Hestar

Drukknir eiga heiminn

Hestar

Kaldbakur í Hrunamannahreppi er á leiðarenda vegakerfisins, en á krossgötum hestaferða. Á sumrin hafa Íshestar hér vikulega næturhaga. Samskipti við þá eru fín. Svipaða sögu er að segja um vel skipulagða ferðahópa. Þeir fara eftir hefðbundnum reglum. Annað er að segja um suma hópa drykkjurúta. Einn slíkur hópur reif tvær girðingar til að koma hestunum í skógræktina. Annar gerði þarfir sínar í hlöðunni. Einn hópurinn hélt hestum sínum til beitar í plastrúllum í hlöðunni. Þeir lífsreyndu biðja um að fá að nota hestagerðið, drukknir undirmálsmenn hafa alls engin orð um það. Eiga bara heiminn.

Mælitæki í hnakki sýni frávikin

Hestar

Mýktin á að vera mesta keppikefli íslenzka hestsins. Hann á að líða áfram í beinni línu á góðgangi. Hann á ekki að hossast upp og niður á svifabrokki og ekki hossast til hliða með handafli knapa á skeiði. Frávik hljóta þó að vera frá beinni línu á brokki og skeiði, en engin á tölti. Í keppni þarf að koma upp mælitæki í hnakki, sem sýnir frávik frá beinni línu. Því minna frávik í hverjum gangi, þeim mun hærri einkunn. Mat manna á íslenzkum hestum er á villigötum. Það er sjónrænt, miðar við áhorfendur, sem hrífast af samansúrruðu sirkushoppi. Það á að stíla á þægindi og mýkt gangtegunda.

Glaðir hestar gleðja menn

Hestar

Langferð sumarsins verður að þessu sinni um Suður-Þingeyjarsýslu, þriggja vikna ferð með flutningi. Við fórum í fyrrasumar heldur lengri ferð um norðursýsluna. Ég trúi, að ferðin í sumar verði enn skemmtilegri, því að hvergi eru lengri moldargötur en á lyngheiðum suðursýslunnar. Við förum tólf til fjórtán saman með rekstur. Mínir hestar eru orðnir fullþjálfaðir, þurftu að læra að bera þungan mann. Á ferðalögum skiptir mestu, að hestar séu aldrei ofkeyrðir. Ef þeir fara að kvíða nýjum degi, breytast gæðingar í bikkjur. Ef reiðhestarnir eru alltaf glaðir, eru reiðmenn alltaf glaðir.

Suðri er manndrápsbrokkari

Hestar

Suðri frá Holtsmúla er mesti ódráttur íslenzkrar hrossaræktar í áratug. Stóðhesturinn er manndrápsbrokkari, enginn getur riðið honum nema Olil Amble. Hún er norsk og ýmsu vön. Suðri hristir nýrun úr tamingamanni á fimm mínútum. Áhorfendum þykir það rosalega flott á hringvelli, kallað svifmikið brokk. Þeir mega vart vatni halda. Enda eru hestar ekki lengur metnir eftir mýkt, heldur hvernig þeir muni taka sig út í sirkus. Við erum að rækta kyn, sem er ónothæft í leitir og veldur reiðmanni þjáningum. Gæðingur er hins vegar hestur, sem sullar ekki úr bjórglasi á lendinni. Suðri brýtur glasið.

Heimsfrægur frændgarður

Hestar

Przewalski villihesturinn er náskyldur mongólska og íslenzka hestinum. Sá mongólski varð frægur, þegar riddarar Gengis Kan riðu sjö þúsund kílómetra frá Ulan Bator til Vínarborgar á Sturlungaöld. Þetta eru langir, hausstórir og fótstuttir hestar eins og þeir íslenzku, rosalega þolgóðir. Mongólar voru miklir stríðsmenn á hestbaki, skutu 350 metra á boga, 100 metrum lengra en fótgangandi evrópskir bogmenn. Á sama tíma voru frændur mongólska hestsins á Íslandi notaðir til að ferja stríðsmenn yfir heiðar . En hér kunnu menn lítt til hernaðar, stigu af baki til berjast og kasta grjóti.

