Megrun

Ekki steinaldarfæði

Megrun

Áhugaverðasta megrunaraðferð líðandi stundar er steinaldarfæðið. Gerir ráð fyrir, að okkur sé eðlilegt að nota grófan mat eins og étinn var á steinöld, fyrir innreið kornræktar. Í þeim ágæta kúr kasta menn ekki aðeins burt allri verksmiðjuframleiddri fæðu, heldur líka öllu, sem kemur úr korni. Þar með töldu brauði. Gallar við þennan annars ágæta kúr eru tveir. Í fyrsta lagi er hann fremur erfiður í nútíma samfélagi. Í öðru lagi felur hann í sér róttæka breytingu frá fyrra mataræði okkar. Hann felur í sér átak, sem mér og þér er um megn. Betra er að sveigja hóflega frá fyrra mataræði og halda ró sinni.

Fyrirvari um fæðubót

Megrun

Einn fyrirvara þarf að hafa á gagnsleysi fæðubótarefna. Sumt fólk býr við heilsubrest, sem kallar á lyf eða bannar tilgreind matvæli. Fólk með ofnæmi eða óþol þarf að forðast vissan mat og þarf kannski í staðinn að taka eitt eða fleiri fæðubótarefni. Að svo miklu leyti sem hægt er að líta á efnin sem náttúrulyf, geta þau komið að gagni við skilgreindar aðstæður. En sæmilega heilbrigt fólk án ofnæmis eða óþols þarf engin slík efni. Þar á ofan er rétt að efast um gagnsemi fæðubótarefna sem náttúrulyfja. Að baki fullyrðingum slíkum eru sjaldnast neinar viðurkenndar rannsóknir, sem standast kröfur.

Þúsundir kynslóða

Megrun

Í þúsundir kynslóða vandist mannkynið því, sem kallað er hefðbundinn matur. Meltingarvegurinn vandist honum smám saman. Á síðustu áratugum kom svo til skjalanna ýmis fæða, sem er meltingarveginum framandi. Fyrir rúmri öld varð sykur almenningseign. Með skelfilegum afleiðingum. Þá er verksmiðjuiðnaður orðinn almenn regla í framleiðslu matvæla. Notuð eru margs konar efni, sem áður þekktust ekki, svo sem sætuefni, geymsluefni og litarefni. Vara er gerð fínni, hveiti breytt í hvítt fínhveiti, ávöxtum breytt í safa, grænmeti í froðu. Ekkert er undarlegt við, að ýmsir þoli illa sumar þessar breytingar.

Brengluð kjörþyngd

Megrun

Hugmyndir fólks um kjörþyngd hafa brenglazt, einkum vegna áhrifa tízkuhúsa. Um langt árabil hefur verið vaxandi þrýstingur á, að fólk sé þvengmjótt. Þetta er orðið að áráttu hjá mörgum, einkum ungum konum. Áráttan er studd framleiðendum alls konar vöru og þjónustu, sem sögð er hjálpa þér við að grennast. Við þurfum að breyta þessu brenglaða fegurðarmati. Einkum þurfum við að víkka hugtak kjörþyngdar. Við þurfum að draga úr því, sem kallað er offita, en taka léttar á því, sem kallast ofþyngd. Óhætt er að vera fimm til tíu kílóum yfir neðri mörkum ofþyngdar eins og hún hefur verið skilgreind.

Engir galdrar duga

Megrun

Losaðu þig við hugmyndir um að láta vandann hverfa með göldrum. Nánast allir matarkúrar byggjast á göldrum, einföldum slagorðum um ævintýralegan árangur á skömmum tíma. Höfundar matarkúra eru sölumenn snákaolíu, arftakar þeirra, sem fyrr á öldum fóru milli markaðstorga með dularfull glös í pússi sínu. Enginn sítrónukúr eða steinaldarkúr mun flytja þig yfir til fyrirheitna landsins. Að vísu borgar sig að taka út örfáar matartegundir. Að öðru leyti felst verkefnið í að breyta persónu þinni. Að gera þig að heilli persónu, sem veit, hvenær hún á að borða og hvenær hún á að stöðva átið hverju sinni.

