Punktar

Fram í rauðan dauðann

Punktar

Sigríður Andersen hyggst hafa það eins og Nixon. Þegar plöggin fóru að koma í ljós smám saman, hopaði hann úr ytra vígi í innra og hélt vörninni áfram. Það tók ár að losa hann úr embætti. Þá var siðleysið orðið víðtækara en í upphafi máls. Þannig fór líka fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Ætlaði að þrauka, varð að hopa úr einu vígi í annað unz hún gafst upp eftir ár. Siðleysið var þá orðið mun víðtækara og verra en í fyrstu. Sigríður er tvisvar dæmd í Hæstarétti fyrir ólöglega ráðningu flokksbræðra í Landsrétt. Plögg sýna, að allt ráðuneytið reyndi að hafa vit fyrir henni. En hún hyggst hafa það eins og Nixon, þráast við fram í rauðan dauðann.

Tvídæmd situr enn

Punktar

Tvisvar dæmd í Hæstarétti og vöruð við í ráðuneytinu heldur Sigríður Andersen áfram sem dómsmálaráðherra. Skjöl úr ráðuneytinu sýna, að henni var ráðlagt að handvelja ekki flokksmenn sína í dómaraembætti. Hún segir, að breyta þurfi lögum, en ekki ráðherrum. Enda hefur tíðkast frá fyrsta innlenda ráðherranum, Hannesi Hafstein, að ráða klíkufélaga í öll sjáanleg embætti. Katrín forsætis ver hana með óskiljanlegu masi og þrasi. Sigríður er yzt í öfgaarmi bófaflokksins. Brýnt er að leggja fram á alþingi tillögu um vantraust. Þótt atkvæðavélar stjórnarinnar allar verji hana falli, er það samt blettur á mannorði þeirra, þegar næst verður kosið.

Léttir skatta á greifum

Punktar

Mest af eignum þessara 1000 manna, 0,3% þjóðarinnar, er stolið með hækkun í hafi, með aðstöðumun í braski. Sanngjarnt, að þær verði meira skattlagðar og sektaðar. Upphæðin notuð til að auka velferð þeirra 30.000, 10% þjóðarinnar, sem hafa verið skildir eftir í fátækt vegna húsnæðisverðs, örorku, veikinda, elli. Ríkisstjórnin fer öfuga leið, léttir skatta á eignagreifum og eykur byrðar á fátæka. Undir forsæti Vinstri grænna arkar hún sömu leið misskiptingar og fyrri ríkisstjórnir. Ég held, að öllum megi vera það ljóst, að við stýrið sitja sáttir hægri greifar. Allir eru þeir bófar, hver með sínum hætti, þar á meðal ráðherrar vinstri grænna.

Skipt um þjóð

Punktar

Lágmarkslaun eru hér 214.000 krónur á mánuði. Sem enginn getur lifað af. Hver fjölskylda þarf því tvær fyrirvinnur til að bjargast. Í Evrópu dugir ein og hálf fyrirvinna. Lífsgæði eru því miklu meiri suður í Evrópu. Fólk hefur þar meiri tíma til að sinna börnum og eiga frístundir. Þess vegna er fólk að flýja Ísland, fólk úr öllum stéttum. Láglaunastörf eru betur borguð í Noregi og háskólastörf í öllum þeim löndum, þar sem fólk stundar framhaldsnám. Í staðinn fáum við Pólverja og Eystrasaltsmenn til að halda þjóðfélaginu gangandi. Auðgreifarnir 1000 eru að skipta um þjóð í landinu. Hinir innfluttu sætta sig við minna en þeir brottfluttu.

Rassskellum ferðabransann

Punktar

Nauðsynlegt er að taka ærlega til í ferðabransanum. Hindra þarf skussa í að flytja inn starfsmenn, sem sætta sig við minna en lágmarkslaun. Setja þarf stjóra Primera Air í járn og draga þá á lögskipaðan samningafund hjá sáttasemjara. Setja þarf stjóra Primera og Wow Air og draga þá á fund hjá viðeigandi stofnun til að ræða hatur þeirra á viðskiptafólki sínu. Gera þarf húsrannsókn hjá AirB&B útleigjendum og gistihúsum, sem hafa vont orð á sér fyrir okur og vont húsnæði. Tvær hægri stjórnir í röð hafa ekki opnað neitt almenningsklósett í landinu. Svo má telja áfram endalaust. Við þurfum strangari reglur og harðskeytt eftirlit hins opinbera.

