Hvammsheiðin er toppurinn á tilverunni. Trylltust allra þingeyskra heiða. Myljandi moldargötur endilanga heiðina. Gæðingarnir lemja götuna og magna hraðann. Forreið, lausahross og eftirreið geysast fram og landið allt skelfur. Gangur hreinsast, bakið er gefið eftir, hrossin lækka, sporin greikka. Fimmtán kílómetrar af hreinni himinsælu í klukkutíma. Við erum komin út í Laxamýri langt á undan áætlun. Landið er svo þurrt, að hvergi rennur eða grefur úr slóð. Reiðleiðin nær frá Yzta-Hvammi að Laxamýri, vinsælust af ótal reiðslóðum um þurrar og greiðar heiðar Þingeyinga.