Hvorki kúr né fæðubót

Megrun

Hér verða engar tillögur um brenglað mataræði eins og þær sem einkenna marga megrunarkúra. Sérhæft mataræði ruglar líkamann og getur líka verið hættulegt heilsunni. Hér verða heldur ekki neinar tillögur um notkun fæðubótarefna. Í bezta falli eru þau meinlaus og í versta falli skaðleg. Þú þarft engin slík efni, ef þú borðar ferskan og hollan mat. Ferskvara hefur öll efni, sem fólk þarf að nota. Fæðubót er þér einskis virði, þótt hún fylli hillur svonefndra heilsuverzlana. Hollusta fæst ekki úr dósum eða glösum eða pökkum sölumanna snákaolíu. Hér verða á næstunni bara tillögur um mataræði hefðbundinnar næringarfræði.

Lausn fannst loksins

Megrun

Í nærri hálfa öld átti ég í varnarstríði við offitu vegna óhæfilegs dálætis á mat. Komst hæst í 125 kíló, en er nú blessunarlega bara í 90 kílóum. Áður var ég tvisvar á kúr. Fyrst í 15 ár á Atkins. Virkaði vel, en var óhollur. Síðar í 10 ár í samfélagi óvirkra matarfíkla. Virkaði vel um tíma, en ég var ekki nógu vel undirbúinn. Á milli strögglaði ég óskipulega. Nú hef ég fundið léttu leiðina ljúfu. Grunnurinn er í kaloríutalningu og matardagbók. Ofan á er lífsreynsla matarfíkla í bata. Kaloríutalning er fín, en nægir stundum ekki, því ofát og offita eru oft merki um fíkn. Merki um öflugan andstæðing.

(Hér munu af og til birtast svona greinar á næstunni. Safnast svo fyrir í greinaskjóðunni “Megrun” hér hægra megin)

Dæmi ganga ekki upp

Megrun

Sérfræðingar í lýðheilsu og næringarfræði eru í stórum dráttum sammála um, hvað sé fitandi og óhollt. Þeir gefa ráð, sem fólk reynist ekki geta farið eftir. Stafar af skilningsleysi sérfræðinganna á matarfíkn og átfíkn. Þegar svo veigamikinn þátt vantar í dæmið, verður ráðgjöfin yfirleitt ekki til neins gagns. Í skarðið hlaupa skottulæknar af ýmsu tagi, svo og sölumenn snákaolíu. Fólki er boðið að megrast um 40 kíló á 40 vikum. Boðið upp á 40 hillumetra af snákaolíu í krukkum og glösum, dósum og pökkum í heilsubúðum. Svo ekki sé minnst á galdradrykkina og orkukubbana. Milljarðaveltan í skottulækningum stafar af litlum skilningi sérfræðinga á ægivaldi fíkna.

Létta leiðin ljúfa

Megrun

Flas gerir engan flýti. Þú verður ekki grannur til frambúðar með markvissu átaki. Tilraunir til öfgafulls mataræðis eru dæmdar til að mistakast, verða jó-jó. Líkaminn mun mótmæla illri meðferð og sérstaklega mun hann bregðast hart við sulti. Í nokkrum pistlum mun ég skýra, hvernig létta leiðin ljúfa hentar betur. Líttu á megrun sem langvinnt verkefni. Settu þér ekki of stíf markmið. Betra er að ná smám saman tökum á vandanum. Þá muntu smám saman einnig öðlast þá hugarró, sem þú þarft að hafa til að viðhalda fengnum bata. Í pistlum þessum er stefnt að varanlegum bata. Og góðir hlutir gerast hægt.

Svona grennist þú

Megrun

Fátt er vitað um hollt mataræði og þá helzt þetta: Fita í hófi er í lagi, jafnvel mettuð fita. Egg eru holl. Ávaxtasykur er hollur. Fitusýrur eru hollar, mest Omega-3 úr fiski, síður Omega-6 úr jurtaríkinu, sem notist í hófi. Kolvetni, einkum brauð, notist í meira hófi en næringarfræðin segir. Fituskert vara er óholl, enda oftast blönduð sykri eða gervisykri, sem hvor tveggja er afar óhollur. Ýktar megrunarreglur eru til ills, en rétta línan er að hverfa til kolvetnasnauðari og fituríkari fæðu og hafna viðbættum sykri. Á þessu rýrnaði ég um fjörutíu kíló á þremur árum. Nálgast kjörþyngd.

