Hestar

Toppurinn á tilverunni

Hestar

Hvammsheiðin er toppurinn á tilverunni. Trylltust allra þingeyskra heiða. Myljandi moldargötur endilanga heiðina. Gæðingarnir lemja götuna og magna hraðann. Forreið, lausahross og eftirreið geysast fram og landið allt skelfur. Gangur hreinsast, bakið er gefið eftir, hrossin lækka, sporin greikka. Fimmtán kílómetrar af hreinni himinsælu í klukkutíma. Við erum komin út í Laxamýri langt á undan áætlun. Landið er svo þurrt, að hvergi rennur eða grefur úr slóð. Reiðleiðin nær frá Yzta-Hvammi að Laxamýri, vinsælust af ótal reiðslóðum um þurrar og greiðar heiðar Þingeyinga.

Enn eru fornminjar notaðar

Hestar

Fór Gullveginn í gær, fína reiðleið. Liggur frá Hellulandi við Mývatn til Arndísarstaða í Bárðardal. Vegurinn hét áður Akureyrarvegur, en heitir nú Arndísarstaðavegur á kortum. Liggur um nokkur eyðibýli að baki Reykjadals, Víðasel, Laugasel og Stafnsholt. Var notaður fram að bílaöld og brúnni við Fosshól. Mikill og breiður reiðvegur, sums staðar upphækkaður, einkum í mýrum, jafnvel með steinhleðslum í ræsum. Að mestu leyti þurr, skorningar fáir og mýrar stuttar og þéttar. Í blautu er betra að ösla mýrarkaflana en fara veginn. Þetta eru lifandi fornminjar, sem félag hestamanna heldur við.

Mýrin betri en Gullvegurinn

Hestar

Einkennilegt er að koma til mannabyggða og verst að heyra í sjónvarpi. Það er eins og að vera kominn á vitfirringahæli. Í hestaferðum eru viðmiðin önnur. Þar er spáð í járningar og ástand hesta, vatnsból og haga, veður og vinda. Einföld atriði. Hef ekki hugmynd um, hvað er að gerast. Geri þó ráð fyrir, að stríð sé í Miðausturlöndum og að ríkisstjórnin ráði ekki við sín mál. Í gærkvöldi var ég í símanum við bónda, sem upplýsti mig um útgrafinn reiðveg. Hann taldi mýrina betri en veginn. Þetta er Gullvegurinn, þar sem sauðakaupmaður glataði sjóði sínum. Samgönguminjum er enginn sómi sýndur.

Vatnsþyrstir á Biskupaleið

Hestar

Í Suðurárbotnum spýtist áin fullþroska út úr kanti Ódáðahrauns. Milli botna Suðurár og Krákár erum við á hluta Biskupaleiðar. Hún lá frá Ferjufjalli við við Jökulsá á Fjöllum norðan Kerlingardyngju, yfir botnana og síðan um Ódáðahraun til Kiðagils undir Sprengisandi. Það hefur verið himnaríki að komast í gróðurvinjar Suðurárbotna eftir strangar og vatnslausar ferðir um eyðimerkur sanda og hrauns. Þar breiðir áin úr sér milli hárra og gróinna bakka. Þar syngja heiðafuglar í hólmum. Hestarnir teyga vatnið í tuglítra vís. En allt fóður þurfum við flytja á staðinn, þetta er í 400 metra hæð.

Útivistarkort sýna þjóðgötur

Hestar

Hestar á hörðum skeifum hafa um aldir klappað götur í land. Þetta eru gömlu þjóðgöturnar, sennilega sex hundruð, allar á GPS á jonas.is. Voru af alúð færðar á kort á vegum danska herforingjaráðsins fyrir einni öld. Síðan strikuðu Landmælingarnar sumar út, en þær hafa samt áfram verið til. Um tíma seildust sumir til að skíra þær gönguleiðir og banna hestaskít. Sá tími er liðinn, nú láta ferðaþjónustumenn teikna útivistarkort, sem sýna göturnar sem reiðleiðir. Frábær útivistarkort í mælikvarða 1/100.000 eru til um Norðurland og Norðausturland. Þau sýna hestum tilhlýðilega virðingu.