Að sitja á eistunum

Hestar

Fyrir mörgum áratugum komu hingað þýzkir knapar. Bönnuðu Íslendingum gamla bændaásetu, að sitja í hnakk eins og í stól. Bönnuðu líka að sitja á rófubeininu að hætti Skúla í Skarði. Kenndu mönnum að sitja á eistunum. Með hófþyngingum var hestum kennt að lyfta framfótum að hætti sirkushesta. Út á þetta náðist markaður. Ríka, þýzka pabba vandaði litla og sæta hesta til að halda litlu og sætu dætrunum sínum frá gröðum strákum. Dæturnar hölluðu sér þá að fullum tamningamönnum og tvöfölduðu ógæfuna. Úr afkomendum hesta Gengis Kan var svo búinn til hastur, samanþjappaður hringvallarhestur.

Hann Árni á honum Garp

Hestar

Íslenzkar hestasýningar eru leiðinlegar og torskildar. Þar er hestur dreginn saman í hnút og látinn hoppa um hringvöll. Án þess þó að hoppa yfir hindranir, sem evrópskir sirkushestar geta. Verst við hestasýningar eru þó þulirnir. Þeir tala sérhæft hringvallatungumál, sem ég tel vera runnið úr vondri sænsku. “Þarna kemur hann Árni á honum Garp” segja þeir. Ég held, að landsliðseinvaldurinn Sigurður í Holtsmúla hafi byrjað á vitleysunni. Allir eru aðdáendur Sigurðar og hafa apað þetta eftir honum. Það þekkist ekki í íslenzkri málhefð að nota orðið “hann” í þessu afkáralega samhengi.

Hóprunk hestamanna

Hestar

Kvartað hefur verið um, að ég sem hestamaður hafi ekki tekið þátt í umræðu á vefnum um hóprunk hestamanna. Það fór fram á vegum formanns hestamanna í Mosó og er orðinn árlegur viðburður. Hér kemur því síðbúin skoðun mín. Ég styð hóprunk hestamanna í hreppnum. Þeir hafa við lítið annað að vera. Umferð hestamanna er bönnuð í bænum samkvæmt reglugerð. Þeir þurfa því að sitja á herrrakvöldum hjá formanni, leigja sér nektarskvísur og stunda hóprunk. Eykur líka félagslífið í hreppnum, því að nú er verið að stofna þar hestamannafélag án hóprunks. Sennilega hefur formaður þess heilabú.

Hvar er þín fornaldar frægð?

Hestar

Ég gef mér, að hermenn Gengis Kan hafi farið 120 kílómetra á sólarhring með sex til reiðar frá Mongólíu til Evrópu. 20 kílómetra á hverjum hesti. Þeir bundu sig niður og sváfu á baki. Meðan hestunum var beitt, þurftu þeir að veiða sér til matar. Þetta voru smáhestar, náskyldir íslenzka hestinum. Hér riðu menn í gamla daga 100 kílómetra á dag, þegar þeim lá á að drepa fólk í öðrum sýslum. Nú er íslenzki hesturinn hins vegar notaður til að hoppa á hringvöllum og skekja sundur innyfli knapa. Cavallo, tímarit hestamanna númer eitt, skopaðist í fyrra að nútíma reiðmennsku á íslenzkum hestum.

Hlupu frá Kína til Evrópu

Hestar

Ég saknaði hestanna í bók Jack Weatherford sagnfræðings um Gengis Kan. Þar er bara sagt, að hermenn hans höfðu sex til reiðar í árásum á Evrópu. Þetta voru kraftaverka-smáhestar, hlupu milli Kína og Evrópu. Hvernig voru þeir, hvernig hlupu þeir, hvernig var þeim riðið, hvernig voru þeir járnaðir, hvernig voru reiðtygin? Hann hefði átt að skrifa um þetta, því hestar voru samgöngutæki og meginvopn Mongóla. Íslenzkir hestar eru náskyldir þessum Mongólíu-hestunum, komnir hingað frá flökkuþjóðum á borð við Herúla. Slíkir hestar valhoppuðu öldum saman langar leiðir undir forfeðrum okkar.