Freistandi megrun

Megrun

Þar sem ég hef létzt um 40 kíló, þori ég að leggja orð í belg umræðunnar um megrun. Fjölmiðlar fyllast af fáránlegum megrunarráðum. Núna síðast er fólk hvatt til að borða sem mest og sem feitast til að megrast. Súkkulaði, smjör og rauðvín eru sögð hollustuefni. Algengust eru ráð um, hvernig megi gabba kaloríubúskap líkamans. Sumar hitaeiningar eru sagðar brenna hraðar en aðrar og sum hegðun er sögð brenna þeim hraðar en önnur. Eins og stærðfræði, sem segði tvisvar tvo vera allt annað en fjóra. Slík megrun er sjónhverfing. Þær eiga það sameiginlegt, að segja fórnardýrum bara það, sem þau vilja heyra.

Megrun er nauðsyn

Megrun

Megrun er nauðsynleg afleiðing offitu. Þurfum að koma okkur niður úr þyngd, sem veldur sjúkdómum og ótímabærum dauða. Það gerist annars vegar með aga og skipulagi og hins vegar með breyttu hugarfari og nýjum lífsstíl. Á hnefanum annars vegar og með hugljómun hins vegar. Megrun má ekki vera of hröð, eitt kíló á mánuði í fjörutíu mánuði passaði fyrir mig. Úr 125 kílóum niður í 85 kíló á rúmlega þremur árum. Þetta var létt og ljúft. En ég var heldur ekki truflaður af góðviljuðum vitleysingum, sem vildu fegra sjálfsmynd mína. Láta mér þykja vænt um banvæna offitu mína eða halda upp á frídag megrunarleysis.

Megrunarlaus heimska

Megrun

Hin hátíðlegi megrunarlausi dagur snýst um heimsku, ekki um virðingu. Fólk, sem á í erfiðleikum með þyngdina, þarf sízt af öllu á frídegi að halda. Það vita allir, sem hafa reynt að berjast við fíkn. Eitt glas af áfengi fellir fíkilinn til langframa. Einn dagur ofáts eyðileggur langvinna yfirfærslu í réttan lífsstíl. Geir Gunnlaugsson landlæknir er á villigötum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Skilur ekki hugtakið fíkn og skilur ekki nauðsyn þess að víkja ekki frá réttu líferni. Megrunarlausi dagurinn er arfavitlaus aðferð. Gabbar fólk til að telja sér trú um, að ofát sé í lagi í einn dag.

Líkaminn verst megrun

Megrun

Vandinn við megrun og matarkúra er margvíslegur. Einn helzti gallinn er, að kúrar ráðast á afleiðingu en ekki orsök. Með því að einblína á ofþyngd og offitu eru tölur á vog gerðar að æðsta dómara. En líkaminn vill ekki megrun, hefur þróazt á öldum matarskorts. Þegar þrengir að, dregur líkaminn úr orkunotkun, notar færri kaloríur yfir daginn. Fljótlega verður því erfiðara og erfiðara að ná þeim árangri, sem virtist svo efnilegur fyrstu dagana í matarkúr og megrun. Leiðin til bata við ofáti og offitu liggur á öðrum vettvangi, sem er óháður vog og vigt. Leiðin til bata liggur í gerbreyttum lífsstíl okkar.

Þverhandarþykkt smjör

Megrun

Hinn 108 kílóa Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er kominn í megrun. Samkvæmt formúlu, sem hann lýsir í bloggi sínu, hyggst hann eingöngu borða íslenzkar vörur. Öðrum þræði nýtist því megrunin til að efla ímynd Sigmundar sem þjóðrembu. Situr nú við saltkjöt og kjötsúpu, kartöflur og harðfisk með þverhandarþykku smjöri. Mér finnst þetta mataræði henta betur útivinnandi bændum en skrifborðsfólki innandyra. En kúrinn er þekktur, heitir Dr. Atkins Diet Revolution. Margir hafa vitnað um virkni þeirrar tegundar megrunar. En holl getur hún tæpast talizt. Mæli með, að Sigmundur hafi lækni með í ráðum.