Hestarnir slá manninum við

Hestar

Nú vorkenni ég hestunum mínum, sem bera mig upp fjöll í 26 stiga hita í forsælu. Þeir bera sig samt vel og eru fljótir að jafna sig. Mér líður svo sem vel á hestbaki, því að ferð jafngildir vindi. En fell nánast yfirlið í áningum, þegar lognið hellist yfir mig. Í dag fórum við yfir þjóðveg. Þar tók ég hnakkinn af, setti hestinn í reksturinn og settist sjálfur örmagna í vegkantinn. Komst svo við illan leik í sturtu og vatnskrana í náttstað. Er óendanlega miklu ófullkomnari skepna en hesturinn. Hann kann bezt við sig í tíu stiga hita, en lætur bjóða sér miklu hærri tölur án þess að gefast upp.

Ég fita hesta fyrir ferðir

Hestar

Sennilega er ég eini hestamaðurinn á landinu, sem fitar hesta fyrir ferðir. Margir setja hesta í sveltihólf, sem er fáránlegt. Fita gengur næst þjálfun að mikilvægi. Hestar þurfa í fyrsta lagi að vera þjálfaðir og í öðru lagi að vera feitir. Þá fara þeir langar leiðir og hafa nóg lýsi til að brenna. Mögru og óþolnu hestarnir gefast upp á ferðalögum, valda vandræðum. Ég veit ekki, hvers vegna hestamenn velja svelti. Líklega stafar það þó af, að þeim finnst feitir hestar tölta lakar. Vitleysan frá landsmótum og sirkus-sjóum hesta hefur því miður slæm áhrif á suma hestaferðamenn og leitarmenn.

Dómkerfið hafnar gæðingum

Hestar

Ég minntist Stígs frá Vík hér fyrir þremur dögum. Hann var gott dæmi um hest, sem kerfið hafnar. Hann var dúnmjúkur á tölti og brokki, lyfti fótum ekki meira en þurfti. Hann fór vel með Kristínu. Svona hestur gerir knapann aldrei þreyttan. Nú eru dómar kynbótahrossa, íþróttahesta og gæðinga orðnir öfugsnúnir í brokkinu. Hæst er dæmt fyrir hlunka, sem gossa í loftköstum. Það er kallað svifmikið og vekur aðdáun fávísra áhorfenda í brekkunni. Knapinn verður hins vegar að vera í lífstykki og ríður bara tvo hringi þá vikuna. Ræktun hrossa er að útrýma raunverulegum gæðingum á borð við Stíg.

Mikill, feitur og þindarlaus

Hestar

Stígur Léttisson frá Vík dó í haganum í fyrradag 28 vetra. Síðasti vetur var honum erfiður á útigjöf og var hann tekinn á hús. Fyrsti ferðahestur Kristínar, keyptur af Jens Einarssyni listamanni. Feiknalega mjúkur og þægilegur trukkur, hvort sem var á tölti eða brokki. Notalega lággengur og fótviss, mikill og feitur hestur, oft kallaður Stóri-Jarpur. Þindarlaus og áhugasamur á ferðalögum, akkúrat fyrir okkur. Var í þjónustu okkar hálfan annan áratug og missti aldrei úr ferðasumar. Fór á eftirlaun um tvítugt og hefur síðan valsað um Kaldbak með félögunum. Fékk hjartaslag í fínum haga.

Fór ekki á landsmótið

Hestar

Ég ákvað að fara ekki á landsmótið núna. Síðustu ár hef ég fjarlægzt mat brekkunnar á hrossum og tilheyrandi úrskurði dómnefnda. Nú er farið að dæma hross á forsendum spánska reiðskólans í Vínarborg. Sýndir eru sirkushestar, sumir óríðandi með öllu að hætti Suðra frá Holtsmúla. Öll gleði áhorfenda liggur í fótlyftu og hauslyftu að hætti Lippizaner-hrossa. Þetta er bara gert fyrir brekkuna, en hefur skaðleg áhrif á reið og ræktun. Stefna hastra hesta kemur frá Þýzkalandi, þar sem menn nota stóra hjassa til að ríða kringum kastalann. Ég nenni ekki að ergja mig á að horfa á sirkus.