Dagleg framlenging okkar

Punktar

Tölvur og símar eru mikilvæg framlenging okkar. Heimurinn ferst ekki, þótt margir drepi tímann við leiki og annað skemmtiframboð. Þarna gleymist ekki dagbókin. Í Google flettir þú upp rétt skrifuðum tilvitnunum, föðurnöfnum fólks og rithætti á ótal tungumálum. Þú notar gagnagrunna umfram flata töflureikna til að finna samhengi upplýsinga í fleiri víddum. Bankaviðskipti eru orðinn leikur einn og taka engan tíma. Öpp halda utan um viðskipti við Strætó. Þetta eru okkar hversdagsnot. Sérfræðingar fara dýpra í mál með því að tengja kynslóðir fyrir þúsundum ára við nútímafólk. Og nú tefla tölvur margfalt flóknari skákir en snillingar gátu áður.

Ráðherra fyrir einmana

Punktar

Bretland er fyrsta ríkið til að fá sérstakan ráðherra um vanda, sem ekki þekktist fyrir einni öld. Tracey Crouch er nýr „minister for loneliness“ í ríkisstjórn Theresu May. Staðan í landinu er sú, að hálf milljón manns talar einu sinni í viku eða sjaldnar við annan mann. Slík einvera er talin vera jafn heilsuspillandi og 15 sígarettur á dag. Hluti vandans er, að margir vilja ekki viðurkenna einmannaleika sinn. Draga þarf þetta fólk úr skelinni. Þetta er dæmi um, að alls konar atferli, sem lítið þekktist áður fyrr, er orðið að stórfelldum heilsuvanda. Nútíminn er erfiður, veldur streitu, kvíða, þunglyndi, drykkjusýki og ótal öðrum sjúkdómum.

Stefna er einskis virði

Punktar

Fjölmiðlarnir eiga nokkra sök á, hversu illa er komið fyrir þjóðinni í pólitík. Helzta efni þeirra í tvær vikur fyrir kosningar er að leggja fram vefspurningar, þar sem kjósendur geta borið sig saman við stefnu stjórnmálaflokkanna. Svo veltir fólk fyrir sér niðurstöðunni og ber afstöðu sína síðan saman við annarra. Engin virðist gera fyrirvara um tilgangsleysi þessa. Algengt er að flokkar hafi allt aðra kosningastefnu en ríkisstjórnarverk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi hafa sósíaldemókratíska kosningastefnu en dólgafrjálshyggju í stjórnarverkum. Í vetur höfðu Vinstri græn þveröfuga stefnu við þá, sem síðan kom í ljós í ríkisstjórn.

Íslenzka er víkjandi

Punktar

Í háskólum okkar er ensk tunga 90% námsefnisins. Enska hefur tekið við sem tunga sérfræðinga. Nánast allar skýrslur eru hér á ensku. Raunar er það nauðsynlegt, því að annars eru þær ekki teknar gildar. Ég hef tekið eftir, að á barnaskólaaldri tala mörg börn ensku sín í milli með réttu hljómfalli. Ólíkt þeirri skriflegu ensku, sem við lærðum fyrir hálfri öld. Þessa ensku fá þau úr tónlistinni, sem flæðir um heiminn. Ferðamenn undrast, að „allir“ skuli tala ensku hér og finnst það auðvitað hentugt. Við þurfum að margfalda áherzlu á íslenzku sem talmál í tölvum, svo að umheimurinn valti ekki yfir hana eins og hvern annan óþarfa.

Staurar Landsnets brotna

Punktar

Landsnet er eitt af fyrirbærum einkavæðingar á ríkisstofnun. Hefur umturnast úr verkfræðistofnun í eins konar stjórnmálaflokk. Vill áfram reisa staura og möstur um allt land. Hatar jarðlínur eins og pestina. Prófar ýmis brögð til að láta þær líta verr úr í kostnaði. Fræg dæmi um það eru á Reykjanesskaga. Nú berst Landsnet fyrir Hvalárvirkjun og segir hana auka orkuöryggi á Vestfjörðum. Það er rangt. Staurar brotna í hvassviðri. Jarðlínur auka öryggið, ekki staurar. Hvalárlína mun koma á Vestfjarðalínu í Bitrufirði. Liggur svo yfir stormbeljandi heiðar Vestfjarða. Nauðsynlegt er að ríkisvæða Landsnet að nýju sem þjónustu.

