Megrun

Aragrúi nýrra matvæla

Megrun

Fyrr á öldum átu menn grænmeti og ávexti, kjöt og fisk. Nú snæða menn safa, duft, sand, froðu, fars og hakk. Meltingin hlýtur að vera öðru vísi en hún var um hundruð eftir hundruð kynslóða hér áður fyrr. Litningar mannslíkamans breytast svo hægt, að fólk er vart í stakk búið til að mæta þessum aragrúa nýstárlegra matvæla. Einkum hefur dregið úr hlutverki meltingarvegarins, þegar maturinn kemur hálfmeltur á diskinn. Mér finnst skammur vegur milli slíkra breytinga og ruglings í boðefnaflutningi heilans, þótt ekki hafi verið sýnt fram á það. Verksmiðjufæða nútímans getur vart verið heilbrigð.

Verksmiðjuvaran flæðir

Megrun

Tilgáta mín er, að fólk sé alls ekki í stakk búið til að mæta breytingum á neyzluvenjum. Forfeður okkar borðuðu grófan mat og gátu ekki ólmast í verksmiðjuframleiddum matvælum. Þeir þekktu nánast ekki sykur og fínmalað hveiti, né heldur gerbakstur. Öll matvara var í gamla daga meira eða minna náttúruleg, en nú er hún meira eða minna úr verksmiðjum. Jafnvel mjólkin kemur fitusprengd og gerilsneydd úr verksmiðjum. Líffæri fólks hafa ekki fengið færi á að laga sig að lífsstíl verksmiðjuvörunnar. Hjá sumum bilar heilsan. Hjá mörgum fara matartengd boðefni heila og taugakerfis í rugl.

Óheft aðgengi að mat

Megrun

Að baki ofáts eru breytingar í samfélaginu. Áður fyrr höfðu fáir ótakmarkað aðgengi að mat, en núna velta Vesturlandabúar sér upp úr mat. Verst eru þeir fátæku staddir, því að ódýrastur er oftast sá matur, sem stuðlar að offitu. Þar í flokki eru pítsur og pasta, gos og snakk. Ódýr sykur hefur á stuttum tíma orðið yfirþyrmandi þáttur í mataræði margra, með margvíslegum skaðlegum afleiðingum. Sykur verkar á fólk eins og fíkniefni og veldur sjúkdómum, ekki bara ofáti, heldur líka sykursýki og tannskemmdum. Sjúkdómar fylgja ýmsum verksmiðjuframleiddum mat, svo sem fínmöluðu hveiti og öðru fínmöluðu mjöli.

Fíkniefni og fíknihegðun

Megrun

Sum fíkn snýst ekki um hættuleg efni, heldur hættulegt atferli. Spilafíkn er dæmi um það. Sumir geta lent í svipuðu rugli í boðskiptum heilans í tengslum við fjárhættu og aðrir mæta í tengslum við áfengi. Hugsanlega er matarfíkn ekki bara efnisfíkn, heldur líka hegðunarfíkn. Einnig er líklegt, að hún sé ekki bara ein fíkn, heldur samspil ýmissa tegunda af fíkn. Allt flækir það málið og hindrar, að fólk nái tökum á lífi sínu. Annálað er, hversu erfitt mörgum reynist að hafa hemil á offitu og hversu örvæntingarfullar tilraunir þeirra reynast. Því eru til þúsund mismunandi matarkúrar. Sem enginn virkar.

Tvenns konar fíkn

Megrun

Ég get mér þess til, að tvenns konar fíkn valdi töluverðu um offitu fólks nú á dögum. Sumpart er fólk fíkið í verknaðinn að éta. Það er friðlaust, ef snakk skortir við sjónvarpið. Hefur vanizt gosdrykkjum og sælgæti frá æsku. Sumpart er fólk fíkið í efni í matnum og þá helzt í sykur og hveiti. Ég sé af sjálfum mér, að mig langar ekki í meira hrásalat, fisk og kjöt eftir hæfilegan skammt. Get hins vegar étið óæti eins og djúpsteiktar kleinur viðstöðulaust upp úr 2500 kaloríu plastpoka, þegar ég keyri austur fyrir fjall. Af framangreindu ræð ég, að offita liggi oft í tvenns konar fíkn.