Riðið kringum kastalann

Hestar

Góður hestur hleypur 7000 kílómetra frá Ulan Bator til Vínarborgar á þremur mánuðum. Það er hestur Gengis Kan og íslenzki hesturinn. Slíkir hestar hlupu hringi kringum evrópsku aðalshestana, sem nú eru stældir á landsmótum hestamanna. Íslenzki hesturinn er í erfðum skyldastur löngum langhlaupurum mongóla, sem fóru létt á mjúku lulli og valhoppi nánast dag og nótt. Slíkir hestar fluttu forfeður okkar yfir jökulár og heiðar til alþingis eða til víga í öðrum héruðum. Við ræktum því miður hestinn frá mjúkum þolhesti í stutta brokkara, sem riðið er kringum kastalann að hætti þýzka aðalsmanna.

Hundruð manna í vítahring

Hestar

Hundruð hafa hagsmuni af rangri stefnu í hrossarækt og tamningum. Bændur hafa lært að sveigja ræktun sína undir kröfur kerfisins og brekkunnar. Há einkunn á mótum auglýsir ræktun þeirra. Sama er að segja um tamningamenn og dómara í ræktunar-, gæðinga- og íþróttakeppni. Kröfur um útlit byggjast á aldargömlu mati á dönskum kerruhestum á brokki. Menn vilja lítinn haus, stuttan skrokk og langa fætur. Kröfur til gangs byggjast á, að hágengt tölt sé æðra en grunngangurinn, lull og valhopp. Kröfur um þjálfun byggjast á hávöxnum, þýzkum stríðshestum. Menn kunna ekki annað, eru aldir svona upp.

Týna mýkt úr hrossum

Hestar

Ég er ekki sá fyrsti, sem gagnrýnir hrossamót. Sigurður Haraldsson var einn þekktasti hrossaræktandi landsins, átti rauðblesóttu Kirkjubæingana. Hann sagði í viðtali við Eiðfaxa 1992: “Mér finnst að við séum á hraðri leið með að týna mýktinni úr hrossunum. Í mínum augum liggur áherzlan öll orðið á sýningarhestunum, en ekki reiðhestunum. Nú miðast allt við auga áhorfandans, en reiðhestur fyrir reiðmanninn er ekki það, sem sóst er eftir. Mér finnst þetta ná alltof mikið inn í ræktunina líka núorðið.” Ég tel, að allan gang eigi að dæma eftir sjálfvirkum hristingsmæli í hnakki.

Léleg eftirherma af Lippizaner

Hestar

“Þetta verður ekki vinsælt” eru einu mótbárurnar, sem ég fæ, þegar ég viðra skoðanir mínar á hestakeppni. Þær eru: Hristingsmælar verði settir í alla keppnishnakka. Bætt verði við gangtegundunum lulli og valhoppi, sem öldum saman stóðu undir ferðum Íslendinga. Tölt og skeið verði aðeins riðið við lausan taum að hætti Cavallo. Þyngingar fóta og hófhlífar verði bannaðar, einungis ásláttarlausir hestar notaðir á skeiði. Mínus verði fyrir fótlyftu yfir vinkil. Bönnuð verði keppni á hringvelli. Þannig er hindruð breyting á þolgóða ferðahestinum íslenzka yfir í lélega eftirhermu af Lippizaner.

Dólgslegir útlendingar

Hestar

Útlendingar hafa komizt upp með að vanvirða íslenzk lög um frjálst aðgengi þjóðarinnar að öllu landinu. Við vorum hópur hestamanna, sem vildum fylgja gamalli og kortlagðri þjóðbraut um Grjótnes. Þar réð húsum þýzk kerling á íslenzka sósíalnum. Samningar tókust ekki, við lúffuðum, tókum krókinn til að halda friðinn. Tveimur dögum síðar komum við að læstu hliði við Ormarsá. Svissneskir laxveiðimenn höfðu læst hliðinu til að forðast veiðiþjófa. Við vorum komnir með naglbítinn á loft, þegar bóndinn, umbi Svissaranna, kom í loftköstum með lykil. Sýslumenn eiga að stöðva lögbrot frekra útlendinga.