Einkavæðing er dýrari

Punktar

GUARDIAN skoðar útkomu einkavæðingar í heilbrigðisgeiranum, járnbrautarlestum og skólum Breta. Alls staðar er sama sagan. Kostnaður verður meiri í einkavæðingu ríkiseinokunar. Hleypur upp úr öllu valdi vegna viðgerða á lélegu húsnæði, sem bætt er á húsaleiguna. Á heilsugæzlustöðvum hækkar kostnaður, einkum vegna óþarfra aðgerða. Lestakerfið í Bretlandi hefur nánast hrunið vegna einkavæðingar. Komið er í ljós þar í landi og á Norðurlöndum, að grunnþjónustan á ekki bara að vera kostuð af ríkinu, heldur einnig rekin af ríkinu. Nýfrjálshyggja Vinstri grænna og annarra stjórnarflokka hér á landi er einnig orðin að úreltum trúarbrögðum sérvitringa.

Isavia slefar af græðgi

Punktar

Isavia er dæmi um einkavædda ríkiseinokun. Hefur breytt Leifsstöð úr landkynningu í alþjóðlegt skrímsli. Þú veizt ekki, hvar þú ert í heiminum, þegar þú lendir þar. Jafnvel kaffið er alþjóðleg gervivara. Einkaeinokunin skattar viðkomur rútubíla við stöðina. Það er fimmfalt dýrara að stanza þar heldur en við Heathrow í London. Stanzið er raunar ókeypis víðast á Norðurlöndum, þar sem flugstöðvum hefur ekki verið breytt í einkaskrímsli. Gray Line kærði Isavia til Samkeppniseftirlitsins fyrir græðgina, en eftirlitið þar er, eins og annað eftirlit með einkavinavæðingu, í skötulíki. Ríkisvæða þarf Isavia, svo að þjónusta verði græðginni yfirsterkari.

Tvær fyrirvinnur

Punktar

Hér þurfa fjölskyldur tvær fyrirvinnur til að koma sér fyrir í lífinu, til að koma upp húsnæði og börnum. Í Evrópu dugar ein og hálf fyrirvinna víðast hvar. Það þýðir, að hér komast öryrki og gamlingi, einstætt foreldri með barn ekki af. Mikill minnihluti að vísu, en samt fáránlegur. Þjóðarauður okkar er einn hinn mesti í Evrópu, en samt er þetta svona. Stafar af, að allt of miklum auði er stolið undan skatti og stungið undan skiptum. Ránið hefur staðið áratugum saman að frumkvæði bófaflokksins, Sjálfstæðisflokksins. Með traustum stuðningi Framsóknar og síðast en ekki sízt með þögn Samfylkingar og Vinstri grænna, nú undir forsæti Katrínar.

Þjóðin er sífellt rænd

Punktar

Birtar hafa verið tölur, er sanna margt af því, sem ég hef haldið fram undanfarið. Við erum á hraðferð til auðvalds, þar sem 1000 manns eða 0,3% eiga nú nánast allt, viðskiptalíf, pólitík og fjölmiðlun. Vinstri grænum var kippt upp í stjórnarsæng, þar sem þau samþykkja allt. Auknir eru afslættir af auðlindarentu kvótagreifa. Velferð er skorin niður með verðbólgu. Peningastefnan öll er í eigu allra þrengstu hagsmuna. Kvótagreifar eiga tvo ráðherra með húð og hári. Tilfærsla peninga og eigna hindrar, að við getum haldið jöfnu við Norðurlönd og Þýzkaland í velferð.

Flekahlaup Vinstri grænna

Punktar

Katrín Jakobsdóttir segir „að það geti komið undantekningartilvik þar sem eðlilegt er að fara í samstarf með einkaaðilum“. Hún hefur rétt svartasta hægrinu meira en litla fingurinn. Við stefnum því að algeru rofi milli hópa, þeirra 0,3%, sem eiga nánast allt viðskiptalífið, og svo hinna 99,7%, sem eiga nánast ekkert eða eru í mínus. Vinstri græn eru ekki bara íhaldsflokkur, heldur hægri íhaldsflokkur, sem á sínum fyrstu stjórnarvikum hefur stutt lægri skatta ríkra og hærri skatta fátækra og ýmis sérfríðindi fyrir þá ríkustu. Þetta eru flekahlaup í pólitíkinni, þegar Vinstri græn sýna sína réttu hlið misskiptingar í þjónustu við 1000 ofsaríka.