross, sem gista í nótt. Hér eru núna krossgötur hestamanna. Mikið verður hneggjað á Kaldbak í kvöld.

Bikkjur verða að gæðingum

Hestar

Hestaferðir eru sérstæð og forn tilvist, í undirvitund hesta og sumra manna. Menn skipa sér í forreið og eftirreið og hafa lausu hrossin milli hópanna. Forfeðurnir lifðu svona, komu í nýtt vatnsból og nýjan haga á hverju kvöldi og lögðu upp aftur að morgni. Föst búseta var engin, hesturinn var heimilið. Þannig lifðu heilu þjóðirnar á sléttum Síberíu og Rússlands. Þannig reið Gengis Kahn 7000 kílómetra frá Ulan Bator til Vínarborgar. Á aðeins þremur mánuðum. Þetta flökkulíf blundar í sálarlífi hesta, þeir magnast upp á ferðalögum. Bikkjur verða að gæðingum, teygja sig og fara að ganga fallega.

Tölvur í stað dómara

Hestar

Ég vil leggja niður hestadómara og taka í staðinn upp tvenns konar mæla. Fyrst og fremst lófastóran jarðskjálftamæli, festan í hnakknef. Hann sendir skilaboð í tölvu í dómhúsi. Mældur er hristingur á öllum gangi. Því minni hristingur, þeim mun hærri einkunn. Síðan þarf hljóðmæli, þegar hesturinn er látinn hlaupa á trépalli. Því réttari, sem taktur hljóðsins er fyrir þá gangtegund, þeim mun hærri einkunn. Dómar úr þessum tveimur mælum verða réttlátari en dómar manna. Þeir komast nær því að veita íslenzka hestinum þá mýkt, sem á að gera hann frægan. En gerir ekki meðan hopp fær hæsta dóma.

Rækta manndrápsbrokk

Hestar

Langverstu mistökin í ræktun og sýningum íslenzkra hrossa er áherzlan á manndrápsbrokk. Því er fagurlýst sem svifmiklu brokki og veldur stjórnlausri gleði áhorfenda á sýningum. Nánast bara fagmenn geta setið slíkt brokk, sem kalla má hlunkabrokk. Hryggurinn á hestinum er þá eins og stálbiti, sem hossast upp og niður. Þetta firrta mat á brokki kemur frá útlöndum, líklega fyrst frá dönskum kerruhestum. Íslendingar þurfa ekki þetta bikkjubrokk. Brokkhlunkar eru óhæfir í leitum og ferðum. Við þurfum dúnmjúka hesta, sem gleðja reiðmenn á öllum gangi. Hesta Einars Ben. og Hannesar Hafstein.

Meira lull og valhopp

Hestar

George H.F. Schrader gaf 1915 út bók sína: Hestar og reiðmenn á Íslandi. Þá voru lull og valhopp algengar gangtegundir, lull er milliferð á skeiði. Þær voru þægilegar fyrir hest og reiðmann. Lullið þó bara, ef ekki var í því of mikil hliðarhreyfing, sem er óþægileg. Á lulli og valhoppi ferðuðust menn milli landshluta. Þeir riðu óraleiðir án þess að hestarnir þreyttust. Nú er reynt að ríða eingöngu á tölti og hringvallar-hestar gefast upp á hálftíma. Dómkerfi og kynbætur hrossa ættu að taka tillit til gangtegunda, sem stóðu undir samgöngum Íslendinga fram á jeppaöld. Það þýðir meira lull og valhopp.

Umpólaðar skoðanir mínar

Hestar

Hesta hef ég haldið í áratugi. Skrifaði snemma bækur um hesta, varð ritstjóri Eiðfaxa 2003-2005. Í báðum tilvikum starfaði ég innan kerfis, þar sem allir voru sammála. Smám saman breyttust skoðanir mínar á hrossarækt, snerust loks við. Sem ritstjóri skrifaði ég ýmsa gagnrýni á stefnuna, en ekki skipulega. Nú er ég að verða sjötugur bloggari. Sem slíkur hef ég öðlazt frelsi, er ég hafði ekki sem hluti af kerfum. Nú get ég sagt það, sem mér þóknast, án þess að hafa áhyggjur af viðbrögðum. Of seint er orðið fyrir mig að rækta eða kaupa hesta eftir nýjum kenningum mínum. Get samt sagt, að ræktunin sé rugl.