Ofát er margs konar

Megrun

Ofát er margs konar. Sumt fólk grennir sig fyrir eða eftir jól, lætur þar við sitja og það er nóg. Aðrir lifa í stöðugum hremmingum út af ofáti. Þeir þurfa að gera meira í sínum málum en hinir, sem bara þurfa að leiðrétta kúrsinn. Á endanum lenda hömlulausar ofætur í Overeaters Anonymous, Food Addicts Anonymous eða Gray Sheet Anonymous með tólf spora kerfi batans. Illa afvegaleiddir ná þar stundum góðum árangri, sem gerir þeim kleift að lifa góðu lífi um langan aldur. Mig langar að fjalla um allan pakkann, allt frá leiðréttingum í mataræði yfir í stöðvun á hömlulausu áti matar- og átfíkils.

Matarfíkn er erfiðust

Megrun

Matarfíkn er ein versta fíkn, sem um getur. Sú fíkn, sem erfiðast er að ráða við. Í öðrum tilvikum eru hættulegu efnin skilgreind: alkóhól, amfetamín, heróín, morfín og svo framvegis. Lausnin er þá að forðast efnin. Við vitum ekki, hvað það er í matnum, sem framkallar fíkn. Þess vegna þarf að fara eftir líkum, forðast sykur, hveiti, sterkju, fitu. Og leita lausna í hegðun. Koma okkur upp hollari lífsstíl, sem felur í sér hreyfingu, breytt mataræði og matarvenjur. Það eitt tekur á erfiðleikum fólks við að fást við matarfíkn umfram aðrar fíknir. Það gerist með breyttum huga og breyttum persónuleika.

Talningin og fíknin

Megrun

Næringarfræðin segir okkur að telja kaloríur ofan í okkur og að fara ekki hærra en læknisfræðilega er ráðlagt. Hún segir okkur líka, að borða aðeins á föstum matmálstímum og að fá okkur bara einu sinni á diskinn. Þannig lýkur leiðsögn, sem gerir ráð fyrir, að allir fari eftir reglunum. Því miður er málið ekki svona einfalt. Sumir ráða ekki við þessar reglur nema með því að líta á ofát sem fíkn. Spurningin er þá, hver sé fíknin. Er hún fíkn í hegðun eða fíkn í efni og hver er þá hegðunin eða efnið? Vísindin svara því tregt, enda er matarfíkn áreiðanlega miklu flóknari en áfengisfíkn eða spilafíkn.

Trikkið við aðferðina

Megrun

Trikkið við aðferðina, sem ég lýsi, er, að hún fær líkama, sál og huga í lið með þér. Í fyrsta lagi með því að ofbjóða þér ekki með of breyttu mataræði og of mikilli megrun. Í öðru lagi með því að dansa ekki kringum vogina, heldur leggja áherzlu á breyttan persónuleika. Á langri leið grípur þú þannig upp hæfni, sem gerir þér kleift að fara á leiðarenda. Jafnvel niður í kjörþyngd, ef það er markmið þitt. Vandinn við offitu er, að hún er ekki sjúkdómur í fitunni, heldur í röngum boðskiptum í heilanum og í brenglaðri persónu. Þú þarft að ná þeirri hugarró, sem er nauðsynleg til að ná varanlegum árangri.

Sáraeinfalt í rauninni

Megrun

Í þrjú ár léttist um eitt kíló á mánuði að meðaltali. Var fyrir ári kominn í þá þyngd, sem ég vildi. Einföld er ástæðan fyrir því, að megrunin bilaði ekki að þessu sinni. Átakið var svo lítið á hverjum degi, að ég fann varla fyrir því. Með kaloríutalningu komst ég upp á lag með að vera örlítið undir viðhaldsneyzlu. Kannski hundrað kaloríum á dag undir þyngdarjafnvægi. Meira átak þurfti ekki. Smám saman vandist ég þessu mataræði og smám saman breyttist persónuleiki minn. Ég varð afslappaður, gat farið að notfæra mér samhjálp matarfíkla. Ég öðlaðist hugarró, sem flutti mig síðasta spölinn.