Lull og valhopp

Hestar

Öldum saman voru lull og valhopp helztu gangtegundir íslenzka hestsins. Þær gerðu bændahöfðingjum í Gullhreppum kleift að ríða einhesta í einni bunu á fund í Reykjavík og heim aftur. Gerðu þingmönnum af Austurlandi kleift að ríða til alþingis á Þingvöllum. Nú þykja þær ekki fínar lengur, enda kann íslenzki hesturinn illa við sig utan hringvallar. Það gerir lítið til á íþróttamótum og gæðingamótum, þar sem hlunkar eru seldir fíflum. Lakara er þetta á ræktunarmótum. Þar á hiklaust að bæta þessum tveimur gangtegundum við þær fjórar, sem þegar eru dæmdar. Sex gíra hestur er eðalhestur.

Reiðgötur í GPS-punktum

Hestar

Fyrir ári fór ég að færa reiðleiðir herforingjaráðskortanna í kerfi GPS-punkta. Því verki er lokið. Sexhundruð leiðir eru öllum aðgengilegar á vefnum jonas.is/reidleidir. Mikilvægt er að varðveita slíkar leiðir. Þær eru hluti af sögu okkar og meðal mikilvægustu fornminja landsins. Samt hefur þeim lítið verið sinnt. Fornleifafræðingar hafa bara áhuga á húsum og kumlum. Sumar reiðleiðir eru komnar undir bílvegi og aðrar horfnar í mýrum. Sumar hafa verið skornar sundur af skurðum og aðrar af girðingum. Víða má þó enn ríða góðar götur, sem riðnar hafa verið þindarlaust í ellefu aldir.

Magnaðir og ólmir hestar

Hestar

Þegar Húnvetningar og Skagfirðingar fóru milli bæja fyrir einni öld, vildu þeir snarpa hesta, sem fóru þrjátíu kílómetra á tveimur klukkutímum. Þetta voru ólmir hestar, svo magnaðir, að lag og þolinmæði þurfti til að temja þá. Skeið og stökk voru kjörgangur, en samt fundu þessir bændur upp tölt til að nota til spari í kirkjuferðum. Að geta geisað á góðri götu var öldum saman þörf og vilji fólks. Löngu seinna var farið að rækta hesta, sem gátu hoppað upp á fótinn að hætti reiðskólans í Vínarborg. Leitun er orðin að hestum, sem Húnvetningar hefðu fyrir hundrað árum minnzt í erfidrykkju.

Líkræða yfir hesti

Hestar

Rútsstaða-Jarpur var heygður fyrir öld. Séra Stefán Jónsson á Auðkúlu las yfir moldum hans og fjölmenni kom til erfidrykkju. Víða um Húnaþing voru reiðhestar þá svo frægir, að þeir voru heygðir og haldnar erfidrykkjur. Frá þessum hestum segir í Horfnum góðhestum eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp. Hestar voru jeppar þess tíma, samgöngutæki bænda á faraldsfæti. Menn bjuggu á þremur-fjórum bæjum um ævina og fluttust milli landshluta. Reiðgötur þess tíma eru skráðar á herforingjaráðskortin dönsku á fyrsta áratug tuttugustu aldar. Þessar merkustu fornminjar landsins eru nú að týnast og gleymast.

Hestar í náttúrunni

Hestar

Samskipti landvarða og hestamanna eru að batna. Fleiri hestamenn fara eftir almennum reglum í umgengni við náttúruna. Fleiri þjóðgarðs- og landverðir skilja að reiðgötur eru aldagamall þáttur í náttúru landsins. Þeir átta sig á, að ekki gengur að taka götur, sem skeifur hafa búið til, skrá þær sem göngugötur og banna þar hestaskít. Lausir hestar í ferðum lesta sig faglega og halda við leiðum, sem annars mundu afmást. Þegar ég stýri hestaferðum, hef ég þá reglu að hafa snemma samband við land- og þjóðgarðsverði. Sem við þá um, hvernig og hvar skuli riðið og áð. Samtal eflir gagnkvæman skilning.