Engar rannsóknir á forsendum

Hestar

Nánast öll ræktunarhross fara í kynbótakeppni. Þar eru þeim gefnar tuttugu einkunnir, sumar fyrir gerð, aðrar fyrir kosti. Ræktunarmarkmið eru ljós, en forsendur þeirra eru yfirleitt huldar þoku. Á arnarnef eða söðulnef að hafa áhrif á ræktunareinkunn? Hvaða lögun á lend framkallar skeið eða tölt? Þótt hér séu risnir búnaðarháskólar, er ekkert um rannsóknir á forsendum ræktunarmarkmiða. Eru þær eiginlegar þessu kyni eða koma þær frá dönskum kerrubrokkurum? Skeiðlausir hestar fá oft hátt fyrir útlit, hvers vegna? Hátimbrað einkunnakerfi er marklaust, ef forsendur þess eru huldar þoku.

Burt með allan gaflinn

Hestar

Fengum einu sinni ágætan verkfræðing til að áætla, hversu mikil loftskipti þyrfti í hesthúsinu. Ætluðum að kaupa loftræstikerfi við hæfi. Fræðingurinn náði sér í erlent fagrit um kýr. Þar stóð, að kýr prumpuðu ferlega. Eftir mikla útreikninga tjáði hann okkur, að galopna þyrfti allan gaflinn á hesthúsinu, svo mikil loftskipti þyrfti. Við kvöddum hann og rifum ekki gaflinn. Fengum okkur stóra viftu í strompinn í staðinn. Það virkar vel, engin skítalykt eða súrlykt er í hesthúsinu, bara ilmur af spónum. Og þessi ljúfi ilmur af þurrum og hreinum hestum. Sum verkfræði minnir á hagfræði.

Manndráps-brokkararnir

Hestar

Níu ár eru síðan nýtt dómkerfi kynbótahrossa var tekið upp. Það var gert með samkomulagi hrossabænda og Ágústs Sigurðssonar ráðunautar, sem nú er rektor á Hvanneyri. Þetta kerfi var til mikilla bóta, en er nú orðið barn síns tíma. Það tekur ekki nógu hart á höstum hrossum. Manndrápsbrokkarar fá of háa einkunn. Við eigum bara að rækta mjúk hross, sem unun er að sitja. Dómkerfið tekur heldur ekki nógu hart á skeiðleysu. Skeið á hægri ferð eða milliferð er grunngangur íslenzka hestsins frá öndverðu. Í dómkerfið vantar líka valhopp, sem er hinn grunngangurinn. Kynbótadómar eru nú á villigötum.

Orrigal frá Frón og Sövik

Hestar

Skráning kynbótahrossa er orðin skökk. Bændasamtökin leyfa hrossanöfn, sem ekki eru íslenzk, svo sem Fifar og Orrigal. Þótt það stríði gegn ákvæðum alþjóðasamtaka íslenzka hestsins. Leyfa vörumerki í stað fæðingarlögbýlis, svo sem Margrétarhof og Frón. Þótt annar reitur sé fyrir nafn eiganda á skráningarblaði. Leyfa eigandanafn í stað fæðingarlögbýlis, svo sem Sövik og Rørvik. Allt eru þetta dæmi um agalausa skráningu. Misvitrar óskir eigenda eru teknar fram yfir upprunalegar hugmyndir um skráningu einkenna í mismunandi reiti. Með sama framhaldi verður skráningin smám saman að bulli.