Breyttu persónu þinni

Megrun

Lykillinn að megrun er breytt persóna. En þú breytir ekki persónu þinni hér og nú. Það gerist hins vegar á löngum tíma, ef þú ferð í það ferli, sem hér er lýst. Smám saman byggir þú upp forsendur fyrir breyttum viðhorfum þínum til matar og mataræðis. Slíkt gerist bara á löngum tíma. Þegar ég fór inn á þessa braut, var ég marga mánuði að finna nýtt jafnvægi í breyttri persónu. Ég var þá kominn með hugarró og æðruleysi, sem gerði mér kleift að gleðjast yfir hverjum örsmáum sigri. Með hægfara bata á líkama, sál og huga áttu að geta fetað þennan sama veg á þínum eigin hraða. Ekki gleypa sólina strax.

Kaloríur eru kaloríur

Megrun

Þú kemst ekki hjá kaloríum. Kaloríur eru kaloríur. Hverfa ekki si svona. Ef þú innbyrðir kaloríur, þarf líkaminn að losna við þær aftur. Kaloríur eru hitaeiningar, sem mæla orku. Ef þær koma of margar, hleðst upp geymd orka, fita. Svo einfalt er það. Engir galdrar duga til að láta kaloríur hverfa. Því er svo mikilvægt að skilja kaloríubúskap líkamans. Að komast upp á lag með að telja innbyrtar kaloríur á hverjum degi. Að komast að raun um, hvar þitt persónulega jafnvægi er. Þar helzt þyngd þín óbreytt. Þegar þú hefur fundið jafnvægið, setur þú þér markmið um að innbyrða aðeins færri kaloríur.

Gildi næringarfræði

Megrun

Þótt næringarfræðin sé takmörkuð, er hún nauðsynleg öllum þeim, sem þjakaðir eru of ofáti. Hún segir, hversu mikið þú þarft að borða til að halda jöfnu í þyngd og hversu mikið þér sé óhætt að fara niður úr því magni. Hún segir þér líka, hvaða mataræði sé heilsusamlegt og hversu fjölbreytt það eigi að vera. Vísindi næringarfræðinnar geta sagt þér, að flestir matarkúrar brjóta lögmál góðrar heilsu. Takmörk næringarfræði felast síðan í, að hún á erfitt með að viðurkenna fæðu sem fíkniefni, til dæmis sykur. Að hún á stirt með að skilja fíknina. Skynjar ekki þátt hennar í vanda fólks við að fara eftir fræðunum.

Hvað, hversu mikið, hvenær

Megrun

Þeir, sem stríða við of mikla þyngd, þurfa að gæta sín á þremur atriðum. Hvað þeir borða, hversu mikið þeir borða og hvenær þeir borða. Þeir þurfa að hafa kerfi á þessum þremur þáttum. Þurfa að skilgreina mat, sem þeir borða ekki. Þurfa að kunna að hætta að borða, þegar þeir eru byrjaðir. Og þurfa að skilgreina matmálstíma, aðgreinda frá öðrum tímum dagsins. Sumir geta þetta á góðu skipulagi eingöngu, en aðrir þurfa aðstoð. Hún miðar að breyttum og bættum lífsstíl, breyttum og bættum persónuleika. Hún felur í sér nýtt líf. Markmiðið er að þurfa ekki lengur að ströggla. Komast á léttu leiðina ljúfu.

Verksmiðjufæðið verst

Megrun

Steinaldarfæði er vitaskuld hollt, líklega hollara en annað fæði. Því fjær, sem maður kemst nútímanum, þeim mun betra. Það er einföld formúla, sem mikið er til í. En erfitt er það fæði í framkvæmd, því að þá færi allt korn úr fæði þínu, öll hrísgrjón, allar kartöflur. Mér finnst ótrúlegt, að þetta séu beinlínis fíkniefni, nema þá fínmalað eða fínvalsað úr verksmiðjum, sem eru yngra fyrirbæri. Fyrir matarfíkla sé einfaldara að fara bara aftur fyrir verksmiðjutímann, ekki alla leið aftur fyrir innreið akuryrkju. En viljirðu ákveðið vera á steinaldarfæði, kemur það örugglega ekki í veg fyrir árangur.