Ég hef 764 reiðslóðir

Hestar

Reiðslóðabanki minn var uppfærður í gær, nær nú yfir 764 reiðslóðir. Nánar tiltekið 666 reiðleiðir (routes) og 98 reiðferla (tracks). Nýju ferlarnir eru einkum úr Þingeyjarsýslum, sem eru feikna gott reiðland. Hef verið þar í hestaferðum í tvö sumur. Allir hafa ókeypis aðgang að bankanum. Geta séð leiðirnar og ferlana á korti, ef þeir eru með GPS Íslandskort í tölvunni. Geta líka hlaðið þeim inn í Garmin-vasatæki með slíku korti. Safnið hefur siðferðilegan stuðning landssambands hestamanna og aðstoð félagsins Glaðs í Dölum. Ég er auðvitað afar stoltur af framtaki mínu, sem er einsdæmi.

Ég um mig frá mér til mín

Hestar

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur gefið út sjö útivistarkort, sem efla ferðaþjónustu í sýslunum. Þar eru skráðar margar reiðleiðir. Svo sem þjóðleiðin frá Fosseli við Skjálfandafljót upp Fosselsskóg og Fljótsheiði að Einarsstöðum í Reykjadal. Að venju hafði ég samstarf við bændur um aðkomu að reiðleiðum og umgengni um lönd. Allir tóku firnavel spurningum mínum. Nema Vésteinn á Vaði. Hann sagði reiðleiðina bannaða. Af hverjum? Eigendum sumarhúsa! Sagði leiðina torfæra. Það reyndist rangt. Þetta var óþarft samtal. Ég hélt ró minni. Einn af hundrað er sérgóður sérvitringur.

Kóngsvegur er vont fordæmi

Hestar

Reynsla aldanna hefur sætt hagsmuni landeigenda og ferðamanna. Í fornum lögum eru um samskiptin nákvæm ákvæði. Voru staðfest í náttúruverndarlögum frá 1999. Heimila fólki ferð um einkalönd og staðfesta gildi gamalla göngu- og reiðleiða. Oftast er farið eftir þessu. Kóngsvegurinn var þó þvergirtur. Seðlabankinn reyndi að loka Holtsdal og eigendur að loka Þjórsárbökkum. Hvorugt tókst. Á ferðum um Þingeyjarsýslur í tvö sumur hef ég séð fjögur dæmi. Það firrtasta er um sumarhúsamenn í landi Vaðs. Settu upp skilti, er bannar reið á gamalli reiðleið, sem staðfest er á nýjum útivistarkortum.

Fáfróðir eigendur sumarhúsa

Hestar

Hefðbundnir landeigendur á Íslandi þekkja takmörk eignaréttar á landi. Þeir vita, að umferðarréttur gildir um land. Þetta vita hins vegar ekki ýmsir sumarhúsaeigendur úr þéttbýli. Virðast halda, að bandarískur eignaréttur á landi gildi hér á landi. Telja eignarétt vera algildan, án takmarkana. Þeir reyna að girða sig inni, þótt slóðir liggi um land þeirra. Þeir banna umferð, sem þeir hafa enga heimild til að banna. Einkum eru það eigendur sumarhúsa og erfingjar lands, sem valda árekstrum í samskiptum eigenda og ferðamanna. Samskipti ferðamanna við hefðbundna bændur eru hins vegar góð.

Lögbrot í Þingeyjarsýslum

Hestar

Fjögur dæmi eru í Þingeyjarsýslum um, að landeigendur reyni að hefta umferð hestamanna. Árangur er lítill. Menn geta riðið þjóðleiðina um Grjótnes, en í trássi við þýzka konu. Þeir verða að klippa eða kalla í bónda til að fá opnað hlið við Ormarsá, sem svissneskir veiðimenn hafa læst. Eigendur sumarbústaða hafa sett upp marklaust bannskilti á opinberan veg um Vað og Fosssel. Erfingi Barnafells hefur reist skála um þjóðbraut þvera. Ekki til að halda ferðamönnum veizlur. Heldur til að hrekja þá í hættulega slóð ofan við Barnafoss. Opinberir aðilar trassa að hefta þessi skýru brot á lögum.